Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

47/2011 Þverholt

Með

Ár 2011, miðvikudaginn 6. júlí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 47/2011, kæra vegna framkvæmda við breytingu og stækkun bílastæðis á lóðinni að Þverholti 6 í Mosfellsbæ.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 27. júní 2011, er barst nefndinni sama dag, kærir S, íbúi að Urðarholti 7, Mosfellsbæ, framkvæmdir við breytingu og stækkun bílastæðis að Þverholti 6 í Mosfellsbæ.  Gerir kærandi þá kröfu að leyfi byggingaryfirvalda Mosfellsbæjar fyrir hinum kærðu framkvæmdum verði fellt úr gildi og að úrskurðarnefndin kveði á um stöðvun framkvæmda.  Verður málið nú tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kæranda. 

Málsatvik og rök:  Í lok aprílmánaðar 2011 munu framkvæmdir hafa byrjað við stækkun bílastæðis á lóðinni að Þverholti 6, en þar er rekin bílasala.  Liggur fasteign kæranda að nefndri lóð.  Í kjölfarið spurðist kærandi fyrir um framkvæmdirnar hjá byggingaryfirvöldum bæjarins, m.a. í bréfi, dags. 23. maí 2011, og mótmælti þeim.  Svar barst frá byggingarfulltrúa bæjarins í bréfi, dags. 3. júní 2011, þar sem sú afstaða kom fram að umdeildar framkvæmdir væru hvorki leyfisskyldar samkvæmt skipulagslögum né mannvirkjalögum og kölluðu ekki á breytingar á skipulagi. 

Kærandi vísar til þess að umdeildar breytingar á lóðinni að Þverholti 6 raski grenndarhagsmunum hans með útsýnisskerðingu, auknu ónæði vegna reksturs bílasölunnar og takmarki auk þess afnot kæranda af fasteign hans, svo sem við að koma sólpalli fyrir í því horni lóðarinnar sem snúi að greindu bílastæði.  Þá valdi breytingarnar því að fasteign kæranda verði ekki jafn söluvæn og áður.  Umdeildar framkvæmdir brjóti í bága við 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, eða eftir atvikum 11. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010, varðandi framkvæmdaleyfi og samþykki byggingaráforma auk þess sem farið sé gegn reglum eigna- og grenndarréttar.  Áhöld séu jafnframt um hvort umræddar framkvæmdir séu í samræmi við skipulag. 

Af hálfu byggingaryfirvalda Mosfellsbæjar hefur verið áréttuð sú skoðun, sem fram komi í bréfi byggingarfulltrúa til kæranda frá 3. júní 2011, að greindar framkvæmdir séu ekki þess eðlis að þær kalli á nýtt skipulag eða séu háðar formlegum leyfum samkvæmt skipulags- eða mannvirkjalögum. 

Niðurstaða:  Kæra í máli þessu er reist á efni bréfs byggingarfulltrúans í Mosfellsbæ, dags. 3. júní 2011, sem sent var sem svar við fyrirspurnum kæranda til embættisins í tilefni af umdeildum framkvæmdum á lóðinni að Þverholti 6 í Mosfellsbæ. 

Samkvæmt 5. mgr. 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, sbr. og 59. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010, sæta stjórnvaldsákvarðanir stjórnsýslu sveitarfélaga kæru til úrskurðarnefndarinnar og verður ákvörðunin að binda endi á meðferð máls sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. 

Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum og gögnum hefur ekki verið tekin stjórnvaldsákvörðun sveitarstjórnar á grundvelli skipulagslaga nr. 123/2010, eða kæranleg ákvörðun byggingarfulltrúa um byggingarleyfi samkvæmt lögum um mannvirki nr. 160/2010, sem borin verður undir úrskurðarnefndina.  Verður máli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Úrskurðarorð: 

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

__________________________________
Hjalti Steinþórsson

_____________________________            _____________________________
Ásgeir Magnússon                                             Þorsteinn Þorsteinsson

33/2011 Miðholt

Með

Ár 2011, föstudaginn 24. júní, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 33/2011, kæra á samþykkt sveitarstjórnar Langanesbyggðar frá 28. júlí 2010 um deiliskipulag við Miðholt á Þórshöfn. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 15. maí 2011, er barst nefndinni 18. sama mánaðar, kærir G, samþykkt sveitarstjórnar Langanesbyggðar frá 28. júlí 2010 um deiliskipulag við Miðholt á Þórshöfn.

Með bréfum til úrskurðarnefndarinnar, dags. 15. maí 2011, er bárust nefndinni hinn 24. sama mánaðar, kæra S og R sömu samþykkt.  Byggja þeir á sömu sjónarmiðum og gert er í þeirri kæru er fyrst barst.  Ákvað úrskurðarnefndin að sameina síðari kærumálin sem eru númer 36 og 37/2011 máli þessu. 

Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Málsatvik og rök:  Sveitarstjórn Langanesbyggðar samþykkti 28. júlí 2010 deiliskipulag íbúðarreits við Miðholt á Þórsöfn þar sem gert var ráð fyrir þremur raðhúsalóðum.  Var samþykktin send Skipulagsstofnun til yfirferðar sem með bréfi til sveitarstjóra, dags. 7. apríl 2011, tilkynnti að stofnunin gerði ekki athugasemd við birtingu samþykktarinnar.  Hinn 8. apríl birtist auglýsing um gildistöku hinnar kærðu samþykktar í B-deild Stjórnartíðinda.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum leitaði einn kærenda til Skipulagsstofnunar vegna hinnar kærðu ákvörðunar.  Í svari stofnunarinnar, dags. 29. apríl 2011, er meðferð málsins rakin og kemur þar m.a. fram að sveitarstjórn hafi birt auglýsingu um gildistöku hinnar kærðu ákvörðunar í B-deild Stjórnartíðinda 8. apríl 2011.  Þá er í bréfinu gerð grein fyrir kæruheimild og kærufresti og tekið fram að þegar um sé að ræða ákvarðanir sem sæti opinberri birtingu beri að telja kærufrestinn frá birtingu ákvörðunar.

Af hálfu kærenda er m.a. vísað til þess að deiliskipulagið sé bæði í ósamræmi við gildandi Aðalskipulag Þórshafnar 2004-2024 og tillögu að Aðalskipulagi Langanesbyggðar 2007-2027 sem ekki hafi hlotið staðfestingu ráðherra. 

Niðurstaða:  Hin kærða deiliskipulagsákvörðun var samþykkt í sveitarstjórn Langanesbyggðar 28. júlí 2010 og tók skipulagið gildi með birtingu auglýsingar þar um í B-deild Stjórnartíðinda 8. apríl 2011.

Samkvæmt 5. mgr. 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er kærufrestur til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála einn mánuður og sé um að ræða ákvarðanir sem sæta opinberri birtingu miðast upphaf frestsins við birtingu ákvörðunarinnar.  Kærur í máli þessu eru dagsettar 15. maí 2011, og bárust úrskurðarnefndinni stuttu síðar, en kærufestur var þá liðinn.  Ber af þeim sökum að vísa máli þessu frá úrskurðarnefndinni, sbr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.
 
