Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

149 og 150/2018 Bæjargarður

Með

Árið 2019, fimmtudaginn 14. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 149/2018, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Garðabæjar frá 18. október 2018 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Bæjargarðs vegna upp­setningar á ljósamöstrum við íþróttavöll.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 23. desember 2018, er barst nefndinni 24 s.m., kærir eigandi, Túnfit 1, Garðabæ, þá ákvörðun bæjarstjórnar Garðabæjar frá 18. október 2018 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi. Bæjargarðs vegna uppsetningar á lýsingu fyrir íþróttavöll. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Jafnframt er þess krafist að sveitarfélaginu verði gert að stöðva allar framkvæmdir á Bæjargarðssvæðinu þar til fullunnin og samþykkt hönnunargögn liggi fyrir. Þá er þess krafist að úrskurðarnefndin geri alvarlegar athugasemdir við vinnubrögð bæjarritara Garðabæjar og áminni hann fyrir rangfærslur.

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 24. desember 2018, er barst nefndinni sama dag, kærir sami aðili ákvörðun byggingarfulltrúans í Garðabæ frá 30. nóvember s.á. um að samþykkja umsókn um byggingarleyfi fyrir ljósamöstrum við íþróttavöll í Bæjargarði. Er þess krafist að hið kærða byggingarleyfi verði fellt úr gildi og jafnframt að framkvæmdir verði stöðvaðar til bráðabirgða. Með hliðsjón af því að sami aðili stendur að báðum kærumálunum, og að hinar kærðu ákvarðanir eru samofnar, verður síðara kærumálið, sem er nr. 150/2018, sameinað máli þessu.

Með tölvupósti til úrskurðarnefndarinnar frá 8. febrúar 2019 fóru eigendur, Túnfit 2, Garðabæ, fram á að þeim verði heimilað að gerast meðkærendur í fyrrgreindu máli vegna breytingar á deiliskipulagi Bæjargarðs.

Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til framkominnar stöðvunarkröfu.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Garðabæ 10. og 24. janúar 2019.

Málavextir: Deiliskipulag Bæjargarðs er frá árinu 2007 og samkvæmt greinargerð þess var gert ráð fyrir opnu svæði með stígum, trjá- og runnagróðri, sem og fjölbreytilegri leikja- og útivistaraðstöðu. Hinn 3. mars 2017 tók gildi breyting á deiliskipulaginu, sem fól í sér að gert var ráð fyrir „sérútbúnum boltaflötum“. Í kjölfarið samþykkti bæjarstjórn Garðabæjar 18. maí 2017 umsókn bæjarverkfræðings, sem fól m.a. í sér gerð gervigrasvallar í Bæjargarði.

Á fundi bæjarráðs Garðabæjar 3. júlí 2018 var samþykkt tillaga skipulagsnefndar um að auglýsa breytingu á deiliskipulagi Bæjargarðs. Í breytingunni fólst að gert yrði ráð fyrir sex 9,15 m háum ljósamöstrum við völlinn. Tillagan var auglýst til kynningar 26. s.m. með fresti til athugasemda til 6. september s.á. Alls bárust níu athugasemdir, m.a. frá kæranda. Að kynningu lokinni var tillagan lögð að nýju fram á fundi skipulagsnefndar 17. september s.á. ásamt innsendum athugasemdum. Var málinu vísað til tækni- og umhverfissviðs til nánar úrvinnslu. Hinn 5. október s.á. tók tækni- og umhverfissvið saman umsögn með svörum við nefndum athugasemdum og var skipulagstillagan samþykkt á fundi bæjarstjórnar 18. s.m. Tók deiliskipulagsbreytingin gildi með auglýsingu þar um sem birt var í B-deild Stjórnartíðinda 23. nóvember 2018.

Hinn 30. nóvember 2018 samþykkti byggingarfulltrúinn í Garðabæ umsókn tækni- og umhverfissviðs bæjarins um byggingarleyfi fyrir ljósamöstrum við gervigrasvöll í Bæjargarði. Á fundi bæjarráðs 4. desember s.á. var afgreiðsla byggingarfulltrúans samþykkt og mun byggingarleyfi hafa verið gefið út sama dag.

Málsrök kæranda: Kærandi vísar til þess að í áraraðir hafi staðið til að byggja bæjargarð á svæði sunnan Hraunholts og hafi svæðið síðan gengið undir nafninu Bæjargarður. Á árinu 2016 hafi Garðabær kynnt breytingar á deiliskipulagi svæðisins þar sem tvær boltaflatir hafi verið afmarkaðar á aðaluppdrætti, en önnur boltaflötin hefði þá verið notuð af börnum um margra ára skeið. Sveitarfélagið hafi fullyrt að hin boltaflötin yrði til almenningsnota og í skriflegum svörum sveitarfélagsins til íbúa hafi komið fram að hvorki væri gert ráð fyrir lýsingu né girðingu umhverfis flötina. Hvorki kærandi né aðrir hafi því séð ástæðu til að gera athugasemdir við deiliskipulagsbreytinguna.

Vorið 2017 hafi Garðabær borið út einblöðung í hús í nágrenninu til þess að vara við ónæði vegna framkvæmda við nýjan „minni knattspyrnuvöll“ í Bæjargarði. Sveitarfélagið hafi hafið framkvæmdir samdægurs. Við eftirgrennslan hafi íbúar komist að því að sveitarfélagið hafi staðið fyrir útboði þremur mánuðum fyrr á „nýjum æfingavelli“ við „[í]þróttasvæði í Ásgarði“. Samkvæmt gögnum útboðsins hafi verið áætlað að reisa upphitaðan gervigrasvöll sem yrði lýstur upp með sex 15 metra háum ljósamöstrum. Völlurinn hafi verið kyrfilega skilgreindur sem „æfingavöllur“ fyrir „íþróttasvæði Stjörnunnar í Ásgarði“ og átt að „uppfylla sameiginlegar kröfur FIFA [Alþjóða knattspyrnusambandsins] og UEFA [Knattspyrnusambands Evrópu] um knattspyrnugrasvelli“. Sveitarfélagið hafi því ætlað sér að reisa alþjóðlegan knattspyrnuvöll í Bæjargarðinum.

Framkvæmdir hafi hafist áður en hönnun lýsingar og girðingar hafi legið fyrir. Sé það brot á 11. gr. reglugerðar nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi, en þar segi: „Heimilt er að samþykkja og gefa út framkvæmdaleyfi fyrir matsskyldri framkvæmd þótt nákvæm hönnunargögn liggi ekki fyrir varðandi alla áfanga framkvæmdarinnar. Í framkvæmdaleyfinu skal þá koma fram að fullunnin og samþykkt hönnunargögn skuli liggja fyrir áður en hefja megi framkvæmdir við einstaka áfanga framkvæmdarinnar.“ Íbúar hafi kært framkvæmdaleyfið til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála þar sem farið hafi verið fram á stöðvun framkvæmda til bráðabirgða. Úrskurðarnefndin hafi hafnað stöðvunarkröfunni á þeim forsendum að um jarðvegs- og yfirborðsframkvæmdir væri að ræða og hægt væri að „koma umræddu svæði í fyrra horf án mikillar fyrirhafnar“. Þetta hafi reynst rangar forsendur. Í greinargerð Garðabæjar í málinu hafi því verið haldið fram að í hugtakinu „boltaflöt“ felist „augljóslega heimild fyrir upphituðum, afgirtum og upplýstum gervigrasvelli eins og hér um ræðir“. Þá hafi því verið haldið fram að boltaflötin sé í „almenningsgarði og verði opin fyrir almenningi á sama tíma og hann verði einnig notaður fyrir skipulagðar æfingar barna og ungmenna í bæjarfélaginu.“ Rangfærsla sveitarfélagsins sé endanlega ljós í samningi bæjarins við Ungmennafélagið Stjörnuna, en þar sé félaginu veitt full yfirráð yfir vellinum, hann verði aflæstur og félaginu verði heimilt að leigja hann út til þriðja aðila sér til tekjusköpunar. Allt verði það á kostnað aðgangs almennings að boltaflötinni.

Hinn 17. október 2017 hafi Garðabær gefið út framkvæmdaleyfi fyrir ljósabúnaði við boltaflötina. Kærandi hafi kært framkvæmdaleyfið til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Tæpu ári síðar hafi úrskurðarnefndin kveðið upp frávísunarúrskurð þar sem sveitarfélagið hafi breytt áætlunum sínum í millitíðinni. Allan þann tíma hafi Garðabær fengið að halda áfram óáreittur við framkvæmdir í Bæjargarði án þess að íbúar fengju rönd við reist því dráttur úrskurðarnefndarinnar hafi haldið málinu í gíslingu. Hinn 8. janúar 2018 hafi fengist staðfesting frá Skipulagsstofnun á því að ljósamöstrin krefðust breytingar á deiliskipulagi, en Garðabær hafi hunsað þá niðurstöðu. Samkvæmt 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hafi sveitarfélaginu borið að afhenda gögn til úrskurðar­nefndarinnar innan 30 daga frá því að kæra var lögð fram, en sveitarfélagið hafi tekið rúmlega fjóra mánuði til þess.

Ljóst sé að auglýsing deiliskipulagstillögunnar uppfylli ekki kröfur laga. Garðabær hafi auglýst fyrirhugaða breytingu á deiliskipulagi 26. júlí 2018, en hinn 5. september s.á. hafi sveitarfélagið bætt við sérstökum skýringaruppdrætti þar sem fram komi mikilvæg atriði sem ekki hafi áður komið fram. Meðal annars hafi loftmynd verið breytt, lögun á mönum verið bætt við uppdrátt ásamt nákvæmum sniðmyndum af áhrifum ljósamastra á nágrennið. Frestur hafi verið óbreyttur eða til næsta dags. Auglýsingin brjóti því í bága við skipulagslög, sem geri kröfur um að auglýsing sé birt með nauðsynlegum gögnum og sex vikur veittar til að gera athugasemdir.

Í athugasemdum Skipulagsstofnunar frá 20. janúar 2017 sé fjallað um breytingar Garðabæjar á deiliskipulagi Ásgarðs. Athugasemdirnar nái m.a. til ljósamastra, en þar segi: „Skipulagsstofnun hefur farið yfir framlögð gögn og gerir athugasemd við að sveitarstjórn birti auglýsingu um samþykkt deiliskipulagsbreytingarinnar í B-deild Stjórnartíðinda sbr. eftirfarandi atriði: […] Skilmála vantar fyrir ljóskastara á möstrum, um skermum og takmarkanir sem við geta átt (s.s. á hvaða tímum sólarhrings notkun er heimil).“ Í hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu sé ekkert fjallað um takmarkanir notkunar á ljósamöstrum og íþróttavellinum, s.s. á hvaða tímum sólarhrings notkun sé óheimil. Þá hafi Garðabær ekki sent öll nauðsynleg gögn til Skipulagsstofnunar þegar stofnunin hafi fjallað um auglýsinguna vegna deiliskipulagsbreytinganna. Sveitarfélagið hafi þannig hvorki sent þangað athugasemdir kæranda né annarra íbúa og því hafi stofnunin ekki getað vitað af efni þeirra. Þetta sé brot á kröfum laga um meðferð deiliskipulagsbreytinga.

Í Aðalskipulagi Garðabæjar 1995-2015 hafi verið kynntar hugmyndir um svokallaðan Bæjargarð. Í gildandi aðalskipulagi séu áform um Bæjargarð staðfest. Í greinargerð deiliskipulags Bæjargarðs frá 2007 segi m.a. að gert sé ráð fyrir stígum, trjá- og runnagróðri, sem og fjölbreytilegri leikja- og útivistarstöðu. Þá sé gert ráð fyrir mótun lands, svo sem útsýnishæð, áhorfenda- og sleðabrekku og frágangi á lækjarbökkum, sérstaklega í námunda við félagsheimili Stjörnunnar. Ljóst sé að áform um að reisa upphitaðan, upplýstan knattspyrnuvöll með gervigrasi, sex 9,15 m ljósamöstrum og 2 m hárri læstri stálvírsgirðingu, sem uppfylli kröfur Alþjóða knattspyrnusambandsins FIFA og Knattspyrnusambands Evrópu, samræmist ekki aðalskipulaginu, en þar sé svæðið skilgreint sem opið svæði. Slíka velli sé eingöngu heimilt að reisa á skilgreindum íþróttasvæðum. Þá falli Bæjargarður innan svokallaðra „Grænna geira“ samkvæmt Aðalskipulagi Garðabæjar 2004-2016, sem tengi byggð við upplands- og strandsvæði í Gálgahrauni, en þar komi fram að samkvæmt svæðisskipulagi skuli ekki reisa neinar byggingar eða mannvirki sem dragi úr tengslum upplandsins við ströndina. Ljósamöstrin og girðingin séu mannvirki samkvæmt skilgreiningu laga, enda þurfi að gefa út byggingarleyfi fyrir þeim. Bæði ljósamöstrin og knattspyrnuvöllurinn dragi úr tengslum upplandsins við ströndina, enda sé mikill farartálmi af slíkum velli þar sem girðingar hindri umferð og ljósamöstrin verði áberandi hluti af ferðlagi hvers þess sem ferðist um svæðið.

Við gerð deiliskipulags sé skylt lögum samkvæmt að fjalla um áhrif deiliskipulagsbreytinga á umferð og öryggi. Með breytingu á boltaflöt í íþróttaflöt verði aukin umferð um Bæjargarðssvæðið og þörf á aðgengi fyrir fatlaða o.þ.h. Engin umfjöllun sé um þetta í auglýsingu Garðabæjar eða öðrum gögnum. Gera verði kröfu um að sveitarfélagið fjalli um slíkt.

Með núverandi áformum um deiliskipulagsbreytingar sé Garðabær að viðurkenna að bærinn hafi brotið gegn gildandi deiliskipulagi og sé að reyna að bjarga málum eftir á. Slíkt sé brot á stjórnsýslulögum og efni mögulegrar stjórnsýslukæru. Í fyrri greinargerðum sveitarfélagsins til úrskurðarnefndarinnar hafi verið færð ítarleg rök fyrir því að hinn alþjóðlegi knattspyrnuvöllur falli innan þágildandi deiliskipulags. Í svari sveitarfélagsins við fyrirspurnum kæranda segi að það sé skoðun þess að ekki þurfi í deiliskipulagi að gera sérstaka grein fyrir lýsingu vallarins. Sveitarfélagið hafi ekki fært nein rök fyrir því að breyta þurfi deiliskipulaginu og því beri að hafna henni.

Samkvæmt 11. gr. reglugerðar nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi sé gerð krafa um að fullunnin og samþykkt hönnunargögn liggi fyrir áður en hefja megi framkvæmdir. Kærandi fari fram á að allar framkvæmdir við Bæjargarðssvæðið verði stöðvaðar þar til ákvæði nefnds reglugerðarákvæðis sé uppfyllt. Þá hafi Garðabær orðið uppvís að því að afvegaleiða úrskurðarnefndina í tveimur greinargerðum bæjarins frá 19. júní 2017 og 22. mars 2018. Sé þessi málatilbúnaður þess eðlis að úrskurðarnefndin geti ekki látið hann óátalinn. Sé því farið fram á að úrskurðarnefndin geri alvarlegar athugasemdir við vinnubrögð bæjarritara Garðabæjar og áminni hann fyrir rangfærslurnar.

Að því er varði kröfu kæranda um að fella byggingarleyfi fyrir ljósamöstrunum úr gildi vísar kærandi til þess að í athugasemdum Skipulagsstofnunar komi fram að í skilmálum þurfi að koma fram takmarkanir sem eigi við um notkun ljósamastara. Byggingarleyfið hafi ekki að geyma þá skilmála sem Skipulagsstofnun geri ráð fyrir. Ekki sé að sjá á gögnum frá byggingarfulltrúa að fjallað hafi verið um þessar kröfur. Einnig komi fram í nefndum athugasemdum stofnunarinnar að gera þurfi grein fyrir áhrifum ljósamastra á umhverfið, þ. á m. gagnvart íbúum í nágrenninu. Í gögnunum sé að finna myndir af „blanket spill“, sem sýni áhrif á allra næsta nágrenni vallarins en nái ekki til næstu íbúðarhúsa við Túnfit. Þá sé birtumagn samkvæmt gögnum frá byggingarfulltrúa langt umfram heimildir í deiliskipulagi. Samkvæmt deiliskipulaginu verði birtumagn lýsingar 200 lúx en í gögnum frá byggingarfulltrúa komi fram að birtustig sé miklu meira, eða allt að 354 lúx. Vegna þessa atriðis hafi kærandi sent fyrirspurn til Skipulagsstofnunar og svar hennar, dags. 14. janúar 2019, hafi verið á þann veg að „líta beri til 200 lux sem hámarkslýsingar.“ Byggingarleyfið uppfylli því ekki skilyrði laga og beri að fella úr gildi.

Varðandi fullyrðingu Garðabæjar um að 200 lúx lýsing sé „sambærileg við götulýsingu“ þá hafi bæði Veitur og HS Veitur hafnað því. Götulýsing á Íslandi sé byggð á ÍST EN 13201 staðlinum um veglýsingu, sem gefinn sé út af Staðlaráði Íslands. Ljóstæknifélag Íslands hafi staðfest að samkvæmt staðlinum sé lýsing við götustíga að jafnaði 5-10 lúx. Sú lýsing sem Garðabær áformi sé því 20-40 sinnum meiri en götulýsing.

Engin dæmi finnist frá öðrum sveitarfélögum um að sambærilegt íþróttamannvirki sé reist á skilgreindu opnu svæði samkvæmt aðalskipulagi. Til samanburðar sé bent á deiliskipulagsbreytingu Reykjavíkurborgar á útivistarsvæði í Úlfarsárdal frá júní 2008. Í greinargerð deiliskipulags þess svæðis komi fram að íþróttavöllur sem þar um ræði sé á skipulögðu íþróttasvæði en ekki opnu svæði. Lýsing á vellinum sé frá 200 lúx og skilgreind sem flóðlýsing. Þá sé skýrt kveðið á um það hvenær lýsing verði á svæðinu, þ.m.t. á hvaða tímum ársins og klukkan hvað.

Frekari rök og sjónarmið kæranda liggja fyrir í málinu sem ekki verða rakin hér nánar, en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Málsrök Garðabæjar: Af hálfu sveitarfélagsins er vísað til þess að krafa kæranda um stöðvun allra framkvæmda á Bæjargarðssvæðinu, þar til fullunnin og samþykkt hönnunargögn liggi fyrir, feli ekki í sér kröfu um stöðvun framkvæmda á grundvelli 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, þar sem krafan sé ekki bundin við framkvæmdir á grundvelli hinnar kærðu ákvörðunar. Krafist sé miklu víðtækari stöðvunar, auk þess sem henni sé ætlað að vara þar til fullunnin og samþykkt hönnunargögn liggi fyrir, en ekki aðeins þar til úrskurður gengur í málinu. Hvergi sé að finna heimild í lögum til þess að úrskurðarnefndin stöðvi framkvæmdir með þeim hætti sem hér sé krafist. Þá sé krafa kæranda um að úrskurðarnefndin geri athugasemdir við vinnubrögð bæjarritara og áminni hann ekki studd neinum haldbærum rökum. Úrskurðarnefndin hafi engar slíkir heimildir og valdsvið hennar sé afmarkað með skýrum hætti í 1. gr. laga nr. 130/2011. Fyrrnefndum kröfum beri að vísa frá.

Með hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu sé einungis veitt heimild til að setja upp lýsingu við íþróttavöll sem eigi sér stoð í gildandi deiliskipulagi fyrir umrætt svæði. Kærandi reyni að koma að ýmsum málsástæðum sem lúti að gildi deiliskipulags svæðisins frá 2007, með þeirri breytingu sem gerð hafi verið haustið 2016, þegar samþykkt hafi verið ákvæði í deiliskipulagi svæðisins um íþróttavöll þann sem hér um ræði. Megi raunar segja að flestar málsástæður kæranda varði ekki hina kærðu ákvörðun heldur lúti að gildi þess deiliskipulags sem fyrir hafi gilt á svæðinu. Geti þær því ekki komið til álita við úrlausn málsins.

Framsetning umræddrar skipulagstillögu í auglýsingu hafi verið fullnægjandi og breyti engi þótt skýringarmynd hafi verið sett fram síðar, umfram skyldu. Samkvæmt 4. mgr. 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 skuli skipulagstillaga sett fram á uppdrætti og í greinargerð. Í hinni kærðu skipulagsbreytingu sé á uppdrætti gerð grein fyrir staðsetningu fyrirhugaðra ljósamastra og í greinargerð á uppdrættinum komi fram hæð mastranna, hámarksbirtumagn lýsingar og áskilið að lampar séu með stefnuvirkri LED-lýsingu, þannig að auðveldara sé að stýra birtu og minnka þannig áhrif lýsingarinnar á nærliggjandi byggð. Tillagan varði aðeins umrædda lýsingu en ekki önnur atriði, svo sem frágang vallarins eða landmótun, og hafi ekki verið gerð athugasemd við hana við yfirferð Skipulagsstofnunar, sbr. bréf hennar frá 14. nóvember 2018. Af því megi ráða að stofnunin hafi ekki talið að í skilmálum þyrfti að greina takmarkanir á notkun ljósamastranna, svo sem um notkunartíma ljósanna. Fái því ekki staðist sú málsástæða kæranda að skipulaginu sé áfátt að þessu leyti. Sé ekki heldur hægt að leggja að jöfnu þær kröfur sem gera verði til skilmála um lýsingu þá sem hér um ræði annars vegar og um lýsingu á íþróttasvæðinu við Ásgarð hins vegar, þar sem á Ásgarðssvæðinu sé um að ræða allt að 22 m há möstur með lömpum sem séu 500 lux á móti 9,15 m háum möstrum með lömpum allt að 200 lúx. Augljóst megi vera að mannvirki þessi séu langt frá því að vera sambærileg, eins og berlega megi ráða af mismunandi afstöðu Skipulagsstofnunar til þeirra. Þá sé einnig vísað til þess að fyrir liggi reglur um notkun umrædds vallar þar sem fram komi takmarkanir á notkun hans og eins tímatakmarkanir á notkun lýsingar.

Að því er varði þá málsástæðu kæranda að Garðabær hafi ekki sent Skipulagsstofnun tilskilin gögn, svo sem athugasemdir kæranda og annarra íbúa, þá sé ljóst að flestar athugasemdirnar hafi ekki átt við um tillöguna. Í umsögn sveitarfélagsins hafi skilmerkilega verið greint frá því að hverju athugasemdirnar hafi lotið. Síðan sé hverjum lið svarað fyrir sig og hafi engin athugasemd verið gerð af hálfu Skipulagsstofnunar við þetta verkleg. Ekki verði séð að skort hafi á fullnægjandi gögn að þessu leyti.

Kærandi virðist telja að með hinni kærðu ákvörðun hafi fyrst og fremst verið tekin ákvörðun um að gera umræddan íþróttavöll í Bæjargarði. Svo sé ekki heldur hafi völlurinn verið settur inn í deiliskipulag með breytingu á deiliskipulagi Bæjargarðs árið 2016. Engin breyting hafi verið gerð á stærð eða staðsetningu vallarins með hinni kærðu ákvörðun og ekki felist nokkur efnisbreyting í því þótt hann sé nefndur íþróttavöllur í stað boltaflatar. Einungis hafi verið um það að ræða að samþykkja heimild fyrir lýsingu við völlinn til að taka af öll tvímæli um réttmæti þeirrar framkvæmdar. Garðabæ hafi verið heimilt að setja í skipulagið heimild fyrir lýsingu við völlinn óháð því hvort framkvæmdin væri háð skipulagi eða ekki. Málsástæður sem lúti að því að völlurinn rúmist ekki innan aðalskipulags hefði þurft að koma fram þegar heimild fyrir gerð vallarins hafi verið sett í skipulag á árinu 2016 og geti þau álitaefni ekki komið til umfjöllunar í þessu máli. Af þeim sökum beri að hafna þessari málsástæðu og þurfi því ekki að færa rök fyrir því að nefndur völlur falli innan heimilda aðalskipulags. Af sömu ástæðu verði að hafna því sem kærandi haldi fram að skort hafi á umfjöllun um umferð og öryggismál, enda eigi engin breyting sér stað varðandi þessa þætti þótt til komi lýsing við umræddan völl.

Hið kærða byggingarleyfi sé útgefið af byggingarfulltrúa 4. desember 2018 í samræmi við ákvæði 9. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki, en byggingaráform hafi verið samþykkt á fundi bæjarráðs sama dag, sbr. 2. gr. samþykktar um afgreiðslur byggingarnefndar Garðabæjar nr. 863/2011. Við útgáfu byggingarleyfis hafi þess verið gætt að umrædd framkvæmd væri í samræmi við deiliskipulag Bæjargarðs og séu engin efni til að fallast á kröfu kæranda um ógildingu leyfisins.

Nauðsynlegt sé að taka fram að ekki sé um að ræða keppnislýsingu eða flóðlýsingu við umræddan boltavöll í Bæjargarði heldur svokallaða punktlýsingu, eins og algengt sé á minni gervigrasvöllum til að auka notagildi þeirra í svartasta skammdeginu. Lýsingin sé þannig hönnuð að hún muni valda óverulegum grenndaráhrifum ef nokkrum. Styrkleiki lýsingarinnar sé stillanlegur, en samkvæmt skipulagi sé miðað við að birtumagn sé stillt á 200 lúx. Almennt séu slíkir vellir lýstir og geti það engan veginn hafa komið kæranda á óvart að til uppsetningar slíkrar lýsingar kæmi við völlinn. Gervigrasvöllurinn muni verða nýttur til skipulegs íþróttastarfs fyrir börn og ungmenni og einnig muni völlurinn nýtast almenningi. Telja verði að hagsmunir almennings til að fá upplýstan völl gangi framar meintum hagsmunum kæranda í málinu.

Garðabær hafi gert samkomulag við Ungmennafélagið Stjörnuna um afnot að gervi­grasvellinum og þar komi fram að völlurinn skuli ekki nýttur til æfinga eftir kl. 21:00 á kvöldin. Með því sé verið að koma í veg fyrir hugsanlegt ónæði frá vellinum gagnvart næsta nágrenni. Rétt þyki að taka fram að samningur bæjarins við félagið hafi engin áhrif á að bæjaryfirvöld fari með fullt forræði yfir vellinum og muni ávallt tryggja að notkun hans valdi ekki ónæði fyrir næsta nágrenni umfram það sem eðlilegt geti talist. Ekki sé um keppnisvöll að ræða heldur almennan íþróttavöll með takmarkaðri lýsingu. Þar sem ekki sé um keppnislýsingu eða flóðlýsingu að ræða sé ekki ástæða til að setja ákvæði um almennar notkunarreglur í deiliskipulagsskilmála frekar en almennt gerist um upplýst leiksvæði.

