Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

137/2018 Sólvallagata

Með

Árið 2019, þriðjudaginn 12. nóvember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 137/2018, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 14. nóvember 2018, sem staðfest var í borgarráði 29. s.m., er lýtur að afmörkun lóðanna Sólvallagötu 68 og Framnesvegar 31B.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 25. nóvember 2018, er barst nefndinni 26. s.m., kærir eigandi, Sólvallagötu 68, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 14. nóvember 2018 er lýtur að afmörkun lóðanna Sólvallagötu 68 og Framnesvegar 31B. Skilja verður málskot kæranda svo að gerð sé krafa um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 22. janúar 2019.

Málavextir: Í gildi er deiliskipulag Vesturvallareits, staðgreinireits nr. 1.134.5, sem samþykkt var í apríl árið 2012. Tekur skipulagið til svæðis sem afmarkast af Framnesvegi, Sólvallagötu, Holtsgötu og Vesturvallagötu, og eru lóðirnar Sólvallagata 68 og Framnesvegur 31B markaðar á skipulagsuppdrætti svæðisins. Tekið er fram í skipulagi að vegna skiptingar lóða sé gerður fyrirvari um nákvæma lóðarstærð sem muni ákvarðast á mæliblaði.

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúans í Reykjavík 13. nóvember 2018 var lögð fram tillaga landupplýsinga­­deildar Reykjavíkurborgar um afmörkun lóðarinnar Framnes­vegar 31B. Í tillögunni sagði svo: „Lóðin Sólvallagata 68 (staðgr. 1.134.510, L100394) er talin 1242,8 m². Lóðin reynist 1319 m². Teknir 428 m² af lóðinni Sólvallagötu 68 og bætt við lóðina Framnesveg 31B (staðgr. 1.134.517, L226399). Lóðin Sólvallagata 68 (staðgr. 1.134.510, L100394) verður 891 m². Ný lóð Framnesvegur 31B (staðgr. 1.134.517, L226399). Bætt 428 m² við lóðina frá Sólvallagötu 68 (staðgr. 1.134.510, L100394). Lóðin Framnesvegur 31B (staðgr. 1.1.3.4.517, L226399) verður 428 m².“

Byggingarfulltrúi samþykkti tillöguna 14. nóvember 2018 og var sú afgreiðsla staðfest á fundi borgarráðs 29. s.m.

Málsrök kæranda: Kærandi vísar til þess að lóðin Sólvallagata 68 sé sameiginleg fyrir Sólvallagötu 68a og 68 og hafi eigendur  ekki heimilað eða beðið um að henni yrði skipt.

Árið 1983 hafi verið óskað eftir því að lóðinni Sólvallgötu 68 yrði skipt en því erindi hafi verið hafnað. Líkt og fram komi í eignaskiptayfirlýsingu fyrir Sólvallagötu 68 frá desember 1998 hafi lóðin verið tilgreind sem íbúðarhúsalóð, 1.242,8 m² að stærð, „öll í óskiptri eign“, og hafi eigendur hennar ætíð gengið út frá þessu. Þetta megi t.d. sjá í afsali á eignarhluta í einbýlishúsinu nr. 31 við Framnesveg frá janúar 1990 þar sem fram komi að eignin sé tilgreind sem hluti af Sólvallagötu 68. Einnig megi vísa til afsals á sama eignarhluta frá 5. maí 1992 þar sem skýrt komi fram að umrædd eign tilheyri Sólvallagötu 68. Öll skjölin sýni að húsið að Framnesvegi 31B sé á lóð sem tilheyri Sólvallagötu 68.

Nýtt deiliskipulag geti ekki haft áhrif á eignarhald á lóðinni, eins og Reykjavíkurborg haldi fram. Það sem breytist þegar nýtt deiliskipulag taki gildi sé einungis það að komin sé heimild til að skipta lóðinni. Slíka heimild sé hins vegar aðeins hægt að nýta í fullu samráði og með samþykki hinna réttmætu eigenda lóðarinnar. Þrátt fyrir að umrædd lóðarmarkabreyting hafi verið í samræmi við gildandi deiliskipulag breyti það engu um þá staðreynd að engin samþykkt hafi legið fyrir frá réttmætum eigendum lóðarinnar. Breytingin sé því heldur ekki í samræmi við þinglýsta eigendaskráningu lóðarinnar andstætt því sem fram komi í greinargerð Reykjavíkurborgar.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Borgaryfirvöld vísa til þess að kærandi hafi ekki getað sýnt fram á neinar eignarheimildir sem styðji málatilbúnað hans. Í samþykktu deiliskipulagi sé lóðin Sólvallagata 68 tilgreind sem 840,4 m² og Framnesvegur 31B tilgreind sem 402,4 m² að stærð. Í deiliskipulaginu komi fram að ónákvæmni gæti í landupplýsingargrunni um lóðarmörk og séu þau lagfærð með deiliskipulagi en rétt lóðarstærð muni koma fram á mæli- og/eða lóðablöðum.

