Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

47/2008 Bárustígur

Með

Ár 2008, fimmtudaginn 13. nóvember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 47/2008, kæra á samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs Vestmannaeyja frá 28. september 2005 um að banna bifreiðastöður við Bárustíg 7, Vestmannaeyjum. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 18. júlí 2008, er barst nefndinni hinn 24. sama mánaðar, kærir Oddgeir Einarsson hdl., f.h. B, Bárustíg 7, Vestmannaeyjum, samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs Vestmannaeyja frá 28. september 2005 um að banna bifreiðastöður við Bárustíg 7, Vestmannaeyjum.  Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða samþykkt verði felld úr gildi. 

Málsatvik og rök:  Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Vestmannaeyja hinn 28. september 2005 var lögð fram svohljóðandi tillaga svonefnds umferðarhóps:  „1.  Bárustígur verði gerður að vistgötu frá Vestmannabraut að Vesturvegi (í framhaldi af Hilmisgötu) þannig að ákvæðum í gr. 1.14 í deiliskipulagi miðbæjarins verði framfylgt.  2.  Bannað verði að leggja bílum við gangstéttar frá Bárustíg 9 að Strandvegi.“  Var tillagan samþykkt og framkvæmdastjóra umhverfis- og framkvæmdasviðs falið að hafa samráð við viðeigandi aðila varðandi framgang málsins.  Lýtur ógildingarkrafa kæranda að 2. tl. bókunarinnar. 

Kærandi kveðst hafa verið eigandi hússins að Bárustíg 7 frá árinu 1991 og rekið þar bakarí um árabil.  Bílastæði framan við húsið séu verslunarrekstrinum mikilvæg og hafi þau verið forsenda fyrir kaupum á fasteigninni á sínum tíma.  Umdeild ákvörðun um bann við bifreiðastöðum hafi komið til framkvæmda í júlí 2006 og hafi komið kæranda í opna skjöldu enda hafi honum ekki verið tilkynnt um ákvörðunina.  Af hálfu kæranda hafi ítrekað verið gerðar athugasemdir við bifreiðastöðubannið, farið fram á endurskoðun ákvörðunarinnar og kallað eftir rökstuðningi að baki banninu en án árangurs.  Hafi kærufrestur vegna hinnar kærðu ákvörðunar því ekki byrjað að líða. 

Ógildingarkrafa kæranda sé byggð á því að umrædd ákvörðun sé ekki tekin af þar til bæru stjórnvaldi enda eigi ákvarðanir um stöðvun og lagningu ökutækja undir lögreglustjóra skv. a lið 2. mgr. 81. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.  Verði talið að ákvörðunin hafi verið tekin af þar til bæru stjórnvaldi sé um deiliskipulagsákvörðun að ræða sem fari eftir ákvæðum skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, m.a. um auglýsingu, kynningu og yfirferð Skipulagsstofnunar á deiliskipulagstillögu.  Við hina kærðu ákvörðun hafi þessara lagaákvæða ekki verið gætt og málsmeðferðin því brotið gegn reglum stjórnsýslulaga um rannsókn máls, andmælarétt, tilkynningaskyldu stjórnvalds og rökstuðning fyrir ákvörðun.  Um sé að ræða ákvörðun sem sé verulega íþyngjandi gangvart kæranda og snerti atvinnuhagsmuni hans. 

Af hálfu Vestmannaeyjabæjar er byggt á því að hin kærða bókun umhverfis- og skipulagsráðs feli ekki í sér stjórnvaldsákvörðun í skilningi 8. gr. skipulags- og byggingarlaga eða stjórnsýslulaga sem kæranleg sé til úrskurðarnefndarinnar.  Hvort heimilt sé eða ekki að stöðva eða leggja ökutækjum við gangstéttar sé háð ákvörðun viðkomandi lögreglustjóra en sveitarstjórn eigi aðeins tillögurétt í því efni, sbr. 81. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.  Umdeild tillaga sveitarstjórnar Vestmannaeyja hafi verið send lögreglustjóra sem hafi í kjölfar þess tekið ákvörðun um að banna að leggja bifreiðum við Bárustíg.  Hafi sú ákvörðun komið fram í auglýsingu sýslumanns um umferð í Vestmannaeyjum sem birst hafi í B-deild Stjórnartíðinda hinn 28. apríl 2006. 

Fyrirliggjandi bréf kæranda frá árinu 2006 beri það með sér að honum hafi þá þegar verið ljóst efni umræddrar samþykktar eða bókunar umhverfis- og skipulagsráðs.  Ekki sé kveðið á um að beiðni um rökstuðning fresti því að kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar byrji að líða en í 21. gr. stjórnsýslulaga sé kveðið á um að beiðni um rökstuðning skuli koma fram í síðasta lagi 14 dögum eftir að ákvörðun hafi verið birt viðkomandi.  Engin formleg beiðni um rökstuðning hafi borist frá kæranda þrátt fyrir vitneskju hans um málið á árinu 2006 og verði að telja kærufrest í málinu löngu liðinn. 

Niðurstaða:  Hin kærða bókun umhverfis- og skipulagsráðs Vestmannaeyja frá 25. september 2005 fól í sér samþykkt á tillögu til lögreglustjóra um umferðarmál við Bárustíg sem unnin var af starfshópi um umferðarmál á vegum sveitarfélagsins.  Hið umdeilda bann við stöðu bifreiða við Bárustíg sem þar var lagt til var síðan ákveðið af lögreglustjóra.  Var sú ákvörðun birt í B-deild Stjórnartíðinda hinn 28. apríl 2006 í auglýsingu nr. 337/2006 um umferð í Vestmannaeyjum. 

Samkvæmt 81. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 fer lögreglustjóri með ákvörðunarvald um þau málefni sem hér um ræðir að fengnum tillögum viðkomandi sveitarstjórnar.  Ákvarðanir lögreglustjóra um umferðarmál samkvæmt téðu ákvæði eru ekki teknar á grundvelli skipulags- og byggingarlaga.  Verða þær því ekki bornar undir úrskurðarnefndina, sbr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga, enda hefur nefndinni ekki verið falið úrskurðarvald um þær ákvarðanir í öðrum lögum. 

Hin kærða samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs var lögboðinn undanfari ákvörðunar lögreglustjóra en fól ekki í sér lokaákvörðun í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Verður sú samþykkt af þeim sökum ekki kærð ein og sér til úrskurðarnefndarinnar.  Þegar af þeirri ástæðu verður máli þessu vísað frá nefndinni. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

 

 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

 

 

______________________________    _______________________________
Ásgeir Magnússon                                        Þorsteinn Þorsteinsson

105/2005 Vatnsstígur

Með

Ár 2007, þriðjudaginn 11. desember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ásgeir Magnússon héraðsdómari. 

Fyrir var tekið mál nr. 105/2005, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 17. nóvember 2005 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi reits 1.152.5, sem afmarkast af Vatnsstíg, Frakkastíg, Lindargötu og Hverfisgötu, þar sem fallið var frá niðurrifi bygginga að Vatnstíg 12 og bílastæðum vegna fyrirhugaðra stúdentagarða á reitnum fækkað. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 16. desember 2005, er barst nefndinni sama dag, kærir Hilmar Magnússon hrl., f.h. Þ, eiganda fasteigna að Vatnsstíg 11 og 12, Lindargötu 34 og Hverfisgötu 53, þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 17. nóvember 2005 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi reits 1.152.5, sem afmarkast af Vatnsstíg, Frakkastíg, Lindargötu og Hverfisgötu, þar sem fallið var frá niðurrifi bygginga að Vatnsstíg 12 og bílastæðum vegna fyrirhugaðra stúdentagarða á reitnum fækkað.  Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Fasteignin að Vatnsstíg 12 er nú í eigu Vatns og lands ehf., auk þess sem félagið á ýmsar aðrar eignir á svæðinu.  Hefur greint félag tekið við aðild málsins að sínu leyti.  

Málavextir:  Á árinu 2004 var gerð breyting á skipulagi umrædds svæðis þar sem m.a. var gert ráð fyrir niðurrifi húsa að Vatnsstíg 12.  Gert var ráð fyrir þeim möguleika að sú lóð yrði sameinuð lóðum að Lindargötu 40-48 (jöfn númer) undir fyrirhugaðar íbúðir fyrir stúdenta.  Var lóðin að Vatnsstíg 12 ætluð fyrir innkeyrslu að stúdentaíbúðunum og undir bílastæði fyrir þær íbúðir. 

Á fundi skipulagsráðs 5. október 2005 var lögð fram fyrirspurn Skipulagssjóðs um breytingu á deiliskipulagi reits 1.152.5 ásamt tillögu skipulagsfulltrúa að breytingu á deiliskipulaginu.  Skipulagsráð samþykkti að grenndarkynna deiliskipulagstillöguna fyrir hagsmunaðilum að Vatnsstíg 12. 

Að lokinni grenndarkynningu var málið tekið fyrir á fundi skipulagsráðs hinn 16. nóvember 2005 þar sem lagt var fram m.a. athugasemdabréf eiganda húseignarinnar að Vatnsstíg 12 ásamt umsögn skipulagsfulltrúa um athugasemdir.  Var skipulagstillagan samþykkt með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa og staðfesti borgarráð þá afgreiðslu eins og að framan greinir.  Auglýsing um gildistöku deiliskipulagsins birtist í B-deild Stjórnartíðinda 30. nóvember 2005 að undangenginni lögboðinni afgreiðslu Skipulagsstofnunar. 

Málsrök kærenda:  Kærendur benda á að hina kærðu skipulagsbreytingu hafi borið að auglýsa og fara með í samræmi við meginreglu 1. mgr. 26. gr. laga nr. 73/1997 í stað þess að grenndarkynna hana samkvæmt undantekningarreglu 2. mgr. ákvæðisins.  Breytingin varði fjölmargar húseignir þótt um fáa aðila sé að ræða. 

Einungis sé heimilt að falla frá auglýsingu ef um óverulega breytingu á deiliskipulagi sé að ræða.  Umrædd breyting sé veruleg og snúi að eignum og eignaréttindum sem varin séu af stjórnarskrá.  Miða eigi við hvort breyting sé veruleg gagnvart einum eða fleiri íbúðareigendum en ekki hvort breyting á skipulagi sem slík sé óveruleg.  Fyrirhuguð fjölmenn byggð í miðbæjarhluta muni hafa ónæði í för með sér og verðfella eignir kærenda.  Umferð bifreiða muni aukast verulega, sérstaklega við Lindargötu, en rekið sé  gistiheimili að Vatnsstíg 11. 

Fækkun bílastæða bitni á eignum kærenda og fullnægi engan veginn þörfum íbúanna í nýjum fjölbýlishúsum.  Gert sé ráð fyrir 0,4 stæðum fyrir hverja íbúð en ráða megi af gögnum að þau verði aðeins 0,3 á íbúð, sem sé allt of lágt.  Því sé mótmælt sem fram komi í greinargerð umdeildrar skipulagsbreytingar að breyting á leiðakerfi strætisvagna hafi leitt til fjölgunar ferða en engin gögn fylgi sem sanni þá fullyrðingu.  Þetta séu auk þess haldlaus rök fyrir minni þörf á bílastæðum þar sem leiðakerfi Strætó bs. taki sífelldum breytingum og því ekki útilokað að ferðum fækki síðar.  Ekkert liggi fyrir um að íbúar í fyrirhuguðum stúdentaíbúðum muni síður nota einkabíla en aðrir.  Í þessu sambandi megi benda á svör vegna athugasemda er borist hafi við deiliskipulag það sem fyrir hafi verið, þar sem sagt hafi verið eðlilegt að miða við 0,5 stæði á íbúð með hliðsjón af bílaeign stúdenta.  Þá hafi ekki verið talið unnt að gera minni kröfur vegna mikillar bílaeignar og að ekki verði séð að breytt leiðakerfi strætisvagna hafi í för með sér breytingu á bílaeign stúdenta í þeim mæli sem umdeild skipulagsbreyting geri nú ráð fyrir. 

Meginbreytingin snúi að lóðinni að Vatnsstíg 12.  Á sínum tíma hafi verið mótmælt að gert yrði ráð fyrir innkeyrslu um þá lóð en þeim mótmælum hafi ekki verið fylgt eftir þar sem talið hafi verið að samningur væri í höfn við Reykjavíkurborg um makaskipti á þeirri lóð og Lindargötu 2-36 en það hafi ekki gengið eftir.  Bílastæði og fjögurra hæða nýbygging stúdenta liggi að lóðarmörkum Vatnsstígs 12, sem sé í andstöðu við 4. kafla byggingarreglugerðar.  Á skipulagsuppdrætti séu færð inn tákn á lóðina Vatnsstíg 12 sem ekki séu skýrð í skipulagstillögunni. 

