Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

112/2017 Laxabakki

Með

Árið 2018, miðvikudaginn 28. nóvember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 112/2017, kæra á ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Árborgar frá 7. júní 2017 um að synja umsókn um byggingarleyfi fyrir tveggja hæða einbýlishúsi á lóð nr. 4 við Laxabakka á Selfossi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 29. september 2017, er barst nefndinni 5. október s.á., kærir lóðarhafi lóðar nr. 4 við Laxabakka, þá ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Árborgar frá 7. júní 2017 að synja umsókn hans um leyfi til að byggja tveggja hæða einbýlishús á lóð nr. 4 við Laxabakka í Árborg. Verður að skilja erindi kæranda á þann veg að þess sé krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Jafnframt er gerð krafa um að skaðabótaskylda byggingarfulltrúa verði viðurkennd.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá sveitarfélaginu Árborg 17. nóvember 2017.

Málavextir: Hinn 14. október 2016 keypti kærandi lóð nr. 4 við Laxabakka ásamt teikningum, að tveggja hæða einbýlishúsi. Árið 2017 sótti kærandi um leyfi til að byggja tveggja hæða hús samkvæmt nefndum teikningum. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 25. apríl 2017 var samþykkt að grenndarkynna erindið fyrir eigendum og íbúum Laxabakka 1, 2, 3, 5 og 6 og Hellubakka 1, 3 og 5 og var sú ákvörðun samþykkt á fundi skipulags- og byggingarnefndar Árborgar 10. maí 2017. Umsóknin var grenndarkynnt frá 25. apríl til 23. maí 2017 og bárust fimm athugasemdir þar sem veitingu byggingarleyfis fyrir tveggja hæða húsi var mótmælt. Málið var tekið fyrir á fundi skipulags- og byggingarnefndar 7. júní 2017 þar sem umsókn kæranda var hafnað og var sú afgreiðsla staðfest á fundi bæjarstjórnar Árborgar 14. s.m. Skipulags- og byggingarfulltrúi tilkynnti kæranda um synjun á erindi hans með bréfi, dags. 8. júní 2017, en í bréfinu var hvorki leiðbeint um kæruheimild né kærufrest í tilefni af ákvörðuninni.

Kærandi óskaði skriflega eftir rökstuðningi og öllum gögnum málsins 22. júní 2017 og kveðst hafa ítrekað þá beiðni 14. júlí s.á. Hann ítrekaði beiðni um rökstuðning og gögn máls með tölvupósti 18. júlí 2017 og fékk svar frá skipulags- og byggingarfulltrúa 24. s.m. um að verið væri að afla gagna og að svarið kæmi fljótlega. Kærandi ítrekaði beiðnina í annað sinn með tölvupósti 25. ágúst s.á. og 30. s.m. barst honum svar við erindinu með tölvupósti frá lögmanni bæjarins. Var í tölvupóstinum hvorki leiðbeint um kæruleið né kærufrest. Kærandi sendi lögmanni bæjarins tölvupóst 5. september 2017 þar sem hann óskaði þess m.a. að fá vefslóð á deiliskipulagið sem vísað var til í svari bæjaryfirvalda og var sú beiðni ítrekuð með tölvupósti 12. september 2017.

Málsrök kæranda: Kærandi kveður upplýsingar frá byggingarfulltrúa hafa verið lykilþátt í ákvörðun hans um að festa kaup á umræddri lóð ásamt teikningum. Teikningarnar hafi verið grundvöllur byggingarleyfis sem fyrri eigandi hafi fengið samþykkt, en hann hafi aldrei hafið framkvæmdir. Hann hafi talið auðsótt að fá byggingarleyfi þar sem hæðarblöð á landupplýsingavef sveitarfélagsins hafi sýnt að skipulag gerði ráð fyrir húsinu, auk þess sem um endurútgáfu leyfis væri að ræða. Áður en gengið hafi verið frá kaupunum hafi kærandi farið ásamt væntanlegum byggingarstjóra á skrifstofu byggingarfulltrúa til að kanna skilyrði framkvæmdar og hvort allar teikningar væru til staðar. Þar hafi þeir fengið þær upplýsingar að skipulag gerði ráð fyrir tveggja hæða húsi á lóðinni.

Kærandi hafi ítrekað óskað eftir að fá afhent samþykkt deiliskipulag fyrir Laxabakka 4 og lóðir í kring án árangurs. Ekkert slíkt skipulag sé að finna á skipulagsvefsjá Skipulagsstofnunar. Byggingarfulltrúi hafi hins vegar tjáð honum að nýtt gildandi skipulag gerði ekki ráð fyrir tveggja hæða húsum en þær upplýsingar séu í þversögn við þau hæðarblöð sem séu á landupplýsingavef Árborgar og embættið hafi afhent honum. Enginn nefndarmanna í skipulags- og byggingarnefnd hafi setið hjá vegna vanhæfis við afgreiðslu málsins, en bróðir eins þeirra búi að Laxabakka 3.

Kærandi hafi engin svör fengið við fyrirspurnum um það hvers vegna umsókn hans hafi sætt grenndarkynningu. Í athugasemdum sem borist hafi vegna grenndarkynningar hafi verið vísað til þriggja ára reglu í skipulags- og byggingarskilmálum frá 26. ágúst 2004. Kærandi hafi fengið misvísandi gögn og svör og viti því ekki hvort til staðar sé skipulag eða ekki. Mikill dráttur hafi verið á að svara beiðni hans um rökstuðning. Þegar svarið hafi borist hafi honum ekki verið leiðbeint um kæruheimildir.

Málsrök Árborgar: Af hálfu sveitarstjórnar er því haldið fram að rétt hafi verið staðið að afgreiðslu málsins þar sem fylgt hafi verið kröfum um form- og efnisreglur við meðferð á umsókn kæranda.

Deiliskipulag fyrir Fossland hafi í upphafi gert ráð fyrir því að byggja mætti tveggja hæða hús á þeirri lóð sem um ræðir, en í kafla 2.3 segi m.a. að verði raunin sú að lítil eftirspurn verði eftir tveggja hæða húsum sé heimilt að þremur árum liðnum frá samþykki deiliskipulags að byggja einnar hæðar hús á eftirstandandi lóðum. Að sama skapi falli þá niður réttur til að byggja tveggja hæða hús á svæðinu. Raunin hafi orðið sú að öll nálæg hús á svæðinu hafi verið byggð á einni hæð og í samræmi við framangreint ákvæði hafi réttur til að byggja tveggja hæða hús á svæðinu fallið niður. Því hafi ekki verið heimilt samkvæmt deiliskipulagi að byggja tveggja hæða hús á umræddri lóð þegar umsókn um byggingarleyfi barst og hefði því þurft að breyta deiliskipulagi fyrir svæðið til að unnt væri að veita byggingarleyfi. Sveitarfélagið hafi talið þá breytingu sem óskað var eftir óverulega og því hafi mátt fara með umsóknina í grenndarkynningu, sbr. heimild í 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Stjórnvöld séu bundin af lögum og því þurfi ákvörðun um veitingu byggingarleyfis að byggja á fullnægjandi lagagrundvelli en svo hafi ekki verið í þessu tilfelli. Engu breyti að kærandi hafi, af mæli- og hæðarblöðum sem hann virðist þó ekki hafa fengið fyrr en eftir að ákvörðun hafi verið tekin, talið að leyfið yrði veitt. Samskipti kæranda við starfsmenn sveitarfélaginu hafi ekki falið í sér ákvörðun í málinu.

Deiliskipulagið, sem komið hafi verið á með stoð í lögum, sem aðrir fasteignareigendur á svæðinu hafi ríka hagsmuni bundna við og réttmætar væntingar til að standist, heimili ekki útgáfu byggingarleyfis á grundvelli umsóknar kæranda. Sveitarfélaginu hafi ekki þótt tækt að breyta deiliskipulaginu í ljósi þeirrar miklu andstöðu sem fram hafi komið í athugasemdum eigenda fasteigna í nágrenninu. Sjónarmiðin þeirra hafi helst verið þau að húsið passaði ekki inn í þennan hluta hverfisins, þar sem eingöngu væru einnar hæðar hús og húsið væri í ósamræmi við gildandi skipulag. Þá væri byggingin til þess fallin að valda skuggamyndun á nágrannalóðum, útsýni yrði af efri hæð hússins yfir verandir, sólpalla og sólskála nálægra húsa, sviptivindar væru líklegir til að myndast vegna hússins og snjóþyngra yrði við nálæg hús ásamt því að nýtingarmöguleikar nálægra húsa yrðu skertir og verðmæti þeirra sömuleiðis.

Málefnaleg sjónarmið hafi því legið til grundvallar við töku umræddrar ákvörðunar, sem leitt hafi til þess að ekki hafi verið unnt að veita umþrætt byggingarleyfi. Ekki hafi verið tilefni til þess að neinn nefndarmanna viki sæti við meðferð málsins. Fjölmargir hafi skilað inn athugasemdum og verið mótfallnir veitingu leyfisins með framangreindum rökum og athugasemdir eða hagsmunir eins þeirra hafi ekki ráðið úrslitum um niðurstöðu málsins.

Því sé hafnað að synjun á veitingu byggingarleyfisins feli í sér bótaskyldar takmarkanir á eignarrétti kæranda. Það sé ekki á forræði úrskurðarnefndarinnar að taka afstöðu til þess álitaefnis.

Niðurstaða:
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála starfar samkvæmt lögum nr. 130/2011 og einskorðast valdheimildir hennar lögum samkvæmt við endurskoðun á lögmæti þeirra ákvarðana sem undir hana verða bornar, en það er ekki á færi nefndarinnar að úrskurða um skaðabótaskyldu, líkt og krafa er gerð um. Verður því ekki tekin afstaða til kröfu kæranda um viðurkenningu á bótaskyldu sveitarfélagsins

Kærufrestur til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála er einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Berist kæra að liðnum kærufresti ber að vísa henni frá skv. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til efnismeðferðar. Kæranda var tilkynnt um synjun skipulags- og byggingarnefndar Árborgar á umsókn hans með bréfi, dags. 8. júní 2017. Í bréfinu var honum hvorki leiðbeint um kæruheimild né kærufrest. Kærandi óskaði rökstuðnings og ítrekaði þá beiðni nokkrum sinnum. Svar frá lögmanni bæjarins barst með tölvupósti 30. ágúst 2017, en þar var kæranda hvorki leiðbeint um kæruheimild né kærufrest í tilefni af lyktum málsins. Verður því talið afsakanlegt að kæra hafi ekki borist fyrr en raun ber vitni og verður málið af þeim sökum tekið til efnismeðferðar.

Með hinni kærðu ákvörðun var umsókn kæranda um leyfi til að byggja tveggja hæða hús synjað. Byggingarfulltrúi í viðkomandi umdæmi veitir byggingarleyfi, sbr. 2. mgr. 9. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010. Skal umsókn beint til byggingarfulltrúa, sbr. 10. gr. laganna, og skal byggingarfulltrúi tilkynna skriflega um samþykkt byggingaráforma, sbr. 11. gr. Samkvæmt framangreindu er það í höndum byggingarfulltrúa að samþykkja eða synja umsóknum um byggingarleyfi.

Samkvæmt 7. gr. mannvirkjalaga er sveitarstjórn heimilt að kveða á um að sérstök byggingarnefnd fjalli um byggingarleyfisumsókn áður en byggingarfulltrúi gefi út byggingarleyfi og hafi hún eftirlit með stjórnsýslu hans fyrir hönd sveitarstjórnar. Skal kveðið á um framangreint í sérstakri samþykkt sem birt er í B-deild Stjórnartíðinda, en hvorki er slíkri samþykkt til að dreifa fyrir sveitarfélagið Árborg samkvæmt heimasíðum Mannvirkjastofnunar og Sveitarfélagsins Árborgar né í B-deild Stjórnartíðinda.

Samkvæmt gögnum málsins liggur ekki fyrir að byggingarfulltrúi hafi fjallað um málið og tekið ákvörðun um synjun byggingarleyfis, líkt og honum ber samkvæmt 9. gr. laga um mannvirki og liggur því ekki fyrir lokaákvörðun í málinu í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sem borin verður undir úrskurðarnefndina. Eins og málsatvikum er hér sérstaklega háttað þykir rétt að taka afstöðu til þess hvort óhæfilegur dráttur hafi orðið á afgreiðslu umsóknar kæranda, en skv. 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga er heimilt að kæra slíkan drátt til þess stjórnvalds sem lokaákvörðun verður borin undir.

Með hliðsjón af því sem fyrir liggur í málinu er ekkert því til fyrirstöðu að byggingarfulltrúi taki ákvörðun um afgreiðslu umsóknar kæranda og er því lagt fyrir hann að taka erindið til efnislegrar afgreiðslu í samræmi við 2. mgr. 9. gr. mannvirkjalaga án frekari tafa.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Lagt er fyrir byggingarfulltrúa Árborgar að taka umsókn kæranda um byggingarleyfi fyrir tveggja hæða einbýlishúsi á lóð nr. 4 við Laxabakka á Selfossi, til efnislegrar afgreiðslu án ástæðulauss dráttar.

35/2017 Brekatún

Með

Árið 2018, fimmtudaginn 8. nóvember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 35/2017, kæra á ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Akureyrarbæjar frá 23. mars 2017 um að hafna beiðni kæranda um endurupptöku á útgáfu byggingarleyfis og framkvæmd lokaúttektar fjöleignarhússins að Brekatúni 2, Akureyri.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 21. mars 2017, er barst nefndinni 22. s.m., kærir eigandi, Brekatúni 2, Akureyri, drátt Akureyrarbæjar á að svara erindi hans um aðgengi hreyfihamlaðra í fjöleignarhúsinu að Brekatúni 2 ásamt því að óska eftir áliti nefndarinnar á því hvort Akureyrarbæ væri skylt að færa til betri vegar ákveðin atriði er vörðuðu aðgengi hreyfihamlaðra í sameign hússins. Skipulags- og byggingarfulltrúi Akureyrarbæjar svaraði erindi kæranda 23. mars 2017 og synjaði kröfu hans um endurupptöku á útgáfu byggingarleyfis og framkvæmd lokaúttektar. Kærandi kom athugasemdum á framfæri við úrskurðarnefndina í kjölfar þess með bréfum, dags. 28. mars, 20. apríl og 7. maí 2017. Eins og málsatvikum er háttað verður málskot kæranda skilið svo að hann fari fram á að nefnd ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa frá 23. mars 2017 verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Akureyrarbæ 25. apríl 2017.

Málavextir: Hinn 28. mars 2007 var samþykkt byggingarleyfi fyrir nýbyggingu á lóð nr. 2 við Brekatún á Akureyri. Í byggingarlýsingu hússins kom fram að öll hönnun aðkomu að íbúðum á jarðhæð miðaði við þarfir fatlaðra, að íbúð nr. 201 á annarri hæð væri hönnuð þannig að hún hentaði hreyfihömluðum í hjólastól og að eitt bílastæði í húsinu og tvö bílastæði á lóð væru ætluð fötluðum. Úttekt á grunni hússins fór fram 2. apríl 2007 en hlé varð á framkvæmdum til ársins 2012. Næsta úttekt á grunni hússins var gerð 22. nóvember 2012 áður en botnplata var steypt og úttektir á botnplötu voru gerðar 18. og 24. júní 2013. Samþykktar voru breytingar á teikningum 12. desember 2012, sem fólu meðal annars í sér að bætt var við nýrri íbúð á 8. hæð, skipulagi 1. hæðar var breytt og bílageymsla stækkuð til vesturs. Þá kom ekki fram í byggingarlýsingu hússins lengur, líkt og hafði gert áður, að öll hönnun aðkomu að íbúðum á jarðhæð skyldi miðast við þarfir fatlaðra. Byggingu hússins lauk árið 2014 og 29. apríl 2015 var gefið út vottorð í kjölfar lokaúttektar um að byggingu hússins væri lokið án athugasemda og í samræmi við samþykktar teikningar.

Kærandi gerði kaupsamning um kaup á íbúð nr. 401 í fjöleignarhúsinu 31. júlí 2015 og var afsal undirritað 5. nóvember s.á. Hinn 10. nóvember 2015 sendi kærandi bréf til skipulagsnefndar Akureyrarbæjar þar sem hann var ósáttur með útbúnað dyra úr ytri forstofu inn í innra anddyri hússins og tveggja dyra inn í bílakjallara. Áleit hann að hurðirnar, sem allar væru með pumpu, væru of þungar og að erfitt væri fyrir hreyfihamlaða að komast inn um dyrnar. Taldi hann uppsetningu þeirra ekki uppfylla þau skilyrði sem gera ætti til aðkomu í sameign hússins samkvæmt ákvæðum gr. 77.1, 104.1 og 104.5 í byggingarreglugerð nr. 441/1998 og því fengi lokaúttekt ekki staðist. Þá áleit kærandi, með stoð í gr. 14.2 í fyrrnefndri reglugerð, að byggingarreglugerð nr. 112/2012 hefði átt að gilda um húsið þar sem úttekt á botnplötu og plötu yfir fyllingu í bílakjallara hússins hefði farið fram 18. og 24. júní 2013 þegar sú reglugerð hefði tekið gildi. Hins vegar hefði ekki verið sótt um að fylgja eldri reglugerðinni nr. 441/1998, líkt og hægt hefði verið að gera skv. gr. 17.1.2. í byggingarreglugerð nr. 112/2012.

