Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

75/2025 Fossnes

Með

Árið 2025, miðvikudaginn 4. júní, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 75/2025, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Skeiða- og Gnúpverjahrepps frá 16. apríl 2025 um að samþykkja umsókn um framkvæmdaleyfi fyrir töku á 30.000 m3 af efni á svæði E26 í landi Fossness.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður

um kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 10. maí 2025, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi, Stöðulfelli, þá ákvörðun sveitarstjórnar Skeiða- og Gnúpverjahrepps frá 16. apríl 2025 að samþykkja umsókn um framkvæmdaleyfi fyrir töku á 30.000 m3 af efni á svæði E26 í landi Fossness. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Jafnframt er þess krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar til bráðabirgða á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Verður nú tekin afstaða til framkominnar stöðvunarkröfu, sbr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Málsatvik og rök: Hinn 12. febrúar 2025 var á fundi skipulagsnefndar Umhverfis- og tæknisviðs Uppsveita bs. tekin fyrir umsókn um leyfi til efnistöku í landi Fossnes, annars vegar 200.000 m3 af efni á svæði E26 og 30.000 m3 af efni á svæði E25. Mæltist nefndin til þess að framlögð umsókn yrði samþykkt á grundvelli heimilda í aðalskipulagi og því umhverfismati sem fram hefði farið vegna Hvammsvirkjunar. Einnig mæltist hún til þess að tekin yrði saman greinargerð og vakti athygli á að framkvæmdin væri háð leyfi Fiskistofu. Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps tók umsóknina fyrir á fundi sínum 19. s.m. þar sem hún samþykkti að framkvæmdaleyfi yrði veitt þegar leyfi Fiskistofu lægi fyrir. Á fundi sveitarstjórnar 16. apríl 2025 var tekin fyrir uppfærð umsókn vegna töku efnis á svæði E26 þar sem magn efnis var tilgreint 30.000 m3. Samþykkti sveitarstjórn umsóknina á grundvelli heimilda í aðalskipulagi.

Kærandi vísar til þess að hann hafi lögvarða hagsmuni af úrlausn kærumálsins þar sem hann sé félagsmaður í Veiðifélagi Þjórsá og hafi því veiðirétt í ánni. Ekki séu nein gögn að finna með bókuninni á vefsíðu sveitarfélagsins. Hvorki sé getið leyfishafa né neins af því sem mælt sé fyrir um í reglugerð nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi. Rannsóknir sýni að á efnistökusvæðinu sé ríkulegt uppeldi seiða og að þar séu góð uppeldissvæði fyrir lax. Í tengslum við hina kærðu ákvörðun hafi ekki verið fjallað um áhrif framkvæmdarinnar á vatnshlotin Þjórsá 1 og Þverá eða önnur vatnshlot er kunni að verða fyrir áhrifum af efnistökunni í samræmi við lög nr. 36/2011 um stjórn vatnamála. Stjórnvaldi sé óheimilt að heimila efnistöku án slíks mats, sbr. m.a. úrskurð úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála frá 21. desember 2023 í máli nr. 127/2023. Sé því afar brýnt að framkvæmdir verði stöðvaðar nú þegar, en ella yrði kæruréttur kæranda fyrir borð borinn.

Í umsögn sveitarfélagsins er bent á að efnistaka hafi átt sér stað á þessu svæði í langan tíma sem og víða í grenndinni. Unnið sé að því að færa þau mál í rétt horf hvað leyfisveitingar varði. Efnistakan sé ekki í virkum árfarvegi og því séu áhöld um hvort framkvæmdin falli yfirhöfuð undir lög nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði. Framkvæmdaleyfi hafi ekki verið gefið út og verði ekki gert nema að fengnu leyfi Fiskistofu, sem óvíst sé hvenær verði. Engar forsendur séu til að fallast á stöðvunarkröfuna, en efnistakan hafi ekki haft neikvæð áhrif á lífríki. Þá séu hvorki fyrir hendi brýnir hagsmunir kæranda né almennings fyrir stöðvun framkvæmdanna.

Í svörum kæranda við umsögn sveitarfélagsins kemur fram að athygli veki að því sé ekki borið á móti að efnistaka fari fram. Það sé því ágreiningslaust að hún eigi sér stað án lögbundins leyfis Fiskistofu. Einnig fari framkvæmdin fram í skjóli sveitarfélagsins sem leyfisveitanda þrátt fyrir að sveitarfélagið segist ekki hafa gefið út leyfi.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda séu þær hafnar eða yfirvofandi, sbr. 2. mgr. sömu lagagreinar. Þá getur úrskurðarnefndin að sama skapi frestað réttaráhrifum ákvörðunar komi fram krafa um það af hálfu kæranda, sbr. 3. mgr. 5. gr. Með sama hætti er kveðið á um það í 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar til bráðabirgða meðan málið er til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan er sú að kæra til æðra stjórnvalds frestar ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og eru heimildarákvæði fyrir stöðvun framkvæmda eða frestun réttaráhrifa kærðrar ákvörðunar undantekning frá nefndri meginreglu sem skýra ber þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um stöðvun framkvæmda eða frestun réttaráhrifa. Geta þar verið af þýðingu réttmætir hagsmunir allra aðila máls auk þess sem horfa þarf til þess hversu líklegt er að ákvörðuninni verði breytt. Almennt mælir það á móti því að fallast á kröfu um stöðvun ef fleiri en einn aðili eru að máli og þeir eiga gagnstæðra hagsmuna að gæta. Einnig geta komið til álita þau tilvik þar sem kæruheimild verður í raun þýðingarlaus ef framkvæmdir eru ekki stöðvaðar, svo sem ef sú framkvæmd sem krafist er stöðvunar á er óafturkræf.

Fyrir liggur í máli þessu að sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkti 16. apríl 2025 umsókn um framkvæmdaleyfi fyrir töku á 30.000 m3 af efni á svæði E26 í landi Fossness. Kærandi bendir á að efnistaka eigi sér nú þegar stað á umræddu svæði og hefur því ekki verið mótmælt af hálfu sveitarfélagsins. Aftur á móti kemur fram í umsögn þess að ekkert framkvæmdaleyfi hafi verið gefið út og verði ekki gert fyrr en leyfi Fiskistofu liggi fyrir. Með hliðsjón af því verður ekki talið að efni séu til að stöðva framkvæmdir, enda fara þær framkvæmdir sem kærandi vísar til að séu nú í gangi ekki fram á grundvelli hinnar kærðu ákvörðunar. Þykir af því tilefni rétt að benda á að í 53. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er mælt fyrir um þvingunarúrræði sem skipulagsfulltrúi getur beitt ef framkvæmdaleyfisskyld framkvæmd er hafin án þess að framkvæmdaleyfi sé fengið fyrir henni. Unnt er að beina erindi til skipulagsfulltrúa um beitingu þvingunarúrræða á þeim grundvelli en synji hann þeirri beiðni er eftir atvikum hægt að kæra þá ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar. Þá þykir jafnframt rétt að benda á að verði framkvæmdaleyfi gefið út er hægt að óska eftir endurupptöku á bráðabirgðaúrskurði þessum með vísan til 2. töluliðar 24. gr. stjórnsýslulaga.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða á grundvelli hinnar kærðu ákvörðunar sveitarstjórnar Skeiða- og Gnúpverjahrepps frá 16. apríl 2025 um að samþykkja umsókn um framkvæmdaleyfi fyrir töku á 30.000 m3 af efni á svæði E26 í landi Fossness.

157/2024 Tungnáreyrar

Með

Árið 2025, fimmtudaginn 13. mars, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 157/2024, kæra á tveimur ákvörðunum sveitarstjórnar Rangárþings ytra, annars vegar frá 9. október 2024 um að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir allt að 50.000 m3 efnistöku á Tungnaáreyrum og hins vegar frá 13. nóvember s.á. um að samþykkja í þess stað nýtt framkvæmdaleyfi fyrir allt að 40.000 m3 efnistöku á Tungnaáreyrum.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 11. nóvember 2024, er barst nefndinni sama dag, kæra samtökin Náttúrugrið, þá ákvörðun sveitarstjórnar Rangárþings ytra frá 9. október 2024 að samþykkja umsókn Landsvirkjunar um framkvæmdaleyfi á allt að 50.000 m3 efnistöku á 5 ha svæði á Tungnaáreyrum. Með tölvubréfi til úrskurðarnefndarinnar 2. janúar 2025 kæra samtökin Náttúrugrið jafnframt ákvörðun sveitarstjórnar Rangárþings ytra frá 13. nóvember 2024 um að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir allt að 40.000 m3 efnistöku á 2,4 ha svæði á Tungnaáreyrum.

Skilja verður málatilbúnað kæranda svo að krafist sé ógildingar hinna kærðu ákvarðana. Jafnframt er krafist stöðvunar framkvæmda sé efnistaka hafin eða hún yfirvofandi. Þykir málið nægilega upplýst til að taka það til efnislegrar meðferðar og verður því ekki kveðinn upp úrskurður um stöðvun framkvæmda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Rangárþingi ytra 13. desember 2024.

Málavextir: Hinn 15. september 2015 lagði Landsvirkjun fram frummatsskýrslu um Búrfellslund, vindorkuver með allt að 200 MW uppsettu rafafli, norðaustan við Búrfell í Skeiða- og Gnúpverjahreppi og Rangárþingi ytra, til athugunar hjá Skipulagsstofnun samkvæmt þágildandi lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Í mars 2016 var lögð fram matsskýrsla þar sem m.a. kom fram að fjöldi vindmylla yrði 58–67 og hámarkshæð þeirra, miðað við spaða í efstu stöðu, yrði 150 m. Þá voru kynntar þrjár útfærslur á afmörkun framkvæmdarinnar og gerð grein fyrir mögulegri skiptingu hverrar þeirrar í fjóra 50 MW áfanga. Í matsskýrslunni kom fram að gerð hefði verið athugun á mögulegum efnistökustöðum fyrir framkvæmdir í Búrfellslundi og væri efnisþörf áætluð um 700–1.000 m3. Stefnt væri að því að stærstur hluti efnis yrði fenginn úr tveimur námum, Guðmundareyri og úr frárennslisskurði Sultartangavirkjunar vestan Þjórsár. Einnig yrði endurnýtt efni sem kæmi úr uppgreftri af framkvæmdasvæðinu. Kæmi til þess að fyrrnefndar námur hentuðu ekki að öllu leyti við uppbyggingu fyrirhugaðs Búrfellslundar yrði efni sótt í aðrar námur. Tvær þeirra, Trippavað og Tungnaá væru skilgreindar í viðkomandi aðal- og/eða deiliskipulagsáætlunum. Væru efnistökusvæði þau sem ætlunin væri að nýta hvorki á svæðum sem hefðu verndargildi samkvæmt aðalskipulagi né náttúruverndarlögum og yrðu óveruleg áhrif á jarðmyndanir með verndargildi.

Hinn 21. desember 2016 lá fyrir álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum Búrfellslundar. Var niðurstaða stofnunarinnar sú að matsskýrslan uppfyllti að hluta skilyrði laga og reglugerðar um mat á umhverfisáhrifum hvað það varði að umhverfisáhrifum hafi verið lýst á fullnægjandi hátt svo sem nánar var lýst í álitinu. Hvað efnistöku vegna framkvæmdarinnar varðaði var bent á að hún væri fyrirhuguð á sama svæði og nýtt hefði verið við stækkun Búrfellsvirkjunar. Í skipulagsvinnu vegna þessarar framkvæmdar og umhverfismati þeirra skipulagstillagna þyrfti að gera nánari grein fyrir áformaðri efnistöku og samlegðaráhrifum með efnistöku vegna stækkunar Búrfellsvirkjunar.

Taldi Skipulagsstofnun að niðurstöður um mikil umhverfisáhrif gæfu tilefni til að skoða hvort önnur landsvæði hentuðu betur fyrir uppbyggingu af þessu tagi og umfangi. Þá kynni að vera tilefni til að skoða hvort umfangsminni uppbygging ætti betur við á þessu svæði, bæði hvað varðaði hæð og fjölda vindmylla. Þyrfti frekara mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar að gerast á öðrum vettvangi í ljósi þess að matsferli framkvæmdarinnar samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum framkvæmda, eins og hún væri nú áformuð, lyki með álitinu. Einnig kynni framkvæmdin að koma aftur til skoðunar á grundvelli laga um mat á umhverfisáhrifum framkvæmda yrðu breytingar á framkvæmdaáformum.

Um Búrfellslund er fjallað í svonefndri rammaáætlun, þ.e. verndar- og orkunýtingaráætlun skv. lögum nr. 48/2011, þar sem er mótuð stefna á landsvísu um hvort landsvæði þar sem er að finna virkjunarkosti megi nýta til orkuvinnslu eða hvort ástæða sé til að friðlýsa þau eða kanna frekar. Virkjunarkostir í vindorku komu í fyrsta sinn til umfjöllunar verkefnisstjórnar 3. áfanga rammaáætlunar og í lokaskýrslu hennar, dags. í ágúst 2016, var lagt til að Búrfellslundur yrði settur í biðflokk, en í þann flokk er virkjunarkostum skipað þegar talið er að afla þurfi frekari upplýsinga. Í febrúar 2020 birti Landsvirkjun skýrslu um endurhönnun Búrfellslundar með breyttu umfangi þar sem gert var ráð fyrir að uppsett afl virkjunarinnar yrði 120 MW, vindmyllur yrðu 30 í stað 58–67 og afl hverrar þeirrar 4–5 MW í stað 3–3,5 MW áður. Hæð vindmylla var óbreytt og framkvæmdasvæðið minnkað í 18 km2. Ársframleiðsla raforku var áætluð 440GWst í stað 705GWst áður. Tekið var fram að styrkur staðsetningarinnar fælist einnig í þeim innviðum sem þegar væru fyrir hendi og hægt yrði að nýta við uppbyggingu og rekstur virkjunarkostsins, m.a. efnisnámur. Í febrúar 2022 mælti umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra fyrir tillögu til þingsályktunar um rammaáætlun, þar sem lagt var til að Búrfellslundur yrði í biðflokki. Við síðari umræðu um ályktunina lágu fyrir álit og breytingartillaga meirihluta umhverfis- og samgöngunefndar og urðu lyktir þær að Búrfellslundur var settur í orkunýtingarflokk, sbr. samþykkt þingsályktunar nr. 24/152.

Hinn 24. og 28. maí 2024 tóku gildi með auglýsingum í B-deild Stjórnartíðinda breyting á Aðalskipulagi Rangárþings ytra 2016–2028 vegna Búrfellslundar og deiliskipulag fyrir allt að 120 MW vindlundi við Vaðöldu. Landsvirkjun var veitt virkjunarleyfi Orkustofnunar 12. ágúst 2024 vegna Búrfellslundar. Var sú ákvörðun kærð til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála og með úrskurði uppkveðnum 5. febrúar 2025 í máli nr. 98/2024 hafnaði meirihluti nefndarinnar kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunarinnar. Ákvörðun sveitarstjórnar Rangárþings ytra frá 11. september 2024 um að samþykkja að veita Landsvirkjun framkvæmdaleyfi til vegagerðar vegna Búrfellslundar sætti einnig kæru til úrskurðarnefndarinnar sem með úrskurði uppkveðnum 4. mars 2025 í máli nr. 103/2024 hafnaði kröfu um ógildingu ákvörðunarinnar.

Með umsókn, dags. 16. september 2024, óskaði Landsvirkjun eftir því að sveitarstjórn Rangárþings ytra gæfi út framkvæmdaleyfi fyrir efnistöku á allt að 50.000 m3, á allt að 5 ha svæði á efnistökustað E70 við Tungnaá. Tekið var fram að fyrirhuguð efnistaka væri ætluð til framkvæmda við vindorkuver við Vaðöldu sem gengið hefði undir vinnuheitinu Búrfellslundur. Á fundum skipulags- og umferðarnefndar Rangárþings ytra 19. s.m. og 3. október s.á. var lagt til við sveitarstjórn að heimild yrði veitt fyrir útgáfu framkvæmdaleyfis. Var niðurstaða nefndarinnar samþykkt á fundi sveitarstjórnar 9. október s.á. Í október 2024 óskaði Rangárþing ytra eftir umsögn forsætisráðuneytisins varðandi efnistökuna, sbr. 3. mgr. 3. gr. laga nr. 58/1998 um þjóðlendur. Barst umsögn frá ráðuneytinu 21. s.m. þar sem fram kom að af hálfu þess væri ekki gerð athugasemd við að leyfið yrði veitt.

Með tölvubréfi Landsvirkjunar til Rangárþings ytra 5. nóvember 2024 var bent á að eftir nánari athugun og vettvangsskoðun hefði komið í ljós að búið væri að taka um 10.000 m3 á svæðinu og væri hér með óskað eftir því að gefið yrði út framkvæmdaleyfi fyrir 40.000 m3 á um 2,4 ha svæði. Málið var tekið fyrir á fundi skipulags- og umferðarnefndar 7. s.m. þar sem fram kom að Landsvirkjun hefði óskað eftir breytingum á fyrrnefndri umsókn um framkvæmdaleyfi. Málið væri því endurupptekið að beiðni félagsins á grundvelli nýrra gagna og upplýsinga. Fyrirhuguð efnistaka væri ætluð til framkvæmda við vindorkuverið við Vaðöldu og væri framkvæmdin ekki matsskyld. Lagt var til við sveitarstjórn að samþykkt yrði útgáfa framkvæmdaleyfis enda væri efnistaka í samræmi við skipulagsáætlanir. Þá væri ekki talin þörf á því að kalla eftir umsögnum að nýju með hliðsjón af því að breytingin fæli í sér að dregið væri úr fyrirhuguðum framkvæmdum. Var lagt til að skipulagsfulltrúa yrði falið að gefa út leyfið og hafa eftirlit með framkvæmdum. Á fundi sveitarstjórnar 13. nóvember 2024 var greind niðurstaða samþykkt og gaf skipulagsfulltrúi út framkvæmdaleyfi degi síðar fyrir efnistöku á allt að 40.000 m3 af steypu- og fyllingarefni, á um 2,4 ha svæði á efnistökustað E70 á Tungnaáreyrum.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að mál þetta sé nátengt þremur öðrum kærumálum hjá úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála sem varða vindorkuverið Búrfellslund. Umfjöllun um þau verði ekki slitin í sundur með vísan til þeirra grunnraka umhverfismatslöggjafar að ekki sé heimilt að skilja að umfjöllun um einstaka þætti framkvæmdar, sbr. einnig tölulið 13.02 í 1. viðauka og v-lið 3. töluliðar 2. viðauka laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana.

Hin kærða ákvörðun varði hluta af umhverfismetinni framkvæmd. Ákvörðunin hafi verið tekin án þess að athugun hafi farið fram á samrýmanleika efnistökunnar við bindandi umhverfismarkmið laga nr. 36/2011 um stjórn vatnamála, málsmeðferðarreglur laga nr. 111/2021 og skipulagslaga nr. 123/2010. Ekki hafi heldur verið gætt að því hvort leyfi samkvæmt lögum nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði lægi fyrir eða leyfi Orkustofnunar til efnistöku í þjóðlendum samkvæmt lögum nr. 57/1998 um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu. Um sé að ræða framkvæmd sem hafi verið hluti leyfisbeiðnar Landsvirkjunar frá 2. september 2024 og kærumál nr. 103/2024 hjá úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála fjalli um. Engar skýringar komi fram í gögnum máls hvers vegna leyfisbeiðnum sé skipt upp og þær afgreiddar með mörgum leyfum. Ljóst sé að það geri almenningi verulega örðugt fyrir að njóta þátttökuréttar síns.

Málsrök Rangárþings ytra: Af hálfu sveitarfélagsins er gerð krafa um frávísun málsins á þeim grundvelli að hin kærða ákvörðun hafi ekki lengur gildi þar sem hún hafi verið endurupptekin vegna beiðni Landsvirkjunar þar um. Kærandi eigi því ekki lögvarða hagsmuni af úrlausn kærunnar. Verði ekki á það fallist sé farið fram á frávísun kærumálsins með vísan til þess að kæruefnið uppfylli ekki skilyrði 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Ljóst sé að gildandi ákvörðun sveitarstjórnar um að samþykkja umsókn um framkvæmdaleyfi á efnistöku á allt að 40.000 m3 falli ekki undir gildissvið laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda- og áætlana, sbr. tölulið 2.02 í 1. viðauka laganna. Vísað sé til fordæmis úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í úrskurði nefndarinnar frá 9. október 2024 í máli nr. 90/2024. Þá beri úrskurðarnefndinni að skoða aðild kæranda sjálfstætt í hverju máli.

Verði ekki fallist á frávísun málsins sé bent á að engir ágallar séu á þeirri ákvörðun sveitarfélagsins að samþykkja framkvæmdaleyfisumsókn Landsvirkjunar. Mótmælt sé þeim fullyrðingum kæranda að efnistaka sú sem um sé rætt í máli þessu sé hluti framkvæmdar við uppbyggingu á vindorkuveri í Vaðöldu. Þótt efnistakan hafi verið tilgreind í matsskýrslu framkvæmdaraðila fyrir Búrfellslund sé engu að síður um sitthvora framkvæmdina að ræða, enda geti framkvæmdaraðili eins nýtt efni til vegagerðar frá öðrum efnistökusvæðum. Ekki verði einungis nýtt efni frá E70 í allar þær framkvæmdir sem fylgi uppbyggingu vindorkuversins við Vaðöldu. Það sé ekki hægt að telja efnistöku á allt öðrum stað en á deiliskipulagssvæði vindorkuversins sem sömu framkvæmd heldur sé um að ræða tvær framkvæmdir í skilningi laga nr. 111/2021. Landsvirkjun sé ekki bundið við að taka efni úr tiltekinni efnisnámu til uppbyggingar vindorkuversins eða tengdra framkvæmda. Töluliður 13.02 í 1. viðauka sömu laga eigi ekki við um efnistökuna, enda sé ekki um að ræða breytingar eða viðbætur á framkvæmd sem sætt hafi mati á umhverfisáhrifum. Þá verði hvorki séð að skylt sé að umhverfismeta efnistökuna, sbr. 2. kafla í 1. viðauka laganna, né að hún sé tilkynningarskyld til Skipulagsstofnunar skv. 19. gr. laga nr. 111/2021.

Því sé mótmælt að málsmeðferð Rangárþings ytra hafi verið ómálefnaleg eða að almenningi hafi á einhvern hátt verið gert erfitt fyrir að kynna sér málið. Sveitarfélagið birti fundargerðir nefnda og sveitarstjórnar á heimasíðu sinni sem og framkvæmdaleyfi. Þá hafi ekki þurft að afla leyfis Fiskistofu fyrir efnistökunni þar sem framkvæmdin hafi engin áhrif á t.a.m. fiskigengd.

 Athugasemdir Landsvirkjunar: Leyfishafi fer fram á frávísun málsins á grundvelli sömu sjónarmiða og fram koma í umsögn Rangárþings ytra. Er þar að auki bent á að málið hafi verið endurupptekið hjá sveitarfélaginu áður en framkvæmdaleyfi hafi verið gefið út og því beri úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála að vísa kærumálinu frá, sbr. athugasemdir við 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 í frumvarpi því er orðið hafi að lögunum, þar sem segi að ef óskað sé eftir endurupptöku áður en mál sé kært beri æðra stjórnvaldi almennt að vísa málinu frá.

Verði ekki fallist á framangreint sé bent á að afgreiðsla málsins hafi verið í fullu samræmi við ákvæði laga og reglugerða um veitingu framkvæmdaleyfa. Ekki hvíli skylda á sveitarfélaginu að afgreiða hvern og einn hluta umsóknar um leyfi á sama tíma eða með útgáfu sama framkvæmdaleyfis. Ljóst sé að umfangsmiklar framkvæmdir á borð við þá sem hér um ræði feli í sér marga framkvæmdarþætti sem hver og einn geti krafist sjálfstæðs leyfis. Málsmeðferð sveitarfélagsins hafi verið opinber og öllum ljós sem áhuga hafi á að fylgjast með. Brjóti það í engu gegn sjónarmiðum umhverfisréttar, s.s. um þátttöku almennings, þó að almenningur þurfi eftir atvikum að fylgjast með leyfisveitingum sveitarfélagsins um einstaka hluta umfangsmikilla framkvæmda.

Framkvæmdir vegna uppbyggingar vindorkuversins hafi nú þegar sætt ítarlegri og lögbundinni málsmeðferð innan stjórnsýslunnar, þ.m.t. af hálfu leyfisveitenda og umsagnaraðila. Auk þess hafi sveitarfélagið, sem handhafi skipulagsvalds á svæðinu, tekið afstöðu til nýtingar á efni við Tungnaáreyrar í aðalskipulagi, en ávallt hafi legið fyrir þörf á efnistöku vegna framkvæmda við Búrfellslund, s.s. úr Tungnaáreyrum. Svæðið hafi endurtekið verið nýtt til efnistöku um áratugaskeið allt frá því að uppbygging við Búðarhálsvirkjun hafi hafist. Umrædd efnistaka sé ekki úr námu heldur sé aðeins um að ræða töku yfirborðsefnis á svæðinu sem ekki sé framkvæmd með uppgreftri. Efnistakan falli hvorki undir gildissvið laga nr. 36/2011 um stjórn vatnamála né laga nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði. Þrátt fyrir nafngift námunnar beri að árétta að öll eiginleg efnistaka fari fram í meira en 150 m fjarlægð frá bakka og vatnsfarvegi Tungnaár.

 Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi telur ljóst að með síðari ákvörðun sveitarstjórnar um að veita framkvæmdaleyfi til efnistöku við Tungnaáreyrar hafi hvort tveggja leyfishafi sem og stjórnvald verið að koma sér undan ákvæðum laga um mat á umhverfisáhrifum með því að færa rúmmál efnistökunnar niður fyrir þröskuldsviðmið laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Um sé að ræða málamyndaákvörðun og beri úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála að fjalla um fyrri ákvörðunina líka. Jafnframt sé bent á að samkvæmt tölvupósti lögmanns stjórnvalds finnist ekki leyfi fyrir þeirri 10.000 m3 efnistöku sem leyfishafi haldi fram að hafi þegar átt sér stað á umræddum stað.

———-

Niðurstaða: Í máli þessu er annar vegar deilt um ákvörðun sveitarstjórnar Rangárþings ytra frá 9. október 2024 um að veita framkvæmdaleyfi fyrir allt að 50.000 m3 efnistöku á 5 ha svæði á Tungnaáreyrum og hins vegar ákvörðun sveitarstjórnar frá 13. nóvember s.á. um að veita framkvæmdaleyfi fyrir allt að 40.000 m3 efnistöku á 2,4 ha svæði á Tungnaáreyrum.

Það er skilyrði kæruaðildar að málum fyrir úrskurðarnefndinni að kærandi eigi lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun. Umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtök teljast eiga lögvarinna hagsmuna að gæta fyrir nefndinni að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, sbr. nánar 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011, um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Meðal ákvarðana sem slíkum samtökum er heimilt að bera undir nefndina eru ákvarðanir um leyfi vegna framkvæmda samkvæmt lögum nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana, sbr. b-lið málsgreinarinnar.

Samkvæmt 18. gr. laga nr. 111/2021 skulu framkvæmdir sem tilgreindar eru í flokki A í 1. viðauka við lögin ávallt háðar umhverfismati, en framkvæmdir sem tilgreindar eru í flokki B í 1. viðauka við lögin skulu háðar umhverfismati þegar þær eru taldar líklegar til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif vegna umfangs, eðlis eða staðsetningar skv. 2. viðauka laganna. Fellur efnistaka þar sem áætlað er að raska 25 ha svæði eða stærra eða efnismagn er 500.000 m3 eða meira undir A flokk í 1. viðauka við lögin, sbr. tölulið 2.01 í 1. viðauka. Undir B flokk fellur efnistaka þar sem áætlað er að raska 2,5 ha svæði eða stærra eða efnismagn er 50.000 m3 eða meira, einnig efnistaka þar sem fleiri en einn efnistökustaður vegna sömu framkvæmdar og á sama svæði ná samanlagt yfir 2,5 ha svæði eða stærra, sbr. tölulið 2.02 í 1. viðauka við lögin.

Líkt og rakið hefur verið samþykkti sveitarstjórn 9. október 2024 umsókn Landsvirkjunar um framkvæmdaleyfi til efnistöku á allt að 50.000 m3 á efnistökustað E70 á Tungnaáreyrum. Á fundi sveitarstjórnar 13. nóvember s.á. var hins vegar samþykkt að endurupptaka og samþykkja breytta umsókn leyfishafa um framkvæmdaleyfi vegna efnistöku á Tungnaáreyrum og var gefið út framkvæmdaleyfi 14. s.m. í samræmi við það, eða vegna efnistöku á allt að 40.000 m3 á efnistökustað E70. Að því virtu hefur ákvörðun sveitarstjórnar frá 9. október s.á. um að samþykkja 50.000 m3 efnistöku á Tungnaáreyrum ekki lengur réttarverkan að lögum. Hefur kærandi því ekki lögvarða hagsmuni af úrlausn þeirrar ákvörðunar og verður þeim hluta kærumálsins því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Af hálfu leyfishafa var gefin sú skýring á breyttri umsókn um framkvæmdaleyfi að komið hefði í ljóst að búið væri taka um 10.000 m3 á svæðinu og væri því óskað eftir því að gefið yrði út framkvæmdaleyfi fyrir 40.000 m3 efnistöku. Ekki kemur þó fram hvenær téð efnistaka hafi farið fram en sveitarfélagið hefur bent úrskurðarnefndinni á að við vettvangsskoðun hafi komið í ljós að rask hafi átt sér stað á efnistökusvæði E70, en að engin gögn hafi fundist hjá sveitarfélaginu um rask eða efnistöku á svæðinu. Hvað sem líður ástæðum þess að leyfishafi óskaði eftir breytingum á umsókn sinni liggur allt að einu fyrir að hið umdeilda leyfi er samþykkt var 13. nóvember 2024 tekur aðeins til 40.000 m3 efnistöku. Með þeirri breytingu fór umfang efnistökunnar því undir þau viðmið sem að framan greinir svo hún sé háð ákvörðun Skipulagsstofnunar um það hvort framkvæmdin skuli háð umhverfismati, sbr. 20. gr. laga nr. 111/2021, sbr. tölulið 2.02 í flokki B í 1. viðauka við lögin. Verður jafnframt að telja að sveitarstjórn hafi verið heimilt að líta svo á að um nýja framkvæmd væri að ræða, en ekki breytingu eða viðbót við eldri framkvæmd, sbr. tölulið 13.02 í sama viðauka.

Í 30. gr. laga nr. 111/2021 er heimild til málskots til úrskurðarnefndarinnar bundin við ákvarðanir Skipulagsstofnunar um hvort framkvæmd, samkvæmt þeim lögum, skuli háð umhverfismati skv. 20. gr. laganna og ákvarðanir leyfisveitanda um veitingu leyfis til framkvæmda, nema sérlög kveði á um annað. Er um aðild, kærufrest, málsmeðferð og annað er varðar kæruna tekið fram að fari samkvæmt lögum um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Verður með vísan til þessa, sbr. einnig b-lið 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011, að álíta að kærandi njóti ekki kæruaðildar hvað varði kæru á ákvörðun sveitarstjórnar frá 13. nóvember 2024. Að öllu framangreindu virtu verður kærumálinu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

147/2024 Sandártunga

Með

Árið 2025, þriðjudaginn 11. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor, Geir Oddsson auðlindafræðingur, Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður og Þorsteinn Sæmundsson jarðfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 147/2024, kæra á ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 18. október 2024 um að 200.000 m3 efnistaka á um 4 ha svæði í Sandártungu í Þjórsárdal skuli ekki sæta umhverfismati.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 28. október 2024, er barst nefndinni sama dag, kæra samtökin Náttúrugrið þá ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 18. október s.á. um að 200.000 m3 efnistaka á um 4 ha svæði í Sandártungu í Þjórsárdal skuli ekki sæta umhverfismati. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Skipulagsstofnun 22. nóvember 2024.

Málavextir: Hinn 14. júní 2024 barst Skipulagsstofnun tilkynning frá Vegagerðinni um fyrirhugaða efnistöku í Sandártungu í Skeiða- og Gnúpverjahreppi, samkvæmt 19. gr. laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana, sbr. tl. 2.02 í 1. viðauka laganna.

Í greinargerð sem fylgdi tilkynningunni kom fram að fyrirhuguð væri efnistaka á allt að 200.000 m3 af efni á um 4 ha svæði í Sandártungu í Þjórsárdal, Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Samhliða væri unnið að breytingu á Aðalskipulagi Skeiða- og Gnúpverjahrepps 2017–2029 þar sem hluta Skógræktar- og landgræðslusvæðis yrði breytt í efnistökusvæði. Fyrirhugað væri að Vegagerðin myndi nýta 150.000 m3 til vegagerðar og bakkavarna vegna vegagerðar í Þjórsárdal, en aðrir 50.000 m3 væru áætlaðir í önnur verkefni á vegum sveitarfélagsins. Valkostagreining um staðsetningu efnistökusvæðisins hefði þegar farið fram sem og hvort hægt væri að nýta efni úr núverandi námum eða stækka þær. Engar opnar bergnámur væru nálægt fyrirhugaðri breytingu á Þjórsárdalsvegi, en um 50.000 m3 þyrfti í rofvarnir við veginn. Niðurstaða valkostagreiningar hafi verið sú að í núverandi námum sé ekki að finna efni sem uppfyllti kröfur til vegagerðar og grjótvarnar, því væri þörf á að skilgreina nýja námu. Sandártungunáma væri í 5–11 km fjarlægð frá áætluðum notkunarstöðum efnisins

Ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu framkvæmdarinnar lá fyrir 18. október 2024. Í henni var fjallað um umhverfisáhrif framkvæmdarinnar eins og henni var lýst í framlögðum gögnum framkvæmdaraðila. Tók umfjöllunin til áhrifa framkvæmdarinnar á landslag, ásýnd og jarðmyndanir. Einnig áhrif á vistgerðir, fuglalíf, fornminjar, verndarsvæði, hljóðvist og loftmengun, útivist og á vatnshlot. Það var niðurstaða stofnunarinnar að með hliðsjón af umfangi, eðli og staðsetningu að áhrif af fyrirhugaðri efnistöku yrði óafturkræf varðandi jarðmyndanir, en óveruleg á aðra umhverfisþætti, en ljóst væri að staðbundið myndi ásýnd svæðisins taka nokkrum breytingum. Hin fyrirhugaða framkvæmd væri ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og framkvæmdin skyldi því ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Málsrök kæranda: Vísað er til þess að framkvæmdaraðili hafi ekki uppfyllt skilyrði 2. mgr. 19. gr. laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana í tilkynningu sinni til Skipulagsstofnunar. Í greinargerð framkvæmdaraðila hafi ekki verið fjallað um tengsl tilkynntrar framkvæmdar við hina umhverfismetnu Hvammsvirkjun og tilheyrandi lón eða áhrif á vatnsgæði og vatnalíf. Í greinargerðinni komi fram að framkvæmdin sé tilkynningarskyld til ákvörðunar um matsskyldu til Skipulagsstofnunar samkvæmt tl. 2.02 í 1. viðauka laga nr. 111/2021. Rétt hefði verið að tilkynna framkvæmdina með vísan til tl. 13.02 viðaukans, enda sé augljóslega um breytingu á framkvæmd að ræða frá umhverfismati þar sem efnistökuþörf vegna vegagerðar hafi farið úr 10.000–15.000m3, með engri námu, í 200.000 m3. Í stað smávægilegrar efnisþarfar sem þar hafi verið greint frá að þyrfti til vegagerðar sem yrði fengin úr neðanjarðargöngum Hvammsvirkjunaráforma séu nú komnar hugmyndir um stórfellda efnistöku til vegagerðarinnar.

Í tl. 13.02 í viðauka laga nr. 111/2021 segi að allar breytingar eða viðbætur við framkvæmdir sem tilgreindar séu í flokki A, utan þeirra sem falli undir tl. 13.01, og flokk B sem hafi verið leyfðar, framkvæmdar eða séu í framkvæmd og kunni að hafa umtalsverð umhverfisáhrif. Af þessu sé ljóst að Skipulagsstofnun hafi ekki verið veittar réttar upplýsingar í málinu auk þess sem stofnunin hafi ekki gert reka að því að upplýsa um hvers vegna nauðsyn væri á svo mikilli efnistöku og í tengslum við hvað. Ákvörðunin hafi ranglega verið tekin á grundvelli þess að um efnistöku ótengdra annarri, umhverfismetinni framkvæmd, en ekki á grunni viðbóta og breytinga frá henni líkt og raun væri.

Sá annmarki á málsmeðferð Skipulagsstofnunar, að taka ákvörðun án þess að umsögn Umhverfisstofnunar lægi fyrir, sé svo verulegur annmarki að varða eigi ógildingu ákvörðunar. Sé þá bæði vísað til friðlýsingarákvarðana og 54. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd vegna áhrifa framkvæmdar á friðlýst svæði, en einnig til sérstakrar verndar eldhrauna samkvæmt 61. gr. sömu laga. Þá hefði átt að leita álits Ferðamálastofu vegna ferðamennsku í Þjórsárdal og hafi skortur á álitsumleitan leitt til þess að málið hafi ekki verið rannsakað nægilega eða allra nýjustu og viðeigandi upplýsinga aflað um áhrif framkvæmdarinnar.

Í 1. mgr. 33. gr. laga nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði sé kveðið á um að sérhver framkvæmd í eða við veiðivatn, allt að 100 m frá bakka, sem áhrif geti haft á fiskigengd þess, afkomu fiskistofna, aðstæður til veiði eða lífríki vatnsins að öðru leyti sé háð leyfi Fiskistofu. Sá annmarki að leita ekki álits Fiskistofu vegna framkvæmda sem séu innan við 100 m frá árbakka tveggja vatnsfalla sé verulegur annmarki. Hvergi í gögnum málsins sé vikið að reglu 1. mgr. 33. gr. laga nr. 61/2006, sem áskilji slíkt leyfi. Stór hluti stærsta villta stofns Norður- Atlantshafslaxins hrygni ofan laxastigans við Búða. Því varði framkvæmdin augljóslega hrygningarsvæði villtra laxastofna. Skipulagsstofnun hafi látið ógert að rannsaka málið með tilliti til þessa. Þá sé augljóst að lög nr. 36/2011 um stjórn vatnamála hafi þurft að koma til skoðunar við ákvörðun um hvort umhverfismeta hefði þann þátt framkvæmdar Hvammsvirkjunar sem hin kærða ákvörðun snúi að.