Umrædd nýbygging virðist eiga að rísa að hluta á lóðinni að Vatnsstíg 12 ef marka megi mælingablað frá umhverfis- og tæknisviði, þar sem fyrrgreind lóð sé minnkuð um 1,3 m² og lóðamörk færð til vesturs þannig að þau séu í gegnum bílskúr sem þar sé. 

Kærendur telji af framangreindum ástæðum hina kærðu ákvörðun ólögmæta og skerði hún eignarréttindi þeirra með þeim hætti að ekki verði við unað skv. almennum reglum grenndarréttar, bæði hvað varði nýtingu og næði.  Ekki liggi fyrir ástæður borgaryfirvalda fyrir umræddum breytingum sem telja verði ómálefnalegar og beri vott um valdníðslu enda leiði breytingin til mikils tjóns fyrir kærendur með einangrun fasteigna er leiði til takmarkaðri nýtingarmöguleika.  Breyti hér engu þótt tjón sem kærendur verði sannanlega fyrir verði bætt.  Það sé rangt sem komi fram hjá skipulagsfulltrúa í umsögn hans um umrædda skipulagsbreytingu að verið sé að færa skipulag til fyrra horfs þar sem í byggingu séu stórir stúdentagarðar á reitnum.

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Af hálfu Reykjavíkurborgar er farið fram á að ógildingarkröfu kærenda verði hafnað.

Hin kærða deiliskipulagsbreyting hafi verið grenndarkynnt fyrir þeim aðilum sem taldir hafi átt hagsmuna að gæta, þ.e. annars vegar lóðarhafa Vatnsstígs 12 og hins vegar félagsins Stafna á milli, sem hafi verið eigendur að þeim eignum á reitnum sem ekki hafi verið í eigu Reykjavíkurborgar.  Breytingin hafi verið þess eðlis að aðrir aðilar á svæðinu hafi ekki verið taldir eiga hagsmuna að gæta vegna þeirra.  Vegna þess um hve fáa hagsmunaaðila hafi verið að ræða, hafi breytingin verið talin óveruleg. 

Ekki sé fallist á að umrædd breyting skerði með ólögmætum hætti eignir  kærenda.  Fallið hafi verið frá heimild í gildandi deiliskipulagi fyrir niðurrifi húsa á lóðinni að Vatnsstíg 12 og til að sameina hana nokkrum öðrum lóðum á reitnum.  Með hinni samþykktu breytingu sé því verið að hverfa til núverandi ástands hvað umrædda lóð varði.  Því verði ekki séð að um skerðingu á eignum sé að ræða og sé sú fullyrðing órökstudd.  Minnt sé á að annar kærenda, þáverandi eigandi Vatnstígs 12, hafi gert athugasemd við áform fyrra deiliskipulags um niðurrifið þegar sú skipulagstillaga hafi verið kynnt hagsmunaaðilum. 

Í umdeildu deiliskipulagi sé gert ráð fyrir 0,4 bílastæðum á hverja íbúð í stúdentagörðum.  Hvorki sé kveðið á um fjölda íbúða né bílastæða í tillögunni og beri lóðarhöfum því að haga hönnun fyrirhugaðra íbúða með tilliti til þessara skilmála.  Fram komi á deiliskipulagsuppdrætti að leiðakerfi strætisvagna hafi verið breytt í grundvallaratriðum síðan fyrra deiliskipulag hafi verið samþykkt.  Í núverandi leiðakerfi séu eknar fimm stofnleiðir frá Hlemmi niður Hverfisgötu um Lækjargötu og miðbæinn að biðstöð við Félagsstofnun stúdenta.  Ekið sé í báðar áttir á 10 mínútna fresti á álagstímum og 20 mínútna fresti þess á milli.  Í eldra leiðakerfi megi segja að aðeins ein leið hafi farið frá Hlemmi niður Hverfisgötu, um miðborgina og stoppað á Suðurgötu fyrir ofan aðalbyggingu HÍ.  Það sé því ljóst að þjónusta strætisvagna milli umrædds svæðis og HÍ hafi aukist til muna með nýju leiðakerfi og því grundvöllur til að minnka kröfur um bílastæði á lóð stúdentagarða við Lindargötu.  Þessar góðu samgöngur geri stúdentum kleift að þurfa ekki að reka bíl. 

Í þágildandi gr. 75.4 í 4. kafla byggingarreglugerðar hafi verið heimild til að víkja frá reglum um fjarlægð húsa frá lóðamörkum í deiliskipulagi og hafi  deiliskipulagsbreytingin því verið í samræmi við ákvæði byggingarreglugerðar að þessu leyti.  Samkvæmt mælingum mælingadeildar framkvæmdasviðs Reykjavíkurborgar standi norðaustur horn bílskúrs á lóð Vatnsstígs 12 0,199 metra út fyrir lóðamörk.  Þetta sé væntanlega til komið þar sem húsið sem standi að Lindargötu 42A sé ekki samsíða vesturlóðamörkunum og sé því 0,15 metra bil milli norðvestur horns hússins og lóðamarkanna.  Þar sem umræddur bílskúr hafi verið byggður hornrétt á húsið að Lindargötu 42A standi hann út fyrir lóðamörkin.  Farið hafi verið fram á það við gerð umræddrar deiliskipulagsbreytingar að lóðamörkum yrði breytt til samræmis við stöðu núverandi bílskúrs á lóð Vatnsstígs 12.

Athugasemdir kærenda við umsögn Reykjavíkurborgar:  Áhersla er lögð á að hagsmuni eiganda Vatnsstígs 12 verði að skoða í því ljósi að við gildistöku skipulagsins frá 2004 hafi legið fyrir að hann yrði að láta þá lóð af hendi.  Hafi hagsmunir hans því einungis snúist um verðmat eignarinnar á þeim tíma.  Með hinni umdeildu breytingu sé aðeins verið að falla frá því að leggja greinda lóð undir aðkeyrslu og bílastæði fyrir stúdentagarða sem rísa eigi á reitnum en ekki sé dregið úr þeirri uppbyggingu sem ákveðin hafi verið á árinu 2004 og kærendur þurfi nú að þola. 

Áréttað sé að breytingin feli í sér fækkun bílastæða um 20% frá því sem áður hafi verið gert ráð fyrir án þess að sú breyting hafi verið studd málefnalegum rökum.  Benda megi á að starfsemi HÍ fari fram um allan bæ og fái röksemdir um tíðar strætisvagnaferðir því ekki staðist.  Þessi breyting muni valda auknum bílastæðavanda og snerti alla fasteignaeigendur á svæðinu og renni sú staðreynd stoðum undir þá ályktun að auglýsa hefði átt breytinguna samkvæmt 1. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga. 

Telja verði að umdeild breyting sé einungis gerð í því skyni að komast hjá uppkaupum eigna en ekki til þess að auðvelda aðgengi og fullnægja bílastæðaþörf á reitnum svo sem áhersla hafi verið lögð á við skipulagsgerðina frá árinu 2004. 

Niðurstaða:  Með hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu var fallið frá niðurrifi mannvirkja að Vatnsstíg 12 og að leggja lóðina undir aðkomu og bílastæði fyrir stúdentaíbúðir sem gert hafði verið ráð fyrir í deiliskipulagsákvörðun er tók gildi á árinu 2004.  Við breytinguna er kröfum um bílastæði vegna stúdentaíbúðanna breytt úr 0,5 stæðum á íbúð í 0,4 stæði.  Bygging nefndra stúdentaíbúða var heimiluð með deiliskipulagsákvörðuninni frá 2004 og kemur sú framkvæmd og hugsanleg áhrif hennar á hagsmuni kærenda ekki til skoðunar í máli þessu enda kærufrestur vegna þeirrar ákvörðunar löngu liðinn. 

Breytingu þá, að falla frá áformum um niðurrif mannvirkja á lóðinni að Vatnsstíg 12,  verður að telja óverulega í ljósi þess að með henni er aðeins verið að falla frá breytingu skipulags sem ekki hefur komið til framkvæmda og með tilliti til þess að breytingin tekur aðeins til tveggja lóða, þ.e. hinnar sameinuðu lóðar undir stúdentagarða og lóðarinnar að Vatnsstíg 12.  Þá þykir fækkun bílastæða vegna stúdentaíbúða á umræddum skipulagsreit ekki þess eðlis að þurft hafi að auglýsa breytinguna til kynningar samkvæmt 1. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Hafa verður í huga að breytingin tekur til reits sem liggur að miðborgarsvæði þar sem algengt er að vikið sé frá kröfum um fjölda bílastæða og í nágrenninu eru tvö bílastæðahús.  Var efni og umfang hinnar kærðu ákvörðunar því þess eðlis að heimilt var að kynna hana samkvæmt 2. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga en ekki liggur annað fyrir en að skipulagstillagan hafi verið kynnt hagsmunaaðilum. 

Í greinargerð umræddrar deiliskipulagsbreytingar kemur fram að við breytingu skipulags svæðisins á árinu 2004 hafi fjöldi bílastæða vegna margnefndra stúdentaíbúða verið ákveðinn 0,5 stæði á íbúð með hliðsjón af bílaeign stúdenta, nálægðar við bílastæðahús við Vitatorg og góðum almenningssamgöngum.  Þau rök eru færð fyrir umdeildri breytingu á fjölda bílastæða í 0,4 að ferðum strætisvagna frá svæðinu að Háskóla Íslands hafi fjölgað til muna með breytingu á leiðakerfi strætisvagna eftir skipulagsbreytinguna frá árinu 2004.  Væru því rök fyrir því að fækka bílastæðum enn frekar. 

Ekki er fallist á að breyting á leiðakerfi strætisvagna geti verið haldbær rök fyrir skipulagsbreytingu.  Slíkar breytingar geta ekki talist skipulagsforsendur enda breytingar á leiðakerfi gerðar á öðrum vettvangi og geta ráðist af ýmsum öðrum ástæðum en búa að baki skipulagi.  Þá er fallist á það að hagsmunir eiganda lóðarinnar að Vatnsstíg 12 sýnast fyrir borð bornir með skipulagsbreytingunni.  Nýtingarhlutfall hinnar sameinuðu lóðar undir stúdentagarða er 1,9 en lóðarinnar nr. 12 við Vatnsstíg er 0,3.  Engar heimildir eru til uppbyggingar að Vatnsstíg 12 í hinni kærðu ákvörðun og ekki eru gefnar skýringar á hinum mikla mismun á nýtingarheimildum á þeim tveim lóðum er skipulagsbreytingin tekur til. 

Með vísan til þess sem rakið hefur verið þykir hin kærða skipulagsákvörðun haldin slíkum annmörkum að ógildingu varði. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð:

Ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 17. nóvember 2005 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi reits 1.152.5, sem afmarkast af Vatnsstíg, Frakkastíg, Lindargötu og Hverfisgötu, er felld úr gildi.

 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

 

 _____________________________           ______________________________
  Ásgeir Magnússon                                            Þorsteinn Þorsteinsson

25/2005 Norðurbakki

Með

Ár 2007, fimmtudaginn 22. febrúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 25/2005, kæra vegna byggingarframkvæmda samkvæmt deiliskipulagi fyrir Norðurbakka, Hafnarfirði, sem samþykkt var í bæjarstjórn Hafnarfjarðar hinn 8. febrúar 2005.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 21. mars 2005, er barst nefndinni sama dag, kærir S, f.h. Hansen ehf., Vesturgötu 4, Hafnarfirði, byggingarframkvæmdir samkvæmt deiliskipulagi fyrir Norðurbakka í Hafnarfirði sem samþykkt var í bæjarstjórn Hafnarfjarðar hinn 8. febrúar 2005.  Skilja verður málskot kæranda svo að krafist sé ógildingar á greindri deiliskipulagsákvörðun.

Málavextir:  Hinn 26. janúar 2005 birtist í B-deild Stjórnartíðinda auglýsing um gildistöku á breytingu á Aðalskipulagi Hafnarfjarðar 1995-2015.  Fólst breytingin í því að meginhluta hafnarsvæðis á Norðurbakka var breytt í íbúðarsvæði en svæði næst miðbæ var breytt í blandað íbúðar- og miðsvæði.  Bryggja og hafnarkantur í suðurjaðri svæðisins voru áfram skilgreind sem hafnarsvæði.  Miðsvæði norðan Vesturgötu og vestan Merkurgötu var breytt í íbúðarsvæði en miðsvæði sunnan Vesturgötu og vestan Fjarðargötu var breytt í blandað íbúðar- og miðsvæði.  Samhliða þeirri breytingu var unnið að deiliskipulagi fyrir Norðurbakka þar sem m.a. var gert ráð fyrir fjölbýlishúsum á lóðunum að Vesturgötu 1 og 3 sem liggja sunnan Vesturgötu á móts við fasteign kæranda sem nýtt er undir veitingarekstur.  Á kynningartíma deilskipulagstillögunnar komu fram athugasemdir, þar á meðal frá kæranda.  Bæjarstjórn samþykkti deiliskipulagstillöguna hinn 8. febrúar 2005 og tók hún gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda hinn 10. maí 2005.

