Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

63, 73 og 75/2021 Hringtún

Með

Árið 2021, þriðjudaginn 15. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 63/2021, kæra vegna ákvarðana umhverfisráðs Dalvíkurbyggðar frá 7. maí 2021 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir lóðirnar Hringtún 17 og 19 í Dalvíkur­byggð.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 13. maí 2021, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur, Hringtún 21, Dalvík, þær ákvarðanir umhverfisráðs Dalvíkurbyggðar frá 7. maí 2021 að samþykkja byggingarleyfi fyrir lóðirnar Hringtún 17 og 19. Skilja verður málatilbúnað kærenda svo að krafist sé ógildingar hinna kærðu ákvarðana. Gerðu kærendur jafnframt þá kröfu að framkvæmdir samkvæmt hinum kærðu byggingarleyfum yrðu stöðvaðar til bráðabirgða á meðan málið væri til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.

Með bréfum til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 2. og 3. júní 2021, er bárust nefndinni samdægurs, kæra eigendur Hringtúns 25 og Miðtúns 3 sömu ákvarðanir umhverfisráðs Dalvíkurbyggðar. Skilja verður málatilbúnað kærenda svo að krafist sé ógildingar hinna kærðu ákvarðana. Verða þau kærumál, sem eru nr. 73 og 75/2021, sameinuð máli þessu þar sem sömu ákvarðanir er kærðar í öllum málunum og hagsmunir kærenda þykja ekki standa því í vegi. Gerði kærandi í máli nr. 75/2021 jafnframt kröfu um stöðvun framkvæmda á meðan málið væri til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Með úrskurði uppkveðnum 8. júní 2021 var fallist á kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Dalvíkurbyggð 26. maí og 9. júní 2021.

Málavextir: Gildandi deiliskipulag fyrir Hóla- og Túnahverfi var samþykkt í sveitarstjórn Dalvíkurbyggðar 20. febrúar 2018 og afmarkast skipulagssvæðið af Böggvisbraut í austri og opnu grasi grónu landsvæði í suðri, vestri og norðri. Samkvæmt Aðalskipulagi Dalvíkurbyggðar 2008-2020 er svæðið skilgreint sem íbúðarbyggð. Hinn 31. október 2019 samþykkti sveitarstjórn að auglýsa tillögu að breytingu á nefndu skipulagi. Í tillögunni fólust m.a. áform um þéttingu byggðar með því að breyta tilteknum einbýlishúsalóðum í parhúsa- og raðhúsalóðir. Tillagan var kynnt á tímabilinu frá 11. desember 2019 til 31. janúar 2020. Athugasemdir bárust á kynningartíma, þ. á m. frá kærendum.

Að kynningu lokinni var málið tekið fyrir á fundi sveitarstjórnar Dalvíkur­byggðar 18. febrúar s.á., þar sem fyrir lá umsögn umhverfisráðs með tillögu að svörum við framkomnum athugasemdum, og samþykkti sveitarstjórn deiliskipulagsbreytinguna. Hin samþykkta skipulagsbreyting var send Skipulagsstofnun 9. júní 2020 til lögboðinnar yfirferðar og tilkynnti stofnunin í bréfi, dags. 23. s.m., að hún gerði ekki athugasemd við að birt yrði auglýsing um samþykkt deiliskipulagsbreytingarinnar. Tók breytt skipulag síðan gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 7. júlí 2020. Nefnd deiliskipulagsákvörðun var kærð til úrskurðar-nefndarinnar með bréfi, dags. 3. ágúst 2020, af sömu kærendum og í þessu máli. Með úrskurði uppkveðnum 15. október s.á. í máli nr. 71/2020 hafnaði úrskurðarnefndin kröfu um ógildingu deiliskipulags­breytingarinnar.

Með bréfi, dags. 12. janúar 2021, kærðu sömu kærendur og í máli nr. 53/2021 ákvörðun byggingarfulltrúa Dalvíkur­byggðar um að samþykkja graftrarleyfi fyrir lóðirnar Hringtún 17 og 19. Með úrskurði uppkveðnum 30. mars s.á., í máli nr. 10/2021, vísaði úrskurðarnefndin málinu frá þar sem graftrarleyfi, þ.e. leyfi til könnunar jarðvegs, væri almennt ekki til þess fallið að hafa áhrif á einstaklega lögvarða hagsmuni eigenda nágrannaeigna. Hafa kærendur nú skotið fyrrgreindum ákvörðunum umhverfisráðs frá 7. maí 2021 um byggingarleyfi vegna umræddra lóða til úrskurðar­nefndarinnar, eins og að framan greinir.

Málsrök kærenda: Kærendur taka fram að þeir telji að áformaðar byggingar samkvæmt hinum kærðu ákvörðunum rúmist ekki innan byggingarreita. Hámarksbyggingarmagn sé 260 m2 en þakflötur húsanna samkvæmt aðaluppdráttum sé um 304 m2. Þá vanti inn á teikningar staðsetningar annarra jarðfastra mannvirkja, svo sem skjólveggja, en samkvæmt greinargerð gildandi deiliskipulags eigi öll jarðföst mannvirki að vera innan byggingarreits.

Þá sé útveggur húss á lóðinni Hringtún 19 aðeins 3,15 m frá lóðarmörkum, en samkvæmt gr. 5.9.4. í byggingarreglugerð megi ekki byggja timburhús nær lóðarmörkum en 4 m. Samkvæmt sam­þykktum teikningum sé miðað við að hæðarkóti grunnplötu á lóðinni Hringtún 17 sé 24,55 og 24,70 á lóðinni nr. 19, en samkvæmt mæliblaði eigi þeir að vera um 50 cm lægri.

Málsrök Dalvíkurbyggðar: Bæjaryfirvöld vísa til þess að um leið og upplýsingar um kæruna hafi borist og eftir að byggingarfulltrúi hafi gengið úr skugga um að hæðarkóti Hringtúns 19 væri um 50 cm hærri en útgefið mæliblað kveði á um hafi framkvæmdir verið stöðvaðar. Farið hafi verið yfir málið og komið í ljós að misskilnings hafi gætt um við hvaða hæðarkóta hefði átt að miða. Eftir nánari mælingar á götu og húsum í nágrenninu hafi byggingarfulltrúi ákveðið að heimila allt að 25 cm hækkun á fyrirskrifuðum hæðarkóta húsanna, eins og hann standi í fyrrgreindum mæliblöðum. Þessi ákvörðun byggingarfulltrúa sé reist á heimild þess efnis í 3. gr. almennra byggingarskilmála fyrir lóðir sem Dalvíkurbyggð úthluti, þar sem segi orðrétt: „Á mæliblöðum eru lóðir og byggingar­reitir málsettir svo og bindandi byggingarlínur eftir því sem við á. sérstakar kvaðir ef einhverjar eru. Leyfa má allt að 25 cm frávik frá leiðsögukótum fyrir gólfplötu.“

Af framangreindu megi ráða að Dalvíkurbyggð hafi strax brugðist við og gripið til viðeigandi úrræða í því skyni að tryggja að framkvæmdaraðili héldi sig innan fyrirskrifaðs hæðarkóta og veitt honum að því búnu heimild til þess að hefja framkvæmdir á nýjan leik. Aðrar athugasemdir kærenda standist ekki skoðun og eigi fjarri því að leiða til þess að fallist verði á stöðvunarkröfu þeirra. Það sé beinlínis rangt að byggingarnar rúmist ekki innan byggingarreits en í greinargerð deiliskipulags sé sú krafa gerð og framkvæmdirnar því að öllu leyti í samræmi við skilmála. Þá sé bil milli bygginga í samræmi við byggingarreglugerð.

Kærendur hafi ekki lögvarða hagsmuni af því að framkvæmdir verði stöðvaðar. Þær séu að öllu leyti í samræmi við þær reglur sem um slíkar framkvæmdir gildi, eins og gögn málsins sýni. Búið sé að leiðrétta hæðarkóta og því engar forsendur fyrir stöðvun framkvæmda.

Athugasemdir leyfishafa: Af hálfu leyfishafa er tekið fram að í þeim skipulagsuppdráttum sem kærendur vitni í sé byggingarreiturinn minni en á þeim blöðum sem síðar hafi tekið gildi eftir breytingar á aðalskipulagi. Hönnuðir leyfishafa hafi unnið eftir þeim gögnum sem hafi komið frá sveitarfélaginu. Á mæliblaði og grunnlóðauppdrætti sjáist hversu stór byggingarreiturinn sé og ekki sé farið út fyrir hann. Í kæru sé vitnað til ákvæðis í byggingarreglugerð nr. 112/2012, sem sé ekki lengur í reglugerðinni, þ.e. gr. 5.9.4. Hins vegar gildi lög og reglur um fjarlægðir milli bygginga og í hvaða flokki veggir skuli vera. Slökkviliðsstjóri Dalvíkurbyggðar hafi yfirfarið teikningarnar og samþykkt þær. Þá sé það ekki rétt að undirstöður hússins að Hringtúni 19 standi 3,15 m frá lóðarmörkum. Byggingarfulltrúi hafi staðfest við leyfishafa að fjarlægð sé í lagi og kærendur hafi verið viðstaddir þá mælingu. Grindverk og skjólveggir séu ekki talin til jarðfastra mannvirkja. Varðandi efni þeirra skjólgirðinga sem verði við húsin þá verði þau klædd áli á grind sem sé að mestu úr stáli.

Niðurstaða: Um kæruaðild í þeim málum sem undir úrskurðarnefndina heyra er fjallað í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Þar er kveðið á um að þeir einir sem eigi lögvarða hagsmuni tengda kæranlegri stjórnvaldsákvörðun geti kært til úrskurðarnefndarinnar þá ákvörðun eða ætlað brot á þátttökurétti almennings. Verður að skýra þetta ákvæði í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttarins um aðild að kærumálum þar sem áskilið er að kærandi eigi einstaklingsbundinna hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra og jafnframt að þeir hagsmunir séu verulegir.

Upplýst hefur verið af hálfu byggingaryfirvalda sveitarfélagsins að hinn 8. júní 2021 hafi byggingarfulltrúi samþykkt byggingarleyfi fyrir parhúsum á lóðum nr. 17 og 19 við Hringtún  með öðrum hæðarkótum en fram koma á þeim teikningum sem samþykktar voru á fundi umhverfisráðs 7. maí 2021. Þar sem byggingarleyfi með breyttu efni hafa nú verið samþykkt fyrir byggingum á nefndum lóðum hafa byggingarleyfi þau sem um er deilt í máli þessu ekki lengur réttarverkan að lögum. Eiga kærendur því ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi hinna kærðu ákvarðana, svo sem gert er að skilyrði fyrir kæruaðild í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður kærumáli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Rétt þykir að taka fram að telji kærendur að hin nýju byggingarleyfi raski lögvörðum hagsmunum þeirra geta þeir eftir atvikum kært ákvarðanir um veitingu þeirra til úrskurðarnefndarinnar innan eins mánaðar frá því að kærendum varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um kæranlega ákvörðun, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011.

Úrskurðarorð

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

14/2021 Rafmagnstannbursti

Með

Árið 2021, fimmtudaginn 10. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 14/2021, kæra á ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 12. janúar 2021 um að synja kæranda um heimild til sölu fyrirliggjandi birgða af GUM ActiVital Sonic rafmagnstannburstum.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 9. febrúar 2021, er barst nefndinni sama dag, kærir innflytjandi og söluaðili GUM ActiVital Sonic rafmagnstannbursta þá ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 12. janúar s.á. að synja kæranda um heimild til sölu fyrirliggjandi birgða af þeim rafmagnstannburstum. Gerir kærandi aðallega þá kröfu að hinni kærðu ákvörðun verði breytt í þá veru að kæranda sé heimilt að selja fyrirliggjandi birgðir af GUM ActiVital Sonic tannburstum, samtals 1.890 stykki, þ.e. 1.083 svarta tannbursta og 807 hvíta. Til vara er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Umhverfisstofnun 10. mars 2021.

Málavextir: Í eftirlitsferð Umhverfisstofnunar til kæranda 1. október 2020 var greint frávik frá kröfum um upplýsingaskyldu til kaupenda á einni vöru, GUM ActiVital Sonic tannburstum, þar sem tannburstarnir voru ekki merktir með tunnumerki. Kæranda var tilkynnt framangreind niðurstaða með bréfi, dags. 5. október 2020, þar sem honum var veittur tveggja vikna frestur til að koma upplýsingum eða sjónarmiðum á framfæri og tvær vikur til viðbótar til úrbóta vegna fráviksins. Var kærandi upplýstur um heimild Umhverfisstofnunar til að beita tilteknum þvingunarúrræðum, m.a. um heimild til álagningar dagsekta. Þá kom fram að kæranda væri velkomið að leita til stofnunarinnar til að fá nánari upplýsingar um kröfur í gildandi reglugerðum og leiðir til úrbóta.

Í kjölfarið voru Umhverfisstofnun, kærandi og framleiðandi tannburstans í nokkrum tölvupóstsamskiptum. Kom þar m.a. fram að rafhlaða sem fylgdi tannburstanum væri merkt með tunnumerkinu, sem og pakkningar tannburstans. Framleiðandinn taldi undanþáguákvæði 4. mgr. 14. gr. reglugerðar 2012/19/EB um raf- og rafeindabúnaðarúrgang eiga við í málinu en Umhverfisstofnun var ekki á sama máli og óskaði eftir því með tölvupósti 23. október 2020 að tannburstarnir yrðu teknir úr dreifingu/sölu.

Í tölvupósti Umhverfisstofnunar til framleiðanda tannburstans 12. nóvember 2020 kom fram að stofnunin sæi fyrir sér þrjá möguleika fyrir framleiðandann, þ.e. að taka við vörunni og endurmerkja hana, taka við vörunni og selja hana utan Evrópu eða að farga vörunni. Framleiðandi tannburstans staðfesti að hann myndi ekki senda fleiri tannbursta til dreifingar­aðila vörunnar á Íslandi, þ.e. kæranda, að svo stöddu. Umhverfisstofnun bað kæranda í kjölfarið um að staðfesta tillögu framleiðandans í tölvupósti 17. s.m. Kærandi staðfesti og tillöguna samdægurs, en setti þó fyrirvara um að ákvörðun Umhverfisstofnunar stæðist lagalega skoðun.

Kærandi sendi Umhverfisstofnun enn tölvupóst 27. nóvember 2020 og óskaði eftir heimild til að dreifa fyrirliggjandi birgðum tannburstans. Umhverfisstofnun svaraði þeim pósti 15. desember s.á. þar sem fram kom að ekki væri von á að fyrri niðurstaða Umhverfisstofnunar breyttist, en að lögfræðingur stofnunarinnar væri að vinna í málinu. Í bréfi Umhverfisstofnunar, dags. 18. s.m., kom fram að stofnunin teldi sölu vörunnar óheimila. Í bréfinu var jafnframt tekið fram að frestur rekstraraðila til úrbóta væri liðinn og staðfesting á úrbótum hefði ekki borist og því áformaði stofnunin að áminna kæranda skv. 2. mgr. 66. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs. Stofnunin veitti kæranda frest til 28. desember s.á. til að koma að andmælum og staðfesta að úrbætur hefðu átt sér stað. Slík staðfesting var lögð fram af hálfu kæranda þann dag. Einnig ítrekaði kærandi beiðni sína um að fá að selja fyrirliggjandi birgðir og fylgdi henni rökstuðningur. Svar Umhverfisstofnunar barst kæranda 12. janúar 2021, þar sem fram kom að stofnunin teldi sig ekki hafa tekið formlega ákvörðun í málinu heldur hefði málið snúið að því að staðfesta að úrbætur hefðu verið gerðar og andmælarétti. Í ljósi þess að úrbætur hefðu nú verið staðfestar teldi Umhverfisstofnun ekki tilefni til að aðhafast frekar í málinu. Mat stofnunarinnar væri þó að óheimilt væri að selja vöruna fyrr en hún hefði verið merkt á fullnægjandi hátt.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda kemur fram að Umhverfisstofnun hafi tekið ákvörðun sem hafi verið til þess fallin að binda endi á mál, sem hafi hafist með eftirlitsheimsókn, frávikatilgreiningu í eftirlitsskýrslu, kröfu um úrbætur og áformum um beitingu áminningar. Ákvörðunin hafi verið verulega íþyngjandi og ákvarðanir sem teknar séu á grundvelli laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs séu kæranlegar til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála skv. 1. mgr. 67. gr. laganna.

Í 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sé kveðið á um að eftir að stjórnvald hafi tekið ákvörðun skuli hún tilkynnt aðila máls nema það sé augljóslega óþarft og ákvörðun sé bindandi eftir að hún sé komin til aðila. Það sé óskráð meginregla í stjórnsýslurétti að stjórnvaldsákvörðun verði efnislega að vera bæði ákveðin og skýr svo málsaðili geti skilið hana og metið réttarstöðu sína. Auðsætt sé að niðurstaða Umhverfisstofnunar hafi legið fyrir í kjölfar eftirlitsheimsóknar, þ.e. farið hafi verið fram á úrbætur og að fengnum tillögum frá framleiðanda hafi verið fallist á þær af hálfu stofnunarinnar. Ekki hafi verið um samningaviðræður að ræða enda samningsfrelsi kæranda og framleiðandans takmarkað. Í kjölfarið hafi stofnunin vísað til þvingunarráðstafana samkvæmt ákvæðum laga nr. 55/2003 og því legið með skýrum hætti fyrir að það kynni að hafa alvarlegar afleiðingar að lúta ekki ákvörðuninni. Þrátt fyrir að Umhverfisstofnun hafi gefið til kynna í tölvupósti að engin ákvörðun hefði verið tekin liggi fyrir að niðurstaðan hafi verið einhliða, beinst sérstaklega að kæranda og bundið enda á málið.