Skipulags- og byggingarfulltrúi Akureyrarbæjar svaraði erindi kæranda frá 10. nóvember 2015 hinn 31. nóvember s.á. Í svari hans kom fram að bærinn teldi reglugerð nr. 441/1998 eiga við um byggingu hússins þar sem teikningar hefðu verið samþykktar 28. mars 2007 og úttekt á hluta grafins grunns verið framkvæmd 2. apríl s.á. Húsið hefði verið byggt og frágengið í samræmi við þær kröfur sem gerðar væru í umræddri byggingarreglugerð, ásamt því að höfð hefðu verið til hliðsjónar Rb-blöð sem reglugerðin vísaði til og bókin „Aðgengi fyrir alla“, sem hann tók þó fram að hvorki væri vísað til í reglugerðinni né hefði reglugerðargildi. Við afgreiðslu teikninga að húsinu hefði því ekki verið hægt að gera frekari kröfur en reglugerðin kvæði á um. Í nefndri reglugerð væri hvergi minnst á að dyr í umferðarleiðum skyldu búnar sjálfvirkum opnunarbúnaði. Hins vegar væri gerð krafa um það í reglugerðinni að eldvarnahurðir skyldu vera sjálflokandi og því þyrftu þær að vera með hurðarpumpu. Pumpurnar þyrftu þó að vera þannig stilltar að auðvelt væri að ganga um dyrnar og samkvæmt bókinni „Aðgengi fyrir alla“ ætti hámark tog- eða þrýstikrafts að vera 2,5 kg til að opna hurðir. Oft væri það einungis stilling á pumpum sem vantaði upp á að dyrnar stæðust þau viðmið. Hefði því hvorki verið hægt að hafna framkvæmd lokaúttektar á húsinu né gera frekari kröfur til aðgengismála.

Hinn 1. desember 2015 sendi kærandi bréf til tæknifulltrúa Akureyrarbæjar, sem hafði framkvæmt lokaúttekt á húsinu. Í bréfinu óskaði kærandi eftir að fá upplýst hver væri skilningur hans á 77. og 104. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998, með tilliti til þeirra atriða sem kærandi taldi ekki fullnægjandi í sameign hússins, ásamt því að leita eftir svari hans við því hvort hann áliti hreyfihamlaða falla undir 10. kafla reglugerðarinnar með tilliti til þess orðalags sem þar kæmi fram um aðgang fyrir alla. Þá vildi hann vita, með tilliti til aðbúnaðar í sameign hússins, hvort tæknifulltrúi áliti að aðgengið hefði verið nægilega skoðað í lokaúttekt hússins með tilliti til þeirra krafna sem gerðar væru til lokaúttektar skv. gr. 53.1 í byggingarreglugerð nr. 441/1998 og hvort ekki væri rétt að fara yfir þessi mál að nýju með verktakanum með tilliti til ákvæða nefndrar reglugerðar.

Kærandi leitaði álits Mannvirkjastofnunar 15. og 19. janúar 2016 vegna umbúnaðar dyra úr ytri forstofu inn í innra anddyri hússins og dyra inn í bílakjallara, ásamt því að hann óskaði eftir upplýsingum um hvaða reglur giltu um bílastæði á lóðinni fyrir fatlað fólk. Í áliti stofnunarinnar, dags. 12. júlí 2016, var tekið fram að þegar byggingarleyfi hefði upprunalega verið gefið út fyrir byggingu fjöleignarhússins hefðu skipulags- og byggingarlög nr. 73/1997 og byggingarreglugerð nr. 441/1998 verið í gildi. Krafa um að hreyfihamlaðir gætu farið um útidyr hússins og inn í bílageymslu með góðu móti rúmaðist innan ákvæða 77. og 104. gr. þágildandi byggingarreglugerðar nr. 441/1998 þegar litið væri til þess sem fram kæmi í byggingarlýsingu hússins og bókinni „Aðgengi fyrir alla“. Renna mætti enn frekari stoðum undir slíka túlkun með því að líta til þess að teikningum hafi verið breytt og nýtt byggingarleyfi gefið út vegna breytinganna næstum því ári eftir að ný byggingarreglugerð hafi tekið gildi og hátt í tveimur árum eftir að ný lög um mannvirki hafi tekið gildi, sem væri sérstaklega ætlað að tryggja aðgengi fyrir alla skv. e-lið 1. mgr. 1. gr. laganna. Varðandi bílastæðið tók stofnunin fram að í gr. 6.2.4. í gildandi byggingarreglugerð nr. 112/2012 væri gerð krafa um að bílastæði hreyfihamlaðra væru sérstaklega merkt á yfirborði og einnig með lóðréttu skilti. Krafa um lóðrétt skilti hefði ekki verið í eldri byggingarreglugerð nr. 441/1998 en væri þó tilgreind í bókinni „Aðgengi fyrir alla“. Með tilliti til þess að byggingarár hússins væri 2014 og krafa um lóðrétt skilti hefði verið í reglugerð síðan 2012 væri ekki hægt að segja að ómögulegt væri að merkja bílastæði fyrir hreyfihamlaða samkvæmt gildandi reglum, þrátt fyrir að húsið hefði verið hannað 2007 og framkvæmdir þá hafist á lóð. Í framhaldi af áliti Mannvirkjastofnunar óskaði kærandi eftir því að stofnunin myndi fylgja máli hans eftir hjá bænum. Stofnunin sá þó ekki ástæðu til íhlutunar skv. 18. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010.

Hinn 4. október 2016 sendi kærandi bréf til skipulags- og byggingarfulltrúa Akureyrarbæjar. Í bréfinu leitaði hann eftir viðbrögðum bæjaryfirvalda við áliti Mannvirkjastofnunar. Engin svör bárust kæranda frá sveitarfélaginu og leitaði hann því til umboðsmanns Alþingis í þrígang og óskaði eftir aðstoð hans við að fá svör við fyrrnefndu bréfi og bréfi sem hann hafði sent til tæknifulltrúa Akureyrbæjar 1. desember 2015. Hinn 21. mars 2017 sendi kærandi kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála þar sem hann kærði drátt Akureyrarbæjar á að svara fyrirspurnum hans, sbr. 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, ásamt því að hann óskaði eftir úrskurði nefndarinnar um hvort Akureyrarbæ bæri skylda til að setja upp rafstýrðan búnað á útidyr, á dyr úr ytri forstofu inn innra anddyri og á dyr inn í bílakjallara, sem opnaði og lokaði hurðunum, ásamt því hvort skylda bæri til að merkja bílastæði fyrir fatlaða með skilti í 60-70 cm hæð á staur og merkja flötinn með því að mála hann.

Með bréfi, dags. 23. mars 2017, svaraði skipulags- og byggingarfulltrúi fyrirspurnum kæranda frá 1. desember 2015 og 4. október 2016. Í bréfinu kom fram að túlkun sveitarfélagsins væri á þann veg að farið hefði verið eftir lögum og engu hefði verið ábótavant, hvorki í tengslum við byggingarleyfið né lokaúttektina. Sveitarfélagið liti svo á að kærandi ætti ekki málsaðild vegna lokaúttektarinnar sem fram fór 27. apríl 2015, þar sem hann hefði eignast hlutdeild í íbúð í húsinu eftir að úttektin fór fram, sbr. c-lið 4. mgr. 15. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010. Úttektin hefði verið í fullu samræmi við 3. mgr. 36. gr. fyrrnefndra laga og uppfyllt þau skilyrði sem fram kæmu í ákvæðum mannvirkjalaga, reglugerðum og samþykktum hönnunargögnum. Skilyrði endurupptöku lokaúttektarinnar væru því ekki uppfyllt nema í tengslum við byggingarleyfið. Skilyrði endurupptöku byggingarleyfisins skv. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 væru hins vegar ekki uppfyllt. Samkvæmt áliti Mannvirkjastofnunar hefði Akureyrarbær mátt gera kröfu til þess í upprunalegu byggingarleyfi, dags. 29. mars 2007, að tekið væri tillit til aðgengis hreyfihamlaðra inn og út úr húsinu og bílageymslu þess án þess þó að sveitarfélaginu hefði verið skylt að setja byggingarleyfishafa framangreind skilyrði um aðgengi hreyfihamlaðra. Um hafi verið að ræða heimild, en ekki ótvíræða skyldu með beina vísun til laga og reglugerða. Kærandi hefði ekki málsaðild að endurupptöku útgáfu byggingarleyfisins og ákvarðanir um aðgengi í húsinu í umræddu byggingarleyfi hefðu ekki byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum, eins og gerð sé krafa um í 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Breytt lagatúlkun gæti ekki verið grundvöllur endurupptöku máls. Að auki væru skilyrði endurupptöku byggingarleyfisins ekki uppfyllt þar sem fjögur ár væru frá því að endurskoðað byggingarleyfi hefði verið gefið út 27. febrúar 2013 og athugasemdarlaus lokaúttekt hefði farið fram í apríl 2015.

Málsrök kæranda: Kærandi telur að aðgengismál í sameign fjöleignarhússins séu ófullnægjandi og í ósamræmi við byggingarlýsingu þess, þar sem fram komi að öll hönnun aðkomu að íbúðum á jarðhæð skuli miðast við þarfir fatlaðs fólks. Bendir hann á að engar íbúðir séu á jarðhæð hússins hins vegar sé á 2. hæð þess gert ráð fyrir einni íbúð fyrir fatlaða, líkt og komi fram í byggingarlýsingu.

Kærandi krefst þess að settur verði upp rafstýrður opnunarbúnaður á útidyr, á dyr úr ytri forstofu inn í innra anddyrri og á dyr inn í bílakjallara. Jafnframt krefst hann þess að bílastæði ætluð fötluðu fólki verði merkt með merki fatlaðs fólks í um 60-70 cm hæð á staur og að flöturinn verði málaður með slíku merki. Til stuðnings kröfum sínum vísar kærandi í heild sinni til álits Mannvirkjastofnunar, dags. 12. júlí 2016, sem fjallað hefur verið um, þar sem fram komi  að þegar eldri skipulags- og byggingarlög nr. 73/1997 og eldri byggingarreglugerð nr. 441/1998 séu túlkuð með hliðsjón af bókinni „Aðgengi fyrir alla“ og af byggingarlýsingu umrædds húss hefði átt að haga aðbúnaði í sameign þess á þann hátt sem hann krefjist. Til þess að renna enn frekari stoðum undir slíka túlkun megi líta til þess að teikningum hafi verið breytt og nýtt byggingarleyfi gefið út vegna breytinganna næstum því ári eftir að byggingarreglugerð nr. 112/2012 og hátt í tveimur árum eftir að lög um mannvirki nr. 160/2010 hafi tekið gildi, en þeim sé sérstaklega ætlað að tryggja aðgengi fyrir alla skv. e-lið 1. mgr. 1. gr. laganna. Því telji kærandi að fullt tilliti eigi að taka til ákvæða um aðgengi í reglugerð nr. 112/2012, enda sé byggingarár hússins 2014.

Varðandi kröfu um bílastæði tekur kærandi fram að sömu sjónarmið gildi og reifuð hafi verið að framan. Í núgildandi reglugerð sé gerð krafa um að bílastæði hreyfihamlaðra séu sérstaklega merkt á yfirborði og einnig með lóðréttu skilti, sbr. grein 6.2.4. í byggingarreglugerð nr. 112/2012.

Við áfanga- og lokaúttekt hafi ekki verið kannað hvernig aðgengi fyrir fatlað fólk í húsnæðinu væri, líkt og skylt sé að gera skv. p-lið 48. gr. og gr. 53.1 í byggingarreglugerð nr. 441/1998. Í gr. 3.9.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 komi fram að þáttum sem varði aðgengi skuli ávallt verið lokið við gerð lokaúttektar. Því beri skipulags- og byggingarfulltrúi ábyrgð á ófullnægjandi aðgengi fyrir fatlað fólk í fjöleignarhúsinu. Ekkert komi fram á lokaúttekt um að aðgengi fyrir fatlað fólk hafi verið skoðað né yfirfarið.

Hönnuður teikninganna gæti orðið ábyrgur fyrir því að gera ekki nægilega grein fyrir aðgengi á teikningum sínum skv. gr. 26.1 í byggingarreglugerð nr. 441/1998, þar sem fram komi að hönnuðir sem leggi uppdrætti fyrir byggingarnefnd skuli hafa í gildi tryggingu vegna fjárhagstjóns sem leitt geti af gáleysi þeirra. Einnig gæti ábyrgð legið hjá byggingarstjóra verksins skv. gr. 32.2 í nefndri byggingarreglugerð, þar sem fram komi að byggingarstjóri beri ábyrgð á því að byggt sé í samræmi við samþykkta uppdrætti, lög og reglugerðir.

Kærandi mótmæli því að hann eigi ekki málsaðild að lokaúttekt skv. 15. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010. Telji hann sig eiga málsaðild með stoð í e-lið 4. mgr. ákvæðisins, þar sem fram komi að til eiganda samkvæmt greininni teljist eigandi mannvirkis eftir að lokaúttekt hafi farið fram. Sé í því sambandi einnig vísað til álits umboðsmanns Alþingis nr. 6242/2010.

Málsrök Akureyrarbæjar: Af hálfu bæjaryfirvalda er litið svo á, með tilliti til aðildar kæranda og skilyrða endurupptöku skv. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, að hvorki sé ástæða til að endurupptaka framkvæmd lokaúttektar né útgáfu byggingarleyfis. Farið hafi verið eftir lögum og reglum, en rök bæjaryfirvalda fyrir þessari afstöðu komi fram í bréfi sem sent hafi verið til kæranda 23. mars 2017.

———————

Áður en málið var tekið fyrir hjá úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála lést kærandi. Með bréfi til nefndarinnar, dags. 6. ágúst 2018, staðfesti eftirlifandi maki kæranda, sem hefur leyfi til setu í óskiptu búi eftir hann, vilja til að ganga inn í kærumálið og gerast aðili að því.

Niðurstaða: Með hinni kærðu ákvörðun Akureyrarbæjar var synjað um endurupptöku á veitingu byggingarleyfis og framkvæmd lokaúttektar vegna aðgengis hreyfihamlaðs fólks í sameign fjöleignarhússins að Brekatúni 2, Akureyri.

Aðili máls getur ekki gert kröfu um að stjórnvald, sem tekið hefur ákvörðun og birt hana, endurskoði ákvörðunina nema að skilyrði um endurupptöku máls séu fyrir hendi. Ekki er til að dreifa sérstökum lagaákvæðum á sviði skipulags- og byggingarmála sem veita rétt til endurupptöku máls, en 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 felur í sér almenna reglu um endurupptöku stjórnvaldsákvarðana. Samkvæmt nefndri 24. gr. er endurupptaka máls háð þeim skilyrðum að ákvörðun hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða að íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hafi byggst á atvikum sem breyst hafi verulega frá því að ákvörðun var tekin. Ekki verður séð að atvik hafi verulega breyst frá því að ákvörðun um byggingarleyfi var tekin og lokaúttekt framkvæmd og kemur því einungis til álita að taka til skoðunar hvort greind ákvörðun og framkvæmd hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik.

Lögmæti byggingarleyfisins sem samþykkt var 28. mars 2007 sætir ekki endurskoðun í máli þessu þar sem eins mánaðar kærufrestur vegna þess er liðinn, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Þá verður ekki séð að 2. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga eigi við þar sem fram er tekið í greindu lagaákvæði að mál verði ekki tekið upp að nýju ef meira en ár er liðið frá tilkynningu ákvörðunar eða vitneskju um hana nema veigamiklar ástæður mæli með því.

Í 3. mgr. 36. gr. laga um mannvirki er tekið fram að við lokaúttekt skuli gerð úttekt á því hvort mannvirkið uppfylli ákvæði laganna og reglugerða sem settar hafa verið samkvæmt þeim og hvort byggt hafi verið í samræmi við hönnunargögn. Þegar upprunalegt byggingarleyfi var gefið út og framkvæmdir við bygginguna hófust voru í gildi skipulags- og byggingarlög nr. 73/1997 og byggingarreglugerð nr. 441/1998. Í 2. mgr. 37. gr. umræddra laga var tekið fram að í byggingarreglugerð, sem sett sé með stoð í lögunum, skuli mælt fyrir um kröfur sem snúi m.a. að aðgengi fatlaðra. Lög um mannvirki nr. 160/2010 tóku gildi 1. janúar 2011, sbr. 1. mgr. 64. gr. laganna, og byggingarreglugerð nr. 112/2012, sem sett var með stoð í 1. mgr. 60. gr. nefndra laga og 4. mgr. 24. gr. laga um brunavarnir nr. 75/2000, tók gildi 24. janúar 2012.

Hvorki verður séð að í eldri byggingarreglugerð nr. 441/1998 né í núgildandi byggingarreglugerð nr. 112/2012 sé gerð krafa um að á dyrum í sameign fjölbýlishúss sé rafstýrður opnunarbúnaður. Þá verður ekki séð að ónógar eða rangar upplýsingar um málsatvik hafi legið fyrir þegar lokaúttekt hússins fór fram heldur ber mál þetta með sér að uppi sé ágreiningur um túlkun laga og reglugerðarákvæða er varða aðgengi hreyfihamlaðra í fjöleignarhúsum. Verður endurupptökuheimildum 24. gr. stjórnsýslulaga ekki beitt til þess að fá fram nýja stjórnvaldsákvörðun vegna þess eins að deilt hafi verið um lagatúlkun og beitingu réttarheimilda um ágreiningsefni sem fyrir lá þegar ákvörðun var tekin. Slíkur ágreiningur leiðir ekki einn og sér til þess að skilyrði endurupptöku máls séu uppfyllt.

Í gr. 64.4 í byggingarreglugerð nr. 441/1998 er sett fram sú krafa að við öll fjölbýlishús með sex íbúðum eða fleiri skuli vera eitt gestabílastæði sem henti þörfum fatlaðra, auk þeirra stæða sem séu fyrir sérhannaðar íbúðir fyrir fatlaða í húsinu. Í 1. mgr. gr. 6.2.6. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 er tekið fram að bílastæði hreyfihamlaðra skuli vera sérstaklega merkt á yfirborði og einnig með lóðréttu skilti. Samkvæmt síðarnefndri reglugerðinni var því skylt að merkja bílastæði hreyfihamlaðra á yfirborði og einnig með lóðréttu skilti. Það að slíkt hafi ekki verið gert getur ekki leitt til þess að þörf sé á að framkvæma lokaúttekt að nýju vegna áðurnefnds fjölbýlishúss, enda er slík úttekt ekki nauðsynleg forsenda þess að úr annmörkunum verði bætt.

Með vísan til þess sem að framan greinir verður ekki talið að skilyrði endurupptöku hafi verið fyrir hendi í máli þessu og verður kröfu um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar af þeim sökum hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á synjun Akureyrarbæjar um endurupptöku veitts byggingarleyfis og lokaúttektar vegna fjöleignarhússins að Brekatúni 2, Akureyri.