Málsrök kæranda:  Kærandi telur fyrirhugaða íbúðarbyggð á svæðinu fara of nærri fasteign hans að Vesturgötu 4, þar sem fram fari veitingastarfsemi.  Íbúðarhúsnæði og vínveitingastarfsemi eigi illa saman og hætta sé á hagsmunaárekstrum.  Þá séu öll bílastæði við veitingarstað kæranda lögð af.

Fyrirhugaðar breytingar hafi ekki verið grenndarkynntar og kærandi ekki átt þess kost að koma sjónarmiðum sínum að þótt hann eigi beinna hagsmuna að gæta og athugasemdum hans við fyrirhugaðar framkvæmdir á svæðinu hafi ekki verið svarað af Hafnarfjarðarbæ.  Málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar hafi því verið ábótavant samkvæmt skipulags- og byggingarlögum og andmælaréttar kæranda ekki gætt samkvæmt. 13. gr. stjórnsýslulaga.

Af hálfu Hafnarfjarðarbæjar hafa ekki borist athugasemdir eða sjónarmið vegna kærumáls þessa en af fyrirliggjandi gögnum verður ráðið að bæjaryfirvöld telji að breytt landnotkun og íbúðarbyggð sú sem hið kærða deiliskipulag geri ráð fyrir gangi ekki gegn hagsmunum kæranda.  Samkvæmt skipulaginu verði t.d. heimilt að hafa þjónustustarfsemi á fyrstu hæðum bygginga í næsta nágrenni við kæranda.  Skipulaginu sé ætlað að þétta byggð í miðbæ Hafnarfjarðar og koma til móts við óskir fólks sem vilji búa nálægt þjónustu og miðbæjarlífi.

Niðurstaða:  Hin kærða skipulagsbreyting var auglýst til kynningar í samræmi við 1. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga sem almenn skipulagsbreyting og kom því ekki til grenndarkynningar samkvæmt 2. mgr. ákvæðisins, sem kemur í stað almennrar auglýsingar þegar um óverulega breytingu á skipulagi er að ræða.  Kærandi kom á framfæri athugasemdum við deiliskipulagstillöguna í bréfi til skipulagsyfirvalda bæjarins, dags. 6. desember 2004, og var athugasemdum hans svarað eftir að kæra hans í máli þessu barst en fyrir gildistöku skipulagsins.  Verður málsmeðferð deiliskipulagsins því ekki talin haldin ágöllum að þessu leyti.

Eins og fram er komið tók gildi breyting á aðalskipulagi Hafnarfjarðar í janúar 2005 þar sem gert var ráð fyrir íbúðarbyggð á svonefndum Norðurbakka, m.a. gegnt fasteign kæranda við Vesturgötu í Hafnarfirði.  Sætir sú ákvörðun ekki endurskoðun hjá úrskurðarnefndinni, sbr. 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, þar sem aðalskipulagsbreytingin var staðfest af ráðherra.  Hið kærða deiliskipulag gerir ráð fyrir íbúðarbyggð á umræddu svæði í samræmi við núgildandi aðalskipulag Hafnarfjarðar og getur sú staðreynd ekki haft áhrif á gildi deiliskipulagsins.  Þá verður ekki séð af gögnum um fyrra skipulag svæðisins að bílastæði hafi fylgt fasteign kæranda að Vesturgötu 4 sem af séu lögð með hinni kærðu ákvörðun.

Að öllu þessu virtu verður ekki talið að hið kærða deiliskipulag raski hagsmunum kæranda með þeim hætti að ógildingu varði eða að aðrir þeir annmarkar séu fyrir hendi sem leitt gætu til slíkrar niðurstöðu.  Verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun bæjarstjórnar Hafnarfjarðar frá 8. febrúar 2005 um að samþykkja deiliskipulag fyrir Norðurbakka í Hafnarfirði.

 

     ___________________________         
Hjalti Steinþórsson

 

              ________________________               _________________________ 
                      Ásgeir Magnússon                                    Þorsteinn Þorsteinsson                               

     

 

18/2005 Hólmgarður

Með

Ár 2007, fimmtudaginn 22. febrúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 18/2005, kæra á ákvörðun skipulagsráðs Reykjavíkur frá 26. janúar 2005 um breytingu á deiliskipulagi Bústaðahverfis vegna bílastæða við Hólmgarð í Reykjavík. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 27. febrúar 2005, er barst nefndinni hinn 1. mars s.á., kærir K, Hólmgarði 28, Reykjavík, þá ákvörðun skipulagsráðs Reykjavíkur frá 26. janúar 2005 að breyta deiliskipulagi Bústaðahverfis vegna bílastæða við Hólmgarð í Reykjavík.  Skilja verður málskot kæranda svo að krafist sé ógildingar á hinni kærðu ákvörðun. 

Málavextir:  Á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 19. nóvember 2004 var lögð fram tillaga að breytingu á deiliskipulagi vegna bílastæða við Hólmgarð.  Á fundinum var samþykkt að grenndarkynna tillöguna fyrir hagsmunaaðilum að Hólmgarði 17-46. 

Að grenndarkynningu lokinni var skipulagstillagan tekin fyrir á fundi skipulagsfulltrúa hinn 21. janúar 2005, þar sem fyrir lágu framkomnar athugasemdir við tillöguna frá nokkrum fjölda íbúa við Hólmgarð og þ.á m. kæranda.  Á fundinum var lögð fram umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 20. janúar 2005, og var málinu vísað til afgreiðslu skipulagsráðs sem samþykkti deiliskipulagstillöguna hinn 26. sama mánaðar.  Auglýsing um gildistöku hennar var síðan birt í B-deild Stjórnartíðinda hinn 8. febrúar 2005. 

Málsrök kæranda:  Kærandi byggir málskot sitt á því að ekki sé rétt með farið í svörum skipulagsfulltrúa við athugasemdum við staðsetningu bílastæða að meirihluti íbúa við Hólmgarð 22-32 og 36-46 hafi viljað hafa stæðin framan við innganga húsa við götuna.  Hið rétta sé að með handauppréttingu á íbúafundi 2. september 2004 hafi meirihlutinn samþykkt að bílastæðin yrðu staðsett til hliðar við inngangana eins og þau hefðu áður verið.  Svar skipulagsfulltúa vegna umdeildrar staðsetningar bílastæðanna eigi því ekki við rök að styðjast. 

Það auki slysahættu að færa stæðin beint ofan í innganga húsanna, mengun aukist þar og fórnað sé grænu svæði framan við hús kæranda, en það svæði hafi ásamt öðru ráðið því að hann hafi keypt íbúð sína við Hólmgarð.  Fyrirhuguð tilkoma trjáa og runna við hlið bílastæða skerði útsýni og auki slysahættu.  Kæranda gruni að það komi í hlut íbúanna að annast þennan gróður, enda hafi þeir slegið grasbletti í eigu borgarinnar fyrir framan húsin.  Breikkun götu um einn metra, svo sem skipulagsbreytingin geri ráð fyrir, auki líkur á hraðakstri með tilheyrandi slysahættu. 

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Reykjavíkurborg krefst þess að kröfu kæranda um ógildingu á umdeildri samþykkt skipulagsráðs verði hafnað. 

Meðferð deiliskipulagstillögunnar hafi að öllu leyti verið í samræmi við ákvæði skipulags- og byggingarlaga. 

Í umsögn skipulagsfulltúa vegna framkominna athugasemda við skipulagstillöguna segi m.a.:  „Á fyrrnefndum íbúafundi sem haldinn var 2. september síðastliðinn voru kynntar tvær tillögur að bílastæðum fyrir framan umrædd hús. Ein tillagan gerði ráð fyrir því að bílastæðin yrðu staðsett á svipuðum stað og þau voru áður en framkvæmdir hófust þ.e. ekki við innganga húsa heldur til hliðar við innganga. Hin tillagan sem kynnt var á fundinum gerir ráð fyrir að bílastæðin yrðu staðsett við innganga. Það var greinilega vilji meirihluta íbúa að hafa bílastæðin staðsett við innganga húsa og er það ástæðan fyrir því að gert var ráð fyrir því fyrirkomulagi á kynntum uppdrætti.“  Þá segi þar ennfremur:  „Mjög vel var mætt á fundinn og náðist ágæt sátt á honum, en ósk allflestra var að fyrirkomulag bílastæða við Hólmgarð 22-32 og 36-46 yrði eins og það var áður.“ 

Athugasemdir íbúa við grenndarkynningu hafi verið allnokkrar en engin þeirra hafi lotið að staðsetningu bílastæða fyrir framan innganga húsanna nema athugasemd kæranda í máli þessu.  Sé kærandi því einn um túlkun sína á niðurstöðu fyrrgreinds íbúafundar um vilja íbúa.  Ekki hafi sérstaklega verið greidd atkvæði um það hvort bílastæðin ættu að vera framan við inngang húsa eða til hliðar, heldur hafi komið fram sá vilji meirihluta fundarmanna að hafa fyrirkomulagið eins og áður, þ.e. með grænum svæðum á milli bílastæða. 

Varðandi aðrar málsástæður kæranda sé vísað til ofangreindrar umsagnar skipulagsfulltrúa en þar komi fram að grafík vegna gróðurs á uppdrætti sé ekki bindandi.  Deiliskipulagsbreytingin taki ekki til gróðurs á grænu svæðunum.  Ekki megi gróðursetja á þessum reitum á þann hátt að það valdi skerðingu á útsýni. 

Gert sé ráð fyrir hraðahindrun við Hólmgarð 34 samkvæmt gildandi deiliskipulagi sem draga muni úr hraðakstri í götunni.  Ekki sé fallist á að breikkun á götunni á svo stuttum kafla sem um ræði leiði til hraðaksturs eða aukinnar slysahættu og ekki hafi verið leidd rök að því að staðsetning bílastæðanna valdi aukinni mengun. 

Niðurstaða:  Hin kærða deiliskipulagsbreyting fól í sér fækkun bílastæða og gerð gróðurreita á milli þeirra auk þess sem göngustígur við götu var færður nær húsum á kafla og þar gert ráð fyrir bílastæðum meðfram gróðurreitum við götu.  Samkvæmt deiliskipulagi svæðisins, er tók gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda hinn 7. júlí 2004, var gert ráð fyrir bílastæðum án gróðurreita framan við húsin að Hólmgarði 22-32 og 36-46, þ.á.m. við innganga þeirra húsa.  Af fyrirliggjandi gögnum verður ráðið að skiptar skoðanir hafi verið meðal íbúa um hvort fækka ætti bílastæðum og skapa þannig rými fyrir gróðurreiti á milli stæða og að tilgangurinn með umdeildri skipulagsbreytingu hafi verið sá að koma til móts við óskir þeirra sem vildu halda í gróðurreiti framan við húsin á kostnað fjölda bílastæða sem ráðgerð voru í skipulaginu frá árinu 2004. 

Hvað sem líður skoðanaskiptum á fyrrgreindum kynningarfundi með íbúum hinn 2. september 2004 hróflar það ekki við gildi skipulagsbreytingarinnar að þar sé gert ráð fyrir bílastæðum framan við innganga húsa, enda var sú tilhögun þegar mörkuð í skipulagi svæðisins. 

Breikkun sú sem verður á götu við það að gangstígur er færður verður ekki talin til þess fallin að auka hraðakstur, enda er sú breikkun á stuttum kafla götunnar og rýmið sem myndast lagt undir bílastæði.. 

Að þessu virtu og þar sem ekki verður séð að þeir annmarkar hafi verið á meðferð hinnar kærðu ákvörðunar að ógildingu varði verður kröfu kæranda þar að lútandi hafnað. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar skipulagsráðs Reykjavíkur frá 26. janúar 2005, um að breyta deiliskipulagi Bústaðahverfis vegna bílastæða við Hólmgarð í Reykjavík. 

 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

 

 

_________________________                                 ___________________________    Ásgeir Magnússon                                                     Þorsteinn Þorsteinsson

52/2005 Hverfisgata

Með

Ár 2006, fimmtudaginn 23. mars, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Ásgeir Magnússon héraðsdómari, varaformaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Geirharður Þorsteinsson arkitekt og skipulagshönnuður. 