Með skiptingu umræddrar lóðar í samþykktu deiliskipulag sé ekki tekin afstaða til þeirra eignarheimilda sem búi henni að baki heldur sé byggt á deiliskipulagi sem sé allsherjarréttarlegs eðlis. Deiliskipulag hafi hliðstæða stöðu og reglugerð sem hvorki geti myndað eða fellt niður einkaréttarleg lóðarréttindi. Einkaréttarleg lóðarréttindi byggist á einkaréttarlegum samningum, ýmist um kaup á eignarlandi eða um leigu lóðarréttinda. Þinglýstar heimildir um lóðarréttindin, hvort sem um eignarland eða leigulóð sé að ræða, séu stofnskjöl slíkra réttinda. Lóðarskipting samkvæmt þinglýstum heimildum bindi ekki hendur landupplýsingadeildar Reykjavíkurborgar til að útbúa lóðaruppdrátt í samræmi við lóðaskiptingu sem sé tilgreind og ákveðin í gildandi deiliskipulagi. Þá sé lóðaskiptingin jafnframt í samræmi við þinglýsta eigendaskráningu lóðanna Framnesvegs 31B og Sólvallagötu 68.

Lóðin að Framnesvegi 31B hafi verið svo til óbreytt að stærð frá árinu 1928 þegar hún hafi verið sameinuð úr fjórum lóðarhlutum. Vegna eigendasögu hennar og lóðarinnar Sólvalla­götu 68 hafi stærð lóðarinnar verið rangt tilgreind í Þjóðskrá. Lóðirnar tvær hafi ekki verið formlega sameinaðar. Lóðin Framnesvegur 31B hafi verið seld ásamt húsinu sem á henni standi í júní árið 1983 til þriðja aðila með vísan til samþykktrar lóðarafmörkunar frá mars 1927 og afsals frá ágúst 1928. Með því afsali hafi það hús á lóðinni verið skilið frá lóðinni að Sólvallagötu 68. Þinglýst gögn um lóðirnar staðfesti að lóðirnar tvær séu sjálfstæðar lóðir, tvö sjálfstæð þinglýsingarandlög, og sé kærð lóðaafmörkun einnig í samræmi við eignarheimildir um lóðirnar.

Niðurstaða: Lóðirnar Sólvallagata 68 og Framnesvegur 31B eru afmarkaðar á deiliskipulags­uppdrætti. Í sérskilmálum deiliskipulagsins kemur fram að „lagt er til að skipta lóðinni Sólvallgötu 68/Framnesvegi 31 í lóðirnar Sólvallagötu 68 og Framnesveg 31B.“ Einnig er þar tilgreint að lóðarmörk Framnesvegar 31A skuli lagfærð þannig að húsið standi alfarið innan lóðarmarka, en vegna skiptingar lóðarinnar sé gerður fyrirvari um nákvæma lóðarstærð sem muni ákvarðast á mæliblaði. Verður að skilja hina kærðu ákvörðun á þann veg að með henni hafi byggingarfulltrúi verið að fylgja eftir fyrrgreindum ákvæðum deiliskipulags um gerð mæliblaðs fyrir lóðir á reitnum. Átti hin kærða ákvörðun sér því stoð í gildandi deiliskipulagi.

Úrskurðarnefndin er ekki til þess bær að lögum að skera úr um eignaréttarlegan ágreining enda einskorðast valdheimildir hennar við endurskoðun á lögmæti þeirra ákvarðana sem undir hana verða bornar samkvæmt lögum nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Ágreining um bein eða óbein eignaréttindi verður eftir atvikum að leiða til lykta fyrir dómstólum, en rétt þykir að geta þess að deiliskipulags­ákvarðanir geta ekki falið í sér ráðstöfun eignarréttinda.