    

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

___________________________      ___________________________
Ásgeir Magnússon                                   Þorsteinn Þorsteinsson

54/2010 Hafnagata

Með

Ár 2011, þriðjudaginn 31. maí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 54/2010, kæra vegna ráðstöfunar lóðar fyrir húsið að Hafnagötu 12 í Höfnum, Reykjanesbæ. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 20. ágúst 2010, er barst nefndinni 23. sama mánaðar, kærir D, eigandi Hafnagötu 14 í Höfnum, ákvörðun byggingaryfirvalda í Reykjanesbæ um að mæla út og ráðstafa lóð fyrir Hafnagötu 12 í Höfnum, að mörkum lóðar kæranda.  Krefst kærandi ógildingar á umræddri ákvörðun. 

Málsatvik og rök:  Kærandi kveðst hafa keypt húsið að Hafnagötu 14 í nóvember 2005.  Hún hafi eftir það girt hluta lóðar sinnar með samþykki þáverand húseigenda að Hafnagötu 12 og 16.  Hafi lóðarblað, dags. 4. ágúst 1995, þá legið fyrir en þar hafi hluti innkeyrslu að húsi hennar verið sýndur utan lóðarmarka.

Í mars 2010 hafi kæranda orðið kunnugt um að sótt hefði verið um útmælingu lóðar fyrir húsið nr. 12, að mörkum lóðar hennar, þar sem innkeyrslan að húsi hennar sé.  Hafi hún beðið byggingarfulltrúa um að skoða aðstæður en hann hafi síðar tjáð sér að ekkert væri hægt að gera í málinu.  Krefjist kærandi þess að felld verði úr gildi sú ákvörðun byggingaryfirvalda að hin nýja lóð skuli liggja að lóð hennar þar sem henni hafi verið alls ókunnugt um umsókn um lóð fyrir húsið að Hafnagötu 12.  Hefði hún vitað af umsókninni hefði hún sótt um að bæta við lóð sína þeirri spildu sem innkeyrslan að húsi hennar liggi um. 

Af hálfu Reykjanesbæjar er tekið fram að ekki hafi verið útmæld sérstök lóð fyrir húsið að Hafnagötu 12 þegar það hafi verið reist á árinu 1953.  Að beiðni eiganda hússins hafi verið ráðist í þá vinnu að skilgreina lóð undir það þar sem ekki hafi verið hægt að þinglýsa eigendaskiptum nema húsinu fylgdi lóð.  Hafi þetta verið gert í samráði við skipulagsfulltrúa Reykjanesbæjar.  Lóðarblað hafi verið gert fyrir Hafnagötu 14 á árinu 1995 og kæranda því verið kunn lega og stærð lóðarinnar allt frá því hún keypti eignina.  Umrædd innkeyrsla sé utan lóðar kæranda.  Hins vegar sé þar í raun ekki um eiginlega innkeyrslu að ræða þar sem engin jarðvegsskipti hafi átt sér þar stað, heldur hafi verið ekið þarna um fjörusand sem borist hafi úr fjörunni inn á umrætt svæði.  Girðing sú sem kærandi hafi sett upp hafi verið reist án vitundar bæjaryfirvalda og sé hún alfarið á vegum kæranda. 

Úrskurðarnefndin leitaði frekari upplýsinga um land það sem hin kærða ákvörðun varðar og um aðkomu sveitarstjórnar að henni.  Í svari starfsmanns umhverfis- og skipulagssviðs Reykjanesbæjar kemur fram að landið sé í eigu Reykjanesbæjar.  Í gildi séu lóðarleigusamningar um lóðirnar en engar samþykktir hafi verið gerðar svo vitað sé.  Lóðarblöð hafi verið unnin af skipulagsfulltrúa og í því ferli hafi verið haft samráð við eigendur.  Hafi eigandi húss nr. 12 munnlega boðið kæranda að hafa lóðamörkin mitt á milli húsanna en því boði hafi ekki verið svarað.  Ekki sé venja að taka lóðarleigusamninga fyrir í bæjarstjórn en hún hafi í bæjarmálasamþykkt falið bæjarstjóra umboð til afgreiðslu slíkra mála. 

Niðurstaða:  Með hinni kærðu ákvörðun var ráðstafað spildu úr landi í eigu Reykjanesbæjar undir lóð fyrir húsið að Hafnagötu 12 í Höfnum, en húsið var fram að því án sérgreindrar lóðar.  Hin nýja lóð liggur að mörkum lóðar kæranda og verður að fallast á að kærandi eigi hagsmuna að gæta í málinu, enda höfðu bæjaryfirvöld samráð við hana við meðferð málsins. 

Í 1. mgr. 30. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, sem í gildi voru er hin kærða ákvörðun var tekin, sagði að óheimilt væri að skipta jörðum, löndum eða lóðum eða breyta landamerkjum og lóðamörkum nema samþykki sveitarstjórnar kæmi til.  Fyrir liggur að bæjarstjórn fjallaði ekki um ráðstöfun þá sem um er deilt í málinu. Hefur málið því ekki hlotið fullnaðarafgreiðslu lögum samkvæmt enda verður ekki fallist á að heimild bæjarstjóra til að undirrita lóðarsamninga eða önnur skjöl í umboði bæjarstjórnar feli í sér vald til að ráðstafa landi í eigu bæjarfélagsins án atbeina bæjarstjórnar.  Ekki liggur því fyrir í máli þessu lögmælt afgreiðsla þar til bærs stjórnvalds enda batt hin kærða ákvörðun ekki enda á meðferð þess.  Var af þeim sökum ekki unnt að bera málið undir úrskurðarnefndina, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Verður máli þessu því vísað frá. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

______________________________
Hjalti Steinþórsson

_____________________________    _____________________________
Ásgeir Magnússon                                      Þorsteinn Þorsteinsson

85/2010 Boðaslóð

Með

Ár 2011, föstudaginn 15. apríl, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 85/2010, kæra á ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs Vestmannaeyjabæjar frá 9. desember 2010 um að veita stöðuleyfi fyrir gámi á lóðinni að Boðaslóð 7, Vestmannaeyjum. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 20. desember 2010, er barst nefndinni 27. sama mánaðar, kærir R, Boðaslóð 5, Vestmannaeyjum, þá ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs Vestmannaeyjabæjar frá 9. desember 2010 að veita stöðuleyfi fyrir gámi á lóðinni að Boðaslóð 7.  Skilja verður málskot kæranda svo að krafist sé ógildingar hins kærða leyfis. 