Fyrir var tekið mál nr. 52/2005, kæra á samþykkt borgarráðs Reykjavíkur frá 9. júní 2005 um deiliskipulag fyrir reit er afmarkast af Laugavegi, Barónsstíg, Hverfisgötu og Snorrabraut.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 28. júní 2005, er barst nefndinni 4. júlí sama ár, kærir J, Hverfisgötu 100a, samþykkt borgarráðs Reykjavíkur frá 9. júní 2005 um deiliskipulag fyrir reit er afmarkast af Laugavegi, Barónsstíg, Hverfisgötu og Snorrabraut.  Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Málavextir:  Hús kæranda að Hverfisgötu 100a er á þeim skipulagsreit er hin kærða ákvörðun tekur til og við kaup hans á húsinu mun aðeins hafa fylgt því sú lóð sem undir því var.  Meginhluti lóðar hússins hafði á sínum tíma verið seld undir bílastæði fyrir fasteignina að Laugavegi 91 en formleg skipting lóðarinnar hafði ekki átt sér stað fyrir gildistöku hins kærða skipulags.

Á árinu 2002 var auglýst tillaga að deiliskipulagi fyrir umræddan reit en í ljósi athugasemda vegna lóðamála fasteignarinnar að Hverfisgötu 100a, bílastæðamála og mögulegs byggingarréttar þurfti að leita lausna með lóðarhöfum og tafðist vinna við tillöguna af þeim sökum.  Lyktaði þessu ferli með því að breytingar voru gerðar á tillögunni og samþykkti skipulagsráð Reykjavíkur hinn 9. mars 2005 að auglýsa tillöguna að nýju.

Fram komu tvær athugasemdir við deiliskipulagstillöguna, þar á meðal frá kæranda.  Lutu þær m.a. að gegnumakstri um húsasund við hús kæranda, kostnaði við viðhald innkeyrslu, ósamræmi varðandi byggingarrétt kæranda gagnvart nágrannaeignum og beiðni um bílastæði á jarðhæð fasteignar hans.  Var deiliskipulagstillagan síðan samþykkt í borgarráði hinn 9. júní 2005 með breytingum er hér skipta ekki máli nema að því leyti að gert var ótvírætt á uppdrætti að um fyrrgreint sund gilti umferðarréttur.  Skaut kærandi deiliskipulagsákvörðuninni til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir.

Málsrök kæranda:  Kærandi vísar til þess að hann hafi gert ýmsar athugasemdir við umdeilda skipulagstillögu og hafi verið tekið tillit til þeirra í sumu en ósk hans um byggingarreit efri hæða húss hans til samræmis við byggingarreiti aðlægra húsa hafi ekki verið tekin til greina. 

Vandræðaástand hafi skapast vegna lóðarleysis fasteignar hans.  Í hinu kærða deiliskipulagi hafi lóðinni verið skipt þannig að fjarlægð húss hans að lóðarmörkum uppfyllti lágmarksákvæði byggingarreglugerðar.  Byggingarreitur hússins skv. skipulaginu samsvari dýpt þess, sem sé einungis átta metrar, en dýpt aðlægra húsa sé mun meiri.  Því muni myndast skarð í húsaröðina garðmegin að óbreyttu.  Kærandi fari ekki fram á breyttan byggingarreit fyrstu hæðar og muni bílastæði á baklóð því ekki skerðast þótt byggingarreitur efri hæða verði eins og reitir aðlægra húsa. 

Með hinu kærða skipulagi hafi kærandi þurft að láta ýmislegt yfir sig ganga þrátt fyrir mótmæli, m.a breikkun innkeyrslu við hús hans og gegnumakstur að húsum við Laugaveg.  Að óbreyttu skipulagi muni uppbygging á lóð hans vart verða raunhæfur kostur.

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Reykjavíkurborg krefst þess að kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar borgarráðs frá 9. júní 2005 verði hafnað. 

Hafa verði í huga að húsinu að Hverfisgötu 100a fylgi engin baklóð.  Í hinu kærða deiliskipulagi sé gerð tillaga að nýjum lóðamörkum á þá leið að lóð kæranda stækki í 149 fermetra auk þess sem heimilað sé að byggja hús upp á þrjár hæðir og ris innan byggingarreits.  Ný lóð verði til, merkt Hverfisgata 100c, sem einungis sé heimilt að nýta fyrir bílastæði sem tilheyri húsinu að Laugavegi 91.  Tillaga þessi hafi verið unnin í samráði við eiganda lóðarinnar að Laugavegi 91 og „Hverfisgötu 100c“ og veiti þeim lóðarhafa og kæranda heimild til að breyta lóðamörkum náist samkomulag um slíkt.  Ekki hafi verið hægt að verða við óskum kæranda um stækkun byggingarreits inn á baklóð enda hefði hann þá náð yfir núverandi lóðamörk. 

Þrátt fyrir að heimildir séu veittar til lóðastækkunar með samþykktu deiliskipulagi sé ljóst að lóðin verði mjög lítil og beri tæpast meira byggingarmagn en nú þegar hafi verið heimilað.  Þar af leiðandi sé óraunhæft að bera nýtingarmöguleika lóðar kæranda saman við mögulega nýtingu nærliggjandi lóða.  Athygli sé vakin á því að heimilað nýtingarhlutfall lóðar kæranda sé samkvæmt hinu kærða skipulagi 2,5, sem teljist mjög há nýting þótt á miðborgarsvæði sé. 

Niðurstaða:  Í hinu kærða deiliskipulagi felst heimild til handa kæranda og lóðarhafa lóðarinnar að Hverfisgötu 100c, sem er fyrrum baklóð fasteignar kæranda sem nýtt er sem bílastæði, að skipta lóðinni með þeim hætti að kæranda öðlaðist umráð yfir mjórri ræmu meðfram húsinu að Hverfisgötu 100a.  Fyrir liggur að þessir lóðarhafar hafa ekki gengið frá samkomulagi í þá veru.  Af málatilbúnaði kæranda verður ráðið að megin óánægja hans með hina kærðu ákvörðun lúti að því að hann fái ekki byggingarreit við baklóð til jafns við aðlæg hús og að ekki sé gert ráð fyrir bílastæði við hús hans. 

Fallist er á það með borgaryfirvöldum að ekki hafi verið unnt að verða við óskum kæranda um stækkaðan byggingarreit og bílastæði við hús hans eins og aðstæðum er háttað.  Skipulagsyfirvöld geta ekki heimilað byggingu, þótt aðeins á efri hæðum sé, sem gengur inn á umráðasvæði annarra.  Þá verður ekki séð að unnt sé að koma fyrir bílastæði við umrætt hús sem að óbreyttu á enga lóð umfram grunnflöt þess. 

Með vísan til þessa og þar sem ekki liggur fyrir að hin umdeilda skipulagsákvörðun sé haldin öðrum annmörkum verður ekki fallist á kröfu kæranda um ógildingu hins kærða deiliskipulags. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar og vegna tafa við gagnaöflun.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á samþykkt borgarráðs Reykjavíkur frá 9. júní 2005 um deiliskipulag fyrir reit er afmarkast af Laugavegi, Barónsstíg, Hverfisgötu og Snorrabraut. 

 

___________________________ 
 Ásgeir Magnússon   

  

 

_____________________________          ____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                 Geirharður Þorsteinsson

 

46/2005 Vagnhöfði

Með

Ár 2005, föstudaginn 16. desember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ásgeir Magnússon héraðsdómari.

Fyrir var tekið mál nr. 46/2005, kæra á ákvörðun byggingafulltrúans í Reykjavík  frá 3. maí 2005 um að samþykkja breytingu á byggingarleyfi er fól í sér stækkun og breytingu á áður samþykktri lager- og tengibyggingu á lóðinni að Vagnhöfða 29 í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 15. júní 2005, er barst nefndinni hinn 16. sama mánaðar, kærir Hákon Stefánsson hdl., fyrir hönd A ehf., leigutaka fasteignarinnar að Vagnhöfða 27, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 3. maí 2005 að samþykkja breytingu á byggingarleyfi er fól í sér stækkun og breytingu á áður samþykktri lager- og tengibyggingu á lóðinni að Vagnhöfða 29 í Reykjavík.

Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.  Jafnframt var gerð krafa um að úrskurðað yrði um stöðvun framkvæmda þar til efnisniðurstaða lægi fyrir í málinu.  Þar sem framkvæmdir hafa ekki verið hafnar í skjóli hins kærða leyfis og með hliðsjón af því að málið þykir nú nægjanlega upplýst til þess að það verði tekið til efnisúrlausnar verður ekki tekin afstaða til framkominnar stöðvunarkröfu.

Málavextir:  Hinn 1. júní 1999 samþykkti borgarráð breytingu á deiliskipulagi Ártúnshöfða – Iðnaðarsvæðis sem upphaflega er frá árinu 1969.  Með þeirri breytingu var ákveðið að eitt bílastæði yrði á lóð fyrir hverja 50 fermetra húsnæðis skv. gr. 4.3.1 í skipulagsskilmálum og að hámark nýtingarhlutfalls lóða yrði 0,7 skv. gr. 4.4.5 í greindum skipulagsskilmálum. Var í gr. 4.4.4 gert ráð fyrir að ónýttir byggingarmöguleikar á lóðum yrðu skoðaðir við byggingarleyfisumsóknir í hverju tilfelli með hliðsjón af hámarks nýtingarhlutfalli.  Á skipulagsuppdrættinum er markaður byggingarreitur við norðurmörk lóðarinnar að Vagnhöfða 29.

Hinn 10. september 2002 var samþykkt byggingarleyfi fyrir 277,2 fermetra birgðaskemmu á norðurmörkum lóðarinnar að Vagnhöfða 29 og jafnframt heimiluð 22,8 fermetra tengibygging í suðaustur horni, milli skemmunnar og húss þess sem fyrir er á lóðinni.  Með byggingarleyfinu fór nýtingarhlutfall lóðarinnar í 0,67.  Þá samþykkti byggingarfulltrúi hinn 17. desember 2002 tillögu um byggingarreit, breytingu á bílastæðum og innkeyrslu að lóðinni.

Kærandi í máli þessu mótmælti heimiluðum mannvirkjum við byggingaryfirvöld við upphaf framkvæmda á árinu 2002 og mun hafa verið leitað sátta um fyrirkomulag bygginga að Vagnhöfða 29 og framkvæmdir stöðvast af þeim sökum.  

Á afgreiðslufundi skipulagsfulltrúa hinn 27. október 2004 var síðan lögð fram tillaga að breytingu á deiliskipulagi vegna lóðarinnar að Vagnhöfða 29 þar sem byggingarreitur á norðanverðri lóðinni var dreginn inn frá Vagnhöfða og breikkaður til suðurs og jafnframt stækkaður í 456 fermetra með jafnstórri bílageymslu neðanjarðar með nýrri aðkeyrslu frá Vagnhöfða.  Þá fól tillagan í sér að reisa mætti í suðaustur horni lóðarinnar 432 fermetra þriggja hæða skrifstofubyggingu.  Var samþykkt að grenndarkynna tillöguna fyrir hagsmunaaðilum að Vagnhöfða 27.

Málið var í kynningu frá 3. nóvember til 1. desember 2004.  Engar athugasemdir bárust og samþykkti skipulags- og byggingarnefnd tillöguna sem öðlaðist gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda hinn 3. janúar 2005 að undangenginni umsögn Skipulagsstofnunar.  Skaut kærandi þessari ákvörðun um deiliskipulagsbreytingu til úrskurðarnefndarinnar.

Hinn 3. maí 2005 samþykkti byggingarfulltrúi beiðni lóðarhafa að Vagnhöfða 29 um breytingu á byggingarleyfinu frá árinu 2002 til samræmis við hina nýsamþykktu deiliskipulagsbreytingu.  Fól byggingarleyfið í sér heimild til að byggja 454 fermetra bílageymslu neðanjarðar, birgðaskemmu og skrifstofubyggingu, 450,1 fermetra að flatarmáli á fyrstu hæð og 137 fermetra á annarri og þriðju hæð, hvorri um sig.  Samkvæmt byggingarleyfinu var gert ráð fyrir 37 bílastæðum á lóð og í kjallara og að greiða þyrfti í bílastæðasjóð fyrir 8 stæði sem á vantaði svo kröfum um bílastæði samkvæmt skipulagi væri fullnægt.  Skaut kærandi þessari ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir. 

Hinn 21. júní 2005 var síðan samþykkt breyting á afstöðumynd af lóð þar sem tilhögun bílastæða var breytt þannig að á lóðinni og í bílakjallara voru sýnd alls 42 bílastæði.

