Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

131/2007 Kiðjaberg

Með

Ár 2008, þriðjudaginn 8. janúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 131/2007, kæra á ákvörðunum byggingarnefndar uppsveita Árnessýslu frá 25. september 2007 um að veita byggingarleyfi fyrir sumarhúsum á lóðunum nr. 109 og 112 í landi Kiðjabergs í Grímsnes- og Grafningshreppi. 

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 4. október 2007, er barst nefndinni samdægurs, kærir Ívar Pálsson hdl., f.h. Þ og Þ, Glaðheimum 14, Reykjavík, eigenda sumarhúss á lóðinni nr. 111 í landi Kiðjabergs í Grímsnes- og Grafningshreppi þær ákvarðanir byggingarnefndar uppsveita Árnessýslu frá 25. september 2007 að veita leyfi fyrir byggingu sumarhúsa á lóðunum nr. 109 og 112 í landi Kiðjabergs.  Voru framangreindar ákvarðanir staðfestar á fundi sveitarstjórnar hinn 4. október 2007.    

Gera kærendur þá kröfu að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi ásamt því að byggingarleyfishöfum verði gert að afmá framkvæmdir af lóðunum.  Þá var og gerð krafa um að úrskurðarnefndin kvæði upp til bráðabirgða úrskurð um stöðvun framkvæmda, en með úrskurði nefndarinnar hinn 11. október 2007 var þeirri kröfu hafnað.   

Málavextir:  Kærumál þetta á sér nokkurn aðdraganda en sumarið 2006 kærðu kærendur máls þessa til úrskurðarnefndarinar ákvarðanir sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps um að heimila byggingu sumarhúsa á lóðunum nr. 109, 112 og 113 í landi Kiðjabergs.  Voru framkvæmdir stöðvaðar með bráðabirgðaúrskurði nefndarinnar uppkveðnum hinn 2. ágúst 2006, en síðar var kærumálunum vísað frá þar sem sveitarstjórn hafði afturkallað hinar kærðu ákvarðanir og tekið nýjar í þeirra stað.  Á fundi byggingarnefndar hinn 17. október 2006 voru ný leyfi gefin út fyrir byggingu húsanna og hinn 27. febrúar 2007 var samþykkt nýtt byggingarleyfi fyrir sumarhúsinu á lóðinni nr. 112.  Framangreindum samþykktum skutu kærendur til úrskurðarnefndarinnar sem með úrskurði uppkveðnum hinn 4. júlí 2007 felldi úr gildi byggingarleyfi fyrir byggingu sumarhúsa á lóðunum nr. 109 og 112 þar eð ekki var talið að þau styddust við gildandi deiliskipulag svæðisins en hafnaði kröfu kærenda um ógildingu byggingarleyfis fyrir sumarhúsi á lóð nr. 113.  Í kjölfar þessa var auglýst breyting á deiliskipulagi svæðis þess er um ræðir og hún samþykkt í sveitarstjórn 6. september 2007.  Á fundi byggingarnefndar hinn 25. september 2007 voru síðan samþykkt ný leyfi til bygginga á lóðunum nr. 109 og 112 með stoð í fyrrgreindri deiliskipulagsbreytingu.  Hafa kærendur nú skotið þeim samþykktum til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir.

Málsrök kærenda:  Af hálfu kærenda er á því byggt að gildi byggingarleyfanna velti á gildi deiliskipulagsbreytingarinnar sem einnig hafi verið kærð til úrskurðarnefndarinnar.  Verði deiliskipulagsbreytingin felld úr gildi leiði það til þess að fella beri hin kærðu byggingarleyfi úr gildi.  Í því sambandi nægi að benda á að húsin samræmist ekki eldri skilmálum, eingöngu fyrir þær sakir að þau séu stærri en eldri skilmálarnir heimili.  Hámarksstærð húsa samkvæmt eldri skilmálum séu 60 m².  Húsið á lóðinni nr. 109 sé 108,8 m². að stærð og húsið á lóðinni nr. 112 sé 179,1 m² samkvæmt fundargerð byggingarnefndar.  

Að auki telji kærendur að umrædd hús séu ekki einu sinni í samræmi við hina kærðu deiliskipulagsbreytingu eða skipulag svæðisins að öðru leyti eins og því hafi verið breytt.  Þannig sé húsið nr. 109 utan byggingarreits svo eitthvað sé nefnt.  Telji kærendur nauðsyn á því að staðsetning húsanna verði mæld upp svo þetta liggi fyrir.

Jafnframt sé bent á að samkvæmt hinum nýju skilmálum skuli nýta landkosti sem best og fella byggingar vel að landslagi.  Hvorugt húsanna teljist uppfylla þetta skilyrði.  Þannig hafi verið byggður einn sá stærsti púði sem sést hafi undir húsið á lóðinni nr. 112.  Þá hafi lóðin á nr. 109 verið hækkuð upp og löguð að húsinu en ekki öfugt auk þess sem aðkoma að húsinu sé ekki í samræmi við skipulag.  Þá eigi litir á veggjum að vera jarðlitir sem falla eigi vel að landslagi.  Telji kærendur að ráðgert sé að setja állitaða klæðningu á húsið nr. 109. 

Þá liggi einnig fyrir að húsin á lóðunum nr. 109 og 112 hafi verið reist í andstöðu við gildandi deiliskipulag.  Óheimilt sé skv. 4. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga að breyta skipulagi svæðis þar sem framkvæmt hafi verið í ósamræmi við skipulag fyrr en hin ólöglega bygging, eða byggingarhluti, hafi verið fjarlægð, jarðrask afmáð eða starfsemi hætt.  Húsin hafi ekki verið fjarlægð.  Þvert á móti hafi verið unnið í og við húsin þrátt fyrir að úrskurðarnefndin hafi fellt byggingarleyfi þeirra úr gildi hinn 4. júlí 2007.   

Málsrök Grímsnes- og Grafningshrepps:  Af hálfu Grímsnes- og Grafningshrepps er vísað til þess að hin kærðu byggingarleyfi séu lögmæt og í samræmi við gildandi deiliskipulag og skilmála.  Kærendur geri ekki grein fyrir því með skýrum hætti að hvaða leyti leyfin séu andstæð gildandi skipulagi og/eða skilmálum. 

Órökstuddum staðhæfingum þess efnis að hús á lóð nr. 109 sé ekki innan byggingarreits sé hafnað.  Sama gildi um aðkomu að því húsi.  Reyndar verði ekki séð hvernig það tengist veitingu byggingarleyfisins sem slíks.  Hús á lóð nr. 112 sé einnig innan byggingarreits. Jarðvegspúði sé innan reitsins og taki einfaldlega mið af aðstæðum í landinu.

Athugasemdir kærenda lúti fyrst og fremst að deiliskipulaginu, sem tekið hafi gildi hinn 23. ágúst 2006, varðandi stærðir lóða og byggingarreiti, og þar með hvort byggingarleyfin samrýmist því skipulagi.  Bent sé á að kæran taki einungis til skilmálanna, þ.e. stærðar húsa á svæðinu, en kæru varðandi deiliskipulagið hafi verið vísað frá úrskurðarnefndinni.  Stoði því ekki fyrir kærendur að vísa til kæru sinnar frá 24. september 2007 til stuðnings þessum málsástæðum sínum.

Byggt sé á því að gildandi deiliskipulag sé lögmætt og málsmeðferð við afgreiðslu þess í samræmi við skipulags- og byggingarlög.  Hið sama gildi um skilmála skipulagsins. 

Þá sé mótmælt þeim skilningi kærenda að breyting á skipulagsskilmálum hafi verið ólögmæt með vísan til 4. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, þ.e. að rífa hefði þurft byggingar á lóðum nr. 109 og 112 áður en unnt hefði verið að breyta skipulagi svæðisins.

Vakin sé sérstök athygli á því að umræddar byggingar séu í samræmi við deiliskipulagsbreytingu þá er öðlast hafi gildi hinn 23. ágúst 2006.  Sú breyting hafi m.a. falið í sér að lóðarmörkum og byggingarreitum á næstum lóðum og í nágrenni við lóð  kærenda hafi verið breytt.  Ágreiningurinn nú standi einungis um skilmálana sem slíka, þ.e. stærðir húsa á öllum sumarhúsalóðum í landi Kiðjabergs.  Það eitt leiði til þess að hafna beri þessum málatilbúnaði. 

Framkvæmdir við hús á umræddum lóðum hafi verið taldar í samræmi við gildandi skipulag.  T.d. megi benda á að framkvæmdir við hús á lóð nr. 112 hafi hafist eftir að breytingar á skilmálum deiliskipulagsins hafi tekið gildi haustið 2006.  Frá þeim tíma og allt til 4. júlí 2007 hafi framkvæmdirnar verið í samræmi við byggingarleyfi og gildandi deiliskipulag.  Enn fremur megi nefna að neikvæð áhrif framkvæmda á lóðunum fyrir hagsmuni kærenda séu óveruleg. 

Málsrök byggingarleyfishafa:  Af hálfu byggingarleyfishafa er þess krafist að kröfum kærenda verði hafnað.  Byggingarleyfishafar hafi í höndunum útgefin byggingaleyfi af þar til bærum byggingaryfirvöldum.  Á grundvelli þeirra leyfa hafi byggingarleyfishafar hafið framkvæmdir á ný en þær hafi legið niðri frá því sumarið 2007, eða þar til nýtt deiliskipulag svæðisins hafi tekið gildi.  Það deiliskipulag hafi ekki verið fellt úr gildi og meðan svo sé ástatt hnígi engin rök til þess að fella byggingarleyfin úr gildi. 

Harðlega sé mótmælt kröfu kærenda um að byggingarleyfishöfum verði gert að afmá framkvæmdir af lóðunum.  Húsin eins og þau standi nú séu að fullu í samræmi við samþykkt deiliskipulag.  Kærendur hafi gert ágreining varðandi skilmála núverandi deiliskipulags, þ.e. varðandi stærð húsa, litaval og þess háttar, en sá ágreiningur geti engan veginn réttlætt niðurrif mikilla verðmæta, sem byggingarleyfishafar hafi lagt fram fé og vinnu til að skapa á lögmætan hátt.  Vernd stjórnarskrárinnar á eignarrétti einstaklinga komi auk þess í veg fyrir að unnt sé að fallast á þessa kröfugerð kærenda. 

Aðilar máls þessa hafa fært fram frekari rök fyrir kröfugerð sinni sem ekki verða reifuð hér frekar en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um leyfi er sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps hefur veitt til byggingar tveggja sumarhúsa í landi Kiðjabergs. 

Eins og að framan er rakið er krafa kærenda um ógildingu hinna umdeildu byggingarleyfa m.a. studd þeim rökum að leyfin eigi stoð í deiliskipulagsbreytingum sem þeir telji ólögmætar og hafi kært til úrskurðarnefndarinnar til ógildingar.  Úrskurðarnefndin hefur með úrskurði fyrr í dag fallist á kröfu kærenda um ógildingu deiliskipulagsbreytingar þeirrar er öðlaðist gildi hinn 24. september 2007, en í þeirri ákvörðun fólst m.a. breyting á ákvæðum skipulagsskilmála um hámarkshæð og stærð  sumarhúsa á skipulagssvæðinu.  Kemur því til skoðunar hvort hin kærðu byggingarleyfi séu að efni til í samræmi við heimildir deiliskipulags á svæðinu varðandi hámarksstærð sumarhúsa eins og þær voru fyrir gildistöku umræddrar breytingar.
 
Í gildi er deiliskipulag frá árinu 1990 með áorðnum breytingum er lýtur m.a. að lóðaskipan á svæðinu, stærð lóða, húsa og byggingarreita.  Um stærð húsa segir í deiliskipulagsskilmálum:  „Um hámarksstærðir bústaða og önnur almenn sérákvæði vísast til greinar 6.10.4.6 í byggingarreglugerð frá ágúst 1989.“  Í hinu tilvitnaða reglugerðarákvæði sagði m.a. að sumarbústaðir skyldu að jafnaði vera á einni hæð og skyldu þeir ekki vera stærri en 60 m², meðallofthæð ekki minni 2,2 m, vegghæð mest 3,0 m og hæð mænis frá jörðu mest 4,5 m.  Sambærilegt ákvæði um hámarksstærð sumarhúsa er ekki  að finna í núgildandi byggingarreglugerð nr. 441/1998 en eðlilegast er að túlka gildandi skipulag á þann veg að áfram hafi gilt þau 60 m² stærðarmörk sem vísað var til, enda leiðir breyting á byggingarreglugerð ekki sjálfkrafa til breytingar á gildandi skipulagsákvörðunum.  Verður því við það að miða að á umræddu svæði hafi ekki verið mátt heimila byggingu sumarhúsa sem væru yfir 60 m² að flatarmáli.

Samkvæmt hinum kærðu byggingarleyfum er heimilað að reisa 179,1 m² hús á lóð nr. 112 og 108,8 m² hús á lóð nr. 109, að hluta á tveimur hæðum, ásamt 18,1 m² geymslu.  Af framangreindu má ljóst vera að leyfi fyrir byggingum á lóðum nr. 109 og 112 eru ekki í samræmi við gildandi ákvæði skipulags um hámarksstærð.  Var útgáfa leyfanna því í andstöðu við ákvæði  2. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga, þar sem áskilið er að byggingarleyfi skuli vera í samræmi við staðfest aðalskipulag og samþykkt deiliskipulag og verða þau því felld úr gildi.

