Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

83/2009 Rafveitueftirlitsgjald

Með

Ár 2009, miðvikudaginn 16. desember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 83/2009, kæra Landsvirkjunar frá 10. nóvember 2009 á ákvörðun Neytendastofu og Fjársýslu ríkisins um að hafna því að fella niður dráttarvexti vegna meintra vanskila á rafveitueftirlitsgjaldi. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 1. desember 2009, er barst nefndinni 4. sama mánaðar, framsendir fjármálaráðuneytið nefndinni erindi Þórðar Bogasonar hrl., f.h. Landsvirkjunar, dags. 10. nóvember 2009, þar sem kærð er ákvörðun Neytendastofu og Fjársýslu ríkisins um að hafna því að fella niður dráttarvexti vegna meintra vanskila á rafveitueftirlitsgjaldi vegna áranna 2004 og 2005. 

Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.  Til vara er þess krafist að ákvörðuninni verið vísað á ný til Fjársýslu ríkisins til lögmætrar meðferðar.

Málavextir og rök:  Fjármálaráðuneytið vísar í framangreindu bréfi til úrskurðarnefndarinnar til reglugerðar nr. 678/2009 og bendir á að í 9. gr. hennar sé kveðið á um að bera megi ágreining um gjaldskyldu eða gjaldstofn rafveitueftirlitsgjalds undir úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála.

Málsástæður og lagarök kæranda koma fram í stjórnsýslukæru, dags. 10. nóvember 2009.  Byggir kærandi á því að fyrir liggi staðfesting á því að hann hafi verið skuldlaus hvað umrædd gjöld varði hinn 13. ágúst 2008 og því geti ekki verið um að ræða neina ógreidda dráttarvexti frá fyrri tíma.  Þá hafi Neytendastofa sýnt af sér slíkt tómlæti að hið opinbera hafi fyrirgert rétti sínum til að hafa kröfuna uppi, auk þess sem meint krafa sé fyrnd.

Niðurstaða:  Með lögum nr. 29/2009 voru gerðar umtalsverðar breytingar á lögum nr. 146/1996 um öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga, og var Brunamálastofnun m.a. falið eftirlit samkvæmt lögunum með öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga í mannvirkjum.  Segir nú í 7. mgr. 11. gr. laga nr. 146/1996 að stjórnvaldsákvarðanir Brunamálastofnunar sem teknar séu á grundvelli laganna séu kæranlegar til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, sem starfi á grundvelli 8. gr. skipulags- og byggingarlaga, að undanskildum ákvörðunum um dagsektir.

Að orðnum þeim lagabreytingum sem nú var lýst setti umhverfisráðherra reglugerð nr. 678/2009 með stoð í lögum nr. 146/1996 m.s.br.  Segir þar í 2. mgr. gr. 9.4 að ágreining um gjaldskyldu eða gjaldstofn samkvæmt greininni megi bera undir úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála, að því undanskildu að ágreining um gjaldskyldu eða gjaldstofn vegna þeirra raffanga er heyri undir markaðseftirlit Neytendastofu megi bera undir áfrýjunarnefnd neytendamála.

Þótt talið væri að tilvitnað reglugerðarákvæði ætti sér fullnægjandi stoð í 7. mgr. 11. gr. laga nr. 146/1996 m.s.br. er augljóst að álagning þeirra gjalda sem liggja ættu að baki hinni umdeildu vaxtakröfu getur ekki átt rót að rekja til neinnar stjórnvaldsákvörðunar Brunamálastofnunar sem borin verði undir úrskurðarnefndina.  Jafnframt þykir einsýnt að hvað sem líður stjórnskipulegu gildi ákvæðis 2. mgr. gr. 9.4 í reglugerð nr. 678/2009 yrði því ekki beitt afturvirkt um ágreining, sem á rót að rekja til álagningar gjalda vegna áranna 2004 og 2005.  Á ágreiningsefni máls þessa því ekki undir úrskurðarnefndina og verður málinu af þeim sökum vísað frá.

Úrskurðarorð: 

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

______________________________
Hjalti Steinþórsson

______________________________       ___________________________
         Ásgeir Magnússon                                     Þorsteinn Þorsteinsson

110/2008 Ögurhvarf

Með

Ár 2009, miðvikudaginn 16. desember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 110/2008, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í  Kópavogi frá 29. október 2008 um að veita byggingarleyfi fyrir innréttingu veitingahúss á 1. hæð fasteignarinnar að Ögurhvarfi 6 í Kópavogi. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 9. desember 2008, er barst nefndinni sama dag, kæra M, Dimmuhvarfi 27 og S, Dimmuhvarfi 23, Kópavogi, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í  Kópavogi frá 29. október 2008 að veita byggingarleyfi fyrir innréttingu veitingahúss á 1. hæð fasteignarinnar að Ögurhvarfi 6 í Kópavogi. 

Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.  Jafnframt var gerð krafa um bráðabirgðaúrskurð um stöðvun framkvæmda en þar sem engar framkvæmdir hafa verið  á grundvelli hins kærða leyfis hefur ekki verið tilefni til að taka afstöðu til stöðvunarkröfunnar.

Málsatvik og rök:  Að Ögurhvarfi 6 í Kópavogi er nýbygging og er lóð hússins á  svæði sem skilgreint er sem athafnasvæði í Aðalskipulagi Kópavogs 2000-2012.  Liggur það að íbúðarsvæði þar sem kærendur búa.

Hinn 29. október 2008 samþykkti byggingarfulltrúinn í Kópavogi umsókn um leyfi til að innrétta veitingastað á 1. hæð hússins að Ögurhvarfi 6.  Bæjarstjórn staðfesti þá afgreiðslu hinn 11. nóvember sama ár.  Skutu kærendur þeirri ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir.

Benda kærendur á að veitingarekstur falli ekki að skilgreiningu athafnasvæðis og fari leyfið því í bága við gildandi skipulag svæðisins.  Óeðlilegt sé að staðsetja veitinga- og skemmtistað nánast í bakgarði íbúðarhúsa við Dimmuhvarf, í hverfi sem hafi verið kynnt sem friðsæl „sveit í bæ“.  Búast megi við slíkum hávaða frá umferð fólks og farartækja vegna umdeilds veitingarekstrar að telja verði leyfisveitinguna atlögu að friðhelgi heimila kærenda sem standi aðeins í um 30 metra fjarlægð frá fyrirhuguðum veitingastað.  Þá sé ljóst að íbúðareignir í nágrenninu muni falla verulega í verði.  

Niðurstaða:  Samkvæmt 6. mgr. 44. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 fellur staðfesting sveitarstjórnar fyrir veitingu byggingarleyfis úr gildi hafi byggingarleyfi ekki verið gefið út samkvæmt nefndri 44. gr. innan 12 mánaða frá staðfestingunni.

Bæjarstjórn Kópavogs staðfesti veitingu hins kærða byggingarleyfis hinn 11. nóvember 2008 en samkvæmt upplýsingum frá byggingaryfirvöldum bæjarins hefur byggingarleyfi skv. 44. gr. skipulags- og byggingarlaga ekki verið gefið út fyrir hinum heimiluðu framkvæmdum og engar framkvæmdir átt sér stað.  Liggur því fyrir að staðfesting bæjarstjórnar er fallin úr gildi þar sem meira en ár er liðið frá henni án þess að byggingarleyfi hafi verið gefið út.   

Eins og málum er komið hafa kærendur ekki lengur hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi hinnar kærðu ákvörðunar og verður málinu vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

___________________________
Hjalti Steinþórsson

___________________________            _____________________________
Ásgeir Magnússon                                         Þorsteinn Þorsteinsson  

152/2007 Heiðaþing

Með

Ár 2009, fimmtudaginn 3. desember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mætt voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor. 

