Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

47/2002 Geldingsá

Ár 2003, fimmtudaginn 9. október, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 47/2002, kæra eiganda húseignarinnar að Hjalteyrargötu 1, Akureyri á synjun byggingarnefndar Eyjafjarðarsvæðis frá 20. ágúst 2002 um leyfi fyrir frístundahúsi að Geldingsá í Svalbarðsstrandarhreppi, sem flutt yrði frá Hjalteyrargötu 1.
 
Í málinu er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 24. ágúst 2002, er barst nefndinni hinn 28. sama mánaðar, kærir L, eigandi húseignarinnar að Hjalteyrargötu 1, Akureyri, þá ákvörðun byggingarnefndar Eyjafjarðarsvæðis frá 20. ágúst 2002 að synja honum um leyfi til niðursetningar frístundahúss að Geldingsá, Svalbarðsstrandarhreppi, sem flutt yrði frá Hjalteyrargötu 1.

 Kærandi krefst þess að ákvörðun byggingarnefndar verði felld úr gildi. 

Samþykkt byggingarnefndar var staðfest í hreppsnefnd Svalbarðsstrandarhrepps hinn 3. september 2002. 

Málavextir:  Á fundi byggingarnefndar Eyjafjarðarsvæðis hinn 6. júní 2002 var tekin fyrir beiðni kæranda þess efnis að fá að flytja gamalt timburhús sem stóð á lóðinni nr. 1 við Hjalteyrargötu, Akureyri á sumarhúsalóð nr. 14 að Geldingsá í Svalbarðsstrandarhreppi.  Byggingarnefnd hafnaði beiðninni með vísan til þess annars vegar að húsið væri ekki hæft til endurbyggingar sem frístundahús og hins vegar að það væri yfir stærðarmörkum samkvæmt byggingarskilmálum svæðisins.

Kærandi óskaði eftir því að byggingarnefndin tæki málið fyrir að nýju og óskaði svara við því hvað gera þyrfti til að beiðni hans yrði samþykkt ásamt því hversu mikið af efni hússins mætti nýta. 

Erindi kæranda var tekið fyrir að nýju á fundi byggingarnefndar hinn 16. júlí 2002 og var þá eftirfarandi bókað:  „Í fyrsta lagi að húsin á svæðinu fari ekki yfir 80 fermetra, nema sérstök rök liggi þar að baki.  Í öðru lagi að húsin fari vel í landinu eins og gert er ráð fyrir í deiliskipulagsskilmálum svæðisins.  Það gefur auga leið að hús sem eru byggð til allt annarra nota en frístundahúsa henta í mörgum tilfellum alls ekki til slíkra nota og telur byggingarnefnd að svo sé í þessu tilfelli.  Ber þar aðallega að nefna breidd hússins sem er mun meiri en tíðkast yfirleitt um frístundahús.  Húsið yrði ekki í neinu samræmi við þau nýju hús sem þegar er búið að byggja á skipulagssvæðinu.  Hluti byggingarnefndar og byggingarfulltrúi hafa skoðað húsið og telja eðlilegast að það verði rifið og sé möguleiki á að nýta eitthvað af efni úr húsinu, verði það burðarþolshönnuður og byggingarstjóri sem meti hvað sé nýtanlegt í nýtt frístundahús, sem yrði þó háð samþykki byggingarfulltrúa sem eftirlitsaðila.“

Í bréfi, dags. 30. júlí 2002, ritaði kærandi enn bréf til byggingarnefndarinnar þar sem hann óskaði eftir samþykki nefndarinnar á frístundahúsi, sem staðsetja átti á lóð nr. 14 að Geldingsá og lýsti endurbyggingu þess. 

Á fundi byggingarnefndar hinn 20. ágúst 2002 var erindi kæranda tekið til afgreiðslu og hafnað með vísan til fyrri bókana varðandi efnið.

Þessari ákvörðun byggingarnefndar skaut kærandi til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir.

Málsrök kæranda:  Kærandi krefst þess að ákvörðun byggingarnefndar verði felld úr gildi.  Hann hafi óskað eftir leiðbeiningum nefndarinnar um það hvernig koma mætti húsinu fyrir á lóðinni svo uppfyllt yrðu skipulagsskilyrði, en ekki fengið.

Þá sé það ekki á færi byggingarnefndar Eyjafjarðarsvæðis að segja til um niðurrif húsa í öðru sveitarfélagi.  Kærandi hafi ekki ætlað sér annað en að fylgja eftir ákvæðum skipulags- og byggingarlaga varðandi burðarþol og eftirlit en hann hafi óskað eftir leiðbeiningum nefndarinnar til þess að málið næði fram að ganga, en ekki fengið. 

Kærandi heldur því fram að hann hafi ekki fengið leiðbeiningar um kæruheimild hjá byggingarfulltrúa Eyjafjarðarsvæðis heldur hafi byggingarfulltrúinn á Akureyri tjáð honum þann möguleika. 

Málsrök byggingarnefndar Eyjafjarðasvæðis:  Byggingarnefndin heldur því fram að þó svo að teikning sem fylgdi erindi kæranda brjóti ekki gegn byggingarskilmálum sem gildi fyrir svæðið sé það mat nefndarinnar að viðkomandi hús sé ekki hæft til endurbyggingar sem frístundahús.  Í greinargerð með deiliskipulagi fyrir frístundabyggð að Geldingsá segi að húsgerð og lega skuli háð samþykki byggingarnefndar og að stærð þeirra skuli að jafnaði ekki vera meiri en 80 m².  Þá segi ennfremur í skilmálunum að haga skuli gerð húsa og litavali þannig að það falli sem best að umhverfi svæðisins.  Með vísan til þessa beri byggingarnefnd að leggja faglegt mat á þau mannvirki sem fyrirhugað sé að reisa á svæðinu. 

Niðurstaða:  Við rannsókn úrskurðarnefndarinnar á málinu kom í ljós að húseign sú sem um ræðir, Hjalteyrargata 1, hefur verið flutt af grunni og sett niður á Árskógssandi.  Þá hefur kæranda verið veitt byggingarleyfi vegna nýs frístundahúss á sumarhúsalóðinni nr. 14 að Geldingsá í Svalbarðsstrandarhreppi. 

Með vísan til þessa á kærandi ekki lögvarða hagmuni af því að fá úrskurð kveðinn upp í málinu og verður af þeim sökum ekki frekar fjallað um fram komnar kröfur. 

Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að vísa beri kærunni frá nefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna anna hjá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

_____________________
Ásgeir Magnússon

_______________________        _____________________
Þorsteinn Þorsteinsson                   Ingibjörg Ingvadóttir