Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

45/2025 Svalvogavegur

Með

Árið 2025, fimmtudaginn 27. mars, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 45/2025, kæra á afgreiðslu Ísafjarðarbæjar frá 18. ágúst 2023 um að synja um aðgerðir til að færa ós Sandár í Dýrafirði.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 20. mars 2025, kærir eigandi Steypustöðvarinnar í Dýrafirði, þá afgreiðslu Ísafjarðarbæjar frá 18. ágúst 2023 að synja beiðni um aðgerðir til að færa ós Sandár í Dýrafirði. Er þess krafist að ábyrgð til að verja fasteign Steypustöðvarinnar fyrir ágangi Sandár og/eða vegna sjávargangs verði skilgreind og viðkomandi aðila gert að bregðast við. Einnig er þess krafist að felld verði úr gildi ákvörðun Ísafjarðarbæjar.

Málsatvik og rök: Með tölvupósti 18. ágúst 2023 óskaði kærandi eftir viðbrögðum Ísafjarðarbæjar vegna landbrots af völdum ágangs sjávar og áróss Sandár í Dýrafirði. Í erindinu kom fram að ágangur sjávar lokaði árósum Sandár á tveggja ára fresti að meðaltali og beindi með því ánni til austurs í átt að mannvirkjum Steypustöðvarinnar. Áður hafi Þingeyjahreppur látið grafa út árósinn reglulega til að viðhalda landamerkjum og vernda mannvirki og eftir sameiningu sveitarfélaga hafi Ísafjarðarbær viðhaldið því að varna ágangi árinnar og sjávar til að vernda mannvirki. Nú væri áin komin nálægt girðingu umhverfis Steypustöðina og væri farin að stefna mannvirkjum hennar í hættu. Var óskað eftir að sveitarfélagið, í samráði við aðliggjandi landeiganda, myndi bregðast við og láta færa ósinn til fyrri vegar. Kæranda var svarað samdægurs með tölvupósti þar sem fram kom að beiðninni væri hafnað þar sem um væri að ræða lögbundið hlutverk Vegagerðarinnar sbr. lög nr. 28/1997 um sjóvarnir.

Kærandi vísar til þess að Ísafjarðarbær hafi hafnað skyldu sinni til að verja fasteignir á landi bæjarins í Dýrafirði fyrir ágangi Sandár og/eða sjávar á þeirri forsendu að málið heyri undir Vegagerðina eða Land og skóga. Bærinn hafi hins vegar grafið út ós árinnar alla tíð að eigin frumkvæði og síðast árið 2019. Kæranda hafi borist lögfræðiálit frá sveitarfélaginu í desember 2023 þess efnis að því beri ekki skylda til að verja fasteignir einstaklinga fyrir ágangi sjávar eða áa. Vegagerðin og Land og skógar hafi einnig hafnað ábyrgð sinni.

Niðurstaða: Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðun þá sem kæra lýtur að. Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er fjallað um áhrif þess ef kæra berst að liðnum kærufresti. Ber þá samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins að vísa kæru frá nema að afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til efnismeðferðar. Í 2. mgr. 28. gr. laganna kemur fram að kæru skuli ekki sinnt ef meira en ár sé liðið frá því að ákvörðunin var tilkynnt aðila. Hin kærða ákvörðun var send kæranda með tölvupósti 18. ágúst 2023 en kæra barst úrskurðarnefndinni 20. mars 2025, eða rúmu einu og hálfu ári síðar. Þar sem meira en ár er liðið frá hinni kærðu ákvörðun verður máli þessu því óhjákvæmilega vísað frá úrskurðar­nefndinni í samræmi við fyrirmæli 2. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga.

Þá bendir úrskurðarnefndin á að samkvæmt 2. mgr. 1. gr. laga nr. 28/1997 um sjóvarnir fer ráðherra með yfirstjórn mála er varða sjóvarnir en Vegagerðin með framkvæmd þeirra. Er erindum um framkvæmdir vegna sjóvarna þannig réttilega beint til Vegagerðarinnar eða eftir atvikum til innviðaráðuneytisins.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

8/2025 Bráðabirgðaheimild Álfsnesi

Með

Árið 2025, miðvikudaginn 12. mars, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 8/2025, kæra á ákvörðun Umhverfis- og orkustofnunar frá 3. janúar 2025 um að framlengja bráðabirgðaheimild fyrir starfsemi Skotveiðifélags Reykjavíkur og nágrennis á skotsvæði félagsins á Álfsnesi.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála er barst nefndinni 12. janúar 2025 kærir eigandi, Stekk, 162 Reykjavík, þá ákvörðun Umhverfis- og orkustofnunar frá 3. janúar 2025 að framlengja bráðabirgðaheimild fyrir starfsemi Skotveiðifélags Reykjavíkur og nágrennis á skotsvæði félagsins á Álfsnesi, þar til starfsleyfi hefur verið gefið út en þó eigi lengur en til 5. janúar 2026. Skilja verður málskot kæranda svo að krafist sé ógildingar ákvörðunarinnar.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Umhverfis- og orkustofnun 7. febrúar 2025.

Málsatvik og rök: Tvö félög hafa á annan áratug rekið sinn hvorn skotvöllinn á Álfsnesi og hafa álitamál vegna þeirra áður komið til kasta úrskurðarnefndarinnar. Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun Umhverfis- og orkustofnunar frá 3. janúar 2025 að framlengja bráðabirgðaheimild fyrir starfsemi Skotveiðifélags Reykjavíkur og nágrennis, sem veitt var til fjögurra mánaða frá 5. september 2024. Á meðal þess sem kærandi byggir á er að óeðlilegt sé að hvorki við útgáfu bráðabirgðaheimildarinnar né við framlengingu hennar hafi hagaðilum verið tilkynnt um ákvörðun.

Niðurstaða: Af hálfu Umhverfis- og orkustofnunar hefur verið upplýst að Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur hafi veitt starfsleyfi fyrir starfseminni. Var það gefið út 13. febrúar 2025 og gildir til 31. desember 2028. Með vísan til orðalags hinnar kærðu bráðabirgðaheimildar er gildi hennar nú liðið undir lok og hefur hún því ekki lengur réttaráhrif. Á kærandi því ekki hagsmuni af því að fá skorið úr um lögmæti hennar. Verður kærumáli þessu því vísað frá nefndinni.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

157/2024 Tungnáreyrar

Með

Árið 2025, fimmtudaginn 13. mars, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 157/2024, kæra á tveimur ákvörðunum sveitarstjórnar Rangárþings ytra, annars vegar frá 9. október 2024 um að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir allt að 50.000 m3 efnistöku á Tungnaáreyrum og hins vegar frá 13. nóvember s.á. um að samþykkja í þess stað nýtt framkvæmdaleyfi fyrir allt að 40.000 m3 efnistöku á Tungnaáreyrum.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 11. nóvember 2024, er barst nefndinni sama dag, kæra samtökin Náttúrugrið, þá ákvörðun sveitarstjórnar Rangárþings ytra frá 9. október 2024 að samþykkja umsókn Landsvirkjunar um framkvæmdaleyfi á allt að 50.000 m3 efnistöku á 5 ha svæði á Tungnaáreyrum. Með tölvubréfi til úrskurðarnefndarinnar 2. janúar 2025 kæra samtökin Náttúrugrið jafnframt ákvörðun sveitarstjórnar Rangárþings ytra frá 13. nóvember 2024 um að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir allt að 40.000 m3 efnistöku á 2,4 ha svæði á Tungnaáreyrum.

Skilja verður málatilbúnað kæranda svo að krafist sé ógildingar hinna kærðu ákvarðana. Jafnframt er krafist stöðvunar framkvæmda sé efnistaka hafin eða hún yfirvofandi. Þykir málið nægilega upplýst til að taka það til efnislegrar meðferðar og verður því ekki kveðinn upp úrskurður um stöðvun framkvæmda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Rangárþingi ytra 13. desember 2024.

Málavextir: Hinn 15. september 2015 lagði Landsvirkjun fram frummatsskýrslu um Búrfellslund, vindorkuver með allt að 200 MW uppsettu rafafli, norðaustan við Búrfell í Skeiða- og Gnúpverjahreppi og Rangárþingi ytra, til athugunar hjá Skipulagsstofnun samkvæmt þágildandi lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Í mars 2016 var lögð fram matsskýrsla þar sem m.a. kom fram að fjöldi vindmylla yrði 58–67 og hámarkshæð þeirra, miðað við spaða í efstu stöðu, yrði 150 m. Þá voru kynntar þrjár útfærslur á afmörkun framkvæmdarinnar og gerð grein fyrir mögulegri skiptingu hverrar þeirrar í fjóra 50 MW áfanga. Í matsskýrslunni kom fram að gerð hefði verið athugun á mögulegum efnistökustöðum fyrir framkvæmdir í Búrfellslundi og væri efnisþörf áætluð um 700–1.000 m3. Stefnt væri að því að stærstur hluti efnis yrði fenginn úr tveimur námum, Guðmundareyri og úr frárennslisskurði Sultartangavirkjunar vestan Þjórsár. Einnig yrði endurnýtt efni sem kæmi úr uppgreftri af framkvæmdasvæðinu. Kæmi til þess að fyrrnefndar námur hentuðu ekki að öllu leyti við uppbyggingu fyrirhugaðs Búrfellslundar yrði efni sótt í aðrar námur. Tvær þeirra, Trippavað og Tungnaá væru skilgreindar í viðkomandi aðal- og/eða deiliskipulagsáætlunum. Væru efnistökusvæði þau sem ætlunin væri að nýta hvorki á svæðum sem hefðu verndargildi samkvæmt aðalskipulagi né náttúruverndarlögum og yrðu óveruleg áhrif á jarðmyndanir með verndargildi.