Verði fallist á að um frávik frá skilmálum sé að ræða þá sé það svo óverulegt að falla myndi undir heimiluð frávik í 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga, sbr. einnig gr. 5.8.4. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013, og hefði því allt að einu verið heimilt að veita leyfið, svo sem gert hafi verið.

Vettvangsskoðun: Úrskurðanefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi 31. janúar 2019 að viðstöddum fulltrúum málsaðila og fulltrúum bæjaryfirvalda.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um breytingu á deiliskipulagi Bæjargarðs í Garðabæ, þar sem gert er ráð fyrir sex 9,15 m háum ljósamöstrum við íþróttavöll, og um veitingu byggingarleyfis fyrir þeim ljósamöstrum.

Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur til nefndarinnar einn mánuður frá því kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina. Sé um að ræða ákvarðanir sem sæta opinberri birtingu telst kærufrestur frá birtingu ákvörðunar og samkvæmt 8. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 telst sá dagur sem fresturinn er talinn frá ekki með í frestinum. Hin kærða deiliskipulagsbreyting var samþykkt á fundi bæjarstjórnar Garðabæjar 18. október 2018 og tók hún gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 23. nóvember s.á. Var því lokadagur kærufrests vegna umræddrar ákvörðunar 24. desember 2018, en beiðni íbúa að Túnfit 2 um að gerast aðilar að fyrirliggjandi kæru vegna deiliskipulagsbreytingarinnar barst úrskurðarnefndinni 8. febrúar 2019, eða um einum og hálfum mánuði eftir að kærufrestur rann út. Í 28. gr. stjórnsýslulaga er kveðið á um að vísa beri kæru frá, berist hún að liðnum kærufresti. Þar sem ekki verður séð að þær ástæður séu fyrir hendi sem heimila að taka mál til meðferðar að liðnum kærufresti samkvæmt nefndu lagaákvæði verður ekki fallist á að játa nefndum aðilum kæruaðild að kærumáli þessu vegna deiliskipulagsbreytingarinnar.

Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 130/2011 hefur úrskurðarnefndin það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Fellur það utan valdheimilda úrskurðarnefndarinnar að hafa eftirlit með vinnubrögðum einstakra starfsmanna sveitarfélaga og þ. á m. að veita þeim áminningu. Að sama skapi fellur það utan valdheimilda nefndarinnar að taka ákvörðun um stöðvun allra framkvæmda á tilteknu svæði þar til fullunnin og samþykkt hönnunargögn liggi fyrir, enda einskorðast heimild úrskurðarnefndarinnar til stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða við þann tíma sem kærumál er til meðferðar hjá nefndinni, sbr. 5. gr. fyrrgreindra laga. Verða þessar kröfur kæranda því ekki teknar til efnislegrar meðferðar.

Eins og fram kemur í málavaxtalýsingu tók gildi breyting á deiliskipulagi Bæjargarðs 3. mars 2017 þar sem gert er ráð fyrir „sérútbúnum boltaflötum“. Það skipulag sætir ekki lögmætisathugun í máli þessu, enda eins mánaðar kærufrestur skv. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 löngu liðinn. Málsástæður kæranda er varða lögmæti íþróttavallarins sjálfs, sem gerður var á grundvelli skipulagsbreytingarinnar frá árinu 2017, geta því ekki komið til skoðunar hér.

Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 fara sveitarfélög með vald til gerðar deiliskipulagsáætlana. Við beitingu þess valds ber m.a. að haga málsmeðferð þannig að réttur einstaklinga og lögaðila verði ekki fyrir borð borinn, þó svo að hagur heildarinnar verði hafður að leiðarljósi, sbr. 1. mgr. 1. gr. skipulagslaga. Í skipulagsvaldi sveitarfélaga felst víðtæk heimild til breytinga á þegar gerðum deiliskipulagsáætlunum, sbr. 1. mgr. 43. gr. laganna. Þessu valdi eru aðallega settar skorður með kröfu um samræmi við aðalskipulagsáætlanir og lögmætisreglu stjórnsýsluréttarins.

Samkvæmt Aðalskipulagi Garðabæjar 2016-2030, sem tók gildi 4. maí 2018, er svæðið Bæjargarður á skilgreindu opnu svæði, merkt 3.02 Op. Í 1. mgr. gr. 6.2. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 er tekið fram að sé gert ráð fyrir landnotkun á sama reit sem fellur undir fleiri en einn landnotkunarflokk skuli sá flokkur tiltekinn fyrir reitinn sem sé ríkjandi en umfang annarrar landnotkunar tilgreint í skilmálum. Í greinargerð gildandi aðalskipulags er fjallað um landnotkun opinna svæða í kafla 3.15 og kemur þar fram að Bæjargarður verði nýttur í tengslum við íþróttamiðstöðina í Ásgarði. Þá er rakið í kafla 6.2, um breytingar á landnotkun frá fyrra aðalskipulagi, að heimild fyrir íþróttavelli hafi verið sett í ákvæði um Bæjargarðinn. Með hliðsjón af framangreindu verður ekki talið að hin umdeilda deiliskipulagsbreyting, sem einungis heimilar áðurnefnd ljósamöstur við boltavöllinn, gangi gegn fyrrgreindri stefnu aðalskipulags, sbr. 3. mgr. 37. gr. skipulagslaga, og er áskilnaði 7. mgr. 12. gr. laganna um innbyrðis samræmi gildandi skipulagsáætlana því fullnægt.

Deiliskipulagsbreytingin var auglýst til kynningar í samræmi við reglur skipulagslaga um almenna meðferð breytinga á deiliskipulagi skv. 1. mgr. 43. gr. laganna og átti kærandi kost á að koma á framfæri athugasemdum sínum vegna hennar, sem hann og gerði. Raskar það ekki gildi auglýsingarinnar að skýringaruppdráttur við tillöguna hafi bæst við í lok kynningar­tímans, enda telst hann ekki hluti hinnar kærðu ákvörðunar, sem sett er fram á skipulagsuppdrætti og í skipulagsgreinargerð, sbr. 4. mgr. 37. gr. skipulagslaga. Samþykkt tillaga, ásamt samantekt um málsmeðferð, athugasemdir og svör við athugasemdum, var send Skipulagsstofnun til lögboðinnar afgreiðslu í samræmi við 1. mgr. 42. skipulagslaga og gerði stofnunin ekki athugasemd við birtingu auglýsingar um samþykkt skipulagsins. Öðlaðist deiliskipulagið gildi með birtingu auglýsingar þar um í B-deild Stjórnartíðinda 23. nóvember 2018. Verður því ekki annað séð en að málsmeðferð tillögunnar hafi verið í samræmi við ákvæði skipulagslaga.

Þótt fallist sé á það með kæranda að lýsing umdeilds íþróttasvæðis geti haft töluverð grenndaráhrif gagnvart fasteignum í næsta nágrenni getur það ekki eitt og sér raskað gildi umdeildrar deiliskipulagsbreytingar, en í 51. gr. skipulagslaga er kveðið á um bótarétt þeirra sem sýna fram á fjártjón af völdum skipulags eða breytinga á skipulagi.

Að öllu framangreindu virtu þykir hin kærða deiliskipulagsbreyting ekki haldin þeim form- eða efnisannmörkum sem leitt geti til ógildingar hennar.

Í skipulagsskilmálum umræddrar deiliskipulagsbreytingar er tekið fram að birtumagn lýsingar frá ljósamöstrum við boltavöllinn í Bæjargarði verði 200 lúx og til að tryggja að lýsing trufli ekki íbúðarbyggð í nágrenni við völlinn skuli lampar vera með stefnuvirkri LED-lýsingu. Fram kemur í samþykktri umsókn um byggingarleyfi að upplýsingar um ljósamöstur megi sjá í deiliskipulagi. Þá segir í útgefnu byggingarleyfi fyrir ljósamöstrunum frá 4. desember 2018 að öll framkvæmd skuli unnin eftir samþykktum aðal- og séruppdráttum, byggingar- og verklýsingum og gildandi lögum og reglugerðum um skipulags- og byggingarmál. Samkvæmt samþykktum uppdráttum byggingarleyfisins er staðsetning mastranna í samræmi við gildandi deiliskipulagsuppdrátt. Var hið kærða byggingarleyfi því í samræmi við gildandi deiliskipulag, svo sem áskilið er í 11. gr. og 1. tl. 1. mgr. 13. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010. Með vísan til þess, og þar sem ekki liggur fyrir að annmarkar hafi verið á málsmeðferð við töku ákvörðunar um hið umdeilda byggingarleyfi, verður gildi leyfisins ekki raskað.

Að öllu framangreindu virtu er kröfu kæranda um ógildingu hinna kærðu ákvarðana hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar bæjarstjórnar Garðabæjar frá 18. október 2018 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Bæjargarðs vegna uppsetningar á ljósamöstrum við íþróttavöll.

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Garðabæ frá 30. nóvember 2018 að samþykkja umsókn um byggingarleyfi fyrir ljósamöstrum við íþróttavöll í Bæjargarði.

Að öðru leyti er kærumáli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

136/2018 Digranesvegur

Með

Árið 2019, þriðjudaginn 12. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 136/2018, kæra vegna dráttar á afgreiðslu umsóknar um byggingarleyfi til breyttrar notkunar Digranesvegar 12, Kópavogi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, sem barst nefndinni 23. nóvember 2018, kærir eigandi, Digranesvegi 12, Kópavogi, drátt á afgreiðslu umsóknar sinnar, dags. 21. ágúst 2018, um byggingarleyfi til breyttrar notkunar Digranesvegar 12. Skilja verður málskot kæranda svo að krafist sé að lagt verði fyrir Kópavogsbæ að taka fyrrgreint erindi kæranda til efnislegrar afgreiðslu.

Gögn málsins bárust frá Kópavogsbæ 21. desember 2018.

Málavextir: Með byggingarleyfisumsókn, dags. 29. ágúst 2017, óskaði kærandi eftir leyfi til að breyta notkun fasteignarinnar að Digranesvegi 12. Kærandi sóttist eftir því að fá húsnæðinu breytt úr skrifstofu í íbúðarhúsnæði. Þar sem ekkert deiliskipulag var í gildi fyrir svæðið vísaði byggingarfulltrúi erindinu til skipulagsráðs á grundvelli 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Á fundi skipulagsráðs 16. október 2017 var því hafnað að grenndarkynna erindið og var sú afgreiðsla staðfest á fundi bæjarstjórnar 24. s.m. Hafnaði byggingarfulltrúi byggingarleyfisumsókninni á afgreiðslufundi sínum 10. nóvember 2017.

Með erindi, dags. 20. desember 2017, óskaði kærandi eftir endurupptöku málsins. Á fundi bæjarráðs 8. febrúar 2018 var samþykkt að endurupptaka málið og var því vísað aftur til skipulagsráðs. Var erindið lagt fyrir að nýju á fundi skipulagsráðs 5. mars 2018 þar sem samþykkt var að grenndarkynning á því færi fram. Á fundi skipulagsráðs 7. maí s.á. var afgreiðslu erindisins frestað og því vísað til skipulags- og byggingardeildar til umsagnar, þar sem athugasemdir hefðu borist á kynningartíma. Á fundi skipulagsráðs 4. júní s.á. var erindinu hafnað með þeim rökum að æskilegt væri að fá heildarsýn og hefja vinnu við að deiliskipuleggja svæðið. Á fundi bæjarstjórnar 26. júní s.á. var afgreiðslu skipulagsráðs hafnað og samþykkti bæjarstjórn breytta notkun á húsnæðinu við Digranesveg 12. Var málinu vísað aftur til afgreiðslu byggingarfulltrúa 11. júlí 2018.

Í kjölfarið áttu sér stað nokkur samskipti milli byggingarfulltrúa og kæranda. Mun kærandi m.a. hafa sótt viðtalstíma hjá byggingarfulltrúa oftar en einu sinni og uppfært gögn sem síðan var skilað til byggingarfulltrúa í ágúst og september 2018. Meðal þeirra gagna var ný byggingarleyfisumsókn kæranda, dags. 21. ágúst 2018. Með tölvupósti til hönnuðar kæranda 3. október 2018 upplýsti byggingarfulltrúi að hönnuður þyrfti að vera með gæðakerfi, senda þyrfti inn hönnunartryggingu hönnuðar, íbúð þyrfti að hólfa frá öðrum húshlutum með EI 90 veggjum og hæðaskilum, sýna þyrfti björgunarop í útliti og merkja inn stærðir og gera þyrfti grein fyrir hugsanlegri sambrunahættu af öðrum hæðum, væru þær fyrir hendi. Þá var bent á að útlitsmyndir húss vantaði, sem og byggingarlýsingu sem lýsti lagnaleiðum, klæðningum o.fl. Með tölvupósti til kæranda 25. s.m. ítrekaði byggingarfulltrúi að hann teldi sig og kæranda hafa farið yfir hvað stæði út af vegna samþykktar íbúðar að Digranesvegi 12 og ítrekaði fyrri athugasemdir. Tók hann fram að lagfæra þyrfti teikningar að íbúðinni að teknu tilliti til athugasemdanna, auk þess sem hönnuðurinn þyrfti að uppfylla lagaskilyrði til að leggja inn teikningar. Var kæranda boðið að hitta byggingarfulltrúa á viðtalstíma vegna þessa. Svaraði kærandi því til í tölvupósti  29. s.m. að hann væri ekki sáttur við stöðu mála og áréttaði hverjar athugasemdir hann hefði við kröfur byggingarfulltrúa. Teldi hann þeim ýmist vera ofaukið, þegar verið fullnægt eða þær ekki eiga sér stoð í lögum eða byggingarreglugerð. Þá flækti byggingarfulltrúi saman kröfum er sneru að  byggingaráformum annars vegar og útgáfu byggingarleyfis hins vegar. Óskaði kærandi eftir því að kröfurnar yrðu teknar til endurskoðunar. Í svari byggingarfulltrúa í tölvupósti s.d. er reifað að gróflega hefði verið farið yfir teikningar og athugasemdir gerðar í upphafi en eftir yfirferð skipulagsyfirvalda hefði málið farið í hefðbundna yfirferð hjá byggingarfulltrúa og slökkvilið þá einnig farið yfir teikningarnar. Athugasemdir hefðu svo verið gerðar við þær.

Enn áttu kærandi og byggingarfulltrúi tölvupóstsamskipti 12. nóvember 2018, þar sem kærandi óskaði eftir því að mál hans yrði tekið til afgreiðslu og skilmerkilega yrði útskýrt í þeirri niðurstöðu hvaða gögnum hann þyrfti að standa skil á til að byggingarleyfisumsókn hans yrði samþykkt. Áréttaði byggingarfulltrúi og endurtók fyrri athugasemdir. Tók hann og fram að þær kröfur væru í samræmi við byggingarreglugerð og þyrftu allir að uppfylla þær til að fá teikningar samþykktar. Kæra í málinu barst úrskurðarnefndinni 23. s.m.

Málsrök kæranda: Kærandi fer fram á að mál hans verði tekið til efnislegrar afgreiðslu hjá byggingarfulltrúa. Gagnrýnir hann málsmeðferð sveitarfélagsins og telur að honum hafi ekki  verið veittar fullnægjandi leiðbeiningar. Lögð sé áhersla á að bæjarstjórn Kópavogsbæjar hafi tekið undir það á fyrri stigum málsins að kærandi hefði sætt ómálefnalegri meðferð af hálfu bæjarins og sé í því sambandi vísað til fundargerða bæjarstjórnar.

Málsrök Kópavogsbæjar: Af hálfu Kópavogsbæjar er tekið fram að við samþykkt byggingaráforma sé byggingarfulltrúa skylt að ganga úr skugga um að aðaluppdrættir uppfylli ákvæði mannvirkjalaga nr. 160/2010 og gildandi byggingarreglugerðar nr. 112/2012. Eðli máls samkvæmt geti byggingarfulltrúi ekki samþykkt byggingaráform séu aðaluppdrættir ekki í samræmi við gildandi lög og reglur. Samkvæmt upplýsingum frá byggingarfulltrúa sé enn eftir að lagfæra atriði, svo hægt sé að samþykkja byggingaráform. Hönnuður þurfi að vera með hönnunartryggingu og gæðastjórnunarkerfi, sbr. 23. og 24. gr. mannvirkjalaga, útlitsmynd hússins vanti, sbr. gr. 4.3.1. í byggingarreglugerð, og sama eigi við um byggingarlýsingu, sbr. gr. 4.3.9. í sömu reglugerð. Þá hafi slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu gert athugasemdir sem kærandi hafi ekki brugðist við. Byggingarfulltrúi hafi ítrekað bent kæranda á að ekki sé hægt að afgreiða byggingarleyfisumsókn hans fyrr en búið sé að lagfæra þessi atriði. Því sé hafnað að málsmeðferð hafi dregist fram úr hófi. Ef kærandi hefði brugðist strax við athugasemdum byggingarfulltrúa væri málinu lokið. Það sé ekki ásetningur byggingarfulltrúa að koma í veg fyrir útgáfu byggingarleyfis, en hins vegar sé honum óheimilt að gefa út leyfi sem ekki samræmist gildandi lögum og reglum.

Viðbótarathugasemdir kæranda:  Kærandi leggur áherslu á að umsókn hans um byggingarleyfi verði tekin til afgreiðslu. Hann hafi misst hönnuð sinn, en á fyrri stigum málsins hafi byggingarfulltrúi ekki svarað því til, þrátt fyrir ítrekaðar fyrirspurnir, hvaða afleiðingar það hefði fyrir umsókn kæranda, fái hann annan hönnuð. Kærandi geri athugasemdir við að á seinni stigum krefjist byggingarfulltrúi þess að með umsókn fylgi útlitsmynd hússins. Byggingarfulltrúa sé í sjálfsvald sett að krefjast þess, en kærandi dragi í efa að slík krafa standist reglur um meðalhóf.

Niðurstaða: Samkvæmt 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er meginreglan sú að ákvörðun sem ekki bindur enda á mál verður ekki kærð fyrr en málið hefur verið til lykta leitt. Á því er þó að finna tilteknar undantekningar og er í 4. mgr. 9. gr. laganna að finna eina slíka. Samkvæmt nefndri grein er heimilt að kæra óhæfilegan drátt á afgreiðslu máls til æðra stjórnvalds og ber að beina slíkri kæru til þess stjórnvalds sem stjórnvaldsákvörðun í málinu verður kærð til. Kemur fram í 59. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 að stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laganna sæti kæru til úrskurðarnefndarinnar.

Mál þetta á sér nokkurn aðdraganda, eins og greinir í málavaxtalýsingu. Upphaflegri byggingarleyfisumsókn kæranda, dags. 29. ágúst 2017, var hafnað af byggingarfulltrúa 10. nóvember s.á. Kærandi óskaði í kjölfarið eftir endurupptöku málsins og var á það fallist. Samþykkti bæjarstjórn Kópavogsbæjar 26. júní 2018 tillögu kæranda um breytta notkun húsnæðis hans við Digranesveg 12. Málinu var í kjölfarið vísað til afgreiðslu byggingarfulltrúa og hefur byggingarleyfisumsókn kæranda verið þar til meðferðar frá 11. júlí 2018, eða á sjöunda mánuð.

Eins og að framan greinir hefur byggingarfulltrúi ítrekað upplýst kæranda hvaða gagna sé krafist til þess að unnt sé að samþykkja umsókn hans um byggingarleyfi. Þau atriði sem þar koma fram eru meðal þeirra atriða sem tiltaka þarf á aðaluppdrætti að mannvirki, en aðaluppdrættir ásamt byggingarlýsingu eru nauðsynleg fylgigögn með umsókn um byggingarleyfi, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga um mannvirki, sbr. einnig gr. 2.4.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Á aðaluppdrætti skal ekki einungis sýna grunnflöt heldur einnig m.a. mismunandi sneiðar húss, sbr. gr. 4.3.1. í reglugerðinni. Skulu brunavarnir koma fram á aðaluppdráttum í samræmi við gr. 4.3.3. og skal þar greina frá atriðum eins og skiptingu mannvirkis í brunahólf, brunamótstöðu aðalburðarvirkja og flóttaleiðum, þ.m.t. björgunaropum, sbr. 2. mgr. nefnds reglugerðarákvæðis. Skal byggingarlýsing og taka til ákveðinna þátta, sbr. gr. 4.3.9. í reglugerðinni. Þá kemur skýrlega fram í 23. og 24. gr. mannvirkjalaga að hönnuðir sem fengið hafa löggildingu skuli gera aðal- og séruppdrætti og  hafa ábyrgðartryggingu og gæðastjórnunarkerfi. Er því ekki unnt að fallast á það með kæranda að kröfur byggingarfulltrúa eigi sér ekki laga- eða reglugerðarstoð, þótt e.t.v. hefði verið skýrara að vísa til þeirra laga- og reglugerðarákvæða sem við áttu.

Eðli máls samkvæmt geta stjórnvöld ekki borið ábyrgð á þeim töfum sem verða af völdum málsaðila, t.d. þar sem dregið er að afhenda umbeðin gögn og veita upplýsingar sem nauðsynlegar eru við úrlausn máls. Þrátt fyrir að meira en hálft ár sé liðið frá því að byggingarleyfisumsókn kæranda var vísað til afgreiðslu byggingarfulltrúa verður með hliðsjón af því sem að framan er rakið að telja að á því séu viðhlítandi skýringar. Þegar af þeirri ástæðu er ekki fallist á að meðferð byggingarleyfisumsóknar kæranda hjá byggingarfulltrúa hafi dregist óhæfilega í skilningi 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga. Á hitt er að líta að kærandi fór fram á afgreiðslu erindis síns 12. nóvember 2018 og hefur hann einnig lagt áherslu á að svo verði gert í kæru sinni og frekari athugasemdum til úrskurðarnefndarinnar. Að þeim atvikum virtum er það mat úrskurðarnefndarinnar að rétt sé af byggingarfulltrúa að taka umsókn kæranda til efnislegrar afgreiðslu án frekari dráttar á grundvelli þeirra gagna sem byggingarfulltrúa hafa borist og kunna að berast, þótt það kunni að leiða til synjunar.

Úrskurðarorð:

Lagt er fyrir byggingarfulltrúann í Kópavogi að taka til efnislegrar afgreiðslu, án ástæðulauss dráttar, umsókn kæranda, dags. 21. ágúst 2018, um byggingarleyfi til breyttrar notkunar Digranesvegar 12, Kópavogi.

151/2018 Bæjargarður

Með

Árið 2019, þriðjudaginn 5. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 151/2018, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Garðabæjar frá 30. ágúst 2018 um að samþykkja umsókn um byggingarleyfi til að reisa girðingu kringum fótboltavöll í Bæjargarði í Garðabæ.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 24. desember 2018, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi, Túnfit 1, Garðabæ, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Garðabæjar frá 30. ágúst 2018 að samþykkja umsókn um byggingarleyfi til að reisa girðingu kringum fótboltavöll í Bæjargarði í Garðabæ. Þess er krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og jafnframt að framkvæmdir verði stöðvaðar til bráðabirgða. Þykir málið nú nægjanlega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kæranda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Garðabæ 10. janúar 2019.

Málavextir: Hinn 3. mars 2017 tóku gildi breytingar á deiliskipulagi skóla- og íþróttasvæðis við Ásgarð og deiliskipulagi Bæjargarðs í Garðabæ vegna tiltekinna íþróttamannvirkja. Í kjölfarið samþykkti bæjarstjórn 18. maí s.á. umsókn bæjarverkfræðings um leyfi til framkvæmda við gerð tveggja nýrra æfingavalla og til breytinga á núverandi æfingavelli á Ásgarðssvæði og í Bæjargarði. Var framkvæmdaleyfi gefið út 19. s.m. Með bréfi, dags. 29. ágúst s.á., fór kærandi fram á það við úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála að tekin yrði afstaða til þess hvort framkvæmdirnar væru háðar byggingarleyfi, sbr. 4. mgr. 9. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Hinn 7. nóvember s.á. kvað nefndin upp úrskurð í máli nr. 96/2017 þess efnis að framkvæmdirnar væru ekki háðar byggingarleyfi að öðru leyti en því að girðingar umhverfis íþróttavelli á svæðinu væru háðar byggingarleyfi.

Umsókn um byggingarleyfi fyrir nefndum framkvæmdum var samþykkt á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 30. ágúst 2018 og mun það hafa verið gefið út sama dag.

Málsrök kæranda: Kærandi vísar til þess að byggingarfulltrúi hafi ekki látið kæranda vita um útgáfu byggingarleyfisins þrátt fyrir að kærandi hafi ítrekað lýst áhuga á því. Byggingar­­­­leyfið hafi auk þess hvergi verið birt almenningi, hvorki á vef Garðabæjar né á skrifstofu bæjarins. Það hafi nánast verið fyrir tilviljun að kærandi hafi komist að tilvist leyfisins 13. desember 2018 á fundi hjá Garðabæ um annað mál.

Í byggingarleyfinu sé girðingunni lýst sem „grindverki“ þó að hönnunargögn lýsi henni sem 2,0 m hárri stálrimlagirðingu. Á þeim gögnum sem lágu til grundvallar byggingarleyfinu sé ekki hægt að sjá að byggingarfulltrúi hafi með neinum hætti fjallað um hvort girðingin væri í samræmi við deiliskipulag eins og kærandi hafi farið fram á árið áður. Reyndar sé ekki að sjá á gögnunum að fjallað hafi verið um efni málsins á nokkurn hátt. Kærandi hafi sent byggingarfulltrúa fyrirspurn um tvö efnisatriði byggingarleyfisins vegna svara skipulagsfulltrúa sveitarfélagsins. Annars vegar hafi komið fram hjá skipulagsfulltrúa að deiliskipulag heimili ekki að girðing sé reist kringum umrædda boltaflöt. Hins vegar sé um að ræða svar frá skipulagsfulltrúanum þar sem fram komi að boltaflötin verði ekki lokuð almenningi, en byggingarleyfið sé fyrir 2,0 m hárri stálrimlagirðingu með læstu hliði. Mun Ungmennafélagið Stjarnan hafa lyklavöld að umræddu hliði.