Í samskiptum Umhverfisstofnunar og kæranda hafi stofnunin, allt frá 5. október 2020, vísað til ákvæða 4. gr. reglugerðar nr. 1061/2018 um raf- og rafeindatækjaúrgang og 66. gr. laga nr. 55/2003 sem lagagrundvöll viðbragða sinna. Í 2. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar sé kveðið á um skyldu framleiðanda og innflytjanda til að tilgreina í upplýsingum sem ætlaðar séu til dreifingar til kaupanda hvar heimilt sé að skila raf- og rafeindatækjaúrgangi, að hægt sé að skila raf- og rafeindatækjaúrgangi án greiðslu og að ábyrgst sé að hann verði meðhöndlaður í samræmi við gildandir reglur. Í 1. málsl. 3. mgr. reglugerðarinnar sé jafnframt kveðið á um að kaupandi skuli einnig upplýstur um hlutverk sitt varðandi endurnotkun, endurvinnslu og aðrar leiðir til endurnýtingar raf- og rafeindatækjaúrgangs. Í lokamálsgrein téðrar 4. gr. sé svo kveðið á um skyldu framleiðanda og innflytjanda til að merkja raf- og rafeindatæki með tunnumerkinu skv. IV. viðauka í reglugerðinni, en einnig skuli koma fram leiðbeiningar um þýðingu merkisins, þ.e. að raf- og rafeindatækjaúrgangi skuli safnað sérstaklega. Tunnumerkið sé birt í téðum viðauka en þar sé jafnframt tekið fram að það gefi til kynna að raf- og rafeindatækjum sé safnað sérstaklega og það skuli prentað þannig að það sé sýnilegt, læsilegt og óafmáanlegt. Af orðum 21. gr. reglugerðarinnar leiði að hún sé sett með stoð í 5. mgr. 50. gr. og 53. gr. laga nr. 55/2003 til innleiðingar á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2012/19/ESB frá 4. júlí 2012 um raf- og rafeindabúnaðarúrgang.

Í 5. mgr. 50. gr. laga nr. 55/2003 sé kveðið á um heimild ráðherra til að setja reglugerð um skráningu framleiðenda og innflytjenda. Sérstaklega sé tekið fram að í reglugerðinni skuli fjallað um skyldu framleiðenda og innflytjenda raf- og rafeindatækja til að skrá sig og skila upplýsingum um innflutning eða framleiðslu á raf- og rafeindatækjum til Umhverfisstofnunar og á hvaða hátt það skuli gert. Í 53. gr. laganna sé hins vegar að finna reglugerðarheimildir um raf- og rafeindatæki varðandi afmörkuð atriði. Í e-lið lagagreinarinnar sé tekið fram að í reglugerðinni megi kveða á um nánari ákvæði um skyldu framleiðenda, innflytjenda, sveitarfélaga og seljenda til að upplýsa kaupendur raf- og rafeindatækja, sbr. ákvæði 46., 47. og 49. gr. laganna. Í f-lið hennar sé kveðið á um að setja megi reglugerð um skyldu framleiðanda og innflytjanda til að merkja raf- og rafeindatæki. Í 46. gr. laganna sé kveðið á um skyldu framleiðanda og innflytjanda til að upplýsa í upplýsingum sem ætlaðar séu til dreifingar til kaupanda hvar sé heimilt að skila raf- og rafeindatækjaúrgangi, að hægt sé að skila raf- og rafeindatækjaúrgangi án greiðslu og að ábyrgst sé að hann verði meðhöndlaður í samræmi við gildandi reglur. Í 47. gr. laganna sé kveðið á um skyldu sömu aðila til að veita upplýsingar um rétta meðhöndlun raf- og rafeindatækjaúrgangs til þeirra sem hafi starfsleyfi til að meðhöndla raf- og rafeindatækjaúrgang. Tekið sé fram að slíkar upplýsingar skuli veittar eigi síðar en ári frá því að raf- og rafeindatæki hafi verið markaðsett.

Fjallað sé um upplýsingagjöf til notenda í 14. gr. tilskipunar 2012/19/ESB. Í a-lið 2. mgr. 14. gr. sé kveðið á um skyldu aðildarríkja EES-samningsins til að tryggja að notendur raf- og rafeindabúnaðar á heimilum fái nauðsynlegar upplýsingar um þá kröfu að raf- og rafeindabúnaðarúrgangi sé ekki fargað sem óflokkuðu heimilissorpi heldur sé honum safnað sérstaklega. Í e-lið málsgreinarinnar sé jafnframt kveðið á um skyldu aðildarríkjanna til að tryggja að notendur raf- og rafeindabúnaðar á heimilum fái nauðsynlegar upplýsingar um merkingu tunnumerkisins, sem birt sé í IX. viðauka í tilskipuninni. Í 4. mgr. 14. gr. tilskipunarinnar sé fjallað nánar um notkun táknsins á eftirfarandi hátt: „Með það fyrir augum að halda því í lágmarki að raf- og rafeindabúnaðarúrgangi sé fargað með óflokkuðu húsasorpi og til að auðvelda að honum sé safnað sérstaklega skulu aðildarríkin sjá til þess að framleiðendur merki raf- og rafeindabúnað sem settur er á markað á viðeigandi hátt með tákninu sem er sýnt í IX. viðauka, helst í samræmi við Evrópustaðalinn EN 50419. Í undantekningartilvikum, þegar það er nauðsynlegt vegna stærðar eða virkni búnaðarins, skal táknið vera prentað á umbúðir, notkunarleiðbeiningar og ábyrgðarskírteini raf- og rafeindabúnaðarins.“

Framleiðandi tannburstans telji hann falla undir framangreint undanþáguákvæði 2. málsl. 4. mgr. 14. gr. tilskipunarinnar en Umhverfisstofnun hafi ekki fallist á það. Kærandi hafi fallist á niðurstöðu Umhverfisstofnunar með fyrirvara um lögmæti hennar en hafi jafnframt óskað eftir heimild hennar til að markaðssetja fyrirliggjandi birgðir af tannburstanum, a.m.k. þar til endurbætt útgáfa hans lægi fyrir.

Kærandi telji að höfnun Umhverfisstofnunar á heimild kæranda til að markaðssetja fyrirliggjandi birgðir tannburstans hafi ekki samræmst ákvæðum 12. gr. stjórnsýslulaga um meðalhóf. Framleiðandi tannburstans hafi upplýst með ítarlegum hætti um stærð og lögun hans og þá erfiðleika sem hann stæði frammi fyrir við að koma tunnumerkinu fyrir á honum. Tunnumerkið sé sannarlega að finna bæði á umbúðum tannburstans og á rafhlöðu sem fylgi honum í sölupakkningu. Magn fyrirliggjandi birgða sé takmarkað. Umfang fyrirliggjandi birgða tannburstans sem úrgangs verði að sama skapi afar takmarkað. Þá liggi fyrir að kærandi hafi boðist sérstaklega til að ráðast í sérstaka kynningu fyrir notendum á því hvernig beri að meðhöndla tannburstann sem úrgang. Beiðni kæranda um heimild til markaðs­setningar hafi verið bundin við þann tíma þar til ný og endurbætt útgáfa tannburstans lægi fyrir í birgðum, þ.e. þar til framleiðandi hafi merkt hann með tunnumerkinu og fyrir liggi samþykki bæði framleiðanda og kæranda við því að til markaðssetningar hans komi ekki að öðru leyti fyrr en sú staða sé uppi. Telji kærandi að ákvörðun Umhverfisstofnunar uppfylli því ekki það skilyrði að markmiði hennar verði ekki náð með öðru og vægara móti og stofnunin hafi ekki gætt þess að fara ekki strangar í sakirnar en nauðsyn beri til. Kærandi hafi gert Umhverfisstofnun grein fyrir hagsmunum sínum af heimild til tímabundinnar markaðssetningar fyrirliggjandi birgða tannburstans en þeim sjónarmiðum virðist stofnunin ekki hafa veitt vægi við mat á því hvort tilvikið yrði fellt undir undanþáguákvæði 4. mgr. 14. gr. tilskipunar 2012/19/ESB. Sé grundvallarafstaða kæranda sú að í ljósi meðalhófssjónarmiða hafi Umhverfis­stofnun haft nægilegt svigrúm til að heimila honum að markaðssetja fyrirliggjandi birgðir tannburstans, enda um skýrt undantekningartilvik að ræða í ljósi framangreinds og þar sem stærð tannburstans, m.t.t. mögulegra merkinga, komi til skoðunar.

Aðgerðir Umhverfisstofnunar í málinu grundvallist á ákvæðum 66. gr. laga nr. 55/2003, en í henni sé kveðið á um þvingunarúrræði sem Umhverfisstofnun og heilbrigðiseftirlit geti beitt við eftirlit. Téða 66. gr. sé að finna í XIII. kafla laganna, sem hafi fyrirsögnina „Eftirlit, þvingunarúrræði, málsmeðferð og viðurlög“. Ákvæðin séu samhljóða ákvæðum 1.-3. mgr. 22. gr. frumvarps til þeirra laga. Í sérstökum athugasemdum við 22. gr. frumvarpsins hafi verið tekið fram að í greininni væri kveðið á um þvingunarúrræði vegna meðhöndlunar úrgangs. Meðhöndlun úrgangs sé skilgreind í 3. gr. laganna á þann hátt að undir orðalagið falli söfnun, geymsla, böggun, flokkun, flutningur, endurnotkun, endurnýting, pökkun og förgun úrgangs, þ.m.t. eftirlit með slíkri starfsemi og umsjón með förgunarstöðum eftir að þeim hafi verið lokað. Auðsætt sé að starfsemi kæranda falli ekki undir þá skilgreiningu. Ákvæði laganna um raf- og rafeindatæki hafi verið felld inn í lögin með setningu breytingarlaga nr. 65/2017, en ekki verði séð að með þeim hafi verið gerðar breytingar á efnisinntaki 66. gr. laga nr. 23/2003. Í því ljósi verði að ætla að Umhverfisstofnun hafi ekki verið heimilt að bera ákvæði 66. gr. fyrir sig í málinu, sem hún þó hafi gert. Séu þannig allar líkur á að stofnunin hafi aðhafst í málinu í valdþurrð og með því sett kæranda í þvingaða aðstöðu. Geti kærandi því m.a. ekki talist bundinn af þeim yfirlýsingum sem hann hafi gefið í málinu.

Málsrök Umhverfisstofnunar: Af hálfu Umhverfisstofnunar er bent á að samkvæmt bréfi til rekstraraðila, dags. 5. október 2020, um eftirlit sem farið hafi fram hjá kæranda 1. s.m. hafi niðurstaða eftirlitsins verið sú að eitt frávik hefði greinst, þ.e. að tunnumerki skv. 3. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 1061/2018 um raf- og rafeindatækjaúrgang hefði vantað á vöruna GUM ActiVital Sonic rafmagnstannbursta. Hafi kæranda verið veittur tveggja vikna frestur til að koma upplýsingum eða sjónarmiðum sínum á framfæri við stofnunina og fjögurra vikna frestur til úrbóta. Í kjölfarið hafi tölvupóstsamskipti hafist á milli kæranda og fulltrúa Umhverfisstofnunar um mögulegar leiðir til úrbóta. Líkt og segi í tölvupósti frá stofnuninni, 12. nóvember 2020, hafi verið lagðar til þrjár leiðir til úrbóta, þ.e. að framleiðandi tæki við tannburstum aftur og endurmerkti þá, að framleiðandi tæki við þeim aftur og seldi þá utan Evrópu eða að tannburstunum yrði fargað. Þann 17. nóvember 2020 hafi Umhverfisstofnun upplýst kæranda um að fallist væri á þá tillögu framleiðandans að fyrirtækið myndi hætta að bjóða kæranda tannburstann til sölu þar til úr merkingum hefði verið bætt og tryggja að kærandi myndi ekki setja tannburstann á markað og bjóða honum að skila fyrirliggjandi birgðum. Hafi kærandi verið beðinn um að staðfesta þess tillögu framleiðanda, en í svari kæranda hafi falist staðfesting á framangreindri tillögu með fyrirvara um að hún stæðist lagalega skoðun. Kærandi hafi jafnframt óskað eftir heimild til þess að dreifa fyrirliggjandi birgðum af tannburstum sem ekki hafi uppfyllt kröfu um tunnumerkið, a.m.k. þar til endurbætt vara lægi fyrir.

Umhverfisstofnun hafi sent kæranda bréf, dags. 18. desember 2020, um áform um áminningu þar sem sá frestur sem kæranda hafi verið veittur til úrbóta hafi verið liðinn og stofnuninni hefði ekki enn borist skýr staðfesting á úrbótum. Í bréfinu sé vísað til þess að þar sem engin undan­þágu­heimild sé fyrir hendi sé sú krafa skýr að viðkomandi tannburstar skuli vera merktir á fullnægjandi hátt skv. reglugerð nr. 1061/2018. Komi fram að stofnunin hafi áformað að veita kæranda áminningu, sbr. 2. mgr. 66. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs. Hafi einnig verið vísað til heimildar Umhverfisstofnunar skv. 20. gr. laga nr. 134/1995 um öryggi vöru og opinbera markaðsgæslu til að fara fram á að vara verði tekin af markaði eða sala hennar bönnuð uppfylli hún ekki formleg skilyrði, s.s. um merkingar. Hafi kæranda aftur verið veittur formlegur frestur til og með 28. desember 2020 til að leggja fram staðfestingu á úrbótum eða koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Í kjölfarið hafi Umhverfisstofnun borist bréf þar sem fram hafi komið að kærandi sætti sig við tillögur framleiðanda tannburstans, fengi ekki birgðir af tannburstanum frá framleiðanda fyrr en bætt hefði verið úr merkingum og myndi ekki dreifa honum til verslana þar til nýjar og endurbættar birgðir bærust. Í ljósi þessarar staðfestingar hafi það verið niðurstaða Umhverfisstofnunar að fullnægjandi úrbætur hefðu verið gerðar og stofnunin myndi ekki aðhafast frekar í málinu. Hafi því ekki komið til formlegrar ákvörðunar­ af hálfu stofnunarinnar um áminningu eða önnur þvingunarúrræði gagnvart kæranda. Í framangreindu bréfi hafi þó einnig verið ítrekuð beiðni kæranda um að fá heimild til að markaðssetja fyrirliggjandi birgðir af tannburstanum sem uppfylltu ekki kröfu um tunnumerkið, a.m.k. þar til endurbætt vara lægi fyrir, með vísan til þess hve íþyngjandi sú ráðstöfun væri fyrir kæranda. Hafi því einnig verið tekin fram sú afstaða stofnunarinnar í fyrrgreindum tölvupósti 12. janúar 2021 að það væri mat hennar að óheimilt væri að setja vöruna aftur á markað nema hún hefði verið merkt með fullnægjandi hætti.

Tekið sé fram að stofnunin hafi ekki svigrúm til mats í því tilviki sem um ræði. Sú krafa að vara sé merkt með tunnumerki sé skýr skv. reglugerð nr. 1061/2018, sbr. reglugerðarheimild í f-lið 53. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs. Heimild Umhverfisstofnunar til beitingar þvingunarúrræða skv. 19. gr. reglugerðar nr. 1061/2018 til að knýja á um framkvæmd ráðstöfunar samkvæmt lögunum sé sömuleiðis skýr. Þótt ákvæði 4. mgr. 14. gr. tilskipunar 2012/19/EB um undanþágu frá framangreindri kröfu hafi ekki verið innleitt sérstaklega í íslenskan rétt hafi reglugerð nr. 1061/2018 verið túlkuð til samræmis við ákvæðið og því horft til þess við meðferð málsins. Að mati stofnunarinnar eigi undanþágur 4. mgr. 14. gr. tilskipunarinnar ekki við í umræddu tilviki. Niðurstaða stofnunarinnar hafi verið að falla frá áminningu gagnvart kæranda þar sem skýr staðfesting hefði borist á því að ómerktu tannburstarnir hefðu verið teknir úr sölu.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi bendir á að í umsögn Umhverfisstofnunar sé tekið fram að ekki hafi komið til formlegrar ákvörðunartöku um áminningu eða önnur þvingunarúrræði gagnvart kæranda. Virðist þannig gefið til kynna að engin stjórnvaldsákvörðun hafi verið tekin. Árétti kærandi að í því samhengi þurfi að horfa til þess að í 1. mgr. 67. gr. laga nr. 55/2003 sé kveðið á um stjórnvalds­ákvarðanir sem teknar séu á grundvelli laganna og stjórnvaldsfyrirmæla sem sett séu á grundvelli laganna sæti kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Eðlilega sé ekki nánar kveðið á um inntak slíkra ákvarðana í lögunum heldur fari um þær samkvæmt viðteknum viðmiðum stjórnsýsluréttar. Við mat á því hvort málsmeðferð stjórnvalds teljist til stjórnvalds­ákvörðunar sé m.a. litið til þess að ákvörðun sé greind frá leiðbeiningum og ráðgjöf. Hún sé tekin í ljósi stjórnsýsluvalds, sé einhliða, ekki einkaréttarlegs eðlis, hafi bindandi réttaráhrif í tilteknu máli, sé beint að málsaðila og sé ákvörðun um rétt eða skyldu manns. Í algerum vafa­tilvikum sé talið að fremur beri að álykta sem svo að um stjórnvaldsákvörðun sé að ræða.