Málsrök kæranda:  Kærandi vísar til þess að hann hafi kært deiliskipulagsbreytingu þá er hin kærða breyting á byggingarleyfi styðjist við og sé sú kæra til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.  Telur hann að óheimilt sé að samþykkja breytingar á byggingarleyfi og þar með heimila byggingarframkvæmdir á lóðinni að Vagnhöfða 29 á meðan úrlausn um deiliskipulag liggi ekki fyrir.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Reykjavíkurborg telur hið kærða byggingarleyfi í samræmi við deiliskipulag sem ekki hafi verið hnekkt og sé ekki neinum annmörkum háð.  Sé framkominni ógildingarkröfu því mótmælt.

Andmæli byggingarleyfishafa:  Byggingarleyfishafi mótmælir framkominni ógildingarkröfu og tekur undir sjónarmið Reykjavíkurborgar í málinu.

Niðurstaða:  Hið kærða byggingarleyfi var veitt með stoð í gildandi skipulagi svæðisins svo sem því var breytt  með samþykki borgarráðs hinn 8. desember 2004.

 Fyrr í dag kvað úrskurðarnefndin upp úrskurð í kærumáli vegna deiliskipulagsbreytingarinnar þar sem hún var staðfest.  Í þeim úrskurði er fjallað um og tekin afstaða til málsástæðna kæranda í máli þessu er varða fyrirhugaðar byggingar á lóðinni að Vagnhöfða 29.  Að gengum greindum úrskurði samræmast umþrættar byggingar og aðkoma að bílakjallara gildandi deiliskipulagi.

Ekki verður fallist á þá málsástæðu kæranda að ógilda beri hið kærða byggingarleyfi þar sem það hafi verið veitt á meðan skipulagsbreyting sú sem var undanfari leyfisins var í kærumeðferð hjá úrskurðarnefndinni.  Við útgáfu leyfisins hafði umræddri  skipulagsbreytingu ekki verið hnekkt.

Samkvæmt gildandi skipulagsskilmálum umrædds svæðis þarf eitt bílastæði fyrir hverja 50 fermetra húsnæðis.  Samkvæmt þeirri reglu þurfa að vera 45 stæði á lóðinni að Vagnhöfða 29 miðað við byggingarmagn það sem heimilað hefur verið með hinu kærða byggingarleyfi, en fyrir liggur að þau eru 42.

Í 6. mgr. gr. 3.1.4 í skipulagsreglugerð er heimild til að víkja frá tilskildum fjölda bílastæða í deiliskipulagi, enda sé sýnt fram á að bílastæðaþörf sé minni eða unnt sé að uppfylla hana með öðrum hætti.  Í gr. 4.3.1 í skipulagsskilmálum fyrir umrætt svæði er sambærileg heimild.  Ekki er að finna í deiliskipulagsbreytingu þeirri sem var undanfari hins kærða byggingarleyfis á hvaða forsendu vikið sé frá bílastæðakröfum á lóðinni að Vagnhöfða 29 eða með hvaða hætti verði bætt úr bílastæðaþörf með öðrum hætti. 

Með hliðsjón af því að stór hluti heimilaðrar byggingar er ætlaður undir birgðaskemmu sem ætla má að ekki fylgi mikil bílastæðaþörf  og í ljósi þess að stórt almenningsbílastæði er handan Vagnhöfða þykir þessi skortur á þremur bílastæðum ekki alveg nægjanleg ástæða til þess að fella hið kærða byggingarleyfi úr gildi.

Með vísan til þess sem að framan greinir verður ekki fallist á kröfu kæranda um ógildingu hins kærða byggingarleyfis.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 3. maí 2005 um að samþykkja breytingu á byggingarleyfi fyrir mannvirkjum á lóðinni að Vagnhöfða 29 í Reykjavík.

 

___________________________
Hjalti Steinþórsson 

 

 
_____________________________          ____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                   Ásgeir Magnússon

 

55/2002 Skarðsbraut

Með

Ár 2003, þriðjudaginn 2. desember kom úrskurðarnefnd skipulags-og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 55/2002, kæra eigenda Skarðsbrautar 4, Akranesi á ákvörðun bæjarráðs Akraneskaupstaðar frá 11. júlí 2002 um synjun á beiðni um niðurfellingu banns við stöðu bifreiða við austanverða Skarðsbraut.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála dags. 11. október 2002, sem barst nefndinni hinn 14. sama mánaðar, kærir Björn Þorri Viktorsson hdl. f.h. B og H, eigenda hússins að Skarðsbraut 4, Akranesi ákvörðun bæjarráðs Akraneskaupstaðar frá 11. júlí 2002 þess efnis að synja beiðni kærenda um niðurfellingu banns við stöðu bifreiða við austanverða Skarðsbraut. 

Hin kærða ákvörðun var staðfest á fundi bæjarstjórnar Akraneskaupstaðar hinn 27. ágúst 2002. 

Kærendur krefjast þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að lagt verði fyrir bæjarstjórn Akraneskaupstaðar að láta merkja kærendum tvö bifreiðastæði við hús þeirra. 

Málavextir:  Árið 1968 reistu kærendur u.þ.b. 160 m² einnar hæðar hús með bílgeymslu á lóðinni sem í dag er nr. 4 við Skarðsbraut á Akranesi.  Húsið var innra hús í tveggja húsa lokaðri götu.  Bílastæði við bílskúr hússins náði út fyrir lóðarmörk en það kom ekki að sök þar sem óverulegri umferð var til að dreifa um götuna.  Á árunum 1975 – 1976 var gatan opnuð og samtengd annarri götu.  Með þessari breytingu óx umferð um götuna og í kjölfarið voru reist fjögur fjöleignarhús við Skarðsbraut með samtals 64 íbúðum, auk þess sem byggður var leikskóli við götuna.  Þessu til viðbótar varð gatan einnig aðkomuleið að 60 íbúða fjöleignarhúsi við Vallarbraut.  Árið 1997 samþykktu bæjaryfirvöld á Akranesi breytingu á lóðinni nr. 1 við Garðabraut og heimiluðu byggingu tveggja fjöleignarhúsa á hluta lóðarinnar. 

Á fundi skipulagsnefndar hinn 24. september 2001 var lögð fram greinargerð skipulags- og byggingarfulltrúa varðandi stöðu bifreiða við Skarðsbraut og lagði nefndin til við bæjarstjórn að bönnuð yrði staða bifreiða við vesturkant götunnar frá Garðabraut að innkeyrslu Skarðsbrautar 1, 3 og 5. 

Bæjarstjórn samþykkti ofangreinda tillögu skipulagsnefndar á fundi hinn 9. október 2001 og hinn 2. sama mánaðar birtist í B–deild Stjórnartíðinda auglýsing Sýslumannsins á Akranesi þar sem greint var frá því að fallist hafi verið á tillöguna og að bannið tæki þegar gildi.  Kærendur ásamt fleirum mótmæltu ákvörðuninni og á fundi bæjarráðs hinn 1. nóvember s.á. var samþykkt að óska eftir umsögn skipulagsnefndar á erindinu.  Á fundi nefndarinnar hinn 5. nóvember 2001 var fyrri afgreiðsla staðfest með vísan til umferðaröryggis. 

Kærendur hafa átt í samskiptum við bæjaryfirvöld á Akranesi vegna ætlaðs bílastæðavandamáls sem til sé komið vegna þéttingar byggðar á svæðinu og á fundi bæjarráðs hinn 11. júlí 2002 var eftirfarandi fært til bókar:  „Bæjarráð er ekki reiðubúið að fella niður bann við lagningu bifreiða við austanverða Skarðsbraut.  Stæði vegna umræddra fasteigna hafa verið merkt við götuna en þarfnist þau frekari merkinga er sviðsstjóra tækni- og umhverfissviðs falið að kanna málið“ 

Þessum málalokum hafa kærendur hafnað og skutu máli sínu til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála eins og að framan er rakið.

Málsrök kærenda:  Kærendur halda því fram að opnun Skarðsbrautar og aukin umferð um götuna hafi áhrif á bílastæðamál þeirra þannig að þeir hafi ekki getað lagt bifreið við bílgeymslu sína og þurfi nú að leggja bifreiðum úti við götu, ýmist við austur- eða vesturkant hennar.  Jafnframt hafi bygging fjöleignarhúsanna við Garðabraut verið sérlega bagaleg fyrir þá, því svo virðist sem ekki hafi verið gætt ákvæða byggingarreglugerðar um lágmarksfjölda bílastæða á lóð, þegar samþykkt hafi verið að byggja á lóðunum.  Vegna alls þessa halda kærendur því fram að álagið á sameiginleg bílastæði fyrir framan hús þeirra sé mjög mikið og hafi stóraukist eftir að bifreiðastöður hafi verið bannaðar á vesturkanti Skarðsbrautar. 

Kærendur benda á grein 64.3 í byggingarreglugerð nr. 441/1998 máli sínu til stuðnings, en þar segir að á hverri lóð við íbúðarhús skuli a.m.k. vera tvö bílastæði fyrir íbúð sem sé stærri en 80 m².  Samkvæmt því væri nauðsynlegt að í nýbyggingunum að Garðabraut 3 – 5 væru 16 bílastæði en þau séu í raun aðeins 10. 

Kærendur halda því og fram að með ákvörðun bæjaryfirvalda hafi réttindi þeirra og möguleikar til nýtingar eignar þeirra að Skarðsbraut 4 verið verulega þrengdir og fullyrða að þeir verði fyrir fjárhagstjóni verði núverandi staða ekki leiðrétt, þar sem ekkert sérbílastæði tilheyri einbýlishúsi þeirra. 

Málsrök Akraneskaupstaðar:  Akraneskaupstaður krefst þess að kærunni verði vísað frá þar sem hún hafi borist úrskurðarnefndinni eftir að kærufresti, samkvæmt 4. mgr. 39. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, hafi lokið. 

Verði frávísunarkrafan ekki tekin til greina er á það bent af hálfu Akraneskaupstaðar að fasteignin að Skarðsbraut 4 hafi verið byggð árið 1968 á grundvelli þágildandi byggingarlaga.  Breytingar á byggingarlögum og nýjar kröfur hafi ekki skapað kærendum fremur en öðrum rétt til bifreiðastæða á akbraut fyrir framan hús þeirra, úr því ekki sé unnt að koma bifreiðastæðum fyrir innan lóðar.  Þá hafi breytingar á deiliskipulagi í nágrenni við kærendur verið framkvæmdar lögum samkvæmt.

Akraneskaupstaður heldur því einnig fram að kæran lúti að banni við lagningu bifreiða og að þess háttar deilumál eigi ekki undir úrskurðarvald úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, heldur ráðist af umferðarlögum nr. 50/1987, sbr. 81. gr. þeirra laga.

Niðurstaða:  Hin kærða ákvörðun varðar bann við stöðu bifreiða við austanverða Skarðsbraut.  Gögn málsins bera með sér að engar breytingar eru gerðar á götu eða öðrum umferðarmannvirkjum, en gert er ráð fyrir að tilgreind bílastæði verði merkt við götuna.  Hin kærða ákvörðun fól því ekki í sér skipulagsákvörðun þótt skipulagsnefnd hafi komið að undirbúningi hennar.  Er það á valdsviði lögreglustjóra, að fengnum tillögum sveitarstjórnar, að kveða á um varanleg sérákvæði um notkun vegar til umferðar, svo sem stöðvun og lagningu ökutækja, sbr. 2. mgr. 81. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 og sæta slíkar ákvarðanir ekki endurskoðun úrskurðarnefndarinnar.

Með vísan til framanritaðs verður hinni kærðu ákvörðun vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikils málafjölda og anna hjá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

_____________________________
Ásgeir Magnússon

___________________________             _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                Ingibjörg Ingvadóttir

19/2001 Húsavík, miðbær

Með

Ár 2003, fimmtudaginn 27. mars, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Óðinn Elísson hdl. varamaður.

Fyrir var tekið mál nr. 19/2001, kæra fyrrverandi og núverandi eigenda fasteignarinnar að Garðarsbraut 5, Húsavík á samþykkt bæjarstjórnar Húsavíkur frá 20. febrúar 2001 um deiliskipulag fyrir miðbæ Húsavíkur.

Á málið er nú lagður svofelldur

Úrskurður.

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 8. maí 2001, er barst nefndinni hinn 9. maí sama ár, kærir Berglind Svavarsdóttir hdl., fyrir hönd K og G ehf., Garðarsbraut 5, Húsavík, þá ákvörðun bæjarstjórnar Húsavíkur frá 20. febrúar 2001 að samþykkja deiliskipulag fyrir miðbæ Húsavíkur.  Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verið felld úr gildi og réttur kærenda til lóðarinnar að Garðarsbraut 3-7 verið viðurkenndur.  Þá er krafist stöðvunar réttaráhrifa hinnar kærðu ákvörðunar þar til úrskurður gengur í málinu.