Afgreiðsla byggingarfulltrúa Garðabæjar á byggingarleyfi fyrir girðingu í Bæjargarði sé ekki í samræmi við kröfur laga um mannvirki nr. 160/2010. Bygging girðingarinnar hafi áður verið tekin fyrir af úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála vegna kæru kæranda. Hann hafi ítrekað við byggingarfulltrúa að hann teldi girðinguna ekki í samræmi við skipulagsáætlanir. Hann hafi vísað í skrifleg gögn frá skipulagsfulltrúa um að girðingin væri ekki í samræmi við deiliskipulag. Í 10. gr. mannvirkjalaga segi að sé mannvirki háð byggingarleyfi skuli byggingarfulltrúi leita umsagnar skipulagsfulltrúa leiki vafi á hvort framkvæmd samræmist skipulagsáætlunum sveitarfélagsins. Augljóslega hafi vafi leikið á því hvort byggingarleyfið samræmdist skipulagsáætlunum Garðabæjar. Í gögnum frá byggingar­­­­­fulltrúa sé hvergi að finna þá umsögn skipulagsfulltrúa sem lög kveði á um. Verði því að álykta að hann hafi ekki sinnt þeirri skyldu sinni og útgáfa byggingarleyfisins hafi því ekki uppfyllt kröfur laga.

Ekki hafi verið gengið úr skugga um að aðaluppdráttur uppfyllti ákvæða laga og reglugerða. Í 11. gr. mannvirkjalaga segi: „Ef mannvirki er háð byggingarleyfi skv. 9. gr. fer byggingarfulltrúi eða eftir atvikum Mannvirkjastofnun yfir byggingarleyfisumsókn og gengur úr skugga um að aðaluppdrættir uppfylli ákvæði laga þessara og reglugerða sem settar hafa verið á grundvelli þeirra og að tilkynnt hafi verið um hönnunarstjóra mannvirkisins.“ Samkvæmt ákvæðinu hafi byggingafulltrúa m.a. borið að staðfesta að girðingin væri í samræmi við skipulagsáætlanir Garðabæjar. Í gögnum frá byggingarfulltrúa sé hvergi að sjá að hann hafi sinnt þessari skyldu. Verði því að álykta sem svo að hann hafi ekki gert það og útgáfa byggingarleyfisins uppfylli því ekki kröfur laga.

Málsrök Garðabæjar: Af hálfu sveitarfélagsins er vísað til þess að við útgáfu byggingar­leyfisins hafi þess verið gætt að umrædd framkvæmd væri í samræmi við skipulag sem gildi fyrir Bæjargarð. Í f-lið gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 komi fram að girðingar allt að 1,8 m að hæð séu undanþegnar byggingarleyfi. Í máli þessu sé umrædd girðing 2,0 m að hæð og sé tilgangur hennar margþættur, en fyrst og fremst sé verið að horfa til notagildis vallarins og öryggissjónarmiða til að vernda völlinn gegn ágangi og hugsanlegum skemmdum á þeim tíma sem hann eigi ekki að vera í notkun.

Samkvæmt breytingu á deiliskipulagi Bæjargarðs frá árinu 2006 komi fram í skipulags­skilmálum að gert sé ráð fyrir að afmarkaður verði sérstakur gervigrasvöllur á svæðinu. Eðlilegt sé að líta svo á m.t.t. þess hvernig almennt sé staðið að afmörkun gervigrasvalla að það sé gert með girðingu. Á skýringarmyndum sem kynntar hafi verið hafi 2,0 m há girðing verið sýnd umhverfis gervigrasvöllinn og í þeim tilvikum sé um byggingar­leyfis­s­kylda framkvæmd að ræða. Við útgáfu á byggingarleyfi hafi byggingafulltrúi horft til þess að skipulagsskilmálar kveði á um afmörkun vallarins og lagt til grundvallar skýringarmyndir er sýni væntanlega girðingu. Við mat á hæð girðingarinnar sé ljóst að 2,0 m há girðing, eins og hér um ræði, geti ekki varðað hagsmuni annarra en sveitarfélagsins sem leyfisumsækjanda, en um sé að ræða gegnsæja stálrimlagirðingu. Í því sambandi sé bent á að í 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 sé heimild fyrir sveitarstjórn til að falla frá breytingu á deiliskipulagi þegar um svo óverulegt frávik sé að ræða að hagsmunir nágranna skerðist í engu hvað varði landnotkun, útsýni, skuggavarp og innsýn. Þetta sé enn frekar áréttað í gr. 5.8.4. í skipulags­reglugerð nr. 90/2013. Hefði því aldrei þurft að koma til breytinga á deiliskipulagi vegna hæðar girðingarinnar.

Vettvangsskoðun: Úrskurðanefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi 31. janúar 2019 að viðstöddum kæranda og fulltrúum bæjaryfirvalda.

Niðurstaða: Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála nr. 130/2011 er kærufrestur einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðun þá sem kæra lýtur að. Gögn málsins bera með sér að kæranda hafi ekki verið tilkynnt um samþykki umrædds byggingarleyfis. Gera verður ráð fyrir að kæranda hafi fyrst orðið kunnugt um hið kærða byggingarleyfi fyrri hluta desembermánaðar 2018, en um miðjan mánuðinn sendi hann byggingarfulltrúa Garðabæjar tölvupóst þar sem óskað var eftir gögnum sem lágu til grundvallar ákvörðuninni. Barst kæran samkvæmt því innan kærufrests.

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir sem eiga lögvarða hagsmuni tengda ákvörðun sem kæra á. Hefur þetta ákvæði verið skýrt í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttar um aðild í kærumálum þar sem áskilið er að kærandi eigi einstaklingsbundna og verulega hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun. Við mat á því hvort kærandi eigi þeirra hagsmuna að gæta vegna umdeilds byggingarleyfis verður að líta til þess að heimiluð 2,0 m há girðing er í sjónlínu frá fasteign kæranda og í rúmlega 55 m fjarlægð. Snertir byggingarleyfið því sérstaklega grenndarhagsmuni kæranda með tilliti til útsýnis og verður honum játuð kæruaðild að máli þessu skv. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Þegar af þeirri ástæðu er skilyrði 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, er heimilar að vikið sé frá deiliskipulagi ef hagsmunir nágranna skerðast í engu við heimilaða framkvæmd, ekki uppfyllt.

Eins og fram er komið var með hinu kærða byggingarleyfi heimilað að reisa 2,0 m girðingu umhverfis fótboltavöll og er sú framkvæmd byggingarleyfisskyld, sbr. 9. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki og f-lið 1. mgr. gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Bar byggingarfulltrúa því að ganga úr skugga um að umrædd girðing ætti stoð í gildandi deiliskipulagi áður en byggingaráform voru samþykkt og byggingarleyfi gefið út, sbr. 11. gr. og 1. mgr. 13. gr. gr. laga um mannvirki. Í gildandi deiliskipulagi Bæjargarðs er ekki að finna áform um að reisa girðingu umhverfis áðurnefndan fótboltavöll og þar af leiðandi engar upplýsingar um hæð hennar. Skorti því lagaskilyrði fyrir samþykki og útgáfu hins kærða byggingarleyfis. Verður hin kærða ákvörðun því felld úr gildi.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa Garðabæjar frá 30. ágúst 2018 um að samþykkja umsókn um byggingarleyfi til að reisa girðingu  kringum fótboltavöll í Bæjargarði í Garðabæ.

16/2018 Rangárbakki 2

Með

Árið 2019, miðvikudaginn 30. janúar, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

l nr. 16/2018, kæra á ákvörðun skipulags- og umferðarnefndar Rangárþings ytra frá 8. janúar 2018 um að hafna beiðni kæranda um leyfi fyrir breyttri notkun núverandi húsnæðis á lóðinni Rangárbakka 2 í þjónustubyggingu fyrir gistihús og um leyfi til að setja niður smáhýsi á lóðinni til að nota sem gistihús .

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 7. febrúar 2018, er barst nefndinni sama dag, kærir Rent Leigumiðlun ehf., eigandi fasteignarinnar að Rangárbakka 2, þá ákvörðun Rangárþings ytra frá 8. janúar s.á. að hafna beiðni kæranda um leyfi fyrir breyttri notkun núverandi húsnæðis í þjónustubyggingu fyrir gistihús á lóðinni Rangárbakka 2 og um leyfi til að setja niður smáhýsi á lóðinni til að nota sem gistihús. Er þess aðallega krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að sveitarfélaginu verði gert að veita kæranda umbeðna heimild. Til vara er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og sveitarfélaginu gert að taka umsóknina aftur fyrir.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Rangárþingi ytra 15. mars 2018.

Málavextir: Með bréfi, dags. 27. desember 2017, sótti kærandi um leyfi til skipulags- og umferðarnefndar Rangárþings ytra til að setja niður smáhýsi á lóðinni að Rangárbakka 2 til að nota sem gistihús. Jafnframt sótti kærandi um breytta notkun verslunarhúsnæðis á lóðinni í þjónustuhúsnæði fyrir umrædd gistihús. Á fundi nefndarinnar 8. janúar 2018 var erindinu hafnað. Með bréfum, dags. 15. janúar s.á. og 2. febrúar s.á., óskaði kærandi eftir rökstuðningi sveitarfélagsins fyrir ákvörðuninni, en ekkert svar barst. Kærandi kærði ákvörðunina til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála 7. s.m. Á fundi skipulags- og umferðarnefndar 12. mars 2018 var bókað um rökstuðning fyrir hinni kærðu ákvörðun og var sá rökstuðningur staðfestur á fundi sveitarstjórnar Rangárþings ytra 14. s.m..

Málsrök kæranda: Kærandi telur að synjun sveitarfélagsins á erindi hans standist ekki lög. Synjunin brjóti gegn aðal- og deiliskipulagi svæðisins, sem og gegn stjórnsýslu- og skipulagslögum. Auk þess standist meðferð málsins ekki ákvæði laga.

Frá því að fulltrúar kæranda hafi sett sig í samband við skipulagsfulltrúa sveitarfélagsins í ágúst 2017 hafi aldrei annað komið fram en að unnt væri að fá í gegn þá breytingu sem kærandi hafi viljað gera. Þannig hafi verið óskað eftir því að fulltrúar kæranda útbyggju öll gögn sem hefði annars verið óþarft ef fyrir lægi að í grunninn væri ekki heimild samkvæmt skipulagi fyrir þess háttar starfsemi á lóðinni. Sú túlkun virðist hafa komið til síðar, þ.e. að kærandi þyrfti að sækja um breytta notkun á húsnæðinu. Um þetta hafi kæranda aldrei verið tilkynnt.

Samkvæmt aðalskipulagi sveitarfélagsins sé Rangárbakki 2 skilgreind sem „Þ3“ lóð, en samkvæmt skilgreiningu á skipulaginu séu Þ-svæði „verslunar- og þjónustusvæði“. Í greinargerð með aðalskipulagi segi að á þessum reit sé „blómaverslun og möguleiki á frekari uppbyggingu“. Forsaga þess sé að á svæðinu hafi áður verið blómaverslun en hún hafi ekki verið starfrækt þar lengi. Þrátt fyrir að tekið sé fram í greinargerð aðalskipulagsins að þarna sé blómaverslun þá geti það ekki verið túlkað sem einhvers konar takmörkun fyrir aðra starfsemi, t.d. annars konar verslun eða þjónustustarfsemi, enda sé greinargerðin fyrst og fremst að lýsa ákveðnu ástandi og notkun eignarinnar á tilteknum tíma. Deiliskipulag af svæðinu kveði á um það sama, þ.e. að þarna séu „verslunar- og þjónustulóðir“. Hvergi sé notkun þessara lóða skilgreind nánar eða takmörkuð, þ.e. að þarna megi ekki vera annars konar starfsemi en verslun. Einnig sé lóðin skilgreind sem „verslunar- og þjónustulóð“ samkvæmt fasteignaskrá. Í lóðarleigusamningi segi að leigutaka sé leigð lóðin „undir atvinnustarfsemi“. Í 1. gr. samningsins komi fram að önnur notkun lóðarinnar en að framan greini sé óheimil. Að öðru leyti sé ekki að finna neinar takmarkanir í samningnum fyrir því hvers konar atvinnustarfsemi megi fara fram á lóðinni.

Í 2. mgr. 28. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 sé kveðið á um að í aðalskipulagi skuli lagður grundvöllur fyrir gerð deiliskipulags varðandi m.a. landnotkun og takmarkanir á landnotkun. Þá segi í 1. mgr. 37. gr. að í deiliskipulagi séu teknar ákvarðanir um m.a. lóðir, lóðanotkun og aðrar skipulagsforsendur. Í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 sé fjallað nánar um landnotkunarflokka. Samkvæmt c-lið gr. 6.2. í reglugerðinni sé „Verslun og þjónusta (VÞ)“ svæði þar sem gert sé ráð fyrir verslun og þjónustu, þ.m.t. hótelum, gistiheimilum og gistiskálum. Í gr. 6.3. komi fram að hvers konar takmarkanir á landnotkun skuli tilgreindar í aðalskipulagi og eftir atvikum í deiliskipulagi. Þá segi í 2. mgr. gr. 5.3. í reglugerðinni að heimilt sé að skilgreina landnotkun og takmarkanir á henni þrengra í deiliskipulagi en gert sé í aðalskipulagi. Því sé ljóst að sveitarfélagið hafi haft ýmis tækifæri til þess að kveða skýrt á um takmarkanir á notkun umræddrar lóðar. Svo hafi aftur á móti ekki verið gert. Hvorki í aðalskipulagi, deiliskipulagi né lóðarleigusamningi. Höfnun sveitarfélagsins á umsókn kæranda sé því óheimil.

Afgreiðsla sveitarfélagsins standist ekki jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Við Rangárbakka 6 og 8b, sem sé á næstu lóð við eign kæranda og á sama svæði skv. aðalskipulagi, sé sams konar starfsemi og kærandi hafi í hyggju að byggja upp, þ.e. smáhýsi sem nýtt séu til gistingar. Það fáist ekki staðist að leyfa slíka starfsemi á einum stað en hafna á öðrum, þegar í báðum tilfellum sé um að ræða viðskipta- og þjónustulóðir samkvæmt skipulagi. Með því brjóti sveitarfélagið gegn jafnræðisreglu stjórnsýslulaga og eftir atvikum jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar. Einnig sé brotið gegn 75. gr. stjórnarskrárinnar um atvinnufrelsi þar sem afgreiðsla sveitarfélagsins stöðvi áform kæranda um að hefja fyrirhugaða starfsemi. Í ljósi þess að sambærileg starfsemi sé nú þegar við Rangárbakka 6 og 8b þá jafnist afgreiðsla bæjarins til þess að þeim aðilum sé veitt einokun á því að reka slíka starfsemi í bænum.

Málsrök Rangárþings ytra: Af hálfu sveitarfélagsins er á það bent að í gildandi Aðalskipulagi Rangárþings ytra 2010-2022 segi um verslunar- og þjónustusvæði á Hellu að gera skuli fyrst og fremst ráð fyrir verslunar- og þjónustustarfsemi, m.a. ferðaþjónustu. Á lóðinni að Rangárbakka 2 segi í greinargerð: „Á þessum reit er blómaverslun og möguleiki á frekari uppbyggingu.“ Ekki sé minnst á frekari uppbyggingu smáhýsa á lóðinni.

Á lóð nr. 8 við Rangárbakka sé rekin ferðaþjónusta, m.a. smáhýsi ásamt tengingu við tjaldsvæði. Síðast hafi verið byggð smáhýsi þar árið 1993 fyrir utan tvö smáhýsi sem hafi verið byggð árið 2010. Uppbygging lóðanna núna sé allt önnur en lagt hafi verið upp með árið 1993. Áform kæranda feli í sér mikla breytingu á nýtingu lóðarinnar, en þar sé nú einungis eitt verslunarhúsnæði. Þá sé stærð lóðarinnar ekki nema um 3.500 m2. Nefndin telji því að uppbygging lóðarinnar geti ekki talist sambærileg og núverandi aðstæður á lóð nr. 8.

Unnið sé að endurskoðun aðalskipulagsins. Þar sé umræddu svæði fyrir lóðir nr. 2 og 4 við Rangárbakka breytt úr verslunar- og þjónustusvæði yfir í miðsvæði. Ef breytingin sé samþykkt muni það hafa áhrif á umhverfi og yfirbragð byggðar á svæðinu, þar á meðal ásýnd þéttbýlisins varðandi aðkomu úr vestri. Það sé álit nefndarinnar að uppbygging fjölda smáhýsa til útleigu gistinga fari betur við jaðar heldur en innan væntanlegs miðsvæðis. Í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 segi um miðsvæði: „svæði fyrir verslunar- og þjónustustarfsemi og stjórnsýslu sem þjónar heilu landsvæði, þéttbýlisstað eða fleiri en einu bæjarhverfi, svo sem verslanir, skrifstofur, þjónustustofnanir, hótel, veitinga- og gistihús, menningarstofnanir og önnur hreinleg atvinnustarfsemi sem talin sé samræmast yfirbragði og eðli starfsemi miðsvæðis.“ Yfirbragð smáhýsabyggðar samræmist ekki skilgreiningu fyrir miðsvæði.

Í gildandi deiliskipulagi fyrir svæðið segi um lóð nr. 4 við Rangárbakka, sem sé við hlið lóðar nr. 2, að lóðin sé fyrir gistihús eða hótel á 1-2 hæðum og að mænishæð sé heimilt allt að 12 m. Frekari uppbygging á lóð nr. 2. skuli frekar fylgja slíkri stefnu heldur en smáhýsabyggð.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun skipulags- og umferðarnefndar Rangárþings ytra frá 8. janúar 2018 að synja umsókn kæranda um leyfi til breyttrar notkunar núverandi húsnæðis á lóðinni að Rangárbakka 2 og til að setja niður smáhýsi á lóðinni til að nota sem gistihús.

Umsókn kæranda laut að byggingarleyfisskyldum framkvæmdum, en skv. 9. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki er óheimilt að grafa grunn fyrir mannvirki, reisa það, rífa eða flytja, breyta því, burðarkerfi þess eða lagnakerfum eða breyta notkun þess, útliti eða formi nema að fengnu leyfi viðkomandi byggingarfulltrúa, sbr. 2. mgr., eða leyfi Mannvirkjastofnunar, sbr. 3. mgr. ákvæðisins. Sé mannvirki háð byggingarleyfi byggingarfulltrúa skal hann leita umsagnar skipulagsfulltrúa leiki vafi á að framkvæmd samræmist skipulagsáætlunum sveitarfélagsins, sbr. 10. gr. laganna. Samkvæmt sömu grein skal umsókn um byggingarleyfi ásamt hönnunargögnum send hlutaðeigandi byggingarfulltrúa, sem fer yfir umsóknina, gengur úr skugga um að aðaluppdrættir uppfylli ákvæði laganna, og reglugerða settra samkvæmt þeim, og tilkynnir umsækjanda eftir atvikum um samþykkt byggingaráforma hans, sbr. 11. gr. nefndra laga. Sveitarstjórn er heimilt, með sérstakri samþykkt samkvæmt 7. gr. laganna, að kveða á um það að í sveitarfélaginu starfi byggingarnefnd sem fjalli um byggingarleyfisumsókn áður en byggingarfulltrúi gefi út byggingarleyfi og hafi að öðru leyti eftirlit með stjórnsýslu hans fyrir hönd sveitarstjórnar. Er sveitarstjórn og heimilt að gera það að skilyrði fyrir útgáfu byggingarleyfis af hálfu byggingarfulltrúa að byggingarnefnd eða sveitarstjórn hafi samþykkt útgáfuna, sbr. 2. mgr. 7. gr. laganna. Rangárþing ytra hefur ekki sett sér slíka samþykkt.

Í almennum athugasemdum með frumvarpi því sem varð að mannvirkjalögum segir að um sé að ræða nokkrar breytingar frá gildandi lögum. Lögð sé til sú grundvallarbreyting að sveitarstjórn staðfesti að meginreglu ekki lengur ákvarðanir byggingarfulltrúa, auk þess sem lagt er til að tilvist byggingarnefnda verði háð gerð sérstakrar samþykktar viðkomandi sveitarstjórnar. Loks er tekið fram í athugasemdunum að sveitarstjórnir komi að meginreglu til ekki að stjórnsýslu byggingarmála með beinum hætti. Í eðli sínu séu byggingarmál tæknileg mál og þess vegna sé eðlilegt að framkvæmd þeirra sé í höndum aðila með sérfræðiþekkingu á því sviði.

Samkvæmt skýru orðalagi mannvirkjalaga og athugasemdum í lögskýringargögnum er endanleg ákvörðun um samþykkt byggingaráforma og útgáfu byggingarleyfis á hendi byggingarfulltrúa. Svo sem fram kemur í málavaxtalýsingu var umsókn kæranda synjað á fundi skipulags- og umhverfisnefndar 8. janúar 2018. Sú ákvörðun gat ekki bundið enda á málið í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 heldur þurfti að koma til sjálfstæð ákvörðun byggingarfulltrúa, en ákvörðun hans liggur ekki fyrir í málinu samkvæmt þeim upplýsingum sem úrskurðarnefndin hefur aflað.

Að teknu tillit til þess sem að framan er rakið er ljóst að ekki liggur fyrir lokaákvörðun í málinu, en kærandi verður þó ekki látinn bera hallann af því. Verður að svo komnu máli að líta svo á að kærður sé óhæfilegur dráttur á afgreiðslu máls, en skv. 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga er heimilt að kæra slíkan drátt til þess stjórnvalds sem ákvörðun í málinu verður kærð til. Með hliðsjón af því að tæpt ár er liðið frá kæru og enn liggur ekki fyrir afgreiðsla byggingarfulltrúans í Rangárþingi ytra í málinu verður lagt fyrir hann að taka erindi kæranda frá 27. desember 2017 til efnislegrar meðferðar án frekari tafa. Þegar ákvörðun byggingarfulltrúa vegna erindis kæranda liggur fyrir er sú ákvörðun hins vegar eftir atvikum kæranleg til úrskurðarnefndarinnar skv. 59. gr. mannvirkjalaga.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Lagt er fyrir byggingarfulltrúann í Rangárþingi ytra að taka til efnislegrar afgreiðslu án ástæðulauss dráttar umsókn kæranda frá 27. desember 2017 um leyfi fyrir breyttri notkun núverandi húsnæðis í þjónustubyggingu fyrir gistihús á lóðinni Rangárbakka 2 og um leyfi til að setja niður smáhýsi á lóðinni til að nota sem gistihús.

105/2016 Legsteinasafn

Með

Árið 2018, fimmtudaginn 6. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor.

Fyrir var tekið mál nr. 105/2016 kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Borgarbyggðar frá 12. febrúar 2015 um að samþykkja deiliskipulag fyrir Húsafell 2, Steinharpan. Jafnframt er kærð ákvörðun byggingarfulltrúans í Borgarbyggð frá 12. janúar 2016 um að veita leyfi fyrir byggingu húss undir legsteinasafn við Bæjargil í landi Húsafells. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 2. ágúst 2016, er barst nefndinni 3. s.m., kærði landeigandi Húsafells 1, þá ákvörðun sveitarstjórnar Borgarbyggðar frá 12. febrúar 2015 að samþykkja deiliskipulag fyrir Húsafell 2 og ákvörðun byggingarfulltrúans í Borgarbyggð frá 12. janúar 2016 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir húsi undir legsteinasafn við Bæjargil í landi Húsafells. Var þess krafist að hinar kærðu ákvarðanir yrðu felldar úr gildi og að framkvæmdir yrðu stöðvaðar á meðan málið væri til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Með úrskurði nefndarinnar uppkveðnum 23. september 2016 var kröfu kæranda um ógildingu á fyrrnefndri ákvörðun byggingarfulltrúa hafnað en vísað frá kröfu hvað deiliskipulagið varðaði.

Með bréfi úrskurðarnefndarinnar til aðila málsins, dags. 6. mars 2018, var tilkynnt að nefndin hefði í ljósi álits setts umboðsmanns Alþingis frá 23. október 2017 í máli nr. 9116/2016 fallist á beiðni kæranda um endurupptöku málsins. Kom kærandi að kröfum sínum til nefndarinnar með bréfi, dags. 13. mars 2018, mótteknu sama dag. Sem fyrr var gerð krafa um að felld yrði úr gildi samþykkt sveitarstjórnar um deiliskipulag fyrir Húsafell 2 og ákvörðun byggingarfulltrúa um leyfi fyrir byggingu húss undir legsteinasafn við Bæjargil. Að auki var þess krafist að byggingarleyfi, útgefið í ágúst 2015 vegna svokallaðs pakkhúss yrði ógilt. Þá var gerð krafa um að framkvæmdir yrðu stöðvaðar en þeirri kröfu var hafnað með úrskurði nefndarinnar uppkveðnum 15. mars 2018. Verður málið nú tekið til endanlegs úrskurðar.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Borgarbyggð 14. mars, 13. apríl, 9. og 16. nóvember 2018. Jafnframt lágu fyrir nefndinni gögn er móttekin voru 24. og 26. ágúst 2016 og 12. september s.á. Þá móttók nefndin gögn vegna endurupptökubeiðna.

Málsatvik: Mál þetta á sér nokkra forsögu en á árinu 2014 hófst vinna við gerð nýs deiliskipulags fyrir Steinhörpuna í landi Húsafells. Á fundi sveitarstjórnar Borgarbyggðar 8. október 2014 var samþykkt að auglýsa lýsingu á „deiliskipulagi lóðar í landi Húsafells 1“. Var lýsingin auglýst með þeim hætti í Lögbirtingablaðinu og á heimasíðu sveitarfélagsins en að auki mun hún hafa legið frammi til kynningar í ráðhúsi sveitarfélagsins frá 21. nóvember – 1. desember 2014. Í umræddum tilkynningum kom fram að markmið deiliskipulagsins væri að byggja upp sýningarskála, menningarhús og þjónustuhús vegna menningartengdrar starfsemi í Húsafelli. Í lýsingunni var og tekið fram að deiliskipulagssvæðið væri á 9.107 m² lóð í eigu Páls Guðmundssonar í landi Húsafells 1 og markmiði deiliskipulagsins nánar lýst.

Málið var tekið fyrir að nýju á fundi sveitarstjórnar 15. desember 2014  þar sem samþykkt var „tillag[a] að deiliskipulagi Húsafell 1 – lóðar A til auglýsingar“. Tilkynning var birt á vef sveitarfélagsins 17. desember s.á. og samsvarandi tilkynning mun hafa birst í Skessuhorni um svipað leyti með yfirskriftinni „Tillaga að nýju deiliskipulagi – Húsafell 2“.  Í greindum tilkynningum kom fram að samþykkt hefði verið að auglýsa nýtt deiliskipulag lóðar í landi Húsafells 1 og jafnframt var vikið að markmiðum skipulagsins. Tekið var fram að gögn væru aðgengileg á heimasíðu og í ráðhúsi sveitarfélagsins frá 17. desember 2014 og að athugasemdum bæri að skila fyrir 29. janúar 2015. Við meðferð skipulagsáætlunarinnar leitaði sveitarfélagið umsagna, m.a. Umhverfisstofnunar.

