Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

32/2021 Arnarnesvegur

Árið 2021, þriðjudaginn 25. maí, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 32/2021, kæra á ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 16. febrúar 2021 um að breyting á útfærslu gatnamóta við Arnarnesveg og Breiðholtsbraut skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 17. mars 2021, er barst nefndinni sama dag, kæra samtökin Vinir Vatnsendahvarfs þá ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 16. febrúar 2021 að breyting á útfærslu gatnamóta við Arnarnesveg og Breiðholtsbraut skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Er þess krafist að nýtt mat á umhverfisáhrifum fari fram vegna 3. kafla Arnarnesvegar.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Skipulagsstofnun 26. apríl 2021.

Málavextir: Með úrskurði um mat á umhverfisáhrifum frá árinu 2003 féllst Skipulagsstofnun á lagningu Arnarnesvegar milli Reykjanesbrautar og Breiðholtsbrautar. Taldi stofnunin að framkvæmdin hefði ekki í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif samkvæmt lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Var ákvörðunin kærð til umhverfisráðherra, sem staðfesti hana með úrskurði uppkveðnum 11. desember 2003. Lagning vegarins hefur farið fram í áföngum en þriðji áfangi, milli Rjúpnavegar í Kópavogi að Breiðholtsbraut í Reykjavík, hefur ekki verið lagður. Með bréfi, dags. 26. október 2020, óskaði Vegagerðin eftir áliti Skipulagsstofnunar um hvort ný útfærsla á vegamótum Arnarnesvegar og Breiðholtsbrautar væri háð mati á umhverfisáhrifum. Fæli útfærslan í sér brú yfir Breiðholtsbraut og ljósastýrð vegamót og kom fram í matsskyldufyrirspurn Vegagerðarinnar að um væri að ræða sameiginlega niðurstöðu Vegagerðarinnar, Reykjavíkurborgar og Kópavogsbæjar. Við meðferð málsins óskaði Skipulagsstofnun eftir umsögnum Reykjavíkurborgar, Kópavogsbæjar, Fiskistofu, Hafrannsóknastofnunar, Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, Heilbrigðiseftirlits Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis, Landverndar, Minjastofnunar Íslands, Samgöngustofu, Umhverfisstofnunar og Vina Vatnsendahvarfs vegna matsskyldufyrirspurnarinnar. Hinn 16. febrúar 2021 komst Skipulagsstofnun að þeirri niðurstöðu að fyrirhuguð breyting væri ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og því skyldi framkvæmdin ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Í ákvörðun sinni vísaði stofnunin m.a. til þess að framkvæmdin fælist í breytingu á útfærslu gatnamóta frá fyrri áformum, sem kæmi ekki til með að auka umferðarónæði eða mengun í íbúðarbyggð eða á útivistarsvæðum og sem jafnframt fæli í sér minna inngrip í ásýnd svæðanna.

Málsrök kæranda: Kærandi telur að þar sem 18 ár séu liðin frá mati á umhverfisáhrifum hafi forsendur breyst verulega frá því Skipulagsstofnun hafi komist að þeirri niðurstöðu að framkvæmd Arnarnesvegar milli Reykjanesbrautar og Breiðholtsbrautar væri ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Landnotkun, löggjöf um umhverfismál og alþjóðlegar skuldbindingar hafi tekið breytingum. Sé þess því krafist að nýtt mat verði gert fyrir þriðja áfanga Arnarnesvegar. Framkvæmdin muni hafa verulega neikvæð áhrif á umhverfi, útivist og hljóðvist. Þá muni framkvæmdin breyta ásýnd svæðisins og notagildi til frambúðar á neikvæðan hátt. Eins og vegurinn sé skipulagður í dag sé hann ekkert annað en stórfelld og óafturkræf skipulagsmistök. Mikil þörf sé á endurgerð matsins, sem sé nær tveggja áratuga gamalt, svo og á algjörri endurskoðun á veglagningunni með heildarmyndina í huga. Mikið hafi breyst varðandi áherslur í umhverfis- og samgöngumálum sem nauðsynlegt sé að líta til.

Málsrök Skipulagsstofnunar: Af hálfu Skipulagsstofnunar er bent á að það falli ekki undir valdsvið úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, eins og lög nr. 130/2011 um hana séu úr garði gerð, að taka afstöðu til kröfu kæranda. Að mati stofnunarinnar verði að leggja þann skilning í kæruna að þess sé krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Kærandi hafi ekki heimild til að krefjast þess að mat á umhverfisáhrifum Arnarnesvegar frá árinu 2003 verði endurskoðað. Samkvæmt 1. mgr. 12. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum sé það viðkomandi leyfisveitandi sem beri að óska ákvörðunar Skipulagsstofnunar um hvort endurskoða þurfi að hluta eða í heild matsskýrslu framkvæmdaraðila áður en leyfi til framkvæmda sé veitt. Stofnunin hafi ekki sjálfstæða heimild til að taka ákvörðun um endurskoðun umhverfismats, sbr. úrskurð úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 77/2017.

Skilyrði fyrir því að framkvæmd skuli undirgangast mat á umhverfisáhrifum sé að framkvæmdin hafi í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif. Skilgreiningu á slíkum áhrifum sé að finna í p-lið 3. gr. laga nr. 106/2000, en þar séu umtalsverð umhverfisáhrif skilgreind þannig að um sé að ræða verulega óafturkræf umhverfisáhrif eða veruleg spjöll á umhverfinu sem ekki sé hægt að fyrirbyggja eða bæta úr með mótvægisaðgerðum. Skipulagsstofnunin fái ekki séð að hin tilkynnta framkvæmd hafi þau áhrif sem lýst sé í framangreindri skilgreiningu.