Hinn 21. desember 2016 lá fyrir álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum Búrfellslundar. Var niðurstaða stofnunarinnar sú að matsskýrslan uppfyllti að hluta skilyrði laga og reglugerðar um mat á umhverfisáhrifum hvað það varði að umhverfisáhrifum hafi verið lýst á fullnægjandi hátt svo sem nánar var lýst í álitinu. Hvað efnistöku vegna framkvæmdarinnar varðaði var bent á að hún væri fyrirhuguð á sama svæði og nýtt hefði verið við stækkun Búrfellsvirkjunar. Í skipulagsvinnu vegna þessarar framkvæmdar og umhverfismati þeirra skipulagstillagna þyrfti að gera nánari grein fyrir áformaðri efnistöku og samlegðaráhrifum með efnistöku vegna stækkunar Búrfellsvirkjunar.

Taldi Skipulagsstofnun að niðurstöður um mikil umhverfisáhrif gæfu tilefni til að skoða hvort önnur landsvæði hentuðu betur fyrir uppbyggingu af þessu tagi og umfangi. Þá kynni að vera tilefni til að skoða hvort umfangsminni uppbygging ætti betur við á þessu svæði, bæði hvað varðaði hæð og fjölda vindmylla. Þyrfti frekara mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar að gerast á öðrum vettvangi í ljósi þess að matsferli framkvæmdarinnar samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum framkvæmda, eins og hún væri nú áformuð, lyki með álitinu. Einnig kynni framkvæmdin að koma aftur til skoðunar á grundvelli laga um mat á umhverfisáhrifum framkvæmda yrðu breytingar á framkvæmdaáformum.

Um Búrfellslund er fjallað í svonefndri rammaáætlun, þ.e. verndar- og orkunýtingaráætlun skv. lögum nr. 48/2011, þar sem er mótuð stefna á landsvísu um hvort landsvæði þar sem er að finna virkjunarkosti megi nýta til orkuvinnslu eða hvort ástæða sé til að friðlýsa þau eða kanna frekar. Virkjunarkostir í vindorku komu í fyrsta sinn til umfjöllunar verkefnisstjórnar 3. áfanga rammaáætlunar og í lokaskýrslu hennar, dags. í ágúst 2016, var lagt til að Búrfellslundur yrði settur í biðflokk, en í þann flokk er virkjunarkostum skipað þegar talið er að afla þurfi frekari upplýsinga. Í febrúar 2020 birti Landsvirkjun skýrslu um endurhönnun Búrfellslundar með breyttu umfangi þar sem gert var ráð fyrir að uppsett afl virkjunarinnar yrði 120 MW, vindmyllur yrðu 30 í stað 58–67 og afl hverrar þeirrar 4–5 MW í stað 3–3,5 MW áður. Hæð vindmylla var óbreytt og framkvæmdasvæðið minnkað í 18 km2. Ársframleiðsla raforku var áætluð 440GWst í stað 705GWst áður. Tekið var fram að styrkur staðsetningarinnar fælist einnig í þeim innviðum sem þegar væru fyrir hendi og hægt yrði að nýta við uppbyggingu og rekstur virkjunarkostsins, m.a. efnisnámur. Í febrúar 2022 mælti umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra fyrir tillögu til þingsályktunar um rammaáætlun, þar sem lagt var til að Búrfellslundur yrði í biðflokki. Við síðari umræðu um ályktunina lágu fyrir álit og breytingartillaga meirihluta umhverfis- og samgöngunefndar og urðu lyktir þær að Búrfellslundur var settur í orkunýtingarflokk, sbr. samþykkt þingsályktunar nr. 24/152.

Hinn 24. og 28. maí 2024 tóku gildi með auglýsingum í B-deild Stjórnartíðinda breyting á Aðalskipulagi Rangárþings ytra 2016–2028 vegna Búrfellslundar og deiliskipulag fyrir allt að 120 MW vindlundi við Vaðöldu. Landsvirkjun var veitt virkjunarleyfi Orkustofnunar 12. ágúst 2024 vegna Búrfellslundar. Var sú ákvörðun kærð til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála og með úrskurði uppkveðnum 5. febrúar 2025 í máli nr. 98/2024 hafnaði meirihluti nefndarinnar kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunarinnar. Ákvörðun sveitarstjórnar Rangárþings ytra frá 11. september 2024 um að samþykkja að veita Landsvirkjun framkvæmdaleyfi til vegagerðar vegna Búrfellslundar sætti einnig kæru til úrskurðarnefndarinnar sem með úrskurði uppkveðnum 4. mars 2025 í máli nr. 103/2024 hafnaði kröfu um ógildingu ákvörðunarinnar.

Með umsókn, dags. 16. september 2024, óskaði Landsvirkjun eftir því að sveitarstjórn Rangárþings ytra gæfi út framkvæmdaleyfi fyrir efnistöku á allt að 50.000 m3, á allt að 5 ha svæði á efnistökustað E70 við Tungnaá. Tekið var fram að fyrirhuguð efnistaka væri ætluð til framkvæmda við vindorkuver við Vaðöldu sem gengið hefði undir vinnuheitinu Búrfellslundur. Á fundum skipulags- og umferðarnefndar Rangárþings ytra 19. s.m. og 3. október s.á. var lagt til við sveitarstjórn að heimild yrði veitt fyrir útgáfu framkvæmdaleyfis. Var niðurstaða nefndarinnar samþykkt á fundi sveitarstjórnar 9. október s.á. Í október 2024 óskaði Rangárþing ytra eftir umsögn forsætisráðuneytisins varðandi efnistökuna, sbr. 3. mgr. 3. gr. laga nr. 58/1998 um þjóðlendur. Barst umsögn frá ráðuneytinu 21. s.m. þar sem fram kom að af hálfu þess væri ekki gerð athugasemd við að leyfið yrði veitt.

Með tölvubréfi Landsvirkjunar til Rangárþings ytra 5. nóvember 2024 var bent á að eftir nánari athugun og vettvangsskoðun hefði komið í ljós að búið væri að taka um 10.000 m3 á svæðinu og væri hér með óskað eftir því að gefið yrði út framkvæmdaleyfi fyrir 40.000 m3 á um 2,4 ha svæði. Málið var tekið fyrir á fundi skipulags- og umferðarnefndar 7. s.m. þar sem fram kom að Landsvirkjun hefði óskað eftir breytingum á fyrrnefndri umsókn um framkvæmdaleyfi. Málið væri því endurupptekið að beiðni félagsins á grundvelli nýrra gagna og upplýsinga. Fyrirhuguð efnistaka væri ætluð til framkvæmda við vindorkuverið við Vaðöldu og væri framkvæmdin ekki matsskyld. Lagt var til við sveitarstjórn að samþykkt yrði útgáfa framkvæmdaleyfis enda væri efnistaka í samræmi við skipulagsáætlanir. Þá væri ekki talin þörf á því að kalla eftir umsögnum að nýju með hliðsjón af því að breytingin fæli í sér að dregið væri úr fyrirhuguðum framkvæmdum. Var lagt til að skipulagsfulltrúa yrði falið að gefa út leyfið og hafa eftirlit með framkvæmdum. Á fundi sveitarstjórnar 13. nóvember 2024 var greind niðurstaða samþykkt og gaf skipulagsfulltrúi út framkvæmdaleyfi degi síðar fyrir efnistöku á allt að 40.000 m3 af steypu- og fyllingarefni, á um 2,4 ha svæði á efnistökustað E70 á Tungnaáreyrum.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að mál þetta sé nátengt þremur öðrum kærumálum hjá úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála sem varða vindorkuverið Búrfellslund. Umfjöllun um þau verði ekki slitin í sundur með vísan til þeirra grunnraka umhverfismatslöggjafar að ekki sé heimilt að skilja að umfjöllun um einstaka þætti framkvæmdar, sbr. einnig tölulið 13.02 í 1. viðauka og v-lið 3. töluliðar 2. viðauka laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana.

Hin kærða ákvörðun varði hluta af umhverfismetinni framkvæmd. Ákvörðunin hafi verið tekin án þess að athugun hafi farið fram á samrýmanleika efnistökunnar við bindandi umhverfismarkmið laga nr. 36/2011 um stjórn vatnamála, málsmeðferðarreglur laga nr. 111/2021 og skipulagslaga nr. 123/2010. Ekki hafi heldur verið gætt að því hvort leyfi samkvæmt lögum nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði lægi fyrir eða leyfi Orkustofnunar til efnistöku í þjóðlendum samkvæmt lögum nr. 57/1998 um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu. Um sé að ræða framkvæmd sem hafi verið hluti leyfisbeiðnar Landsvirkjunar frá 2. september 2024 og kærumál nr. 103/2024 hjá úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála fjalli um. Engar skýringar komi fram í gögnum máls hvers vegna leyfisbeiðnum sé skipt upp og þær afgreiddar með mörgum leyfum. Ljóst sé að það geri almenningi verulega örðugt fyrir að njóta þátttökuréttar síns.

Málsrök Rangárþings ytra: Af hálfu sveitarfélagsins er gerð krafa um frávísun málsins á þeim grundvelli að hin kærða ákvörðun hafi ekki lengur gildi þar sem hún hafi verið endurupptekin vegna beiðni Landsvirkjunar þar um. Kærandi eigi því ekki lögvarða hagsmuni af úrlausn kærunnar. Verði ekki á það fallist sé farið fram á frávísun kærumálsins með vísan til þess að kæruefnið uppfylli ekki skilyrði 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Ljóst sé að gildandi ákvörðun sveitarstjórnar um að samþykkja umsókn um framkvæmdaleyfi á efnistöku á allt að 40.000 m3 falli ekki undir gildissvið laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda- og áætlana, sbr. tölulið 2.02 í 1. viðauka laganna. Vísað sé til fordæmis úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í úrskurði nefndarinnar frá 9. október 2024 í máli nr. 90/2024. Þá beri úrskurðarnefndinni að skoða aðild kæranda sjálfstætt í hverju máli.

