Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

41/2025 Hofsbót

Með

Árið 2025, fimmtudaginn 26. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 41/2025, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Akureyrarbæjar frá 19. febrúar 2025 um að synja beiðni um endurupptöku ákvörðunar um samþykki byggingar­áforma vegna fjöleignarhúsanna Hofsbótar 2 og 4.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 17. mars 2025, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur íbúðar 01 0401 að Hofsbót 4 þá ákvörðun byggingarfulltrúa Akureyrarbæjar frá 19. febrúar 2025 að synja beiðni um endurupptöku ákvörðunar um samþykki byggingaráforma vegna fjöleignarhúsanna Hofs­bótar 2 og 4. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Akureyrarbæ 31. mars 2025.

Málavextir: Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa Akureyrarbæjar 11. apríl 2024 var samþykkt umsókn um byggingarleyfi fyrir breytingum innanhúss fyrir Hofsbót 2 og 4 er fólust í því að opna á milli húsanna tveggja. Með tölvupósti 19. júní s.á. var af hálfu byggingarfulltrúa óskað eftir uppfærðri brunahönnun vegna brunahólfunar og því beint til hönnuðar að sýna á upp­dráttum brunavarnahurð. Brunavarnauppdráttur fyrir Hofsbót 4 var uppfærður 20. s.m. og fyrir Hofsbót 2 þann 25. s.m. Í samræmi við uppfærða brunavarnauppdrætti samþykkti byggingar­fulltrúi byggingaráform á fundi sínum 27. júní s.á.

Með bréfi til byggingarfulltrúa, dags. 27. janúar 2025, bentu kærendur á að hvorki hafi legið fyrir samþykki meðeigenda né hafi verið uppfyllt skilyrði um brunavarnir vegna byggingar­leyfis fyrir breytingum á Hofsbót 4. Kröfðust þeir þess að byggingarfulltrúi tæki upp ákvörðun sína um samþykkt byggingaráforma um opnun milli húsanna. Byggingarfulltrúi svaraði erindinu með bréfi, dags. 19. febrúar s.á., þar sem beiðninni var synjað. Er það hin kærða ákvörðun í máli þessu.

Málsrök kærenda: Kærendur telja að rökstuðningi byggingarfulltrúa fyrir hinni kærðu ákvörðun sé svo áfátt að fella beri hana úr gildi. Sú framkvæmd sem um ræði í máli þessu feli í sér verulegar breytingar á fjölbýlishúsunum Hofsbót 2 og 4 sem einungis sé heimilt að gera í algjörum undantekningartilvikum að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, m.a. að fyrir liggi samþykki allra meðeigenda í húsunum, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Um sé að ræða tvö fjöleignarhús á tveimur lóðum en samkvæmt lögum nr. 26/1994 um fjöleignarhús falli allt ytra byrði húss, útveggir, burðarvirki og burðarveggir undir sameign, sbr. 1. og 2. tl. 8. gr. laganna. Þannig sé allt ytra byrði fjöleignarhússins Hofsbótar 4, útveggir og burðarvirki í sameign allra eigenda og það sama gildi fyrir Hofsbót 2. Sú framkvæmd að opna milli tveggja eignarhluta í sitthvoru fjöleignarhúsinu á sitthvorri lóðinni geti ekki talist minniháttar mannvirkjagerð eða talist til smávægilegra breytinga sem eingöngu sé tilkynningarskyld skv. f-lið gr. 2.3.6. byggingarreglugerðar nr. 112/2012.

Í lögum nr. 26/1994 sé tilgreint hvað falli undir sameign eigenda slíkra húsa og að eigendur eigi óskoraðan rétt á að taka þátt í öllum ákvörðunum er varði sameignina, bæði innan húss og utan, og sameiginleg málefni sem snerti hana beint eða óbeint. Skuli ákvarðanir vera teknar á húsfundum og fari eftir eðli ákvörðunar hverju sinni hve margir þurfi að samþykkja hana. Samþykki allra eigenda þurfi fyrir breytingum á þinglýstri eignaskiptayfirlýsingu og hlut­fallstölum skv. 18. gr., sbr. 1. tl. a-liðar 41. gr., fyrir varanlegri skiptingu séreignar í fleiri einingar skv. 3. mgr. 21. gr., sbr. 4. tl. a-liðar 41. gr., fyrir verulegum breytingu á hagnýtingu séreignar skv. 1. mgr. 27. gr., sbr. 5. tl. a-liðar 41. gr., vegna bygginga, framkvæmda og endur­bóta sem ekki hafi verið gert ráð fyrir í upphafi og á samþykktri teikningu sem hafi í för með sér verulegar breytingar á sameign skv. 2. mgr. 28. gr. og 1. mgr. 30. gr., sbr. 6. tl. a-liðar 41. gr., og vegna verulegra breytingar á hagnýtingu og afnotum sameignar skv. 31. gr., sbr. 7. tl. a-liðar 41. gr.

Í 36. gr. laga nr. 26/1994 sé kveðið á um það að eiganda sé á eigin spýtur óheimilt að framkvæma nokkrar breytingar á sameign með ákveðnum undantekningum sem eigi ekki við í máli þessu. Hafi eigendum í hvoru húsi fyrir sig því verið óheimilt að framkvæma breytingarnar án samþykkis meðeiganda á grundvelli laga nr. 26/1994 og byggingarfulltrúa ekki mátt veita leyfi fyrir framkvæmdinni. Breyti engu í því sambandi þó gatið á veggnum sjáist ekki utan frá. Það að opna á milli eignarhluta í sitthvoru húsinu sé ekki sambærilegt þeim tilvikum þegar eigandi geri op á burðarvegg innan viðkomandi eignarhluta að uppfylltum skilyrðum um að burðarvirki sé ekki veikt. Opnunin feli því ekki einungis í sér framkvæmd við umbúnað innan hvors eignarhluta fyrir sig í sitthvoru húsinu heldur hafi verið að opna á milli tveggja húsa og þannig fara á svig við þá meginreglu sem gildi um skilgreiningu hugtaksins húss í skilningi laga nr. 26/1994.

Með opnun milli fjöleignarhúsanna og samnýtingu eignarhlutanna hafi aðalinngangi í eignar­hluta 01 0101 að Hofsbót 4 verið lokað með veggjum innan frá og filmur settar í glugga og hurðir. Sé bakdyrainngangurinn nú notaður inn í eignarhlutann, sem einnig sé starfsmanna­inngangur fyrir eignarhlutana tvo í sitthvoru húsinu. Hafi umgengni um bílastæði, m.a. um bílastæði kærenda sem standi sitthvoru megin við bakdyrainnganginn, aukist verulega við breytingarnar.

Ekki sé fjallað um svona tilvik í lögum nr. 26/1994 enda geri lögin ekki ráð fyrir slíkum heimildum. Eingöngu sé að finna ákvæði um slíkt í byggingarreglugerð en í gr. 9.7.4., sem sé undantekningarákvæði, sé að finna viðmiðunarreglu þess efnis að sambyggðar byggingar megi hafa sameiginlegan eldvarnarvegg á lóðarmörkum. Þegar tvær sambyggðar byggingar standi á sitthvorri lóðinni sé leyfisveitanda heimilt að samþykkja tímabundna opnun á eldvarnarvegg á lóðarmörkum enda séu brunavarnir tryggðar með fullnægjandi hætti. Í leiðbeiningum frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun komi fram að þetta geti átt við þegar sami eigandi eigi húsin beggja vegna eldvarnarveggjar og ætli að nýta húsin saman. Í þessu tilviki eigi hvorki sami eigandinn bæði húsin né umrædda eignarhluta. Ljóst sé að ef ætti að veita slíka heimild, eins og um ræði í þessu tilviki, þurfi samþykki allra eigenda viðkomandi húsa enda sé um að ræða verulegar breytingar þar sem verið sé að hagnýta tvo eignarhluta saman í sitthvoru húsinu á sitthvorri lóðinni eins og um einn eignarhluta væri að ræða.

Samþykki meðeigenda á grundvelli ákvæða fjöleignarhúsalaga hefði þurft að liggja fyrir áður en byggingarfulltrúi hefði veitt leyfið og þá einungis fyrir tímabundinni opnun og að upp­fylltum skilyrðum byggingarreglugerðar um brunavarnir. Hefði þurft að setja ákvæði um slíka tímabundna kvöð þess efnis á húsin sem allir eigendur beggja húsanna hefðu þurft að skrifa undir.

Stjórnvaldi geti verið skylt að endurupptaka mál á grundvelli 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 eða eftir atvikum á ólögfestum grundvelli hafi verulegum annmörkum verið til að dreifa við undirbúning ákvörðunar. Með vísan til framangreint sé ljóst að rökstuðningur byggingar­fulltrúa og undirbúningur að ákvörðun hans hafi verið verulega ábótavant.

Málsrök Akureyrarbæjar: Sveitarfélagið bendir á að samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála sé kærufrestur til nefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina. Sú stjórnvaldsákvörðun sem kærendur vilji fá ógilta hafi verið tekin á afgreiðslufundi byggingar­fulltrúa 11. apríl 2024 og sé kærufrestur því liðinn.

Þegar kærendur hafi sent byggingarfulltrúa erindi 27. janúar 2025 hafi verið liðnir rúmir níu mánuðir frá því að ákvörðun um byggingarleyfi hafi verið tekin. Erindið beri ekki með sér að hafa verið beiðni um endurupptöku í samræmi við 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og því hafi erindinu verið svarað af byggingarfulltrúa 19. febrúar 2024 í samræmi við svarreglu stjórnvalda. Ekki sé unnt að líta á bréf kærenda um formlega beiðni um endurupptöku enda hafi hvorki verið vísandi til viðeigandi lagaákvæða stjórnsýslulaga né fullnægjandi rök færð fyrir því að taka ætti málið upp að nýju. Ekki hafi verið vísað til þess að ákvörðun byggingar­fulltrúa hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða ákvörðun hafi byggst á atvikum sem breyst hafi verulega frá því að ákvörðun hafi verið tekin. Í 20. gr. samþykktar fyrir skipulagsráð Akureyrarbæjar sé kveðið á um endurupptöku eftir að skipulags­ráð eða starfsmenn þess hafi tekið ákvörðun. Þar sé sérstaklega tekið fram að aðili skuli beina kröfu um endurupptöku máls til bæjarráðs. Í 2. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga sé að finna heimild til að taka beiðni um endurupptöku til greina að þremur mánuðum liðnum en þó einungis að fengnu samþykki frá öðrum aðilum máls. Það samþykki liggi ekki fyrir í málinu auk þess sem sýnt hefði verið fram á að ástæður endurupptökubeiðni væru ekki til staðar.

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 geti þeir einstaklingar einir átt aðild að kærumáli fyrir nefndinni sem eigi lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra varði. Fram­kvæmd sú sem um ræði hafi verið minniháttar breyting og tilkynningarskyld mannvirkja­gerð sem sé undanþegin byggingarheimild- og leyfi. Opnun á milli fasteignanna hafi engin áhrif á sameign eða hlutfallstölur og ekki sé um eignatilfærslu að ræða. Þá kalli framkvæmdin ekki á breytingu á eignaskiptayfirlýsingu og hafi engan kostnað í för með sér fyrir kærendur. Kærendur hafi því ekki einstaklega og verulega hagsmuni af úrlausn málsins og beri því að vísa því frá.

Samkvæmt 1. mgr. 10. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki skuli umsókn um byggingarleyfi fylgja samþykki meðeigenda samkvæmt ákvæðum laga um fjöleignarhús nr. 26/1994. Þetta feli þó ekki í sér að samþykki meðeigenda sé ófrávíkjanleg krafa fyrir útgáfu byggingarleyfis. Þótt veitt hafi verið byggingarleyfi fyrir breytingunni þá hafi þetta samt sem áður einungis verið tilkynningaskyld framkvæmd og samþykki annarra eigenda því ekki áskilið. Um sé að ræða mannvirkjagerð sem falli undir f-lið gr. 2.3.6. í byggingarreglugerð nr. 112/2012, sbr. 3. mgr. 10. gr. laga um mannvirki, tilkynningarskyld mannvirkjagerð sem sé undanþegin byggingarheimild- og leyfi. Samkvæmt f-lið teljist það til lítilsháttar breytingar á brunahólfum ef breytingin nemi minna en 5% af hjúpfleti brunahólfandi hluta, þó aldrei meiri en 5 m². Opið sem gert hafi verið á milli húsanna tveggja sé 3,9% af hjúpfletinum. Því sé um að ræða lítilsháttar breytingu sem sé undanþegin byggingarheimild- og leyfi. Byggingarfulltrúi hafi reiknað út stærð ops auk þess sem minnisblað frá fyrirtæki sem sérhæfir sig í stjórnsýslu byggingarmála staðfesti að opið nái ekki 5%. Það liggi fyrir að sami raunverulegi eigandi sé að fyrstu hæð í húsunum tveimur en á sitthvorri kennitölunni. Fyrir liggi yfirlýsing frá eiganda rýmis á 1. hæð Hofsbótar 4 þar sem fram komi að eigandi veiti leyfi til tímabundinnar opnunar á milli sinnar eignar yfir í Hofsbót 2 og gildi leyfið á meðan leigjandi beggja fasteignanna hafi starfsemi í báðum bilunum.