Athugasemdir Vegagerðarinnar: Af hálfu Vegagerðarinnar er aðallega gerð krafa um að máli þessu verði vísað frá úrskurðarnefndinni, en til vara að öllum kröfum kæranda verði hafnað. Byggist frávísunarkrafan á því að kærandi uppfylli ekki skilyrði kæruaðildar skv. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Samkvæmt ákvæðinu geti umhverfisverndarsamtök með minnst 30 félaga talist eiga lögvarinna hagsmuna að gæta í tilteknum tilvikum sem talin séu upp í stafliðum a-d. Sjálfstætt viðbótarskilyrði sé að umhverfisverndarsamtökin hafi umhverfisvernd að meginmarkmiði, séu opin fyrir almennri aðild, gefi út ársskýrslur um starfsemi sína og hafi endurskoðað bókhald. Annars konar umhverfisverndarsamtök geti ekki átt aðild að kærumáli. Á heimasíðu kæranda komi fram að Vinir Vatnsendahvarfs séu óformleg samtök fólks sem þyki vænt um Vatnsendahvarfið og vilji stuðla að vernd svæðisins. Frekari upplýsingar sé ekki að finna, hvorki um stjórn, félagsaðild, samþykktir, ársskýrslur eða annað sem geti staðfest að skilyrði laganna séu uppfyllt. Samkvæmt fyrirtækjaskrá Skattsins virðist samtökin ekki heldur hafa kennitölu. Því sé óhjákvæmilegt að vísa málinu frá enda sé engin heimild við þessar aðstæður til að taka málið til efnislegrar meðferðar. Breyti engu í því sambandi þótt Skipulagsstofnun hafi óskað eftir umsögn kæranda vegna matsskyldufyrirspurnarinnar, en sú staða veiti ekki sjálfstæða kæruaðild.

Hin kærða ákvörðun sé vel rökstudd og í samræmi við gildandi lög og framlögð gögn. Málsmeðferð hafi verið vönduð og engin ný gögn eða upplýsingar hafi verið lagðar fram af hálfu kæranda sem breytt geti efnislegri niðurstöðu málsins.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi ítrekar málsrök sín um að þörf sé á endurgerð mats á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar. Samtökin Vinir Vatnsendahvarfs telji nær 400 meðlimi á Facebook-síðu hópsins og séu flestir þeirra íbúar sem búi í návígi við fyrirhugaðan veg. Á síðu Skipulagsstofnunar komi fram að nágrannar sem búi í návígi við framkvæmdina eigi rétt á að kæra og gera athugasemdir við ákvarðanir stofnunarinnar.

—–

Aðilar hafa gert ítarlegri grein fyrir máli sínu en þau sjónarmið verða ekki rakin nánar hér í ljósi niðurstöðu máls þessa.

Niðurstaða: Í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála kemur fram að þeir einir geti kært stjórnvaldsákvarðanir til nefndarinnar sem eiga lögvarinna hagsmuni að gæta tengda ákvörðun sem kæra á. Umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtök með minnst 30 félaga geta kært nánar tilgreindar ákvarðanir án þess að sýna fram á lögvarða hagsmuni, enda samrýmist tilgangi samtakanna að gæta þeirra hagsmuna sem kæran lýtur að. Samkvæmt 4. mgr. 4. gr. teljast umhverfisverndarsamtök samtök sem hafa umhverfisvernd að meginmarkmiði. Útivistarsamtök teljast samtök sem hafa útivist og umhverfisvernd að markmiði. Samtök skv. 1. og 2. málsl. skulu vera opin fyrir almennri aðild, gefa út ársskýrslur um starfsemi sína og hafa endurskoðað bókhald. Meðal þeirra ákvarðana sem framangreind samtök geta kært eru ákvarðanir Skipulagsstofnunar um matsskyldu framkvæmda samkvæmt 6. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, sbr. a-lið 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011.

Undir rekstri máls þessa óskaði úrskurðarnefndin eftir upplýsingum um kæranda m.t.t. þeirra skilyrða sem umhverfisverndar- og útivistarsamtök þurfa að uppfylla skv. 3. og 4. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 til að teljast eiga lögvarinna hagsmuna að gæta vegna kærðrar ákvörðunar. Í svari frá kæranda kom fram að um væri að ræða óformleg samtök íbúa Breiðholts og Kópavogs. Yfir 340 meðlimir séu á Facebook-síðu hópsins, en þar sem samtökin séu ekki formlega stofnuð samtök séu ekki til staðar umbeðin gögn sem sýni fram á skilyrði kæruaðildar. Með hliðsjón af því verður ekki talið að kærandi uppfylli þau skilyrði sem sett eru fyrir aðild skv. 3. og 4. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011. Þá skapar það ekki kæruaðild þótt samtökin hafi komið að athugasemdum við meðferð málsins hjá Skipulagsstofnun. Þar sem kærandi telst ekki uppfylla skilyrði til aðildar í málinu verður kæru hans vísað frá úrskurðarnefndinni.

Í ljósi viðbótarathugasemda kæranda telur úrskurðarnefndin rétt að benda á að enginn tiltekinn íbúi hefur í eigin nafni komið að kæru í þessu máli og vísað til grenndarhagsmuna um aðild sína.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.