Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

134/2020 Tangabryggja

Með

Árið 2022, miðvikudaginn 4. maí, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Ómar Stefánsson, starfandi formaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor, Ásgeir Magnússon, fyrrverandi dómstjóri, Hildigunnur Haraldsdóttir arkitekt og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Endurupptekið var mál nr. 134/2020, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 21. október 2020 um að gefa út vottorð um lokaúttekt vegna Tangabryggju 13-15.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 14. desember 2020, er barst nefndinni sama dag, kærir húsfélag Tangabryggju 13-15 þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 21. október 2020 að gefa út vottorð um lokaúttekt vegna Tangabryggju 13-15. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Jafnframt er þess krafist að byggingarfulltrúa verði gert að endurtaka lokaúttekt samkvæmt skoðunarlista, sbr. gr. 3.5.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012, eftir að verktaki ljúki við bygginguna að fullu. Með úrskurði nefndarinnar kveðnum upp 6. maí 2020 var kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Kærandi kvartaði yfir úrskurðinum til umboðsmanns Alþingis og af því tilefni óskaði umboðs­maður í bréfi, dags. 12. ágúst 2021, eftir skýringum á tilteknum atriðum úrskurðarins. Að kvörtun kæranda og fyrirspurnum umboðsmanns virtum taldi úrskurðarnefndin rétt að endur­upptaka kærumálið að eigin frumkvæði og með bréfi nefndarinnar, dags. 21. september s.á., var aðilum máls tilkynnt um þá ákvörðun.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 24. febrúar 2021.

Málavextir: Á árinu 2016 var sótt um byggingarleyfi til þess að byggja fimm hæða fjölbýlishús með 63 íbúðum á lóðinni nr. 18-24 við Tangabryggju, sem síðar var breytt í Tangabryggju 13-15. Hinn 23. apríl 2019 sendi kærandi tölvupóst til byggingarfulltrúans í Reykjavík og óskaði eftir því að fá að koma að athugasemdum áður en lokaúttekt færi fram, sem hann og gerði. Með tölvupóstum 27. s.m. og 31. maí s.á. kom kærandi að frekari athugasemdum vegna lokaúttektar. Lutu athugasemdir hans m.a. að því hvernig aðgengi og loftræsingu væri háttað. Byggingar­fulltrúi gaf út vottorð um lokaúttekt 21. júní 2019 en sú ákvörðun var kærð til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Með úrskurði uppkveðnum 28. maí 2020 í máli nr. 54/2019 var ákvörðun byggingarfulltrúa felld úr gildi með vísan til þess að þáttum sem vörðuðu aðgengi skyldi ávallt vera lokið við gerð lokaúttektar, sbr. 4. mgr. 36. gr. laga nr. 160/2010 um mann­virki, en að mati nefndarinnar voru tiltekin skilyrði byggingarreglugerðar nr. 112/2010 um bílastæði hreyfihamlaðra ekki uppfyllt. Var í úrskurðinum jafnframt vísað til þess að færi loka­úttekt fram að nýju kynni byggingarfulltrúa að vera rétt að bregðast við þeim athugasemdum sem kærandi hefði gert við meðferð málsins.

Með tölvupóstum 9. og 26. júní 2020 komu kærendur að athugasemdum vegna fyrirhugaðrar lokaúttektar byggingarfulltrúa og 9. júlí s.á. óskaði kærandi eftir því við byggingarfulltrúa að verða upplýstur um það þegar boðað yrði til skoðunar vegna lokaúttektar. Með umsókn, dags. 18. september 2020, sótti byggingaraðili um leyfi til að koma fyrir bílastæði fyrir hreyfihamlaða við hús nr. 15 á lóð Tangabryggju 13-15. Samþykkti byggingarfulltrúi umsóknina á afgreiðslufundi sínum 20. október s.á. og áritaði breytta aðaluppdrætti sama dag. Skoðun á mannvirkinu vegna lokaúttektar fór fram 21. s.m. og sama dag gaf byggingarfulltrúi út vottorð um lokaúttekt. Kærandi kærði þá ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar og krafðist þess m.a. að hún yrði felld úr gildi. Svo sem áður greinir var þeirri kröfu hafnað með úrskurði nefndarinnar uppkveðnum 6. maí 2021, en úrskurðarnefndin ákvað hinn 21. september s.á. að endurupptaka málið að virtri kvörtun kæranda til umboðsmanns Alþingis og fyrirspurnum hans til nefndarinnar vegna kvörtunarinnar.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að í gr. 1.1.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 komi fram að meðal markmiða hennar sé að tryggja aðgengi fyrir alla. Samkvæmt gr. 6.4.2. í reglu­gerðinni skuli gera ráð fyrir sjálfvirkum opnunarbúnaði fyrir inngangsdyr í aðal­umferðarleiðum. Slíkan búnað sé ekki að finna á þeim fimm dyrum sem marki aðalumferðar­leið frá bílgeymslu að lyftum í Tangabryggju 15, en öll stæði fyrir hreyfihamlaða í eigninni tilheyri íbúðum að Tangabryggju 15. Þá sé kveðið á um það í gr. 6.4.11. að skábrautir skuli „að jafnaði ekki vera brattari en 1:20. Ef umferðarleið er styttri en 3 m er þó heimilt að halli skábrautar sé mest 1:12.“ Halli skábrautar að bílgeymslu sé meiri en 1:12 þrátt fyrir að um lengri skábraut en 3 m sé að ræða. Sú leið sé af þeim sökum ekki fær hjólastólum og því nauðsynlegt að aðalumferðarleið sé greiðfær þeim sem þar fari um. Aðgengi hreyfihamlaðra íbúa sé þar af leiðandi skert en slíkt brjóti í bága við reglur um aðgengi fyrir alla.