Í máli þessu hafi sú staða verið uppi að á öllum stigum hafi því verið lýst yfir af hálfu Umhverfis­stofnunar að þvingunarráðstöfunum kynni að verða beitt. Hafi kæranda verið stillt upp við vegg og honum kynntar þrjár færar leiðir, en auðsætt hafi verið að ef ein þeirra yrði ekki valin hefði þvingunarráðstöfunum verið beitt. Því hafi kærandi verið settur í þvingaða stöðu og því ljóst að samskiptin við Umhverfisstofnun hafi verið verulega frábrugðin hefðbundnum leiðbeiningum eða ráðgjöf. Af ákvæðum laga nr. 55/2003 leiði að niðurstaða málsins hafi verið leidd fram í skjóli stjórnsýsluvalds og verið einhliða í ljósi hinnar þvinguðu aðstöðu. Ekki hafi verið um samning að ræða, málinu hafi verið beint að kæranda og varðað aðeins hann og niðurstaða málsins orðið sú að kærandi hafi talið sig nauðbeygðan til að fallast á tillögu Umhverfisstofnunar. Allur málatilbúnaður stofnunarinnar hafi borið með sér að til stjórnvaldsákvörðunar gæti komið. Þegar kærandi hafi staðfest niðurstöðu framleiðanda hafi hann talið að í raun hafi málinu verið lokið af hálfu stofnunarinnar og því farið fram á endurupptöku þess og byggt á meðalhófssjónarmiðum. Þeirri viðleitni hafi þó verið hafnað. Í ljósi framangreindra málaloka telji kærandi sýnt að endalok málsins hafi í raun verið bindandi en frá upphafi hafi legið fyrir að niðurstaða málsins myndi vera kæranda íþyngjandi. Að mati kæranda ætti því í það minnsta að líta svo á sem um algert vafatilvik væri að ræða sem líta bæri á sem stjórnvaldsákvörðun.

Í umsögn Umhverfisstofnunar komi m.a. fram að undanþága 4. gr. 14. gr. tilskipunar 2012/19/EB eigi ekki við í málinu. Vissulega sé gert ráð fyrir að því í ákvæðinu að því sé beitt í undantekningartilvikum og undantekningartilvik geti helgast af stærð og virkni búnaðar. Í þessu samhengi sé rétt að árétta að orðið „nauðsynlegt“ vísi til meðalhófs enda verði að öðrum kosti að ætla að notað hefðu verið orð á borð við „þegar það er útilokað“, „þegar það er ekki mögulegt“ o.s.frv. Mælikvarði Umhverfisstofnunar hafi hins vegar verið strangur, þ.e. bein mæling á yfirborði tannburstans og samanburður flatarmáls við áskylda stærð tunnumerkisins. Að mati kæranda hafi þannig ekki gætt svigrúms til mats sem ákvæðið geri ráð fyrir heldur þvert á móti.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur nefndin það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Samkvæmt 1. mgr. 67. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs sæta stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laganna, reglugerða settra samkvæmt þeim eða samþykkta sveitarfélaga kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.

Reglugerð nr. 1061/2018 um raf- og rafeindatækjaúrgang hefur verið sett með stoð í 5. mgr. 50. gr. og 53. gr. laga nr. 55/2003. Í 3. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar kemur fram að framleiðandi og innflytjandi skuli merkja raf- og rafeindatæki með merki skv. IV. viðauka. Einnig skuli koma fram leiðbeiningar um þýðingu merkisins, þ.e. að raf- og rafeindatækjaúrgangi skuli safnað sérstaklega. Óumdeilt er að umdeildir tannburstar eru ekki merktir með svokölluðu tunnumerki, sem er að finna í IV. viðauka með reglugerðinni. Fjallað er um þvingunarúrræði í 19. gr. reglugerðarinnar. Í 1. mgr. hennar er kveðið á um að til að knýja á um framkvæmd ráðstöfunar samkvæmt reglugerðinni sé Umhverfisstofnun heimilt að veita viðkomandi aðila áminningu. Jafnframt skuli veita hæfilegan frest til úrbóta sé þess þörf. Í 2. mgr. segir að ef aðili verði ekki við tilmælum um úrbætur innan tiltekins frests sé heimilt að ákveða aðila dagsektir þar til úr sé bætt. Samkvæmt 5. mgr. 19. gr. reglugerðarinnar gildir 66. gr. laga nr. 55/2003 að öðru leyti um þvingunarúrræði.

Samkvæmt 1. mgr. 66. gr. laga 55/2003, sem fjallar um þvingunarúrræði, er Umhverfisstofnun og heilbrigðisnefnd, þar sem hún fer með eftirlit, heimilt að beita úrræðum samkvæmt greininni. Kemur fram í 2. mgr. nefndrar greinar að heimilt sé að veita aðila áminningu til að knýja á um framkvæmd ráðstöfunar samkvæmt lögunum, en jafnframt skuli veita hæfilegan frest til úrbóta sé þeirra þörf. Þá kemur fram í 3. mgr. að heimilt sé að ákveða aðila dagsektir verði hann ekki við tilmælum um úrbætur innan tiltekins frests. Loks segir í 5. mgr. ákvæðisins að ef svo alvarleg hætta stafi af tiltekinni starfrækslu eða notkun að aðgerð þoli enga bið sé heimilt til bráðabirgða að stöðva starfsemi eða notkun þegar í stað.

Í máli þessu liggja fyrir tölvupóstsamskipti kæranda og Umhverfisstofnunar. Af þeim má sjá að stofnunin hefur ekki beitt framangreindum heimildum í málinu, þ.e. veitt áminningu, lagt á dagsektir eða stöðvað starfsemi vegna alvarlegrar hættu. Þrátt fyrir að orðalag í samskiptum Umhverfis­stofnunar við kæranda hefði mátt vera skýrara hvað þetta varðar verður að líta svo á að bréf stofnunarinnar feli í sér áréttingu á túlkun hennar á gildandi lögum og reglum og að frá þeim hafi verið vikið af hálfu kæranda. Ekki verður hins vegar talið að um sjálfstæða stjórnvaldsákvörðun hafi verið að ræða um beitingu þvingunarúrræða sem lagt hafi á kæranda beina skyldu í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Umhverfisstofnun veitti fresti til úrbóta, líkt og bæði 2. mgr. 66. gr. laga nr. 55/2003 og 1. mgr. 19. gr. reglugerðar nr. 1061/2018 gera ráð fyrir að sé undanfari áminningar. Stofnunin sendi kæranda einnig bréf um áform um áminningu. Slíkum áformum verður ekki jafnað við eiginlega ákvörðun um áminningu og kæruheimild vegna slíkra áforma fyrirfinnst ekki, enda eru þau einungis skref í átt að beitingu frekari úrræða, sem eftir atvikum væru kæranleg til úrskurðarnefndarinnar.

Í 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga segir að ákvörðun sem ekki bindi enda á mál verði ekki kærð fyrr en málið hafi verið til lykta leitt. Með vísan til alls framangreinds verður máli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni, enda hefur ekki verið tekin eiginleg stjórnvaldsákvörðun í málinu.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

47/2021 Vatnsleysustrandarvegur

Með

Árið 2021, föstudaginn 28. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 47/2021, kæra á ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Sveitarfélagsins Voga frá 19. mars 2021 um að hafna stöðvun framkvæmda við lagningu vatnslagna meðfram Vatnsleysustrandarvegi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 15. apríl 2021, er barst nefndinni sama dag, kæra Reykjaprent ehf. og A, tveir af níu eigendum Heiðarlands Vogajarða, þá ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Sveitarfélagsins Voga frá 19. mars 2021 að hafna stöðvun framkvæmda við lagningu vatnslagna meðfram Vatnsleysustrandarvegi. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.

Þá er kært til vara athafnaleysi Sveitarfélagsins Voga sem felist í því að ráðast í framkvæmd sem háð sé skipulagsskyldu skv. 12. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og framkvæmdaleyfi skv. 13. gr. sömu laga án þess að marka áður stefnu um hana í skipulagsáætlun og án þess að sækja um og veita framkvæmdaleyfi til hennar. Er þess krafist að staðfest verði brot sveitarfélagsins gegn þátttökurétti almennings samkvæmt skipulagslögum og/eða lögum nr. 105/2006 um umhverfismat áætlana og að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið sé til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.

Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Sveitarfélaginu Vogum 23. apríl 2021.

Málavextir: Í mars 2021 óskaði Sveitarfélagið Vogar eftir heimild Vegagerðarinnar til að leggja vatnslögn meðfram Vatnsleysustrandarvegi að gatnamótum að Grænuborgarhverfi. Með ódagsettu bréfi veitti Vegagerðin umbeðna heimild með tilgreindum skilyrðum. Í kjölfarið réðst HS Veitur hf. í gerð lagnaskurðar á umræddu svæði. Með bréfi kærenda til skipulags- og byggingarfulltrúa sveitarfélagsins, dags. 12. mars 2021, var óskað eftir öllum fyrirliggjandi gögnum um framkvæmdirnar, þ.m.t. leyfum ef við ætti. Kom jafnframt fram í bréfinu að þess væri vænst að framkvæmdir yrðu stöðvaðar ef athugun skipulags- og byggingarfulltrúa gæfi tilefni til að ætla að undirbúningi umræddra framkvæmda kynni að vera áfátt þannig að lögvarinna hagsmuna kærenda hefði ekki verið gætt eða ekki hefði að öðru leyti verið farið réttilega að reglum um undirbúning framkvæmda. Í svari skipulags- og byggingarfulltrúa, dags. 19. s.m., við bréfi kærenda var vísað til þess að umræddar veitulagnir færu um veghelgunarsvæði Vatnsleysustrandarvegar með samþykki Vegagerðarinnar. Væri því ekki talið tilefni til að stöðva framkvæmdirnar. Með tölvupósti 9. apríl 2021 til skipulags- og byggingarfulltrúa og bæjarstjóra sveitarfélagsins bentu kærendur á að þeir hefðu hvorki verið spurðir um né hafi þeir veitt leyfi til framkvæmda á landi þeirra. Óskuðu þeir því eftir að framkvæmdirnar yrðu stöðvaðar. Í svari bæjarstjóra 12. s.m. var vísað til fyrra svars skipulags- og byggingarfulltrúa um að framkvæmdirnar væru allar innan veghelgunarsvæðis. Gæti sveitarfélagið því ekki fallist á þau sjónarmið að verið væri að fara inn á land kærenda.

Málsrök kærenda: Kærendur benda á að hin umdeilda vatnslögn sé lögð meðfram Vatnsleysustrandarvegi og liggi því um jörð þeirra. Lögnin sé staðsett í minnst 8 m fjarlægð frá vegkanti og þar með utan vegsvæðis. Lögnin og hinar umdeildu framkvæmdir fari því alfarið fram á eignarlandi kærenda. Hvorki hafi verið óskað eftir leyfi þeirra fyrir fram­kvæmdunum né hafi þeim verið gefinn kostur á að tjá sig um þær. Óháð undirbúningi og leyfisveitingum til framkvæmdanna hafi málsmeðferð sveitarfélagsins við ákvarðanatöku framkvæmdanna af þeim sökum verið í andstöðu við 10., 13. og 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá séu framkvæmdirnar ekki í samræmi við gildandi skipulagsáætlanir. Vatnslögn, sem sýnd sé á yfirlitsuppdrætti framkvæmdanna, sé ekki að finna á deiliskipulagi svæðisins. Framkvæmdirnar séu af þeim sökum andstæðar 1. mgr. 12. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Þar að auki hafi þær ekki sætt málsmeðferð samkvæmt sömu lögum og eftir atvikum lögum nr. 105/2006 um umhverfismat áætlana, en með því hafi verið brotið gegn þátttökurétti almennings. Um sé að ræða framkvæmdir sem háðar séu framkvæmdaleyfi skv. 13. gr. skipulagslaga en ekkert slíkt leyfi hafi verið gefið út. Leyfi Vegagerðarinnar á grundvelli vegalaga nr. 80/2007 feli ekki í sér slíkt framkvæmdaleyfi. Því hafi skipulags- og byggingarfulltrúa verið skylt, í samræmi við 1. mgr. 53. gr. skipulagslaga, að stöðva framkvæmdirnar tafarlaust.

Málsrök Sveitarfélagsins Voga: Af hálfu sveitarfélagsins er bent á að HS veitur hf. hafi ráðist í framkvæmdir við gerð lagnaskurðar. Innan Heiðarlands Vogajarða liggi skurðurinn innan veghelgunarsvæðis Vatnsleysustrandarvegar á kafla sem sé um 150 m langur, frá gatnamótum Stapavegar og Vatnsleysustrandarvegar að vegi sem liggi inn að svokölluðu Grænuborgar­svæði. Umræddur skurður sé fyrir helstu lagnir að hinu nýja íbúðarhverfi sem skipulagt hafi verið í þéttbýli sveitarfélagsins. Framkvæmdir við gerð skurðarins séu langt komnar þó enn eigi eftir að leggja í hann þær lagnir sem eigi að fara ofan í skurðinn og ganga endanlega frá þeim. Öllu raski á yfirborði sé lokið. Þar sem skurðurinn sé innan veghelgunarsvæðis hafi verið aflað samþykkis Vegagerðarinnar vegna framkvæmdarinnar.

Framkvæmdin sé ekki skipulagsskyld samkvæmt ákvæðum skipulagslaga nr. 123/2010. Ekki sé um að ræða framkvæmd sem hafi áhrif á umhverfi og breyti ásýnd þess skv. 12. gr. laganna. Um sé að ræða lagnaframkvæmd í þéttbýli sem almennt sé ekki gerð grein fyrir á skipulagi, þ.e. hvorki deiliskipulagi né aðalskipulagi. Engin skylda hvíli því á sveitarfélaginu til að tilkynna slíka framkvæmd eða hafa samráð um hana við almenning. Þá sé umrædd framkvæmd ekki framkvæmdaleyfisskyld skv. 13. gr. skipulagslaga. Hvorki sé um að ræða meiriháttar framkvæmd sem hafi áhrif á umhverfið og breyti ásýnd þess né framkvæmd sem falli undir lög um mat á umhverfisáhrifum. Framkvæmdin sé minniháttar og hafi engin áhrif á umhverfi sitt. Ekki sé heldur um byggingarleyfisskylda framkvæmd að ræða en skv. 9. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki séu fráveitumannvirki og dreifi- og flutningskerfi hitaveitna, vatnsveitna, rafveitna og fjarskipta og breytingar á slíkum mannvirkjum undanþegin byggingarleyfi.

Þar sem engin leyfi hafi verið gefin út vegna framkvæmdanna hafi engin kæranleg ákvörðun verið tekin. Þegar af þeirri ástæðu beri að vísa málinu frá nefndinni. Verði ekki á það fallist sé vísað til sömu lagaraka um að hafna beri kröfu kærenda um ógildingu synjunar um stöðvun framkvæmda enda hafi engin lög verið brotin með framkvæmdinni. Sveitarfélaginu hafi því ekki borið skyldu til að stöðva framkvæmdirnar. Samþykki Vegagerðarinnar liggi fyrir en  hún fari með forræði svæðisins samkvæmt ákvæðum vegalaga nr. 80/2007. Framkvæmdum sé að mestu lokið en eftir sé að ljúka við að fleyga hluta leiðarinnar, setja lagnir niður og moka yfir. Landinu hafi því þegar verið raskað. Að auki sé um að ræða afturkræfar framkvæmdir.

Niðurstaða: Um kæruaðild í þeim málum sem undir úrskurðarnefndina heyra er fjallað í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Þar er kveðið á um að þeir einir sem eigi lögvarða hagsmuni tengda kæranlegri stjórnvaldsákvörðun geti kært ákvörðunina eða ætlað brot á þátttökurétti almennings til úrskurðarnefndarinnar. Verður að skýra þetta ákvæði í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttarins um aðild að kærumálum þar sem áskilið er að kærandi eigi einstaklingsbundinna hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra og jafnframt að þeir hagsmunir séu verulegir.

Um hagsmuni sína vísa kærendur til þess að til standi að vatnslagnir verði lagðar í jörðu á landi þeirra. Hin umþrætta framkvæmd felur í sér gerð lagnaskurðar samhliða tæplega 350 m löngum kafla Vatnsleysustrandarvegar, en sá vegur fellur í flokk þjóðvega. Mun framkvæmdin að mestu fara fram í u.þ.b. 8 m fjarlægð frá vegkanti. Samkvæmt 8. tölul. 3. gr. vegalaga nr. 80/2007 er vegur skilgreindur sem akbraut og öll önnur mannvirki og vegsvæði sem að staðaldri eru nauðsynleg til þess að vegur sé varanlegur, unnt sé að halda honum við og hafa af honum sem fyllstu not. Af 5. og 6. tölul. sama ákvæðis verður ráðið að veghaldari hefur forræði yfir vegsvæði en veghaldari Vatnsleysustrandarvegar er Vegagerðin, sbr. 13. gr. vegalaga. Liggur ekkert fyrir um það í málinu, þrátt fyrir eignarhald kærenda að jörðinni Heiðarlandi Vogajarða, að þeir hafi þann rétt til umrædds framkvæmdasvæðis að veitt geti þeim kæruaðild í máli þessu, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Verður kærumáli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

32/2021 Arnarnesvegur

Með

Árið 2021, þriðjudaginn 25. maí, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 32/2021, kæra á ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 16. febrúar 2021 um að breyting á útfærslu gatnamóta við Arnarnesveg og Breiðholtsbraut skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 17. mars 2021, er barst nefndinni sama dag, kæra samtökin Vinir Vatnsendahvarfs þá ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 16. febrúar 2021 að breyting á útfærslu gatnamóta við Arnarnesveg og Breiðholtsbraut skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Er þess krafist að nýtt mat á umhverfisáhrifum fari fram vegna 3. kafla Arnarnesvegar.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Skipulagsstofnun 26. apríl 2021.