Skipulagstillagan var samþykkt á fundi sveitarstjórnar 12. febrúar 2015 og birtist auglýsing þar um í B-deild Stjórnartíðinda 9. júní s.á. Yfirskrift hennar var „Nýtt deiliskipulag við Húsafell 2, landnúmer 178425“. Jafnframt sagði eftirfarandi: „Sveitarstjórn Borgarbyggðar samþykkti 12. febrúar 2015 nýtt deiliskipulag við Húsafell 2. Deiliskipulagið tekur til sýningarskála, menningarhúss og þjónustuhúss sem meðal annars geta hýst steinhörpur og önnur verk listamannsins á Húsafelli. Einnig er gert ráð fyrir að hægt verði að byggja upp legsteinasafn fyrir Húsafells legsteina frá 19. öld. Þjónustuhúsið getur auk þess hýst aðra menningartengda starfsemi á Húsafelli.“ Í greinargerð deiliskipulagsins var hið sama tekið fram en um skipulagssvæðið sagði þar eftirfarandi: „Skipulagssvæðið er á bæjarhlaði Húsafells 1, skammt vestan við Bæjargil við rætur Reyðarfells. Á skipulagssvæðinu er heimreið að gamla bænum, bílastæði, vinnusvæði umhverfis landbúnaðarbyggingar, fjárhús, súrheysturn, gömul tún og túngarður. Skammt utan við skipulagssvæðið er gistiheimilið Gamli bær og Húsafellskirkja.“

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 18. ágúst 2015 var samþykkt umsókn um leyfi til að flytja pakkhús á lóðina við Bæjargil í Húsafelli. Hinn 12. janúar 2016 samþykkti byggingarfulltrúi síðan leyfi til byggingar húss fyrir legsteinasafn við Bæjargil. Skaut kærandi síðar greindri ákvörðun byggingarfulltrúa til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, sem og samþykkt sveitarstjórnar um deiliskipulag Húsafells 2. Fór hann fram á ógildingu beggja ákvarðananna. Skírskotaði kærandi m.a. til þess að auglýst hefði verið röng tilgreining hinnar skipulögðu lóðar. Hinn 23. september 2016 kvað úrskurðarnefndin upp úrskurð í málinu. Var þeim hluta kærunnar er laut að ógildingu deiliskipulagsins vísað frá nefndinni þar sem kæran hefði hvað það varðaði borist að liðnum kærufresti. Sætti byggingarleyfið hins vegar lögmætisathugun nefndarinnar og hafnaði hún kröfu um ógildingu þess.

Með bréfi, dags. 27. september 2016, fór kærandi fram á endurupptöku málsins en því var synjað með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 28. október s.á. Kvartaði kærandi yfir þeirri afgreiðslu til umboðsmanns Alþingis og lá álit setts umboðsmanns fyrir 23. október 2017 í máli nr. 9116/2016. Taldi settur umboðsmaður að úrskurðarnefndinni hefði borið að taka rökstudda afstöðu til þess hvort deiliskipulag það sem hefði verið grundvöllur byggingarleyfis fyrir legsteinasafn hefði verið gilt, þar með talið hvort það hefði verið birt með fullnægjandi hætti. Væri rökstuðningur nefndarinnar ekki í samræmi við 22. gr., sbr. 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og ekki yrði séð hvort nefndin hefði að þessu leyti rannsakað málið í samræmi við 10. gr. stjórnsýslulaga og reist niðurstöðu sína á réttum lagagrundvelli. Beindi settur umboðsmaður því til nefndarinnar að taka mál kæranda til meðferðar að nýju kæmi fram beiðni frá honum þess efnis og leysa þá úr því í samræmi við þau sjónarmið sem rakin væru í álitinu.
Með tölvupósti kæranda til úrskurðarnefndarinnar 24. október 2017 var óskað eftir endurupptöku kærumálsins með vísan til álits setts umboðsmanns Alþingis. Leitaði úrskurðarnefndin sjónarmiða aðila um framkomna beiðni og tók erindið svo fyrir á fundi nefndarinnar 28. febrúar 2018. Með hliðsjón af fyrrnefndu áliti setts umboðsmanns var það ákvörðun nefndarinnar að málið skyldi endurupptekið og úrskurður kveðinn upp í því að nýju. Var aðilum málsins tilkynnt um þá niðurstöðu með bréfi, dags. 6. mars s.á., og þeim gefinn kostur á að tjá sig um atriði málsins, einkum þau er fram kæmu í nefndu áliti. Með bréfi, dags. 13. mars 2018, bárust úrskurðarnefndinni athugasemdir kæranda sem og kröfur hans fyrir nefndinni, svo sem áður er rakið. Verður nú kveðinn upp efnisúrskurður í máli þessu að nýju.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að hann sé eigandi Húsafells 1 og reki þar gistiheimilið Gamla bæ. Bæjargil, landnúmer 221570, sé landspilda í landi Húsafells og liggi að Húsafelli 1, sunnan við Húsafellskirkju. Húsafell 2, landnúmer 178425, liggi norðan við Húsafell 1 og Húsafellskirkju. Leyfishafi sé bæði eigandi Bæjargils og Húsafells 2. Vegna legu og nálægðar Húsafells 1 við Bæjargil og þær byggingar sem fyrirhugað sé að reistar verði á grundvelli hins kærða deiliskipulags hafi kærandi lögvarða hagsmuni af máli þessu. Muni deiliskipulagið hafa áhrif á landnotkun og þéttleika byggðar á hinu deiliskipulagða svæði og á útsýni kæranda. Einnig muni fyrirhuguð starfsemi hafa í för með sér aukna umferð um land hans en aðkoma að Bæjargili sé um sameiginlegan veg frá Húsafellsvegi að Húsafellskirkju, gistiheimili og núverandi byggingum á lóð að Húsafelli 1. Aðkoma að safninu og vegghleðslur muni ná inn á land Gamla bæjar. Hafi kærandi ekki sýnt af sér neitt tómlæti í máli þessu heldur hafi hann þvert á móti sýnt skjót og ákveðin viðbrögð á öllum stigum málsins.

Með hliðsjón af áliti umboðsmanns Alþingis í máli nr. 9116/2016 beri úrskurðarnefndinni að taka afstöðu til lögmætis hins kærða deiliskipulags. Það sé haldið verulegum form- og efnisannmörkum. Skort hafi á kynningu og samráð við meðferð deiliskipulagstillögunnar. Í þessu sambandi sé m.a. vísað til 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og  4. mgr. 12. gr. sömu laga sem og til 1. mgr. gr. 5.2.1. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013. Þá hafi ekki verið gætt að þeirri fortakslausri reglu 3. mgr. gr. 5.2.1. skipulagsreglugerðar að hafa samráð við eiganda þess lands er liggi að lóðamörkum. Samkvæmt greinargerð deiliskipulagsins sé Gamli bærinn á Húsafelli 1 titlaður umsagnaraðili, en í skipulagsferlinu hafi kæranda hvorki verið tilkynnt um gerð deiliskipulagsins né haft samráð við hann.

Í 1. mgr. gr. 5.5.1. skipulagsreglugerðar komi fram að í titli skipulagsáætlunar skuli koma fram að um deiliskipulag sé að ræða og skuli titilinn vera lýsandi fyrir framkvæmdasvæði og staðsetningu innan sveitarfélags. Fram hafi komið í yfirskrift deiliskipulagsins og auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda að um væri að ræða Húsafell 2. Af deiliskipulagsuppdrætti megi þó sjá að deiliskipulagið taki til lóðarinnar Bæjargils en uppdrátturinn hafi ekki verið birtur með auglýsingunni. Vegna framangreinds annmarka hafi kærandi ekki kynnt sér að eigin frumkvæði efni skipulagstillögunnar á vinnslutíma hennar, enda hafi hann talið að tillagan varðaði Húsafell 2 en ekki Bæjargil, sbr. til hliðsjónar 12. gr. laga nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna. Stríði fyrrgreind málsmeðferð einnig gegn 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. óskráða meginreglu stjórnsýsluréttarins, og andmælareglu 13. gr. sömu laga, sbr. óskráða andmælareglu stjórnsýsluréttarins.

Umrætt deiliskipulag sé í andstöðu við gildandi Aðalskipulag Borgarbyggðar 2010-2022 sem sé brot á 7. mgr. 12. gr. og 3. mgr. 37. gr. skipulagslaga. Í aðalskipulagi komi fram að jörðin Húsafell sé á skilgreindu svæði fyrir verslun og þjónustu (reit S4) og að þar sé gert ráð fyrir verslun-, gisti- og veitingarekstri. Ekki sé gert ráð fyrir menningartengdri starfsemi á jörðinni og einvörðungu uppbyggingu mannvirkja sem þjóni svæðinu sem útivistarsvæði. Njóti jörðin hverfisverndar samkvæmt aðalskipulaginu. Sé tekið fram í skilmálum þess að þar skuli halda öllu raski í lágmarki og að við uppbyggingu skuli taka sérstakt tillit til vistkerfa sem falli undir 37. gr. náttúruverndarlaga nr. 44/1999, nú lög nr. 60/2013. Þá segi að uppbygging mannvirkja sem þjóni svæðinu sem útivistarsvæði sé heimil að fenginni umsögn Umhverfisstofnunar. Ekki hafi verið leitað umsagnar Umhverfisstofnunar áður en deiliskipulagið hafi verið samþykkt eða ákvarðanir teknar um að veita byggingarleyfi, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga. Fram komi í greinargerð deiliskipulagsins að það samræmist ekki þeirri stefnu sem sett sé fram í aðalskipulaginu. Á hinn bóginn sé „það í samræmi við þá starfsemi sem þar er og hefur verið stunduð um árabil á skipulagssvæðinu“. Samkvæmt skipulagslögum skuli deiliskipulag fylgja stefnu aðalskipulags og hefði þurft að gera breytingar á aðalskipulaginu samhliða gerð deiliskipulagsins, sbr. 2. mgr. 41. gr. laganna. Ýmsir aðrir annmarkar séu hinu kærða deiliskipulagi, nafn Bæjargils sé hvorki skráð í greinargerð skipulagsáætlunarinnar né á uppdrætti, ósamræmi sé á milli hnita og uppdráttar og ekki sé fjallað um þinglýsta kvöð sem hvíli á leyfishafa. Þá hafi hvorki verið skilyrði til að samþykkja umrædd byggingaráform né útgáfu hinna kærðu byggingarleyfa, en ekki verði séð að við þær afgreiðslur hafi legið fyrir öll þau gögn sem lög um mannvirki nr. 160/2010 og byggingarreglugerð nr. 112/2012 áskilji.

Málsrök sveitarfélagsins:
Af hálfu sveitarfélagsins er þess aðallega krafist að málinu verði vísað frá úrskurðarnefndinni á grundvelli þess að lögvarðir hagsmunir kæranda séu ekki fyrir hendi. Til vara er gerð krafa um að ógildingu verði hafnað.

Endurupptaka máls hljóti eðli málsins samkvæmt að snúast um málið á upphaflegum forsendum þess. Í málatilbúnaði kæranda nú sé ekki vísað til neins af þeim hagsmunum sem hafi verið grundvöllurinn að upphaflegri kæru og áframhaldandi málarekstri kæranda fyrir nefndinni og umboðsmanni Alþingi. Eigi því ekki að líta til þeirra athugasemda kæranda sem nú komi fram heldur miða við forsendur upphaflega málsins að teknu tilliti til þess sem fram komi í áliti umboðsmanns Alþingis. Byggingarleyfi vegna umrædds pakkhúss hafi ekki verið hluti af upprunalegri kæru og geti því ekki komið til álita við úrlausn málsins fyrir nefndinni nú.

Þá beri að horfa til þess að ekki séu lengur fyrir hendi þeir hagsmunir sem upphaflega hafi verið vísað til, þ.e. varðandi bílastæði og staðsetningu legsteinasafnsins. Þinglýstri kvöð um skipulags- og bílastæðamál hafi verið aflýst og verði því ekki neinn réttur á henni byggður. Lagðar hafi verið fram nýjar mælingar af hálfu byggingarleyfishafa á staðsetningu legsteinasafnsins sem sýni með skýrum hætti að því hafi verið ranglega haldið fram að hús þess væri ekki innan byggingarreits eins og hann sé skilgreindur í deiliskipulagi. Verði úrskurðarnefndin að líta til þess að framangreind atvik hafi skýrst eða breyst verulega frá upphaflegri úrlausn málsins, sbr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Eigi í ljósi þessa að vísa kærunni frá nefndinni á þeim grundvelli að kærandi eigi ekki, eða hafi jafnvel aldrei átt, þá lögvörðu hagsmuni af afgreiðslu málsins sem hann upphaflega hafi byggt málflutning sinn á og lög nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geri kröfu um.

Ekki verði séð að landnotkun á hinu deiliskipulagða svæði muni með nokkrum hætti hafa áhrif á hagsmuni kæranda en hún verði sú sama og verið hafi. Umrædd lóð sé  9.100 m²  og á henni séu mannvirki sem samanlagt séu 300 m². Fyrirhugað byggingarmagn nýrra bygginga samkvæmt hinu kærða deiliskipulagi sé að hámarki 390 m². Nýtingarhlutfall lóðarinnar verði því 0,075. Með hliðsjón af þessu sé fráleitt að kærandi geti átt svo ríka hagsmuni vegna þéttingar byggðar í dreifbýli að þeir komi í veg fyrir að byggingarleyfishafi geti nýtt 7,5% lóðar sinnar undir mannvirki.
Hús þau sem fyrirhugað sé að reisa eða sem þegar séu risin hafi óveruleg áhrif á útsýni kæranda. Samkvæmt deiliskipulagsuppdrætti sé legsteinasafnið u.þ.b. 35 m frá gistiheimili kæranda og nánast aðeins gafl þess verði sjáanlegur úr tveimur herbergjum gistiheimilisins. Áfram verði rúmt um gistiheimilið til allra átta. Eina útsýnið sem tapist sé upp í fjallshlíðina fyrir ofan húsin sem varla hafi verulega þýðingu við mat á verðmæti hússins að Húsafelli 1 eða nýtingarmöguleika þess. Jörðin Húsafell 1 sé 43.500 m² og því muni ný mannvirki að Bæjargili engin áhrif hafa á útsýni af langstærstum hluta jarðarinnar. Séu hagsmunir kæranda vegna þessa atriðis engir eða í besta falli svo óverulegir að þeir geti ekki talist lögvarðir.

Verði ekki með nokkru móti séð með hvaða hætti starfsemi að Bæjargili muni hafa í för með sér aukna umferð um land kæranda þar sem ekki þurfi að fara um land hans til að komast að fyrirhuguðum og núverandi mannvirkjum að Bæjargili. Þannig sé sá sameiginlegi vegur sem vísað sé til í athugasemdum kæranda að hluta til á landi austan við hið deiliskipulagða svæði, auk þess sem hann liggi jafnframt um land Bæjargils að nokkru leyti. Þá sé planið sjálft allt á landi Bæjargils að undanskilinni mjórri landræmu framan við gistiheimilið þar sem bílastæði kæranda séu. Fari akstur inn á skipulagða svæðið því ekki að neinu leyti um land kæranda. Því sé andmælt að ljósmyndir sem kærandi hafi lagt fram séu lagðar til grundvallar varðandi mat á þessu atriði.

Kærandi hafi alls ekki sýnt skjót viðbrögð í máli þessu. Framkvæmdir þær sem gert hafi verið ráð fyrir í deiliskipulagi hafi byrjað á árinu 2015, en fyrir liggi úttektarvottorð byggingarfulltrúa frá því í nóvember s.á. vegna framkvæmda við grunn undir svokallað pakkhús. Hafi kæranda verið send drög að deiliskipulagsuppdrætti um svipað leyti, en óumdeilanlegt sé að framkvæmdir við pakkhúsið hafi ekki getað farið fram án þess að kærandi hafi verið meðvitaður um þær.

Í titli auglýstrar lýsingar hafi verið vísað til landareignar kæranda og í því ljósi hafi kærandi haft fulla ástæðu til að kynna sér efni hennar. Í auglýsingu tillögu að nýju deiliskipulagi að Húsafelli 2 hafi komið fram í texta að um væri að ræða lóð í landi Húsafells 1 sem hafi gefið kæranda enn ríkari ástæðu til að kynna sér stöðu mála varðandi þá deiliskipulagsvinnu sem staðið hafi yfir á þeim tíma. Þrátt fyrir áðurnefndar auglýsingar og tilvísanir í þeim til Húsafells 1, hafi kærandi ekki séð ástæðu til að kynna sér stöðu mála eða aðhafast neitt í málinu þegar framkvæmdir við grunn undir fyrrnefnt pakkhús hafi hafist í aðeins 50 m fjarlægð frá gistiheimilinu. Landamörk jarðanna Húsafells 1 og 2 liggi saman á löngum kafla og í raun á miklu lengri kafla en landamerki Bæjargils og Húsafells 1. Sé því fráleitt að halda því fram að þar sem hið kærða deiliskipulag hafi verið auglýst undir nafni Húsafells 2, landnr. 178425, hafi það ekki gefið kæranda fulla ástæðu til að kynna sér efni hins kærða deiliskipulags fyrr en einu og hálfu ári eftir að það hafi verið staðfest í Stjórnartíðindum. Það að hið kærða deiliskipulag hafi verið ranglega auglýst undir nafninu Húsafell 2 í Stjórnartíðindum hafi því í raun engin áhrif haft á hagsmuni kæranda. Hann hefði strax átt að kynna sér skipulagsmál á aðliggjandi landi hefði hann haft á þeim einhverjar skoðanir. Ástæða þess að ekki virðist hafa verið leitað umsagnar kæranda sé ekki kunn.

Hafi kærandi sýnt af sér nægilegt tómlæti með því að koma ekki að kæru til nefndarinnar fyrr en í ágúst 2016 þar sem hann hafi mátt vita um stöðu mála að Bæjargili, eða í öllu falli haft fulla ástæðu til að kynna sér hana, miklu fyrr eða þegar framkvæmdir hófust. Í því ljósi hafi kærandi aukinheldur öðlast sérstaklega ríka ástæðu til þess þegar hann hafi fengið í hendur deiliskipulagsuppdrátt frá talsmanni byggingarleyfishafa síðla árs 2015. Í ljósi framangreinds skuli miða upphaf kærufrests, bæði vegna deiliskipulagsins sem og vegna byggingarleyfisins við 13. nóvember 2015, en þann dag hafi framkvæmdir sannanlega verið hafnar við pakkhúsið. Vegna þessa verði að líta svo á að kæra sé of seint fram komin vegna tómlætis kæranda.

Byggingarleyfishafi hafi hafið framkvæmdir með eðlilegar væntingar til gildis umrædds deiliskipulags og byggingarleyfis, útgefnu af þar til bæru yfirvaldi. Þær hafi staðið í um það bil ár án athugasemda kæranda þegar kæra hafi verið send nefndinni. Hafi byggingarleyfishafi því mátt vera í góðri trú um að öll tilskilin leyfi og formsatriði væru til staðar. Kunni framkvæmdir að verða unnar fyrir gíg verði kæran tekin til greina, rúmum þremur árum eftir gildistöku deiliskipulagsins og rúmu einu og hálfu ári eftir að úrskurður nefndarinnar um frávísun og synjun um endurupptöku málsins hafi legið fyrir. Samkvæmt lögum um úrskurðarnefndina skuli úrskurðir hennar vera fullnaðarúrskurðir á stjórnsýslustigi og hafi byggingarleyfishafi því eðlilega vænst þess að niðurstaða nefndarinnar væri endanleg.

Neikvæð áhrif hinna kærðu ákvarðana á eignarréttindi kæranda séu óveruleg eða jafnvel engin. Séu hagsmunir kæranda af ógildingu engir eða í það minnsta mjög óverulegir samanborið við geysimikla hagsmuni byggingarleyfishafa af því að geta nýtt lóð sína með þeim hófsama, ábyrga og tillitssama hætti sem raun beri vitni og hið kærða deiliskipulag geri ráð fyrir.

Málsmeðferðarreglum skipulagslaga sé ætlað að vernda beina, verulega og lögmæta hagsmuni þeirra sem skipulagáætlanir kunni að hafa bein áhrif á en slíkir hagsmunir séu ekki til staðar hér. Í ljósi þess telji sveitarfélagið ekki óeðlilegt að úrskurðarnefndin líti til þess við meðferð málsins að þó svo að leitað hefði verið umsagnar kæranda í þessu tilviki séu yfirgnæfandi líkur á því að sú umsögn hefði hvorki haft þau áhrif að deiliskipulagið hefði ekki verið samþykkt af sveitarfélaginu né komið í veg fyrir útgáfu byggingarleyfis vegna legsteinasafnsins þar sem  fyrirhuguð uppbygging að Bæjargili sé hófleg, skynsamleg og eðlilegt framhald á starfsemi sem hafi verið á svæðinu um nokkra hríð.

Ljóst sé að mistök hafi átt sér stað í málsmeðferð sveitarfélagsins hvað hið kærða deiliskipulag varði. Ekki skuli þó ógilda hinar kærðu ákvarðanir á þeim grundvelli einum að málsmeðferð vegna hinna kærðu ákvarðana kunni að hafa verið ófullnægjandi þegar kæranda hafi ekki tekist að sýna fram á að ógilding myndi þjóna verulegum lögvörðum hagsmunum hans. Þannig hafi mögulegur annmarki á málsmeðferð í raun ekki haft nein áhrif á efni þeirra ákvarðana sem sveitarfélagið hafi tekið í málinu. Ekki sé orsakasamband á milli þess að kærandi hafi ekki komið athugasemdum sínum á framfæri á meðan á málsmeðferðinni stóð og þess að sveitarstjórn hafi ákveðið að staðfesta hið kærða deiliskipulag. Sama eigi við um hið kærða byggingaleyfi.

Ekki sé hægt að fullyrða að nánar tilgreind gögn hafi ekki verið afhent sveitarfélaginu þegar sótt hafi verið um byggingarleyfi beggja húsanna eða útiloka að þau hafi ekki verið skráð og gengið frá þeim eins og verklagsreglur embættisins hafi gert ráð fyrir. Fari kærandi vísvitandi með rangt mál fyrir nefndinni varðandi staðsetningu og aukna umferð um land kæranda.

Málsrök leyfishafa: Leyfishafi tekur undir sjónarmið sveitarfélagsins í máli þessu. Sérstaklega sé tekið undir þær athugasemdir þar sem mótmælt sé nýjum málatilbúnaði kæranda, einkum þær er varði byggingarleyfi pakkhússins. Ótækt sé að kærandi geti aukið við kröfugerð sína  með þessum hætti og sé það til þess fallið að ógna réttaröryggi. Leyfishafi hafi í gegnum allt ferlið unnið samviskusamlega og verið í góðri trú um að hann væri að vinna verkið í samræmi við gildandi lög og reglur. Hafi öllum nauðsynlegum gögnum verið skilað inn til byggingaryfirvalda.
Athugasemdir kæranda við umsögn Borgarbyggðar: Kærandi bendir á að í athugasemdum sveitarfélagsins sé beinlínis viðurkennt að ekki hafi verið leitað umsagnar hans við gerð hins umþrætta deiliskipulags. Þar með hafi verið viðurkennt að brotið hafi verið gegn andmælareglu 3. mgr. gr. 5.2.1. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013. Leyfishafi hafi ekki framkvæmt í góðri trú. Mælingum sem sveitarfélagið hafi sent til úrskurðarnefndarinnar varðandi staðsetningu sé mótmælt.

—–

Færðar hafa verið fram frekari röksemdir í máli þessu sem ekki verða raktar nánar en úrskurðarnefndin hefur haft þær til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti deiliskipulags og byggingarleyfis vegna framkvæmda á landi aðliggjandi fasteignar kæranda þar sem hann rekur lítið gistiheimili og hefur yfir að ráða fimm bílastæðum. Er því svo lýst í hinu kærða deiliskipulagi að skipulagssvæðið sé á bæjarhlaði Húsafells 1 og enn fremur tekið fram að skammt utan við skipulagssvæðið sé gistiheimili kæranda. Framkvæmdir þær sem um ræðir eru að mestu á landbúnaðarlandi þar sem byggð verður upp menningartengd starfsemi. Er gert ráð fyrir 16 bílastæðum vegna hennar. Verður að telja kæranda hafa grenndarhagsmuni af þeirri uppbyggingu sem fyrirhuguð er í dreifbýlinu og þeirri umferðaraukningu sem henni kann að fylgja.

Eins og rakið er í málavaxtalýsingu var á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa Borgarbyggðar 18. ágúst 2015 samþykkt umsókn um leyfi til að flytja pakkhús á lóðina við Bæjargil. Liggur fyrir úttektarvottorð byggingarfulltrúa frá því í nóvember s.á. vegna framkvæmda við grunn hússins. Hinn 3. ágúst 2016 barst úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála kæra vegna deiliskipulags Húsafells 2 og samþykktar byggingaráforma fyrir húsi undir legsteinasafn, en ekki var kærð fyrrgreind ákvörðun um flutning pakkhúss. Hún hefur nú verið kærð með bréfi kæranda, dags. 13. mars 2018, en af hálfu sveitarfélagsins hefur því verið mótmælt að krafa um ógildingu þeirrar ákvörðunar komist að í málinu. Auk þess telur sveitarfélagið að líta beri fram hjá málsástæðum kæranda öðrum en þeim sem þegar hafi verið fram komnar af hans hálfu þegar fyrri úrskurður hafi verið kveðinn upp.