Fyrir var tekið mál nr. 152/2007, kæra á ákvörðun bæjarráðs Kópavogs frá 7. september 2007 um breytingu á deiliskipulagi vegna lóðanna að Heiðaþingi 2 og 4 í Kópavogi. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 9. nóvember 2007, er barst nefndinni sama dag, kærir Guðjón Ólafur Jónsson hrl., f.h. Ö og S, Heiðaþingi 6, Kópavogi ákvörðun bæjarráðs Kópavogs frá 7. september 2007 um breytingu á deiliskipulagi vegna lóðanna að Heiðaþingi 2 og 4 í Kópavogi, sem fól m.a. í sér að parhús á lóðunum mættu vera tveggja hæða í stað einnar.  Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Málsatvik og rök:  Á árinu 2005 tók gildi deiliskipulag fyrir suðursvæði Vatnsenda er tekur m.a. til umræddra lóða við Heiðaþing í Kópavogi.  Samkvæmt deiliskipulagsskilmálum skyldu fyrirhuguð hús á lóðunum vera einnar hæðar parhús með innbyggðum bílageymslum, en heimilt var að hafa kjallara fyrir geymslur undir húsunum að hluta. 

Á fundi skipulagsnefndar hinn 6. júní 2006 var lagt fram erindi þáverandi lóðarhafa Heiðaþings 2-4 þar sem farið var fram á frávik frá gildandi skipulagi að því leyti að heimilað yrði að nýta kjallararými sem íbúðarherbergi og að svalir næðu út fyrir byggingarreit.  Var samþykkt að kynna tillöguna fyrir lóðarhöfum Heiðaþings 6 og 8 og Gulaþings 1 og 3. 

Að lokinni grenndarkynningu var málið tekið fyrir á fundi skipulagsnefndar 8. ágúst 2006 þar sem lá fyrir umsögn bæjarskipulags um fram komnar athugasemdir frá lóðarhöfum Heiðaþings 6 og 8 varðandi skuggavarp og frágang á lóðamörkum.  Skipulagsnefnd fjallaði um erindið á fundi 22. ágúst 2006 ásamt tillögum um útfærslu og frágang á lóðamörkum vegna athugasemda kærenda.  Var skipulagsstjóra falið að kynna tillöguna fyrir lóðarhöfum og í kjölfarið gáfu lóðarhafar Heiðaþings 2 og 4 út yfirlýsingu þar sem samþykkt var að reistur yrði skjólveggur á lóðamörkum Heiðaþings 4 og 6 og því lýst yfir að lóðarhafar Heiðaþings 4 myndu setja upp stoðvegg á lóð sinni. 

Skipulagsnefnd samþykkti síðan tillögu um útfærslu deiliskipulags varðandi Heiðaþing 2 og 4 og vísaði málinu til bæjarráðs sem samþykkti tillöguna á fundi hinn 7. september 2006.  Skutu kærendur í máli þessu þeirri ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar sem vísaði málinu frá hinn 20. september 2007 þar sem á skorti að auglýsing um gildistöku skipulagsbreytingarinnar hefði verið birt í B-deild Stjórnartíðinda. 

Umrædd deiliskipulagsbreyting tók síðan gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda hinn 12. október 2007 og skutu kærendur ákvörðuninni til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir. 

Byggja kærendur á því að hin kærða ákvörðun sé haldin form- og efnisannmörkum.  Ekki sé um óverulega skipulagsbreytingu að ræða, sem unnt sé að framkvæma með grenndarkynningu, auk þess sem kynningunni hafi verið ábótavant.  Skipulagsbreytingin feli í sér brot gegn jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar og byggingarframkvæmdir á lóðunum hafi verið hafnar áður en umdeild skipulagsbreyting hafi öðlast gildi.  Misræmi sé milli uppdráttar og greinargerðar skipulagsbreytingarinnar auk þess sem engin efnisleg rök séu fyrir breytingunni en hún raski grenndarhagsmunum kærenda. 

Hinn 2. maí 2008 birtist í B-deild Stjórnartíðinda svohljóðandi:  „Auglýsing um afgreiðslu bæjarráðs Kópavogs á auglýstri tillögu að deiliskipulagi Vatnsendi – Þing,  Heiðaþing 2-4, breytt deiliskipulag.  Í samræmi við skipulags- og byggingarlög nr. 73/1997, með síðari breytingum, hefur bæjarráð Kópavogsbæjar samþykkt þann 17. apríl 2008 að afturkalla á grundvelli 2. mgr. 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 ákvörðun um breytingu á deiliskipulagi fyrir lóðina Heiðaþing 2-4.“ 

Ekki hafa borist athugasemdir eða umsögn Kópavogsbæjar vegna kærumálsins en í kærumáli fyrir úrskurðarnefndinni, nr. 16/2009, sem snýst um byggingarleyfi fyrir parhúsum að Heiðaþingi 2-4, kemur sú afstaða bæjaryfirvalda fram að hin kærða deiliskipulagsbreyting hafi verið afturkölluð með áðurnefndri auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda. 

Niðurstaða:  Skipulagsnefnd Kópavogs samþykkti á fundi sínum hinn 15. apríl 2008 að afturkalla hina kærðu deiliskipulagsbreytingu er tók til Heiðaþings 2-4.  Fundargerð skipulagsnefndar frá þeim fundi var til umfjöllunar á fundi bæjarráðs hinn 17. apríl sama ár þar sem afstaða var tekin til tiltekinna liða hennar.  Þar er þó ekki að finna bókun í fundargerð ráðsins um afstöðu þess til afturköllunar umdeildrar deiliskipulagsbreytingar.  Hins vegar var fyrrgreind fundargerð skipulagsnefndar á dagskrá fundar bæjarstjórnar hinn 22. apríl 2008 og þar bókað:  „Fundargerðin afgreidd án umræðu.“  Auglýsing um afturköllun deiliskipulagsbreytingar vegna Heiðaþings 2-4 birtist svo í B-deild Stjórnartíðinda hinn 2. maí 2008 eins og áður greinir. 

Samkvæmt 23. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 tekur sveitarstjórn ákvarðanir um deiliskipulag.  Þeir annmarkar eru á málsmeðferð umræddrar afturköllunar, að ekki kom fram í bókunum viljaafstaða bæjarráðs eða bæjarstjórnar til hennar og ekki er tilgreint með ótvíræðum hætti í auglýsingu til hvaða skipulagsbreytingar afturköllunin tekur.  Með hliðsjón af því að ekki liggur fyrir að önnur deiliskipulagsbreyting hafi verið gerð er snerti umræddar lóðar en sú sem kærð er í máli þessu og sú afstaða bæjaryfirvalda liggur fyrir að afturköllunin eigi við um hina kærðu ákvörðun verður lagt til grundvallar í máli þessu að Kópavogsbær hafi með skuldbindandi hætti fallið frá hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu.  Þykja kærendur því ekki lengur hafa hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi hinnar kærðu ákvörðunar og verður málinu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

___________________________
Hjalti Steinþórsson

_____________________________       ______________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                               Aðalheiður Jóhannsdóttir

44/2008 Urðarmói

Með

Ár 2009, miðvikudaginn 2. desember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 44/2008, kæra á ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Árborgar frá 12. júní 2008 um að veita leyfi til byggingar einbýlishúss á lóðinni nr. 6 við Urðarmóa á Selfossi. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 1. júlí 2008, er barst nefndinni 2. sama mánaðar, kærir Óskar Sigurðsson hrl., f.h. M og S, Urðarmóa 10 og A og B, Urðarmóa 12, Selfossi, ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Árborgar frá 12. júní 2008 um að veita leyfi til byggingar einbýlishúss á lóðinni að Urðarmóa 6 á Selfossi.  Bæjarráð staðfesti þá ákvörðun hinn 27. sama mánaðar. 

Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.  Jafnframt er gerð krafa um bráðabirgðaúrskurð um stöðvun framkvæmda á meðan málið sé til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.  Þar sem málið telst nægjanlega upplýst til þess að taka það til endanlegs úrskurðar, og hinum umdeildu framkvæmdum var að mestu lokið er kæra barst, verður ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kærenda. 