46/2017 Sveinbjarnargerði

Með

Árið 2018, fimmtudaginn 8. nóvember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 46/2017, kæra á ákvörðun sameiginlegrar byggingarnefndar Eyjafjarðarsvæðis frá 26. apríl 2017 um að veita byggingarleyfi til að endurbyggja varphænsnahús að Sveinbjarnargerði, Svalbarðsstrandarhreppi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 1. maí 2017, er barst nefndinni 2. s.m., kæra eigendur, Sveinbjarnargerði III, þá ákvörðun sameiginlegrar byggingarnefndar Eyjafjarðarsvæðis frá 26. apríl 2017 að samþykkja að veita byggingarleyfi fyrir endurbyggingu varphænsnahúss að Sveinbjarnargerði. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Með bréfi, dags. 11. maí 2018, sem móttekið var 18. s.m., gera kærendur jafnframt kröfu um að framkvæmdir samkvæmt hinu kærða leyfi verði stöðvaðar til bráðabirgða á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægjanlega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til framkominnar stöðvunarkröfu kærenda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Svalbarðsstrandarhreppi 15. júní 2017 og 29. maí 2018.

Málsatvik: Mál þetta á sér nokkra forsögu. Leyfishafi í máli þessu tók við rekstri alifuglabús í Sveinbjarnargerði haustið 2012 og í september 2013 hafnaði heilbrigðisnefnd Norðurlands eystra kröfu um að stöðva þann rekstur. Felldi úrskurðarnefndin þá ákvörðun úr gildi með úrskurði kveðnum upp 24. apríl 2015 í kærumáli nr. 96/2013. Þá vísaði úrskurðarnefndin frá kærumáli nr. 98/2015 með úrskurði upp kveðnum 24. nóvember 2016, en það mál laut að veitingu starfsleyfis fyrir rekstrinum.

Með umsókn, dags. 16. febrúar 2017, sótti leyfishafi um leyfi til að endurbyggja varphænsnahús í Sveinbjarnargerði II á grunni eldra húss sem þar stóð áður. Til þess að uppfylla kröfur nýrrar reglugerðar um hámarksfjölda varphæna á hvern m2 var sótt um að breikka grunninn um rúma þrjá metra þannig að grunnflötur stækkaði úr rúmum 600 m2 í rúma 800 m2. Mænishæð yrði um 6,5 m.

Á fundi sínum 22. febrúar 2017 samþykkti sveitarstjórn Svalbarðsstrandarhrepps að grenndarkynna umsóknina. Fór grenndarkynning fram með bréfum, dags. 2. mars 2017, og stóð til 31. s.m. Barst ein athugasemd á þeim tíma, sem svarað var með bréfi, dags. 18. apríl 2017, að undangenginni afgreiðslu sveitarstjórnar á fundi hennar 5. s.m. Í kjölfarið var byggingarleyfisumsóknin samþykkt á fundi sameiginlegrar byggingarnefndar Eyjafjarðarsvæðis 26. apríl 2017 og er það sú ákvörðun sem kærð er í málinu.

Leyfishafa var tilkynnt með bréfi, dags. 18. maí 2017, að framkvæmdin félli í flokk B skv. lið 1.10 í viðauka 1 með lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Honum bæri því að tilkynna Skipulagsstofnun um fyrirhugaða framkvæmd, sbr. 2. mgr. 6. gr. laganna, og yrði ekki gefið út byggingarleyfi fyrr en niðurstaða stofnunarinnar lægi fyrir. Ákvörðun Skipulagsstofnunar þess efnis að endurbygging alifuglahúss að Sveinbjarnargerði skyldi ekki háð mati á umhverfisáhrifum lá fyrir 25. ágúst s.á. og hefur hún ekki verið kærð til úrskurðarnefndarinnar. Byggingarleyfi var gefið út 28. s.m.

Málsrök kærenda: Kærendur benda á að með endurbyggingu varphænsnahússins verði framleiðsla búsins tvöfölduð, þannig að í stað 8.000 hæna verði þar haldnar um 16.000 hænur.

Í Aðalskipulagi Svalbarðsstrandarhrepps 2008-2020 sé gert ráð fyrir ferðaþjónustu í Sveinbjarnargerði II og að byggingarmagn ákvarðist með deiliskipulagi. Eigendur Græneggja ehf. og Bjarnargerðis ehf. hafi ávallt komið í veg fyrir að deiliskipulag yrði unnið í Sveinbjarnargerði II, þrátt fyrir ítrekaða beiðni um það af hálfu Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra og Skipulagsstofnunar, auk kærenda. Þau tvö hús sem búið sé að endurgera hafi verið endurbyggð frá grunni og húsið sem til standi að endurbyggja hafi hrunið fyrir nokkrum áratugum. Hefði átt að gera deiliskipulag áður en farið væri í þær framkvæmdir.

Forráðamaður búsins hafi verið í hreppsnefnd og komið að gerð gildandi aðalskipulags með beinum hætti, en engin ósk hafi þá verið um áframhaldandi hænsnarækt í Sveinbjarnargerði II. Fram hafi komið í bréfi Skipulagsstofnunar til umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, dags. 18. janúar 2013, að aðalskipulagið myndi líta öðruvísi út væri það ætlun hreppsins að hafa þar hænsnabú og að deiliskipuleggja þyrfti svæðið ef sú væri ætlunin. Að auki hafi komið fram í bréfi Svalbarðsstrandarhrepps til Skipulagsstofnunar, dags. 7. mars 2002, að eftir kosningar yrði gert í því að knýja landeigendur Sveinbjarnargerðis II til að gera deiliskipulag. Þá sé bent á að engin skipulagsnefnd sé starfandi í hreppnum, líkt og gildandi lög kveði á um.

Starfsleyfi heilbrigðiseftirlitsins frá september 2015 hafi verið veitt til fjögurra ára vegna þess að deiliskipulag sé ekki til staðar. Leyfið gildi fyrir allt að 10.000 hænur og því rúmist 16.000 hænur ekki innan þess. Ekki sé hægt að fallast á að sveitarstjórn túlki starfsleyfi heilbrigðiseftirlitsins með þeim hætti að svo sé.

Ekki komi fram í reglugerð nr. 520/2015 um eldishús alifugla, loðdýra og svína hvernig mæla skuli fjarlægðir. Mögulega sé fjarlægðin yfir 50 m sé mælt vegg í vegg. Sé mælt frá vegg hænsnahússins að lóðarmörkum sé fjarlægðin um 43 m. Hún sé mun minni sé mælt milli lóðarmerkja. Ekki sé ljóst hvaða hlutverk verkstæðisbyggingin hafi og hvort hún reiknist með sem hluti af búinu en við fyrirhugaða endurbyggingu verði þetta að einu húsi. Athafnasvæðið nái um 30 m til suðurs og allar afurðir, starfsfólk og gestir fari úr húsi að sunnanverðu og því megi ætla að 50 m mæling sé frá lóðarmörkum athafnasvæðisins að sunnan að mörkum lóðar kærenda. Eldishús megi aðeins byggja á svæðum sem skipulögð séu fyrir landbúnað, iðnað eða þar sem stefna hafi verið mörkuð í aðalskipulagi.

Fjölskyldutengsl hafi haft áhrif á afgreiðslu mála. Sveitarstjóri sé bróðir eiginkvenna eigenda Græneggja ehf. og eigi sjálfur hluta í Bjarnargerði ehf. Hann hafi um tíma verið framkvæmdastjóri síðarnefnda félagsins, sem aftur eigi hluta í Græneggjum ehf. Þá sitji hann alla fundi hreppsnefndar og geti haft áhrif á niðurstöðu mála með nærveru sinni.

Málsrök Svalbarðsstrandarhrepps: Af hálfu sveitarstjórnar er á það bent að Sveinbjarnargerði sé á svæði sem merkt sé L1, sem standi fyrir landbúnaðarsvæði. Endurbygging umrædds húss sé í samræmi við aðalskipulag, sem og við 2. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 520/2015 um eldishús alifugla, loðdýra og svína. Hafi umsóknin því verið samþykkt.

Fjarlægð frá fyrirhuguðu eldishúsi að íbúðarhúsi mælist 61,7 m, sem sé umfram þá 50 m kröfu sem gerð sé í b-lið I. liðar 1. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 520/2015 um eldishús alifugla, loðdýra og svína. Eðlilegt sé að mæla í vegg húss kærenda, enda sé hugtakið „mannabústaður“ notað í tilgreindu ákvæði. Ljóst sé að umfang reksturs Græneggja ehf. aukist. Gerð verði breyting á aðkomu að húsunum, sem verði að norðan þar sem fóðursíló séu staðsett, þannig að þungaumferð aukist ekki við að varphænum fjölgi. Fram komi á uppdrætti að hús sé sunnan við grunninn sem áform séu uppi um að byggja á. Húsið sé nýtt sem geymsla eða verkstæði og ekki standi til að taka það undir eldi. Fjarlægð í það sé 51,1 m samkvæmt uppdrættinum. Fjarlægðarmörkin í framangreindu reglugerðarákvæði gildi um eldi á 40.000-60.000 fuglum og því sé óljóst hvort að þau eigi við um 6.000 fugla eldi. Skilyrði ákvæðisins um fjarlægð sé engu að síður fullnægt.

Meginástæða þess að ekki hafi verið gert deiliskipulag sé sú að ekki náist samkomulag milli eigenda fasteigna í Sveinbjarnargerði. Erindið hafi verið samþykkt á fundi sveitarstjórnarinnar 5. apríl 2017 en leyfishafa hafi verið tilkynnt 18. maí s.á að byggingarleyfi yrði ekki gefið út fyrr en félagið hefði tilkynnt framkvæmdina til Skipulagsstofnunar í samræmi við lið 1.10 í 1. viðauka við lög nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Hin kærða ákvörðun varði ekki starfsleyfi Græneggja ehf. og feli ekki í sér afstöðu til þess, enda veiti sveitarstjórn ekki starfsleyfi.

Sveitarstjóri eigi ekki sæti í sveitarstjórn og geti því ekki haft áhrif á afgreiðslu mála með atkvæði sínu. Sveitarstjórn geti tæplega verið vanhæf vegna þess að sveitarstjóri sitji fundi, líkt og honum beri að gera. Fjárhagslegir hagsmunir sveitarstjóra í Græneggjum ehf. séu nánast engir, en hann eigi 10% hlut í Bjarnargerði ehf., sem eigi 10% hlut í Græneggjum ehf.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi tekur fram að hin kærða framkvæmd sé fólgin í því að byggja yfir gamlan grunn með það að markmiði að fjölga varphænum úr tæplega 8.000 í 12.000 að hámarki. Breikka þurfi grunninn um rúma þrjá metra til að gæta fullrar hagkvæmni, m.t.t. varpkassa, vatnsnippla og fóðurlína. Grunnflötur stækki þannig úr rúmum 600 m² í rúma 800 m². Lengd hússins verði sú sama og áður, en það muni breikka til austurs. Byggingin verði hærri en áður, en verði verulega lægri en skemman sem hún muni standa áföst við. Hún verði í 61,7 m fjarlægð frá gamla íbúðarhúsinu í Sveinbjarnargerði III, en fjarlægðin sé 51,1 m sé mælt frá mörkum lóðar kærenda.

Heildarfjöldi varphænsna og unga í uppeldi samanlagt geti að hámarki orðið 15.000, en fjöldinn verði að meðaltali töluvert minni þar sem ávallt þurfi að hreinsa bæði uppeldishús og varphús í hvert skipti þegar skipt sé um fugl, en það sé gert í áföngum. Eggjaframleiðslan geti vaxið um u.þ.b. 35%.

Gildandi starfsleyfi hafi miðað við 10.000 varphænur þar sem það hámark hafi verið í reglugerð nr. 504/1998 um vistvæna landbúnaðarframleiðslu, en leyfishafi stundi slíka framleiðslu. Sú reglugerð hafi nú verið felld úr gildi. Leyfið sé yfirleitt endurskoðað á fjögurra ára fresti, sbr. 1. mgr. 20. gr. reglugerðar nr. 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun. Eggjaframleiðsla hafi verið samfellt í Sveinbjarnargerði í yfir 50 ár. Sótt hafi verið um breytingu á starfsleyfi í samræmi við fyrirhugaða stækkun, en það verði ekki gefið út fyrr en að byggingarframkvæmdum loknum.

Deiliskipulagskvöð samkvæmt aðalskipulagi nái eingöngu til ferðaþjónustunnar, en í skipulaginu komi fram að frekari uppbygging á ferðaþjónustu í Sveinbjarnargerði, merkt V3,  sé gerð samkvæmt deiliskipulagi. Ferðaþjónusta hafi fyrst verið heimiluð í Sveinbjarnargerði með bréfi, dags. 13. mars 1998, þar sem Skipulagsstofnun hafi fallist á að veita leyfi fyrir breyttri notkun sláturhúss.

Sveitarstjórn Svalbarðsstrandarhrepps fari með skipulagsmál sveitarfélagsins án þess að nokkur undirnefnd sé í þeim málum, en slíkt sé heimilt samkvæmt lögum. Með 10% eignaraðild sveitarstjóra að Bjarnargerði ehf. eigi hann óbeint 1% í Græneggjum ehf.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar sameiginlegrar byggingarnefndar Eyjafjarðarsvæðis frá 26. apríl 2017 að samþykkja að veita byggingarleyfi vegna endurbyggingar varphænsnahúss að Sveinbjarnargerði en sveitarstjórn hefur gert það að skilyrði fyrir útgáfu byggingarleyfis af hálfu byggingarfulltrúa að byggingarnefndin hafi fjallað um og samþykkt umsókn fyrir leyfinu, sbr. 3. gr. samþykktar nr. 420/2013 um afgreiðslur sameiginlegrar byggingarnefndar Eyjafjarðarsvæðis, sbr. og ákvæði 1. og 2. mgr. 7. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Einskorðast lögmætisathugun úrskurðarnefndarinnar við hina kærðu leyfisveitingu, undirbúning hennar og málsmeðferð.

Í 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 kemur fram sú meginregla að gera skuli deiliskipulag fyrir svæði eða reiti þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar. Skal þess gætt að byggingarleyfisskyld framkvæmd sé í samræmi við skipulagsáætlanir sveitarfélags þegar sótt er um byggingarleyfi og er það jafnframt skilyrði fyrir útgáfu byggingarleyfis að mannvirki og notkun þess samræmist skipulagsáætlunum á svæðinu, sbr. 2. mgr. 10. gr. og 1. tl. 1. mgr. 13. gr. mannvirkjalaga. Er því gert ráð fyrir því að byggingarleyfi skuli vera í samræmi við gildandi deiliskipulag, en undanþágu hvað varðar ódeiliskipulögð svæði er að finna í ákvæði 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga. Þar segir að þegar sótt sé um byggingar- eða framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmd sem sé í samræmi við aðalskipulag hvað varði landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar í þegar byggðu hverfi og deiliskipulag liggi ekki fyrir þá geti sveitarstjórn ákveðið að veita megi leyfi án deiliskipulagsgerðar og láti skipulagsnefnd þá fara fram grenndarkynningu. Fór grenndarkynning fram eins og mælt er fyrir um í nefndu lagaákvæði með því fráviki þó að sveitarstjórn annaðist kynninguna á grundvelli lagaheimildar þess efnis að í sveitarfélögum þar sem erfiðlega horfi með að manna nefndir sé sveitarstjórn heimilt að fara sjálf með verkefni lögskipaðrar nefndar, sbr. 4. mgr. 37. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011.

Í gildi er Aðalskipulag Svalbarðsstrandarhrepps 2008-2020. Samkvæmt skipulaginu er Sveinbjarnargerði á landbúnaðarsvæði merkt L1. Um svæðið segir að það sé gott landbúnaðarland sem vel sé fallið til ræktunar og búvöruframleiðslu, sem skuli vera meginlandnotkun á svæðinu. Segir enn fremur að heimilt sé að nýta og reisa byggingar fyrir atvinnustarfsemi sem falli vel að búrekstri og nýtingu viðkomandi jarðar og hafi ekki neikvæð áhrif á umhverfi sitt. Fyrst og fremst sé átt við atvinnugreinar sem séu eðlileg viðbót við búreksturinn og stoðgreinar við landbúnað, sem áfram verði meginlandnotkun á svæðinu. Innan svæðisins við Sveinbjarnargerði er hringtákn merkt V3 og er það skilgreint sem verslunar- og þjónustusvæði. Er því svæði lýst sem hóteli og veitingahúsi í töflu í kafla 4.6 í aðalskipulagi og tiltekið að uppbygging skuli vera samkvæmt deiliskipulagi. Segir nánar í nefndum kafla að á sveitarfélagsuppdrætti megi merkja þjónustustarfsemi með hringtákni á viðkomandi lögbýli í stað ákveðinnar landfræðilegrar afmörkunar.

Hið kærða byggingarleyfi heimilar endurbyggingu varphænsnahúss á lögbýli á skilgreindu landbúnaðarsvæði samkvæmt aðalskipulagi, en á lögbýlinu má jafnframt vera hótel og veitingahús. Er og heimilt samkvæmt skipulaginu að reisa byggingar fyrir atvinnustarfsemi sem falli vel að búrekstri. Verður að telja ljóst af orðalagi og framsetningu aðalskipulagsins að skilmálar um að uppbygging skuli vera samkvæmt deiliskipulagi séu bundnir við svæðið V3 en að aðallega sé gert ráð fyrir landbúnaði á lögbýlinu í samræmi við skilgreinda landnotkun og áherslur aðalskipulags. Rúmast hin kærða leyfisveiting því innan heimilda gildandi aðalskipulags, en framkvæmdin er í beinum tengslum við þann rekstur sem þegar fer fram á svæðinu. Sömuleiðis voru fyrir hendi skilyrði til grenndarkynningar skv. 44. gr. skipulagslaga.

Samkvæmt 2. mgr. 20. gr. sveitarstjórnarlaga ber sveitarstjórnarmanni, nefndarfulltrúa eða starfsmanni sveitarfélags að víkja sæti við meðferð og afgreiðslu máls þegar það varðar hann svo sérstaklega að almennt megi ætla að viljaafstaða hans mótist að einhverju leyti þar af. Samkvæmt 54. gr. sömu laga ræður sveitarstjórn framkvæmdastjóra, þ.e. sveitarstjóra, og er hlutverk hans að sjá um að stjórnsýsla sveitarfélagsins samræmist lögum, samþykktum og viðeigandi fyrirmælum yfirmanna. Samkvæmt 2. mgr. 55. gr. laganna skal hann sitja fundi sveitarstjórnar og þar hefur hann bæði málfrelsi og tillögurétt. Hann hefur þó ekki atkvæðisrétt nema hann sé jafnframt kjörinn fulltrúi í sveitarstjórninni, en það mun þáverandi sveitarstjóri ekki hafa verið.

