Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

69/2004 Kirkjubraut

Með

Ár 2005, föstudaginn 18. febrúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon héraðsdómari, formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir hdl.

Fyrir var tekið mál nr. 69/2004, kæra eigenda fasteignanna að Kirkjubraut 22 og Sunnubraut 7, Akranesi vegna jarðvegsframkvæmda á lóðinni nr. 12-18 við Kirkjubraut á Akranesi. 

Í málinu er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 13. desember 2004, er barst nefndinni sama dag, kæra H og V, Lyngheiði 18, Kópavogi, eigendur fasteignanna að Kirkjubraut 22 og Sunnubraut 7, Akranesi  leyfi fyrir jarðvegsframkvæmdum á lóðinni nr. 12-18 við Kirkjubraut á Akranesi. 

Kærendur krefjast þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi ásamt því að úrskurðarnefndin kveði upp úrskurð til bráðabirgða um stöðvun framkvæmda.

Málsatvik:  Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 20. október 2004, er barst nefndinni hinn 22. sama mánaðar, kærðu sömu aðilar deiliskipulagsbreytingu er tók til svonefnds Akratorgsreits, þar sem m.a. var gert ráð fyrir sameiningu lóðanna nr. 12 til 18 (sléttar tölur) við Kirkjubraut og lóðarinnar nr. 3 við Sunnubraut og heimiluð bygging fjöleignarhúss á hinni sameinuðu lóð.

Kveða kærendur að hafnar séu framkvæmdir við grunn væntanlegs húss að Kirkjubraut 12 til 18 undir yfirskini jarðvegsrannsókna með vitund skipulags- og umhverfisnefndar bæjarins svo sem ráða megi af bókun nefndarinnar á fundi hinn 6. desember 2004.  Þar komi fram að nefndin geri ekki athugasemd við að Kirkjubraut sé gerð að einstefnugötu á meðan á uppgreftri og fyllingu í grunn að Kirkjubraut 12 til 18 standi, en krafa sé gerð um að verktakinn hreinsi götuna reglulega og takmarki áhrif framkvæmdanna sem mest með  tilliti til jólaverslunar sem standi yfir á svæðinu.

Með bréfi, dags. 20. janúar 2005, skutu kærendur til úrskurðarnefndarinnar ákvörðun byggingarfulltrúans á Akranesi frá 13. desember 2004 um að veita leyfi til byggingar fjöleignarhúss með 20 íbúðum og 7 verslunarrýmum ásamt niðurgrafinni bílageymslu á lóðinni nr. 12 við Kirkjubraut, Akranesi.

Hafa greindar kærur vegna breytingar á deiliskipulagi svæðisins og vegna fyrrgreinds byggingarleyfis verið teknar til úrskurðar á fundi úrskurðarnefndarinnar í dag.

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um lögmæti uppgraftrar vegna jarðvegsrannsókna á lóðinni nr. 12-18 við Kirkjubraut á Akranesi. 

Til þess að deiluefni af umræddum toga verði borið undir úrskurðarnefndina verður að liggja fyrir stjórnvaldsákvörðun er heimili umþrættar framkvæmdir, svo sem veiting byggingar- eða framkvæmdaleyfis, sbr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Í máli þessu verður ekki séð að framkvæmd sú sem kærð er í málinu hafi verið heimiluð með lögformlegri ákvörðun af hálfu skipulags- eða byggingaryfirvalda Akranesbæjar.  Af þeim sökum liggur ekki fyrir kæranleg ákvörðun á stjórnsýslustigi og ber því að vísa máli þessu frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

__________________________________
Ásgeir Magnússon

______________________________             _______________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                       Ingibjörg Ingvadóttir

57/2003 Eiríksgata

Með

Ár 2005, fimmtudaginn 10. febrúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir hdl.

Fyrir var tekið mál nr. 57/2003, kæra eiganda fasteignarinnar nr. 15 við Eiríksgötu í Reykjavík á ákvörðun byggingarfulltrúa Reykjavíkur frá 19. ágúst 2003 um að synja umsókn um leyfi til að útbúa þrjú bílastæði við bakhlið hússins á lóðinni nr. 15 við Eiríksgötu.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 18. september 2003, er barst nefndinni hinn 19. sama mánaðar, kærir Jón Ólafsson hrl., fyrir hönd E, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 19. ágúst 2003 að synja beiðni um að útbúa þrjú bílastæði við bakhlið hússins á lóðinni nr. 15 við Eiríksgötu.  Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkti ákvörðunina á fundi hinn 4. september 2003. 

Kærandi gerir þá kröfu að umrædd ákvörðun verði felld úr gildi.

Málavextir:  Hinn 15. nóvember árið 1933 gaf borgarstjórinn í Reykjavík út lóðarleigusamning vegna lóðarinnar nr. 15 við Eiríksgötu í Reykjavík.  Samkvæmt samningnum er lóðin 300 m² að stærð og um lögun hennar er vísað til meðfylgjandi uppdráttar.  Þá segir ennfremur:  „Umferðarréttur að baklóðinni er um lóðina nr. 13 við Eiríksgötu, eftir 3 metra breiðri ræmu yfir vestur- og norðurhorn þeirrar lóðar, frá Eiríksgötu“. 

Kærandi máls þessa sótti hinn 8. júlí 2003 um leyfi til byggingarfulltrúans í Reykjavík að útbúa þrjú bílastæði á baklóð hússins nr. 15 við Eiríksgötu.  Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 15. júlí 2003 var eftirfarandi fært til bókar:  „Niðurstaða byggingarfulltrúa:  Frestað.  Bókun byggingarfulltrúa:  „Vísað til athugasemda á umsóknarblaði.  Málinu vísað til umsagnar skipulagsfulltrúa.““  Á afgreiðslufundi skipulagsfulltrúa hinn 1. ágúst 2003 var erindi kæranda tekið fyrir og því vísað til umsagnar lögfræði- og stjórnsýslu.  Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 19. ágúst 2003 var erindi kæranda tekið fyrir á ný og var eftirfarandi bókað:  „Niðurstaða byggingarfulltrúa:  Synjað.  Bókun byggingarfulltrúa:  Með vísan til umsagnar lögfræði- og stjórnsýslu.“ 

Þessari niðurstöðu vildi kærandi ekki una og skaut málinu til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir. 

Málsrök kæranda:  Kærandi vísar til þess að í lóðarleigusamningi vegna lóðarinnar nr. 15 við Eiríksgötu sé kveðið á um að umferðarréttur að baklóð hússins sé um lóð Eiríksgötu nr. 13 eftir þriggja metra breiðri ræmu yfir vestur- og norðurhluta þeirrar lóðar frá Eiríksgötu.  Umferðarréttur þessi sé án nokkurra skilyrða og því telji kærandi sér heimilt að nýta hann á hvern þann hátt sem hún vilji. 

Kærandi mótmælir umsögn lögfræði- og stjórnsýslu þar sem því sé haldið fram að inntak umferðarréttarins sé svonefndur „öskustígur“.  Enginn rök séu fyrir þessari nafngift því sorptunnum hefði verið unnt að koma fyrir framan við húsið en umferðarrétturinn hafi verið veittur svo unnt væri að komast að baklóðinni.  Þótt ekki hafi verið mikið um bifreiðar á þeim tíma er lóðarleigusamningurinn hafi verið gerður þá hafi þær þó verið til og eins hafi eitthvað verið um hestvagna enda hafi þessi umferðarréttur eitthvað verið nýttur og hafi staðið í 70 ár.  Engin gögn sýni að umferðarrétturinn veiti ekki heimild til þess að hann sé nýttur til þess að aka bifreiðum yfir lóðina nr. 13 við Eiríksgötu.  Ekkert sé óeðlilegt við það á þeim tíma er lóðarleigusamningurinn hafi verið gerður að ekki hafi verið gert ráð fyrir bílastæðum á lóðinni og ekkert segi til um að umferðarrétturinn nái aðeins til flutninga og viðhalds. 

Kærandi bendir á að einhverntíma á þeim tíma sem liðinn sé frá því að lóðarleigusamningur vegna lóðarinnar nr. 15 við Eiríksgötu hafi verið gerður hafi byggingaryfirvöld borgarinnar heimilað eiganda fasteignarinnar að Eiríksgötu 13 að byggja tvo bílskúra á lóð sinni.  Þetta hafi gert það að verkum að umferðarréttur kæranda hafi færst frá því að vera á lóðarmörkum lóðanna nr. 11 og 13 við Eiríksgötu og lóðarinnar nr. 13 við Leifsgötu, þannig að umferðarrétturinn sé nú fyrir framan bílskúrana.  Það að leyft hafi verið að byggja bílskúra á lóðinni nr. 13 við Eiríksgötu eigi ekki að skerða rétt kæranda til að nýta sér baklóð hans og bygging þeirra sýni að byggingaryfirvöld hafi talið lóðirnar hæfar undir bílgeymslur.  Kærandi telur að verði honum synjað um gerð bílastæðanna sé það brot á jafnræðisreglu. 

Sjónarmið Reykjavíkurborgar:  Úrskurðarnefndin óskaði með bréfi, dags. 20. október 2003, eftir því við byggingarfulltrúann í Reykjavík að hann lýsti viðhorfum sínum til kærunnar og léti úrskurðarnefndinni í té gögn er verið gætu til upplýsingar við úrlausn málsins.  Gögn hafa borist úrskurðarnefndinni og telur nefndin málið tækt til úrskurðar. 

Af hálfu Reykjavíkurborgar er vísað til þess að umferðarréttur um lóðina nr. 13 við Eiríksgötu sé kvöð sem algengt hafi verið að setja, m.a. vegna sorphirðu, aðfanga og flutninga, og stígar af þeirri gerð sem hér um ræði gjarnan verið nefndir öskustígar. 

Samkvæmt athugasemdum byggingarfulltrúa þurfi að leiðrétta mæliblað vegna kvaðarinnar en svo virðist sem hún hafi verið færð þegar bílgeymsla hafi verið samþykkt á lóð hússins nr. 13 við Eiríksgötu. 

Ekki verði talið með vísan til fyrirliggjandi gagna að í umferðarrétti kæranda um lóðina nr. 13 við Eiríksgötu sé heimild til að aka bifreiðum um lóðina nr. 13 til að koma bifreiðum í bílastæði á baklóð hússins nr. 15 við Eiríksgötu.  Þá hafi ekki heldur verið gert ráð fyrir bílastæðum á lóðinni.  Því sé ekki hægt að álykta að kvöðinni hafi verið ætlað að taka til slíkrar umferðar þrátt fyrir að telja megi að gert hafi verið ráð fyrir því á sínum tíma að hægt væri að koma bifreið inn á baklóðina ef þurfa þætti við flutning eða vegna viðhalds, enda sé þetta eina aðkoman að lóðinni.  Með vísan til þessa sé það niðurstaðan að samþykki lóðarhafa að Eiríksgötu 13 þurfi að liggja fyrir áður en unnt sé að samþykkja fyrrnefnd bílastæði. 