Verði ekki fallist á frávísun málsins sé bent á að engir ágallar séu á þeirri ákvörðun sveitarfélagsins að samþykkja framkvæmdaleyfisumsókn Landsvirkjunar. Mótmælt sé þeim fullyrðingum kæranda að efnistaka sú sem um sé rætt í máli þessu sé hluti framkvæmdar við uppbyggingu á vindorkuveri í Vaðöldu. Þótt efnistakan hafi verið tilgreind í matsskýrslu framkvæmdaraðila fyrir Búrfellslund sé engu að síður um sitthvora framkvæmdina að ræða, enda geti framkvæmdaraðili eins nýtt efni til vegagerðar frá öðrum efnistökusvæðum. Ekki verði einungis nýtt efni frá E70 í allar þær framkvæmdir sem fylgi uppbyggingu vindorkuversins við Vaðöldu. Það sé ekki hægt að telja efnistöku á allt öðrum stað en á deiliskipulagssvæði vindorkuversins sem sömu framkvæmd heldur sé um að ræða tvær framkvæmdir í skilningi laga nr. 111/2021. Landsvirkjun sé ekki bundið við að taka efni úr tiltekinni efnisnámu til uppbyggingar vindorkuversins eða tengdra framkvæmda. Töluliður 13.02 í 1. viðauka sömu laga eigi ekki við um efnistökuna, enda sé ekki um að ræða breytingar eða viðbætur á framkvæmd sem sætt hafi mati á umhverfisáhrifum. Þá verði hvorki séð að skylt sé að umhverfismeta efnistökuna, sbr. 2. kafla í 1. viðauka laganna, né að hún sé tilkynningarskyld til Skipulagsstofnunar skv. 19. gr. laga nr. 111/2021.

Því sé mótmælt að málsmeðferð Rangárþings ytra hafi verið ómálefnaleg eða að almenningi hafi á einhvern hátt verið gert erfitt fyrir að kynna sér málið. Sveitarfélagið birti fundargerðir nefnda og sveitarstjórnar á heimasíðu sinni sem og framkvæmdaleyfi. Þá hafi ekki þurft að afla leyfis Fiskistofu fyrir efnistökunni þar sem framkvæmdin hafi engin áhrif á t.a.m. fiskigengd.

 Athugasemdir Landsvirkjunar: Leyfishafi fer fram á frávísun málsins á grundvelli sömu sjónarmiða og fram koma í umsögn Rangárþings ytra. Er þar að auki bent á að málið hafi verið endurupptekið hjá sveitarfélaginu áður en framkvæmdaleyfi hafi verið gefið út og því beri úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála að vísa kærumálinu frá, sbr. athugasemdir við 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 í frumvarpi því er orðið hafi að lögunum, þar sem segi að ef óskað sé eftir endurupptöku áður en mál sé kært beri æðra stjórnvaldi almennt að vísa málinu frá.

Verði ekki fallist á framangreint sé bent á að afgreiðsla málsins hafi verið í fullu samræmi við ákvæði laga og reglugerða um veitingu framkvæmdaleyfa. Ekki hvíli skylda á sveitarfélaginu að afgreiða hvern og einn hluta umsóknar um leyfi á sama tíma eða með útgáfu sama framkvæmdaleyfis. Ljóst sé að umfangsmiklar framkvæmdir á borð við þá sem hér um ræði feli í sér marga framkvæmdarþætti sem hver og einn geti krafist sjálfstæðs leyfis. Málsmeðferð sveitarfélagsins hafi verið opinber og öllum ljós sem áhuga hafi á að fylgjast með. Brjóti það í engu gegn sjónarmiðum umhverfisréttar, s.s. um þátttöku almennings, þó að almenningur þurfi eftir atvikum að fylgjast með leyfisveitingum sveitarfélagsins um einstaka hluta umfangsmikilla framkvæmda.

Framkvæmdir vegna uppbyggingar vindorkuversins hafi nú þegar sætt ítarlegri og lögbundinni málsmeðferð innan stjórnsýslunnar, þ.m.t. af hálfu leyfisveitenda og umsagnaraðila. Auk þess hafi sveitarfélagið, sem handhafi skipulagsvalds á svæðinu, tekið afstöðu til nýtingar á efni við Tungnaáreyrar í aðalskipulagi, en ávallt hafi legið fyrir þörf á efnistöku vegna framkvæmda við Búrfellslund, s.s. úr Tungnaáreyrum. Svæðið hafi endurtekið verið nýtt til efnistöku um áratugaskeið allt frá því að uppbygging við Búðarhálsvirkjun hafi hafist. Umrædd efnistaka sé ekki úr námu heldur sé aðeins um að ræða töku yfirborðsefnis á svæðinu sem ekki sé framkvæmd með uppgreftri. Efnistakan falli hvorki undir gildissvið laga nr. 36/2011 um stjórn vatnamála né laga nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði. Þrátt fyrir nafngift námunnar beri að árétta að öll eiginleg efnistaka fari fram í meira en 150 m fjarlægð frá bakka og vatnsfarvegi Tungnaár.

 Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi telur ljóst að með síðari ákvörðun sveitarstjórnar um að veita framkvæmdaleyfi til efnistöku við Tungnaáreyrar hafi hvort tveggja leyfishafi sem og stjórnvald verið að koma sér undan ákvæðum laga um mat á umhverfisáhrifum með því að færa rúmmál efnistökunnar niður fyrir þröskuldsviðmið laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Um sé að ræða málamyndaákvörðun og beri úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála að fjalla um fyrri ákvörðunina líka. Jafnframt sé bent á að samkvæmt tölvupósti lögmanns stjórnvalds finnist ekki leyfi fyrir þeirri 10.000 m3 efnistöku sem leyfishafi haldi fram að hafi þegar átt sér stað á umræddum stað.

———-

Niðurstaða: Í máli þessu er annar vegar deilt um ákvörðun sveitarstjórnar Rangárþings ytra frá 9. október 2024 um að veita framkvæmdaleyfi fyrir allt að 50.000 m3 efnistöku á 5 ha svæði á Tungnaáreyrum og hins vegar ákvörðun sveitarstjórnar frá 13. nóvember s.á. um að veita framkvæmdaleyfi fyrir allt að 40.000 m3 efnistöku á 2,4 ha svæði á Tungnaáreyrum.

Það er skilyrði kæruaðildar að málum fyrir úrskurðarnefndinni að kærandi eigi lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun. Umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtök teljast eiga lögvarinna hagsmuna að gæta fyrir nefndinni að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, sbr. nánar 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011, um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Meðal ákvarðana sem slíkum samtökum er heimilt að bera undir nefndina eru ákvarðanir um leyfi vegna framkvæmda samkvæmt lögum nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana, sbr. b-lið málsgreinarinnar.

Samkvæmt 18. gr. laga nr. 111/2021 skulu framkvæmdir sem tilgreindar eru í flokki A í 1. viðauka við lögin ávallt háðar umhverfismati, en framkvæmdir sem tilgreindar eru í flokki B í 1. viðauka við lögin skulu háðar umhverfismati þegar þær eru taldar líklegar til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif vegna umfangs, eðlis eða staðsetningar skv. 2. viðauka laganna. Fellur efnistaka þar sem áætlað er að raska 25 ha svæði eða stærra eða efnismagn er 500.000 m3 eða meira undir A flokk í 1. viðauka við lögin, sbr. tölulið 2.01 í 1. viðauka. Undir B flokk fellur efnistaka þar sem áætlað er að raska 2,5 ha svæði eða stærra eða efnismagn er 50.000 m3 eða meira, einnig efnistaka þar sem fleiri en einn efnistökustaður vegna sömu framkvæmdar og á sama svæði ná samanlagt yfir 2,5 ha svæði eða stærra, sbr. tölulið 2.02 í 1. viðauka við lögin.

Líkt og rakið hefur verið samþykkti sveitarstjórn 9. október 2024 umsókn Landsvirkjunar um framkvæmdaleyfi til efnistöku á allt að 50.000 m3 á efnistökustað E70 á Tungnaáreyrum. Á fundi sveitarstjórnar 13. nóvember s.á. var hins vegar samþykkt að endurupptaka og samþykkja breytta umsókn leyfishafa um framkvæmdaleyfi vegna efnistöku á Tungnaáreyrum og var gefið út framkvæmdaleyfi 14. s.m. í samræmi við það, eða vegna efnistöku á allt að 40.000 m3 á efnistökustað E70. Að því virtu hefur ákvörðun sveitarstjórnar frá 9. október s.á. um að samþykkja 50.000 m3 efnistöku á Tungnaáreyrum ekki lengur réttarverkan að lögum. Hefur kærandi því ekki lögvarða hagsmuni af úrlausn þeirrar ákvörðunar og verður þeim hluta kærumálsins því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Af hálfu leyfishafa var gefin sú skýring á breyttri umsókn um framkvæmdaleyfi að komið hefði í ljóst að búið væri taka um 10.000 m3 á svæðinu og væri því óskað eftir því að gefið yrði út framkvæmdaleyfi fyrir 40.000 m3 efnistöku. Ekki kemur þó fram hvenær téð efnistaka hafi farið fram en sveitarfélagið hefur bent úrskurðarnefndinni á að við vettvangsskoðun hafi komið í ljós að rask hafi átt sér stað á efnistökusvæði E70, en að engin gögn hafi fundist hjá sveitarfélaginu um rask eða efnistöku á svæðinu. Hvað sem líður ástæðum þess að leyfishafi óskaði eftir breytingum á umsókn sinni liggur allt að einu fyrir að hið umdeilda leyfi er samþykkt var 13. nóvember 2024 tekur aðeins til 40.000 m3 efnistöku. Með þeirri breytingu fór umfang efnistökunnar því undir þau viðmið sem að framan greinir svo hún sé háð ákvörðun Skipulagsstofnunar um það hvort framkvæmdin skuli háð umhverfismati, sbr. 20. gr. laga nr. 111/2021, sbr. tölulið 2.02 í flokki B í 1. viðauka við lögin. Verður jafnframt að telja að sveitarstjórn hafi verið heimilt að líta svo á að um nýja framkvæmd væri að ræða, en ekki breytingu eða viðbót við eldri framkvæmd, sbr. tölulið 13.02 í sama viðauka.