Af gögnum málsins verður ekki annað ráðið en að sveitarstjórinn hafi komið að undirbúningi málsins, þ.m.t. grenndarkynningu. Liggur fyrir að hann tengist eigendum leyfishafa fjölskyldutengslum og eru þeir mágar. Þá mun hann eiga lítinn hlut í fyrirtæki sem á hlut í leyfishafa. Svo sem áður er komið fram er grenndarkynning þáttur í lögboðinni málsmeðferð þegar byggingarleyfi er veitt vegna framkvæmdar á ódeiliskipulögðu svæði. Var sveitarstjóranum því rétt að víkja sæti við undirbúning, meðferð og afgreiðslu byggingarleyfisins vegna vanhæfis í skilningi 2. mgr. 20. gr. sveitastjórnarlaga.

Við mat á því hvort nefndur annmarki á afgreiðslu sveitarstjórnar á byggingarleyfinu teljist svo verulegur að ógildingu varði ber m.a. að horfa til þess að sveitarstjóri gegnir lykilhlutverki í stjórnsýslu sveitarfélaga. Sem slíkur var hann í aðstöðu til að hafa áhrif á afstöðu starfsmanna sveitarfélagsins til málsins og sveitarstjórnar til grenndarkynningar. Hins vegar verður að líta til þess að hann hafði ekki atkvæðisrétt á fundum og gat því ekki með beinum hætti komið að ákvörðun varðandi grenndarkynninguna, en samkvæmt 2. mgr. 17. gr. sveitarstjórnarlaga ræður afl atkvæða úrslitum mála. Þá verður ekki séð að aðkoma sveitarstjóra að grenndarkynningunni hafi ráðið úrslitum um lyktir málsins eða leitt til niðurstöðu sem var efnislega önnur en annars hefði orðið, einkum og sér í lagi þegar litið er til þess að byggingarleyfið var samþykkt af sameiginlegri byggingarnefnd Eyjafjarðarsvæðis þar sem sveitarstjóri átti ekki sæti. Verður byggingarleyfið því ekki ógilt af þeim sökum.

Í 6. gr. reglugerðar nr. 520/2015 um eldishús alifugla, loðdýra og svína er fjallað um fjarlægðir eldishúsa, m.a. frá mannabústöðum. Þegar um er að ræða m.a. nýbyggingar, meiriháttar breytingar eða stækkanir á eldishúsum ber sveitarstjórn að ákveða fjarlægð þeirra við m.a. mannabústaði eða svæði sem afmörkuð hafa verið fyrir þá notkun í aðalskipulagi eða með byggingarreitum í deiliskipulagi. Samkvæmt b-lið I. liðar 1. mgr. skal lágmarksfjarlægð vera 50 m fyrir bú ætluð fyrir 40.000 til 85.000 stæði fyrir kjúklinga eða 40.000 til 60.000 stæði fyrir hænur. Meðal gagna málsins er málsett loftmynd, dags. 12. maí 2017, og samkvæmt henni er fjarlægð frá varphúsi að mörkum lóðar kærenda 51,1 m, en fjarlægð að íbúðarhúsi kærenda er 61,7 m. Umrætt bú telur um 8.000 varpfugla og með fyrirhugaðri stækkun er búið enn töluvert undir stærðarviðmiðum tilvitnaðs b-liðar reglugerðarinnar. Engu að síður er skilyrði um lágmarksfjarlægð samkvæmt ákvæðinu uppfyllt hvað varðar hið endurbyggða eldishús.

Loks var gætt að ákvæði 5. mgr. 13. gr. mannvirkjalaga og byggingarleyfi ekki gefið út fyrr en ákvörðun Skipulagsstofnunar lá fyrir um að framkvæmdin væri ekki matsskyld.

Með hliðsjón af öllu því sem að framan er rakið eru ekki þeir ágallar á efni eða málsmeðferð hinnar kærðu leyfisveitingar fyrir hendi sem raskað geta gildi hennar. Verður kröfu kærenda um ógildingu því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar sameiginlegrar byggingarnefndar Eyjafjarðarsvæðis frá 26. apríl 2017 um að veita byggingarleyfi til að endurbyggja varphænsnahús að Sveinbjarnargerði í Svalbarðsstrandarhreppi.

98/2017 Laugarnesvegur

Með

Árið 2018, fimmtudaginn 8. nóvember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 98/2017, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 3. ágúst 2017 um að hafna kröfu um ógildingu byggingarleyfis fyrir skúr á lóðinni nr. 83 við Laugarnesveg og beitingu þvingunarúrræða.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 8. ágúst 2017, er barst nefndinni 8. september s.á., kærir eigandi, Laugarnesvegi 83, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 3. ágúst 2017 að hafna kröfu um ógildingu byggingarleyfis fyrir skúr á lóðinni nr. 83 við Laugarnesveg og beitingu þvingunarúrræða. Gerir kærandi þá kröfu að Reykjavíkurborg verði gert að sjá til þess að skúrinn verði fjarlægður, sem og aðrar óleyfisframkvæmdir í og við húsið á nefndri lóð. Til vara er þess krafist að Reykjavíkurborg verði gert að knýja eiganda eða umráðamann skúrsins til þess að bæta úr því sem áfátt sé í tengslum við ásigkomulag og frágang og fjarlægja og afmá óleyfisframkvæmdir í húsinu. Til þrautavara er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 9. október 2017.

Málavextir: Húsið að Laugarnesvegi 83 er þriggja íbúða hús, kjallari, hæð og rishæð. Af fyrirliggjandi gögnum verður ráðið að deilur hafi staðið milli eiganda íbúðar á fyrstu hæð hússins og kæranda, sem á íbúð í rishæð þess, m.a. vegna 31 m2 skúrs á lóð hússins og frágangs raflagna í og við húsið og skúrinn.

Þáverandi eigendur fasteignarinnar að Laugarnesvegi 83 samþykktu eignaskiptayfirlýsingu vegna fasteignarinnar, sem þinglýst var 4. september 1996. Í yfirlýsingunni kemur fram að íbúð merktri 01-0101 fylgi geymsluskúr á lóðinni, sem ekki hafi verið samþykktur af byggingaryfirvöldum. Er tekið fram að áætlað sé að skúrinn verði í framtíðinni fjarlægður og honum fylgi engin lóðarréttindi. Eigandi skúrsins hafi þó áfram heimild til að endurbæta hann eða byggja nýjan á lóðinni, að fengnu leyfi byggingaryfirvalda. Í skráningartöflu, dags. 11. desember 1995, er fylgdi eignaskiptayfirlýsingunni, er skúrsins ekki getið. Samkvæmt gögnum úr fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands hefur verið skráð 13,5 m2 geymsla á lóðinni Laugarnesvegi 83 og hafði sú matseining númerið 2016845. Kærandi eignaðist íbúð sína að Laugarnesvegi 83 með kaupsamningi, dags. 21. apríl 2001.

Hinn 6. júní 2006 var samþykkt umsókn eiganda íbúðar á fyrstu hæð hússins um byggingarleyfi fyrir áður gerðri 31 m2 bílgeymslu á fyrrgreindri lóð. Þá var hinn 12. janúar 2007 þinglýst á fasteignina yfirlýsingu um samþykki eigenda hennar um að bílskúr, sem hafi staðið á lóð Laugarnesvegar 83 í yfir 10 ár, komi í staðinn fyrir þann sem þar hafi verið á sama stað. Yfirlýsingin er undirrituð af tveimur eigendum tveggja eignarhluta í húsinu en á skortir undirritun kæranda sem eiganda þriðja eignarhlutans. Bílgeymslan var skráð í fasteignaskrá sem 31,0 m2 bílskúr hinn 21. október 2015 sem sama matseining og fyrrgreindur 13,5 m2 skúr. Skráning matseiningarinnar var síðan afmáð 22. september 2016. Ekki liggur fyrir hvenær núverandi skúr var reistur í stað þess sem áður mun hafa staðið á umræddri lóð.

Með bréfi kæranda, dags. 28. janúar 2017, var kært til úrskurðarnefndarinnar aðgerðarleysi byggingarfulltrúans í Reykjavík „varðandi eldhættu og óleyfisframkvæmdir“ við Laugarnesveg 83. Komst nefndin að þeirri niðurstöðu að kærufrestur vegna hins veitta byggingarleyfis frá 6. júní 2016 væri liðinn og ekki yrði því tekin afstaða til lögmætis hennar. Aftur á móti taldi nefndin að óhæfilegur dráttur hefði orðið á afgreiðslu erindis kæranda til borgarinnar vegna framkvæmdanna án þess að fyrir lægi viðhlítandi skýring á drættinum. Var því lagt fyrir byggingarfulltrúa að taka til lögformlegrar afgreiðslu kröfu kæranda um afturköllun umdeilds byggingarleyfis og beitingu þvingunarúrræða. Hinn 3. ágúst 2018 synjaði byggingarfulltrúinn í Reykjavík kröfu kæranda um afturköllun umdeilds byggingarleyfis og beitingu þvingunarúrræða á þeim forsendum að hagsmunir núverandi eiganda skúrsins vægju þyngra en hagsmunir kæranda af því að fá kröfu sinni framgengt.

Málsrök kæranda: Kærandi telur að á grundvelli 2. mgr. 56. gr. þágildandi skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 hafi stofnast skylda fyrir byggingarfulltrúa til að grípa til aðgerða vegna óleyfisframkvæmda á lóð fasteignarinnar að Laugarnesvegi 83.

Í IV. kafla laga nr. 73/1997 hafi verið mælt fyrir um mannvirki. Samkvæmt 1. mgr. 36. gr. laganna hafi ákvæði kaflans tekið til hvers konar bygginga, bæði ofan jarðar og neðan. Samkvæmt 1. mgr. 43. gr. hafi m.a. verið óheimilt að grafa grunn og reisa hús nema að fengnu leyfi sveitarstjórnar. Samkvæmt 4. mgr. sama ákvæðis hafi þeim sem óskaði slíks leyfis borið að koma á framfæri umsókn til byggingarnefndar viðkomandi sveitarfélags ásamt nauðsynlegum hönnunargögnum og skilríkjum, þ.m.t. samþykki meðeigenda ef um sameign væri að ræða. Í VI. kafla laganna hafi verið mælt fyrir um þvingunarúrræði og viðurlög. Samkvæmt 2. mgr. 56. gr. laganna hafi byggingarfulltrúa sveitarfélags borið að stöðva tafarlaust framkvæmd sem félli undir ákvæði IV. kafla laganna, án þess að leyfi hefði fengist fyrir henni og hún bryti í bága við skipulag, og í framhaldi þess að fjarlægja hina ólöglegu byggingu og afmá jarðrask.

Að því er varði lagaskil gagnvart skipulags- og byggingarlögum, sem í gildi hafi verið á þeim tíma er byggingarleyfi vegna hins áður gerða skúrs hafi verið veitt, vísi kærandi til niðurstöðu Hæstaréttar Íslands í máli nr. 137/2012 frá 22. nóvember 2012. Þar sé með afdráttarlausum hætti vísað til þess að atvik málsins hafi átt sér stað í gildistíð eldri laga og að þeim lögum yrði beitt við úrlausn málsins án tillits til þess hvort hliðstæð ákvæði væri að finna í nýjum skipulagslögum nr. 123/2010, sem hafi líkt og lög nr. 160/2010 um mannvirki, tekið gildi 1. janúar 2011. Kærandi telji einsýnt að hið sama eigi við í þessu máli.

Í málinu liggi fyrir sú afstaða byggingarfulltrúa að samþykki á byggingarleyfisumsókn eiganda og umráðamanns skúrsins hafi verið alvarlegum vanköntum háð að því leyti að skort hefði á samþykki sameiganda, líkt og 4. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga hefði gert ráð fyrir. Telji kærandi með ólíkindum að ekki hafi verið brugðist við í samræmi við fortakslausa skyldu byggingarfulltrúa samkvæmt 2. mgr. 56. gr. laganna til að fjarlægja ólöglegar byggingar. Ekki skipti máli að í ákvæðinu sé vísað til þess skilyrðis fyrir aðgerðum byggingarfulltrúa að framkvæmd brjóti í bága við deiliskipulag, enda ljóst að ekki hafi verið til staðar deiliskipulag á svæðinu bæði á þeim tímapunkti þegar skúrinn hafi verið reistur og þegar umsókn um byggingarleyfi hafi verið komið á framfæri. Þegar af þeirri ástæðu að samþykki kæranda sem sameiganda hafi ekki legið fyrir vegna skúrsins, og að eigandi og umráðamaður skúrsins hafi ekki orðið við kröfum byggingarfulltrúa um framvísun þess samþykkis, hafi skylda embættis byggingarfulltrúa til aðgerða stofnast, m.a. með hliðsjón af því að 2. mgr. 56. gr. laganna hafi ekki gert aðkomu aðila máls eða annarra að skilyrði fyrir aðgerðum. Megi hér vísa til dóma Hæstaréttar Íslands í málum nr. 32/2008 frá 6. nóvember 2008, máli nr. 406/2010 frá 24. mars 2011 og áðurnefndu máli nr. 138/2012 frá 22. nóvember 2012.

Samkvæmt 3. mgr. 23. gr. og 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga hafi sveitarstjórn getað veitt heimild til framkvæmda í þegar byggðum hverfum þar sem ekki hafi legið fyrir deiliskipulag, að undangenginni grenndarkynningu. Samkvæmt gögnum málsins hafi þess leið verið farin og ekki hafi borist athugasemdir við grenndarkynninguna. Þótt kærandi hafi ekki komið að athugasemdum við kynninguna verði það ekki túlkað sem samþykki hans fyrir framkvæmdunum. Áðurnefnd heimild sveitarstjórnar samkvæmt fyrrgreindum lagaákvæðum geti ekki vikið til hliðar ófrávíkjanlegu skilyrði laganna um að til staðar sé samþykki meðeigenda. Hvað svo sem líði því mati Reykjavíkurborgar, og síðar úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, að byggingarleyfisumsóknin hafi verið samþykkt verði í samhengi við ógildingarfræði stjórnsýsluréttarins að líta á þá samþykkt sem markleysu, sem virða beri að vettugi, óháð því hvort tekin hafi verið sérstök ákvörðun um ógildingu hennar eður ei, enda hafi frá öndverðu skort á fortakslaust skilyrði leyfisveitingarinnar.

Að því er varði kröfu kæranda um beitingu þvingunarúrræða sé fyrst og fremst á því byggt að ákvörðun embættis byggingarfulltrúa hafi ekki byggst á forsvaranlegu mati embættisins. Hafi því mat byggingarfulltrúa um að ekki væri nauðsyn á að grípa til aðgerða vegna skúrsins verið ólögmætt. Af ákvörðuninni verði helst ráðið að byggt hafi verið á meintu tómlæti kæranda, hagsmunum nýs eiganda skúrsins, í ljósi þess að um íþyngjandi úrræði væri að ræða gagnvart viðkomandi, og á eignaskiptayfirlýsingu frá 28. ágúst 1996.

Samkvæmt réttmætisreglu stjórnsýsluréttarins beri stjórnvöldum við ákvarðanatöku sína að byggja á málefnalegum sjónarmiðum sem leidd verði fram með túlkun ákvæða viðkomandi lagaramma hverju sinni. Samkvæmt a-lið 1. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki sé á meðal markmiða laganna að vernda líf og heilsu manna, eignir og umhverfi með því að tryggja faglegan undirbúning mannvirkjagerðar og virkt eftirlit með því að kröfum um öryggi mannvirkja og heilnæmi sé fullnægt. Í athugasemdum greinargerðar við endanlegt frumvarp laganna komi fram að í ákvæðinu sé fjallað um grundvallartilgang löggjafar um mannvirkjagerð. Sé ljóst að önnur ákvæði laganna miði að því að tryggja að þessum markmiðum verði fullnægt, m.a. með virku eftirliti þeirra aðila sem beri ábyrgð á því.

Kærandi geri að þessu leyti athugasemd við það mikilvægi sem hagsmunum núverandi eiganda umráðamanns skúrsins séu fengnir og þá staðreynd að þvingunaraðgerðir séu íþyngjandi gagnvart viðkomandi. Kærandi vísi til þess að á meðal gagna málsins séu tvær skýrslur þar sem gerðar séu athugasemdir við raflagnir í skúrnum og húsinu í heild sinni. Ekki verði séð að í ákvörðun byggingarfulltrúa frá 3. ágúst 2017 hafi verið litið til þessa atriðis. Þrátt fyrir að kærandi geri sér grein fyrir því að sjónarmið sem felist í verndun verðmæta og því að koma beri í veg fyrir óþarfa eyðileggingu eigi sér stoð í löggjöfinni, m.a. með hliðsjón af þeirri breytingu sem orðið hafi á úrræðum byggingarfulltrúa við gildistöku núgildandi laga að um sé að ræða heimild til aðgerða en ekki skyldu, verði ekki séð að þau sjónarmið víki til hliðar sjónarmiðum sem hvíli á lögfestum grundvallarmarkmiðum laganna. Núverandi eiganda séu færar ýmsar leiðir á einkaréttarlegum grundvelli til þess að sækja bætur fyrir tjón sitt hjá fyrrverandi eiganda og eftir atvikum öðrum aðilum. Við sölu eignarinnar hafi bæði fasteignasölu þeirri sem hafi annast söluna og núverandi eiganda verið gerð grein fyrir ágreiningnum sem uppi væri vegna skúrsins.

Hin kærða ákvörðun beri með sér að ekki hafi farið fram fullnægjandi rannsókn, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, þegar litið sé til tveggja skýrslna vegna raflagna skúrsins og sjónarmiða um að af honum stafi eldhætta. Slík rannsókn sé forsenda málefnalegs mats við ákvörðun um beitingu þvingunarúrræða.