Í umsókninni sé gert ráð fyrir þremur bílastæðum á baklóðinni.  Tvö þeirra séu teiknuð 2,90 m á breidd og eitt einungis 2,50 m. Samkvæmt reglum um stærð bílastæða, sem samþykktar hafi verið í borgarráði hinn 7. ágúst 1987, og hinn 13. sama mánaðar í byggingarnefnd, sé bílastæðum skipt í A- og B- stæði.  Með vísan til þeirra reglna skuli bílastæðin á baklóð Eiríksgötu nr. 15 vera a.m.k. 3,0 m á breidd vegna þrengsla í aðkomu og í ljósi þess að bílastæðin liggi að hluta til að lóðréttri hindrun. 

Niðurstaða:  Hin kærða ákvörðun borgaryfirvalda fól í sér að synjað var beiðni um leyfi til að útbúa þrjú bílastæði á baklóð hússins nr. 15 við Eiríksgötu m.a. með þeim rökum að umferðarréttur um lóðinna nr. 13 við Eiríksgötu samkvæmt lóðarleigusamningi fæli ekki í sér heimild til aksturs bifreiða. 

Umferðarréttur sá sem hér um ræðir stofnaðist með samningi borgaryfirvalda og lóðareiganda á árinu 1933 og var honum þinglýst.  Á umræddu svæði er ekki í gildi deiliskipulag og ekki er að umferðarrétti þessum vikið í greinargerð gildandi aðalskipulags Reykjavíkur.  Verður umferðarrétturinn því ekki talin skipulagskvöð í skilningi 10. mgr. 2. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, þar sem slíkar kvaðir verða einungis lagðar á með skipulagsákvörðun.

Í 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 kemur fram að hlutverk úrskurðarnefndarinnar sé að úrskurða í ágreiningsmálum um skipulags- og byggingarmál samkvæmt lögunum.  Hefur ákvæði þetta verið skilið svo að skotið yrði til nefndarinnar ágreiningi um ákvarðanir sveitarstjórna um skipulags- og byggingarmál og öðrum ágreiningsefnum sem tilgreind eru í lögunum eða reglugerðum settum samkvæmt þeim.

Álitaefni það sem hér er til meðferðar felur hins vegar í sér úrlausn ágreinings um réttindi sem leidd eru af samningi einkaréttarlegs eðlis.  Er það ekki á færi úrskurðarnefndarinnar að skera úr slíkum ágreiningi og verður kærumáli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Uppkvaðning úrskurðar í málinu hefur dregist.  Valda því miklar annir og málafjöldi hjá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

________________________________
Ásgeir Magnússon

___________________________              _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                  Ingibjörg Ingvadóttir

71/2003 Karfavogur

Með

Ár 2005, fimmtudaginn 13. janúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon héraðsdómari, formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir hdl.

Fyrir var tekið mál nr. 71/2003, kæra eiganda helmingshlutar fasteignarinnar að Karfavogi 24, Reykjavík á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 27. október 2003 um að hafna kröfu um að sólskálum að Karfavogi 16 og 18 verði breytt til samræmis við samþykkta aðaluppdrætti. 

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 27. október 2003, sem barst nefndinni hinn 28. s.m., kærir Þ, Rekagranda 8, Reykjavík, eigandi helmingshlutar fasteignarinnar að Karfavogi 24, Reykjavík, ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 27. september 2004 um að hafna kröfu hans um að sólskálum að Karfavogi 16 og 18 verði breytt til samræmis við samþykktan aðaluppdrátt. 

Kærandi krefst ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar. 

Málavextir:  Á fundi sínum hinn 12. apríl 1984 samþykkti byggingarnefnd Reykjavíkur að heimila byggingu sólskála við húsin nr. 14, 16, 18, og 20 í raðhúsalengjunni nr. 14-24 við Karfavog eftir uppdrætti Magnúsar Skúlasonar.  Ekki var sótt um byggingu sólskála við húsin nr. 22 og 24.  Í dagbók byggingarfulltrúa kemur fram að skálarnir við húsin nr. 14 og 20 hafi verið skráðir byggðir þegar það ár en skálarnir við húsin nr. 16 og 18 ekki fyrr en árið 1986.

Kærandi máls þessa er eigandi 50% hlutar í fasteigninni að Karfavogi 24.  Með bréfi hans til byggingarfulltrúa, dags. 24. janúar 2003, gerði hann grein fyrir þeim fyrirætlunum sínum að byggja sólskála við eignina.  Benti kærandi á að sólskálar hafi verið byggðir við fjögur húsanna nr. 14-24 við Karfavog, þar af tveir sem væru í ósamræmi við aðaluppdrátt húsanna.  Fór kærandi þess á leit við byggingarfulltrúa að hann léti eigendur húsanna nr. 16 og 18 við Karfavog breyta sólskálunum til samræmis við samþykktar teikningar. 

Með bréfi byggingarfulltrúa, dags. 27. október 2003, hafnaði byggingarfulltrúi kröfu kæranda.

Málsrök kæranda:  Kærandi styður kröfu sína þeim rökum að ósamræmis gæti í útliti húsanna sem rýri útlit þeirra og virði. 

Málsrök byggingarfulltrúa:  Af hálfu byggingarfulltrúa er bent á að samkvæmt skoðun á vettvangi liggi fyrir að sólskálarnir við húsin nr. 16 og 18 séu ekki í samræmi við samþykkta aðaluppdrætti.  Í gögnum embættisins komi fram að þeir hafi verið fullbyggðir árið 1986 og þegar það ár hafi embættinu og eigendum raðhúsanna verið, eða mátt vera, kunnugt um að skálarnir væru ekki í samræmi við samþykkta aðaluppdrætti.  Þrátt fyrir það hafi ekkert verið aðhafst í málinu af hálfu embættisins. Engin gögn liggi fyrir um að aðrir eigendur raðhússins hafi gert athugasemdir við skálana fyrr en nú, a.m.k. 18 árum eftir byggingu þeirra.  Kærandi hafi eignast 50% eignarhluta í húsinu nr. 24 hinn 26. ágúst 2002.  Gera verði ráð fyrir að honum hafi verið misræmið ljóst við kaupin eða a.m.k. mátt vera kunnugt um að skálarnir væru ekki eins.  Hafa verði í huga að foreldrar hans hafi byggt umrætt hús og búi móðir hans þar enn en hún sé eigandi 50% eignarhluta hússins til móts við kæranda.

Ljóst sé að breytingar á skálunum nú hefðu í för með sér umtalsverðan kostnað fyrir eigendur þeirra.  Engin gögn liggi fyrir í málinu um að ósamræmi milli sólskálanna geti haft áhrif á söluverðmæti húsanna.  Útlit skálanna sé ekki svo frábrugðið þeim skálum sem byggðir hafi verið í samræmi við samþykkta aðaluppdrætti og því ólíklegt að ósamræmið geti haft í för með sér tjón fyrir aðra eigendur. 

Sjónarmið eigenda hússins nr. 16 við Karfavog:  Byggingarfulltrúi gaf eigendum húsanna nr. 16 og 18 við Karfavog færi á að tjá sig um kröfu kæranda og barst honum svar frá eigendum hússins nr. 16.  Hafna þeir kröfu kæranda og vísa m.a. til þess að skálinn sé byggður milli húsanna og samanstandi eingöngu af þaki og framhlið.  Af þessum sökum sé ekki útlitslýti af skálunum og merkjanlegt ósamræmi sé vart fyrir hendi.  Kærandi sjái lítið í skálann frá sinni lóð.  Í ljósi þessa sé ályktað að ósamræmið skipti hvorki skipulagsyfirvöld, arkitekt hússins eða nágranna nokkru máli. 

Niðurstaða:  Eins og að framan greinir er í máli þessu deilt um lögmæti ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 27. október 2003 um að hafna kröfu kæranda um að sólskálum að Karfavogi 16 og 18 verði breytt til samræmis við samþykktan aðaluppdrátt. 

Í 4. mgr. 39. gr. skipulags- og byggingarlaga 73/1997 segir að telji einhver rétti sínum hallað með samþykkt byggingarnefndar eða sveitarstjórnar sé honum heimilt að skjóta málinu til úrskurðarnefndarinnar.  Ákvörðun sú sem kærð er í máli þessu er tekin af byggingarfulltrúa.  Rannsókn úrskurðarnefndarinnar hefur leitt í ljós að ákvörðunin hefur hvorki verið lögð fram á fundi skipulags- og byggingarnefndar né hlotið staðfestingu borgarstjórnar svo sem áskilið er í tilvitnaðri lagagrein.

Samkvæmt 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ákvörðun stjórnvalds ekki kærð nema hún feli í sér efnislegar lyktir máls.  Ákvörðun byggingarfulltrúa verður ekki túlkuð sem slík ákvörðun, þar sem hún hefur ekki hlotið staðfestingu svo sem lögskylt er. 

Af framangreindu er ljóst að ekki liggur fyrir á sveitarstjórnarstigi lokaákvörðun er sæti kæru til æðra stjórnvalds.  Að þessu virtu verður hin kærða ákvörðun byggingarfulltrúa ekki tekin til efnismeðferðar og er kærumáli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

_______________________________
Ásgeir Magnússon

___________________________           _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                              Ingibjörg Ingvadóttir

68/2003 Hverfisgata

Með

Ár 2004, þriðjudaginn 14. desember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon héraðsdómari, formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir hdl.

Fyrir var tekið mál nr. 68/2003, kæra eiganda húseignarinnar að Sunnuvegi 1, Hafnarfirði á ákvörðun byggingarfulltrúans í Hafnarfirði frá 28. mars 2003 um að veita leyfi til að byggja við húsið að Hverfisgötu 57, Hafnarfirði.

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 17. nóvember 2003, er barst nefndinni hinn 18. sama mánaðar, kærir Ó, Sunnuvegi 1, Hafnarfirði þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Hafnarfirði frá 28. mars 2003 að veita leyfi til að byggja við húsið nr. 57 við Hverfisgötu í Hafnarfirði. 

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Úrskurðarnefndin stöðvaði framkvæmdir við gerð svala og frágang utanhúss sem þeim tengjast með úrskurði kveðnum upp hinn 22. desember 2003 og er málið nú tekið til endanlegrar úrlausnar. 

Málavextir:  Í húsinu nr. 57 við Hverfisgötu í Hafnarfirði eru tvær íbúðir, lítil íbúð í kjallara og önnur stærri á aðalhæð hússins og í risi.  Bílskúr er áfastur húsinu og stendur hann í sömu hæð og kjallarinn.  Umrædd  fasteign liggur að lóð kæranda og er svæðið ekki deiliskipulagt.

Í maí árið 2001 fóru eigendur stærri íbúðarinnar að Hverfisgötu 57 fram á heimild byggingarnefndar Hafnarfjarðar til að byggja við húsið.  Beiðni þeirra laut að stækkun hússins á þann veg, að ofan á bílskúrinn yrði byggð 18,4 m² stofa og í henni miðri yrði lokað eldstæði.  Beiðninni var vísað til skipulags- og umferðarnefndar sem grenndarkynnti hana frá 10. september 2002 til 9. október sama ár.  Engar athugasemdir bárust og með vísan til þess gaf byggingarfulltrúi út byggingarleyfi hinn 23. október 2002. 