Byggingarfulltrúi hafi samþykkt framkvæmdina 11. apríl 2024 og síðar gert kröfu um að sett yrði brunahurð í gatið þar sem um sitthvort brunahólfið væri að ræða. Fyrir liggi aðaluppdrættir fyrir Hofsbót 2 og 4 sem hafi verið yfirfarnir af brunahönnuði þar sem fram hafi komið að brunavarnahurð með segli verði í opinu. Byggingarleyfi hafi verið veitt fyrir fram­kvæmdunum, en nægilegt hefði verið að tilkynna um framkvæmdirnar og byggingarleyfi því í raun óþarft. Hvað varði tímabundna opnun skv. viðmiðunarreglum 9.7.4. gr. byggingar­reglugerðar komi fram í leiðbeiningum Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar um greinina að viðmiðunarreglur séu frávíkjanlegar með tækniskiptum eða brunahönnun, enda sé sýnt fram á að brunaöryggi sé ekki skert og uppfyllt séu meginmarkmið reglugerðar og meginreglur þeirra ákvæða sem vikið sé frá. Ekki sé því um ófrávíkjanlegt skilyrði að ræða að bóka hefði átt um tímabundna opnun. Það sé ljóst að um tímabundna opnun var að ræða og nú sé eldvarnarhurð milli rýmanna vegna kröfu frá byggingarfulltrúa þar að lútandi.

Viðbótarathugasemdir kærenda: Kærendur andmæla því að kærufrestur sé liðinn. Í hinni kærðu ákvörðun sé að finna rökstuðning fyrir synjun á endurupptöku en fyrir liggi að slík ákvörðun sé kæranleg, sbr. úrskurð úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála frá 3. maí 2024 í máli nr. 23/2024.

Kærendur ítreki sjónarmið sín um að samþykki meðeigenda hafi þurft að liggja fyrir á grundvelli ákvæða fjöleignarhúsalaga nr. 26/1994 og að framkvæmdin teljist ekki vera minni­háttar breyting sem fallið geti undir undanþáguákvæði byggingarreglugerðar nr. 112/2012. Þegar opna eigi EI 120 eldvarnarvegg sé um byggingarleyfisskylda framkvæmd að ræða. Ekki verði annað ráðið af útreikningum sem framkvæmdaraðili hafi látið gera fyrir sig en að veggurinn í sameign (lagnarými), sem ekki sé í sama brunahólfi, hafi verið tekinn með í útreikninginn. Án hans sé opið um 6,5% en ekki tæp 5%.

Niðurstaða: Í máli þessu er kærð sú ákvörðun byggingarfulltrúa Akureyrarbæjar frá 19. febrúar 2025 að synja beiðni um endurupptöku ákvörðunar hans um samþykki byggingar­áforma vegna fjöleignarhúsanna Hofsbótar 2 og 4.

Sveitarfélagið hefur krafist frávísunar kærumálsins á þeim grundvelli að kærufrestur sam­þykktra byggingaráforma frá 11. apríl 2024 sé löngu liðinn. Sú ákvörðun er ekki kærð í þessu máli heldur eins og fyrr greinir ákvörðun um synjun endurupptöku frá 19. febrúar 2025. Sveitarfélagið hefur einnig krafist frávísunar með vísan til þess að hin kærða ákvörðun sé ekki kæranleg þar sem einungis hafi verið um að ræða svar við erindi kærenda í samræmi við svarreglu stjórnvalda, en ekki formlega synjun á beiðni um endurupptöku. Að virtum gögnum málsins verður ekki á það fallist þar sem í erindi kærenda frá 27. janúar 2025 kemur skýrlega fram krafa um að byggingarfulltrúi „taki upp ákvörðun sína um samþykki byggingaráforma“ og fól svar embættisins frá 19. febrúar s.á. í sér synjun á þeirri kröfu. Þá verður að hafna þeim sjónarmiðum sveitarfélagsins að kærendur skorti lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins enda eru þeir aðilar að því máli sem ágreiningur þessa máls lýtur að, þ.e. lögmæti ákvörðunar byggingarfulltrúa að synja beiðni þeirra um endurupptöku. Að lokum verður ekki talið að 20. gr. samþykktar fyrir skipulagsráð Akureyrarbæjar, sem samþykkt var í bæjarstjórn 17. desember 2024 og sveitarfélagið vísar til í umsögn sinni, hafi þýðingu í máli þessu þar sem ákvæðið á við um skipulagsmál og ákvarðanir sem teknar eru á grundvelli skipulagslaga nr. 123/2010. Með hliðsjón af framangreindu verður mál þetta því tekið til efnismeðferðar.

Stjórnvaldi getur verið skylt að endurupptaka mál skv. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 eða eftir atvikum á grundvelli ólögfestra reglna stjórnsýsluréttarins hafi verulegum annmörkum verið til að dreifa við undirbúning ákvörðunar. Endurupptaka máls getur leitt til breytinga á fyrri ákvörðun eða eftir atvikum afturköllunar hennar í samræmi við 25. gr. stjórnsýslulaga, en á móti slíkri niðurstöðu geta mælt réttmætar væntingar leyfishafa. Eðli þeirrar ákvörðunar sem um er að ræða kann að skipta máli, en á sviði skipulags- og byggingarmála hafa réttarvörslu­sjónarmið oft þýðingu sem og sjónarmið um mikilvægi þess að komast hjá eyðileggingu verðmæta. Getur stjórnvaldi jafnframt verið rétt að gefa frest til úrbóta.

Í endurupptökubeiðni sinni til byggingarfulltrúa vísuðu kærendur til þess að samþykki með­eigenda Hofsbótar 2 og 4 hefði þurft að liggja fyrir við samþykkt byggingaráforma og vísuðu þar að lútandi til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki, sbr. 1. og 2. tl. 8. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús. Um verulegar breytingar væri að ræða sem háðar væru samþykki allra eigenda. Í svarbréfi byggingarfulltrúa var beiðni kærenda synjað með vísan til þess að fram­kvæmdin félli undir undanþáguheimild f-liðar gr. 2.3.6. byggingarreglugerðar nr. 112/2012 og hefði hvorki verið þörf á byggingarleyfi né samþykki meðeigenda.

Samkvæmt 1. mgr. 10. gr. laga nr. 160/2010 skal umsókn um byggingarleyfi meðal annars fylgja samþykki meðeigenda samkvæmt lögum um fjöleignarhús. Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. þeirra laga er sameign allir þeir hlutar húss, bæði innan og utan, og lóðar sem ekki eru ótvírætt í séreign. Í 2. mgr. segir enn fremur að þótt fjöleignarhús samanstandi af einingum eða hlutum (stigahúsum) sem eru sjálfstæðar eða aðgreindar að einhverju leyti og hvort sem þau standa á einni lóð eða fleirum er allt ytra byrði hússins alls staðar, þak, útveggir og gaflar í sameign allra eigenda þess. Allt burðarvirki húss, þ.m.t. burðarveggir, er í sameign eigenda fjöleignarhúss samkvæmt 2. tl. 1. mgr. 8. gr., sbr. 3. tl. 1. mgr. 5. gr. fjöleignarhúsalaga. Breytingar, endur­bætur og fram­kvæmdir á sameign sem víkja frá samþykktum teikningum eru háðar sam­þykki eigenda fjöleignarhúss skv. 30. gr. laganna, eftir atvikum samþykki einfalds eða aukins meiri­hluta eða allra eigenda. Enn fremur segir í 39. gr. laganna að allir hlutaðeigandi eigendur eigi óskoraðan rétt á að eiga og taka þátt í öllum ákvörðunum er varði sameignina, bæði innanhúss og utan, og sameiginleg málefni sem snerti hana beint og óbeint, en af 2. mgr. greinarinnar leiðir að slíkur ákvörðunarréttur á við um breytingar og hvers kyns framkvæmdir.

Sá veggur sem hin umdeilda samþykkt byggingarfulltrúa snertir er í sameign allra eigenda að Hofsbót 2 og 4. Telja verður að hin umþrætta framkvæmd feli í sér smávægilega breytingu á sameign þar sem einungis var um að ræða opnun á milli tveggja séreignarhluta sem gögn málsins bera með sér að hafi ekki haft áhrif á burðarvirki húsanna. Var því þörf á samþykki einfalds meiri hluta meðeigenda miðað við eignarhluta fyrir hinum umdeildu framkvæmdum, sbr. 3. mgr. 30. gr. fjöleignarhúsalaga, en tekið skal fram að undanþáguheimild frá byggingar­leyfi í byggingarreglugerð getur ekki hnekkt rétti meðeigenda til þátttöku í ákvörðunum er varða sameign. Bar byggingarfulltrúa því í samræmi við 1. mgr. 10. gr. mannvirkjalaga að sjá til þess að áskilið samþykki meðeigenda Hofsbótar 2 og 4 lægi fyrir áður en hann samþykkti byggingaráformin. Að fenginni þeirri niðurstöðu verður að álíta rökstuðningi hinnar kærðu ákvörðunar um að synja um endurupptöku málsins svo áfátt að fella verði hana úr gildi.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa Akureyrarbæjar frá 19. febrúar 2025 um að synja beiðni um endurupptöku ákvörðunar um samþykki byggingar­áforma vegna fjöleignarhúsanna Hofsbótar 2 og 4.

73/2025 Grettisgata

Með

Árið 2025, föstudaginn 20. júní, tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 130/2011:

Mál nr. 73/2025, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 8. apríl 2025 um að samþykkja umsókn um leyfi til að endurbyggja stálgrindarhús að Grettisgötu 87.

 Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða

úrskurður

um kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 8. maí 2025, er barst nefndinni sama dag, kærir Embla fasteignafélag ehf., eigandi fasteigna að Rauðarárstíg 12 og 14, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 8. apríl 2025 að samþykkja umsókn um leyfi til að endurbyggja stálgrindarhús að Grettisgötu 87. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Til vara, þrautavara og þrautaþrautavara er þess krafist að ákvörðuninni verði breytt þannig að áskilið sé samþykki allra aðila, aukins meirihluta eða meirihluta í Lóðarfélaginu Laugavegi 116–118 og Grettisgötu 87–89. Kærandi gerir einnig kröfu um að framkvæmdir verði stöðvaðar til bráðabirgða á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Verður nú tekin afstaða til framkominnar stöðvunarkröfu, sbr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Málsatvik og rök: Árið 2016 brann iðnaðarhús á lóð Grettisgötu 87 í Reykjavík. Á fundi byggingarfulltrúans í Reykjavík 8. apríl 2025 var tekin fyrir umsókn um leyfi til að endurbyggja húsið. Í fundargerð fundarins kemur fram að sótt sé um leyfi til að „endurbyggja stálgrindarhús klætt steinullareiningum eftir bruna á kjallara sem fyrir er og innrétta réttingaverkstæði og heildverslun á 1. hæð og bílgeymslu í kjallara á lóð nr. 87 við Grettisgötu.“ Ekki voru gerðar skipulagslegar athugasemdir við erindið og samþykkti byggingarfulltrúi umsóknina.

Kærandi bendir á að hann, sem eigandi fasteignanna að Rauðarárstíg 12 og 14, og eigandi fasteignarinnar að Grettisgötu 87 séu meðlimir í sama lóðarfélagi, þ.e. Lóðarfélaginu Laugavegi 116–118 og Grettisgötu 87–89, en félagið starfi á grundvelli laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús. Hluti bílageymslu í kjallara á lóð nr. 87 við Grettisgötu sé í sameign lóðarfélagsins og því hafi borið að afla samþykki meðeiganda áður en byggingaráformin hafi verið samþykkt, sbr. 10. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Þá sé hin kærða ákvörðun í ósamræmi við fyrri afgreiðslur byggingarfulltrúa og skipulagsfulltrúa sem og skipulagsáætlun svæðisins. Krafist sé stöðvunar framkvæmda, sbr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, enda séu framkvæmdir yfirvofandi.

Reykjavíkurborg gerir kröfu um frávísun málsins þar sem samþykki byggingaráforma sé ekki ákvörðun sem bindi enda á stjórnsýslumál. Ekki hafi verið gefið út byggingarleyfi og því séu engar framkvæmdir til þess að stöðva.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda séu þær hafnar eða yfirvofandi, sbr. 2. mgr. sömu lagagreinar. Þá getur úrskurðarnefndin að sama skapi frestað réttaráhrifum ákvörðunar komi fram krafa um það af hálfu kæranda, sbr. 3. mgr. 5. gr. Með sama hætti er kveðið á um það í 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar til bráðabirgða meðan málið er til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan er sú að kæra til æðra stjórnvalds frestar ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og eru heimildarákvæði fyrir stöðvun framkvæmda eða frestun réttaráhrifa kærðrar ákvörðunar undantekning frá nefndri meginreglu sem skýra ber þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um stöðvun framkvæmda eða frestun réttaráhrifa. Almennt mælir það á móti því að fallast á kröfu um stöðvun ef fleiri en einn aðili eru að máli og þeir eiga gagnstæðra hagsmuna að gæta. Einnig geta komið til álita þau tilvik þar sem kæruheimild verður í raun þýðingarlaus ef framkvæmdir eru ekki stöðvaðar, svo sem ef sú framkvæmd sem krafist er stöðvunar á er óafturkræf.

Mál þetta snýst um samþykki á byggingarleyfisumsókn fyrir endurbyggingu iðnaðarhúsnæðis en ekki verður talið að þær fyrirhuguðu framkvæmdir séu óafturkræfar. Með hliðsjón af því og að virtum framangreindum lagaákvæðum og þeim sjónarmiðum sem liggja að baki þeim verður ekki talin knýjandi þörf á að stöðva framkvæmdir á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Verður kröfu kæranda þess efnis því hafnað.

Rétt þykir þó að taka fram að framkvæmdaraðili ber áhættu af úrslitum kærumálsins kjósi hann að hefja framkvæmdir áður en niðurstaða þessa máls liggur fyrir.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða á grundvelli ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 8. apríl 2025 um að samþykkja umsókn um leyfi til að endurbyggja stálgrindarhús að Grettisgötu 87.

72/2025 Vorbraut

Með

Árið 2025, föstudaginn 6. júní, tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 130/2011:

 

Mál nr. 72/2025, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Garðabæjar frá 6. febrúar 2025 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Hnoðraholts norður og ákvörðunum byggingarfulltrúa frá 8. apríl s.á. um að samþykkja byggingaráform vegna Vorbrautar 8-12 annars vegar og Vorbrautar 14 hins vegar.

 Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða

úrskurður

um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 6. maí 2025, er barst nefndinni 7. s.m., kæra HABS ehf., A og B, D og Admin ehf., lóðarhafar Skerpluholts 1, 3, 5 og 7, þá ákvörðun bæjarstjórnar Garðabæjar frá 6. febrúar 2025 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Hnoðraholts norður.  Jafnframt eru kærðar ákvarðanir byggingarfulltrúa frá 8. apríl 2025 um að samþykkja byggingaráform vegna Vorbrautar 8-12 annars vegar og Vorbrautar 14 hins vegar. Er þess krafist að ákvarðanirnar verði felldar úr gildi, en til vara að felldur verði úr gildi sá hluti samþykktra byggingaráforma Vorbrautar 8–12 er varðar hæðarkóða lóða, bílakjallara og bílastæði. Kærendur gera einnig kröfu um að framkvæmdir við Vorbraut 8–12 og 14 verði stöðvaðar til bráðabirgða á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Verður nú tekin afstaða til framkominnar stöðvunarkröfu, sbr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Málsatvik og rök: Að undangenginni auglýsingu skv. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 var á fundi bæjarstjórnar Garðabæjar 6. febrúar 2025 tekin fyrir og samþykkt tillaga að breytingu á deiliskipulagi Hnoðraholts norður er fólst m.a. í því að breikka byggingarreit fjölbýlishúsa (F3) úr 14 m í 15 m, sameina lóðir við Vorbraut 8–12 í eina lóð og heimila þar byggingu sameiginlegs bílakjallara. Var breytingin birt í B-deild Stjórnartíðinda 7. apríl 2025. Næsta dag samþykkti byggingarfulltrúi umsóknir um byggingarleyfi fyrir fjölbýlishúsum á lóðum Vorbrautar 8–12 og 14. Hinn 29. s.m. gaf byggingarfulltrúi út byggingarleyfi fyrir framkvæmdum að Vorbraut 8–12.

Kærendur vísa til þess að framkvæmdir við Vorbraut 8–12 og 14 nái að mörkum lóða þeirra og hafi þar að auki áhrif inn fyrir lóðamörk vegna hættu á skriði jarðvegs. Til standi að grafa allt að 1,2 m inn fyrir lóðarmörk þeirra en kærendur hafi ekki veitt samþykki fyrir framkvæmdum innan sinna lóða. Þegar af þeirri ástæðu beri að fallast á kröfu um stöðvun. Veruleg hætta sé á tjóni á mannvirkjum og lóðum vegna óvissu um öryggi og framvindu framkvæmda og graftar og tilfinnanlegs skorts á undirbúningi, útreikningum og gögnum vegna fyrirliggjandi framkvæmda. Ekki sé um afturkræfar framkvæmdir að ræða að öllu leyti, því að jarðvegsskrið og skemmdir á mannvirkjum verði ekki tekin til baka. Samþykkt byggingaráforma feli ekki í sér heimild til framkvæmda og því sé enn engin heimild fyrir þeim framkvæmdum sem standi yfir á Vorbraut 14.

Garðabær bendir á að lóðarhafi Vorbrautar 8–12 hafi áður verið veitt heimild til að hefja jarðvinnu í september 2024 og hafi framkvæmdir þær sem krafist sé stöðvunar á í þessu máli að mestu leyti farið fram á grundvelli þeirrar heimildar. Framkvæmdir hafi um tíma legið niðri en hafist aftur þegar byggingarleyfi hafi verið veitt. Sé nú lögð áhersla á að ljúka gerð útveggjar bílageymslu, sem sé jafnframt stoðveggur gagnvart lóðum kærenda, til að tryggja öryggi á svæðinu. Kærendur hafi ekki hæðarsett lóðir sínar í samræmi við skipulag sem auki á þann hæðarmun sem nú sé lóðamörkum þeirra gagnvart lóðum 8–12 og 14 við Vorbraut. Því sé mótmælt að verið sé að grafa inn á lóðir kærenda ef miðað sé við rétta hæðarsetningu. Jarðvegsframkvæmdum við Vorbraut 8–12 sé að mestu lokið og hafi því enga raunhæfa þýðingu að stöðva þær á þessu stigi. Um sé að ræða framkvæmdir sem í eðli sínu séu afturtækar og undir yfirborði lóðar. Nauðsynlegt sé að koma fyrir stoðvegg sem fyrst til að styðja við jarðveg á lóðum kærenda og sé óráðlegt að fresta þeirri framkvæmd, enda geti það ollið tjóni. Stöðvun framkvæmda hafi það að markmiði að koma í veg fyrir byggingu óafturkræfra mannvirkja sem gætu skert hagsmuni kærenda til frambúðar á meðan málið sé til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þessi sjónarmið eigi ekki við í málinu.

Af hálfu ÞG verktaka ehf., sem er framkvæmdaraðili við Vorbraut 8–12, er tekið fram að framkvæmdin sé í samræmi við samþykkt byggingarleyfi og hafi útgreftri og raski við lóðamörk verið haldið í algjöru lágmarki. Jarðvegspúði á mörkum lóða kærenda standi allt að 2 m hærra en leyfilegt sé og hafi þeir ekki brugðist við ábendingum og áskorunum um úrbætur. Vegna þess hafi framkvæmdaraðili þurft að ráðast í kostnaðarsamar aðgerðir og m.a. grafið og fjarlægt aukinn jarðveg sem sé eini jarðvegurinn sem hafi verið grafið í innan lóðarmarka kærenda. Ráðist hafi verið í aðgerðir á borð við að koma fyrir girðingum og vörnum með dúklögn og neti. Við gröftinn hafi verið gætt að áhættuþáttum en ljóst sé að því lengur sem grunnurinn standi óhaggaður þeim mun meiri líkur séu á að runnið geti úr bakkanum. Að stöðva framkvæmdir sé kærendum ekki til hagsbóta heldur þvert á móti sé þeim í hag að framkvæmdaraðili fái að halda áfram störfum og koma fyrir stoðveggjum, fylla að þeim og verja þannig bakkann sem standi opinn. Þar að auki myndi stöðvun hafa í för með sér fjárhagslegt tjón fyrir framkvæmdaraðila sem yrði margfalt hærra en það sem kærendur geti orðið fyrir.

Af hálfu Meistarasmíða ehf., sem er framkvæmdaraðili við Vorbraut 14, er bent á að það sé einungis Skerpluholt 7 sem liggi að mörkum lóðar Vorbrautar 14 og þá aðallega að bílastæðum þar sem engu hafi verið breytt frá upphaflegu deiliskipulagi. Efni kærunnar snúi því tæknilega séð ekki að þeirri framkvæmd, enda aðstæður og mannvirkjahönnun með töluvert öðrum hætti en í tilfelli sameinaðrar lóðar Vorbrautar 8–12. Rétt sé þó að benda á að lóð Skerpluholts 7 sé 1–2 m of há við lóðamörkin og væri gott ef það yrði lagað með tilliti til  slysahættu og landskriðs. Engar forsendur séu fyrir stöðvun framkvæmda að Vorbraut 14 enda myndi slík aðgerð valda framkvæmdaraðila verulegu tjóni.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda séu þær hafnar eða yfirvofandi, sbr. 2. mgr. sömu lagagreinar. Þá getur úrskurðarnefndin að sama skapi frestað réttaráhrifum ákvörðunar komi fram krafa um það af hálfu kæranda, sbr. 3. mgr. 5. gr. Með sama hætti er kveðið á um það í 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar til bráðabirgða meðan málið er til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan er sú að kæra til æðra stjórnvalds frestar ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og eru heimildarákvæði fyrir stöðvun framkvæmda eða frestun réttaráhrifa kærðrar ákvörðunar undantekning frá nefndri meginreglu sem skýra ber þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um stöðvun framkvæmda eða frestun réttaráhrifa. Almennt mælir það á móti því að fallast á kröfu um stöðvun ef fleiri en einn aðili eru að máli og þeir eiga gagnstæðra hagsmuna að gæta. Einnig geta komið til álita þau tilvik þar sem kæruheimild verður í raun þýðingarlaus ef framkvæmdir eru ekki stöðvaðar, svo sem ef sú framkvæmd sem krafist er stöðvunar á er óafturkræf.

Í máli þessu er gerð krafa um stöðvun framkvæmda á grundvelli tveggja samþykktra byggingaráforma er fela í sér heimild til að byggja niðurgrafinn bílastæðakjallara, annars vegar á lóð Vorbrautar 8–12 og hins vegar á lóð Vorbrautar 14. Vegna staðhátta hefur reynst nauðsynlegt að koma fyrir stoðvegg nærri lóðamörkum til að fyrirbyggja jarðvegsskrið á lóðum kærenda, en þeir telja að jarðvegsframkvæmdirnar fari inn fyrir mörk lóða þeirra.

Með hliðsjón af framangreindum lagaákvæðum og þeim sjónarmiðum sem liggja þeim að baki,  því tjóni sem stöðvun framkvæmda myndi hafa í för með sér og að um er að ræða afturkræfar framkvæmdir sem munu að mestu vera lokið, verður ekki talin knýjandi þörf á að stöðva þær á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Verður kröfu kærenda þar um því hafnað.

Rétt þykir þó að taka fram að framkvæmdaraðilar bera áhættu af úrslitum kærumálsins kjósi þeir að halda áfram framkvæmdum áður en niðurstaða þessa máls liggur fyrir.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða á grundvelli hinna kærðu ákvarðana byggingarfulltrúa.

54/2025 Borgarás

Með

Árið 2025, miðvikudaginn 4. júní, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 54/2025, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa, sem staðfest var af bæjarráði Garðabæjar 30. janúar 2024, um að breyta og stækka stiga út fyrir byggingarreit.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 3. apríl 2025, er barst nefndinni 4. s.m., kæra eigendur fasteignarinnar að Borgarási 12, þá ákvörðun byggingarfulltrúa, sem staðfest var af bæjarráði Garðabæjar 30. janúar 2024, að veita eigendum Borgaráss 10 leyfi til að breyta og stækka stiga út fyrir byggingarreit án breytinga á deiliskipulagi. Er einnig kærð ákvörðun um samþykkt gagna eftir grenndarkynningu og að ekki hafi verið gætt að mænishæð húss að Borgarás 10 við samþykki á breytingum. Er þess krafist að stiginn verði færður í upprunalega stærð og fjarlægð frá lóðamörkum.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Garðabæ 13. apríl 2025.

Málsatvik og rök: Á afgreiðslufundi skipulagsfulltrúa Garðabæjar 27. október 2023 var samþykkt að grenndarkynna óverulega breytingu á deiliskipulagi Hraunholts vestra (Ásahverfis) í samræmi við 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Gerði tillagan ráð fyrir stækkun byggingarreits til vesturs fyrir sólstofu á neðri hæð og svalir á efri hæð. Tillagan gerði ráð fyrir að húsið gæti verið tvær hæðir, mænishæð 6,5 m en vegghæð 5 m. Á fundi skipulagsnefndar 14. desember s.á. var tillagan lögð fram að nýju. Engar athugasemdir bárust við grenndarkynningu og var tillagan samþykkt og henni vísað til bæjarstjórnar sem samþykkti hana á fundi sínum 15. júní s.á. Deiliskipulagsbreytingin tók gildi með birtingu í B-deild Stjórnartíðinda 28. desember s.á.

 Á fundi bæjarráðs 30. janúar 2024 var samþykkt afgreiðsla byggingarfulltrúa um að veita leyfi til að endurbyggja efri hæð og endurnýja þak tvíbýlishússins við Borgarás 10. Var byggingarleyfi fyrir framkvæmdunum gefið út 3. febrúar s.á. Kærendur áttu í nokkrum samskiptum við sveitarfélagið vegna framkvæmdanna og óskuðu m.a. eftir stöðvun framkvæmda með bréfum dags. 11. desember 2024 og 22. janúar 2025. Með bréfi, dags. 21. janúar 2025, upplýsti byggingarfulltrúi kærendur um að til að hægt væri að taka athugasemdir og sjónarmið þeirra til athugunar þyrfti að liggja fyrir formlegt erindi þar sem óskað væri eftir að byggingarleyfið yrði afturkallað eða endurupptekið. Með bréfi, dags. 31. janúar 2025, óskuðu kærendur eftir því að ákvörðun um byggingarleyfi yrði endurupptekin. Var erindinu svarað af sviðsstjóra fjármála- og stjórnsýslusviðs með bréfi, dags. 4. mars s.á., þar sem fram kom að ekki væru taldar forsendur fyrir ógildingu eða endurupptöku byggingarleyfisins.

 Af hálfu kærenda er vísað til þess að við grenndarkynningu hafi verið kynnt stækkun á byggingarreit fyrir sólstofu til suðvesturs, á efri hæð, mænishæð yrði 6,5 m og vegghæð 5 m sem og stækkun á byggingarreit í austur og vestur sem félli að þáverandi útlínum hússins. Kærendur hefðu samþykkt þessa stækkun. Síðar hafi komið í ljós áform um að endurbyggja stiga og svalir vestan megin við húsið, nánast að lóðarmörkum Borgaráss 12 og langt umfram byggingarreit Borgaráss 10. Þessi stækkun hafi ekki verið grenndarkynnt eða upplýst um hana af hálfu eigenda Borgaráss 10 og hafi gögnum um grenndarkynningu verið breytt eftir undirritun, sem hefði átt að leiða til ógildingar. Áformuð stækkun byggingarreitsins sé of nálægt lóðarmörkum og komi til með að valda kærendum verulegum óþægindum.