Málavextir: Með úrskurði um mat á umhverfisáhrifum frá árinu 2003 féllst Skipulagsstofnun á lagningu Arnarnesvegar milli Reykjanesbrautar og Breiðholtsbrautar. Taldi stofnunin að framkvæmdin hefði ekki í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif samkvæmt lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Var ákvörðunin kærð til umhverfisráðherra, sem staðfesti hana með úrskurði uppkveðnum 11. desember 2003. Lagning vegarins hefur farið fram í áföngum en þriðji áfangi, milli Rjúpnavegar í Kópavogi að Breiðholtsbraut í Reykjavík, hefur ekki verið lagður. Með bréfi, dags. 26. október 2020, óskaði Vegagerðin eftir áliti Skipulagsstofnunar um hvort ný útfærsla á vegamótum Arnarnesvegar og Breiðholtsbrautar væri háð mati á umhverfisáhrifum. Fæli útfærslan í sér brú yfir Breiðholtsbraut og ljósastýrð vegamót og kom fram í matsskyldufyrirspurn Vegagerðarinnar að um væri að ræða sameiginlega niðurstöðu Vegagerðarinnar, Reykjavíkurborgar og Kópavogsbæjar. Við meðferð málsins óskaði Skipulagsstofnun eftir umsögnum Reykjavíkurborgar, Kópavogsbæjar, Fiskistofu, Hafrannsóknastofnunar, Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, Heilbrigðiseftirlits Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis, Landverndar, Minjastofnunar Íslands, Samgöngustofu, Umhverfisstofnunar og Vina Vatnsendahvarfs vegna matsskyldufyrirspurnarinnar. Hinn 16. febrúar 2021 komst Skipulagsstofnun að þeirri niðurstöðu að fyrirhuguð breyting væri ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og því skyldi framkvæmdin ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Í ákvörðun sinni vísaði stofnunin m.a. til þess að framkvæmdin fælist í breytingu á útfærslu gatnamóta frá fyrri áformum, sem kæmi ekki til með að auka umferðarónæði eða mengun í íbúðarbyggð eða á útivistarsvæðum og sem jafnframt fæli í sér minna inngrip í ásýnd svæðanna.

Málsrök kæranda: Kærandi telur að þar sem 18 ár séu liðin frá mati á umhverfisáhrifum hafi forsendur breyst verulega frá því Skipulagsstofnun hafi komist að þeirri niðurstöðu að framkvæmd Arnarnesvegar milli Reykjanesbrautar og Breiðholtsbrautar væri ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Landnotkun, löggjöf um umhverfismál og alþjóðlegar skuldbindingar hafi tekið breytingum. Sé þess því krafist að nýtt mat verði gert fyrir þriðja áfanga Arnarnesvegar. Framkvæmdin muni hafa verulega neikvæð áhrif á umhverfi, útivist og hljóðvist. Þá muni framkvæmdin breyta ásýnd svæðisins og notagildi til frambúðar á neikvæðan hátt. Eins og vegurinn sé skipulagður í dag sé hann ekkert annað en stórfelld og óafturkræf skipulagsmistök. Mikil þörf sé á endurgerð matsins, sem sé nær tveggja áratuga gamalt, svo og á algjörri endurskoðun á veglagningunni með heildarmyndina í huga. Mikið hafi breyst varðandi áherslur í umhverfis- og samgöngumálum sem nauðsynlegt sé að líta til.

Málsrök Skipulagsstofnunar: Af hálfu Skipulagsstofnunar er bent á að það falli ekki undir valdsvið úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, eins og lög nr. 130/2011 um hana séu úr garði gerð, að taka afstöðu til kröfu kæranda. Að mati stofnunarinnar verði að leggja þann skilning í kæruna að þess sé krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Kærandi hafi ekki heimild til að krefjast þess að mat á umhverfisáhrifum Arnarnesvegar frá árinu 2003 verði endurskoðað. Samkvæmt 1. mgr. 12. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum sé það viðkomandi leyfisveitandi sem beri að óska ákvörðunar Skipulagsstofnunar um hvort endurskoða þurfi að hluta eða í heild matsskýrslu framkvæmdaraðila áður en leyfi til framkvæmda sé veitt. Stofnunin hafi ekki sjálfstæða heimild til að taka ákvörðun um endurskoðun umhverfismats, sbr. úrskurð úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 77/2017.

Skilyrði fyrir því að framkvæmd skuli undirgangast mat á umhverfisáhrifum sé að framkvæmdin hafi í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif. Skilgreiningu á slíkum áhrifum sé að finna í p-lið 3. gr. laga nr. 106/2000, en þar séu umtalsverð umhverfisáhrif skilgreind þannig að um sé að ræða verulega óafturkræf umhverfisáhrif eða veruleg spjöll á umhverfinu sem ekki sé hægt að fyrirbyggja eða bæta úr með mótvægisaðgerðum. Skipulagsstofnunin fái ekki séð að hin tilkynnta framkvæmd hafi þau áhrif sem lýst sé í framangreindri skilgreiningu.

Athugasemdir Vegagerðarinnar: Af hálfu Vegagerðarinnar er aðallega gerð krafa um að máli þessu verði vísað frá úrskurðarnefndinni, en til vara að öllum kröfum kæranda verði hafnað. Byggist frávísunarkrafan á því að kærandi uppfylli ekki skilyrði kæruaðildar skv. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Samkvæmt ákvæðinu geti umhverfisverndarsamtök með minnst 30 félaga talist eiga lögvarinna hagsmuna að gæta í tilteknum tilvikum sem talin séu upp í stafliðum a-d. Sjálfstætt viðbótarskilyrði sé að umhverfisverndarsamtökin hafi umhverfisvernd að meginmarkmiði, séu opin fyrir almennri aðild, gefi út ársskýrslur um starfsemi sína og hafi endurskoðað bókhald. Annars konar umhverfisverndarsamtök geti ekki átt aðild að kærumáli. Á heimasíðu kæranda komi fram að Vinir Vatnsendahvarfs séu óformleg samtök fólks sem þyki vænt um Vatnsendahvarfið og vilji stuðla að vernd svæðisins. Frekari upplýsingar sé ekki að finna, hvorki um stjórn, félagsaðild, samþykktir, ársskýrslur eða annað sem geti staðfest að skilyrði laganna séu uppfyllt. Samkvæmt fyrirtækjaskrá Skattsins virðist samtökin ekki heldur hafa kennitölu. Því sé óhjákvæmilegt að vísa málinu frá enda sé engin heimild við þessar aðstæður til að taka málið til efnislegrar meðferðar. Breyti engu í því sambandi þótt Skipulagsstofnun hafi óskað eftir umsögn kæranda vegna matsskyldufyrirspurnarinnar, en sú staða veiti ekki sjálfstæða kæruaðild.

Hin kærða ákvörðun sé vel rökstudd og í samræmi við gildandi lög og framlögð gögn. Málsmeðferð hafi verið vönduð og engin ný gögn eða upplýsingar hafi verið lagðar fram af hálfu kæranda sem breytt geti efnislegri niðurstöðu málsins.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi ítrekar málsrök sín um að þörf sé á endurgerð mats á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar. Samtökin Vinir Vatnsendahvarfs telji nær 400 meðlimi á Facebook-síðu hópsins og séu flestir þeirra íbúar sem búi í návígi við fyrirhugaðan veg. Á síðu Skipulagsstofnunar komi fram að nágrannar sem búi í návígi við framkvæmdina eigi rétt á að kæra og gera athugasemdir við ákvarðanir stofnunarinnar.

—–

Aðilar hafa gert ítarlegri grein fyrir máli sínu en þau sjónarmið verða ekki rakin nánar hér í ljósi niðurstöðu máls þessa.

Niðurstaða: Í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála kemur fram að þeir einir geti kært stjórnvaldsákvarðanir til nefndarinnar sem eiga lögvarinna hagsmuni að gæta tengda ákvörðun sem kæra á. Umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtök með minnst 30 félaga geta kært nánar tilgreindar ákvarðanir án þess að sýna fram á lögvarða hagsmuni, enda samrýmist tilgangi samtakanna að gæta þeirra hagsmuna sem kæran lýtur að. Samkvæmt 4. mgr. 4. gr. teljast umhverfisverndarsamtök samtök sem hafa umhverfisvernd að meginmarkmiði. Útivistarsamtök teljast samtök sem hafa útivist og umhverfisvernd að markmiði. Samtök skv. 1. og 2. málsl. skulu vera opin fyrir almennri aðild, gefa út ársskýrslur um starfsemi sína og hafa endurskoðað bókhald. Meðal þeirra ákvarðana sem framangreind samtök geta kært eru ákvarðanir Skipulagsstofnunar um matsskyldu framkvæmda samkvæmt 6. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, sbr. a-lið 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011.

Undir rekstri máls þessa óskaði úrskurðarnefndin eftir upplýsingum um kæranda m.t.t. þeirra skilyrða sem umhverfisverndar- og útivistarsamtök þurfa að uppfylla skv. 3. og 4. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 til að teljast eiga lögvarinna hagsmuna að gæta vegna kærðrar ákvörðunar. Í svari frá kæranda kom fram að um væri að ræða óformleg samtök íbúa Breiðholts og Kópavogs. Yfir 340 meðlimir séu á Facebook-síðu hópsins, en þar sem samtökin séu ekki formlega stofnuð samtök séu ekki til staðar umbeðin gögn sem sýni fram á skilyrði kæruaðildar. Með hliðsjón af því verður ekki talið að kærandi uppfylli þau skilyrði sem sett eru fyrir aðild skv. 3. og 4. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011. Þá skapar það ekki kæruaðild þótt samtökin hafi komið að athugasemdum við meðferð málsins hjá Skipulagsstofnun. Þar sem kærandi telst ekki uppfylla skilyrði til aðildar í málinu verður kæru hans vísað frá úrskurðarnefndinni.

Í ljósi viðbótarathugasemda kæranda telur úrskurðarnefndin rétt að benda á að enginn tiltekinn íbúi hefur í eigin nafni komið að kæru í þessu máli og vísað til grenndarhagsmuna um aðild sína.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

136/2020 Lækjarhjalli

Með

Árið 2021, miðvikudaginn 21. apríl, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 136/2020, kæra á ákvörðun skipulagsstjóra Kópavogs frá 12. nóvember 2020 um að hafna erindi lóðarhafa Lækjarhjalla 34 þar sem óskað var eftir að koma fyrir aukabílastæði á lóð.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 15. desember 2020, er barst nefndinni 16. s.m., kæra eigendur Lækjarhjalla 34, Kópavogi, þá ákvörðun skipulagsstjóra Kópavogs frá 12. nóvember 2020 að hafna erindi lóðarhafa nefndrar lóðar þar sem óskað var eftir að koma fyrir aukabílastæði á lóðinni. Skilja verður kröfu kæranda svo að þess sé krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Kópavogsbæ 26. janúar 2021.

Málavextir: Með tölvupósti, dags. 23. október 2020, sendu kærendur erindi til Kópavogsbæjar þar sem sótt var um að bæta við bílastæði á lóð þeirra að Lækjarhjalla 34, austan við húsið að lóðarmörkum við Lækjarhjalla 32. Erindi kærenda var tekið fyrir á embættisafgreiðslufundi skipulagsstjóra 12. nóvember s.á. þar sem því var hafnað og var sú niðurstaða tilkynnt um­sækjendum með bréfi, dags. 20. s.m. Kærendur óskuðu í kjölfar synjunarinnar eftir rökstuðningi með tölvupósti, dags. 30. s.m. Rökstuðningur var sendur kærendum með tölvupósti 8. desember s.á. Þar kemur fram að samkvæmt skipulagi sé gert ráð fyrir 1,5 bílastæðum á hverja íbúð. Samkvæmt lóðarblaði sé nú þegar gert ráð fyrir þremur bílastæðum á lóðinni sem samræmist skipulagi. Þá hafi skipulagsstjóri talið að umbeðin staðsetning bílastæðis stefndi umferðar­öryggi í hættu þar sem stæðið yrði staðsett í beygju en jafnframt samræmdist beiðnin ekki götumynd þar sem að með breytingunni yrði meirihluti götunnar undirlagður af bílastæðum á kostnað grænna svæða.

Málsrök kærenda: Kærendur benda á að samkvæmt skipulagi sé gert ráð fyrir þremur bílastæðum við tvíbýlishús þeirra sem uppfylli engan veginn þarfir fjölskyldunnar. Í húsinu séu búsettir fimm einstaklingar á bíl og því þurfi tveir þeirra að leggja bílum sínum á götunni. Næsta hús, sem einnig sé tvíbýlishús, hafi yfir að ráða sex bílastæðum. Kærendur telji það ekki góð rök að grænum svæðum í Kópavogi fækki með breytingunni þar sem íbúar húsa geti hvenær sem er ákveðið að helluleggja eða gera pall á þessu litla svæði án leyfis skipulagsstjóra. Breytingin muni ekki skapa hættu fyrir vegfarendur heldur þvert á móti bæta umferðaröryggi og fegra götumyndina.

Málsrök Kópavogsbæjar: Af hálfu sveitarfélagsins er vísað til þess að í gildandi deiliskipulagi fyrir svæðið sé gert ráð fyrir 1,5 bílastæðum á hverja íbúð. Umrætt hús sé tvíbýli. Samkvæmt lóðarblaði fyrir lóðina Lækjarhjalla 34 sé gert ráð fyrir þremur bílastæðum á lóðinni sem samræmist skipulagi. Hafi það verið mat skipulagsstjóra, sem hafi tekið fullnaðarákvörðun í málinu í samræmi við framsalsheimildir bæjarmálasamþykktar, að framlögð beiðni væri ekki í samræmi við skipulagsáætlanir svo og götumynd þar sem við umbeðna breytingu hefði meiri­hluti dvalarsvæðis framlóðar farið undir bílastæði á kostnað dvalarsvæðis. Þá hafi verið talið að umrætt bílastæði væri óheppilega staðsett á lóðinni m.t.t. umferðaröryggis. Hvað varði bílastæði á aðliggjandi lóð þá séu sex bílastæði ekki í samræmi við gildandi lóðarblöð og hafi skipulagsyfirvöld ekki veitt leyfi fyrir umframbílastæðum.

Ákvörðun um bílastæðakröfur fyrir tiltekin skipulagssvæði sé í höndum skipulagsyfirvalda. Í greindu tilviki hafi ósk um viðbótarbílastæði ekki samrýmst skipulagsáætlunum. Ekki sé hægt að gera ráð fyrir að skipulagsyfirvöld samþykki auknar bílastæðakröfur, sem sé varanleg breyting, vegna tímabundinna þarfa íbúa. Í því felist jafnframt fordæmisgildi fyrir skipulags­svæðið í heild.

Þá hefði kærendum átt að vera ljóst hve mörg bílasæði fylgdu eign þeirra við kaup á fast­eigninni. Hafi þá legið fyrir að gert væri ráð fyrir þremur bílastæðum á lóðinni. Einnig ætti að vera nánari útlistun á eignarhaldi bílastæða á lóðinni í eignaskiptayfirlýsingu fyrir húsið. Verði að ætla að eigendur í fjölbýlishúsi þurfi að leysa það sín á milli ef notkun sé ekki í samræmi við eignaskiptayfirlýsingu.

Viðbótarathugasemdir kærenda: Bent er á að skýrt komi fram í eignaskiptayfirlýsingu að tvö stæði tilheyri eign kærenda og enginn ágreiningur sé um það. Það sem komi kærendum á óvart hafi verið synjunin vegna beiðni um viðbótarbílastæði þar sem kærendur sjái einungis kosti við hana. Kærendur séu ósammála mati sveitarfélagsins sem telji umrætt bílastæði óheppilega staðsett á lóð hvað umferðaröryggi varði. Mun meiri hætta stafi af bíl sem reglulega sé lagt úti á götu og byrgi sýn ökumanna sem og gangandi vegfarenda. Þá sé viðbótarbílastæði ekki tímabundin lausn heldur lausn til frambúðar.

Niðurstaða: Fjallað er um heimildir skipulagsstjóra til fullnaðarafgreiðslu mála í B-lið 52. gr. samþykktar um stjórn Kópavogsbæjar og fundarsköp bæjarstjórnar nr. 1128/2016. Í 4. tölul. nefndrar greinar segir að skipulagsstjóri, eða starfsmenn umhverfissviðs í hans umboði, afgreiði án staðfestingar skipulagsráðs frávísun eða synjun erinda og gerð umsagna um erindi sem beint sé til skipulagsráðs eða bæjarráðs og séu ekki í samræmi við skipulagsáætlanir. Af framansögðu má ráða að heimild skipulagsstjóra til að taka fullnaðarákvörðun í máli þessu veltur á því hvort að hið umdeilda erindi hafi verið í ósamræmi við skipulagsáætlanir á svæðinu.

Á svæðinu er í gildi deiliskipulag Suðurhlíða sem samþykkt var í bæjarstjórn Kópavogs 14. júní 1988. Samkvæmt gr. 2.6 í skipulagsskilmálum fyrir svæði D skal gera að minnsta kosti 1,5 bílastæði fyrir hverja íbúð. Í gr. 2.9 segir að mæliblöð sýni reit þann sem byggja megi á, fjölda bílastæða á lóð, gestabílastæði, gangstíga og kvaðir ef einhverjar eru o.fl. Mæliblað fyrir Lækjarhjalla 22, 24, 26, 28, — 40 og 42 var gefið út af tæknideild Kópavogs 20. janúar 1989. Samkvæmt mæliblaðinu eru þrjú bílastæði á lóð Lækjarhjalla 34.

Líkt og áður segir er heimild skipulagsstjóra til að taka fullnaðarákvörðun í máli þessu bundin við að efni erindis hafi ekki verið í samræmi við skipulagsáætlanir á svæðinu. Samkvæmt gr. 2.6. í skipulagsskilmálum svæðisins skal gera að minnsta kosti 1,5 stæði fyrir hverja íbúð á lóð. Ekki verður talið að efni erindis kærenda hafi verið í ósamræmi við skipulagsáætlanir á svæðinu enda kveður skipulagið á um lágmarksfjölda bílastæða.

Mæliblöð og hæðarblöð eru skilgreind í gr. 1.3. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 sem hönnunar­gögn sem unnin eru í kjölfar deiliskipulags og lýsa með nákvæmum hætti stærðum lóða, hæðarkótum lands og bygginga, staðsetningu lagna, kvöðum og öðru sem þurfa þykir. Mæliblað felur þannig í sér nánari útfærslu gildandi deiliskipulags en mæliblaðið hefur ekki hlotið sömu eða sambærilega meðferð og deiliskipulag skv. skipulagslögum nr. 123/2010.