Í 30. gr. laga nr. 111/2021 er heimild til málskots til úrskurðarnefndarinnar bundin við ákvarðanir Skipulagsstofnunar um hvort framkvæmd, samkvæmt þeim lögum, skuli háð umhverfismati skv. 20. gr. laganna og ákvarðanir leyfisveitanda um veitingu leyfis til framkvæmda, nema sérlög kveði á um annað. Er um aðild, kærufrest, málsmeðferð og annað er varðar kæruna tekið fram að fari samkvæmt lögum um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Verður með vísan til þessa, sbr. einnig b-lið 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011, að álíta að kærandi njóti ekki kæruaðildar hvað varði kæru á ákvörðun sveitarstjórnar frá 13. nóvember 2024. Að öllu framangreindu virtu verður kærumálinu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

173/2024 Suður Reykjaland

Með

Árið 2025, miðvikudaginn 12. mars, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 173/2024, kæra á þeirri afgreiðslu skipulagsfulltrúa Mosfellsbæjar frá 25. nóvember 2024  að synja fyrirtöku erindis um heimild landeiganda til að vinna að gerð deiliskipulags á eigin landareign.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 10. desember 2024, kærir eigandi lands í Mosfellsbæ með landnúmer 125425, afgreiðslu skipulagsfulltrúa Mosfellsbæjar frá 25. nóvember 2024 um að synja því að skipulagsnefnd taki fyrir beiðni hennar um heimild til að vinna að deiliskipulagi á eigin landareign.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Mosfellsbæ 15. janúar 2025.

Málavextir: Hinn 4. maí 2023 sendi kærandi skipulagsnefnd Mosfellsbæjar rökstudda beiðni um heimild til að vinna sjálfur að deiliskipulagi á eigin landareign, sbr. 2. mgr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Beiðninni fylgdu drög að deiliskipulagslýsingu þar sem greind voru áform um skipulag landsins. Að fenginni umsögn skipulagsfulltrúa hafnaði nefndin þessari beiðni á fundi 16. júní 2023. Var kæranda tilkynnt um þá ákvörðun 19. s. m. Með tölvupósti til formanns skipulagsnefndar Mosfellsbæjar hinn 24. október 2024 óskaði kærandi að nýju eftir heimild til að vinna að deiliskipulagi fyrir eigin landareign. Skipulagsfulltrúi bæjarfélagsins svaraði þeirri beiðni í tölvupósti dags. 25. nóvember s.á. með þeim orðum að erindið hefði þegar hlotið efnislega meðferð, verið hafnað með rökstuddum hætti og þar sem eðli og innihald þess væri óbreytt mundi það ekki hljóta frekari fyrirtöku skipulagsnefndar. Sú afstaða er hin kærða afgreiðsla í máli þessu.

Málsrök kæranda/kærenda: Kærandi telur ekki heimilt að synja landeigendum um að gera deiliskipulag á eigin landi. Þá hafi verið skylt að taka erindið frá 24. október 2024 til afgreiðslu í skipulagsnefnd í samræmi við skipulagslög en ekki einungis með afgreiðslu skipulagsfulltrúa.

Málsrök Mosfellsbæjar: Bæjarfélagið bendir á að erindi kæranda frá 24. október 2024 hafi verið algjörlega samhljóða því sem hann hafi sent árið 2023 að því frágreindu að nokkrum skýringarmyndum hefði verið bætt við drög að deiliskipulagslýsinguna, án þess að texta hefði verið breytt. Því hafi skipulagsfulltrúi talið að það hefði þegar fengið tilhlýðilega meðferð og ekki væri hægt að líta svo á að um endurupptökubeiðni hefði verið að ræða.

Niðurstaða: Í máli þessu er kærð afgreiðsla skipulagsfulltrúa Mosfellsbæjar frá 25. nóvember 2024 sem fólst í synjun um að skipulagsnefnd tæki fyrir beiðni kæranda um heimild til að vinna að deiliskipulagi á eigin landareign. Þess er um leið krafist að kærandi „fái heimild til að gera deiliskipulag að eigin landi“. Kæruheimild til úrskurðarnefndarinnar er í 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga fara sveitarstjórnir með vald til skipulags innan marka sveitarfélags og bera ábyrgð á deiliskipulagsgerð. Í 2. mgr. 38. gr. skipulagslaga er m.a. mælt fyrir um að sveitarstjórn geti veitt landeiganda eða framkvæmdaraðila heimild til að vinna að gerð deiliskipulags. Skal hann þá taka saman lýsingu á skipulagsverkefninu, sbr. 1. mgr. 40. gr., og skal hún lögð fyrir sveitarstjórn á sama tíma og beiðni um heimild til að vinna tillögu að deiliskipulagi. Um kynningu, samráð, auglýsingu og samþykkt deiliskipulags fer þá skv. 40. og 41. gr. laganna.

Kærandi beindi erindi sínu í upphafi að formanni skipulagsnefndar Mosfellsbæjar, sem sendi það áfram til skipulagsfulltrúa til afgreiðslu. Í svari skipulagsfulltrúa við erindinu upplýsti hann að þar sem um sama mál væri að ræða og áður hefði verið afgreitt mundi skipulagsnefnd ekki taka það til afgreiðslu. Við athugun á gögnum málsins sýnist ljóst að um sömu umsókn sé að ræða og fylgdi deiliskipulagslýsingu sem send var Mosfellsbæ 4. maí 2023 og 24. október 2024. Í samræmi við það segir í kæru í máli þessu til nefndarinnar að málinu hafi áður verið synjað af skipulagsnefnd og hafi erindið verið ítrekað. Virðist eðlilegt að líta svo á að í hinni kærðu afgreiðslu hafi með þessu falist synjun um endurupptöku máls eða um afturköllun fyrri ákvörðunar sbr. 24.  og 25. gr. stjórnsýslulaga.

Sá möguleiki borgara að leita til stjórnvalds með erindi sem áður hefur hlotið afgreiðslu þess getur vakið álitamál um hvort líta beri fremur á erindið sem nýtt mál eða beiðni um endurupptöku máls. Það getur haft þýðingu varðandi beitingu réttarheimilda auk þess að ný atvik geta verið komin til. Synjun um afgreiðslu felur ekki í sér breytingu á réttarstöðu umsækjanda. Í þeim tilvikum að fyrir liggur að erindi hafi áður verið synjað virðist því nærtækara að líta svo á að um nýtt mál sé að ræða, sem tekið verði til umfjöllunar sem slíkt. Verður að sýna varúð við að hafna efnislegri umfjöllun um mál við slíkar aðstæður enda þótt færa megi fram almenn rök um að með endurtekinni málsmeðferð sé grafið undan ákvæðum stjórnsýslulaga um endurupptöku mála.

Hvað sem þessu líður verður ekki ráðið af fyrirliggjandi gögnum að erindi kærenda hafi komið til umfjöllunar hjá því stjórnvaldi sem valdbært verður talið til að taka afstöðu til þess, þ.e. skipulagsnefnd sveitarfélagsins Mosfellsbæjar. Liggur því ekki fyrir ákvörðun stjórnvalds um lyktir máls sem borin verði undir úrskurðarnefndina sbr. 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Verður því að vísa þessu máli frá úrskurðarnefndinni. Jafnframt verður bent á að dragist afgreiðsla máls óhæfilega er heimilt að kæra það til þess stjórnvalds sem ákvörðun í máli verður kærð til, sbr. 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

19/2025 Bráðabirgðaheimild Álfsnesi

Með

Árið 2025, föstudaginn 7. mars, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 19/2025, kæra á ákvörðun Umhverfis- og orkustofnunar frá 3. janúar 2025 um að framlengja bráðabirgðaheimild fyrir starfsemi Skotveiðifélags Reykjavíkur og nágrennis á skotsvæði félagsins á Álfsnesi.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 3. febrúar 2025, er barst nefndinni þann sama dag, kærir eigandi, Arnarhóli II, 162 Reykjavík, þá ákvörðun Umhverfis- og orkustofnunar frá 3. janúar 2025 að framlengja bráðabirgðaheimild fyrir starfsemi Skotveiðifélags Reykjavíkur og nágrennis á skotsvæði félagsins á Álfsnesi, þar til starfsleyfi hefur verið gefið út en þó eigi lengur en til 5. janúar 2026. Skilja verður málskot kæranda svo að krafist sé ógildingar ákvörðunarinnar.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Umhverfis- og orkustofnun 5. mars 2025.

Málsatvik og rök: Tvö félög hafa á annan áratug rekið sinn hvorn skotvöllinn á Álfsnesi og hafa álitamál vegna þeirra áður komið til kasta úrskurðarnefndarinnar. Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun Umhverfis- og orkustofnunar frá 3. janúar 2025 að framlengja bráðabirgðaheimild fyrir starfsemi Skotveiðifélags Reykjavíkur og nágrennis, sem veitt var til fjögurra mánaða frá 5. september 2024. Á meðal þess sem kærandi byggir á er að athugasemdafrestur í auglýsingu um áform um framlengingu bráðabirgðaheimildarinnar, sbr. 5. mgr. 7. gr. a. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, hafi verið skammur, eða aðeins einn sólarhringur.

Niðurstaða: Af hálfu Umhverfis- og orkustofnunar var við meðferð þessa máls fyrir úrskurðarnefndinni upplýst að Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur hefði veitt starfsleyfi fyrir starfseminni sem gefið var út 13. febrúar 2025 og gildir til 31. desember 2028. Með vísan til orðalags hinnar kærðu bráðabirgðaheimildar er gildi hennar nú liðið undir lok og hefur hún því ekki lengur réttaráhrif. Á kærandi því ekki hagsmuni af því að fá skorið úr um lögmæti hennar. Verður kærumáli þessu því vísað frá nefndinni. Sú leiðbeining er um leið gerð að ákvörðun um veitingu starfsleyfis kann þó eftir atvikum að vera kæranleg til nefndarinnar sbr. 1. mgr. 65. gr. laga nr. 7/1998 og er kærufrestur þá einn mánuður sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

174/2024 Óskotsvegur

Með

Árið 2025, miðvikudaginn 5. mars, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 174/2024, kæra á ákvörðun skipulagsnefndar Mosfellsbæjar frá 15. nóvember 2024 um að synja kæranda um byggingarleyfi og breytingu á aðalskipulagi til að breyta landnotkun lóðar í eigu kæranda.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 12. desember 2024, kærir eigandi lóðarinnar Óskotsvegs 42, landnúmer 125474, þá ákvörðun skipulagsnefndar Mosfellsbæjar frá 15. nóvember 2024 að synja henni um byggingarleyfi og breytingu á skilgreindri landnotkun lóðarinnar á aðalskipulagi. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að skilgreining á landi hennar verði sú sama og á landi á svæðinu eða frístundabyggð.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Mosfellsbæ 15. janúar 2025.