Í samræmi við grunnrök 2. Viðauka, sbr. 19. gr. laga nr. 111/2021, sem varða það til hvaða atriða Skipulagsstofnun beri að líta við ákvörðun um hvort framkvæmd sé matsskyld, sbr. einnig ákvæði 4. mgr. 4. gr. tilskipunar nr. 2011/92/ESB, skuli framkvæmdaraðili leggja fram þær upplýsingar sem taldar séu í viðauka II.A. Það hafi ekki verið gert, en íslensk stjórnvöld séu bundin af skuldbindingum tilskipunarinnar. Skipulagsstofnun hafi borið að vísa til viðeigandi viðmiða í 2. viðauka með lögum nr. 111/2021, sbr. b-lið 5. mgr. 4. gr. tilskipunar nr. 2011/92/EB í rökstuðningi sínum. Í b-lið 1. tl. í III. viðauka tilskipunarinnar komi fram að miða eigi við samlegðaráhrif við aðrar framkvæmdir. Fyrir liggi að virkjunin muni þurfa a.m.k. 1.000.000 m3 af efni. Ekki sé ljóst hvort vegagerð sú sem hin kærða ákvörðun varði sé inni í þeirri tölu, en ljóst sé að Skipulagsstofnun hafi borið að líta til heildarefnistökuþarfar virkjunar og tengdra framkvæmda við ákvörðun sína um matsskyldu. Meginregla 10. gr. laga nr. 60/2013 um heildarálag og vistkerfisnálgun hafi því ekki verið virt. Skipulagsstofnun hafi borið að taka mið af eiginleikum hugsanlegra áhrifa við ákvörðun sína, sbr. 3. tl. viðauka III tilskipunar nr. 2011/92/ESB. Með því að tengja ekki fyrirhugaða efnistöku við aðra efnistöku vegna Hvammsvirkjunar og tengdra framkvæmda hafi Skipulagsstofnun brotið gegn skyldum sínum til að líta til eiginleika áhrifanna og þá einkum í tengslum við áhrif á vatnalíf og vatnsgæði samkvæmt lögum nr. 36/2011.

Í 61. gr. laga nr. 61/2013 komi fram að forðast beri að skerða eldhraun nema brýna nauðsyn beri til. Þar sem efnistaka eigi að fara niður um sex til tíu metra sé augljóst að sú uppgefna ástæða Skipulagsstofnunar að eldhraunið Búrfellshraun, sem sé hluti af Tungnárhraunum, sé á svæðinu þakið nokkru lagi af jarðvegi sé þýðingarlaus þegar grafa eigi langt niður úr jarðveginum. Ekkert mat hafi farið fram á áhrifum framkvæmdarinnar á, til að mynda vatnalíf, vatnsvernd og eldhraun, sem njóti sérstakrar verndar, fái ákvörðunin að standa. Með því sé verið að svipta almenning þátttökurétti sem honum sé tryggður í Árósasamningnum og EES samningnum og um leið sé grafið undan ákvæðum náttúruverndarlaga um verndarmarkmið og framkvæmdir nærri friðlýstum svæðum. Kærandi hafi gengið út frá því að framkvæmdirnar séu leyfisskyldar samkvæmt skipulagslögum nr. 123/2010. Ákvæði laganna um hvernig leyfisveitandi skuli standa að framkvæmdaleyfi eða að Fiskistofa eða Orkustofnun skuli veita leyfi komi ekki í stað þess þátttökuréttar sem almenningur eigi um allar framkvæmdir sem líklegar séu til að hafa umtalsverð áhrif á umhverfið samkvæmt Árósasamningum, Evróputilskipunum og lögum nr. 111/2021.

Málsrök Skipulagsstofnunar: Bent er á að hvort sem um sé að ræða framkvæmd samkvæmt tl. 2.02 eða framkvæmd samkvæmt l. 13.02 þá sé í báðum tilvikum um að ræða B-flokks framkvæmdir, sem þýði að þær séu tilkynningarskyldar til stofnunarinnar. Fyrir liggi löglegt umhverfismat vegna Hvammsvirkjunar sem lokið hafi með úrskurði Skipulagsstofnunar 19. ágúst 2003. Af því leiði að ekki þurfi að taka afstöðu til þess hvort hin tilkynnta efnistökuframkvæmd eða efnistökuframkvæmdin í umhverfismatinu séu tengdar eða á sama framkvæmdasvæði. Telji úrskurðarnefndin að stofnunin hefði átt að fjalla sérstaklega um samlegðaráhrif hinnar tilkynntu efnistölu og efnistökunnar sem fjallað hafi verið um í umhverfismatinu leggi stofnunin áherslu á að um annmarka sé að ræða sem hafi ekki áhrif á efni ákvörðunar og sé því ekki verulegur.

Óskað hafi verið eftir umsögn Umhverfisstofnunar í málinu, en með tölvupósti 28. júní 2024 hafi stofnunin tilkynnt Skipulagsstofnun að hún hygðist ekki veita umsögn um framkvæmdina. Ákvæði 54. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd eigi við þegar tekin sé ákvörðun um veitingu leyfis. Vegna tilvísunar í 61. gr. sömu laga vegna skerðingar eldhrauna hafi komið fram í ákvörðun Skipulagsstofnunar að tekið væri undir með framkvæmdaraðila að hraunið hefði að nokkru leyti misst verndargildi sitt þar sem um væri að ræða hraun sem væri þakið jarðvegi að öllu leyti. Áhrif fyrirhugaðra framkvæmda yrði staðbundin og óafturkræf á jarðmyndunina Brúfellshraun. Tekið hafi verið fram að stofnunin teldi brýnt að í framkvæmdaleyfi yrði kveðið á um frágang þannig að ummerki yrðu í lágmarki og verndargildi svæðisins rýrnaði ekki umfram það sem lagt væri upp með. Þá sé bent á að í athugasemdum við 57. gr. frumvarps þess er varð að 61. gr. laga nr. 60/2013 komi fram að eldhraun, sem sé að öllu leyti sandorpið eða hulið jarðvegi og gróðri og ekki sé lengur hægt að greina hvort um hraun sé að ræða, hafi að öllu jöfnu tapað þeim einkennum sem myndi verndargildi þess sem jarðmyndunar eða hraunvistgerðar og njóti það því ekki sérstakrar verndar samkvæmt greininni,

Fjallað sé um verkefni Ferðamálastofu í 3. gr. laga nr. 96/2018 um ferðamálastofu. Þar sé ekki fjallað sérstaklega um að stofnunin eigi að veita umsagnir í málum þar sem Skipulagsstofnun taki matsskylduákvörðun. Þrátt fyrir það hafi Skipulagsstofnun leitað umsagna stofnunarinnar í einstökum málum og hafi það þá byggst á orðalagi í 1. mgr. 20. gr. laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana þess efnis að stofnunin skuli leita umsagnar umsagnaraðila eftir því sem við eigi eftir eðli máls hverju sinni. Í tilkynningu Vegagerðarinnar hafi verið vikið að því að Þjórsárdalur hafi verið friðlýstur. Að virtum upplýsingum úr tilkynningunni og öðrum atriðum sem þar hafi komið fram hafi Skipulagsstofnun ekki talið þörf á að leita sérstaklega til Ferðamálastofu.

Hin fyrirhugaða framkvæmd snúist um tiltekna efnistöku á ákveðnu svæði í Sandártungu. Fyrirhugað efnistökusvæði sé vissulega nálægt Þjórsá og Sandá, en sé uppi á landi og því ekki í árfarvegi. Þá standi efnistökusvæðið um sex til tíu metrum hærra en yfirborð Sandár og Þjórsár og ekki sé gert ráð fyrir því að efni verði tekið niður fyrir vatnsborð Þjórsár. Í ljósi þess að leyfi Fiskistofu til mannvirkjagerðar í veiðivötnum samkvæmt lögum nr. 61/2006 teljist ekki til leyfis til framkvæmda samkvæmt lögum nr. 111/2021, sbr. athugasemdir við 3. gr. frumvarps þess er varð að lögum nr. 111/2021, telji Skipulagsstofnun að það sé ekki verulegur annmarki að umsagnar Fiskistofu hafi ekki verið leitað.

Þar sem fyrir liggi löglegt umhverfismat vegna Hvammsvirkjunar hafi ekki þurft að taka afstöðu til þess hvort hin tilkynnta efnistökuframkvæmd og efnistökuframkvæmdin í umhverfismatinu væru tengdar eða á sama framkvæmdasvæði. Verði niðurstaðan önnur sé það annmarki sem ekki hafi haft áhrif á efni ákvörðunarinnar og því ekki verulegur.

 Athugasemdir Vegagerðarinnar: Bent er á að fyrirhugað sé að taka allt að 200.000 m3 af efni á um 4 ha svæði í Sandártungu í Þjórsárdal vegna framkvæmda á Þjórsárdalsvegi, sem og annarra verkefna á vegum sveitarfélagsins. Framkvæmdin falli þar af leiðandi undir tl. 2.02 í viðauka 1. laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana þar sem hvorki sé um að ræða stærra svæði en 25 ha, né sé efnismagnið meira en 500.00 m3. Engu að síður hafi verið nauðsynlegt fyrir Skipulagsstofnun að meta hvort framkvæmdin hefði í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif vegna umfangs, eðlis eða staðsetningar hennar skv. 2. viðauka laga nr. 111/2021, sbr. 1. mgr. 18. gr. laganna.

Í 6. kafla hinnar kærðu ákvörðunar sé ítarlega farið yfir umhverfisáhrif framkvæmdarinnar skv. 1.–3. tl. 2. viðauka laga nr. 111/2021, með hliðsjón af greinargerð Vegagerðarinnar og umsögnum sem bárust. Þar hafi komið fram að áhrif framkvæmdanna verði staðbundin, efnistökusvæðið lítt áberandi frá Þjórsárdalsvegi og sjónræn áhrif því takmörkuð. Efnistökusvæðið væri vissulega innan svæðis í Þjórsárdal sem hafi verið friðlýst sem menningarlandslag, en að Minjastofnun hafi sett fram fullnægjandi leiðbeiningar um mótvægisaðgerðir svo ummerki framkvæmdarinnar verði í lágmarki og verndargildi svæðisins rýrni ekki. Einnig hafi komið fram í niðurstöðum Skipulagsstofnunar að starfsemin muni ekki fela í sér losun efna í jarðveg eða grunnvatn, og því ólíklegt að ástand grunnvatns- og straumvatnshlota versni. Eftir heildarmat á umfangi, eðli og staðsetningu framkvæmdarinnar hafi það verið niðurstaða Skipulagsstofnunar að áhrif af fyrirhugaðri efnistöku í Sandártungu yrði óafturkræf varðandi jarðmyndanir, en óveruleg að öðru leyti, og samkvæmt því ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Fyrirhuguð náma í Sandártungu hafi engan snertiflöt við rennandi vatn og sé í töluverðri fjarlægð frá næsta yfirborðsvatni. Þá verði efni ekki losað út í vatn við efnisvinnsluna og því ekki búist við því að efnistakan hafi nokkur áhrif á fiskistofna eða vatnalíf í Þjórsá eða Sandá. Fiskistofa hafi skilað inn umsögn vegna breytinga á Aðalskipulagi Skeiða- og Gnúpverjahrepps 2017–2029 þar sem fram kom að ekki fengist séð að hið nýja efnistökusvæði myndi varða lax- eða silungsveiðihagsmuni, og því væri efnistakan ekki háð leyfi Fiskistofu.

Skipulagsstofnun hafi við undirbúning ákvörðunar sinnar lagt viðhlítandi mat á þá þætti sem hafi skipt máli og varðað það hvort umtalsverð umhverfisáhrif kynnu að hljótast af framkvæmdinni og við það mat tekið tillit til viðeigandi viðmiða 2. viðauka laga nr. 111/2021 sem og viðmiða í III. viðauka tilskipunar nr. 211/92/EB.

Vegagerðin starfi eftir lögum nr. 120/2012 um Vegagerðina, framkvæmdastofnun samgöngumála. Það sé hlutverk hennar að byggja upp, viðhalda og reka samgöngukerfi ríkisins, og skuli í starfsemi sinni stuðla að öruggum, sjálfbærum, greiðum og hagkvæmum samgöngum, sem og að samgöngur þróist í samræmi við samfélagsleg og umhverfisleg markmið. Þá gegni stofnunin einnig veigamiklu hlutverki sem veghaldari þjóðvega skv. vegalögum nr. 80/2007 þar sem m.a. séu gerðar strangar kröfur til stofnunarinnar um ástand og viðhald vega. Hækkun og endurbygging Þjórsárdalsvegar sé einkum bundin við kröfur gerðar til stofnunarinnar í greindum lögum. Umræddur kafli Þjórsárdalsvegar muni að óbreyttu hverfa ofan í lónið og því sé nauðsynlegt að bregðast við því með hækkun og endurbyggingu vegarins.

Bent sé á að kærandi hafi látið hjá líða að vísa í uppfært umhverfismat, nýja matsskýrslu sem og álit Skipulagsstofnunar frá 12. mars 2018 vegna framkvæmdar við Hvammsvirkjun, þar sem framkvæmdunum og öðru í tengslum við þær séu gerð ítarleg skil og magntölur uppfærðar í samræmi við frekari rannsóknir. Þar sé meðal annars að finna umfjöllun um endurbyggingu Þjórsárdalsvegar og efnisþörf vegna hennar, sbr. tl. 13.02 í 1. viðauka laga nr. 111/2021, og því sé rétt að heimfæra efnistökuna undir tl. 2.02 í 1. viðauka laganna. Áform um byggingu Hvammsvirkjunar og framkvæmdir henni tengdri hafi hlotið lögformlega meðferð innan stjórnsýslunnar að því er varði mat á umhverfisáhrifum og geti kærandi ekki vísað til eldri gagna og ákvarðana um framkvæmdirnar. Að auki megi benda á að tl. 13.02 falli undir flokk B í 1. viðauka með lögun r. 111/2021 og séu framkvæmdirnar þannig háðar sjálfstæðu mati á því hvort framkvæmdin hafi í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif vegna umfangs, eðlis eða staðsetningar, sbr. 1. mgr. 18. gr. laganna, líkt og eigi við um tl. 2.02 í sama viðauka. Myndi engu breyta þó að framkvæmdin yrði heimfærð undir tl. 13.02 í 1. viðauka.

Ítarlegt mat á valkostum hafi farið fram og í ljósi heildarmats væri fyrirhugað efnistökusvæði í Sandártungu eini raunhæfi kosturinn. Sé það einkum vegna efnisins sem þar sé að finna, sem og nálægðar við fyrirhugað framkvæmdasvæði. Verði því að telja að skilyrði um brýna nauðsyn, sbr. 3. mgr. 61. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd, sé uppfyllt. Þá hafi Skipulagsstofnun tekið sérstakt tillit til eldhrauns á svæðinu í ákvörðun sinni. Umsögn Umhverfisstofnunar liggi fyrir vegna breytinga á aðalskipulagi Skeiða- og Gnúpverjahrepps þar sem sé að finna sérstaka umfjöllun um umrætt eldhraun og vernd eldhrauna samkvæmt lögum nr. 60/2013.

 Athugasemdir Landsvirkjunar: Vísað er til þess að framkvæmdin hafi réttilega verið tilkynnt á grundvelli tl. 2.02 í 1. viðauka laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Ekkert hafi þó komið fram í málinu um að niðurstaða Skipulagsstofnunar hefði orðið önnur ef tilkynningin hefði byggst á tl. 13.02 viðaukans, líkt og kærandi vísi til.

Engir slíkir annmarkar hafi verið á umsagnarferli hinnar kærðu ákvörðunar að varði ógildingu hennar. Við meðferð matsskylduákvarðana skuli Skipulagsstofnun leita umsagna umsagnaraðila eftir því sem við eigi eftir eðli máls hverju sinni sbr. 1. mgr. 20. gr. laga nr. 111/2021. Af ákvæðinu leiði að Skipulagsstofnun sé veitt svigrúm við mat á því hjá hvaða aðilum sé leitað umsagna. Umsagnar hafi verið leitað hjá Umhverfisstofnun en svo virðist sem Umhverfisstofnun hafi ekki talið þörf á að veita umsögn í málinu. Skipulagsstofnun hafi því borið að taka hina kærðu ákvörðun án þess að umsögn Umhverfisstofnunar lægi fyrir. Þá beri gögn málsins með sér að ekki hafi staðið efni til þess að borið hefði að óska umsagnar frá Ferðamálastofu eða Fiskistofu.

Í hinni kærðu ákvörðun hafi verið tekin afstaða til áhrifa framkvæmdanna á þau atriði er lög nr. 36/2011 um stjórn vatnamála varði. Í niðurstöðukafla Skipulagsstofnunar hafi komið fram það mat stofnunarinnar að framkvæmdin væri ólíkleg til að leiða til þess að ástand grunnvatns- og straumvatnshlota myndu versna, en að áhersla væri lögð á að tryggt yrði að mengandi efni bærist ekki í jarðveg. Jafnframt sé minnt á að vatnshlotin þurfi að ná umhverfismarkmiðum sínum og vera í samræmi við stefnumörkun um vatnsvernd sem fram komi vatnaáætlun.

Farið hafi fram fullnægjandi mat á áhrifum efnistökunnar á eldhraun á svæðinu og ítarlega verið fjallað um það í matsskyldufyrirspurn Vegagerðarinnar sem og rökstuðningi Skipulagsstofnunar með hinni kærðu ákvörðun.

 —–

Kærendur hafa gert frekari grein fyrir sjónarmiðum sínum og hefur nefndin haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn þessa máls.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 18. október 2024 um að 200.000 m3 efnistaka á um 4 ha svæði í Sandártungu í Þjórsárdal skuli ekki sæta umhverfismati. Kæruheimild er í 30. gr. laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana og barst kæra innan kærufrests.

Fyrirhuguð framkvæmd var tilkynnt til Skipulagsstofnunar til ákvörðunar um matsskyldu skv. 2. mgr. 19. gr. laga nr. 111/2021 sem framkvæmd í flokki B, sbr. lið 2.02 í 1. viðauka við lögin. Skulu tilkynningarskyldar framkvæmdir sem tilgreindar eru í flokki B háðar umhverfismati þegar þær eru taldar líklegar til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif vegna umfangs, eðlis eða staðsetningar skv. 2. viðauka við lögin. Í tilkynningu skal framkvæmdaraðili leggja fram upplýsingar um framkvæmdina og líkleg umtalsverð umhverfisáhrif hennar. Skal hann, þar sem við á, taka tillit til fyrirliggjandi niðurstaðna um umhverfismat framkvæmdarinnar og leggja fram, eftir atvikum upplýsingar um fyrirhugaðar mótvægisaðgerðir, sbr. 2. mgr. 19. gr. laganna. Í 20. gr. laga nr. 111/2021 er mælt fyrir um að Skipulagsstofnun skuli innan sjö vikna frá því að fullnægjandi gögn berast um framkvæmdina taka ákvörðun um hvort hún skuli háð umhverfismati samkvæmt lögunum. Áður skal stofnunin leita umsagnar viðkomandi umsagnaraðila eftir því sem við á hverju sinni.

Löggjafinn hefur ákveðið að ávallt skuli fara fram umhverfismat vegna efnistöku þar sem áætlað er að raska 25 ha svæði eða stærra eða efnismagn er 500.000 m3 eða meira, sbr. tl. 2.01 í 1. viðauka við lög nr. 111/2021. Á hinn bóginn verði metið hverju sinni hvort efnistaka þar sem áætlað er að raska 2,5 ha svæði eða stærra eða efnismagn er 50.000 m3 eða meira sé líkleg til að hafa í för með sér svo umtalsverð umhverfisáhrif að umhverfismat þurfi að fara fram, sbr. tl. 2.02 viðaukans. Ber við það mat að líta til þeirra viðmiða sem fram koma í 2. viðauka laganna og lúta að eðli framkvæmdar og staðsetningu, auk gerðar og eiginleika hugsanlegra áhrifa framkvæmdarinnar. Eðli máls samkvæmt fer það eftir þeirri framkvæmd sem ákvörðun snýst um hvert þeirra atriða sem tiltekin eru í 1.–3. tl. 2. viðauka laga nr. 111/2021 vegi þyngst við mat Skipulagsstofnunar á því hvort umhverfisáhrif framkvæmdar teljist umtalsverð. Þegar það er metið verður að miða við þá tilhögun framkvæmdar sem kynnt er og leggja mat á það hvort framkvæmdin, svo sem hún er fyrirhuguð, sé líkleg til þess að valda umtalsverðum umhverfisáhrifum.

—–

Í tilkynningu framkvæmdaraðila um hina fyrirhuguðu framkvæmd kemur fram að ráðgerð sé efnistaka á allt að 200.000 m3 af efni á um 4 ha svæði í Sandártungu í Þjórsárdal, í Búrfellshrauni austan við Sandá og norðan við Þjórsá. Efni úr námunni sé einkum ætlað til vegagerðar og til grjótvarna. Svæðið sé í um 4,5–11 km fjarlægð frá fyrirhuguðum vegaframkvæmdum. Efnisvinnslu verði þannig háttað að yfirborðsefni verði ýtt til hliðar. Þar undir sé að finna berg sem verði sprengt, malað og flutt af svæðinu. Áætla megi að þykkt vinnslulags verði um 4–7 m, en svæðið standi um 6–10 m hærra en yfirborð Sandár og Þjórsár og ekki sé reiknað með að efni verði tekið niður fyrir vatnsborð Þjórsár. Grunnvatnsborð sé talið vera á um 9 m dýpi. Lúpínu sé að finna á yfirborði efnistökusvæðis og líklega lúpínufræ. Lúpína hafi verið skilgreind sem ágeng tegund. Með því að ýta yfirborðsefni til hliðar sé lágmörkuð sú hætta að fræ dreifist út frá námunni. Á áætluðum notkunarstöðum efnis sé að finna stórar lúpínubreiður. Gert sé ráð fyrir að fjöldi vörubíla sem flytji efnið frá svæðinu verði um 10, en að hámarki 15 á hverjum degi. Akstur efnisins taki um 30 mínútur og ferðir áætlaðar um 200 talsins á dag, fram og til baka. Efni verði flutt á notkunarstað á meðan á framkvæmdum standi, en ekki verði um að ræða stöðugan akstur efnis í langan tíma.

Við undirbúning hinnar kærðu ákvörðunar leitaði Skipulagsstofnun umsagna skv. 1. mgr. 20. gr. laga nr. 111/2021 og var óskað álits á tilkynningu framkvæmdaraðila vegna fyrirhugaðrar efnistöku og hvort framkvæmdin skyldi lúta umhverfismati. Í umsögn Náttúrufræðistofnunar Íslands kom fram að Búrfellshraun hefði runnið á nútíma og nyti sérstakrar verndar samkvæmt 61. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd. Bent var á að ekki væri æskilegt að opna ný efnistökusvæði innan friðlýstra svæða og nýtt slíkt svæði í Sandártungu samræmdist ekki friðlýsingaskilmálum um menningarlandslag í Þjórsárdal. Það væri mat stofnunarinnar að nauðsynlegt hefði verið að bera saman fleiri staðsetningar fyrir efnistökuna þar sem allmargar opnar bergnámur væru í Þjórsárhrauni sem hægt væri að nýta. Gera þyrfti betur grein fyrir afrennsli af efnistökusvæðinu og hvort hætta væri á að mengun frá starfseminni bærist út í Þjórsá. Það væri mat stofnunarinnar að kannski væri ekki þörf á að framkvæmdin færi í fullt umhverfismat, en þar sem framkvæmdasvæðið sé á friðuðu svæði væri nauðsynlegt að skoða fleiri efnistökukosti og bera þá saman. Þá var vísað til þess að ekki væri fjallað um fuglalíf, en efnistökusvæðið sé innan mikilvægs fuglasvæðis, Suðurlandsundirlendis.

Í umsögn Heilbrigðiseftirlits Suðurlands kemur fram það mat að tilkynning framkvæmdaraðila geri nægjanlega grein fyrir eðli, umfangi og umhverfi framkvæmdarinnar, sem og mótvægisaðgerðum, en ekki sé gert ráð fyrir sérstakri vöktun á umhverfisáhrifum á framkvæmdatíma. Umhverfisáhrif framkvæmdarinnar séu að miklu leyti tímabundin og/eða staðbundin og mögulegt að milda þau með góðum starfsháttum og umgengni á framkvæmdatíma og vönduðum frágangi umhverfis að framkvæmdum loknum. Það sé álit embættisins að framkvæmdin kalli ekki á umhverfismat að teknu tilliti til þeirra viðmiða sem komi fram í 2. viðauka laga nr. 111/2021. Í umsögn Minjastofnunar kemur fram að gera verði ráðstafanir til að nýfundnar fornminjar raskist ekki vegna efnistökunnar. Færa þurfi mörk efnistökusvæðisins fjær fornleifunum og girða þær af á meðan á efnistökunni standi til að koma í veg fyrir að þær raskist af vangá. Hafa þurfi samráð við minjavörð Suðurlands um nýja afmörkun efnistökusvæðisins á þessum stöðum og um uppsetningu girðingar þeim til varnar. Að því gefnu að gengið verði að þessum kröfum taldi Minjastofnun að framkvæmdin væri ekki háð umhverfismati.

Vegna athugasemda Náttúrufræðistofnunar Íslands greindi framkvæmdaraðili meðal annars frá því að búið væri að skoða alla þá valkosti sem koma til greina. Alls hafi átta svæði verið skoðuð en efnisgæði flestra efnistökusvæða uppfylltu ekki efniskröfur fyrir burðar- og styrktarlög. Mjög langt sé í næstu efnistökusvæði sem uppfylli efnisgæði. Þrjú svæði voru skoðuð sem voru líkleg til að uppfylla efnisgæði en tvö af þeim komu ekki til greina. Annað svæðið var talið ógna öryggi mannvirkja á Búrfellssvæðinu og hitt svæðið verði nýtt til rofvarnar í nýju lóni Hvammsvirkjunar. Efni þyrfti því alltaf að koma annarstaðar frá. Vegna jarðfræðilegra aðstæðna sé það svæði sem liggi austan Þverár og norðan (vestan) Þjórsár eina svæðið sem komi til greina í nágrenni framkvæmdasvæðisins. Talið sé að efnistaka nær Þverá hafi í för með sér minna rask en annarsstaðar í Þjórsárdal. Efnistökusvæði sé á skipulögðu land- og skógræktarsvæði og einkennist af skógrækt og lúpínu. Að efnistöku lokinni verði aftur plantað trjám og svæðið grætt upp, ásýndin verði því mjög sambærileg og áður og áhrifin á menningarlandslag svæðisins séu því hverfandi til framtíðar. Ekki verði neitt fráveitukerfi á svæðinu og því muni ofanvatn að mestu síast ofan í hraunið, en einnig muni ofanvatn renna eftir yfirborði. Litlar líkur séu á mengunarslysi, umferð vinnuvéla sé hæg inni á flötu efnistökusvæðinu og fjöldi vinnutækja sé lítill. Vinnuvélar séu sterkbyggðar og afar ólíklegt sé að eldsneytistankar rofni á þann hátt að mikið magn olíu leki út. Hætta á mengun sé engu meiri en frá öðrum vinnuvélum og landbúnaðartækjum í sveitum landsins. Efnistakan sé auk þess tímabundin á meðan framkvæmdum við nýjan Þjórsárdalsveg standi.

Það sé ekki rétt að engin umfjöllun hafi verið um fuglalíf. Ekki hafi verið fjallað um einstakar tegundir þar sem áhrif efnistökunnar séu tímabundin og þær tegundir sem nýti svæðið í dag muni geta gert það áfram að framkvæmdum loknum. Svæðið sé einungis 4 ha og 0,0001% af öllu Suðurlandsundirlendi sem skilgreint sé sem mikilvægt fuglasvæði. Þetta eigi ekki við um efnistökusvæðið í Sandártungu nema að örlitlu leyti, enda einkennist svæðið af skógrækt og lúpínu, manngerðum vistgerðum sem auðvelt sé að endurskapa. Þeir fuglar sem helst megi vænta séu spörfuglar líkt og skógarþröstur og þúfutittlingur, og svo mófuglar líkt og hrossagaukur og stelkur. Allar þessar tegundir hafi stór sambærileg búsvæði allt í kring og muni aftur geta nýtt svæðið að efnistöku lokinni. Vegna athugasemda Minjastofnunar Íslands gerði framkvæmdaaðili grein fyrir því að greindar fornleifar verði girtar af á meðan á efnistöku standi til að koma í veg fyrir að þær raskist.

Í niðurstöðukafla Skipulagsstofnunar var tekið fram að við mat á því hvort hin tilkynningarskylda framkvæmd ætti að sæta umhverfismati skyldi taka mið af eðli, staðsetningu og eiginleikum hugsanlegra áhrifa framkvæmdar og var um það vísað til nánar tilgreindra atriða í 1.–3. tl. í 2. viðauka við lögin. Fram kom að um væri að ræða nokkuð umfangsmikla efnistöku á grjóti og vinnslu þess sem muni raska hrauni sem falli undir ákvæði laga um náttúruvernd, þar sem kveðið væri á um sérstaka vernd tiltekinna vistkerfa og jarðminja. Samkvæmt því bæri að forðast röskun þeirra nema brýna nauðsyn bæri til og ljóst að aðrir kostir væru ekki fyrir hendi. Lögð sé áhersla á að einungis mjög ríkir hagsmunir geti réttlætt röskun og þá fyrst og fremst brýnir almannahagsmunir. Tekið er undir með framkvæmdaraðila að hraunið hafi að nokkru leyti misst verndargildi sitt þar sem það sé þakið jarðvegi að öllu leyti. Áhrif fyrirhugaðra framkvæmda verði staðbundin og óafturkræf á jarðmyndunina Búrfellshraun. Stofnunin telji brýnt að í framkvæmdaleyfi verði kveðið á um frágang þannig að ummerki verði í lágmarki og verndargildi svæðisins rýrni ekki umfram það sem lagt sé upp með. Gera megi ráð fyrir að efnistökusvæðið verði lítt áberandi frá Þjórsárdalsvegi og sjónræn áhrif því takmörkuð.

Efnistaka mun fara fram innan svæðis í Þjórsárdal sem hafi verið friðlýst sem menningarlandslag, þar sem margar merkar minjar sé að finna. Í umsögn Minjastofnunar hafi verið settar fram leiðbeinandi mótvægisaðgerðir sem brýnt sé að fram komi í útgefnum leyfum, svo ummerki framkvæmdarinnar verði í lágmarki og verndargildi svæðisins rýrni ekki vegna hennar. Framkvæmdin sé á áhrifasvæði grunnvatnshlotsins Efri-Þjórsá sem skilgreint er með mikið grunnvatnsstreymi og við straumvatnshlotin Þjórsá 1 og Sandá 1. Í ljósi umfangs og eðlis framkvæmdarinnar og þess að starfsemin feli ekki í sér losun efna í jarðveg eða grunnvatn sé það mat stofnunarinnar að framkvæmdin sé ólíkleg til að leiða til þess að ástand grunnvatns- og straumvatnshlotanna versni, en lögð sé áhersla á að tryggt verði að mengandi efni berist ekki í jarðveg. Greind vatnshlot þurfi eftir sem áður að ná umhverfismarkmiðum sínum í samræmi við þá stefnumörkun um vatnsvernd sem fram komi í vatnaáætlun, skv. lögum nr. 36/2011 um stjórn vatnamála. Vistgerðir á svæðinu hafi ekki verndargildi og séu algengar á landsvísu og tegundir fugla á svæðinu séu algengar á Suðurlandi og útbreiddar hér á landi. Í ljósi takmarkaðs umfangs og útbreiðslu viðkomandi vistgerða og fuglalífs á svæðinu, telji stofnunin áhrif á fyrrnefnda umhverfisþætti verða óveruleg. Viðbúið sé að hávaði berist frá efnistökusvæðinu í einhverjum mæli og ryk geti myndast við vinnslu úr námunni, en ekki sé líklegt að ónæði vegna hávaða verði í frístundabyggð eða á tjaldsvæði, m.a. vegna aðstæðna og fjarlægðar. Þá séu ekki líkur til að ryk muni berast yfir fyrrnefnd svæði af sömu ástæðum. Með hliðsjón af umfangi, eðli og staðsetningu telji Skipulagstofnun að áhrif af fyrirhugaðri efnistöku verði óafturkræf varðandi jarðmyndanir, en óveruleg á aðra umhverfisþætti en ljóst sé að staðbundið mun ásýnd svæðisins taka nokkrum breytingum.

—–

Kærandi telur að framkvæmdaraðili hafi ekki uppfyllt skilyrði 2. mgr. 19. gr. laga nr. 111/2021 í tilkynningu til Skipulagsstofnunar að því er varði tengsl tilkynntrar framkvæmdar við hina umhverfismetnu Hvammsvirkjun. Tilkynna hefði átt framkvæmdina með vísan til tl. 13.02 í 1. viðauka við lög nr. 111/2021, þar sem um breytingu á framkvæmd sé að ræða frá því að umhverfismat vegna Hvammsvirkjunar fór fram.

Hin tilkynnta framkvæmd lýtur að 200.000 m3 efnistöku á um 4 ha svæði í Sandártungu í Þjórsárdal. Í endurskoðaðri matsskýrslu Hvammsvirkjunar frá október 2017 er fjallað um endurbyggingu Þjórsárdalsvegar milli Minni-Núps og Gaukshöfða. Þar kemur fram að vegna endurbyggingar vegarins muni veglínan færast um allt að 500 m á um 5,3 km löngum kafla. Er áætluð efnisþörf í veginn, auk færslu austasta hluta Gnúpverjavegar, metin um 300.000 m3.

Verður að telja að heimilt hafi verið að líta svo á að um nýja framkvæmd væri að ræða skv. tl. 2.02 í 1. viðauka laga um mat á umhverfisáhrifum, en ekki breytingu eða viðbót við eldri framkvæmd sbr. lið 13.02 í sama viðauka. Enda er um að ræða svæði sem ekki hefur verið nýtt til efnistöku áður. Þá er efnistaka nefnd sérstaklega í 1. viðauka við lög nr. 111/2021 þannig að gert er ráð fyrir að hún sæti eða geti sætt mati á umhverfisáhrifum ein og sér. Verður því ekki talið að álit Skipulagsstofnunar sé háð annmörkum að þessu leyti.

Í 1. mgr. 20. gr. laga nr. 111/2021 er mælt fyrir um þá málsmeðferð sem Skipulagsstofnun ber að viðhafa við töku ákvörðunar um matsskyldu framkvæmdar. Segir þar meðal annars að stofnunin skuli leita umsagnar umsagnaraðilar „eftir því sem við á eftir eðli máls hverju sinni“. Í þeim tilvikum þegar umsögn berst ekki er tekið fram að Skipulagsstofnun geti tekið ákvörðun á grundvelli fyrirliggjandi gagna. Fyrir liggur að Umhverfisstofnun barst umsagnarbeiðni, en stofnunin kaus að tjá sig ekki um matsskyldufyrirspurn framkvæmdaraðila. Hins vegar liggur fyrir að Umhverfisstofnun gerði athugasemdir við kynningu á lýsingu vegna breytingar á aðalskipulagi Skeiða- og Gnúpverjahrepps 2017–2029 þar sem skilgreint var nýtt efnistökusvæði með heimild fyrir allt að 200.000 m3 efnistöku á allt að 7 ha svæði í Sandártungu. Umhverfisstofnun taldi ekki þörf á annarri umsögn á kynningarstigi aðalskipulagsbreytingarinnar. Breyting á aðalskipulagi Skeiða- og Gnúpverjahrepps vegna efnistökusvæðis í Sandártungu tók gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 28. janúar 2025. Lá afstaða Umhverfisstofnunar þannig fyrir við aðalskipulagsbreytinguna. Verður ekki talið að ákvörðun Umhverfisstofnunar að tjá sig ekki um matskyldufyrirspurn framkvæmdaraðila leiði til þess að málið teljist ekki nægilega upplýst.

Þá telur kærandi það verulegan annmarka á málsmeðferð Skipulagsstofnunar að ekki hafi verið leitað umsagnar Fiskistofu og Ferðamálastofu við undirbúning ákvörðunar um matskyldu. Við kynningu á áðurgreindri breytingu á aðalskipulagi Skeiða- og Gnúpverjahrepps vegna efnistökusvæðis í Sandártungu var óskað umsagnar Fiskistofu. Í umsögn stofnunarinnar kom fram að ekki fengist séð að efnistökusvæðið myndi varða lax- eða silungsveiðihagsmuni og væri efnistakan því ekki háð leyfi Fiskistofu. Verður að telja að afstaða Fiskistofu vegna efnistöku í Sandártungu hafi með þessu legið fyrir. Þá eru möguleg áhrif framkvæmdarinnar ekki slík að talið verði til verulegs annmarka að ekki hafi verið leitað viðhorfa Ferðamálastofu til hennar.