Hinn 28. mars 2003 veitti byggingarfulltrúi heimild til þess að þak viðbyggingarinnar yrði nýtt sem svalir samkvæmt ósk byggingarleyfishafans og var af því tilefni gefið út nýtt byggingarleyfi.  Við staðfestingu byggingarnefndar á embættisafgreiðslu byggingarfulltrúa hinn 8. apríl 2003 sagði að lagt hafi verið fram bréf nágranna, dags. 23. október 2002, vegna málsins. 

Eigendaskipti urðu á fasteigninni að Sunnuvegi 1 í september 2003, en þá eignaðist kærandi máls þessa fasteignina.

Með bréfi, dags. 17. nóvember 2003, kærði kærandi samþykkt byggingarfulltrúans í Hafnarfirði frá 28. mars 2003 til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, eins og að framan greinir.

Málsrök kæranda:  Kærandi heldur því fram að staðsetning viðbyggingar þeirrar sem hér um ræði sé í andstöðu við IV. kafla byggingarreglugerðar nr. 441/1998, nánar tiltekið 1.– 6. tl. 75. gr., þar sem kveðið sé á um fjarlægð húsa frá lóðarmörkum, bil milli húsa o.fl.  Staðsetning viðbyggingarinnar brjóti gegn kvöð lóðarleigusamnings, sem þinglýst sé á fasteignina nr. 57 við Hverfisgötu, þess efnis að ekki verði byggð viðbygging eða sambærileg mannvirki nær Sunnuvegi 1 en nemi 6,30 metrum.  Kvöð þessari hafi ekki verið þinglýst á Sunnuveg 1.

Kvörtun kæranda beinist einnig að svölum sem ætlunin sé að byggja og hafin sé bygging á en þær hafi ekki verið á þeirri teikningu sem lögð hafi verið fram í grenndarkynningu.  Svalir þessar hafi því hvorki verið kynntar nágrönnum né hlotið samþykki þeirra og því sé tilvísun byggingarnefndar í fundargerð hinn 8. apríl 2003 í bréf nágranna markleysa, enda sé í því bréfi hvergi fjallað um svalir á viðbyggingunni.

Kærandi heldur því fram að skorsteinn vegna arins í viðbyggingunni hafi verið færður og sé ekki byggður samkvæmt samþykktu byggingarleyfi. 

Þá bendir kærandi á að samkvæmt teikningu vegna viðbyggingarinnar, dags. 23. október 2002, verði samþykktin ekki virk fyrr en eftir skráningu eignaskiptayfirlýsingar hjá Fasteignamati ríkisins og þinglýsingu hennar.  Af veðbókarvottorðum fyrir Hverfisgötu 57 verði ekki séð að sú þinglýsing hafi átt sér stað.

Kærandi bendir ennfremur á að framkvæmdir séu samþykktar hinn 28. mars 2003 á lóð sem sé 225 m2.  Með lóðarleigusamningi, dags. 22. september 2003, sé lóðin stækkuð að því er virðist á kostnað lóðar Sunnuvegar 1, sem rýri eign hans að miklum mun.

Varðandi framkvæmdirnar almennt fullyrðir kærandi að gluggi á brunavegg rýri nýtingarmöguleika lóðar hans auk þess sem hann auki eldhættu.  Frá svölum viðbyggingarinnar sjáist vel inn í íbúð hans, skorsteinninn valdi reykmengun í garði hans, svefnherbergi og stofu auk þess sem af honum stafi brunahætta.  Svalir á viðbyggingunni gnæfi yfir steyptan pall við útgang úr stofu hans út í garðinn og gjörbreyti því möguleikum til útivistar á þeim palli.

Sjónarmið Hafnarfjarðarbæjar:  Embætti byggingarfulltrúa í Hafnarfirði hefur komið til úrskurðarnefndarinnar gögnum vegna málsins en ekki greint sérstaklega frá sjónarmiðum bæjarins vegna kröfu kæranda um ógildingu byggingarleyfisins.

Sjónarmið byggingarleyfishafa:  Byggingarleyfishafinn krefst þess að kærunni verði vísað frá þar sem kærandinn hafi, á þeim tíma sem byggingarleyfið hafi verið veitt, ekki átt lögvarða hagsmuni.  Þegar kæra hafi borist úrskurðarnefndinni hafi framkvæmdum við viðbygginguna verið að mestu lokið og hið sama eigi við þegar kærandi hafi keypt fasteignina í september 2003.  Fyrir verslunarmannahelgi það ár hafi þakdúkur verið lagður ásamt festingum fyrir svalahandriðið, hluti skorsteinsins verið kominn og fyrir ágústlok hafi gluggi og hurð á gafli verið sett og öllum mátt vera ljóst á þeim tíma að svalir væru fyrirhugaðar á þaki viðbyggingarinnar.  Þessu til sönnunar hafi verið lagt fram tilboð í efni og vinnu við viðbygginguna, staðfesting á rafrænum greiðslum reikninga vegna glugga og svalahurðar og tveir reikningar vegna sama verks.  Upphaflegir reikningar sýni annars vegar greiðslu fyrir hurð og glugga og hins vegar innborgun á glugga.  Síðasti reikningurinn vegna glugga og svalahurðar sé greiddur hinn 3. október 2003, enda hafi verkinu þá verið lokið, utan þess að eftir hafi verið að ganga frá lausafögum. 

Frestur til að kæra samþykktir byggingarnefnda eða sveitarstjórna sé samkvæmt skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997 aðeins mánuður frá því að kæranda hafi verið kunnugt um samþykktina og því hafi kærufrestur verið liðinn er kæra barst úrskurðarnefndinni. 

Hvað nýgerðan lóðarleigusamning varði þá heldur byggingarleyfishafinn því fram að með honum hafi aðeins verið staðfest lóðaskipting sem alla tíð hafi verið viðhöfð milli lóðanna að Hverfisgötu 57 og Sunnuvegar 1 og því löngu komin hefð á skiptinguna. 

Í engu hafi verið vikið frá samþykktum teikningum eða byggingarleyfi í þá veru að umrædd viðbygging sé á einhvern hátt verri fyrir kærendur.  Skorsteinninn hafi verið færður að ráði sérfræðinga þar sem talið hafi verið að mun öruggara væri að hafa skorsteininn á brunavegg. 

Byggingarleyfishafinn bendir á að umræddur gluggi á suðurvegg hafi verið hafður eins vestarlega á veggnum og unnt hafi verið, en fyrir hafi legið samþykki fyrrverandi eiganda Sunnuvegar 1 fyrir staðsetningu hans. 

Þeirri fullyrðingu kæranda sé mótmælt að hinar umdeildu svalir rýri nýtingarmöguleika á fasteign hans enda komi svalirnar til með að snúa að þeim hluta lóðar Sunnuvegar 1 sem sé minnst notaður.  Þeirri fullyrðingu kæranda sé einnig mótmælt að hinar umræddu svalir séu yfir steyptum palli við útgang úr stofu yfir í garð kæranda.  Byggingarleyfishafinn bendi á að hann hljóti að eiga rétt til að hagnýta sér eign sína á eðlilegan hátt, þ.m.t. réttinn til að byggja svalir og nýta þær.  Svalirnar komi einnig til með að nýtast sem neyðarútgangur. 

Vettvangsganga:  Úrskurðarnefndin kynnti sér með óformlegum hætti aðstæður á vettvangi og óskaði í kjölfarið umsagnar Brunamálastofnunar á því hvort hið kærða byggingarleyfi og bygging hússins fullnægði kröfum um eldvarnir og brunatæknilegan frágang. 

Umsögn Brunamálastofnunar:  Úrskurðarnefndin óskaði eftir umsögn Bunamálastofnunar vegna kærunnar og barst hún nefndinni með bréfi, dags. 11. júní 2004.  Þar kemur fram að mat stofnunarinnar sé að hvorki byggingarleyfið né byggingin sjálf fullnægi kröfum um eldvarnir og brunatæknilegan frágang, en með brunahönnun hússins væri hægt að kanna hvort byggingarleyfið félli að ákvæðum byggingarreglugerðar um brunavarnir bygginga. 

Athugasemdir Hafnarfjarðarbæjar vegna umsagnar Brunamálastofnunar:  Hafnarfjarðarbær tekur undir umsögn Bunamálastofnunar og bendir m. a. á ábyrgð byggingarstjóra og aðalhönnuðar hússins. 

Athugasemdir byggingarleyfishafa vegna umsagnar Brunamálastofnunar:  Byggingar-leyfishafi gerir athugasemdir bæði við málsmeðferð úrskurðarnefndarinnar og umsögn Brunamálastofnunar en ekki þykir þörf á að rekja þær frekar hér, en úrskurðarnefndin hefur haft þær allar til hliðsjónar við afgreiðslu málsins. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um hvort ógilda eigi byggingarleyfi vegna viðbyggingar hússins nr. 57 við Hverfisgötu í Hafnarfirði, sem gefið var út hinn 28. mars 2003, þar sem leyfið feli í sér óhæfilega hagsmunaröskun gagnvart kæranda, vegna annmarka á málsmeðferð og efnislegs ólögmætis leyfisins.  Fól umdeilt leyfi í sér heimild til að nýta þak bílskúrs byggingarleyfishafa sem svalir, en að öðru leyti var það í samræmi við byggingarleyfisumsókn þá sem grenndarkynnt hafði verið og samþykkt hinn 23. október 2002.

Í málinu er sett fram krafa af hálfu byggingarleyfishafa um frávísun þess þar sem kæra hafi borist að liðnum kærufresti. 

Fyrir liggur að framkvæmdir samkvæmt hinu umdeilda byggingarleyfi hófust eftir útgáfu leyfisins og var þeim að mestu lokið þegar kæra barst úrskurðarnefndinni hinn 18. nóvember 2003. Kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar vegna ákvarðana byggingarnefnda og sveitarstjórna er einn mánuður frá því að kæranda mátti vera kunnugt um hina kærðu framkvæmd samkvæmt 4. mgr. 39. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  

Fram er komið að kærandi eignaðist fasteignina að Sunnuvegi 1 í september 2003 en að eigin sögn fluttist hann þangað hinn 24. október sama ár og skömmu síðar hafi hann orðið þess áskynja að framkvæmdir við hina umdeildu viðbyggingu stefndu í þá átt að þak viðbyggingar yrði hagnýtt sem svalir.  Hafi hann þá þegar leitað upplýsinga um heimildir fyrir framkvæmdinni hjá byggingaryfirvöldum í Hafnarfirði sem hafi orðið til þess að hann kærði útgáfu byggingarleyfisins til úrskurðarnefndarinnar hinn 18. nóvember 2003. 

Byggingarleyfishafi hefur lagt fyrir úrskurðarnefndina gögn er benda til þess að í ágústlok hafi framkvæmdum við glugga og hurð á austurgafli hússins verið lokið.  Með bréfi úrskurðarnefndarinnar til kæranda, dags. 9. ágúst 2004, var honum gefinn kostur á að tjá sig um framangreinda fullyrðingu byggingarleyfishafa fyrir hinn 23. sama mánaðar.  Það hefur kærandi ekki gert og verður því að leggja til grundvallar frásögn byggingarleyfishafa um verklok framkvæmda við viðbygginguna og þau gögn þar að lútandi sem hann lagði fyrir úrskurðarnefndina. 