Krafa kærenda um að byggingarleyfishöfum verði gert að afmá framkvæmdir af lóðum sínum hefur ekki komið til úrlausnar á lægra stjórnsýslustigi og liggur því ekki fyrir nein kæranleg ákvörðun um þá kröfu.  Verður henni því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikilla anna hjá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Ákvarðanir byggingarnefndar uppsveita Árnessýslu frá 25. september 2007, um að veita leyfi fyrir byggingu sumarhúsa á lóðunum nr. 109 og 112 í landi Kiðjabergs í Grímsnes- og Grafningshreppi, eru felldar úr gildi.

Kröfu kærenda um að byggingarleyfishöfum verði gert að afmá framkvæmdir af lóðum sínum er vísað frá úrskurðarnefndinni.    

 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

 

  _______________________________                     _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                       Þorsteinn Þorsteinsson

98/2005 Miklabraut

Með

Ár 2007, föstudaginn 14. desember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 98/2005, kæra á ákvörðunum skipulagsráðs Reykjavíkur frá 26. október 2005 um niðurrif bílskúra og byggingu nýrra á lóðum nr. 24, 26 og 28 við Miklubraut í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 28. nóvember 2005, er barst nefndinni sama dag, kærir Á, f.h. húsfélags Mjóuhlíðar 8-10 í Reykjavík, þær ákvarðanir skipulagsráðs frá 26. október 2005 að heimila niðurrif núverandi bílskúra og byggingu nýrra á lóðunum nr. 24, 26 og 28 við Miklubraut í Reykjavík.

Skilja verður erindi kæranda svo að þess sé krafist að hinar kærðu samþykktir skipulagsráðs verði felldar úr gildi. 

Málsatvik og rök:  Á baklóðum húsanna að Miklubraut 24, 26 og 28 eru bílskúrar sem byggðir voru fyrir nokkrum tugum ára.  Milli lóða kæranda og baklóðanna við Miklubraut 24-28 liggur gatan Mjóahlíð. 

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 3. maí 2005 voru teknar fyrir umsóknir íbúðareigenda að Miklubraut 24, 26 og 28 þess efnis að veitt yrðu leyfi til að rífa umrædda bílskúra á lóðum þeirra og byggja nýja.  Var afgreiðslu frestað og á fundi byggingarfulltrúa hinn 12. júlí 2005 voru umsóknirnar lagðar fram að nýju ásamt samþykki rétthafa aðliggjandi lóða.  Afgreiðslu var frestað og málunum vísað til skipulagsfulltrúa sem ákvað að grenndarkynna umsóknirnar fyrir hagsmunaaðilum.  Bárust athugasemdir frá 32 íbúum við Mjóuhlíð. 

Á fundi skipulagsráðs hinn 26. október 2005 voru lögð fram svör við framkomnum athugasemdum ásamt samantekt skipulagsfulltrúa og umsögn framkvæmdasviðs.  Voru umsóknirnar samþykktar og þær staðfestar í borgarráði 27. september s.á.

Skaut kærandi ákvörðunum skipulagsráðs frá 26. október 2005 til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir.

Á fundi byggingarfulltrúa hinn 25. september 2007 var samþykkt að nýju, að undangenginni grenndarkynningu, byggingarleyfi fyrir bílskúr að Miklubraut 24 og var sú ákvörðun staðfest í borgarráði 27. september s.á.  Hefur þessi ákvörðun ekki verið borin undir úrskurðarnefndina.

Af hálfu kæranda er því haldið fram að bílskúrar á lóðunum við Miklubraut 24, 26 og 28 séu lítið sem ekkert notaðir sem bílskúrar en bílastæði framan við þá og á milli þeirra séu notuð af eigendum skúranna.  Með því sé komið í veg fyrir að íbúar að Mjóhlíð 8-10 geti lagt ökutækjum sínum fyrir framan hús sín.  Muni nýir bílskúrar enn auka á bílastæðavanda íbúa að Mjóuhlíð.  Um litla og þrönga götu sé að ræða sem sé ófær slökkvi- og sjúkrabifreiðum.  Telji kærandi að sjónmengun sé af núverandi skúrum og rétt sé að rífa þá.  Að lokum sé lögð áhersla á að núverandi skúrar hafi verið byggðir án leyfis en það síðar veitt, eða fyrir um 20 árum, og þá án þess að grenndarkynning hafi farið fram.

Af hálfu borgaryfirvalda er á það bent að ekki sé fyrir hendi deiliskipulag fyrir þann reit er umræddir bílskúrar standi á.  Núverandi bílskúrar og bílastæði við vesturhlið þeirra hafi verið samþykktir á fundi byggingarnefndar borgarinnar hinn 12. apríl 1984 en þeir hafi verið byggðir nokkru áður.  Ekki sé fallist á að bílskúrarnir hafi verið byggðir án leyfis og vísað sé til samþykktar bæjarráðs Reykjavíkur frá 28. júlí 1951 því til stuðnings.

Vísað sé til umsagnar framkvæmdasviðs þar sem fram komi að ekki sé möguleiki að bæta það fyrirkomulag sem ríki varðandi skipulag bílastæða í umræddri götu og að bílastæði sem gert sé ráð fyrir við hlið bílskúranna samsvari rúmlega einu bílastæði við götu.

Hin kærðu leyfi geri ráð fyrir endurbyggingu bílskúra sem þegar séu til staðar og hafi verið samþykktir af byggingaryfirvöldum.  Sé því hvorki um að ræða aukningu á umferð né á notkun bílastæða miðað við núverandi ástand.  Reykjavíkurborg hefði í raun verið óheimilt að synja um endurbyggingu skúra þeirra sem um ræði í málinu nema að viðlagðri bótaábyrgð þar sem um samþykktan byggingarrétt sé að ræða.

Niðurstaða:  Samkvæmt 5. mgr. 44. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 fellur samþykkt sveitarstjórnar úr gildi hafi byggingarleyfi ekki verið gefið út innan 12 mánaða.   Í máli þessu liggur fyrir að ekki voru gefin út byggingarleyfi samkvæmt 1. mgr. 44. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 fyrir bílskúrum á lóðunum að Miklubraut 24, 26 og 28 innan þess tíma og eru samþykktir sveitarstjórnar því úr gildi fallnar með vísan til  tilvitnaðs ákvæðis.  Hefur kærandi af þessum sökum ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um lögmæti hinna kærðu ákvarðana og verður kröfu þess efnis því vísað frá. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

 

______________________________               _______________________________
Ásgeir Magnússon                                               Þorsteinn Þorsteinsson

135/2007 Nesbali

Með

Ár 2007, þriðjudaginn 11. desember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 135/2007, kæra á afgreiðslu skipulags- og mannvirkjanefndar Seltjarnarness frá 12. júlí 2007 og afgreiðslu bæjarstjórnar Seltjarnarness frá 22. ágúst 2007 á erindi vegna umsóknar um leyfi til byggingar einbýlishúss að Nesbala 36.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 10. október 2007, er barst nefndinni sama dag, kærir V, eigandi fasteignarinnar að Nesbala 48, Seltjarnarnesi, afgreiðslu skipulags- og mannvirkjanefndar Seltjarnarness frá 12. júlí 2007 og afgreiðslu bæjarstjórnar Seltjarnarness frá 22. ágúst 2007 á erindi vegna umsóknar um leyfi til byggingar einbýlishúss að Nesbala 36.  Þá hafa úrskurðarnefndinni borist bréf tveggja nágranna kæranda, dags. 16. og 25. október 2007, þar sem tekið er undir sjónarmið hans en ekki verður litið á erindi þessi sem kærur eða meðalgöngu.

Gerir kærandi þá kröfu að ef líta megi svo á að hinar kærðu samþykktir feli í sér loforð um útgáfu byggingarleyfis þá verði þær felldar úr gildi.  Jafnframt gerði kærandi kröfu um að kveðinn yrði upp til bráðabirgða úrskurður um stöðvun framkvæmda þar til endanleg niðurstaða lægi fyrir í kærumálinu.  Féllst úrskurðarnefndin á þá kröfu með úrskurði uppkveðnum 29. nóvember 2007. 

Málavextir:  Á fundi skipulags- og mannvirkjanefndar Seltjarnarness hinn 6. apríl 2006 var tekin fyrir umsókn um leyfi til byggingar einbýlishúss á lóðinni að Nesbala 36, en lóðin hefur verið óbyggð allt frá því skipulag var gert fyrir umrætt svæði snemma árs 1979.  Umsókninni var synjað þar sem byggingin fór út fyrir byggingarreit. 

Á fundi skipulags- og mannvirkjanefndar 22. júní 2006 var lögð fram að nýju umsókn um leyfi til byggingar húss á lóðinni og var samþykkt að senda málið í grenndarkynningu.  Á fundi nefndarinnar 17. ágúst 2006 var umsóknin samþykkt þar sem engar athugasemdir höfðu borist við grenndarkynninguna og ákvörðunin staðfest í bæjarstjórn 23. ágúst 2006.

Í framhaldi af nánari hönnun hússins sendi lóðarhafi inn nýja umsókn þar sem óskað var eftir leyfi fyrir verulegri hækkun þess vegna breyttra hönnunarforsendna.  Var samþykkt að senda erindið í grenndarkynningu.  Athugasemdir bárust frá nágrönnum og var umsókninni hafnað á fundi skipulags- og mannvirkjanefndar 11. janúar 2007.  Aftur var send inn umsókn um breytingu á hæð væntanlegs húss og málið á ný sent í grenndarkynningu.  Enn bárust athugasemdir og var umsókninni hafnað á grundvelli þeirra.

Með bréfi, dags. 12. júní 2007, dró umboðsmaður lóðarhafa allar breytingartillögur vegna byggingar einbýlishúss á lóðinni nr. 36 við Nesbala til baka og fór þess á leit við skipulags- og mannvirkjanefnd að þær yrðu ekki lagðar fyrir bæjarstjórn til samþykktar eða synjunar.  Í bréfinu kom jafnframt fram að lóðarhafi hygðist óska byggingarleyfis á grundvelli samþykktar bæjarstjórnar á fundi hinn 23. ágúst 2006, sbr. 4. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Var erindi þetta tekið fyrir á fundi nefndarinnar 12. júlí 2007 og afgreitt með svohljóðandi bókun:  „Tekið fyrir að nýju erindi frá Ívari Erni Guðmundssyni arkitekti fh. Á….. varðandi umsókn hennar um byggingu einbýlishúss á lóðinni nr. 36 við Nesbala.  Skipulags- og mannvirkjanefndar (sic) vísar til samþykktar sinnar frá 17. ágúst 2006“.  Þessa afgreiðslu samþykkti bæjarstjórn Seltjarnarness á fundi sínum hinn 22. ágúst 2007.

Á aðaluppdráttum er áritun um samþykkt byggingarnefndar hinn 17. ágúst 2006.  Samkvæmt upplýsingum byggingarfulltrúa eru byggingarleyfisgjöld ógreidd en byggingarstjóri mun hafa skrifað sig á verkið hinn 19. júlí 2007 og iðnmeistarar verið tilkynntir hinn 15. nóvember 2007.

Málsrök kæranda: Kærandi telur að ef litið væri svo á að hinar kærðu samþykktir fælu í sér loforð um útgáfu byggingarleyfis þá beri að fella þær úr gildi og setja málið í grenndarkynningu.  Ekki hafi verið unnt að veita leyfið á grundvelli fyrri samþykktar frá árinu 2006 þar sem hún hafi verið fallin úr gildi samkvæmt 1. mgr. 45. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.

Málsrök Seltjarnarnesbæjar: Af hálfu Seltjarnarnesbæjar er tekið fram að fyrir liggi deiliskipulag fyrir svæðið vestan Nesbala, ásamt byggingarskilmálum, sem samþykkt hafi verið í skipulagsnefnd 27. mars 1979 og í bæjarstjórn 12. apríl sama ár.  Ástæða þess að málið hafi verið sent í grenndarkynningu hafi verið sú að nýtingarhlutfall á lóðinni hafi verið nokkru hærra en byggingarskilmálar segi til um eða 0,375 í stað 0,3.  Þess beri að geta að Nesbali 36 sé síðasta óbyggða lóðin á svæðinu og sé nýtingarhlutfall byggðra lóða í hverfinu frá 0,29 – 0,35.  Grenndaráhrif hinnar umdeildu byggingar séu óveruleg.

Málsrök byggingarleyfishafa:  Af hálfu byggingarleyfishafa er því haldið fram að kærufrestur hafi verið liðinn er kæra í málinu hafi borist úrskurðarnefndinni.  Ljóst megi vera að kæranda hafi verið kunnugt um allar ákvarðanir sem teknar hafi verið í málinu fyrir 10. september 2007, enda séu allar ákvarðanir bæjaryfirvalda á Seltjarnarnesi birtar opinberlega á heimasíðu sveitarfélagsins.  Sé kæra í málinu því of seint fram komin og beri að vísa henni frá.  Verði ekki fallist á kröfu byggingarleyfishafa um frávísun sé kröfu kæranda um ógildingu mótmælt.  Ekkert hafi verið athugavert við meðferð málsins þegar hið umdeilda byggingarleyfi hafi verið veitt og hafi m.a. fullnægjandi grenndarkynning farið fram. 

Aðilar hafa fært fram ítarlegri rök fyrir máli sínu, en með hliðsjón af niðurstöðu málsins þykja ekki efni til að rekja þau frekar en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða:  Í máli þessu er kærð afgreiðsla skipulags- og mannvirkjanefndar Seltjarnarness frá 12. júlí 2007 og samþykkt bæjarstjórnar Seltjarnarness frá 22. ágúst 2007 á erindi vegna umsóknar um leyfi til byggingar einbýlishúss að Nesbala 36.