Málavextir og rök:  Kærumál þetta á sér nokkurn aðdraganda, en 14. febrúar 2008 var tekin fyrir á fundi skipulags- og byggingarnefndar umsókn lóðarhafa um leyfi til byggingar einbýlishúss á lóðinni að Urðarmóa 6 og var hún samþykkt.  Með úrskurði úrskurðarnefndarinnar, uppkveðnum hinn 6. maí s.á., var leyfið fellt úr gildi með vísan til þess að það væri ekki í samræmi við gildandi deiliskipulag svæðisins.  Á fundi bæjarráðs 25. apríl 2008 var samþykkt breyting á deiliskipulagi vegna lóðarinnar nr. 6 við Urðarmóa og birtist auglýsing um gildistöku breytingarinnar í B-deild Stjórnartíðinda 8. maí s.á.  Var sú ákvörðun kærð til úrskurðarnefndarinnar.

Á fundi skipulags- og byggingarnefndar 12. júní 2008 var samþykkt leyfi til byggingar einbýlishúss á lóðinni að Urðarmóa 6.  Bæjarráð staðfesti þá ákvörðun hinn 27. s.m. 

Hafa kærendur kært ákvörðun bæjaryfirvalda um byggingarleyfið eins og að framan greinir. 

Af hálfu kærenda er vísað til þess að þeir séu eigendur aðliggjandi lóða við Urðarmóa 10 og 12 og hafi því lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins, sbr. einnig úrskurð úrskurðarnefndarinnar frá 6. maí 2008 þar sem staðfestir hafi verið lögvarðir hagsmunir þeirra. 

Um málsástæður og lagarök fyrir kærunni sé að öðru leyti vísað til rökstuðnings og lagaraka með kæru þeirra til úrskurðarnefndarinnar á samþykkt bæjarráðs um breytt deiliskipulag vegna lóðarinnar að Urðarmóa 6.  Sé á því byggt að gildi byggingarleyfisins velti á gildi deiliskipulagsbreytingarinnar.  Verði hún felld úr gildi leiði það til þess að fella beri hið kærða byggingarleyfi úr gildi. 

Fyrir liggi að húsið á lóð nr. 6 við Urðarmóa hafi verið reist í andstöðu við gildandi deiliskipulag.  Óheimilt sé skv. 4. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 að breyta skipulagi svæðis þar sem framkvæmt hafi verið í ósamræmi við skipulag fyrr en hin ólöglega bygging, eða byggingarhluti, hafi verið fjarlægð, jarðrask afmáð eða starfsemi hætt. 

Af hálfu Árborgar er þess krafist að kröfu kærenda verði vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem þeir uppfylli ekki skilyrði 3. ml. 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga um kæruaðild.  Kærendur séu eigendur lóðanna nr. 10 og nr. 12 við Urðarmóa og byggi þeir á því að af þeirri ástæðu einni eigi þeir lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins.  Með breytingu þeirri sem gerð hafi verið á deiliskipulagi lóðarinnar að Urðarmóa 6 hafi leyfilegum þakhalla hússins að Urðarmóa 6 verið breytt.  Áfram sé um að ræða einbýlishús á einni hæð í samræmi við upphaflegt deiliskipulag.  Umrædd bygging sé öll innan skilgreinds byggingarreits og sé mesta hæð hennar u.þ.b. einum metra minni en heimilt sé samkvæmt deiliskipulagsskilmálum, auk þess sem vegghæð sé í fullu samræmi við þá.  Sé því ljóst að umrædd breyting hafi engin áhrif gagnvart fasteignum kærenda.  Byggingin sé hvorki hækkuð né henni breytt á nokkurn þann hátt sem kunni að hafa áhrif á grenndarrétt kærenda.  Breytingin komi ekki til með að valda auknu skuggavarpi eða draga úr útsýni frá fasteignum kærenda eða á nokkurn annan hátt valda kærendum óþægindum.  Með vísan til þessa hafi kærendur ekki lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins.  Verði ekki á framangreint fallist sé vísað til þess að hið kærða leyfi sé í fullu samræmi við deiliskipulag svæðisins. 

Af hálfu byggingarleyfishafa er kröfu kærenda mótmælt og þess krafist að henni verið hafnað. 

———–

Aðilar hafa fært fram frekari rök fyrir sjónarmiðum sínum sem ekki verða rakin nánar, en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins. 

Vettvangsganga:  Úrskurðarnefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi hinn 20. nóvember 2009.  Að vettvangsgöngu lokinni aflaði úrskurðarnefndin gagna um hæðarsetningu og mænishæðir húsa á umræddu svæði auk séruppdrátta að burðarvirki þaks Urðarmóa 6.  Hafa þau gögn verið kynnt umboðmanni kærenda og honum gefinn kostur á að tjá sig um þau. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um gildi ákvörðunar skipulags- og byggingarnefndar Árborgar frá 12. júní 2008 um að veita leyfi til byggingar einbýlishúss á lóðinni að Urðarmóa 6 á Selfossi.  Bæjarráð staðfesti þá ákvörðun hinn 27. sama mánaðar.  Áður höfðu kærendur skotið til úrskurðarnefndarinnar samþykkt bæjarráðs frá 25. apríl s.á. um breytt deiliskipulag vegna lóðarinnar.  Með úrskurði uppkveðnum fyrr í dag var því máli vísað frá úrskurðarnefndinni með þeim rökum að kærendur ættu ekki lögvarða hagsmuni.  Er rakið í þeim úrskurði að bygging hússins að Urðarmóa 6 hafi ekki haft nein grenndaráhrif er máli skipti gagnvart fasteignum kærenda að Urðarmóa 10 og 12 umfram það sem búast hafi mátt við samkvæmt upphaflegu deiliskipulagi svæðisins. 

Ekki verður séð að með hinu kærða byggingarleyfi hafi verið gengið gegn lögvörðum hagsmunum kærenda frekar en með áður nefndri skipulagsbreytingu.  Eiga kærendur því ekki lögvarða hagmuni af úrlausn máls þessa og verður því af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

____________________________          _____________________________
Ásgeir Magnússon                                         Þorsteinn Þorsteinsson

35/2008 Urðarmói

Með

Ár 2009, miðvikudaginn, 2. desember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 35/2008, kæra á samþykkt bæjarráðs Árborgar frá 23. apríl 2008 um breytt deiliskipulag Hagalands vegna lóðarinnar nr. 6 við Urðarmóa á Selfossi. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 19. maí 2008, er barst nefndinni 26. sama mánaðar, kærir Óskar Sigurðsson hrl., f.h. M og S, Urðarmóa 10 og A og B, Urðarmóa 12, Selfossi, samþykkt bæjarráðs Árborgar frá 25. apríl 2008 um breytt deiliskipulag Hagalands vegna lóðarinnar nr. 6 við Urðarmóa.  Auglýsing um gildistöku samþykktarinnar birtist í B-deild Stjórnartíðinda 7. maí 2008. 

Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Málavextir og rök:  Kærumál þetta á sér nokkurn aðdraganda, en 14. febrúar 2008 var tekin fyrir á fundi skipulags- og byggingarnefndar umsókn lóðarhafa um leyfi til byggingar einbýlishúss á lóðinni að Urðarmóa 6 og var hún samþykkt.  Áður hafði verið grenndarkynnt tillaga að breyttum þakhalla fyrirhugaðs húss á lóðinni en ekki hafði verið gengið frá breytingu á deiliskipulagi til samræmis við þau áform þegar byggingarleyfið var veitt.  Skutu nágrannar ákvörðun bæjaryfirvalda um byggingarleyfið til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála sem felldi leyfið úr gildi, með úrskurði uppkveðnum 6. maí 2008, með vísan til þess að það væri ekki í samræmi við gildandi deiliskipulag svæðisins. 

Á fundi skipulags- og byggingarnefndar 23. apríl 2008 var eftirfarandi fært til bókar:  „Við afgreiðslu skipulags- og byggingarnefndar á byggingarleyfisumsókn lóðareiganda að Urðarmóa 6, var samþykkt byggingarleyfi í kjölfar grenndarkynningar, án þess að deiliskipulagi hafi áður verið breytt svo sem mælt er fyrir um í 2. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Þess vegna má færa rök fyrir því að byggingarleyfið sé ekki í samræmi við gildandi deiliskipulag.  Er því nauðsynlegt að samþykkja meðfylgjandi greinargerð að breyttu deiliskipulagi, þar sem heimilað er að þakhalli á lóðinni að Urðarmóa 6, verði 42°.“ Á fundi bæjarráðs 25. sama mánaðar var framangreint samþykkt.  Birtist auglýsing um gildistöku breytingarinnar í B-deild Stjórnartíðinda 8. maí 2008.