Í 61. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd er fjallað um sérstaka vernd tiltekinna vistkerfa og jarðminja. Nær verndin m.a. til eldhrauna, gervigíga og hraunhella sem myndast hafa eftir að jökull hvarf af landinu á síðjökultíma, sbr. 2. mgr. ákvæðisins, en í 3. mgr. er tiltekið að m.a. beri að forðast að raska jarðminjum sem taldar séu upp í 2. mgr. nema brýna nauðsyn beri til. Efnistökusvæðið er í Búrfellshrauni sem er hluti af Tungnárhraunum. Hraunið flokkast sem nútímahraun og fellur undir vernd framangreindrar 61. gr. Í greinargerð framkvæmdaraðila kemur fram að með efnistökunni verði hraunið fyrir varanlegum áhrifum sem verði bæði bein og óafturkræf. Hið fyrirhugaða efnistökusvæði sé staðsett við jaðar hraunsins, en hraunþekjan sé 144 km2 og því sé afar lítill hluti hraunbreiðunnar sem komi til með að raskast varanlega. Þá hafi hraunið jafnframt tapað verndargildi sínu þar sem það sé hulið jarðvegi að mestu og sjáist ekki lengur. Séu áhrifin metin óverulega neikvæð. Í niðurstöðu Skipulagsstofnunar kemur fram að forðast beri röskun hrauns sem falli undir ákvæði laga nr. 60/2013 nema brýna nauðsyn beri til og ljóst að aðrir kostir séu ekki fyrir hendi. Lögð er áhersla á að einungis mjög ríkir hagsmunir geti réttlætt röskun og þá fyrst og fremst brýnir almannahagsmunir. Þá tekur stofnunin undir með framkvæmdaraðila að hraunið hafi að nokkru misst verndargildi sitt þar sem það væri þakið jarðvegi að öllu leyti. Áhrif fyrirhugaðra framkvæmda verði staðbundin og óafturkræf á jarðmyndunina Búrfellshraun. Brýnt sé að í framkvæmdaleyfi verði kveðið á um frágang þannig að ummerki verði í lágmarki og verndargildi svæðisins rýrni ekki umfram það sem lagt sé upp með. Gera megi ráð fyrir að efnistökusvæðið verði lítt áberandi frá Þjórsárdalsvegi og sjónræn áhrif því takmörkuð. Verður ekki gerð athugasemd við umfjöllun Skipu­­lags­­stofnunar að þessu leyti.

Í tilkynningu framkvæmdaraðila er ekki fjallað um áhrif efnistökunnar á vatnshlot. Í greinargerð framkvæmdaraðila vegna kærunnar er tekið fram að sökum þess að hin fyrirhugaða náma í Sandártungum hafi engan snertiflöt við rennandi vatn, sé í töluverðri fjarlægð frá næsta yfirborðsvatni og ekki sé búist við því að efnistakan hafi nokkur áhrif á fiskistofna eða vatnalíf Þjórsár eða Sandár, hafi ekki verið sérstök umfjöllun um þá umhverfisþætti sbr. 19. gr. laga nr. 111/2021. Gerði Skipulagsstofnun ekki athugasemd við skort á slíkri umfjöllun.

Í hinni kærðu ákvörðun Skipulagsstofnunar er greint frá því að framkvæmdin sé á áhrifasvæði grunnvatnshlotsins Efri-Þjórsá, vatnshlotsnúmer 103-211-G, sem skilgreint sé með mikið grunnvatnsstreymi og við straumvatnshlotin Þjórsá 1, vatnshlotsnúmer 103-663-R, og Sandá 1, vatnshlotsnúmer 103-907-R. Í ljósi umfangs og eðlis framkvæmdarinnar og þess að starfsemin felur ekki í sér losun efna í jarðveg eða grunnvatn var það mat Skipulagsstofnunar að framkvæmdin væri ólíkleg til að leiða til þess að ástand grunnvatns- og straumvatnshlotanna myndi versna, en lögð var áhersla á að tryggt yrði að mengandi efni bærust ekki í jarðveg. Að teknu tilliti til ákvæða laga nr. 36/2011 og að framangreindu virtu verður ekki talið að hin kærða ákvörðun sé haldin ágalla hvað varðar lýsingu á áhrifum framkvæmdarinnar á vatnshlot þótt sú umfjöllun hefði mátt vera ítarlegri.

Með hliðsjón af öllu framangreindu verður að líta svo á að Skipulagsstofnun hafi við ákvörðunartöku sína litið með viðhlítandi hætti til viðmiða 2. viðauka laga nr. 111/2021. Verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar því hafnað.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um að ógilda ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 18. október 2024 um að 200.000 m3 efnistaka á um 4 ha svæði í Sandártungu í Þjórsárdal skuli ekki sæta umhverfismati.

152/2024 Langalda

Með

Árið 2025, miðvikudaginn 5. febrúar, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundarbúnað. Þátt tóku Arnór Snæbjörnsson formaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor, Geir Oddsson auðlindafræðingur, Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður og Þorsteinn Sæmundsson jarðfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 152/2024, kæra á ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 3. október 2024 um að 250.000 m3 efnistaka á 9,4 ha svæði við Langöldu í Rangárþingi ytra skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 4. nóvember 2024, er barst nefndinni sama dag, kæra samtökin Náttúrugrið þá ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 3. október 2024 að 250.000 m3 efnistaka á 9,4 ha svæði við Langöldu í Rangárþingi ytra skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Skipulagsstofnun 3. desember 2024.

Málavextir: Hinn 19. ágúst 2024 barst Skipulagsstofnun tilkynning frá Landsvirkjun um efnistöku við Langöldu í Rangárþingi ytra til ákvörðunar um matsskyldu skv. 19. gr. laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana, sbr. lið 2.02 í 1. viðauka laganna. Í greinargerð sem fylgdi tilkynningunni kom fram að ráðgert efnistökusvæði væri 9,4 ha að stærð og lægi sunnan við Sprengisandsleið og gatnamót við Búðarháls, milli Hrauneyjafosslínu 1 og Sigöldulínu 3. Sótt hafi verið efni í námu á svæðinu við gerð Sultartangastíflu á árunum 1982–1984 og hafi þá verið tekið um 250.000–270.000 m3 af efni. Fyrirhuguð framkvæmd geri ráð fyrir allt að 250.000 m3 efnistöku á árunum 2024–2030 og verði efnið m.a. nýtt til uppbyggingar á vindorkuveri við Vaðöldu (Búrfell). Hafði greinargerðin jafnframt þessu að geyma lýsingu á ráðgerðri tilhögun framkvæmdar.

Ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu framkvæmdarinnar lá fyrir 3. október 2024.  Í henni var fjallað um umhverfisáhrif framkvæmdarinnar eins og þeim var lýst í framlögðum gögnum framkvæmdaraðila og umsögnum umsagnaraðila. Tók umfjöllunin til áhrifa framkvæmdarinnar á verndarsvæði, á landslag og ásýnd og áhrifa á jarðmyndanir. Einnig áhrifa á vistgerðir, hljóðvist og rykmengun, umferð, útivist og óbyggð víðerni og á vatnshlot. Í niðurstöðukafla Skipulagsstofnunar kemur fram að um sé að ræða nokkuð umfangsmikla efnistöku á svæði sem hafi áður verið nýtt til námuvinnslu og hafi svæðinu því þegar verið raskað. Fyrirhuguð efnistaka muni hins vegar óhjákvæmilega hafa neikvæð áhrif á ásýnd, einkum á framkvæmdatíma, en með boðuðum aðgerðum um verklag og vönduðum frágangi svæðisins verði hægt að draga úr þeim áhrifum. Það var niðurstaða stofnunarinnar að þættir sem falli undir eðli, staðsetningu og eiginleika hugsanlegra áhrifa framkvæmdarinnar kölluðu ekki á að framkvæmdin undirgengist mat á umhverfisáhrifum.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að ráðgerð framkvæmd feli í sér hvort tveggja enduropnun efnistökusvæðis og námuvinnslu. Á níunda áratug síðustu aldar hafi 270.000 m3 af efni verið tekið úr námunni og séu nú áform um að bæta við efnistöku upp á 250.000 m3. Samkvæmt tölulið 2.01 í 1. viðauka laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana sé skylt að umhverfismeta framkvæmd þegar efnismagn vegna vinnslu auðlinda í jörðu sé meira en 500.000 m3. Með þessu fari heildarefnismagn yfir þröskuldsviðmið töluliðarins. Er af þessu tilefni vísað til grunnraka laga nr. 111/2021, tilgangs þeirra og uppruna, dómaframkvæmdar Evrópudómstólsins og 10. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd, sem bæði framkvæmdaraðili og Skipulagsstofnun séu bundin af, sbr. 7. gr. laganna.

Verði ekki fallist á þessi málsrök telji kærandi að efnistakan sé eftir sem áður hluti af framkvæmdinni Búrfellslundi og því þurfi að meta samlegðaráhrif og fjalla um tilkynningu framkvæmdaraðila út frá þeirri staðreynd, sbr. tölulið 13.02 í 1. viðauka laga nr. 111/2021. Í matsskýrslu framkvæmdaraðila fyrir framkvæmdina Búrfellslund frá árinu 2016 hafi verið greint frá áætlaðri heildarefnistöku, eftir valkostum, eða samtals 700.000–1.000.000 m3. Ítarleg grein hafi verið gerð fyrir því hvar taka ætti það efni, auk þess sem rakið hafi verið hvaða aðrir mögulegir efnistökustaðir gætu bæst við. Efnistakan hafi verið meðal áhrifa- og umhverfisþátta umhverfismatsins og tilteknir efnistökustaðir verið tilgreindir, en þar hafi ekki verið greint frá efnistöku við Langöldu. Í tilkynningu til Skipulagsstofnunar til matsskyldu framkvæmdarinnar hafi ekki verið fjallað um tengsl hennar við Búrfellslund sem sé ekki í samræmi við áskilnað í 2. mgr. 19. gr. laga nr. 111/2021. Það breyti ekki skyldu Skipulagsstofnunar til að kanna þau tengsl sjálfstætt.

Námuvinnsla sé þess eðlis að efnistökusvæði jafni sig ekki með tímanum. Það að 40 ár hafi liðið frá því að efni hafi verið tekið af svæðinu leiði ekki til þess að unnt sé að byrja með „hreint borð“. Um þetta sé vísað til rökstuðnings úrskurðarnefndarinnar í úrskurði frá 31. október 2024 í máli nr. 89/2024. Ekki megi láta hjá líða að meta heildaráhrifin í samræmi við 10. gr. náttúruverndarlaga. Auk framangreinds eigi það að leiða til ógildingar á hinni kærðu ákvörðun að Skipulagsstofnun hafi látið hjá líða að afla afstöðu Umhverfisstofnunar, en efnistökusvæðið sé á skilgreindu hverfisverndarsvæði. Þá hafi ekkert verið fjallað um aðkomu Orkustofnunar að efnistökuleyfum í þjóðlendum, sbr. lög nr. 57/1998 um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu.

Í ákvörðun Skipulagsstofnunar fullyrði stofnunin að umferð á áhrifasvæðinu sé almennt lítil og telji því ekki líkur á að umferð efnisflutningabifreiða komi til með að hafa neikvæð áhrif. Fullyrðingin sé í beinni andstöðu við það sem fram komi í tilkynningu framkvæmdaraðila þar sem vísað sé til þess að samkvæmt vef Vegagerðarinnar hafi mánuðina júní, júlí, ágúst og september 2023 farið að meðaltali 375 bílar á dag um umræddan hluta Sprengisandsleiðar. Það sé ljóst að það séu ferðamenn að leita inn á hálendið. Þetta sé töluvert meiri umferð bíla en fari um sömu mánuði um Kjalveg norðan Gullfoss og lítilsháttar færri bílar en þeir sem aki veginn niður að Dettifossi austan megin. Á áhrifasvæðinu sé því umferð bíla töluvert mikil. Séu upplýsingar um áætlaða umferð efnisflutningabíla ekki greinargóðar, en umferð allt að 120 efnisflutningabíla verði um svæðið daglega þegar mest verði. Það séu mikil en ekki lítil áhrif, svo sem Skipulagsstofnun hafi ályktað um.

Kærandi álítur að framkvæmdaraðili hafi ekki lagt fram fullnægjandi upplýsingar með tilkynningu framkvæmdarinnar til Skipulagsstofnunar. Vísar hann í því sambandi til grunnraka 2. viðauka, sbr. 19. gr. laga nr. 111/2021, sem varði til hvaða atriða Skipulagsstofnun skuli líta til við ákvörðun um matsskyldu. Jafnframt beri að líta til tilskipunar 2011/92/ESB. Samkvæmt 3. gr. laga nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið beri að túlka íslensk lög til samræmis við EES-samninginn og gerðir hans og leiki ekki neinn vafi á því að íslensk stjórnvöld séu bundin af skuldbindingum tilskipunarinnar. Í henni sé kveðið á um þá skyldu framkvæmdaraðila að taka tillit til fyrirliggjandi niðurstaðna úr öðrum viðeigandi mötum á umhverfisáhrifum, en þessu hafi ekki verið sinnt.

Skipulagsstofnun hafi borið að vísa til viðeigandi viðmiða í 2. viðauka laga nr. 111/2021, sbr. einnig b-lið 5. mgr. 4. gr. tilskipunar 2011/92/ESB. Rökstuðningur hinnar kærðu ákvörðunar hafi ekki verið fullnægjandi m.t.t. þeirra atriða sem þar séu nefnd. Þannig hafi borið að athuga eiginleika framkvæmdarinnar með tilliti til samlagningaráhrifa við aðrar framkvæmdir. Fyrir liggi að Búrfellslundur sé talinn þurfa a.m.k. 700.000 m3 af efni, en hvergi hafi ljósi verið varpað á það hvernig efnistöku í Langöldu sé ætlað að koma inn í þá heildarmynd. Jafnframt sé ljóst að með því að tengja ekki efnistökuna við aðra fyrirhugaða efnistöku í tengslum við Búrfellslund hafi Skipulagsstofnun brotið gegn skyldum sínum til að líta til eiginleika áhrifanna, þ.m.t. umfangs áhrifa á fjölda ferðafólks.

Í 32. gr. náttúruverndarlaga sé mælt fyrir um að skrá skuli vegi í náttúru Íslands. Ekki verði séð að sá slóði sem vísað sé til að sé til staðar á umræddu svæði hafi fengið þá málsmeðferð sem mælt sé fyrir um í ákvæðinu. Ekki sé að finna umfjöllun um þetta atriði í hinni kærðu ákvörðun og sé um ógildingarannmarka að ræða, enda verði matsskylduákvörðunin ekki byggð á óopinberum akvegum. Þá sé ekki að finna viðhlítandi mat á því hvort stórtæk efnistaka við læki leiði til þess að bindandi umhverfismarkmið laga nr. 36/2011 um stjórn vatnamála náist varðandi straumvatnshlotið Langöldulækir (103-930-R). Sú umfjöllun sem finna megi í hinni kærðu ákvörðun feli ekki í sér slíkt mat, sbr. úrskurð úrskurðarnefndarinnar frá 21. desember 2023 í máli nr. 127/2023.

Að lokum er af hálfu kæranda bent á að efnistökusvæðið sé í þjóðlendu og ekki liggi fyrir í gögnum hver sé afstaða forsætisráðuneytisins, sem fari með málefni þjóðlendna. Í því felist brot á rannsóknarskyldu hafi ekki verið leitað afstöðu ráðuneytisins, enda þurfi samþykki þess fyrir efnistöku í þjóðlendum skv. 3. mgr. 3. gr. laga nr. 58/1998 um þjóðlendur. Hafi ekki einu sinni verið vikið að hlutverki ráðuneytisins í ákvörðuninni.

Málsrök Skipulagsstofnunar: Stofnunin bendir á að í niðurstöðukafla hinnar kærðu ákvörðunar sé að finna rökstuðning sem hafi að geyma þau meginsjónarmið sem ákvörðunin hafi byggst á, sbr. 1. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í því efni skipti ekki máli þótt rökstuðningurinn sé stuttur, en eðli málsins samkvæmt taki hann mið af gögnum málsins, þ.e. tilkynningu framkvæmdaraðila og umsögnum.

Ekki sé hægt að taka undir þá afstöðu kæranda að leggja eigi hina fyrirhuguðu 250.000 m3 efnistöku við 270.000 m3 af áður teknu efni með þeim afleiðingum að um framkvæmd í flokki A væri að ræða skv. tölulið 2.01 í 1. viðauka í lögum nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Sú efnistaka hafi farið fram á svæðinu á árunum 1982–1984 eða fyrir 40 árum. Á þeim tíma hafi ekki verið fyrir hendi lög um mat á umhverfisáhrifum, þar sem fyrstu lög þess efnis hafi verið sett árið 1993, sbr. lög nr. 63/1993. Í ákvæði til bráðabirgða við þau lög hafi sagt að framkvæmdir samkvæmt leyfum útgefnum fyrir 1. maí 1994 væru ekki háðar mati á umhverfisáhrifum samkvæmt lögunum.

Samkvæmt ii-lið í 1. tölulið 2. viðauka laga nr. 111/2021 þurfi að athuga eðli framkvæmdar, einkum með tilliti til samlegðar með öðrum framkvæmdum. Með hliðsjón af þeirri meginreglu hefði Skipulagsstofnun átt að gera í hinni kærðu ákvörðun grein fyrir tengslum hinnar tilkynntu efnistöku við þá efnistöku sem um sé fjallað í umhverfismati Búrfellslundar, sbr. álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum þeirrar framkvæmdar frá 21. desember 2016, enda sé fyrrnefnda framkvæmdin í nokkurri nálægð við framkvæmdasvæði Búrfellslundar.

Óskað hafi verið eftir umsögn frá Umhverfisstofnun vegna matsskyldufyrirspurnarinnar en stofnunin hafi svarað því til að hún hygðist ekki veita umsögn. Að mati Skipulagsstofnunar hafi málið verið álitið nægilega upplýst til að stofnunin gæti tekið matsskylduákvörðun án þess að umsögnin lægi fyrir. Þá kveði 68. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd aðeins á um skyldu til að leita umsagnar Umhverfisstofnunar vegna mats á umhverfisáhrifum. Hvað varði aðkomu Orkustofnunar þá sé framkvæmdin ekki háð leyfi hennar, með þeim undantekningum sem greini í lögum nr. 58/1998 um þjóðlendur.

Í kafla 3.9.1 í tilkynningu framkvæmdaraðila komi fram að dagleg umferð muni aukast með enduropnun námunnar og muni hún því hafa áhrif á umferð og samgöngur á svæðinu. Vegalengd sé ekki mikil þar sem náman sé staðsett nálægt fyrirhugaðri notkun efnisins. Þá segi: „Núverandi dagleg umferð um veg F26 er ekki mikil og mun því aukin umsvif í kringum námuna ekki hafa mikil áhrif.“ Með hliðsjón af því geti Skipulagsstofnun ekki tekið undir þau orð kæranda að fullyrðing stofnunarinnar um litla umferð sé í beinni andstöðu við það sem fram komi í matsskyldufyrirspurn. Þá fáist ekki séð að 32. gr. náttúruverndarlaga, um skrá yfir vegi í náttúru Íslands, hafi þýðingu í tengslum við hina kærðu ákvörðun og sé því ekki um annmarka að ræða.

Framkvæmdaraðili hafi lagt fram upplýsingar í samræmi við kröfur 9. gr. reglugerðar nr. 1381/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Þá hafi í hinni kærðu ákvörðun verið litið með fullnægjandi hætti til þeirra viðmiða í 2. viðauka með lögum nr. 111/2021 sem hafi átt við, að frátöldu því að gera hefði átt grein fyrir tengslum hinnar tilkynntu efnistöku við þá efnistöku sem um hafi verið fjallað í umhverfismati Búrfellslundar.

Hvað varði vísan kæranda til úrskurðar úrskurðarnefndarinnar frá 21. desember 2023 í máli nr. 127/2023 sé bent á að úrskurðurinn hafi varðað skyldur leyfisveitanda skv. lögum nr. 36/2011 um stjórn vatnamála. Skipulagsstofnun sé ekki leyfisveitandi en leggi áherslu á að gögn málsins gefi ekki til kynna að ástandi vatnshlotanna við Langöldulæk og Tungnaárhraun muni hnigna eða að vatnshlotin verði fyrir vatnsformfræðilegum breytingum í skilningi laganna.

Því sé að lokum hafnað að talist geti til verulegs annmarka á hinni kærðu ákvörðun að ekki liggi fyrir umsögn frá forsætisráðuneytinu vegna framkvæmda í þjóðlendu. Það hefði hins vegar verið rétt að taka fram að samþykki ráðuneytisins þurfi að liggja fyrir með vísan til laga nr. 58/1998.

 Athugasemdir framkvæmdaraðila: Af hálfu framkvæmdaraðila er bent á að á Skipulagsstofnun hafi ekki hvílt skylda til að óska umsagnar frá forsætisráðuneytinu. Fyrir liggi umsögn ráðuneytisins vegna fyrirhugaðrar breytingar á Aðalskipulagi Rangárþings ytra 2016–2028 og hafi þar ekki verið gerðar athugasemdir við efnistökuáformin aðrar en þær að lögð hafi verið áhersla á að sem minnst rask yrði á landslagi, að gætt yrði að frágangi yfirborðs og að samráð yrði haft við ráðuneytið kæmi til frekari skipulagsvinnu. Þess utan sé fjallað um efnistöku við Langöldu í samningi Landsvirkjunar og forsætisráðuneytisins frá 2021 um endurgjald fyrir nýtingu lands- og vatnsréttinda vegna Vatnsfells- og Búðarhálsvirkjunar. Þá sé því hafnað að það teljist annmarki á hinni kærðu ákvörðun að Umhverfisstofnun hafi ekki skilað inn umsögn við meðferð málsins, en Skipulagsstofnun hafi sannarlega óskað eftir umsögn og geti stofnunin ekki borið ábyrgð á því ef umsagnaraðilar verði ekki við slíkri ósk. Ekki hvíli á Skipulagsstofnun sérstök skylda til að ganga á eftir því að umsagnaraðilar skili umsögnum. Það hafi því ekki verið brotið gegn rannsóknarskyldu við undirbúning hinnar kærðu ákvörðunar.

Í matsskýrslu Landsvirkjunar frá mars 2016, vegna upphaflegrar útfærslu vindorkuversins Búrfellslundar, hafi verið fjallað um efnistöku og að þörf kynni að vera á nýtingu gamalla náma í grennd við framkvæmdasvæðið þar sem jarðrask hafi þegar átt sér stað. Því sé hafnað að í matsskyldufyrirspurn hafi ekki verið gerð grein fyrir þessum tengslum við Búrfellslund. Eðlilegt sé að umfangsmiklar framkvæmdir á borð við Búrfellslund taki nokkrum breytingum eftir því sem áformum vindi fram, þ.m.t. að efnistaka sé löguð að þörf og aðstæðum hverju sinni. Rétt sé að benda á að efnistökuþörf vegna endurhannaðs Búrfellslundar sé umtalsvert minni en samkvæmt upphaflegum útfærslum vindorkuversins. Af þessu leiði að tilkynning framkvæmdaraðila hafi verið reist á réttum lagagrundvelli.

Því sé hafnað að leggja hefði átt saman fyrirhugaða efnistöku við þá efnistöku sem hafi átt sér stað á árunum 1982–1984 með vísan til sömu sjónarmiða og fram hafi komið í umsögn Skipulagsstofnunar. Almenn sjónarmið um lagaskil leiði til þess að hvort tveggja tilkynning framkvæmdaraðila og hin kærða ákvörðun hafi byggst réttilega á umfangi þeirra framkvæmda sem nú séu fyrirhugaðar við Langöldu. Framkvæmdin falli réttilega undir tölulið 2.02 í 1. viðauka við lög nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Tilkynning félagsins um fyrirhugaða framkvæmd hafi að fullu verið í samræmi við 2. mgr. 19. gr. laga nr. 111/2021, en þar sé að finna umfjöllun um þá þætti sem framkvæmdin sé talin hafa áhrif á og jafnframt dregnar ályktanir um líkleg umhverfisáhrif. Þá megi nefna að þar megi finna sérstaka umfjöllun um áhrif framkvæmdarinnar á vatnshlot Langöldulækja og Tungnaárhrauns, sbr. lög nr. 36/2011 um stjórn vatnamála. Úrskurður úrskurðarnefndarinnar frá 21. desember 2023 í máli nr. 127/2023 eigi ekki við þar sem atvik og grundvöllur séu verulega ólík því máli sem hér sé til umfjöllunar.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 3. október 2024 um að 250.000 m3 efnistaka á 9,4 ha svæði við Langöldu í Rangárþingi ytra skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Kæruheimild til úrskurðarnefndarinnar er í 30. gr. laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana.

Fyrirhuguð framkvæmd var tilkynnt til Skipulagsstofnunar til ákvörðunar um matsskyldu skv. 2. mgr. 19. gr. laga nr. 111/2021, sbr. tölulið 2.02 í 1. viðauka laganna. Í þeim lið er tilgreint að efnistaka, utan þess sem tilgreint sé í tölulið 2.01, þar sem áætlað sé að raska 2,5 ha svæði eða stærra eða efnismagn er 50.000 m3 eða meira, ásamt efnistöku þar sem fleiri en einn efnistökustaður vegna sömu framkvæmdar og á sama svæði ná samanlagt yfir 2,5 svæði eða stærra, falli undir flokk B. Í lið 2.01 er hins vegar tilgreint að efnistaka þar sem áætlað er að raska 25 ha svæði eða stærra eða efnismagn er 500.000 m3 eða meira falli undir flokk A.

Samkvæmt 18. gr. laga nr. 111/2021 eru framkvæmdir í flokki A ávallt háðar mati á umhverfisáhrifum, en matsskylda framkvæmda sem tilgreindar eru í flokki B ræðst af því hvort framkvæmd geti haft í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif vegna umfangs, eðlis eða staðsetningar. Í 2. viðauka við lögin eru þeir þættir sem líta ber til við það mat taldir upp í þremur töluliðum, þ.e. eðli framkvæmdar, staðsetning og eiginleikar hugsanlegra áhrifa hennar. Undir hverjum tölulið er svo fjöldi annarra liða. Eðli máls samkvæmt fer það eftir þeirri framkvæmd sem ákvörðunin snýst um hverjir þeirra liða vega þyngra en aðrir við mat Skipulagsstofnunar á því hvort umhverfisáhrif framkvæmdar teljist umtalsverð, en það að framkvæmd falli undir einhverja þeirra leiðir þó ekki sjálfkrafa til matsskyldu.

Lög nr. 111/2021 gera ráð fyrir því að framkvæmdaraðili afli og leggi fram á viðhlítandi hátt upplýsingar um framkvæmd og líkleg umtalsverð umhverfisáhrif hennar, sbr. 2. mgr. 19. gr. laganna. Þá er í 9. gr. reglugerðar nr. 1381/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana nánar kveðið á um efni tilkynningar framkvæmdar í flokki B. Mat Skipulagsstofnunar á því hvort framkvæmd skuli háð umhverfismati samkvæmt lögunum hlýtur eðli máls samkvæmt að lúta að því að sannreyna gildi gagna og gæði þeirra. Í þeim tilgangi skal stofnunin leita álits umsagnaraðila áður en ákvörðun um matsskyldu er tekin, sbr. 1. mgr. 20. gr. laganna, en til þeirra teljast opinberar stofnanir, stjórnvöld eða aðrir lögaðilar sem sinna lögbundnum verkefnum sem varða framkvæmdir og/eða áætlanir sem falla undir lögin eða umhverfisáhrif þeirra. Þá ber Skipulagsstofnun jafnframt að gæta þess að fullnægjandi gögn hafi verið lögð fram og hvílir á stofnuninni sú skylda að upplýsa málið að því marki að hún geti komist að efnislega réttri niðurstöðu.

—–

Í tilkynningu framkvæmdaraðila er lýst áformum um að „enduropna efnistökusvæði“ við Langöldu. Svæðið sé 9,4 ha að stærð og sé gert ráð fyrir allt að 250.000 m3 efnistöku á árunum 2024–2030. Verði efni m.a. nýtt við gerð vindorkuvers við Vaðöldu (Búrfellslundur). Efnistökusvæðið sé staðsett sunnan við Sprengisandsleið og gatnamót við Búðarháls, milli Hrauneyjafosslínu 1 og Sigöldulínu 3. Sótt hafi verið efni í námu á svæðinu við gerð Sultartangastíflu á árunum 1982–1984 og hafi þá verið tekið um 250.000–270.000 m3 af efni. Vinnslu efnisins er lýst þannig að efnið verði rippað eða sprengt, svo mokað í forbrjót ef þörf sé á og eftir það verði efnið harpað og brotið aftur í mölunarsamstæðu í þær stærðir sem óskað sé eftir hverju sinni. Allt að 1.500 m3 af efni verði unnið á dag og fari þegar mest verði um 120 bílar um svæðið á dag. Gamlir námuvegir og slóðar liggi að námunni og þurfi að laga vegaslóða og slétta lítillega en ekki verði farið í aðra vegagerð. Svæðið umhverfis námuna einkennist bæði af óbyggðum víðernum og orkuvinnslu, en það sé mitt á milli tveggja 220 kV háspennulína. Fyrir liggi samningur framkvæmdaraðila við íslenska ríkið frá 2021 sem heimili efnistöku á áformuðu efnistökusvæði. Svæðið sé í Aðalskipulagi Rangárþings ytra 2016–2028 skilgreint sem skógræktar- og landgræðslusvæði, en unnið sé að því að breyta skipulaginu þannig að svæðið verði skilgreint sem efnistöku- og efnislosunarsvæði.

Við undirbúning hinnar kærðu ákvörðunar leitaði Skipulagsstofnun umsagna skv. 1. mgr. 20. gr. laga nr. 111/2021 og var óskað álits á tilkynningu framkvæmdaraðila og hvort framkvæmdin skyldi lúta umhverfismati. Í umsögn Heilbrigðiseftirlits Suðurlands kemur fram sú afstaða að tilkynning framkvæmdaraðila geri nægjanlega grein fyrir eðli, umfangi og umhverfi framkvæmdarinnar, sem og mótvægisaðgerðum, en ekki sé gert ráð fyrir sérstakri vöktun á umhverfisáhrifum á framkvæmdatíma. Varanleg umhverfisáhrif framkvæmdarinnar, önnur en sjónræn og staðbundin í næsta nágrenni hennar, séu óveruleg og mögulegt sé að milda þau með góðri umgengni á framkvæmdatíma og vönduðum frágangi umhverfis að framkvæmdum loknum. Framkvæmdin kalli ekki á mat á umhverfisáhrifum að teknu tilliti til þeirra viðmiða sem komi fram í 2. viðauka laga nr. 111/2021. Náttúrufræðistofnun Íslands gerði þá ábendingu í sinni umsögn að fyrirhugað efnistökusvæði sé innan svæðis sem falli undir hverfisvernd (HV13) samkvæmt Aðalskipulagi Rangárþings ytra 2016–2028, en liggi utan annarra verndarsvæða og þar séu hvorki vistkerfi né jarðminjar sem njóti sérstakrar verndar. Vegslóði að námunni fari hins vegar yfir sandorpið nútímahraun, Búrfellshraun, sem sé um 3.200 ára gamalt og njóti sérstakrar verndar skv. 61. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd. Líklegt sé að umhverfisáhrif verði aðallega á jarðminjar og ásýnd og að þau verði mest á framkvæmdatíma. Þá var það álit stofnunarinnar að nægjanlega vel væri gerð grein fyrir framkvæmdinni og umhverfisáhrifum og að ekki væri þörf á umhverfismati. Af hálfu Rangárþings ytra var lögð fram fundargerð frá fundi sveitarstjórnar 14. febrúar 2024 þar sem staðfest var sú niðurstaða skipulags- og umferðarnefndar frá 1. s.m. að fyrirhuguð enduropnun væri ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif. Umhverfisstofnun skilaði ekki umsögn um tilkynninguna.

Vegna athugasemda Náttúrufræðistofnunar Íslands kom framkvæmdaraðili á framfæri þeim svörum að núverandi vegslóði að námunni yrði notaður og að ekki yrði farið í aðra vegagerð. Áhrif á jarðminjar yrðu því óveruleg.

Í niðurstöðukafla ákvörðunar Skipulagsstofnunar var tekið fram að við mat á því hvort hin tilkynningarskylda framkvæmd ætti að sæta umhverfismati skyldi taka mið af eðli, staðsetningu og eiginleikum hugsanlegra áhrifa framkvæmdar og var um það vísað til nánar tilgreindra atriða í 1.–3. tölulið í 2. viðauka við lögin. Tekið var fram að um væri að ræða nokkuð umfangsmikla efnistöku á svæði sem hafi áður verið nýtt sem náma og hafi því þegar verið raskað. Fyrirhuguð efnistaka myndi óhjákvæmilega hafa neikvæð áhrif á ásýnd, einkum á framkvæmdatíma, en með boðuðum aðgerðum um verklag og vönduðum frágangi svæðisins væri hægt að draga úr þeim áhrifum. Ekki væru líkur á að umferð efnisflutningabifreiða kæmi til með að hafa neikvæð áhrif þar sem umferð á áhrifasvæðinu væri almennt lítil. Við lagfæringu á vegslóða verði tekið tillit til þess að svæðið fari um hraun sem njóti sérstakrar verndar. Leggur stofnunin áherslu á að viðhaft verði verklag sem komi í veg fyrir að olíumengun berist í jarðveg. Að endingu kemur fram það mat Skipulagsstofnunar að þættir sem falli undir eðli, staðsetningu og eiginleika hugsanlegra áhrifa framkvæmdarinnar kalli ekki á að framkvæmdin undirgangist mat á umhverfisáhrifum.

—–

Hin tilkynnta framkvæmd lýtur að 250.000 m3 efnistöku á allt að 9,4 ha efnistökusvæði við Langöldu í grennd við Sultartangalón og ráðgert vindorkuver við Búrfell. Í matsskyldufyrirspurn kom fram að náma á efnistökusvæðinu hafi verið notuð við gerð Sultartangastíflu á árunum 1982–1984. Af þeim upplýsingum sem eru í matsskyldufyrirspurn framkvæmdaraðila að dæma, virðist ljóst að gengið hafi verið frá námusvæðinu við lok þeirrar framkvæmdar og verður ekki af gögnum þessa máls ráðið að síðan hafi verið tekið efni á svæðinu. Verður í ljósi þessa að telja að eðlilegt hafi verið að líta svo á að um nýja framkvæmd væri að ræða skv. tölulið 2.02 í 1. viðauka laga nr. 111/2021, en ekki breytingu eða viðbót við eldri framkvæmd, sbr. tölulið 13.02 í sama viðauka.

Í 1. mgr. 20. gr. laga nr. 111/2021 er mælt fyrir um þá málsmeðferð sem Skipulagsstofnun ber að viðhafa við töku ákvörðunar um matsskyldu framkvæmdar. Segir þar meðal annars að stofnunin skuli leita umsagnar umsagnaraðilar „eftir því sem við á eftir eðli máls hverju sinni“. Í þeim tilvikum þegar umsögn berst ekki er tekið fram  að Skipulagsstofnun geti tekið ákvörðun á grundvelli fyrirliggjandi gagna. Fyrir liggur að Umhverfisstofnun barst umsagnarbeiðni, en stofnunin kaus að tjá sig ekki um matsskyldufyrirspurn framkvæmdaraðila. Telur kærandi að Skipulagsstofnun hafi borið að ganga á eftir umsögn stofnunarinnar, m.a. með hliðsjón af því að efnistökusvæðið sé á skilgreindu hverfisverndarsvæði samkvæmt aðalskipulagi. Ekki verður talið að afstaða Umhverfisstofnunar verði talin hafa verið nauðsynleg til þess að málið teldist nægjanlega upplýst, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Er þá til þess að líta að fallast verður á það mat framkvæmdaraðila að þar sem svæðinu hefur þegar verið raskað með fyrri efnistöku og þar sem gengið verði frá svæðinu til fyrra horfs verði áhrif framkvæmdanna á verndarsvæði óveruleg. Má að auki nefna sem kom fram í tilkynningu framkvæmdaraðila að sótt yrði um breytingu á skipulagi vegna framkvæmdarinnar þar sem svæðið yrði skilgreint sem efnistöku- og efnislosunarsvæði.

Þá verður heldur ekki talið að Skipulagsstofnun hafi borið að afla umsagnar forsætisráðuneytisins á grundvelli 1. mgr. 20. gr. laga nr. 111/2021 með vísan til þess að ráðuneytið fari með málefni þjóðlendna, þ.e. fari með heimildir eignarréttar á landssvæðinu í samræmi við ákvæði laga nr. 58/1998 um þjóðlendur, enda þótt vel hefði farið á slíku samráði. Verða verkefni ráðuneytisins skv. lögum nr. 58/1998 eigi talin af sama meiði og þeirra opinberu aðila sem sinna lögbundnum verkefnum sem varða framkvæmdir sem falla undir lög nr. 111/2021, sbr. 11. tl. 3. gr. þeirra laga.

Í tilkynningu framkvæmdaraðila til Skipulagsstofnunar kemur fram að hin fyrirhugaða efnistaka verði m.a. nýtt við gerð vindorkuvers við Vaðöldu (Búrfellslundur), en fyrir liggur að sú framkvæmd hefur sætt mati á umhverfisáhrifum, sbr. álit Skipulagsstofnunar þar um frá 21. desember 2016. Í matsskýrslu framkvæmdaraðila vegna vindorkuversins frá 2016 er að finna umfjöllun um mögulega efnistökustaði vegna efnisfrekra framkvæmda við vegi og undirstöður fyrir vindorkuverið. Efnistökumagn var á þeim tíma áætlað 702.000 m3, 1.045.000 m3 eða 765.000 m3, eftir því hvaða tillaga yrði fyrir valinu, en vegna endurhönnunar er efnisþörf nú álitin minni. Í áliti Skipulagsstofnunar um framkvæmdina eru reifuð áform framkvæmdaraðila um hvar þessi efnistaka geti farið fram og er ljóst af umfjölluninni að hún er með fyrirvara um nánari rannsóknir og er tekið fram að „á þessu stigi“ sé ekki hægt að segja til um hvar efni verði tekið. Slíkt verði tiltekið sérstaklega í umsókn um framkvæmdaleyfi þegar nær dragi framkvæmdum.

Það er viðhorf kæranda að hin ráðgerða efnistaka í Langöldu ætti með réttu að teljast til hluta af framkvæmdum við Búrfellslund sökum þess hversu tengd hún sé þeirri framkvæmd og hefði borið að meta hana í umhverfismati þeirrar framkvæmdar eða tilkynna hana til Skipulagsstofnunar sem breytingu á þeirri framkvæmd. Á móti má benda á að í lögum nr. 111/2021 er efnistaka nefnd sérstaklega í 1. viðauka við lögin þannig að gert er ráð fyrir að hún sæti eða geti sætt mati á umhverfisáhrifum ein og sér. Þá verður ekki álitið að efnistakan geti talist ákvarðandi fyrir tilhögun eða staðsetningu Búrfellslundar þannig að skylt hefði verið að meta hana með umhverfismati þeirrar framkvæmdar. Verður með hliðsjón af þessu ekki fallist á að um eina framkvæmd sé að ræða í skilningi laga nr. 111/2021.