 Í umsögn sveitarfélagsins er gerð krafa um að máli þessu verði vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem kærufrestur vegna byggingarleyfisins sé löngu liðinn og samþykkt gagna og teikninga sé liður í meðferð máls sem sæti ekki kæru til æðra stjórnvalds. Það kunni að vera rétt að skilja kæruna sem svo að kærð sé synjun bæjaryfirvalda á erindi um afturköllun eða endurupptöku málsins, sbr. bréf þess efnis, dags. 31. janúar 2025. Því erindi hafi verið synjað með bréfi sviðsstjóra fjármála- og stjórnsýslusviðs Garðabæjar, dags. 4. mars 2025, og hafi í niðurlagi þess verið leiðbeint um kæruleið til úrskurðarnefndarinnar. Ákvörðun um afturköllun eða endurupptöku máls eigi undir það stjórnvald sem hafi tekið upphaflega ákvörðun, í þessu tilfelli ákvörðun um byggingarleyfi sem heyri undir bæjarráð. Svar sviðsstjóra hafi ekki verið lagt fyrir bæjarráð til samþykktar og því liggi ekki fyrir lokaákvörðun í málinu sem sætt geti kæru til úrskurðarnefndarinnar.

Niðurstaða: Samkvæmt 59. gr. laga nr. 160/2010 verða stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laganna kærðar til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Framkvæmd grenndarkynningar telst ekki til slíkrar ákvörðunar heldur liður í málsmeðferð. Sú stjórnvaldsákvörðun sem borin er undir nefndina í máli þessu er um samþykkt byggingarleyfis dags. 30. janúar 2024. Kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni ekki fyrr en 4. apríl 2025, löngu eftir að eins mánaðar kærufrestur til nefndarinnar var liðinn, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Samkvæmt 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal vísa kæru frá hafi hún borist að liðnum kærufresti nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, sbr. 1. tl. 1. mgr. 28. gr. eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til efnismeðferðar, sbr. 2. tl. ákvæðisins. Verður ekki ráðið að slíkum aðstæðum sé til að dreifa í máli þessu og verður kæru þessari því vísað frá nefndinni.

 Með bréfi dags. 31. janúar 2025 óskuðu kærendur eftir því við sveitarfélagið Garðabæ að hið umdeilda byggingarleyfi yrði endurupptekið og sjónarmið og athugasemdir þeirra teknar til skoðunar. Þessu erindi var svarað af skrifstofustjóra fjármála- og stjórnsýslusviðs sveitarfélagsins. Afgreiðsla umsóknar um byggingarleyfi og útgáfu þess er í höndum byggingarfulltrúa samkvæmt ákvæðum laga nr. 160/2010 um mannvirki, sbr. 2. mgr. 9. gr., 11. gr. og 13. gr. laganna. Þá getur ákvörðun byggingarfulltrúa einnig verið háð samþykkt byggingarnefndar, sbr. 7. gr. laga nr. 160/2010. Í Garðabæ eru byggingar­leyfisumsóknir háðar samþykkt bæjarráðs sem fer með hlutverk byggingarnefndar sveitarfélagsins. Ákvörðun um afturköllun eða endurupptöku ákvörðunar um byggingarleyfi verður einungis tekin af því stjórnvaldi sem er til þess bært sem í þessu tilfelli er bæjarráð. Afstaða þess liggur ekki fyrir og er því ekki til að dreifa lokaákvörðun hér að lútandi, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga.

 Í 9. gr. stjórnsýslulaga kemur fram að stjórnvald skuli taka ákvarðanir í málum svo fljótt sem unnt er. Í 4. mgr. 9. gr. kemur enn fremur fram að unnt sé að kæra óhæfilegan drátt á afgreiðslu máls til þess stjórnvalds sem ákvörðun í málinu verður kærð til. Með vísan til þess að Garðabær hefur enn ekki svarað erindi kæranda frá 31. janúar 2025 um endurupptöku máls með fullnægjandi hætti er því beint til sveitarfélagsins að afgreiða erindi kæranda. Þá verður ekki séð í gögnum þessa máls fyrir nefndinni hvort erindum kærenda um stöðvun framkvæmda, dags. 11. desember 2024 og 22. janúar 2025, hafi verið svarað og er því einnig beint til sveitarfélagsins að svara þeim erindum, hafi það ekki verið gert.

Með vísan til framangreinds verður kærumáli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

5/2025 Múlalind

Með

Árið 2025, þriðjudaginn 27. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 5/2025, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar frá 13. desember 2024 um að afturkalla byggingarleyfi fyrir kvisti á bílskúr á lóð nr. 3 við Múlalind.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 13. janúar 2025, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi, Múlalind 3, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar frá 13. desember 2024 að afturkalla byggingarleyfi fyrir kvisti á bílskúr á lóðinni Múlalind 3. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Kópavogsbæ 16. apríl 2025.

Málavextir: Á fundi byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar 12. júlí 2024 var tekin fyrir og samþykkt umsókn kæranda um leyfi til að gera kvist á bílskúr á lóð nr. 3 við Múlalind. Í ágúst s.á. kærðu eigendur Múlalindar 6 ákvörðunina til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, sbr. kærumál nr. 88/2024. Með bréfi byggingarfulltrúa til kæranda, dags. 11. september s.á., var tilgreint að við skoðun málsins hafi komið í ljós að ekki væri heimild í deiliskipulagi fyrir umræddum kvisti auk þess sem kvisturinn, sem búið væri að byggja, væri ekki í samræmi við samþykkta uppdrætti. Tilkynnti embættið kæranda að áformað væri að fella leyfið úr gildi með vísan til 2. töluliðar 1. mgr. 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Á grundvelli 13. gr. sömu laga var honum veittur 14 daga frestur til til að tjá sig um málið. Embættinu bárust engar athugasemdir frá kæranda og með bréfi, dags. 29. október 2024, tók byggingarfulltrúi ákvörðun um að afturkalla byggingarleyfið. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 13. desember s.á. var bréfið lagt fyrir og það samþykkt. Hinn 20. s.m. var fyrrgreindri kæru eigenda Múlalindar 6 vísað frá úrskurðarnefndinni.

Málsrök kæranda: Kærandi vísar til þess að honum hafi aldrei verið birt bréf byggingar­fulltrúa, dags. 29. október 2024, og sé honum því alfarið óljóst á hvaða grundvelli hin kærða ákvörðun hafi verið tekin. Virðist sem um sé að ræða geðþóttaákvörðun og einungis til þess að þóknast þeim einstaklingi sem hafi kært byggingarleyfið í máli nefndarinnar nr. 88/2024. Allar meginreglur stjórnsýsluréttarins og ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hafi verið brotnar, þá sérstaklega 13. gr. um andmælarétt, 12. gr. um meðalhóf og 20. gr. um heimild aðila til að fá ákvörðun rökstudda. Tekið sé fram að þótt ákvörðunin hafi verið tekin 13. desember 2024 hafi hún ekki verið póstlögð fyrr en tíu dögum síðar og ekki borist kæranda fyrr en 30. s.m. Ákvörðunin sé því haldin alvarlegum annmörkum sem leiða eigi til ógildingar hennar.

Kærandi hafi haft réttmætar væntingar til þess að útgefið byggingarleyfi væri endanleg stjórnvaldsákvörðun. Þrátt fyrir að stjórnvaldsákvörðun sé haldin verulegum annmarka sé hún ekki sjálfkrafa ógildanleg. Ekki sé nægilegt að stjórnvald geri mistök við töku stjórnvalds­ákvörðunar svo hægt sé að ógilda hana. Töluvert meira þurfi að koma til svo hægt sé að afturkalla ívilnandi ákvörðun heldur en íþyngjandi ákvörðun. Byggingarleyfið sé ekki til tjóns fyrir neinn en afturköllun þess hafi aftur á móti í för með sér tjón fyrir kæranda.

Málsrök Kópavogsbæjar: Sveitarfélagið tekur fram að þegar bréf, dags. 13. desember 2024, hafi verið sent kæranda með tilkynningu um afgreiðslu málsins hafi láðst að senda einnig með bréf byggingarfulltrúa frá 29. október s.á. Bent sé á að kærandi hafi 7. janúar 2025 óskað eftir rökstuðningi fyrir ákvörðuninni en einungis sex dögum síðar hafi ákvörðunin verið kærð. Ekki hafi því þótt ástæða til að svara erindinu sérstaklega og hafi kærandi verið upplýstur um þá afstöðu sveitarfélagsins 11. mars 2025.

Rökstuðningur ákvörðunarinnar komi fram í bréfi byggingarfulltrúa, dags. 29. október 2024, þ.e.a.s. að ekki sé heimild fyrir umræddum kvisti í deiliskipulagi. Ákvörðunin sé reist á 2. tl. 1. mgr. 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en samkvæmt ákvæðinu geti stjórnvald afturkallað ákvörðun sína að eigin frumkvæði, sem tilkynnt hafi verið aðila máls, þegar það sé ekki til tjóns fyrir aðila eða ef ákvörðunin sé ógildanleg. Hin kærða ákvörðun sé ógildanleg vegna ósamræmis við deiliskipulag auk þess sem ekki verði séð að hún sé til tjóns fyrir aðila þar sem kvistur sá sem byggður hafi verið sé ekki í samræmi við samþykkt byggingaráform, en hann sé u.þ.b. tvisvar sinnum stærri en áformað hafi verið með samþykktum teikningum. Hafi því um hreina óleyfisframkvæmd verið að ræða sem kærandi beri alfarið alla ábyrgð á.

Árið 2016 hafi verið samþykktar breytingar á uppdráttum hússins er hafi falið í sér gerð kvists. Ekkert byggingarleyfi hafi þó verið gefið út og hafi samþykki byggingarfulltrúa því runnið úr gildi. Ekki verði séð að heimild hafi verið fyrir kvistinum í deiliskipulagi á þeim tíma og því hafi verið óheimilt að samþykkja byggingaráformin.

 Viðbótarathugasemdir kæranda: Gerðar eru athugasemdir við fullyrðingar Kópavogsbæjar um að ákvörðunin sé ekki til tjóns fyrir kæranda. Um útúrsnúning sé að ræða þar sem afturköllun byggingarleyfis hafi augljóslega í för með sér tjón, en hvort kvisturinn sem byggður hafi verið sé í ósamræmi við leyfið sé annað mál. Kvisturinn hafi verið byggður í samráði við byggingarfulltrúa, en ástæða þess að hann hafi verið byggður eins og raun ber vitni sé sú að veggir bílskúrsins og endagaflar séu allir „steyptir upp úr.“ Burðarþolslega séð hafi því verið talið best að þakið myndi hvíla á steyptum útveggjum bílskúrs að framan og til hliðar. Hafi byggingarfulltrúi verið sammála þeirri útfærslu sem lögð hafi verið til grundvallar, enda geti kvisturinn ekki hvílt á engu. Byggingarfulltrúi hafi í raun óskað eftir að kærandi myndi skila inn nýjum teikningum sem hann hafi og gert. Liggi teikningarnar fyrir hjá byggingarfulltrúa og hafi kærandi því verið í góðri trú þegar hann hafi byggt kvistinn samkvæmt byggingarleyfinu.

Byggingaráformin séu í fullu samræmi við skipulagsáætlanir viðkomandi svæðis sem séu frá árinu 1995. Byggingarfulltrúi hafi í tvígang samþykkt byggingaráform vegna Múlalindar 3 sem ekki hafi falið í sér breytingu á deiliskipulagi. Bæði skiptin vegna áforma um að byggja kvist á bílskúr, annars vegar árið 2016 og hins vegar 2024. Einungis sé um að ræða smávægilegar breytingar á útliti húss. Hvorki hafi verið þörf á að auglýsa breytingu á deiliskipulagi, sbr. 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, né grenndarkynna áformin, sbr. 2. mgr. sama ákvæðis. Málsmeðferð á samþykki byggingarleyfisins hafi því verið í fullu samræmi við gildandi lög og reglur.

Engar nýjar upplýsingar um staðreyndir máls hafi leitt til afturköllunar ákvörðunarinnar og sé Kópavogsbæ þannig óheimilt að afturkalla ákvörðunina, sbr. dóm Landsréttar í máli nr. 801/2022 og álit umboðsmanns Alþingis í máli nr. 545/1991. Auk þess geti stjórnvald ekki afturkallað stjórnvaldsákvörðun hafi það verið í villu um lagagrundvöll eða staðreyndir máls þegar það hafi tekið upphaflega ákvörðun, sbr. dóm Hæstaréttar frá 16. febrúar 1995 í máli nr. 190/1992.

Niðurstaða: Í bréfi byggingarfulltrúa til kæranda, dags. 29. október 2024, sem samþykkt var á fundi embættisins 13. desember s.á., var honum tilkynnt að byggingarleyfi fyrir kvisti á bílskúr á lóðinni Múlalind 3 væri „fellt úr gildi“ á grundvelli þess að ekki væri heimild fyrir kvisti í deiliskipulagi auk þess sem þegar byggður kvistur væri ekki í samræmi við samþykkta uppdrætti. Af hálfu Kópavogsbæjar hefur komið fram að þegar kæranda hafi verið tilkynnt um afgreiðslu málsins frá 13. desember 2024 hafi láðst að senda með bréf byggingarfulltrúa frá 29. október s.á. Telur kærandi að með því hafi verið brotið á andmælarétti hans sem hafi leitt til þess að honum væri óljóst á hvaða grundvelli hin kærða ákvörðun hafi verið tekin. Þrátt fyrir þann ágalla á málsmeðferð verður þó ekki talið að kærandi hafi orðið fyrir réttarspjöllum, enda kom hann að kæru í máli þessu og fékk rökstuðning fyrir ákvörðuninni. Þá skal á það bent að í úrskurði nefndarinnar í kærumáli nr. 88/2024, sem var sendur bæði kæranda og lögmanni hans 20. desember 2024, er greint frá umræddu bréfi og því sjónarmiði byggingarfulltrúa að kvisturinn sé bæði í ósamræmi við skipulag og samþykkta uppdrætti. Mátti kæranda því á þeim tíma vera kunnugt um hina kærðu ákvörðun og á hvaða grundvelli hún var tekin.