Málavextir: Kærandi er eigandi lóðarinnar Óskotsvegur 42 í Mosfellsbæ. Hinn 8. september 2023 lagði kærandi inn umsókn um breytingu á aðalskipulagi til að fá byggingarleyfi fyrir frístundahúsi á lóðinni ásamt ósk um breytingu á skráðri landnotkun úr óbyggðu svæði og hverfisverndarsvæði í frístundabyggð. Á fundi skipulagsnefndar Mosfellsbæjar 15. nóvember 2024 var umsókn og ósk kæranda hafnað og er sú ákvörðun kærð í máli þessu.

Málsrök kæranda: Kærandi greinir frá því að á lóð hans hafi staðið hús lögbýlisins Óss. Með samþykki þáverandi eigenda hafi það verið brennt á æfingu slökkviliðsins árið 1993. Þáverandi eigendur hafi fengið ábendingu frá Mosfellsbæ í bréfi dags. 29. október 1993 vegna brunans um að sækja yrði um leyfi byggingarnefndar fyrir endurbyggingu hússins. Í nokkur skipti hafi verið sótt um slíkt leyfi en vegna skilgreiningar á landinu sem óbyggt svæði í aðalskipulagi hafi það ekki fengist. Kærandi hafi rætt hugsanlegar breytingar á aðalskipulagi við fulltrúa Mosfellsbæjar á fundi þann 10. ágúst 2023 og verið bjartsýnn um að fallist yrði á breytta landnotkun. Í trausti þess hafi hann keypt lóðina í september 2023 og óskað eftir breytingu á aðalskipulagi í því skyni að fá byggingarleyfi fyrir frístundahúsi á lóðinni. Þeirri ósk hafi verið hafnað af Mosfellsbæ í nóvember 2024.

Með afgreiðslu skipulagsnefndar Mosfellsbæjar sé brotið á rétti kæranda því bréfið frá 29. október 1993 sé enn í gildi og eigendum landsins hafi aldrei verið gert ljóst að breyta ætti skilgreiningu landsins úr landbúnaðarlandi í óbyggt svæði/annað land. Á korti frá 1992 sjáist að lóð kæranda sé innan svæðis sem merkt sé sem frístundabyggð og aðalskipulag hafi ekki breyst nema fyrir þá lóð og aðra lóð úr landi Óss. Lóðin standi í frístundabyggð þar sem séu tugir sumarhúsa og byggingarleyfi hafi verið veitt vegna 15-25 frístundahúsa á nokkrum stöðum austan Hafravatns á síðustu þrem árum. Nýtt hús hafi risið nálægt lóð kæranda árið 2022 og ný hús séu í smíðum á fleiri stöðum. Óskiljanlegt sé að leyfa ekki byggingu á sumarhúsi á landi mitt í frístundabyggð og brjóti það gróflega gegn jafnræðisreglu og reglu um meðalhóf.

Málsrök Mosfellsbæjar: Mosfellsbær bendir á að kærandi vísi til þess að lögbýlið Ós hafi staðið á lóð hennar, en því lögbýli hafi verið skipt upp, íbúðarhúsið að Ósi hafi ekki verið innan lóðar kæranda og engum lögbýlisrétti sé til að dreifa. Í bréfi byggingarfulltrúa Mosfellsbæjar frá 1993 til fyrri eiganda hafi verið leiðbeint um að endurbygging bústaðar á lóðinni væri háð leyfi byggingarnefndar. Í því hafi ekki falist réttur til endurbyggingar. Samkvæmt 1. tl. 1. mgr. 13. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010 sé það skilyrði fyrir byggingarleyfi að fyrirhugað mannvirki samræmist skipulagsáætlun á svæðinu. Þar sem umrætt svæði sé skipulagt sem óbyggt svæði hafi byggingarfulltrúa verið óheimilt að lögum að gefa út umsótt byggingarleyfi.

Við endurskoðun gildandi aðalskipulags Mosfellsbæjar hafi kærandi komið á framfæri óskum um að umrætt svæði yrði fellt undir landnotkunarflokkinn frístundabyggð. Á fundi skipulagsnefndar Mosfellsbæjar þann 15. nóvember 2024 hafi verið ákveðið að synja beiðni um breytt aðalskipulag og deiliskipulagsgerð þar sem ákveðið hafi verið að ekki yrðu skipulögð ný frístundasvæði innan sveitarfélagsins. Það sé í samræmi við aðalskipulagsáætlanir 2002-2024 og 2011-2030. Fyrri eigandi landsins hafi sótt um sambærilega breytingu árið 2006 og verið hafnað. Kærandi hafi samkvæmt þinglýstum gögnum aðeins átt lóðina í rúmt ár en núgildandi aðalskipulag, og þau ákvæði þess sem takmarka nýtingarmöguleika lóðarinnar, hafi verið í gildi þegar hann keypti lóðina. Hann hafi ekki með nokkrum hætti mátt hafa raunhæfar væntingar til þess að umbeðnar breytingar á skipulagi eða umsókn um byggingarleyfi yrðu samþykktar af bænum.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Með tölvupósti 27. janúar 2025 ítrekaði kærandi málsástæður sínar og greindi um leið frá því að arkitekt hefði fyrir hans hönd gert drög að deiliskipulagi þar sem gert hafi verið ráð fyrir 7000 fermetra skika innan lóðar, sem væri nægilegur fyrir sumarhús og lægi utan hverfisverndarsvæðis. Þeirri breytingu hafi verið hafnað.

Aðilar máls þessa hafa fært fram ítarlegri rök fyrir máli sínu, sem ekki verða rakin hér frekar, en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um ákvörðun skipulagsnefndar Mosfellsbæjar frá 15. nóvember 2024 varðandi umsókn kæranda um byggingarleyfi vegna endurbyggingar á sumarhúsi á lóð hennar að Óskotsvegi 42 og synjun á beiðni kæranda þess efnis að breyta skilgreindri landnotkun lóðarinnar úr óbyggðu svæði í frístundabyggð. Samkvæmt 59. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010 sæta stjórnvaldsákvarðanir, sem teknar eru á grundvelli laganna, kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, en þar undir fellur veiting byggingarleyfis.

Úrskurðarnefndin hefur kynnt sér bréf skipulagsfulltrúa Mosfellsbæjar frá 29. október 1993 til þáverandi eiganda lóðar kæranda sem ritað var í tengslum við ráðgerða brunaæfingu á ónýtum sumarbústað á lóðinni og er þar í niðurlagi vakin athygli á því að sækja skuli um leyfi bygginganefndar til endurbyggingar bústaðarins. Í þessu felast leiðbeiningar og verður að fallast á það með Mosfellsbæ að í þeim felst ekki ádráttur um heimild til slíkrar mannvirkjagerðar. Lýtur erindi kæranda eigi heldur að því að endurbyggja það hús sem áður stóð á lóðinni. Er jafnframt mjög langt um liðið síðan leiðbeining þessi var látin í té.

Við athugun á gögnum þessa máls verður ekki ráðið að erindi kæranda til Mosfellsbæjar hafi falið í sér umsókn um byggingarleyfi, heldur hafi falist í því umsókn um breytingu á aðalskipulagi með það í huga að fá byggingarleyfi að slíkum breytingum loknum. Í máli þessu liggur þannig hvorki fyrir formleg umsókn um byggingarleyfi né ákvörðun byggingarfulltrúa um höfnun á slíkri umsókn, sbr. 2. mgr. 9. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Ekki verður því álitið að til sé að dreifa kæranlegri ákvörðun um synjun byggingarleyfis og ber því að vísa þeim þætti kærunnar frá úrskurðarnefndinni.

Fyrir liggur að lóð kæranda að Óskotsvegi 42 er skilgreind sem óbyggt svæði á aðalskipulagi Mosfellsbæjar 2011-2030. Kærandi kom á framfæri ósk um breytingu á aðalskipulagi bæjarfélagsins við endurskoðun aðalskipulags í september 2023. Á fundi skipulagsnefndar bæjarfélagsins þann 15. nóvember 2024 var því erindi synjað, á þeim forsendum að skipulagsnefndin hefði tekið ákvörðun um að ekki yrðu skipulögð ný frístundasvæði innan sveitarfélagsins. Samkvæmt 1. mgr. 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 verða ákvarðanir sem Skipulagsstofnun og ráðherra ber að skipulagslögum að staðfesta ekki bornar undir úrskurðarnefndina. Með vísan til 3. mgr. 29. gr.  og 1. mgr. 36. gr. sömu laga verður af þeim sökum einnig að vísa frá úrskurðarnefndinni þeim þætti kærunnar sem varðar höfnun um breytingu á aðalskipulagi.

Með hliðsjón af framangreindu verður kærumáli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

 Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

31/2025 Spítalastígur

Með

Árið 2025, miðvikudaginn 26. febrúar, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 31/2025, kæra á ákvörðun skipulagsfulltrúa Reykjavíkur frá 30. mars 2023 um breytingar á deiliskipulagi reits 1.184.0, Bergstaðastrætisreits vegna lóðanna nr. 4, 4B, 6 og 6B við Spítalastíg.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 19. febrúar 2025, kærir eigandi íbúðar í risi húss á lóð nr. 2 við Spítalastíg, ákvörðun skipulagsfulltrúa Reykjavíkur frá 30. mars 2023 um breytingar á deiliskipulagi reits 1.184.0, Bergstaðastrætisreits vegna lóðanna nr. 4, 4B, 6 og 6B við Spítalastíg. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Málavextir og rök: Á afgreiðslufundi 30. mars 2023 samþykkti skipulagsfulltrúi Reykjavíkur, í samræmi við skipulagslög nr. 123/2010, með vísan til heimilda um embættisafgreiðslur skipulagsfulltrúa í viðauka við samþykkt um stjórn Reykjavíkur­borgar, breytingu á deiliskipulagi reits 1.184.0, Bergstaðastrætisreits vegna lóðanna nr. 4, 4B, 6 og 6B við Spítalastíg. Í breytingunni fólst meðal annars að í skilmálatöflu var byggingarmagn endurskoðað og greint á milli eldra húss (4) og nýbyggingar (4A) í athugasemdum. Miðað var við að í nýbyggingu yrðu fimm íbúðir, tvær á 1. og 2. hæð og ein íbúð í risi. Stærðir íbúða yrðu á bilinu 35 m2–80 m2. Tók deiliskipulagsbreytingin gildi með birtingu í B-deild Stjórnartíðinda 26. júní 2023.