Byggingarfulltrúi samþykkti byggingarleyfi fyrir Lækjarhjalla 34 með áritun uppdrátta og var sú afgreiðsla samþykkt á fundi byggingarnefndar Kópavogs 29. mars 1990. Á þeim uppdráttum hafa verið samþykkt þrjú bílastæði á lóðinni. Ákvörðun um að breyta efni byggingarleyfisins verður aðeins tekin af byggingarfulltrúa, eftir atvikum eftir að leitað hafi verið umsagnar skipulagsfulltrúa skv. 2. mgr. 10. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010. Skortir því á að um sé að ræða lokaákvörðun í máli þessu í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sem borin verður undir úrskurðarnefndina.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður kærumáli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

38/2021 Álagrandi

Með

Árið 2021, miðvikudaginn 21. apríl, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 38/2021, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 8. janúar 2021 um að endurútgefa vegna byggingarstjóraskipta byggingarleyfi um að byggja úr steypu með timburþaki lengju fimm bílskúra á lóð nr. 2-4 við Álagranda og 37B við Grandaveg.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru sem barst úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála 24. mars 2021, kærir eigandi Aflagranda 14, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 8. janúar 2021 að endurútgefa vegna byggingarstjóraskipta byggingarleyfi um að byggja úr steypu með timburþaki lengju fimm bílskúra á lóð nr. 2-4 við Álagranda og 37B við Grandaveg. Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til síðargreindrar kröfu kæranda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 31. mars 2021.

Málavextir: Á embættisafgreiðslufundi byggingarfulltrúans í Reykjavík 18. júní 2008 var samþykkt byggingarleyfi BN38480 til byggingar á fimm steyptum bílskúrum með timburþaki á lóðinni nr. 2-4 við Álagranda og 37B við Grandaveg. Byggingarleyfið var ekki gefið út innan tilskilins tímafrests og féll því úr gildi. Á embættisafgreiðslufundi byggingarfulltrúa 15. júní 2010 var samþykkt umsókn um byggingarleyfi BN41665, þar sem sótt var um endurnýjun á byggingarleyfi BN38480. Leyfið var í framhaldi gefið út og framkvæmdir hafnar. Fram­kvæmdir samkvæmt leyfinu stöðvuðust þegar byggingarstjóri sagði sig frá verkinu 29. nóvember 2011. Þá hafði verið lokið við þrjá af fimm bílskúrum sem leyfið heimilaði. Byggingarfulltrúa barst tilkynning um nýjan byggingarstjóra vegna byggingarleyfisins 13. nóvember 2020 og var leyfið endurútgefið 8. janúar 2021.

Málsrök kæranda: Kærandi byggir á því að illa komi út að hinn umdeildi bílskúr standi einn og sér, en sé ekki tengdur hinum þremur bílskúrunum. Mikil útlitsbreyting verði fyrir hverfið og byrgi skúrinn útsýni kæranda úr fasteign hans, sem missi þar með sjávarsýn. Miðað við hags­muni kæranda hefði átt að fara fram grenndarkynning fyrir endurútgáfu byggingar­leyfisins. Samkvæmt nágrönnum byggingarleyfishafa standi til að leigja bílskúrinn út sem íbúð, sem sé ekki í samræmi við heimild í byggingarleyfi og hefði í för með sér mikið ónæði fyrir nágranna. Kærandi bendir á að kæran berist innan kærufrests. Hann hafi fyrst orðið var við að til stæði að byggja bílskúr í mars og póstur þess efnis hafi verið sendur til byggingarfulltrúa  2. mars 2021.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er gerð sú krafa að kröfum kæranda verði vísað frá úrskurðarnefndinni. Í 14. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998, sem hafi verið í gildi þegar byggingarleyfi BN38480 og BN41665 hafi verið samþykkt, en núgildandi byggingarreglugerð nr. 112/2012 hafi leyst af hólmi, segi að hafi byggingarframkvæmdir stöðvast í eitt ár eða lengur geti byggingarnefnd fellt byggingarleyfi úr gildi. Sambærileg ákvæði séu í núgildandi byggingarreglugerð.

Byggingarframkvæmdir hafi hafist eftir endurnýjun á byggingarleyfi BN41665 og staðið yfir þar til byggingarstjóri hafi sagt sig frá verkinu. Byggingarleyfið sé því í fullu gildi, enda geri tilvitnuð ákvæði ráð fyrir að byggingarfulltrúi þurfi að taka afstöðu til þess hvort fella eigi byggingar­leyfi úr gildi þegar framkvæmdir stöðvist. Engin slík ákvörðun hafi verið tekin og sé leyfið í fullu gildi. Leiði það ekki til niðurfellingar byggingarleyfis að framkvæmdir stöðvist, heldur þurfi að koma til ákvörðunar leyfisveitanda þar um. Byggingarleyfið sé því í fullu gildi og aldrei verið fellt úr gildi.

Í gr. 4.7.8. byggingarreglugerðar sé fjallað um byggingarstjóraskipti. Fram komi í 2. mgr. ákvæðisins að verði skipti á byggingarstjóra, þá skuli verk stöðvað tafarlaust. Sé byggingar­leyfishafa því óheimilt að halda áfram verki fyrr en nýr byggingarstjóri hafi verið settur á verkið. Engin tímamörk séu á því hvenær nýr byggingarstjóri sé settur á verk, en byggingar­fulltrúi skuli án ástæðulauss dráttar láta fara fram úttekt á stöðu verksins, áður en nýr byggingar­stjóri taki við verkinu.

Af framangreindu megi vera ljóst að byggingarreglugerð geri ráð fyrir að byggingarstjóraskipti geti orðið á verki. Skipti á byggingarstjóra sé ekki stjórnvaldsákvörðun í skilningi stjórnsýslulaga, heldur tilkynning til stjórnvalds um atriði er varði kröfur sem gerðar séu til leyfisveitingar, enda skuli byggingarstjóri vera á verki með tilheyrandi starfsábyrgðartryggingu. Hin eiginlega stjórn­­valds­ákvörðun hafi verið við samþykkt byggingaráforma og útgáfu byggingarleyfis. Sé kærufrestur vegna þeirrar ákvörðunar löngu liðinn.

Í 2. mgr. 4. gr., sbr. 1. mgr. 1. gr., laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis og auðlinda­mála segi að kærufrestur til nefndarinnar sé einn mánuður frá því að kæranda var kunnugt um kærða ákvörðun. Leiði það til þess að einungis stjórnvaldsákvarðanir verði kærðar til úrskurðar­nefndarinnar. Í því samhengi vísist til almennrar skilgreiningar stjórnsýsluréttar á stjórnvalds­ákvörðunum, en eitt skilyrða kæru sé að ákvörðun bindi enda á meðferð stjórnsýslumáls. Endir hafi verið bundinn á málið með útgáfu byggingarleyfis BN41665 árið 2011.

Athugasemdir byggingarleyfishafa: Leyfishafi bendir á að upphaflega hafi byggingarleyfi verið samþykkt og gefið út í ágúst árið 2010. Leyfið sé því rúmlega tíu ára gamalt og hafi verið endurnýjað reglulega svo að hægt sé að ljúka við byggingu bílskúranna fimm. Upphaflega leyfið, ásamt teikningum, hafi enn verið í gildi þegar sótt hafi verið um skipti á byggingarstjóra. Umsóknin hafi verið í samræmi við lög og reglur. Af framangreindu leiði að hin kærða ákvörðun sé endurnýjun á leyfi sem hafi verið samþykkt fyrir meira en tíu árum og kærandi hafi vitað eða átt að vita af leyfinu í langan tíma.

Bílskúrseiningarnar séu númeraðar 0101, 0102, 0103, 0104 og 0105. Einingar 0103, 0104 og 0105 hafi nú þegar verið byggðar. Eining 0101 sé hluti af skráðri fasteign leyfishafa eins og samþykktar teikningar beri með sér. Hin fyrirhugaða framkvæmd sé í samræmi við teikningar, lög og reglur.

Samskipti við nágranna að Álagranda 2, 4 og 6 hafi alltaf verið góð. Þau hafi verið látin vita af framkvæmdum og verið haldið upplýstum á mismunandi stigum framkvæmda. Það hafi alltaf verið forgangsmál leyfishafa að mynda og viðhalda jákvæðum samskiptum við nágranna.

Leyfishafi hafi nýtt byggingarleyfisréttindi sem veitt hafi verið af þar til bærum yfirvöldum á einkalóð sinni. Leyfishafi hafi fylgt öllum reglum og fyrirmælum stjórnvalda og muni halda því áfram.

Niðurstaða: Í 14. gr. þágildandi byggingarreglugerðar nr. 441/1998 er fjallað um gildistíma byggingarleyfis. Í gr. 14.1 er kveðið á um að byggingarleyfi falli úr gildi hafi byggingar­framkvæmdir ekki hafist innan 12 mánaða frá útgáfu þess. Í gr. 14.2 segir að sveitarstjórn geti fellt byggingarleyfi úr gildi ef byggingarframkvæmdir stöðvist í eitt ár eða lengur. Þá er tekið fram í gr. 14.3 að hafi byggingarframkvæmdir stöðvast í tvö ár hið skemmsta geti sveitarstjórn, að tillögu byggingarnefndar með sex mánaða fyrirvara, lagt dagsektir á byggingarleyfishafa eða tekið ófullgerðar byggingarframkvæmdir eignarnámi samkvæmt lögum um framkvæmd eignar­náms. Sambærileg ákvæði er nú að finna í gr. 2.4.5. í gildandi byggingarreglugerð nr. 112/2012.

Af framangreindum ákvæðum má sjá að byggingarleyfi fellur sjálfkrafa úr gildi ef fram­kvæmdir hefjast ekki innan 12 mánaða frá útgáfu þess skv. gr. 14.1. Óumdeilt er að fram­kvæmdir hófust á sínum tíma í kjölfar endurnýjunar byggingarleyfis, enda er búið að byggja þrjá bílskúra af þeim fimm sem leyfið heimilar. Þegar framkvæmdir eru hafnar og stöðvast síðar fellur byggingarleyfi ekki sjálfkrafa úr gildi, heldur þarf sveitarstjórn að fella leyfið úr gildi skv. áðurgreindri gr. 14.2 þágildandi byggingarreglugerðar eða taka framkvæmdirnar eignarnámi skv. gr. 14.3. Hvorugt hefur verið gert í máli þessu. Byggingarleyfi BN41665 er því í gildi og hefur verið frá samþykkt þess 15. júní 2010, en sú ákvörðun var ekki kærð á þeim tíma.

Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina. Hið kærða byggingarleyfi var gefið út 8. janúar 2021, en samþykkt 15. júní 2010. Útgáfa byggingarleyfis veitir leyfishafa heimild til að hefja framkvæmdir í samræmi við þegar samþykkta byggingarleyfisumsókn þegar viðbótarskilyrði 13. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 eru uppfyllt, s.s. um frekari hönnunargögn og greiðslu gjalda. Útgáfa byggingarleyfis ein og sér felur hins vegar ekki í sér kæranlega stjórn­valdsákvörðun, enda hefur efnisinnihald leyfanna þá þegar verið samþykkt af byggingarfulltrúa í samræmi við 11. gr. laganna og fer útgáfa leyfis fram í skjóli þeirrar samþykktar sem er kæranleg. Verður því að miða við að kærufrestur vegna byggingarleyfisins hafi byrjað að líða þegar kæranda mátti vera kunnugt um samþykkt leyfi, í síðasta lagi þegar framkvæmdir hófust við gerð fyrstu þriggja bílskúranna samkvæmt því.  Byggingarár nefndra skúra er skráð 2010 í fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands og því ljóst að fjölmörg ár eru síðan kæranda mátti vera kunnugt um samþykkt leyfisins.

Berist kæra að liðnum kærufresti skal vísa henni frá samkvæmt 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, nema afsakanlegt verði talið að kæra hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæra verði tekin til meðferðar. Tiltekið er í athugasemdum með 28. gr. í frumvarpi því sem varð að stjórnsýslulögum að við mat á því hvort skilyrði séu til að taka mál til meðferðar að loknum kærufresti þurfi að líta til þess hvort aðilar að málinu séu fleiri en einn og með andstæða hagsmuni. Sé svo sé rétt að taka mál einungis til kærumeðferðar að liðnum kærufresti í algjörum undantekningartilvikum. Skal og á það bent að í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 130/2011 er tekið fram í athugasemdum með 2. mgr. 4. gr. að kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar sé styttri en almennur kærufrestur stjórnsýslulaga. Segir nánar að brýnt sé að ágreiningur um form eða efni ákvörðunar verði staðreyndur sem fyrst og áréttað í því samhengi að eftir því sem framkvæmdir séu komnar lengra áður en ágreiningur um þær verði ljós skapist meiri hætta á óafturkræfu tjóni af bæði umhverfislegum og fjárhagslegum toga. Sjónarmið um réttaröryggi og tillit til hagsmuna leyfishafa liggja því þarna að baki og hefur byggingarleyfishafi eðli máls samkvæmt ríkra hagsmuna að gæta í málinu.

Með hliðsjón af þeim sjónarmiðum sem að framan hafa verið rakin, verður samþykkt hins umdeilda byggingarleyfis frá 15. júní 2010 ekki tekin til efnismeðferðar að liðnum kærufresti á grundvelli undantekningarákvæða 28. gr. stjórnsýslulaga. Þá felur útgáfa byggingarleyfis ein og sér ekki í sér kæranlega ákvörðun, eins og áður segir. Er því við að bæta að fjallað er um byggingarstjóraskipti í gr. 4.7.8. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Í 2. mgr. þeirrar greinar kemur fram að framkvæmdir skuli stöðvaðar þar til nýr byggingarstjóri hafi undirritað ábyrgðaryfirlýsingu, leyfisveitandi hafi staðfest að hann uppfylli skilyrði laga um mannvirki og úttekt á stöðu framkvæmda hafi farið fram. Verður ekki heldur talið að byggingarstjóraskipti sé kæranleg stjórnvaldsákvörðun, enda bindur slík ákvörðun ekki enda á stjórnsýslumál í skilningi 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Með vísan til alls framangreinds verður kærumáli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

28/2021 Dunhagi

Með

Árið 2021, þriðjudaginn 30. mars fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor.

Fyrir var tekið mál nr. 28/2021, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 8. mars 2021 um að gefa út byggingarleyfi fyrir framkvæmdum á lóðinni Dunhaga 18-20.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru sem barst úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála 9. mars 2021 kærir eigandi, Tómasarhaga 32, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 8. mars 2021 að gefa út byggingarleyfi fyrir framkvæmdum á lóðinni Dunhaga 18-20. Skilja verður málatilbúnað kæranda svo að gerð sé krafa um að ákvörðunin verði felld úr gildi. Jafnframt er gerð krafa um að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til þeirrar kröfu kæranda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 10. mars 2021.

Málsatvik og rök: Á fundi borgarráðs Reykjavíkur 15. október 2020 var staðfest samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 7. s.m. um nýtt deiliskipulag fyrir reit sem afmarkast af Dunhaga 18-20, Hjarðarhaga 27-33 og Tómasarhaga 32-46. Auglýsing um deiliskipulagið birtist í B-deild Stjórnartíðinda 17. desember s.á. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 12. janúar 2021 var tekin fyrir og samþykkt umsókn um byggingaráform á lóðinni Dunhaga 18-20.

Með bréfi, dags. 17. janúar 2021, kærðu eigendur Tómasarhaga 32, þ. á m. kærandi þessa máls, framangreinda ákvörðun borgarráðs um samþykki deiliskipulags til úrskurðarnefndarinnar og gerðu kröfu um að framkvæmdir sem væru hafnar á grundvelli byggingarleyfis sem samþykkt hefði verið 12. janúar s.á. yrðu stöðvaðar eða réttaráhrifum deiliskipulagsins frestað. Er það mál nr. 8/2021.

Kærandi vísar til málatilbúnaðar síns í kærumáli nr. 8/2021 og tekur fram að hann telji deiliskipulag svæðisins ógilt. Geti þær röksemdir og sjónarmið sem færð séu fram í greindu máli ekki leitt til annars en að kröfugerð kæranda verði tekin til greina.

Af hálfu borgaryfirvalda er bent á að samþykkt byggingarleyfi sé í samræmi við gildandi deiliskipulag Dunhaga-Hjarðarhaga-Tómasarhaga, sem samþykkt hafi verið í borgarráði 15. október 2020.

Af hálfu leyfishafa kemur fram að allar þær framkvæmdir sem framkvæmdaraðili hafi ráðist í að Dunhaga 18-20 falli undir minniháttar framkvæmdir sem undanþegnar séu byggingarleyfi, sbr. gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Um sé að ræða niðurrif léttra inniveggja, auk þess sem verið sé að fjarlægja húsgögn, húsbúnað og gólfefni, málsetningar teknar að núverandi glugga- og hurðargötum o.s.frv.

Niðurstaða: Með bráðabirgðaúrskurði uppkveðnum 27. janúar 2021 í máli nr. 8/2021 synjaði úrskurðarnefndin kröfu um frestun réttaráhrifa deiliskipulags fyrir reit sem afmarkast af Dunhaga 18-20, Hjarðarhaga 27-33 og Tómasarhaga 32-46. Kom fram í úrskurðinum að rétt væri þó að benda á að byggingaráform hefðu verið samþykkt á grundvelli hins kærða deiliskipulags. Kæra málsins tók þó ekki til nefndra byggingaráforma en í úrskurðinum kom jafnframt fram að kysu kærendur að koma að kæru vegna þeirra gætu þeir gert kröfu að nýju um stöðvun framkvæmda. Kærufrestur vegna byggingaráforma, líkt og annarra ákvarðana, væri einn mánuður frá því að kærendum varð kunnugt eða mátti verða kunnugt um þau, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Svo sem fram kemur í málavaxtalýsingu var kæranda ljóst, þegar hann kom að kæru vegna deiliskipulags 17. janúar 2021, hvert væri efni þeirra umsókna sem samþykktar voru af byggingarfulltrúa 12. s.m. Samþykkt byggingarleyfisumsóknar er stjórnvaldsákvörðun sem kærð verður til úrskurðarnefndarinnar skv. 59. gr., sbr. og 11. gr., mannvirkjalaga nr. 160/2010, svo sem einnig kemur fram í bráðabirgðaúrskurði nefndarinnar uppkveðnum 27. janúar 2021 í kærumáli nr. 8/2021, sem kærandi er aðili að. Gat kærandi í kjölfar þess aflað sér samþykktra aðaluppdrátta til að kynna sér nánar efni hinna kærðu ákvarðana.