Hin ráðgerða efnistaka fellur undir B-flokk í 1. viðauka við lög nr. 111/2021 og ber því við tilkynningu um hana til matsskyldu að fjalla m.a. um samlegðaráhrif bæði með tilliti til eðlis framkvæmdar, sbr. ii. lið 1. töluliðs, og gerðar og eiginleika framkvæmda, sbr. v. lið 3. töluliðs 2. viðauka við lögin. Af hálfu Skipulagsstofnunar hefur því verið lýst fyrir úrskurðarnefndinni að stofnuninni hefði verið rétt í hinni kærðu ákvörðun að gera nánari grein fyrir tengslum hinnar tilkynntu efnistöku við þá efnistöku sem um sé fjallað í umhverfismati Búrfellslundar. Verður af úrskurðarnefndinni fallist á að vel hefði farið á því að umfjöllun væri markvissari að því leyti til þótt athuga verði um leið að fjallað er um áhrif á umferð með hliðsjón af vindorkuverinu, þar sem greint er frá því að áformað sé að mest fari um 120 vörubílar um framkvæmdasvæðið og að bílar sem ferji efni frá efnistökustað að vindorkuverinu muni þvera Sprengisandsleið. Má með þessu telja ljóst hver sé tilgangur hinnar kærðu efnistöku og að áhrifa frá henni muni gæta vegna malarflutninga að vindorkuverinu.

Í áliti Skipulagsstofnunar var talið að fyrirhuguð framkvæmd muni koma til með að hafa áhrif á umferð á svæðinu, en vegalengdin sé hins vegar ekki löng og því muni aukin umsvif í kringum námuna ekki koma til með að hafa mikil áhrif. Kærandi telur að í þessu felist vanmat og ekkert í matsskyldufyrirspurn framkvæmdaraðila styðji þessa ályktun. Er í því sambandi vísað til umfjöllunar framkvæmdaraðila um að mánuðina júní, júlí, ágúst og september 2023 fari að meðaltali 375 bílar á dag um umræddan hluta Sprengisandsleiðar sem sé töluvert meiri umferð en fari daglega að meðaltali sömu mánuði um Kjalveg norðan Gullfoss. Þetta sé lítilsháttar minni umferð en sé sömu mánuði að Dettifossi austan megin. Að því athuguðu að um hálendisveg er að ræða má telja allnokkra umferð vera um Sprengisandsleið. Hún verður þó ekki talin veruleg. Til þess er einnig að líta að áhrif framkvæmdanna á umferð eru staðbundin auk þess að þau vara einungis á framkvæmdatíma. Verður því ekki talið að ályktun Skipulagsstofnunar sé áfátt.

Í tilkynningu framkvæmdaraðila um áhrif framkvæmdarinnar á vatnshlot er því lýst að framkvæmdasvæðið sé innan staðarmarka grunnvatnshlotsins Tungnaárhraun (103-308-G) og straumvatnshlotsins Langöldulækir (103-990-R). Umhverfismarkmið í Tungnaárhrauni sé að magnstaða sé góð og efnafræðilegt ástand sé gott en núverandi ástand sé óþekkt. Ekkert álag sé skráð á vatnshlotið. Umhverfismarkmið í Langöldulækjum sé að vistfræðilegt ástand sé mjög gott og efnafræðilegt ástand sé gott. Núverandi vistfræðilegt ástand sé skráð sem mjög gott en efnafræðilegt ástand sé óþekkt. Ekkert álag sé skráð á vatnshlotið og talið sé að umhverfismarkmið náist. Ekkert kemur fram í tilkynningunni um forsendur þessarar skráningar.

Í tilkynningu framkvæmdaraðila er tekið fram að hann álíti áhrif framkvæmdarinnar á vatnshlot óveruleg. Um leið er í tilkynningunni gerð grein fyrir aðgerðum sem gripið verði til í því skyni að sporna við mögulegri mengun og til að koma í veg fyrir olíuleka á svæðinu. Í hinni kærðu ákvörðun Skipulagsstofnunar er greint frá þessum áformum framkvæmdaraðila. Þá er gerð sú ábending um tilhögun framkvæmdarinnar, sbr. 2. mgr. 20. gr. laga nr. 111/2021, að viðhaft verði verklag sem komi í veg fyrir að olíumengun berist í jarðveg. Að þessu virtu verður ekki talið að hin kærða ákvörðun sé haldin ágalla hvað varðar lýsingu á áhrifum framkvæmdarinnar á vatnshlot að teknu tilliti til ákvæða laga nr. 36/2011.

Með hliðsjón af öllu framangreindu verður að líta svo á að Skipulagsstofnun hafi við ákvarðanatöku sína litið með viðhlítandi hætti til viðeigandi viðmiða 2. viðauka laga nr. 111/2021. Verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar því hafnað.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um að ógilda ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 3. október 2024 um að 250.000 m3 efnistaka á 9,4 ha svæði við Langöldu í Rangárþingi ytra skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

148/2024 Gáseyri

Með

Árið 2025, föstudaginn 17. janúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður, Geir Oddsson auðlindafræðingur og Þorsteinn Sæmundsson jarðfræðingur. Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor tók þátt í gegnum fjarfundabúnað.

Fyrir var tekið mál nr. 148/2024, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Hörgársveitar frá 13. júní 2024, um að synja umsókn um framkvæmdaleyfi vegna efnistöku úr sjó við Gáseyri í Hörgársveit.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi innviðaráðuneytisins dags. 29. október 2024, var úrskurðarnefndinni framsend kæra Gáseyrar ehf., dags. 28. s.m., þar sem kærð er ákvörðun sveitarstjórnar Hörgársveitar frá 13. júní 2024 um að synja umsókn um framkvæmdaleyfi vegna efnistöku úr sjó við Gáseyri í Hörgársveit. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Hörgársveit 29. nóvember 2024.

Málavextir: Með umsókn um framkvæmdaleyfi, dags. 31. maí 2024, sótti kærandi um leyfi til efnistöku á 50.000–150.000 m3 að Gáseyri við ósa Hörgár, norðan við bæinn Gásir og sunnan landamerkja Skipalóns. Kærandi breytti síðar umsókn sinni á þann veg að efnistökumagn yrði allt að 50.000 m3. Fjallað var um umsóknina á fundi skipulags- og umhverfisnefndar Hörgársveitar, 11. júní 2024, þar sem bókað var að sótt væri um leyfi til að taka allt að 50.000 m3 af sandi á þremur árum úr sandnámu á staðnum og væri ætlunin að nota efnið við framkvæmdir vegna Dalvíkurlínu 2, vegna Móahverfis á Akureyri og fleiri framkvæmda. Var á fundinum bókað að lagt væri til við sveitarstjórn að ekki yrði veitt heimild fyrir nýrri efnistöku fyrr en skýrsla um úttekt á efnistöku lægi fyrir í tengslum við endurskoðun aðalskipulags Hörgársveitar. Var tillaga skipulags- og umhverfisnefndar samþykkt á fundi sveitarstjórnar 13. s.m. og er það hin kærða ákvörðun í máli þessu.

Að beiðni kæranda var umsóknin tekin fyrir að nýju og var fjallað um hana á fundi skipulags- og umhverfisnefndar 13. nóvember 2024 sem og á fundi sveitarstjórnar 14. s.m. Var niðurstaða þeirra funda sú að synjað var um umsóknina að nýju með sömu rökum og áður.

 Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að fyrirhuguð efnistaka á Gáseyri sé úr sjó. Efni hafi verið tekið á Gáseyri frá árinu 1940 og þar sé að finna algjörlega sjálfbæra sandnámu sem endurnýi sig á nokkrum dögum. Fyrirhuguð efnistaka falli að öllu leyti að aðalskipulagi og umhverfisstefnu sveitarfélagsins. Þá sé framkvæmdin hvorki háð umhverfismati né samþykki Skipulagsstofnunar vegna smæðar efnistökusvæðisins og þess magns sem sótt sé um leyfi til að moka upp. Skortur sé á fínum ílagnasandi í öllum Eyjafirði eins og þeim sem finnist á Gáseyri og því keyri verktakar hundruð kílómetra eftir sama efni sem þurfi svo að vinna á staðnum með tilheyrandi kostnaðarauka fyrir verkkaupa, oftast sveitarfélögin sjálf. Þá hafi sveitarfélagið gefið út framkvæmdaleyfi til efnistöku á Moldhaugnahálsi 23. október 2024 og því standist rök fyrir synjuninni ekki.

 Málsrök Hörgársveitar: Bent er á að kæra í máli þessu sé dagsett 28. október 2024, en umsókn kæranda um framkvæmdaleyfi hafi verið hafnað 13. júní s.á. og honum tilkynnt um það með tölvupósti 14. s.m. Í tilkynningunni hafi hins vegar ekki verið leiðbeint um kæruheimild eða kærufresti. Í ljósi þess langa tíma sem liðið hafi þar til kæran barst úrskurðarnefndinni hljóti að koma til skoðunar hvort vísa eigi kærunni frá nefndinni þar sem kærufrestur hafi verið liðinn. Verði hins vegar talið að kæra hafi borist innan kærufrests beri að hafna kröfum kæranda.

Að beiðni kæranda hafi verið farið yfir málið með honum og bent á hvaða frekari gögn þyrftu vegna framkvæmdaleyfis. Málið hafi verið tekið fyrir að nýju á fundi skipulags- og umhverfisnefndar 13. nóvember 2024 og sveitarstjórnar 14. s.m., en ódagsett skjal, þar sem efnismagni sé breytt í allt að 50.000 m3 og fram komi frekari röksemdir kæranda, hafi ekki legið fyrir við umfjöllun sveitarstjórnar 13. júní 2024.

Gáseyri sé ekki skilgreint efnistökusvæði á skipulagi og ekki verði veittar heimildir til nýrrar efnistöku í sveitarfélaginu fyrr en úttekt hafi farið fram í tengslum við endurskoðun aðalskipulags. Sú úttekt sé í vinnslu. Nú þegar séu ýmis svæði skilgreind á skipulagi sem efnistökusvæði, þ. á m. svæði á Moldhaugnahálsi. Samræmist umsóknir aðalskipulagi og/eða deiliskipulagi og uppfylli lagaskilyrði séu gefin út framkvæmdaleyfi.

Í gildandi deiliskipulagi fyrir Gáseyri, komi fram að náttúrufar þar sé sérstakt hvað varði plöntu- og dýralíf o.fl. og þar séu einnig fornminjar. Að auki sé þar tjörn og sjávarfitjar sem falli undir a-lið 1. mgr. 61. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd. Einnig myndi þurfa umsögn Umhverfisstofnunar ef af efnistökunni yrði, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Á það er bent að jafnvel þó efnistaka sé undir 50.000 m3 þurfi, vegna staðsetningar, að liggja fyrir ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu framkvæmdar svo heimilt sé að gefa út leyfi til efnistöku.

Hið sérstaka náttúrufar Gáseyrar kalli á að sérstök varúð sé höfð þegar ákvarðanir séu teknar varðandi framkvæmdir á svæðinu, sbr. 9. gr. laga um náttúruvernd. Þá þurfi leyfisbeiðandi að leggja fram frekari gögn vegna umsóknarinnar, t.a.m. hver áhrifin verði á vatnshlotið, sbr. 11. gr. laga nr. 36/2011 um stjórn vatnamála, en efnistakan sé úr strandsjó, sem falli undir lög um stjórn vatnamála, sbr. 2. gr. laganna. Fyrirhuguð efnistaka sé um 1 km frá þeim stað sem Hörgá renni til sjávar. Þó renni læna úr henni í tjörn þá sem sé á eyrinni, a.m.k. þegar nægt vatnsmagn sé, og kanna þurfi áhrif efnistöku á svæðið, sjávarbotn og einnig fiskigengd en silungur gangi meðfram ströndinni, o.fl.

Sé því ljóst að umsókn kæranda hafi ekki uppfyllt skilyrði laga og ekki hafi legið fyrir nauðsynleg gögn henni til stuðnings. Hafi sveitarfélaginu því verið rétt og skylt að hafna henni.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um ákvörðun sveitarstjórnar Hörgársveitar frá 13. júní 2024 um að synja umsókn um framkvæmdaleyfi vegna efnistöku úr sjó við Gáseyri í Hörgársveit. Við töku hinnar kærðu ákvörðunar var af sveitarstjórn vísað til þess að ekki yrðu veittar heimildir til nýrrar efnistöku í sveitarfélaginu fyrr en úttekt á efnistöku hefði farið fram í tengslum við endurskoðun aðalskipulags. Ekki standi til að opna ný svæði til efnistöku fyrr en endurskoðun aðalskipulags liggi fyrir. Kæruheimild er í 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðun þá sem kæra lýtur að. Berist kæra að liðnum kærufresti skal vísa henni frá nema afsakanlegt verði talið að hún hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að taka hana til meðferðar, sbr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Kæra í máli þessu barst fyrst til innviðaráðuneytisins 28. október 2024 og var framsend til nefndarinnar degi síðar og var kærufrestur því liðinn. Í bréfi sveitarfélagsins til kæranda, dags. 14. júní 2024, þar sem tilkynnt var um afgreiðslu sveitarstjórnar á erindi hans var kæranda á hinn bóginn ekki leiðbeint um kæruheimild og kærufrest, svo sem mælt er fyrir um í 2. tl. 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Með hliðsjón af því þykir afsakanlegt að kæran hafi borist að liðnum kærufresti og verður málið því tekið til efnismeðferðar með hliðsjón af 1. tl. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 skal afla framkvæmdaleyfis sveitarstjórnar vegna meiri háttar framkvæmda sem áhrif hafa á umhverfið og breyta ásýnd þess, svo sem breytinga lands með jarðvegi eða efnistöku, og annarra framkvæmda sem falla undir lög um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Í 2. mgr. lagagreinarinnar kemur fram að öll efnistaka á landi, úr botni vatnsfalla og stöðuvatna og úr hafsbotni innan netlaga sé háð framkvæmdaleyfi hlutaðeigandi sveitarstjórnar. Þó er eiganda eða umráðamanni eignarlands heimil án leyfis minni háttar efnistaka til eigin nota nema um sé að ræða náttúruverndarsvæði eða jarðminjar eða vistkerfi sem njóta verndar skv. 61. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd. Í 3. mgr. 13. gr. skipulagslaga er kveðið á um að sá sem óski framkvæmdaleyfis skuli senda skriflega umsókn til sveitarstjórnar ásamt nauðsynlegum gögnum sem nánar skuli kveða á um í reglugerð. Í 7. gr. reglugerðar um framkvæmdaleyfi nr. 772/2012 eru í sex töluliðum talin upp þau gögn sem fylgja þurfi umsókn, þ. á m. er lýsing á framkvæmd og hvernig hún falli að gildandi skipulagsáætlunum og staðháttum, sbr. 3. tölul. Við útgáfu framkvæmdaleyfis skal sveitarstjórn skv. 4. mgr. 13. gr. skipulagslaga fjalla um og taka afstöðu til þess hvort framkvæmd sé í samræmi við skipulagsáætlanir.

Samkvæmt Aðalskipulagi Hörgársveitar 2012–2024 er svæðið sem um ræðir skilgreint sem opið svæði. Í greinargerð skipulagsins þar sem fjallað er um opin svæði segir að allt vatnasvið Hörgár sé skilgreint sem fjarsvæði vatnsverndar en innan fjarsvæðisins séu skilgreind nokkur opin svæði. Þurfi því allar framkvæmdir á þeim svæðum frekari fyrirmæli Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra til þess að tryggja öryggi vatnsverndarsvæða. Í töflu er tiltekið um hvaða svæði ræði og er þar á meðal svæðið Gásar, auðkennt OP-6.

Í kafla 3. 2.7. í aðalskipulaginu er umfjöllun um efnistöku- og efnislosunarsvæði. Þar kemur fram að áætlanir um efnistöku skuli vera í samræmi við skipulagsáætlanir og taka mið af þeim verndarákvæðum sem þar eru sett fram, s.s. vegna hverfisverndar, svæða á náttúruminjaskrá, friðlýstra svæða og friðlýstra fornminja. Efnistaka skuli ekki fara nær friðlýstum fornminjum og öðrum merkum minjum en 100 m og ekki nær öðrum minjum en 15 m. Þá skuli taka tillit til jarðmyndana og vistkerfa sem njóta verndar skv. lögum nr. 60/2013 um náttúruvernd. Í töflu er að finna yfirlit yfir núverandi og áætluð efnistökusvæði í Hörgársveit. Efnistöku- og efnislosunarsvæði eru merkt E á skipulagsuppdrætti. Ekki er gert ráð fyrir efnistöku á Gáseyri í aðalskipulaginu.

Í gildi er deiliskipulag fyrir Gáseyri sem birt var í B-deild Stjórnartíðinda 6. september 2021. Samkvæmt greinargerð skipulagsins tekur það til kirkju og þjónustuhúss, bílastæða og aðkomuvega auk tilgátubúða í grennd við minjar hins forna kaupstaðar að Gásum. Fram kemur að tilgangur deiliskipulagsins sé að stuðla að verndun og varðveislu minja, setja fram stefnu um framtíðaruppbyggingu á svæðinu og skapa umgjörð fyrir sögutengdan áfangastað og útivistasvæði. Sé hluti svæðisins á náttúruminjaskrá þar sem finnist plöntur á válista ásamt því að svæðið hafi alþjóðlegt náttúruverndargildi vegna fuglalífs. Auk þess sé ósasvæði Hörgár ásamt Gáseyri á náttúruminjaskrá. Þá kemur fram að miklar líkur séu á að fleiri fornminjar leynist á svæðinu en mældar hafi verið upp og því sé mikilvægt að ganga um svæðið allt með varúð.

Samkvæmt 1. mgr. 12. gr. laga nr. 123/2010 nær skipulagsskylda til lands og hafs innan marka sveitarfélaga og skal bygging húsa og annarra mannvirkja ofan jarðar og neðan og aðrar framkvæmdir og aðgerðir sem hafa áhrif á umhverfið og breyta ásýnd þess vera í samræmi við skipulagsáætlanir. Hin áformaða efnistaka kæranda er samkvæmt framanröktu ekki í samræmi við skipulag og verður þegar af þeim sökum að fallast á sjónarmið Hörgársveitar og synja kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um að felld verði úr gildi ákvörðun sveitarstjórnar Hörgársveitar frá 13. júní 2024 um að synja umsókn um framkvæmdaleyfi vegna efnistöku úr sjó við Gáseyri í Hörgársveit.

60/2024 Búrfellshólmi

Með

Árið 2024, fimmtudaginn 8. ágúst 2024, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Sæmundsson jarðfræðingur. Arnór Snæbjörnsson formaður tók þátt í gegnum fjarfundabúnað.

Fyrir var tekið mál nr. 60/2024, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Skeiða- og Gnúpverjahrepps frá 8. maí 2024 um að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir efnistöku í Búrfellshólma.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 3. júní 2024, er barst nefndinni 4. s.m., kærir Náttúrugrið ákvörðun sveitarstjórnar Skeiða- og Gnúpverjahrepps frá 8. maí 2024 um að veita framkvæmdaleyfi fyrir efnistöku í Búrfellshólma fyrir allt að 50.000 m3. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Þess er jafnframt krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og er því ekki tilefni til að taka afstöðu til stöðvunarkröfu kæranda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Skeiða- og Gnúpverjahreppi 18. júní 2024.

Málavextir: Með úrskurði skipulagsstjóra ríkisins frá 1. mars 2000 var fallist á vikurnám á Hekluhafi austan við Búrfell í Gnúpverjahreppi, en samkvæmt úrskurðinum mun vikurnám hafa farið fram á svæðinu frá árinu 1969. Taldi skipulagsstjóri að fyrirhuguð framkvæmd myndi ekki hafa í för með sér umtalsverð áhrif á umhverfi, náttúruauðlindir eða samfélag, en setti það skilyrði í úrskurði sínum að mörk vinnslusvæðisins yrðu ákveðin í samráði við Náttúruvernd ríkisins. Í úrskurðinum var jafnframt vísað til þess að fyrir lægi sérvinnsluleyfi, útgefið af iðnaðarráðuneytinu 1. júlí 1998, til tuttugu ára þar sem námusvæðið væri skilgreint sem svæði utan eignarlanda austan Búrfells í Gnúpverjahreppi og vestan Þjórsár. Það væri um 140 ha og áætluð efnistaka á gildistíma leyfisins væri 80–140.000 m3 árlega. Af málsgögnum má ráða að starfsemi í námunni féll niður og að árið 2021 var í það ráðist að leita tilboða um vikurnám á svæðinu.

 Á fundi sveitarstjórnar Skeiða- og Gnúpverjahrepps 8. maí 2024 var tekin fyrir og samþykkt umsókn leyfishafa um framkvæmdaleyfi vegna áframhaldandi efnistöku í tilraunaskyni í Búrfellshólma fyrir 50.000 m3. Í umsókninni kom fram að áætlað væri að hefja rannsóknir á vordögum er standa myndu yfir fram á haustið 2024 og tilgangur þeirra væri að öðlast betri skilning á efnisgæðum og tilhögun vinnslu og nýtingar. Þá stæði yfir vinna við umhverfismat og breytingu á aðalskipulagi sem miðaði að stækkun efnistökusvæðis. Hið kærða framkvæmdaleyfi var gefið út 6. júní s.á.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að mál þetta varði framkvæmdaleyfi á vikri, sem verði fluttur af svæðinu til vinnslu og útflutnings. Um sé að ræða hluta af framkvæmd sem fjallað hafi verið um í úrskurði skipulagsstjóra ríkisins, dags. 1. mars 2000. Þar komi fram að heimilt sé að taka allt að 140.000 m3 vikurs árlega á 20 ára tímabili á um 140 ha svæði. Í niðurstöðukafla úrskurðarins hafi verið lögð áhersla á að ætla mætti „að svigrúm sé til þess að takmarka námusvæðið enn frekar“. Þá sé bent á að með úrskurði óbyggðanefndar 21. mars 2002 í máli nr. 7/2000 hafi umrætt svæði verið úrskurðað þjóðlenda og gildi því um það fyrirmæli laga nr. 58/1998 um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta.

Í hinni kærðu ákvörðun skorti allar upplýsingar sem lög kveði á um. Ákvörðunin standist ekki grundvallarákvæði skipulagslaga nr. 123/2010. Engin rannsókn virðist hafa farið fram við undirbúning ákvörðunarinnar, engin vísbending sé um að sveitarstjórn hafi lagt álit Skipulagsstofnunar til grundvallar ákvörðun sinni og engan rökstuðning sé að finna fyrir leyfinu, líkt og skylt sé að lögum. Nýting auðlinda úr jörðu sé háð leyfi Orkustofnunar, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 57/1998 um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu en ekki verði séð að slíkt leyfi liggi fyrir. Undanþága 8. gr. sömu laga eigi aðeins við um eignarlönd. Þá liggi ekki fyrir leyfi forsætisráðuneytisins, svo sem áskilið sé í fyrri málslið 2. mgr. 31. gr. laga nr. 57/1998 en samningur um hagnýtingu geti ekki komið því í stað. Ekki liggi heldur fyrir leyfi Fiskistofu skv. 33. gr. laga nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði.

Leyfisveitandi hafi ekki tekið mið af bindandi umhverfismarkmiðum laga nr. 36/2011 um stjórn vatnamála eða fjallað um áhrif ákvörðunarinnar á gæði vatnshlots. Ekki hafi á neinu tímamarki farið fram mat á áhrifum framkvæmdar skv. 10. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd. Sé bent á alvarlegar athugasemdir sem hafi borist í umsögnum í apríl 2024 við matsáætlun og í niðurstöðu Skipulagsstofnunar í úrskurði frá 1. mars 2000. Þá sé það verulegur annmarki að hvorki sé í hinni kærðu ákvörðun né í aðalskipulagi sveitarfélagsins fjallað um áskilnað 8., sbr. 7. gr. laga nr. 60/2013, sem varði nauðsynlegan vísindalegan grundvöll ákvarðana og áætlana.

Málsrök Skeiða- og Gnúpverjahrepps: Sveitarfélagið tekur fram að um sé að ræða áframhaldandi nýtingu á svæði sem skilgreint sé sem efnistökusvæði í aðalskipulagi og hafi hún sætt umhverfismati í tíð eldri laga. Nýtingin rúmist innan þess rúmmetrafjölda sem það umhverfismat hafi náð til. Um það sé nánar vísað til álits tilgreindrar verkfræðistofu samkvæmt minnisblaði, dags. 31. maí 2019. Um sé að ræða námu sem hafi staðgreiningarnúmer E33 í aðalskipulagi sveitarfélagsins 2017–2029 og sem „geymi 2.000.000 m3 efni“ á 235 ha svæði.

Hið kærða leyfi sé eingöngu veitt til rannsókna og sé leyfishafa skylt að lúta skilmálum útboðsgagna og aðalskipulags við vinnsluna að teknu tilliti til úrskurðar skipulagsstjóra ríkisins frá 1. mars 2000 um mat á umhverfisáhrifum vikurnáms í Hekluhafi við Búrfell. Í útboðsskilmálum komi m.a. fram að ganga þurfi frá efnistökusvæði strax og efnistöku ljúki þannig að það „falli aftur að umhverfi sínu og líkist sem mest landformum og nágrenni þess“. Við frágang vegna efnistökunnar skuli einnig miða við leiðbeiningar í ritinu Námur – efnistaka og frágangur, sem gefið hafi verið út af m.a. Vegagerðinni og umhverfisráðuneyti. Sé því mótmælt að framkvæmdaleyfið hafi ekki verið veitt á lögmætum grunni enda liggi fyrir umhverfismat auk þess sem það byggi á aðalskipulagi. Þá sé unnið að mati á umhverfisáhrifum aukinnar vikurvinnslu á svæðinu.

Athugasemdir leyfishafa: Af hálfu leyfishafa er tekið fram að hann hafi verið þátttakandi í útboði um efnistöku og nýtingu í Búrfellshólmsnámu og hafi verið vísað til þess að það svæði væri 189 ha og magn vikurs á bilinu 3–5 milljónir m3. Gerður hafi verið samningur milli leyfishafa og hreppsins um efnistökuna, dags. 14. september 2023, en áskilið hafi verið í útboðinu að forsenda þess að samið yrði við verktaka væri að hann mundi sjá um og kosta umhverfismat. Sú efnistaka sem fari nú fram varði aðeins þegar raskað námusvæði og rannsóknir og tilraunir með efni sem þar sé að finna, en svæðið sé skilgreint sem námusvæði í aðalskipulagi. Þá sé því mótmælt með vísan til 1. mgr. 8. gr. a. laga nr. 57/1998 um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu að framkvæmdin sé háð leyfi Orkustofnunar skv. 6. gr. sömu laga.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Í viðbótarathugasemdum eru ítrekuð fyrri sjónarmið. Framkvæmdaleyfið rúmist ekki innan þeirrar framkvæmdar sem hafi verið umhverfismetin og sé því ekki í samræmi við matið. Jafnframt sé vísað til þess að í úrskurði skipulagsstjóra ríkisins frá 1. mars 2000, hafi komið fram að helstu umhverfisáhrif framkvæmdar séu sjónræn á meðan framkvæmdir standi yfir. Með stóraukinni ferðamennsku séu áhrifin orðin mun meiri, en um sé að ræða helstu ferðaleið fólks sem sæki í þá upplifun sem hálendið bjóði upp á. Þá virðist skilyrðum sem sett hafi verið í úrskurðinum í engu hafa verið sinnt. Magn efnis sem fyrirhugað sé að taka fylli a.m.k. 13 vörubílahlöss á dag væri ekið alla daga vikunnar frá leyfisveitingadegi í fulla fimm mánuði. Óljóst sé hvað slíkt magn efnis geri til að auka þekkingu. Sé málflutningur stjórnvaldsins og grundvöllur ákvörðunar fordæmdur að þessu leyti, en brotið sé bæði gegn lögmætisreglu og 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sem og 8. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd með því að byggja ákvörðun á slíkum ómálefnalegum undirbúningi.

Viðbótargagnaöflun: Með tölvubréfi 5. júlí 2024 beindi úrskurðarnefndin fyrirspurn til Skeiða- og Gnúpverjahrepps og óskaði frekari gagna. Í svörum sveitarfélagsins sem bárust 16. júlí s.á. var m.a. upplýst að framkvæmdaleyfi hafi verið gefið út 6. júní s.á., en ákvörðun um leyfið hafi ekki verið birt. Þá væru framkvæmdir samkvæmt hinu kærða rannsókarleyfi ekki háðar öðrum leyfum, en leyfið varði heimild til að rannsaka svæðið í tengslum við vinnslu aðalskipulagsbreytingar og umhverfismats á svæðinu. Þá kom fram að ef selja ætti efnið væri það háð starfsleyfi frá heilbrigðiseftirlitinu.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun sveitarstjórnar Skeiða- og Gnúpverjahrepps að veita framkvæmdaleyfi fyrir efnistöku í Búrfellshólma fyrir allt að 50.000 m3. Kæruheimild er í 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Það er skilyrði kæruaðildar að málum fyrir úrskurðarnefndinni að kærandi eigi lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun.

Umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtök teljast eiga lögvarinna hagsmuna að gæta fyrir nefndinni að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, sbr. nánar 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011, um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, en af gögnum sem úrskurðarnefndin hefur kynnt sér uppfyllir kærandi skilyrði þeirrar greinar. Meðal ákvarðana sem slíkum samtökum er heimilt að bera undir nefndina eru ákvarðanir um leyfi vegna framkvæmda samkvæmt lögum nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana, sbr. b. lið málsgreinarinnar. Að virtum þeim sjónarmiðum sem rakin verða hér á eftir og varða undirbúning hinnar kærðu ákvörðunar verður að fella hana hér undir, enda er skylt að tilkynna til Skipulagsstofnunar skv. 19. gr. laga nr. 111/2021 um efnistöku þar sem áætlað er að raska 2,5 ha svæði eða stærra eða efnismagn er 50.000 m3 eða meira, sbr. lið 2.02 í 1. viðauka við lögin.

Eins og atvikum er hér háttað verður kæra í máli þessu því tekin til efnismeðferðar.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 skal afla framkvæmdaleyfis sveitarstjórnar vegna meiri háttar framkvæmda sem áhrif hafa á umhverfið og breyta ásýnd þess, svo sem breytinga lands með jarðvegi eða efnistöku, og annarra framkvæmda sem falla undir lög um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Í 2. mgr. lagagreinarinnar er sérstaklega tekið fram að framkvæmdaleyfi vegna efnistöku skuli gefið út til tiltekins tíma og skuli í leyfinu gerð grein fyrir stærð efnistökusvæðis, vinnsludýpi, magni og gerð efnis sem heimilt sé að nýta samkvæmt því, vinnslutíma og frágangi á efnistökusvæði. Þá er í 3. mgr. mælt fyrir um að sá sem óski framkvæmdaleyfis skuli senda skriflega umsókn til sveitarstjórnar, ásamt nauðsynlegum gögnum sem nánar sé kveðið á um í reglugerð. Samkvæmt 7. gr. reglugerðar nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi skal slíkri umsókn fylgja m.a. afstöðumynd, hönnunargögn, eftir því sem við eigi, lýsing á framkvæmd og hvernig hún falli að gildandi skipulagsáætlunum og staðháttum. Þá skal þess getið að í kafla 2.3.9 í greinargerð Aðalskipulags Skeiða- og Gnúpverjahrepps 2017-2029 er mælt fyrir um að með umsókn um framkvæmdaleyfi skuli leggja fram verkáætlun og tímasetta nýtingaráætlun ásamt afstöðumynd og áætlun um frágang að vinnslu lokinni.

Í umsókn um hið kærða leyfi kom fram að um væri að ræða áframhaldandi efnistöku á vikri í tilraunaskyni. Sé tilgangur þessa að öðlast betri skilning á vinnslu á svæðinu, bæði hvað varði efnisgæði sem og til að ákvarða hvernig best skuli haga vinnslu og nýtingu á efni innan svæðisins. Svæðið sé innan þeirra marka sem skilgreint sé sem efnistökusvæði í aðalskipulagi sveitarfélagsins, en notast verði við stórvirkar vinnuvélar við vinnslu efnisins og það keyrt í burtu til frekari vinnslu og rannsókna. Umsóknin var samþykkt á fundi sveitarstjórnar 8. maí 2024 með svohljóðandi bókun: „Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum að veita framkvæmdaleyfi fyrir efnistöku í Búrfellshólma fyrir allt að 50.000 m3“. Með umsókninni fylgdi óglögg skjámynd úr aðalskipulagsuppdrætti af syðsta hluta efnistökusvæðis í Búrfellshólma (E33) og kom fram að miðað yrði við þau mörk sem sæjust á þeirri mynd. Með þessu uppfyllti umsókn um hið kærða leyfi ekki áskilnað laga nr. 123/2010, reglugerðar nr. 772/2012, né ákvæði aðalskipulags, þar sem ekki var lögð fram nánari lýsing á framkvæmdinni, með verkáætlun og nýtingaráætlun ásamt áætlun um hvernig staðið yrði að frágangi svæðisins að vinnslu lokinni. Hefði sveitarfélaginu, sem leyfisveitanda, því verið rétt við svo búið að rannsaka málið nánar áður en leyfi yrði gefið út, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Í 1. mgr. 14. gr. skipulagslaga og 25. gr. laga nr. 111/2021 er mælt fyrir um að óheimilt sé að gefa út leyfi til framkvæmdar sem fellur undir þau lög, fyrr en álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum liggur fyrir eða ákvörðun um að framkvæmd sé ekki matsskyld. Í báðum lögunum er svo fjallað nánar um hvernig líta skuli til álits stofnunarinnar við leyfisveitingu vegna matsskyldrar framkvæmdar. Lög nr. 111/2021 tóku gildi 1. september 2021, en í 1. ákvæði til bráðabirgða við lögin segir að í þeim tilvikum þegar umhverfismatsferli framkvæmdar sem fellur undir þau lög er lokið við gildistöku laganna skuli ákvæði eldri laga um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000, er lúta að leyfisveitingum vegna framkvæmdarinnar, gilda. Verður þá einnig að athuga að með lögum nr. 74/2005 um breytingu á lögum nr. 106/2000 voru gerðar verulegar breytingar á matsferli matsskyldra framkvæmda og um leið tekið fram, í 17. gr. breytingarlaganna, að í þeim tilvikum þegar matsferli framkvæmdar sem undir lögin félli væri lokið samkvæmt eldri lögum, en ekki hefðu verið veitt öll leyfi vegna hennar, skyldi við leyfisveitingu fara samkvæmt þeim lögum.

Með breytingarlögum nr. 74/2005 var horfið frá því fyrirkomulagi sem áður var bundið í 11. gr. laga nr. 106/2000 að Skipulagsstofnun skyldi kveða upp úrskurð um mat á umhverfisáhrifum og taka í honum ákvörðun um hvort fallist væri á viðkomandi framkvæmd, með eða án skilyrða, eða hvort lagst væri gegn henni vegna umtalsverðra umhverfisáhrifa. Voru þess í stað sett ákvæði í 11. gr. laga nr. 106/2000 um að Skipulagsstofnun skuli gefa rökstutt álit sitt á því hvort matsskýrsla framkvæmdaraðila uppfylli skilyrði laga um mat á umhverfisáhrifum og reglugerða settra samkvæmt þeim og að umhverfisáhrifum sé lýst á fullnægjandi hátt.  Samhliða þessum breytingum var leitt í lög að við útgáfu leyfis til matsskyldra framkvæmda skyldi leyfisveitandi kynna sér matsskýrslu framkvæmdaraðila um framkvæmdina og taka rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum hennar.

Með hinni kærðu ákvörðun tók sveitarstjórn til afgreiðslu beiðni um framkvæmdaleyfi til efnistöku í tilraunaskyni. Við meðferð málsins fyrir úrskurðarnefndinni hefur sveitarfélagið vísað til úrskurðar skipulagsstjóra ríkisins frá 1. mars 2000 um umhverfisáhrif vikurnáms á Hekluhafi við Búrfell í Gnúpverjahreppi. Var úrskurður þessi kveðinn upp í gildistíð laga nr. 63/1993 um mat á umhverfisáhrifum. Í matsskýrslu þeirrar framkvæmdar, dags. í október 1999, var fjallað um áframhaldandi vikurvinnslu á svæðinu austan Búrfells (Hekluhafs) og að teknir yrðu allt að 3.000.000 m3 af vikri á næstu 20 árum eða um 150.000 m3 á ári. Lýst var ráðgerðu vinnsluferli, þ.m.t. haugsetningu efnis, hreinsun þess og meðferð frákastsefnis, auk þess að fjallað var um valkosti og helstu umhverfisáhrif framkvæmdarinnar. Hefur úrskurður skipulagsstjóra að geyma umfjöllun um matsskýrsluna og var fallist á framkvæmdina eins og henni var lýst í frummatsskýrslu og viðbótargögnum framkvæmdaraðila, með því skilyrði að mörk vinnslusvæðisins yrðu nánar ákveðin í samráði við Náttúruvernd ríkisins. Í niðurstöðukafla úrskurðarins var m.a. vísað til ákvæða þágildandi náttúruverndarlaga varðandi vinnslu og frágang námasvæða sem og reglugerðar nr. 514/1995 um vinnslu og nýtingu vikurs.