Með vísan til þessa hefði kæranda mátt vera ljóst, er hann festi kaup á fasteigninni að Sunnuvegi 1 í september árið 2003, að fyrirhugað væri að nýta þak viðbyggingarinnar sem svalir og telst kæra hans af þessum sökum of seint fram komin, er hún barst úrskurðarnefndinni hinn 18. nóvember 2003, og ber því að vísa henni frá, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Ekki þykja fram komnar þær ástæður er heimili frávik frá framangreindum kærufresti skv. 1. og 2. tl. 1. mgr. ákvæðisins.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Ásgeir Magnússon

___________________________             _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                 Ingibjörg Ingvadóttir                    

73/2003 Tjarnarbraut

Með

Ár 2004, þriðjudaginn 23. nóvember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon, héraðsdómari, formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingar¬verkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir hdl.

Fyrir var tekið mál nr. 73/2003, kæra eiganda bakhúss að Tjarnarbraut 29, Hafnarfirði, á afgreiðslu skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðar frá 4. nóvember 2003 á erindi um breytingu á notkun greinds bakhúss úr iðnaðarhúsnæði í íbúðarhúsnæði.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 1. desember 2003, er barst nefndinni hinn 8. desember sama ár, kærir J, eigandi bakhúss að Tjarnarbraut 29, Hafnarfirði, þá afgreiðslu skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðar frá 4. nóvember 2003 að synja beiðni kæranda um að breyta notkun um 60 fermetra bakhúss á nefndri lóð úr iðnaðarhúsnæði í íbúð.  Skilja verður málskot kæranda svo að krafist sé ógildingar á fyrrgreindri afgreiðslu skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðar.

Málavextir:  Húsið að Tjarnarbraut 29 er þriggja íbúða hús og á lóðinni er tæplega 60 fermetra bakhús sem mun hafa verið byggt á árinu 1958 sem geymsluskúr. Lóðin er 401 fermetri að flatarmáli.  Bakhúsið er sérstakur eignarhluti samkvæmt fasteignamatsskrá og hefur verið nýtt sem prentsmiðja um áratuga skeið.

Kærandi, sem á íbúð í húsinu að Tjarnarbraut 29, mun hafa keypt umrætt bakhús árið 2000 er starfsemi, sem þar var fyrir, var hætt.  Hinn 13. maí 2003 var tekin fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar fyrirspurn kæranda um hvort heimilað yrði að breyta notkun bakhússins úr iðnaðarhýsi í íbúð.  Erindinu fylgdi uppdráttur og samþykki meðeiganda að lóð.  Var erindinu vísað til bæjarskipulags þar sem um væri að ræða fyrirspurn um breytta notkun húsnæðisins.

Erindi kæranda var tekið fyrir á fundum skipulags- og byggingarráðs hinn 20. maí og 3. júní 2003 og sú ákvörðun tekin að fela bæjarskipulagi að grenndarkynna erindið þegar byggingarleyfisumsókn lægi fyrir, með því fororði að húsnæðið uppfyllti skilyrði byggingarreglugerðar um íbúðir.

Erindi kæranda var síðan grenndarkynnt með bréfi, dags. 24. september 2003, í kjölfar framlagningar aðaluppdráttar vegna breyttrar notkunar og gerð anddyris við umrætt bakhús, dags. 6. september s.á., og bárust athugasemdir frá tveimur nágrönnum kæranda þar sem kynntri breytingu notkunar var mótmælt.

Erindið var loks tekið fyrir á fundi skipulags- og byggingarráðs hinn 4. nóvember 2003 og það afgreitt með svofelldri bókun:  „Tekin fyrir að nýju fyrirspurn Jóhanns Tryggva Jónssonar dags. 13.05.03 um að breyta iðnaðarhúsnæði mhl. 02 í íbúð.  Erindið var í grenndarkynningu og athugasemdir bárust.  Á grundvelli athugasemda og fyrirliggjandi gagna frá 1957 um að leyfi hafi verið veitt fyrir geymsluskúr telur skipulags- og byggingarráð ekki rétt að heimila breytingu yfir í íbúðarhús og eðlilegra sé að nýta húsið sem geymslu eða bílskúr og synjar erindinu eins og það liggur fyrir.”

Málsrök kæranda:  Kærandi bendir á að framkomnar athugasemdir um ónóg bílastæði, lóðarskort bakhússins og áhrif á götumynd, sem vísað sé til í hinni kærðu bókun, eigi ekki við rök að styðjast. 

Við endurbætur á Tjarnarbraut á árinu 2001 hafi gleymst að gera ráð fyrir stæðum fyrir íbúðarhúsið að Tjarnarbraut 29, sem sé þriggja íbúða hús.  Vegna athugasemda íbúa hússins hafi skipulagi götunnar verið breytt og komið fyrir þremur bílastæðum framan við húsið.  Fyrir sé aðkeyrsla að bakhúsi lóðarinnar sem yrði bílastæði fyrir bakhúsið ef breytt yrði í íbúð.  Bendir kærandi á að eignaskiptasamningur vegna fasteignarinnar að Tjarnarbraut 29 frá árinu 1985 beri með sér að bakhúsið eigi 14,65% hlut í heildarlóð að Tjarnarbraut 29.  Umrædd bygging sé bakhús og hafi umsótt breyting ekki áhrif á götumynd Tjarnarbrautar.

Loks lýsir kærandi sig ósáttan við þá forsendu fyrir afgreiðslu erindis hans, að leyfi fyrir umræddu húsi frá árinu 1957 hafi miðað við nýtingu þess sem geymsluskúrs.  Augljóst sé að um sé að ræða skráð iðnaðarhúsnæði sem hafi verið notað sem slíkt í áratugi.        

Málsrök Hafnarfjarðarbæjar:  Bæjaryfirvöld ítreka afstöðu sína til erindis kæranda sem fram kemur í hinni kærðu bókun.  Í fyrirliggjandi bréfi skipulags- og byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar, er sent var kæranda í tilefni af bréfi hans, dags. 27. nóvember 2003, kemur fram það álit að umdeilt húsnæði, sem leyfi hafi verið veitt fyrir sem geymsluskúr á árinu 1957, henti ekki til íbúðar og aðeins verði fyrir hendi þrjú bílastæði fyrir þær fjórar íbúðir sem á lóðinni yrðu.  Nýting lóðarinnar fyrir fjórar íbúðir samræmist ekki heildarskipulagi götunnar en bent hafi verið á hentugri nýtingu húsnæðisins svo sem undir bílskúr.  

Niðurstaða:  Hin kærða bókun ber með sér afgreiðslu á fyrirspurn kæranda um afstöðu bæjaryfirvalda í Hafnarfirði til breyttrar notkunar  á bakhúsi því er stendur á lóðinni að Tjarnarbraut 29, Hafnarfirði.

Samkvæmt 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga verður stjórnvaldsákvörðun ekki skotið til æðra stjórnvalds nema hún feli í sér lokaákvörðun um mál.  Fyrirspurn um afstöðu yfirvalda til erindis verður ekki lögð að jöfnu við formlega leyfisumsókn og svar yfirvalds í slíku tilfelli getur ekki, eðli máls samkvæmt, talist stjórnvaldsákvörðun með þeirri réttarverkan sem slíkri ákvörðun fylgir.

Allar fyrirliggjandi bókanir um hið kærða erindi bera það ótvírætt með sér að þar sé verið að fjalla um fyrirspurn kæranda frá 13. maí 2003 og tilkynning bæjaryfirvalda til kæranda um afgreiðslu fyrirspurnarinnar hefur ekki að geyma upplýsingar um kæruheimild og kærufrest til æðra stjórnvalds, svo sem skylt væri skv. 2. tl. 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga, ef tilkynningin fæli í sér stjórnvaldsákvörðun.

Þótt ætla megi, með hliðsjón af fyrirliggjandi aðaluppdrætti frá september 2003, fyrirmælum skipulags- og byggingarráðs frá 3. júní s.á. um grenndarkynningu eftir framlagningu byggingarleyfisumsóknar og fyrirliggjandi minnispunktum bæjarskipulags, dags. 22. september 2003, að byggingarleyfisumsókn hafi komið fram, verður ekki hjá því komist að vísa kæru þessari frá með vísan til framangreindra raka.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

_________________________________
Ásgeir Magnússon

______________________________       _______________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                  Ingibjörg Ingvadóttir

54/2004 Pósthússtræti

Með

Ár 2004, fimmtudaginn 11. nóvember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon héraðsdómari, formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir hdl.

Fyrir var tekið mál nr. 54/2004, kæra eigenda fasteignanna að Hafnarstræti 9 (utan jarðhæðar) og Hafnarstræti 11, Reykjavík á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 28. september 2004 um að veita takmarkað byggingarleyfi til að rífa og undirbúa framkvæmdir í húsunum að Pósthússtræti 2 og Tryggvagötu 28, Reykjavík vegna fyrirhugaðra breytinga. 

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 6. október 2004, sem barst nefndinni hinn 8. s.m., kærir Einar Baldvin Árnason hdl., f.h. eigenda fasteignanna að Hafnarstræti 9 (utan jarðhæðar) og Hafnarstræti 11, Reykjavík, ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 28. september 2004 um að veita takmarkað byggingarleyfi til að undirbúa framkvæmdir í húsunum að Pósthússtræti 2 og Tryggvagötu 28, vegna fyrirhugaðra breytinga. 

Kærendur krefjast ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar ásamt því að framkvæmdir á grundvelli hennar verði stöðvaðar meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarnefndin hefur leitað eftir afstöðu aðila máls þessa og er það mat nefndarinnar, með hliðsjón af framlögðum gögnum, að málið sé nú tækt til efnisúrlausnar og verður því ekki fjallað sérstaklega um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda. 

Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 28. október 2004, er barst nefndinni sama dag, kæra kærendur máls þessa nýtt takmarkað byggingarleyfi vegna sömu fasteigna þ.e. að Pósthússtræti 2 og Tryggvagötu 28.  Leyfi þetta felur í sér, á sama hátt og hið eldra leyfi, heimild til handa byggingarleyfishafa til að rífa og undirbúa framkvæmdir auk þess sem leyft er að endurnýja létta innveggi í húsunum fyrir breytingar.  Kemur fyrst til úrlausnar hvort þýðingu hafi að skera úr um gildi hins fyrra leyfis og verður,  að svo stöddu, ekki gerð sérstök grein fyrir málavöxtum og málsrökum aðila.

Niðurstaða:  Eins og að framan er rakið er í máli þessu deilt um lögmæti ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 28. september 2004 um að veita takmarkað byggingarleyfi vegna fyrirhugaðra breytinga fasteignanna að Pósthússtræti 2 og Tryggvagötu 28. Verður ekki annað séð en að með takmörkuðu byggingarleyfi, útgefnu hinn 15. október 2004, sem einnig hefur verið skotið til úrskurðarnefndarinnar, séu heimilaðar sömu framkvæmdir og í leyfi því sem kæra í máli þessu tekur til, auk frekari framkvæmda sem getið er í hinu síðara leyfi. 