Í 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 kemur fram að stjórnvald geti afturkallað ákvörðun sína að eigin frumkvæði sem tilkynnt hefur verið aðila máls, þegar það er ekki til tjóns fyrir aðila eða ákvörðun er ógildanleg. Í greinargerð með frumvarpi því er varð að stjórnsýslulögum er tekið fram um þetta ákvæði að leysa beri úr því hvort ákvörðun sé haldin ógildingarannarmarka eftir sömu sjónarmiðum og dómstólar geri.

Á svæðinu er í gildi deiliskipulag Lindahverfis, norðan Fífuhvammsvegar, frá árinu 1995. Samkvæmt skipulagsskilmálum er Múlalind 3 einbýlishús á einni hæð og er hámarksflatarmál hússins með bílgeymslu tilgreint 200 m2. Gerðar voru breytingar á skipulagi lóðarinnar árið 2001 þar sem heimiluð var stækkun á bílskúr og að reisa mætti viðbyggingu við austurhlið hússins. Þá var gerð önnur skipulagsbreytingin 2021 er fólst í því að heimila stækkun svala á suðurhlið hússins og að loka af rými undir svölunum. Af deiliskipulaginu og þeim breytingum sem gerðar hafa verið er ljóst að ekki er til að dreifa heimild í deiliskipulagi Lindahverfis fyrir gerð kvists á umræddum bílskúr.

Samkvæmt 11. gr. og 1. tl. 1. mgr. 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki er það skilyrði fyrir samþykki byggingaráforma og útgáfu byggingarleyfis að mannvirki og notkun þess samræmist skipulagsáætlunum á svæðinu. Í þessu máli liggur fyrir að hinn umdeildi kvistur á bílskúr á lóð Múlalindar 3 er ekki í samræmi við deiliskipulag. Þar sem lögmælt skilyrði fyrir útgáfu byggingarleyfisins voru ekki fyrir hendi verður að telja ákvörðunina ógildanlega, en þar með voru skilyrði afturköllunar á grundvelli 25. gr. stjórnsýslulaga jafnframt uppfyllt. Aftur á móti þykir tilefni til að gera athugasemd við þann rökstuðning byggingarfulltrúa í hinni kærðu ákvörðun að kærandi hafi byggt stærri kvist en samþykktur hafi verið. Telja verður að frávik frá samþykktum byggingaráformum geti ekki haft þýðingu fyrir lögmæti samþykktarinnar sjálfrar. Er byggingarfulltrúa veitt önnur úrræði í lögum nr. 160/2010 til að bregðast við óleyfisframkvæmdum.

Með hliðsjón af framangreindu verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar frá 13. desember 2024 um að afturkalla byggingarleyfi fyrir kvisti á bílskúr á lóð nr. 3 við Múlalind.

46/2025 Goðabraut

Með

Árið 2024, þriðjudaginn 13. maí, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 46/2025, kæra á ákvörðun skipulagsráðs Dalvíkurbyggðar frá 12. febrúar 2025 um að leyfileg mænishæð húss á lóð nr. 3 við Goðabraut hækki um 1 m og að leyfileg vegghæð þess hækki um 1,5 m.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 23. mars 2025, kærir eigandi, Hafnarbraut 2b, Dalvík, þá ákvörðun skipulagsráðs Dalvíkurbyggðar frá 12. febrúar 2025 að leyfileg mænishæð húss á lóð nr. 3 við Goðabraut hækki um 1 m og að leyfileg vegghæð þess hækki um 1,5 m. Skilja verður málskot kæranda svo að krafist sé ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar.

Með bréfum til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er bárust nefndinni 23. og 24. mars 2025, kæra eigandi, Hafnarbraut 2b, og eigendur, Hafnarbraut 2a, sömu ákvörðun. Þar sem kærumálin varða sömu ákvörðun, kærur eru samhljóða og hagsmunir kærenda þykja ekki standa því í vegi, verða síðari kærumálin, sem eru nr. 48/2025 og 50/2025, sameinuð máli þessu.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Dalvíkurbyggð 16. apríl 2025.

Málsatvik og rök: Á fundi skipulagsráðs Dalvíkurbyggðar 11. september 2024 var tekin fyrir umsókn um stækkun á húsi lóðar nr. 3 við Goðabraut með þeim hætti að mænishæð hússins mundi aukast um 1 m og að þakform þess yrði breytt í flatt þak í mænishæð. Var samþykkt að grenndarkynna áformin skv. 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og staðfesti sveitarstjórn þá afgreiðslu á fundi sínum 17. s.m. Athugasemdir bárust frá kærendum þessa máls á kynningartíma. Á fundi skipulagsráðs 12. febrúar 2025 var málið tekið fyrir að nýju þar sem umsókninni var hafnað en jafnframt var samþykkt að leyfileg mænishæð mætti hækka um 1 m og leyfileg vegghæð um 1 m. Með bréfi skipulagsfulltrúa til kærenda, dags. 24. s. m., var framkomnum athugasemdum svarað auk þess sem þeim var gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum við ákvörðun skipulagsráðs, sem þeir og gerðu. Skipulagsráð tók athugasemdirnar fyrir á fundi 12. mars s.á. og bókaði að farið væri fram á að umsækjandi mundi leggja fram skuggavarpsmyndir af fyrirhugaðri hækkun hússins.

Kærendur benda á að í bréfi skipulagsfulltrúa frá 24. febrúar 2025 komi fram að skuggavarp á aðliggjandi lóðir verði umtalsvert minna með breyttum áformum. Engin gögn hafi þó fylgt með bréfinu, hvorki uppfærðar teikningar nú skuggavarpsmyndir. Samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skuli stjórnvald sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun sé tekin í því.

Dalvíkurbyggð fer fram á frávísun málsins þar sem afgreiðsla skipulagsráðs sé liður í málsmeðferð vegna byggingarleyfisumsóknar eiganda Goðabrautar 3. Ekki liggi fyrir samþykkt byggingarleyfi sem eftir atvikum sé unnt að kæra til úrskurðarnefndarinnar. Sé því ekki fyrir hendi lokaákvörðun í málinu sem borin verði undir nefndina.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur úrskurðarnefndin það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Samkvæmt 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verða þó ákvarðanir sem ekki binda enda á mál ekki kærðar til æðra stjórnvalds.

Afgreiðsla umsóknar um byggingarleyfi og útgáfu þess er í höndum byggingarfulltrúa samkvæmt ákvæðum laga nr. 160/2010 um mannvirki, sbr. 2. mgr. 9. gr., 11. gr. og 13. gr. laganna. Hin kærða ákvörðun skipulagsráðs um að samþykkja hækkun á leyfilegri mænishæð og vegghæð að lokinni grenndarkynningu felur samkvæmt framansögðu ekki í sér lokaákvörðun í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga heldur er hún liður í málsmeðferð framangreinds erindis sem eftir atvikum lýkur með samþykki byggingarfulltrúa á byggingaráformum. Er því ekki fyrir hendi ákvörðun sem borin verður undir úrskurðarnefndina og verður kærumáli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Bent er á að ljúki málinu með því að byggingarfulltrúi samþykki umdeild byggingaráform er sú ákvörðun eftir atvikum kæranleg til úrskurðarnefndarinnar.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

49/2025 Vorbraut

Með

Árið 2025, þriðjudaginn 15. apríl, tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr.  laga nr. 130/2011:

Mál nr. 49/2025, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Garðabæjar, með samþykkt bæjarráðs Garðabæjar 27. ágúst 2024, um að veita leyfi til jarðvegsframkvæmda að Vorbraut 8-12 í Garðabæ.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 23. mars 2025, kæra A, B, D og E persónulega og fyrir hönd, Habs ehf.,  lóðarhafar Skerpluholts 1, 3, 5 og 7, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Garðabæjar, sem samþykkt var í bæjarráði Garðabæjar 27. ágúst 2024, að veita leyfi vegna jarðvegsframkvæmda að Vorbraut 8-12. Verður af kæru ráðið að krafist sé ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar. Þá er þess krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið sé til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kæranda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Garðabæ 1. apríl 2025 og viðbótargögn 2., 8., 9. og 11. apríl s.á.

Málsatvik og rök: Með umsókn, dags. 16. ágúst 2024, var sótt um byggingarheimild eða -leyfi vegna byggingaráforma á lóð nr. 8-12 í Garðabæ. Í umsókninni kom fram að óskað væri eftir „jarðvinnuleyfi fyrir Vorbraut 8 – 10 – 12“. Samþykkti byggingarfulltrúi Garðabæjar erindið 19. s.m. og var í bréfi um afgreiðsluna tekið fram að sótt hefði verið um leyfi í samræmi við „graftrar- og fleygunarplan“ frá tilgreindri verkfræðistofu. Var sú ákvörðun samþykkt á fundi bæjarráðs Garðabæjar 27. s.m. Fyrir liggur að framkvæmdir eru hafnar.

Kærendur vísa til þess að ekki sé heimild til hinna umdeildu jarðvegsframkvæmda í deiliskipulagi og séu mannvirki við Skerpluholt í hættu vegna þeirra. Svo virðist sem veitt hafi verið leyfi til að byrja að grafa fyrir bílakjallara sem gert sé ráð fyrir í breytingu á deiliskipulagi sem sé til meðferðar hjá Garðabæ en hafi ekki verið afgreidd. Hinn 4. júní 2024 hafi bæjarráð Garðabæjar fjallað um tillögu skipulagsnefndar varðandi breytingu á deiliskipulaginu. Um hafi verið að ræða umsókn um að sameina lóðirnar að Vorbraut 8, 10 og 12 í eina lóð og byggja sameiginlegan bílakjallara með stækkuðum byggingarreit. Breytingarnar hafi verið sagðar óverulegar og samþykkt að grenndarkynna breytinguna, m.a. fyrir kærendum, en sú grenndarkynning hafi ekki farið fram. Breytingatillagan hafi hvorki verið afgreidd né birt í Stjórnartíðindum og sé deiliskipulagið því óbreytt. Að auki sé í raun um að ræða verulega breytingu á deiliskipulagi sem beri að afgreiða eins og nýtt deiliskipulag skv. 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Bæjaryfirvöld benda á að ákveðið hafi verið að sameina þær breytingar sem gera átti á gildandi deiliskipulagi samkvæmt tillögunum sem legið hafi fyrir á fundi bæjarráðs Garðabæjar 4. júní 2024 við aðrar breytingar á hverfinu og auglýsa þær í samræmi við 1. mgr. 43. gr., sbr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Hafi tillaga að breytingunum verið auglýst frá 24. október 2024 til og með 5. desember 2024 og hafi nokkrar athugasemdir borist. Tillagan hafi verið samþykkt á fundi bæjarstjórnar 6. febrúar 2025 og sé meðferð hennar að ljúka og hún verði fljótlega send til birtingar í B-deild Stjórnartíðinda. Lóðarhöfum Vorbrautar 8-12 hafi í september 2024 verið veitt heimild til að hefja jarðvinnu, en hinar kærðu framkvæmdir hafi þó ekki hafist fyrr en eftir samþykkt bæjarstjórnar 6. febrúar 2025.

Jarðvegsframkvæmdum sé að mestu lokið, en framkvæmdirnar séu í eðli sínu afturkræfar og undir yfirborði lóðar. Nauðsynlegt sé að koma sem fyrst fyrir stoðvegg til að styðja við jarðveg á lóðum kærenda og óráðlegt sé að fresta þeirri framkvæmd. Kærendur hafi á fundi með bænum og verktaka hinn 19. mars 2025 í raun samþykkt að slíkur stoðveggur verði settur upp.

Leyfishafi álítur að breyting deiliskipulagsins lúti ekki að atriðum sem varði hagsmuni kærenda og því beri að hafna kröfu þeirra. Öll skilyrði fyrir deiliskipulagsbreytingunni hafi verið uppfyllt og sé aðeins formsatriði að klára skjalafrágang.

_____

 Úrskurðarnefndin óskaði frekari upplýsinga frá Garðabæ um undirbúning hinnar kærðu ákvörðunar. Meðal þeirra gagna sem bárust 2. apríl 2025 voru umsóknargögn dags. 16. ágúst 2024 þar sem óskað var eftir ,,jarðvinnuleyfi fyrir Vorbraut 8-10-12.“ Í þeim kom fram að sótt var um leyfi til jarðvinnu m.a. vegna bílakjallara á lóð Vorbrautar 8-12 sem ekki var á deiliskipulagi.

Niðurstaða: Í máli þessu er kærð ákvörðun byggingarfulltrúa Garðabæjar sem samþykkt var í bæjarráðs Garðabæjar 27. ágúst 2024, um leyfi fyrir jarðvegsframkvæmdum vegna bílakjallara að Vorbraut 8–12.

Með tölvupóstum 8. og 9. apríl 2025 tilkynnti Garðabær nefndinni að auglýsing nr. 380 frá 2. apríl 2025 um breytingu á aðalskipulagi Garðabæjar, rammahluta aðalskipulags í Vífilsstaðalandi, vegna fjölgunar íbúða, hefði verið birt í B-deild Stjórnartíðinda, með útgáfudegi 7. apríl 2025. Einnig hafi auglýsing nr. 382 frá 7. apríl 2025 um skipulagsmál í Garðabæ, með breytingu á deiliskipulagi fyrir Hnoðraholt norður, birst í B-deild Stjórnartíðinda sama dag. Þessu til viðbótar upplýsti Garðabær nefndina um að bæjarráð Garðabæjar, sem einnig starfar sem byggingarnefnd, hafi á fundi sínum 8. apríl 2025 samþykkt byggingarleyfi fyrir Vorbraut 8-12 og Vorbraut 14. Framkvæmdir á lóðunum styðjist eftir það við ný leyfi. Með tölvupósti 11. apríl 2025 sendi Garðabær nefndinni afrit af tilkynningu til lóðarhafa um samþykkt byggingaráforma í samræmi við 11. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki.