Málavextir:  K mun hafa átt húseignir nr. 3, 5, og 7 við Garðarsbraut auk fasteigna er stóðu við Vallholtsveg.  Húsin við Vallholtsveg og Garðarsbraut 3, er stóðu norðan Vallholtsvegar, hafa verið fjarlægð að tilstuðlan eiganda.  Samkvæmt lóðarsamningi frá 25. febrúar 1970 er lóðin nr. 3-7 við Garðarsbraut talin vera 2.479 fermetrar og samkvæmt uppdrætti er samningnum fylgir er lóðin staðsett sunnan Vallholtsvegar.  Í ágústmánuði 1999 var húsið nr. 7 við Garðarsbraut selt og m.a. við það miðað að framseld lóðarréttindi næðu 3 metra til norðurs frá húsvegg.  Í desember 1999 seldi K G ehf. húsnæði sitt að Garðarsbraut 5 og var í samningnum gert ráð fyrir að í kaupunum fylgdi réttur til lóðarinnar nr. 3 við Garðarsbraut.  Umrætt svæði hafði ekki verið deiliskipulagt á þessum tíma.

Á vordögum 2000 var K kynntur uppdráttur að deiliskipulagi fyrir umræddan reit og gefinn kostur á að koma að athugasemdum.  Samkvæmt þeim uppdrætti var m.a. lóðinni nr. 5 og 7 við Garðarsbraut skipt upp í tvær lóðir og var þar miðað við önnur lóðamörk en ráð var fyrir gert við sölu Garðarsbrautar 7.  Jafnframt var lóð sú sem fylgt hafði húsinu að Garðarsbraut 3 stækkuð og nefnd Vallholtsvegur 1.  Í bréfi, dags. 16. júní 2000, komu kærendur á framfæri athugasemdum sínum er snertu áætluð lóðamörk milli Garðarsbrautar 5 og 7 og áætlaðan göngustíg á lóðarmörkum greindra fasteigna auk þess sem áréttaður var sá skilningur kærenda að fasteigninni að Garðarsbraut 5 fylgdi réttur til lóðarinnar að Garðarsbraut 3.  Bréf kærenda var tekið fyrir á fundi byggingarnefndar bæjarins hinn 21. júní 2000 og þar sett fram sú skoðun byggingarnefndar að lóðin að Garðarsbraut 7 mætti ekki minni vera en gert væri ráð fyrir á fyrirliggjandi skipulagsuppdrætti og lóðin að Garðarsbraut 3, norðan Vallholtsvegar, væri fallin til bæjarins þar sem ekki hefði verið byggt á henni og uppdráttur með lóðarsamningnum frá 25. febrúar 1970 tæki ekki til lóðarinnar norðan Vallholtsvegar.  Kærendur höfðu spurnir að þessum fundi byggingarnefndar og fóru fram á rökstuðning fyrir afstöðu nefndarinnar til framkominna athugasemda með bréfi, dags. 17. júlí 2000.  Erindinu var svarað með bréfi byggingarfulltrúa bæjarins, dags. 27. júlí 2000, þar sem fram kom bókun nefndarinnar um fyrrgreinda afstöðu hennar til málsins.  Kærendur sendu á ný beiðni um rökstuðning fyrir umræddri afgreiðslu byggingarnefndar með bréfi, dags. 16. ágúst 2000 en, ekki liggur fyrir í málinu að því erindi hafi verið svarað bréflega.

Tillaga að deiliskipulagi fyrir miðbæ Húsavíkur var síðan auglýst í Lögbirtingarblaði hinn 29. nóvember 2000 og mun lóðin að Garðarsbraut 7 þá hafa verið minnkuð um 60 fermetra frá fyrri uppdrætti og göngustígur milli húsanna lagður til bæjarins.   Lögmaður kærenda sendi inn athugasemdir við deiliskipulagstillöguna með bréfi, dags. 12. janúar 2001, þar sem mótmæli voru á sömu lund sem fyrr.

Skipulags- og byggingarnefnd tók fyrir deiliskipulagstillöguna og fram komnar athugasemdir kærenda á fundi sínum hinn 13. febrúar 2001 og afgreiddi málið með eftirfarandi bókun:  „Kynningu skipulagsins er nú lokið.  Sameiginleg athugasemd barst frá fyrrverandi og núverandi eigendum Garðarsbrautar 5.  Byggingarnefnd leggur til við bæjarstjórn að tillagan verði samþykkt með þeirri breytingu að göngustígur milli Ketilsbrautar og Garðarsbrautar tilheyri lóð nr. 5 við Garðarsbraut.  Að öðru leyti er vísað til fundargerðar Byggingarnefndar frá 21. júní 2000.”   Bæjarstjórn samþykkti þessa afgreiðslu á fundi hinn 20. febrúar 2001.  Kærendum var tilkynnt um niðurstöðu málsins með bréfi hinn 10. apríl 2001 og tók deiliskipulagið gildi með birtingu þess í Stjórnartíðindum hinn 30. apríl 2001.

Kærendur sættu sig ekki við þessi málalok og kærðu samþykkt deiliskipulagsins til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir.

Málsrök kærenda:  Kærendur benda á að við sölu umræddra eigna við Garðarsbraut á árinu 1999 hafi ekki verið fyrir hendi deiliskipulag fyrir svæðið.  Við söluna á Garðarsbraut 7 hafi verið framseld lóðarréttindi úr hinni sameiginlegu lóð og gert ráð fyrir að lóðamörk yrðu þremur metrum frá húsvegg í norður með umferðarrétti að austan.  Kaupverð eignarinnar hafi m.a. ráðist af þessum forsendum og hafi bæjaryfirvöldum verið kunnugt um stöðu mála fyrir hina umdeildu deiliskipulagsgerð.  Engin málefnaleg rök búi að baki þeirri ákvörðun bæjaryfirvalda að fara gegn fyrirliggjandi samningum um skiptingu lóðar milli Garðarsbrautar 5 og 7.  Vandséð sé að það varði deiliskipulagið nokkru hvort umrædd lóðamörk liggi norðar eða sunnar.  Í 1. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 séu m.a. sett fram þau markmið laganna að tryggja réttaröryggi í meðferð skipulags- og byggingarmála þannig að réttur einstaklinga og lögaðila verði ekki fyrir borð borinn þótt hagur heildarinnar sé hafður að leiðarljósi.  Með hinni kærðu ákvörðun sé verulegum hagsmunum kærenda raskað og gildir samningar settir í uppnám án þess að séð verði að með því sé verið að ná fram lögmætum markmiðum eða verið sé að gæta almannahagsmuna.

Kærendur benda á að eignarrétturinn sé varinn af 67. gr. stjórnarskrárinnar og enginn verði skyldaður til að láta eign sína af hendi nema að almenningsþörf krefjist og fyrir því sé lagaheimild enda komi fullt verð fyrir  Eignarréttarlegum hagsmunum verði ekki raskað með skipulagsákvörðunum nema fyrir liggi gilt skipulag og til þeirra ráðstafana séu fullnægjandi rök.

Með hinni kærðu ákvörðun virðist bæjaryfirvöld hafa tekið til sín hluta hinnar sameiginlegu lóðar, þ.e. nr. 3 við Garðarsbraut.  Samkvæmt þinglýstum lóðarsamningi frá árinu 1970 er umrædd lóð undir og umhverfis verslunarhús lóðarhafa við Garðarsbraut og teljist vera nr 3-7 við þá götu og sé hún þannig skráð í fasteignamati.  Þótt öll horn lóðarinnar séu ekki nýtt sé fráleitt að telja réttindi til þess lóðarparts niður fallin enda hafi bæjaryfirvöld ekki tilkynnt lóðarleiguhafa um niðurfellingu réttinda yfir lóðinni.  Kærendur beri ekki hallann af ónákvæmni af hálfu bæjaryfirvalda við gerð umrædds lóðarsamnings en óumdeilt sé að annar kærenda, Kaupfélag Þingeyinga, hafi nýtt lóðina nr. 3 við Garðarsbraut um áraraðir og fasteignir félagsins staðið á lóðinni eins og veðmálabækur beri með sér.  Þá sé óumdeilt að Kaupfélagið en ekki Húsavíkurbær hafi látið rífa mannvirki er á lóðinni stóðu.  Nýting lóðarinnar hafi verið í samræmi við gildandi aðalskipulag en eins og fram sé komið hafi svæðið ekki verið deiliskipulagt fram að þessu.  Í 45. gr. skipulags- og byggingarlaga sé byggingaryfirvöldum veitt heimild til að fella niður byggingarleyfi að tilteknum skilyrðum uppfylltum en þar sé hvergi að finna heimild til að fella niður leyfi vegna niðurrifs húss.  Ákvæði þess efnis í lóðarsamningi eigi því ekki lagastoð enda sé um að ræða ótímabundinn samning með erfðafesturétti.   Ljóst sé að kærendur hafi enn allan rétt til hinnar umþrættu lóðar og standist því ekki það ákvæði deiliskipulagsins að um sé að ræða óbyggða lóð.

Ennfremur benda kærendur á að annmarkar hafi verið á meðferð deiliskipulagstillögunnar og við meðferð hennar hafi grundvallarreglur stjórnsýsluréttar verið brotnar.  Allar reglur um tilkynningar og rökstuðning hafi verið hunsaðar af hálfu bæjaryfirvalda.  Bæjaryfirvöld hafi aldrei kallað eftir gögnum frá kærendum og ekki sé í ljós leitt að þau hafi kynnt sér ákvæði kaupsamninga eða samkomulag milli lóðarhafa og hafi rannsóknarregla 10. gr. stjórnsýslulaga ekki verið virt.  Þá hafi sveitarstjórn ekki fjallað um framkomnar athugasemdir við skipulagstillöguna eða sent kærendum umsögn sína þar um svo sem áskilið sé í 1. og 3. mgr. 25. gr. skipulags- og byggingarlaga og 1. 2. og 4. mgr. gr. 6.3.3 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998.  Bent er og á að jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga hafi ekki verið gætt við deiliskipulagsgerðina í ljósi þess að ekki gæti samræmis milli flatarmáls húsa á lóðunum nr. 5 og 7 við Garðarsbraut og ákvarðaðrar lóðarstærðar. Við hina kærðu ákvörðun hafi ekki verið höfð hliðsjón af meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga þar sem bæjaryfirvöld séu að taka íþyngjandi ákvörðun gagnvart kærendum með setningu deiliskipulagsins þótt ljóst sé að markmiðum skipulagsins verði náð fram með öðru og vægara móti.

Standi hin kærða ákvörðun óhögguð hafi það í för með sér að verðmæti og nýtingarmöguleikar fasteignarinnar að Garðarsbraut 5 rýrni til tjóns fyrir kærendur sem bæjaryfirvöld hljóti að bera ábyrgð á.

Málsrök Húsavíkurbæjar:  Bæjaryfirvöld benda á að framkomnar athugasemdir kærenda við hið kærða deiliskipulag eigi rót sína að rekja til sölu fasteignanna að Garðarsbraut 5 og 7 þar sem lóðarréttindi séu framseld og ráðgerð séu lóðamörk.

Í afsali fyrir Garðarsbraut 7 og samkomulagi aðila um tilhögun lóðarréttinda frá 9. ágúst 1999 komi fram að lóðarréttindi séu sameiginleg með fasteignunum að Garðarsbraut 3 og 5 og að kaupanda sé kunnugt um að gera þurfi nýjan lóðarleigusamning við Húsavíkurbæ vegna samkomulags aðila um væntanleg lóðarréttindi Garðarsbrautar 7.  Þá komi fram í 10. gr. kaupsamnings um fasteignina að Garðarsbraut 5 að kaupanda sé kunnugt um að verið sé að vinna að skipulagningu og gerð lóðarsamnings vegna hinnar seldu fasteignar og endanleg lóðarmörk því ekki ljós.  Þar komi einnig fram að kaupanda sé kunnugt um framsal lóðarréttinda vegna sölu fasteignarinnar að Garðarsbraut 7 en kaupandi geri þann fyrirvara að tilheyri lóðin nr. 3 við Garðarsbraut ekki seljanda verði veittur afsláttur af kaupverði er nemi kr. 2000 fyrir hvern fermetra. 

Samkvæmt þessu hafi aðilum verið ljóst að ákvörðun lóðamarka yrði ekki tekin með samkomulagi aðila án samþykkis Húsavíkurbæjar sem lóðareiganda og að óvissa væri um stöðu lóðarinnar að Garðarsbraut 3.  Verði ekki annað ráðið en aðilum hafi einnig verið kunnugt um að unnið væri að skipulagi svæðisins af hálfu Húsavíkurbæjar.