Með vísan til þess sem að framan er rakið liggja ekki fyrir þeir annmarkar á hinni kærðu ákvörðun sem leitt geta til ógildingar hennar og kröfu þar um því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 14. nóvember 2018, sem staðfest var í borgarráði 29. s.m., er lýtur að afmörkun lóðanna Sólvallagötu 68 og Framnesvegar 31B.

135/2018 Gulllág

Með

Árið 2019, föstudaginn 27. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 135/2018, kæra á afgreiðslu sviðsstjóra Sandgerðisbæjar, f.h. bæjarstjórnar, frá 3. janúar 2018 á erindi kærenda, dags. 27. nóvember 2017, þar sem farið var fram á að staðfestur yrði réttur þeirra til 1.800 ferfaðma spildu úr landi Gull­lágar í Sandgerði og að lóðin Byggðavegur 3 í Sandgerði sé innan landspildu þeirra.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 21. nóvember 2018, er barst nefndinni 23. s.m., kæra A og B afgreiðslu sviðsstjóra Sandgerðisbæjar, f.h. bæjarstjórnar, frá 3. janúar 2018 á erindi þeirra, dags. 27. nóvember 2017, þar sem farið var fram á að staðfestur yrði réttur þeirra til 1.800 ferfaðma spildu úr landi Gulllágar í Sandgerði og að lóðin Byggðavegur 3 í Sandgerði sé innan landspildu þeirra. Verður að skilja málatilbúnað kærenda svo að krafist sé ógildingar hinnar kærðu afgreiðslu.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Suðurnesjabæ 21. maí 2019.

Málsatvik og rök: Kærendur sendu bæjarstjórn Sandgerðisbæjar bréf, dags. 27. nóvember 2017, þar sem farið var fram á að staðfestur yrði réttur þeirra til þinglýstrar 1.800 ferfaðma spildu úr Gulllág og að rétturinn næði til lóðarinnar að Byggðavegi 3 þar í bæ. Í svari sviðsstjóra umhverfis-, skipulags- og byggingarsviðs, f.h. bæjarstjórnar, dags. 3. janúar 2018, kom fram að sveitarfélagið efist ekki um rétt kærenda til spildunnar en ómögulegt sé á grundvelli fyrirliggjandi heimilda að staðfesta staðsetningu hennar og þar með hvort hún næði yfir lóðina að Byggðavegi 3. Það sem vitað sé fyrir víst er að spildunni hafi verið afsalað úr Sandgerðis­jörðinni árið 1933. Við sameiningu Sandgerðisbæjar og Garðs hinn 20. júní 2018 varð til sveitarfélagið Suðurnesjabær.

Kærendur benda á að mál þetta varði skilgreiningu á lóð sem óumdeilt sé í þeirra eigu. Lóðar­mörk séu aftur á móti ekki skilgreind og liggi innan svæðis sem Sandgerðisbær skilgreini alfarið sem eign annars aðila, þótt bærinn viðurkenni í raun að kærendur eigi hluta landsins. Bæjar­yfirvöld telji að kærendur eigi að semja um lóðarmörk við þann aðila sem sé skráður fyrir landinu öllu en slíkt setji þá í óeðlilega stöðu gagnvart honum. Að auki hafi Sandgerðisbær úthlutað hluta þess lands sem kærendur telji sig eiga til þriðja aðila, með samþykki þess aðila sem bærinn telji vera eiganda landsins, en þó einungis að hluta. Einhverra hluta vegna undirriti bæjaryfirvöld þann gerning skv. umboði frá meintum lóðarhafa.