Í umsögn sinni til úrskurðarnefndarinnar hefur sveitarfélagið lagt áherslu á að um sömu framkvæmd sé að ræða og lýst var í téðum úrskurði og um leið m.a. vísað til þess að vinnslan sé í tilraunaskyni. Að auki hefur sveitarfélagið haldið því fram að frágangur vegna efnistöku hafi verið tryggður með setningu útboðsskilmála sem vísi til leiðbeininga Vegagerðarinnar og fleiri aðila. Að áliti úrskurðarnefndarinnar verður þó ekki hjá því litið að úrskurður skipulagsstjóra frá 1. mars 2000 varðaði áform annars aðila sem voru til mikilla muna umfangsmeiri og miðuð við tuttugu ára tímabil, sem er liðið. Þá verður ekki ráðið af undirbúningi ákvörðunarinnar, að hvaða marki þau áform gengu eftir eða hvert sé ástand svæðisins, en af málsgögnum má ráða að frágangi þess hafi verið ábótavant.

Að teknu tilliti til þessa var sá annmarki á undirbúningi hinnar kærðu ákvörðunar að ekki var tekin rökstudd afstaða til þess í upphafi hvort úrskurður skipulagsstjóra ríkisins og umhverfismat þeirrar framkvæmdar sem þar var fjallað um næði til þeirrar framkvæmdar sem heimiluð var með hinu kærða leyfi. Vandaðri undirbúningur ákvörðunarinnar að þessu leyti hefði eftir atvikum getað leitt til þess að málsmeðferð umsóknar um hið kærða leyfi yrði eftir atvikum felld í þann farveg að tilkynnt yrði um áformin til Skipulagsstofnunar sem nýja eða breytta framkvæmd, sbr. liði 2.02 og 13.02 í 1. viðauka við lög nr. 111/2021.

Með vísan til framangreinds verður ekki hjá því komist að fella hið kærða leyfi úr gildi.

Af hálfu kæranda hafa verið færð fram sjónarmið í máli þessu um að skylt hefði verið við undirbúning hins kærða leyfis að gæta að ákvæðum laga nr. 36/2011 um stjórn vatnamála. Með þeim lögum eru m.a. gerðar kröfur til leyfisveitingarstjórnvalds um rökstuðning fyrir því að framkvæmdir feli eigi í sér hnignun vatnsgæða sem fari í bága við meginreglur laga um stjórn vatnamála. Það verður ekki séð að gætt hafi verið þessarar skyldu við undirbúning hinnar kærðu ákvörðunar, en þar sem nefndin hefur þegar í úrskurði þessum komist að þeirri niðurstöðu að fella beri hina kærðu ákvörðun úr gildi hefur ekki sérstaka þýðingu að fjalla nánar um þetta atriði.

Þá kemur fram í 5. tl. 2. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 772/2012 að umsókn um framkvæmdaleyfi skuli fylgja upplýsingar um fyrirliggjandi samþykki og/eða leyfi annarra leyfisveitenda sem framkvæmdin kann að vera háð, ásamt upplýsingum um önnur leyfi sem framkvæmdaraðili er með í umsóknarferli eða hyggst sækja um. Þegar lög gera með þessum hætti ráð fyrir því að ákvörðun stjórnvalds sé háð því að fyrir liggi ákvörðun annars stjórnvalds leiðir af 10. gr. stjórnsýslulaga rík skylda fyrir fyrrnefnda stjórnvaldið að afla með forsvaranlegum hætti nægilegra upplýsinga um hvort ákvörðun hins síðarnefnda stjórnvalds liggi fyrir og þá hvers efnis hún er. Af hálfu kæranda hefur verið haldið fram að afla hefði þurft nýtingarleyfis samkvæmt 6. gr. laga nr. 57/1998 um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, áður en framkvæmdaleyfi yrði gefið út, m.a. í ljósi þess að námasvæðið er í þjóðlendu. Að auki skorti á skýrt samþykki forsætisráðuneytis fyrir framkvæmdinni skv. 3. mgr. 3. gr. laga nr. 58/1998 um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta. Þá hefur kærandi jafnframt bent á skilyrði laga nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði fyrir framkvæmdum í grennd við veiðivötn.  Í ljósi niðurstöðu nefndarinnar í máli þessu er ekki ástæða til að fjalla nánar um þessi sjónarmið, en sveitarfélaginu er bent á að gæta að þeim sjónarmiðum komi til þess að sambærileg umsókn um framkvæmdaleyfi komi til meðferðar að nýju.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun sveitarstjórnar Skeiða- og Gnúpverjahrepps frá 8. maí 2024 um að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir efnistöku í Búrfellshólma.

Sérálit Arnórs Snæbjörnssonar

Leyfisveitandi, Skeiða- og Gnúpverjahreppur, hefur við meðferð þessa máls fyrir úrskurðarnefndinni bent á að um sé að ræða áframhaldandi nýtingu á því svæði sem fjallað var um í úrskurði skipulagsstjóra ríkisins um vikurnám í Hekluhafi við Búrfell í Gnúpverjahreppi  frá 1. mars 2000. Hafi efnistakan með því þegar sætt umhverfismati í tíð eldri laga, en hún rúmist innan þess rúmmetrafjölda sem það umhverfismat hafi náð til. Verður að mínu áliti að leggja þetta til grundvallar. Þess skal að vísu getið að umfjöllun í téðum úrskurði miðaði við tímabundin áform sem tóku síðan mið af sérvinnsluleyfi ráðherra iðnaðarmála, sem lá þá fyrir. Í frummatsskýrslu vegna vikurnáms í Hekluhafi við Búrfell frá því í október 1999, sem um var fjallað í úrskurðinum, var í samræmi við sérvinnsluleyfið gerð áætlun um árlegt efnismagn, sem tók mið af áætluðu heildarmagni á svæðinu, en um leið var tekið fram að efnistaka mundi fara fram svo lengi sem starfsleyfi væri í gildi, það er að segja a.m.k. næstu 20 árin. Með þessu var í matsferli framkvæmdarinnar fjallað heildstætt um efnistökuna og eftir atvikum gert ráð fyrir því að til endurnýjunar leyfis gæti komið, eftir þeim reglum sem þá mundu gilda. Er eðli framkvæmdarinnar sem efnistaka einnig þannig að miðað er við að námur verði fullnýttar.

Samkvæmt b-lið 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála teljast umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtök eiga lögvarinna hagsmuna að gæta af ákvörðunum um að veita leyfi vegna framkvæmda sem falla undir lög um umhverfismat framkvæmda og áætlana, m.a. vegna ætlaðs brots á þátttökuréttindum almennings með athöfnum eða athafnaleysi eða annars ágalla sem kann að hafa verið á málsmeðferð.  Samkvæmt þessu falla undir b-lið leyfi vegna framkvæmda sem eru matsskyldar skv. IV. kafla laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana, eða eftir því sem við á í eldri lögum sama efnis. Til framkvæmdar samkvæmt lögunum telst hvers konar nýframkvæmd eða breyting á eldri framkvæmd sem fellur undir lögin og starfsemi sem henni fylgir. Hin kærða ákvörðun er mjög óveruleg að umfangi í samanburði við þá framkvæmd sem háð var mati á umhverfisáhrifum í öndverðu og leyfi var veitt fyrir í heild sinni og sætti málsmeðferð af til þess bærum stjórnvöldum á sviði umhverfismála. Var með henni engin heimild veitt til þess, svo ég fái séð, að ráðist verði í framkvæmdir, sem feli í sér aukið álag á umhverfið, svo kalli á nýja málsmeðferð. Að þessu virtu álít ég, með vísun til b-liðs 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011, að kærandi njóti ekki kæruaðildar að máli þessu og því verði að vísa því frá nefndinni.

32/2024 Efnistaka í Svarfaðardalsá

Með

Árið 2024, föstudaginn 24. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor. Geir Oddsson auðlindafræðingur tók þátt í gegnum fjarfundabúnað.

Fyrir var tekið mál nr. 32/2024, kæra á ákvörðunum Fiskistofu frá 2. og 12. maí 2023 um að veita framkvæmdaleyfi til efnistöku úr árfarvegi Svarfaðardalsár vegna 37.000 m3 í landi Bakka og 20.000 m3 í landi Grundar og ákvörðun sveitarstjórnar Dalvíkurbyggðar frá 6. júní 2023 um að samþykkja umsókn um framkvæmdaleyfi vegna efnistökunnar í landi Bakka.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 21. mars 2024, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur jarðanna Grafar og Brautarhóls í Svarfaðardal í Dalvíkurbyggð, ákvarðanir Fiskistofu frá 2. og 12. maí 2023 um að veita framkvæmdaleyfi til efnistöku úr árfarvegi Svarfaðardalsár vegna 37.000 m3 í landi Bakka og 20.000 m3 í landi Grundar og ákvörðun sveitarstjórnar Dalvíkurbyggðar frá 6. júní s.á. um að samþykkja umsókn um framkvæmdaleyfi vegna efnistökunnar í landi Bakka. Er þess krafist að ákvarðanirnar verði felldar úr gildi.

Þess er jafnframt krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar. Er því ekki tilefni til að taka afstöðu til stöðvunarkröfu kærenda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Dalvíkurbyggð og Fiskistofu á tímabilinu 2. til 19. apríl 2024.

Málavextir: Í Aðalskipulagi Dalvíkurbyggðar 2008–2020 er greint frá því að Svarfaðardalsá, með Skíðdalsá sem í hana renni, sé 34 km löng dragá með 450 km2 vatnasvið og renni til sjávar við Dalvík. Í henni veiðist bleikja, urriði og einstaka lax. Veitt hafa verið leyfi til töku malarefnis úr árfarvegi Svarfaðardalsár og er í máli þessu deilt um slíkar heimildir, sem veittar voru af Fiskistofu á grundvelli 33. gr. laga nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði, og Dalvíkurbyggð á grundvelli 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 með útgáfu framkvæmdaleyfa þar að lútandi.

Með umsókn, dags. 20. apríl 2023, var óskað eftir heimild Fiskistofu til töku 37.000 m3 af möl úr eyrum Svarfaðardalsár í landi Bakka og kom fram að tilgangurinn væri að hreinsa upp nánar tilgreindar eyrar, þegar þær mynduðust, til að varna landbroti sem yrði þegar áin kastist frá þeim upp að bökkum hennar. Þá var hinn 2. maí 2023 sótt um leyfi Dalvíkurbyggðar til framkvæmdanna. Kom fram að óskað væri eftir leyfi til bakkavarna og malartöku í og við Svarfaðardalsá. Hinn 21. apríl 2023 var óskað heimildar Fiskistofu til töku á 20.000 m3 af möl úr þremur áreyrum á þremur samliggjandi stöðum í Svarfaðardalsá í landi Grundar. Um sama leyti var sótt um leyfi Dalvíkurbyggðar til efnistökunnar, en afgreiðslu þeirrar umsóknar var frestað á meðan unnið væri að breytingu á aðalskipulagi. Mun þeirri vinnu vera ólokið.

Téðum umsóknunum fylgdu skýrslur sérfræðings í veiðimálum, dags. 11. og 21. apríl s.á., þar sem fram kom að meginmarkmið framkvæmda í landi Bakka væru að minnka álagið á vatnsleiðslu sem liggi undir ána í landi Bakka og á þá varnargarða sem verji hana ásamt því að draga sem mest úr landbroti aðliggjandi svæða. Meginmarkmið framkvæmda í landi Grundar væri að draga sem mest úr landbroti aðliggjandi svæða. Þá fylgdu umsóknunum jafnframt umsagnir Veiðifélags Svarfaðardalsár, dags. 17. og 21 apríl 2023, þar sem ekki voru gerðar athugasemdir við framkvæmdirnar.

Hinn 2. maí 2023 gaf Fiskistofa út leyfi til fimm ára vegna „malartekju og bakkavarnar“ í landi Bakka. Var þar heimiluð efnistaka 37.000 m3 eða um 7.500 m3 á ári. Á fundi sveitarstjórnar Dalvíkurbyggðar 6. júní 2023 var umsókn um framkvæmdaleyfi vegna efnistökunnar samþykkt og framkvæmdasviði falið að gefa út leyfið þegar umsækjandi hefði skilað inn efnistökuáætlun. Var það gefið út 19. s.m. og kom þar m.a. fram að efnisnám væri aðeins heimilt á tímabilinu 1. desember til 15. júní ár hvert, gera skyldi seiðamælingu fyrir og eftir framkvæmdir og að tryggt skyldi að hrygningarstöðvar í farveginum þorni ekki upp vegna efnisnámsins sem og að farvegur lokist ekki þannig að fiskur verði innlyksa. Þá gaf Fiskistofa hinn 12. maí 2023 út leyfi til fimm ára vegna efnistöku í landi Grundar. Var þar heimiluð efnistaka á 20.000 m3 af möl, eða um 4.000 m3 á ári. Í leyfum Fiskistofu var lögð á það áhersla að farið yrði eftir fyrirliggjandi ráðleggingum sérfræðings í veiðimálum og gengið snyrtilega frá svæðunum að framkvæmdum loknum. Einnig var lögð áhersla á að ekki yrði farið í framkvæmdir í ánni á tímabilinu 15. júní til 1. desember ár hvert.

Málsrök kærenda: Af hálfu kærenda er vísað til þess að kærufestur samkvæmt lokamálslið 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hafi ekki byrjað að líða eða sé a.m.k. óliðinn. Hinar kærðu ákvarðanir hafi ekki verið auglýstar í blöðum eða kynntar kærendum. Annar kærenda hafi ekki heyrt af ákvörðunum fyrr en í mars 2024 og hinn hafi heyrt af ákvörðunum Fiskistofu fyrr á árinu, með eigin gagnaöflun, en um leyfi Dalvíkurbyggðar hafi hann heyrt 20. mars 2024. Kærendum hafi ekki á neinu tímamarki verið veittur kostur á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri og grenndarkynning skv. 5. mgr. 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 hafi ekki farið fram.

Annmarkar hafi verið á málsmeðferð umsókna um framkvæmdaleyfi og ákvarðanirnar stangist á við ákvæði laga, þ. á m. 10. gr. stjórnsýslulaga 37/1993 og 8. og 10. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd. Þá stangist ákvörðun sveitarstjórnar einnig á við ákvæði 2. og 4. mgr. 13. gr. laga nr. 123/2010. Ekki verði ráðið að fjallað hafi verið um áhrif framkvæmdanna á vatnshlotið Svarfaðardalsá eða önnur vatnshlot sem fyrir áhrifum kunni að verða, sbr. lög nr. 36/2011 um stjórn vatnamála. Efnistökusvæðin séu í ósamræmi við Aðalskipulag Dalvíkurbyggðar 2008–2020, en þar sé ekki gert ráð fyrir námu í landi Grundar og náman sem gert sé ráð fyrir í landi Bakka sé mun minni en nú hafi verið veitt heimild til. Hvorki virðist hafa verið leitað umsagnar Orkustofnunar né Hafrannsóknarstofnunar, en skylt kunni að vera að leita leyfis Orkustofnunar samkvæmt vatnalögum nr. 15/2023 og auðlindalögum nr. 57/1998. Leyfi skv. 1. mgr. 75. gr. vatnalaga og nýtingarleyfi skv. 6. gr. auðlindalaga virðist ekki hafa legið fyrir, en í úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála frá 26. október 2023, í máli nr. 74/2023, Hvammsvirkjun, hafi verið skorið úr um að við útgáfu framkvæmdaleyfis sveitarfélags verði leyfi annarra aðila að liggja fyrir. Þá stangist ákvörðun sveitarfélagsins á við 2. og 4. mgr. 13. gr. skipulagslaga þar sem ekki sé getið stærðar efnistökusvæðis, vinnsludýpis eða efnisgerðar auk þess að hún uppfylli ekki áskilnað reglugerðar nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi.

Áður hafi verið gefin út leyfi til efnistöku á sama svæði. Þannig hafi á fundi sveitarstjórnar Dalvíkurbyggðar 23. febrúar 2021 verið veitt leyfi til efnistöku í landi Bakka og Grundar og Fiskistofa hafi gefið út leyfi fyrir efnistöku í landi beggja jarðanna árið 2020, vegna þúsunda rúmmetra sem hafi runnið út í lok árs 2021. Annað leyfi hafi verið gefið út vegna 10.000 m3 efnistöku í landi Bakka árið 2022 sem hafi runnið út í júlí 2023. Í hinum kærðu ákvörðunum sé þrátt fyrir þetta ekki litið til heildarmagns og hugsanlegrar umhverfismatsskyldu, en skv. 2. viðauka við lög nr. 111/2021, sem varði viðmiðanir við mat á framkvæmdum tilgreindum í flokki B í 1. viðauka, skuli m.a. líta til heildarumfangs og samlegðaráhrifa framkvæmda.

Samkvæmt ákvörðun Fiskistofu vegna efnistöku í landi Bakka, dags. 2. maí 2023, sé stærð efnistökusvæðisins 7,2 ha. Stærð efnistökusvæðisins í landi Grundar sé 3,1 ha og ljóst að þau séu yfir viðmiðunarmörkum laga nr. 111/2021. Ákvarðanir Fiskistofu og Dalvíkurbyggðar hafi því verið í ósamræmi við lög nr. 111/2021.

 Málsrök Dalvíkurbyggðar: Af hálfu sveitarfélagsins er bent á að umsókn um framkvæmda­leyfi til efnistöku í landi Grundar hafi enn ekki verið tekin til afgreiðslu hjá sveitarstjórn enda kalli hún á að Aðalskipulagi Dalvíkurbyggðar 2008–2020 verði breytt. Unnið sé að slíkri breytingu, en sú vinna sé skammt komin. Kærendur skorti því lögvarða hagsmuni af því að fá úrlausn um þá kæruliði sem snúi að Grund. Þá geti kærendur ekki talist eiga aðild að málinu samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlinda­mála og sé rétt að fram komi að með tilvísun til hagsmuna kærenda sem landeigenda „skammt neðan þeirra svæða er mál þetta fjallar um“ sé væntanlega átt við 2,5 km og 3 km. Aðild þeirra verði því ekki byggð á nálægð við Bakka enda jarðirnar langt neðan framkvæmda­­svæðisins og tilvísun til þess að framkvæmdirnar hafi áhrif á veiðiréttindi kærenda sé ekki útskýrð. Þá sé kærufrestur skv. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 liðinn, en kærendum hafi í síðasta lagi hinn 6. júní 2023 mátt vera kunnugt um ákvörðunina enda hún þá birt á heimasíðu Dalvíkurbyggðar.

Ekkert hafi komið fram sem leiða eigi til ógildingar ákvörðunar sveitarstjórnar um útgáfu framkvæmdaleyfis til efnistöku í landi Bakka. Við meðferð málsins hafi verið gætt að öllum formsatriðum og séu öll skilyrði laga uppfyllt, sbr. m.a. ákvæði laga nr. 60/2013 um náttúru­vernd, 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, reglugerðar nr. 772/2012 um framkvæmda­leyfi og gildandi skipulags. Allur undirbúningur útgáfu framkvæmdaleyfisins hafi verið í samræmi við góða stjórnsýsluhætti. Fjallað hafi verið um þau atriði sem tilgreind séu í 8. og 9. gr. laga nr. 60/2013 í skýrslu sérfræðings í veiðimálum vegna framkvæmdarinnar og umsögn Fiskistofu. Þá séu skilyrði leyfisins afar ströng og sem slík í samræmi við þær kröfur sem fram komi í 9. gr. laganna.

Skýrsla sérfræðings í veiðimálum hafi legið fyrir við afgreiðslu málsins og hafi þar verið lögð áhersla á að fylgst yrði með áhrifum framkvæmdarinnar á framkvæmdatímanum og þannig fylgst með vísitölu seiða og veiðitölum. Að auki séu lagðar til mótvægisaðgerðir og tekið fram að rask á farvegi árinnar sé eingöngu utan veiðitíma. Ekki sé gert ráð fyrir að efnistaka fari fram í árfarveginum sjálfum heldur áreyrum og um leið sé tryggt að áin geti runnið óhindruð um kvíslar og farvegi hennar. Þá sé lögð á það áhersla að ekki verði skilið við ána í stokki eða beinum þröngum farvegi heldur að farvegur eða -vegir hennar verði áfram jafn breiðir og hlykkjóttir og fyrir framkvæmdir. Með þessum mótvægisaðgerðum telji skýrsluhöfundar að hægt verði að tryggja að farvegurinn verði áfram eðlilegur og fjölbreyttur með búsvæðum fyrir seyði, stoppistöðum fyrir göngufisk og hrygningarstöðum. Í umsögn Fiskistofu frá 2. maí 2023 hafi ekki verið gerðar athugasemdir við framkvæmdina og vísað til þess að fara skyldi eftir ráðleggingum sem fram hefðu komið í fyrrnefndri skýrslu. Þá hafi þar verið lagt til að ekki yrðu framkvæmdir í ánni á tímabilinu frá 15. júní til 1. desember ár hvert. Framkvæmdaleyfið hafi verið gefið út 19. júní 2023 og séu þar sett skilyrði í samræmi við niðurstöður og ráð­leggingar Fiskistofu og fyrrnefndra sérfræðinga, sem gangi að einhverju leyti lengra. Þannig sé í leyfinu lögð áhersla á að hrygningarstöðvar í farvegi árinnar þorni ekki upp og að farvegur hennar lokist ekki þannig að fiskur eigi hættu á að verða innlyksa. Þá séu ströng fyrirmæli um meðferð olíu- og olíuáfyllingar auk þess sem gerð sé krafa um að halda skuli fjölda tækja í lágmarki. Þá séu ennfremur ýmis ákvæði er varði notkun og ástand þeirra tækja sem notast verði við auk þess sem kveðið sé á um frágang við lok framkvæmdatíma.

Umfang efnistöku fari ekki yfir þau viðmið sem getið sé um í 2. viðauka laga nr. 111/2021 né heldur sé svæðið stærra en 2,5 ha. Allar vangaveltur um eldri efnistöku og möguleg heildaráhrif innan jarðarinnar eigi ekki við. Byggi kærendur á atvikum sem teygi sig mörg ár og jafnvel áratugi aftur í tímann og séu þar um að ræða sjónarmið og röksemdir sem beri þegar af þeirri ástæðu að hafna.

 Málsrök Fiskstofu: Af hálfu Fiskistofu er bent á að í umsögnum Veiðifélags Svarfaðardalsár, dags. 17. og 21. apríl 2023, sem veittar hafi verið á grundvelli 2. mgr. 33. gr. laga nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði, hafi ekki verið gerðar athugasemdir við framkvæmdirnar. Samkvæmt lögunum sé hlutverk veiðifélaga að halda utan um hagsmuni veiðirétthafa og félagsmanna. Það sé því höndum félagsins að tryggja að félagsmenn séu nægjanlega upplýstir um slíkar framkvæmdir. Veiðifélaginu hafi gefist kostur á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri fyrir hönd veiðiréttarhafa áður en Fiskistofa hafi tekið ákvörðun um veitingu hinna kærðu leyfa. Því fái Fiskistofa ekki séð að afla hafi þurft sjónarmiða hvers og eins veiðirétthafa.

Fiskistofa hafi lagt mat á áhrif efnistökunnar á fiskigengd, afkomu fiskistofna, aðstæður til veiði og lífríki vatnsins að öðru leyti en stofnuninni sé m.a. ætlað að leggja mat á áhrif framkvæmda og mótvægisaðgerða á fiskistofna við leyfisveitingu samkvæmt 33. gr. laga nr. 61/2006. Í ákvörðunum Fiskistofu hafi ekki verið tekin afstaða til framkvæmdanna m.t.t. vatnsverndar samkvæmt lögum nr. 36/2011 um stjórn vatnamála, umhverfismats skv. lögum nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana eða skipulags samkvæmt skipulagslögum nr. 123/2010, en Fiskistofa hafi ekki talið það falla undir sitt starfssvið enda sé efnistakan háð leyfum fleiri stjórnvalda.

 Leyfishöfum var gefinn kostur á að koma á framfæri sjónarmiðum sínum í málinu en þeir hafa ekki tjáð sig um kærumál þetta.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um efnistöku úr áreyrum Svarfaðardalsár fyrir landi jarðanna Bakka og Grundar. Hinar kærðu ákvarðanir í málinu voru teknar á grundvelli 33. gr. laga nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði, um leyfi Fiskistofu til framkvæmda við ár og vötn, og 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, um framkvæmdaleyfi sveitarstjórnar. Verða þær bornar undir úrskurðarnefndina á grundvelli 1. mgr. 36. gr. laga nr. 61/2006 og 52. gr. skipulagslaga.

Það er skilyrði aðildar í málum fyrir úrskurðarnefndinni að kærandi eigi lögvarinna hagsmuna að gæta tengda viðkomandi ákvörðun, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, nema lög mæli á annan veg. Kærendur eru landeigendur í Svarfaðardal og eru um 1–2  km í landareignir þeirra frá  ráðgerðum efnistökusvæðum, sem næst eru. Af þeim gögnum sem við nýtur í málinu verður að ætla að framkvæmdin geti haft nokkur áhrif á lögvarða hagsmuni þeirra, s.s. vegna veiðihagsmuna í Svarfaðardalsá sem og breytinga á straumhraða, straumstefnu eða annarra skyldra áhrifa á ánna fyrir landi þeirra. Verður þeim því játuð kæruaðild.

Í 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 er kveðið á um að kærufrestur til nefndarinnar sé almennt einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina. Af skýringum sem fylgdu frumvarpi til laganna má ráða að ástæða þess að kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar er styttri en almennur kærufrestur stjórnsýslulaga er að brýnt sé að ágreiningur um form eða efni ákvörðunar verði staðreyndur sem fyrst og var áréttað í því sam­hengi að eftir því sem framkvæmdir væru lengra komnar áður en skorið yrði úr ágreiningi um þær skapaðist meiri hætta á óafturkræfu tjóni af bæði umhverfislegum og fjárhagslegum toga.

Af gögnum þessa máls má ráða að kærendum hafi fyrst orðið kunnugt um hina kærðu ákvörðun Dalvíkurbyggðar í marsmánuði ársins 2024. Verða kærur á þeirri ákvörðun því taldar hafa borist úrskurðarnefndinni innan kærufrests. Hvað varðar ákvarðanir Fiskistofu verður við það miðað samkvæmt gögnum þessa máls að eigandi Grafar hafi í marsmánuði 2024 fyrst orðið kunnugt um þær og að kæra hans hafi því borist innan kærufrests. Eigandi Brautarhóls hefur á hinn bóginn upplýst fyrir nefndinni að hann hafi öðlast aðgang að téðum leyfum 18. janúar 2024. Verður við það miðað að honum hafi þá fyrst orðið kunnugt um leyfin og kærufrestur vegna þeirra hafi byrjað að líða 19. s.m. Var kærufrestur með því liðinn þegar kæra hans barst nefndinni 21. mars 2024.

Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er fjallað um áhrif þess að kæra berst að liðnum kærufresti. Ber þá samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins að vísa kæru frá nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til efnismeðferðar. Ljóst er að úrlausn kærumáls þessa varðar ekki einungis hagsmuni kærandans heldur einnig leyfishafa. Ekki verður þó litið framhjá því að kæranda var ekki leiðbeint um kærufrest til úrskurðarnefndarinnar, svo fullnægjandi væri, vegna ákvarðana Fiskistofu samkvæmt 7. gr. og 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga. Með hliðsjón af þessu verður að telja afsakanlegt að greind kæra eiganda Brautarhóls hafi ekki borist fyrr.

Svæðið sem hin kærðu framkvæmdaleyfi taka til hefur ekki verið deiliskipulagt. Þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar og deiliskipulag liggur ekki fyrir getur sveitarstjórn veitt framkvæmdaleyfi að undangenginni grenndarkynningu sé um að ræða framkvæmd sem er í samræmi við aðalskipulag og í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar, sbr. 5. mgr. 13. gr. skipulagslaga. Að auki skal sveitarstjórn leita umsagna viðeigandi umsagnaraðila áður en tekin er afstaða til útgáfu framkvæmdaleyfis. Tekið er fram að um grenndarkynningu fari þá skv. 44. gr. laganna með þeim undantekningum sem þar eru tilgreindar. Jafnframt er tekið fram að heimilt sé að falla frá grenndarkynningu sé gerð grein fyrir framkvæmdinni og fjallað ítarlega um hana í aðalskipulagi. Nánari skilyrði fyrir því að fallið sé frá grenndarkynningu eru mörkuð í 1. mgr. 7. gr. reglugerðar um framkvæmdaleyfi nr. 772/2012.

Í Aðalskipulagi Dalvíkurbyggðar 2008–2020 er gert ráð fyrir efnistöku í Svarfaðardalsá og slík svæði sýnd á aðalskipulagsuppdrætti. Í greinargerð skipulagsins segir m.a. um efnistöku í ám að veitt hafi verið tímabundin framkvæmdaleyfi fyrir efnistöku í þeim og við efnistöku úr ár­farvegum skuli þess gætt að hafa sem minnst áhrif á lífríki ánna. Taka beri mið af væntanlegum rannsóknarniðurstöðum þar að lútandi við gerð áætlana um slíka efnistöku og tekið fram að efnistökusvæði í árfarvegum geti að vissu marki talist endurnýjanleg auðlind. Er á skipulags­uppdrættinum gert ráð fyrir efnistökusvæði í Svarfaðardalsá fyrir landi Bakka og kemur fram í greinargerð aðalskipulagsins að þar sé setnáma í árfarvegi. Stærð hennar er ekki tilgreind. Með þessu er í aðalskipulagi sveitarfélagsins að nokkru gerð grein fyrir efnistöku í landi Bakka, en þó naumast svo ítarlega að heimilt hafi verið að falla frá grenndarkynningu vegna hennar, sem þó var gert.

Á aðalskipulags­upp­drættinum er ekki sýnt efnistökusvæði í landi Grundar og hefur sveitar­félagið upplýst að það sé ástæða þess að ekki hafi enn verið samþykkt beiðni um heimildir til efnistöku þar.

Hvoru tveggja leyfi sem veitt eru skv. 33. gr. laga nr. 61/2006 og 13. gr. skipulagslaga geta talist til leyfa til framkvæmda í skilningi laga nr. 111/2021, ef þær framkvæmdir sem leyfin heimila kunna að hafa eða eru líklegar til að hafa umtalsverð umhverfisáhrif, sbr. 1. viðauka við lögin. Í flokki A í viðaukanum eru tilgreindar þær framkvæmdir sem ávallt eru háðar umhverfismati. Í flokki B eru tilgreindar þær framkvæmdir sem kunna að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og metið er í hverju tilviki með tilliti til eðlis, umfangs og staðsetningar hvort þær skulu háðar slíku mati. Meðal framkvæmda í flokki B telst efnistaka þar sem áætlað er að raska 2,5 ha svæði eða stærra eða efnismagn er 50.000 m3 eða meira. Til þessa telst einnig efnistaka þar sem fleiri en einn efnistökustaður vegna sömu framkvæmdar og á sama svæði nær samanlagt yfir 2,5 ha svæði eða stærra, sbr. lið 2.02.

Af hálfu Dalvíkurbyggðar hefur verið bent á að umfang efnistöku yfirstígi ekki þessi viðmið. Það stangast á við upplýsingar í Hafsjá Fiskistofu um útgefin leyfi, en þar má sjá að í Svarfaðardalsá eru í gildi leyfi til efnistöku á töluverðu svæði sem öll virðast innan jarðanna Bakka og Grundar. Samanlagt heimila þau efnisnám sem nemur allt að 57.000 m3 á að minnsta kosti 10 ha svæði. Þá er ótalin efnistaka sem heimiluð var samkvæmt leyfum sem eru útrunnin á sama svæði. Af þessu verður ráðið að áformuð efnistaka í Svarfaðardalsá á svæðinu hafi yfirstigið þau mörk sem tilgreind eru í lið 2.02 í 1. viðauka við lög nr. 111/2021. Samkvæmt 2. mgr. 19. gr. þeirra laga skal framkvæmdaraðili tilkynna Skipulagsstofnun um fyrirhugaða framkvæmd í flokki B í 1. viðauka við lögin. Í 1. mgr. 14. gr. skipulagslaga og 1. mgr. 25. gr. laga nr. 111/2021 er mælt fyrir um að óheimilt sé að gefa út leyfi til framkvæmda fyrr en álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum liggur fyrir eða ákvörðun um að framkvæmd sé ekki matsskyld. Verður með vísan til þess að þeirrar skyldu var eigi gætt að fella hinar kærðu ákvarðanir úr gildi.

Í úrskurði þessum verður ekki fjallað um önnur sjónarmið sem kærendur hafa fært fram fyrir nefndinni, en sú bending þó gerð að úrskurðir nefndarinnar í málum nr. 127/2023 og 128/2023, frá 21. desember 2023, geta haft leiðbeinandi þýðingu að því marki sem þar var til að dreifa áþekkri leyfisveitingu.

 Úrskurðarorð:

Felldar eru úr gildi ákvarðanir Fiskistofu frá 2. og 12. maí 2023 um að veita framkvæmdaleyfi til efnistöku úr árfarvegi Svarfaðardalsár vegna 37.000 m3 í landi Bakka og 20.000 m3 í landi Grundar.

Felld er úr gildi ákvörðun sveitarstjórnar Dalvíkurbyggðar frá 6. júní 2023 um að samþykkja umsókn um framkvæmdaleyfi vegna efnistöku í landi Bakka.

4/2024 Kurfur

Með

Árið 2024, fimmtudaginn 4. apríl, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 4/2024, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Skagabyggðar frá 7. desember 2023 um að synja Vegagerðinni um framkvæmdaleyfi til efnis­vinnslu/efnistöku úr námunni Kurfur-ES10.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 6. janúar 2024, er barst nefndinni sama dag, kærir Vegagerðin ákvörðun sveitarstjórnar Skagabyggðar frá 7. desember 2023 um að synja stofnuninni um framkvæmdaleyfi til efnis­vinnslu/efnistöku á 1.500 m3 úr námunni Kurfur-ES10. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Skagabyggð 22. janúar 2024.

Málavextir: Hinn 17. október 2023 óskaði Vegagerðin eftir heimild Skagabyggðar til efnistöku á unnu efni í námu norðan Hvammkotsbruna sem nýtt yrði í sjóvarnir við Réttarholt á Skaga­strönd. Heildarmagn grjóts og sprengds kjarna í verkið væri allt að 1.500 m3. Um leið var óskað eftir því að sveitarfélagið „staðfesti að Vegagerðin hafi heimild til efnistöku af lager í grjótnámunni fyrir verkið.“ Erindið var tekið fyrir á fundi sveitarstjórnar Skaga­byggðar 9. nóvember s.á. og var eftirfarandi bókað í fundargerð: „Sveitarstjórn telur sér ekki fært að gefa leyfi til efnistöku vegna ástands vega út á Skaga, nema fyrir liggi loforð um upp­byggingu vegar og varanlega klæðningu frá enda slitlags og norður að vegamótum við þá grjótnámu sem óskað er eftir að taka úr.“ Degi síðar tilkynnti oddviti Skagabyggðar starfsmanni Vegagerðarinnar um þessa ákvörðun.

Með erindi, dags. 5. desember 2023, óskaði Vegagerðin eftir heimild til efnisvinnslu/efnistöku úr námunni Kurfur ES-10 og kom fram að efni úr námunni yrði nýtt í sjóvarnir við Réttarholt á Skagaströnd. Heildarmagn var tilgreint hið sama og í fyrra erindi. Þá var einnig óskað eftir staðfestingu á heimild Vegagerðarinnar til efnistöku af lager í grjótnámunni fyrir verkið. Áætlað væri að vinna við garðinn á Skagaströnd tæki 4–8 vikur innan tímabilsins frá útgefnu framkvæmdaleyfi til 1. maí 2024. Á fundi sveitarstjórnar Skagabyggðar hinn 7. desember 2023 var erindinu synjað með vísan til þess að sveitarstjórn hefði sett grjótnámurnar Kurfur-ES10 og Hvammkot-ES11 ásamt aðkomuvegi í skipulagsferli.

Málsrök Vegagerðarinnar: Af hálfu Vegagerðarinnar var bent á að unnið væri að undir­búningi sjóvarnarverkefnis á Skagaströnd samhliða sjóvörnum við Víkur í Skagabyggð og á Blönduósi, en það séu verkefni samkvæmt samgönguáætlun. Samkvæmt lögum nr. 120/2012 um Vegagerðina hafi hún það hlutverk að byggja upp, viðhalda og reka samgöngukerfi ríkisins og skuli í starfsemi sinni stuðla að öruggum, sjálfbærum, greiðum og hagkvæmum sam­göngum, sbr. 1. gr. laganna. Þá sé Vegagerðin veghaldari þjóðvega og beri ábyrgð á veghaldi þeirra, sbr. 12. og 13. gr. vegalaga nr. 80/2007. Skagavegur falli undir flokk tengivega, sbr. b-lið 2. mgr. 8. gr. vegalaga, og veghald því í höndum Vegagerðarinnar sem ákveði hvort setja þurfi reglur fyrir umferð, til að girða fyrir skemmdir eða til að greiða fyrir umferð, s.s. um hámarksþunga bifreiða, sbr. 48. gr. vegalaga. Sveitarfélög geti ekki gert að skilyrði fyrir framkvæmdaleyfi að Vegagerðin byggi upp og bæti opinberan veg.

Uppfærð umsókn hafi verið send 5. desember 2023 en verið hafnað 7. s.m. þar sem grjótnáman og aðkomuvegur væri í skipulagsferli. Óskað hafi verið eftir frekari rökstuðningi, sem ekki hafi verið sinnt þrátt fyrir ítrekanir. Fari það gegn 10. gr. reglugerðar nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi þar sem leyfisveitanda sé gert skylt að rökstyðja synjun um slíkt leyfi.

Málsrök Skagabyggðar: Fram kemur af hálfu Skagabyggðar að á síðustu sjö árum verið gefin út framkvæmdaleyfi fyrir efnistöku ríflega 15.000 m3 úr námunum Kurfur-ES10 og Hvammkoti-ES11. Af þeim sökum hafi myndast gríðarlegar brúnir sem séu algjörlega óvarðar, ómerktar og skapi fallhættu fyrir menn og dýr. Myndast hafi mikið klettastál vegna efnistöku sem sé óvarið, ómerkt og hættulegt. Aðkomuvegur að námunum sé malarlaus á köflum og sé mikið runnið úr honum þar sem árennsli sé af leysingarvatni. Vegur nr. 745 frá Harrastöðum að afleggjara að aðkomuvegi sé ekki byggður til slíkra þungaflutninga sem grjótnám af þessu magni krefjist. Öryggismál aðkomuvegar og námusvæðis séu því óviðunandi.