Samkvæmt framansögðu hefur hér eftir ekki þýðingu að fjalla um leyfi það sem kært er í máli þessu, enda verður hið síðara kærumál tekið til efnismeðferðar hjá úrskurðarnefndinni.  Eiga kærendur af þessum sökum ekki lögvarða hagsmuni því tengda að fá sérstaklega skorið úr um lögmæti hinnar kærðu ákvörðunar og ber því að vísa máli þessu frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Ásgeir Magnússon

___________________________             _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                Ingibjörg Ingvadóttir

8/2003 Melateigur

Með

Ár 2004, fimmtudaginn 14. október, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon héraðsdómari, formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir hdl.

Fyrir var tekið mál nr. 8/2003, kæra stjórnar Hagsmunafélags húseigenda og íbúa við Melateig 1 – 41, Akureyri á svörum sviðsstjóra tækni- og umhverfissviðs Akureyrarbæjar frá 27. desember 2002 þess efnis að byggingarfulltrúi taki ekki út endanlegan yfirborðsfrágang lóða, þar með talið malbik, kantsteina, gras o.þ.h., eða tryggi aðgengi fatlaðra á svæðinu og nægjanlega afvötnun þess. 

Í málinu er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 15. janúar 2003, er barst nefndinni hinn 17. sama mánaðar, kærir stjórn Hagsmunafélags húseigenda og íbúa við Melateig 1 – 41, Akureyri svör sviðsstjóra tækni- og umhverfissviðs Akureyrarbæjar frá 27. desember 2002 til kærenda þess efnis að byggingarfulltrúi taki ekki út endanlegan yfirborðsfrágang lóða, þar með talið malbik, kantsteina, gras o.þ.h., eða tryggi aðgengi fatlaðra á svæðinu og nægjanlega afvötnun þess. 

Kærendur krefjast þess að byggingarfulltrúa verði gert skylt að taka út ofangreinda verkþætti.

Málavextir:  Með lóðarleigusamningi, dags. 22. desember 1999, var Byggingarfélaginu Hyrnunni ehf. úthlutað byggingarlóðinni nr. 1-41 við Melateig á Akureyri.  Var lóðinni úthlutað sem einni óskiptri lóð, 20.026 m² að stærð.  Lóðarleiguskilmálar, samkvæmt deiliskipulagi samþykktu í bæjarstjórn hinn 7. september 1999, úthlutunarskilmálum og lóðarleigusamningi, voru þeir að Akureyrarbær skyldi annast tengingu lóðarinnar við gatnakerfi bæjarins en að öðru leyti annaðist byggingarfélagið frágang lóðarinnar, þ.m.t. að fullgera aðkomuleiðir innan lóðar, bílastæði og göngustíga ásamt því að grófjafna lóð og ganga frá opnum svæðum.  Skyldi byggingarfélagið greiða gatnagerðargjald vegna íbúða við götuna í samræmi við gjaldskrá Akureyrarbæjar.  Lóðarhafi samþykkti ofangreinda skilmála og tók til við byggingu húsa á svæðinu sem síðar voru seld. 

Húseigendur og íbúar við Melateig 1–41 stofnuðu með sér hagsmunasamtök og hinn 11. maí 2002 var haldinn fundur með þeim og byggingarfélaginu þar sem kærendur kynntu athugasemdir sínar við frágang á götumannvirkinu og lóðum við Melateig og komu á framfæri ósk um úrbætur.  Undirtektir byggingarfélagsins voru jákvæðar og var ákveðið þegar í stað að fara yfir svæðið með verktökum og hönnuðum og lagfæra mörg aðfinnsluefnanna. 

Með bréfi kærenda, dags. 15. maí 2002, til byggingarfulltúa komu kærendur þeirri skoðun sinni á framfæri að þeir teldu götumannvirkið og grassvæði við Melateiginn vera byggingarleyfisskylda framkvæmd, sbr. 36. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Framkvæmdin væri því bæði eftirlits- og úttektarskyld og um hana giltu ákvæði byggingarreglugerðar nr. 441/1998. 

Með bréfi, dags. 20. október 2002, til bæjarráðs Akureyrar, kröfðust kærendur þess að erindi þeirra frá 15. maí sama ár yrði afgreitt og á fundi bæjarráðs hinn 24. sama mánaðar var sviðsstjóra tækni- og umhverfissviðs falið að svara erindinu.  Fundargerð bæjarráðs var afgreidd á fundi bæjarstjórnar hinn 5. nóvember 2002. 

Í bréfi sviðsstjóra tækni- og umhverfissviðs, dags. 25. október 2002, til kærenda segir:  „Helstu upplýsingar varðandi lóð eiga að koma fram á byggingarnefndaruppdrætti, en á grundvelli þess uppdráttar er byggingarleyfi veitt.  Almennt eru húsbyggjendur ekki krafðir séruppdrátta af lóðum, nema þess þurfi við, að mati byggingarfulltrúa hverju sinni.  Á þetta við þegar lóðir eru stórar og huga þarf að aðgengi fatlaðra, fjölda bílastæða, tryggja afvötnun og þess háttar. 

Varðandi úttektir og eftirlit, þá er við lokaúttekt gengið eftir því að hæðir á lóðamörkum séu innan eðlilegra skekkjumarka sbr. mæliblað lóðarinnar og hvort hætta geti skapast vegna frágangs hennar.  Aðrar úttektir eru ekki viðhafðar á lóð, nema annað eigi við, svo sem lagnir, steypt mannvirki og þess háttar.“ 

Bréfi þessu fylgdu nokkur gögn, þ.á.m. stöðuúttekt, dags. 13. nóvember 2001, en þar segir m.a. að sérafnotahlutar lóða par- og raðhúsa og sameignarlóð séu fullgerð nema eftir sé að lagfæra frágang á lóðarmörkum að austan og sunnan. 

Kærendur sættu sig ekki við ofangreind svör sviðsstjóra tækni- og umhverfissviðs og með bréfi, dags. 18. nóvember 2002, mótmæltu þeir fyrrnefndri stöðuúttekt og óskuð eftir svörum bæjaryfirvalda við eftirfarandi: 

„1. Viðurkennir Akureyrarbær, byggingareftirlit, að samkvæmt 36. gr. skipulags- og byggingarlaga, þá sé götumannvirkið og lóðin Melateigur 1-41 háð byggingarleyfi og því eftirlits- og úttektarskyld þar sem framkvæmdin er ekki á vegum opinberra aðila?  2. Mun Akureyrarbær samkvæmt framansögðu tryggja að aðgengi hreyfihamlaðra varðandi umrætt götumannviki verði tryggt, samanber ákvæði 22. gr. byggingarreglugerðar, en slíkt á að koma fram á lóðaruppdrætti, sem á að vera samþykktur samanber 19. gr.?  3. Mun Akureyrarbær samkvæmt framansögðu, og með tilvísun til ákvæða 61., 66. og 68. gr. byggingarreglugerðar, tryggja bætta og öruggari afvötnun af umræddri götu og lóð, sem og betri frágang lóðar og fyllingu bakvið kantstein?“ 

Með bréfi, dags. 27. desember 2002, svaraði sviðsstjóri tækni- og umhverfissviðs framangreindum spurningum kæranda með eftirfarandi hætti: 

„1. Samkvæmt grein 4.6.15 í ÍST 51 2001 skal lokaúttekt byggingarfulltrúa fara fram þegar byggingarstigi 6, er náð, en byggingarstig 6 er náð þegar bygging er fullgerð án lóðarfrágangs.  Lóðarfrágangur er skilgreindur á byggingarstigi 5 en segir þar:  Jarðvegur á lóð skal frágenginn í rétta hæð undir endanlegt yfirborð.  Jarðvegsskiptum skal vera lokið þar sem þess er þörf undir hellur, malbik eða gróður.  Lagnir í lóð skulu frágengnar, sbr. gr. 4.4.11.  Samkvæmt grein 48 í byggingarreglugerð, um áfangaúttektir, er ekki tilgreint sérstaklega um úttektir á lóð eða bílastæðum.  

Með vísan til þess er að ofan greinir er ekki gert ráð fyrir að byggingarfulltrúi taki út endanlegan yfirborðsfrágang lóða, þar með talið malbik, kantsteina, gras o.þ.h. þrátt fyrir að framkvæmdin sé háð byggingarleyfi sbr. 36. gr. skipulags- og byggingarlaga og 18.14. gr. byggingarreglugerðar. 

Ekki hefur verið farið fram á að séruppdráttum af lóð sé skilað inn með byggingarleyfisumsókn þar sem á afstöðumynd aðaluppdrátta (byggingarnefndaruppdráttum) koma fram þau atriði sem krafist er að komi fram á lóðaruppdráttum sbr. gr. 22 í byggingarreglugerð. 

2. Við lóðarhönnun skal tryggja hindrunarlausar leiðir að inngöngum frá lóð og bílastæðum sbr. gr. 62.2.  Úttekt á þessum atriðum hefur ekki farið fram en verður framkvæmd við lokaúttekt sem mun fara fram strax á nýju ári, að ósk byggingaraðila þann 5. des. sl.

Í byggingarreglugerð er þess hvergi getið að íbúðarhús og leiðir um lóðir þeirra skuli vera aðgengileg fötluðum, nema þar sem um fjölbýlishús með fleiri en 6 íbúðum er að ræða.

Þá er gerð krafa um að hús og lóðir sem ætlaðar eru almenningi eða almenningur þarf að hafa aðgang að séu aðgengileg fötluðum.  Í tilfelli Melateigs er ekki um þessi atriði að ræða þar sem ekkert hús á svæðinu fellur skilyrðislaust undir þau ákvæði að þurfa að vera aðgengileg fötluðum og því ekki gerð sérstök krafa um það við samþykkt aðalteikninga.

3. Frárennslislagnir á lóð eru úttektarskyldar og er gerð krafa um að þær séu teiknaðar.  Þær teikningar eru til og teiknaðar af Arkitekta- og verkfræðistofu Hauks ehf. og uppfylla að mati embættisins staðla og hönnunarkröfur sem gerðar eru til fráveitu yfirborðsvatns á lóðinni og staðsetningar niðurfalla með tilliti til hæðarsetningar lóðar sbr. samþykkta byggingarnefndaruppdrætti (aðaluppdrætti).“

Framangreinda ákvörðun sviðsstjóra tækni- og umhverfissviðs hafa kærendur ekki sætt sig við og hafa kært hana til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála eins og að framan greinir. 

Málsrök kærenda:  Kærendur krefjast þess að götumannvirkið og lóðir við Melateiginn verði afhentar í ásættanlegu formi frá verktakanum og vísa til þess að Akureyrarbær beri fulla ábyrgð á deiliskipulagi götunnar og opnum svæðum.  Kærendur halda því fram að þessi mannvirki séu háð byggingarleyfi og um þau gildi öll ákvæði byggingareglugerðar, enda komi undanþáguákvæði 36. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 ekki til álita, þar sem framkvæmdin sé að kröfu Akureyrarbæjar unnin og kostuð af verktaka.