Svo sem fram hefur komið var mál þetta endurupptekið 28. febrúar 2018 í kjölfar álits setts umboðsmanns Alþingis. Við endurupptöku máls heldur meðferð þess áfram þar sem frá var horfið. Eðli máls samkvæmt eru þá undir þær ákvarðanir sem kærðar voru í öndverðu, en aðrar ekki. Skírlega kom fram í kæru að kært væri deiliskipulag og byggingarleyfi vegna legsteinasafns, en krafa um ógildingu byggingarleyfis vegna svokallaðs pakkhúss kom ekki fram fyrr en í bréfi kæranda 13. mars 2018. Verður að líta á það sem nýtt kæruefni. Er í því sambandi rétt að benda á að í viðbótarathugasemdum kæranda til úrskurðarnefndarinnar, dags. 6. september 2016, þar sem svarað er athugasemdum leyfishafa frá 28. ágúst s.á., kemur fram að kærandi hefði haft vitneskju um nefnda framkvæmd. Hann hefði orðið var við jarðrask vegna þessa en óljóst hafi verið hvað þar ætti að framkvæma og það ekki verið kæranda til ama. Hins vegar hafi hann beint því til byggingarfulltrúa að þar væri um óleyfisframkvæmd að ræða. Hefði kæranda verið í lófa lagið að gera reka að því að kæra þá þegar leyfi vegna sömu framkvæmdar til úrskurðarnefndarinnar, en það gerði hann ekki. Kröfu kæranda um ógildingu byggingarleyfis frá 18. ágúst 2015 vegna pakkhússins verður því vísað frá sem of seint fram kominni, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Hið kærða deiliskipulag og byggingarleyfi vegna legsteinasafns sæta hins vegar lögmætisathugun nefndarinnar að nýju og skal í því sambandi áréttað að málsforræðisreglan á ekki við um meðferð kærumála í stjórnsýslunni og getur úrskurðarnefndin tekið sjálfstætt til skoðunar öll þau atriði sem áhrif geta haft á gildi kærðrar ákvörðunar óháð því hvort þær málsástæður hafa komið fram áður eða ekki, enda skal nefndin sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Samkvæmt lokamálslið 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 skal birta auglýsingu um samþykkt deiliskipulag í B-deild Stjórnartíðinda og kemur jafnframt fram í 2. mgr. að hafi slík auglýsing ekki verið birt innan árs frá því að athugasemdafresti lauk teljist deiliskipulagið ógilt. Í gr. 5.7.3. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 er að finna efnislega samhljóða ákvæði en í 2. mgr. ákvæðisins er auk þess tekið fram að í auglýsingu í Stjórnartíðindum skuli koma fram um hvaða deiliskipulag sé að ræða, meginefni þess og hvenær sveitarstjórn samþykkti deiliskipulagið. Um réttaráhrif birtingar er fjallað í 8. gr. laga nr. 15/2005 um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað. Í 1. mgr. nefndrar 8. gr. er tiltekið að fyrirmælum, er m.a. felast í auglýsingum, megi eigi beita fyrr en birting í Stjórnartíðindum hafi farið fram og skuli birt fyrirmæli binda alla frá og með deginum eftir útgáfudag, sbr. 2. mgr. 8. gr. Réttaröryggissjónarmið búa að baki reglum um birtingu laga og fyrirmæla og hvenær þeim verði beitt. Eru þau sjónarmið m.a. reifuð í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 15/2005 og þar vísað til frekari umfjöllunar í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 64/1943 um birtingu laga og stjórnvaldaerinda. Er svo tekið fram í athugasemdum með frumvarpi til laga nr. 15/2005 að ef undanskildir séu tveir tilgreindir dómar Hæstaréttar frá sjötta áratug 20. aldar hafi það verið staðföst/samfelld afstaða íslenskra dómstóla að óbirtum reglum í lögum og stjórnvaldsfyrirmælum verði ekki beitt og gildi þá einu hvort um þær var kunnugt.

Í B-deild Stjórnartíðinda 9. júní 2015 var birt auglýsing um „Nýtt deiliskipulag við Húsafell 2, landnúmer 178425.“ Í auglýsingunni var enn fremur tekið fram: „Sveitarstjórn Borgarbyggðar samþykkti 12. febrúar 2015 nýtt deiliskipulag við Húsafell 2. Deiliskipulagið tekur til sýningarskála, menningarhúss og þjónustuhúss sem meðal annars geta hýst steinhörpur og önnur verk listamannsins á Húsafelli. Einnig er gert ráð fyrir að hægt verði að byggja upp legsteinasafn fyrir Húsafells legsteina frá 19. öld. Þjónustuhúsið getur auk þess hýst aðra menningartengda starfsemi á Húsafelli.“ Í auglýsingunni var réttilega greint frá því hvenær deiliskipulagið var samþykkt af sveitarstjórn og meginefni þess reifað í samræmi við nefnt ákvæði 2. mgr. gr. 5.7.3. í skipulagsreglugerð. Samkvæmt upplýsingum úr fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands er Húsafell 2, landnúmer 178425, íbúðarhúsalóð sem er 6.726,3 m² að stærð. Er listamaður sá sem vísað er til í deiliskipulagsauglýsingunni eigandi Húsafells 2 og er hann jafnframt til húsa þar. Listamaðurinn er einnig eigandi Bæjargils, 9.104,0 m² lóðar með landnúmerinu 221570, þar sem eru vinnustofur, fjós og geymsla. Er það sú lóð þar sem fyrirhugað er að reisa mannvirki þau sem vísað er til í deiliskipulagsauglýsingunni og eru þau sýnd á deiliskipulagsuppdrætti sem ekki var birtur með auglýsingunni. Var því ranglega tilgreint í deiliskipulagsauglýsingunni hvaða landsvæði deiliskipulagið tæki til og skorti því á að í henni væri tilgreint með skýrum hætti um hvaða deiliskipulag væri að ræða, sbr. tilvitnað reglugerðarákvæði. Þá var ekki fjarstæðukennt að telja auglýsinguna rétta í ljósi eignarhalds á Húsafelli 2 og stærðar landsins, enda ekki óvarlegt að telja þau mannvirki sem tilgreind voru í deiliskipulagsauglýsingunni geta rúmast þar. Þótt umdeilt deiliskipulag varði fyrst og fremst hagsmuni aðila í næsta nágrenni, einkum leyfishafa og kæranda, verður ekki fram hjá því litið að með opinberri birtingu er skipulaginu beint að ótilteknum hópi og er því ætlað að binda almenning allan, sbr. þau lög og reglur sem áður eru rakin. Þótt leiða megi líkur að því með hliðsjón af málsatvikum að kæranda, sem kunnugur er staðháttum, hafi mátt vera ljóst í hvað stefndi þá verður, að teknu tilliti til þeirra réttaröryggissjónarmiða sem áður hafa verið reifuð, ekki hjá því komist að álykta sem svo að hið kærða deiliskipulag hafi ekki tekið gildi með lögformlega réttri birtingu í B-deild Stjórnartíðinda skv. 2. mgr. gr. 5.7.3. í skipulagsreglugerð, sbr. og 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga. Að fenginni þeirri niðurstöðu liggur ljóst fyrir að vegna fyrirmæla 2. mgr. 42. gr. skipulagslaga, sem áður hafa verið rakin, telst skipulagið ógilt. Þar sem ekki liggur fyrir í málinu gild skipulagsákvörðun er réttarverkan hefur að lögum verður kröfu kæranda um ógildingu hennar vísað frá úrskurðarnefndinni.

Í málinu er einnig deilt um gildi byggingarleyfis fyrir legsteinasafni sem veitt var 12. janúar 2016 á grundvelli umdeilds deiliskipulags. Þess skal gætt að byggingarleyfisskyld framkvæmd sé í samræmi við skipulagsáætlanir sveitarfélags þegar sótt er um byggingarleyfi og er það jafnframt skilyrði fyrir útgáfu þess að mannvirki og notkun þess samræmist skipulagsáætlunum á svæðinu, sbr. 2. mgr. 10. gr. og 1. tl. 1. mgr. 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki, en eins og fram hefur komið er ekki í gildi deiliskipulag á svæðinu. Undanþágu hvað varðar ódeiliskipulögð svæði er að finna í 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga. Þar er kveðið á um að þegar sótt sé um byggingar- eða framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmd sem sé í samræmi við aðalskipulag hvað varði landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar í þegar byggðu hverfi og deiliskipulag liggi ekki fyrir, geti sveitarstjórn ákveðið að veita megi leyfi án deiliskipulagsgerðar en þá að undangenginni grenndarkynningu. Í greinargerð hins umdeilda deiliskipulags er tekið fram að fyrirhugað deiliskipulag samræmist ekki þeirri stefnu sem sett sé fram í aðalskipulagi Borgarbyggðar 2010-2022, en hins vegar sé það í samræmi við þá starfsemi sem þar sé og hafi verið stunduð um árabil á deiliskipulagssvæðinu. Hvort sem hið kærða byggingarleyfi hefði átt sér stoð í aðalskipulagi eða ekki liggur fyrir að sú málsmeðferð sem fyrir er mælt í 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga fór ekki fram. Á hið kærða byggingarleyfi sér því hvorki stoð í gildu deiliskipulagi né fór málsmeðferð þess að undantekningarákvæðum skipulagslaga um grenndarkynningu. Verður byggingarleyfið þegar af þeim sökum fellt úr gildi.

Frekari gagnaöflun í máli þessu var að meginstefnu lokið í apríl 2018 en frekari dráttur hefur orðið á uppkvaðningu úrskurðar þessa sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúa frá 18. ágúst 2015 um að samþykkja umsókn um leyfi til að flytja pakkhús á lóðina við Bæjargil í Húsafelli er vísað frá úrskurðarnefndinni.

Kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar sveitarstjórnar Borgarbyggðar frá 12. febrúar 2015 um að samþykkja deiliskipulag fyrir Húsafell 2, Steinharpan er vísað frá úrskurðarnefndinni.

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Borgarbyggð frá 12. janúar 2016 um að veita leyfi fyrir byggingu húss undir legsteinasafn við Bæjargil í landi Húsafells.

124/2018 Laugavegur

Með

Árið 2018, fimmtudaginn 22. nóvember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 124/2018, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 20. febrúar 2018 um að samþykkja veitingu byggingarleyfis fyrir breytingum á húsinu nr. 130 við Laugaveg í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags 8. október 2018, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur, Laugavegi 128, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 20. febrúar 2018 að samþykkja byggingaráform til breytingar á húsinu nr. 130 við Laugaveg. Er þess krafist að framangreind ákvörðun verði felld úr gildi og að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Verður málið nú tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til framkominnar stöðvunarkröfu kærenda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 18. október 2018.

Málavextir: Fyrir lóðina Laugaveg 130 er í gildi deiliskipulag sem tekur til staðgreinireita 1.241.0 og 1.241.1, svonefndra Hampiðjureita. Nefnt deiliskipulag var samþykkt í borgarráði Reykjavíkur 20. júlí 2006 og tók gildi 8. ágúst s.á. Í almennum skilmálum deiliskipulagsins kemur m.a. fram að með því sé veitt heimild fyrir minni háttar breytingum á húsum á reitnum, s.s. gerð skyggnis, svala, lítilla kvista og lagfæringa án deiliskipulagsbreytingar, að undangengnu samþykki byggingarfulltrúa. Í sérskilmálum fyrir lóðina nr. 130 við Laugaveg kemur fram að heimilt sé að hækka húsið um eina hæð og reisa út útbyggingu til suðurs.

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúans í Reykjavík 20. febrúar 2018 var samþykkt umsókn eiganda Laugavegs 130 um að rífa núverandi ris hússins og þak, hækka húsið um eina hæð, byggja viðbyggingu úr steinsteypu og gleri á fyrstu hæð og gera svalir á þriðju hæð og í risi. Erindið hafði áður verið samþykkt 3. apríl 2007 og 15. júlí 2008. Var afgreiðsla byggingarfulltrúa staðfest á fundi borgarráðs 1. mars 2018 og var byggingarleyfi fyrir framkvæmdunum gefið út 24. ágúst s.á. Samkvæmt aðaluppdráttum leyfisins var gert ráð fyrir 26,5 m2 svölum á þaki viðbyggingarinnar.

Málsrök kærenda:
Kærendur telja að svalir sem fyrirhugaðar séu á þaki viðbyggingar fyrstu hæðar stangist á við aðalskipulag. Þáverandi nágranni hafi samþykkt byggingu viðbyggingar við húsið fyrir u.þ.b. 10 árum, sem heimiluð hafi verið í deiliskipulagi reitsins, og geri kærendur ekki athugasemdir varðandi hana. Hins vegar hafi þá ekki verið gert ráð fyrir svölum á þaki viðbyggingarinnar, líkt og nú. Svölunum hafi verið bætt inn í teikningarnar árið 2018 án nokkurs samráðs við nágranna.

Í Aðalskipulagi Reykjavíkurborgar 2010-2030 á bls. 204 komi eftirfarandi fram varðandi svæðið: „Meðfram aðalgötum er heimil fjölbreyttari landnotkun, þó grunnskilgreining lóða við götuna sé íbúðarsvæði. Hér er einkum um að ræða starfsemi sem fellur undir flokkana verslun og þjónusta (VÞ, að skemmtistöðum undanskyldum) og samfélagsþjónustu (S). Verslun og þjónusta á jarðhæðum getur verið heimil, svo og mögulega veitingastaðir í flokki I og II og gististaðir í flokki II-III. Opnunartími allra veitingastaða skal takmarkast við kl. 23. Breytt notkun í þessa veru í fjöleignarhúsi er háð samþykki meðeigenda, sbr. ákvæði laga um fjöleignarhús. Rýmri heimildir um landnotkun gilda eingöngu um hús sem standa við viðkomandi aðalgötu og ná einkum til jarðhæða þegar um verslun, þjónustu, og veitingastaði er að ræða. Ef þörf krefur eru sett nánari ákvæði um landnotkunarheimildir við aðalgötur í hverfis- og eða deiliskipulagi.“ Kærandi bendir á að samkvæmt því sem komi fram í aðalskipulagi sé gert ráð fyrir að rýmri heimildir um landnotkun nái einkum til jarðhæða. Umræddar svalir séu hins vegar á annarri hæð og samræmist því ekki aðalskipulagi borgarinnar. Skilja verði það sem fram komi í aðalskipulagi á þann hátt að veitingastaðurinn ætti ekki að geta fengið leyfi fyrir aukinni starfsemi á annarri hæð án sérstakrar samþykktar, að undangenginni úttekt á grenndaráhrifum. Slík samþykkt liggi hins vegar ekki fyrir og sérstök úttekt hafi ekki farið fram.

Ætla megi að ekki hafi verið talin ástæða til að grenndarkynna tilkomu svalanna þar sem litið hafi verið svo á að þær féllu undir minni háttar breytingar sem gera mætti án deiliskipulags-breytingar. Nefndar svalir geti hins vegar ekki fallið undir þessa heimild þar sem þær séu óvenju stórar og því ekki hægt að líta á þær sem minni háttar breytingu á húsinu.

Með tilkomu svalanna yrði einkalíf kærenda gert að engu og ekki væri hægt að lifa eðlilegu fjölskyldulífi. Gestum veitingarstaðarins yrði gert kleift að horfa inn um stofugluggann hjá kærendum úr u.þ.b. tveggja metra fjarlægð og ætla megi að gestunum myndi fylgja hávaði, einkum í ljósi þess að veitingastaðurinn sé með vínveitingaleyfi og heimild til að hafa opið til kl. 23:00 á hverju kvöldi. Þá megi búast við að truflandi og heilsuspillandi reykingarlykt myndi berast inn í vistarverur kærenda, kysu þeir að hafa opinn glugga. Þetta myndi hafa í för með sér að erfitt yrði að selja íbúðina og að verðgildi hennar myndi hrapa.

Kærendur taki fram að í samskiptum þeirra við Reykjavíkurborg sé ekki að sjá skýra afstöðu borgarinnar til svalanna og telji kærendur það renna stoðum undir þá afstöðu þeirra að ekki hafi verið rétt að málum staðið. Í einu svari frá byggingarfulltrúa hafi komi fram að eiganda veitingastaðarins væri með öllu óheimilt að hleypa gestum út á svalirnar þar sem ekki hafi verið sótt um útiveitingaleyfi. Hins vegar sé á það bent að málið snúist ekki um það hvort borðhald verði á þaksvölunum heldur leggist kærendur gegn því að stöðugur straumur veitingarhúsagesta eigi að geta verið á svölunum og valdið þeim truflunum sem áður hafi verið raktar. Ef borgin hafi í hyggju að banna umgang á þaksvölunum sé óútskýrt hvers vegna veitt hafi verið leyfi fyrir þeim. Þá yrðu leyfðar þaksvalir tveimur metrum frá stofuglugga kærenda, sem hefðu ekkert jákvætt gildi fyrir veitingastaðinn sem þær tilheyrðu. Svalirnar myndu hins vegar hafa neikvæð áhrif gagnvart kærendum þar sem þær myndu rýra verðgildi fasteignar þeirra.

Kærendur hafi tekið fram í bréfi til leyfishafa að þeir hefðu vitað af heimild fyrir umræddri viðbyggingu þegar þeir keyptu íbúð sína en verið ókunnugt um að svalir yrðu á þaki hennar. Leyfishafi hafi lofað kærendum munnlega að hafa ekki útisvæði á þaki viðbyggingarinnar, en það kalli á breytingar á teikningum sem ekki hafi verið gerðar.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu Reykjavíkurborgar er tekið fram að umræddar framkvæmdir séu í samræmi við gildandi deiliskipulag reita 1.241.0 og 1.241.1, sem samþykkt hafi verið í borgarráði 20. júlí 2006. Í sérskilmálum skipulagsins komi fram að heimilt sé að hækka húsið Laugaveg 130 um eina hæð og gera útbyggingu til suðurs. Þá sé samkvæmt almennum skilmálum deiliskipulagsins heimilaðar minni háttar breytingar á húsum á reitnum, m.a. gerð svala, án þess að framkvæma þurfi deiliskipulagsbreytingu.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi vísar til þess að þær framkvæmdir og tilheyrandi breytingar sem hið kærða byggingarleyfi heimili hafi verið samþykktar fyrir áratug í deiliskipulagi, löngu áður en kærendur keyptu þá fasteign sem veiti þeim aðild að máli þessu. Kærufrestur vegna þess deiliskipulags, sem sé frá árinu 2007, sé löngu liðinn.

Hið útgefna byggingarleyfi sé í samræmi við gildandi lög og reglur og jafnframt aðal- og deiliskipulag svæðisins. Þegar hið kærða byggingarleyfi hafi verið gefið út 24. ágúst 2018 hafi sú breyting verið gerð frá upphaflega samþykktri breytingu frá 2007 að heimilað hafi verið að setja handrið og dyr út á þak viðbyggingarinnar að Laugavegi 130. Ástæðan fyrir því hafi verið sú að hægt yrði að nýta svalirnar sem flóttaleið fyrir efri hæð veitingastaðarins sem þar sé til húsa. Hönnuði byggingarinnar hafi hvorki þótt forsvaranlegt að fólk þyrfti að klöngrast út um glugga veitingahússins ef koma þyrfti til rýmingar, sbr. gr. 9.5.3 í byggingarreglugerð, né að ekki væru viðunandi fallvarnir til staðar. Því hafi dyr verið settar út á svalirnar og hannað handrið utan um þakflöt viðbyggingarinnar. Samkvæmt aðalskipulagi svæðisins sé heimilt að veita leyfi fyrir slíkum svölum án sérstakrar breytingar á deiliskipulagi. Hins vegar þurfi sérstakt leyfi til að heimilt verði að nýta svalirnar undir starfsemi veitingastaðarins, en engin áform séu af hálfu rekstraraðila til slíks. Áður hafi verið sótt um slíkt leyfi en því verið hafnað.

Niðurstaða: Samkvæmt byggingarreglugerð nr. 112/2012 er gerð krafa um að við hönnun mannvirkja skuli ávallt gert ráð fyrir því að eldur geti komið upp. Með því á að tryggja að viðstaddir geti yfirgefið mannvirkið í eldsvoða eða bjargast eftir öðrum leiðum. Í gr. 9.5.2. í reglugerðinni kemur fram að frá hverju rými byggingar þar sem gera megi ráð fyrir að fólk dveljist eða sé statt skuli vera fullnægjandi flóttaleiðir úr eldsvoða. Eiga flóttaleiðirnar að vera þannig skipulagðar og frágengnar að allir geti bjargast út af eigin rammleik eða fyrir tilstilli annarra á tilgreindum flóttatíma, brjótist eldur út eða annað hættuástand skapast, sbr. gr. 9.5.1. Flóttaleiðirnar skulu vera einfaldar, auðrataðar og greiðfærar svo að fólk verði ekki innlyksa í skotum og endum ganga, sbr. gr. 9.5.2.

Í bókun byggingarfulltrúa um samþykki byggingaráforma vegna Laugavegar 130 frá 20. febrúar 2018 kemur fram að veitt sé leyfi til að rífa núverandi ris og þak, hækka húsið um eina hæð, byggja viðbyggingu úr steinsteypu og gleri á fyrstu hæð og gera svalir á þriðju hæð og á ris hússins. Byggingarleyfi sem gefið var út hinn 24. ágúst s.á. í skjóli þeirrar ákvörðunar hefur og að geyma sömu byggingarlýsingu. Þá kemur fram á teikningu samþykkts aðaluppdráttar að gert sé ráð fyrir svaladyrum á annarri hæð sem liggja muni út á svæði sem skráð er sem svalir á þaki viðbyggingar fyrstu hæðar. Loks kemur fram í byggingarlýsingu aðaluppdráttar, í kaflanum notkun og gerð byggingar, að gert sé ráð fyrir hellulögðum þaksvölum á annarri hæð, en í þeim kafla sem fjallar um eldvarnir segir hins vegar að flóttaleið sé á annarri hæð út á steinsteypt þak og að á þriðju hæð og risi séu steyptar svalir. Vegna framangreinds ósamræmis verður ekki með ótvíræðum hætti ráðið hvort umrætt svæði á þaki viðbyggingarinnar þjóni einungis þeim tilgangi að vera flóttaleið eða hvort einnig sé um hefðbundnar svalir að ræða, sem ætlaðar séu til almennra nota. Hins vegar þykir verða að líta svo á, með hliðsjón af fyrrgreindu orðalagi bókunar byggingarfulltrúa um samþykki byggingaráforma og síðan sama orðalagi í útgefnu byggingarleyfi, en jafnframt því að í skipulagsskilmálum fyrir húsið er ekki gert ráð fyrir veitingastarfsemi eða umgangi gesta á umræddum þakfleti, að hin kærða ákvörðun feli í sér að umræddur þakflötur viðbyggingar fyrstu hæðar sé einungis ætlaður sem flóttaleið en ekki til notkunar fyrir gesti umrædds veitingastaðar. Teljast umræddar breytingar, sem heimilaðar eru í hinu kærða byggingarleyfi, því einungis minni háttar breytingar í skilningi almennra skilmála deiliskipulagsins, sem heimilt var að gera án þess að til kæmi breyting á deiliskipulagi.

Með hliðsjón af því sem að framan er rakið er hið kærða byggingarleyfi í samræmi við gildandi skipulagsskilmála deiliskipulags fyrir Laugaveg 130 og þykja því ekki efni til að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 20. febrúar 2018 um að veita byggingleyfi til breytinga á húsinu nr. 130 við Laugaveg.

112/2017 Laxabakki

Með

Árið 2018, miðvikudaginn 28. nóvember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 112/2017, kæra á ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Árborgar frá 7. júní 2017 um að synja umsókn um byggingarleyfi fyrir tveggja hæða einbýlishúsi á lóð nr. 4 við Laxabakka á Selfossi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 29. september 2017, er barst nefndinni 5. október s.á., kærir lóðarhafi lóðar nr. 4 við Laxabakka, þá ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Árborgar frá 7. júní 2017 að synja umsókn hans um leyfi til að byggja tveggja hæða einbýlishús á lóð nr. 4 við Laxabakka í Árborg. Verður að skilja erindi kæranda á þann veg að þess sé krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Jafnframt er gerð krafa um að skaðabótaskylda byggingarfulltrúa verði viðurkennd.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá sveitarfélaginu Árborg 17. nóvember 2017.

Málavextir: Hinn 14. október 2016 keypti kærandi lóð nr. 4 við Laxabakka ásamt teikningum, að tveggja hæða einbýlishúsi. Árið 2017 sótti kærandi um leyfi til að byggja tveggja hæða hús samkvæmt nefndum teikningum. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 25. apríl 2017 var samþykkt að grenndarkynna erindið fyrir eigendum og íbúum Laxabakka 1, 2, 3, 5 og 6 og Hellubakka 1, 3 og 5 og var sú ákvörðun samþykkt á fundi skipulags- og byggingarnefndar Árborgar 10. maí 2017. Umsóknin var grenndarkynnt frá 25. apríl til 23. maí 2017 og bárust fimm athugasemdir þar sem veitingu byggingarleyfis fyrir tveggja hæða húsi var mótmælt. Málið var tekið fyrir á fundi skipulags- og byggingarnefndar 7. júní 2017 þar sem umsókn kæranda var hafnað og var sú afgreiðsla staðfest á fundi bæjarstjórnar Árborgar 14. s.m. Skipulags- og byggingarfulltrúi tilkynnti kæranda um synjun á erindi hans með bréfi, dags. 8. júní 2017, en í bréfinu var hvorki leiðbeint um kæruheimild né kærufrest í tilefni af ákvörðuninni.

Kærandi óskaði skriflega eftir rökstuðningi og öllum gögnum málsins 22. júní 2017 og kveðst hafa ítrekað þá beiðni 14. júlí s.á. Hann ítrekaði beiðni um rökstuðning og gögn máls með tölvupósti 18. júlí 2017 og fékk svar frá skipulags- og byggingarfulltrúa 24. s.m. um að verið væri að afla gagna og að svarið kæmi fljótlega. Kærandi ítrekaði beiðnina í annað sinn með tölvupósti 25. ágúst s.á. og 30. s.m. barst honum svar við erindinu með tölvupósti frá lögmanni bæjarins. Var í tölvupóstinum hvorki leiðbeint um kæruleið né kærufrest. Kærandi sendi lögmanni bæjarins tölvupóst 5. september 2017 þar sem hann óskaði þess m.a. að fá vefslóð á deiliskipulagið sem vísað var til í svari bæjaryfirvalda og var sú beiðni ítrekuð með tölvupósti 12. september 2017.

Málsrök kæranda: Kærandi kveður upplýsingar frá byggingarfulltrúa hafa verið lykilþátt í ákvörðun hans um að festa kaup á umræddri lóð ásamt teikningum. Teikningarnar hafi verið grundvöllur byggingarleyfis sem fyrri eigandi hafi fengið samþykkt, en hann hafi aldrei hafið framkvæmdir. Hann hafi talið auðsótt að fá byggingarleyfi þar sem hæðarblöð á landupplýsingavef sveitarfélagsins hafi sýnt að skipulag gerði ráð fyrir húsinu, auk þess sem um endurútgáfu leyfis væri að ræða. Áður en gengið hafi verið frá kaupunum hafi kærandi farið ásamt væntanlegum byggingarstjóra á skrifstofu byggingarfulltrúa til að kanna skilyrði framkvæmdar og hvort allar teikningar væru til staðar. Þar hafi þeir fengið þær upplýsingar að skipulag gerði ráð fyrir tveggja hæða húsi á lóðinni.