Í kjölfar ábendingar um slæmt ástand svæðisins og með vísan í reglugerð um framkvæmdaleyfi nr. 772/2012 hafi sveitarstjórn ákveðið að áður en frekari framkvæmdaleyfi yrðu gefin út fyrir grjótnámi úr greindum námum þyrftu að liggja fyrir samþykktar reglur um umgengni og frágang á námunum. Sveitarfélagið hefði hingað til ekki haft eftirlit með umgengni og frágangi verktaka að grjótnámi loknu, sem bæta þyrfti úr. Þá sé einnig til skoðunar hvort ekki þyrfti að gera deiliskipulag fyrir þetta svæði sem myndi tryggja umgengni og frágang enn betur. Sé vinna við þessi mál enn á frumstigi.

 Viðbótarathugasemdir Vegagerðarinnar: Lög nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum geri strangar kröfur. Skuli m.a. haga og framkvæma vinnu þannig að gætt sé fyllsta öryggis og góðs aðbúnaðar og hollustuhátta, sbr. 38. og 42. gr. laganna. Vega­gerðin leitist því ávallt eftir því að starfsaðstæður séu viðunandi og öruggar hverju sinni. Telji sveitarfélag aðstæður óviðunandi eða hættulegar geti það bundið framkvæmdaleyfi skilyrðum, m.a. um öryggismál, sem leyfishafi verði að uppfylla, sbr. 4. mgr. 10. gr. reglugerðar nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi. Til dæmis væri hægt að raða grjóti ofan við námustálið og/eða girða það af.

Vegur að námunum Kurfur-ES10, og Hvammkoti-ES11 sé einkavegur, sbr. 11. gr. vegalaga nr. 80/2007, og því ekki ætlaður almennri umferð. Sé því ekki málefnaleg ástæða fyrir synjun um framkvæmdaleyfi að vegurinn sé malarlaus enda aðeins framkvæmdaraðilar sem aki um hann. Þar sem vegurinn sé einkavegur sé Vegagerðin ekki veghaldari og komi því ekki að ákvarðanatöku um þjónustu og viðhald hans. Um sé að ræða aðkomuveg frá þjóðvegi sem sé viðhaldið eftir þörfum af framkvæmdaraðilum, þ.e. verktökum, þegar unnið sé við grjótnám úr námunum og hann því lagfærður í samræmi við akstur verktaka hverju sinni. Þá er fjallað nánar um flokkun vega samkvæmt vegalögum og ítrekuð sjónarmið um heimildir Vegagerðarinnar til að takmarka ásþunga við þungaflutninga og að ómálefnalegt sé að vísa til ástands vegar við synjun um framkvæmdaleyfi.

Niðurstaða: Með tölvubréfi hinn 5. desember 2023 barst Skagabyggð uppfærð beiðni Vegagerðarinnar um framkvæmdaleyfi fyrir vinnslu í námunni Kurfur-ES10, en fyrra erindi stofnunarinnar, dags. 17. október s.á., hafði áður verið hafnað. Í hinu uppfærða erindi kom fram að óskað væri eftir heimild til „efnisvinnslu/efnistöku“ og að heildarmagn „grjóts og sprengds“ kjarna væri allt að 1.500 m3. Þá væri einnig óskað eftir staðfestingu á því að stofnunin hefði „heimild til efnistöku af lager í grjótnámunni“. Var erindinu synjað á fundi sveitarstjórnar 7. desember 2023 og bókað í fundargerð að grjótnámurnar Kurfur-ES10 og Hvammkot-ES11, ásamt aðkomuvegi, hefðu verið settar í skipulagsferli. Þessi ákvörðun er hin kærða ákvörðun í máli þessu.

Öll efnistaka á landi, úr botni vatnsfalla og stöðuvatna og úr hafsbotni innan netlaga er háð framkvæmdaleyfi hlutaðeigandi sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, og er í lögunum fjallað um veitingu slíkra leyfa, málsmeðferð og skilyrði þeirra. Í 3. mgr. 13. gr. skipulagslaga er kveðið á um að sá sem óskar framkvæmdaleyfis skuli senda skriflega umsókn til sveitarstjórnar ásamt nauðsynlegum gögnum sem nánar skuli kveða á um í reglugerð. Í 7. gr. reglugerðar um framkvæmdaleyfi nr. 772/2012 eru í sex töluliðum talin upp þau gögn sem fylgja þurfi umsókn, þ. á m. er lýsing á framkvæmd og hvernig hún falli að gildandi skipulagsáætlunum og staðháttum, sbr. 3. tölul. Ber hér að nefna að framkvæmdir og aðgerðir sem hafa áhrif á umhverfið og breyta ásýnd þess skulu vera í samræmi við skipulags­áætlanir en skipulagsskylda nær til lands og hafs innan marka sveitarfélaga, sbr. 1. mgr. 12. gr. skipulagslaga.

Við útgáfu framkvæmdaleyfis skal sveitarstjórn skv. 4. mgr. 13. gr. skipulagslaga fjalla um og taka afstöðu til þess hvort framkvæmd sé í samræmi við skipulagsáætlanir. Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. laganna skal gera deiliskipulag fyrir einstök svæði þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar og skal jafnan miða við að það taki til svæða sem mynda heildstæða einingu. Í 5. mgr. 13. gr. laganna er sú undantekning gerð að þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar og deiliskipulag liggur ekki fyrir er heimilt að veita framkvæmdaleyfi að undangenginni grenndar­kynningu sé um að ræða framkvæmd sem er í samræmi við aðalskipulag og í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar. Skal að auki leita umsagna viðeigandi umsagnaraðila áður en tekin er afstaða til útgáfu framkvæmdaleyfis. Heimilt er þó að falla frá grenndarkynningu ef gerð er grein fyrir framkvæmdinni og fjallað ítarlega um hana í aðalskipulagi.

Í Aðalskipulagi Skagabyggðar 2010-2030 kemur fram að sveitarstjórn hafi ekki veitt „formlegt framkvæmdaleyfi“ vegna efnistöku í ákveðnum námum enda séu þær allar litlar og einkum notaðar vegna vegagerðar á svæðinu. Á meðal þeirra náma sem þar um ræðir eru námurnar Kurfur-ES10 og Hvammkot-ES11 og er á gildistíma skipulagsins áætluð efnistaka úr þeim 5.000 og 30.000 m3. Kemur og fram í skipulaginu að á meðal markmiða um efnistökusvæði er að þeim sem stundi efnisvinnslu verði skylt að sækja um framkvæmdaleyfi og að gera verði kröfu um sómasamlega umgengni við efnisvinnslu þannig að sem minnst umhverfisspjöll hljótist af. Þá er tiltekið að efnistaka næstu ára ráðist einkum af því hvort Vegagerðin fáist til að endurbyggja og styrkja Skagaveg, sem mikil þörf sé á og einnig hvort fjármunir fáist til sjóvarna. Svæðið hefur ekki verið deiliskipulagt.

Við töku hinnar kærðu ákvörðunar 7. desember 2023 var af sveitarstjórn vísað til þess að grjót­námurnar Kurfur-ES10 og Hvammkot-ES11 ásamt aðkomuvegi hefðu verið sett í skipulags­ferli. Þá hefur í umsögn til úrskurðarnefndarinnar verið vísað til öryggis- og skipulags­sjónarmiða. Með hliðsjón af sjálfstjórn sveitarfélaga og að teknu tilliti til þeirrar meginreglu sem áður er rakin um að gera skuli deiliskipulag fyrir einstök svæði þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar, verður af hálfu úrskurðarnefndarinnar ekki gerð athugasemd við að sveitarstjórn hafi ákveðið að fella erindi Vegagerðarinnar í þann farveg. Þá er ekki af þýðingu þótt afstaða sveitar­stjórnar til ástands vega komi fram í samskiptum við Vegagerðina og í gögnum málsins, en eðlilegt má telja að fjallað sé um aðkomuvegi í tengslum við skipulagsáform sem leiða af sér þungaflutninga. Verður því að hafna kröfu Vegagerðarinnar um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar.

Með hinni kærðu ákvörðun virðist ekki hafa verið tekin afstaða til beiðni Vegagerðarinnar um heimild til „efnistöku“ af „lager“ í umræddri námu. Hefur stofnunin upplýst gagnvart nefndinni að þar sé til að dreifa töluverðu haugsettu efni sem væri unnt að flytja þaðan án frekari vinnslu. Var hin kærða ákvörðun haldin annmarka að því marki að þar var ekki tekin afstaða til þessara áforma sérstaklega, sem skilja verður sem beiðni um staðfestingu á því að þau séu ekki háð framkvæmdarleyfi. Beinir úrskurðarnefndin því til Skagabyggðar að fjalla sérstaklega um þennan þátt erindis Vegagerðarinnar, berist um það sérstök beiðni að nýju.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu Vegagerðarinnar um að felld verði úr gildi ákvörðun sveitarstjórnar Skagabyggðar frá 7. desember 2023 um að synja stofnuninni um framkvæmdaleyfi til efnis­vinnslu/efnistöku úr námunni Kurfur-ES10.

98/2023 Seyðishólar

Með

Árið 2023, föstudaginn 29. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður og Þorsteinn Sæmundsson jarðfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 98/2023, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 29. júní 2023 um að samþykkja útgáfu framkvæmdaleyfis fyrir efnistöku úr námu E24 í Seyðis­­hólum.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála er barst nefndinni 11. ágúst 2023 kæra eigendur Klausturhóla 1, Grímsnes- og Grafnings­hreppi, þá ákvörðun sveitarstjórnar hreppsins frá 29. júní 2023 að samþykkja útgáfu framkvæmdaleyfis fyrir efnistöku úr námu E24, Seyðishólum, í Klausturhólum gjallnámum, landnúmer 168965. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Grímsnes- og Grafningshreppi 16. ágúst 2023.

Við meðferð málsins fyrir úrskurðarnefndinni lögðu kærendur fram átta stuðningsyfirlýsingar við málstað sinn, stafa þær m.a. frá þremur félögum sumarhúsaeigenda.

Málavextir: Hinn 9. mars 2022 barst Skipulagsstofnun matsáætlun framkvæmdaraðila vegna efnis­töku samkvæmt 21. gr. laga nr. 111/2021 um umhverfismat fram­kvæmda og áætlana, sbr. lið 2.01 í 1. viðauka við lögin. Voru þar kynnt áform um áframhaldandi efnistöku gjalls í námu E30b, nú E24, í Seyðishólum í landi Klausturhóla í Grímsnes- og Grafningshreppi. Kom fram að efnistaka úr námunni hefði hafist fyrir árið 1950 og að þegar væri búið að vinna um 450.000 m3 úr henni. Fyrirhuguð efnistaka væri allt að 500.000 m3 af gjalli á næstu 15 árum eða um 33.000 m3 á ári að meðaltali en ekki væri gert ráð fyrir sérstakri áfangaskiptingu. Náman væri við Hólaskarð og aðkoma um 1 km malarveg frá Búrfellsvegi 351. Efnið væri til notkunar í nágrenninu ásamt því að ráðgert væri að árlega yrði um 20.000 – 25.000 m3 af gjalli flutt til Þorlákshafnar til útflutnings. Auk efnistöku væri tilgangur framkvæmdarinnar einnig afmörkun námu­svæðisins og frágangur að efnistökunni lokinni.

Að undangengnu ferli við umhverfismat framkvæmdarinnar, þar sem framkvæmdaraðili hafði komist að þeirri niðurstöðu að heildarumhverfisáhrif framkvæmdarinnar væru óveruleg, lá álit Skipulagsstofnunar um umhverfismatsskýrslu framkvæmdaraðila fyrir 12. desember 2022. Kom m.a. fram að fyrirhugað efnistöku­svæði væri nú þegar mikið raskað og fyrirhuguð flatarmálsstækkun þess væri ekki umfangs­mikil. Taldi stofnunin ljóst að helstu neikvæðu áhrif fyrirhugaðra framkvæmda fælust í stað­bundnum sjónrænum áhrifum sem væru að mestu óafturkræf og áhrif framkvæmdarinnar á ásýnd og landslag yrðu nokkuð neikvæð. Þá var talið að áhrif á jarð­myndanir yrðu óhjákvæmi­lega staðbundið nokkuð neikvæð og var tekið fram að þó svo að fyrir lægi að búið væri að raska svæðinu nú þegar réttlætti það ekki fyrirhugaða efnistöku í jarð­myndunum sem nytu sér­stakrar verndar skv. lögum nr. 60/2013 um náttúruvernd. Ekki var talið líklegt að ónæði vegna efnisvinnslu eða flutnings yrði verulegt, hvorki varðandi hávaða né rykmengun. Þá væri framkvæmdin í samræmi við Aðalskipulag Grímsnes- og Grafningshrepps 2020-2032, sem þá beið staðfestingar. Tók Skipulagsstofnun fram að mikilvægt væri að skilyrði um frágang, tíma­lengd og annað skilaði sér inn í framkvæmdaleyfi.

Með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 29. desember 2022 tók gildi nýtt Aðalskipulag Grímsnes- og Grafningshrepps 2020-2032. Er þar vísað til umræddrar námu sem E24. Um efnistöku segir að lögð sé áhersla á nægt framboð efnistökusvæða og að þau séu í námunda við notkunarstað efnis. Stærri efnistökusvæði verði ekki á svæðum sem hafi sérstakt verndargildi, s.s. svæðum á náttúruminjaskrá, þar sem séu mikilvægar vistgerðir og hverfisverndarsvæði. Forðast skuli eftir megni að raska ósnortnum hlíðum, ásum, áberandi landslagsmyndum, vatns- og árbökkum og farvegum þeirra. Gert sé ráð fyrir ríflegum svæðum fyrir efnistöku til þess að hægt sé að nýta þá tegund efnis sem best henti hverju sinni og til að draga úr því að aka þurfi langar leiðir með efni. Námum væri fækkað frá eldra skipulagi og eldri og stærstu námurnar af­markaðar með skýrari hætti og í samræmi við þegar röskuð svæði. Um námu E24 kom fram að stærð hennar væri 6,5 ha og að um væri að ræða malarnámu í notkun með efnismagn allt að 500.000 m3. Í umhverfisskýrslu sem fylgdi aðalskipulaginu kom fram að endurskoðun skipulagsins félli undir lög nr. 105/2006 um umhverfismat áætlana. Á meðal þeirra sem veittu um­sagnir við skipulagið voru Umhverfisstofnun, Náttúrufræðistofnun Íslands, Minjastofnun Íslands og Heilbrigðiseftirlit Suðurlands. Kemur m.a. fram í umhverfis­skýrslunni að við frágang vegna framkvæmda- og efnistökusvæða sé mikilvægt að hvorki verði eftir lýti á landi né hætta á upp­foki og/eða gróðurskemmdum. Rauðamöl hafi verið unnin úr Seyðishólum, Kerinu o.fl. gjall­gígum í gegnum tíðina og notuð til vegagerðar og undir húsa­grunna. Ljóst sé að mikil efnisþörf sé vegna fyrirhugaðs vindorkugarðs á Mosfellsheiði. Þá skuli öll efnistöku­svæði hafa framkvæmdaleyfi og eftir atvikum gilt deiliskipulag.

Að undangenginni grenndarkynningu samþykkti sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps útgáfu leyfisins á fundi sínum 29. júní 2023 og var leyfið gefið út 10. júlí s.á.

Málsrök kærenda: Kærendur telja hið kærða framkvæmdaleyfi valda hættu á ónæði vegna hávaða frá vinnslu og umferð. Þá sé mengun vegna starfseminnar. Engin tilkynning hafi borist um ákvörðun sveitarstjórnar eða svör við athuga­semdum kærenda. Jafnframt vísa þeir til fyrri athugasemda sinna við grenndarkynningu, dags. 30. apríl 2023,  m.a. um skýrleika tillögu að hinu kærða leyfi og um að fram­kvæmd grenndar­kynningar hefði verið haldin ágöllum enda mætti ráða að ekki hafi verið grenndarkynnt fyrir eigendum Klausturhóla nr. 3 og 8.

 Málsrök Grímsnes- og Grafningshrepps: Af hálfu sveitarfélagsins er þess krafist að kröfu kærenda verði vísað frá en ellegar hafnað. Kærendur hafi ekki lögvarða hagsmuni af úrlausn um kæru­efnið og sé hið kærða framkvæmdaleyfi ekki haldið slíkum form- eða efnisann­mörk­um að ógildingu varði. Ákvörðun sveitarstjórnar um útgáfu þess hafi verið í fullu sam­ræmi við ákvæði skipulagslaga nr. 123/2010, laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana, stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sem og form- og efnisreglur stjórnsýslu­réttar. Ákvörðunin hafi byggt á málefnalegum sjónarmiðum og tillit verið tekið til hagsmuna eigenda fast­eigna í nágrenni námunnar. Útgáfa framkvæmdaleyfis hafi ekki í för með sér skerðingu á hagsmunum kærenda umfram það sem verið hefði á grundvelli eldra leyfis eða það sem þeir þurfi að þola á grund­velli skipulagsáætlana. Framkvæmdaleyfið hafi verið gefið út á grund­velli Aðal­skipulags Grímsnes- og Grafningshrepps 2020-2032, að undan­genginni grenndar­­kynningu, sbr. 5. mgr. 13. gr. skipulagslaga og sé framkvæmdin í sam­ræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar. Mögu­leg aukning á umferð vegna efnis­flutninga geti ekki talist til breytinga á þéttleika byggðar í skilningi 44. gr. laganna.

Hafa verði í huga að um tímabundna framkvæmd sé að ræða en framkvæmdaleyfi hafi verið veitt til 15 ára og sé bundið því skilyrði að þegar efnistöku samkvæmt leyfinu ljúki verði þeir hlutar gígsins sem eftir standi varðveittir. Þá sé leyfið einnig bundið skilyrði um frágang efnistökusvæðisins. Í greinargerð sveitarstjórnar um framkvæmdaleyfið komi fram að gengið skuli frá svæðinu að framkvæmdartíma loknum þannig að það sé aðgengilegt til skoðunar fyrir almenning. Þá komi fram í starfsleyfi til framkvæmdaraðila að fylgt verði leiðbeiningum umhverfisráðuneytisins frá 2002, „Námur – efnistaka og frágangur“, sem kærendur hafi vísað til. Veigamikil rök séu fyrir veitingu leyfis til áframhaldandi efnistöku í Seyðishólum enda muni fyrirhuguð efnistaka hafa jákvæð efnahagsleg og samfélagsleg áhrif á komandi árum. Yrði efnistaka ekki leyfð úr námunni yrði þess í stað að opna aðrar námur á Suðurlandi til að anna eftirspurn eftir íslenskum jarðefnum. Svæðið beri þegar ummerki um áratugalanga efnistöku og viðbótarmagn það sem ætlað sé að taka úr námunni breyti ásýnd námunnar óverulega. Við afgreiðslu umsókna um framkvæmdaleyfi beri einnig að líta til stjórnarskrárvarinna eignar- og atvinnuréttinda framkvæmdaraðila, sbr. úrskurð úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála í máli nr. 45/2006 frá 22. nóvember 2006. Framkvæmdaraðili hafi haft námuna á leigu síðastliðin ár og námuréttindi félagsins teljist til eignarréttinda þess í skilningi 72. gr. stjórnarskrár. Sveitarfélagið hafi metið það svo að þeir hagsmunir sem hefðu legið að baki veitingu framkvæmdaleyfis til áframhaldandi efnistöku í Seyðishólum til 15 ára vægju þyngra en hugsanleg skaðleg áhrif af völdum framkvæmdanna.

Í skipulags- og byggingarmálum verði nágranni aðeins talinn eiga aðild að stjórnsýslumáli hafi bygging í grennd við hann veruleg áhrif á lögvarða hagsmuni hans, t.d. með umtalsverðri birtu­skerðingu og hafi þannig áhrif á verðmæti eignar hans. Hið kærða leyfi hafi engin áhrif á verð­mæti sumar­bústaðalands kærenda og hafi ekki í för með sér skerðingu á hagsmunum þeirra. Þá hafi það verið niðurstaða umhverfismats að heildaráhrif framkvæmdarinnar væru óveruleg. Ekki verði talið að efnistaka úr námunni hafi neikvæð áhrif á fasteign kærenda hvað varði ásýnd svæðisins, þrátt fyrir að náman sé sýnileg frá fasteign þeirra en yfir­bragð og heildarútlit Seyðishóla muni lítið breytast frá því sem þegar sé. Leitast hafi verið við að hafa námuna litla að umfangi en djúpa, með bröttum, berum og vel sýnilegum gjallveggjum sem sýni vel litadýrð og önnur sérkenni hennar. Verði náman ekki talin fela í sér sjónmengun fyrir kærendur. Hvað sem því líði geti slík áhrif ekki valdið ógildingu framkvæmdaleyfisins enda sé útgáfa þess að öllu leyti í samræmi við lög.

Skipulagsnefnd umhverfis- og tæknisviðs Uppsveita bs. hafi tekið umsókn um framkvæmda­leyfi fyrir á fundi sínum 8. mars 2023 og þar hafi verið bókað að mælst væri til þess að útgáfa leyfisins yrði samþykkt á grundvelli 13. gr. skipulagslaga. Óskaði nefndin eftir að útgáfa þess yrði grenndarkynnt fyrir eigendum aðliggjandi landareigna. Málið hafi verið tekið fyrir á fundi sveitarstjórnar 15. s.m. og þar gerð bókun í samræmi við bókun skipulags­nefndar. Hið kærða framkvæmdaleyfi hafi verið grenndarkynnt í samræmi við 44. gr. skipulagslaga og kærendum gefist tækifæri til að koma að athugasemdum sínum, sem þeir hafi og gert. Þótt almenningi sé gefinn kostur á að gera athugasemdir við umsókn um framkvæmdaleyfi geti aðeins aðili máls í hefðbundnum skilningi stjórnsýsluréttar komið að stjórnsýslukæru á slíkri leyfisveitingu. Ekkert hald sé í þeirri staðhæfingu að sveitarstjórn hafi tekið ákvörðun um veitingu leyfisins á fundinum 15. mars 2023. Tekin hafi verið efnisleg afstaða til þeirra athuga­semda sem borist höfðu í grenndar­kynningu og endanleg ákvörðun ekki tekin fyrr en eftir hana. Í greinargerð um afgreiðslu framkvæmdaleyfisins, dags. 22. júní 2023, hefðu verið sett skilyrði í samræmi við þær athugasemdir sem borist höfðu við grenndarkynninguna. Ákvörðun um að veita leyfi hefði síðan verið tekin 29. s.m.

Því sé hafnað að framkvæmd grenndar­kynningar hafi verið haldin ágöllum af þeirri ástæðu að umsóknin hafi ekki verið grenndarkynnt fyrir eigendum Klaustur­hóla 3 og 8. Vegna fjarlægðar lóðanna frá efnis­töku­svæðinu og þar sem séraðkoma sé að lóðunum, frá Biskups­tungna­braut en ekki um veg sem liggi að námunni hafi það verið metið svo að hagsmunir eigenda lóðanna myndu ekki skerðast við útgáfu framkvæmdaleyfisins, hvorki hvað varðaði land­notkun, skuggavarp eða útsýni né hávaða eða mengun vegna efnistöku eða efnisflutninga. Ákvæði 2. mgr. 44. gr. skipulagslaga feli í sér matskennda reglu sem kveði á um að við grenndar­­kynningu kynni sveitarfélagið leyfisumsókn fyrir þeim nágrönnum sem taldir séu geta átt hagsmuna að gæta. Sveitarfélagið hafi því mat um það og hafi metið það svo að vegna staðsetningar fasteign­anna að Klausturhólum nr. 3 og 8 hefðu fyrirhugaðar fram­kvæmdir ekki áhrif á hagsmuni eigenda þeirra á þann veg að grenndarkynna þyrfti leyfis­veitingu fyrir þeim. Gildi hið sama um eigendur sumarbústaðalanda í Kerbyggð, enda séu fast­eignir þar lengra frá Seyðishólum en t.d. fasteignir að Kerhrauni. Þá geti kærendur ekki haft lögvarða hags­muni af því að framkvæmda­leyfið verði kynnt fyrir einhverjum ákveðnum aðilum, öðrum en þeim sjálfum. Í umhverfis­matsskýrslu hefði komið fram að möguleg aukning umferðar hefði ekki mark­tæk áhrif á næði sumar­bústaða­eigenda, nema fyrir þá sem væru allra næst námunni og þá helst austan Búrfells­vegar. Leyfisumsóknin hafi verið kynnt fyrir félögum sumar­húsa­eigenda á svæðinu og kynningin með þeim hætti hlotið tölu­verða dreifingu. Geti þetta atriði ekki leitt til þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi, enda leyfisumsóknin sannanlega kynnt öllum þeim sem sveitarfélagið taldi geta átt hagsmuna að gæta. Þá geti ekki valdið ógildingu fram­kvæmda­leyfisins að þeim sumarhúsaeigendum, sem komu að athugasemdum við grenndar­kynningu, hafi ekki verið kynnt sérstaklega hvort eða hvernig komið hefði verið til móts við athugasemdir þeirra. Hvergi sé kveðið á um í lögum að sveitarfélag skuli senda hverjum þeim sem sent hafi inn athuga­semdir við grenndarkynningu sérstakt erindi þar sem greint sé frá af­stöðu sveitar­félagsins til athugasemda viðkomandi. Þvert á móti segi einungis í 2. mgr. 44. gr. skipulagslaga að þegar sveitarstjórn hafi afgreitt málið skuli þeim sem tjáð hafi sig um það tilkynnt niðurstaða sveitar­stjórnar. Það hafi sveitarfélagið gert 13. júlí 2023 þegar niðurstaða þess um útgáfu framkvæmdaleyfisins hafi verið auglýst m.a. í Morgunblaðinu og Lögbirtinga­blaði.

Hin umdeilda framkvæmd hafi sætt umhverfismati í samræmi við lög nr. 111/2021. Í umhverfis­mats­skýrslu hefði komið fram að ekki væri gert ráð fyrir að efnistakan myndi að ráði hafa aukna hljóð­mengun í för með sér, frá því sem áður hefði verið. Um loftmengun segi í ­skýrslunni að ekki sé gert ráð fyrir að aukin efnistaka hafi aukna loftmengun í för með sér nema sem nemi auknum útblæstri vörubíla. Auk þess hefði ekki verið gert ráð fyrir jarðraski utan afmarkaðs efnistökusvæðis og sé sumarbústaðaland kærenda utan áhrifasvæðis fram­kvæmdar­innar. Enga nýja vegagerð þurfi og hefðu áhrif á umferð vegna fram­kvæmdar­innar verið metin óveruleg, þrátt fyrir að einhver aukning yrði á umferð vörubíla á aksturleiðum til Þorlákshafnar. Gert sé ráð fyrir mótvægis­aðgerðum sem felist í því að efnis­flutningar til Þorlákshafnar verði einungis að degi til á virkum dögum. Megin­hávaði bílaumferðar sé frá daglegri bílaumferð um Biskupstungnabraut. Samkvæmt þessu sé ekki unnt að líta svo á að hið kærða framkvæmdaleyfi skaði hagsmuni kærenda hvað varði hávaða frá námuvinnslunni vegna efnistöku, umferðar og vinnuvéla um­fram það sem áður hefði verið og kærendur verði að þola á grundvelli skipulagslaga.

 Viðbótarathugasemdir kærenda: Kærendur benda á að framkvæmdaraðili hafi ekki sýnt fram á leigusamning um námuna eða gilt framkvæmda- eða starfsleyfi fram til þessa. Á fundi sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps 15. mars 2023 hafi verið sam­þykkt að veita framkvæmdaleyfi, með skilyrðum m.a. um að útgáfa leyfisins yrði grenndar­kynnt. Slík máls­meðferð fari í bága við ákvæði 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 sem kveði á um að grenndarkynna megi um­sókn um byggingar- eða framkvæmdaleyfi við tiltekin skilyrði. Grenndarkynning ákvörðunar sem þegar hafi verið tekin komi aldrei til álita og hafi enga laga­stoð. Sé þess heldur ekki að vænta að grenndarkynning skili miklum árangri eftir að bindandi og ívilnandi ákvörðun hafi verið tekin. Leiði þetta eitt og sér til ógildingar. Í umhverfismats­skýrslu framkvæmdaraðila hefðu þrír valkostir verið settir fram, þ.e. sú framkvæmd sem orðið hafi fyrir valinu, núllkostur sem hafi falið í sér að allri efnistöku yrði hætt og að áframhaldandi efnistaka yrði um 20.000 m3 á ári. Aðrir kostir hafi ekki verið kannaðir. Síðasttaldi kosturinn hafi byggt á efnistöku án leyfis og þannig andstæð lögum. Af þeim sökum hafi enginn réttur getað skapast til handa leyfishafa og þegar af þeirri ástæðu ekki á þeirri tillögu byggjandi. Hafi efnistaka úr þeim hól sem um ræði farið fram síðan árið 1950, sé um að ræða fimmföldun miðað við meðaltals efnistöku síðustu áratuga, en sexföldun sé hin leyfislausa efnisvinnsla síðustu fjögurra ára ekki tekin með í reikninginn. Kærendur séu ekki mótfallnir takmarkaðri og hóflegri gjalltöku úr Seyðishólum, heldur leggist þeir gegn fyrirhugaðri stórfelldri aukningu og þeirri röskun og óþægindum sem henni fylgi. Varla sé það leyfisbeiðanda að ákvarða rammann, þ.e. um það hvaða kostir séu í stöðunni eins og gert hafi verið í umhverfismatsskýrslunni og sveitarstjórn virðist hafa lagt til grundvallar við úrlausn málsins. Fleiri kostir séu í stöðunni sem sveitarstjórn hefði getað íhugað til að koma á sátt um niðurstöðuna. Þar sem ákvörðunin hafi í reynd verið tekin áður en til grenndarkynningar hafi komið hefði ekki getað orðið af því. Fjórði valkostur­inn sé augljóslega að halda áfram takmarkaðri gjalltöku til notkunar innan­lands, t.d. 5-10.000 m3 á ári, í takmarkaðan tíma, t.d. í 5-10 ár. Ákveða þyrfti í upphafi hvað bæri að varð­veita og hverju mætti fórna en slíkt mat færi fram í samráði við sérfróða aðila með það að leiðar­ljósi að tak­marka frekari eyðileggingu á landslagi, ásýnd og náttúruminjum og eftir at­vikum til að móta það sem eftir yrði á ásættanlegan máta. Með þessum hætti yrði endan­leg lokun námunnar undir­búin þannig að viðskilnaður og lokafrágangur væri sómasamlegur og í sam­ræmi við lög. Út frá umhverfisverndarsjónarmiðum sé samþykkt sveitarstjórnar um frágang að fram­kvæmdum loknum ófullnægjandi, samanber umsögn Umhverfisstofnunar við umhverfismatsskýrslu framkvæmdaraðila, dags. 27. september 2022. Aug­ljóst sé að ásættanlegur viðskilnaður við námusvæðið verði mun erfiðari verði af fyrirhugaðri efnistöku sem verði meiri en öll uppsöfnuð efnistaka á 73 ára tímabili. Umhverfisstofnun hafi t.d. bent á að við frágang verði að móta jarðmyndunina og milda þannig ásýnd svæðisins. Framkvæmdaraðili hafi hins vegar bent á ýmis erfið verkefni sem ráðast þurfi í yrði sú leið valin. Þá hefði framkvæmdaraðili lagt mikla áherslu á að röskuðu svæði yrði haldið í lágmarki og að fyrirhuguð flatarmáls­stækkun efnistökusvæðisins væri ekki umfangsmikil og að unnið verði í hól­inn og niður. Það sé þó einmitt sú aðferð sem valdi langmestum skaða út frá sjónar­miðum um frágang og viðskilnað við efnistökusvæðið. Ein helsta afleiðing umfangsmikillar efnistöku síðustu ára, án framkvæmdaleyfis og án lögbundins eftirlits sveitarstjórnar, sé sú að mun erfiðara verði ­að fara að vilja löggjafans að þessu leyti. Það hafi þó verið mat Umhverfisstofnunar að unnt væri að draga úr áhrifum efnistökunnar en langan tíma taki fyrir sárin að gróa. Af gögnum málsins sé ljóst að ef hægt eigi að vera að móta jarðmyndunina til meira samræmis við umhverfið, verði sú framkvæmd erfiðari eftir því sem lengra sé farið inn í hólinn. Lög um umhverfismat fram­kvæmda og áætlana geri ráð fyrir að mælt sé fyrir um mótvægis­aðgerðir, m.a. um frágang framkvæmdasvæðis að efnistöku lokinni. Þá þurfi að tryggja í leyfi að framkvæmdaraðili standi straum af kostnaði við fráganginn, en í engu sé um slíkt fjallað í hinu kærða leyfi eða forsendum þess. Þetta ætti þó að hafa aukið vægi í máli þessu m.a. vegna sérstöðu Seyðishólanna.

Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga skuli gera deiliskipulag fyrir einstök svæði eða reiti þar sem framkvæmdir séu fyrirhugaðar. Um grundvallarreglu sé að ræða og verði að skýra heimildir til að víkja frá skilyrði laganna þröngt. Heimilt sé að víkja frá kröfunni um deili­skipulag vegna framkvæmda sem séu í sam­ræmi við landnotkun, byggða­mynstur og þéttleika byggðar. Að því er landnotkun varði þá sé hið kærða framkvæmdaleyfi í sam­­­ræmi við aðal­skipulag, en öðru máli gegni um byggða­mynstur og þéttleika byggðar. Samkvæmt 6. tölul. 1. mgr. 2. gr. skipulagslaga sé byggða­mynstur skil­greint sem lögun og yfirbragð byggðar, svo sem hæð og þéttleiki. Þegar litið sé til þess að svæðið ein­kennist af sumarhúsabyggð og land­búnaðarsvæði megi ljóst vera að aukin námuvinnsla sé ekki í samræmi við byggðamynstur þess. Auk þess leiði aukin námu­vinnsla til aukningar á þungri umferð sem svari í raun til þess að á svæðinu eigi sér stað upp­bygging langt umfram nú­verandi þéttleika. Af þessum sökum hafi ekki verið heimilt að veita leyfið á grundvelli grenndarkynningar heldur hefði þurft að vinna deili­skipulag fyrir svæðið. Í gildistíð eldri skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 hafi sú undanþáguheimild sem grenndarkynning feli í sér verið bundin við þegar byggð hverfi, sbr. 7. mgr. 43. gr. þeirra laga. Grenndarkynning hafi því ekki komið til álita við undirbúning leyfisveitinga fyrir ein­stökum framkvæmdum á svæðum utan þéttbýlis. Þess í stað hefðu verið aðrar heimildir til þess að víkja frá kröfum um gerð deili­skipulags á svæðum utan þéttbýlis sem ekki séu lengur fyrir hendi.

Verði talið að heimilt hafi verið að veita hið kærða leyfi að undangenginni grenndarkynningu sé þess allt að einu krafist að leyfið verði ógilt þar sem slíkir ágallar hafi verið á framkvæmd ­kynningarinnar að leiða eigi til ógildingar. Þegar aðila með augljósa hagsmuni sé ekki gefinn kostur á þátttöku séu fordæmi um að ákvörðun hafi verið felld úr gildi vegna þess ágalla, sjá m.a. úrskurð úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 60/2018. Ekki hafi verið grenndarkynnt fyrir eigendum Klausturhóla nr. 3 og 8 sem hafi staðfest við kærendur að þeir hefðu gert athuga­semdir við þessar fyrirætlanir. Báðar lóðirnar liggi við Biskupstungna­braut og aukin umferð stórra vörubíla sé til þess fallin að valda þeim miklu ónæði. Lóðirnar séu í nákvæmlega sömu fjarlægð frá námunni og Klausturhólar nr. 9 og 10, sem grenndarkynnt hefði verið fyrir.

Framkvæmdaleyfisumsóknin hafi verið grenndar­kynnt fyrir nágrönnum sem taldir hefðu verið geta átt hagsmuna að gæta af leyfisumsókn, sbr. 2. mgr. 44. gr. skipulagslaga, en ekki al­menn­ingi. Ákvæði 2. mgr. 44. gr. skipulagslaga um kynningu fyrir þeim sem komið hefðu á framfæri athugasemdum í grenndar­kynningu sé sérákvæði sem skuldbindi sveitarstjórnir til sértækrar kynningar umfram almennar tilkynningar. Með grenndarkynningu sé viðurkennt að tilgreindir aðilar eigi sérstakra hagsmuna að gæta vegna ákvarðanatöku, þeir eigi kærurétt samkvæmt lögunum og því beri að kynna þeim sérstaklega ákvörðunina, m.a. til að marka upphaf kæru­frests. Þessa hafi ekki verið gætt í málinu.

Lóð kærenda liggi mjög nálægt hinni umdeildu námu og séu hafnar ráðstafanir til að slétta land og fyrirhugað að byggja þar annað sumar­­hús, þaðan sem útsýni sé að námunni. Slík áform hafi lengi verið uppi, sem og um byggingu fleiri húsa. Þrátt fyrir beiðni þar að lútandi hafi kærendur ekki fengið eldra leyfi framkvæmdaraðila sent og virðist sem ekkert slíkt leyfi hafi verið til staðar. Viður­kennt sé í gögnum málsins að vinnsla undanfarinna ára hafi verið miklum mun minni en sú sem hið kærða leyfi feli í sér. Fullyrðing um að hin aukna vinnsla muni ekki valda meira ónæði en samkvæmt eldra leyfi sé því ekki á rökum reist. Gjallfok sé raunverulegt vandamál við núverandi aðstæður, þ.e. nú þegar og áður en til stór­aukinnar efnistöku og stækkunar námunnar komi. Geri vandamálið einkum vart við sig við vissar veðurfarslegar kringumstæður, nánar tiltekið í norðan og norðvestan stormi, en slík veður séu ekki óalgeng að vetri til á þessum slóðum. Svo virðist sem hvirfill myndist þá í námunni, gjallið þeytist út á ofsahraða og eiri engu sem á vegi þess verði, hvorki húsum né bif­reiðum. Í skotlínunni séu þær lóðir sem næstar námunni séu, þ. á m. lóð kærenda.