Að mati bæjaryfirvalda tilheyri lóðin nr. 3 við Garðarsbraut sveitarfélaginu þar sem ekki hafi verið byggt á lóðinni.  Lóðarsamningur frá árinu 1970 telji lóðina Garðarsbraut 3-7 2.479 fermetra samkvæmt uppdrætti er samningnum fylgdi en sá uppdráttur nái ekki til lóðar norðan Vallholtsvegar þar sem umrædd lóð standi.

Hið kærða deiliskipulag hafi verið auglýst til kynningar af hálfu Húsavíkurbæjar í lögbundinn tíma og hafi athugasemdir borist frá kærendum.  Um þær hafi verið fjallað og komið til móts við kærendur í einu atriði.  Bæjarstjórn hafi samþykkt deiliskipulagið, Skipulagsstofnun farið yfir það og auglýsing um gildistöku þess birt í Stjórnartíðindum hinn 30. apríl 2001.  Bæjaryfirvöld telji að engin rök séu til að hnekkja hinni kærðu ákvörðun sem hafi verið sett með lögformlega réttum hætti af þar til bærum stjórnvöldum.

Niðurstaða:  Kærendur telja að málsmeðferð hinnar kærðu deiliskipulagsákvörðunar hafi verið ábótavant og með ákvörðuninni um lóðamörk Garðarsbrautar 5 og 7 ásamt ráðstöfun lóðar að Garðarsbraut 3, sem í deiliskipulaginu felist, sé hagsmunum kærenda raskað óhæfilega og beri að ógilda hina kærðu ákvörðun.  Jafnframt gerðu kærendur kröfu um stöðvun réttaráhrifa deiliskipulagsins og að viðurkenndur yrði réttur þeirra til lóðarinnar nr. 3-7 við Garðarsbraut.

Í 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 37/1998 er fjallað um úrskurðarvald úrskurðarnefndarinnar vegna kröfu um stöðvun framkvæmda.  Setning deiliskipulags felur að jafnaði ekki í sér leyfi til framkvæmda heldur þarf yfirleitt áður að koma til útgáfu byggingar- eða framkvæmdaleyfa.  Hefur ekki verið sýnt fram á að hin kærða ákvörðun í máli þessu hafi leitt til framkvæmda eða haft önnur slík réttaráhrif að þýðingu hefði haft að fresta þeim með sjálfstæðum úrskurði til bráðbirgða.  Hefur því ekki komið til þess að krafa kærenda um frestun réttaráhrifa væri tekin til sjálfstæðrar úrlausnar.

K, þáverandi eiganda umræddra lóða, var sendur uppdráttur á undirbúningsstigi fyrirhugaðrar deiliskipulagstillögu.  Kærendur komu að sameiginlegum athugasemdum sínum við þá tillögu sem byggingarnefnd tók afstöðu til og var beiðni kærenda um rökstuðning fyrir afstöðu byggingarnefndar svarað.  Ekki verður talið að byggingarnefnd hafi borið að tilkynna kærendum um afstöðu sína til framkominna athugasemda þeirra þar sem umrædd afgreiðsla var liður í undirbúningi máls en ekki stjórnvaldsákvörðun í skilningi 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Deiliskipulagstillagan var síðan auglýst til kynningar á lögboðinn hátt og komu kærendur á framfæri athugasemdum sínum við þá kynningu þar sem m.a. komu fram upplýsingar um ráðagerðir aðila að afsalsgerningum um lóðamörk við skiptingu sameiginlegrar lóðar.  Bæjarstjórn afgreiddi tillöguna og tók afstöðu til framkominna athugasemda kærenda og tilkynnti þeim um afgreiðsluna.  Í þeirri afgreiðslu er að finna ástæður bæjaryfirvalda fyrir afstöðu til umræddra athugasemda þar sem skírskotað er til bókunar byggingarnefndar frá 21. júní 2000 er fylgdi tilkynningu til kærenda.  Málsmeðferðin var því í samræmi við 25. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og ekki verður séð að farið hafi verið í bága við rannsóknarreglu 10 gr. stjórnsýslulaga. 

Með hinu kærða deilskipulagi eru dregin lóðamörk milli Garðarsbrautar 5 og 7 sem áður höfðu haft sameiginlega lóð.  Eru lóðamörkin önnur en áætluð voru í samningum um téðar eignir.  Í greinargerð deiliskipulagsins kemur fram það markmið að ná fram heildarsvip og sem bestum nýtingarmöguleikum á svæðinu og eru gerðar breytingar á stærðum lóða í því skyni.  Samkvæmt deiliskipulaginu er lóðin nr. 5 við Garðarsbraut 2.913 fermetrar en lóðin að Garðarsbraut 7 er 381 fermetri.  Yrðu lóðamörk færð til samræmis við ráðagerðir kærenda minnkaði lóðin að Garðarsbraut 7 um rúma 60 fermetra og lóðin að Garðarsbraut 5 stækkaði að sama skapi.  Telja verður að fyrir þeirri ákvörðun bæjaryfirvalda, að minnka ekki lóðina að Garðarsbraut 7 meira en orðið er, séu skipulagsleg rök.  Lóðin sem tilheyrir miðbæ Húsavíkur, er með minnstu lóðum á svæðinu og frekari skerðing hennar myndi takmarka nýtingarmöguleika lóðarinnar til framtíðar og þá sérstaklega þegar höfð er hliðsjón af kröfum um bílastæði við frekari uppbyggingu húsakosts.  Verður ekki fallist á að lögmætar ástæður hafi skort við ákvörðun umræddra lóðamarka og að ákvörðunin fari í bága við meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga.  Þess ber og að gæta að óheimilt er að skipta lóðum nema með samþykki sveitarstjórnar samkvæmt 1. mgr. 30. gr. skipulags- og byggingarlaga og þykir ekki skipta máli um gildi umþrætts deiliskipulags þótt væntingar kærenda um lóðamörk hafi ekki gengið eftir.
 
Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum um stærðir húsa í afsalsgerningum um fasteignirnar að Garðarsbraut 5 og 7 og um lóðarstærðir greindra fasteigna í hinu kærða deiliskipulagi mun nýtingarhlutfall lóðarinnar að Garðarsbraut 5 vera 0,91 en lóðarinnar að Garðarsbraut 7 vera  0,48.  Í umdeildu deiliskipulagi er gert ráð fyrir einu bílastæði fyrir hverja 35 fermetra sem byggðir verða á svæðinu í samræmi við gr. 3.1.4 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998.  Vandséð er að unnt verði að ná sama eða svipuðu nýtingarhlutfalli að Garðarsbraut 7 eins og fyrir er á lóðinni að Garðarsbraut 5 þegar haft er í huga að til þess þyrfti að auka byggingarmagn á lóðinni um 166 fermetra og bæta við 5 bílastæðum.  Af þessum sökum verður ekki talið að hin kærða ákvörðun fari gegn jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga á kostnað kærenda.

Kærendur deila jafnframt á að með hinni kærðu ákvörðun hafi lóð sú sem tilheyrt hafi húsinu að Garðarsbraut 3 verið tekin undir Húsavíkurbæ en lóðin tilheyri lóðinni nr. 3-7 við Garðarsbraut samkvæmt lóðarleigusamningi frá árinu 1970. 

Deiliskipulag er skilgreint í 6. mgr. gr. 1.3 í skipulagsreglugerð sem skipulagsáætlun fyrir afmörkuð svæði eða reit innan sveitarfélags sem byggt er á aðalskipulagi og kveður nánar á um útfærslu þess.  Deiliskipulag felur ekki í sér ákvarðanir um bein eða óbein eignarréttindi.  Af gögnum málsins verður ráðið að deilur eru milli kærenda og sveitarstjórnar um lóðarréttindi yfir lóð þeirri sem fylgdi húsinu að Garðarsbraut 3, sem stóð norðan Vallholtsvegar.  Það er ekki á valdsviði úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála að skera úr um slíkan ágreining og getur sá ágreiningur engu breytt um gildi hins umdeilda skipulags.

Að öllu þessu virtu telur úrskurðarnefndin ekki rök til þess að fella hina kærðu deiliskipulagsákvörðun úr gildi.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kröfu kærenda um ógildingu deiliskipulags fyrir miðbæ Húsavíkur, sem samþykkt var af bæjarstjórn hinn 20. febrúar 2001, er hafnað.

______________________________
Ásgeir Magnússon

___________________________             _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                Óðinn Elísson

59/2000 Akurhlíð

Með

Ár 2003, fimmtudaginn 27. mars, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru, Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Óðinn Elísson hdl., varamaður

Fyrir var tekið mál nr. 59/2000, kæra rekstraraðila verslunar að Akurhlíð 1, Sauðárkróki á ákvörðun umhverfis- og tækninefndar Skagafjarðar frá 6. september 2000 um að synja umsókn kæranda frá 5. ágúst 2000 um tilhögun bílastæða og aðkeyrslu að versluninni og breytingu á legu Sæmundarhlíðar í samræmi við teikningar forráðamanns kæranda, dags. 8. júlí 2000.

Á málið er nú lagður svofelldur

Úrskurður.

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 5. október 2000, sem barst nefndinni 10. október sama ár, kærir E, forráðamaður Raðhúss hf., Raftahlíð 4, Sauðárkróki, fyrir þess hönd, þá ákvörðun umhverfis- og tækninefndar Sauðárkróks frá 6. september 2000, er sveitarstjórn staðfesti 19. september 2000, að synja umsókn kæranda um breytingu á tilhögun bílastæða á lóðinni nr. 1 við Akurhlíð Sauðaárkróki, aðkeyrslu að lóðinni og breytingu á legu götunnar Sæmundarhlíðar framan við lóðina samkvæmt teikningum Einars Sigtryggssonar, dags. 8. júlí 2000.  Kærandi gerir þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Málavextir:  Verslunin Hlíðarkaup er til húsa að Akurhlíð 1, Sauðárkróki og er reksturinn á hendi Raðhúss hf. kæranda í máli þessu.  Að norðanverðu liggur lóðin að Raftahlíð en að Sæmundarhlíð í austur.  Fyrir sunnan verslunarhúsið eru bílastæði ætluð viðskiptavinum en auk þess eru bílastæði norðan megin við húsið.  Umrætt svæði hefur ekki verið deiliskipulagt.

Byggingarfulltrúi Sauðárkróks sendi kæranda bréf, dags. 14. júní 1996, þar sem greint var frá bókun umferðarnefndar bæjarins á fundi nefndarinnar hinn 5. júní 1996.  Bókunin var svo hljóðandi:  „Vegna ófremdarástands í umferðarmálum framan við Hlíðakaup, vill umferðarnefnd beina því til eigenda að gengið verði frá bílastæðum við verslunina, í samræmi við skipulag, sem allra fyrst.”  Í bréfi til byggingarnefndar Sauðárkróks, dags. 1. september 1997, fór einn eigenda kæranda þess á leit að lóðarmörkum Akurhlíðar 1 yrði breytt að austanverðu þannig að Sæmundarhlíð yrði færð um 5,5 metra frá húsinu á kafla og gangstétt við götuna yrði færð að verslunarhúsinu.  Jafnframt var farið fram á að leyfð yrðu bílastæði austur af húsinu.  Tilefni beiðninnar var sögð sú að með breytingunni yrði aðkoma að versluninni bætt, útsýni yrði betra og með því dregið úr slysahættu.  Byggingarnefnd svaraði erindinu í bréfi, dags. 9. september 1997, og tilkynnti að afgreiðslu málsins væri frestað og byggingarfulltrúa falið að kanna möguleika á breyttri legu Sæmundarhlíðar við verslunina.  Hallgrímur Ingólfsson teiknaði upp drög að skipulagi lóðar kæranda þar sem Sæmundarhlíð er færð fjær verslunarhúsinu, gert ráð fyrir bílastæðum að austanverðu og viðbyggingu við húsið til norðurs.