Af hálfu bæjaryfirvalda er vísað til þess að kærendur hafi ítrekað kallað eftir upplýsingum um afmörkun Gulllágar og virðist telja það alfarið á ábyrgð sveitarfélagsins að gefa upplýsingar um hana sem og allar aðrar afmarkanir landeigna. Það væri umtalsvert einfaldari staða fyrir byggingar- og skipulagsfulltrúa ef allar afmarkanir landeigna lægu fyrir með skilmerkilegum hætti en það væri ekki svo einfalt. Stofnun Byggðavegar 3 tengist málinu ekkert eins og kærendur virðist með einhverjum hætti gefa sér og séu sannfærðir um að sú lóð sé nákvæmlega úr Gulllág, án þess að færa fyrir því nokkur rök. Þó sé vitað að Gulllág hafi á sínum tíma verið keypt af þáverandi eigendum Sandgerðisjarðarinnar og því hafi Sandgerðisbær talið að málið þyrfti að leysa á milli þeirra sem hafi gert tilkall til spildunnar annars vegar og eigenda Sandgerðis­jarðarinnar hins vegar. Það hljóti alltaf fyrst og fremst að vera á ábyrgð landeigenda að sinna eign sinni, afmörkun hennar, umhirðu o.þ.h.

Niðurstaða: Samkvæmt 47. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 skulu sveitarstjórnir láta gera skrá yfir allar jarðir, lönd og lóðir innan sveitarfélags í landeignaskrá sem skal vera hluti af fasteigna­skrá. Skal skráin hafa tilvísun í afmörkun og eignarhald í samræmi við þinglýstar heimildir. Þá er í 48. gr. laganna kveðið á um að óheimilt sé að skipta jörðum, löndum eða lóðum eða breyta landamerkjum og lóðamörkum nema samþykki sveitarstjórnar komi til. Var erindi kærenda um afmörkun lóðar réttilega beint til skipulagsyfirvalda Sandgerðisbæjar, nú Suðurnesjabæjar, samkvæmt framangreindum lagaákvæðum.

Fyrir liggur afsal, sem fært var í afsals- og veðmálabók Gullbringu- og Kjósarsýslu 14. nóvember 1933, fyrir 1.800 ferfaðma lóðarspildu í Sandgerði sem sögð er liggja ofarlega í svokallaðri „Gulllág“ og þegar sé afmörkuð með fjórum hælum. Er það sú lóðarspilda sem kærendur telja til eignar og mál þetta snýst um. Í hinni kærðu afgreiðslu skipulagsyfirvalda Sandgerðisbæjar er tekið fram að tilvist lóðarspildunnar sé óumdeild en ekki liggi fyrir upplýsingar um staðsetningu hennar, þrátt fyrir eftirgrennslan, sem unnt væri að styðjast við hvað varði afmörkun spildunnar.

Í erindi kærenda til bæjaryfirvalda felst beiðni um afmörkum landa í einkaeigu sem í eðli sínu varðar eignaréttindi sem sveitarstjórnir hafa ekki heimild til að skera úr um lögum samkvæmt. Á úrlausn slíkra álitaefna eftir atvikum undir dómstóla náist ekki samkomulag milli landeigenda um úrlausn mála.

Með hliðsjón af framangreindu gátu bæjaryfirvöld ekki orðið við erindi kærenda þar sem óvissa ríkir um staðsetningu umræddrar lóðarspildu. Stendur hin kærða afgreiðsla bæjarstjórnar Sandgerðis­bæjar af þeim sökum óröskuð.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu um ógildingu afgreiðslu sviðsstjóra Sandgerðisbæjar, f.h. bæjarstjórnar, frá 3. janúar 2018 á erindi kærenda, dags. 27. nóvember 2017, um afmörkun 1.800 ferfaðma lóðar­spildu kærenda innan marka sveitarfélagsins.

18/2017 Flugvellir

Með

Árið 2018, föstudaginn 20. júlí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 18/2017, kæra vegna ákvörðunar bæjarstjórnar Reykjanesbæjar frá 1. nóvember 2017 um að samþykkja deiliskipulag fyrir Flugvelli í Reykjanesbæ.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 8. febrúar 2017, er barst nefndinni 10. s.m., kærir Bílrúðuþjónustan ehf., Grófinni 15c, Reykjanesbæ, þá ákvörðun bæjarstjórnar Reykjanesbæjar frá 1. nóvember 2017 að samþykkja deiliskipulag fyrir Flugvelli í Reykjanesbæ. Þess er krafist að deiliskipulagið verði fellt úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjanesbæ 10. mars 2017.