Ekki sé til staðar útsog úr eldhúsum íbúða, af gangi eða stigahúsum. Þar af leiðandi séu ekki eðlileg loftskipti á þessum stöðum í samræmi við gr. 10.2.5. í byggingarreglugerð. Á upp­dráttum komi fram að öll gluggalaus eða lokuð rými verði loftræst. Matarlykt leiði nú um íbúðir og fram á ganga. Loftræsing í stigahúsum, sem aðskilin séu frá stigapöllum með eldvarnar­hurðum, hafi verið sett upp eftir að fyrra vottorð um lokaúttekt hafi verið fellt úr gildi. Önnur loftræsing hafi ekki verið lagfærð. Sorpgeymsla sé án læstrar hurðar og gólf þar ómeðhöndlað. Það leiði til þess að erfitt sé að þrífa gólfið, en skv. gr. 6.12.7. reglugerðarinnar skuli sorp­geymslur þannig frágengnar að auðvelt sé að þrífa þær. Einnig segi í gr. 6.12.8. að gólf í sorp­gerði/sorpskýli skuli vera úr efni sem auðvelt sé að þrífa. Þá vanti loftræsingu í sorpgeymslu svo hægt sé að læsa henni, sbr. gr. 6.12.7. Samkvæmt gr. 6.12.1. skuli ganga þannig frá tækni­rýmum að þau „séu ávallt læst ef í þeim eru tæki, búnaður eða efni sem eru viðkvæm, geta valdið slysum eða verið hættuleg börnum eða fullorðnum.“ Rafmagnstöflur séu ólæstar í sam­eiginlegu rými, sem sé skilgreint sem hjóla- og vagnageymsla/tæknirými. Þar sé óhindrað aðgengi fyrir börn og fullorðna sem geti valdið slysum og tjóni fyrir íbúa hússins. Samkvæmt gr. 6.2.2. reglugerðarinnar skuli lýsing og merkingar við alla gangstíga, hjólastíga, akbrautir og bílastæði henta þeirri umferð sem gert sé ráð fyrir á svæðinu. Bílastæði séu óupplýst ásamt hluta gangstígs, sem skapi hættu fyrir íbúa sem eigi þar leið um í skammdeginu.

Svo virðist sem húsið hafi ekki verið tekið út samkvæmt ákvæðum skoðunarhandbókar og skoðunarlista, sbr. gr. 3.5.1. í byggingarreglugerð. Hefði skoðunarhandbók og skoðunarlistum verið fylgt við áfanga- og lokaúttektir á byggingunni hefði komið fyrr til úrbóta. Ekki sé hægt að gefa út lokaúttektarvottorð þegar ekki séu uppfyllt skilyrði varðandi aðgengi, hollustuhætti og öryggismál.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er bent á að byggingaraðili hafi sótt um byggingarleyfi til breytinga á útgefnu byggingarleyfi til að lagfæra þau atriði sem úrskurðar­nefndin hafi gert athugasemdir við í fyrra máli. Hafi byggingarfulltrúi samþykkt umsókn um bílastæði fyrir hreyfihamlaða fyrir framan húsið, en með því hafi krafa byggingarreglugerðar nr. 112/2012 um bílastæði fyrir hreyfihamlaða verið uppfyllt. Skýrsla vegna stillinga á hurðar­pumpum í sameign og átaksmælingar opnunar þeirra hafi verið send byggingarfulltrúa með niðurstöðum um lagfæringar á stillingum. Einnig liggi fyrir minnisblað loftræsihönnuðar þar sem gerð sé grein fyrir hönnunarforsendum og loftun stigahúsa. Þá sé bent á að aðrar máls­ástæður sem hafi áður komið til umfjöllunar úrskurðarnefndarinnar, s.s. vélrænt útsog í eld­húsum og aðgerðir í sorpgerði, séu ekki réttmætar. Frágangur hafi verið í samræmi við ákvæði byggingarreglugerðar, eins og hún hafi verið við samþykkt upprunalegrar byggingar­leyfisumsóknar 14. mars 2017. Hvað lýsingu á lóðinni varði þá hafi athugun byggingarfulltrúa leitt í ljós að lýsing aðkomu hússins væri í samræmi við lóðaruppdrátt frá 7. janúar 2019.