Málsatvik og rök:  Síðla árs 2010 var komið fyrir gámi á lóðinni að Boðaslóð 7 í Vestmannaeyjabæ.  Af því tilefni hafði kærandi samband við byggingaryfirvöld bæjarins með ósk um að gámurinn yrði fjarlægður.  Hinn 22. nóvember sama ár sendi skipulags- og byggingarfulltrúi bréf til eiganda Boðaslóðar 7 þar sem bent var á að gámur utan gámasvæða væri háður stöðuleyfi og var farið fram á að hann yrði fjarlægður innan 14 daga.  Í kjölfarið var sótt um leyfi fyrir stöðu gámsins og veitti umhverfis- og skipulagsráð stöðuleyfi fyrir honum til 1. mars 2011 með því skilyrði að gámurinn yrði færður fimm metra frá lóðarmörkum Boðaslóðar 5.  Bæjarstjórn staðfesti þá afgreiðslu hinn 12. desember 2010. 

Kærandi telur meðferð hinnar kærðu ákvörðunar óviðunandi gagnvart íbúum að Boðaslóð 5.  Aldrei hafi verið leitað samþykkis íbúanna fyrir staðsetningu gámsins, en hann sé fáránlega staðsettur inni í miðju hverfi.  Ekki hafi verið veitt leyfi fyrir honum fyrr en eftir að kærandi hafi gert athugasemdir við stöðu gámsins og taki leyfi því til tveggja mánaða aftur í tímann.  Færsla gámsins um fimm metra frá lóðamörkum skipti engu, því hann sé til sömu óprýði í hverfinu og áður og skerði enn útsýni úr stofuglugga kæranda. 

Bæjaryfirvöld benda á að veiting hins kærða stöðuleyfis hafi verið lögum samkvæmt, en heimild fyrir veitingu slíks leyfis sé í 75. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998.  Gámurinn hafi verið staðsettur á umræddri lóð í tengslum við fyrirhugaða byggingu bílgeymslu á lóðinni og hafi þótt rétt að veita umsækjanda leyfisins svigrúm til 1. mars 2011 til þess að skila inn gögnum vegna byggingaráformanna.  Leyfið sé til stutts tíma og hafi ekki veruleg grenndaráhrif. 

Niðurstaða:  Hið kærða stöðuleyfi var tímabundið og rann út hinn 1. mars 2011 og samkvæmt upplýsingum byggingaryfirvalda mun umdeildur gámur þegar hafa verið fjarlægður af lóðinni Boðaslóð 7. 

Samkvæmt framansögðu hefur hið kærða stöðuleyfi runnið sitt skeið á enda og hefur það því ekki lengur réttarverkan að lögum.  Af þeim sökum hefur kærandi ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá fram úrskurð um ógildingu leyfisins.  Verður kærumáli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni með vísan til 5. mgr. 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

________________________________
Hjalti Steinþórsson

_____________________________          _____________________________
Ásgeir Magnússon                                            Þorsteinn Þorsteinsson

34/2010 Hellisheiðarvirkjun

Með

Ár 2011, föstudaginn 15. apríl, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 34/2010, kæra á útgáfu vottorðs um lokaúttekt á starfsmannahúsi Orkuveitu Reykjavíkur við Hellisheiðarvirkjun sem skipulags- og byggingarfulltrúi Sveitarfélagsins Ölfus gaf út hinn 4. maí 2010. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 31. maí 2010, er barst nefndinni sama dag, kærir D, byggingarstjóri starfsmannahúss Orkuveitu Reykjavíkur við Hellisheiðarvirkjun, útgáfu vottorðs um lokaúttekt vegna nefnds starfsmannahúss sem skipulags- og byggingarfulltrúi Sveitarfélagsins Ölfus gaf út hinn 4. maí 2010.  Gerir kærandi þá kröfu að hið kærða úttektarvottorð verði fellt úr gildi.  Auk kröfu sinnar um ógildingu umrædds vottorðs óskar kærandi þess að úrskurðarnefndin kanni og gefi álit á atriðum sem hann setur fram í sjö tölusettum liðum og segir varða starfsmannahús Hellisheiðarvirkjunar.  Fellur það utan verksviðs úrskuðarnefndarinnar að lát í té slíkt álit og verður ekki í úrskurði þessum fjallað um þau atriði sem álitsbeiðni kæranda tekur til.   

Málsatvik og rök:  Kærandi var skráður byggingarstjóri og húsasmíðameistari við byggingu starfsmannahúss Orkuveitu Reykjavíkur við Hellisheiðarvirkjun.  Hinn 23. september 2009 gaf kærandi út yfirlýsingu um verklok við byggingu hússins og 28. sama mánaðar kom hann á framfæri beiðni við skipulags- og byggingarfulltrúa um lokaúttekt á greindu húsi.  Lokaúttektin fór fram hinn 21. október 2009 og voru nokkrar athugasemdir gerðar við frágang hússins.  Kærandi lýsti því síðar yfir við skipulags- og byggingarfulltrúa að yfirlýsing hans um verklok væri ógild.  Umrædd bygging var að nýju skoðuð af skipulags- og byggingarfulltrúa og gaf hann út vottorð um lokaúttekt hinn 4. maí 2010. 

Kærandi vísar til þess að hann hafi á sínum tíma verið byggingarstjóri og húsasmíðameistari að umræddri byggingu hjá þáverandi byggingarverktaka.  Hinn 22. mars 2007 hafi Orkuveita Reykjavíkur yfirtekið verkið með samkomulagi þar um.  Ágreiningslaust sé að skipta hafi átt um byggingarstjóra við yfirtöku verksins en það hafi ekki gengið eftir þrátt fyrir ítrekuð tilmæli kæranda í þá veru.  Umrætt hús hafi verið tekið í notkun fyrir starfsmenn Hellisheiðarvirkjunar á árinu 2007 án þess að stöðuúttekt skv. gr. 55.3 í byggingarreglugerð nr. 441/1998 hafi farið fram og hafi kærandi talið sig knúinn til að hlutast til um lokaúttekt á verkinu sem byggingarstjóri þess. 

Eftir lokaúttekt hafi komið í ljós að samningur hafi verið gerður milli Orkuveitunnar og skipulags- og byggingarfulltrúa um hönnun og eftirlit með framkvæmdunum þar sem vikið hafi verið frá ákvæðum laga og reglugerða.  Uppdrættir hafi ekki verið gefnir út á pappír og á þá hafi skort áritun arkitekta og hönnuða auk staðfestingar byggingarfulltrúa.  Á eyðublöð fyrir áfangaúttektir hafi skort reit fyrir undirskrift byggingarstjóra og áfangaúttektir farið fram án aðkomu hans eða iðnmeistara, heldur hafi verið látin nægja undirskrift iðnaðarmanna á staðnum undir hluta áfangaúttektarblaða.  Í ljósi þessa hafi kærandi afturkallað yfirlýsingu sína um verklok og farið fram á úttekt skv. gr. 36.1 í byggingarreglugerð, sem fram skuli fara við byggingarstjóraskipti fyrir verklok, en við því hafi byggingarfulltrúi ekki orðið.