Samkvæmt framansögðu liggur fyrir að nýtt byggingarleyfi  hefur verið samþykkt vegna framkvæmda á umræddri lóð að undangenginni breytingu á deiliskipulag svæðisins sem tekið hefur gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda. Hefur hin kærða ákvörðun því ekki lengur réttarverkan að lögum. Úrskurður um hið kærða leyfi til jarðvinnu hefur af þeim sökum enga þýðingu fyrir lögvarða hagsmuni kærenda og ber því að vísa máli þessu frá úrskurðarnefndinni samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011um úrskurðarnefndi umhverfis- og auðlindamála.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

34/2025 Breiðholtsbraut

Með

Árið 2025, þriðjudaginn 15. apríl, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 34/2025, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 22. janúar 2025 um að slökkva skuli á LED skiltum á horni Breiðholtsbrautar og Skógarsels.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 21. febrúar 2025, kærir Íþróttafélag Reykjavíkur þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 22. janúar s.á. að slökkva skuli á LED skiltum á horni Breiðholtsbrautar og Skógarsels. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 27. mars 2025.

Málavextir: Árið 2016 gerði Reykjavíkurborg og kærandi samkomulag þar sem meðal annars kom fram að unnið yrði að því í sameiningu að finna auglýsingaskilti, sem staðsett var á mótum Breiðholtsbrautar og Skógarsels, nýjan stað. Með umsókn, dags. 31. mars 2021, óskaði kærandi eftir leyfi til að koma fyrir stafrænu skilti í stað flettiskiltis ásamt því að skoðaður yrði möguleiki á að hækka skiltið eða koma því fyrir við mót Breiðholtsbrautar og Skógarsels/Stekkjarbakka. Var umsókninni synjað á grundvelli umsagnar skipulagsfulltrúa þar sem meðal annars hefði legið fyrir neikvæð afstaða Vegagerðarinnar sem veghaldara. Var synjun byggingarfulltrúa kærð til úrskurðarnefndarinnar sem hafnaði kröfu kæranda um ógildingu með úrskurði 29. október 2021. Þrátt fyrir framangreind málalok var skiltinu breytt úr flettiskilti í stafrænt skilti.

Með fyrirspurn til skipulagsfulltrúa, dags. 2. október 2023, óskaði kærandi eftir samtali um staðsetningu og sýnileika hins umdeilda skiltis þar sem sýnileiki væri orðinn takmarkaður vegna trjágróðurs og ylli félaginu tekjutapi þar sem leigutaki skiltisins væri ekki tilbúinn til að greiða fyrir leigu á því. Í umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 18. janúar 2024, kom fram að ekki væru gerðar athugasemdir við að kærandi léti vinna að breytingu á deiliskipulagi til að heimila skilti innan lóðar, sambærilegu því sem væri til staðar við Breiðholtsbraut.

Deild afnota og eftirlits hjá Reykjavíkurborg bárust í desember 2024 ábendingar um óþægindi vegna ljósmengunar af hinu umdeilda skilti. Með tölvupósti 13. desember 2024 var óskað eftir að kærandi léti framkvæma faglega ljósmælingu til að stilla skiltið og vísað þar um til samþykktar Reykjavíkurborgar um skilti þar sem í kafla 3.3. væri kveðið á um hámarksbirtustig skilta og mestan leyfilegan ljóma með hliðsjón af staðsetningu. Þá kom fram að samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum hefði kærandi fengið leyfi „á sínum tíma“ til að reisa þarna flettiskilti en nú væri þarna kominn LED skjár. Var óskað upplýsinga um hvort skiltið væri á forræði kæranda. Með svarpósti sama dag upplýsti kærandi að búið væri að lækka birtustig skiltisins.

Byggingarfulltrúi sendi kæranda bréf, dags. 22. janúar 2025, þar sem fram kom að tekin hefði verið til skoðunar uppsetning og notkun LED skilta á horni Breiðholtsbrautar og Skógarsels sem væru án útgefins byggingarleyfis. Við skoðun hefði komið í ljós að tveimur flettiskiltum hefði verið skipt út fyrir LED skilti. Um væri að ræða byggingarleyfisskyldar framkvæmdir skv. 9. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki og gr. 2.5.1. byggingarreglugerðar nr. 112/2012. Væri öll notkun umræddra LED skilta stöðvuð með vísan til 55. gr. laga 160/2010 og gr. 2.9.1. byggingarreglugerðar og slökkva skyldi á skiltunum. Yrði fyrirmælum byggingarfulltrúa ekki sinnt yrði tekin ákvörðun um framhald málsins sem gæti falið í sér aðstoð lögreglu, sbr. 4. mgr. 55. gr. laga nr. 160/2010.

Málsrök kæranda: Bent er á að hin umdeildu skilti hafi staðið þarna árum saman. Fyrst hafi verið um flettiskilti að ræða en þau hafi verið uppfærð og gerð stafræn. Heimild fyrir slíkri uppfærslu sé í gr. 4.8. í samþykkt Reykjavíkurborgar um skilti frá maí 2020. Í framhaldi af samkomulagi Íþróttafélags Reykjavíkur og borgarinnar frá maí 2016 hafi borgin ætlað að finna skiltunum nýjan stað þar sem trjágróður á núverandi stað hafi verið farinn að skerða sýnileika þeirra. Auglýsingatekjur af skiltunum séu mikilvæg tekjulind fyrir barna- og unglingastarf félagsins. Síðla árs 2023 hafi samkomulaginu verið fylgt eftir af hálfu kæranda og óskað eftir að skoðaðar yrðu leiðir til að auka sýnileika skiltanna. Í bréfi, dags. 18. janúar 2024, frá skipulagsfulltrúa hafi komið fram að þegar væri heimild fyrir skiltunum í deiliskipulagi og hvergi nefnt að það vantaði leyfi fyrir því. Niðurstaðan hefði verið að ekki væru gerðar athugasemdir við að kærandi léti vinna að breytingu á deiliskipulagi til að heimila færslu á skiltunum innan lóðar.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Vísað er til þess að skiltin séu byggingarleyfisskyld samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki, sbr. einnig 1. mgr. 2. gr. og 13. tl. 3. gr. laganna. Þá sé einnig fjallað um kröfur til skilta í kafla 2.5. byggingarreglugerðar nr. 112/2012.

Í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2040 komi fram það markmið að móta skuli stefnu um auglýsinga- og upplýsingaskilti í borgarlandi. Samþykkt um skilti í Reykjavík hafi verið samþykkt á fundi borgarráðs 7. maí 2020 og birt á vef borgarinnar 11. s.m. Markmið samþykktarinnar sé meðal annars að auðvelda afgreiðslu byggingarleyfisumsókna, sbr. 3. tl. 1.2. kafla samþykktarinnar. Sú heimild sem vísað sé til í kæru og finna megi í kafla 4.8. fyrir ný stafræn skilti í stað eldri flettiskilta hafi ekki áhrif á kröfu laga nr. 160/2010 og byggingarreglugerðar um byggingarleyfi. Sækja þurfi um byggingarleyfi þegar setja eigi upp ný stafræn auglýsingaskilti í stað flettiskilta. Þetta hafi kærandi gert á sínum tíma og verið hafnað um leyfi vegna synjunar Vegagerðarinnar með vísan til 90. gr. umferðarlaga nr. 77/2019.

Um sé að ræða ný stór stafræn skilti sem falli undir ákvæði laga nr. 160/2010 og séu háð leyfi frá byggingarfulltrúa samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laganna. Fyrir liggi að skiltin hafi verið sett upp án byggingarleyfis og að kæranda hafi verið synjað um leyfi fyrir þeim. Úrskurðarnefndin hafi staðfest synjun um byggingarleyfi með úrskurði 29. október 2021, í máli nr. 142/2021. Byggingarfulltrúa hafi því verið heimilt á grundvelli 2. mgr. 55. gr. laga nr. 160/2010 að gera kröfu um að slökkt yrði á skiltunum.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík að slökkva skuli á LED skiltum á horni Breiðholtsbrautar og Skógarsels. Kæruheimild til úrskurðarnefndarinnar er í 59. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki.

Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. og 13. tl. 3. gr. laga nr. 160/2010 falla skilti eins og hér um ræðir undir gildissvið laganna. Þá er fjallað um kröfur til skilta í kafla 2.5. byggingarreglugerðar nr. 112/2012. Þar segir að sækja skuli um byggingarleyfi fyrir öllum frístandandi skiltum og skiltum á byggingum sem séu yfir 1,5 m2 að flatarmáli. Þá skal stærð og staðsetning skilta vera í samræmi við gildandi skipulag.

Samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2040 eru hin umræddu skilti staðsett á skilgreindu svæði fyrir íbúðabyggð, ÍB43. Þar er í gildi deiliskipulag Suður Mjóddar, þar sem gert er ráð fyrir flettiskilti á þeim stað er skiltin eru staðsett. Skiltin eru einnig staðsett í lítilli fjarlægð frá Breiðholtsbraut sem er stofnbraut. Í aðalskipulagi kemur fram það markmið að móta skuli stefnu um auglýsinga- og upplýsingaskilti í borgarlandinu. Samþykkt um skilti í Reykjavík var samþykkt á fundi borgarráðs 7. maí 2020 og birt á vef borgarinnar 11. maí s.á. Í gr. 4.2.7. samþykktarinnar er fjallað um stafræn skilti á íbúðarsvæðum og samfélagsþjónustu með landnotkun Íb og S. Þar kemur fram að stafræn skilti með eða án hreyfimynda séu óheimil, þ. á m. þjónustuskilti eða veggspjöld sem vísi út á götu með nafni fyrirtækis eða auglýsingum. Í gr. 4.8. er fjallað um skilti innan landnotkunar stofn- og tengibrauta og þar segir að leyfilegt sé að setja upp ný stafræn auglýsingaskilti við stofn- og tengibrautir, sem séu stærri en 10 m2 ef að fyrir sé sambærilegt flettiskilti eða ef deiliskipulag heimili slíkt skilti. Þá er í gr. 6.2. í samþykkt um skilti fjallað um leyfisveitingar fyrir skiltum og auglýsingum. Þar kemur fram að byggingarfulltrúi veiti leyfi fyrir skiltum og auglýsingum ef umsókn uppfylli ákvæði samþykktarinnar og gildandi skipulags. Þá kemur einnig fram að sé skilti breytt, t.d. úr stafrænu skilti í aðra gerð, þá þurfi að sækja um nýtt byggingarleyfi. Verður samþykkt Reykjavíkur­borgar um skilti ekki skilin á annan veg en að þrátt fyrir að í tilteknum tilfellum sé heimilt að uppfæra eldri skilti í stafræn skilti, sbr. t.d. gr. 4.8. í samþykktinni, þá verði slík breyting ekki framkvæmd nema að fengnu nýju byggingarleyfi.

Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laga nr. 160/2010 er óheimilt að grafa grunn fyrir mannvirki, reisa það, rífa eða flytja, breyta því, burðarkerfi þess eða lagnakerfum eða breyta notkun þess, útliti eða formi nema að fengnu leyfi viðkomandi byggingarfulltrúa. Hlutverk byggingarfulltrúa hvers sveitarfélags er að hafa eftirlit með því að mannvirki og notkun þeirra sé í samræmi við útgefin leyfi og beita eftir atvikum þvingunarúrræðum, sbr. 55. og 56. gr. laga nr. 160/2010. Er nánar kveðið á um það í 2. mgr. 55. gr. laganna að sé byggingarframkvæmd hafin án þess að leyfi sé fengið fyrir henni eða hún brjóti í bága við skipulag geti byggingarfulltrúi krafist þess að hið ólöglega mannvirki eða byggingarhluti sé fjarlægður.

Í máli þessu er um að ræða stafrænt skilti sem fellur undir ákvæði laga nr. 160/2010 og er háð leyfi frá byggingarfulltrúa skv. 1. mgr. 9. gr. laganna auk nánar útfærðum reglum sem finna má í samþykkt um skilti í Reykjavík. Fyrir liggur að tvö stafræn skilti voru sett upp í stað eldri flettiskilta eftir að kæranda hafði verið synjað um byggingarleyfi fyrir því. Var byggingarfulltrúa því heimilt á grundvelli 2. mgr. 55. gr. laga nr. 160/2010 að gera kröfu um að slökkt yrði á skiltunum.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið er kröfum kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.  

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um að ógilda ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 22. janúar 2025 um að slökkva skuli á LED skiltum á horni Breiðholtsbrautar og Skógarsels.

161/2024 Laugarásvegur

Með

Árið 2025, fimmtudaginn 27. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður og Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður. Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor tók þátt í fundinum í gegnum fjarfundabúnað.

Fyrir var tekið mál nr. 161/2024, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 19. nóvember 2024, um að samþykkja leyfi fyrir áðurgerðum steyptum stoðvegg á mörkum lóða nr. 63 og 59 við Laugarásveg, pergólu og heitum potti á steyptri verönd á lóðinni Laugarásvegi 63.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 22. nóvember 2024, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi Laugarásvegar 61, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 19. nóvember 2024 að samþykkja leyfi fyrir áður gerðum steyptum stoðvegg á mörkum lóðanna nr. 63 og 59 við Laugarásveg, pergólu og heitum potti á steyptri verönd á lóðinni Laugarásvegi 63. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og lagt verði fyrir Reykjavíkurborg að grenndarkynna umsóknina fyrir kæranda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 30. desember 2024.

Málavextir: Mál þetta á sér nokkra forsögu þar sem ágreiningur hefur verið milli lóðarhafa lóða nr. 61 og 63 við Laugarásveg vegna framkvæmda á síðarnefndu lóðinni. Með úrskurði í máli nr. 31/2024 komst úrskurðarnefndin að þeirri niðurstöðu að steyptur stoðveggur sem lóðarhafar Laugarásvegar 63 höfðu reist væri byggingarleyfisskyldur.