Kærandi vísar til þess að hin umdeilda skipulagsbreyting muni hafa þau áhrif að lokast muni fyrir glugga á baðherbergi í íbúð hans, sem sé í risi húss á lóð nr. 2 við Spítalastíg. Glugginn sé neyðarútgangur og eina loftræsingin fyrir baðherbergið. Þá sýni deiliskipulagsbreytingin að heimilt sé að byggja yfir þak húsnæði sem sé í eigu kæranda.

Niðurstaða: Mál þetta varðar breytingu á deiliskipulagi reits 1.184.0, Bergstaðastrætisreits vegna lóðanna nr. 4, 4B, 6 og 6B við Spítalastíg. Þess ber að geta að þær heimildir greinds deiliskipulags er kærandi vísar til, þ.e. heimild til stækka rishæð til austurs á húsi á lóð nr. 2 við Spítalastíg, var þegar til staðar í deiliskipulagi reitsins fyrir breytingu þá er tók gildi 26. júní 2023.

 Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 er kærufrestur til nefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um þá ákvörðun sem kæra lýtur að. Sé um að ræða ákvörðun sem sætir opinberri birtingu telst kærufrestur frá fyrstu birtingu ákvörðunar skv. 2. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga. Auglýsing um gildistöku þeirrar deiliskipulagsbreytingar sem deilt er um í máli þessu var birt í B-deild Stjórnartíðinda 26. júní 2023 og tók kærufrestur að líða degi síðar, sbr. 1. mgr. 8. gr. sömu laga. Kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni 19. febrúar 2025 og var kærufrestur þá liðinn.

Í 28. gr. stjórnsýslulaga er fjallað um áhrif þess ef kæra berst að liðnum kærufresti. Ber þá skv. 1. mgr. ákvæðisins að vísa kæru frá nema að afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að hún verði tekin til efnismeðferðar. Verður kæru­máli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem ekki verður talið eins og atvikum er háttað að skilyrði séu til að taka málið til meðferðar að liðnum kærufresti, en lögmælt opinber birting ákvörðunar hefur þá þýðingu að almenningi telst við hana vera kunnugt um hina birtu ákvörðun.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

165/2024 Nönnugata

Með

Árið 2025, þriðjudaginn 25. febrúar, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 165/2024, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík, sem tilkynnt var með bréfi dags. 28. október 2024,  um að aðhafast ekki varðandi útlitsbreytingu á gluggum á Nönnugötu 16.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 29. nóvember 2024, kærir Húsfélagið Nönnugötu 16, þá ákvörðun byggingarfulltrúa í Reykjavík frá 28. október 2024 að aðhafast ekki vegna ábendingar um breytingu á ásýnd á gluggum á 2. hæð á Nönnugötu 16, þar sem ekki sé um að ræða verulega útlitsbreytingu með vísan í 2.3.4 gr. byggingarreglugerðar. Er þess krafist að úrskurðarnefndin ,,skoði málið og taki það til endurskoðunar.“

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 13. desember 2024.

Málavextir: Reykjavíkurborg barst þann 19. september 2024 ábending frá húsfélaginu Nönnugötu 16 um að gluggar á 2. hæð íbúðar nr. 202 samræmist ekki byggingartíma né teikningum hússins. Bent var á að ekki mætti breyta útliti hússins án samþykkis annarra eigenda og hafi þeir ekki verið látnir vita um þessar framkvæmdir. Erindið var tekið fyrir á fundi byggingarfulltrúa þann 26. september 2024 og bókað í fundargerð: ,,Nönnugata 16 – breyting á útliti glugga. Byggingarfulltrúi mun ekki aðhafast þar sem ekki er um að ræða verulega útlitsbreytingu með vísan í 2.3.4 gr. byggingarreglugerðar.“ Húsfélaginu var tilkynnt um um þessa niðurstöðu þann 28. október 2024. Úrskurðarnefndin lítur svo á að lögmæti þessarar afgreiðslu sé borin undir nefndina í máli þessu.

Málsrök kæranda/kærenda: Kærandi lýsir því að hann hafi kvartað til Reykjavíkurborgar um að eigandi íbúðar nr. 202 á annarri hæð hafi endurnýjað alla glugga á íbúðinni án samráðs við húsfélagið þannig að útlit þeirra varð annað en annarra glugga í húsinu. Kærður sé úrskurður deildar afnota- og eftirlits á umhverfissviði en teikningar af gluggunum í samþykktum teikningum hjá borginni hljóti að hafa tilgang. Gluggarnir vísi bæði út á Nönnugötu og Njarðargötu og sé stílbrotið hrópandi og augljóst öllum vegfarendum. Gluggarnir séu öðruvísi t.d. séu færri rúður í hverjum glugga, sem sé verulegur munur. Þetta sé lýti á yfirbragði hússins og leiði til lægra söluverðs fasteigna svo áhrifin séu bæði byggingarfræðileg og fjárhagsleg.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Reykjavíkurborg vísar til þess að Jón Árnason og Ólafur Þór Celbat hafi lagt fram kæru í máli þessu fyrir hönd húsfélagsins Nönnugötu 16, sem skráð sé í fyrirtækjaskrá án þess að prókúruhafi sé tilgreindur. Ljóst sé að Jón og Ólafur, sem séu eigendur íbúða í húsinu, geti ekki lagt fram kæru í nafni húsfélagsins né skuldbundið félagið nema hafa til þess umboð skv. lögum um fjöleignarhús nr. 26/1994, en í 71. gr. þeirra laga sé fjallað um umboð til þess að skuldbinda húsfélag og aðildarhæfi, en  æðsta vald í málefnum húsfélagsins sé í höndum almenns fundar þess sbr. 58. gr. laganna. Samkvæmt 12. tl. A-liðar 1. mgr. 41. gr. laganna þurfi einnig samþykki allra eigenda til ráðstafana og ákvarðana sem ekki varða sameignina og sameiginleg málefni, en eigendur telji æskilegt að þeir standi saman að og ráði í félagi. Umboð til rekstrar málsins þurfi að vera í samræmi við lög um fjöleignarhús og ná sérstaklega til rekstrar þessa máls. Slík ákvörðun þyrfti að vera tekin á dagskrá á löglega boðuðum húsfundi, með samþykki allra eigenda húsfélagsins. Kæran sé því haldin annmarka að þessu leyti og beri að vísa henni frá úrskurðarnefndinni.

Reykjavíkurborg fjallar einnig um viðeigandi ákvæði byggingareglugerðar nr. 112/2012, m.a. gr. 2.3.4., og mannvirkjalaga nr. 160/2010 m.a. gr. 9, 55, 56 og 60. Mat byggingarfulltrúa á því hvort breyting á útliti fjölbýlishússins við Nönnugötu 16 hafi verið veruleg og hvort beita ætti þvingunarúrræðum hafi verið stutt efnislegri- og málefnalegri skoðun og rökum, breytingin skerði ekki hagsmuni nágranna, breyti eða hafi áhrif á götumynd, né raski öryggis- og almannahagsmunum. Ekki sé því um verulega breytingu að ræða. Ekki verði séð að óveruleg framkvæmd eða útlitsbreyting eins og sú sem um sé að ræða geti falið í sér lækkun á fasteignaverði eignarinnar og kærandi hafi ekki sýnt fram á tjón. Úrskurðarnefndin eigi því að hafna kröfum kæranda.

Upplýsingaöflun úrskurðarnefndarinnar: Úrskurðarnefndin óskaði staðfestingar á að þeir aðilar sem undirrituðu kæruna fyrir hönd húsfélagsins að Nönnugötu 16 hefðu nauðsynlegt umboð til slíks. Leiðbeint var um þetta við móttöku kærunnar og síðan veittur frestur til þessa til eins mánaðar sem náði til 15. febrúar 2025. Ekkert slíkt umboð barst.

———-

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík að aðhafast ekki vegna ábendingar um breytingu á ásýnd á nýjum gluggum á 2. hæð á Nönnugötu 16, þar sem ekki sé um að ræða verulega útlitsbreytingu með vísan í gr. 2.3.4 gr. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Kæran er send og undirrituð af Jóni A. Árnasyni og Ólafi Þór Chelbat, fyrir hönd húsfélagsins Nönnugötu 16. Í húseigninni að Nönnugötu 16 eru 10 fastanúmer og um hana gilda fjöleignarhúsalög nr. 26/1994, m.a. um húsfélag og heimildir þess. Samkvæmt 66. gr. laganna skal í húsfélagi vera stjórn sem kosin er á aðalfundi, skipuð a.m.k. þrem mönnum og sé einn þeirra formaður sem kosinn er sérstaklega.

Í 1. og 2. mgr. 70. gr. laganna er stjórn húsfélags veitt heimild til að taka hvers kyns ákvarðanir sem lúta að venjulegum daglegum rekstri og hagsmunagæslu vegna sameignar sem og að láta framkvæma minni háttar viðhald, viðgerðir og bráðnauðsynlegar og brýnar ráðstafanir sem ekki þola bið. Þá segir í 3. mgr. sömu greinar að ráðstafanir og framkvæmdir sem ganga lengra en kveðið er á um í 1. og 2. mgr. beri að leggja fyrir húsfund til umfjöllunar og ákvörðunar. Í 1. mgr. 71. gr. laganna segir að húsfélag sé skuldbundið út á við með skriflegri eða rafrænni undirritun meiri hluta stjórnarmanna og skuli formaður að jafnaði vera einn af þeim. Í 2. mgr. 71. gr. segir að húsfélagið geti verið aðili að dómsmáli, bæði til sóknar og varnar.