Kæra málsins tiltekur að kært sé byggingarleyfi útgefið 8. mars 2021. Útgáfa byggingarleyfis veitir leyfishafa heimild til að hefja framkvæmdir í samræmi við þegar samþykkta umsókn þegar viðbótarskilyrði 13. gr. mannvirkjalaga eru uppfyllt, s.s. um frekari hönnunargögn og greiðslu gjalda. Útgáfa byggingarleyfanna ein og sér felur hins vegar ekki í sér kæranlega stjórnvaldsákvörðun, enda hefur efnisinnihald leyfanna þá þegar verið samþykkt af byggingarfulltrúa í samræmi við 11. gr. laganna. Í greindum bráðabirgðaúrskurði var leiðbeint um kæruheimild og kærufrest vegna samþykktar nefndra byggingaráforma. Var úrskurðurinn sendur samdægurs umboðsmanni kærenda, sem jafnframt var einn þeirra, og úrskurðurinn birtur á heimasíðu nefndarinnar 28. janúar 2021. Verður með hliðsjón af öllu framangreindu að leggja til grundvallar að kæranda hafi í síðasta lagi 27. janúar 2021 mátt vera kunnugt um, í skilningi nefndrar 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011, að unnt væri að kæra samþykki byggingarleyfisumsóknar til úrskurðarnefndarinnar. Þegar kæra þessa máls barst 9. mars s.á., tæplega 6 vikum eftir að framangreindur bráðabirgðaúrskurður var kveðinn upp, var kærufrestur því liðinn fyrir um einni og hálfri viku.

Berist kæra að liðnum kærufresti skal vísa henni frá samkvæmt 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, nema afsakanlegt verði talið að kæra hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæra verði tekin til meðferðar. Tiltekið er í athugasemdum með 28. gr. í frumvarpi því sem varð að stjórnsýslulögum að við mat á því hvort skilyrði séu til að taka mál til meðferðar að loknum kærufresti þurfi að líta til þess hvort aðilar að málinu séu fleiri en einn og með andstæða hagsmuni. Sé svo sé rétt að taka mál einungis til kærumeðferðar að liðnum kærufresti í algjörum undantekningartilvikum. Skal og á það bent að í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 130/2011 er tekið fram í athugasemdum með 2. mgr. 4. gr. að kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar sé styttri en almennur kærufrestur stjórnsýslulaga. Segir nánar að brýnt sé að ágreiningur um form eða efni ákvörðunar verði staðreyndur sem fyrst og áréttað í því samhengi að eftir því sem framkvæmdir séu komnar lengra áður en ágreiningur um þær verði ljós skapist meiri hætta á óafturkræfu tjóni af bæði umhverfislegum og fjárhagslegum toga. Sjónarmið um réttaröryggi og tillit til hagsmuna leyfishafa liggja því þarna að baki og hefur byggingarleyfishafi eðli máls samkvæmt ríkra hagsmuna að gæta í málinu.

Með hliðsjón af þeirri vitneskju kæranda sem áður hefur verið vísað til, sem og þeim sjónarmiðum sem að framan hafa verið rakin, verður hið kærða byggingarleyfi ekki tekið til efnismeðferðar að liðnum kærufresti á grundvelli undantekningaákvæða 28. gr. stjórnsýslulaga, heldur verður kærumáli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni í samræmi við fyrirmæli ákvæðisins þar um.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá nefndinni.

10/2021 Hringtún

Með

Árið 2021, þriðjudaginn 30. mars, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 10/2021, kæra vegna ákvarðana byggingarfulltrúa Dalvíkurbyggðar frá 16. nóvember 2020 um að samþykkja graftrarleyfi fyrir lóðirnar Hringtún 17 og 19 í Dalvíkurbyggð.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 12. janúar 2021, er barst nefndinni sama dag, kæra A og B, þær ákvarðanir byggingarfulltrúa Dalvíkurbyggðar frá 16. nóvember 2020 að samþykkja graftrarleyfi fyrir lóðirnar Hringtún 17 og 19 í Dalvíkurbyggð. Skilja verður málatilbúnað kærenda svo að krafist sé ógildingar hinna kærðu ákvarðana.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Dalvíkurbyggð 15. febrúar 2021.

Málsatvik og rök: Hinn 16. nóvember 2020 gaf byggingarfulltrúi Dalvíkurbyggðar út graftrarleyfi til handa lóðarhafa Hringtúns 17 og 19, á grundvelli gr. 2.4.4. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Kærendur urðu varir við framkvæmdir á nefndum lóðum í Dalvíkurbyggð 20. s.m. Höfðu þeir í kjölfarið samband við byggingarfulltrúa og spurðust fyrir um hvort búið væri að gefa út byggingarleyfi fyrir framkvæmdum, auk þess að óska eftir útgefnu leyfi. Því var synjað.

Kærendur taka fram að þeir telji að byggingarleyfi hafi ekki verið og sé hvorki tilbúið né löglegt. Sá sem sæki um byggingarleyfi þurfi að uppfylla skilyrði 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki og gr. 2.4.4. í byggingarreglugerð nr. 112/2012, en það geri lóðarhafi umræddra lóða ekki. Þó sé erfitt að segja til um hvað vanti þar sem kærendur fái ekki að sjá leyfið og viti í raun ekki hvort búið sé að gefa út byggingarleyfi eða hvenær það hafi verið gert því það komi ekki fram í fundargerðum hjá umhverfisráði eða sveitarstjórn.

Bæjaryfirvöld vísa til þess að engin byggingarleyfi hafi verið gefin út vegna fyrirhugaðra framkvæmda á umræddum lóðum. Hins vegar hafi verið gefið út leyfi til könnunar á jarðvegi, svokallað graftrarleyfi. Það hafi verið gefið út 16. nóvember 2020 en þar komi skýrt fram að eingöngu sé um að ræða graftrarleyfi og að frekari framkvæmdir séu háðar útgáfu byggingarleyfis að uppfylltum þeim skilyrðum sem tilgreind séu í gr. 2.4.4. í byggingarreglugerð. Framkvæmdaraðili hafi einungis lagt fram tillöguteikningar, skráningartöflu og staðfestingu byggingarstjóra áður en það leyfi hafi verið gefið út.

—-

Leyfishafa var gefinn kostur á að koma á framfæri sjónarmiðum í máli þessu en hefur ekki nýtt sér það tækifæri.

Niðurstaða: Byggingarleyfi er veitt í samræmi við ákvæði laga nr. 160/2010 um mannvirki, en samkvæmt upplýsingum frá sveitarfélaginu hafa hvorki verið samþykkt byggingaráform samkvæmt 11. gr. laganna né verið gefið út byggingarleyfi samkvæmt 13. gr. þeirra. Lúta hinar kærðu ákvarðanir byggingarfulltrúa frá 16. nóvember 2020 að heimild til að kanna jarðveg á framkvæmdasvæði án þess að byggingarleyfi hafi verið gefið út, sbr. 4. mgr. 13. gr. mannvirkjalaga, áður 2. mgr. sömu lagagreinar. Í nefndri 2. mgr. 13. gr. laganna var áður einnig að finna heimild leyfisveitanda til þess að veita skriflegt leyfi til einstakra þátta byggingarframkvæmda og takmarkaðist leyfið þá hverju sinni við samþykkt hönnunargögn.

Sambærilegar heimildir til að annars vegar veita leyfi til einstakra þátta byggingarframkvæmda og hins vegar að heimila könnun jarðvegs á lóð án þess að byggingarleyfi hefði verið gefið út var áður að finna í 2. mgr. 44. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. Í nefndaráliti með breytingartillögu á frumvarpi því er varð að nefndum lögum kemur fram að lagt sé til að við 2. mgr. 44. gr. bætist við ákvæði þess efnis að veita megi leyfi til einstakra þátta byggingarframkvæmda ef sérstaklega standi á og gert sé ráð fyrir að leyfið takmarkist hverju sinni við samþykkt hönnunargögn. Einnig geti byggingarfulltrúi veitt lóðarhafa heimild til að kanna jarðveg á byggingarlóð sinni áður en byggingarleyfi hafi verið gefið út. Fyrir nefnda breytingartillögu sagði í frumvarpinu í athugasemdum við þá grein sem að efni til varð 2. mgr. 44. gr. að um nýmæli sé að ræða. Byggingarleyfi, sem veitt sé út á aðaluppdrætti, veiti ekki heimild til framkvæmda, heldur þurfi einnig að koma til sérstakt framkvæmdaleyfi en það tryggi að fullnægjandi burðarþols-, kerfis- og deiliuppdrættir hafi verið gerðir og að byggingarstjóri og iðnmeistari hafi verið ráðnir til verksins og þeir undirritað yfirlýsingu um ábyrgð sína á leyfðum framkvæmdum. Þá er tekið fram að í undantekningartilvikum sé þó heimilt að veita framkvæmdaleyfi til einstakra þátta byggingarframkvæmda, t.d. að grafa grunn, þótt mannvirki hafi ekki verið hannað í smáatriðum, enda kunni það að vera nauðsynlegt til að afla upplýsinga vegna hönnunar mannvirkisins. Er því ljóst að ætlun löggjafans var að t.d. til graftar grunns þyrfti takmarkað byggingarleyfi en heimild til að kanna jarðveg er viðurhlutaminni eins og orðalag ákvæðisins gefur jafnframt til kynna.

Með breytingalögum nr. 64/2018 var numin úr mannvirkjalögum heimild leyfisveitanda til að veita leyfi til einstakra þátta byggingarframkvæmda, en á sama tíma var fallið frá þeirri kröfu að allir séruppdrættir þyrftu að liggja fyrir áður en byggingarleyfi er gefið út. Áfram er þó skilyrði að ljúka þurfi allri hönnun áður en framkvæmt verður og má því ekki hefja framkvæmdir við verkþátt fyrr en séruppdrættir sem að honum snúa hafa verið lagðir fram og þeir áritaðir af leyfisveitanda. Óröskuð er hins vegar heimild byggingarfulltrúa að veita umsækjanda um byggingarleyfi heimild til að kanna jarðveg á framkvæmdasvæði áður en byggingarleyfi er gefið út.

Í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kveðið á um að þeir einir geti kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eigi lögvarða hagsmuni tengda ákvörðun þeirri sem kæra á. Hinar kærðu ákvarðanir byggingarfulltrúa frá 16. nóvember 2020 fela einungis í sér heimild til að kanna jarðveg á framkvæmdasvæði, sbr. títtnefnda 4. mgr. 13. gr. mannvirkjalaga. Slíkt leyfi heimilar lóðarhafa ekki að hefja neinar framkvæmdir, s.s. að grafa grunn fyrir mannvirki, heldur eingöngu könnun á jarðvegi, s.s. til að ganga úr skugga um undirstöður fyrirhugaðs mannvirkis. Slíkar framkvæmdir eru lítilvægar eins og áður er komið fram og almennt ekki til þess fallnar að hafa áhrif á einstaklega lögvarða hagsmuni eigenda nágrannaeigna. Verða kærendur af framangreindum ástæðum ekki taldir eiga kæruaðild vegna hinna umdeildu ákvarðana í skilningi 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 og verður kærumáli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni. Hins vegar er áréttað að samþykki byggingarfulltrúi byggingaráform skv. 11. gr. laga nr. 160/2010 sætir sú ákvörðun eftir atvikum kæru til úrskurðarnefndinnar.

Rétt er að benda á að telji kærendur leyfishafa hafi farið út fyrir útgefin leyfi til könnunar jarðvegs, geta þeir beint erindi til byggingarfulltrúa sveitarfélagsins þess efnis, en í samræmi við 1. mgr. 8. gr. laga um mannvirki hefur byggingarfulltrúi eftirlit með mannvirkjagerð sem fellur undir 1. og 2. mgr. 9. gr. laganna.

Úrskurðarorð

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

128/2020 Þórsstígur

Með

Árið 2021, þriðjudaginn 30. mars, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 128/2020, kæra á afgreiðslu sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 20. maí 2020 á beiðni um leiðréttingu á deiliskipulagi fyrir frístundahúsasvæði í landi Ásgarðs í Grímsnesi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi, dags. 4. desember 2020, er barst úrskurðarnefndinni 8. s.m., framsendi samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála kæru eiganda lóðarinnar Þórsstígs 3 í landi Ásgarðs í Grímsnes- og Grafningshreppi, dags. í ágúst 2020 og móttekinni af ráðuneytisins hálfu 7. september s.á., vegna afgreiðslu sveitarfélagsins á kröfu kæranda um leiðréttingu á deiliskipulagi fyrir frístundahúsasvæði í landi Ásgarðs. Gerir kærandi þá kröfu að deiliskipulag umrædds svæðis verði úrskurðað ólögmætt og því verði breytt á þann veg að ágallar þeir er snúi að kæranda verði leiðréttir.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Grímsnes- og Grafningshreppi 8. janúar 2021.

Málavextir: Kærandi mun á árinu 2000 ásamt öðrum aðila hafa keypt lóðina Þórsstíg 3 í landi Ásgarðs í Grímsnes- og Grafningshreppi. Í þinglýstu afsali, dags. 16. apríl 2001, er stærð lóðarinnar tilgreind sem 10.000 m2. Á svæðinu var þá í gildi deiliskipulag frá árinu 1997 fyrir frístundahúsabyggð en í því skipulagi var umrædd lóð tilgreind 8.000 m2 að stærð. Nýtt deiliskipulag fyrir frístundahúsabyggðina tók gildi árið 2005 en afmörkun umræddrar lóðar var ekki í samræmi við afsal vegna hennar. Frá árinu 2012 hefur kærandi ítrekað haft samband við sveitarfélagið til þess að fá deiliskipulagi svæðisins breytt. Með bréfi, dags. 14. apríl 2018, skoraði kærandi á sveitarfélagið að „leiðrétta þessa skipulagsvillu“. Hinn 9. maí 2020 sendi kærandi sveitarstjóra tölvupóst þar sem farið var fram á að „mistökin verði leiðrétt“ ásamt bréfi hans frá 14. apríl 2018 í viðhengi. Á fundi sveitarstjórnar 20. maí 2020 var lagt fram svarbréf lögmanns sveitarfélagsins og það samþykkt samhljóða. Sendi lögmaður sveitarfélagsins svarbréfið til kæranda 22. s.m.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að í greinargerð deiliskipulags fyrir frístundahúsasvæði í landi Ásgarðs komi fram að í þeim tilvikum þar sem um sé að ræða lóðir í einkaeigu innan skipulagssvæðisins skuli afla skriflegs samþykkis viðkomandi aðila áður en skipulagið hljóti staðfestingu. Ekki hafi verið haft samband við eigendur lóða Þórsstígs 1, 3 og 5 við gerð skipulagsins og því hafi verið gengið á réttindi þeirra. Skorað sé á sveitarfélagið að leiðrétta  skipulagið að þessu leyti.

Málsrök Grímsnes- og Grafningshrepps: Af hálfu sveitarfélagsins er bent á að efni kærunnar sé mjög óljóst. Svo virðist sem kærandi sé að kæra bréf lögmanns sveitarfélagsins frá 22. maí 2020 en þar hafi tölvupósti kæranda frá 9. s.m. verið svarað. Í bréfinu hafi eingöngu verið veittar upplýsingar um skipulag svæðisins en í því hafi ekki falist nein kæranleg ákvörðun. Kæranda hafi verið bent sérstaklega á að hann gæti haft samband við sveitarfélagið ef hann óskaði frekari aðstoðar eða upplýsinga en engin frekari erindi hafi borist frá kæranda. Samkvæmt framangreindu hafi engin kæranleg ákvörðun verið tekin, sbr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, og verði því að vísa kærunni frá nefndinni. Sé því óþarft að fara yfir það að frestir til að leggja fram kæru séu líka löngu liðnir, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Í greindu bréfi hafi verið farið yfir deiliskipulag jarðarinnar Ásgarðs. Skipulag svæðisins hafi verið unnið af eiganda jarðarinnar samkvæmt heimild í þágildandi skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997. Kæranda hafi verið bent á að sveitarfélagið teldi að seljandi lóðanna bæri sjálfur ábyrgð á því að ekki væri samræmi milli tilgreindrar stærðar í nokkrum afsalsgerningum, þ.m.t. hjá kæranda, og gildandi deiliskipulags. Einnig hafi verið tiltekið að þótt sveitarstjórn hefði samþykkt deiliskipulagstillögu landeigandans á sínum tíma gæti það ekki breytt eignarheimild einstakra lóðareigenda á svæðinu. Úrskurðarnefndin geti ekki tekið ágreining um nefnt ósamræmi til meðferðar. Ágreiningur um eignarréttindi og túlkun samninga heyri ekki undir nefndina heldur eftir atvikum undir dómstóla, eins og nefndin hafi kveðið á um í fyrri úrskurðum sínum.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi ítrekar að skipulagsyfirvöld hafi ekki farið eftir skilmálum gildandi deiliskipulags. Strax og kæranda hafi verið þetta ljóst fyrir um 10 árum hafi hann haft samband við sveitarfélagið og óskað eftir leiðréttingu. Allar beiðnir og ábendingar hafi verið hunsaðar. Sú krafa sé gerð að deiliskipulagið verði dæmt ólöglegt og að eldra skipulag verði áfram í gildi. Til vara sé sú krafa gerð að sveitarfélagið breyti deiliskipulaginu á sinn kostnað þannig að þeir ágallar sem snúi að kæranda verði leiðréttir.

Niðurstaða: Í kærumáli þessu er annars vegar gerð krafa um að deiliskipulag umrædds svæðis verði úrskurðað ólögmætt og hins vegar að því verði breytt á þann veg að ágallar þeir er snúi að kæranda verði leiðréttir.