 Hinn 4. september 2024 barst byggingarfulltrúanum í Reykjavík umsókn um leyfi fyrir áður gerðum stoðvegg, pergólu og heitum potti á steyptri verönd á lóð nr. 63 við Laugarásveg. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 10. september s.á. var málinu vísað til umsagnar skipulagsfulltrúa. Umsögn skipulagsfulltrúa lá fyrir 26. september s.á. þar sem ekki voru gerðar skipulagslegar athugasemdir og var erindið tekið fyrir og samþykkt á afgreiðslufundi skipulagsfulltrúa sama dag. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa, 19. nóvember 2024, var umsókn um byggingarleyfi samþykkt.

 Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er byggt á því að Reykjavíkurborg hafi látið undir höfuð leggjast að grenndarkynna byggingarleyfisumsóknina fyrir kæranda sem er búsettur á aðliggjandi lóð, Laugarásvegi 61. Ekkert deiliskipulag sé í gildi á lóðinni nr. 63 við Laugarásveg og samkvæmt 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 skuli, þegar svo standi á, láta fara fram grenndarkynningu þegar sótt sé um byggingarleyfi. Hafi kæranda, sem hefur verulegra hagsmuna að gæta af framkvæmdinni, því ekki verið gefið færi á að koma að athugasemdum við framkvæmdina.

 Málsrök Reykjavíkurborgar: Vísað er til 3. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 þar sem heimild er til þess að falla frá grenndarkynningu sé sýnt fram á að breyting á deiliskipulagi eða leyfisskyld framkvæmd varði ekki hagsmuni annarra en sveitarfélagsins og/eða umsækjanda. Í umsögn skipulagsfulltrúa sem samþykkt hafi verið á afgreiðslufundi 26. september 2024 hafi komið fram að ekki séu gerðar skipulagslegar athugasemdir við að veitt verði leyfi fyrir steyptum vegg, heitum potti og pergólu á lóð nr. 63 við Laugarásveg. Samtímis hafi verið tekin ákvörðun um að grenndarkynna ekki umrædda framkvæmd enda sé steypti stoðveggurinn um 4,5 m frá lóðamörkum Laugarásvegar 61, en liggi að óbyggðri lóð Laugarásvegar nr. 59 sem sé í eigu sveitarfélagsins. Sýnt þykir fram á að hin umdeilda framkvæmd á lóð nr. 63 varði ekki hagsmuni annarra en sveitarfélagsins og/eða umsækjanda og því hafi ekki verið ástæða til þess að grenndarkynna framkvæmdina. Um hafi verið að ræða áður gerða framkvæmd og hafi áhrif hennar þegar komið fram. Ekki verði séð að hagmunir kæranda hafi skerst hvað varði landnotkun, útsýni, skuggavarp eða innsýn.

Vissulega hefði verið betra að bóka sérstaklega í fundargerð greinds afgreiðslufundar að fallið væri frá grenndarkynningu í samræmi við 3. mgr. 44. gr. skipulagslaga. Engu að síður geti það vart talist slíkur ágalli á málsmeðferð að ástæða sé til þess að afturkalla byggingarleyfið enda sé ekki um að ræða atriði sem hafi áhrif á endanlega niðurstöðu.

 Kærandi hafi frá því um mitt ár 2023 verið vel upplýstur um meðferð málsins og á öllum stigum þess haft tækifæri sem hann hafi nýtt vel til þess að koma að athugasemdum. Í því ljósi sé því hafnað að afstaða og athugasemdir kæranda hafi ekki legið fyrir við ákvörðun málsins. Þá hafi kærandi á fyrri stigum haldið því fram að steypti stoðveggurinn valdi því að meira vatn renni inn á lóð nr. 61 en áður var. Um það atriði hafi sérstaklega verið fjallað í skýrslu vegna húsaskoðunar frá 7. nóvember 2024 þar sem segi að engar vísbendingar séu um slíkt. Hafi kærandi heldur ekki lagt fram gögn sem styðji þá fullyrðingu.

 Málsrök leyfishafa: Leyfishafar telja að óskylt hafi verið að grenndarkynna framkvæmdina, enda varði hún ekki hagsmuni annarra en sveitarfélagsins og umsækjenda, sbr. 3. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Nefndur stoðveggur liggi á lóðamörkum lóða nr. 59 og 63, en ekki á mörkum lóðar kæranda og leyfishafa og hafi legið fyrir samþykki lóðarhafa lóðar nr. 59. Framkvæmdin hafi mjög óveruleg áhrif á lóð kæranda, enda sé hún um fjórum metrum frá lóðamörkum.

Framkvæmdin svipi til annarra minniháttar framkvæmda á lóðum í hverfinu, þ.e. á fjölda einbýlishúsalóða ofan Laugardals þar sem megi finna skjólveggi, palla og heita potta. Kærandi hafi haft öll gögn málsins undir höndum og komið að víðtækum andmælum við leyfisveitanda áður en hin kærða ákvörðun hafi verið tekin. Markmiðum grenndarkynningar, skv. 2. mgr. 44. gr. skipulagslaga, hafi því verið náð að fullu gagnvart kæranda. Framkvæmdinni hafi lokið fyrir þremur árum og hafi verið fyrir allra augum.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi telur málið hafa haft einkennilegan framgang hjá byggingarfulltrúa og tekið alltof langan tíma. Steypti veggurinn sem um ræði sé ekki á lóð Laugarásvegar 63 heldur sé hann inni á borgarlandinu L59, Gunnarsbrekku. Teikningar sem lóðarhafar á Laugarásvegi nr. 63 hafi lagt til grundavallar hjá skipulagsfulltrúa og byggingarfulltrúa séu rangar.

Allt frá því að kærandi hafi fyrst haft samband við byggingarfulltrúa sumarið 2023 vegna óleyfisgirðingar á lóðarmörkum Laugarásvegar nr. 61 og 63 og vegna óleyfisveggjarins sem hér um ræði hafi lítil eða engin svör fengist og vinnubrögð óeðlileg. Aldrei hafi byggingarfulltrúi farið fram á það við lóðarhafa á Laugarásvegi nr. 63 að framkvæmdir yrðu stöðvaðar. Frá því kærandi hafði fyrst samband við byggingarfulltrúa hafi bæst talsvert við af þessum óleyfisframkvæmdum, m.a girðing stækkuð, pallur gerður alveg við girðinguna og byggt út frá girðingunni, heitur pottur settur niður á lóðarmörkunum og plexigler þak sett ofan á steypta vegginn.

Jarðrask hafi verið töluvert af hálfu lóðarhafa á Laugarásvegi 63 sem með stórri skurðgröfu hafi mokað jarðvegi af sinni lóð og sett fyrir ofan steypta vegginn í borgarlandinu, til að fela raunverulega hæð veggjarins sem sé 220–250 cm á hæð.

Þegar byggingarfulltrúi hafi loks tekið á málinu undir lok ársins hafi lóðarhafar Laugarásvegar 63 verið krafðir um að leggja inn byggingaleyfisumsókn innan tiltekins frests sem orðið hafi að mörgum viðbótarfrestum fram til 2024. Að endingu hafi lóðarhafi Laugarásvegar 63 ekki lagt inn byggingaleyfisumsókn. Þess í stað hafi hann haft samband við skrifstofustjóra Reykjavíkurborgar með tölvupósti og sagst hafa reist steyptan vegg sem væri 45 cm frá lóðarmörkum og 95 cm á hæð við borgarlandið, L59. Hér hafi verið um rangar upplýsingar að ræða og afvegaleiðingu til þess að auka líkur á að veggurinn yrði samþykktur.

Hafi því næst legið fyrir samþykki fyrir veggnum á þessum röngu forsendum án vitneskju um að veggurinn væri í raun 220–250 cm á hæð og allur reistur inni á borgarlandinu.

Skýringar lóðarhafa um að reisa þurfi vegg vegna skriðu sem komi til vegna mikils hæðarmunar á lóðum nr. 59 og 63 séum rangar. Lóðirnar á Laugarásvegi 61 og 63 hafi staðið svona óbreyttar í meira en 70 ár og engin þörf verið á stoðvegg á þessum stað.

Samþykki byggingarfulltrúa á stoðveggnum sé þeim annmörkum háð að ekki hafi verið farið að lögum um lögbundna grenndarkynningu. Einnig sé tekið fram í samþykktinni að vankantar væru á umsókninni, enda vísi byggingarfulltrúi til þess: „Óvissa kann því að vera um uppbyggingu og útfærslu framkvæmdar. Hvorki er skráð verktrygging á verkið né ábyrgðaraðilar.“

Rök um að kærandi hafi engra hagsmuna að gæta haldi ekki vatni. Bent sé á að úrskurðarnefndin hafi sagt það réttilega og skýrt í úrskurði sínum nr. 31/2024 að lóðarhafi Laugarásvegar 61 hafi lögvarða hagsmuni.

Enginn vafi sé um að slysahætta sé af steypta veggnum þegar börn renni sér í brekkunni og dæmi um að börn hafi klesst á vegginn og brotið snjóþotur. Þetta sé skýrt dæmi um slysahættu og almannahagsmuni sem byggingarfulltrúi hafi ekki rannsakað eða tekið afstöðu til á nokkurn hátt.

Þær húsaskoðanir sem vísað sé til að farið hafi fram dagana 16. október 2024 og 7. nóvember s.á. virðist eingöngu hafa snúist um að lækka skyldi jarðveginn fyrir ofan vegginn um 20 cm þannig að hann væri nálægt 95 cm frá efstu brún niður að jarðveginum sem lóðarhafi Laugarásvegar nr. 63 mokaði upp af sinni lóð. Það sé sú tala sem lóðarhafi hafi lagt upp með þegar veggurinn hafi fyrst verið kynntur. Veggurinn sé auðvitað ekki 95 cm á hæð heldur sé hann 220 cm á horninu næst lóð kæranda og þar sem hann rísi hæst ca 250 cm frá jörðu.

Í húsaskoðunarskýrslu komi aðeins fram að ekki sé sjáanlegt að framkvæmdirnar séu þess valdandi að meira vatn renni til nágrannalóðar. Sé það algerlega á skjön við niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar sem í máli nr. 31/2024 hafi sagt að ekki væri útilokað að tilvist veggjarins veiti vatni í auknum mæli á lóð kæranda, en halli sé á landi ofan við vegginn. Í húsaskoðunarskýrslu sé það nefnt að búið væri að slétta út uppgröft og rétt hæð komin. Hvergi sé þess þó getið eða skilgreint hver sé þessi „rétta hæð“. Geti slíkt vart talist nóg til að uppfylla rannsóknarreglu stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá kafi kærandi fengið mælideild Reykjavíkurborgar til að mæla lóðamörkin á milli Laugarásvegar nr. 63 og 61. Þar komi vel fram miðað við endamælipunktinn efst á lóðamörkunum við Gunnarsbrekku að steypti veggurinn sé allur talsvert inni á borgarlandinu, Laugarásvegi 59. Byggingarleyfisumsókn lóðarhafa geti því varla í lagalegum skilningi verið í lagi því hún eigi við lóðina Laugarásveg 63 en sé í raun framkvæmd inni á borgarlandinu. Til að Reykjavíkurborg geti afsalað sér borgarlandinu þurfi samþykki borgarráðs.

Steypti veggurinn virki eins og stífla í brekkunni sem beini grunnvatni og yfirborðsvatni frá húsi nr. 63 og beint í áttina að húsi kæranda. Ekki sé rétt að kærandi hafi ekki lagt fram gögn sem styðji þá fullyrðingu. Í því sambandi vísar kærandi til ljósmynda af lekanum sem hafi verið meðal kærugagna í máli nr. 31/2024. Þær upplýsingar hafi byggingarfulltrúi haft undir höndum og því óskiljanlegt að halda fram hinu gagnstæða þegar svo mikið sé í húfi. Þá sé veruleg skerðing á útsýni frá eldhúsglugga kæranda og víða af lóðinni sem standi mun lægra í landinu og áhrifin því enn meiri.

Niðurstaða: Í 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kveðið á um að hlutverk nefndarinnar sé að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Í samræmi við það tekur úrskurðarnefndin lögmæti kærðrar ákvörðunar til endurskoðunar en tekur ekki nýja ákvörðun eða leggur fyrir stjórnvöld að taka nýja ákvörðun með tilteknu efni. Verður því í máli þessu einungis tekin afstaða til lögmætis hinnar kærðu ákvörðunar.

 Samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2040 er lóðin Laugarásvegur 63 á skilgreindu íbúðarsvæði. Ekki er í gildi deiliskipulag sem nær til lóðarinnar.

 Í 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er mælt fyrir um að þegar sótt er um byggingar- eða framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmd sem er í samræmi við aðalskipulag en deiliskipulag liggi ekki fyrir geti sveitarstjórn, eða sá aðili sem heimild hefur til fullnaðarafgreiðslu mála, ákveðið að veita megi leyfi án deiliskipulagsgerðar ef framkvæmdin er í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar. Skal skipulagsnefnd þá láta fara fram grenndarkynningu, sbr. 2. og 3. mgr. 43. gr. sömu laga. Nefndinni er heimilt að falla frá grenndarkynningu skv. 3. mgr. 44. gr. laganna, sé sýnt fram á að breyting á deiliskipulagi eða leyfisskyld framkvæmd varði ekki hagsmuni annarra en sveitarfélagsins og/eða umsækjanda. Ekki er í nefndu ákvæði nánari lýsing á til hvaða hagsmuna beri að líta. Hvað teljist til hagsmuna er þó fjallað um í 3. mgr. 43. gr. laganna. Þar segir að um sé að ræða að hagsmunir nágranna skerðist í engu hvað varði landnotkun, útsýni, skuggavarp eða innsýn.