Samkvæmt 1. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis og auðlindamála skal kæra til nefndarinnar vera skrifleg og undirrituð og koma fram hver sé kærandi. Upp gefinn kærandi í máli þessu er húsfélagið Nönnugata 16, sem er skráð í fyrirtækjaskrá og hefur kennitölu. Það er lögbundið félag skv. lögum nr. 26/1994 um fjöleignarhús og þótt ljóst sé að Jón A. Árnason og Ólafur Þór Chelbet, sem undirrituðu kæruna f.h. húsfélagsins, séu eigendur íbúða í fjöleignarhúsinu að Nönnugötu 16 liggja ekki fyrir neinar upplýsingar um að þeir séu stjórnarmenn í húsfélaginu eða að þeir hafi umboð félagsins til að leggja fram kæruna í nafni þess. Með því að ekki er ljóst að kæran stafi með lögformlegum hætti frá upp gefnum kæranda, sbr. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2024, er kæru þessari vísað frá úrskurðarnefndinni.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

26/2025 Þorlákshafnarhöfn

Með

Árið 2025, mánudaginn 24. febrúar, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Fyrir var tekið mál nr. 26/2025, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Ölfuss frá 30. janúar 2025 um að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir gerð landfyllingar við Suðurvararbryggju í Þorlákshöfn.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 10. febrúar 2025, er barst nefndinni sama dag, kærir Brimbrettafélag Íslands þá ákvörðun bæjarstjórnar Ölfuss frá 30. janúar s.á. að samþykkja umsókn um framkvæmdaleyfi fyrir gerð landfyllingar við Suðurvararbryggju í Þorlákshöfn. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá sveitarfélaginu Ölfusi 14. febrúar 2025.

Málavextir: Á fundi skipulags- og umhverfisnefndar Ölfuss 22. janúar var tekin fyrir umsókn um framkvæmdaleyfi til að gera tæplega 1 ha landfyllingu við Suðurvararbryggju. Fól umsóknin í sér gerð landfyllingar milli Suðurvarargarðs og útsýnispalls á norðanverðu hafnarsvæði Þorlákshafnar. Stærð landfyllingar yrði um 9.000 m2 sem ætlað væri að ná frá núverandi sjóvörn að stórstraumsfjöruborði og tengjast núverandi athafnasvæði syðst á hafnarsvæðinu. Heildar efnismagn landfyllingar var áætlað um 27.000 m3 og í grjótkápu um 10.000 m3 til viðbótar. Var umsóknin samþykkt á fundinum með fyrirvara um birtingu deiliskipulags hafnarsvæðis í B-deild Stjórnartíðinda og að framkvæmdin yrði ekki metin umhverfismatsskyld af Skipulagsstofnun. Á fundi bæjarstjórnar Ölfuss 30. janúar 2025 var afgreiðsla skipulags- og umhverfisnefndar samþykkt. Hinn 3. febrúar 2025 tók greint deiliskipulag gildi með birtingu í B-deild Stjórnartíðinda. Lá ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu fyrir 4. s.m. og var framkvæmdaleyfi gefið út sama dag. Í leyfinu kemur fram að framkvæmdatími er áætlaður þrír mánuðir.

Með bráðabirgðaúrskurði úrskurðarnefndarinnar, uppkveðnum 12. febrúar 2025, voru framkvæmdir á grundvelli hinnar kærðu ákvörðunar stöðvaðar að kröfu kæranda á meðan mál þetta væri til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þótti rétt að stöðva framkvæmdir samkvæmt leyfinu þar sem talin voru ýmiss álitaefni í málinu sem þarfnast mundu nánari rannsóknar, svo sem þar var nánar rakið. Var í því sambandi m.a. horft til þess að deilt var um ákvörðun sem tekin hafði verið á fundi bæjarstjórnar með fyrirvara um ákvörðun um matsskyldu framkvæmdar, sem þá lá ekki fyrir. Fer slík málsmeðferð gegn markmiðum laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana, þar sem gert er ráð fyrir því að í niðurstöðum matsskylduákvörðunar séu settar fram ábendingar um tilhögun framkvæmdar í því skyni að koma í veg fyrir umtalsverð umhverfisáhrif, byggt á þeim upplýsingum sem fram hafa komið við umfjöllun um tilkynningu framkvæmdaraðila, sbr. 2. mgr. 20. gr.

Í téðum úrskurði nefndarinnar kom jafnhliða þessu fram að meðal álitaefna í kærumálinu væri hvort kærandi uppfyllti skilyrði kæruaðildar fyrir nefndinni. Var til nánari skýringar greint frá ákvæðum laga sem verið gætu af þýðingu. Var af því tilefni skorað á kæranda að gera grein fyrir þeim einstaklingsbundnu og lögvörðu hagsmunum sem hann hefði af úrlausn kærumálsins, sbr. 1. málsl. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Veittur var frestur til þessa til 18. febrúar 2025.  Umsögn kæranda barst þann sama dag. Framkvæmdaraðili hefur og tjáð sig um skilyrði kæruaðildar að máli þessu, svo sem gerð er grein fyrir hér á eftir, jafnhliða því að hann óskaði eftir því að málið sæti flýtimeðferð sbr. 2. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011.

Málsrök kæranda: Í stjórnsýslukæru kæranda er aðild rökstudd svo að hann teljist til umhverfisverndar-, útivistar eða hagsmunasamtaka. Kemur fram að kærandi uppfylli áskilnað b-liðs 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála sem hagsmunasamtök. Um sé að ræða samtök brimbrettafólks á Íslandi sem hafi m.a. að lýstu markmiði að vernda brimbrettastaði landsins, en fyrirhuguð framkvæmd muni að mati kæranda hafa verulega neikvæð áhrif á helstu brimbrettaöldu landsins. Með tölvubréfi 18. febrúar 2025 kom kærandi á framfæri nánari upplýsingum um starfsemi sína og lagði m.a. fram félagatal og fundargerð stjórnarfundar.  Í umsögn kæranda við sama tilefni voru áréttuð sjónarmið um að kæruaðild að máli þessu geti grundvallast á kærurétti samtaka skv. 4. gr. laga nr. 130/2011. Vísað var til þess að kærandi hafi borið ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu landfyllingar við Suðurvararbryggju undir úrskurðarnefndina. Aðeins að gengnum úrskurði um þá ákvörðun, sem sé forsenda hins kærða framkvæmdaleyfis, liggi endanlega fyrir hvort kæruheimild sé til að dreifa.

Um kæruaðild samkvæmt almennum meginreglum stjórnsýsluréttar vísar kærandi til þess að félag geti notið kæruaðildar eigi umtalsverður hluti félagsmanna þess einstakra og verulegra hagsmuna að gæta af úrlausn máls. Þorlákshafnaraldan sé besta og áreiðanlegasta brimbrettaalda landsins og hafi verið notuð til brimbrettaiðkunar af félagsmönnum Brimbrettafélags Íslands í um 25 ára skeið. Stærsti hluti brimbrettaiðkunar landsins fari þar fram, bæði vegna þessara eiginleika og staðsetningar. Ráðgerðar framkvæmdir geti haft óafturkræf og neikvæð áhrif á „Aðalbrotið“ og með því veruleg neikvæð áhrif á möguleika til brimbrettaiðkunar. Séu hagsmunirnir félagsmanna kæranda þannig verulegir. Jafnframt þessu séu hagsmunirnir einstaklegir og umfram þá sem aðrir hafi að gæta. Félagsmenn séu helstu notendur svæðisins sem sé miðpunktur brimbrettaiðkunar hér á landi. Hafi þeir því ríka hagsmuni og umfram aðra. Hafi tilteknir félagsmenn auk þess atvinnu sína að einhverju leyti af brimbrettaiðkun.

Að lokum er af kæranda vísað til þess að kærurétti sé ætlað að tryggja réttaröryggi í stjórnsýslurétti, m.a. að óafturkræft tjón verði ekki vegna athafna sem séu í andstöðu við lög. Vegna þessara sjónarmiða séu ekki settar þröngar skorður við kæruaðild, enda hafi kærandi tengsl við efni hlutaðeigandi ákvörðunar.

Málsrök sveitarfélagsins Ölfuss: Af hálfu sveitarfélagsins eru bornar brigður á að kærandi uppfylli skilyrði kæruaðilar að máli þessu og er um það vísað til þeirra skilyrða fyrir kæruaðild félagasamtaka sem sett eru í 3. og 4. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Með kærunni hafi ekki verið upplýsingar um fjölda félagsmanna né heldur um það hvort gefnar hafi verið út ársskýrslur um starfsemi kæranda eða hvort hann hafi endurskoðað bókhald. Þá virðist kærandi sem félag ekki hafa neina virka starfsemi og samkvæmt gögnum Skattsins sé stjórn félagsins óbreytt frá stofnun þess. Þetta bendi til þess að félagið sé lokuð samtök örfárra einstaklinga með takmarkaða starfsemi. Lögheimili þess sé í heimahúsi þar sem einn stjórnarmanna hafi eitt sinn átt heima en sú skráning hafi ekki verið uppfærð. Engin merki séu um að félagið hafi nokkra hefðbundna virkni sem félag og geti það því vart uppfyllt þær lágmarkskröfur sem lög nr. 130/2011 geri til félaga sem byggi kæruaðild sína á lögunum. Þá hafi kærandi engra einstaklingsbundinna lögvarinna hagsmuna að gæta. Kærandi hafi ekki byggt upp neina aðstöðu í Þorlákshöfn og þrátt fyrir að tilteknir einstaklingar hafi farið á brimbretti inni á skilgreindu hafnarsvæði Þorlákshafnarhafnar skapi það eigi lögvarða hagsmuni. Sé þess því krafist að kærunni verði vísað frá.