Í bréfi kæranda til byggingarfulltrúans á  Seltjarnarnesi, dags. 12. september 2007, kemur fram að honum hafi daginn áður borist tilkynning byggingarfulltrúa, dags. 5. september 2007, um hinar kærðu afgreiðslur.  Verður við það að miða að viðtaka tilkynningarinnar marki upphaf kærufrests í málinu en ekki verður á það fallist að birting fundargerða á heimasíðu sveitarfélagsins hafi jafngilt opinberri birtingu eða tilkynningu gagnvart kæranda.  Var kærufrestur því ekki liðinn er kæran barst úrskurðarnefndinni hinn 10. október 2007.

Með þeim samþykktum sem kærðar eru í máli þessu var einungis svarað erindi kæranda þar sem fallið var frá áformum um breytingar á fyrirhugaðri byggingu frá því sem áður hafði verið heimilað með samþykkt bæjarstjórnar hinn 23. ágúst 2006.  Fólst hvorki í hinni kærðu bókun skipulags- og mannvirkjanefndar frá 12. júlí 2007 né í samþykkt bæjarstjórnar Seltjarnarness frá 22. ágúst 2007 ný ákvörðun um byggingarleyfi og verður því ekki litið á þessar afgreiðslur sem kæranlegar stjórnvaldsákvarðanir, enda var ekki með þeim bundinn endi á meðferð máls, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Ekki liggur fyrir að byggingarleyfi samkvæmt 1. mgr. 44. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 hafi verið gefið út innan tímarka 5. mgr. sömu greinar.  Þó verður ekki í máli þessu tekin afstaða til þeirrar málsástæðu kæranda að samþykkt bæjarstjórnar frá 23. ágúst 2006 hafi verið fallin úr gildi er framkvæmdir hófust við bygginguna enda hefur engin kæranleg ákvörðun henni tengd verið borin undir úrskurðarnefndina.

Samkvæmt því sem að framan er rakið verða hinar kærðu samþykktir ekki bornar undir úrskurðarnefndina og verður málinu því vísað frá nefndinni.  Jafnframt falla niður réttaráhrif úrskurðar nefndarinnar frá 29. nóvember 2007 um stöðvun framkvæmda.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

__________________________
Hjalti Steinþórsson

__________________________         _________________________
           Ásgeir Magnússon                              Þorsteinn Þorsteinsson

135/2007 Nesbali

Með

Ár 2007, fimmtudaginn 29. nóvember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 135/2007, kæra á afgreiðslu skipulags- og mannvirkjanefndar Seltjarnarness frá 12. júlí 2007 og afgreiðslu bæjarstjórnar Seltjarnarness frá 22. ágúst 2007 á umsókn um leyfi til byggingar einbýlishúss að Nesbala 36.

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður
um kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 10. október 2007, er barst nefndinni sama dag, kærir V, eigandi fasteignarinnar að Nesbala 48, Seltjarnarnesi, afgreiðslu skipulags- og mannvirkjanefndar Seltjarnarness frá 12. júlí 2007 og afgreiðslu bæjarstjórnar Seltjarnarness frá 22. ágúst 2007 á umsókn um leyfi til byggingar einbýlishúss að Nesbala 36.  Þá hafa úrskurðarnefndinni borist bréf tveggja nágranna kæranda, dags. 16. og 25. október 2007, þar sem tekið er undir sjónarmið hans en ekki verður litið á erindi þessi sem kærur eða meðalgöngu.

Gerir kærandi þá kröfu að hinar kærðu samþykktir verði felldar úr gildi ásamt því að kveðinn verði upp til bráðabirgða úrskurður um stöðvun framkvæmda þar til endanleg niðurstaða liggi fyrir í kærumálinu.  Er krafan um stöðvun framkvæmda nú tekin til úrskurðar. 

Málsatvik og rök:  Á fundi skipulags- og mannvirkjanefndar Seltjarnarness þann 6. apríl 2006 var tekin fyrir umsókn um leyfi til byggingar einbýlishúss á lóðinni að Nesbala 36, en lóðin hefur verið óbyggð allt frá því skipulag var gert fyrir umrætt svæði snemma árs 1979.  Umsókninni var synjað þar sem byggingin fór út fyrir byggingarreit. 

Á fundi skipulags- og mannvirkjanefndar 22. júní 2006 var lögð fram að nýju umsókn um leyfi til byggingar húss á lóðinni og var samþykkt að senda málið í grenndarkynningu.  Á fundi nefndarinnar 17. ágúst 2006 var umsóknin samþykkt þar sem engar athugasemdir höfðu borist við grenndarkynninguna og ákvörðunin staðfest í bæjarstjórn 23. ágúst 2006.

Í framhaldi af nánari hönnun hússins sendi lóðarhafi inn nýja umsókn þar sem óskað var eftir leyfi fyrir verulegri hækkun þess vegna breyttra hönnunarforsendna.  Var samþykkt að senda erindið í grenndarkynningu.  Athugasemdir bárust frá nágrönnum og var umsókninni hafnað á fundi skipulags- og mannvirkjanefndar 11. janúar 2007.  Aftur var send inn umsókn um breytingu á hæð væntanlegs húss og málið á ný sent í grenndarkynningu.  Enn bárust athugasemdir og var umsókninni hafnað á grundvelli þeirra.

Á fundi nefndarinnar 12. júlí 2007 var tekið fyrir erindi frá lóðarhafa þar sem tillögur að breytingum á húsinu að Nesbala 36 voru dregnar til baka.  Afgreiddi nefndin erindið með svohljóðandi bókun:  „Tekið fyrir að nýju erindi ………  Skipulags- og mannvirkjanefndar (sic) vísar til samþykktar sinnar frá 17. ágúst 2006“.  Þessa afgreiðslu staðfesti bæjarstjórn Seltjarnarness á fundi sínum hinn 22. ágúst 2007.

Á aðaluppdráttum er áritun um samþykkt byggingarnefndar hinn 17. ágúst 2006.  Samkvæmt upplýsingum byggingarfulltrúa eru byggingarleyfisgjöld ógreidd en byggingarstjóri mun hafa skrifað sig á verkið hinn 19. júlí 2007 og iðnmeistarar verið tilkynntir hinn 15. nóvember 2007.

Kærandi telur að ef litið væri svo á að hinar kærðu samþykktir fælu í sér loforð um útgáfu byggingarleyfis þá beri að fella þær úr gildi og setja málið í grenndarkynninu.  Ekki hafi verið unnt að veita leyfið á grundvelli fyrri samþykktar frá árinu 2006 þar sem hún hafi verið fallin úr gildi samkvæmt 1. mgr. 45. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.

Af hálfu Seltjarnarnesbæjar er tekið fram að fyrir liggi deiliskipulag fyrir svæðið vestan Nesbala, ásamt byggingarskilmálum, sem samþykkt hafi verið í skipulagsnefnd 27. mars 1979 og í bæjarstjórn þann 12. apríl sama ár.  Ástæða þess að málið hafi verið sent í grenndarkynningu hafi verið sú að nýtingarhlutfall á lóðinni hafi verið nokkru hærra en byggingarskilmálar segi til um eða 0,375 í stað 0,3.  Þess beri að geta að Nesbali 36 sé síðasta óbyggða lóðin á svæðinu og sé nýtingarhlutfall byggðra lóða í hverfinu frá 0,29 – 0,35.  Grenndaráhrif hinnar umdeildu byggingar séu óveruleg og séu því ekki efni til að fallast á kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda.

Af hálfu byggingarleyfishafa er því haldið fram að kærufrestur hafi verið liðinn er kæra í málinu hafi borist úrskurðarnefndinni.  Ljóst megi vera að kæranda hafi verið kunnugt um allar ákvarðanir sem teknar hafi verið í málinu fyrir 10. september 2007, enda séu allar ákvarðanir bæjaryfirvalda á Seltjarnarnesi birtar opinberlega á heimasíðu sveitarfélagsins.  Sé kæra í málinu því of seint fram komin og beri að vísa henni frá. 

Verði ekki fallist á kröfu byggingarleyfishafa um frávísun sé kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda mótmælt.  Ekkert hafi verið athugavert við meðferð málsins þegar hið umdeilda byggingarleyfi hafi verið veitt og hafi m.a. fullnægjandi grenndarkynning farið fram. 

Aðilar hafa fært fram ítarlegri rök fyrir máli sínu sem ekki verða rakin frekar í þessum þætti málsins.

Niðurstaða:  Í bréfi kæranda til byggingarfulltrúa Seltjarnarness, dags. 12. september 2007, kemur fram að honum hafi daginn áður borist tilkynning byggingarfulltrúa, dags. 5. september 2007, um hinar kærðu afgreiðslur.  Verður við það að miða að viðtaka tilkynningarinnar marki upphaf kærufrests í málinu og var hann því ekki liðinn er kæran barst úrskurðarnefndinni hinn 10. október 2007. 

Áhöld eru um það hvort unnt hafi verið að leggja samþykkt bæjarstjórnar frá 23. ágúst 2006 til grundvallar við útgáfu umdeilds byggingarleyfis, sbr. 5. mgr. 44. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Þá leikur verulegur vafi á um hvort framkvæmd og forsendur grenndarkynningar hafi fullnægt lagaskilyrðum sé til þess litið að deiliskipulag er talið vera í gildi fyrir umrætt svæði.  Verður af þessum sökum fallist á kröfu kæranda um að framkvæmdir verði stöðvaðar meðan kærumál þetta er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Framkvæmdir, sem hafnar eru á lóðinni nr. 36 við Nesbala á Seltjarnarnesi, skulu stöðvaðar meðan kærumál þetta er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.

 

 

____________________________
Hjalti Steinþórsson

 

___________________________              ____________________________
Ásgeir Magnússon                                               Þorsteinn Þorsteinsson

148/2007 Gleráreyrar

Með

Ár 2007, föstudaginn 23. nóvember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 148/2007, kæra á ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Akureyrarbæjar frá 25. júlí 2007 um að veita leyfi fyrir viðbyggingu við verslunarmiðstöðina Glerártorg á lóðinni nr. 1 við Gleráreyrar á Akureyri. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 2. nóvember 2007, er barst nefndinni sama dag, kærir Hákon Stefánsson lögfr., f.h. Svefns og heilsu ehf., þá ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Akureyrarbæjar frá 25. júlí 2007 að veita leyfi fyrir viðbyggingu við verslunarmiðstöðina Glerártorg á lóðinni nr. 1 við Gleráreyrar.  Hin kærða ákvörðun var samþykkt í skipulagsnefnd bæjarins hinn 22. ágúst 2007 og staðfest í bæjarstjórn hinn 4. september sama ár. 

Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.  Jafnframt var gerð krafa um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða meðan málin væri til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.  Þykja málsatvik nú nægjanlega upplýst til þess að taka kæruna til endanlegrar úrlausnar og verður því ekki tekin afstaða til framkominnar stöðvunarkröfu. 

Málavextir:  Í febrúarmánuði 2007 samþykkti bæjarstjórn Akureyrar breytt deiliskipulag fyrir Gleráreyrar 1-10 á Akureyri, sem er verksmiðjulóð sú sem Samband íslenskra samvinnufélaga hafði undir verksmiðjur sínar og nefndist í eldra skipulagi Dalsbraut 1.  Tók skipulagið gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda hinn 2. apríl sl.  Hefur kærandi máls þessa krafist ógildingar á nefndri skipulagsákvörðun í kæru til úrskurðarnefndarinnar með þeim rökum að skipulagsákvörðunin sé haldin ýmsum ógildingarannmörkum.  Var kröfu kæranda um ógildingu umræddrar skipulagsákvörðunar hafnað með úrskurði uppkveðnum hinn 21. nóvember 2007. 

Meðal fyrirhugaðra mannvirkja á umræddu skipulagssvæði er viðbygging við Glerártorg, Gleráreyrum 1, Akureyri.  Hinn 11. apríl 2007 veittu bæjaryfirvöld leyfi til jarðvegsskipta vegna hinna fyrirhuguðu framkvæmda á nefndri lóð.  Kærandi skaut þeirri leyfisveitingu til úrskurðarnefndarinnar sem vísaði kærumálinu frá sökum aðildarskorts með úrskurði uppkveðnum hinn 14. júní 2007.  Hinn 13. júní 2007 veitti skipulags- og byggingarfulltrúi Akureyrar leyfi fyrir útmælingu og gerð sökkla á umræddri lóð vegna fyrirhugaðrar viðbyggingar og skaut kærandi máls þessa þeirri ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar.  Var því máli vísað frá með úrskurði uppkveðnum 22. ágúst 2007 þar sem heimilaðar framkvæmdir þóttu ekki snerta lögvarða hagsmuni kæranda með þeim hætti að hann ætti kæruaðild í málinu.  Skipulags- og byggingarfulltrúi veitti síðan leyfi fyrir umdeildri viðbyggingu við verslunarmiðstöðina að Geráreyrum 1 hinn 25. júlí 2007 og hefur kærandi skotið þeirri ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir. 

Málsrök kæranda:  Til stuðnings kröfu sinni vísar kærandi til þess að hin kærða ákvörðun byggi á deiliskipulagi sem hann telji ekki gilt að lögum og kærandi hafi skotið til úrskurðarnefndarinnar.  Sé vísað til þeirra sjónarmiða er komi fram í því kærumáli. 