Skutu kærendur þeirri samþykkt bæjaryfirvalda til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir. 

Af hálfu kærenda er vísað til þess að þeir séu eigendur aðliggjandi lóða við Urðarmóa 10 og 12 og hafi því lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins, sbr. einnig úrskurð úrskurðarnefndarinnar frá 6. maí 2008 þar sem staðfestir hafi verið lögvarðir hagsmunir þeirra. 

Fyrir liggi að húsið á lóðinni nr. 6 við Urðarmóa hafi verið byggt í ósamræmi við gildandi deiliskipulagsskilmála.  Af 4. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 leiði að óheimilt sé að breyta deiliskipulaginu til samræmis við ólögmætar framkvæmdir nema að framkvæmdir verði a.m.k. fyrst fjarlægðar, sbr. 2. mgr. sömu greinar.  Beytingar á nýlegu deiliskipulagi, eins og hér um ræði, verði að byggja á lögmætum og málefnalegum sjónarmiðum.  Hagsmunir eins lóðarhafa um aukna nýtingu og rýmri skilmála gegn hagsmunum annarra húseigenda á svæðinu geti ekki talist málefnaleg sjónarmið í þessu sambandi.  Breytingin sé því ólögmæt.  Þá samræmist hin kærða breyting ekki reglum stjórnsýsluréttar um samræmi og jafnræði borgaranna.  Ef samþykkja eigi slík frávik frá gildandi deiliskipulagi, sem breyting á þakhalla feli í sér, beri að endurskoða skilmála alls svæðisins í heild.  Loks felist í hinni kærðu breytingu leyfi til byggingar tveggja hæða húss á lóðinni þvert gegn fyrirmælum deiliskipulags.  

Af hálfu Árborgar er þess krafist að kröfu kærenda verði vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem þeir uppfylli ekki skilyrði 3. ml. 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga um aðild máls.  Kærendur séu eigendur lóðanna nr. 10 og nr. 12 við Urðarmóa og byggi þeir á því að af þeirri ástæðu einni eigi þeir lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins.  Með breytingu þeirri sem gerð hafi verið á deiliskipulagi lóðarinnar að Urðarmóa 6 hafi leyfilegum þakhalla hússins verið breytt úr 14-25 í 42°.  Áfram sé um að ræða einbýlishús á einni hæð í samræmi við upphaflegt deiliskipulag.  Umrædd bygging sé öll innan skilgreinds byggingarreits og sé mesta hæð hennar u.þ.b. einum metra lægri en heimilt sé samkvæmt deiliskipulagsskilmálum, auk þess sem vegghæð sé í fullu samræmi við þá.  Sé því ljóst að umrædd breyting hafi engin áhrif gagnvart fasteignum kærenda.  Ekki sé byggingin hækkuð eða henni breytt á nokkurn þann hátt sem kunni að hafa áhrif á grenndarrétt kærenda.  Breytingin komi ekki til með að valda auknu skuggavarpi eða draga úr útsýni frá fasteignum kærenda eða á nokkurn annan hátt valda kærendum óþægindum.  Með vísan til þessa hafi kærendur ekki lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins. 

Af hálfu lóðarhafa Urðarmóa 6 er kröfu kærenda mótmælt og þess krafist að henni verið hafnað. 

———–

Aðilar hafa fært fram frekari rök fyrir sjónarmiðum sínum sem ekki verða rakin nánar, en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins. 

Vettvangsganga:  Úrskurðarnefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi hinn 20. nóvember 2009.  Að vettvangsgöngu lokinni aflaði úrskurðarnefndin gagna um hæðarsetningu og mænishæðir húsa á umræddu svæði auk séruppdrátta að burðarvirki þaks Urðarmóa 6.  Hafa þau gögn verið kynnt umboðmanni kærenda og honum gefinn kostur á að tjá sig um þau. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um gildi ákvörðunar bæjarráðs Árborgar frá 25. apríl 2008 um breytt deiliskipulag Hagalands vegna lóðarinnar nr. 6 við Urðarmóa.  Hafa kærendur vísað til þess að þeir séu eigendur aðliggjandi lóða og eigi því lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins.  Að mati þeirra sé húsið að Urðarmóa 6 í raun tveggja hæða, en það fari í bága við deiliskipulag og snerti hagsmuni kærenda sérstaklega. 

Sveitarfélagið Árborg krefst frávísunar málsins með þeim rökum að kærendur fullnægi ekki skilyrði 3. ml. 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga um aðild máls. 

Eins og að framan er rakið felldi úrskurðarnefndin úr gildi fyrra byggingarleyfi fyrir húsinu að Urðarmóa 6, með úrskurði uppkveðnum 6. maí 2008, með vísan til þess að leyfið væri ekki í samræmi við gildandi deiliskipulag svæðisins.  Taldi nefndin þá að kærendur ættu lögvarinna hagsmuna að gæta í málinu sem væru þó ekki stórfelldir.  Sætti málið flýtimeðferð þar sem krafa var uppi um stöðvun framkvæmda.  Fór ekki fram skoðun á aðstæðum á vettvangi, enda var bygging húsa á svæðinu þá skemmra á veg komin en nú er og því síður hægt að átta sig á aðstæðum við skoðun. 

Eftir skoðun á vettvangi og frekari öflun gagna tók nefndin til endurskoðunar fyrra mat sitt á hagsmunum kærenda.  Verður ekki fallist á að lóðir kærenda séu aðliggjandi að lóðinni að Urðarmóa 6 enda er botnlangagata milli Urðarmóa 10 og Urðarmóa 6.  Þá er húsið nr. 6 ekki í götulínu heldur standast á norðvesturhorn lóðarinnar að Urðarmóa 10 og suðausturhorn lóðarinnar að Urðarmóa 6.  Vegna afstöðu húsanna og innra fyrirkomulags þakrýmis yfir bílskúr að Urðarmóa 6 er komið í veg fyrir að séð verði út um glugga á því rými yfir á lóðir kærenda, en samkvæmt samþykkum uppdrætti er nærri tveggja metra bil frá geymslupalli í þakrýminu að gafli þeim sem umræddur gluggi er á. 

Ekki verður heldur fallist á að húsið að Urðarmóa 6 geti talist tveggja hæða.  Er miðrými þess að mestu opið upp í þakið en yfir herbergjum eru þakgrindur í öllum rýmum sem koma í veg fyrir nýtingu þeirra til íveru og virðast fullyrðingar kærenda um tveggja hæða hús vera á misskilningi byggðar. 

Þá er í ljós leitt að mænishæð hússins að Urðarmóa 6 er rúmum metra minni en heimilt væri samkvæmt skilmálum upphaflegs deiliskipulags svæðisins.  Jafnframt er óumdeilt að húsið er innan byggingarreits og veldur það því hvorki skuggavarpi ná skerðingu á útsýni umfram það sem búast mátti við samkvæmt skipulaginu.  Loks er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar eftir skoðun á vettvangi að útlit hússins að Urðarmóa 6 sé ekki svo frábrugðið útliti annarra húsa á svæðinu að máli skipti, sérstaklega þegar litið er til þess að á svæðinu eru hús ólíkrar gerðar sem sum eru verulega frábrugðin þeirri húsagerð sem algengust er þar.  Nægir þar að nefna húsið að Urðarmóa 3, sem er í næsta nágrenni kærenda. 