Að því er varði sjónarmið um meint tómlæti kæranda sé vísað til þess að ekki verði séð að ákvæði X. kafla laga um mannvirki, þar sem mælt sé fyrir um rannsóknir, þvingunarúrræði og viðurlög vegna háttsemi sem brjóti í bága við lögin, geri ráð fyrir aðkomu aðila sem lögvarinna hagsmuna hafi að gæta af málinu sem skilyrði fyrir því að úrræðum kaflans verði beitt. Þvert á móti telji kærandi umrædd ákvæði laganna gera ráð fyrir ákveðnu frumkvæðiseftirliti af hálfu viðkomandi byggingaryfirvalda. Auk þess sé á það bent að sjónarmið um tómlæti, þegar um sé að ræða nábýlisréttarlegar deilur, séu í eðli sínu einkaréttarleg sjónarmið, sem tilheyri þeim þætti málsins. Vandséð sé að slík sjónarmið eigi við þegar um ákvarðanatöku embættis byggingarfulltrúa sé að ræða.

Hvorki hafi verið gætt að andmælarétti aðila máls við ákvörðunartökuna né tilkynningu komið á framfæri um meðferð málsins, sbr. 13. og 14. gr. stjórnsýslulaga. Slík tilkynning um meðferð máls sé eðli málsins samkvæmt forsenda þess að aðili þess geti nýtt sér ýmis réttindi sem viðkomandi séu fengin með ákvæðum stjórnsýslulaga, t.d. upplýsingarétt, sbr. 15. gr. laganna.

Rökstuðningi ákvörðunarinnar sé ábótavant, enda sé hann ekki í samræmi við 22. gr. stjórnsýslulaga. Í rökstuðningnum sé í engu getið þeirra meginsjónarmiða sem legið hafi að baki mati byggingarfulltrúa á nauðsyn þess að úrræðum laga um mannvirki verði beitt, að öðru leyti en því að vísað sé til meintra hagsmuna núverandi eiganda og umráðamanns skúrsins.

Málsrök Reykjavíkurborgar:
Borgaryfirvöld benda á að ljóst sé að vegna mistaka hjá embætti byggingarfulltrúa hafi láðst að kalla eftir samþykki kæranda vegna leyfis fyrir þegar gerðri stækkun umrædds skúrs. Á hinn bóginn sé á það að líta að ekki liggi fyrir upplýsingar um það hvenær stækkunin hafi átt sér stað og mögulegar framkvæmdir við raflagnir. Sé því mögulega um tómlæti af hálfu kæranda að ræða, en eðlilegt hefði verið að kærandi hefði gert athugasemd við framkvæmdirnar þegar þær hófust. Ekki hafi verið leitt í ljós að kærandi hafi eitthvað aðhafst í málinu á þeim tíma. Það sé ekki fyrr en byggingarfulltrúi samþykki stækkun skúrsins eftir á að umræddar athugasemdir hafi borist. Einnig beri að líta til þess að langur tími hafi liðið frá samþykkt byggingarfulltrúa í málinu, nýr eigandi sé að skúrnum og að samkvæmt gildandi deiliskipulagi Teigahverfis frá 2014 sé nú heimilað að byggja bílskúr á lóðinni.

Í eignaskiptasamningi frá 28. ágúst 1996 komi fram að íbúð merkt 01-0101 fylgi geymsluskúr sem standi á lóðinni, sem ekki hafi verið samþykktur af byggingaryfirvöldum. Komi þar fram að áætlað sé að skúrinn verði í framtíðinni fjarlægður og honum fylgi engin lóðarréttindi. Eigandi skúrsins hafi þó áfram heimild til að endurbæta geymsluskúrinn eða byggja nýjan á lóðinni, að fengnu leyfi byggingaryfirvalda. Orðalag þessa ákvæðis í eignaskiptasamningnum kunni að orka tvímælis um þær heimildir sem þar séu tilgreindar. Þótt eðlilegt megi telja að hér sé átt við byggingu skúrs af sömu stærð og fyrir hafi verið kunni þetta að sæta ágreiningi sem embættið hafi ekki heimild til að skera úr um.

Sérstök athygli sé vakin á því að engin lagaskylda hvíli á byggingarfulltrúa til að hlutast til um að mannvirki sem byggð hafi verið án leyfis séu fjarlægð. Í rökstuðningi byggingarfulltrúa fyrir synjun um aðgerðir í málinu hafi enn fremur verið tekið fram að ljóst væri að ákvörðun um ógildingu byggingarleyfis nú og e.t.v. niðurrif skúrsins yrði verulega íþyngjandi fyrir núverandi eiganda hans. Það hafi því verið mat embættisins, í ljósi framangreinds og atvika málsins alls, að hagsmunir núverandi eiganda í málinu vægju þyngra en hagsmunir kæranda af því að fá kröfum sínum framgengt.

Niðurstaða: Hinn 6. júní 2006 var að undangenginni grenndarkynningu samþykkt umsókn um byggingarleyfi fyrir áður gerðum bílskúr á lóðinni Laugarnesvegi 83, en á skorti að uppfyllt væri skilyrði þágildandi 4. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 um samþykki meðeigenda lóðarinnar, eins og rakið er í kafla um málavexti. Krefst kærandi þess að nefnt byggingarleyfi verði fellt úr gildi og að þvingunarúrræðum verði beitt til þess að skúrinn verði fjarlægður ásamt öðrum óleyfisframkvæmdum við húsið og skúrinn á lóðinni.

Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur nefndin það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Af þeim sökum tekur nefndin aðeins til meðferðar kröfu kæranda um ógildingu byggingarleyfi fyrir skúrnum og synjun um beitingu þvingunarúrræða á nefndri lóð. Aftur á móti telur nefndin það falla utan valdheimilda sinna að taka nýja ákvörðun í málinu með því að leggja fyrir byggingarfulltrúa að beita þvingunarúrræðum vegna framkvæmda á umræddri lóð, fari svo að hinni kærðu ákvörðun verði hnekkt. Verður því ekki tekin afstaða til þess hluta kröfugerðar kæranda.

Samkvæmt bréfi byggingarfulltrúa til leyfishafa, dags. 16. júní 2016, andmælti kærandi veitingu fyrrgreinds byggingarleyfis og krafðist þess m.a. að byggingarfulltrúi afturkallaði ákvörðun sína. Í 2. mgr. 4. gr. laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er frestur til að skjóta málum til nefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um hina kæranlegu ákvörðun. Kærufrestur vegna nefnds byggingarleyfis er því löngu liðinn. Af þeim sökum verður ekki tekin afstaða til lögmætis nefndrar ákvörðunar í máli þessu.

Kveðið er á um það í 2. mgr. 4. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki að sveitarstjórn beri ábyrgð á að stjórnsýsla og eftirlit byggingarfulltrúa sé í samræmi við ákvæði laganna og að byggingarfulltrúar annist eftirlit með mannvirkjagerð sem falli undir 1. og 2. mgr. 9. gr. þeirra. Samkvæmt 2. mgr. 55. gr. laganna getur byggingarfulltrúi krafist þess, ef byggingarframkvæmd er hafin án þess að leyfi sé fengið fyrir henni, að hið ólöglega mannvirki eða byggingarhluti sé fjarlægt, jarðrask afmáð eða starfsemi hætt. Þá er í 56. gr. laganna, sbr. gr. 2.9.2. í byggingarreglugerð nr. 112/2012, m.a. kveðið á um aðgerðir til að knýja fram úrbætur sé ásigkomulagi, frágangi, umhverfi eða viðhaldi húss, annars mannvirkis eða lóðar ábótavant, af því stafi hætta eða það teljist skaðlegt heilsu að mati byggingarfulltrúa.

Ákvörðun um beitingu nefndra þvingunarúrræða er háð mati stjórnvalds hverju sinni og tekið er fram í athugasemdum við frumvarp það sem varð að mannvirkjalögum að eðlilegt sé að ákvörðun um beitingu úrræðanna sé metin í hverju tilviki, m.a. með tilliti til meðalhófs. Umrædd ákvæði gefa sveitarfélögum kost á að bregðast við sé gengið gegn almannahagsmunum þeim er búa að baki mannvirkjalögum, svo sem skipulags-, öryggis- og heilbrigðishagsmunum. Með hliðsjón af þessu verður ekki talið að einstaklingum sé tryggður lögvarinn réttur til að knýja byggingaryfirvöld til beitingar þvingunarúrræða vegna einstaklingshagsmuna, enda eru þeim tryggð önnur réttarúrræði til þess að verja þá hagsmuni sína. Þótt beiting úrræðanna sé háð mati stjórnvalds þarf ákvörðun þess efnis að vera studd efnislegum rökum, m.a. með hliðsjón af þeim hagsmunum sem búa að baki fyrrgreindum lagaheimildum.

Synjun um beitingu á lögheimiluðum þvingunarúrræðum var studd þeim rökum að hagsmunir núverandi eiganda skúrsins vægju þyngra en hagsmunir kæranda af því að fá skúrinn fjarlægðan. Var einnig vísað til þess að um mögulegt tómlæti væri að ræða af hálfu kæranda, að heimilt væri að byggja bílskúr á lóðinni samkvæmt núverandi deiliskipulagi og að túlkun eignaskiptasamnings frá 28. ágúst 1996 orkaði tvímælis um þær heimildir sem þar væru tilgreindar. Verður að telja hina matskennda ákvörðun byggingarfulltrúa, að synja beitingu þvingunarúrræða vegna fyrrgreinds skúrs, hafa verið studda efnislegum rökum.

Kærandi hefur gert athugasemdir vegna raflagna í og við húsið og skúrinn á lóðinni Laugarnesvegi 83 sökum meintrar eldhættu. Að tilhlutan Mannvirkjastofnunar gerði faggilt skoðunarstofa skýrslu, dags. 8. apríl 2016, um vanbúnað raflagna í sameign þar sem gerðar eru ýmsar athugasemdir, m.a. vegna hættu á hita- og neistamyndun og skammhlaupi í aðaltöflu hússins. Skýrslu sama efnis hafði skoðunarstofan gert árið 2012. Ekki liggja fyrir upplýsingar um hvort úr hafi verið bætt í þeim efnum. Samkvæmt 1. mgr. 56. gr. mannvirkjalaga hvílir sú skylda á byggingarfulltrúa að leggja fyrir eiganda eða umráðamann húss eða mannvirkis að bæta úr því sem áfátt er ef af því stafar hætta að hans mati. Ekki er að sjá að byggingarfulltrúi hafi í ákvörðun sinni tekið afstöðu til þess hvort hætta stafaði af ástandi raflagna hússins með hliðsjón af nefndri skýrslu faggiltrar skoðunarstofu. Að þessu leyti skortir því á að í ákvörðun byggingarfulltrúa hafi sá þáttur málsins verið rannsakaður og rökstuddur með fullnægjandi hætti, sbr. 10. og 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Með hliðsjón af framangreindu verður að telja að ákvörðun byggingarfulltrúa, um að synja beitingu þvingunarúrræða í tilefni af ástandi raflagna umræddrar fasteignar, hafi verið slíkum annmörkum háð að varði ógildingu þess hluta hennar.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 3. ágúst 2017, um að hafna kröfu um beitingu þvingunarúrræða vegna ástands raflagna í sameign fasteignarinnar að Laugarnesvegi 83 í Reykjavík.

Kærumáli þessu er að öðru leyti vísað frá úrskurðarnefndinni.

74, 75 og 78/2017 Hafnarstræti

Með

Árið 2018, föstudaginn 28. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 74/2017, kæra á ákvörðun skipulagsstjóra Akureyrarbæjar frá 12. júní 2017 um að veita byggingarleyfi til að breyta tveimur eignarhlutum á 2. hæð fjöleignarhússins að Hafnarstræti 99-101 á Akureyri í gistiskála.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 4. júlí 2017, er barst nefndinni 6. s.m., kæra Frikkabílar sf., Grensásvegi 14, Reykjavík, þá ákvörðun skipulagsstjóra Akureyrarbæjar frá 12. júní 2017 að veita byggingarleyfi til að breyta tveimur eignarhlutum á 2. hæð Hafnarstrætis 99-101 í gistiskála.

Með bréfum til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 7. og 12. júlí 2017, sem bárust úrskurðarnefndinni 7. og 13. s.m., kæra félögin ORF ehf., Dalvegi 16d, Kópavogi, og GM Investment ehf., Álfkonuhvarfi 33, Kópavogi, fyrrgreinda ákvörðun skipulagsstjóra Akureyrarbæjar. Þar sem kærumálin varða sömu ákvörðun og hagsmunir kærenda þykja ekki standa því í vegi, verða greind kærumál, sem eru nr. 75/2017 og 78/2017, sameinuð máli þessu. Verður að skilja málatilbúnað kærenda svo að krafist sé ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Akureyrarbæ 16. ágúst 2017.

Málavextir:
Hinn 24. mars 2017 samþykkti staðgengill byggingarfulltrúa Akureyrarbæjar á afgreiðslufundi sínum umsókn um byggingarleyfi fyrir breytingum á eignarhlutum 223-3630 og 223-3629 á 2. hæð Hafnarstrætis 99-101. Fól umsóknin í sér að nefndir eignarhlutar, sem áður hýstu sjónvarpsstöð og tónlistarskóla, yrði breytt í morgunverðarsal og gistiskála. Var umsóknin samþykkt með þeim fyrirvara að þinglýst yrði kvöð á eignarhlutana vegna flóttaleiða og var yfirlýsing þess efnis þinglýst 6. júní 2017 hjá sýslumanninum á Norðurlandi eystra. Hinn 12. júní 2017 var byggingarleyfi fyrir breytingunum gefið út.

Málsrök kærenda: Kærendur, sem eru eigendur séreignarhluta á 1. hæð fjöleignarhússins að Hafnarstræti 99-101, benda á að í hinu kærða byggingarleyfi sé gert ráð fyrir að öll umferð 2. hæðar hússins fari um inngang verslana hússins en ekki stigagang sem gerður hafi verið fyrir hæðina. Þessi breyting hafi ekki verið rædd við eigendur á 1. hæð en samkvæmt lögum þurfi að liggja fyrir samþykki allra eigenda sameignar þegar um stórvægilega breytingu á sameign sé að ræða. Máli sínu til stuðnings vísa kærendur til 19. og 27. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús.

Málsrök Akureyrarbæjar: Af hálfu bæjaryfirvalda er farið fram á frávísun málsins þar sem kröfur kærenda byggjast eingöngu á ágreiningi um innanhússmál sameignar en ekki sé gerð krafa um ógildingu byggingarleyfis. Í 1. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála segi að kæra til nefndarinnar skuli vera skrifleg og undirrituð. Þar skuli koma fram hver sé kærandi, hvaða ákvörðun sé kærð, kröfur kæranda og rök fyrir kæru. Í kærum komi hvorki fram réttir handhafar byggingarleyfis né þær kröfur sem kærendur geri. Ekki liggi ljóst fyrir hvort allir kærendur eigi lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun. Þá leiki vafi á því hvort GM Investment ehf. hafi kært innan kærufrests skv. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Verði ekki fallist á frávísun sé farið fram á að kröfum kærenda verði hafnað.

Fasteignin Hafnarstræti 99-101 sé með tvö inngönguport. Nyrðra inngönguportið sé í sameign allra en syðra inngönguportið, sem deilt sé um aðgang að í máli þessu, leiði inn á verslunargang á 1. hæð sem sé í sameign sumra, þar á meðal séreignar 223-3630 á 2. hæð. Eignin á 2. hæð sé með beinan og óhindraðan aðgang um stiga niður í sameign sumra á 1. hæð. Syðri útgangurinn sé neyðarútgangur fyrir eignina. Hann megi því ekki vera læstur innan frá. Útganga frá 2. hæð niður í sameign sumra á 1. hæð verði því ætíð að vera möguleg. Þeir sem nýti sér þjónustu gistiskála, sem byggingarleyfið varði, geti því valið um að fara um inngang í syðri eða nyrðri portunum. Bent sé á að ekki komi fram í byggingarleyfinu hvaða inngang gestir gistiaðstöðunnar skuli nota innan fasteignar, enda sé það hinu kærða byggingarleyfi óviðkomandi.

Umrædd fasteign sé í miðbæ Akureyrar og er þar gert ráð fyrir fjölbreytileg atvinnustarfsemi, þ.m.t. umfangsmikilli verslunar-, viðskipta- og þjónustustarfsemi samkvæmt deiliskipulagi miðbæjar sem samþykkt hafi verið í bæjarstjórn Akureyrar 6. maí 2014 og tekið hafi gildi 22. júlí s.á. Við Hafnarstræti séu verslanir, veitinga- og gistihús ásamt opinberri þjónustu og í húsinu að Hafnarstræti 99-101 séu verslanir, gistiaðstaða og opinber þjónusta. Með hinni kærðu ákvörðun hafi ekki verið breytt hagnýtingu viðkomandi séreignarhluta frá því sem gert hafi verið ráð fyrir í upphafi og því ekki þörf á samþykki sameigenda vegna breytinganna skv. 27. gr. laga um fjöleignarhús nr. 26/1994.

Ágreiningur máls þessa snúist ekki um afnot sameignar heldur um það hvenær og hvort inngangur í sameign sumra á 1. hæð, í syðra porti, eigi að vera opinn eða lokaður að utanverðu á þeim tíma sem verslanir við sameignarganginn séu lokaðar. Þar sem sá inngangur sé neyðarinngangur fyrir 2. hæð, verði hann alltaf að vera opnanlegur að innan. Aðgangsstýringar að utan séu innanhúsmál sem eigendur verði að ráða með sér á húsfundi. Um það geti sveitarfélagið ekki sett skilyrði í byggingarleyfi.

Athugasemdir leyfishafa:
Af hálfu leyfishafa er bent á að sem eigandi tveggja eignarhluta í fasteigninni Hafnarstræti 99-101 hafi hann fengið leyfi til að opna á milli eignarhlutanna og nota sem gistiheimili. Inngangur í annan eignarhlutann verði nýttur sem flóttaleið og inngangur fyrir þá sem nota lyftu og hinn innganginn sem aðalinngangur. Húsnæði leyfishafa sem nota eigi sem gistiheimili séu tveir eignarhlutar. Annar þeirra hafi hýst starfsemi sjónvarpsstöðvarinnar N4 en í hinum hafi verið rekinn 100 nemenda tónlistarskóli. Aðkoma að tónlistarskólanum hafi verið um inngang verslana, líkt og kærendur kalli hann. Gistiheimilið sé með leyfi fyrir 84 gesti á meðan 100 nemendur hafi verið í tónlistarskólanum og því sé ekki um aukinn umgang í sameign að ræða.