Samkvæmt aðaluppdráttum eru hinar kærðu framkvæmdir ásamt stoðveggnum í 4,5 m fjarlægð frá lóðarmörkum kæranda. Á hinn bóginn telur kærandi það ekki rétt heldur sé stoðveggurinn mun nær lóð hans og þar sem veggurinn rísi hæst sé hann 250 cm frá jörðu. Kærandi hefur auk þess greint frá því að veruleg skerðing sé á útsýni frá eldhúsglugga hans og víða af lóðinni sem standi mun lægra í landinu og áhrifin því enn meiri. Þá sé leki í kjallara húss kæranda þar sem veggurinn beini vatni í átt að lóð hans. Með hliðsjón af því og með vísan til þess að túlka ber undantekningarákvæði þröngt þykir ekki hafa verið sýnt fram á að umrædd framkvæmd varði aðeins hagsmuni Reykjavíkurborgar og/eða umsækjanda. Bar borgaryfirvöldum því að grenndarkynna framkvæmdina fyrir þeim nágrönnum sem taldir eru geta átt hagsmuna að gæta. Þar sem það var ekki gert verður ekki hjá því komist að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi.

 Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 19. nóvember 2024 um að samþykkja leyfi fyrir áðurgerðum steyptum stoðvegg á lóðamörkum lóðanna nr. 63 og 59 við Laugarásveg, ásamt pergólu og heitum potti á steyptri verönd á lóðinni Laugarásvegi 63.

163/2024 Hraunbær

Með

Árið 2025, mánudaginn 10. febrúar, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 163/2024, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Reykjavíkur frá 16. október 2024 um að gefa út byggingarleyfi vegna breytinga á innra skipulagi og fjölgun eigna að Hraunbæ 102a.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 27. nóvember 2024, kærir A f.h. JIG málunar ehf., eigandi að eignarhluta 050101 í Hraunbæ 102c, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Reykjavíkur frá 16. október 2024 að veita byggingarleyfi til að breyta innra skipulagi og fjölga eignum með því að skipta tveim skilgreindum rýmum í verslunar- og íbúðarhúsi að Hraunbæ 102a í 8 minni verslunareiningar og vinnustofur. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 20. desember 2024. Frekari athugasemdir bárust frá kæranda 6. febrúar 2025.

Málavextir:

Þann 7. maí 2024 var lögð inn umsókn um byggingarleyfi til byggingarfulltrúa Reykjavíkur þar sem sótt var um leyfi til að breyta innra skipulagi og fjölga eignum í verslunar- og íbúðarhúsi við Hraunbæ 102a, matshluta 01 á lóð nr. 102 í Hraunbæ í Reykjavík. Breytingarnar fólu í sér skiptingu á rýmum 0104 og 0108 upp í 8 minni verslunareiningar og vinnustofur.  Í málinu liggur fyrir samþykki frá þinglýstum eigendum allra eignarhluta fasteignarinnar að Hraunbæ 102a. Byggingarfulltrúi samþykkti umsóknina á afgreiðslufundi þann 1. október 2024 með því skilyrði að gerð yrði ný eignaskiptayfirlýsing þar sem um væri að ræða breytta skráningu á fjöleignarhúsi og var byggingarleyfi gefið út 16. október 2024.

Kærandi varð þess áskynja þann 7. nóvember 2024 að á fundi byggingarfulltrúa 1. október 2024 hafi verið fjallað um umsókn vegna Hraunbæjar 102a og því lýst að samþykki meðeigenda lægi fyrir. Kærandi spurðist fyrir um innihald umsóknarinnar og fékk svör við spurningum sínum frá Reykjavíkurborg sama dag. Þar var upplýst um innhald umsóknarinnar og að byggingarleyfi hefði verið gefið út, sem hann kærði til úrskurðarnefndarinnar til ógildingar 27. nóvember 2024.

Málsrök kæranda:

Kærandi rekur að í svari Reykjavíkurborgar til hans þann 7. nóvember 2024 komi fram að verið sé að fjölga eignarhlutum í Hraunbæ 102a um 6, úr 19 í 25, og að ekki hafi verið talin þörf á samþykki annarra en eigenda í matshluta 1. Hann telji Hraunbæ 102a og 102c vera eitt hús í skilningi fjöleignarhúsalaga, mathlutarnir beri sama húsnúmer og séu samtendir með veggjum, t.d. sé aðgengi að efri hæð Hraunbæjar 102a á lofti bílageymslu Hraunbæjar 102b-e. Lóðin sé sameiginleg. Fjölgun eignarhluta í Hraunbæ 102a þurfi samþykki eigenda í Hraunbæ 102 b-g og einnig þurfi samþykki meðlóðarhafa í Hraunbæ 102 b-g og Rofabæ 27, sem sé ein lóð. Kærandi telji að samkvæmt fjöleignarhúsalögum þurfi samþykki allra ef fjölga skuli eignarhlutum, fjölgunin hafi ekki verið borin undir hann og því kæri hann samþykki og útgáfu byggingarleyfisins frá 16. október 2024 og óski eftir því að það verði fellt úr gildi.

Málsrök byggingarfulltrúa Reykjavíkur:

Reykjavíkurborg upplýsir að á bls. 161 í skipulagsskilmálum Hverfisskipulags Árbæjar, samþykktu í borgarráði 11. október 2019, komi fram að skilmálaeiningin Hraunbær 102 og Rofabær 23, samanstandi „af fjórum fjölbýlishúsum sem byggðust upp á 8. og 9. áratugnum. Á hverfisskipulagsuppdrætti af skilmálaeiningu 7.2.7, bls. 163, séu fjölbýlishúsin Hraunbær 102a, Hraunbær 102b-e, Hraunbær 102f-h og Rofabær 23 teiknuð sem fjórar stakstæðar byggingar. Sér lóðarleigusamningur sé í gildi fyrir Hraunbæ 102a, dags. 21. nóvember 2019, þar sem fram komi í 1. gr. að lóðin Hraunbær 102a sé hluti af lóðinni Hraunbær 102, 102a-h og Rofabær 23. Jafnframt liggi fyrir sér eignaskiptayfirlýsing varðandi Hraunbæ 102a, þinglýst 16. maí 2003, þar sem fram komi að húsið Hraunbær 102a sé steinsteypt verslunar- og fjölbýlishús á tveimur hæðum. Samþykki allra eigenda Hraunbæjar 102a þurfi við breytingu eignaskiptayfirlýsingarinnar, sbr. 1. tl. A. liðar 1. mgr. 41. gr. laga um fjöleignarhús nr. 26/1994. Í ljósi framangreinds og með hliðsjón af niðurstöðu Landsréttar í máli 435/2019, þar sem talið hafi verið að Rofabær 43-37 væri sjálfstætt hús í skilningi fjöleignarhúsalaganna, sé það mat Reykjavíkurborgar að Hraunbær 102a teljist vera sjálfstætt hús í skilningi 1. mgr. 3. gr. laga nr. 26/1994.

Athugasemdir leyfishafa:

Leyfishöfum var gefinn kostur á að koma á framfæri sjónarmiðum sínum í málinu en þeir hafa ekki tjáð sig um kærumál þetta.

Viðbótarathugasemdir kærenda: Með tölvupósti 6. febrúar 2025 ítrekaði kærandi fyrri sjónarmið.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um hvort útgáfa byggingaleyfis vegna breytinga á innra skipulagi og fjölgun eigna tveggja skilgreindra rýma í verslunar- og íbúðarhúsi að Hraunbæ 102a í minni verslunareiningar og vinnustofur hefði þurft samþykki allra eigenda í Hraunbæ a, b, c, d, e, f og g og einnig meðlóðarhafa að Rofabæ 27, en ekki einungis eigenda í Hraunbæ 102a. Ég geng út frá því að um ritvillu sé að ræða hjá kæranda varðandi tilgreint húsnúmer að Rofabæ 27 og þar hafi átt að standa Rofabær 23, enda deilir það hús lóð með Hraunbæ 102a.

Úrlausn þessa ágreiningsefnis veltur annars vegar á því hvort leita hefði átt samþykkis fyrir breytingunum á Hraunbæ 102a. Þar reynir á hvort Hraunbær 102a teljist sjálfstætt fjöleignarhús í skilningi fjöleignarhúsalaganna nr. 26/1994 eða hluti stærra fjöleignarhúss. Hins vegar veltur málið á því hvort breytingarnar kalli á samþykki eigenda að Hraunbæ b, c, d, e, f, og g og eigenda Rofabæjar 27, þar sem þær húseignir deili lóð með Hraunbæ 102a.

Kærandi telur að Hraunbær 102 a og 102c séu eitt hús í skilningi fjöleignarhúsalaganna og nefndin skilur málsástæður í kæru hans um að breytingarnar á Hraunbæ 102a þurfi samþykki eigenda í Hraunbæ 102 b-g á þann veg að hann telji Hraunbæ 102a, b, c, d, e, f og g einnig vera eitt fjöleignarhús.

Hugtakið hús er skilgreint í 3. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús þannig að því sé átt við byggingu sem varanlega er skeytt við land og stendur sjálfstæð og aðgreind frá öðrum húsum eða skilur sig þannig frá þeim þótt sambyggð eða samtengd séu að eðlilegt og haganlegt sé að fara með hana samkvæmt lögunum sem sjálfstætt hús.

Fyrir liggur að á bls. 161 í skipulagsskilmálum Hverfisskipulags Árbæjar sem samþykkt var í borgarráði 11. október 2019 er því lýst að skilmálaeiningin Hraunbær 102 og Rofabær 23 samanstandi af fjórum fjölbýlishúsum sem byggst hafi upp á 8. og 9. áratugnum.  Í samræmi við þessa lýsingu eru á uppdrætti á bls. 163 þannig fjórar aðgreindar byggingar merktar; Hraunbær 102a, Hraunbær 102b-e, Hraunbær 102f-h og Rofabær 23.

Um Hraunbæ 102a gildir sérstök Eignaskiptayfirlýsing dags. 18. febrúar 2003, þar sem fram kemur að húsið að Hraunbæ 102a sé steinsteypt verslunar- og fjölbýlishús á tveim hæðum, með verslunar og þjónustufyrirtæki á 1. hæð ásamt 11 íbúðum á 2. hæð. Ekki er tilgreint að Hraunbær 102a sé hluti af stærra fjölbýlishúsi eða sambyggt öðrum húsum.

Í umsögn Reykjavíkurborgar kemur fram að byggingarnar við Hraunbæ 102a-h hafi ekki verið byggðar á sama tíma og útlit þeirra og yfirbragð sé frábrugðið. Aðskilin bílastæði og aðkeyrsla sé að Hraunbæ 102a og Hraunbæ 102b-e, en milli bygginganna sé samtengdur inngangur í bílageymslu og bílastæði Hraunbæjar 102a sem liggi lægra en bílastæði Hraunbæjar 102b-e og ekki akfært á milli þeirra.

Með vísan til ofangreindrar lýsingar, teikninga af byggingunum og eignarskiptayfirlýsingu Hraunbæjar 102a telur úrskurðarnefndin að Hraunbær 102a sé sjálfstætt hús í skilningi laga nr. 26/1994 um fjöleignarhúsa. Byggingarleyfið sem kært er var háð þeim skilyrðum að gerð yrði ný eignaskiptayfirlýsing fyrir Hraunbæ 102a. Með vísan til þess að úrskurðarnefndin telur að Hraunbær 102a sé sjálfstætt hús er skilyrðum 1. tl. A-liðar 1. mgr. 41. gr. um samþykki allra eigenda fyrir breytingum á þinglýstri eignaskiptayfirlýsingu fullnægt með því að samþykki allra þinglýstra eigenda að Hraunbæ 102a liggur fyrir. Samþykki eigenda annarra fjölbýlishúsa í Hraunbæ 102b-h eða Rofabæ 23 var því ekki þörf.

Kærandi vísar einnig til þess í málsástæðum sínum að sú fjölgun eignarhluta í Hraunbæ 102a sem byggingarleyfið er gefið út fyrir þurfi samþykki meðlóðarhafa að Hraunbæ 102b-g og Rofabæ 23. Á landeignanúmeri L111081 í fasteignaskrá Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar eru skráðar eignirnar Hraunbær 102, Hraunbær 102a-h og Rofabær 23. Sérstakur lóðarleigusamningur gildir fyrir Hraunbæ 102a, þar sem fram kemur að sú lóð sé hluti af lóðinni Hraunbær 102, 102a-h og Rofabæ 23. Hið kærða byggingarleyfi varðar einungis breytingar á innra skipulagi í Hraunbæ 102a en ekki framkvæmdir eða breytingar á framangreindum lóðum eða lóðaréttindum. Ekki verður séð að eigendur annarra fasteigna eigi því hagsmuna að gæta á grundvelli lóðarréttinda.

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á. Verður að skýra þetta ákvæði í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttarins um aðild í kærumálum þar sem áskilið er að kærandi eigi beina einstaklingsbundna og lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á.

Framkvæmd sú sem heimiluð er með hinu kærða leyfi snýst um breytingar á innra skipulagi og fjölgun eigna með því að skipta rýmum 0104 og 0108 upp í 8 minni verslunareiningar og vinnustofur í verslunar- og íbúðarhúsi við Hraunbæ 102a, matshl. 01 á lóð nr. 102 við Hraunbæ. Fyrirliggjandi er samþykki allra þinglýstra eigenda að eignarhlutum í Hraunbæ 102a og eins og áður er rakið var ekki þörf á samþykki kæranda né annarra eigenda húseignanna að Hraunbæ 102 b-h né Rofabæ 23. Með vísan til þessa verður ekki séð að breytingarnar og sú fjölgun eigna sem byggingaleyfið nær til raski grenndarhagsmunum kæranda eða öðrum þeim einstaklingsbundnu lögvörðu hagsmunum hans á þann hátt að veitt geti honum kæruaðild í máli þessu. Af þeim sökum er kæru þessari vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.