Af hálfu Sveitarfélagsins Ölfus er farið fram á að kröfum kæranda verði hafnað eða eftir atvikum vísað frá úrskurðarnefndinni.  Ekkert hafi komið fram í málatilbúnaði kæranda sem styðji það að fullnægjandi gögn hafi ekki legið fyrir við útgáfu vottorðs um lokaúttekt eða að farið hafi verið á svig við ákvæði skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 eða byggingarreglugerðar við útgáfu þess.  Yfirlýsing byggingarstjóra um verklok hafi legið fyrir, þeir aðilar hafi verið viðstaddir úttektina sem þar hafi átt að vera og allar nauðsynlegar yfirlýsingar hafi legið fyrir, sbr. 53. gr. byggingarreglugerðar.  Atriði þau sem gerðar hafi verið athugasemdir við í lokaúttekt hafi verið lagfærð áður en vottorðið hafi verið gefið út og starfsmannahúsið hafi uppfyllt allar þær kröfur sem gerðar séu í byggingarreglugerð og í staðli ÍST-51.  Þá hafi verið staðreynt að byggingin hafi verið í samræmi við samþykkta uppdrætti.  Geti kærandi því ekki dregið til baka yfirlýsingu um verklok í því skyni að ógilda vottorð skipulags- og byggingarfulltrúa um lokaúttekt. 

Niðurstaða:  Samkvæmt 2. mgr. 40. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, sem í gildi voru við útgáfu umdeilds vottorðs, annaðist byggingarfulltrúi úttektir og eftirlit einstakra þátta byggingarframkvæmda og lokaúttekt fullbyggðs mannvirkis og gaf út vottorð þar um.  Í máli þessu er uppi krafa um ógildingu vottorðs byggingarfulltrúa um lokaúttekt. 

Hluti af lögmæltu eftirliti byggingaryfirvalda með mannvirkjagerð er framkvæmd lokaúttektar.  Með henni er gengið úr skugga um að mannvirki sé í samræmi við samþykkta uppdrætti og ákvæði laga og reglugerða sem um þau gilda.  Vottorð um lokaúttekt er skrifleg yfirlýsing um að slík úttekt hafi farið fram og eftir atvikum að bætt hafi verið úr ágöllum sem fram hafi komið við úttektina. 

Samkvæmt 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, sbr. nú 5. mgr. 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, sæta stjórnvaldsákvarðanir stjórnsýslu sveitarfélaga kæru til úrskurðarnefndarinnar.  Með stjórnvaldsákvörðun er átt við einhliða ákvörðun stjórnvalds um rétt eða skyldu manna sem tekin er í skjóli stjórnsýsluvalds.  Vottorð um lokaúttekt felur ekki í sér slíka ákvörðun heldur staðfestingu þess að lokaúttekt hafi farið fram eins og að framan greinir.  Verður kærumáli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

_______________________________
Hjalti Steinþórsson

_____________________________    _____________________________
Ásgeir Magnússon                                      Þorsteinn Þorsteinsson

9/2011 Fjörður 1

Með

Ár 2011, föstudaginn 1. apríl, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Ómar Stefánsson hdl., staðgengill forstöðumanns, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 9/2011, kæra á afgreiðslu byggingarfulltrúa Fjarðabyggðar á erindi vegna framkvæmda í landi Fjarðar 1 í Mjóafirði, Fjarðabyggð. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 20. janúar 2011, er barst nefndinni 21. sama mánaðar, kærir A, einn sameigenda jarðarinnar Fjarðar 1 í Mjóafirði, Fjarðabyggð, afgreiðslu byggingarfulltrúa Fjarðabyggðar á erindi vegna framkvæmda á nefndri jörð. 

Gerir kærandi þá kröfu að byggingarfulltrúa verði gert að fjarlægja ólöglegar byggingar og veg á umræddu landi en að öðrum kosti að þvingunarúrræði 3. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 verði beitt og Skipulagstofnun láti fjarlægja greindar byggingar á kostnað Fjarðabyggðar. 

Málsástæður og rök:  Hinn 3. ágúst 2010 sendi kærandi byggingaryfirvöldum í Fjarðabyggð erindi vegna framkvæmda í landi Fjarðar 1 í Mjóafirði.  Kom þar fram að um væri að ræða tvær byggingar, annars vegar byggingu yfir tvo 20 feta gáma og hins vegar smáhýsi yfir rafstöð.  Þá var og nefndur til sögunnar 400 metra langur nýr vegur frá Mjóafjarðarvegi og að húsi framkvæmdaaðila er lægi um 50 m innar í dalnum en eldri vegur.  Í bréfinu vísaði kærandi til þess að ekki hefði verið aflað leyfis fyrir nefndum framkvæmdum og skort hefði samþykki sameigenda að umræddu landi fyrir þeim.  Var þess farið á leit við byggingarfulltrúa að framkvæmdaaðila yrði gert að afla tilskilinna leyfa hjá yfirvöldum sveitarfélagsins og samþykkis annarra landeigenda.  Að öðrum kosti yrði þeim gert að fjarlægja greindar byggingar og veg.  Byggingarfulltrúi svaraði erindinu með bréfi, dags. 20. desember 2010, þar sem viðhorfum byggingaryfirvalda var lýst.  Var þar tekið fram að eigendum umræddra bygginga yrði gert að sækja um byggingarleyfi fyrir þeim og framkvæmdaleyfi fyrir veginum. 

Kærandi vísar til þess að hin kærða afgreiðsla byggingarfulltrúa sé með öllu óviðunandi og hafi ekki verið borin undir sveitarstjórn Fjarðabyggðar.  Af svarbréfi byggingarfulltrúa við erindi hans megi ráða að kæranda sé óviðkomandi hvað meðeigendur framkvæmi á sameiginlegu landi þeirra og með því sé gert lítið úr eignarréttindum kæranda að landinu.  Byggingaryfirvöldum hafi verið kunnugt um nefndar óleyfisbyggingar frá því í maí 2009 en hafi þó ekkert aðhafst vegna þeirra.  Kærandi hafi reynt að ná samningum um uppskipti sameiginlegs lands í séreignarhluta, þannig að umræddar byggingar yrðu á séreignarlandi framkvæmdaaðila, en án árangurs. 

Af hálfu Fjarðabyggðar er þess aðallega krafist að kærunni verði vísað frá úrskurðarnefndinni en ella að kröfum kæranda verði hafnað.  Ekki sé búið að taka stjórnsýsluákvörðun í máli sem hófst með erindi kæranda, dags. 3. ágúst 2010.  Með bréfi byggingarfulltrúa Fjarðabyggðar, dags. 20. desember 2010, hafi kæranda einungis verið kynnt ákvörðun um meðferð málsins.  Slík ákvörðun sé eðlilegur liður í undirbúningi máls og byggi m.a. á rannsóknarreglu stjórnsýslulaga,  Ljóst sé að ágreiningsefni málsins varði m.a. deilu um eignarhald og legu um 5.000 m2 lóðar og geti byggingarfulltrúi ekki skorið úr um slíkan ágreining.  Þegar umsókn og fylgigögn hafi borist, eða sýnt sé að frestur til framlagningar slíkra gagna verði ekki nýttur, muni erindi kæranda verða tekið til efnislegrar umfjöllunar og ákvörðun tekin í kjölfar þess. 