Kærandi hafi ítrekað óskað eftir að fá afhent samþykkt deiliskipulag fyrir Laxabakka 4 og lóðir í kring án árangurs. Ekkert slíkt skipulag sé að finna á skipulagsvefsjá Skipulagsstofnunar. Byggingarfulltrúi hafi hins vegar tjáð honum að nýtt gildandi skipulag gerði ekki ráð fyrir tveggja hæða húsum en þær upplýsingar séu í þversögn við þau hæðarblöð sem séu á landupplýsingavef Árborgar og embættið hafi afhent honum. Enginn nefndarmanna í skipulags- og byggingarnefnd hafi setið hjá vegna vanhæfis við afgreiðslu málsins, en bróðir eins þeirra búi að Laxabakka 3.

Kærandi hafi engin svör fengið við fyrirspurnum um það hvers vegna umsókn hans hafi sætt grenndarkynningu. Í athugasemdum sem borist hafi vegna grenndarkynningar hafi verið vísað til þriggja ára reglu í skipulags- og byggingarskilmálum frá 26. ágúst 2004. Kærandi hafi fengið misvísandi gögn og svör og viti því ekki hvort til staðar sé skipulag eða ekki. Mikill dráttur hafi verið á að svara beiðni hans um rökstuðning. Þegar svarið hafi borist hafi honum ekki verið leiðbeint um kæruheimildir.

Málsrök Árborgar: Af hálfu sveitarstjórnar er því haldið fram að rétt hafi verið staðið að afgreiðslu málsins þar sem fylgt hafi verið kröfum um form- og efnisreglur við meðferð á umsókn kæranda.

Deiliskipulag fyrir Fossland hafi í upphafi gert ráð fyrir því að byggja mætti tveggja hæða hús á þeirri lóð sem um ræðir, en í kafla 2.3 segi m.a. að verði raunin sú að lítil eftirspurn verði eftir tveggja hæða húsum sé heimilt að þremur árum liðnum frá samþykki deiliskipulags að byggja einnar hæðar hús á eftirstandandi lóðum. Að sama skapi falli þá niður réttur til að byggja tveggja hæða hús á svæðinu. Raunin hafi orðið sú að öll nálæg hús á svæðinu hafi verið byggð á einni hæð og í samræmi við framangreint ákvæði hafi réttur til að byggja tveggja hæða hús á svæðinu fallið niður. Því hafi ekki verið heimilt samkvæmt deiliskipulagi að byggja tveggja hæða hús á umræddri lóð þegar umsókn um byggingarleyfi barst og hefði því þurft að breyta deiliskipulagi fyrir svæðið til að unnt væri að veita byggingarleyfi. Sveitarfélagið hafi talið þá breytingu sem óskað var eftir óverulega og því hafi mátt fara með umsóknina í grenndarkynningu, sbr. heimild í 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Stjórnvöld séu bundin af lögum og því þurfi ákvörðun um veitingu byggingarleyfis að byggja á fullnægjandi lagagrundvelli en svo hafi ekki verið í þessu tilfelli. Engu breyti að kærandi hafi, af mæli- og hæðarblöðum sem hann virðist þó ekki hafa fengið fyrr en eftir að ákvörðun hafi verið tekin, talið að leyfið yrði veitt. Samskipti kæranda við starfsmenn sveitarfélaginu hafi ekki falið í sér ákvörðun í málinu.

Deiliskipulagið, sem komið hafi verið á með stoð í lögum, sem aðrir fasteignareigendur á svæðinu hafi ríka hagsmuni bundna við og réttmætar væntingar til að standist, heimili ekki útgáfu byggingarleyfis á grundvelli umsóknar kæranda. Sveitarfélaginu hafi ekki þótt tækt að breyta deiliskipulaginu í ljósi þeirrar miklu andstöðu sem fram hafi komið í athugasemdum eigenda fasteigna í nágrenninu. Sjónarmiðin þeirra hafi helst verið þau að húsið passaði ekki inn í þennan hluta hverfisins, þar sem eingöngu væru einnar hæðar hús og húsið væri í ósamræmi við gildandi skipulag. Þá væri byggingin til þess fallin að valda skuggamyndun á nágrannalóðum, útsýni yrði af efri hæð hússins yfir verandir, sólpalla og sólskála nálægra húsa, sviptivindar væru líklegir til að myndast vegna hússins og snjóþyngra yrði við nálæg hús ásamt því að nýtingarmöguleikar nálægra húsa yrðu skertir og verðmæti þeirra sömuleiðis.

Málefnaleg sjónarmið hafi því legið til grundvallar við töku umræddrar ákvörðunar, sem leitt hafi til þess að ekki hafi verið unnt að veita umþrætt byggingarleyfi. Ekki hafi verið tilefni til þess að neinn nefndarmanna viki sæti við meðferð málsins. Fjölmargir hafi skilað inn athugasemdum og verið mótfallnir veitingu leyfisins með framangreindum rökum og athugasemdir eða hagsmunir eins þeirra hafi ekki ráðið úrslitum um niðurstöðu málsins.

Því sé hafnað að synjun á veitingu byggingarleyfisins feli í sér bótaskyldar takmarkanir á eignarrétti kæranda. Það sé ekki á forræði úrskurðarnefndarinnar að taka afstöðu til þess álitaefnis.

Niðurstaða:
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála starfar samkvæmt lögum nr. 130/2011 og einskorðast valdheimildir hennar lögum samkvæmt við endurskoðun á lögmæti þeirra ákvarðana sem undir hana verða bornar, en það er ekki á færi nefndarinnar að úrskurða um skaðabótaskyldu, líkt og krafa er gerð um. Verður því ekki tekin afstaða til kröfu kæranda um viðurkenningu á bótaskyldu sveitarfélagsins

Kærufrestur til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála er einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Berist kæra að liðnum kærufresti ber að vísa henni frá skv. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til efnismeðferðar. Kæranda var tilkynnt um synjun skipulags- og byggingarnefndar Árborgar á umsókn hans með bréfi, dags. 8. júní 2017. Í bréfinu var honum hvorki leiðbeint um kæruheimild né kærufrest. Kærandi óskaði rökstuðnings og ítrekaði þá beiðni nokkrum sinnum. Svar frá lögmanni bæjarins barst með tölvupósti 30. ágúst 2017, en þar var kæranda hvorki leiðbeint um kæruheimild né kærufrest í tilefni af lyktum málsins. Verður því talið afsakanlegt að kæra hafi ekki borist fyrr en raun ber vitni og verður málið af þeim sökum tekið til efnismeðferðar.

Með hinni kærðu ákvörðun var umsókn kæranda um leyfi til að byggja tveggja hæða hús synjað. Byggingarfulltrúi í viðkomandi umdæmi veitir byggingarleyfi, sbr. 2. mgr. 9. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010. Skal umsókn beint til byggingarfulltrúa, sbr. 10. gr. laganna, og skal byggingarfulltrúi tilkynna skriflega um samþykkt byggingaráforma, sbr. 11. gr. Samkvæmt framangreindu er það í höndum byggingarfulltrúa að samþykkja eða synja umsóknum um byggingarleyfi.

Samkvæmt 7. gr. mannvirkjalaga er sveitarstjórn heimilt að kveða á um að sérstök byggingarnefnd fjalli um byggingarleyfisumsókn áður en byggingarfulltrúi gefi út byggingarleyfi og hafi hún eftirlit með stjórnsýslu hans fyrir hönd sveitarstjórnar. Skal kveðið á um framangreint í sérstakri samþykkt sem birt er í B-deild Stjórnartíðinda, en hvorki er slíkri samþykkt til að dreifa fyrir sveitarfélagið Árborg samkvæmt heimasíðum Mannvirkjastofnunar og Sveitarfélagsins Árborgar né í B-deild Stjórnartíðinda.

Samkvæmt gögnum málsins liggur ekki fyrir að byggingarfulltrúi hafi fjallað um málið og tekið ákvörðun um synjun byggingarleyfis, líkt og honum ber samkvæmt 9. gr. laga um mannvirki og liggur því ekki fyrir lokaákvörðun í málinu í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sem borin verður undir úrskurðarnefndina. Eins og málsatvikum er hér sérstaklega háttað þykir rétt að taka afstöðu til þess hvort óhæfilegur dráttur hafi orðið á afgreiðslu umsóknar kæranda, en skv. 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga er heimilt að kæra slíkan drátt til þess stjórnvalds sem lokaákvörðun verður borin undir.

Með hliðsjón af því sem fyrir liggur í málinu er ekkert því til fyrirstöðu að byggingarfulltrúi taki ákvörðun um afgreiðslu umsóknar kæranda og er því lagt fyrir hann að taka erindið til efnislegrar afgreiðslu í samræmi við 2. mgr. 9. gr. mannvirkjalaga án frekari tafa.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Lagt er fyrir byggingarfulltrúa Árborgar að taka umsókn kæranda um byggingarleyfi fyrir tveggja hæða einbýlishúsi á lóð nr. 4 við Laxabakka á Selfossi, til efnislegrar afgreiðslu án ástæðulauss dráttar.

35/2017 Brekatún

Með

Árið 2018, fimmtudaginn 8. nóvember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 35/2017, kæra á ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Akureyrarbæjar frá 23. mars 2017 um að hafna beiðni kæranda um endurupptöku á útgáfu byggingarleyfis og framkvæmd lokaúttektar fjöleignarhússins að Brekatúni 2, Akureyri.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 21. mars 2017, er barst nefndinni 22. s.m., kærir eigandi, Brekatúni 2, Akureyri, drátt Akureyrarbæjar á að svara erindi hans um aðgengi hreyfihamlaðra í fjöleignarhúsinu að Brekatúni 2 ásamt því að óska eftir áliti nefndarinnar á því hvort Akureyrarbæ væri skylt að færa til betri vegar ákveðin atriði er vörðuðu aðgengi hreyfihamlaðra í sameign hússins. Skipulags- og byggingarfulltrúi Akureyrarbæjar svaraði erindi kæranda 23. mars 2017 og synjaði kröfu hans um endurupptöku á útgáfu byggingarleyfis og framkvæmd lokaúttektar. Kærandi kom athugasemdum á framfæri við úrskurðarnefndina í kjölfar þess með bréfum, dags. 28. mars, 20. apríl og 7. maí 2017. Eins og málsatvikum er háttað verður málskot kæranda skilið svo að hann fari fram á að nefnd ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa frá 23. mars 2017 verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Akureyrarbæ 25. apríl 2017.

Málavextir: Hinn 28. mars 2007 var samþykkt byggingarleyfi fyrir nýbyggingu á lóð nr. 2 við Brekatún á Akureyri. Í byggingarlýsingu hússins kom fram að öll hönnun aðkomu að íbúðum á jarðhæð miðaði við þarfir fatlaðra, að íbúð nr. 201 á annarri hæð væri hönnuð þannig að hún hentaði hreyfihömluðum í hjólastól og að eitt bílastæði í húsinu og tvö bílastæði á lóð væru ætluð fötluðum. Úttekt á grunni hússins fór fram 2. apríl 2007 en hlé varð á framkvæmdum til ársins 2012. Næsta úttekt á grunni hússins var gerð 22. nóvember 2012 áður en botnplata var steypt og úttektir á botnplötu voru gerðar 18. og 24. júní 2013. Samþykktar voru breytingar á teikningum 12. desember 2012, sem fólu meðal annars í sér að bætt var við nýrri íbúð á 8. hæð, skipulagi 1. hæðar var breytt og bílageymsla stækkuð til vesturs. Þá kom ekki fram í byggingarlýsingu hússins lengur, líkt og hafði gert áður, að öll hönnun aðkomu að íbúðum á jarðhæð skyldi miðast við þarfir fatlaðra. Byggingu hússins lauk árið 2014 og 29. apríl 2015 var gefið út vottorð í kjölfar lokaúttektar um að byggingu hússins væri lokið án athugasemda og í samræmi við samþykktar teikningar.

Kærandi gerði kaupsamning um kaup á íbúð nr. 401 í fjöleignarhúsinu 31. júlí 2015 og var afsal undirritað 5. nóvember s.á. Hinn 10. nóvember 2015 sendi kærandi bréf til skipulagsnefndar Akureyrarbæjar þar sem hann var ósáttur með útbúnað dyra úr ytri forstofu inn í innra anddyri hússins og tveggja dyra inn í bílakjallara. Áleit hann að hurðirnar, sem allar væru með pumpu, væru of þungar og að erfitt væri fyrir hreyfihamlaða að komast inn um dyrnar. Taldi hann uppsetningu þeirra ekki uppfylla þau skilyrði sem gera ætti til aðkomu í sameign hússins samkvæmt ákvæðum gr. 77.1, 104.1 og 104.5 í byggingarreglugerð nr. 441/1998 og því fengi lokaúttekt ekki staðist. Þá áleit kærandi, með stoð í gr. 14.2 í fyrrnefndri reglugerð, að byggingarreglugerð nr. 112/2012 hefði átt að gilda um húsið þar sem úttekt á botnplötu og plötu yfir fyllingu í bílakjallara hússins hefði farið fram 18. og 24. júní 2013 þegar sú reglugerð hefði tekið gildi. Hins vegar hefði ekki verið sótt um að fylgja eldri reglugerðinni nr. 441/1998, líkt og hægt hefði verið að gera skv. gr. 17.1.2. í byggingarreglugerð nr. 112/2012.

Skipulags- og byggingarfulltrúi Akureyrarbæjar svaraði erindi kæranda frá 10. nóvember 2015 hinn 31. nóvember s.á. Í svari hans kom fram að bærinn teldi reglugerð nr. 441/1998 eiga við um byggingu hússins þar sem teikningar hefðu verið samþykktar 28. mars 2007 og úttekt á hluta grafins grunns verið framkvæmd 2. apríl s.á. Húsið hefði verið byggt og frágengið í samræmi við þær kröfur sem gerðar væru í umræddri byggingarreglugerð, ásamt því að höfð hefðu verið til hliðsjónar Rb-blöð sem reglugerðin vísaði til og bókin „Aðgengi fyrir alla“, sem hann tók þó fram að hvorki væri vísað til í reglugerðinni né hefði reglugerðargildi. Við afgreiðslu teikninga að húsinu hefði því ekki verið hægt að gera frekari kröfur en reglugerðin kvæði á um. Í nefndri reglugerð væri hvergi minnst á að dyr í umferðarleiðum skyldu búnar sjálfvirkum opnunarbúnaði. Hins vegar væri gerð krafa um það í reglugerðinni að eldvarnahurðir skyldu vera sjálflokandi og því þyrftu þær að vera með hurðarpumpu. Pumpurnar þyrftu þó að vera þannig stilltar að auðvelt væri að ganga um dyrnar og samkvæmt bókinni „Aðgengi fyrir alla“ ætti hámark tog- eða þrýstikrafts að vera 2,5 kg til að opna hurðir. Oft væri það einungis stilling á pumpum sem vantaði upp á að dyrnar stæðust þau viðmið. Hefði því hvorki verið hægt að hafna framkvæmd lokaúttektar á húsinu né gera frekari kröfur til aðgengismála.

Hinn 1. desember 2015 sendi kærandi bréf til tæknifulltrúa Akureyrarbæjar, sem hafði framkvæmt lokaúttekt á húsinu. Í bréfinu óskaði kærandi eftir að fá upplýst hver væri skilningur hans á 77. og 104. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998, með tilliti til þeirra atriða sem kærandi taldi ekki fullnægjandi í sameign hússins, ásamt því að leita eftir svari hans við því hvort hann áliti hreyfihamlaða falla undir 10. kafla reglugerðarinnar með tilliti til þess orðalags sem þar kæmi fram um aðgang fyrir alla. Þá vildi hann vita, með tilliti til aðbúnaðar í sameign hússins, hvort tæknifulltrúi áliti að aðgengið hefði verið nægilega skoðað í lokaúttekt hússins með tilliti til þeirra krafna sem gerðar væru til lokaúttektar skv. gr. 53.1 í byggingarreglugerð nr. 441/1998 og hvort ekki væri rétt að fara yfir þessi mál að nýju með verktakanum með tilliti til ákvæða nefndrar reglugerðar.

Kærandi leitaði álits Mannvirkjastofnunar 15. og 19. janúar 2016 vegna umbúnaðar dyra úr ytri forstofu inn í innra anddyri hússins og dyra inn í bílakjallara, ásamt því að hann óskaði eftir upplýsingum um hvaða reglur giltu um bílastæði á lóðinni fyrir fatlað fólk. Í áliti stofnunarinnar, dags. 12. júlí 2016, var tekið fram að þegar byggingarleyfi hefði upprunalega verið gefið út fyrir byggingu fjöleignarhússins hefðu skipulags- og byggingarlög nr. 73/1997 og byggingarreglugerð nr. 441/1998 verið í gildi. Krafa um að hreyfihamlaðir gætu farið um útidyr hússins og inn í bílageymslu með góðu móti rúmaðist innan ákvæða 77. og 104. gr. þágildandi byggingarreglugerðar nr. 441/1998 þegar litið væri til þess sem fram kæmi í byggingarlýsingu hússins og bókinni „Aðgengi fyrir alla“. Renna mætti enn frekari stoðum undir slíka túlkun með því að líta til þess að teikningum hafi verið breytt og nýtt byggingarleyfi gefið út vegna breytinganna næstum því ári eftir að ný byggingarreglugerð hafi tekið gildi og hátt í tveimur árum eftir að ný lög um mannvirki hafi tekið gildi, sem væri sérstaklega ætlað að tryggja aðgengi fyrir alla skv. e-lið 1. mgr. 1. gr. laganna. Varðandi bílastæðið tók stofnunin fram að í gr. 6.2.4. í gildandi byggingarreglugerð nr. 112/2012 væri gerð krafa um að bílastæði hreyfihamlaðra væru sérstaklega merkt á yfirborði og einnig með lóðréttu skilti. Krafa um lóðrétt skilti hefði ekki verið í eldri byggingarreglugerð nr. 441/1998 en væri þó tilgreind í bókinni „Aðgengi fyrir alla“. Með tilliti til þess að byggingarár hússins væri 2014 og krafa um lóðrétt skilti hefði verið í reglugerð síðan 2012 væri ekki hægt að segja að ómögulegt væri að merkja bílastæði fyrir hreyfihamlaða samkvæmt gildandi reglum, þrátt fyrir að húsið hefði verið hannað 2007 og framkvæmdir þá hafist á lóð. Í framhaldi af áliti Mannvirkjastofnunar óskaði kærandi eftir því að stofnunin myndi fylgja máli hans eftir hjá bænum. Stofnunin sá þó ekki ástæðu til íhlutunar skv. 18. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010.

Hinn 4. október 2016 sendi kærandi bréf til skipulags- og byggingarfulltrúa Akureyrarbæjar. Í bréfinu leitaði hann eftir viðbrögðum bæjaryfirvalda við áliti Mannvirkjastofnunar. Engin svör bárust kæranda frá sveitarfélaginu og leitaði hann því til umboðsmanns Alþingis í þrígang og óskaði eftir aðstoð hans við að fá svör við fyrrnefndu bréfi og bréfi sem hann hafði sent til tæknifulltrúa Akureyrbæjar 1. desember 2015. Hinn 21. mars 2017 sendi kærandi kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála þar sem hann kærði drátt Akureyrarbæjar á að svara fyrirspurnum hans, sbr. 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, ásamt því að hann óskaði eftir úrskurði nefndarinnar um hvort Akureyrarbæ bæri skylda til að setja upp rafstýrðan búnað á útidyr, á dyr úr ytri forstofu inn innra anddyri og á dyr inn í bílakjallara, sem opnaði og lokaði hurðunum, ásamt því hvort skylda bæri til að merkja bílastæði fyrir fatlaða með skilti í 60-70 cm hæð á staur og merkja flötinn með því að mála hann.

Með bréfi, dags. 23. mars 2017, svaraði skipulags- og byggingarfulltrúi fyrirspurnum kæranda frá 1. desember 2015 og 4. október 2016. Í bréfinu kom fram að túlkun sveitarfélagsins væri á þann veg að farið hefði verið eftir lögum og engu hefði verið ábótavant, hvorki í tengslum við byggingarleyfið né lokaúttektina. Sveitarfélagið liti svo á að kærandi ætti ekki málsaðild vegna lokaúttektarinnar sem fram fór 27. apríl 2015, þar sem hann hefði eignast hlutdeild í íbúð í húsinu eftir að úttektin fór fram, sbr. c-lið 4. mgr. 15. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010. Úttektin hefði verið í fullu samræmi við 3. mgr. 36. gr. fyrrnefndra laga og uppfyllt þau skilyrði sem fram kæmu í ákvæðum mannvirkjalaga, reglugerðum og samþykktum hönnunargögnum. Skilyrði endurupptöku lokaúttektarinnar væru því ekki uppfyllt nema í tengslum við byggingarleyfið. Skilyrði endurupptöku byggingarleyfisins skv. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 væru hins vegar ekki uppfyllt. Samkvæmt áliti Mannvirkjastofnunar hefði Akureyrarbær mátt gera kröfu til þess í upprunalegu byggingarleyfi, dags. 29. mars 2007, að tekið væri tillit til aðgengis hreyfihamlaðra inn og út úr húsinu og bílageymslu þess án þess þó að sveitarfélaginu hefði verið skylt að setja byggingarleyfishafa framangreind skilyrði um aðgengi hreyfihamlaðra. Um hafi verið að ræða heimild, en ekki ótvíræða skyldu með beina vísun til laga og reglugerða. Kærandi hefði ekki málsaðild að endurupptöku útgáfu byggingarleyfisins og ákvarðanir um aðgengi í húsinu í umræddu byggingarleyfi hefðu ekki byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum, eins og gerð sé krafa um í 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Breytt lagatúlkun gæti ekki verið grundvöllur endurupptöku máls. Að auki væru skilyrði endurupptöku byggingarleyfisins ekki uppfyllt þar sem fjögur ár væru frá því að endurskoðað byggingarleyfi hefði verið gefið út 27. febrúar 2013 og athugasemdarlaus lokaúttekt hefði farið fram í apríl 2015.

Málsrök kæranda: Kærandi telur að aðgengismál í sameign fjöleignarhússins séu ófullnægjandi og í ósamræmi við byggingarlýsingu þess, þar sem fram komi að öll hönnun aðkomu að íbúðum á jarðhæð skuli miðast við þarfir fatlaðs fólks. Bendir hann á að engar íbúðir séu á jarðhæð hússins hins vegar sé á 2. hæð þess gert ráð fyrir einni íbúð fyrir fatlaða, líkt og komi fram í byggingarlýsingu.

Kærandi krefst þess að settur verði upp rafstýrður opnunarbúnaður á útidyr, á dyr úr ytri forstofu inn í innra anddyrri og á dyr inn í bílakjallara. Jafnframt krefst hann þess að bílastæði ætluð fötluðu fólki verði merkt með merki fatlaðs fólks í um 60-70 cm hæð á staur og að flöturinn verði málaður með slíku merki. Til stuðnings kröfum sínum vísar kærandi í heild sinni til álits Mannvirkjastofnunar, dags. 12. júlí 2016, sem fjallað hefur verið um, þar sem fram komi  að þegar eldri skipulags- og byggingarlög nr. 73/1997 og eldri byggingarreglugerð nr. 441/1998 séu túlkuð með hliðsjón af bókinni „Aðgengi fyrir alla“ og af byggingarlýsingu umrædds húss hefði átt að haga aðbúnaði í sameign þess á þann hátt sem hann krefjist. Til þess að renna enn frekari stoðum undir slíka túlkun megi líta til þess að teikningum hafi verið breytt og nýtt byggingarleyfi gefið út vegna breytinganna næstum því ári eftir að byggingarreglugerð nr. 112/2012 og hátt í tveimur árum eftir að lög um mannvirki nr. 160/2010 hafi tekið gildi, en þeim sé sérstaklega ætlað að tryggja aðgengi fyrir alla skv. e-lið 1. mgr. 1. gr. laganna. Því telji kærandi að fullt tilliti eigi að taka til ákvæða um aðgengi í reglugerð nr. 112/2012, enda sé byggingarár hússins 2014.

Varðandi kröfu um bílastæði tekur kærandi fram að sömu sjónarmið gildi og reifuð hafi verið að framan. Í núgildandi reglugerð sé gerð krafa um að bílastæði hreyfihamlaðra séu sérstaklega merkt á yfirborði og einnig með lóðréttu skilti, sbr. grein 6.2.4. í byggingarreglugerð nr. 112/2012.

Við áfanga- og lokaúttekt hafi ekki verið kannað hvernig aðgengi fyrir fatlað fólk í húsnæðinu væri, líkt og skylt sé að gera skv. p-lið 48. gr. og gr. 53.1 í byggingarreglugerð nr. 441/1998. Í gr. 3.9.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 komi fram að þáttum sem varði aðgengi skuli ávallt verið lokið við gerð lokaúttektar. Því beri skipulags- og byggingarfulltrúi ábyrgð á ófullnægjandi aðgengi fyrir fatlað fólk í fjöleignarhúsinu. Ekkert komi fram á lokaúttekt um að aðgengi fyrir fatlað fólk hafi verið skoðað né yfirfarið.

Hönnuður teikninganna gæti orðið ábyrgur fyrir því að gera ekki nægilega grein fyrir aðgengi á teikningum sínum skv. gr. 26.1 í byggingarreglugerð nr. 441/1998, þar sem fram komi að hönnuðir sem leggi uppdrætti fyrir byggingarnefnd skuli hafa í gildi tryggingu vegna fjárhagstjóns sem leitt geti af gáleysi þeirra. Einnig gæti ábyrgð legið hjá byggingarstjóra verksins skv. gr. 32.2 í nefndri byggingarreglugerð, þar sem fram komi að byggingarstjóri beri ábyrgð á því að byggt sé í samræmi við samþykkta uppdrætti, lög og reglugerðir.

Kærandi mótmæli því að hann eigi ekki málsaðild að lokaúttekt skv. 15. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010. Telji hann sig eiga málsaðild með stoð í e-lið 4. mgr. ákvæðisins, þar sem fram komi að til eiganda samkvæmt greininni teljist eigandi mannvirkis eftir að lokaúttekt hafi farið fram. Sé í því sambandi einnig vísað til álits umboðsmanns Alþingis nr. 6242/2010.

Málsrök Akureyrarbæjar: Af hálfu bæjaryfirvalda er litið svo á, með tilliti til aðildar kæranda og skilyrða endurupptöku skv. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, að hvorki sé ástæða til að endurupptaka framkvæmd lokaúttektar né útgáfu byggingarleyfis. Farið hafi verið eftir lögum og reglum, en rök bæjaryfirvalda fyrir þessari afstöðu komi fram í bréfi sem sent hafi verið til kæranda 23. mars 2017.