Að öllu þessu virtu, og með hliðsjón af því að hin umdeilda breyting tekur aðeins til þakhalla húss á einni lóð, er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að kærendur hafi ekki sýnt fram á að hin kærða breyting á deiliskipulagi raski verulegum og einstaklegum hagsmunum þeirra sem er skilyrði kæruaðildar fyrir úrskurðarnefndinni, sbr. 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Málsástæða þeirra um að óheimilt hafi verið að samþykkja hina umdeildu skipulagsbreytingu vegna ákvæðis 4. mgr. 56. gr. laganna lýtur að gæslu almannahagsmuna og veitir kærendum ein og sér ekki kæruaðild.  Verður málinu samkvæmt framansögðu vísað frá úrskurðarnefndinni vegna aðildarskorts kærenda. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

____________________________         _____________________________
Ásgeir Magnússon                                        Þorsteinn Þorsteinsson

154/2007 Gámasvæði

Með

Ár 2009, miðvikudaginn 2. desember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 154/2007, kæra á ákvörðun hreppsnefndar Rangárþings ytra frá 10. október 2007 um að samþykkja deiliskipulag gámasvæðis á Hellu. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 14. nóvember 2007, er barst nefndinni samdægurs, kærir M, framkvæmdarstjóri Reykjagarðs hf., þá ákvörðun hreppsnefndar Rangárþings ytra frá 10. október 2007 að samþykkja deiliskipulag gámasvæðis á Hellu. 

Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Málavextir og rök:  Á fundi skipulagsnefndar Rangárþings ytra hinn 14. júní 2007 var lögð fram tillaga að deiliskipulagi gámasvæðis á Hellu.  Var tillagan tekin fyrir í hreppsnefnd hinn 4. júlí 2007 og samþykkt að auglýsa hana.  Birtist auglýsing um tillöguna m.a. í Lögbirtingarblaðinu og bárust hreppsnefnd athugasemdir.  Á fundi skipulagsnefndar 10. október 2007 var fjallað um athugasemdirnar og á fundi hreppsnefndar sama dag var tillagan samþykkt.  Auglýsing um gildistöku samþykktarinnar hefur ekki birst í B-deild Stjórnartíðinda. 

Af hálfu kæranda er vísað til þess að fyrirhugað gámasvæði sé staðsett beint á móti húsi  sem hann reki í sláturhús og kjötvinnslu.  Um matvælavinnslu sé að ræða og mikilvægt að forðast alla lyktar- og sýklamengun. 

Af hálfu hreppsnefndar er vísað til þess að hin kærða samþykkt hafi ekki hlotið endanlega afgreiðslu þar sem auglýsing um gildistöku hennar hafi ekki verið birt í B-deild Stjórnartíðinda eins og gert sé ráð fyrir í 25. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Slík auglýsing sé gildistökuskilyrði og marki upphaf kærufrests, sbr. lokamálslið 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Því sé ekki unnt að taka kæruna til efnislegrar meðferðar eða ógilda ákvörðun hreppsnefndar sem ekki hafi öðlast gildi að lögum.  Beri því að vísa kærunni frá úrskurðarnefndinni. 

Niðurstaða:  Fyrir liggur að umþrætt deiliskipulag, er hreppsnefnd samþykkti hinn 10. október 2007, hefur ekki öðlast gildi með birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda í samræmi við lokamálsgrein 25. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, sbr. og 2. mgr. gr. 6.4 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998.  Hin kærða ákvörðun fól því ekki í sér lokaákvörðun í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sem kærð verður til úrskurðarnefndarinnar, og styðst sú ályktun enn fremur við 2. mgr. 27. gr. sömu laga, sem kveður á um að upphaf kærufrests miðist við opinbera birtingu ákvörðunar, þar sem slík birting sé lögmælt.  Að þessu virtu verður kærumáli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikils málafjölda er skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

_________________________________
Hjalti Steinþórsson

______________________________             ____________________________
Ásgeir Magnússon                                                 Þorsteinn Þorsteinsson

64/2009 Hafnarfjörður, aðalskipulag

Með

Ár 2009, fimmtudaginn 1. október, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 64/2009, kæra á breytingu á Aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2005 – 2025 er bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkti hinn 17. mars 2009 að auglýsa. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 15. september 2009, er barst nefndinni hinn 23. sama mánaðar, kærir Á, Smárahvammi 9, Hafnarfirði, breytingu á Aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2005 – 2025 er bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkti hinn 17. mars 2009 að auglýsa.  Gerir kærandi þá kröfu að gildandi aðalskipulag standi óhaggað. 

Málsatvik og rök:  Á fundi sínum hinn 17. mars 2009 samþykkti bæjarstjórn Hafnarfjarðar að auglýsa tillögu að breytingu á Aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2005 – 2025 er tók til kafla 2.2.10 sem fjallar um frístundabyggð á svonefndu Sléttuhlíðarsvæði.  Var þar gert ráð fyrir takmarkaðri uppbyggingu innan svæðisins.  Auglýsing um breytingartillöguna birtist í Fjarðarpóstinum hinn 20. ágúst 2009. 

Bendir kærandi á að í gildandi aðalskipulagi segi að ekki sé gert ráð fyrir frekari uppbyggingu á umræddu svæði en í breytingartillögu komi fram að „… takmörkuð uppbygging verði innan svæðisins.“  Nú virðist því vera gert ráð fyrir þeim möguleika að reisa mörg hús á svæðinu í stað þess eina sem úrskurðað hafi verið ólögmætt í úrskurði úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála í máli nr. 4/2008.  Ekki komi fram í aðalskipulagstillögunni hversu „takmörkuð“ ráðgerð uppbygging verði og engir uppdrættir fylgi tillögunni.  Það væri vafasamt fordæmi fyrir sveitarfélag ef breyta mætti staðfestu skipulagi vegna þess eins að túlkun í úrskurði úrskurðarnefndarinnar sé ekki í samræmi við ásetning sveitarfélagsins eins og haldið sé fram í greinargerð aðalskipulagstillögunnar.  Rétt sé að úrskurðarnefndin úrskurði um lagalega rétta túlkun á þeim kafla aðalskipulagsins er breytingin taki til. 

Niðurstaða:  Fyrir liggur að umdeild aðalskipulagstillaga hefur ekki öðlast gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda skv. 1. mgr. 19. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Í nefndu lagaákvæði er einnig kveðið á um að aðalskipulag eða breyting á því sé háð staðfestingu ráðherra.  Verður ákvörðunum samkvæmt skipulags- og byggingarlögum, sem sæta skulu slíkri staðfestingu, ekki skotið til úrskurðarnefndarinnar, sbr. 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga svo sem henni var breytt með 21. gr. laga nr. 74/2005. 

Samkvæmt framansögðu á mál þetta ekki undir úrskurðarnefndina og verður af þeim sökum vísað frá. 

Úrskurðarorð: 

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

______________________________
Hjalti Steinþórsson

_______________________________             ______________________________
Ásgeir Magnússon                                                   Þorsteinn Þorsteinsson

13/2008 Eyrarbraut

Með

Ár 2009, fimmtudaginn 24. september, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 13/2008, kæra á samþykkt skipulags- og byggingarnefndar Árborgar frá 12. júlí 2007 um að veita leyfi til byggingar atvinnuhúsnæðis að Eyrarbraut 37 á Stokkseyri. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 20. febrúar 2008, er barst nefndinni hinn 21. sama mánaðar, kærir A, Eyrarbraut 10, Stokkseyri þá samþykkt skipulags- og byggingarnefndar Árborgar frá 12. júlí 2007 að veita leyfi til byggingar atvinnuhúsnæðis að Eyrarbraut 37 á Stokkseyri, sem staðfest var í bæjarráði hinn 19. s.m.  Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.  Þá fer kærandi og fram á að úrskurðarnefndin kanni almennt hvernig staðið hafi verið að breytingum á deiliskipulagi á svæðinu og hvort lög og reglur hafi verið brotnar (lóðir nr. 21-53). 

Málsatvik og rök:  Á fundi skipulags- og byggingarnefndar 12. júlí 2007 var samþykkt umsókn um leyfi til byggingar atvinnuhúss á lóðinni nr. 37 við Eyrarbraut en á svæðinu er í gildi deiliskipulag frá árinu 1996. 