Í tilefni af frávísunarkröfu Fjarðabyggðar bendir kærandi á að með bréfi, dags. 27. desember 2010, hafi hann farið fram á rökstuðning fyrir fullyrðingum í bréfi byggingarfulltrúa, dags. 10. desember sama ár, og tilkynnt að ella yrði niðurstaðan kærð til æðra stjórnvalds.  Beiðni um rökstuðning hafi ekki verið svarað og engar leiðbeiningar veittar eða meintur misskilningur um innihald bréfs byggingarfulltrúa leiðréttur.  Augljóst hafi mátt vera að kærandi hafi talið að um endanlega ákvörðun væri að ræða enda hafi í fyrrgreindu bréfi byggingarfulltrúa verið talað um niðurstöðu.  Það bréf beri og með sér að byggingarfulltrúi hafi tekið afstöðu í málinu, byggða á sjónarmiðum framkvæmdaaðila, án þess að gengið hafi verið úr skugga um staðreyndir málsins. 

Aðilar að hinum umdeildu framkvæmdum benda á að kæranda hafi verið fullkunnugt um framkvæmdirnar sem átt hafi sér stað á árunum 2006-2007 og hafi þá aldrei lýst öðru en ánægju með þær.  Á árinu 2009 hafi komið upp hugmyndir hjá fjölskyldumeðlimum kæranda um stórfellda uppbyggingu í Fjarðarlandi sem gengið hafi í berhögg við sameiginlegar hugmyndir annarra eigenda landsins.  Hafi kærandi þá knúið á um helmingaskipti á túni Fjarðar 1 og hafi framkvæmdaaðilum verið hótað málsókn yrði ekki fallist á fyrrnefndar hugmyndir um uppbyggingu.  Gámahúsið, þ.e. gamla fjárhúsið í Firði, sé séreign og ekki þurfi að afla samþykkis annarra fyrir framkvæmdum þar.  Þá hafi bygging bráðabirgðaskúrs yfir rafstöð á staðnum verið neyðarúrræði vegna slæms ásigkomulags fjóssins, en þak þess hafi fokið af í janúar 2011.  Framkvæmdaaðilar hafi leitað lausna á málinu gangvart kæranda en án árangurs. 

Niðurstaða:  Kæra í máli þessu er reist á efni bréfs byggingarfulltrúans í Fjarðabyggð, dags. 20. desember 2010, sem sent var í tilefni af erindi kæranda vegna byggingarframkvæmda og veglagningar í landi Fjarðar 1 í Mjóafirði.  Í nefndu bréfi byggingarfulltrúa kemur fram að þeim sem að framkvæmdunum stóðu yrði gert að afla nauðsynlegra leyfa en þar er ekki að finna ákvörðun sem felur í sér afstöðu til kröfu kæranda um beitingu þvingunarúrræða gagnvart framkvæmdaaðilum. 

Samkvæmt 5. mgr. 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, sbr. og 59. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010, sæta stjórnvaldsákvarðanir stjórnsýslu sveitarfélaga kæru til úrskurðarnefndarinnar og verður ákvörðunin að binda endi á meðferð máls samkvæmt 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Í tilvitnuðu bréfi byggingarfulltrúa er ekki að finna slíkar ákvarðanir og ber því með vísan til greindra lagaákvæða að vísa máli þessu frá úrskurðarnefndinni. 

Úrskurðarorð: 

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

_______________________________
Ómar Stefánsson

_____________________________         _____________________________
Ásgeir Magnússon                                           Þorsteinn Þorsteinsson

26/2010 Hólmsheiði

Með

Ár 2011, miðvikudaginn 16. mars, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Ómar Stefánsson hdl., staðgengill forstöðumanns, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 26/2010, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá frá 25. mars 2010 um að samþykkja tillögu að deiliskipulagi um afmörkun á svæði til jarðvegsfyllingar á Hólmsheiði í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 5. maí 2010, er barst nefndinni 6. sama mánaðar, kærir Guðbjarni Eggertsson hdl., f.h. Þ ehf., eiganda landsspildu á Hólmsheiði, þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 25. mars 2010 að samþykkja tillögu að deiliskipulagi um afmörkun á svæði til jarðvegsfyllingar á Hólmsheiði í Reykjavík.  Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Með tveimur bréfum, dags. 4. maí 2010, er úrskurðarnefndinni bárust hinn 7. og 17. maí sama ár, kæra fimm landeigendur í Almannadal og við Langavatn fyrrgreinda deiliskipulagsákvörðun og krefjast ógildingar hennar.  Þar sem hagsmunir kærenda standa því ekki í vegi, verða þau kærumál, sem eru nr. 27/2010 og 30/2010, sameinuð máli þessu.

Málsástæður og rök:  Að undangenginni breytingu á svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins og aðalskipulagi Reykjavíkur var tillaga að deiliskipulagi auglýst að nýju en samhljóða skipulag hafði verið fellt úr gildi með úrskurði úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála hinn 24. júlí 2008.  Fól skipulagstillagan í sér afmörkun svæðis fyrir losun ómengaðs jarðvegs á Hólmsheiði í Reykjavík.  Athugasemdir báust á kynningartíma tillögunnar, m.a. frá kærendum í máli þessu.  Borgarráð staðfesti deiliskipulagstillöguna hinn 25. mars 2010 og öðlaðist hún gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 7. apríl sama ár.

Á því er m.a. byggt af hálfu kærenda að hið kærða deiliskipulag fari á svig við svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins og aðalskipulag Reykjavíkur.  Þá sé ljóst að lög og reglugerðir hafi verið brotnar hvað varði skipulag, frágang og skýrleika skipulagsáætlana og samráð við hagsmunaaðila.  Um sé að ræða svæði sem ætlað hafi verið til útivistar en hafi nú verið breytt í losunarstað fyrir jarðveg.  Á svæðinu, sem sé við vatnsból Reykjavíkur, hafi verið losaður mengaður jarðvegur.  Jafnframt fylgi heimilaðri starfsemi fok jarðvegs og rusls yfir lönd kærenda auk ónæðis vegna umferðar og vinnuvéla.

Af hálfu Reykjavíkurborgar hefur verið upplýst að á fundi skipulagsstjóra 24. september 2010 hafi verið lögð fram tillaga að deiliskipulagi fyrir jarðvegsfyllingu á Hólmsheiði þar sem heimiluð yrði losun á ómenguðum jarðvegi á umræddu svæði til ársins 2020.  Hafi borgarráð samþykkt tillöguna hinn 21. október 2010, að lokinni kynningu hennar, og hafi deiliskipulagið öðlast gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda hinn 14. desember sama ár.  Með gildistöku skipulagsins hafi eldra deiliskipulag svæðisins, sem um sé deilt í máli þessu, fallið úr gildi.  Beri af þeim sökum að vísa kærumáli þessu frá úrskurðarnefndinni. 