Málavextir: Kærandi er eigandi fasteignarinnar Iðavalla 5b, Reykjanesbæ samkvæmt afsali, dagsettu 3. desember 2015. Stærð lóðar fasteignarinnar samkvæmt þinglýstum lóðarleigusamningi, dags. 8. febrúar 1980, er 2.310 m2. Fyrrum eigendur Flugvalla og Iðavalla 5b skrifuðu undir samkomulag, dags. 10. september 2008, þar sem kveðið var á um breytingu á lóðamörkum, þannig að þau yrðu 15 m frá vesturgafli hússins á lóð nr. 5b við Iðavelli. Lóðin Flugvellir 6 minnkaði við þá breytingu um 350 m2 og lóðin Iðavellir 5b stækkaði að sama skapi. Framangreindu samkomulagi var ekki þinglýst og ákvæðum lóðarleigusamnings ekki breytt í samræmi við samkomulagið. Þáverandi eigandi Iðavalla 5b, sem gerði áðurnefnt samkomulag, seldi fasteignina ásamt lóðarréttindum með afsali, dags. 14. október 2009. Í afsalinu er skráð stærð lóðar 2.310 m2. Eigninni var afsalað til Landsbanka Íslands með afsali, dags. 8. október 2015, þar sem vísað var til lóðarleigusamnings og var eigninni síðan afsalað til kæranda eins og fyrr greinir. Samkomulags um lóðabreytinguna var ekki getið í nefndum afsölum.

Áður en kærandi gekk frá afsali vegna kaupa á Iðavöllum 5b hafði hann samband við skipulags- og byggingaryfirvöld í Reykjanesbæ til að fá staðfestingu á stærð lóðarinnar. Byggingarfulltrúinn staðfesti með tölvupósti, dags. 23. nóvember 2015, að lóðamörk væru í samræmi við framangreint samkomulag og fylgdi lóðarblað af Iðavöllum 5, sem uppfært var 20. nóvember 2015. Var nýtingarhlutfall lóðarinnar skráð á lóðarblaðið og stærð hennar talin 5.220 m2.

Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Reykjanesbæjar 8. desember 2015 var tekin fyrir beiðni um stækkun lóðar Flugvalla 6, þar sem bókað var að ekki lægi fyrir samþykkt deiliskipulag um svæðið en stefnt væri að því að ljúka því á næsta ári. Breytingar á svæðinu yrðu ekki leyfðar fram að því. Tillaga að deiliskipulagi fyrir Flugvelli var auglýst til kynningar 12. apríl 2016 og gerði kærandi athugasemdir við tillöguna og fór m.a. fram á að lóðamörk milli Iðavalla 5b og Flugvalla 6 yrðu áfram í samræmi við áðurgreint samkomulag. Bæjaryfirvöld svöruðu athugasemdum kæranda með bréfi dags. 27. júní 2016 og kváðust tilbúin til færa lóðamörkin úr 3,15 m í 10 m frá vesturgafli húss hans. Var jafnframt tekið fram að bæjarráð hefði samþykkt bókun um að samkomulagið frá 10. september 2008 væri ógilt þar sem einungis annar eigenda Iðavalla 5b hefði skrifað undir það. 

Reykjanesbær sendi Skipulagsstofnun deiliskipulag Flugvalla til yfirferðar 24. júní 2016 og gerði stofnunin athugasemdir við það með bréfi, dags. 11. júlí 2016. Var m.a. gerð athugasemd við að ekki væri tekin afstaða til allra efnisatriða athugasemda lóðareigenda Iðavalla 5b. Deiliskipulagsuppdrætti og skipulagsskilmálum var í kjölfarið breytt með tilliti til athugasemda Skipulagsstofnunar og tillagan svo breytt auglýst til kynningar að nýju frá 18. ágúst 2016 til 29. september s.á. Bæjarstjórn Reykjanesbæjar samþykkti deiliskipulagið á fundi 1. nóvember 2016 og tilkynnti Skipulagsstofnun með bréfi, dags. 17. nóvember s.á., að ekki væri gerð athugasemd við að hið nýja deiliskipulag Flugvalla yrði auglýst í B-deild Stjórnartíðinda. Deiliskipulagið tók síðan gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 25. janúar 2017.