Kærandi máls þessa er búsett að Eyrarbraut 10 á Stokkseyri.  Samkvæmt því sem fram kemur í kæru hafði henni verið tjáð af skipulags- og byggingaryfirvöldum að allt væri eðlilegt og farið hefði verið eftir ítrustu kröfum við úthlutun lóðarinnar nr. 37 við Eyrarbraut.  Hvað raunverulega væri verið að framkvæma á lóðinni hafi hún ekki verið upplýst um.  Heldur kærandi því fram að ekki verði annað ráðið en að framkvæmdir á lóðinni séu í andstöðu við samþykkt deiliskipulag svæðisins frá árinu 1996.  Þá setur kærandi fram athugasemdir er lúta að ónæði og sóðaskap á svæði því eru um ræðir er hljóti að kalla á aðgerðir.  Vegna þess sé þess óskað að úrskurðarnefndin kanni almennt hvernig staðið hafi verið að breytingum á deiliskipulaginu og hvort lög og reglur hafi verið brotin.    

Af hálfu Árborgar er krafist frávísunar málsins.  Byggingarleyfi hafi verið gefið út 12. júlí 2007 og hafi framkvæmdir á lóðinni hafist strax í framhaldi af því.  Mælt hafi verið fyrir grunngreftri 8. ágúst 2007 og fyrir sökkuluppslætti 10. september s.á.  Sé því ljóst að kæranda hafi mátt vera kunnugt um framkvæmdir á lóðinni fljótlega eftir útgáfu byggingarleyfis. 

—————–

Frekari rök og sjónarmið aðila liggja fyrir í málinu sem ekki verða rakin hér nánar, en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins. 

Niðurstaða:  Samkvæmt 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 sæta kæru til úrskurðarnefndarinnar stjórnvaldsákvarðanir stjórnsýslu sveitarfélaga og samvinnunefndar miðhálendisins, þegar það á við, nema annað sé sérstaklega tiltekið í lögum. 

Ekki verður séð að fyrir liggi í máli þessu kæranleg stjórnvaldsákvörðun er lúti að breytingu á deiliskipulagi svæðis þess er um ræðir og koma því aðfinnslur kæranda er varða deiliskipulagið ekki til umfjöllunar við úrlausn málsins.  Aftur á móti er byggingarleyfi það sem staðfest var í bæjarráði 19. júlí 2007 kæranleg stjórnvaldsákvörðun sem borin verður undir úrskurðarnefndina.
 
Samkvæmt tilvitnaðri 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 er frestur til að skjóta máli til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt, eða mátti vera kunnugt, um ákvörðun þá sem kæra á.  Verður ráðið af málsgögnum, m.a. skrá byggingarfulltrúa um úttekt byggingarhluta, að kæranda hafi mátt vera kunnugt um hið umdeilda byggingarleyfi haustið 2007 og hafi þá borið að kynna sér efni þess og skjóta málinu til úrskurðarnefndarinnar innan mánaðar frá þeim tíma.  Kæra í málinu barst úrskurðarnefndinni hins vegar ekki fyrr en 21. febrúar 2008 og var kærufrestur þá liðinn.  Samkvæmt 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal vísa kæru frá hafi hún borist að liðnum kærufresti nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til efnismeðferðar.  Verður ekki séð að neinar slíkar ástæður séu fyrir hendi í máli þessu og ber því, með hliðsjón af 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, að vísa málinu frá úrskurðarnefndinni. 

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

____________________________         ________________________
  Ásgeir Magnússon                                       Þorsteinn Þorsteinsson

70/2007 Hamrabrekkur

Með

Ár 2009, miðvikudaginn 9. september, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 70/2007, kæra á afgreiðslu bæjarstjórnar Mosfellsbæjar á beiðni um breytt deiliskipulag sumarhúsabyggðar í Hamrabrekkum. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur 

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 22. júlí 2007, er barst nefndinni hinn 23. sama mánaðar, kærir J, Dísarási 7, Reykjavík, lóðarhafi í Hamrabrekkum, afgreiðslu bæjarstjórnar Mosfellsbæjar frá 4. júlí 2007 á beiðni um breytt deiliskipulag sumarhúsabyggðar í Hamrabrekkum, Mosfellsbæ. 

Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Málavextir:  Gildandi deiliskipulag fyrir sumarhúsabyggð í Hamrabrekkum er frá árinu 1985 þar sem gert var ráð fyrir 30 lóðum, frá 0,29 upp í 0,58 ha að stærð.  Í skilmálum deiliskipulagsins segir eftirfarandi um stærð og gerð húsa:  „Hús skulu ekki vera stærri en 50 m²  að gólfflatarmáli, einnar hæðar en hugsanlega með lofti undir hæsta hluta þaks.  Þök skulu vera söðulþök eða þök með hallandi flötum í tvær gagnstæðar áttir þótt ekki mætist í mæni og skal stefna mænis eða brotlína þakflata vera austur–vestur eða norður–suður.“  Fyrir liggur að byggt hefur verið á nokkrum lóðum í Hamrabrekkum. 

Með erindi, dags. 15. mars 2004, óskuðu eigendur 27 lóða í Hamrabrekkum eftir því að framangreindu deiliskipulagi fyrir Hamrabrekkur yrði breytt.  Þar sagði m.a:  „Við undirritaðir eigendur að lóðum í Hamrabrekkum, deiliskipulagi úr landi Miðdals 2 í Mosfellsbæ, óskum eftir breytingum á deiliskipulagi því sem nú gildir á svæðinu.  Óskum við eftir því að grein nr. 6, sem fjallar um stærð og gerð húsa, verði breytt skv. breyttum lögum í byggingarreglugerð nr. 115 eins og hér segir:  Stærð húsa sem samkvæmt núverandi deiliskipulagi er takmörkuð við 50 m² gólfflatarmál verði breytt og takmörkuð við 160 m² gólfflatarmál.  Í ljósi þess að jarðskjálftar á síðustu árum hafa farið illa með hús og stefnt fólki í hættu þar sem léttar undirstöður hafi verið notaðar, þá verði leyft að steypa undirbyggingu húsa.  Leyft verði að nýta undirbyggingu húsa (kjallara) sé húsið í halla eða þar sem húsið rís ekki hærra en ella vegna nýtingu kjallara.“  Erindið var tekið fyrir á fundi skipulags- og byggingarnefndar 23. mars 2004.  Þar kom fram neikvæð afstaða nefndarinnar gagnvart erindinu. 

Með erindi, dags. 30. apríl 2004, var óskað eftir því að deiliskipulagi svæðisins yrði breytt.  Á fundi skipulags- og byggingarnefndar 18. maí 2004 var erindið tekið fyrir og kom fram í fundargerð að nefndin væri neikvæð gagnvart erindinu og var ítrekuð sú afstaða nefndarinnar að ekki yrði heimilt að reisa hús sem væru stærri að heildargrunnfleti en 110 m² og geymslu sem væri að hámarki 20 m².  Á fundi skipulags- og byggingarnefndar 13. júlí 2004 ákvað nefndin að leggja til við bæjarstjórn að tillaga þessa efnis yrði samþykkt til kynningar í samræmi við 25. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Þessi ákvörðun var staðfest á fundi bæjarráðs 22. júlí s.á.  Var breytingartillaga deiliskipulagsins auglýst og kynnt.  Þegar frestur til athugasemda var liðinn fjallaði sveitarstjórn um tillöguna á nýjan leik að undangenginni umfjöllun skipulagsnefndar.  Athugasemd vegna skipulagstillögunnar barst frá einum aðila þar sem þess var krafist að bæjarstjórn hafnaði henni, m.a. með vísan til þess að aukið byggingarmagn sumarhúsa myndi leiða til varanlegrar búsetu á svæði sem væri óhentugt til íbúðarbyggðar.  Með því væri verið að heimila nýtt íbúðarhverfi í bænum þar sem aðrir og slakari skilmálar giltu en almennt í íbúðarhverfum.  Á fundi skipulags- og byggingarnefndar 21. september 2004 var fjallað um málið að nýju að loknum athugasemdafresti.  Í fundargerð var vísað til fram kominna athugasemda og umhverfisdeild falið að kanna hvort og í hvaða mæli heilsársbúseta væri á svæðinu ásamt aðkomu að því.  Var fundargerð skipulags- og byggingarnefndar lögð fyrir bæjarstjórn 29. september 2004.  Á fundi skipulags- og byggingarnefndar 12. október 2004 var eftirfarandi fært til bókar:  „Nefndin féllst á þá athugasemd sem barst á kynningartíma að hætta á heilsársbúsetu á svæðinu aukist til muna með heimild til stækkunar á frístundahúsum sérstaklega með tilliti til legu svæðisins við Nesjavallaveg.  Nefndin leggur til við bæjarstjórn að deiliskipulagstillagan verði ekki samþykkt.“   Var afgreiðsla nefndarinnar staðfest á fundi bæjarstjórnar 27. október 2004. 