Rétt sé að upplýsa að Akureyrarbær reki nú mál fyrir matsnefnd eignarnámsbóta í þeim tilgangi að taka eignarnámi Dalsbraut 1i, Akureyri, fastanr. 215-1370 og fastanr. 215-1373 (matshl. 040101), ásamt tilheyrandi lóðarréttindum.  Sú krafa eigi m.a. rætur að rekja til þess að syðri hluti lóðarinnar Dalsbraut 1i, að stærðinni 2.040 m², verði lagður til Gleráreyra 1, líkt og skýrt sé tekið fram í greinargerð og lóðaskipulagi núgildandi skipulags. 

Liggi því fyrir að 2.040 m² af lóðinni Gleráreyrar 1 í núgildandi skipulagi séu lóðarréttindi Dalsbrautar 1i skv. eldra skipulagi sem óumdeilt sé að kærandi njóti eignarréttinda yfir.  Kærandi hafi ekki gefið eftir eignarréttindi sín yfir umræddum 2.040 m² sem felldir hafi verið inn í lóðina Gleráreyrar 1.  Kærandi telji óheimilt að gefa út byggingarleyfi á lóð nema samþykki allra eigenda hlutaðeigandi lóðar liggi fyrir.  Kærandi sé ótvírætt sameigandi að lóðinni Gleráreyrar 1.  Þegar af þeirri ástæðu sé útgáfa hins kærða byggingarleyfis ólögmæt og því beri að fella það úr gildi.

Kærandi eigi lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi hins umdeilda byggingarleyfis.  Það varði byggingarframkvæmdir á lóð sem liggi að lóð kæranda og hluti af lóðarréttindum hans hafi verið færð undir þá lóð eins og fyrr sé rakið og án þess að kærandi hafi verið sviptur eignarrétti sínum á þeirri spildu.

Núgildandi deiliskipulag taki til lóðanna Gleráreyrar 1-10, þ.e. eitt skipulag sé fyrir svæði það sem mannvirki kæranda standi á og hin kærða ákvörðun heimili framkvæmdir á.  Kærandi telji að í lögum nr. 73/1997 sé byggt á því að eigendur mannvirkja innan sama deiliskipulagsreits hafi almennt lögvarða hagsmuni af framkvæmdum innan reitsins.  Þetta megi m.a. ráða af 7. mgr. 43. gr. laganna sem geri ráð fyrir að grenndarkynning fari fram séu gerðar óverulegar breytingar á deiliskipulagi. 

Kærandi hafi fengið upplýsingar um hina kærðu ákvörðun hinn 5. október 2007 í kjölfar fyrirspurnar þar um.  Áður hafi kærandi kært útgáfu bráðabirgðaleyfis fyrir sömu framkvæmd til úrskurðarnefndarinnar.  Telur kærandi að bæjaryfirvöldum hafi verið rétt og skylt að tilkynna honum um hinar kærðu ákvarðanir, þar sem hann hafi áður kært deiliskipulagið til úrskurðarnefndarinnar, sem og útgáfu bráðabirgðaleyfis er verið hafi undanfari þess byggingarleyfis sem nú sé til umfjöllunar.  Kærandi telji sig hafa mátt treysta því að nýtt byggingarleyfi yrði ekki veitt vegna umdeildra framkvæmda meðan hann hafi staðið í þeirri trú að kærumál hans vegna fyrrgreinds bráðabirgðaleyfis væri óútkljáð hjá úrskurðarnefndinni.  Telji kærandi því að kæra þessi sé fram komin innan kærufrests. 

Að öðru leyti skírskoti kærandi máli sínu til stuðnings til  ákvæða skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 sem og ákvæða stjórnsýslulaga nr. 37/1993. 

Málsrök Akureyrarbæjar:  Akureyrarbær gerir kröfu um að kærumáli þessu verði vísað frá úrskurðarnefndinni en ella að kröfu um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar verði hafnað.

Í 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 segi að frestur til að skjóta máli til úrskurðarnefndarinnar sé einn mánuður frá því að kæranda hafi orðið kunnugt, eða mátt vera kunnugt, um ákvörðun þá sem kæra eigi.  Sé um að ræða ákvarðanir sem sæti opinberri birtingu teljist kærufrestur frá birtingu ákvörðunar.

Tekið sé undir málsástæðu byggingarleyfishafa í athugasemdum hans til úrskurðarnefndarinnar, dags. 5. nóvember 2007, um að kærandi byggi ekki á því að honum hafi ekki mátt vera kunnugt um útgáfu umrædds byggingarleyfis, heldur því að borið hafi að birta honum útgáfu þess sérstaklega.  Bæjaryfirvöldum beri ekki skylda til að tilkynna öðrum en byggingarleyfisaðilum um útgáfu byggingarleyfis, sbr. 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, þar sem segi að eftir að stjórnvald hafi tekið ákvörðun skuli hún tilkynnt aðila máls nema það sé augljóslega óþarft.  Athygli sé vakin á því að fundargerðir skipulagsnefndar og bæjarstjórnar birtist samdægurs á heimasíðu Akureyrarbæjar.

Vísað sé til úrskurðar úrskurðarnefndarinnar nr. 69/2007, dags. 22. ágúst 2007, þar sem segi að kæruaðild einstaklinga að skipulagsákvörðun feli ekki sjálfkrafa í sér kæruaðild að ákvörðunum um mannvirkjagerð á tilteknum skipulagsreit. 

Í tölvupósti lögmanns kæranda til Akureyrarbæjar 4. október 2007 sé spurt hvort gefið hafi verið út byggingarleyfi á Gleráreyrum 1.  Þá segi að viðkomandi hafi kært einhverja bráðabirgðaheimild til byggingarframkvæmda á lóðinni og síðan hafi hann ekkert frétt af málinu.  Daginn eftir hafi Akureyrarbær upplýst lögmann kæranda um byggingarleyfið. 

Kæranda hafi mátt vera ljóst að eftir jarðvegsskipti og eftir að leyfi hafi verið gefið út fyrir útmælingu og sökklum yrði gefið út byggingarleyfi fyrir frekari framkvæmdum.  Kærandi reki verslun að Gleráreyrum 3 og hafi því mátt vera ljóst þegar uppbygging hófst að búið væri að gefa út byggingarleyfi.  Framkvæmdir hafi hafist strax eftir útgáfu byggingarleyfisins 4. september 2007 og hafi viðbyggingin risið hratt á fyrstu dögunum. 

Þá vísi Akureyrarbær til 3. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 þar sem segi að stjórnvöldum sé skylt, sé þess óskað, að veita almenningi aðgang að fyrirliggjandi gögnum sem varði tiltekið mál með þeim takmörkunum sem greini í 4.–6. gr. laganna.  Það sé meginregla að þegar farið sé fram á upplýsingar þá skuli óska þess sérstaklega og bréflega.  Ekki sé hins vegar hægt að fara fyrirfram fram á öll gögn sem eigi eftir að koma í tiltekið mál eða sem gefin verði út í tilteknu máli.  Kærandi hafi því ekki getað búist við því að Akureyrarbær upplýsti hann í hvert sinn sem gefið yrði út byggingarleyfi á Gleráreyrum 1.  Kæranda hafi hins vegar borið að gæta hagsmuna sinna, enda hafi Akureyrarbær, sem stjórnvald, ríkar skyldur til upplýsingagjafar ef eftir henni sé leitað. 

Telja verði að sá mánaðarfrestur sem kærandi hafi haft til að kæra byggingarleyfið hafi verið liðinn þegar kæra var lögð fram.  Um það leyti sem kærandi hafi óskað eftir upplýsingum hvort búið væri að gefa út byggingarleyfi hafi verið búið að steypa upp allan norðurvegg viðbyggingarinnar, sem snúi að verslun kæranda, ásamt öllum vesturveggnum og ca. 40% af suðurvegg viðbyggingarinnar.  Einnig hafi verið byrjað á uppsetningu þaks.  Kærandi hafi hins vegar ekki kært byggingarleyfið fyrr en 2. nóvember 2007. 

Þá sé frávísunarkrafa bæjarins studd þeim rökum að kærandi hafi ekki sýnt fram á að kröfur sem hann hafi uppi í kæru varði lögmæta hagsmuni hans.  Í kæru sé ekki gerð grein fyrir því á hvaða grunni kærandi telji sig hafa af því lögvarða hagsmuni að úrskurður gangi um kæru hans, s.s. vegna grenndaráhrifa.  Hann telji sig enn vera lóðarleiguhafa að því svæði sem umdeilt byggingarleyfi taki til, á grundvelli eldra skipulags, þar sem ekki hafi tekist samkomulag um bætur fyrir lóðarleiguréttindi sem fallið hafi til Gleráreyrar 1, sem áður hafi talist til Dalsbrautar 1i.  Akureyrarbær vísi til deiliskipulags sem tekið hafi gildi 2. apríl 2007.  Þó enn sé óútkljáður ágreiningur um bætur fyrir skerðingu á lóðarréttindum til handa kæranda á grundvelli 33. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 hafi deiliskipulagið með sinni lóðaafmörkun þegar tekið gildi.  Vakin sé athygli á því að þótt kærandi missi lóðarréttindi á baklóð fái hann stærri og verðmætari lóð fyrir framan verslun sína samkvæmt nefndu deiliskipulagi. 

Þar sem ekki hafi tekist samningar með aðilum um bætur hafi verið nauðsynlegt að fara fram á það við matsnefnd eignarnámsbóta að bætur verði metnar, m.a. fyrir lóðarskerðingu. 

Deiliskipulag svæðisins fjalli fyrst og fremst um lóðina Gleráreyrar 1 þar sem uppbygging eigi sér stað og um byggingu verslunarhúsnæðis á þeirri lóð sem umþrætt byggingarleyfi heimili.  Þær kröfur og athugasemdir sem kærandi hafi uppi í málinu varði með engu móti hagsmuni hans sem lóðarhafa og fasteignareiganda að Gleráreyrum 3. 

Hvað efnishlið máls varði bendi bæjaryfirvöld á að hið kærða byggingarleyfi eigi stoð í gildu deiliskipulagi fyrir Gleráreyrar 1-10.  Skipulagið sé hvorki haldið form- né efnisgöllum.  Kærandi hafi ekki sýnt fram á að hagsmunum hans sem fasteignareiganda á svæðinu sé raskað með þeim hætti að leiða eigi til ógildingar byggingarleyfisins. 

Með vísan til ferils málsins, sbr. úrskurð úrskurðarnefndarinnar vegna kæru á leyfi til jarðvegsskipta, dags. 14. júní 2007, og úrskurðar vegna kæru á leyfi til útmælingar og gerðar sökkla á lóðinni, dags. 22. ágúst 2007, þar sem báðum málum hafi verið vísað frá vegna aðildarskorts og skorts á lögvörðum hagsmunum, telji Akureyrarbær að gera verði mjög miklar kröfur til þess að í húfi séu verulegir einstaklegir lögvarða hagsmunir svo til álita komi að verða við ógildingarkröfu í máli þessu.  Sér í lagi eigi þetta við þar sem framkvæmdir séu þegar komnar á það stig að byggingin verði fokheld í byrjun desember nk. og kærandi hafi getað kært veitingu leyfisins strax í byrjun eða um miðjan september sl.

Andmæli byggingarleyfishafa:  Af hálfu byggingarleyfishafa er skírskotað til 8. gr. skipulags- og byggingarlaga um kærufrest.  Kærandi byggi málatilbúnað sinn ekki á því að ágallar hafi verið á hinu kærða leyfi, eða honum hafi ekki mátt vera kunnugt um útgáfu þess, heldur að borið hafi að birta honum útgáfu byggingarleyfisins sérstaklega.  Úrskurðarnefndina bresti því lagaheimild til þess að úrskurða efnislega um mál er berist að liðnum kærufresti. 

Bent sé á að hvorki hafi nýbygging verið reist né samþykkt innan lóðarmarka Dalsbrautar 1i eins og þó mætti ráða af kæru.  Þá beri að hafa í huga að nefnd lóð sé leigulóð en ekki eignarlóð.  Í eignarskiptayfirlýsingu fyrir Dalsbraut 1i frá árinu 1989 komi fram að lóðin sé 3.331,3 m² en sú eignarskiptayfirlýsing sé eina skjalið yfir stærð og staðsetningu lóða að Dalsbraut 1 með hliðsjón af niðurstöðu Hæstaréttar í málinu nr. 360/2006.  Eigendur eigna á lóðinni Dalsbraut 1i hafi komið sér saman um að skipta lóðinni upp í tvo sérafnotafleti þannig að norðurhluti lóðar skuli tilheyra matshluta 0101 en suðurhluti skuli tilheyra matshluta 0102.  Kærandi hafi ekki hirt um að taka þetta fram í málatilbúnaði sínum. 

Athugasemdir kæranda við umsögn Akureyrarbæjar og andmæli byggingarleyfishafa:  Kærandi telur að kæra hafi borist innan kærufrests enda hafi honum fyrst orðið kunnugt um útgáfu hins kærða byggingarleyfis 5. október 2007.  Fullyrðingar þess efnis að kæranda hafi mátt vera kunnugt um útgáfu byggingarleyfisins fyrr sé mótmælt.  Framkvæmdir að Gleráreyrum 1 hafi staðið allt frá því í október/nóvember 2006 er byrjað hafi verið á niðurrifi mannvirkja á svæðinu.  Erfitt sé fyrir kæranda að vita hvaða framkvæmdir hafi byggst á hvaða leyfum og þá sé erfitt að fylgjast með svo umfangsmiklum framkvæmdum sem staðið hafi yfir í langan tíma.  Mannvirki hafi verið rifin, jarðvegur grafinn upp, steyptir grunnar o.fl.  Kærandi fallist ekki á það að hann hafi mátt gera sér grein fyrir því að byggingarleyfi hafi verið gefið út í september sl. í ljósi þess að hann hafi ekki getað gert sér grein fyrir hvenær ein leyfisskyld framkvæmd byrji eða ljúki og hvenær önnur taki við. 