Við töku hinnar kærðu ákvörðunar hafi ekki verið gætt lögmætra sjónarmiða. Um sé að ræða gríðarlega efnistöku og ekki hafi verið sýnt fram á að stóraukin efnistaka geti réttlætt frekari eyðileggingu umhverfis og náttúru svæðisins. Framkvæmdin muni hafa í för með sér óásættan­lega röskun á hagsmunum sumarhúsa- og landeigenda í nágrenninu. Þá sé engin grein gerð fyrir því hvernig ákvörðunin falli að áliti Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum en sveitarstjórn beri að leggja það til grundvallar í málinu, sbr. 2. mgr. 14. gr. skipulagslaga. Rík ástæða hefði verið til þess að gera grein fyrir ákveðnum þáttum, svo sem hvernig brýn nauðsyn þyki til þess að raska vistkerfum og jarðmyndunum með óafturkræfum hætti, einungis vegna atvinnuhagsmuna eins aðila en til óhagræðis fyrir eigendur fjölda fasteigna á svæðinu, sbr. 3. mgr. 61. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd. Ekki hafi með neinum hætti verið sýnt fram á brýna nauðsyn þess að selja drjúgan hluta lögvarðra náttúruminja í Seyðishólum til útlanda til hagsbóta fyrir einkaaðila. Augljóslega séu engir almannahagsmunir sem krefjist röskunarinnar. Hvorki sé um þetta fjallað í áliti Skipulagsstofnunar né í hinni kærðu ákvörðun eða rökstuðningi með henni. Í umhverfismatskýrslu framkvæmdar­aðila hafi komið fram að Seyðis­hólum hefði verið raskað svo mjög af námuvinnslu að 61. gr. laga nr. 60/2013 ætti ekki lengur við. Hvað snerti umrætt svæði séu þessar skemmdir óumdeilanlega af völdum leyfis­beiðanda sjálfs, einkum á síðustu árum þar sem efnistaka hafi að þeirra sögn verið um 20.000 m3 á ári. Þessi margfalda efnistaka í samanburði við áratugina á undan hafi verið í leyfis­leysi og valdið óafturkræfum spjöllum á ásýnd hólsins. Líkt og fram hefði komið í umsögn Umhverfis­stofnunar, dags. 27. september 2022, væri ekki matsatriði hvort 61. gr. laga nr. 60/2013 ætti við. Í áliti Skipulagsstofnunar sé með engum hætti tekin formleg afstaða til þessa atriðis og hvergi minnst á umsögn Umhverfis­stofnunar í niðurstöðukafla þess. Þar sem ekki sé í áliti Skipulagsstofnunar tekin upp framan­greind leiðrétting Umhverfisstofnunar á fullyrðingu framkvæmdaraðila um gildissvið 61. gr. verði að telja að sveitarstjórn hafi talið fullyrðingu framkvæmdaraðila rétta enda umsögn Umhverfisstofnunar ekki legið fyrir sveitarstjórn, sbr. tölvupóst skipulags­fulltrúa til kærenda. Þá sé lögbundið að leita beri umsagnar Umhverfis­stofnunar, sbr. 3. mgr. 61. gr. laganna enda sé svæðið ekki deiliskipulagt. Í 5. mgr. sömu greinar komi fram að ákveði leyfis­veitandi að heimila framkvæmd skuli hann rökstyðja þá ákvörðun sérstaklega fari hún í bága við umsagnir umsagnaraðila. Það hafi leyfisveitandi ekki gert. Sé því lögum sam­kvæmt ekki hægt að réttlæta frekara rask.

Sveitarstjórn hafi sett nokkur skilyrði fyrir leyfisveitingunni er lúti að hljóð- og loftmengun og komi þau fram í greinargerð með framkvæmdaleyfinu. Sé þar margt jákvætt þó Skipulags­stofnun hafi talið óvíst hvort þær ráðstafanir dygðu til. Þrátt fyrir mótvægisaðgerðir sé að mati stofnunarinnar ekki úti­lokað að af framkvæmdunum stafi bæði hljóð- og rykmengun. Þar sem framkvæmdirnar eigi að standa yfir í 15 ár skipti þessu óvissuþáttur verulegu máli. Þá hafi komið fram í mati stofnunarinnar að framkvæmdirnar hefðu í för með sér staðbundin, sjónræn áhrif, sem séu að mestu óafturkræf og líta megi svo á að áhrif þeirra á landslag og ásýnd verði nokkuð neikvæð. Framangreindir þættir bitni einkum á þeim sem eigi hús og jarðir í námunda við vinnslusvæðið. Sumarhúsaeigendur á svæðinu telji að þessi aukna efnistaka muni valda óafturkræfum áhrifum á ásýnd svæðisins. Hið kærða leyfi og forsendur þess feli ekki í sér neinar mótvægisaðgerðir. Frekar sé gefið í og greftri haldið áfram í umræddum hól með margföldum hraða, „jafna“ síðan botn námunnar, móta veggina til að minnka hættu á hruni og gera síðan almenningi kleift að heimsækja svæðið. Það standi m.ö.o. til að skilja eftir risastórt svöðusár í landinu að efnistöku lokinni. Virðist því sem ósamræmi sé á milli ákvörðunar sveitarstjórnar og starfsleyfis Heilbrigðiseftirlits Suðurlands enda verði ekki séð að hún uppfylli skilyrði framangreindra leiðbeininga umhverfisráðuneytisins og þar með starfsleyfis námunnar. Sé þetta enn einn galli á hinu kærða framkvæmdaleyfi. Hljóti málsmeðferðin í heild sinni að leiða til þess að leyfið verði fellt úr gildi, hvort sem litið sé til form- eða efnisþátta.

Í 4. gr. reglugerðar nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi sé sérstaklega tekið fram að framkvæmdaleyfi veiti ekki heimild til framkvæmda sem brjóti í bága við ákvæði laga, en sú framkvæmd sem heimiluð sé feli einmitt í sér brot gegn nánar tilgreindum lagaákvæðum. Vert sé að hafa í huga að verði hin kærða ákvörðun ekki felld úr gildi muni hún hafa fordæmisgildi fyrir frekari námuvinnslu í Seyðishólum án þess að samtal eða samráð hafi verið haft við þá aðila sem málið varði, s.s. Umhverfisstofnun, Náttúrufræðistofnun Íslands og sumarhúsaeigendur. Þá sé bréf Umhverfis- og tæknisviðs Uppsveita bs., dags. 10. júlí 2023, til framkvæmdaraðila ekki í samræmi við reglugerðina þar sem ekki komi þar fram sum þau atriði sem tilgreina eigi í leyfinu, skv. 12. gr. Þar megi t.d. nefna 8. og 9. tölul. 12. gr. um eftirlit og skilyrði en gera eigi grein fyrir mótvægisaðgerðum og frágangi eftir verklok. Þá beri skv. lokamálsgrein 14. gr. skipulagslaga að auglýsa framkvæmdaleyfi eftir útgáfu þess sem væntanlega sé til þess ætlað að hagsmunaaðilar geti þá kært leyfið. Augljóst megi vera að til þess að þeir geti áttað sig á málinu verði efnisatriði leyfisins að koma þar fram.

Hin stórfellda aukna efnistaka krefjist starfsleyfis Heilbrigðiseftirlits Suðurlands, en í starfs­leyfum séu gerðar kröfur um frágang að efnistöku lokinni. Á meðal skilyrða fyrir umræddu starfsleyfi sé að farið verði eftir leiðbeiningum umhverfisráðuneytisins frá árinu 2002, „Námur – efnistaka og frágangur“. Í þeim komi fram að ganga þurfi frá öllum efnistökusvæðum strax og efnistöku ljúki. Almenna reglan sé að ganga þurfi þannig frá svæði að það falli aftur að um­hverfi sínu og líkist sem mest landformum í nágrenni þess. Þannig megi stuðla að því að umhverfið beri efnistöku lítt eða ekki merki. Þessi leiðbeiningaregla sé fyrir löngu orðin ófrá­víkjanlegt grundvallarviðmið hjá öllum þeim sem leggi stund á umfangsmikla efnistöku hér á landi, s.s. hjá Vegagerðinni og Landsvirkjun.

Vettvangsskoðun: Úrskurðarnefndin kynnti sér staðhætti á vettvangi hinn 8. desember 2023 að viðstöddum kæranda, fulltrúa leyfishafa og fulltrúa sveitarfélagsins.

Leyfishafa var tilkynnt um framkomna kæru og honum gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum sínum sem hann hefur ekki gert.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti framkvæmdaleyfis sem samþykkt var á fundi sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps 29. júní 2023 og gefið út 10. júlí s.á. vegna efnistöku úr námu E24 í Seyðishólum. Í leyfinu er vísað til þess að efnistaka sé fyrirhuguð í 15 ár, allt að 500.000 m3 á tímabilinu. Líkt og fram hefur komið hefur efnistaka farið fram á svæðinu áratugum saman.

Hinn 23. ágúst 2023 veitti Heilbrigðiseftirlit Suðurlands leyfishafa í máli þessu starfsleyfi fyrir efnistöku í námunni og er gildistími þess til 23. ágúst 2035. Er í starfsleyfinu veitt heimild til vinnslu, þ.m.t. hörpun, á allt að 500.000 m3 af efni úr námunni. Árlega er heimilt að vinna allt að 33.000 m3 af efni. Þá er kveðið á um að við efnistöku og frágang skuli fylgja leiðbeiningum: Námur – efnistaka og frágangur, sem umhverfisráðuneyti o.fl. aðilar gáfu út árið 2002.

Það er skilyrði aðildar í málum fyrir úrskurðarnefndinni að kærandi eigi lögvarinna hagsmuna að gæta tengda viðkomandi ákvörðun, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, nema lög mæli á annan veg. Verður að skýra þetta ákvæði í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttarins um aðild að kærumálum þar sem áskilið er að kærandi eigi einstaklingsbundinna hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra og jafnframt að þeir hagsmunir séu verulegir. Almennt ber þó að gæta varfærni við að vísa málum frá á þeim grunni að kærendur skorti lögvarða hagsmuni tengda kærðri ákvörðun nema augljóst sé að það hafi ekki raunhæfa þýðingu fyrir lögverndaða hagsmuni þeirra að fá leyst úr ágreiningi kærumálsins.

Lóð kærenda er 3 ha að stærð og í um 400 m fjarlægð frá hinni umdeildu námu. Er náman sýnileg frá lóðinni en ekki frá því húsi sem fyrir er á henni og byggt var árið 1965. Hafa kærendur upplýst um áform um uppbyggingu vestar á lóðinni þaðan sem útsýni er að námunni. Liggur fyrir að nálægð námunnar við fasteign kærenda er slík að ekki er loku fyrir það skotið að umdeilt jarðefnisnám geti haft grenndaráhrif gagnvart henni, s.s. vegna hávaða og foks. Verður þeim því játuð kæruaðild í málinu.

Mælt er fyrir um í 1. mgr. 14. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og 1. mgr. 25. gr. laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana að óheimilt sé að gefa út leyfi til framkvæmda fyrr en álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum liggur fyrir eða ákvörðun um að fram­kvæmd sé ekki matsskyld. Samkvæmt 17. gr. laga nr. 111/2021 er umhverfismat framkvæmda ferli sem samanstendur af nánar tilgreindum þáttum sem tíundaðir eru í fimm stafliðum, þ. á m. afgreiðsla matsáætlunar, sbr. a-lið og álit Skipulagsstofnunar um umhverfismat fram­kvæmdarinnar, sbr. d-lið. Í síðasta þætti ferilsins, þ.e. e-lið, er svo tilgreint að álit stofnunar­innar sé lagt til grundvallar við afgreiðslu umsókna um leyfi til framkvæmda. Samkvæmt 1. mgr. 18. gr. laganna ber framkvæmdaraðili sem hyggst hefja matsskylda framkvæmd ábyrgð á umhverfismati hennar og skal hann vinna matsáætlun, sbr. 21. gr., og umhverfismatsskýrslu þar sem gerð er grein fyrir umhverfismati framkvæmdarinnar, sbr. 22. gr. Í c-lið 1. mgr. 22. gr. laganna er mælt fyrir um að umhverfismatsskýrsla framkvæmdaraðila skuli innihalda lýsingu og mat á raunhæfum valkostum sem framkvæmdar­aðili hafi kannað og upplýsingar um helstu ástæður fyrir þeim valkosti sem var valinn með tilliti til umhverfisáhrifa fram­kvæmdarinnar.

Tilgangur mats á mismunandi valkostum er einkum að sá sem beri ábyrgð á matinu velti fyrir sér raunhæfum valkostum og mótvægisaðgerðum í þeim tilgangi að draga úr umhverfis­áhrif­um. Þá ber að kynna bæði matsáætlun og umhverfismatsskýrslu fyrir almenningi og veita með því tækifæri á athugasemdum, sbr. 2. mgr. 21. gr. og 1. mgr. 23. gr. laga nr. 111/2021. Geta athugasemdir frá almenningi og aðilum sem hafa hagsmuna að gæta haft verulega þýðingu, t.a.m. um það hvaða valkosti umhverfismat lýtur að. Um leið verður að viðurkenna ákveðið forræði framkvæmdaraðila um það hvaða valkosti hann leggi fram sem uppfylli mark­mið viðkomandi framkvæmdar enda sé matið reist á hlutlægum og málefnalegum sjónar­miðum. Í 24. gr. laganna er fjallað um álit Skipulagsstofnunar um umhverfismat fram­kvæmdar en slíkt mat er veigamikill þáttur í rannsókn máls þegar leyfi er gefið út vegna mats­skyldra framkvæmda.

Hinn 9. mars 2022 barst Skipulagsstofnun matsáætlun framkvæmdaraðila vegna efnis­töku. Voru þar kynnt áform leigutaka námunnar um áframhaldandi efnistöku gjalls í námu E30b, nú E24, í Seyðishólum. Gera mætti ráð fyrir að um 1.500 ferðir vörubíla frá námunni á ári eða um 10 ferðir á dag miðað við 150 vinnudaga á ári, þar af um fimm ferðir til Þorlákshafnar. Stærð efnistökusvæðisins yrði 4,4 ha en væri í dag um 3,5 ha. Efnið væri til notkunar í nágrenninu ásamt því að ráðgert væri að árlega yrði um 20.000 – 25.000 m3 af gjalli flutt til Þorlákshafnar til útflutnings. Síðastliðin fjögur ár hefði efnistaka numið um 75.000 m3 eða tæpum 19.000 m3 á ári og þar af hefðu 5.000 – 10.000 m3 verið fluttir út á ári. Ekki væri gert ráð fyrir jarðraski utan afmarkaðra efnistökusvæða og áhrifasvæði í meginatriðum skilgreint 100 m út fyrir afmörkun þess. Að jafnaði yrðu á svæðinu ein til tvær gröfur og vinnslutæki. Þá yrði þar 4.000 lítra eldsneytis­tankur og tilfallandi færanlegur húsvagn með kaffi- og hreinlætis­aðstöðu. Enga nýja vegagerð þyrfti á svæðinu en gert væri ráð fyrir að Hólskarðsvegur yrði lagður bundnu slitlagi að námu. Í matsskýrslu yrðu skoðaðir og metnir tveir valkostir um framkvæmdir og núllkostur sem fæli í sér að látið yrði staðar numið.

Við meðferð málsins leitaði Skipulagsstofnun umsagna frá sveitarfélaginu, Heilbrigðiseftirliti Suðurlands, Náttúrufræðistofnun Íslands og Umhverfisstofnun, en framkvæmdaraðili hafði áður leitað umsagnar Minjastofnunar Íslands og barst hún Skipulagsstofnun með matsáætlun. Þá var almenningi gert kleift að kynna sér matsáætlunina og veita umsögn um hana. Umsagnir bárust frá framangreindum opinberu aðilum og átta einkaaðilum í mars og apríl 2022. Bárust Skipulagsstofnun frekari upplýsingar frá framkvæmdaraðila í apríl s.á.

Í áliti Skipulagsstofnunar um matsáætlun framkvæmdarinnar, dags. 27. maí 2022, kom m.a. fram að í umhverfismatsskýrslu þyrfti að birta sýnileikakort þar sem fram kæmi hvaðan mætti sjá framkvæmdasvæðið. Jafnframt þyrfti að sýna ásýndarmyndir þar sem val á sjónarhornum væri með hliðsjón af umferð ferðafólks og áningarstaða, nálægum íbúðar- og frístundahúsum sem og þekktum útivistarstöðum í nágrenni efnistökusvæðisins. Gera þyrfti grein fyrir því hvað væri lagt til grundvallar mati á gildi svæðisins. Þá þyrfti að gera grein fyrir því hvernig staðið yrði að frágangi svæðisins að vinnslutíma loknum. Meta þyrfti áhrif á jarðmyndanir og vistkerfi sem nytu verndar samkvæmt 61. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd. Einnig þyrfti að meta áhrif aukinnar efnistöku á loftgæði á svæðinu og ónæði fyrir frístundabyggð sem hlytist af aukinni umferð vörubíla. Þá þyrfti að skýra betur hvað fælist í valkosti 2 og meta áhrif beggja kosta á alla umhverfisþætti, gera grein fyrir mögulegum frágangi á svæðinu án þess að til frekari efnistöku kæmi og að núllkostur gerði ráð fyrir frágangi á námusvæðinu.

Hinn 2. ágúst 2022 barst Skipulagsstofnun umhverfismatsskýrsla framkvæmdaraðila og fylgdu henni tveir viðaukar, annars vegar um fugla og gróður í Seyðishólum og hins vegar um jarðfræði- og náttúrufarslegar aðstæður. Í skýrslunni kom fram að hún væri í samræmi við mats­áætlun með þeirri breytingu að vegna athugasemda frá sumarhúsaeigendum væri umhverfisþátturinn loftgæði tekinn með í umhverfismati. Efnistaka færi fram í núverandi námu sem yrði útvíkkuð og dýpkuð. Lagt væri mat á þrjá valkosti. Núll­kost sem fælist í að hætta allri efnistöku nú þegar nema til að ljúka frágangi námunnar. Námuveggir væru mjög brattir og útilokað að gera ummerki efnistökunnar lítt sýnileg og myndi námuopið þá stækka verulega og svæðið breyta um lit og yfirbragð. Vegna lögunar námunnar yrði það heilmikil og flókin fram­kvæmd. Þá mætti búast við aukinni ásókn í aðrar gjallnámur í Seyðishólum eða í grenndinni yrði allri efnistöku hætt. Var og tekið fram að þar sem fyrir lægi „heimild um áframhaldandi efnistöku [væri] þessi kostur ekki skoðaður frekar.“ Valkostur 1 væri aðaltillaga og fælist í 500.000 m3 efnistöku á 15 árum eða um 33.000 m3 á ári. Valkostur 2 væri að halda áfram svipaðri efnistöku og verið hefði eða um 20.000 m3 á ári. Í því myndi felast um 300.000 m3 efnis­taka á 15 árum eða 500.000 m3 á 25 árum, yrðu engin tímamörk sett á þann kost. Gert væri ráð fyrir að frágangur við framkvæmdalok yrði í stíl við frágang vegna valkosts 1 nema námuopið yrði minna um sig. Skoðaðir væru umhverfisþættirnir loftgæði, landslag/sjónræn áhrif, gróður, dýralíf, jarðfræði og jarðmyndanir, umferð og samfélag.

Í umhverfismatsskýrslunni var greint frá því að áhrif áframhaldandi vinnslu gjalls í námunni á jarðmyndanir svæðisins yrðu lítil sem engin umfram það sem orðið væri. Þar sem Seyðishólum hefði þegar verið raskað á óafturkræfan hátt væri talið að 61. gr. laga nr. 60/2013 ætti ekki við. Námuholan myndi stækka aðeins og nýtt yfirborð námuveggjanna koma í ljós sem að öllum líkindum yrði svipað og núverandi veggir. Áhrif á ásýnd Seyðishóla miðað við núverandi ástand væru þó metin frekar neikvæð og óafturkræf. Í stað þess að „flæmast um hólinn með námubarmana“ til að fá náttúrulegan halla væri valið að hafa námuna sem minnst sýnilega og lokafrágang þannig að við hana yrði skilið með bröttum og sýnilegum gjallveggjum sem sýndu gerð efnisins, litadýrð og önnur sérkenni námunnar. Valkostur fram­kvæmdaraðila væri að halda stærð námuops í lágmarki og hafa námuveggi bratta og sýnilega til að sjá mætti þetta áhrifamikla náttúrufyrirbæri innan frá og yrði svæðið gert aðgengilegt fyrir almenning. Ekki væru sjáanleg áhrif af framkvæmdinni á verndarsvæði umhverfis Kerhól nema sjónræn áhrif frá hólnum.

Engin eiginleg vinnsla á efni færi fram í námunni nema efnislosun með vinnuvélum, sigtun á hluta efnis, stundum mölun og síðan mokstur á vörubíla. Þessi vinna væri háð eftirspurn og ekki í gangi alla daga, en með auknu magni myndi vinnslutími lengjast. Sem mótvægi væri búið að taka í notkun nýja vélasamstæðu sem væri afkastameiri og hljóðlátari en eldri vélar og unnt að knýja með rafmagni. Ætlun framkvæmdaraðila væri að fá rafmagnsheimtaug og nota rafmagn sem orkugjafa við vinnsluna sem minnki verulega hávaða. Þá væri gjallið þeirrar gerðar að vinnsla þess væri mun hljóðlátari en vinnsla á venjulegu malarefni. Vandaðar yfir­breiðslur væru á vögnum vörubílanna. Í Seyðishólum væru opnar námurnar E30a og E30b. Námu­op þeirrar námu sem um ræddi, E30b (nú E24), sneri til suðurs og vegna ríkjandi vindáttar væri útilokað að gjallfok úr þeirri námu væri að valda skemmdum á mannvirkjum við „Klausturgötur“ auk þess sem engin sýnileg merki væru um gjallfok í þá átt frá námunni. Þá myndi námuop til austurs nánast ekki breytast við framkvæmdina. Gjallfok í „þessu hverfi“ hlyti því að eiga aðrar or­sakir og ekki væru ætlaðar neinar breytingar frá því sem nú væri. Lögð væri til vöktun með gjallfoki í vondum veðrum á svæði suðvestan við námu. Yrði aukið gjallfok úr námu stað­fest yrðu aðrir möguleikar skoðaðir, svo sem skjólbelti með íslenskum trjám, í samráði við sumar­húsaeigendur og Skógræktina. Áhrifin væru metin óveruleg líkt og áhrif framkvæmdar­innar á umferð. Heildaráhrifin voru metin óveruleg.

Í greinargerð um jarðfræði- og náttúrufars­legar aðstæður sem fylgdi umhverfismatsskýrslunni kom m.a. fram að Seyðishólar væru hluti Grímsnesgosreinar. Grímsnes­gosin hefðu átt sér stað eftir lok ísaldar. Í gosunum hefði tiltölulega mikið magn af kviku þotið hátt í loft upp og tiltölulega mikill hluti þeirrar kviku storknað í loftinu og orðið að gjalli, sem að miklu leyti hafi hlaðist upp í myndarleg gíguppvörp á gosstaðnum. Seyðishólar væru eldvörp og féllu því undir 3. mgr. 61. gr. laga nr. 60/2013. Um þetta atriði er í greinargerðinni ályktað að „Seyðishólum hefur þegar verið raskað á óafturkræfan hátt og þar með fellur þessi klausa í raun um sig sjálfa.“

Framkvæmdin og umhverfismatsskýrslan voru auglýst í Lögbirtingablaðinu og Fréttablaðinu 8. september 2022 og lá skýrslan frammi til kynningar hjá Skipulagsstofnun og á skrifstofu Grímsnes- og Grafningshrepps frá þeim degi til 20. október s.á. Þá var umhverfismatsskýrslan einnig aðgengileg á vef Skipulagsstofnunar. Stofnunin leitaði umsagna Umhverfisstofnunar, Náttúrufræðistofnunar, Grímsnes- og Grafningshrepps og Heilbrigðiseftirlits Suðurlands og bárust umsagnir frá þeim öllum. Í umsögn Umhverfisstofnunar, dags. 27. september 2022, var m.a. bent á að jarðmyndunin nyti sérstakrar verndar 61. gr. laga nr. 60/2013 og væri ekki matsatriði hvort ákvæðið ætti við um Seyðishóla. Þrátt fyrir að svæðinu hefði þegar verið raskað réttlæti það ekki frekara rask. Þá bárust einnig athugasemdir frá almenningi. Hinn 11. nóvember 2022 barst Skipulagsstofnun viðbrögð framkvæmdaraðila við framkomnum um­sögnum.

Álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum vegna efnistökunnar lá fyrir 12. desember 2022. Kom þar m.a. fram að í vettvangsferð stofnunarinnar hefði orðið ljóst að umfang raskaðs svæðis myndi ekki aukast verulega og að frekari efnistaka væri ekki líkleg til að hafa mikil áhrif á ásýnd svæðisins frá því sem nú væri. Í álitinu var vísað til valkosta 1 og 2 og kom fram að í umhverfismatsskýrslu segði að ómögulegt væri að gera ummerki efnistökunnar lítt sýnileg með því að reyna að ná fram náttúrulegum halla því að við þær framkvæmdir myndi námuopið stækka verulega og svæðið breyta um lit og yfirbragð. Væri það valkostur framkvæmdaraðila að halda stærð námuops í lágmarki og hafa námuveggi bratta og sýnilega. Slíkur frágangur byði að mati framkvæmdaraðilans upp á að sjá megi þetta áhrifamikla náttúrufyrirbæri innan frá og svæðið verði áhugavert til skoðunar og myndatöku fyrir almenning, fræðimenn og ljósmyndara. Helstu neikvæðu áhrif fyrirhugaðrar framkvæmdar fælust í staðbundnum sjónrænum áhrifum sem væru að mestu óafturkræf og líta mætti svo á að áhrif á landslag og ásýnd yrðu nokkuð neikvæð. Var og tekið undir með Náttúrufræðistofnun um að þrátt fyrir það mikla rask sem orðið hefði á svæðinu hefði það hátt verndargildi og að fyrirhugaðri efnistöku lokinni ætti að láta staðar numið og varðveita það sem eftir stæði af gígnum. Um væri að ræða áframhaldandi all umfangsmikla efnistöku úr gjallgígum sem bæru mikil ummerki rasks vegna áratuga efnistöku og að þó búið væri að raska svæðinu réttlætti það ekki fyrirhugaða efnistöku í jarðmyndun sem nyti sérstakrar verndar samkvæmt lögum um náttúruvernd og ljóst að áframhaldandi efnistaka myndi hafa í för með sér frekara varanlegt og óafturkræft rask. Voru áhrif á jarðmyndanir talin staðbundið nokkuð neikvæð. Umhverfis­stofnun hefði í umsögn sinni bent á að við frágang yrði að móta jarðmyndunina og milda þannig ásýnd svæðisins en ekki komið með tillögur um hvernig þeim frágangi ætti að vera háttað. Hefði framkvæmdaraðili bent á að frágangur með þeim hætti að gera brúnir og námuvegg meira aflíðandi leiddi til þess að flatarmál raskaðs svæðis yrði umfangsmeira. Þá var ekki talið líklegt að ónæði vegna efnisvinnslunnar eða efnisflutninga yrði verulegt, hvorki varðandi hávaða né rykmengun, þrátt fyrir að fyrir lægi að ferðum vörubíla gæti fjölgað úr 14 ferðum á dag í 20 ferðir að meðaltali. Búið væri að uppfæra vélar og dregið yrði úr hættu á rykmengun með því að leggja bundið slitlag á veginn að námunni. Benti Skipulagsstofnun á að setja þyrfti skýr skilyrði í framkvæmdaleyfi varðandi frágang og tímamörk efnistöku.

Samkvæmt því sem að framan er rakið var málsmeðferð Skipulagsstofnunar vegna mats á umhverfisáhrifum fullnægjandi þar sem fjallað var um og tekin afstaða til þeirra umhverfisþátta sem almennt fylgja námuvinnslu eins og hér um ræðir og leitað var umsagna viðeigandi aðila.

Lokaliður mats á umhverfisáhrifum samkvæmt lögum nr. 111/2021 felst í því að álit Skipulags­stofnunar á umhverfismatskýrslu er lagt til grundvallar við afgreiðslu umsóknar um leyfi til framkvæmda, sbr. e-lið 1. mgr. 17. gr. laganna. Fjallað er um framkvæmdaleyfi í skipulags­lögum en samkvæmt 4. mgr. 13. gr. laganna skal sveitarstjórn við útgáfu framkvæmdaleyfis fjalla um og taka afstöðu til þess hvort framkvæmd sé í samræmi við skipulagsáætlanir. Jafn­framt skal hún ganga úr skugga um að gætt hafi verið ákvæða laga um náttúruvernd og annarra laga og reglugerða sem við eiga.

Samkvæmt gögnum málsins lagði framkvæmdaraðili fram umsókn um framkvæmdaleyfi fyrir sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps, sbr. 3. mgr. 13. gr. skipulagslaga. Var umsóknin einnig undirrituð af eiganda námunnar. Umsókninni fylgdi umhverfismatsskýrsla frá 31. ágúst 2022, álit Skipulags­stofnunar um mat á umhverfisáhrifum frá 12. desember s.á. og uppdráttur er sýndi mörk framkvæmda­svæðis og fyrirhugaða mótun námunnar. Ekki verður séð að umsagnir umsagnaraðila við um­hverfismatsskýrsluna hafi verið lagðar fram eða upplýsingar um starfs­leyfi það sem á þeim tíma var í umsóknarferli, sbr. 2. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi. Umsagnirnar eru birtar á vefsíðu Skipulags­stofnunar og var jafnframt til þeirra vísað í áliti stofnunarinnar og þá var í grenndarkynningu framkvæmdaleyfis­umsóknarinnar vísað til auglýsingar Heilbrigðiseftirlits Suðurlands um að starfsleyfisskilyrði væru til kynningar. Verður því ekki annað ráðið en að nauðsynleg gögn hafi legið fyrir hjá leyfis­veitanda við töku hinnar kærðu ákvörðunar.

Á fundi sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps 15. mars 2023 var fyrrnefnd umsókn um framkvæmdaleyfi lögð fram og málið afgreitt með svofelldri bókun: „Sveitarstjórn samþykkir samhljóða útgáfu framkvæmdaleyfis á grundvelli 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Sveitar­stjórn setur þau skilyrði að útgáfa leyfisins verði grenndarkynnt eigendum aðliggjandi land­eigna og að álit Skipulagsstofnunar og umhverfismatsskýrsla framkvæmda­aðila verði lögð fram til grundvallar við kynningu málsins. Útgáfa leyfisins skal háð skilyrðum umhverfismats­skýrslu framkvæmdarinnar þar sem m.a. er tekið er til vöktunar og mótvægis­aðgerða.“

Með bréfi, dags. 3. apríl 2023, var framkvæmdaleyfið grenndarkynnt, þ. á m. fyrir kærendum máls þessa. Frestur til að koma að athugasemdum var veittur til 1. maí s.á. Allnokkur fjöldi athugasemda barst á kynningartímanum, m.a. frá kærendum. Umsóknin var tekin fyrir að nýju á fundi sveitarstjórnar 29. júní 2023. Auk umsóknarinnar var lagt fram álit Skipulags­stofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar og umhverfismatsskýrsla. Jafnframt var bókað að lagðar væru fram umsagnir og athugasemdir sem borist hefðu við grenndar­kynningu ásamt greinargerð sem tæki til útgáfu leyfisins og skilyrða í tengslum við útgáfu þess. Samþykkti sveitarstjórn að gera ekki athugasemd við útgáfu framkvæmdaleyfisins á grundvelli 13. gr. skipulagslaga, reglugerðar nr. 772/2012 og laga nr. 111/2021. Kom einnig fram að allar helstu forsendur fyrir útgáfu leyfisins kæmu fram í greinargerð þess og að öllum helstu athuga­semdum væri þar svarað með fullnægjandi hætti og í umhverfismati framkvæmdarinnar. Í kjöl­farið gaf skipulagsfulltrúi út leyfið 10. júlí s.á. og er þar bókun sveitarstjórnar tekin upp. Aug­lýsing um útgáfu leyfisins var birt 13. júlí 2023 í Morgunblaðinu, Dagskránni og Lögbirtinga­blaði svo og á heimasíðum Umhverfis- og tæknisviðs Uppsveita bs. og Grímsnes- og Grafningshrepps. Ekki liggur fyrir hvort kærendum eða öðrum þeim sem athugasemdir gerðu við grenndarkynningu hafi verið kynnt niðurstaðan sérstaklega í samræmi við 2. málsl. 2. mgr. 44. gr. skipulagslaga eða að Skipulagsstofnun hafi verið tilkynnt um útgáfu þess, sbr. 4. mgr. 27. gr. laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Það getur þó ekki haft áhrif á gildi hinnar kærðu ákvörðunar hafi það ekki verið gert.

Grenndarkynnt var fyrir lóðarhöfum í grennd hinnar umdeildu námu en kynningin náði ekki til eigenda Klausturhóla 3 og 8. Hefur einn eigenda Klausturhóla 8 lýst yfir stuðningi við mála­tilbúnað kærenda fyrir úrskurðarnefndinni. Fyrir liggur að umræddar lóðir, þ.e. Klausturhólar 3 og 8 eru í um 600 – 700 m fjarlægð frá námusvæðinu og er afstaða þeirra gagnvart svæðinu slík að ekki er unnt að telja grenndarhagsmuni þeirra skerðast í minna mæli en sumra annarra þeirra sem þó var grenndarkynnt fyrir og hefði því verið rétt að grenndarkynningin næði einnig til þeirra. Verður að telja það annmarka á grenndarkynningu málsins að það hafi ekki verið gert.

Líkt og fram hefur komið var í umhverfismatsferlinu vísað til 61. gr. laga nr. 60/2013. Í 3. mgr. ákvæðisins er kveðið á um að forðast beri að raska þeim vistkerfum og jarðminjum sem talin eru upp í 1. og 2. mgr. þess nema brýna nauðsyn beri til. Í athugasemdum í frumvarpi því er varð að lögunum var vísun í „brýn[a] nauðsyn“ samsvarandi ákvæðis skýrð með þeim hætti að lögð væri áhersla á að einungis mjög ríkir hagsmunir gætu réttlætt röskun og þá fyrst og fremst brýnir almannahagsmunir. Þrátt fyrir þær breytingar sem urðu á frumvarpinu í meðförum þingsins og á lögunum með lögum nr. 109/2015 er framangreind tilvísun um brýna nauðsyn óbreytt. Þá er í málsgreininni einnig kveðið á um að skylt sé að afla framkvæmdaleyfis eða eftir atvikum byggingarleyfis, sbr. skipulagslög og lög um mannvirki, vegna framkvæmda sem hafa í för með sér slíka röskun. Kemur og einnig fram að áður en leyfi sé veitt skuli leyfis­veitandi leita umsagnar Umhverfisstofnunar og viðkomandi náttúruverndarnefndar nema fyrir liggi staðfest aðalskipulag og samþykkt deiliskipulag þar sem umsagnir skv. 1. og 2. mgr. 68. gr. laga nr. 60/2013 liggja fyrir. Er það því á herðum leyfisveitanda að meta hvort brýna nauðsyn beri til að raska þeim vistkerfum og jarðminjum sem verndar njóta skv. 1. og 2. mgr. 61. gr. laganna. Ein af þeim jarðmyndunum sem finna má í upptalningu a. liðar 2. mgr. eru eldvörp en líkt og fram hefur komið teljast Seyðishólar til slíkra jarðmyndana og ekki liggur fyrir að röskuð svæði séu undanskilin þeirri vernd sem ákvæðið veitir. Samkvæmt 4. mgr. 61. gr. skal hins vegar líta til verndarmarkmiða 2. og 3. gr. laganna og jafnframt huga að mikilvægi minjanna og sérstöðu í íslensku og alþjóðlegu samhengi við mat á leyfisumsókn.

Í 2. mgr. 14. gr. skipulagslaga og 27. gr. laga nr. 111/2021 er fjallað nánar um hvernig líta skuli til álits Skipulagsstofnunar við leyfisveitingu vegna matsskyldrar framkvæmdar. Ber leyfisveitanda að leggja álitið til grundvallar við ákvörðun um útgáfu leyfis og taka saman greinargerð um afgreiðslu þess. Þannig segir í 2. mgr. 14. gr. skipulagslaga að slíkt skuli gert í samræmi við ákvæði laga um mat á umhverfisáhrifum en í 3. mgr. 27. gr. laga nr. 111/2021 er kveðið á um að í slíkri greinargerð skuli afgreiðsla leyfis rökstudd þar sem gerð sé grein fyrir samræmi við niðurstöðu álits Skipulagsstofnunar um umhverfismat framkvæmdarinnar. Einnig kemur fram að hafi Skipulagsstofnun sett skilyrði um mótvægis­aðgerðir eða vöktun skuli það koma fram í leyfinu.

Hin kærða ákvörðun var tekin af sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps á fundi hennar 29. júní 2023 og var þar m.a. bókað: „Að mati sveitarstjórnar koma allar helstu forsendur fyrir útgáfu leyfisins fram innan framlagðrar greinargerðar framkvæmdaleyfisins og öllum helstu athugasemdum er svarað með fullnægjandi hætti innan greinargerðar og umhverfismats framkvæmdarinnar.“ Í inngangi tilvitnaðrar greinargerðar framkvæmdaleyfisins, dags. 22. júní 2023, kemur fram að hún sé unnin í samræmi við 10. og 12. gr. reglugerðar um framkvæmda­leyfi og 3. mgr. 27. gr. laga nr. 111/2021. Í greinargerðinni er fram­kvæmdinni lýst og m.a. greint frá því að hún sé í samræmi við aðalskipulag og að ekki sé í gildi deiliskipulag fyrir svæðið. Þá eru skilyrði fyrir útgáfu leyfisins tilgreind, greint frá umhverfismati framkvæmdar­innar og tekið fram að í umhverfismatsskýrslu hafi verið lagt mat á áhrif framkvæmdarinnar á loft­gæði, landslag/sjónræn áhrif, gróður, dýralíf, jarðfræði og jarðmyndanir, vatnafar, fornminjar, umferð, samfélag og verndarsvæði í grenndinni. Áhrif á gróður, dýralíf, vatnafar og fornminjar væru metin óveruleg eða engin. Þá kom fram að áhrif fram­kvæmdarinnar á loftgæði og ónæði teldust óveruleg að teknu tilliti til mótvægisaðgerða, áhrif á jarðmyndanir og landslag/sjónræn áhrif teldust ekki veruleg að teknu tilliti til flatarmáls­stækkunar námunnar og þess að svæðið væri nú þegar raskað.