Deiliskipulag frístundahúsasvæðis í landi Ásgarðs í Grímsnesi var samþykkt í sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps 6. júlí 2005 og birt í B-deild Stjórnartíðinda 19. desember 2006. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 er kærufrestur einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðun sem kæra lýtur að. Sé um að ræða ákvarðanir sem sæta opinberri birtingu telst kærufrestur frá birtingu ákvörðunar. Kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni með framsendingu frá sveitarstjórnar- og samgöngu­ráðuneytinu, en ráðuneytið móttók kæruna 7. september 2020. Var kærufrestur vegna deiliskipulagsins því löngu liðinn þegar kæran barst. Ber af þeim sökum að vísa þeim hluta kærunnar er lýtur að lögmæti deiliskipulagsins frá úrskurðarnefndinni í samræmi við 2. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en þar er kveðið á um að kæru skuli ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá tilkynningu ákvörðunar þegar kæra berst.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er það hlutverk nefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreinings-málum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Í samræmi við þetta tekur úrskurðarnefndin lögmæti kærðrar ákvörðunar til endurskoðunar en tekur ekki nýja ákvörðun í málinu eða leggur fyrir stjórnvöld að taka tiltekna ákvörðun. Verður því ekki tekin ákvörðun í máli þessu um tilteknar breytingar á skipulagi umrædds svæðis.

Upphaf máls þessa má rekja til erinda kæranda til sveitarfélagsins um að umrætt deiliskipulag verði leiðrétt. Telja verður að beiðni um leiðréttingu deiliskipulags feli í sér beiðni um breytingu þess enda verður deiliskipulag ekki leiðrétt nema með skipulagsbreytingu. Verður því litið svo á að erindi kæranda frá 14. apríl 2018, sem hann ítrekaði með tölvupósti 9. maí 2020, hafi falið í sér beiðni um breytingu deiliskipulags. Á fundi sveitarstjórnar 20. s.m. var sú beiðni afgreidd með því að samþykkja fyrirliggjandi svarbréf lögmanns sveitarfélagsins, en nefnt svarbréf var síðar sent kæranda 22. s.m. Var kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar því einnig liðinn vegna afgreiðslu á greindu erindi kæranda þegar kæra barst samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu 7. september 2020.

Í 28. gr. stjórnsýslulaga er fjallað um áhrif þess ef kæra berst að liðnum kærufresti. Ber þá samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins að vísa kæru frá nema að afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til efnis­meðferðar. Í 2. tl. 2. mgr. 20. gr. sömu laga kemur fram að þegar ákvörðun er tilkynnt skriflega skuli m.a. veita leiðbeiningar um kæruheimild, kærufresti og kæruleið. Í tilkynningu til kæranda, dags. 22. maí 2020, um afgreiðslu erindis hans var hvorki upplýst um kæruheimild né kærufrest. Verður að telja afsakanlegt að kæra í máli þessu hafi borist nefndinni að kærufresti liðnum, sbr. 1. tl. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, og verður kærumáli þessu því ekki vísað frá á þeim grundvelli.

Í fyrrnefndu svarbréfi lögmanns sveitarfélagsins til kæranda er forsaga skipulags svæðisins rakin og vísað til þess að við gerð nýs deiliskipulags árið 2005 virðist sem þáverandi jarðareigandi hafi ekki unnið með réttar upplýsingar hvað hafi varðað afmörkun seldra lóða miðað við það sem hann hefði áður tilgreint í afsalsgerningum. Kemur þar og fram sú afstaða sveitarstjórnar að jarðareigandi beri sjálfur ábyrgð á því. Loks vísar sveitarstjórnin til þess að um sé að ræða mál sem varði samskipti kæranda og seljandans og að ekki sé á færi sveitarstjórnar að breyta eignarheimild einstaks lóðareiganda á svæðinu.

Sem fyrr greinir verður að túlka erindi kæranda frá 9. maí 2020 sem svo að í því felist beiðni um breytingu deiliskipulags en í deiliskipulagi eru m.a. teknar ákvarðanir um lóðir, lóðanotkun, byggingarreiti og byggðamynstur, þ.m.t. nýtingarhlutfall, auk annarra skipulags­forsendna, sbr. 1. mgr. 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Var af hálfu sveitarstjórnar ekki tekin afstaða til erindis kæranda um leiðréttingu eða breytingu deiliskipulagsins með form­legum hætti enda hefur af þess hálfu því verið haldið fram fyrir úrskurðarnefndinni að slík ákvörðun liggi ekki fyrir í málinu. Er því ekki fyrir að fara lokaákvörðun í skilningi 26. gr. stjórnsýslulaga sem borin verður undir úrskurðarnefndina.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður kærumáli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Í ljósi þess að umrætt erindi kæranda hefur ekki fengið lögboðna lokaafgreiðslu hjá sveitarfélaginu þykir rétt að vekja athygli á að dragist afgreiðsla sveitarfélagsins á erindi kæranda óhæfilega er slíkur dráttur kæranlegur til úrskurðarnefndarinnar, sbr. 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

104/2020 Þúfukot

Með

Árið 2021, fimmtudaginn 18. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 104/2020, kæra á ákvörðun hreppsnefndar Kjósarhrepps um að samþykkja að breyta notkun lóðarinnar Þúfukots 4, Nýjakots, úr sumarbústaðalóð í lóð undir íbúðarhús.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 21. október 2020, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi lögbýlisins Þúfukots í Kjósarhreppi þá ákvörðun hrepps­nefndar Kjósarhrepps að samþykkja að breyta notkun lóðarinnar Þúfukots 4, Nýjakots, úr sumarbústaðalóð í lóð undir íbúðarhús. Skilja verður málskot kæranda svo að krafist sé ógildingar á ákvörðun sveitarfélagsins um breytta notkun lóðarinnar Þúfukots 4, Nýjakots, úr sumarbústaðalóð í lóð undir íbúðarhús og breytta notkun húss þess er stendur á umræddri lóð.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Kjósarhreppi 18. janúar 2021.

Málavextir: Hinn 29. ágúst 2019 tók skipulags- og byggingarnefnd Kjósarhrepps fyrir á fundi sínum beiðni þess efnis að notkun lóðarinnar Þúfukots 4, Nýjakots, úr landi Þúfukots yrði breytt úr frístundalóð í lóð undir íbúðarhús. Nefndin tók jákvætt í erindið og vísaði því til sveitar­stjórnar. Hreppsnefnd Kjósarhrepps staðfesti afgreiðslu nefndarinnar á fundi 8. október 2019 með þeim áskilnaði og fyrirvara að afhentur yrði hnitsettur uppdráttur af spildunni ásamt staðfestingu byggingarfulltrúa á að hús það sem á lóðinni stæði uppfyllti skilyrði laga og reglugerða til að verða samþykkt sem íbúðarhúsnæði. Kærandi kærði þá ákvörðun til úrskurðar­nefndarinnar, sem vísaði málinu frá með úrskurði uppkveðnum 27. mars 2020 í kærumáli nr. 115/2019. Var í úrskurðinum bent á að skv. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki væri óheimilt að breyta notkun mannvirkis nema að fengnu leyfi viðkomandi byggingarfulltrúa, sbr. 2. mgr. ákvæðisins. Því lægi ekki fyrir ákvörðun í málinu sem byndi enda á mál í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga.

Skipulags- og byggingarfulltrúi Kjósarhrepps mun hafa móttekið 23. júní 2020 hnitsettan uppdrátt lóðarinnar Þúfukot 4, Nýjakots. Hinn 18. ágúst s.á. stimplaði skipulags- og byggingarfulltrúi uppdrátt fyrir mannvirki á lóðinni með undirrituðun hönnuðar þar sem vísað var til gr. 10.1.2. og 12.1.2. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Sama dag skrifaði skipulags- og byggingarfulltrúi undir skjal með fyrirsögninni „Staðfesting íbúðarhúsnæðis“, þar sem m.a. kom fram að mannvirkið á umræddri lóð uppfyllti skilyrði til að vera „samþykkt sem íbúðarhúsnæði í öllum megin atriðum.“ Vakti skipulags- og byggingarfulltrúi jafnframt athygli á að einangrunargildi hússins væri samkvæmt eldri reglugerð og uppfyllti því ekki að öllu leyti kröfur dagsins í dag. Skyldi leitast við að koma til móts við þær kröfur við endurbætur og viðhald hússins.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að það hafi verið fyrir tilviljun að hann hafi komist að því að búið væri að breyta skráningu Þúfukots 4, Nýjakots, úr sumarbústaðalóð í íbúðarhúsalóð í fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands. Þar komi fram að mannvirki á lóðinni væri skráð á byggingar­stig 4 (fokhelt) og matsstig 8 (ólokið, tekið í notkun). Út frá þeim upplýsingum verði að gera ráð fyrir að tekin hafi verið ný ákvörðun af hálfu hreppsnefndar um að heimila breytta notkun lóðarinnar. Sú ákvörðun sé ólögmæt þegar af þeirri ástæðu að kærandi hafi ekki fengið að koma að sjónarmiðum sínum við meðferð málsins, sbr. 13. og 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Umrædd lóð sé innan landareignar kæranda, Þúfukots, og því hafi breytt notkunar lóðarinnar augljóslega veruleg áhrif á hagsmuni hans. Sveitarfélaginu hafi verið vel kunnugt um afstöðu kæranda í málinu og hafi því borið að veita honum færi á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri.

Hin skilyrta ákvörðun hreppsnefndar frá 8. október 2019 hafi verið háð ýmsum efnis­annmörkum. Ljóst sé að umsókn um breytingu lóðarinnar hafi einungis stafað frá öðrum eiganda hennar, en skráðir eigendur lóðarinnar séu tveir. Úr þessu hafi ekki verið bætt með fullnægjandi hætti. Þá hafi ákvörðuninni verið vísað til hreppsnefndar af skipulags- og byggingarnefnd, en á fundi nefndarinnar 29. ágúst s.á. hafi einungis verið bókað um að jákvætt væri tekið í erindið en engin tillaga hafi fylgt frá nefndinni. Hvorki efnisleg né málefnaleg ákvörðun hafi verið tekin um hvort breyta eigi landnotkun lóðarinnar. Það sé heldur ekki á færi skipulags- og byggingarnefndar að taka málið til fullnaðarafgreiðslu, sbr. 1. mgr. 40. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011. Bent sé á að staðsetning lóðarinnar sé innan jarðar kæranda og því ljóst að lóðarmörkin verði ekki ákveðin án aðkomu hans. Hafi hnitsettur lóðaruppdráttur verið afhentur sveitarfélaginu en sé ekki sé hægt að byggja ákvörðun á honum þar sem aðilar beggja vegna lóðarmarka þurfi að samþykkja ytri mörk hennar.

Kæranda sé ekki kunnugt um að málið hafi verið tekið fyrir af byggingarfulltrúa. Ekki fáist séð hvernig skráning mannvirkisins samrýmist 1. mgr. 9. gr., sbr. 2. mgr. 10. gr., laga nr. 160/2010 um mannvirki. Hið skráða byggingarstig staðfesti í raun að ekki sé heimilt að breyta skráningu á notkun lóðarinnar. Á lóðinni standi fullkláraður sumarbústaður en hann sé nú skráður sem fokhelt og óklárað íbúðarhúsnæði í fasteignaskrá. Því gefi auga leið að sumar­bústaðurinn uppfylli ekki kröfur til að vera skráður sem íbúðarhús. Mjög mikilvægt sé að fasteignir séu skráðar til samræmis við raunverulegt ástand og notagildi þeirra. Virðist sem um einhverskonar málamyndaskráningu sé að ræða. Þá liggi heldur ekki fyrir hvort umsagnar skipulagsfulltrúa hafi verið leitað. Liggi fyrir leyfi byggingarfulltrúa um breytta skráningu sé ljóst að leyfið sé ógildanlegt í ljósi framangreinds.

Samkvæmt Aðalskipulagi Kjósarhrepps 2017-2029 sé hin umrædda lóð innan svæðis sem skilgreint sé sem landbúnaðarland. Samkvæmt stofnskjali lóðarinnar frá 2007 hafi hún verið stofnuð sem frístundalóð og henni síðan afsalað til eigandans. Sé það andstætt þágildandi skilmálum nefnds aðalskipulags þar sem svæðið hafi verið skilgreint sem landbúnaðarland. Samkvæmt stefnumörkun þess skipulags hafi mátt reisa þrjú frístundahús á landbúnaðarsvæði en þau skyldu þó standa í grennd við hvert annað. Stofnun lóðarinnar í öndverðu hafi því verið ólögmæt. Í núgildandi aðalskipulagi megi finna skilgreint frístundasvæði innan Þúfukots á svæði auðkenndu sem F6. Staðsetning Þúfukots 4, Nýjakots, sé utan þess svæðis. Nýtingar­hlutfall og stærð lóðar falli þó nær skilgreiningu á lóð fyrir frístundahús samkvæmt núgildandi aðalskipulagi en þar sé ekki gert ráð fyrir að íbúðarhúsalóðir séu að jafnaði minni en 0,5 ha. Umdeild lóð sé hins vegar aðeins 0,40 ha.

Í kafla 2.3.1 í gildandi aðalskipulagi komi fram almenn stefnumörkum um að staðsetja skuli alifuglahús í góðri fjarlægð frá annarri byggð. Þá sé þar vísað til þess að gerð sé grein fyrir lágmarksfjarlægð eldishúsa frá byggð í reglugerð nr. 520/2015 um eldishús alifugla, loðdýra og svína. Þó verði að skoða staðsetningu eldishúsa í hverju tilfelli fyrir sig og meta t.d. út frá ríkjandi vindátt og fjölda dýra. Fram komi í 6. gr. reglugerðarinnar að ákveða skuli í skipulags­áætlun hver fjarlægðarmörkin eigi að vera en í gildandi aðalskipulagi hafi ekki verið mörkuð stefna um það. Ekki hafi farið fram rannsóknar eða athuganir á ríkjandi vindátt eða fjölda dýra, eins og aðalskipulagið mæli fyrir um. Hin kærða ákvörðun sé því á engan hátt í samræmi við skilmála gildandi aðalskipulags. Einnig sé bent á að umsókn um breytingu landnotkunar hinnar umdeildu lóðar hafi verið hafnað í gildistíð Aðalskipulags Kjósarhrepps 2005-2017. Kærandi hafi því haft réttmætar væntingar til þess að ekki yrðu breytingar þar á þrátt fyrir gildistöku nýs aðalskipulags, enda ekkert í skilmálum hins nýja skipulags sem gefi tilefni til annars. Hin kærða ákvörðun fari því að öllum líkindum í bága við gildandi aðalskipulag.

Ekki liggi fyrir hver áform leyfishafa séu varðandi notkun lóðarinnar eða frekari skilmála. Fráleitt sé að slík áform liggi ekki fyrir þegar samþykki sé veitt fyrir eðlisbreytingu á lóð sem skipt sé út fyrir landabúnaðarland. Grundvallarmunur sé á þörf fyrir aðgengi að neysluvatni fyrir frístundahús og íbúðarhús með heilsársbúsetu. Ekki liggi fyrir með hvaða hætti öflun neysluvatns verði. Hið sama gildi um tengingu við hitaveitu, en staðsetning lóðarinnar liggi alls ekki vel við stofnæðum hitaveitu. Eigi slík tenging að fara fram verði það ekki gert án samþykkis kæranda. Einnig sé bent á að aðkomuvegur frá Eyrarfjallsvegi að fyrirhugaðri íbúðarhúsalóð liggi um land kæranda, en engir samningar liggi fyrir um slíka vegtengingu. Um leið og lögheimili fáist skráð þurfi að tryggja aðkomuveg samkvæmt vegalögum nr. 80/2007, en slíkt verði ekki gert án samþykkis kæranda.

Auk framangreinds sé ógildingarkrafa kæranda byggð á því að oddviti hreppsnefndar sveitar­félagsins hafi verið vanhæfur til þess að taka þátt í undirbúningi, meðferð og úrlausn mála sem kærandi sé aðili að eða vegna mála þar sem hann hafi lögvarinna hagsmuna að gæta. Í því sambandi sé vísað til 6. tl. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga og 20. gr. sveitarstjórnarlaga. Fyrirsvarsmaður kæranda hafi orðið fyrir líkamsárásum og hótunum af hendi íbúa Þúfukots 4, Nýjakots, en íbúinn sé jafnframt fyrri eigandi lóðarinnar. Um þær deilur hafi verið fjallað í fjölmiðlum og þar hafi oddvitinn tekið afgerandi afstöðu með íbúanum. Þá hafi oddvitinn krafist þess í tölvupósti til fyrirsvarsmanns kæranda að hann hagaði sér eins og „siðaður maður“. Ljóst sé að oddvitinn hafi sýnt óvild í garð fyrirsvarsmanns kæranda og það opinberlega. Draga verði óhlutdrægni hans verulega í efa. Kveðið sé á um þrengri vanhæfisreglur í 20. gr. sveitarstjórnarlaga en almennt gildi skv. 3. gr. stjórnsýslulaga. Þá kunni vanhæfi hans að leiða til vanhæfis undirmanna hans.

Málsrök Kjósarhrepps: Sveitarfélagið telur að sú ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa að veita byggingarleyfi skv. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki fyrir breyttri notkun lóðarinnar Þúfukots 4, Nýjakots, geti ekki komið til endurskoðunar þar sem kærandi hafi ekki haft uppi kröfu um ógildingu þeirrar ákvörðunar. Að því marki sem það kunni að skipta máli sé ljóst að við þá afgreiðslu hafi skipulagsfulltrúi tekið afstöðu til þess hvort umrædd samþykkt samræmdist skipulagsáætlunum sveitarfélagsins í samræmi við 2. mgr. 10. gr. laga um mannvirki.