Kærendur benda á að í gr. 53.1 byggingarreglugerðar nr. 441/1998 segi að þegar smíði húss sé að fullu lokið skuli byggingarstjóri eða húsbyggjandi óska eftir lokaúttekt byggingarfulltrúa.  Í gr. 4.7.3 ÍST 51 sé greint frá því að bygging sé fullgerð þegar allar notaeiningar séu fullgerðar og í lið 4.7.2 segi að lokið skuli gerð og frágangi gangbrauta og bílastæða á lóð og öllum frágangi jarðvegs.

Kærendur vísa og til gr. 4.5.14 í ÍST 51 máli sínu til stuðnings þar sem segi að jarðvegur á lóð skuli frágenginn í rétta hæð undir endanlegt yfirborð.  Jarðvegsskiptum skuli vera lokið þar sem þess sé þörf undir hellur malbik eða gróður og lagnir í lóð skuli frágengnar.  Byggingaeftirliti beri að tryggja að verktakinn/lóðarhafi hafi framkvæmt framangreint áður en byggingarstigi 6 sé náð, sbr. gr. 4.6.1 í ÍST 51.  Þetta hafi byggingareftirlitið ekki framkvæmt þar sem engar hæðarmælingar hafi farið fram á lóðum eða stallaskilum milli húsa, engin jarðvegsskipti hafi farið fram, heldur hafi ísaldarleirnum með grjóti verið jafnað út og annað grjót ekki fjarlægt og engin fínjöfnun verið framkvæmd fyrir þökulagningu.

Kærendur benda á að samkvæmt framlögðum teikningum sé hvergi sýnd niðursneiðing gangstétta með tilliti til aðgengis fatlaðra líkt og kveðið sé á um í 22. gr. byggingarreglugerðar og benda á stærð lóðarinnar því til stuðnings.

Kærendur halda því fram að samkvæmt 36. gr. skipulags- og byggingarlaga sé götumannvirkið byggingarleyfisskylt og því gildi um þá framkvæmd öll ákvæði byggingarreglugerðarinnar, eftir því sem við eigi.  Sérstaklega sé áréttað að samkvæmt 48. gr. reglugerðarinnar skuli byggingarstjóri við áfangaúttekt óska eftir úttekt byggingarfulltrúa á þáttum er varði aðgengi m.t.t. fatlaðra.  Þá sé í 199.2 gr. fjallað um umferðarleiðir með tilliti til fatlaðra og í 203. gr. sé ákvæði um skábrautir fyrir hjólastóla.  Þá veki kærendur einnig athygli á að samkvæmt gr. 3.1.1 skipulagsreglugerðar skuli við skipulagsgerð ávalt taka tillit til þarfa barna, fatlaðra og aldraðra við ákvarðanatöku um landnotkun og tilhögun mannvirkja, s.s. vegna stíga, bílastæða og varðandi aðgengi að byggingum og opnum svæðum o.s.frv.

Kærendur halda því fram að að niðurföllin sem fyrir séu fullnægi ekki fráveitu yfirborðsvatns á lóðinni og tryggi í engu afvötnun hennar og vísa til þess að öll lóðin halli niður í suð-austur hluta hennar. 

Kærendur ítreka að málið varði annars vegar húsin við götuna, ásamt lóðum til sérafnota sem þeir telji úttektarskyldar, og hins vegar götumannvirkið sjálft, skolp, regnvatnslögn, malbik, kantstein, gangstétt og lýsingu ásamt opnum sameiginlegum grassvæðum.  Öll þessi mannvirki séu háð byggingarleyfi samkvæmt 36. gr. skipulags og byggingarlaga og því beri byggingareftirliti að taka þau út.

Kærendur krefjast þess einnig að Akureyrarbær, byggingareftirlit standi við ákvæði byggingarreglugerðar og taki út eftirfarandi verkþætti og krefjist þess við lokaúttekt að verktakinn gangi fullnægjandi frá þeim: 

„1.  Gerðir verði fláar á enda gangstétta, eins og lögformlegt er og annars staðar er gert á götum bæjarins, sem tryggi umferð hreyfihamlaðra (hjólastólanotenda) um svæðið.

2. Bætt verði við niðurföllum á neðanverðu svæðinu t.d. framan nr. 9 og 13, sem og niðurfalli á opna grassvæðið ofan húss nr. 2 – 8, til að tryggja örugga afvötnun, og koma í veg fyrir að í leysingum flæði inn í hús.

3. Bæta skal aðfyllingu að kantsteini, sem steyptur var eftir þökulagningu, og stendur því víðast hvar langt upp fyrir grasið og hefur engan stuðning, auk þess sem frágangur er þannig að hirðing er mjög erfið.

4. Taka skal út, annars vegar undirbyggingu lóða, jöfnun, hæðartöku og almennan frágang, og hins vegar það efni (þökur) sem lagt var á lóðirnar, sem er að stórum hluta fullkomlega óboðlegt á húsalóðir, ekkert nema snarrætur, vallhumall og annað illgresi. Á þetta bæði við húsalóðir til sérnota, sem og það svæði (lóð) sem telst til sameiginlegra nota.“

Kærendur rekja í kærunni samskipti sín við bæjaryfirvöld á Akureyri vegna kæruefnisins.  Gerð er grein fyrir því að bæjarráð hafi á fundi sínum hinn 24. október 2002 falið sviðsstjóra tækni- og umhverfissviðs að svara erindinu og hafi sú afgreiðsla verið staðfest á bæjarstjórnarfundi hinn 5. nóvember 2002.  Því verði að líta á svör sviðsstjórans sem lokaniðurstöðu af hálfu Akureyrarbæjar við erindum þeirra.

Málsrök Akureyrarbæjar:  Í greinargerð skipulags- og byggingarfulltrúa Akureyrarbæjar vegna málsins segir að embætti skipulags- og byggingarfulltrúa hafi ekki farið fram á að séruppdráttum af lóðum sé skilað inn með byggingarleyfisumsóknum þar sem á afstöðumynd aðaluppdrátta skuli koma fram þau atriði sem krafist sé að fram komi á lóðaruppdráttum, sbr. 22. gr. byggingarreglugerðar.  Með vísan til 36. gr skipulags- og byggingarlaga og gr. 18.14 í byggingarreglugerð séu framkvæmdir við gerð bílastæða og aðkomuleiða innan lóða háðar byggingarleyfi, en yfirborðsfrágangur sé ekki úttektarskyldur.

Akureyrarbær bendir á að samkvæmt grein 4.6.15 í ÍST 51 skuli lokaúttekt byggingafulltrúa fara fram þegar byggingarstigi 6 sé náð, en þeim áfanga sé náð þegar bygging sé fullgerð án lóðarfrágangs.  Lóðarfrágangur sé skilgreindur í byggingarstigi 5 en þar segi:  „Jarðvegur á lóð skal frágenginn í rétta hæð undir endanlegt yfirborð.  Jarðvegsskiptum skal vera lokið þar sem þess er þörf undir hellur, malbik eða gróður.  Lagnir í lóð skulu frágengnar, sbr. gr. 4.4.11.“ 

Þá er og vísað af hálfu Akureyrarbæjar til 48. gr. byggingarreglugerðar, um áfangaúttektir, en þar sé ekki tilgreint sérstaklega að byggingarfulltrúi taki út endanlegan yfirborðsfrágang lóða, þar með talið malbik, kantsteina, gras o.þ.h.  Með vísan til gr. 4.7.2 í ÍST 51 teljist bygging ekki fullgerð fyrr en byggingarstigi 7 sé náð, en þá skuli lokið „…gerð og frágangi gangbrauta og bílastæða og öllum frágangi jarðvegs“.  Úttektarskyldu byggingarfulltrúa ljúki við byggingarstig 6 eins og fram komi í gr. 4.6.15 í ÍST 51.

Þá er því og haldið fram af hálfu bæjarins að í byggingarreglugerð sé þess hvergi getið að íbúðarhús og lóðir þeim tilheyrandi skuli vera aðgengileg fötluðum, nema þar sem um fjölbýlishús með fleiri en sex íbúðum sé að ræða.  Samkvæmt reglugerðinni sé gerð krafa um að hús og lóðir sem ætluð séu almenningi eða almenningur þurfi að hafa aðgang að séu aðgengileg fötluðum.  Í umræddu tilfelli sé ekki um þessi atriði að ræða þar sem ekkert hús á svæðinu falli skilyrðislaust undir þau ákvæði að þurfa að vera aðgengileg fötluðum og því hafi ekki verið gerð sérstök krafa um það við samþykkt aðalteikninga.  Úttektir á aðgengi fatlaðra séu ekki framkvæmdar nema þar sem kröfur um slíkt séu gerðar samkvæmt byggingarreglugerð og byggingarskilmálum.  Þá sé í gr. 62.2 byggingarreglugerðar eftirfarandi ákvæði:  „Við lóðarhönnun skal tryggja hindrunarlausar leiðir að inngöngum frá lóð og bílastæðum.“  Ekki sé nánari skilgreining á þessu ákvæði í byggingarreglugerð en víða verði ekki komist hjá tröppum eða skábrautum að inngöngum frá lóð og hafi embættið ekki litið svo á að gerðar væri kröfur um aðgengi fatlaðra að öllum inngöngum nema þegar sérstaklega væru gerðar kröfur um slíkt samkvæmt reglugerðum og byggingarskilmálum.

Bent sé að frárennslislagnir á lóð séu úttektarskyldar og gerð sé krafa um að þær séu teiknaðar.  Lagnauppdrættir lóðarinnar, sem unnir séu af Arkitekta- og verkfræðistofu Hauks ehf., séu til í vörslu byggingarfulltrúaembættisins.  Þær uppfylli að mati embættisins staðla og hönnunarkröfur sem gerðar séu til fráveitu yfirborðsvatns á lóðinni og staðsetningar niðurfalla með tilliti til hæðarsetningar lóðar í samræmi við samþykkta byggingarnefndaruppdrætti. 

Þá er þess getið í greinargerð Akureyrarbæjar að lokaúttekt hafi farið fram miðað við að byggingarstigi 6 væri náð, en skírteini ekki verið gefið út þar sem mál þetta sé til meðferðar hjá úrskurðanefndinni.

Andmæli kærenda við sjónarmiðum Akureyrarbæjar:  Kærendur árétta að samkvæmt 53. gr. byggingareglugerðar nr. 441/1998 sé það framkvæmdaraðili sjálfur sem óski eftir lokaúttekt byggingarfulltrúa þegar smíði húss sé að fullu lokið að hans mati.  Slík úttekt geti farið fram samkvæmt ÍST 51/2001 gr. 4.6.15 án þess að það feli í sér að allt ferlið sé fullfrágengið, enda sé í 54. gr. reglugerðarinnar um útgáfu lokaúttektarvottorðs gert ráð fyrir því að við lokaúttektina geti komið fram atriði sem þarfnist úrbóta og verði að lagafæra áður en heimilt verði að gefa út umrætt lokavottorð.