———————

Áður en málið var tekið fyrir hjá úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála lést kærandi. Með bréfi til nefndarinnar, dags. 6. ágúst 2018, staðfesti eftirlifandi maki kæranda, sem hefur leyfi til setu í óskiptu búi eftir hann, vilja til að ganga inn í kærumálið og gerast aðili að því.

Niðurstaða: Með hinni kærðu ákvörðun Akureyrarbæjar var synjað um endurupptöku á veitingu byggingarleyfis og framkvæmd lokaúttektar vegna aðgengis hreyfihamlaðs fólks í sameign fjöleignarhússins að Brekatúni 2, Akureyri.

Aðili máls getur ekki gert kröfu um að stjórnvald, sem tekið hefur ákvörðun og birt hana, endurskoði ákvörðunina nema að skilyrði um endurupptöku máls séu fyrir hendi. Ekki er til að dreifa sérstökum lagaákvæðum á sviði skipulags- og byggingarmála sem veita rétt til endurupptöku máls, en 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 felur í sér almenna reglu um endurupptöku stjórnvaldsákvarðana. Samkvæmt nefndri 24. gr. er endurupptaka máls háð þeim skilyrðum að ákvörðun hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða að íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hafi byggst á atvikum sem breyst hafi verulega frá því að ákvörðun var tekin. Ekki verður séð að atvik hafi verulega breyst frá því að ákvörðun um byggingarleyfi var tekin og lokaúttekt framkvæmd og kemur því einungis til álita að taka til skoðunar hvort greind ákvörðun og framkvæmd hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik.

Lögmæti byggingarleyfisins sem samþykkt var 28. mars 2007 sætir ekki endurskoðun í máli þessu þar sem eins mánaðar kærufrestur vegna þess er liðinn, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Þá verður ekki séð að 2. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga eigi við þar sem fram er tekið í greindu lagaákvæði að mál verði ekki tekið upp að nýju ef meira en ár er liðið frá tilkynningu ákvörðunar eða vitneskju um hana nema veigamiklar ástæður mæli með því.

Í 3. mgr. 36. gr. laga um mannvirki er tekið fram að við lokaúttekt skuli gerð úttekt á því hvort mannvirkið uppfylli ákvæði laganna og reglugerða sem settar hafa verið samkvæmt þeim og hvort byggt hafi verið í samræmi við hönnunargögn. Þegar upprunalegt byggingarleyfi var gefið út og framkvæmdir við bygginguna hófust voru í gildi skipulags- og byggingarlög nr. 73/1997 og byggingarreglugerð nr. 441/1998. Í 2. mgr. 37. gr. umræddra laga var tekið fram að í byggingarreglugerð, sem sett sé með stoð í lögunum, skuli mælt fyrir um kröfur sem snúi m.a. að aðgengi fatlaðra. Lög um mannvirki nr. 160/2010 tóku gildi 1. janúar 2011, sbr. 1. mgr. 64. gr. laganna, og byggingarreglugerð nr. 112/2012, sem sett var með stoð í 1. mgr. 60. gr. nefndra laga og 4. mgr. 24. gr. laga um brunavarnir nr. 75/2000, tók gildi 24. janúar 2012.

Hvorki verður séð að í eldri byggingarreglugerð nr. 441/1998 né í núgildandi byggingarreglugerð nr. 112/2012 sé gerð krafa um að á dyrum í sameign fjölbýlishúss sé rafstýrður opnunarbúnaður. Þá verður ekki séð að ónógar eða rangar upplýsingar um málsatvik hafi legið fyrir þegar lokaúttekt hússins fór fram heldur ber mál þetta með sér að uppi sé ágreiningur um túlkun laga og reglugerðarákvæða er varða aðgengi hreyfihamlaðra í fjöleignarhúsum. Verður endurupptökuheimildum 24. gr. stjórnsýslulaga ekki beitt til þess að fá fram nýja stjórnvaldsákvörðun vegna þess eins að deilt hafi verið um lagatúlkun og beitingu réttarheimilda um ágreiningsefni sem fyrir lá þegar ákvörðun var tekin. Slíkur ágreiningur leiðir ekki einn og sér til þess að skilyrði endurupptöku máls séu uppfyllt.

Í gr. 64.4 í byggingarreglugerð nr. 441/1998 er sett fram sú krafa að við öll fjölbýlishús með sex íbúðum eða fleiri skuli vera eitt gestabílastæði sem henti þörfum fatlaðra, auk þeirra stæða sem séu fyrir sérhannaðar íbúðir fyrir fatlaða í húsinu. Í 1. mgr. gr. 6.2.6. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 er tekið fram að bílastæði hreyfihamlaðra skuli vera sérstaklega merkt á yfirborði og einnig með lóðréttu skilti. Samkvæmt síðarnefndri reglugerðinni var því skylt að merkja bílastæði hreyfihamlaðra á yfirborði og einnig með lóðréttu skilti. Það að slíkt hafi ekki verið gert getur ekki leitt til þess að þörf sé á að framkvæma lokaúttekt að nýju vegna áðurnefnds fjölbýlishúss, enda er slík úttekt ekki nauðsynleg forsenda þess að úr annmörkunum verði bætt.

Með vísan til þess sem að framan greinir verður ekki talið að skilyrði endurupptöku hafi verið fyrir hendi í máli þessu og verður kröfu um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar af þeim sökum hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á synjun Akureyrarbæjar um endurupptöku veitts byggingarleyfis og lokaúttektar vegna fjöleignarhússins að Brekatúni 2, Akureyri.

46/2017 Sveinbjarnargerði

Með

Árið 2018, fimmtudaginn 8. nóvember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 46/2017, kæra á ákvörðun sameiginlegrar byggingarnefndar Eyjafjarðarsvæðis frá 26. apríl 2017 um að veita byggingarleyfi til að endurbyggja varphænsnahús að Sveinbjarnargerði, Svalbarðsstrandarhreppi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 1. maí 2017, er barst nefndinni 2. s.m., kæra eigendur, Sveinbjarnargerði III, þá ákvörðun sameiginlegrar byggingarnefndar Eyjafjarðarsvæðis frá 26. apríl 2017 að samþykkja að veita byggingarleyfi fyrir endurbyggingu varphænsnahúss að Sveinbjarnargerði. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Með bréfi, dags. 11. maí 2018, sem móttekið var 18. s.m., gera kærendur jafnframt kröfu um að framkvæmdir samkvæmt hinu kærða leyfi verði stöðvaðar til bráðabirgða á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægjanlega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til framkominnar stöðvunarkröfu kærenda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Svalbarðsstrandarhreppi 15. júní 2017 og 29. maí 2018.

Málsatvik: Mál þetta á sér nokkra forsögu. Leyfishafi í máli þessu tók við rekstri alifuglabús í Sveinbjarnargerði haustið 2012 og í september 2013 hafnaði heilbrigðisnefnd Norðurlands eystra kröfu um að stöðva þann rekstur. Felldi úrskurðarnefndin þá ákvörðun úr gildi með úrskurði kveðnum upp 24. apríl 2015 í kærumáli nr. 96/2013. Þá vísaði úrskurðarnefndin frá kærumáli nr. 98/2015 með úrskurði upp kveðnum 24. nóvember 2016, en það mál laut að veitingu starfsleyfis fyrir rekstrinum.

Með umsókn, dags. 16. febrúar 2017, sótti leyfishafi um leyfi til að endurbyggja varphænsnahús í Sveinbjarnargerði II á grunni eldra húss sem þar stóð áður. Til þess að uppfylla kröfur nýrrar reglugerðar um hámarksfjölda varphæna á hvern m2 var sótt um að breikka grunninn um rúma þrjá metra þannig að grunnflötur stækkaði úr rúmum 600 m2 í rúma 800 m2. Mænishæð yrði um 6,5 m.

Á fundi sínum 22. febrúar 2017 samþykkti sveitarstjórn Svalbarðsstrandarhrepps að grenndarkynna umsóknina. Fór grenndarkynning fram með bréfum, dags. 2. mars 2017, og stóð til 31. s.m. Barst ein athugasemd á þeim tíma, sem svarað var með bréfi, dags. 18. apríl 2017, að undangenginni afgreiðslu sveitarstjórnar á fundi hennar 5. s.m. Í kjölfarið var byggingarleyfisumsóknin samþykkt á fundi sameiginlegrar byggingarnefndar Eyjafjarðarsvæðis 26. apríl 2017 og er það sú ákvörðun sem kærð er í málinu.

Leyfishafa var tilkynnt með bréfi, dags. 18. maí 2017, að framkvæmdin félli í flokk B skv. lið 1.10 í viðauka 1 með lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Honum bæri því að tilkynna Skipulagsstofnun um fyrirhugaða framkvæmd, sbr. 2. mgr. 6. gr. laganna, og yrði ekki gefið út byggingarleyfi fyrr en niðurstaða stofnunarinnar lægi fyrir. Ákvörðun Skipulagsstofnunar þess efnis að endurbygging alifuglahúss að Sveinbjarnargerði skyldi ekki háð mati á umhverfisáhrifum lá fyrir 25. ágúst s.á. og hefur hún ekki verið kærð til úrskurðarnefndarinnar. Byggingarleyfi var gefið út 28. s.m.

Málsrök kærenda: Kærendur benda á að með endurbyggingu varphænsnahússins verði framleiðsla búsins tvöfölduð, þannig að í stað 8.000 hæna verði þar haldnar um 16.000 hænur.

Í Aðalskipulagi Svalbarðsstrandarhrepps 2008-2020 sé gert ráð fyrir ferðaþjónustu í Sveinbjarnargerði II og að byggingarmagn ákvarðist með deiliskipulagi. Eigendur Græneggja ehf. og Bjarnargerðis ehf. hafi ávallt komið í veg fyrir að deiliskipulag yrði unnið í Sveinbjarnargerði II, þrátt fyrir ítrekaða beiðni um það af hálfu Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra og Skipulagsstofnunar, auk kærenda. Þau tvö hús sem búið sé að endurgera hafi verið endurbyggð frá grunni og húsið sem til standi að endurbyggja hafi hrunið fyrir nokkrum áratugum. Hefði átt að gera deiliskipulag áður en farið væri í þær framkvæmdir.

Forráðamaður búsins hafi verið í hreppsnefnd og komið að gerð gildandi aðalskipulags með beinum hætti, en engin ósk hafi þá verið um áframhaldandi hænsnarækt í Sveinbjarnargerði II. Fram hafi komið í bréfi Skipulagsstofnunar til umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, dags. 18. janúar 2013, að aðalskipulagið myndi líta öðruvísi út væri það ætlun hreppsins að hafa þar hænsnabú og að deiliskipuleggja þyrfti svæðið ef sú væri ætlunin. Að auki hafi komið fram í bréfi Svalbarðsstrandarhrepps til Skipulagsstofnunar, dags. 7. mars 2002, að eftir kosningar yrði gert í því að knýja landeigendur Sveinbjarnargerðis II til að gera deiliskipulag. Þá sé bent á að engin skipulagsnefnd sé starfandi í hreppnum, líkt og gildandi lög kveði á um.

Starfsleyfi heilbrigðiseftirlitsins frá september 2015 hafi verið veitt til fjögurra ára vegna þess að deiliskipulag sé ekki til staðar. Leyfið gildi fyrir allt að 10.000 hænur og því rúmist 16.000 hænur ekki innan þess. Ekki sé hægt að fallast á að sveitarstjórn túlki starfsleyfi heilbrigðiseftirlitsins með þeim hætti að svo sé.

Ekki komi fram í reglugerð nr. 520/2015 um eldishús alifugla, loðdýra og svína hvernig mæla skuli fjarlægðir. Mögulega sé fjarlægðin yfir 50 m sé mælt vegg í vegg. Sé mælt frá vegg hænsnahússins að lóðarmörkum sé fjarlægðin um 43 m. Hún sé mun minni sé mælt milli lóðarmerkja. Ekki sé ljóst hvaða hlutverk verkstæðisbyggingin hafi og hvort hún reiknist með sem hluti af búinu en við fyrirhugaða endurbyggingu verði þetta að einu húsi. Athafnasvæðið nái um 30 m til suðurs og allar afurðir, starfsfólk og gestir fari úr húsi að sunnanverðu og því megi ætla að 50 m mæling sé frá lóðarmörkum athafnasvæðisins að sunnan að mörkum lóðar kærenda. Eldishús megi aðeins byggja á svæðum sem skipulögð séu fyrir landbúnað, iðnað eða þar sem stefna hafi verið mörkuð í aðalskipulagi.

Fjölskyldutengsl hafi haft áhrif á afgreiðslu mála. Sveitarstjóri sé bróðir eiginkvenna eigenda Græneggja ehf. og eigi sjálfur hluta í Bjarnargerði ehf. Hann hafi um tíma verið framkvæmdastjóri síðarnefnda félagsins, sem aftur eigi hluta í Græneggjum ehf. Þá sitji hann alla fundi hreppsnefndar og geti haft áhrif á niðurstöðu mála með nærveru sinni.

Málsrök Svalbarðsstrandarhrepps: Af hálfu sveitarstjórnar er á það bent að Sveinbjarnargerði sé á svæði sem merkt sé L1, sem standi fyrir landbúnaðarsvæði. Endurbygging umrædds húss sé í samræmi við aðalskipulag, sem og við 2. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 520/2015 um eldishús alifugla, loðdýra og svína. Hafi umsóknin því verið samþykkt.

Fjarlægð frá fyrirhuguðu eldishúsi að íbúðarhúsi mælist 61,7 m, sem sé umfram þá 50 m kröfu sem gerð sé í b-lið I. liðar 1. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 520/2015 um eldishús alifugla, loðdýra og svína. Eðlilegt sé að mæla í vegg húss kærenda, enda sé hugtakið „mannabústaður“ notað í tilgreindu ákvæði. Ljóst sé að umfang reksturs Græneggja ehf. aukist. Gerð verði breyting á aðkomu að húsunum, sem verði að norðan þar sem fóðursíló séu staðsett, þannig að þungaumferð aukist ekki við að varphænum fjölgi. Fram komi á uppdrætti að hús sé sunnan við grunninn sem áform séu uppi um að byggja á. Húsið sé nýtt sem geymsla eða verkstæði og ekki standi til að taka það undir eldi. Fjarlægð í það sé 51,1 m samkvæmt uppdrættinum. Fjarlægðarmörkin í framangreindu reglugerðarákvæði gildi um eldi á 40.000-60.000 fuglum og því sé óljóst hvort að þau eigi við um 6.000 fugla eldi. Skilyrði ákvæðisins um fjarlægð sé engu að síður fullnægt.

Meginástæða þess að ekki hafi verið gert deiliskipulag sé sú að ekki náist samkomulag milli eigenda fasteigna í Sveinbjarnargerði. Erindið hafi verið samþykkt á fundi sveitarstjórnarinnar 5. apríl 2017 en leyfishafa hafi verið tilkynnt 18. maí s.á að byggingarleyfi yrði ekki gefið út fyrr en félagið hefði tilkynnt framkvæmdina til Skipulagsstofnunar í samræmi við lið 1.10 í 1. viðauka við lög nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Hin kærða ákvörðun varði ekki starfsleyfi Græneggja ehf. og feli ekki í sér afstöðu til þess, enda veiti sveitarstjórn ekki starfsleyfi.

Sveitarstjóri eigi ekki sæti í sveitarstjórn og geti því ekki haft áhrif á afgreiðslu mála með atkvæði sínu. Sveitarstjórn geti tæplega verið vanhæf vegna þess að sveitarstjóri sitji fundi, líkt og honum beri að gera. Fjárhagslegir hagsmunir sveitarstjóra í Græneggjum ehf. séu nánast engir, en hann eigi 10% hlut í Bjarnargerði ehf., sem eigi 10% hlut í Græneggjum ehf.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi tekur fram að hin kærða framkvæmd sé fólgin í því að byggja yfir gamlan grunn með það að markmiði að fjölga varphænum úr tæplega 8.000 í 12.000 að hámarki. Breikka þurfi grunninn um rúma þrjá metra til að gæta fullrar hagkvæmni, m.t.t. varpkassa, vatnsnippla og fóðurlína. Grunnflötur stækki þannig úr rúmum 600 m² í rúma 800 m². Lengd hússins verði sú sama og áður, en það muni breikka til austurs. Byggingin verði hærri en áður, en verði verulega lægri en skemman sem hún muni standa áföst við. Hún verði í 61,7 m fjarlægð frá gamla íbúðarhúsinu í Sveinbjarnargerði III, en fjarlægðin sé 51,1 m sé mælt frá mörkum lóðar kærenda.

Heildarfjöldi varphænsna og unga í uppeldi samanlagt geti að hámarki orðið 15.000, en fjöldinn verði að meðaltali töluvert minni þar sem ávallt þurfi að hreinsa bæði uppeldishús og varphús í hvert skipti þegar skipt sé um fugl, en það sé gert í áföngum. Eggjaframleiðslan geti vaxið um u.þ.b. 35%.

Gildandi starfsleyfi hafi miðað við 10.000 varphænur þar sem það hámark hafi verið í reglugerð nr. 504/1998 um vistvæna landbúnaðarframleiðslu, en leyfishafi stundi slíka framleiðslu. Sú reglugerð hafi nú verið felld úr gildi. Leyfið sé yfirleitt endurskoðað á fjögurra ára fresti, sbr. 1. mgr. 20. gr. reglugerðar nr. 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun. Eggjaframleiðsla hafi verið samfellt í Sveinbjarnargerði í yfir 50 ár. Sótt hafi verið um breytingu á starfsleyfi í samræmi við fyrirhugaða stækkun, en það verði ekki gefið út fyrr en að byggingarframkvæmdum loknum.

Deiliskipulagskvöð samkvæmt aðalskipulagi nái eingöngu til ferðaþjónustunnar, en í skipulaginu komi fram að frekari uppbygging á ferðaþjónustu í Sveinbjarnargerði, merkt V3,  sé gerð samkvæmt deiliskipulagi. Ferðaþjónusta hafi fyrst verið heimiluð í Sveinbjarnargerði með bréfi, dags. 13. mars 1998, þar sem Skipulagsstofnun hafi fallist á að veita leyfi fyrir breyttri notkun sláturhúss.

Sveitarstjórn Svalbarðsstrandarhrepps fari með skipulagsmál sveitarfélagsins án þess að nokkur undirnefnd sé í þeim málum, en slíkt sé heimilt samkvæmt lögum. Með 10% eignaraðild sveitarstjóra að Bjarnargerði ehf. eigi hann óbeint 1% í Græneggjum ehf.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar sameiginlegrar byggingarnefndar Eyjafjarðarsvæðis frá 26. apríl 2017 að samþykkja að veita byggingarleyfi vegna endurbyggingar varphænsnahúss að Sveinbjarnargerði en sveitarstjórn hefur gert það að skilyrði fyrir útgáfu byggingarleyfis af hálfu byggingarfulltrúa að byggingarnefndin hafi fjallað um og samþykkt umsókn fyrir leyfinu, sbr. 3. gr. samþykktar nr. 420/2013 um afgreiðslur sameiginlegrar byggingarnefndar Eyjafjarðarsvæðis, sbr. og ákvæði 1. og 2. mgr. 7. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Einskorðast lögmætisathugun úrskurðarnefndarinnar við hina kærðu leyfisveitingu, undirbúning hennar og málsmeðferð.

Í 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 kemur fram sú meginregla að gera skuli deiliskipulag fyrir svæði eða reiti þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar. Skal þess gætt að byggingarleyfisskyld framkvæmd sé í samræmi við skipulagsáætlanir sveitarfélags þegar sótt er um byggingarleyfi og er það jafnframt skilyrði fyrir útgáfu byggingarleyfis að mannvirki og notkun þess samræmist skipulagsáætlunum á svæðinu, sbr. 2. mgr. 10. gr. og 1. tl. 1. mgr. 13. gr. mannvirkjalaga. Er því gert ráð fyrir því að byggingarleyfi skuli vera í samræmi við gildandi deiliskipulag, en undanþágu hvað varðar ódeiliskipulögð svæði er að finna í ákvæði 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga. Þar segir að þegar sótt sé um byggingar- eða framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmd sem sé í samræmi við aðalskipulag hvað varði landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar í þegar byggðu hverfi og deiliskipulag liggi ekki fyrir þá geti sveitarstjórn ákveðið að veita megi leyfi án deiliskipulagsgerðar og láti skipulagsnefnd þá fara fram grenndarkynningu. Fór grenndarkynning fram eins og mælt er fyrir um í nefndu lagaákvæði með því fráviki þó að sveitarstjórn annaðist kynninguna á grundvelli lagaheimildar þess efnis að í sveitarfélögum þar sem erfiðlega horfi með að manna nefndir sé sveitarstjórn heimilt að fara sjálf með verkefni lögskipaðrar nefndar, sbr. 4. mgr. 37. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011.

Í gildi er Aðalskipulag Svalbarðsstrandarhrepps 2008-2020. Samkvæmt skipulaginu er Sveinbjarnargerði á landbúnaðarsvæði merkt L1. Um svæðið segir að það sé gott landbúnaðarland sem vel sé fallið til ræktunar og búvöruframleiðslu, sem skuli vera meginlandnotkun á svæðinu. Segir enn fremur að heimilt sé að nýta og reisa byggingar fyrir atvinnustarfsemi sem falli vel að búrekstri og nýtingu viðkomandi jarðar og hafi ekki neikvæð áhrif á umhverfi sitt. Fyrst og fremst sé átt við atvinnugreinar sem séu eðlileg viðbót við búreksturinn og stoðgreinar við landbúnað, sem áfram verði meginlandnotkun á svæðinu. Innan svæðisins við Sveinbjarnargerði er hringtákn merkt V3 og er það skilgreint sem verslunar- og þjónustusvæði. Er því svæði lýst sem hóteli og veitingahúsi í töflu í kafla 4.6 í aðalskipulagi og tiltekið að uppbygging skuli vera samkvæmt deiliskipulagi. Segir nánar í nefndum kafla að á sveitarfélagsuppdrætti megi merkja þjónustustarfsemi með hringtákni á viðkomandi lögbýli í stað ákveðinnar landfræðilegrar afmörkunar.

Hið kærða byggingarleyfi heimilar endurbyggingu varphænsnahúss á lögbýli á skilgreindu landbúnaðarsvæði samkvæmt aðalskipulagi, en á lögbýlinu má jafnframt vera hótel og veitingahús. Er og heimilt samkvæmt skipulaginu að reisa byggingar fyrir atvinnustarfsemi sem falli vel að búrekstri. Verður að telja ljóst af orðalagi og framsetningu aðalskipulagsins að skilmálar um að uppbygging skuli vera samkvæmt deiliskipulagi séu bundnir við svæðið V3 en að aðallega sé gert ráð fyrir landbúnaði á lögbýlinu í samræmi við skilgreinda landnotkun og áherslur aðalskipulags. Rúmast hin kærða leyfisveiting því innan heimilda gildandi aðalskipulags, en framkvæmdin er í beinum tengslum við þann rekstur sem þegar fer fram á svæðinu. Sömuleiðis voru fyrir hendi skilyrði til grenndarkynningar skv. 44. gr. skipulagslaga.

Samkvæmt 2. mgr. 20. gr. sveitarstjórnarlaga ber sveitarstjórnarmanni, nefndarfulltrúa eða starfsmanni sveitarfélags að víkja sæti við meðferð og afgreiðslu máls þegar það varðar hann svo sérstaklega að almennt megi ætla að viljaafstaða hans mótist að einhverju leyti þar af. Samkvæmt 54. gr. sömu laga ræður sveitarstjórn framkvæmdastjóra, þ.e. sveitarstjóra, og er hlutverk hans að sjá um að stjórnsýsla sveitarfélagsins samræmist lögum, samþykktum og viðeigandi fyrirmælum yfirmanna. Samkvæmt 2. mgr. 55. gr. laganna skal hann sitja fundi sveitarstjórnar og þar hefur hann bæði málfrelsi og tillögurétt. Hann hefur þó ekki atkvæðisrétt nema hann sé jafnframt kjörinn fulltrúi í sveitarstjórninni, en það mun þáverandi sveitarstjóri ekki hafa verið.

Af gögnum málsins verður ekki annað ráðið en að sveitarstjórinn hafi komið að undirbúningi málsins, þ.m.t. grenndarkynningu. Liggur fyrir að hann tengist eigendum leyfishafa fjölskyldutengslum og eru þeir mágar. Þá mun hann eiga lítinn hlut í fyrirtæki sem á hlut í leyfishafa. Svo sem áður er komið fram er grenndarkynning þáttur í lögboðinni málsmeðferð þegar byggingarleyfi er veitt vegna framkvæmdar á ódeiliskipulögðu svæði. Var sveitarstjóranum því rétt að víkja sæti við undirbúning, meðferð og afgreiðslu byggingarleyfisins vegna vanhæfis í skilningi 2. mgr. 20. gr. sveitastjórnarlaga.

Við mat á því hvort nefndur annmarki á afgreiðslu sveitarstjórnar á byggingarleyfinu teljist svo verulegur að ógildingu varði ber m.a. að horfa til þess að sveitarstjóri gegnir lykilhlutverki í stjórnsýslu sveitarfélaga. Sem slíkur var hann í aðstöðu til að hafa áhrif á afstöðu starfsmanna sveitarfélagsins til málsins og sveitarstjórnar til grenndarkynningar. Hins vegar verður að líta til þess að hann hafði ekki atkvæðisrétt á fundum og gat því ekki með beinum hætti komið að ákvörðun varðandi grenndarkynninguna, en samkvæmt 2. mgr. 17. gr. sveitarstjórnarlaga ræður afl atkvæða úrslitum mála. Þá verður ekki séð að aðkoma sveitarstjóra að grenndarkynningunni hafi ráðið úrslitum um lyktir málsins eða leitt til niðurstöðu sem var efnislega önnur en annars hefði orðið, einkum og sér í lagi þegar litið er til þess að byggingarleyfið var samþykkt af sameiginlegri byggingarnefnd Eyjafjarðarsvæðis þar sem sveitarstjóri átti ekki sæti. Verður byggingarleyfið því ekki ógilt af þeim sökum.