Niðurstaða:  Eins og fram er komið tók gildi nýtt deiliskipulag sem heimilar jarðvegslosun á Hólmsheiði hinn 14. desember 2010.  Í bókun skipulagsráðs Reykjavíkur hinn 13. október 2010, þar sem fallist var á tillögu að greindu skipulagi kemur fram að við samþykkt tillögunnar sé gert ráð fyrir að eldra deiliskipulag á Hólmsheiði, sem tekið hafi gildi 7. apríl 2010, og deiliskipulag fyrir miðlunargeyma á Hólmsheiði, sem tekið hafi gildi „30. febrúar 2008“, falli úr gildi.  Borgarráð staðfesti skipulagstillöguna 4. nóvember 2010.  Hefur greindri deiliskipulagsákvörðun verið skotið til úrskurðarnefndarinnar með kröfu um ógildingu og er hluti kærenda í máli þessu aðilar að því málskoti.

Samkvæmt framansögðu hefur hið kærða deiliskipulag í máli þessu fallið úr gildi við gildistöku hins nýja deiliskipulags fyrir Hólmsheiði og hefur það því ekki lengur réttarverkan að lögum.  Af þeim sökum hafa kærendur ekki lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um lögmæti hinnar kærðu ákvörðunar og verður kærumáli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni með vísan til 5. mgr. 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

______________________________
Ómar Stefánsson

_____________________________     _____________________________
Ásgeir Magnússon                                       Þorsteinn Þorsteinsson

79/2010 Bergstaðastræti

Með

Ár 2011, föstudaginn 4. mars, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Ómar Stefánsson hdl., staðgengill forstöðumanns, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 79/2010, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 14. desember 2010 um að veita takmarkað byggingarleyfi fyrir uppsteypu 2. hæðar nýbyggingar við húsið að Bergstaðastræti 13 í Reykjavík. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 13. desember 2010, er barst nefndinni sama dag, kærir Arnar Þór Stefánsson hdl., f.h. D, eiganda eignarhluta í fasteigninni að Bergstaðastræti 15, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 14. desember 2010 að veita takmarkað byggingarleyfi fyrir uppsteypu 2. hæðar nýbyggingar við húsið að Bergstaðastræti 13 í Reykjavík. 

Gerir kærandi þá kröfu að hið kærða byggingarleyfi verði fellt úr gildi.  Jafnframt var gerð krafa um að framkvæmdir við heimilaða byggingu yrðu stöðvaðar meðan málið væri til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni og kvað úrskurðarnefndin upp bráðabirgða-úrskurð hinn 24. janúar 2011 þar sem framkvæmdir samkvæmt hinu kærða leyfi voru stöðvaðar. 

Málsatvik og rök:  Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 23. febrúar 2010 var tekin fyrir umsókn um endurnýjun byggingarleyfis sem samþykkt hafði verið 19. ágúst 2008 fyrir fjögurra hæða viðbyggingu með atvinnuhúsnæði á fyrstu hæð og þremur íbúðum á annarri til fjórðu hæð á lóðinni nr. 13 við Bergstaðastræti.  Samþykkti byggingarfulltrúi umsóknina og var sú afgreiðsla staðfest í borgarráði 25. febrúar 2010.  Byggingarleyfi sem heimilaði að hefja framkvæmdir var gefið út hinn 30. ágúst 2010. 

Kærandi, ásamt öðrum, kærði ákvörðun um veitingu fyrrgreinds byggingarleyfis til úrskurðarnefndarinnar, sem með úrskurði uppkveðnum 6. október 2010 felldi hana úr gildi, þar sem notkun annarrar til fjórðu hæðar heimilaðrar byggingar samræmdist ekki landnotkun gildandi aðalskipulags fyrir umrædda lóð. 

Í kjölfarið var veitt sérstakt byggingarleyfi fyrir fyrstu hæð hússins og leituðu borgaryfirvöld jafnframt til Skipulagsstofnunar með erindi um að á grundvelli 23. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 yrði auglýst í B-deild Stjórnartíðinda leiðrétting á landnotkun umrædds svæðis, þar sem landnotkun hefði fyrir mistök borið lit athafna-svæðis í stað íbúðarsvæðis á aðalskipulagsuppdrætti.  Féllst Skipulagsstofnun á erindið fyrir sitt leyti og var málinu síðan vísað til umhverfisráðuneytisins sem annaðist staðfestingu og auglýsingu aðalskipulags samkvæmt þágildandi skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997. 

Byggingarfulltrúinn í Reykjavík gaf út byggingarleyfi samkvæmt 2. mgr. 44. gr. skipulags- og byggingarlaga hinn 8. desember 2010, er takmarkaðist við uppsteypu annarrar hæðar nýbyggingar sem verið er að reisa að Bergstaðastræti 13, en veiting leyfisins var afgreidd á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 14. desember sama ár.  Sú afgreiðsla var lögð fram á fundi skipulagsráðs 15. desember og staðfest í borgarráði 16. desember 2010.  Hefur veitingu þessa byggingarleyfis verið skotið til úrskurðar-nefndarinnar eins og að framan greinir. 

Eftir að kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni tilkynnti umhverfisráðuneytið Reykjavíkurborg í bréfi, dags. 17. janúar 2011, að ráðuneytið gæti ekki fallist á erindi borgarinnar um leiðréttingu á landnotkun umrædds svæðis á gildandi aðalskipulags-uppdrætti samkvæmt 23. gr. stjórnsýslulaga.  Byggðist sú niðurstaða á því að stjórnsýslulög ættu ekki við um skipulagsáætlanir, sbr. 1. gr. laganna, þar sem þær teldust vera almenn stjórnvaldsfyrirmæli. 

Hinn 26. janúar 2011 samþykkti borgarráð tillögu að breytingu á Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024 sem fól í sér að landnotkun umrædds götureits var breytt úr athafnasvæði í íbúðarsvæði.  Skipulagsstofnun staðfesti þá breytingu 17. febrúar 2011 og var auglýsing þar um birt í B-deild Stjórnartíðinda 18. febrúar s.á. 

Byggingarfulltrúi samþykkti síðan hinn 22. febrúar 2011 að endurnýja byggingarleyfið fyrir fjögurra hæða viðbyggingu að Bergstaðastræti 13, sem úrskurðarnefndin ógilti hinn 6. október 2010.  Borgarráð staðfesti veitingu byggingarleyfisins 24. febrúar sama ár og skaut kærandi þeirri ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar með kæru, dags. 23. febrúar 2011. 

Af hálfu kæranda er vísað til þess að byggingarleyfi fyrir umdeildri fjögurra hæða viðbyggingu að Bergstaðastræti 13 hafi með úrskurði úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála verið fellt úr gildi þar sem leyfið hafi farið í bága við gildandi landnotkun svæðisins.  Kærandi hafi í kjölfarið krafist þess af borgaryfirvöldum að hin ólögmæta bygging yrði fjarlægð og lóðinni komið í fyrra horf í samræmi við þágildandi 2. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Borgaryfirvöld hafi hins vegar hinn 7. október 2010 veitt takmarkað byggingarleyfi fyrir uppsteypu fyrstu hæðar viðbyggingarinnar.  Byggingarfulltrúi hafi nú veitt takmarkað byggingarleyfi fyrir uppsteypu annarrar hæðar sem ætluð sé til íbúðar þrátt fyrir óbreytta landnotkun á svæðinu frá því að fyrrgreindur úrskurður gekk. 