 Kærendur benda á að í áðurnefndum staðli segi svo um byggingarstig 7, fullgerða byggingu, í lið 4.7.1:  „Til þess að teljast fullgerð þarf hún að uppfylla þær kröfur sem lýst er í fyrri byggingarstigum og í gr. 4.7.2. o.s.frv.“  en sú gr. hljóði svo:  „Lokið skal gerð og frágangi gangbrauta og bílastæða á lóð og öllum frágangi jarðvegs.“

Kærendur telja að útilokað sé að flokka yfirborðsefnið, þ.e. þökurnar á lóðirnar og opna svæðið, öðruvísi en sem jarðvegsefni, og því lögformlega ákveðið að slíkur frágangur falli undir úttektarskyldu og eftirlit byggingarfulltrúa.  Embættið verði því að sjá um að ákvæðum byggingarstigs 7 sé fullnægt, svo unnt sé að tala um „fullgerða byggingu“, enda sé það í samæmi við ákvæði gr. 53.1 og 54.1 í byggingareglugerð.  Verði verktakinn ekki við slíkum óskum beri byggingafulltrúa að láta framkvæma það sem upp á vanti og sækja greiðslu á þeim kostnaði í ábyrgðartryggingu hönnuða, sbr. 26. gr. byggingarreglugerðarinnar.

Umsögn Skipulagsstofnunar:  Með bréfi, dags. 11. ágúst 2004, óskaði úrskurðarnefndin eftir umsögn Skipulagsstofnunar á kæruefninu.  Í bréfi stofnunarinnar, dags. 28. sama mánaðar, segir svo:  „Skipulagsstofnun telur ljóst að skýra beri 2. mgr. 36. gr. skipulags- og byggingarlaga þröngt.  Tilvísun málsgreinarinnar til framkvæmda sem eru „á vegum“ opinberra aðila verður að skýra þannig að opinber aðili sé með beinum hætti ábyrgur fyrir umræddri framkvæmd.  Í þessu samhengi er rétt að geta þess að líklega er um málvillu að ræða í fyrrnefndri lagagrein, þar sem orðið „framkvæmdar“ kemur fyrir.  Hlýtur að vera átt við „framkvæmdir“, enda er upptalning greinarinnar byggð á mismunandi tegundum framkvæmda. 

Hafi bæjarfélag lýst því yfir að það yfirfæri að öllu leyti ábyrgð vegna framkvæmdar yfir á einkaaðila, sem að öðrum kosti hefði fallið undir ábyrgðarsvið bæjarfélagins, telur Skipulagsstofnun að undantekning 2. mgr. 36. gr. eigi ekki lengur við.  Við það að yfirfæra ábyrgð verks með slíkum hætti breytast forsendur fyrir beitingu 2. mgr. 36. gr. sé tekið mið af orðalagi greinarinnar, sem vísar til umsjónar og þar með ábyrgðar opinbers aðila með framkvæmdinni.  Undantekning umræddrar lagagreinar eigi því ekki lengur við og almenn ákvæði IV. kafla laganna um málsmeðferð byggingarleyfisskyldra framkvæmda gildi.“

Niðurstaða:  Í máli þessu eru kærð svör sviðstjóra tækni- og umhverfissviðs Akureyrarbæjar við spurningum og athugasemdum kærenda sem lúta að úttektum og frágangi framkvæmda innan lóðarinnar nr. 1 – 41 við Melateig á Akureyri.  Af gögnum málsins er ljóst að aðila greinir á um hvaða framkvæmdir séu úttektarskyldar og hvaða kröfur hafi átt að gera til hönnunargagna, en ekki virðist um það deilt að um byggingarleyfisskylda framkvæmd sé að ræða enda framkvæmdirnar ekki á vegum opinberra aðila, sbr. 2. mgr. 36. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Umrædd svör í bréfi sviðstjóra umhverfis- og tækisviðs, dags. 27. desember 2002, fela ekki í sér ákvörðun sem bindur enda á meðferð máls og hafa að auki ekki komið til staðfestingar bæjarstjórnar.  Meint ákvörðun sem kærð er í máli þessu sætir því ekki kæru skv. 3. mgr. 39. gr. skipulags- og byggingarlaga, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, og ber af þeim sökum að vísa kæru þessari frá úrskurðarnefndinni.  

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

______________________________
Ásgeir Magnússon

______________________________             _______________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                        Ingibjörg Ingvadóttir

26/2004 Miðbraut

Með

Ár 2004, fimmtudaginn 29. júlí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir hdl.

Fyrir var tekið mál nr. 26/2004, kæra tveggja íbúa að Miðbraut 27, Seltjarnarnesi á samþykkt skipulags- og mannvirkjanefndar Seltjarnarnesbæjar frá 4. mars 2004 um útgáfu byggingarleyfis til byggingar bílskúrs á lóðinni nr. 25a við Miðbraut á Seltjarnarnesi. 

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi, dags. 23. apríl 2004, til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, er barst nefndinni sama dag, kæra H og S, Miðbraut 27, Seltjarnarnesi, samþykkt skipulags- og mannvirkjanefndar Seltjarnarnesbæjar frá 4. mars 2004 um útgáfu byggingarleyfis til byggingar bílskúrs á lóðinni nr. 25a við Miðbraut á Seltjarnarnesi.  Hin kærða ákvörðun var afgreidd á fundi bæjarstjórnar Seltjarnarnesbæjar hinn 10. mars 2004. 

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Málavextir:  Á fundi skipulags- og mannvirkjanefndar Seltjarnarnesbæjar hinn 6. nóvember 2003 var tekin til afgreiðslu umsókn eiganda hússins að Miðbraut 25a um byggingu bílskúrs á lóðinni og var samþykkt að senda umsóknina í grenndarkynningu.  Kærendur settu fram athugasemdir og mótmæltu fyrirhuguðum framkvæmdum með bréfi, dags. 19. desember 2003.  Á fundi skipulags- og mannvirkjanefndar hinn 4. mars 2004 var umsóknin samþykkt með því skilyrði að heildarhæð bílskúrsins færi ekki yfir hæð aðliggjandi bílskúrs við Vallarbraut 16.  Var kærendum tilkynnt um þessa ákvörðun með bréfi, dags. 3. apríl 2004. 

Málsrök kærenda:  Af hálfu kærenda er á því byggt að skipulags- og mannvirkjanefnd hafi verið óheimilt að samþykkja umrædda umsókn.  Á samþykktum teikningum sé ekki gert ráð fyrir bílskúr á þeim stað sem hið kærða byggingarleyfi heimili, þ.e. í norðurhorni lóðarinnar. 

Þá sé samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi umræddur bílskúr einn metra frá lóðarmörkum byggingarleyfishafa og kærenda.  Í 75. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998 sé kveðið á um fjarlægð frá lóðarmörkum og bil milli húsa og settar fram ákveðnar lágmarksfjarlægðir frá húsvegg að mörkum nærliggjandi lóðar.  Er á því byggt af hálfu kærenda að a.m.k. hefðu þurft að vera þrír metrar frá vegg fyrirhugaðrar bílskúrsbyggingar að lóðarmörkum þeirra.  Í gr. 75.4 segi að heimilt sé að fjarlægðirnar séu minni enda sé þá slíkt ákveðið í deiliskipulagi eða með þinglýstum samningi milli lóðarhafa.  Í máli því sem hér sé til meðferðar sé hvorugt til staðar og því hafi skipulags- og byggingaryfirvöldum verið óheimilt að samþykkja umrætt byggingarleyfi og beri því að fella það úr gildi. 

Þá er því haldið fram af hálfu kærenda að fyrirhuguð bygging komi til með að varpa skugga á lóð kærenda.  Í bréfi byggingarfulltrúa, dags. 3. apríl 2004, komi fram að með þessu fyrirkomulagi bílskúrsins sem samþykkt hafi verið sé „…dregið mjög úr skuggavarpi“.  Með þessum orðum sé beinlínis viðurkennt að byggingin muni varpa skugga á lóð kærenda án þess að kærendur fái rönd við reist.  Því sé alfarið mótmælt að skipulags- og mannvirkjanefnd hafi haft heimild til þess að veita samþykki sitt fyrir framkvæmdum sem muni valda kærendum skuggavarpi.  Verönd kærenda snúi að fyrirhuguðum bílskúr.  Hafi kærendur nýverið endurbyggt sólpall á móti suðvestri og muni fyrirhuguð bygging varpa skugga á suðvesturhluta lóðarinnar og m.a. valda tjóni af þeim sökum á trjágróðri.  Með ákvörðuninni sé verið að skerða hagsmuni kærenda.  Þá muni innkeyrsla að fyrirhuguðum bílskúr valda kærendum ónæði þar sem staðsetning hans sé innst á lóðinni og snúi aðalgluggar húss þeirra að henni. 

Bygging bílskúrs samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi hefði það í för með sér að á lóðinni verði byggingar er liggi að öllum þremur mörkum lóðarinnar, sem ekki séu dæmi um í þessu hverfi.  Þá sé nú þegar tvöfaldur bílskúr á Miðbraut 25a sem sé 50 m² og sé verið að gefa leyfi til að byggja þriðja bílskúrinn sem sé 42 m².  Heildarflatarmál bílskúra á lóðinni verði 92 m².

Sjónarmið Seltjarnarnesbæjar:  Í bréfi byggingarfulltrúa Seltjarnarnesbæjar til kærenda, dags. 3. apríl 2004, eru sjónarmið bæjarins rakin.  Þar kemur m.a. fram að nýtingarhlutfall lóðarinnar Miðbraut 25a með væntanlegum bílskúr sé 0,37 og telji skipulags- og mannvirkjanefnd að bygging bílskúrsins verði ekki í andstöðu við svipmót hverfisins. 

Niðurstaða:  Hin kærða ákvörðun var samþykkt á fundi skipulags- og mannvirkjanefndar Seltjarnarnesbæjar hinn 4. mars 2004 og afgreidd á fundi bæjarstjórnar hinn 10. sama mánaðar.  Var kærendum tilkynnt um þessa ákvörðun með bréfi, dags. 3. apríl 2004, og barst kæran úrskurðarnefndinni hinn 23. apríl 2004.  All löngu áður en kæran barst, eða hinn 12. mars 2003, hafði annar kærenda símsamband við starfsmann úrskurðarnefndarinnar vegna afgreiðslu bæjaryfirvalda á hinni kærðu ákvörðun og sendi í kjölfarið í tölvupósti „Samantekt frá eigendum að Miðbraut 27, Seltjarnarnesi“ þar sem nöfn og netföng beggja kærenda eru tilgreind.  Er þar að finna útdrætti úr fundargerðum nefnda Seltjarnarnesbæjar vegna framkvæmda á lóð byggingarleyfishafans allar götur frá árinu 1996 ásamt hinni kærðu samþykkt.  Þá sendi og sami kærandi símbréf til skrifstofu úrskurðarnefndarinnar hinn 15. mars 2003 til upplýsinga um aðstæður á umræddri lóð. 

Í 4. mgr. 39. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 segir að hverjum þeim er telji rétti sínum hallað með samþykkt byggingarnefndar eða sveitarstjórnar sé heimilt innan mánaðar frá því að honum er kunnugt um afgreiðslu sveitarstjórnar að skjóta málinu til úrskurðarnefndarinnar. 

Eins og að framan er rakið var kærendum orðið kunnugt um hina kærðu ákvörðun hinn 12. mars 2004, en eins og áður segir barst kæran ekki úrskurðarnefndinni fyrr en hinn 23. apríl 2004.  Var kærufrestur samkvæmt 4. mgr. 39. gr. skipulags- og byggingarlaga þá liðinn.  Samkvæmt 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 ber, þegar svo stendur á, að vísa kæru frá nema afsakanlegt verði talið að hún hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að hún verði tekin til meðferðar.