Þessu til viðbótar bendir sveitarfélagið á að sú kæruheimild sem kærandi byggi kærurétt sinn á varði ákvarðanir um að veita leyfi vegna framkvæmda sem falli undir lög nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Í lögunum komi fram að undir lögin falli landfyllingar þar sem áætluð uppfylling sé 5 ha eða stærri, sbr. liður 10.18 í við viðauka 1 við lögin. Landfyllingin sem um ræði sé 0,9 ha og því fjarri því að vera af því umfangi að lögin eigi við. Þá verði ekki séð að 13. tl. í viðauka 1 í lögum nr. 111/2021 breyti nokkru um þetta enda mundi slík skýring fela í sér að allar viðbætur við hafnir, án tillits til umfangs, mundu falla undir lögin.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti ákvörðunar bæjarstjórnar Ölfuss um að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir gerð landfyllingar við Suðurvararbryggju í Þorlákshöfn. Með bráðabirgðaúrskurði, uppkveðnum 12. febrúar 2025, voru framkvæmdir á grundvelli hinnar kærðu ákvörðunar stöðvaðar að kröfu kæranda á meðan mál þetta væri til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Kæruheimild til úrskurðarnefndarinnar er í 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Samkvæmt 30. gr. laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana sæta m.a. ákvarðanir Skipulagsstofnunar um hvort framkvæmd skuli háð umhverfismati skv. 20. gr. laganna, og ákvarðanir leyfisveitanda um veitingu leyfis til framkvæmda kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Um aðild, kærufrest, málsmeðferð og annað er varði kæruna er vísað til laga um úrskurðarnefndina, nr. 130/2011. Í 3. mgr. 4. gr. þeirra laga er fjallað um skilyrði kæruaðildar að málum fyrir nefndinni. Kemur fram að kærandi verði að eiga lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun. Er það í samræmi við þá meginreglu stjórnsýsluréttar að kæruaðild sé bundin við þá sem eiga einstaklingsbundna og verulega hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun. Umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtök teljast þó eiga lögvarinna hagsmuna að gæta að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, m.a. þegar um er að ræða ákvarðanir um að veita leyfi til framkvæmda sem falla undir lög um nr. 111/2021, sbr. b-lið 3. mgr. 4. gr. sömu laga.

Í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 130/2011 var rakið í skýringum við ákvæði b-liðs 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 að ákvörðun um matsskyldu ráði því hvort almenningur fái rétt til frekari þátttöku í gegnum matsferlið og hvort hann njóti kæruaðildar vegna ákvarðana stjórnvalda um að veita leyfi vegna framkvæmda. Hér undir falli m.a. framkvæmdir sem ákveðið hafi verið að skuli háðar mati á umhverfisáhrifum og var um það vísað til þágildandi laga um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000. Þau leyfi sem um sé að ræða séu öll leyfi stjórnvalda sem sæti kæru til nefndarinnar og nauðsynleg séu svo ráðast megi í framkvæmd sem háð sé mati á umhverfisáhrifum. Hjá því verður ekki litið í máli þessu að með áliti Skipulagsstofnunar, dags. 4. febrúar 2025, var hin kærða framkvæmd ekki talin líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skyldi því ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Þrátt fyrir að ákvörðun Skipulagsstofnunar hafi verið kærð til úrskurðarnefndarinnar raskar það því ekki að sökum þeirrar ákvörðunar er ekki til að dreifa kærurétti umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtaka yfir hinni kærðu ákvörðun. Getur aðild kæranda að máli þessu einungis grundvallast á almennum skilyrðum kæruaðildar.

Félög geta átt aðild að málum fyrir úrskurðarnefndinni á grundvelli almennra skilyrða kæruaðildar sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Til þess verða þau að sýna fram á að þau eigi lögvarinna hagsmuna að gæta. Verður við nánari afmörkun að líta til almennra meginreglna stjórnsýsluréttarins um aðild í kærumálum, en af þeim leiðir að kærandi verður að eiga beina einstaklingsbundna hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem er kærð. Samkvæmt samþykktum kæranda er tilgangur hans að gæta hagsmuna allra brimbrettamanna á Íslandi og er því nánar lýst í samþykktunum að markmið í starfsemi sé m.a. að fá helstu brimbrettastaði skráða sem útivistarsvæði á aðalskipulagi sveitarfélaga. Með þessu lýtur tilgangur kæranda, sem félags, að gæslu almannahagsmuna og er í kæru hans fyrst og fremst höfðað til slíkra hagsmuna.

Fyrir liggur að í aðalskipulagi og deiliskipulagi þess svæðis sem um ræðir hefur verið tekin afstaða til landnotkunar. Þá hafa við meðferð þessa máls ekki komið fram neinar upplýsingar um að kærandi hafi yfir að ráða aðstöðu eða réttindum til brimbrettaiðkunar í grennd við ráðgert framkvæmdasvæði. Verður ekki ráðið að kærandi eigi einstaklega og lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun umfram aðra. Verður ekki heldur séð að félagsmenn í kæranda eða umtalsverður hluti þeirra, eigi slíka beinna, sérstakra og verulegra hagsmuna að gæta af úrlausn þessa máls, þannig þeim verði játuð kæruaðild. Loks getur hvorki þátttaka kæranda eða félagsmanna hans við málsmeðferð Skipulagsstofnunar né við meðferð breytingar á deiliskipulagi svæðisins leitt til kæruaðildar að máli þessu.

Með vísan til alls framanrakins verður að vísa máli þessu frá úrskurðarnefndinni.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

162/2024 Furuhlíð

Með

Árið 2025, fimmtudaginn 13. febrúar, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 162/2024, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarkaupstaðar frá 12. maí 2024 um að aðhafast ekki frekar vegna lóðarmarka Fjóluhlíðar 11 og Furuhlíðar 10, Hafnarfirði.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 25. nóvember 2024, kærir eigandi, Fjóluhlíð 11, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarkaupstaðar frá 12. maí 2024 að aðhafast ekki frekar vegna lóðarmarka Fjóluhlíðar 11 og Furuhlíðar 10. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Hafnarfjarðarkaupstað 3. desember 2024.

Málsatvik og rök: Á árinu 2023 hóf kærandi tölvupóstsamskipti við byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarkaupstaðar vegna hæðar lóðar Furuhlíðar 10 og stöllunar á henni, sem hann taldi ekki vera samkvæmt samþykktum teikningum og skipulagi. Í kjölfarið fór byggingarfulltrúi á staðinn ásamt mælingamanni og með bréfi, dags. 12. maí 2024, var kæranda tilkynnt um niðurstöður mælinga. Í bréfinu kom fram að byggingarfulltrúi teldi að stöllun innan lóðar Furuhlíðar 10 samræmdist deiliskipulagi. Þá benti hann á að lóðarfrágangurinn hafi verið með þessum hætti frá því að húsin hafi verið byggð fyrir um 20-30 árum. Þá  hugðist embættið ekki aðhafast frekar í málinu.

 Kærandi kveðst hafa byggt hús sitt að Fjóluhlíð 11 í samræmi við samþykktar teikningar og hæð lóðarinnar sé í samræmi við deiliskipulag. Húsið að Furuhlíð 10 hafi verið byggt nokkrum árum seinna og lóðin sett í jafna hæð í kóta 31 nema um 1,5 m frá lóðamörkum Fjóluhlíðar 11 þar sem 1,5 m hár stoðveggur hafi verið gerður svo hæðarkóti yrði réttur á lóðarmörkum. Kærandi hafi ekki gert sér grein fyrir því að þetta hafi ekki verið í samræmi við samþykktar teikningar Furuhlíðar 10 enda hafi lóðin verið tekin út af byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar. Lóðin sé teiknuð einhalla að lóðarmörkum og hluti hæðarmunar tekinn upp við mitt hús Furuhlíðar 10. Byggingarfulltrúi hafi í ákvörðun sinni vísað til deiliskipulags um að heimilt sé að stalla lóðina niður að lóðarmörkum Fjóluhlíðar og að það sé gert með stoðvegg úr stórgrýti. Stöllun lóðar Furuhlíðar 10 sé í engu samræmi við teikningar lóðarinnar sem sýni einhalla, né deiliskipulag. Kærandi kannist ekki við að hafa fengið bréf með ákvörðun byggingarfulltrúa og því ekki náð að kæra ákvörðunina innan tímamarka. Á árinu 2024 hafi bréf verið send til bæjarstjóra, byggingarfulltrúa og skipulagsfulltrúa þar sem kærandi hafi óskað eftir viðbrögðum við erindi sínu. Bréfinu hafi ekki verið svarað fyrr en eftir samtöl við fulltrúa Hafnarfjarðar þegar afrit af bréfi byggingarfulltrúa hafi verið afhent.

 Af hálfu Hafnarfjarðarkaupstaðar er talið að kæran í málinu sé of seint fram komin og að hafna eigi öllum kröfum kæranda. Þá sé tiltekið að húsin og lóðirnar hafi verið í þessu horfi svo áratugum skipti. Húsið að Furuhlíð 10 hafi verið byggt árið 1989 og hús kæranda að Fjóluhlíð 11 hafi verið byggt 1994. Kærandi hefði mátt gera sér grein fyrir landhallanum þegar hús hans hafi verið byggt. Á samþykktum teikningum séu lóðarmörkin sýnd aflíðandi að lóðarmörkum, sem ekki sé raunin. Mælingamaður hafi mælt hæð á lóðarmörkum og í framhaldinu hafi verið ákveðið að embættið myndi ekki aðhafast meira í þessu máli. Kæranda hafi verið tilkynnt sú ákvörðun með bréfi.

Niðurstaða Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur til nefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um þá ákvörðun sem kæra lýtur að. Ákvörðun byggingarfulltrúa var send á lögheimili kæranda með bréfi, dags. 12. maí 2024, þar sem samtímis voru gefnar leiðbeiningar um kærurétt til úrskurðarnefndarinnar. Kærandi kveðst ekki hafa móttekið bréfið en fengið það síðar í hendur í samskiptum við fulltrúa Hafnarfjarðar. Í gögnum málsins er ódagsett bréf sem kærandi kveðst hafa afhent fulltrúa Hafnarfjarðarkaupstaðar í júní 2024. Kemur þar fram að erindi hans um að lóðin Furuhlíðar 10 yrði hæðarsett í samræmi við skipulag, hafi verið hafnað af byggingarfulltrúa. Verður ekki annað ráðið af þessu en að kærendur hafi vitað af hinni kærðu ákvörðun eigi síðar en í júní 2024.

Í ljósi þess að kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni 25. nóvember 2024, sem var að liðnum lögbundnum kærufresti, verður henni vísað frá nefndinni, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.