Borgaryfirvöld benda á að í ljósi aðstæðna hafi verið heimilt og eðlilegt að veita hið umþrætta byggingarleyfi.  Fyrir liggi að umrædd bygging og það sem þegar hafi verið byggt sé hvorki í andstöðu við deiliskipulag né aðalskipulag.  Aðeins fyrirhuguð notkun hluta byggingarinnar til íbúðar komi þar til álita, en ekki sé búið að taka nýbygginguna í notkun.  Landnotkun á reitnum sé íbúðarsvæði og hafi svo alltaf verið.  Nú sé unnið að leiðréttingu mistaka við prentun aðalskipulagsuppdráttar.   Það sé vandséð hvaða hagsmuna kærandi eigi að gæta í máli þessu þar sem öllum efnislegum málatilbúnaði hans hafi verið hafnað í fyrri úrskurði úrskurðarnefndarinnar um umrædda byggingu. 

———-

Byggingarleyfishafa var gefinn kostur á að koma að í málinu athugasemdum sínum og sjónarmiðum en greinargerð af hans hálfu hefur ekki borist úrskurðarnefndinni. 

Niðurstaða:  Eins og fram er komið veitti byggingarfulltúinn í Reykjavík nýtt byggingarleyfi fyrir umdeildri viðbyggingu að Bergstaðastræti 13 í Reykjavík hinn 22. febrúar 2011.  Tekur það byggingarleyfi m.a. til byggingar annarrar hæðar viðbyggingarinnar sem hið kærða byggingarleyfi í máli þessu tekur til. 

Verður að líta svo á að með ákvörðuninni um veitingu hins nýja byggingarleyfis hafi hin kærða ákvörðun í máli þessu fallið úr gildi og hafi hún ekki lengur réttarverkun að lögum.  Samkvæmt því hefur kærandi, sem þegar hefur kært hina nýju ákvörðun um byggingarleyfi fyrir viðbyggingu að Bergstaðastræti 13, ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi hinnar kærðu ákvörðunar og verður máli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni í samræmi við 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, sbr. nú 59. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010 og 5. mgr. 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. 

Úrskurðarorð: 

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

_______________________________
Ómar Stefánsson

_____________________________        _____________________________
Ásgeir Magnússon                                          Þorsteinn Þorsteinsson

20/2009 Sléttuvegur

Með

Ár 2011, föstudaginn 4. mars, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Ómar Stefánsson hdl., staðgengill forstöðumanns, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 20/2009, kæra á samþykktum skipulagsráðs Reykjavíkur frá 27. ágúst 2008 og 17. desember s.á. um breytt deiliskipulag neðan Sléttuvegar vegna lóðar C við Sléttuveg. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 3. apríl 2009, er barst nefndinni hinn 6. s.m., kærir A, lóðarhafi Lautarvegar 2, Reykjavík, samþykktir skipulagsráðs Reykjavíkur frá 27. ágúst 2008 og 17. desember s.á. um breytt deiliskipulag neðan Sléttuvegar vegna lóðar C við Sléttuveg. 

Gerir kærandi þá kröfu að hinar kærðu samþykktir verði felldar úr gildi.  Þá er og gerð krafa um að framkvæmdir sem hafnar séu verði stöðvaðar meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. 

Málsatvik og rök:  Á árinu 2007 samþykkti borgarráð deiliskipulag neðan Sléttuvegar í Fossvogi þar sem m.a. var gert ráð fyrir að á lóð C myndi rísa 70 íbúða fjölbýlishús fyrir námsmenn.  Hinn 27. ágúst 2008 samþykkti skipulagsráð breytingu á deiliskipulagi þessu er heimilaði að íbúðum í fjölbýlishúsinu yrði fjölgað um fimm eða úr 70 í 75.  Birtist auglýsing um gildistöku breytingarinnar í B-deild Stjórnartíðinda 19. september 2008.  Á fundi skipulagsráðs 17. desember s.á. var síðan samþykkt að íbúðir í húsinu yrðu 80.  Birtist auglýsing um gildistöku þeirrar samþykktar í B-deild Stjórnartíðinda 4. mars 2009. 

Af hálfu kæranda er vísað til þess að málsmeðferð hinna kærðu samþykkta hafi verið andstæð ákvæðum þágildandi skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 þar sem tillögur um breytt deiliskipulag hafi hvorki verið auglýstar né grenndarkynntar.  Með samþykktunum sé gengið gegn grenndarhagsmunum hans en skipulagsreiturinn neðan Sléttuvegar myndi eina heild og séu íbúðafjöldi, íbúafjöldi og umferð veigamiklir þættir í skipulagsgerðinni.  Í upphaflegu deiliskipulagi svæðisins hafi verið gert ráð fyrir sameiginlegu grænu svæði og leiksvæði er liggi að lóð kæranda og með auknum íbúðafjölda verði væntanlega fleiri um notkun svæðanna. 

Reykjavíkurborg hefur ekki skilað sérstakri greinargerð í málinu en af fyrirliggjandi gögnum verður ráðið að borgaryfirvöld hafi ekki talið þörf á að grenndarkynna umdeildar deiliskipulagsbreytingar þar sem þær fælu aðeins í sér fjölgun íbúða í húsinu sem ekki hefðu áhrif á hagsmuni nágranna. 

Niðurstaða:  Hinar kærðu ákvarðanir heimila fjölgun íbúða í fjölbýlishúsi með leiguíbúðum fyrir námsmenn úr 70 í 80 á lóð C við Sléttuveg.  Ekki var gerð breyting á ytra byrði hússins eða grunnfleti þess heldur var fjölguninni náð fram með breytingu á innri hönnun þess.  Umrætt fjölbýlishús stendur norðan við lóð kæranda, í nokkurri fjarlægð, og er aðkoma bíla að fjölbýlishúsinu og lóð kæranda ekki um sömu götu.  Samkvæmt gildandi deiliskipulagi er gert ráð fyrir að á milli fasteignanna verði göngustígur, leikvöllur, fjölbýlishús með tuttugu íbúðum og útivistarsvæði. 