Málatilbúnaður Akureyrarbæjar þess efnis að kærandi hafi ekki lögvarða hagsmuni í málinu virðist byggður á misskilningi.  Óumdeilt sé að lóðin Gleráreyrar 1 skv. gildandi skipulagi sé að hluta í eigu kæranda en 2.040 m² hluti hennar hafi áður tilheyrt lóð í eigu kæranda að Dalsbraut 1i sem nú sé Gleráreyrar 3.  Bæjaryfirvöld virðist hins vegar standa í þeirri trú að breyting á deiliskipulaginu sem slík hafi sjálfkrafa svipt kæranda eignarrétti að áðurgreindum hluta lóðaréttinda hans sem felldur hafi verið undir Gleráreyrar 1.  Kærandi telji þennan málatilbúnað ekki fá stoð í gildandi rétti enda liggi fyrir krafa bæjaryfirvalda hjá matsnefnd eignarnámsbóta um eignarnám á umræddum fasteignaréttindum kæranda. 

Sú staðreynd að Gleráreyrar 1 sé í sameign kæranda og fleiri aðila hafi m.a. þau áhrif að bæjaryfirvöldum hafi borið að tilkynna kæranda um veitingu umdeilds byggingarleyfis, m.a. með hliðsjón af 20. gr. stjórnsýslulaga, en óheimilt sé að gefa út leyfi á lóð án samþykkis allra eigenda.  Með vísan til þessa hafi kæra borist innan kærufrests þar sem kærði hafi ekki sinnt ekki lögboðinni skyldu fyrr en 5. október sl. er hann hafi tilkynnt um úrlausn málsins.  Þá fyrst hafi kærufrestur byrjað að líða. 

Kærandi mótmælir því að framkvæmdaraðili geti áskilið sér rétt til að koma að sjónarmiðum er byggi á efnisþætti málsins.  Slíkt fari í bága við reglur er gildi um starfsheimildir úrskurðarnefndarinnar.  Þannig sé ekki gert ráð fyrir því að úrskurðarnefndin taki fyrst afstöðu til formhliðar máls og gefi aðilum síðar kost á því að gera athugasemdir við efnisþátt þess, sé kröfu ekki vísað frá.  Slíkan áskilnað beri því að virða að vettugi. 

Málsaðilar hafa fært fram frekari rök fyrir máli sínu sem ekki verða rakin hér en úrskurðarnefndin hefur haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða:  Af hálfu Akureyrarbæjar og byggingarleyfishafa hefur verið gerð krafa um frávísun málsins.  Er sú krafa byggð á því að kærandi eigi ekki lögvarinna hagsmuna að gæta og að kæra hafi borist að liðnum kærufresti. 

Hið kærða byggingarleyfi heimilar að reist verði viðbygging við verslunarmiðstöð í næsta nágrenni við fasteign kæranda á lóð sem kærandi telur sig eiga hlutdeild í.  Í ljósi þessa þykir kærandi eiga lögvarinna hagsmuna að gæta í máli þessu. 

Framkvæmdir við niðurrif og jarðvegsvinnu hafa staðið um nokkurt skeið á umræddu svæði og skaut kærandi leyfum fyrir þessum framkvæmdum til úrskurðarnefndarinnar á sínum tíma, m.a. leyfi fyrir jarðvegsskiptum og gerð sökkla á lóðinni að Gleráreyrum 1.  Sveitarstjórn staðfesti veitingu hins kærða byggingarleyfis hinn 4. september 2007 en yfirlit um úttektir vegna framkvæmdanna á fyrrnefndri lóð ber með sér að þær hafi byrjað nokkru áður.  Þá liggur fyrir að viðræður stóðu yfir milli kæranda og bæjaryfirvalda í septembermánuði sl. um bætur fyrir þau lóðarréttindi kæranda sem færð voru undir Gleráreyrar 1 með deiliskipulagsbreytingu svæðisins.

Fallast má á það með kæranda að hann hafi ekki mátt vænta þess að byggingarleyfi fyrir viðbyggingu á umræddri lóð yrði veitt án vitundar hans þegar litið er til þess að hluti lóðar kæranda að Gleráreyrum 3 hafði verið lagður undir Gleráreyrar 1 með skipulagsákvörðun.  Með hliðsjón af því og greindri forsögu og framvindu framkvæmda á svæðinu verður ekki með vissu ráðið að kæranda hafi mátt vera ljóst að umþrætt leyfi hefði verið veitt fyrr en fyrirspurn hans var svarað hinn 5. október 2007.  Verður því, eins og hér stendur sérstaklega á, við það miðað að kærufrestur hafi ekki byrjað að líða fyrr en þann dag.  Telst kæra í máli þessu þar af leiðandi hafa borist innan kærufrests.

 Af framangreindum ástæðum verður ekki fallist á frávísunarkröfu málsins.

Í gr. 3.4 í greinargerð og skipulagsskilmálum með deiliskipulagsbreytingu þeirri, er gerð var fyrir umrætt svæði og tók gildi hinn 2. apríl 2007, kemur fram að 2.040 m² spilda úr suðurhluta lóðarinnar, er nefnd var Dalsbraut 1i fyrir skipulagsbreytinguna, er færð undir Gleráreyrar 1.  Af gögnum málsins verður ráðið að kærandi eigi óbein eignarréttindi sem lóðarhafi að Dalsbraut 1i, að minnsta kosti að hluta til.  Hefur Akureyrarbær nú krafist eignarnáms yfir fasteignarréttindum kæranda til þess að hrinda lóðaskipulagi fyrrgreindrar deiliskipulagsbreytingar í framkvæmd með stoð í 32. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Jafnframt hafa bæjaryfirvöld krafist þess, með stoð í 14. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms, að matsnefnd eignarnámsbóta heimili Akureyrarbæ að taka umráð þeirra fasteignaréttinda sem um ræðir en sú beiðni mun enn ekki hafa hlotið afgreiðslu.

Gildistaka skipulags leiðir ekki sjálfkrafa til yfirfærslu eignarréttinda þótt í skipulaginu felist áform um aðilaskipti að slíkum réttindum heldur þarf eignarnám eða heimild matsnefndar eignarnámsbóta til að ná fram breyttum umráðum þeirra.  Átti kærandi því óbein eignarréttindi að hluta þeirrar lóðar að Gleráreyrum 1 er mörkuð hafði verið í breyttu deilskipulagi svæðisins er sveitarstjórn samþykkti veitingu hins kærða byggingarleyfis fyrir viðbyggingu á lóðinni hinn 4. september 2007, enda hafði kærandi ekki gefið þau eftir eða misst þau með öðrum hætti.  Eru þessi réttindi enn á forræði hans.  Myndi ákvæði í eignaskiptayfirlýsingu um skiptingu lóðar í sérafnotafleti engu breyta hér um enda fæli slíkt ákvæði ekki í sér breytt eignarráð lóðarréttinda.

Í 4. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga er gert að skilyrði fyrir veitingu byggingarleyfis að samþykki sameigenda liggi fyrir sé um sameign að ræða.  Í ljósi aðstæðna verður að telja að kærandi hafi haft réttarstöðu sameiganda að umræddri lóð og hafi því borið að leita samþykkis hans áður en hin kærða ákvörðun var tekin.   Þar sem þessa var ekki gætt verður hið kærða byggingarleyfi fellt úr gildi með vísan til fyrrgreindar 4. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Akureyrarbæjar frá 25. júlí 2007, sem samþykkt var í skipulagsnefnd 22. ágúst 2007 og staðfest í bæjarstjórn 4. september sama ár, um að veita leyfi fyrir viðbyggingu við verslunarmiðstöðina Glerártorg á lóðinni nr. 1 við Gleráreyrar.

 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

 

__________________________     ________________________
     Ásgeir Magnússon                             Þorsteinn Þorsteinsson

16/2005 Bergstaðastræti

Með

Ár 2007, fimmtudaginn 15. nóvember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 16/2005, kæra á samþykkt byggingarfulltrúans í  Reykjavík um að veita leyfi til að rífa framhlið hússins nr. 12B við Bergstaðastræti og byggja þess í stað viðbyggingu meðfram allri hliðinni.
 
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 16. febrúar 2005, er barst úrskurðarnefndinni hinn 17. sama mánaðar, kærir I, Spítalastíg 7, Reykjavík, samþykkt byggingarfulltrúans í  Reykjavík frá 11. janúar 2005, sem staðfest var í borgarstjórn hinn 18. sama mánaðar, um að veita leyfi til að rífa framhlið hússins nr. 12B við Bergstaðastræti, byggja þess í stað viðbyggingu meðfram allri hliðinni og koma fyrir í húsinu fjórum íbúðum og átta bílastæðum á lóðinni, þar af tveimur er tilheyri hússinu nr. 12B.

Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Málsatvik og rök:  Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 11. janúar 2005 var samþykkt umsókn um leyfi til að rífa framhlið hússins nr. 12B við Bergstaðastræti og byggja þess í stað viðbyggingu meðfram allri hliðinni.  Jafnframt var sótt um leyfi til að koma fyrir fjórum íbúðum í húsinu og átta bílastæðum á lóðinni, þar af tveimur vegna hússins nr. 12B.  Fundargerð afgreiðslufundar byggingarfulltrúa var lögð fram á fundi skipulagsráðs hinn 12. janúar 2005 og samþykkt í borgarstjórn Reykjavíkur hinn 18. janúar s.á. 

Framangreindri ákvörðun byggingarfulltrúa skaut kærandi til úrskurðarnefndarinnar svo sem fyrr greinir. 

Af hálfu kæranda er m.a. vísað til þess að fyrirhugaðar byggingarframkvæmdir á grundvelli deiliskipulags þess er hér um ræði leiði til verulegrar skerðingar á hagsmunum hennar.  Muni þær spilla útsýni og valda verulega mikilli skuggamyndun.

Hið kærða byggingarleyfi heimili að nýbygging með svölum verði reist á lóðarmörkum og aðeins verði sex metrar milli húsa sem geri það að verkum að útsýni og birta skerðist enn frekar, raunar muni útsýni skerðast um 2/3 hluta.   Framan við stofuglugga kæranda muni rísa múr/húsgafl sem taki burt birtu og verði engu líkara en að fá steinsteypa gardínu dregna fyrir stofugluggann.  Sé einsýnt  að framangreindar framkvæmdir muni hafa í för með sér umtalsverða lækkun á verðmæti fasteignar kæranda auk þess sem nýtingarmöguleikar hennar skerðist, þ.m.t. stækkunar- og byggingarmöguleiki. 

Af hálfu Reykjavíkurborgar er vísað til þess að þrátt fyrir athugasemdir kæranda um skerðingu á birtu og útsýni og áhrif á gróður í garðinum að Spítalastíg 7 þá eigi hið kærða byggingarleyfi sér stoð í lögmætu deiliskipulagi.  Ekki hafi verið sýnt fram á að byggingarleyfið fari út fyrir þær heimildir sem lóðarhöfum hafi verið veittar með deiliskipulaginu.  Sé það skoðun Reykjavíkurborgar að byggingarleyfishafar eigi lögvarinn rétt til að fá að byggja við hús sitt í samræmi við þær heimildir sem þeim hafi verið veittar með umræddu deiliskipulagi.

Ekki sé fallist á að kærandi verði fyrir skerðingu eða öðru tjóni vegna hins kærða byggingarleyfis umfram það sem búast megi við í þéttri borgarbyggð sem taki sífelldum breytingum, bæði að því er varði útsýni og skuggavarp, en margstaðfest hafi verið að réttur til óbreytts útsýnis sé ekki bundinn í lög.  Eigendur fasteigna í þéttbýli geti því ávallt vænst þess að breytingar verði gerðar á skipulagi sem haft geti í för með sér skerðingu á útsýni, aukið skuggavarp, umferðaraukningu eða aðrar breytingar.  Verði menn að sæta því að með almennum takmörkunum geti hagsmunir þeirra í einhverju verið skertir með slíkum breytingum.  Þannig hátti til í því máli sem hér um ræði.

Að minnsta kosti sé ljóst að grenndaráhrif hinna umdeildu breytinga á húsinu að Bergstaðastræti 12B séu ekki svo veruleg að leitt geti til ógildingar byggingarleyfisins á grundvelli almennra reglna grenndarréttarins.  Telji kærandi sig hins vegar geta sannað það að hann hafi orðið fyrir tjóni umfram það sem fasteignaeigendur í þéttbýli megi almennt búast við eigi hann sjálfstæðan bótarétt skv. ákvæðum 33. gr. skipulags- og byggingarlaga. Um bótarétt sé úrskurðarnefndin hins vegar ekki bær til að fjalla.

Byggingarleyfishafa var gert kunnugt um kærumál þetta og tekur hann undir sjónarmið þau er Reykjavíkurborg hefur sett fram.  

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um samþykkt byggingarfulltrúans í  Reykjavík frá 11. janúar 2005, sem staðfest var í borgarstjórn hinn 18. sama mánaðar.  Var byggingarleyfi vegna framkvæmdarinnar gefið út af byggingarfulltrúa hinn 4. október 2005.  Enda þótt vinna við jarðvegsskipti hafi verið hafin teljast framkvæmdir samkvæmt hinu kærða leyfi ekki hafa hafist í skilningi 14. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998.