Forsvarsmaður kæranda ritaði síðan umhverfis- og tækninefnd Skagafjarðar bréf, dags. 25. nóvember 1998, þar sem vísað var til fyrrgreinds erindis til byggingarnefndar Sauðárkróks og þess farið á leit að hugmynd um skipulag verslunarlóðarinnar að Akurhlíð 1, sem fram kæmi á teikningu Hallgríms Ingólfssonar, yrði samþykkt af nefndinni.  Afgreiðsla málsins væri aðkallandi vegna fyrirhugaðra malbikunarframkvæmda á lóðinni.  Á fundi nefndarinnar 27. nóvember 1998 var bókað að nefndin óskaði eftir að gerður yrði afstöðuuppdráttur af svæðinu.  Forsvarsmaður kæranda ítrekaði óskir sínar um afgreiðslu málsins í bréfi, dags. 19. apríl 1999, og á fundi umhverfis- og tækninefndar 2. júní 1999 var ákveðið að vísa erindinu til tæknideildar til úrvinnslu þar sem það yrði skoðað í skipulagslegu tilliti og gert kostnaðarmat.  Hinn 8. ágúst 1999 var ítrekuð beiðni um afgreiðslu umsóknar um viðbyggingu við verslunarhúsið að norðanverðu og áðurnefnda færslu götunnar framan við verslunina og sá dráttur sem orðinn var á afgreiðslu málsins átalinn.  Erindið var tekið fyrir á fundi umhverfis- og tækninefndar Skagafjarðar hinn 1. september 1999 þar sem fram kom að nefndin hafi látið gera afstöðumynd af svæðinu en ljóst væri að framkvæmdirnar myndu kosta sveitarfélagið margar milljónir króna.  Málið yrði afgreitt af nefndinni þegar fullnægjandi upplýsingar lægju fyrir.  Kæranda var tilkynnt um þessa afgreiðslu nefndarinnar í bréfi, dags. 10. september 1999, og jafnframt á það bent að á fundinum hafi komið fram efasemdir um að umbeðin færsla Sæmundarhlíðar nægði til að gera fullnægjandi bílastæði framan við verslunina að Akurhlíð 1 og yrði að skoða málið nánar.  Afgreiðsla á umsókn kæranda um viðbyggingu biði deiliskipulagningar lóðarinnar.

Hinn 1. febrúar 2000 sendi forráðamaður kæranda umhverfis- og  tæknideild og sveitarstjórn bréf og óskaði eftir afgreiðslu á umsókn um viðbyggingu á norðurhluta lóðar að Akurhlíð 1.  Jafnframt sendi hann hinn 2. febrúar 2000 annað bréf til sömu aðila þar sem vakin var athygli á óafgreiddum erindum um bílastæðamál lóðarinnar og annan frágang.  Sveitarstjórn samþykkti á fundi sínum hinn 1. febrúar 2000 að umhverfis- og tækninefnd afgreiddi til næsta fundar sveitarstjórnar tillögur um skipulagsmál að Akurhlíð 1 og þar með verslunarinnar Hlíðarkaups samkvæmt erindi eigenda og forráðamanna allt frá árinu 1997.  Málið var síðan tekið fyrir á fundi umhverfis- og tækninefndar hinn 16. febrúar 2000 og eftirfarandi bókun gerð:  „Umhverfis- og tækninefnd getur ekki fallist á að breyta veglínu Sæmundarhlíðar gengt versluninni Hlíðarkaup hf.  Nefndin áréttar gildandi skipulag á svæðinu og óskar eftir því við eigendur Hlíðarkaups að þeir gangi frá bílastæðum sunnan við verslunina í samræmi við samþykkta byggingarnefndarteikningu 27.10.1981.  Umsókn á stækkun á versluninni til norðurs um allt að 15 m. er nú til afgreiðslu hjá nefndinni og felur hún byggingarfulltrúa að kynna þá umsókn hlutaðeigandi nágrönnum.  Frágangi lóðarmarka Akurhlíðar 1 að vestan og Brennihlíðar 1, 3 og 5 að austan er nauðsynlegt að ljúka og er umhverfis- og tækninefnd tilbúin að koma að lausn þess máls.”   Þessi afgreiðsla nefndarinnar var samþykkt á fundi sveitarstjórnar hinn 7. mars 2000 og kæranda tilkynnt um niðurstöðuna með bréfi, dags. 9. mars 2000, þar sem jafnframt var greint frá bókun eins nefndarmanna umhverfis- og tækninefndar þess efnis að færsla Sæmundarhlíðar til austurs væri forsenda fyrir því að umferðaröryggi yrði tryggt vegna verslunarstarfseminnar að Akurhlíð 1.

Umhverfis- og tækninefnd samþykkti leyfi til stækkunar verslunarhússins að Akurhlíð 1 til norðurs um 15 metra á fundi sínum hinn 8. júní 2000 en áréttaði að gengið yrði frá lóð hússins sem allra fyrst í samræmi við gildandi skipulag lóðarinnar.  Forsvarsmaður kærandi sendi bæjaryfirvöldum bréf, dags. 5. ágúst 2000, ásamt tveimur teikningum með umbeðnu skipulagi lóðarinnar að Akurhlíð 1, sem fólu í sér breytta tilhögun bílastæða, aðkeyrslu að verslunarhúsinu og færslu Sæmundarhlíðar framan við verslunarhúsið.  Erindið var tekið fyrir á fundi umhverfis- og tækninefndar hinn 6. september 2000 þar sem því var hafnað og bókun nefndarinnar frá 16. febrúar 2000 um sambærilegt erindi kæranda var ítrekuð.  Sveitarstjórn staðfesti afgreiðslu nefndarinnar hinn 20. september 2000.

Kærandi sætti sig ekki við þessar málalyktir og kærði ákvörðunina til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir.

Málsrök kæranda:  Kærandi bendir á að umbeðnar breytingar á bílastæðum og aðkomu við verslunarhúsið  að Akurhlíð 1 helgist af umferðaröryggissjónarmiðum og viðleitni við að bæta aðkomu stærri bíla að versluninni.

Núverandi skipulag lóðarinnar sé til baga.  Bílastæði séu sunnan verslunarinnar með einni aðkoma frá Sæmundarhlíð og þar vilji safnast fyrir snjór í norðanáttum.  Þróun mála hafi því orðið sú að viðskiptavinir, og þá sérstaklega á stærri bílum, leggi bílum sínum austanvert við verslunina í götukanti Sæmundarhlíðar.  Núverandi ástand og skipulag skapi vandræði, m.a. þar sem útsýni þeirra sem leið eigi hjá skerðist.

Kærandi hafi af þessum sökum farið fram á að Sæmundarhlíð yrði færð austar framan við verslunina þannig að rými skapaðist við verslunarhúsið þar sem leggja mætti bílum.  Sú ráðstöfun yki umferðaröryggi á svæðinu og kæmi í veg fyrir að stærri bílum væri bakkað úr á Sæmundarhlíðina.  Hafi kærandi haft samráð við aðila sem þekktu til umferðarmála á staðnum við útfærslu tillögu sinnar.  Jafnframt hafi kærandi lýst sig reiðubúinn að taka þátt í kostnaði bæjarins við umbeðnar framavæmdir enda talið brýnt að koma málum þessum í lag.  Bendir kærandi á að sveitarstjórnum sé skylt að taka tillit til umferðaröryggis við skipulagningu byggðar samkvæmt 108. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998, þar sem fram komi að þess skuli gætt að hús falli vel að lóð, aðkomu og bílastæðum.

Kærandi telur að engin haldbær rök búi að baki hinni kærðu ákvörðun.  Málsmeðferð erindis hans hafi verið ómálefnaleg og hafi þar haft áhrif afstaða formanns umhverfis- og tækninefndar sveitarfélagsins, sem einnig sitji í sveitarstjórn, sem mótast hafi af stöðu hans sem stjórnarformanns samkeppnisaðila kæranda í verslunarrekstri.  Kærandi hafi gert þá kröfu að viðkomandi aðili viki sæti við meðferð mála hans hjá bæjaryfirvöldum en þeirri málaleitan hafi í engu verið sinnt.

Málsrök Skagafjarðar:  Sveitarfélagið bendir á að skipulagsyfirvöld hafi haft verulegar áhyggjur af umferðaröryggi við verslunina að Akurhlíð 1.  Ítrekað hafi verið eftir því leitað við forráðamenn verslunarinnar að gengið yrði frá lóð og bílastæðum við húsið.  Innan lóðar hafi ekki verið gengið frá neinum bílastæðum og viðskiptavinir verslunarinnar leggi bílum sínum framan við aðalinngang hennar úti í götusvæði Sæmundarhlíðar, sem sé skilgreind sem tengibraut í gildandi aðalskipulagi Sauðárkróks.

Bæjaryfirvöld hafi látið kanna breytta legu Sæmundarhlíðar í kjölfar erinda kæranda og látið áætla kostnað við mögulegar breytingar.  Í framhaldi af því hafi umhverfis- og tækninefnd sveitarfélagsins á fundi sínum hinn 16. febrúar 2000 ekki getað fallist á breytta legu götunnar við verslunina en áréttað að gengið yrði frá bílastæðum sunnan verslunarinnar í samræmi við samþykkta byggingarnefndarteikningu frá 27. október 1981.  Þessi afstaða var ítrekuð við afgreiðslu nefndarinnar hinn 6. september 2000 á erindi kæranda um færslu Sæmundarhlíðar, sem nú hefur verið kærð til úrskurðarnefndarinnar.

Niðurstaða:  Hin kærða ákvörðun fól í sér synjun umhverfis- og tækninefndar Skagafjarðar á beiðni kæranda um breytingu á legu Sæmundarhlíðar framan við verslun kæranda að Akurhlíð 1, Sauðárkróki og útfærslu bílastæða og aðkomu að versluninni í samræmi við teikningar, dags. 8. júlí 2000, sem undirritaðar eru af forráðamanni kæranda.  Kærandi telur að málsmeðferð erindis hans hafi verið ábótavant sökum vanhæfis eins nefndar- og sveitarstjórnarmanns, en auk þess séu engin haldbær rök fyrir synjun sveitarstjórnaryfirvalda.

Samkvæmt 2. mgr. 2. gr. stjórnsýslulaga nr. 371993 fer um sérstakt hæfi sveitarstjórnarmanna og annarra þeirra sem starfa við stjórnsýslu sveitarfélaga eftir sveitarstjórnarlögum.  Um sérstakt hæfi sveitarstjórnarmanna er fjallað í 19. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 og gildir það ákvæði um aðila í nefndum á vegum sveitarstjórna samkvæmt 47. gr. laganna.  Í nefndri 19. gr. segir að sveitarstjórnarmanni beri að víkja sæti við meðferð og afgreiðslu máls þegar það varðar hann eða nána venslamenn hans svo sérstaklega að almennt megi ætla að viljaafstaða hans mótist að einhverju leyti þar af.  Formaður umhverfis- og tækninefndar, sem jafnframt sat í sveitarstjórn, var stjórnarformaður hjá samkeppnisaðila kæranda í verslunarrekstri.  Tók hann þátt í meðferð og ákvörðun á erindi kæranda í nefndinni og í sveitarstjórn.  Ekki verður talið að umdeild ákvörðun, er snertir skipulagningu á lóð kæranda og nánasta umhverfi, sé svo vaxin að valdi vanhæfi umrædds nefndarmanns vegna fyrrgreindrar stöðu hans og verður hinni kærðu ákvörðun því ekki hnekkt af þeim sökum.

Umdeilt erindi kæranda um breytingu á fyrirkomulagi bílastæða á verslunarlóð hans og aðkomu að lóðinni fól í sér breytingu á vegarstæði Sæmundarhlíðar við verslun kæranda.  Tilefni beiðninnar var, að sögn kæranda, að auka umferðaröryggi við verslunina.  Til þess að rými fengist fyrir vegrein, samsíða Sæmundarbraut, framan við verslunina þyrfti að færa umræddan veg frá lóðarmörkum kæranda.  Sú breyting hefði í för með sér ráðstöfun á landi sveitarfélagsins til greindra nota.

Skipulagsyfirvöldum ber við skipulagningu umferðarmannvirkja og lóða að tryggja sem best örugga umferð fólks og farartækja með hliðsjón af 2. mgr. 9. gr., sbr. 1. gr.  skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, og skulu eftir föngum leita eftir sjónarmiðum og tillögum þeirra sem hagsmuna eiga að gæta um mörkun stefnu og skipulagsmarkmið, sbr. 4. mgr. 9. gr. laganna.  Í skipulags- og byggingarlögum er ekki að finna lagaheimildir til handa íbúum sveitarfélaga til þess að knýja á um einstakar lausnir til þess að ná greindum markmiðum eða að fá sveitarfélag knúið til að leggja land sitt undir tiltekna notkun í þessu skyni.   Slík ráðstöfun á landi sveitarfélags verður því ráðin með samningum einkaréttarlegs eðlis en ekki skipulagsákvörðunum.  Að þessu virtu verður hin kærða ákvörðun ekki felld úr gildi. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar en jafnframt vegna beiðni kæranda um frestun á afgreiðslu málsins í tilefni af samningaumleitunum málsaðila um lausn þess.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á þeirri ákvörðun umhverfis- og tækninefndar Skagafjarðar frá 6. september 2000 að synja umsókn kæranda, samkvæmt teikningu hans, dags. 8. júlí 2000, um skipulag bílastæða á lóðinni að Akurhlíð 1, Sauðárkróki og breytingu á aðkeyrslu að henni ásamt breytingu á legu götunnar Sæmundarhlíðar framan við lóðina.

 
____________________________
Ásgeir Magnússon

___________________________             _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                  Óðinn Elísson