Lóðinni Þúfukoti 4, Nýjakoti, hafi verið skipt út úr jörðinni Þúfukoti á árinu 2007. Í þágildandi Aðalskipulagi Kjósarhrepps 2005-2017 hafi lóðin verið á svæði skilgreindu sem landbúnaðar­svæði. Fyrir liggi að skipulagsyfirvöld hafi á sínum tíma samþykkt stofnun lóðarinnar sem sérstakrar og afmarkaðrar fasteignar án þess að landið væri tekið úr landbúnaðarnotum, án þess að aðalskipulagi hefði verið breytt og án þess að gert væri deiliskipulag vegna þess. Í gildandi Aðalskipulagi Kjósarhrepps 2017-2029 sé umrætt svæði enn skilgreint sem landbúnaðarsvæði. Litið hafi verið svo á að unnt væri að breyta skráðri landnotkun án þess að gera breytingar á aðalskipulagi eða gera deiliskipulag fyrir þessa einu lóð. Umrædd lóð sé ekki lengur hluti af lögbýlinu Þúfukoti heldur sérstök og afmörkuð fasteign. Heimilt sé að samþykkja byggingu íbúðarhúss á landi sem skilgreint sé sem landbúnaðarsvæði í aðalskipulagi. Til þess hafi verið litið að ekki væri að sjá eðlismun á þeirri lóð og lóðunum Þúfukoti 1, Lyngholti og Þúfukoti 2, Hálsakoti, sem skráðar væru sem íbúðarhúsalóðir. Gildandi aðalskipulag útiloki ekki að íbúðarhúsalóðir geti verið minni en 0,5 ha þó þær skuli að jafnaði vera það í nýjum íbúðarhúsabyggðum.

Horft hafi verið til þess að undanfarin ár hafi umrædd lóð verið nýtt til fastrar búsetu og heilsársdvalar. Sveitarfélagið hafi þjónustað þá eign með sambærilegum hætti og önnur íbúðar­hús, s.s. varðandi sorphirðu. Með því að samþykkja breytta notkun liggi fyrir að heimilt yrði að skrá þar lögheimili, sem hefði væntanlega í för með sér auknar skatttekjur fyrir sveitarfélagið.

Í kafla 2.3.1 í greinargerð gildandi aðalskipulags komi fram að um lágmarksfjarlægð eldishúsa frá byggð gildi reglugerð nr. 520/2015 um eldishús alifugla, loðdýra og svína. Í 6. gr. reglugerðarinnar sé fjallað um fjarlægðir og komi þar fram að eldi alifugla með bú ætluð fyrir fleiri en 85.000 stæði fyrir kjúklinga eða 60.000 stæði fyrir hænur skuli vera að lágmarki í 100 m fjarlægð frá byggð. Sé bú ætlað fyrir 40.000 til 85.000 stæði fyrir kjúklinga eða 40.000 til 6.000 stæði fyrir hænur skuli fjarlægð vera 50 m. Fjarlægð mannvirkis á lóð Þúfukots 4, Nýjakots, frá næsta alifuglabúi uppfylli skilyrði nefndrar 6. gr. reglugerðarinnar, hvort sem um sé að ræða íbúðarhúsnæði eða sumarbústað.

Almennt sé sú krafa gerð við stofnun lóða í sveitarfélaginu að mörk þeirra séu hnitsett þannig að enginn vafi geti verið um afmörkun þeirra. Af þessum sökum hafi þótt rétt, þegar leyfishafar hafi óskað eftir heimild til að breyta skráðri landnotkun, að setja skilyrði um hnitsetningu lóðarinnar. Ekkert hafi komið fram um að ágreiningur væri uppi milli kæranda og leyfishafa um hvar landamerki lóðanna Þúfukots og Þúfukots 4, Nýjakots, væru, en þau landamerki hafi verið ákveðin áður en kærandi hafi eignast Þúfukot. Þá sé það ekki á forræði eða valdsviði sveitarfélagsins að leysa úr slíkri landamerkjaþrætu. Skipulags- og byggingarfulltrúi hafi móttekið hnitsettan uppdrátt en ekki verði séð að sú hnitasetning hafi áhrif á réttarstöðu kæranda, enda landamerki þau sömu og áður.

Bent sé á að þegar Þúfukoti 4, Nýjakoti, hafi verið skipt út úr Þúfukoti og hús reist á lóðinni hafi verið gengið frá aðgangi að neysluvatni úr landi Þúfukots. Sama gildi um hitaveitu, en mannvirkið á lóðinni sé tengt við hitaveitu Kjósarveitu ehf. Þá sé þegar fyrir hendi vegtenging við lóðina. Ekki sé hægt að fallast á að breyting á notkun umræddrar lóðar hafi veruleg og íþyngjandi áhrif á réttarstöðu kæranda. Sú mögulega skerðing sem geti falist í hinni kærðu ákvörðun sé innan þeirra marka sem fasteignaeigendur verði að þola í nábýli. Að lokum fáist ekki séð að meint vanhæfi oddvita hreppsnefndar sveitarfélagsins hafi verið fyrir hendi þegar ákvörðun hreppsnefndar um að samþykkja umsókn leyfishafa hafi verið tekin 8. október 2019. Þá sé það meginregla 1. mgr. 20. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 að starfsmaður sveitar­félags verði ekki vanhæfur vegna vanhæfis yfirmanns.

Athugasemdir leyfishafa: Af hálfu leyfishafa er bent á að mannvirkið á umræddri lóð hafi í upphafi verið byggt sem íbúðarhúsnæði. Lóðinni hafi skipt út úr jörðinni Þúfukoti ásamt þeim réttindum og skyldum sem fasteigninni fylgdi, þ.m.t. rétti til vatns. Húsið hafi verið notað til heilsársíbúðar frá því það hafi fyrst verið reist. Fullnægt hafi verið þeim fyrirvörum sem hreppsnefnd hafi sett með samþykkt sinni á umsókn leyfishafa 8. október 2019. Hvorki fáist séð að breytingin hafi nokkur áhrif á eignarréttindi kæranda né takmarki notkun á jörð hans.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi telur að ákvörðun hreppsnefndar frá 8. október 2019 hljóti að vera grundvöllur hinnar breyttu skráningar á landnotkun sem hafi verið framkvæmd, en kærandi hafi til vara krafist þess að hún yrði felld úr gildi. Líti úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hins vegar svo á að önnur ákvörðun Kjósarhrepps liggi fyrir um heimild til breyttrar landnotkunar sé þess krafist að sú ákvörðun verði felld úr gildi.

Vísað sé til þess að skipulags- og byggingarfulltrúi hafi ekki heimild til að taka endanlega ákvörðun í málinu, sbr. 40. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 og erindisbréf skipulags- og byggingarnefndar. Einnig vísist til 4. mgr. 30. gr. samþykkta stjórnar sveitarfélagsins Kjósar­hrepps þar sem fram komi að ef nefnd sé falið fullnaðarafgreiðsla mála skuli kveða á um það í sérstökum viðauka við samþykktina. Enginn slíkur viðauki sé fyrir hendi. Hafnað sé þeim málatilbúnaði sveitarfélagsins að hreppurinn hafi ekki tekið ákvörðun um breytta landnotkun heldur hafi það verið í höndum skipulags- og byggingarfulltrúa. Hreppsnefnd hagi málmeðferð vísvitandi þannig að hún sé flókin, villandi og ógagnsæ. Með því að taka skilyrta stjórnvalds­ákvörðun í upphafi, sem ekki sé unnt að kæra nema skilyrðin komi fram, virðist sem hrepps­nefndin geri í raun tilraun til að taka ákvarðanir sem ekki séu kæranlegar.

Ítrekað sé að hnitsettur uppdráttur þurfi að vera undirritaður af bæði kæranda og leyfishafa. Bent sé á að á fundi skipulags- og byggingarnefndar 11. nóvember 2020 hafi verið tekin fyrir umsókn um breytingu á stærð tiltekinnar lóðar og í afgreiðslu nefndarinnar hafi það verið gert að skilyrði að fyrir lægi samþykki eiganda eða eigenda upprunafasteignar, sbr. 14. gr. laga nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna. Ekki fáist séð hvers vegna hreppsnefnd og skipulags- og byggingarnefnd geri ekki sömu kröfur í þessu máli. Vísist um það til jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. mgr. 28. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er stefna sveitarstjórnar um þróun sveitarfélagsins varðandi landnotkun sett fram í aðalskipulagi. Hins vegar eru í deiliskipulagi teknar ákvarðanir um lóðanotkun, sbr. 1. mgr. 37. gr. laganna, en heimilt er að skilgreina landnotkun og takmarkanir á henni þrengra í deiliskipulagi en gert er í aðalskipulagi, sbr. gr. 5.3.2. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013. Um notkun húsa fer þó eftir lögum nr. 160/2010 um mannvirki, en skv. 1. mgr. 9. gr. þeirra laga er óheimilt að breyta notkun mann­virkis nema að fengnu leyfi viðkomandi byggingarfulltrúa, auk þess sem það er skilyrði fyrir útgáfu byggingarleyfis að mannvirkið og notkun þess samræmist skipulagsáætlunum, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 13. gr. sömu laga. Af framangreindum lagaákvæðum er ljóst að greinarmunur er á því hvort um breytta notkun lóðar eða húss er að ræða.

Upphaf máls þessa má rekja til erindis eins af eigendum lóðarinnar Þúfukots 4, Nýjakots, um að breyta notkun hennar úr sumarbústaðalóð í lóð undir íbúðarhús. Svo sem rakið er í málavöxtum tók skipulags- og byggingarnefnd Kjósarhrepps 29. ágúst 2019 jákvætt í erindið og vísaði því til sveitarstjórnar. Hreppsnefnd staðfesti þá afgreiðslu á fundi sínum 8. október s.á. með þeim áskilnaði og fyrirvara að afhentur yrði hnitsettur uppdráttur af spildunni ásamt staðfestingu byggingarfulltrúa á að hús það sem á lóðinni stæði uppfyllti skilyrði laga og reglugerða til að verða samþykkt sem íbúðarhúsnæði. Fyrir liggur að þau skilyrði sem hreppsnefnd setti hafa verið uppfyllt og verður því að líta svo á að nefndin hafi tekið endanlega ákvörðun um að breyta notkun lóðarinnar. Þá liggur einnig fyrir í máli þessu að 2. september 2020 var skráningu hússins á lóðinni breytt úr sumarbústað í einbýlishús í fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands, en slík breyting getur einungis átt sér stað að undangengnu byggingarleyfi byggingarfulltrúa, sbr. 1. mgr. 9. gr. laga um mannvirki, sem er kæranlegt til úrskurðarnefndarinnar. Að virtum atvikum málsins og málatilbúnaði kæranda verður því litið svo á að einnig sé kærð sú ákvörðun sem legið hafi að baki breyttri skráningu á notkun hússins í fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands.

Af ákvæði 1. mgr. 37. gr. skipulagslaga verður ráðið að ákvörðun um notkunar lóðar sé að meginstefnu til tekin með deiliskipulagi. Þrátt fyrir það verður talið að sveitarstjórn sé heimilt að samþykkja breytta notkun lóðar að því gefnu að sú notkun rúmist innan heimilda aðalskipulags, enda er aðalskipulag rétthærra en deiliskipulag, sbr. 7. mgr. 12. gr. laganna. Í Aðalskipulagi Kjósarhrepps 2017-2029 er hin umrædda lóð á skilgreindu landbúnaðarsvæði. Fjallað er um landbúnaðarsvæði í kafla 2.3.1 í skipulaginu en þar segir m.a. að með skipulaginu sé horfið frá því að takmarka fjölda íbúðarhúsa á hverri jörð, enda sé það talið geta staðið í vegi fyrir íbúafjölgun í sveitarfélaginu. Þá segir jafnframt að heimilt sé að reisa stök mannvirki á landbúnaðarsvæðum, eins og lýst sé í kafla 2.3.9. Í þeim kafla kemur fram að á landbúnaðarlandi sé heimilt að reisa íbúðarhús til fastrar búsetu, enda hamli uppbygging hvorki eðlilegri landbúnaðarstarfsemi né spilli samfellu í góðu landbúnaðarlandi. Með hliðsjón af framan­greindu var ákvörðun hreppsnefndar um að breyta notkun lóðarinnar í samræmi við stefnu og heimildir aðalskipulags.

Líkt og kemur fram hér að framan er skv. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 160/2010 óheimilt að breyta notkun mannvirkis nema að fengnu leyfi viðkomandi byggingarfulltrúa. Samkvæmt 11. gr. laganna skal byggingarfulltrúi ganga úr skugga um að aðaluppdrættir uppfylli ákvæði laganna og reglugerða sem settar hafa verið á grundvelli þeirra og tilkynna umsækjanda skriflega um samþykkt byggingaráforma. Upphaflegt erindi eigenda Þúfukots 4, Nýjakots, fól ekki í sér formlega byggingarleyfisumsókn um breytta notkun húss heldur umsókn um breytta notkun lóðarinnar. Af atvikum málsins verður þó ráðið að skipulags- og byggingarfulltrúi hafi litið svo á að með umsókn um breytta notkun lóðarinnar hafi eigendur hennar jafnframt sótt um breytta notkun hússins sem stendur á lóðinni. Fyrir liggur að 18. ágúst 2020 stimplaði hann uppdrætti frá árinu 2007 sem merktir eru „Frístundahús Nýjakot 2“. Þá er á uppdrættinum ódagsett áritun hönnuðar við eftirfarandi texta: „Samanber byggingarreglugerð nr. 112/2012 gr. 10.1.2. og 12.1.2.“ Samkvæmt nefndri gr. 10.1.2. skal hönnuður við breytta notkun þegar byggðra mannvirkja staðfesta að uppfyllt séu öll viðeigandi ákvæði þess hluta reglugerðarinnar, en 10. hluti reglugerðarinnar ber heitið „Hollusta, heilsa og umhverfi“. Sambærilega orðað ákvæði er í gr. 12.1.2., en 12. hluti reglugerðarinnar fjallar um öruggi við notkun. Sama dag og skipulags- og byggingarfulltrúi stimplaði nefnda uppdrætti skrifaði hann undir skjal með heitinu „Staðfesting íbúðarhúsnæðis“. Þar kemur fram eftirfarandi afgreiðsla embættisins: „Í samræmi við 10.1.2. gr. og 12.1.2. gr. byggingarreglugerðar nr. 112/2012, staðfestist hér með, að hús það (F2310159) sem stendur á umræddri lóð, uppfyllir skilyrði til að vera samþykkt sem íbúðarhúsnæði í öllum meginatriðum. Athygli er samt sem áður vakin á að einangrunargildi hússins er skv. eldri reglugerð og uppfyllir því ekki að öllu leyti kröfur dagsins í dag. Leitast skal við að koma til móts við þær kröfur við endurbætur og viðhald hússins.“

Gera verður þá kröfu til stjórnvalda að ákvarðanir þeirra séu að formi og efni til nægilega skýrar þannig að ekki sé vafa undirorpið á hvaða lagagrundvelli þær eru teknar og hvert sé efni þeirra. Að mati úrskurðarnefndarinnar uppfylla fyrrgreindar afgreiðslur skipulags- og byggingarfulltrúa ekki þá kröfu þar sem þær fela fyrst og fremst í sér mat hans á því að tiltekin ákvæði byggingarreglugerðar séu uppfyllt. Verður því ekki talið að um formlega stjórnvaldsákvörðun á grundvelli 1. mgr. 9. gr. eða 11. gr. laga um mannvirki hafi verið að ræða. Er þá m.a. litið til þess að í yfirskrift stimplaðs uppdráttar frá árinu 2007 kemur fyrir orðið „Frístundahús“ og að stimplunin ber ekki með sér að breytt notkun hússins hafi verið samþykkt. Þá er horft til þess að í skjalinu „Staðfesting íbúðarhúsnæðis“ segir að umrætt hús uppfylli skilyrði til að vera samþykkt sem íbúðarhúsnæði „í öllum meginatriðum.“ Verður því að líta svo á að ekki hafi verið tekin ákvörðun í skilningi 9. gr. laga um mannvirki um breytta notkun hússins. Verður því ekki komist hjá því að vísa þeim hluta málsins frá úrskurðarnefndinni.

Rétt er að benda á að í 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga er mælt fyrir um að þegar sótt sé um byggingar- eða framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmd sem sé í samræmi við aðalskipulag en deiliskipulag liggi ekki fyrir geti sveitarstjórn eða sá aðili sem hafi heimild til fullnaðar­afgreiðslu máls, sbr. 6. gr., ákveðið að veita megi leyfi án deiliskipulagsgerðar ef framkvæmdin sé í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar og skal skipulagsnefnd þá láta fara fram grenndarkynningu. Þó er skipulagsnefnd heimilt skv. 3. mgr. ákvæðisins að falla frá grenndarkynningu ef sýnt er fram á að leyfisskyld framkvæmd varði ekki hagsmuni annarra en sveitarfélagsins og/eða umsækjenda. Verður að telja að sú regla eigi við hvort sem byggingarleyfisumsókn varðar heimild til að grafa grunn fyrir mannvirki, reisa það, rífa eða flytja, breyta því, burðarkerfi þess eða lagnakerfum eða breyta notkun þess, útliti eða formi, sbr. 1. mgr. 9. gr. laga nr. um mannvirki. Fyrir liggur að ekki var formlega sótt um leyfi til að breyta notkun mannvirkisins, en sem fyrr greinir mun skipulags- og byggingarfulltrúi hafa litið svo á að umsókn um breytta notkun lóðar varðaði jafnframt breytta notkun hússins á lóðinni. Sú umsókn var ekki grenndarkynnt en ekki verður ráðið af fyrirliggjandi gögnum málsins hvort láðst hafi að gera það með formlega réttum hætti eða hvort að það hafi verið mat skipulags­yfirvalda að erindið varðaði ekki hagsmuni annarra en sveitarfélagsins og/eða umsækjenda, sbr. fyrrnefnda 3. mgr. 44. gr. skipulagslaga.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar hreppsnefndar Kjósarhrepps um að samþykkja að breyta notkun lóðarinnar Þúfukots 4, Nýjakots, úr sumarbústaðalóð í lóð undir íbúðarhús.

Vísað er frá úrskurðarnefndinni þeim hluta málsins er lýtur að breyttri notkun húss á lóðinni Þúfukoti 4, Nýjakoti.