Ákvæði 4. mgr. 39. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús kveði á um að sameiginlegar ákvarðanir skuli teknar á sameiginlegum fundi eigenda. Haldinn hafi verið húsfundur 28. nóvember 2016 þar sem teikningar leyfishafa hafi verið lagðar fram til kynningar og umræðu. Ákveðið hafi verið að halda annan fund tíu dögum síðar, þar sem meðeigendur leyfishafa myndu gefa upp afstöðu sína til tillögu um gistiheimili á annarri hæð eignarinnar. Formanni húsfélagsins hafi verið falið að koma teikningum til kærenda og boða til fundar 8. desember 2016, sem hann og hafi gert með ábyrgðarpósti á lögheimili og tölvupósti. Ekki hafi verið þörf á samþykki meðeigenda fyrir umdeildum breytingum á séreign leyfishafa en samráð hafi engu að síður verið haft af tillitssemi við þá

Á húsfundi 8. desember 2016 hafi allir viðstaddir veitt samþykki sitt fyrir því að í eignarhlutum leyfishafa yrði rekið gistiheimili, þó sumir með athugasemd, t.d. um skiptingu sameignarkostnaðar og að notaður yrði inngangur sem kærendur kalla inngang verslana, sem leyfishafa hafi talið sjálfsagt að verða við. Kærendur hafi ekki mætt á fundinn þrátt fyrir boðun og séu þeir bundnir af ákvörðunum sem þar hafi verið teknar þar sem boðað hafi verið til fundarins með lögmætum hætti auk þess sem aðrir meðeigendur myndi svo stóran meirihluta að atkvæði kærenda hefði engu breytt um niðurstöðu tillögu fundarins. Ljóst megi vera að ekki sé um verulega breytingu á sameign að ræða. Tveir inngangar séu í gistiheimili leyfishafa, flótta- og lyftuleið og aðalinngangur sem sé um sameign kærenda, leyfishafa og sportvöruverslunar.

Ákvæði 27. gr. laga um fjöleignarhús um breytta hagnýtingu á séreign eigi ekki við í máli þessu enda meginreglan skv. 26. gr. laganna sú að eigandi hafi einn rétt til umráða og ráðstöfunar yfir séreign sinni. Hin breytta atvinnustarfsemi hafi ekki í för með sér verulega meira ónæði, röskun eða óþægindi fyrir aðra eigendur en áður hafi verið og gangi og gerist í sambærilegum húsum. Kærendur hafi ekki fært nein rök fyrir því að breytingin feli í sér röskun á hagsmunum þeirra. Megi í því sambandi einnig vísa til álits kærunefndar húsamála í máli nr. 34/2014 þar sem talið hafi verið að eigandi þyrfti ekki samþykki annarra eigenda fyrir að breyta atvinnuhúsnæði sínu í íbúðarhúsnæði. Verði talið að ákvæði 27. gr. eigi yfir höfuð við ætti 3. mgr. ákvæðisins við um breytinguna, en þar segi að sé um að ræða breytta hagnýtingu sem ekki sé veruleg sé nægilegt að fá samþykki einfalds meirihluta. Slíkt samþykki liggi fyrir í máli þessu þar sem stærstur hluti eigenda hafi samþykkt breytinguna á húsfundi.

Niðurstaða: Útgáfa byggingarleyfis veitir leyfishafa heimild til að hefja framkvæmdir í samræmi við þegar samþykkta umsókn þegar viðbótarskilyrði 13. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010 eru uppfyllt, s.s. um frekari hönnunargögn og greiðslu gjalda. Útgáfa byggingarleyfisins ein og sér felur ekki í sér kæranlega stjórnvaldsákvörðun, enda hefur þá þegar verið fallist á efnisinnihald leyfisins með samþykki umsóknar um byggingarleyfi skv. 9. gr. mannvirkjalaga sem felur í sér kæranlega stjórnvaldsákvörðun. Verður því svo litið á að í máli þessu sé kærð sú ákvörðun staðgengils byggingarfulltrúa frá 24. mars 2017 að samþykkja hina kærðu breytingu á notkun séreignarhluta leyfishafa að Hafnarstræti 99-101 á Akureyri.

Kærendur eru eigendur að sameign með leyfishafa á 1. hæð að Hafnarstræti 99-101. Hið umdeilda byggingarleyfi varðar breytingu á séreign leyfishafa á 2. hæð fasteignarinnar sem getur m.a. haft áhrif á umferð í gegnum sameign á 1. hæð. Getur hin kærða ákvörðun snert hagsmuni kærenda, sbr. ákvæði laga um fjöleignarhús nr. 26/1994. Teljast þeir því eiga lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun í skilningi 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Fyrir liggur að ágreiningur máls þessa snýst um lögmæti umdeilds byggingarleyfis. Með hliðsjón af þeirri leiðbeiningar- og rannsóknarskyldu sem á úrskurðarnefndinni hvílir, sbr. 7. og 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, verður málinu ekki vísað frá úrskurðarnefndinni sökum vanreifunar.

Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðun þá sem kæra lýtur að. Ekki liggur fyrir að kærendum hafi verið tilkynnt um samþykki byggingaráforma eða útgáfu byggingarleyfisins 12. júní 2017, en fyrr var ekki heimilt að ráðast í hinar umdeildu breytingar, sbr. 5. tl. 3. gr. mannvirkjalaga. Kæra GM Investment ehf., barst úrskurðarnefndinni 13. júlí s.á. Gera verður ráð fyrir að kæranda hafi ekki verið kunnugt um hið kærða byggingarleyfi á sama degi og það var gefið út og barst kæran því innan kærufrests. Verður mál þetta tekið til efnismeðferðar af framangreindum ástæðum.

Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. mannvirkjalaga er ekki heimilt að breyta notkun mannvirkis nema að fengnu leyfi viðkomandi byggingarfulltrúa og skulu með byggingarleyfisumsókn fylgja nauðsynleg gögn, m.a. samþykki meðeigenda ef þess er þörf samkvæmt 1. mgr. 10. gr. laganna.

Í 1. mgr. 26. gr. fjöleignarhúsalaga kemur fram að einungis eigandi hafi rétt til umráða og hagnýtingar á séreign sinni með þeim takmörkunum einum sem í lögunum greinir, öðrum lögum eða leiði af óskráðum grenndarreglum, eðli máls eða byggi á löglegum ákvörðunum og samþykktum húsfélags. Í 27. gr. laganna er kveðið á um takmörkun á rétti eiganda til breytingar á hagnýtingu séreignar. Fram kemur í 1. mgr. ákvæðisins að breyting á hagnýtingu séreignar frá því sem verið hefur eða ráð var fyrir gert í upphafi, sem hafi í för með sér verulega meira ónæði, röskun eða óþægindi fyrir aðra eigendur eða afnotahafa en áður hafi verið og gengur og gerist í sambærilegum húsum, séu háðar samþykki allra eigenda hússins. Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. getur eigandi ekki sett sig á móti slíkri breytingu ef sýnt er að hún hafi ekki í för með sér neina röskun á lögmætum hagsmunum hans, sbr. 2. mgr. Þá kemur fram í 3. mgr. ákvæðisins að ef breytt hagnýting sé ekki veruleg sé nægilegt að samþykki einfalds meirihluta miðað við fjölda og eignarhluta liggi fyrir.

Samkvæmt Aðalskipulagi Akureyrar 2005-2018 heyrir umrætt svæði undir miðbæ Akureyrar. Í kafla skipulagsins er nefnist „Miðbærinn“ segir svo um stefnu um landnotkun að styrkja skuli stöðu miðbæjar Akureyrar sem hjarta bæjarlífsins og þungamiðju verslunar og þjónustu á Norðurlandi. Í miðbænum verði blönduð byggð íbúða, verslunar, þjónustu og stofnana. Þá kemur fram að húsnæði á efri hæðum í miðbænum, eftir því sem við getur átt, verði nýtt fyrir íbúðir eða skrifstofur og þjónustustarfsemi.

Fasteignaeigendur á tilteknu skipulagssvæði eiga að jafnaði rétt til þess að nota fasteign sína í samræmi við heimildir gildandi skipulags og þurfa að sæta því að aðrir fasteignaeigendur geri slíkt hið sama, að uppfylltum skilyrðum laga og reglna. Eins og að framan er rakið er umrædd fasteign í miðbæ Akureyrar þar sem gert er ráð fyrir fjölbreyttri miðbæjarstarfsemi. Rúmast heimiluð notkun séreignarhluta leyfishafa innan landnotkunar aðalskipulags fyrir umrætt svæði.

Í húsinu að Hafnarstræti 99-101 er rekin fjölþætt starfsemi eins og áður greinir og eru tveir inngangar í húsið, annar í sameign allra og hinn í sameign sumra, þ. á m. leyfishafa og kærenda. Hið kærða byggingarleyfi felur ekki í sér ákvörðun um hvernig aðgangi að séreignarhlutum leyfishafa skuli háttað. Um nýtingu sameignar er fjallað í 1. mgr. 34. gr. fjöleignahúsalaga og kemur þar fram sú meginregla að sameigendur eigi jafnan rétt til nýtingar hennar. Ekki verður séð að breytt hagnýting umræddra séreignarhluta hafi í för með breytingu á notkun sameignar leyfishafa í vil á kostnað annarra sameigenda eða af hljótist aukið ónæði, röskun eða óþægindi fyrir aðra eigendur hússins.

Með hliðsjón af framangreindu verður ekki talið að kærendur eigi íhlutunarrétt vegna hinnar breyttu notkunar leyfishafa á séreign hans skv. 27. gr. fjöleignarhúsalaganna og var honum því heimilt að breyta hagnýtingu umræddrar séreignar án samþykkis sameigenda, sbr. 2. mgr. nefndrar lagagreinar.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður ekki séð að hið kærða byggingarleyfi sé haldið annmörkum sem raskað geti gildi þess og verður kröfu kærenda um ógildingu þess því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar staðgengils byggingarfulltrúa frá 24. mars 2017 að samþykkja byggingarleyfi til þess að breyta tveimur eignarhlutum á 2. hæð Hafnarstrætis 99-101 í gistiskála.

93/2017 Egilsgata

Með

Árið 2018, föstudaginn 21. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 93/2017, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Borgarbyggð frá 3. ágúst 2017 um að samþykkja umsókn um byggingarleyfi til að útbúa þrjár stúdíóíbúðir á neðri hæð Egilsgötu 6 og breyta annarri hæð.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 23. ágúst 2017, er barst nefndinni 24. s.m., kærir Ikan ehf., Egilsgötu 4, Borgarnesi, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Borgarbyggð frá 3. ágúst 2017 að samþykkja umsókn um byggingarleyfi til að útbúa þrjár stúdíóíbúðir á neðri hæð Egilsgötu 6 og breyta annarri hæð. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Borgarbyggð 2. október 2017.

Málsatvik og rök: Með úrskurði í máli nr. 57/2013, uppkveðnum 24. september 2015, felldi úrskurðarnefndin úr gildi byggingarleyfi fyrir Egilsgötu 6. Fól byggingarleyfið í sér heimild til að breyta íbúðarhúsi og geymslu á lóðinni í þrjár stúdíóíbúðir á fyrstu hæð og eina íbúð á annarri hæð. Með bréfi, dags. 28. september 2015, sótti leyfishafi að nýju um framangreindar breytingar. Á fundi sveitarstjórnar 8. október s.á. var samþykkt að fram færi grenndarkynning vegna umsóknarinnar. Fór hún fram og á fundi sveitarstjórnar 9. júní 2016 voru lögð fram og samþykkt drög að svörum við athugasemdum sem bárust. Var skipulags- og byggingarfulltrúa jafnframt falið að gefa út byggingarleyfi. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 3. ágúst 2017 var byggingarleyfisumsóknin samþykkt og var byggingarleyfi gefið út 21. s.m.

Kærandi bendir á að bókanir nefnda sveitarfélagsins og sveitarstjórnar séu ekki í samræmi við kröfur 19. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 eða leiðbeiningar um ritun fundargerða sveitarfélaga, sem settar séu með stoð í nefndu ákvæði. Í fundargerð umhverfis-, skipulags- og landbúnaðarnefndar frá 6. júní 2016 sé ekki skráð dagsetning máls eða gagna sem til umfjöllunar hafi verið. Þá vanti einnig upplýsingar um aðila máls og meginefni máls og hvaða atriði máls séu til umfjöllunar. Einnig séu gerðar aðrar alvarlegar athugasemdir við málsmeðferð sveitarfélagsins við samþykkt á umsókn um hið kærða byggingarleyfi.

Af hálfu Borgarbyggðar er tekið fram að sveitarfélagið mótmæli öllu því sem fram komi í kæru hvað varði það að málsmeðferð skipulags- og byggingarfulltrúa, umhverfis-, skipulags- og landbúnaðarnefndar Borgarbyggðar eða sveitarstjórnar hafi verið ábótavant við meðferð umsóknar um og afgreiðslu á hinu kærða byggingarleyfi. Umsókn leyfishafa hafi fengið þá afgreiðslu í stjórnsýslu sveitarfélagsins sem áskilin sé í skipulagslögum, mannvirkjalögum og skipulags- og byggingarreglugerðum. Þannig hafi umsókn verið grenndarkynnt, sveitarfélagið hafi tekið afstöðu til þeirra atriða sem fram hafi komið í athugasemdum hagsmunaaðila og kæranda verið greint skriflega frá. Umsóknin hafi svo verið samþykkt af byggingarfulltrúa, umhverfis-, skipulags- og landbúnaðarnefnd og sveitarstjórn.

Leyfishafa var gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum sínum vegna málsins en hann hefur ekki látið málið til sín taka fyrir nefndinni.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um ákvörðun byggingarfulltrúans í Borgarbyggð frá 3. ágúst 2017 um að samþykkja umsókn um byggingarleyfi til að útbúa þrjár stúdíóíbúðir á neðri hæð Egilsgötu 6 og breyta annarri hæð.

Ekki er í gildi deiliskipulag fyrir umrætt svæði. Í 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 kemur fram sú meginregla að gera skuli deiliskipulag fyrir svæði eða reiti þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar. Undanþágu frá þeirri skyldu er að finna í ákvæði 1. mgr. 44. gr. laganna. Þar segir að þegar sótt sé um byggingar- eða framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmd sem sé í samræmi við aðalskipulag hvað varði landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar í þegar byggðu hverfi og deiliskipulag liggi ekki fyrir þá geti skipulagsnefnd ákveðið að veita megi leyfi án deiliskipulagsgerðar, enda fari áður fram grenndarkynning.

Samkvæmt 4. mgr. 44. gr. skipulagslaga skal grenndarkynning fara fram að nýju áður en leyfi er veitt, hafi byggingar- eða framkvæmdarleyfi á grundvelli grenndarkynningar ekki verið gefið út innan eins árs frá afgreiðslu sveitarstjórnar samkvæmt 2. mgr. 44. gr. Eins og rakið var í málavöxtum þá voru á sveitarstjórnarfundi 9. júní 2016 samþykkt svör við þeim athugasemdum er bárust við grenndarkynningu og skipulags- og byggingarfulltrúa falið að gefa út byggingarleyfi. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 3. ágúst 2017 var umsóknin tekin fyrir og samþykkt. Var þá liðið rúmt ár frá afgreiðslu sveitarstjórnar. Hefði því þurft að láta fara fram grenndarkynningu að nýju áður en byggingarleyfi var samþykkt og gefið út.

Með hliðsjón af framangreindu verður að telja hina kærðu ákvörðun slíkum annmörkum háða að varði ógildingu hennar.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur tafist verulega sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Borgarbyggð frá 3. ágúst 2017 um að samþykkja umsókn um byggingarleyfi til að útbúa þrjár stúdíóíbúðir á neðri hæð Egilsgötu 6 og breyta annarri hæð.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                          Þorsteinn Þorsteinsson

 

110/2017 Hverfisgata

Með

Árið 2018, föstudaginn 14. september tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir mál nr. 110/2017 með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 130/2011:

Kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 29. ágúst 2017 um að veita byggingarleyfi fyrir breytingu á hagnýtingu sameignar fjöleignarhússins að Hverfisgötu 98.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags 23. september 2017, er barst nefndinni 27. s.m., kærir eigandi, Hverfisgötu 98 Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 29. ágúst 2017 að veita byggingarleyfi fyrir breyttri hagnýtingu á sameign fjöleignarhússins að Hverfisgötu 98. Skilja verður málskot kæranda svo að krafist sé ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 11. október 2017.

Málsatvik og rök: Hinn 29. ágúst 2017 samþykkti byggingarfulltrúinn í Reykjavík á afgreiðslufundi sínum umsókn um byggingarleyfi fyrir innréttingu kaffihúss í flokki I á jarðhæð fjöleignarhússins Hverfisgötu 98. Í verklýsingu á samþykktum teikningum kom m.a. fram að „Loftræsting frá matseld er leyst í gegnum aðliggjandi skorstein, lögn frá rými tengd við skorstein, í lögn verður komið fyrir brunaloku þar sem lögn tengist skorstein til að viðhalda brunaskilum. Komið verður fyrir útsogsblásara ofan á skorstein sem dregur loft frá rými“.

Kærandi bendir á að í verklýsingu samþykktri af byggingarfulltrúa komi fram að framkvæmdaraðili hafi í hyggju að sölsa undir sig skorstein hússins til lagningar loftræsistokks og að staðsetja eigi útsogsblásara ofan á skorsteininum. Með þessum framkvæmdum sé gengið freklega á hagsmuni annarra eigenda hússins auk þess sem óvíst sé með hljóðvist og lyktarmengun sem kunni að stafa frá blásara í þaki. Ekki hafi verið leitað samþykkis sameigenda fyrir þessum framkvæmdum líkt og gerð sé krafa um í 35. og 36. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús auk c- og d-liðar gr. 2.4.1 í byggingarreglugerð nr. 112/2012.