Af hinni kærðu ákvörðun eða greinargerð um framkvæmdaleyfið verður ekki ráðið að við ákvörðunar­tökuna hafi verið tekin afstaða til þess af hálfu sveitarstjórnar hvort umsóttar fram­kvæmdir féllu undir gildisvið 61. gr. laga um náttúruvernd þrátt fyrir álit Skipulagsstofnunar í umhverfis­mati hennar og fyrirliggjandi umsögn Umhverfisstofnunar um það álitamál. Þar af leiðandi er í ákvörðuninni ekki fjallað um hvort brýna nauðsyn beri til framkvæmdanna í sam­ræmi við greint lagaákvæði ef við ætti. Eins og áður hefur verið rakið er það hlutverk leyfis­veitanda að taka afstöðu til þessa. Þá verður gerð athugasemd við að í framkvæmdaleyfi sé ekki skýr­lega mælt fyrir um gildistíma leyfisins, sbr. 7. tölulið 12. gr. reglugerðar um framkvæmdaleyfi.

Með vísan til framangreinds eru þeir ágallar á málsmeðferð og rökstuðningi hinnar kærðu ákvörðunar að fella verður hana úr gildi.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 29. júní 2023 um að samþykkja útgáfu framkvæmdaleyfis fyrir efnistöku úr námu E24 í Seyðishólum.

128/2023 Hörgá E-9 leyfi Fiskistofu

Með

Árið 2023, fimmtudaginn 21. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mættir voru Arnór Snæbjörnsson formaður og Geir Oddsson auðlindafræðingur. Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor tók þátt í gegnum fjarfundabúnað.

Fyrir var tekið mál nr. 128/2023, kæra á ákvörðun Fiskistofu frá 12. september 2022 um að veita leyfi til efnistöku á svæði E-9 í Hörgá í Hörgársveit.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 7. nóvember 2023, er barst nefndinni sama dag, kærir Náttúrugrið, þá ákvörðun Fiskistofu frá 12. september 2022 að veita leyfi til efnistöku á svæði E-9 í Hörgá í Hörgársveit. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Jafnframt var gerð krafa um frestun réttaráhrifa. Þykir málið nægjanlega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Fiskistofu 21. og 29. nóvember 2023.

Málavextir: Hinn 9. febrúar 2022 sótti framkvæmdaraðili, G.V. Gröfur, um leyfi Fiskistofu fyrir 200.000 m3 efnistöku á tveimur afmörkuðum neðri hlutum efnistökusvæðis E-9 í Hörgá. Í umsókninni kom fram að efnistökusvæðið væri samtals tæpir 2 km á lengd og að jafnaði 100 m á breidd. Meðaldýpt efnistöku yrði um 1,0 m. Við meðferð málsins aflaði Fiskistofa umsagnar Hafrannsóknastofnunar og bauð framkvæmdaraðila að koma sjónarmiðum sínum á framfæri vegna hennar. Leitaði Fiskistofa einnig álits Skipulagsstofnunar um hvort áform framkvæmdaraðila færu í bága við umhverfismat vegna efnistöku úr Hörgá frá árinu 2015. Hinn 12. september 2022 veitti Fiskistofa framkvæmdaraðila leyfi til allt að 100.000 m3 efnistöku úr Hörgá á nánar tilgreindum svæðum innan efnistökusvæðis E-9.

 Málsrök kæranda: Kærandi vísar til sömu röksemda og komu fram af hans hálfu í máli úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála nr. 61/2023 og niðurstöðu nefndarinnar í því máli, þar sem fellt var úr gildi leyfi til efnistöku í Hörgá. Um kærufrest bendir kærandi á að hið kærða leyfi hafi ekki legið frammi í málum úrskurðarnefndarinnar nr. 53/2023 og 61/2023 og um það hafi ekki verið fjallað í þeim málum. Fiskistofa hafi ekki auglýst leyfið og það hafi hvergi verið birt. Nánari rök voru færð fyrir kæru í viðbótarathugasemdum kæranda sem eru raktar hér á eftir.

Málsrök Fiskistofu: Af hálfu Fiskistofu er vísað til þess að ákvörðun um veitingu hins kærða leyfis hafi byggst á þeim gögnum sem fylgt hafi umsókn um leyfið, þeim breytingum sem gerðar hafi verið á umsókninni og skýrslu um mat á umhverfisáhrifum. Með umsókninni hafi fylgt upplýsingar um framkvæmdina og yfirlitsmynd af fyrirhuguðu framkvæmdasvæði, umsögn stjórnar Veiðifélags Hörgár og samþykki landeigenda. Einnig hafi legið fyrir umsagnir sérfræðinga í veiðimálum um hugsanleg áhrif framkvæmdarinnar á lífríki veiðivatnsins skv. 2. mgr. 33. gr. laga nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði. Þá hafi Fiskistofa tekið mið af fyrirliggjandi leyfum við meðferð málsins vegna efnistöku í og við Hörgá. Aflað hafi verið umsagnar Hafrannsóknastofnunar og hafi umsækjanda verið boðið að koma sjónarmiðum sínum á framfæri vegna hennar. Auk þess sem Fiskistofa hafi leitað álits Skipulagsstofnunar sem hafi talið efnistökuna ekki fara í bága við mat á umhverfisáhrifum þegar tekið væri tillit til heildarmagns af efni sem mat á umhverfisáhrifum hafi tekið til.

Hin kærða ákvörðun hafi ekki verið birt opinberlega og ekki hafi verið fjallað um kærufrest í henni. Skipulagsstofnun hafi ekki verið tilkynnt formlega um útgáfu leyfisins.

Málsatvik og málsmeðferð hafi ekki verið að öllu leyti sambærileg í máli þessu og í máli úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála nr. 61/2023 þar sem ákvörðun Fiskistofu vegna annars leyfis hafi verið felld úr gildi. Með hliðsjón af þeim úrskurði megi gera ráð fyrir að hið kærða leyfi teljist leyfi til framkvæmda samkvæmt lögum nr. 106/2000, sbr. 1. ákvæði til bráðabirgða. Af því leiði að Fiskistofu hafi verið skylt við undirbúning leyfisins að byggja á 2. og 3. mgr. 13. gr. þeirra laga um að við útgáfu slíks leyfis skuli leyfisveitandi kynna sér matsskýrslu framkvæmdaraðila um framkvæmdina og taka rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum hennar. Þessari skyldu hafi verið mætt með því að aflað hafi verið álits Skipulagsstofnunar sem hafi ekki talið efnistökuna fara í bága við mat á umhverfisáhrifum þegar tekið væri tillit til heildarmagns af efni sem mat á umhverfisáhrifum hafi tekið til.

Að teknu tilliti til áðurnefnds úrskurðar megi jafnframt gera ráð fyrir að við undirbúning og veitingu hins kærða leyfis hafi Fiskistofa átt að taka afstöðu til framkvæmdanna á grundvelli laga nr. 36/2011 um stjórn vatnamála. Samkvæmt þeim sé skylt að vernda yfirborðsvatnshlot og tryggja að ástand þeirra versni ekki. Stefnumörkum um vatnsvernd í vatnaáætlun hafi verið staðfest af ráðherra 6. apríl 2022. Í hinni kærðu ákvörðun sé ekki tekin afstaða til framkvæmdanna m.t.t. vatnsverndar samkvæmt framangreindu. Einnig sé ljóst að það hefði samrýmst vönduðum stjórnsýsluháttum að fá leiðbeiningar frá Umhverfisstofnun um framangreind, enda sé um að ræða framkvæmd sem háð sé leyfi fleiri en eins stjórnvalds og líkur á að starfssvið þeirra skarist hvað þetta varði.

Sérhvert brot á málsmeðferðarreglu leiði ekki sjálfkrafa til þess ákvörðun teljist ógildanleg. Í því samhengi skuli benda á að leyfi til framkvæmdar við ár og vötn kunni að hafa áhrif á fiskigengd, afkomu fiskistofna, aðstæður til veiði eða lífríkis vatns að öðru leyti. Fiskistofu sé m.a. ætlað að leggja mat á áhrif framkvæmda og mótvægisaðgerða á fiskistofna við veitingu leyfis skv. 33. gr. laga nr. 61/2006. Í hinni kærðu ákvörðun séu m.a. sett skilyrði um að efnistakan fari fram utan veiðitíma árinnar, mælt sé fyrir um mótvægisaðgerðir og að efnistakan verði unnin í samráði við fiskifræðing til þess að meta áhrif framkvæmdarinnar á fiskstofna árinnar auk seiðamælinga. Einnig sé bent á álit Skipulagsstofnunar sem aflað hafi verið við meðferð málsins. Framangreindur annmarki um að ekki hafi verið tekin afstaða til framkvæmdanna m.t.t. vatnsverndar skv. lögum nr. 36/2011 hafi ekki áhrif á efni ákvörðunarinnar og því beri að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi bendir á að í umsögn sjávarútvegs- og auðlindafræðings, dags. 18. febrúar 2022, komi fram að tímasetningar framkvæmda sé mikilvægur þáttur og líkt og við eigi um sumarmánuðina séu september til nóvember mjög óheppilegur tími til framkvæmda í og við hrygningarslóðir. Þá fari hrygning fram og mikilvægt sé að þá sé sem minnst rask. Í umsögninni sé mælst til þess að eina raskið sem verði mögulega heimilað fari fram á tímabilinu frá 1. janúar til 15. maí, þ.e. að framkvæmdir við malartekju fari einungis fram á þeim tíma. Þá sé mælt eindregið með því að komið verði á kerfisbundnum seiðamælingum og stuðst við loftmyndir og gögn úr veiðibókum. Einnig sé vísað til fiskirannsókna Veiðimálastofnunar frá 2008, en þá hafi þéttleiki vorgamalla seiða mælst mikill og sá mesti á vatnasvæðinu öllu í rafveiðistöð staðsettri ofan efnistökusvæðis 9. Í hinni kærðu ákvörðun hafi Fiskistofa ekki tekið neina afstöðu til þessara atriða. Þá séu umsagnir tveggja fiskifræðinga frá mars 2022, sem lagðar hafi verið fram af hálfu framkvæmdaraðila, einhliða skoðanir viðkomandi og hafi ekki neitt gildi í máli sem þessu, auk þess sem þær séu ekki studdar vísindalegum gögnum eða tilvísunum.

Í umsögn Hafrannsóknastofnunar, dags. 4. apríl 2022, komi berlega fram það álit að ekki eigi að heimila efnistöku vegna þess að fyrir henni vanti öll vísindaleg rök. Það hafi einnig verið skilyrði sjálfs umhverfismatsins að efnistöku yrði ekki haldið áfram yfir 20 ára tímabil án þess að áhrifin yrðu metin. Umsögn Hafrannsóknastofnunar sé rökstutt með vísan til rannsókna, m.a. á búsvæðum seiða, stofnstærð út frá veiðitölum, vatnarannsóknum o.fl. Álit stofnunarinnar sé skýrt um að óábyrgt sé að halda áfram efnistöku í Hörgá án frekari rannsókna og nægi það til þess að komast að þeirri niðurstöðu að óheimilt hafi verið að veita leyfi fyrir framkvæmdinni vegna bindandi umhverfismarkmiða laga nr. 36/2011.

Meðal gagna sem vísað sé til í hinni kærðu ákvörðun sé umsögn stjórnar Veiðifélags Hörgár. Hún sé hvorki undirrituð né beri með sér að stafa frá lögmætri ákvörðun stjórnar veiðifélagsins eða að félagsmenn þess hafi komið að ákvörðuninni. Því sé umsögnin þýðingarlaus og fráleitt að byggja ákvörðun á slíku skjali.

Engin yfirsýn yfir það heildarmagn efnis sem tekið hafi verið af öllu svæði E-9, eða hluta þess, virðist hafa legið til grundvallar hinu kærða leyfi.

———-

Leyfishafa var gefinn kostur á að koma á framfæri sjónarmiðum sínum í málinu en hann hefur ekki tjáð sig um málatilbúnað kæranda.

Niðurstaða: Í máli þessu er kærð ákvörðun Fiskistofu frá 12. september 2022 skv. 33. gr. laga nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði sem verður borin undir úrskurðarnefndina með heimild í 1. mgr. 36. gr. þeirra laga. Í 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kveðið á um að kærufrestur til nefndarinnar sé almennt einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina eða ætlað brot á þátttökurétti almennings. Sé um að ræða ákvarðanir sem sæta opinberri birtingu telst kærufrestur hins vegar frá birtingu ákvörðunar.

Það er skilyrði kæruaðildar að málum fyrir úrskurðarnefndinni að kærandi eigi lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun. Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 teljast  umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtökum eiga lögvarinna hagsmuna að gæta fyrir nefndinni að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Meðal ákvarðana sem slíkum samtökum er heimilt að bera undir nefndina eru ákvarðanir um leyfi vegna framkvæmda samkvæmt lögum nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana, sbr. b. lið 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011.

Lög nr. 111/2021 tóku gildi 1. september 2021, en í 1. ákvæði til bráðabirgða við lögin segir að í þeim tilvikum þegar umhverfismatsferli framkvæmdar sem fellur undir þau lög er lokið við gildistöku laganna skuli ákvæði eldri laga um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000, er lúta að leyfisveitingum vegna framkvæmdarinnar gilda. Ferli umhverfismats vegna heildstæðs mats á efnistöku á að 795.000 m3 úr áreyrum og árfarvegi Hörgár, lauk með áliti Skipulagsstofnunar dags. 4. júní 2015. Verður því að líta til ákvæða laga nr. 106/2000 hvað varðar leyfisveitinguna.

Í þágildandi c-lið 3. gr. laga nr. 106/2000 var hugtakið framkvæmd afmarkað þannig að það næði til hvers konar nýframkvæmdar eða breytingar á eldri framkvæmd og starfsemi sem henni fylgi, sem undir lögin falli. Samkvæmt f-lið greinarinnar töldust leyfi til framkvæmda vera framkvæmdaleyfi og byggingarleyfi samkvæmt skipulagslögum og lögum um mannvirki og önnur leyfi til starfsemi og framkvæmda samkvæmt sérlögum sem um viðkomandi framkvæmd gilda. Í 2. og 3. mgr. 13. gr. laganna var mælt fyrir um undirbúning að útgáfu leyfis á grundvelli matsskýrslu framkvæmdaraðila og álits Skipulagsstofnunar um framkvæmdina. Í 4. mgr. lagagreinarinnar var síðan mælt fyrir um skyldu leyfisveitanda til að birta opinberlega með auglýsingu ákvörðun sína um útgáfu leyfis innan tveggja vikna frá afgreiðslu þess, þar sem tilgreint væri hvar greinargerð um afgreiðslu leyfis væri aðgengileg og tilkynnt væri um kæruheimild og kærufrest þegar það ætti við.

Í áliti Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum allt að 795.000 m3 efnistöku úr áreyrum og árfarvegi Hörgár í Hörgársveit var fjallað um framkvæmdir samkvæmt hinu kærða leyfi. Þótt leyfið takið aðeins til hluta þeirrar framkvæmdar verður að leggja til grundvallar að leyfisveitanda sé skylt hverju sinni að horfa jafnframt til annarra framkvæmda, sem þegar hafa átt sér stað og eru fyrirhugaðar, svo framarlega sem þær tengist með augljósum hætti. Verður því litið á leyfið sem leyfi til framkvæmda í skilningi laga nr. 106/2000, sbr. gr. 2.01 í 1. viðauka við lögin.

Kærandi nýtur aðildar að máli þessu skv. b. lið 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011, en af gögnum sem nefndin hefur aflað og kynnt sér uppfyllir hann skilyrði þeirrar greinar sem umhverfisverndar- eða útivistar- og hagsmunasamtök. Fyrir liggur að hin kærða ákvörðun var ekki birt opinberlega og var í henni hvorki fjallað um kæruheimild né kærufrest. Af gögnum málsins verður lagt til grundvallar að kæranda varð eða mátti fyrst vera kunnugt um útgáfu hins kærða leyfis í nóvember 2023, en gagnvart kæranda verður lagt til grundvallar að kærufrestur hafi þá byrjað að líða. Verður kæra í máli þessu því tekin til efnismeðferðar.

Í mati á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar frá 2015 segir að tilgangur framkvæmdarinnar sé að sporna við landbroti af völdum Hörgár með rennslisstýringu árinnar með það að markmiði að verja landbúnaðarland og mannvirki. Grjótvarnir hafi gefið nokkuð góða raun en þær séu mjög kostnaðarsamar. Verði efni ekki fjarlægt úr farvegum megi gera ráð fyrir að þörfin fyrir grjótvarnir muni aukast mikið. Þá geti varnargarðar gert gagn við að beina ánni frá árbökkum, en séu þeir ekki grjótvarðir megi gera ráð fyrir að þeir skolist burt í stórum flóðum. Efnistöku er lýst í matinu og kemur fram að fyrst verði efnistökusvæði afmarkað og sett upp tímabundin höft eða stíflur úr malarefni. Þá verði efni mokað upp úr farvegi eða áreyrum og flutt á haugsetningarsvæði í nægjanlega mikilli fjarlægð frá ánni þannig að ekki verði hætta á að áin sópi haugnum með sér í næsta flóði. Efni verði svo keyrt frá haugsetningarsvæði eftir því sem þörf og aðstæður á markaði kalli á. Þegar sótt hafi verið um framkvæmdaleyfi sé gert ráð fyrir að leita ráðgjafar um ákjósanlegustu aðferðir og afmörkun á hverju einstaka framkvæmdasvæði. Kemur einnig fram að árlega sé áætlað að meta stöðu verkefnisins með tilliti til rennslis árinnar og landbrots og vinna áætlanir um efnistöku næsta tímabils. Fyrirhuguð framkvæmd feli í aðalatriðum í sér efnistöku á efnistökusvæðum á tímabilinu 1. október til 30. apríl ár hvert, flutning efnis frá efnistökusvæði á geymslusvæði og flutning efnis frá geymslusvæði á notkunarstað.

Fram kemur í matsskýrslu að árið 2013 hafi sameignarfélagið Hörgá sf. verið stofnað. Í samþykktum þess hafi verið tekið fram að félagsmenn væru landeigendur að ánni eða fulltrúar þeirra. Félaginu hafi verið ætlað að láta vinna umhverfismat fyrir efnistökuna fyrir hönd landeigenda við Hörgá og þveráa hennar. Skyldi félagið vera framkvæmdaraðili að allri efnistökunni. Ekki væru þó allir landeigendur að Hörgá í félaginu, en það hefði ekki áhrif á efnistöku. Þar sem félagið liti á ána alla og þverár sem eina heild og skipuleggi efnistöku með hagsmuni alls svæðisins að leiðarljósi, væri í umhverfismatinu fjallað um þau efnistökusvæði sem þættu hentug vegna aðstæðna, efnismagns eða efniseiginleika ásamt efnistökusvæðum sem þyki brýnt að taka efni úr til að draga úr landbroti. Í matsskýrslunni var fjallað um efnistökusvæði sem afmörkuð voru í drögum sem þá lágu fyrir að Aðalskipulagi Hörgársveitar 2012–2024 sem: E-2, E-4, E-6, E-7, E-8, E-9, E-10 og E-11.

Í áliti Skipulagsstofnunar um framkvæmdina dags. 4. júlí 2015 var fjallað um tilgang hennar og kom fram að ekki yrði sótt um leyfi fyrir öllum efnistökusvæðunum á sama tíma og væri áætlað að meta stöðu verkefnisins árlega með tilliti til rennslis árinnar og landbrots og vinna áætlanir um efnistöku næsta tímabils. Áætlað væri að hefja skipulagða efnistöku á þeim svæðum í ánni þar sem mest þörf væri á að skapa pláss fyrir flóðvatn í farveginum með það að markmiði að draga úr bakkarofi og þar með þörf fyrir annars konar og mjög kostnaðarsamar bakkavarnir, s.s. grjótvörn. Fjallað var stuttlega um hvert efnistökusvæði um sig í álitinu, m.a. það efnistökusvæði sem veitt var leyfi til að nýta með hinu kærða leyfi.

Rakið var í álitinu að efnistaka gæti haft áhrif á eðli og þróun vatnsfalla. Efnistaka í og við ár sé vandasöm og geti haft áhrif á lífríki í vatni. Botngerð ánna geti breyst og búsvæði laxfiska geti þannig raskast og haft neikvæð áhrif á veiði. Að mati sérfræðinga Veiðimálastofnunar sé óraunhæft að meta áhrif verkefnisins á veiði og lífríki á þessu stigi og almennt geti stofnunin ekki mælt með slíkum verkefnum í ám. Hins vegar væri eðlilegt að stofnunin veitti ráðgjöf með heppilegustu útfærslu efnistöku á hverju framkvæmdasvæði fyrir sig, ef efnistaka á viðkomandi framkvæmdasvæði þætti nauðsynleg og framkvæmdaleyfi hefði verið veitt. Áhrif á veiði væru metin óviss en staðbundin og afturkræf. Áhrif framkvæmdanna á veiði yltu alfarið á því hvernig lífríki ánna reiddi af. Ef tækist að koma í veg fyrir að bú- og hrygningarsvæði ánna spilltust þá yrðu áhrif óveruleg en hætta væri á að inngrip í náttúrulegt ferli árinnar hefði neikvæð áhrif en um það væri nokkur óvissa. Í niðurstöðukafla álitsins var gerð bending um að til að lífríki árinnar yrði fyrir sem minnstum skaða væri nauðsynlegt að ráðfæra sig við fiskifræðinga um tilhögun og áfangaskiptingu á hverju efnistökusvæði.

Í álitinu var lögð áhersla á mikilvægi þess að efnistaka yrði unnin skipulega og yfir lengra tímabil, en fram kom að efnistakan mundi vara í 20 ár. Var í því sambandi talið jákvætt að landeigendur að efnistökusvæðinu hefðu sameinast um efnistökuna, sem ætti að bæta skipulag hennar og lágmarka neikvæð umhverfisáhrif. Meðal mótvægisaðgerða sem ráðgert var að fjallað yrði um við útgáfu hvers framkvæmdaleyfis væru hvernig staðið yrði að efnistökunni með því að ekki yrðu grafnar djúpar gryfjur, aðallega yrði fjarlægt efni ofan af áreyrum og árkeilum og að efnistakan færi fram á fáum afmörkuðum svæðum í einu og væru því staðbundin að hluta. Þá kom fram að ekki yrði unnið að efnistöku á tímabilinu 1. maí til 30. september. Í niðurstöðum álitsins var gerð ábending um að nauðsynlegt væri að í aðalskipulagi Hörgársveitar yrði tekið á efnistöku í Hörgá með heildstæðum hætti og það notað til að leggja línurnar um skipulag efnistöku í og við ána.

Hið kærða leyfi, dags. 12. september 2022, er gefið út á grundvelli 33. gr. laga nr. 61/2006. Í þeirri lagagrein er kveðið á um það að sérhver framkvæmd í eða við veiðivatn, allt að 100 metrum frá bakka, sem áhrif geti haft á fiskigengd þess, afkomu fiskistofna, aðstæður til veiði eða lífríki vatnsins að öðru leyti, sé háð leyfi Fiskistofu. Mælt er fyrir um hvaða gögn skuli fylgja umsókn um slíkt leyfi og er þar m.a. nefnt álit veiðifélags og umsögn sérfræðings á sviði veiðimála um hugsanleg áhrif framkvæmdar á lífríki veiðivatns. Gert er ráð fyrir því að Fiskistofa geti krafist þess að framkvæmdaraðili láti auk þess gera líffræðilega úttekt á veiðivatni. Í skýringum með greininni segir að reglur hennar feli í sér almenna skyldu til að standa þannig að framkvæmd við veiðivatn að ávallt liggi fyrir hver áhrif framkvæmdin kunni að hafa á þá þætti sem ráða afkomu fiskstofna vatnsins. Niðurstaða hinnar líffræðilegu úttektar, sem unnt sé að krefjast, geti leitt til þess að ekki verði fallist á framkvæmdina, þótt sá er hennar óski hafi aflað sér jákvæðra álita annarra umsagnaraðila.

Svo sem áður greinir óskaði framkvæmdaraðili eftir heimild til 200.000 m3 efnistöku á svæði E-9 í Hörgá með umsókn dags. 9. febrúar 2022. Með bréfi, dags. 3. mars 2022, upplýsti Fiskistofa að ekki væru forsendur fyrir því að veita heimild til þeirrar efnistöku að teknu tilliti til umsagnar sérfræðings veiðimála, stöðu bleikjustofna á vatnasvæði Hörgár, fyrirliggjandi umhverfismats og fyrirliggjandi leyfa vegna efnistöku í og við Hörgá. Veitti stofnunin framkvæmdaraðila færi á að koma að andmælum sínum eða öðrum sjónarmiðum sem hann og gerði með bréfi, dags. 21. mars 2022. Með bréfinu breytti hann einnig umsókn sinni á þann veg að aðallega væri sótt um 50.000 m3 efnistöku á hverju ári á árunum 2022, 2023, 2024 og 2025, eða samtals 200.000 m3, en til vara væri sótt um 50.000 m3 efnistöku á hvoru ári á árunum 2022 og 2023, eða samtals 100.000 m3. Með bréfinu fylgdu umsagnir sérfræðinga um áhrif efnistökunnar á fiskistofna í Hörgá þar sem álitið var að áformuð efnistaka væri ekki líkleg til að hafa veruleg áhrif á bleikjustofninn í Hörgá og að hægt væri að standa þannig að henni að áhrifin verði ásættanleg.

Við meðferð hinnar breyttu umsóknar óskaði Fiskistofa umsagnar Hafrannsóknastofnunar. Í umsögn hennar, dags. 4. apríl 2022, var fjallað nánar um ráðgerða efnistöku á grundvelli fyrirliggjandi þekkingar á búsvæðum bleikjuseiða og væntum áhrifum efnistökunnar. Þar var m.a. rakið að bleikjuveiði hefði minnkað verulega í ánni á síðustu árum, sem benti til minni fiskgengdar. Skráð veiði í Hörgá árið 2021 hafi verið innan við tíundi hluti þess sem hún hafi verið árið 1990. Þessi mikla og stöðuga minnkun í bleikjuveiði væri umhugsunarverð. Í ljósi þessa væri ástæða, að áliti stofnunarinnar, til að skoða sérstaklega hvort að takmarka þyrfti veiði og annað mannlegt rask eins og efnistöku umfram það sem nú væri gert. Þegar hrygningastofnar væru í lágmarki, eins og virtist vera með bleikjustofninn í Hörgá, væri viðnámsþol þeirra gagnvart inngripum mun minna en ella og því þyrfti að skoða öll mannleg inngrip með meiri varúð í huga til að koma í veg fyrir að áhrifin verði til lengri tíma. Var niðurstaða stofnunarinnar, á grundvelli ítarlegs rökstuðnings, sú að óábyrgt væri að halda áfram efnistöku í Hörgá án frekari rannsókna á áhrifum hennar á lífríki og þar með talið bleikjustofna.

Þá leitaði Fiskistofa einnig álits Skipulagsstofnunar um það hvort fyrirhuguð efnistaka rúmaðist innan ramma fyrirliggjandi umhverfismats. Í svari stofnunarinnar kom fram það eitt að með tilliti til heildarmagns efnis sem umhverfismatið tæki til færu áform um efnistöku ekki í bága við matið.

Þar sem hið kærða leyfi telst til leyfis til framkvæmda samkvæmt lögum nr. 106/2000 var Fiskistofu skylt við undirbúning leyfisins að byggja á 2. og 3. mgr. 13. gr. þeirra laga þar sem kveðið var á um að við útgáfu slíks leyfis skyldi leyfisveitandi kynna sér matsskýrslu framkvæmdaraðila um framkvæmdina og taka rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum hennar. Í fyrrgreindu svari Skipulagsstofnunar til Fiskistofu kemur einungis fram að það magn efnis sem sótt hefði verið um að taka væri innan heimilda umhverfismatsins, en að öðru leyti var engin efnisleg umfjöllun um álit Skipulagsstofnunar né matsskýrslu framkvæmdarinnar við afgreiðslu Fiskistofu á hinu kærða leyfi. Ríkt tilefni var til nánari umfjöllunar um álit Skipulagsstofnunar af hálfu Fiskistofu þar sem í álitinu var fjallað um æskilegt skipulag efnistökunnar og líkleg áhrif hennar á veiði en leitt var að því líkum að tækist að koma í veg fyrir að bú- og hrygningarsvæði ánna spilltust þá yrðu áhrif óveruleg, en hætta væri á að inngrip í náttúrulegt ferli árinnar hefði neikvæð áhrif. Þá var einnig gerð bending um að til að lífríki árinnar yrði fyrir sem minnstum skaða væri nauðsynlegt að ráðfæra sig við fiskifræðinga um tilhögun og áfangaskiptingu á hverju efnistökusvæði.

Í 33. gr. laga nr. 61/2006 er gert ráð fyrir sjálfstæðri gagnaöflun eða rannsókn Fiskistofu og vegnu mati á grundvelli þess. Í lögum er ekki gert ráð fyrir því að matsskýrsla framkvæmdar komi í stað slíkrar rannsóknar, sé henni til að dreifa, en eðlilegt er að í matsskýrslu sé fjallað um áhrif framkvæmda á sömu umhverfisþætti og þá sem Fiskistofa fjallar um við beitingu téðrar lagaheimildar.

Með hinu kærða leyfi féllst Fiskistofa á að framkvæmdaraðili tæki 50.000 m3 af efni árin 2022 og 2023, eða samtals 100.000 m3, af nánar tilgreindum svæðum innan efnistökusvæðis E-9 í Hörgá með eftirfarandi rökstuðningi: „Að teknu tilliti til umsagnar Hafrannsóknastofnunar, mats á umhverfisáhrifum og með vísan til 33. greinar laga nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði fellst Fiskistofa á að G.V. Gröfur ehf. taki 50.000 m3 af efni árin 2022 og 2023, eða samtals 100.000 m3, af svæðum sem tilgreind eru í umsókn“. Fram kom að efnistakan skyldi fara fram utan veiðitíma árinnar og unnin í samráði við fiskifræðing til að meta áhrif framkvæmdarinnar á fiskstofna árinnar. Þá skyldi fylgja tillögum um mótvægisaðgerðir sem sérfræðingur legði til í umsögn sinni. Seiðamælingar yrðu gerðar á völdum stöðum áður en framkvæmdin hæfist og að henni lokinni. Mælingar yrðu gerðar fyrir ofan, fyrir neðan og á framkvæmdasvæðunum. Fór Fiskistofa fram á að gerð yrði grein fyrir helstu niðurstöðum seiðarannsókna og niðurstöður yrðu síðan teknar saman í skýrslu að lokinni efnistökunni og hún send stofnuninni ekki síðar en 31. mars 2024. Var loks lögð áhersla á að gengið yrði „snyrtilega“ frá svæðinu að framkvæmdum loknum. Gildistími leyfisins var markaður til 31. desember 2023.

Með skilyrðum um úttekt á áhrifum framkvæmdarinnar byggði Fiskistofa á jákvæðri afstöðu Veiðifélags Hörgár auk þess að litið var til umsagnar Hafrannsóknastofnunar en þar var m.a. rakið að ábyrgð á veiðistjórnun sé á hendi veiðiréttarhafa, þótt Fiskistofa hafi lagalega heimild til inngripa. Þegar stofnar séu litlir geti álag orðið til þess að erfðaeiginleikar tapast, líffræðileg fjölbreytni minnki sem og viðnámsþróttur stofna. Stjórn veiðifélaga geti verið í vanda stödd þegar félagsmenn leiti eftir eða hafi hag af efnissölu. Í ljósi þessa erindis, svo sem sagði í umsögninni, væri talið mikilvægt að fá góða rannsókn á áhrifum efnistöku sem vísa megi til sem hlutlægrar niðurstöðu varðandi áhrif efnistöku á lífríki, þ.m.t. fiska.

Í hinni kærðu ákvörðun var vísað til þess mats á umhverfisáhrifum sem hafði farið fram og verður að líta svo á að með því sé einnig vísað til álits Skipulagsstofnunar um matsskýrslu framkvæmdarinnar. Fyrir liggja upplýsingar um samskipti milli Fiskistofu og umsækjanda við meðferð málsins, þar sem vísað var til fyrirliggjandi umhverfismats, sem bera með sér að fjallað hafi verið um þau atriði sem einkum var fjallað um í áliti Skipulagsstofnunar varðandi áhrif efnistökunnar á ástand fiskistofna, m.a. að framkvæmdaaðili mundi ráðfæra sig við fiskifræðinga um tilhögun og áfangaskiptingu á hverju efnistökusvæði, framkvæmdir ættu sér stað utan veiðitíma árinnar og horfa yrði heildrænt á skipulag efnistöku miðað við önnur leyfi sem gefin hefðu verið út. Við meðferð málsins dró framkvæmdaraðili úr fyrirhugaðri efnistöku, að því virðist með hliðsjón af annarri leyfisveitingu til efnistöku í Hörgá, en Fiskistofa hefur staðhæft gagnvart úrskurðarnefndinni að hún hafi tekið tillit til fyrirliggjandi leyfa við undirbúning hins kærða leyfis, sem er í samræmi við bendingar í áliti Skipulagsstofnunar. Með leyfinu voru um leið gerðar kröfur um rannsóknir eða mótvægisaðgerðir, sem er til samræmis við umfjöllun í áliti Skipulagsstofnunar sem og umsögn Hafrannsóknastofnunnar þar sem lögð var áhersla á fyrirfarandi mat á vatnalífi og farvegi. Með vísan til þessa verður að álíta að Fiskistofa hafi fjallað um umsókn um hið kærða leyfi á grundvelli þeirra heimilda sem henni var skylt að byggja á og álitið á grundvelli þeirra að skilyrði væru til leyfisveitingar. Verður því sá ágalli sem er á rökstuðningi hinnar kærðu ákvörðunar, þar sem ekki er beinum orðum fjallað um álit Skipulagsstofnunar, eigi látinn varða ógildingu hennar.

—–

Í 3. mgr. 28. gr. laga um stjórn vatnamála nr. 36/2011 er mælt fyrir um að leyfisveitandi skuli við afgreiðslu umsóknar um leyfi til nýtingar vatns og við aðra leyfisveitingu til framkvæmda á grundvelli vatnalaga, laga um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu og um leyfi á grundvelli skipulagslaga og laga um mannvirki, tryggja að leyfið sé í samræmi við þá stefnumörkun um vatnsvernd sem fram komi í vatnaáætlun. Það má telja óljóst hvort í leyfi Fiskistofu skv. 33. gr. laga nr. 61/2006 felist heimild til að „nýta vatn“ í skilningi greinarinnar. Nær virðist að skilja orðalagið þannig að ætlun löggjafans hafi verið að afstaða yrði tekin til laga nr. 36/2011 við útgáfu þeirra leyfa sem nefnd eru í 3. mgr. 28. gr. þeirra laga, þar á meðal framkvæmdaleyfa samkvæmt skipulagslögum. Hér má einnig benda á 2. málsl. 1. mgr. 33. gr. laga nr. 61/2006, en þar er mælt fyrir um að um byggingarleyfis- og framkvæmdaleyfisskyldar framkvæmdir í veiðivötnum fari einnig samkvæmt skipulagslögum og lögum um mannvirki og reglum settum samkvæmt þeim.

Úrskurðarnefndin vekur athygli á því að í 2. mgr. 7. gr. vatnalaga nr. 15/1923 er kveðið á um að óheimilt sé nema sérstök heimild eða lagaleyfi sé til þess að breyta vatnsbotni, straumstefnu, vatnsmagni eða vatnsflæði, hvort sem það verður að fullu og öllu eða um ákveðinn tíma, svo og að hækka eða lækka vatnsborð. Í 1. mgr. 75. gr. laganna er síðan mælt fyrir um að heimilt sé að fengnu leyfi Orkustofnunar eða eftir atvikum leyfi Fiskistofu skv. V. kafla laga nr. 61/2006, að breyta vatnsfarvegi, víkka hann eða rétta, gera nýjan farveg eða önnur þau mannvirki í vatni eða við það sem nauðsynleg eru í því skyni að verja land eða landsnytjar gegn spjöllum af landbroti eða árennsli vatns og kemur fram að heimilt sé að binda slíkt leyfi skilyrðum sem þykja nauðsynleg vegna almannahagsmuna. Sé Fiskistofu send skrifleg umsókn um framkvæmd í eða við veiðivatn skal sú stofnun þegar í stað senda Orkustofnun afrit af slíkri umsókn. Orkustofnun getur þá, ef hún telur ástæðu til, sett skilyrði fyrir framkvæmdinni í samræmi við 4. mgr. 144. gr. laganna, m.a. ef ætla má að framkvæmdir eða starfsemi geti spillt þeirri nýtingu sem fram fer í eða við vatn eða möguleikum á að nýta vatn síðar. Tekið er fram að slík skilyrði skuli vera í samræmi við markmið laga nr. 15/1923, reglugerðir og vatnaáætlun samkvæmt lögum um stjórn vatnamála. Af gögnum þessa máls verður eigi ráðið að Fiskistofa hafi gætt að þessari skyldu sinni sem telja verður til annmarka á málsmeðferð sem verður þó ekki talinn slíkur að valdi ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar.

Með vísan til alls framangreinds verður hin kærða ákvörðun látin óröskuð. 

Úrskurðarorð:

Hafnað er ógildingu ákvörðunar Fiskistofu frá 12. september 2022 um að veita leyfi til efnistöku á svæði E-9 í Hörgá í Hörgársveit.