Samkvæmt 1. tl. 1. mgr. 44. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 má gefa út byggingarleyfi þegar sveitarstjórn hefur staðfest samþykkt um veitingu leyfisins að öðrum skilyrðum uppfylltum.  Þá segir í 1. mgr. 45. gr. laganna að byggingarleyfi falli úr gildi hafi byggingarframkvæmdir ekki hafist innan 12 mánaða frá útgáfu þess.

Eins og að framan greinir hófust framkvæmdir í skilningi tilvitnaðs ákvæðis byggingarreglugerðar ekki innan tilskilins frests og féll leyfi byggingarfulltrúa frá 4. október 2005 því úr gildi er ár var liðið frá útgáfu þess.

Hefur kærandi af þessum sökum ekki lengur hagsmuni af því að fá skorið úr um lögmæti hins kærða byggingarleyfis og verður málinu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

 

______________________________                ________________________
         Ásgeir Magnússon                                              Þorsteinn Þorsteinsson 

 

11/2006 Stangarholt

Með

Ár 2007, fimmtudaginn 15. nóvember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 11/2006, kæra á samþykkt skipulagsráðs Reykjavíkur frá 25. janúar 2006 um að heimila byggingu bílskúrs á lóðinni nr. 36 að Stangarholti í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 21. febrúar 2006, er barst nefndinni sama dag, kærir V, eigandi efri hæðar og riss hússins nr. 36 við Stangarholt, þá samþykkt skipulagsráðs Reykjavíkur frá 25. janúar 2006 að veita eigendum á fyrstu hæð hússins leyfi til að byggja bílskúr á lóðinni nr. 36 við Stangarholt.  Borgarráð staðfesti hina kærðu ákvörðun hinn 26. janúar 2006.

Málavextir:  Stangarholt 36 er fjöleignarhús og eru tveir eignarhlutar í húsinu.  Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 24. maí 2005 var tekin fyrir umsókn eiganda neðri hæðar og hluta kjallara fyrrgreinds húss um leyfi til þess að byggja steinsteyptan bílskúr á lóðinni.  Var afgreiðslu málsins frestað með vísan til athugasemda á umsóknarblaði, en meðal annars var tilgreint að samþykki meðeiganda fasteignarinnar þyrfti að liggja fyrir.  Jafnframt var ákveðið að málið yrði sent skipulagsfulltrúa til ákvörðunar um grenndarkynningu að þeim skilyrðum uppfylltum.

Ekki vildu umsækjendur una þessari niðurstöðu og óskuðu álits kærunefndar fjöleignarhúsamála sem taldi að álitsbeiðendur ættu sérstakan rétt til byggingar bílskúrs.  Byggingarleyfisumsóknin var tekin fyrir að nýju á fundi byggingarfulltrúa hinn 29. nóvember 2005 og vísað til skipulagsfulltrúa til ákvörðunar um grenndarkynningu.

Hinn 2. desember 2005 samþykkti skipulagsfulltrúi að grenndarkynna umsóknina fyrir hagsmunaaðilum að Stórholti 45 og 47 og Stangarholti 34 og 36.  Málið var í kynningu frá 8. desember 2005 til 5. janúar 2006.  Bárust athugasemdir frá kæranda máls þessa. 

Á fundi skipulagsráðs hinn 25. janúar 2006 var tekin ákvörðun í samræmi við umsögn lögfræði og stjórnsýslu með eftirfarandi bókun:  „Samþykkt. Með vísan til álitsgerðar kærunefndar fjöleignarhúsamála dags. 9. nóvember 2005 og umsagnar lögfræði- og stjórnsýslu dags. 19. janúar 2006.   Samræmist ákvæðum laga nr. 73/1997…..“

Borgarráð staðfesti afgreiðslu skipulagsráðs á fundi sínum hinn 26. janúar 2006. Byggingarleyfi var gefið út 10. nóvember s.á. en á fundi, hinn 30. október 2007, samþykkti byggingarfulltrúi beiðni um endurnýjun leyfisins og var sú samþykkt staðfest í borgarráði hinn 1. nóvember 2007.

Kærandi skaut fyrrgreindri ákvörðun skipulagsráðs til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir.

Skilja verður kröfugerð kæranda svo að aðallega sé krafist ógildingar á ákvörðun skipulagsráðs.  Til vara er þess krafist að eigendum fyrstu hæðar hússins að Stangarholti 36 verði gert skylt að reisa bílskúrinn í suðausturhorni lóðarinnar verði fallist á rétt þeirra en jafnframt er þess þá krafist að eigandi annarrar hæðar, þ.e. kærandi, öðlist sama rétt til byggingar bílskúrs á lóðinni.

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er á það bent að húsið að Stangarholti 36 sé tvíbýlishús og hafi verið byggt af Byggingarfélagi verkamanna í kringum 1950.  Íbúð kæranda sé ein af 36 íbúðum í níu húsum sem öll séu ámóta að gerð.  Stærð lóða í húsalengjunni sé almennt 364 m² en lóðin að Stangarholti 36 sé 535 m².  Í upphafi hafi verið gert ráð fyrir því að öllum íbúðum við Stangarholt fylgdi réttur til byggingar bílskúra á lóðunum sem ættu að snúa að Stangarholti nema íbúðum í efsta húsinu, þ.e. húsinu að Stangarholti 36, en þar hafi bílskúrar átt að snúa að Nóatúni.  Hljóti þessi staðreynd að liggja fyrir í fundargerðum eða öðrum gögnum frá Byggingarfélagi verkamanna.

Í máli þessu hafi hins vegar orðið illskiljanlegur ruglingur.  Í lóðarskipulagi frá árinu 1949 hafi verið settur inn einfaldur bílskúr í suðvesturhorni lóðarinnar en ekki hafi komið fram hvorri íbúðinni hann fylgdi.  Þá verði ekki séð að þetta lóðarskipulag hafi legið til grundvallar ákvörðunum íbúðareigenda í húsinu því þeir hafi gróðursett tré á þeim stað sem bílskúrnum hafi verið ætlaður samkvæmt skipulaginu.  Til séu samþykktar teikningar frá 1955 þar sem sýndur sé tvöfaldur bílskúr í miðjum sunnanverðum garði hússins og þar hafi verið skipt um jarðveg.  Eigendur fyrstu hæðar hafi nýtt sér lóðarskipulagið frá 1949 og komið því inn í eignarskiptasamning hússins, sem gerður hafi verið árið 2002, að þeir hefðu einir rétt til byggingar bílskúrs.  Þegar þetta hafi komið í ljós hafi verið sett fram ósk um leiðréttingu við Sýslumanninn í Reykjavík og hafi eignarskiptasamningurinn verið leiðréttur á þann veg að íbúð efri hæðar ætti einnig bílskúrsrétt.

Nokkru síðar hafi eigendur neðri hæðar fengið nefnda leiðréttingu fellda úr gildi og hafi þá jafnframt þinglýst bílskúrsrétti á íbúð sína.  Hafi breytingin verið gerð að hagsmunaðilum forspurðum og án þess að bera það undir höfunda eignarskiptasamningsins.

Kærunefnd fjöleignarhúsamála hafi fjallað um málið og komist m.a. að þeirri niðurstöðu að réttur kæranda til bílskúrsbyggingar væri alfarið háður samþykki íbúa neðri hæðar sem muni aldrei fást.  Bílskúrsbygging á þeim stað sem hafi verið samþykktur muni hafa í för með sér að rífa þurfi upp tré og leggja fallegan garð nánast í rúst.  Kærunefndin hafi eingöngu byggt niðurstöðu sína á eignarskiptasamningnum og hvorki forsaga málsins né leiðrétting sú sem gerð hafi verið á fyrrgreindum samningi hafi skipt máli.  Ljóst sé að mistök hafi átt sér stað þegar aðeins ein bílskúrsbygging hafi verið heimiluð á lóðinni að Stangarholti 36 en tvær bílskúrsbyggingar á öðrum lóðum í húsalengjunni.

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Reykjavíkurborg krefst þess að kröfum um ógildingu verði hafnað.

Vísað sé til niðurstöðu kærunefndar fjöleignarhúsamála í máli nr. 33/2005 þar sem fram komi að nefndin telji að sérstakur réttur til byggingar bílskúrs á lóðinni tilheyri eignarhluta 0101, þ.e. neðri hæð og hluta kjallara, en ekki efri hæð hússins.  Þar komi jafnframt fram að kærandi geti með samþykki meðeiganda öðlast rétt til byggingar bílskúrs.

Taki Reykjavíkurborg undir niðurstöðu nefndarinnar enda verði ekki séð að komið hafi fram neinar nýjar upplýsingar sem leiða ættu til öndverðrar niðurstöðu.

Aðilar máls þessa hafa fært fram frekari rök fyrir sjónarmiðum sínum sem óþarft þykir að rekja en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn þess.

Niðurstaða:  Í máli þessu er kærð sú ákvörðun skipulagsráðs Reykjavíkur frá 25. janúar 2006 að veita byggingarleyfi fyrir bílskúr að Stangarholti 36.  Var ákvörðunin tekin með vísan til álits kærunefndar fjöleignarhúsamála í máli nr. 33/2005 og umsagnar lögfræði og stjórnsýslu.  Taldi kærunefndin í áliti sínu að til staðar væri bílskúrsréttur á lóðinni með vísan til lóðarleigusamnings frá 1953, þar sem gert væri ráð fyrir einföldum bílskúr og að réttur til byggingar hans væri eign fyrstu hæðar hússins, eignarhluta 0101, samkvæmt þinglýstum eignaskiptasamningi frá 2002, sbr. 1. mgr. 28. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús. 

Lóðarleigusamningi um lóðina nr. 36 við Stangarholt var þinglýst hinn 22. júní 1953.  Á uppdrætti sem er fylgiskjal með lóðarleigusamningnum er sýndur byggingarreitur á þeim stað þar sem skipulagsráð heimilaði byggingu bílskúrs með hinni kærðu ákvörðun.  Umræddum eignarskiptasamningi var þinglýst 13. ágúst 2002 og kemur þar fram að bílskúrsréttur fylgi eignarhluta 0101 sem er íbúð á fyrstu hæð hússins.  Var skipulagsráði rétt að styðjast við þessar þinglesnu heimildir við ákvörðun sína í málinu og á hér við ákvæði 1. mgr. 28. gr. laga um fjöleignarhús nr. 26/1994 eins og fram kemur í tilvitnuðu áliti kærunefndar fjöleignarhúsamála.  Var því ekki þörf samþykkis kæranda fyrir hinni umdeildu leyfisveitingu.  Breytir það ekki þeirri niðurstöðu að kæranda og byggingarleyfishafa greini á um réttmæti þessara þinglesnu heimilda enda á sá réttarágreiningur undir dómstóla og er það ekki á færi úrskurðarnefndarinnar að skera úr honum.

Ekki þykir heldur skipta máli þótt byggingarleyfi hafi verið veitt fyrir tveimur bílskúrum á lóðinni að Stangarholti 36 á árinu 1955 enda var ekki ráðist í byggingu þeirra og verður því að telja að á grundvelli tómlætis, og með hliðsjón af núgildandi 44. og 45. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, sé sú ákvörðun úr gildi fallin.

Með vísan til framangreinds og þess að ekki verður séð að hin kærða ákvörðun sé haldin öðrum þeim annmörkum er ógildingu varði verður kröfu kæranda um ógildingu  hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Ekki er á færi úrskurðarnefndarinnar að mæla fyrir um breytta staðsetningu umdeilds bílskúrs að Stangarholti 36 og verður kröfu kæranda þar að lútandi vísað frá úrskurðarnefndinni.  Einnig ber að vísa frá kröfu um að kærandi öðlist sama rétt til byggingar bílskúrs og eigendur fyrstu hæðar enda liggur ekki fyrir nein kæranleg ákvörðun borgaryfirvalda um afstöðu til slíks erindis. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun skipulagsráðs Reykjavíkur frá 25. janúar 2006, um byggingu bílskúrs á lóðinni að Stangarholti 36, Reykjavík.  Vísað er frá úrskurðarnefndinni kröfum kæranda um breytta staðsetningu umrædds bílskúrs og að kærandi öðlist sama rétt og byggingarleyfishafi í máli þessu.

 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

 

_____________________________             _____________________________
       Ásgeir Magnússon                                       Þorsteinn Þorsteinsson

 

74/2007 Höfðatorg

Með

Ár 2007, mánudaginn 29. október, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.  

Fyrir var tekið mál nr. 74/2007, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 19. júní 2007 um að heimila byggingu húss á lóðinni nr. 8-16 við Borgartún. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 24. júlí 2007, er barst nefndinni hinn 26. sama mánaðar, kæra H og A, bæði til heimilis að Miðtúni 2 í Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 19. júní 2007 að heimila byggingu 7 til 19 hæða þjónustu- og skrifstofuhúss á lóðinni að Borgartúni 8-16.  Var ákvörðunin staðfest á fundi borgarráðs hinn 21. júní 2007. 

Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.  Þá gerðu og kærendur kröfu um að kveðinn yrði upp til bráðabirgða úrskurður um stöðvun framkvæmda þar til endanleg niðurstaða lægi fyrir í kærumálinu.  Var þeirri kröfu hafnað með úrskurði uppkveðnum hinn 15. ágúst 2007.  