Af hálfu Reykjavíkurborgar er þess krafist að málinu verði vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem kærandi hafi enga hagsmuni af því að fá skorið úr kærumálinu. Breyting hafi verið gerð á áður samþykktu byggingarleyfi á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 10. október 2017. Með þeirri breytingu hafi loftræsing fyrir kaffihúsið verið tekin úr sameign og engar framkvæmdir því fyrirhugaðar lengur á sameign fjöleignarhússins.

Niðurstaða: Með hinni kærðu ákvörðun var heimiluð breyting á nýtingu skorsteins fjöleignarhússins að Hverfisgötu 98 sem er í sameign eigenda hússins. Eftir að kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni var umsókn um breytingu á byggingarleyfinu samþykkt á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 10. október 2017. Fólst breytingin í því að fallið var frá loftræsingu um skorstein hússins og hvorki yrðu gerðar breytingar á ytra útliti hússins né sameign.

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til nefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á. Með samþykkt hins nýja byggingarleyfis hinn 10. október 2017 féll hin kærða ákvörðun úr gildi og hefur hún ekki lengur réttarverkan að lögum. Hefur því enga þýðingu að fá skorið úr um gildi ákvörðunarinnar og taka afstöðu til kröfu kæranda um ógildingu hennar. Verður kærumáli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

99/2018 Drápuhlíð

Með

Vinsamlegast athugið að mál þetta var endurupptekið og úrskurður kveðinn upp að nýju 13. febrúar 2020, sjá hér.

Árið 2018, fimmtudaginn 13. september kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 99/2018, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 10. júlí 2018 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir bílskúr á lóðinni Drápuhlíð 36.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 17. júlí 2018, er barst nefndinni s.d., kærir eigandi, Drápuhlíð 36, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 10. júlí 2018 að veita leyfi fyrir byggingu bílskúrs á nefndri lóð. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kæranda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 7. og 28. ágúst 2018.

Málavextir: Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúans í Reykjavík 23. maí 2017 var tekin fyrir umsókn eiganda íbúðar að Drápuhlíð 36, dags. 9. s.m., um leyfi fyrir byggingu bílskúrs á þeirri lóð. Var erindinu vísað til skipulagsfulltrúa, sem ákvað á fundi sínum 26. s.m. að umsóknin skyldi grenndarkynnt fyrir hagsmunaaðilum. Athugasemdir bárust á kynningartíma umsóknarinnar, m.a. frá kæranda. Skipulags- og umhverfisráð afgreiddi hina grenndarkynntu umsókn 6. september 2017 með vísan til fyrirliggjandi umsagnar skipulagsfulltrúa, dags. 1. s.m., þar sem lagt var til að lengd fyrirhugaðs bílskúrs yrði færð niður í 7,5 m. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 10. júlí 2018 var umsóknin samþykkt og staðfesti borgarráð þá afgreiðslu 23. ágúst s.á.

Málsrök kæranda: Kærandi telur að fyrirliggjandi eignaskiptasamningur um fjöleignarhúsið að Drápuhlíð 36 sé ekki nægjanlegur grundvöllur samþykkis fyrir byggingu bílskúrs. Þar sé einungis mælt fyrir um hvaða íbúð fylgi réttur til að sækja um byggingarleyfi. Reykjavíkurborg hafi ekki skoðað málið nægjanlega vel. Bygging bílskúrsins muni leiða til þess að verðgildi íbúðar kæranda á jarðhæð nefndrar fasteignar rýrni verulega. Gert sé ráð fyrir að bílskúrinn rísi við hlið glugga á austurhlið íbúðar kæranda, er muni leiða til þess að ekkert sólarljós komist inn um gluggann. Þá brjóti bygging bílskúrsins gegn ákvæðum e-liðar 1. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010, 2. tl. 2. mgr. 2. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og h-liðar 1. mgr. gr. 6.2.3. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 varðandi aðgengi fyrir alla. Breidd gönguleiðar milli bílskúrs og hússins út í garð uppfylli ekki lágmarkskröfur, en breiddin sé aðeins 85-100 cm. Auk þess komi þessi litla breidd hvergi fram í gögnum málsins. Jafnframt muni umgangur til og frá garði meðfram glugganum á íbúð kæranda valda íbúum þar gríðarlegu ónæði. Hafa verði í huga að fasteignin að Drápuhlíð 36 sé um margt frábrugðin almennri húsagerð á svæðinu. Almennt séu ekki stórir og mikilvægir gluggar á veggjum er snúi að innkeyrslum eða bílskúrum og í þeim tilvikum sem gluggar snúi að bílskúr sé bílskúrinn staðsettur fyrir aftan glugganna. Þá hafi sá bílskúr sem til standi að byggja verið hækkaður og lengdur frá upprunalegum teikningum.

Málsrök Reykjavíkurborgar:
Af hálfu borgaryfirvalda er því haldið fram varðandi fjarlægð bílskúrs frá húsi að 1,0 m sé á milli útveggjar íbúðarhússins og veggjar bílskúrsins. Reglur um algilda hönnun, aðgengi fyrir alla, gildi ekki um húsnæðið, sbr. gr. 6.1.3. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Um valkvætt ákvæði sé að ræða sem ekki hafi verið gerð krafa um að farið væri að við afgreiðslu erindisins.

Athugasemdir leyfishafa:
Leyfishafi vísar til þess að málsmeðferð umsóknar um byggingarleyfi fyrir umræddum bílskúr hafi verið lögum samkvæmt. Gert hafi verið ráð fyrir bílskúr við austurhlið hússins að Drápuhlíð 36 frá byggingu þess árið 1946 og í aðalskipulagi. Ekki hafi þurft samþykki meðlóðarhafa fyrir byggingu skúrsins þar sem gert sé ráð fyrir honum á samþykktum teikningum, sbr. 28. gr. laga um fjöleignarhús nr. 26/1994. Auk þess sé byggingarréttur eiganda 1. hæðar tryggður með þinglýstum eignaskiptasamningi. Almennt séu bílskúrar í Hlíðunum 8,0 m á lengd eða lengri, en heimiluð lengd umrædds bílskúrs hafi verið minnkuð eftir athugasemdir frá kæranda. Gert sé ráð fyrir að bílskúrinn verði í 1,0 m fjarlægð frá húsi en helmingur hans sé þó lengra frá, þ.e. í 1,25 m fjarlægð, vegna innskots þar sem gluggi í kjallaraíbúð sé staðsettur. Fjarlægðin á milli fari þó niður í 90 cm meðfram skorsteininum, sem sé nægjanlegt fyrir hvers konar aðgengi. Aðalinngangar allra íbúða hússins séu að framanverðu og gengt sé út í garðinn frá bæði kjallara og íbúð á 1. hæð. Þá hafi íbúð kæranda í kjallara tekið miklum breytingum frá upprunalegu skipulagi, er hafi áhrif á birtu í íbúðinni. Allir eigendur íbúða í Drápuhlíð 36 hafi vitað frá upphafi að bílskúrsréttur væri til staðar og að hann fylgdi íbúð á 1. hæð. Kærandi hafi samþykkt þinglýstan eignaskiptasamning frá 2001, þar sem skýrt komi fram á teikningu og í texta að bílskúrsréttur sé á austurhlið og fylgi 1. hæð. Það hefði því ekki átt að koma kæranda á óvart að 17 árum síðar rísi bílskúr á lóðinni.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um veitingu byggingarleyfis fyrir bílskúr á lóðinni að Drápuhlíð 36, að undangenginni grenndarkynningu í samræmi við 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, en lóðin er á ódeiliskipulögðu svæði. Vegna framkominna athugasemda var sú breyting gerð á hinni grenndarkynntu umsókn að langhlið bílskúrsins var stytt úr 8 m í 7,5 m. Var kæranda tilkynnt um niðurstöðu málsins með bréfi, dagsettu 16. júlí 2018.

Á samþykktum teikningum að húsinu að Drápuhlíð 36 frá byggingu þess á árinu 1946 er gert ráð fyrir bílskúr við austurmörk lóðarinnar. Jafnframt er kveðið á um það í þinglýstri eignaskiptayfirlýsingu fasteignarinnar að bílskúrsrétturinn tilheyri íbúð 1. hæðar. Af þeim sökum mátti kærandi eiga von á því að bílskúr yrði byggður á umræddum stað á lóðinni. Samkvæmt 2. mgr. 28. gr. fjöleignarhúsalaga nr. 26/1994 þurfti því ekki samþykki sameigenda til að byggja bílskúrinn. Fjarlægð milli bílskúrs og húshliðar kemur fram á teikningunum frá 1946 og á teikningunum í eignaskiptayfirlýsingunni, sem kærandi undirritaði og er bundinn af. Þrátt fyrir að fyrirhugaður bílskúr sé 2,95 m á hæð, þ.e. 45 cm hærri en sá bílskúr sem upphaflega var gert ráð fyrir á teikningum, verður ekki talið að sú breyting hafi teljandi áhrif á hagsmuni kæranda. Þá ber að hafa í huga að gerð hefur verið breyting á skipulagi íbúðar í kjallara frá síðustu samþykktum teikningum frá árinu 1989, en þar er gert ráð fyrir að um sé að ræða herbergisglugga en ekki stofuglugga á austurhlið íbúðarinnar.

Í byggingarreglugerð nr. 112/2012 kemur fram í 4. mgr. gr. 6.1.1. að ávallt skuli leitast við að beita algildri hönnun þannig að byggingar og lóðir þeirra séu aðgengilegar öllum án sérstakrar aðstoðar. Þá er í gr. 6.1.3. tiltekið hvaða byggingar skuli hanna og byggðar á grundvelli algildrar hönnunar og fellur íbúðarhús eins og hér um ræðir ekki þar undir. Verður því að fallast á það með Reykjavíkurborg að henni hafi ekki verið skylt að krefjast þess við veitingu byggingarleyfisins að farið yrði að ákvæðum reglugerðarinnar um algilda hönnun við staðsetningu umrædds bílskúrs. Verður í því sambandi og að líta til þess að um er að ræða hús sem byggt var á fimmta áratug síðustu aldar og þá þegar var gert ráð fyrir bílskúrnum á lóðinni, auk þess sem ákvæði h-liðar gr. 6.2.3. á einungis við um gönguleið að byggingu en ekki að garði.

Með vísan til þess sem að framan er rakið eru ekki efni til að verða við kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 10. júlí 2018 um að samþykkja umsókn um byggingu bílskúrs á lóð nr. 36 við Drápuhlíð.

16/2017 Bárugata

Með

Árið 2018, föstudaginn 7. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 16/2017, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 14. júlí 2015 um veitingu byggingarleyfis fyrir viðbyggingu á suðausturhlið hússins að Bárugötu 23 í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags 1. febrúar 2017, er barst nefndinni 2. s.m., kæra eigendur, Bárugötu 21, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 14. júlí 2015 að samþykkja byggingarleyfi fyrir viðbyggingu á suðausturhlið hússins að Bárugötu 23 Reykjavík. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 18. febrúar 2017.

Málavextir: Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúans í Reykjavík 29. janúar 2013 var tekin fyrir umsókn um leyfi til að byggja viðbyggingu á suðausturhlið einbýlishúss á lóð nr. 23 við Bárugötu, sem er á svæði sem ekki hefur verið deiliskipulagt. Málinu var vísað til umsagnar skipulagsfulltrúa sem samþykkti á embættisafgreiðslufundi 1. febrúar 2013 að grenndarkynna tillöguna fyrir hagsmunaaðilum í nágrenninu. Tillagan var kynnt frá 8. febrúar 2013 til og með 20. mars s.á. Tveir kærenda fengu slíka kynningu en þriðji kærandinn var ekki fluttur í húsið á þeim tíma.

Ein athugasemd barst á kynningartíma þar sem bent var á að ekki væri ljóst hver fjarlægð milli húsanna nr. 21 og 23 við Bárugötu yrði eftir breytinguna og tekið fram að gæta þyrfti þess að viðbyggingin myndi ekki varpa skugga á glugga á suðvesturhlið og inngang íbúðar að Bárugötu 21. Í umsögn skipulagsfulltrúa við athugasemdina kom fram að fjarlægðin frá ystu brún viðbyggingar hússins nr. 23 að Bárugötu að stigahúsi hússins nr. 21 yrðu 3 m. Skuggavarp myndi aukast lítilsháttar á ákveðnum tímum, en fljótlega myndi skuggi núverandi húss hafa áhrif á skuggamyndunina og því hefði viðbyggingin óveruleg áhrif á hús nr. 21. Lagði skipulagsfulltrúi því til að erindið yrði samþykkt óbreytt og vísaði því til umhverfis- og skipulagsráðs sem gerði ekki athugasemdir við þá afgreiðslu með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa frá 7. maí 2013. Var málinu vísað til byggingarfulltrúa sem samþykkti byggingarleyfisumsóknina á afgreiðslufundi sínum 16. júlí 2013.

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 14. júlí 2015 var tekin fyrir umsókn um endurnýjun umrædds byggingarleyfis. Hún var samþykkt og tekið fram að erindið hefði verið grenndarkynnt frá 8. febrúar 2013 til og með 20. mars s.á. Borgarráð samþykkti afgreiðslu byggingarfulltrúa á fundi sínum 13. ágúst 2015. Byggingarleyfi fyrir framkvæmdunum var gefið út 12. maí 2017.

Málsrök kærenda:
Kærendur vísa til þess að hús þeirra, sem sé nr. 21 við Bárugötu, liggi nærri mörkun lóðarinnar við lóð nr. 23. Bæði breidd og hæð viðbyggingarinnar sé úr hófi og ekki í samræmi við götumynd svæðisins. Áætluð hæð viðbyggingarinnar sé 5 m og bil milli hennar og húss kærenda muni ekki ná 3 m. Viðbyggingin hafi veruleg áhrif á ásýnd húss þeirra og aðgengi að garði, ruslatunnum og íbúð í kjallara ásamt því að skuggavarp muni aukast.

Málsrök Reykjavíkurborgar:
Af hálfu borgaryfirvalda er farið fram á að máli þessu verði vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem kærufrestur hafi verið liðinn skv. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála þegar kæran barst nefndinni 2. febrúar 2017. Hin umþrætta ákvörðun hafi verið tekin 14. júlí 2015, en í kæru séu ekki færð rök fyrir því hvers vegna víkja ætti frá nefndu ákvæði laganna. Þá sé bent á að skv. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skuli bera stjórnsýslukæru fram innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um stjórnvaldsákvörðun og ákvæði 28. gr. laganna taki af allan vafa um að vísa beri kærunni frá en þar komi fram að óheimilt sé að sinna kæru ef meira en ár sé liðið frá því að ákvörðun var tekin.

Athugasemdir leyfishafa:
Leyfishafi tekur undir kröfur Reykjavíkurborgar um að kærunni verði vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem allir lögboðnir og mögulegir kærufrestir hafi verið löngu liðnir þegar kæra barst.

Framkvæmdum sé löngu lokið og grenndarkynning hafi farið fram þar sem nágrönnum var gefinn kostur á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri og komu athugasemdir þeirra til skoðunar. Tveir kærenda hafi samþykkt byggingaráformin og því samrýmist kæran ekki fyrri afstöðu þeirra, en engin ný gögn eða sjónarmið varðandi framkvæmdina hafi komið fram.

Niðurstaða: Í málinu er kærð ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 14. júlí 2015 um að samþykkja viðbyggingu á suðausturhlið húss nr. 23 við Bárugötu.

Frestur til að kæra ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar er einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um hina kærðu ákvörðun nema á annan veg sé mælt í lögum, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Upphaf kærufrests í máli þessu ræðst af því hvenær kærendum varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um tilvist byggingarleyfisins.

Samkvæmt 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er heimilt að víkja frá deiliskipulagsskyldu við veitingu byggingarleyfis ef fyrirhuguð framkvæmd samræmist stefnu aðalskipulags um landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar. Tekið er fram í 4. mgr. fyrrgreinds ákvæðis að hafi byggingarleyfi á grundvelli grenndarkynningar ekki verið gefið út innan eins árs frá afgreiðslu sveitarstjórnar skv. 2. mgr. skuli grenndarkynning fara fram að nýju áður en leyfi sé gefið út.

Byggingarfulltrúi samþykkti hin kærðu byggingaráform 16. júlí 2013 að undangenginni grenndarkynningu og umfjöllun skipulagsráðs og samþykkti byggingaráformin að nýju 14. júlí 2015. Borgarráð staðfesti þá afgreiðslu 13. ágúst s.á. en byggingarleyfi fyrir framkvæmdinni var ekki gefið út af byggingarfulltrúa fyrr en 12. maí 2017, eða eftir að kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni. Ljóst er að meira en ár leið frá því að borgarráð samþykki leyfið þar til það var gefið út. Samkvæmt 4. mgr. 44. gr. skipulagslaga hefði því borið að grenndarkynna byggingarleyfisumsóknina að nýju áður en leyfið var gefið út en það var ekki gert. Ekki liggur fyrir að kærendum hafi verið tilkynnt um endurnýjun samþykkis byggingaráformanna, sem átti sér stað tveimur dögum áður en fyrri ákvörðun hefði fallið niður skv. 4. mgr. 2.4.2. gr. byggingarreglugerðar nr. 112/2012 eða að þeim hafi verið leiðbeint um kæruleið og kærufrest vegna hennar í samræmi við 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Máttu kærendur því vænta þess að samþykki byggingaráformanna væru brott fallin eða að grenndarkynning vegna umræddrar viðbyggingar yrði endurtekin áður en byggingarleyfi yrði gefið út. Verður samkvæmt framansögðu ekki fullyrt að kærendur hefðu mátt vita af hinni kærðu ákvörðun fyrr en í aðdraganda þess að málið var kært til úrskurðarnefndarinnar. Verður við það að miða að kæran hafi í öllu falli borist innan 12 mánaða frá vitneskju kærenda um hina kærðu ákvörðun og verður málið tekið til efnismeðferðar á grundvelli 1. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, þar sem afsakanlegt þykir að kæran hafi mögulega borist eftir lok kærufrests.