Á árinu 2006 fjallaði skipulags- og byggingarnefnd að nýju um mögulegar breytingar á deiliskipulagi í Hamrabrekkum og var bókað á fundi nefndarinnar hinn 1. ágúst 2006 eftirfarandi:  „Nefndin getur fallist á að leyfileg stærð frístundahúsa á svæðinu verði aukin í 60 fermetra auk 10 fermetra geymslu.“ 

Með bréfi, dags. 16. apríl 2007, sendi kærandi eftirfarandi erindi til skipulags- og byggingarnefndar Mosfellsbæjar:  „Á árinu 2004 var lagt inn erindi til skipulags- og byggingarnefndar, sem varðaði breytingar á deiliskipulagi við Hamrabrekkur.  Þessar breytingar fólu í sér að heimilt yrði að reisa stærri hús en upphaflegt skipulag svæðisins gerði ráð fyrir.  Ástæða umsóknarinnar var, að úr gildi voru fallin ákvæði um hámarksstærð frístundahúsa og viðtekin venja orðin í skipulagsákvörðunum sveitarfélaga, að heimila stærri byggingar.  Tillaga þessi var samþykkt á fundi bæjarráðs hinn 22. júlí 2004 en síðan hafnað á 124. fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 12. október 2004.  Samkvæmt viðtölum við hr. Ásbjörn Þorvarðarson, byggingarfulltrúa, og með tilvísun í fundargerð 195. fundar skipulags- og byggingarnefndar virðast breytt viðhorf nú ríkjandi.  Í samræmi við það viljum við fara fram á það, að fyrri ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar verði endurskoðuð og málið tekið fyrir á nýjan leik. Vísað er í áður innsend gögn.“  Erindið var tekið fyrir á fundi skipulags- og byggingarnefndar og var starfsmönnum nefndarinnar falið að skoða málið nánar.  Á fundi nefndarinnar 26. júní 2007 var erindi kæranda enn tekið fyrir og svohljóðandi bókun gerð:  „Nefndin ítrekar afstöðu sína frá júlí 2006, þar sem fallist var á að auka hámarksstærð húsanna í 60 + 10 m².“  Bæjarstjórn staðfesti afgreiðslu nefndarinnar á fundi 4. júlí 2007. 

Hefur kærandi kært framangreint til úrskurðarnefndarinnar svo sem áður getur. 

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er vísað til þess að í nágrenni svæðis þess er um ræði hafi bæjaryfirvöld veitt heimild til byggingar sambærilegra húsa og farið sé fram á í máli þessu og sé spurt hvort slíkt standist 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 65. gr. stjórnarskrárinnar.  Þá velti kærandi fyrir sér hvort synjunin standist 72. gr. stjórnarskrárinnar þar sem hún leiði til rýrara verðgildis eignar hans en á öðrum svæðum þar sem veitt hafi verið heimild til byggingar húsa af þeirri stærð er kærandi hafi farið fram á.  Með þessu sé líklega verið að ganga á stjórnarskrárvarinn rétt kæranda.  Þá gerir kærandi athugasemdir við rökstuðning ákvarðana þeirra er teknar hafi verið í málinu allt frá upphafi þess, en hann hafi enginn verið og hafi skipulagsyfirvöld fyrirfram tekið ákvörðun um að synja beiðni kæranda án rökstuðnings. 

Þá gerir kærandi athugasemdir við að honum hafi ekki borist afgreiðsla skipulags- og byggingarnefndar þegar hann hafi skotið málinu til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála. 

Málsrök Mosfellsbæjar:  Af hálfu Mosfellsbæjar er bent á að kærandi vísi í kæru sinni til þess að öðrum í næsta nágrenni hafi verið veitt heimild til byggingar sambærilegra húsa og hann hafi farið fram á og því hafi jafnræðisregla stjórnsýslulaga verið brotin.  Eigi kærandi við deiliskipulagsbreytingu vegna lóða í Hamrabrekku austan Miðdals, suð- austan Hafravatns, telji Mosfellsbær að það mál sé alls ekki sambærilegt máli kæranda.  Í tilvitnuðu máli hafi verið um að ræða mun stærri lóðir eða 1,0 – 1,9 ha að flatarmáli, þar sé í gildi mun yngra deiliskipulag og þar hafi ekki verið byggt í samræmi við eldra skipulag.  Í máli kæranda sé hins vegar um að ræða 0,29 – 0,58 ha lóðir, deiliskipulag sé í gildi frá 1985 ásamt því að byggt hafi verið á 7 – 8 lóðum í samræmi við það skipulag.  Vegna þess sé því hafnað að brotið hafi verið gegn jafnræðisreglu stjórnsýslulaga og stjórnarskrár. 

Mosfellsbær hafni því einnig að ákvarðanir bæjarins hafi brotið gegn 72. gr. stjórnarskrárinnar eins og kærandi haldi fram.  Deiliskipulag sveitarstjórnar, sem takmarki ráðstöfun eignarréttinda, byggi á almennum hlutlægum sjónarmiðum þar sem stefnt sé að lögmætum markmiðum og fari því ekki í bága við 72. gr. stjórnarskrárinnar.  Í því sambandi sé minnt á ákvæði 1. mgr. 33. gr. skipulags- og byggingarlaga sem mæli fyrir um að sá sem telji að skipulagsaðgerðir leiði til verðrýrnunar fasteignar eigi rétt á bótum úr sveitarsjóði, að því gefnu að sýnt sé fram á tjón. 

Mosfellsbær telji að málsmeðferð á erindi kæranda hafi ekki brotið í bága við ákvæði 22. gr. stjórnsýslulaga.  Að sama skapi telji Mosfellsbær að málsmeðferðin hafi ekki farið gegn ákvæði 26. gr. skipulags- og byggingarlaga. 

———–

Aðilar hafa fært fram frekari rök fyrir sjónarmiðum sínum sem ekki verða rakin nánar, en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins. 

Niðurstaða:  Skilja verður málatilbúnað kæranda á þann veg að krafist sé ógildingar allra ákvarðana bæjarstjórnar er teknar hafi verið varðandi málaleitan hans allar götur frá árinu 2004.  Samkvæmt 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 er kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt, eða mátti vera kunnugt, um þá ákvörðun er kæran lýtur að.  Eina afgreiðslan sem var innan þessara tímamarka þegar kæran barst úrskurðarnefndinni 23. júlí 2007 var afgreiðsla bæjarstjórnar frá 4. júlí 2007, en kærufrestur vegna annarra og eldri ákvarðana í málinu var þá löngu liðinn.  Kemur því ekki hér til skoðunar annað en afgreiðslan frá 4. júlí 2007.

Eins og að framan er rakið varðar hin kærða afgreiðsla beiðni um endurskoðun á fyrri ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar um breytt deiliskipulag sumarhúsabyggðarinnar í Hamrabrekkum.  Er deiliskipulagið frá árinu 1985 þar sem skipulagðar eru 30 lóðir, frá 0,29 upp í 0,58 ha að stærð og er heimilt að byggja 50 m² sumarhús á hverri lóð.  Beiðni kæranda laut á sínum tíma að því að gildandi deiliskipulagi svæðisins yrði breytt þannig að heimilað yrði að reisa stærri hús á svæðinu en skipulagið gerði ráð fyrir, án þess þó að sérstaklega væri getið um stærðir húsa, en vísað var í fyrri erindi vegna sama máls. 