Málsatvik:  Á fundi skipulagsráðs hinn 30. ágúst 2006 var samþykkt að auglýsa tillögu að breyttu deiliskipulagi svæðis er tekur til Borgartúns, Höfðatúns, Skúlagötu og Skúlatúns, svonefnds Höfðatorgs, en fyrir var í gildi deiliskipulag frá árinu 2003.  Kynningartími var frá 29. september til og með 24. nóvember 2006 og bárust athugasemdir við tillöguna, meðal annars frá kærendum.  Á fundi skipulagsráðs hinn 7. febrúar 2007 var tillagan samþykkt og staðfesti borgarstjórn þá afgreiðslu á fundi hinn 20. febrúar s.á.  Skipulagsstofnun staðfesti með bréfi, dags. 3. apríl 2007, að stofnunin gerði ekki athugasemdir við málsmeðferðina og birtist auglýsing um gildistöku deiliskipulagsins í B-deild Stjórnartíðinda hinn 10. apríl 2007.  Fól deiliskipulagsbreytingin m.a. í sér aukið byggingarmagn og hækkun húsa.  Kærendur kærðu þá skipulagsbreytingu til úrskurðarnefndarinnar. 

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 19. júní 2007 var samþykkt að heimila byggingu 4. áfanga 7 til 19 hæða þjónustu- og skrifstofuhúss á lóðinni að Borgartúni 8-16.  Borgarráð staðfesti afgreiðslu skipulagsráðs á fundi sínum hinn 28. júní 2007.  Hafa kærendur nú kært það byggingarleyfi til úrskurðarnefndarinnar. 

Málsrök kærenda:  Af hálfu kærenda er m.a. vísað til þess að þeir hafi kært til úrskurðarnefndarinnar deiliskipulagsbreytingu Höfðatorgs og krafist ógildingar hennar þar sem þeir telji að ekki hafi verið sýnt fram á með raunhæfu umhverfismati hver verði áhrif fyrirhugaðra bygginga, en um sé að ræða framkvæmdir sem háðar séu mati á umhverfisáhrifum.  Ekki hafi verið sýnt fram á áhrif vindhviða eða aukinnar bílaumferðar og mengunar.  Ástandinu við heimili þeirra megi líkja við margra ára heimilisgíslingu, enginn vilji búa á stað þar sem verið sé að brjóta gíg af slíkri stærð að minni á framkvæmdir við Kárahnjúka.  Byggingarleyfishafi hafi boðist til að kaupa fasteign kærenda, langt undir markaðsvirði, sem kærendur túlki sem svo að verið sé að notfæra sér viðkvæmt ástand vegna framkvæmdarinnar. 

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Af hálfu Reykjavíkurborgar er þess krafist að kröfu kærenda verði synjað enda sé hið kærða byggingarleyfi í samræmi við skipulag svæðisins.  Því sé hafnað að framkvæmd sú er um ræði sé háð mati á umhverfisáhrifum enda sé ekki um að ræða matsskylda framkvæmd í skilningi laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000.  Í svörum skipulagsfulltrúa við athugasemdum kærenda við deiliskipulag svæðisins hafi verið greint frá áætlaðri bílaumferð um svæðið ásamt því að byggingarnar séu hannaðar sérstaklega með vind og veðurfar í huga. 

Málsrök byggingarleyfishafa:  Í greinargerð byggingarleyfishafa vegna kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda er því mótmælt að framkvæmdir þær er um ræði hafi þurft að sæta mati á umhverfisáhrifum.  Í 1. mgr. 3. gr. laga nr. 105/2006 um umhverfismat áætlana komi fram að lögin eigi aðeins við um umhverfismat skipulags- og framkvæmdaáætlana, en ekki einstakar byggingarframkvæmdir.  Þá komi einnig fram í ákvæðinu að lögin lúti aðeins að áætlunum er marki stefnu varðandi leyfisveitingar til þeirra framkvæmda sem tilgreindar séu í lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum.  Ljóst sé að þær framkvæmdir er um ræði séu ekki matsskyldar skv. 5. gr. fyrrnefndra laga og teljist ekki heldur framkvæmdir sem hugsanlega geti verið háðar umhverfismati skv. 6. gr. laganna. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um gildi ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 19. júní 2007 um að heimila byggingu 7 til 19 hæða þjónustu- og skrifstofuhúss á lóðinni að Borgartúni 8-16.  Var ákvörðunin staðfest á fundi borgarráðs hinn 21. júní 2007.  Áður höfðu kærendur skotið til úrskurðarnefndarinnar samþykkt skipulagsráðs frá 7. febrúar 2007 um breytt deiliskipulag Höfðatorgs.  Með úrskurði uppkveðnum fyrr í dag var hafnað kröfu kærenda um ógildingu deiliskipulagsbreytingarinnar.     

Af þeim gögnum er lögð hafa verið fyrir úrskurðarnefndina verður ekki annað ráðið en að hið kærða byggingarleyfi eigi sér stoð í gildandi deiliskipulagi svæðisins, sbr. 2. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. 

Ekki eru, með hinu kærða byggingarleyfi, heimilaðar framkvæmdir sem háðar eru mati á umhverfisáhrifum samkvæmt ákvæðum laga nr. 106/2000 og er því hafnað að slíks mats hafi verið þörf í hinu kærða tilviki.

Loks verður ekki séð að hið kærða byggingarleyfi sé haldið neinum þeim annmörkum öðrum er leiða ættu til ógildingar og verður því ekki fallist á kröfu kærenda um ógildingu þess.

Úrskurðarorð: 

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 19. júní 2007 um að heimila byggingu húss á lóðinni nr. 8-16 við Borgartún. 

 

 

___________________________
    Hjalti Steinþórsson          

 

____________________________           ____________________________
           Ásgeir Magnússon                                     Þorsteinn Þorsteinsson        

 
 

133/2007 Birnustaðir

Með

Ár 2007, mánudaginn 29. október, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 133/2007, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Súðavíkurhrepps frá 4. október 2007 um að veita byggingarleyfi fyrir vélageymslu að Birnustöðum í Súðavíkurhreppi. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður
um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 5. október 2007, er barst nefndinni hinn 8. sama mánaðar, kærir Björn Jóhannesson hrl., f.h. M, G, Þ og Á, eigenda fasteignar í landi Birnustaða, Súðavíkurhreppi, þá ákvörðun sveitarstjórnar Súðavíkurhrepps frá 4. október 2007 að veita byggingarleyfi fyrir vélageymslu að Birnustöðum. 

Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi ásamt því að úrskurðarnefndin kveði upp til bráðabirgða úrskurð um stöðvun framkvæmda þar til niðurstaða liggi fyrir í kærumálinu.  Verður krafan um stöðvun framkvæmda nú tekin til úrskurðar.

Málsatvik og rök:  Mál þetta á sér nokkurn aðdraganda en hinn 26. júlí 2007 felldi úrskurðarnefndin úr gildi ákvörðun byggingarnefndar Súðavíkurhrepps frá 30. apríl 2007 um að veita byggingarleyfi fyrir vélageymslu að Birnustöðum í Súðavíkurhreppi.  Í kjölfar úrskurðarins var á  fundi byggingarnefndar Súðavíkurhrepps hinn 27. ágúst 2007 lagt fram erindi þar sem óskað var eftir byggingarleyfi fyrir vélageymslu og ákvað byggingarnefnd að leita meðmæla Skipulagsstofnunar á grundvelli 3. tl. bráðabirgðaákvæðis laga nr. 73/1997 þar sem ekki var fyrir hendi samþykkt deiliskipulag fyrir svæðið.  Í bréfi Skipulagsstofnunar, dags. 13. september 2007, var ekki gerð athugasemd við að sveitarstjórn veitti leyfi fyrir staðsetningu vélageymslunnar á þeim stað sem umsóknin tók til.  Byggingarnefnd Súðavíkurhrepps ákvað á fundi hinn 18. september 2007 að leggja til við sveitarstjórn að umbeðið byggingarleyfi yrði veitt auk þess sem veitt var leyfi til að loka vélaskemmunni en bygging hennar var þá á lokastigi.  Á fundi sveitarstjórnar hinn 4. október 2007 samþykkti sveitarstjórn fundargerð  byggingarnefndar frá 18. september 2007.  Kærendur hafa nú skotið þeirri ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir.

Af hálfu kærenda er vísað til þess að þeir hafi kært niðurstöðu Skipulagsstofnunar frá 13. september 2007 til úrskurðarnefndar þar sem gerð hafi verið krafa um að hún yrði felld úr gildi.  Ekki verði séð að hægt sé að byggja útgáfu byggingarleyfis fyrir vélageymslunni á 3. tl. bráðabirgðaákvæðis skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 þar sem forsenda fyrir hinu kærða byggingarleyfi sé lögmælt meðmæli Skipulagsstofnunar.   Í því sambandi sé bent á að byggingarleyfishafi hafi byrjað framkvæmdir við byggingu vélageymslunnar án þess að hafa til þess tilskilin leyfi byggingaryfirvalda og sveitarstjórnar.  Byggingarleyfið, sem gefið hafi verið út hinn 11. júní 2007, hafi verið fellt úr gildi með úrskurði úrskurðarnefndarinnar.  Samkvæmt  2. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga beri að stöðva byggingarframkvæmdir sem hafnar séu án þess að leyfi sé fengið fyrir þeim eða ef bygging brjóti í bága við skipulag.  Síðan skuli hin ólöglega bygging eða byggingarhluti fjarlægð og jarðrask afmáð.  Hafa beri í huga að 3. tl. til bráðabirgða í lögum sé undantekningarákvæði.  Samkvæmt því beri að leita meðmæla Skipulagsstofnunar áður en framkvæmdir hefjist enda séu meðmæli stofnunarinnar skilyrði þess að sveitarstjórn geti leyft einstakar framkvæmdir.  Ekki verði séð að  hægt  sé að beita fyrrgreindu bráðabirgðaákvæði til að afla eftir á meðmæla frá Skipulagsstofnun þegar fyrir liggi að framkvæmdir hafi verið hafnar án leyfis og byggingarleyfi þegar verið fellt úr gildi.

Þá bendi kærendur á að í gr. 4.11.2 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998 um byggingarreiti fyrir sumarhús komi fram að í deiliskipulagi svæða fyrir frístundabyggð skuli þess gætt að byggingarreitir séu ekki staðsettir nær lóðarmörkum en tíu metra.  Í því tilviki sem hér um ræði sé vélageymslan einungis 2,42 metra frá girðingu, sem kærendur hafi hingað til talið að væri á lóðarmörkum, en girðingin sé 7,82 metra frá sumarhúsi kærenda, þannig að einungis 10,24 metrar séu frá sumarhúsi kærenda að vélageymslunni.  Ný afstöðumynd af lóð sumarhússins sem kærendur hafi látið vinna bendi til að þess vélageymslan sé byggð langt inn á lóð sumarhússins.  Þó svo að miðað væri við að lóðarmörkin væru þar sem núverandi girðing sé, þá séu ekki nema 2,42 metrar frá girðingunni að vélageymslunni og slíkt sé í andstöðu við skýr ákvæði gr. 4.11.2 í skipulagsreglugerð. 

Þá telji kærendur að líta beri til sjónarmiða um meðalhóf þegar tekin sé afstaða til staðsetningar vélageymslunnar og að sumarhús kærenda hafi verið byggt fyrir um 20 árum.  Óumdeilt sé að völ sé á annarri staðsetningu fyrir vélageymsluna þar sem tekið væri jafnt tillit til sjónarmiða kærenda sem og byggingarleyfishafa. 

Kærendur vísi einnig til grenndarsjónarmiða og haldi því fram að byggingin muni valda þeim útsýnisskerðingu, varpa skugga á hús og lóð þeirra, snjósöfnun á lóðinni muni verða veruleg ásamt því að valda þeim miklu ónæði sökum hávaða, vélaumferðar og mengunar frá vélum. 

Af hálfu sveitarfélagsins er vísað til þess að ekki hafi fyrr verið gerð athugasemd við lóðarmörk sumarhúss kærenda, er þeir hafi sjálfir ákvarðað án nokkurra afskipta byggingaryfirvalda.  Byggingaryfirvöld hafi ekkert á móti því að lóðarmörk verði ákvörðuð á annan hátt en verið hafi en slíkt þurfi þó að gerast í samráði við og með samþykki landeiganda.    

Því hafi aldrei verið í móti mælt að hin umrædda bygging hefði nokkur umhverfisáhrif en því sé mótmælt að hún hafi svo mikil áhrif sem kærendur telji og alls ekki svo mikil að leiða eigi til ógildingar byggingarleyfisins. 

Þá sé litið svo á að úrskurður úrskurðarnefndarinnar í málinu nr. 47/2007, er varðað hafi umþrætt byggingarleyfi, hafi eingöngu byggst á þeim sjónarmiðum að hvorki hafi verið fyrir hendi heimild til útgáfu byggingarleyfis, með stoð í grenndarkynningu, né að leitað hafi verið umsagnar Skipulagsstofnunar með fullnægjandi hætti, með vísan til 3. tl. bráðabirgðaákvæðis skipulags- og byggingarlaga, nr. 73/1997.  Ekki hafi af hálfu úrskurðarnefndarinnar verið gerðar efnislegar athugasemdir varðandi byggingarframkvæmdirnar, svo sem að þær brytu í bága við grenndarsjónarmið o.þ.h., og því verði að álykta sem svo að nefndin hafi ekki talið slíka annmarka á framkvæmdunum.  Komið hafi verið til móts við athugasemdir úrskurðarnefndarinnar að þessu leyti, með því að leitað hafi verið umsagnar Skipulagsstofnunar á grundvelli fyrrgreinds ákvæðis í kjölfar umsóknar um byggingarleyfi vegna umræddrar vélaskemmu.  Með bréfi Skipulagsstofnunar, dags. 13. september 2007, hafi ekki verið gerð athugasemd við að byggingarleyfi yrði veitt vegna staðsetningar umræddrar vélaskemmu á þeim stað sem tilgreindur hafi verið í byggingarleyfisumsókn.