Eins og atvikum er háttað í máli þessu eru engar þær ástæður fyrir hendi er réttlæta að kæran verði tekin til efnismeðferðar og ber því að vísa henni frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kröfum kærenda um ógildingu á ákvörðun skipulags- og mannvirkjanefndar Seltjarnarnesbæjar frá 4. mars 2004, um að veita byggingarleyfi til að byggja bílskúr á lóðinni nr. 25a við Miðbraut á Seltjarnarnesi, er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

____________________________________
Ásgeir Magnússon

______________________________               _______________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                          Ingibjörg Ingvadóttir

71/2002 Þúfukot

Með

Ár 2004, fimmtudaginn 29. júlí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 24, Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir hdl.

Fyrir var tekið mál nr. 71/2002, kæra eiganda jarðarinnar Þúfukots, Kjósarhreppi vegna framkvæmdar hreppsnefndar Kjósarhrepps við lagningu vegar í landi jarðarinnar Þúfukots.

Í málinu er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 27. desember 2002, framsendir Skipulagsstofnun kæru Þuríðar I. Jónsdóttur hdl., f.h. Ó, eiganda jarðarinnar Þúfukots í Kjósarhreppi vegna framkvæmdar hreppsnefndar við lagningu vegar í landi jarðarinnar Þúfukots. 

Kærandi krefst þess að vegurinn verði lagður í samræmi við staðfest skipulag svæðisins. 

Málavextir:  Með bréfi, dags. 31. maí 2002, gerir lögmaður kæranda máls þessa athugasemdir við vegarlagningu sveitarstjórnar á landareign hans.  Kvað hann kæranda aldrei hafa veitt samþykki sitt fyrir framkvæmdunum og að um þær hafi ekki verið samið.  Í bréfi oddvita hreppsnefndar, dags. 19. júní 2002, til lögmanns kæranda kemur fram að hreppsnefnd telji sig vera í fullum rétti vegna framkvæmdarinnar.  Með bréfi lögmanns kæranda til Kjósarhrepps, dags. 28. júní 2002, var óskað svara við því hvers vegna vegstæðið væri ekki í samræmi við staðfest skipulag svæðisins. 

Frekari bréfaskriftir áttu sér stað milli aðila vegna málsins en sættir tókust ekki og var málinu af þeim sökum vísað til úrskurðarnefndarinnar eins og að ofan greinir. 

Málsástæður kæranda:  Kærandi heldur því fram að framkvæmdir sveitarstjórnar á landi hans séu í ósamræmi við staðfest skipulag svæðisins.  Allar götur frá því í maí árið 2002 hafi kærandi reynt að ná samkomulagi við sveitarstjórn um vegstæðið en án árangurs.  Því kæri hann málið til úrskurðarnefndarinnar og krefjist þess að vegurinn verði gerður í samræmi við staðfest skipulag svæðisins. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um framkvæmdir við gerð vegar í landi jarðarinnar Þúfukots í Kjósarhreppi.  Fyrir liggur að framkvæmdir við gerð vegarins voru hafnar í maí árið 2002.  Kæran er dagsett hinn 23. desember 2002 og barst hún úrskurðarnefndinni með bréfi Skipulagsstofnunar, dags. 27. desember 2002. 

Kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar vegna ákvarðana byggingarnefnda og sveitarstjórna er einungis einn mánuður samkvæmt 4. mgr. 39. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 frá því að kæranda er kunnugt um hina kærðu ákvörðun. 

Eins og áður segir voru hinar umdeildu framkvæmdir hafnar í maí árið 2002 en þá leitaði kærandi upplýsinga um verkið hjá hreppsnefnd Kjósarhrepps.  Allt að einu setti hann ekki fram kæru í málinu fyrr en a.m.k. um hálfu ári eftir að framkvæmdir hófust.  Verður við það að miða að kærufrestur hafi byrjað að líða hinn 31. maí 2002, eða þann dag er kærandi sett fram skriflega fyrirspurn vegna framkvæmdarinnar. 

Með hliðsjón af framansögðu barst kæra í máli þessu að liðnum kærufresti og ber því samkvæmt 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að vísa málinu frá úrskurðarnefndinni. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna þess fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

________________________________
Ásgeir Magnússon

 

____________________________            ______________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                  Ingibjörg Ingvadóttir

25/2004 Múlakot

Með

Ár 2004, fimmtudaginn 10. júní, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir hdl.

Fyrir var tekið mál nr. 25/2004, kæra eigenda og ábúenda jarðarinnar Múlakots II, Rangárþingi eystra, á samþykkt sveitarstjórnar Rangárþings eystra frá 14. ágúst 2003, um deiliskipulag frístundabyggðar í landi Múlakots I. 

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi, dags. 15. apríl 2004, til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, er barst nefndinni hinn 16. sama mánaðar, kærir Atli Björn Þorbjörnsson hdl., f.h. G og S, eigenda og ábúenda Múlakots II, Rangárþingi eystra, samþykkt sveitarstjórnar Rangárþings eystra frá 14. ágúst 2003, um deiliskipulag frístundabyggðar í landi Múlakots I. 

Kærendur krefjast þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Málavextir:  Á fundi sveitarstjórnar Rangárþings eystra hinn 14. ágúst 2003 var samþykkt deiliskipulag frístundabyggðar í landi jarðarinnar Múlakots.  Tillaga að skipulaginu hafði verið auglýst og kynnt að fenginni heimild Skipulagsstofnunar skv. 3. tl. bráðabirgðaákvæða laga nr. 73/1997.  Kærendur settu á kynningartímanum fram athugasemdir við tillöguna og var þeim athugasemdum svarað.  Í kjölfar samþykktar á hinu kærða deiliskipulagi sendi sveitarstjórnin það til afgreiðslu Skipulagsstofnunar.  Var ákvörðunin loks birt í B-deild Stjórnartíðinda hinn 30. janúar 2004. 

Málsrök kærenda:  Kærendur halda því fram að þeir hafi lítið frétt af afdrifum deiliskipulagsins fyrr en hinn 25. mars 2004, en þann dag hafi þeim orðið kunnugt um að sveitarfélagið hafi látið samþykktina frá 14. ágúst 2003 standa og auglýst staðfestingu deiliskipulagsins í Stjórnartíðindum hinn 30. janúar 2004.  Telja kærendur að athugasemdir þær sem þeir hafi sett fram hafi ekki fengið þá umfjöllun sem tilefni hafi verið til og að þær athugasemdir og skilyrði sem sveitarstjórnin hafi sett fyrir samþykkt tillögunnar komi í raun ekki fram í deiliskipulaginu eins og það hafi verið auglýst. 

Kærendur telja að ekki hafi verið forsendur til að samþykkja deiliskipulag fyrir svæðið vegna þess að enn sé ekki til staðar aðalskipulag fyrir sveitarfélagið.  Telja kærendur það ófært, m.a. vegna þess hve viðurhlutamikla breytingu á svæðinu deiliskipulagið feli í sér.

Kærendur telja einnig að ekki hafi verið forsendur til að samþykkja hið kærða deiliskipulag vegna frárennslis- og veitumála og að skipulags- og byggingarnefnd hafi ekki hugað nægjanlega vel að því hvernig leysa ætti þau mál í ljósi þess gríðarlega fjölda bygginga sem fyrirhugað sé að reisa á svæðinu og þess mannfjölda sem fyrirsjáanlegt sé að muni koma þar saman.

Kærendur halda því og fram að deiliskipulagið hafi í för með sér skipulags slys, því með því að setja niður u.þ.b. 1000 manna frístundabyggð í hjarta sveitarinnar sé hið fallega yfirbragð Fljótshlíðarinnar eyðilagt.  Telja kærendur það til þess fallið að rýra eignir þeirra og annarra nágranna, sem felist í minni möguleikum kærenda og eigenda annarra jarða á svæðinu til landbúnaðarafnota jarðanna eða skipulagningar hófsamrar orlofsbyggðar á þeim.

Kærendur styðja kröfur sínar í þessu máli m.a. við þau rök að með umræddu deiliskipulagi hafi réttur einstaklinga og hagur heildarinnar verið fyrir borð borinn, sem sé andstætt 1. gr. laga nr. 73/1997.  Þá telja kærendur að ekki hafi verið tekið nægjanlegt tillit til ábendinga þeirra og sé það einnig andstætt markmiði áðurnefndra laga um áhrif íbúa á skipulag umhverfis síns.

Kærendur ítreka að þeim hafi ekki verið kunnugt um að deiliskipulagið hafi hlotið staðfestingu og verið auglýst fyrr en þann 25. mars 2004.  Telja kærendur sig því vera innan fresta skv. 2. gr. reglugerðar nr. 621/1997 og benda einnig í því sambandi á 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sérstaklega 2. mgr., sem og 2. mgr. 28. gr. sömu laga.

Niðurstaða:  Eins og mál þetta liggur fyrir kemur fyrst til skoðunar hvort kærufrestur hafi verið liðinn þegar kæra í málinu barst úrskurðarnefndinni hinn 16. apríl 2004.  Um kærufrest í málinu gildir ákvæði 2. gr. reglugerðar nr. 621/1997, sbr. 39. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, en samkvæmt tilvitnuðum ákvæðum er kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því aðila er kunnugt um afgreiðslu sveitarstjórnar á þeirri samþykkt, sem hann hyggst kæra. 

Í tilviki því er hér um ræðir sætti hin kærða ákvörðun birtingu í B-deild Stjórnartíðinda samkvæmt 4. mgr. 25. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Um slíkar birtingar gilda ákvæði laga nr. 64/1943 um birtingu laga og stjórnvaldaerinda, en í 2. málsl. 7. gr. þeirra laga segir: „Birt fyrirmæli skulu binda alla frá og með 1. degi þess mánaðar, er liðnir eru 3 almanaksmánuðir hið skemmsta frá útgáfudegi þess blaðs Stjórnartíðinda, er fyrirmælin voru birt, nema þau geymi aðrar ákvarðanir um gildistöku sína.“

Í auglýsingu þeirri er birt var hinn 30. janúar 2004 um gildistöku hinnar umdeildu skipulagsákvörðunar var kveðið á um að deiliskipulagið öðlaðist þegar gildi.  Samkvæmt 7. gr. laga nr. 64/1943 miðast réttaráhrif ákvörðunarinnar við það tímamark og markar það m.a. upphaf  kærufrests, sbr. 2. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en af því ákvæði verður ráðið að upphaf kærufrests skuli miða við opinbera birtingu sé mælt fyrir um hana að lögum.  Var kærufrestur því löngu liðinn er kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni og ber því, samkvæmt 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, að vísa kærunni frá, enda verður ekki fallist á að afsakanlegt hafi verið að kæran barst of seint þegar til þess er litið að kærendur höfðu látið hina umdeildu skipulagsákvörðun til sín taka og var í lófa lagið að fylgjast með framvindu málsins.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

_______________________________
Ásgeir Magnússon

______________________________               ______________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                          Ingibjörg Ingvadóttir