Samkvæmt almennum reglum stjórnsýsluréttarins er það skilyrði aðildar að kærumáli fyrir æðra stjórnvaldi að kærandi eigi verulegra og einstaklegra lögvarinna hagsmuna að gæta í málinu, sbr. 5. mgr. 8. gr. þágildandi skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, sbr. nú 59. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010 og 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.  Verður ekki séð, með hliðsjón af áðurgreindum staðháttum, að umdeild fjölgun íbúða snerti einstaklingsbundna og lögvarða hagsmuni kæranda með þeim hætti að hann teljist eiga kæruaðild varðandi hinar umdeildu ákvarðanir.  Verður kærumáli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni vegna aðildarskorts. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

______________________________
Ómar Stefánsson

______________________________     ______________________________
Ásgeir Magnússon                                         Þorsteinn Þorsteinsson

43/2009 Þúfukot

Með

Ár 2011, fimmtudaginn 10. febrúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Ómar Stefánsson hdl., staðgengill forstöðumanns, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 43/2009, kæra á afgreiðslu hreppsnefndar Kjósarhrepps frá 2. apríl 2009 á beiðni um deiliskipulag hluta jarðarinnar Þúfukots í Kjósarhreppi. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 10. júní 2009, er barst nefndinni 22. s.m., kærir H, Þúfukoti, Kjósarhreppi, afgreiðslu hreppsnefndar Kjósarhrepps frá 2. apríl 2009 á beiðni um deiliskipulag hluta jarðarinnar Þúfukots.  Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða afgreiðsla verði felld úr gild. 

Málsatvik og rök:  Á fundi skipulags- og byggingarnefndar Kjósarhrepps 10. júlí 2008 var til umfjöllunar tillaga kæranda máls þessa um deiliskipulag hluta jarðarinnar Þúfukots í Kjós.  Var eftirfarandi fært til bókar á fundinum:  „Tillagan gerir ráð fyrir 20 lóðum fyrir búgarða og 4 lóðum fyrir íbúðarhús ásamt sameiginlegu svæði.  Meðfylgjandi eru umsagnir Veðurstofu Íslands og Fornleifaverndar ríkisins.  Frestað. Skipulagsnefnd tekur jákvætt undir erindið en felur skipulagsfulltrúa að afla ítarlegri gagna og umsagna.“  Á fundi nefndarinnar 5. nóvember s.á. var erindi kæranda til umfjöllunar og var eftirfarandi bókað:  „Tekin var fyrir öðru sinni deiliskipulagstillaga fyrir búgarðabyggð í landi Þúfukots. … Skipulagsnefnd samþykkir erindið með fyrirvara um umsagnir heilbrigðisfulltrúa Kjósarsvæðis og Vegagerðarinnar.“  Á fundi hreppsnefndar 6. s.m. var áðurnefnd fundargerð skipulags- og byggingarnefndar til umfjöllunar og afgreiðslu og var eftirfarandi fært til bókar af því tilefni:  „Byggingarnefndarhluti fundargerðarinnar er samþykktur en skipulagshluta er hafnað og vísað aftur til skipulagsnefndar.“  Í kjölfarið ritaði oddviti hreppsnefndar formanni skipulags- og byggingarnefndar bréf, dags. 10. nóvember 2008, þar sem segir m.a. að hreppsnefnd hafi ekki þótt tímabært að samþykkja tillöguna í skipulagsnefnd fyrr en umsögn Vegagerðarinnar og Heilbrigðiseftirlits liggi fyrir.  Einnig er bent á ýmsa ágalla er hreppsnefnd þóttu vera á tillögunni.  Á fundi skipulags- og byggingarnefndar 14. febrúar 2009 var erindi kæranda enn til umfjöllunar og var eftirfarandi bókað:  „Erindið var áður samþykkt í skipulagsnefnd 5. nóvember 2008 með fyrirvara um samþykki Vegagerðar og Heilbrigðseftirlits Kjósarsvæðis.  Afgreiðslu fundargerðar skipulagsnefndar var hafnað í hreppsnefnd 6. nóvember 2008 vegna ágalla á skipulagsuppdrætti.  Lagður er fram nýr og endurbættur uppdráttur af skipulagssvæðinu. … Bókun:  Frestað. Skipulagsfulltrúa falið að vera í samráði við skipulagshöfund varðandi frekari útfærslur skipulagsins og sjá um hagsmunaaðilakynningu.“ 

Á fundi hreppsnefndar 2. apríl 2009 var lagt fram erindi frá skipulagsfulltrúa er varðaði jörðina Þúfukot og var eftirfarandi fært til bókar:  „Lagt fram erindi frá skipulagsfulltrúa fyrir hönd skipulagsnefndar þar sem óskað er eftir því að hreppsnefndin taki afstöðu til deiliskipulagstillögu í landi Þúfukots, en hún felur í sér að hin fyrirhugaða byggð skilgreinist sem þéttbýli samkvæmt skipulagslögum.  Afgreiðsla:  Framlögð tillaga fellur undir skilgreiningu á þéttbýli samkvæmt byggingar- og skipulagslögum.  Í aðalskipulagi Kjósarhrepps er ekki gert ráð fyrir uppbyggingu á þéttbýlissvæðum í sveitarfélaginu.  Sveitarstjórn er einhuga um að framfylgja þeirri stefnu.“

Af hálfu kæranda er vísað til þess að hann hafi unnið tillögu að deiliskipulagi fyrir hluta jarðarinnar eftir forsögn aðalskipulags sveitarfélagins og ábendingum skipulags- og byggingarnefndar og því sé óskiljanlegt hvers vegna tillögunni hafi verið hafnað. 

Kjósarhreppur bendir á að tillaga kæranda rúmist ekki innan aðalskipulags sveitarfélagsins auk þess sem henni hafi aldrei verið formlega hafnað heldur einvörðungu verið bent á að tillagan samræmdist ekki aðalskipulagi og henni vísað til frekari úrvinnslu.  Verulegir ágallar hafi verið á tillögunni sem þurfi að vinna úr áður en hún sé tæk til auglýsingar. 

Niðurstaða:  Eins og að framan er rakið vísaði hreppsnefnd, á fundi sínum 6. nóvember 2008, afgreiðslu skipulags- og byggingarnefndar frá 5. s.m., um tillögu að deiliskipulagi hluta jarðarinnar Þúfukots, að nýju til skipulags- og byggingarnefndar.  Í bréfi oddvita hreppsnefndar til formanns nefndarinnar, dags. 10. nóvember 2008, kom m.a. fram það mat hreppsnefndar að ekki væri tímabært að samþykkja tillöguna og bent á ágalla er hreppsnefnd þóttu vera á henni. 

Á fundi hreppsnefndar 2. apríl 2009 var lagt fram erindi frá skipulagsfulltrúa þar sem óskað var eftir afstöðu hreppsnefndar til tillögu að deiliskipulagi í landi Þúfukots.  Í bókun hreppsnefndar af því tilefni sagði að í aðalskipulagi sveitarfélagins væri ekki gert ráð fyrir uppbyggingu þéttbýlissvæða innan þess en ekki verður af bókuninni ráðið, með tilliti til forsögu málsins, að endanleg afstaða hafi verið tekin til erindisins. 

Með vísan til þessa verður hin kærða afgreiðsla ekki talin fela í sér lokaákvörðun sem bindur enda á meðferð máls og er hún því ekki kæranleg til úrskurðarnefndarinnar, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Verður máli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

_______________________________
Ómar Stefánsson

_______________________________    _____________________________
Ásgeir Magnússon                                           Þorsteinn Þorsteinsson