Málsrök kæranda: Byggir kærandi kröfu sína á því að réttaröryggi hans hafi ekki verið tryggt við meðferð málsins og því fari deiliskipulagið m.a. gegn 1. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Þá hafi málsmeðferðin farið gegn stjórnsýslulögum og meginreglum stjórnsýsluréttar. Reykjanesbær hafi ekki breytt afmörkun lóðanna í þinglýstum gögnum þrátt fyrir undirritun yfirlýsingar þess efnis, en það hafi verið í höndum sveitarfélagsins, sbr. 48. gr. skipulagslaga. Reykjanesbæ hafi borið að leiðbeina kæranda um stöðu mála, þ.e. að framangreindu samkomulagi hefði ekki verið þinglýst, og hafi þannig brotið gegn 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Því sé mótmælt að samkomulagið frá 10. september 2008 sé ógilt, enda hafi sveitarfélaginu borið að leiðbeina aðilum máls svo að rétt væri staðið að undirritun skjalsins. Þá hafi sveitarfélagið brotið gegn rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga með því að leggja til lóðamörk í deiliskipulagstillögu, þvert gegn undirrituðum gögnum og betri vitund.

Málsrök Reykjanesbæjar:
Af hálfu bæjaryfirvalda er vísað til þess að umrætt deiliskipulag sé í samræmi við aðalskipulag og þinglesnar heimildir og ekki haldið neinum efnisannmörkum. Gætt hafi verið viðeigandi ákvæða skipulagslaga nr. 123/2010 við gerð og undirbúning þess. Benda bæjaryfirvöld á að yfirlýsing, dags. 21. júlí 2008,  um stækkun lóðar Flugvalla 6 úr 6.076 m2 í 6.426 m2, hafi verið aflýst af sýslumanni fyrir mistök, en þau mistök hafi nú verið leiðrétt.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti ákvörðunar bæjarstjórnar Reykjanesbæjar frá 1. nóvember 2016 um að samþykkja deiliskipulag fyrir Flugvelli í Reykjanesbæ. Er ágreiningur um stærð lóðanna Flugvalla 6 og Iðavalla 5b og hvernig mörkum þeirra skuli hagað.

Umrædd skipulagstillaga var auglýst til kynningar með almennum hætti í samræmi við 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og að lokinni kynningu var framkomnum athugasemdum svarað. Tillagan var send Skipulagsstofnun til yfirferðar í samræmi við 42. gr. laganna og í kjölfar athugasemda stofnunarinnar var tillögunni breytt og hún auglýst að nýju. Bæjarstjórn samþykkti hina breyttu skipulagstillögu og var hún send Skipulagsstofnun til yfirferðar að nýju og var ekki gerð athugasemd af hálfu stofnunarinnar við að deiliskipulagið öðlaðist gildi með auglýsingu í Stjórnartíðindum. Var málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar því í samræmi við  ákvæði skipulagslaga. Samkvæmt þinglýstum gögnum er lóðin Iðavellir 5b 2.310 m2 að stærð en lóðin Flugvellir 6 er 6.426 m2. Eru stærðir lóða í hinu kærða deiliskipulagi í samræmi við þinglýstar heimildir sem ekki hefur verið hnekkt.

Í auglýsingu um gildistöku deiliskipulagsins í B-deild Stjórnartíðinda frá 25. janúar 2017 kemur fram að málsmeðferð skipulagstillögunnar hafi verið samkvæmt 44. gr. laganna sem fjallar um grenndarkynningu. Þessi rangfærsla raskar þó ekki gildi ákvörðunarinnar enda liggur fyrir að meðferð málsins var í samræmi við 41. gr. skipulagslaga.

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála starfar samkvæmt lögum nr. 130/2011 og hefur það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Einskorðast valdheimildir úrskurðarnefndarinnar lögum samkvæmt við endurskoðun á lögmæti þeirra ákvarðana sem undir hana verða bornar. Er það því ekki á færi nefndarinnar að taka til úrlausnar álitamál er snúa að beinum eða óbeinum eignarréttindum og gildi þinglýstra heimilda í því sambandi. 

Með vísan til þess sem að framan er rakið og með hliðsjón af því að deiliskipulag getur ekki ráðstafað eignaréttindum með bindandi hætti liggja ekki fyrir þeir annmarkar á hinni kærðu ákvörðun sem leitt geta til ógildingar hennar.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar bæjarstjórnar Reykjanesbæjar frá 1. nóvember 2017 um að samþykkja deiliskipulag Flugvalla í Reykjanesbæ. 

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                          Þorsteinn Þorsteinsson