Skráð byggingarár hússins samkvæmt Þjóðskrá Íslands er 1922. Fram kemur í 30. gr. laga nr. 80/2012 um menningarminjar að eigendum húsa sem ekki njóta friðunar en byggð voru 1925 eða fyrr sé skylt að leita álits Minjastofnunar Íslands með minnst sex vikna fyrirvara ef þeir hyggjast breyta þeim, flytja þau eða rífa. Í 2. mgr. sömu lagagreinar segir að byggingarfulltrúum beri að fylgjast með því að eigendur húsa og mannvirkja leiti eftir áliti Minjastofnunar áður en leyfi sé veitt til framkvæmda. Þá kemur fram í 3. mgr. ákvæðisins að álit Minjastofnunar Íslands skuli liggja fyrir áður en leyfi sé veitt til þeirra framkvæmda sem fjallað sé um í greininni og ber í byggingarleyfinu að taka tillit til skilyrða sem Minjastofnun leggur til í áliti sínu. Af framangreindu er ljóst að leyfishafa bar að leita álits Minjastofnunar Íslands áður en hann sótti um leyfi hjá byggingaryfirvöldum. Ekki verður séð að það hafi verið gert og var því byggingarfulltrúa óheimilt að veita umrætt byggingarleyfi án þess að álit stofnunarinnar lægi fyrir.

Vegna framangreindra annmarka á málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar verður hin kærðu ákvörðun úr gildi.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 14. júlí 2015 um veitingu byggingarleyfis fyrir viðbyggingu á suðausturhlið hússins Bárugötu 23 er felld úr gildi.

69/2017 Refasteinsstaðir ll

Með

Árið 2018, föstudaginn 7. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 69/2017, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Húnaþings vestra frá 30. maí 2017 um veitingu byggingarleyfis fyrir veiðihúsi á lóðinni Þúfu í landi Refsteinsstaða II.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 29. júní 2017, er barst nefndinni sama dag, kærir Mói ehf., eigandi jarðanna Refsteinsstaða I og Laufáss, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Húnaþings vestra frá 30. maí 2017 að veita byggingarleyfi fyrir veiðihúsi á lóðinni Þúfu í landi Refsteinsstaða II. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Húnaþingi vestra 28. júlí 2017.

Málavextir: Á fundi skipulags- og umhverfisráðs Húnaþings vestra 4. ágúst 2016 var samþykkt umsókn um stofnun 0,5 ha lóðar úr landi Refsteinsstaða II sem nefnd var Þúfa og var sú afgreiðsla samþykkt á fundi byggðaráðs 8. s.m. Hinn 3. október 2016 var sótt um byggingarleyfi fyrir veiðihúsi á lóðinni og samþykkti byggingarfulltrúi umsóknina 31. s.m. Takmarkað byggingarleyfi fyrir grunni og gólfplötu var gefið út hinn 24. nóvember 2016.

Eftir ítrekaðar athugasemdir kæranda við áform um byggingu veiðihúss á lóðinni Þúfu samþykkti skipulags- og umhverfisráð á fundi sínum 6. apríl 2017 að umsókn um byggingarleyfi fyrir veiðihúsinu yrði grenndarkynnt fyrir eigendum jarðanna Refsteinsstaða I, Laufáss og Enniskots og staðfesti sveitarstjórn þá afgreiðslu 11. apríl 2017. Umsóknin var kynnt með ódagsettu bréfi þar sem fram kom að kynning stæði frá 11. apríl 2017 með fresti til athugasemda til 11. maí s.á. Athugasemdir bárust frá kæranda á kynningartíma umsóknarinnar. Að lokinni grenndarkynningu var umsóknin tekin fyrir á fundi skipulags- og umhverfisráðs 22. maí 2017. Féllst ráðið ekki á fram komin sjónarmið í athugasemdum kæranda og lagði til við sveitarstjórn að staðfesta fyrri afgreiðslur um útskiptingu lands og stofnun byggingarreits ásamt útgáfu byggingarleyfis fyrir veiðihúsi á byggingarreitnum. Sveitarstjórn samþykkti afgreiðslu ráðsins á fundi sínum 26. maí 2017 og var kæranda tilkynnt um þær málalyktir með bréfi byggingarfulltrúa, dags. 29. s.m. Lagfærðar aðalteikningar að veiðihúsinu voru síðan samþykktar 30. maí 2017 og byggingarleyfi gefið út sama dag.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er byggt á því að grenndarkynning sé ekki tæk og að staðsetning veiðihússins fari gegn hagsmunum hans.

Veiðihúsið sé staðsett á víðavangi um 2 km frá silungasvæði Víðidalsár. Sú staðsetning fari gegn ákvæði 3.2.1 greinargerðar aðalskipulags Húnaþings vestra, þar sem segi að forðast skuli stök hús á víðavangi. Veiðihúsið sé aðeins nokkra tugi metra frá landamerkjum Refsteinsstaða I og því sé staðsetningin andstæð grenndarhagsmunum kæranda sem eiganda þeirrar jarðar. Veiðihúsinu muni fylgja truflandi og dagleg umferð í 4-5 mánuði ársins. Grenndarkynning sú sem farið hafi verið í hafi ekki verið tæk, þar sem staðsetning veiðihússins hafi ekki verið í samræmi við ákvæði aðalskipulags. Í því tilviki verði að gera deiliskipulag vegna framkvæmdarinnar, sbr. 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Vísar kærandi til umfjöllunar í bókinni „Inngangur að skipulagsrétti“ um framkvæmda- og byggingarleyfi þegar deiliskipulag liggur ekki fyrir. Þar segi að ef greind skilyrði í 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga séu ekki uppfyllt, þ.e. ef framkvæmd er ekki í samræmi við aðalskipulag, sé ekki mögulegt að beita ákvæðum um grenndarkynningu framangreindra leyfa og beri þá að deiliskipuleggja viðkomandi svæði í samræmi við 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga og fylgja viðkomandi málsmeðferðarreglum áður en leyfi séu gefin út.

Í greinargerð aðalskipulags Húnaþings vestra, þar sem fjallað sé um byggingar á landbúnaðarsvæðum, segi meðal annars svo: „Heimilt er að afmarka lóðir og reisa allt að þrjú íbúðarhús þar sem aðstæður leyfa á lögbýlum stærri en 70 ha auk þeirra húsa sem tilheyra búrekstrinum. Ný íbúðarhús skulu nýta sömu heimreið og lögbýlið og vera í ákveðnu samhengi við aðra byggð. Markmiðið er að ekki verði fjölgað tengingum við þjóðveg, að þjónusta við ný hús tengist þeirri þjónustu sem þegar er veitt og að nýjum húsum verði komið fyrir í samræmi við byggingarhefðir og yfirbragð sveitarinnar. Forðast skal stök hús á víðavangi. Heimilt er að byggja allt að 3 stök frístundahús á lögbýlum auk aðstöðu fyrir ferðaþjónustu og léttan iðnað, án þess að breyta þurfi aðalskipulagi.“ Samkvæmt framangreindu sé bygging veiðihússins á lóðinni Þúfu óheimil nema að undangengnu að minnsta kosti deiliskipulagi, enda samrýmist veiðihústillagan illa ákvæðum aðalskipulagsins um byggingu frístundahúsa.

Óheimilt hafi verið að veita byggingarleyfi til einstakra þátta framkvæmdarinnar, þ.e. til að gera grunn, sökkul og gólfplötu, áður en deiliskipulag yrði gert og áður en framkvæmd hafi verið ótæk grenndarkynning. Það sé meginregla að byggingarleyfi fyrir framkvæmd beri að gefa út í heild þegar öll skilyrði fyrir útgáfu leyfisins séu uppfyllt. Frá þessari meginreglu sé takmörkuð undantekningarregla í 1. málsl. 2. mgr. 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Þar sé kveðið á um að leyfisveitandi geti, þegar sérstaklega standi á, veitt skriflegt leyfi til einstakra þátta byggingarframkvæmda. Í athugasemdum við tilvitnað ákvæði í frumvarpi því er varð að lögum um mannvirki sé þetta útskýrt svo: „Standi sérstaklega á, t.d. þegar hönnun mannvirkis er sérstaklega umfangsmikil og séruppdrættir margir, er unnt að nýta heimild 2. mgr. og veita skriflegt leyfi til einstakra þátta byggingarframkvæmda og takmarkast leyfið þá hverju sinni við samþykkt hönnunargögn.“ Um sé að ræða undantekningarákvæði sem ekki verði beitt frjálslega og gera verði þá kröfu að beiting þess sé rökstudd hverju sinni. Enn fremur sé kveðið á um í 2.4.5. gr. byggingarreglugerðar nr. 112/2012 að leyfisveitanda sé heimilt að veita skriflegt leyfi til einstakra þátta framkvæmdar „þegar um er að ræða mjög stóra, mjög sérhæfða eða flókna byggingarframkvæmd þar sem með rökum má sýna fram á að þróunarvinna þurfi að fara fram samhliða hönnun og byggingu mannvirkis […].“ Sérstaklega sé áréttað í 2. mgr. 2.4.6. gr. að einungis „í undantekningartilvikum og þegar sérstaklega stendur á“ sé heimilt að veita skriflegt leyfi til einstakra verkþátta byggingarframkvæmda sem ekki falli undir 2.4.5. gr.

Ekki verði séð að nein rök hafi verið færð fyrir því að greind undantekningarákvæði eigi við í máli þessu. Líta verði til þess að umsókn um byggingarleyfi hafi tekið til framkvæmdarinnar í heild og ekki hafi verið farið fram á að veitt yrði takmarkað byggingarleyfi til að gera grunn, sökkul og gólfplötu eða neinn rökstuðningur færður fyrir beiðni í þá átt. Hafi því engar forsendur verið til að veita byggingarleyfi til einstakra þátta framkvæmdarinnar. Sé útgáfa byggingarleyfisins því þegar af þeirri ástæðu ógildanleg.

Málsrök Húnaþings vestra: Sveitarfélagið telur að grenndaráhrif lóðarinnar og veiðihússins, þ.m.t. umferð vegna þess, sé ekki meiri en íbúar og eigendur jarða og fasteigna í nágrenninu verði að þola vegna starfsemi á jörðunum og búrekstrar. Húsið standi alveg við núverandi veg og skapi ekki neikvæð áhrif umfram sambærilega starfsemi sem gera megi ráð fyrir á svæðinu samkvæmt ákvæðum aðalskipulags. Sérstakt ónæði sé ekki af starfsemi í húsinu eða vegna umferðar er henni tengist. Húsið og lóðin sé ekki í námunda við hús eða mannvirki á jörðum kæranda og valdi því ekki neikvæðum grenndaráhrifum. Sveitarfélagið bendi jafnframt á að umrædd lóð og hús og jarðir kæranda séu skammt frá þjóðvegi nr. 1. Umferð vegna veiðihússins og mögulegt ónæði sé því óverulegt með tilliti til umferðar um þjóðveginn.

Því sé mótmælt að óheimilt hafi verið að grenndarkynna umrædda umsókn samkvæmt 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 þar sem umsóknin sé í andstöðu við aðalskipulag. Vísað sé í því sambandi til umfjöllunar um byggingar á landbúnaðarsvæðum í kafla 3.2.1 í greinargerð aðalskipulags sveitarfélagsins og um ferðaþjónustu á landbúnaðarsvæðum í sama kafla. Þar segi að heimilt verði, þar sem aðstæður leyfi á hverju lögbýli, að hafa sérhæfðar byggingar fyrir ferðaþjónustu, þ.e. gistiaðstöðu og byggingar fyrir veitingarekstur, svo fremi sem heildarstærð þeirra fari ekki yfir 1.500 m2. Leyfið sé því ekki í andstöðu við ákvæði aðalskipulagsins. Húsið nýti sömu heimreið og fyrir sé og virðist a.m.k. hvað það varði í tengslum og samhengi við aðra byggð. Staðsetning þess samræmist þeim markmiðum sem búi að baki þessum ákvæðum, þ.e. að ekki verði fjölgað tengingum við þjóðveg og að ný hús tengist þeirri þjónustu sem þegar sé veitt.

Umfjöllun í greinargerð aðalskipulagsins um að forðast skuli stök hús á víðvangi eigi eingöngu við um íbúðarhús en ekki önnur hús, enda sé umfjöllunin í beinu framhaldi af umfjöllun um íbúðarhús á bújörðum. Takmörkun aðalskipulagsins gildi eingöngu um íbúðarhús en ekki sérhæfðar byggingar fyrir ferðaþjónustu. Ástæða þess sé sú að ekki standi sömu rök eða forsendur til þess að slík hús standi nálægt íbúðarhúsnæði á jörðum. Heppilegra sé að þau geri það ekki, enda hagsmunir og eðli slíkrar landnotkunar annað en íbúðarhúsa. Eðlilegra sé að staðsetja slík hús, þ.e. sumarhús og veiðihús, sem séu í raun ferðaþjónustu- og samkomuhús, fjarri íbúðar- og bæjarhúsum. Sé það í samræmi við hefð í sveitarfélaginu og raunar á landinu öllu. Veiðihús séu því almennt ekki staðsett nálægt bæjarhúsum.

Kærufrestur vegna hins takmarkaða byggingarleyfis, sem gefið hafi verið út 24. nóvember 2016, sé löngu liðinn. Það leyfi hafi ekki verið kært og geti því ekki verið til umfjöllunar í máli þessu. Auk þess lúti takmörkun á heimild til útgáfu leyfis til hluta framkvæmda að því að tryggja að hönnunargögn liggi almennt fyrir og að lokið hafi verið við hönnun í meginatriðum áður en leyfi hafi verið veitt til framkvæmda. Í því máli sem hér sé til umfjöllunar hafi hönnunargögn legið í meginatriðum fyrir þegar leyfið hafi verið gefið út. Leyfinu hafi því ekki verið skipt upp af þeirri ástæðu að hönnunargögn hafi vantað heldur hafi því verið skipt upp þar sem framkvæmdinni var skipt í tvennt. Nýta hafi átt hagstæð veðurskilyrði haustið og veturinn 2016 til að ljúka framkvæmdum við gerð sökkuls og plötu. Húsið, sem að öðru leyti sé byggt úr timbureiningum, hafi svo átt að rísa síðar, þ.e. í lok vetrar, enda hafi smíði við einingarnar ekki verið lokið á þeim tíma. Hafi því efnisrök búið að baki útgáfu leyfisins. Þá verði ekki séð hvaða áhrif uppskipting leyfisins geti haft á lögmæta hagsmuni kæranda.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar byggingarfulltrúa Húnaþings vestra frá 30. maí 2017 um að veita byggingarleyfi fyrir veiðihúsi á lóðinni Þúfu í landi Refsteinsstaða II. Sú lóð er á ódeiliskipulögðu svæði. Um það er deilt hvort heimiluð framkvæmd sé í samræmi við gildandi aðalskipulag og hvort heimilt hafi verið að veita hið kærða byggingarleyfi að undangenginni grenndarkynningu skv. 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki er skilyrði fyrir útgáfu byggingarleyfis m.a. að mannvirkið og notkun þess sé í samræmi við gildandi skipulag á svæðinu. Í 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga kemur fram sú meginregla að gera skuli deiliskipulag fyrir svæði eða reiti þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar. Undanþágu frá þeirri skyldu er að finna í 1. mgr. 44. gr. laganna. Þar er kveðið á um að veita megi byggingar- eða framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmd sem sé í samræmi við aðalskipulag en deiliskipulag liggi ekki fyrir ef framkvæmdin sé í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar og þá að undangenginni grenndarkynningu.

Fyrirhuguð bygging var ekki grenndarkynnt fyrir upphaflega samþykkt byggingaráform en málið var endurupptekið og úr því var bætt. Tók grenndarkynningin m.a. til kæranda sem kom á framfæri athugasemdum sínum með bréfi, dags. 9. maí 2017. Umsókn um byggingarleyfi fyrir umræddu veiðihúsi var síðan samþykkt 30. maí 2017.

Í kafla 3.2.1 í Aðalskipulagi Húnaþings vestra 2014-2026 er fjallað um stefnumörkun á landbúnaðarsvæðum. Þar kemur m.a. fram að á landbúnaðarsvæðum sé fyrst og fremst gert ráð fyrir byggingum og starfsemi sem tengist búrekstri. Ný íbúðarhús skuli nýta sömu heimreið og lögbýlið og vera í ákveðnum tengslum og samhengi við aðra byggð. Forðast skuli stök hús á víðavangi. Heimilt sé að byggja allt að þrjú stök frístundahús á lögbýlum auk aðstöðu fyrir ferðaþjónustu og léttan iðnað án þess að breyta þurfi aðalskipulagi. Þá sé heimilt að veita almenna ferðaþjónustu á landbúnaðarsvæðum og þar sem aðstæður leyfi að hafa sérhæfðar byggingar fyrir ferðaþjónustu á lögbýlum, þ.e. gistiaðstöðu og byggingar fyrir veitingarekstur, svo fremi sem heildarstærð þeirra fari ekki yfir 1.500 m2. Veiðiréttindi fylgja bújörðum sem eiga land að veiðivötnum og ám og hefur nýting slíkra hlunninda verið talin starfsemi sem tengist búrekstri þeirra jarða. Bygging og rekstur veiðihúss er því í samræmi við fyrrgreindra stefnumörkun í Aðalskipulagi Húnaþings vestra 2014-2026 og skilgreiningu landbúnaðarsvæða í q. lið 6.2. gr. skipulagsreglugerðar nr. 90/2013.

Umdeilt veiðihús er einnar hæðar og tæpir 106 m2 að stærð og mun einungis vera í notkun hluta úr ári og er samkvæmt framansögðu í samræmi við heimildir aðalskipulags varðandi landnotkun. Um er að ræða staka framkvæmd innan lögbýlis sem ekki hefur í för með sér breyttar vegtengingar. Eins og atvikum er háttað var heimilt að samþykkja hið kærða byggingarleyfi að undangenginni grenndarkynningu, sbr. 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga. Þótt veiðihúsið hljóti eðli máls samkvæmt að hafa einhver grenndaráhrif, svo sem vegna umferðar, verða þau áhrif talin óveruleg og geta ekki haft áhrif á gildi hins kærða byggingarleyfis.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúa Húnaþings vestra frá 30. maí 2017 um veitingu byggingarleyfis fyrir veiðihúsi á lóðinni Þúfu í landi Refsteinsstaða II.