Af hálfu byggingarleyfishafa er kröfum kærenda mótmælt og bent á að verði krafa um stöðvun framkvæmda tekin til greina verði hann fyrir fjárhagslegu tjóni áður en efnisleg niðurstaða liggi fyrir hjá nefndinni.  Mál þetta hafi nú dregist í meira en tvö ár og hafi byggingarleyfishafi í einu og öllu fylgt fyrirmælum byggingarfulltrúa varðandi framkvæmdir og haldið að sér höndum.  Hafi á þeim tíma orðið tjón á vélarkosti sem hafi staðið óvarinn og erfitt sé að sinna viðhaldi hans vegna skorts á aðstöðu.  Byggingarleyfishafi eigi ríka hagsmuni af því að halda framkvæmdum áfram og stöðvun framkvæmda nú hefði slæm áhrif á uppbyggingu og rekstur jarðarinnar.  Sjónarmið kærenda, eins og þau komi fram í kæru til nefndarinnar, styðji ekki þá niðurstöðu að hagsmunir þeirra séu ríkari að þessu leyti og sé athygli vakin á því að ekki séu lögð fram nein haldbær gögn um þau áhrif sem kærendur telji að framkvæmdin hafi.  Vegist þannig á hagsmunir sumarhúsaeigenda, sem eiga sumarhús á bæjarhellu lögbýlis, og nýti það yfir sumartímann og eigenda jarðarinnar sem leitist við að reka jörð sína sómasamlega og með hagnaði allt árið um kring.  Þá sé bygging hússins langt komin og augljóst að fjárhagslegt tjón leiði af stöðvun framkvæmda nú.  Kærendur eigi önnur úrræði gagnvart sveitarfélaginu telji þeir á rétt sinn gengið.  Með hliðsjón af meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skuli stjórnvald aðeins taka íþyngjandi ákvörðun þegar lögmætu markmiði sem að sé stefnt verði ekki náð með öðru og vægara móti.  Sé gerð sú krafa af hálfu byggingarleyfishafa að ekki verði farið strangar í sakirnar en nauðsyn beri til. 

Niðurstaða:  Samkvæmt 6. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 getur kærandi krafist þess að úrskurðarnefndin kveði upp úrskurð um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða meðan mál er til meðferðar fyrir nefndinni.  Er ákvæðinu ætlað að gera nefndinni kleift að tryggja að réttarstöðu aðila verði ekki breytt til muna meðan mál er þar til meðferðar án þess að afstaða hafi verið tekin til efnis máls.  Felur ákvæðið hins vegar ekki í sér viðurlög af neinu tagi enda um þau fjallað í VI. kafla laganna.

Í máli þessu liggur fyrir að vélaskemma sú, sem hin kærða samþykkt heimilar, er risin og að unnið er að lokafrágangi hennar.  Verður ekki séð að stöðvun framkvæmda hafi hér eftir neina sérstaka þýðingu með tilliti til hagsmuna kærenda, enda verða allar framkvæmdir við umrædda byggingu að teljast unnar á ábyrgð og áhættu byggingarleyfishafa meðan kærumál um lögmæti byggingarleyfisins er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. 

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um að framkvæmdir við byggingu vélageymslu að Birnustöðum, Súðavíkurhreppi, skuli stöðvaðar meðan kærumál þetta er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.

 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

 

__________________________           ___________________________
     Ásgeir Magnússon                                 Þorsteinn Þorsteinsson  

 

 

97/2007 Sómatún

Með

Ár 2007, þriðjudaginn 23. október, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 79/2007, kæra á ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúans á Akureyri frá 18. júlí 2007 um að heimila byggingu einbýlishúss, að hluta til á tveimur hæðum, á lóðinni nr. 6 við Sómatún. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 3. ágúst 2007, er barst nefndinni sama dag, kærir Óskar Sigurðsson hrl., f.h. K og A, til heimilis að Sómatúni 4 og H og E, til heimilis að Sómatúni 8, þá ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúans á Akureyri frá 18. júlí 2007 að heimila byggingu einbýlishúss, að hluta á tveimur hæðum, á lóðinni nr. 6 við Sómatún á Akureyri.  Greind ákvörðun var staðfest í bæjarráði Akureyrar hinn 2. ágúst 2007. 

Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.  Jafnframt var krafist bráðabirgðaúrskurðar um stöðvun framkvæmda þar til endanleg niðurstaða lægi fyrir í kærumálinu.  Úrskurðarnefndin féllst á kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda í bráðabirgðaúrskurði uppkveðnum hinn 22. ágúst sl. 

Málavextir:  Á svæði því sem lóðir kærenda og byggingarleyfishafa tilheyra er í gildi deiliskipulag Naustahverfis, 2. áfangi, frá árinu 2005. 

Hinn 24. maí 2006 veitti skipulags- og byggingarfulltrúi leyfi fyrir byggingu einbýlishúss að Sómatúni 6 sem skyldi vera að hluta til á tveimur hæðum.  Er lóðarhafa að Sómatúni 4 varð kunnugt um útgáfu leyfisins kom hann hinn 31. júlí 2006 á framfæri athugasemdum við bæjaryfirvöld þess efnis að samkvæmt gildandi skipulagi ætti einungis að vera einnar hæðar hús á umræddri lóð. 

Málið var tekið fyrir á fundi umhverfisráðs Akureyrar 16. ágúst 2006 þar sem athugasemdum kærenda var hafnað með vísan til þess að nægjanlegt svigrúm væri til þess í skilmálum skipulagsins að heimila byggingu húss að Sómatúni 6 sem að hluta til væri á tveimur hæðum.  Kærendur voru ekki sáttir við þær málalyktir og skutu málinu til úrskurðarnefndarinnar sem vísaði kærunni frá hinn 3. október 2006 með þeim rökum að ekki lægi fyrir lokaákvörðun um veitingu umdeilds byggingarleyfis þar sem sveitarstjórn hefði ekki staðfest leyfið.  Í kjölfar úrskurðarins staðfesti bæjarstjórn umdeilt byggingarleyfi sem skipulags- og byggingarfulltrúi hafði veitt hinn 24. maí 2006 og var sú byggingarleyfisveiting kærð til úrskurðarnefndarinnar. 

Með úrskurði úrskurðarnefndarinnar frá 27. október 2006 var fyrrgreint byggingarleyfi fyrir einbýlishúsi að Sómatúni 6 fellt úr gildi þar sem það var talið andstætt samþykktu deiliskipulagi svæðisins frá árinu 2005 að heimila byggingu tveggja hæða húss á lóðinni.  Ákvað bæjarstjórn hinn 14. mars 2007 að auglýsa breytingu á deiliskipulagi hverfisins þar sem heimilað var að reisa eins til tveggja hæða einbýlishús að Sómatúni 4, 6 og 8 af gerðinni HIII í stað einnar hæðar húsa af gerðinni HI.  Var deiliskipulagstillögunni andmælt, þar á meðal af hálfu kærenda. 

Á fundi skipulagsnefndar hinn 16. maí 2007 var tillagan samþykkt með eftirfarandi bókun:  „Hönnuðir deiliskipulagsins hafa skýrt út með breytingartillögunni, grunnhugsun og hugmyndafræði deiliskipulagsins varðandi byggingu einbýlishúsa þar sem landhalli er fyrir hendi.  Skipulagsnefnd telur að með breytingu þessari sé verið að skýra og leiðrétta misræmi, annars vegar á uppdráttum og í sérskilmálum til þess að fyrirbyggja mismunandi túlkun deiliskipulagsskilmála við afgreiðslu mála í hverfinu til framtíðar.  Meirihluti skipulagsnefndar leggur til við bæjarstjórn að deiliskipulagsbreytingin verði samþykkt og skipulags- og byggingarfulltrúa falið að annast gildistöku hennar.“   Staðfesti bæjarstjórn skipulagsbreytinguna á fundi hinn 22. maí 2007.  Skipulagsstofnun staðfesti með bréfi, dags. 14. júní 2007, að stofnunin gerði ekki athugasemdir við málsmeðferðina og birtist auglýsing um gildistöku deiliskipulagsins í B-deild Stjórnartíðinda hinn 5. júlí 2007.  Hafa kærendur skotið þeirri deiliskipulagsákvörðun til úrskurðarnefndarinnar. 

Á afgreiðslufundi skipulags- og byggingarfulltrúa hinn 18. júlí 2007 var samþykkt að heimila byggingu einbýlishúss á þremur pöllum á lóðinni nr. 6 við Sómatún og staðfesti bæjarráð þá ákvörðun á fundi hinn 2. ágúst 2007.  Kærendur hafa nú skotið þeirri ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir. 

Málsrök kærenda:  Af hálfu kærenda er vísað til þess að þau hafi áður kært til úrskurðarnefndarinnar deiliskipulagsbreytingu þá er taki til lóðanna að Sómatúni 4, 6 og 8 og krafist ógildingar hennar.  Verði deiliskipulagsbreytingin felld úr gildi leiði það til þess að jafnframt beri að fella hið kærða byggingarleyfi úr gildi. 

Hvað sem líði gildi hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar fari umdeilt byggingarleyfi gegn skipulagsskilmálum. Þar segi að jarðvegspúðar séu bannaðir, en á aðaluppdráttum fyrir Sómatún 6 komi fram að húsið standi að hluta á jarðvegspúða þar sem búið sé að hækka það upp að framan. 

Málsrök Akureyrarbæjar:  Af hálfu Akureyrarbæjar er á það bent að hið kærða byggingarleyfi sé í samræmi við lögformlegt skipulag svæðisins svo sem því hafi nú verið breytt.  Tilgangur umdeildrar skipulagsbreytingar hafi verið sá að skýra og leiðrétta misræmi sem fyrir hafi verið milli skipulagsuppdráttar og skipulagsskilmála eins og fram komi í bókun skipulagsnefndar um samþykkt breytingarinnar. 

Því sé vísað á bug að húsið nr. 6 við Sómatún standi samkvæmt aðaluppdráttum á jarðvegspúða í bága við gildandi skipulagsskilmála.  Ef skoðuð sé ásýndarmynd af götunni, séð til vesturs, komi í ljós að meðaltalsfrávikið frá götu og upp á gólfkóta hússins sé 10-15 cm fyrir miðju húss sem sé eðlileg hæðarsetning miðað við aðstæður.  Þar sem landhæð vex til vesturs, velji lóðarhafi að stalla húsið í landið og hanni bygginguna með það í huga að hluti hússins verði á tveimur hæðum en haldi sig innan marka skilmálaskýringarmynda varðandi hámarkshæð. 

Andmæli byggingarleyfishafa:  Af hálfu byggingarleyfishafa er gerð sú krafa að veiting hins kærða byggingaleyfis verði staðfest. 

Hið kærða byggingarleyfi sé í samræmi við gildandi deiliskipulag en byggingarleyfishafi hafi komið á framfæri við úrskurðarnefndina athugasemdum sínum vegna kæru á breytingu á því skipulagi er snerti lóð hans.  Verði ekki séð með hvaða hætti heimiluð bygging snerti lögvarða hagsmuni kærenda enda hafi fyrirhugað hús engin grenndaráhrif gagnvart kærendum umfram það sem búast hafi mátt við að óbreyttu deiliskipulagi. 

Byggingarleyfishafi telji að misskilnings gæti hjá kærendum um að umrætt hús standi á jarðvegspúða og hvað varði túlkun á skipulagsskilmálunum í því efni.  Í þessu máli sé ekki til úrlausnar frágangur á lóð við húsið svo að þessi rök kærenda geti ekki átt við. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um veitingu byggingarleyfis fyrir einbýlishúsi, að hluta til á tveimur hæðum, á lóðinni nr. 6 við Sómatún á Akureyri í kjölfar breytingar á deiliskipulagi svæðisins þar sem heimilað var að reisa eins til tveggja hæða hús á greindri lóð. 

Í úrskurði úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 79/2006, er varðaði áður útgefið byggingarleyfi fyrir einbýlishúsi að Sómatúni 6 og í bráðabirgðaúrskurði í kærumáli þessu uppkveðnum hinn 22. ágúst sl., byggði úrskurðarnefndin á því að kærendur máls þessa ættu kæruaðild vegna byggingar umdeilds húss.  Eiga sömu sjónarmið við um kæruaðild í þessu máli og verður málinu ekki vísað frá sökum aðildarskorts kærenda. 

Úrskurðarnefndin hefur fyrr í dag kveðið upp úrskurð í kærumáli vegna fyrrgreindrar deiliskipulagsbreytingar þar sem hún var felld úr gildi.  Að þeim úrskurði gengnum á hið kærða byggingarleyfi ekki stoð í gildandi skipulagi og verður það því fellt úr gildi með vísan til 2. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. 

Úrskurðarorð:

Ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Akureyrar frá 18. júlí 2007, er bæjarráð Akureyrar staðfesti hinn 2. ágúst sama ár, um að veita byggingarleyfi fyrir einbýlishúsi, að hluta til á tveimur hæðum, á lóðinni nr. 6 við Sómatún á Akureyri, er felld úr gildi. 

 

___________________________
                               Hjalti Steinþórsson                                 

 

_____________________________             ____________________________
           Ásgeir Magnússon                                        Þorsteinn Þorsteinsson