Í 6. gr. reglugerðar nr. 520/2015 um eldishús alifugla, loðdýra og svína er fjallað um fjarlægðir eldishúsa, m.a. frá mannabústöðum. Þegar um er að ræða m.a. nýbyggingar, meiriháttar breytingar eða stækkanir á eldishúsum ber sveitarstjórn að ákveða fjarlægð þeirra við m.a. mannabústaði eða svæði sem afmörkuð hafa verið fyrir þá notkun í aðalskipulagi eða með byggingarreitum í deiliskipulagi. Samkvæmt b-lið I. liðar 1. mgr. skal lágmarksfjarlægð vera 50 m fyrir bú ætluð fyrir 40.000 til 85.000 stæði fyrir kjúklinga eða 40.000 til 60.000 stæði fyrir hænur. Meðal gagna málsins er málsett loftmynd, dags. 12. maí 2017, og samkvæmt henni er fjarlægð frá varphúsi að mörkum lóðar kærenda 51,1 m, en fjarlægð að íbúðarhúsi kærenda er 61,7 m. Umrætt bú telur um 8.000 varpfugla og með fyrirhugaðri stækkun er búið enn töluvert undir stærðarviðmiðum tilvitnaðs b-liðar reglugerðarinnar. Engu að síður er skilyrði um lágmarksfjarlægð samkvæmt ákvæðinu uppfyllt hvað varðar hið endurbyggða eldishús.

Loks var gætt að ákvæði 5. mgr. 13. gr. mannvirkjalaga og byggingarleyfi ekki gefið út fyrr en ákvörðun Skipulagsstofnunar lá fyrir um að framkvæmdin væri ekki matsskyld.

Með hliðsjón af öllu því sem að framan er rakið eru ekki þeir ágallar á efni eða málsmeðferð hinnar kærðu leyfisveitingar fyrir hendi sem raskað geta gildi hennar. Verður kröfu kærenda um ógildingu því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar sameiginlegrar byggingarnefndar Eyjafjarðarsvæðis frá 26. apríl 2017 um að veita byggingarleyfi til að endurbyggja varphænsnahús að Sveinbjarnargerði í Svalbarðsstrandarhreppi.

98/2017 Laugarnesvegur

Með

Árið 2018, fimmtudaginn 8. nóvember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 98/2017, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 3. ágúst 2017 um að hafna kröfu um ógildingu byggingarleyfis fyrir skúr á lóðinni nr. 83 við Laugarnesveg og beitingu þvingunarúrræða.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 8. ágúst 2017, er barst nefndinni 8. september s.á., kærir eigandi, Laugarnesvegi 83, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 3. ágúst 2017 að hafna kröfu um ógildingu byggingarleyfis fyrir skúr á lóðinni nr. 83 við Laugarnesveg og beitingu þvingunarúrræða. Gerir kærandi þá kröfu að Reykjavíkurborg verði gert að sjá til þess að skúrinn verði fjarlægður, sem og aðrar óleyfisframkvæmdir í og við húsið á nefndri lóð. Til vara er þess krafist að Reykjavíkurborg verði gert að knýja eiganda eða umráðamann skúrsins til þess að bæta úr því sem áfátt sé í tengslum við ásigkomulag og frágang og fjarlægja og afmá óleyfisframkvæmdir í húsinu. Til þrautavara er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 9. október 2017.

Málavextir: Húsið að Laugarnesvegi 83 er þriggja íbúða hús, kjallari, hæð og rishæð. Af fyrirliggjandi gögnum verður ráðið að deilur hafi staðið milli eiganda íbúðar á fyrstu hæð hússins og kæranda, sem á íbúð í rishæð þess, m.a. vegna 31 m2 skúrs á lóð hússins og frágangs raflagna í og við húsið og skúrinn.

Þáverandi eigendur fasteignarinnar að Laugarnesvegi 83 samþykktu eignaskiptayfirlýsingu vegna fasteignarinnar, sem þinglýst var 4. september 1996. Í yfirlýsingunni kemur fram að íbúð merktri 01-0101 fylgi geymsluskúr á lóðinni, sem ekki hafi verið samþykktur af byggingaryfirvöldum. Er tekið fram að áætlað sé að skúrinn verði í framtíðinni fjarlægður og honum fylgi engin lóðarréttindi. Eigandi skúrsins hafi þó áfram heimild til að endurbæta hann eða byggja nýjan á lóðinni, að fengnu leyfi byggingaryfirvalda. Í skráningartöflu, dags. 11. desember 1995, er fylgdi eignaskiptayfirlýsingunni, er skúrsins ekki getið. Samkvæmt gögnum úr fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands hefur verið skráð 13,5 m2 geymsla á lóðinni Laugarnesvegi 83 og hafði sú matseining númerið 2016845. Kærandi eignaðist íbúð sína að Laugarnesvegi 83 með kaupsamningi, dags. 21. apríl 2001.

Hinn 6. júní 2006 var samþykkt umsókn eiganda íbúðar á fyrstu hæð hússins um byggingarleyfi fyrir áður gerðri 31 m2 bílgeymslu á fyrrgreindri lóð. Þá var hinn 12. janúar 2007 þinglýst á fasteignina yfirlýsingu um samþykki eigenda hennar um að bílskúr, sem hafi staðið á lóð Laugarnesvegar 83 í yfir 10 ár, komi í staðinn fyrir þann sem þar hafi verið á sama stað. Yfirlýsingin er undirrituð af tveimur eigendum tveggja eignarhluta í húsinu en á skortir undirritun kæranda sem eiganda þriðja eignarhlutans. Bílgeymslan var skráð í fasteignaskrá sem 31,0 m2 bílskúr hinn 21. október 2015 sem sama matseining og fyrrgreindur 13,5 m2 skúr. Skráning matseiningarinnar var síðan afmáð 22. september 2016. Ekki liggur fyrir hvenær núverandi skúr var reistur í stað þess sem áður mun hafa staðið á umræddri lóð.

Með bréfi kæranda, dags. 28. janúar 2017, var kært til úrskurðarnefndarinnar aðgerðarleysi byggingarfulltrúans í Reykjavík „varðandi eldhættu og óleyfisframkvæmdir“ við Laugarnesveg 83. Komst nefndin að þeirri niðurstöðu að kærufrestur vegna hins veitta byggingarleyfis frá 6. júní 2016 væri liðinn og ekki yrði því tekin afstaða til lögmætis hennar. Aftur á móti taldi nefndin að óhæfilegur dráttur hefði orðið á afgreiðslu erindis kæranda til borgarinnar vegna framkvæmdanna án þess að fyrir lægi viðhlítandi skýring á drættinum. Var því lagt fyrir byggingarfulltrúa að taka til lögformlegrar afgreiðslu kröfu kæranda um afturköllun umdeilds byggingarleyfis og beitingu þvingunarúrræða. Hinn 3. ágúst 2018 synjaði byggingarfulltrúinn í Reykjavík kröfu kæranda um afturköllun umdeilds byggingarleyfis og beitingu þvingunarúrræða á þeim forsendum að hagsmunir núverandi eiganda skúrsins vægju þyngra en hagsmunir kæranda af því að fá kröfu sinni framgengt.

Málsrök kæranda: Kærandi telur að á grundvelli 2. mgr. 56. gr. þágildandi skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 hafi stofnast skylda fyrir byggingarfulltrúa til að grípa til aðgerða vegna óleyfisframkvæmda á lóð fasteignarinnar að Laugarnesvegi 83.

Í IV. kafla laga nr. 73/1997 hafi verið mælt fyrir um mannvirki. Samkvæmt 1. mgr. 36. gr. laganna hafi ákvæði kaflans tekið til hvers konar bygginga, bæði ofan jarðar og neðan. Samkvæmt 1. mgr. 43. gr. hafi m.a. verið óheimilt að grafa grunn og reisa hús nema að fengnu leyfi sveitarstjórnar. Samkvæmt 4. mgr. sama ákvæðis hafi þeim sem óskaði slíks leyfis borið að koma á framfæri umsókn til byggingarnefndar viðkomandi sveitarfélags ásamt nauðsynlegum hönnunargögnum og skilríkjum, þ.m.t. samþykki meðeigenda ef um sameign væri að ræða. Í VI. kafla laganna hafi verið mælt fyrir um þvingunarúrræði og viðurlög. Samkvæmt 2. mgr. 56. gr. laganna hafi byggingarfulltrúa sveitarfélags borið að stöðva tafarlaust framkvæmd sem félli undir ákvæði IV. kafla laganna, án þess að leyfi hefði fengist fyrir henni og hún bryti í bága við skipulag, og í framhaldi þess að fjarlægja hina ólöglegu byggingu og afmá jarðrask.

Að því er varði lagaskil gagnvart skipulags- og byggingarlögum, sem í gildi hafi verið á þeim tíma er byggingarleyfi vegna hins áður gerða skúrs hafi verið veitt, vísi kærandi til niðurstöðu Hæstaréttar Íslands í máli nr. 137/2012 frá 22. nóvember 2012. Þar sé með afdráttarlausum hætti vísað til þess að atvik málsins hafi átt sér stað í gildistíð eldri laga og að þeim lögum yrði beitt við úrlausn málsins án tillits til þess hvort hliðstæð ákvæði væri að finna í nýjum skipulagslögum nr. 123/2010, sem hafi líkt og lög nr. 160/2010 um mannvirki, tekið gildi 1. janúar 2011. Kærandi telji einsýnt að hið sama eigi við í þessu máli.

Í málinu liggi fyrir sú afstaða byggingarfulltrúa að samþykki á byggingarleyfisumsókn eiganda og umráðamanns skúrsins hafi verið alvarlegum vanköntum háð að því leyti að skort hefði á samþykki sameiganda, líkt og 4. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga hefði gert ráð fyrir. Telji kærandi með ólíkindum að ekki hafi verið brugðist við í samræmi við fortakslausa skyldu byggingarfulltrúa samkvæmt 2. mgr. 56. gr. laganna til að fjarlægja ólöglegar byggingar. Ekki skipti máli að í ákvæðinu sé vísað til þess skilyrðis fyrir aðgerðum byggingarfulltrúa að framkvæmd brjóti í bága við deiliskipulag, enda ljóst að ekki hafi verið til staðar deiliskipulag á svæðinu bæði á þeim tímapunkti þegar skúrinn hafi verið reistur og þegar umsókn um byggingarleyfi hafi verið komið á framfæri. Þegar af þeirri ástæðu að samþykki kæranda sem sameiganda hafi ekki legið fyrir vegna skúrsins, og að eigandi og umráðamaður skúrsins hafi ekki orðið við kröfum byggingarfulltrúa um framvísun þess samþykkis, hafi skylda embættis byggingarfulltrúa til aðgerða stofnast, m.a. með hliðsjón af því að 2. mgr. 56. gr. laganna hafi ekki gert aðkomu aðila máls eða annarra að skilyrði fyrir aðgerðum. Megi hér vísa til dóma Hæstaréttar Íslands í málum nr. 32/2008 frá 6. nóvember 2008, máli nr. 406/2010 frá 24. mars 2011 og áðurnefndu máli nr. 138/2012 frá 22. nóvember 2012.

Samkvæmt 3. mgr. 23. gr. og 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga hafi sveitarstjórn getað veitt heimild til framkvæmda í þegar byggðum hverfum þar sem ekki hafi legið fyrir deiliskipulag, að undangenginni grenndarkynningu. Samkvæmt gögnum málsins hafi þess leið verið farin og ekki hafi borist athugasemdir við grenndarkynninguna. Þótt kærandi hafi ekki komið að athugasemdum við kynninguna verði það ekki túlkað sem samþykki hans fyrir framkvæmdunum. Áðurnefnd heimild sveitarstjórnar samkvæmt fyrrgreindum lagaákvæðum geti ekki vikið til hliðar ófrávíkjanlegu skilyrði laganna um að til staðar sé samþykki meðeigenda. Hvað svo sem líði því mati Reykjavíkurborgar, og síðar úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, að byggingarleyfisumsóknin hafi verið samþykkt verði í samhengi við ógildingarfræði stjórnsýsluréttarins að líta á þá samþykkt sem markleysu, sem virða beri að vettugi, óháð því hvort tekin hafi verið sérstök ákvörðun um ógildingu hennar eður ei, enda hafi frá öndverðu skort á fortakslaust skilyrði leyfisveitingarinnar.

Að því er varði kröfu kæranda um beitingu þvingunarúrræða sé fyrst og fremst á því byggt að ákvörðun embættis byggingarfulltrúa hafi ekki byggst á forsvaranlegu mati embættisins. Hafi því mat byggingarfulltrúa um að ekki væri nauðsyn á að grípa til aðgerða vegna skúrsins verið ólögmætt. Af ákvörðuninni verði helst ráðið að byggt hafi verið á meintu tómlæti kæranda, hagsmunum nýs eiganda skúrsins, í ljósi þess að um íþyngjandi úrræði væri að ræða gagnvart viðkomandi, og á eignaskiptayfirlýsingu frá 28. ágúst 1996.

Samkvæmt réttmætisreglu stjórnsýsluréttarins beri stjórnvöldum við ákvarðanatöku sína að byggja á málefnalegum sjónarmiðum sem leidd verði fram með túlkun ákvæða viðkomandi lagaramma hverju sinni. Samkvæmt a-lið 1. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki sé á meðal markmiða laganna að vernda líf og heilsu manna, eignir og umhverfi með því að tryggja faglegan undirbúning mannvirkjagerðar og virkt eftirlit með því að kröfum um öryggi mannvirkja og heilnæmi sé fullnægt. Í athugasemdum greinargerðar við endanlegt frumvarp laganna komi fram að í ákvæðinu sé fjallað um grundvallartilgang löggjafar um mannvirkjagerð. Sé ljóst að önnur ákvæði laganna miði að því að tryggja að þessum markmiðum verði fullnægt, m.a. með virku eftirliti þeirra aðila sem beri ábyrgð á því.

Kærandi geri að þessu leyti athugasemd við það mikilvægi sem hagsmunum núverandi eiganda umráðamanns skúrsins séu fengnir og þá staðreynd að þvingunaraðgerðir séu íþyngjandi gagnvart viðkomandi. Kærandi vísi til þess að á meðal gagna málsins séu tvær skýrslur þar sem gerðar séu athugasemdir við raflagnir í skúrnum og húsinu í heild sinni. Ekki verði séð að í ákvörðun byggingarfulltrúa frá 3. ágúst 2017 hafi verið litið til þessa atriðis. Þrátt fyrir að kærandi geri sér grein fyrir því að sjónarmið sem felist í verndun verðmæta og því að koma beri í veg fyrir óþarfa eyðileggingu eigi sér stoð í löggjöfinni, m.a. með hliðsjón af þeirri breytingu sem orðið hafi á úrræðum byggingarfulltrúa við gildistöku núgildandi laga að um sé að ræða heimild til aðgerða en ekki skyldu, verði ekki séð að þau sjónarmið víki til hliðar sjónarmiðum sem hvíli á lögfestum grundvallarmarkmiðum laganna. Núverandi eiganda séu færar ýmsar leiðir á einkaréttarlegum grundvelli til þess að sækja bætur fyrir tjón sitt hjá fyrrverandi eiganda og eftir atvikum öðrum aðilum. Við sölu eignarinnar hafi bæði fasteignasölu þeirri sem hafi annast söluna og núverandi eiganda verið gerð grein fyrir ágreiningnum sem uppi væri vegna skúrsins.

Hin kærða ákvörðun beri með sér að ekki hafi farið fram fullnægjandi rannsókn, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, þegar litið sé til tveggja skýrslna vegna raflagna skúrsins og sjónarmiða um að af honum stafi eldhætta. Slík rannsókn sé forsenda málefnalegs mats við ákvörðun um beitingu þvingunarúrræða.

Að því er varði sjónarmið um meint tómlæti kæranda sé vísað til þess að ekki verði séð að ákvæði X. kafla laga um mannvirki, þar sem mælt sé fyrir um rannsóknir, þvingunarúrræði og viðurlög vegna háttsemi sem brjóti í bága við lögin, geri ráð fyrir aðkomu aðila sem lögvarinna hagsmuna hafi að gæta af málinu sem skilyrði fyrir því að úrræðum kaflans verði beitt. Þvert á móti telji kærandi umrædd ákvæði laganna gera ráð fyrir ákveðnu frumkvæðiseftirliti af hálfu viðkomandi byggingaryfirvalda. Auk þess sé á það bent að sjónarmið um tómlæti, þegar um sé að ræða nábýlisréttarlegar deilur, séu í eðli sínu einkaréttarleg sjónarmið, sem tilheyri þeim þætti málsins. Vandséð sé að slík sjónarmið eigi við þegar um ákvarðanatöku embættis byggingarfulltrúa sé að ræða.

Hvorki hafi verið gætt að andmælarétti aðila máls við ákvörðunartökuna né tilkynningu komið á framfæri um meðferð málsins, sbr. 13. og 14. gr. stjórnsýslulaga. Slík tilkynning um meðferð máls sé eðli málsins samkvæmt forsenda þess að aðili þess geti nýtt sér ýmis réttindi sem viðkomandi séu fengin með ákvæðum stjórnsýslulaga, t.d. upplýsingarétt, sbr. 15. gr. laganna.

Rökstuðningi ákvörðunarinnar sé ábótavant, enda sé hann ekki í samræmi við 22. gr. stjórnsýslulaga. Í rökstuðningnum sé í engu getið þeirra meginsjónarmiða sem legið hafi að baki mati byggingarfulltrúa á nauðsyn þess að úrræðum laga um mannvirki verði beitt, að öðru leyti en því að vísað sé til meintra hagsmuna núverandi eiganda og umráðamanns skúrsins.

Málsrök Reykjavíkurborgar:
Borgaryfirvöld benda á að ljóst sé að vegna mistaka hjá embætti byggingarfulltrúa hafi láðst að kalla eftir samþykki kæranda vegna leyfis fyrir þegar gerðri stækkun umrædds skúrs. Á hinn bóginn sé á það að líta að ekki liggi fyrir upplýsingar um það hvenær stækkunin hafi átt sér stað og mögulegar framkvæmdir við raflagnir. Sé því mögulega um tómlæti af hálfu kæranda að ræða, en eðlilegt hefði verið að kærandi hefði gert athugasemd við framkvæmdirnar þegar þær hófust. Ekki hafi verið leitt í ljós að kærandi hafi eitthvað aðhafst í málinu á þeim tíma. Það sé ekki fyrr en byggingarfulltrúi samþykki stækkun skúrsins eftir á að umræddar athugasemdir hafi borist. Einnig beri að líta til þess að langur tími hafi liðið frá samþykkt byggingarfulltrúa í málinu, nýr eigandi sé að skúrnum og að samkvæmt gildandi deiliskipulagi Teigahverfis frá 2014 sé nú heimilað að byggja bílskúr á lóðinni.

Í eignaskiptasamningi frá 28. ágúst 1996 komi fram að íbúð merkt 01-0101 fylgi geymsluskúr sem standi á lóðinni, sem ekki hafi verið samþykktur af byggingaryfirvöldum. Komi þar fram að áætlað sé að skúrinn verði í framtíðinni fjarlægður og honum fylgi engin lóðarréttindi. Eigandi skúrsins hafi þó áfram heimild til að endurbæta geymsluskúrinn eða byggja nýjan á lóðinni, að fengnu leyfi byggingaryfirvalda. Orðalag þessa ákvæðis í eignaskiptasamningnum kunni að orka tvímælis um þær heimildir sem þar séu tilgreindar. Þótt eðlilegt megi telja að hér sé átt við byggingu skúrs af sömu stærð og fyrir hafi verið kunni þetta að sæta ágreiningi sem embættið hafi ekki heimild til að skera úr um.

Sérstök athygli sé vakin á því að engin lagaskylda hvíli á byggingarfulltrúa til að hlutast til um að mannvirki sem byggð hafi verið án leyfis séu fjarlægð. Í rökstuðningi byggingarfulltrúa fyrir synjun um aðgerðir í málinu hafi enn fremur verið tekið fram að ljóst væri að ákvörðun um ógildingu byggingarleyfis nú og e.t.v. niðurrif skúrsins yrði verulega íþyngjandi fyrir núverandi eiganda hans. Það hafi því verið mat embættisins, í ljósi framangreinds og atvika málsins alls, að hagsmunir núverandi eiganda í málinu vægju þyngra en hagsmunir kæranda af því að fá kröfum sínum framgengt.

Niðurstaða: Hinn 6. júní 2006 var að undangenginni grenndarkynningu samþykkt umsókn um byggingarleyfi fyrir áður gerðum bílskúr á lóðinni Laugarnesvegi 83, en á skorti að uppfyllt væri skilyrði þágildandi 4. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 um samþykki meðeigenda lóðarinnar, eins og rakið er í kafla um málavexti. Krefst kærandi þess að nefnt byggingarleyfi verði fellt úr gildi og að þvingunarúrræðum verði beitt til þess að skúrinn verði fjarlægður ásamt öðrum óleyfisframkvæmdum við húsið og skúrinn á lóðinni.

Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur nefndin það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Af þeim sökum tekur nefndin aðeins til meðferðar kröfu kæranda um ógildingu byggingarleyfi fyrir skúrnum og synjun um beitingu þvingunarúrræða á nefndri lóð. Aftur á móti telur nefndin það falla utan valdheimilda sinna að taka nýja ákvörðun í málinu með því að leggja fyrir byggingarfulltrúa að beita þvingunarúrræðum vegna framkvæmda á umræddri lóð, fari svo að hinni kærðu ákvörðun verði hnekkt. Verður því ekki tekin afstaða til þess hluta kröfugerðar kæranda.

Samkvæmt bréfi byggingarfulltrúa til leyfishafa, dags. 16. júní 2016, andmælti kærandi veitingu fyrrgreinds byggingarleyfis og krafðist þess m.a. að byggingarfulltrúi afturkallaði ákvörðun sína. Í 2. mgr. 4. gr. laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er frestur til að skjóta málum til nefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um hina kæranlegu ákvörðun. Kærufrestur vegna nefnds byggingarleyfis er því löngu liðinn. Af þeim sökum verður ekki tekin afstaða til lögmætis nefndrar ákvörðunar í máli þessu.

Kveðið er á um það í 2. mgr. 4. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki að sveitarstjórn beri ábyrgð á að stjórnsýsla og eftirlit byggingarfulltrúa sé í samræmi við ákvæði laganna og að byggingarfulltrúar annist eftirlit með mannvirkjagerð sem falli undir 1. og 2. mgr. 9. gr. þeirra. Samkvæmt 2. mgr. 55. gr. laganna getur byggingarfulltrúi krafist þess, ef byggingarframkvæmd er hafin án þess að leyfi sé fengið fyrir henni, að hið ólöglega mannvirki eða byggingarhluti sé fjarlægt, jarðrask afmáð eða starfsemi hætt. Þá er í 56. gr. laganna, sbr. gr. 2.9.2. í byggingarreglugerð nr. 112/2012, m.a. kveðið á um aðgerðir til að knýja fram úrbætur sé ásigkomulagi, frágangi, umhverfi eða viðhaldi húss, annars mannvirkis eða lóðar ábótavant, af því stafi hætta eða það teljist skaðlegt heilsu að mati byggingarfulltrúa.

Ákvörðun um beitingu nefndra þvingunarúrræða er háð mati stjórnvalds hverju sinni og tekið er fram í athugasemdum við frumvarp það sem varð að mannvirkjalögum að eðlilegt sé að ákvörðun um beitingu úrræðanna sé metin í hverju tilviki, m.a. með tilliti til meðalhófs. Umrædd ákvæði gefa sveitarfélögum kost á að bregðast við sé gengið gegn almannahagsmunum þeim er búa að baki mannvirkjalögum, svo sem skipulags-, öryggis- og heilbrigðishagsmunum. Með hliðsjón af þessu verður ekki talið að einstaklingum sé tryggður lögvarinn réttur til að knýja byggingaryfirvöld til beitingar þvingunarúrræða vegna einstaklingshagsmuna, enda eru þeim tryggð önnur réttarúrræði til þess að verja þá hagsmuni sína. Þótt beiting úrræðanna sé háð mati stjórnvalds þarf ákvörðun þess efnis að vera studd efnislegum rökum, m.a. með hliðsjón af þeim hagsmunum sem búa að baki fyrrgreindum lagaheimildum.

Synjun um beitingu á lögheimiluðum þvingunarúrræðum var studd þeim rökum að hagsmunir núverandi eiganda skúrsins vægju þyngra en hagsmunir kæranda af því að fá skúrinn fjarlægðan. Var einnig vísað til þess að um mögulegt tómlæti væri að ræða af hálfu kæranda, að heimilt væri að byggja bílskúr á lóðinni samkvæmt núverandi deiliskipulagi og að túlkun eignaskiptasamnings frá 28. ágúst 1996 orkaði tvímælis um þær heimildir sem þar væru tilgreindar. Verður að telja hina matskennda ákvörðun byggingarfulltrúa, að synja beitingu þvingunarúrræða vegna fyrrgreinds skúrs, hafa verið studda efnislegum rökum.

Kærandi hefur gert athugasemdir vegna raflagna í og við húsið og skúrinn á lóðinni Laugarnesvegi 83 sökum meintrar eldhættu. Að tilhlutan Mannvirkjastofnunar gerði faggilt skoðunarstofa skýrslu, dags. 8. apríl 2016, um vanbúnað raflagna í sameign þar sem gerðar eru ýmsar athugasemdir, m.a. vegna hættu á hita- og neistamyndun og skammhlaupi í aðaltöflu hússins. Skýrslu sama efnis hafði skoðunarstofan gert árið 2012. Ekki liggja fyrir upplýsingar um hvort úr hafi verið bætt í þeim efnum. Samkvæmt 1. mgr. 56. gr. mannvirkjalaga hvílir sú skylda á byggingarfulltrúa að leggja fyrir eiganda eða umráðamann húss eða mannvirkis að bæta úr því sem áfátt er ef af því stafar hætta að hans mati. Ekki er að sjá að byggingarfulltrúi hafi í ákvörðun sinni tekið afstöðu til þess hvort hætta stafaði af ástandi raflagna hússins með hliðsjón af nefndri skýrslu faggiltrar skoðunarstofu. Að þessu leyti skortir því á að í ákvörðun byggingarfulltrúa hafi sá þáttur málsins verið rannsakaður og rökstuddur með fullnægjandi hætti, sbr. 10. og 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Með hliðsjón af framangreindu verður að telja að ákvörðun byggingarfulltrúa, um að synja beitingu þvingunarúrræða í tilefni af ástandi raflagna umræddrar fasteignar, hafi verið slíkum annmörkum háð að varði ógildingu þess hluta hennar.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 3. ágúst 2017, um að hafna kröfu um beitingu þvingunarúrræða vegna ástands raflagna í sameign fasteignarinnar að Laugarnesvegi 83 í Reykjavík.

Kærumáli þessu er að öðru leyti vísað frá úrskurðarnefndinni.