Skipulags- og byggingarnefnd hafði áður haft erindi um stækkun húsa á svæðinu til umfjöllunar, m.a. á fundi árið 2006.  Var erindið þá afgreitt með þeim hætti að nefndin gæti fallist á að frístundahús á svæðinu yrðu 60 m² auk 10 m² geymslu.  Í hinni kærðu afgreiðslu 4. júlí 2007 var eingöngu vísað til afgreiðslunnar frá árinu 2006 án þess að erindinu væri sérstaklega synjað.  Er það mat úrskurðarnefndarinnar að framangreint verði ekki talið fela í sér ákvörðun er bindi endi á meðferð máls og beri því samkvæmt 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að vísa málinu frá nefndinni. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

______________________________                 ______________________________
Ásgeir Magnússon                                                       Þorsteinn Þorsteinsson

114/2008 Aspargrund

Með

Ár 2009, mánudaginn 7. september, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 114/2008, kæra eigenda fasteignarinnar að Aspargrund 9 í Kópavogi á ákvörðun byggingarnefndar Kópavogs frá 19. nóvember 2008 um að gera kærendum að fjarlægja skúr af lóð fyrir 1. desember 2008 og að leggja til við bæjarstjórn að lagðar verði á dagsektir að fjárhæð kr. 5.000 á dag frá 1. desember 2008 verði skúrinn ekki fjarlægður fyrir þann tíma. 

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 17. desember 2008, er barst nefndinni 18. sama mánaðar, kæra G og D, eigendur fasteignarinnar að Aspargrund 9 í Kópavogi, framangreinda ákvörðun byggingarnefndar Kópavogs frá 19. nóvember 2008.  Krefjast kærendur þess að réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar verði frestað en jafnframt verður að skilja málatilbúnað þeirra svo að krafist sé ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar.  Fundargerð byggingarnefndar frá 19. nóvember 2008 var samþykkt án umræðu á fundi bæjarstjórnar Kópavogs hinn 25. nóvember 2008. 

Málavextir:  Á árinu 2007 var gerð breyting á deiliskipulagi er tók til umræddrar lóðar.  Var með henni heimiluð bygging bílskúrs og viðbygging við hús á lóðinni.  Skúr sá sem kærendum var gert að fjarlægja með hinni kærðu ákvörðun mun þá hafa staðið á lóðinni á öðrum stað en nú, en hvorki var við skipulagsbreytinguna tekin afstaða til þess hvað um hann yrði né heldur annan skúr á skipulagssvæðinu, sem stendur við húsið nr. 11 við Aspargund. 

Kærendur sóttu um byggingarleyfi fyrir skúrnum en þeirri umsókn var hafnað á fundi byggingarnefndar 20. ágúst 2008.  Skutu kærendur þeirri ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar, sem felldi hana úr gildi með úrskurði uppkveðnum fyrr í dag. 

Á fundi byggingarnefndar hinn 8. október 2008 var lagt fram bréf byggingarfulltrúa, dags. 29. september 2008, varðandi skúrinn.  Óskaði byggingarnefnd eftir því að byggingarfulltrúi sendi bréf til eigenda um að skúrinn yrði fjarlægður af lóðinni eigi síðar en hinn 8. nóvember 2008. 

Á fundi byggingarnefndar hinn 19. nóvember 2008 var málið tekið fyrir að nýju og eftirfarandi bókað:  „Lagt fram bréf byggingarfulltrúa dags. 29. september s.l. varðandi garðskúr á lóðinni nr. 9 við Aspargrund. 

Á fundi byggingarnefndar 8. október s.l. var lagt fram bréf byggingarfulltrúa dags. 29. september s.l. varðandi skúr á lóðinni nr. 9 við Aspargrund.  Byggingarnefnd óskaði eftir því að byggingarfulltrúi sendi bréf til eigenda, um að skúr verði fjarlægður af lóðinni eigi síðar 8. nóvember 2008.  Skúrinn hefur ekki verið fjarlægður. 

Byggingarnefnd gefur eigendum frest til 1. desember 2008 til að fjarlægja skúrinn.  Verði skúrinn ekki fjarlægður fyrir 1. desember 2008 leggur byggingarnefnd til við bæjarstjórn að samþykkt verði að leggja á dagsektir að upphæð kr. 5.000,- á eigendur skúrsins er taki gildi 1. desember 2008.“ 

Byggingarfulltrúi ritaði kærendum bréf, dags. 19. nóvember 2008, og tilkynnti þeim um ákvörðun nefndarinnar.  Í bréfinu segir hins vegar að byggingarnefnd gefi eigendum frest til 1. janúar 2009 en verði skúrinn ekki fjarlægður fyrir þann dag leggi nefndin til við bæjarstjórn að samþykkt verði að leggja á dagsektir, kr. 5.000 á dag, er taki gildi 1. desember 2008.  Með bréfi til kærenda, dags. 12. desember 2008, kom byggingarfulltrúi því á framfæri við kærendur að í niðurlagi bréfs hans frá 19. nóvember hafi verið kveðið á um að mögulegar dagsektir tækju gildi 1. desember 2008 en hafi átt að vera 1. janúar 2009.  Væri beðist velvirðingar á þessum mistökum. 

Á fundi bæjarstjórnar Kópavogs hinn 25. nóvember 2008 voru teknar fyrir fundargerðir nefnda.  Þar á meðal var fundargerð byggingarnefndar frá 19. nóvember 2008 og var gerð um hana svofelld bókun:  „…c)  Byggingarnefndar 1298. fundar 19/11, ásamt fskj. nr. 21/2008.  Fundargerðin samþykkt án umræðu.“ 

Málsrök aðila:  Af hálfu kærenda er aðallega á því byggt að réttmæti hinnar kærðu ákvörðunar hljóti að ráðast af niðurstöðu kærumáls þeirra um byggingarleyfisumsóknina.  Af hálfu Kópavogsbæjar hefur ekki verið skilað greinargerð í málinu en bæjaryfirvöld hafa látið úrskurðarnefndinni í té umbeðin gögn. 

Niðurstaða:  Hin kærða ákvörðun byggingarnefndar í máli þessu er tvíþætt.  Annars vegar er um að ræða ákvörðun um að gera kærendum að fjarlægja skúr af lóð og hins vegar að leggja til við bæjarstjórn að dagsektum verði beitt. 

Hvað fyrri lið ákvörðunarinnar varðar verður að líta svo á að það hafi verið forsenda þess liðar að lokið væri með lögmætum hætti umfjöllun umsóknar kærenda um byggingarleyfi fyrir skúrnum.  Úrskurðarnefndin hefur fyrr í dag fellt úr gildi synjun byggingarnefndar á umsókn kærenda um byggingarleyfið og eru því brostnar forsendur fyrir hinni kærðu ákvörðun um að fjarlægja beri skúrinn af lóðinni.  Þykir rétt að fella úr gildi ákvörðun byggingarnefndar um að skúrinn skuli fjarlægður meðan erindi kærenda um leyfi fyrir skúrnum hefur ekki hlotið lögmæta meðferð. 

Samkvæmt 1. mgr. 57. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 er það á valdsviði sveitarstjórnar að ákveða dagsektir til að knýja fram fyrirmæli byggingarfulltrúa eða byggingarnefndar.  Í málinu liggur aðeins fyrir tillaga byggingarnefndar til bæjarstjórnar um að beita dagsektum.  Hins vegar liggur ekki fyrir að bæjarstjórn hafi tekið ákvörðun um dagsektir í máli þessu og breytir engu þótt hún hafi samþykkt án umræðu fundargerð byggingarnefndar þar sem umrædd tillaga er gerð.  Var tillaga byggingarnefndar um dagsektir ekki lokaákvörðun í málinu og verður hún því ekki borin undir úrskurðarnefndina, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Verður þeim þætti því vísað frá nefndinni. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Felld er úr gildi hin kærða ákvörðun byggingarnefndar Kópavogs frá 19. nóvember 2008 um að gera kærendum að fjarlægja skúr af lóð þeirra að Aspargrund 9 fyrir 1. desember 2008.

Vísað er frá úrskurðarnefndinni kröfu um ógildingu á ákvörðun byggingarnefndar um að leggja til við bæjarstjórn að lagðar verði á dagsektir að upphæð kr. 5.000 á dag frá 1. desember 2008 verði skúrinn ekki fjarlægður fyrir þann tíma. 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

______________________________               _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                   Þorsteinn Þorsteinsson