 Athugasemdir byggingaraðila: Af hálfu byggingaraðila er þess krafist að kröfum kæranda í málinu verði hafnað. Bent sé á að í úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 54/2019 hafi nefndin fellt úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa um að gefa út vottorð um lokaúttekt vegna Tangabryggju 13-15 með vísan til þess að bílastæði hreyfihamlaðra uppfylltu ekki nánar til­greindar kröfur í gr. 6.2.4. byggingarreglugerðar nr. 112/2012. Byggingaraðili hafi bætt úr því með því að bæta við bílastæði fyrir hreyfihamlaða beint fyrir utan aðalinngang Tangabryggju 15.

Byggingarfulltrúi hafi að öllu leyti verið meðvitaður um þau atriði sem kærandi hafi talið vera ábótavant þegar gefið hafi verið út nýtt vottorð um lokaúttekt. Athugasemdir kæranda séu að langstærstum hluta þær sömu og hafi verið settar fram í máli nr. 54/2019. Áður en lokaúttekt hafi farið fram að nýju hafi kærandi sent skjal til byggingarfulltrúa með sambærilegum athugasemdum. Embættið hafi ekki talið tilefni til að bregðast við þeim, eftir atvikum með synjun um útgáfu vottorðsins eða með útgáfu þess með athugasemdum. Hin kærða ákvörðun feli þvert á móti í sér staðfestingu á að bílastæði mannvirkisins hafi uppfyllt kröfur byggingar­reglugerðar um aðgengi hreyfihamlaðra og tilskilda stærð, að mannvirkið uppfylli að öðru leyti viðeigandi kröfur laga nr. 160/2010 um mannvirki og byggingarreglugerðar og að byggt hafi verið í samræmi við samþykkt hönnunargögn, sbr. 1. mgr. 36. gr. laganna. Full­nægjandi úrbætur hafi verið gerðar og þegar af þeirri ástæðu beri að hafna kröfum kæranda.

Stór hluti athugasemda kæranda, s.s. varðandi sorpgeymslu, tæknirými og lýsingar á bíla­stæðum og göngustígum, beinist að atriðum sem myndu teljast minniháttar frávik ef fallist yrði á þær. Athugasemdirnar hefðu í mesta lagi getað orðið til þess að byggingarfulltrúi hefði gefið út vottorð um lokaúttektina með athugasemdum skv. 4. mgr. 36. gr. laga nr. 160/2010. Slík minniháttar frávik geti undir engum kringumstæðum valdið ógildingu lokaúttektarinnar í heild sinni með tilheyrandi íþyngjandi réttaráhrifum fyrir byggingaraðila og aðra hlutaðeigandi aðila.

Kærandi nefni þrjú atriði sem tengist aðgengi. Fyrsta atriðið varði bílastæði fyrir hreyfi­hamlaða, en um það sé vísað til fyrri umfjöllunar. Annað atriði varði sjálfvirkan opnunarbúnað fyrir inngangs- og útidyr í aðalumferðarleiðum sem skuli gera ráð fyrir, sbr. b-lið 5. mgr. gr. 6.4.2. í byggingarreglugerð. Inngangur úr bílageymslu inn í húsið liggi ekki um inngangs- og útidyr í aðalumferðarleið í skilningi framangreinds ákvæðis. Fjallað sé um dyr innanhúss í gr. 6.4.3., en samkvæmt 3. mgr. ákvæðisins skuli dyr í byggingum þannig frágengnar að allir, þ.m.t. fólk í hjólastól, geti opnað þær og sé í ákvæðinu mælt fyrir um ákveðið hámarksátak við að opna hurðir. Byggingaraðili hafi framkvæmt átaksmælingar á opnun dyra í kjallaranum til þess að ganga úr skugga um og sýna fram á að þær væru innan leyfilegra marka með hliðsjón af kröfum ákvæðisins. Átaksmælingar hafi staðfest að allar eldvarnarhurðir úr bifreiðakjallara, inn að stigagöngum og að lyftu, sem og aðrar hurðir í kjallaranum, séu í samræmi við nefndar kröfur. Allar gönguleiðir séu samkvæmt gildandi reglum um aðgengi fyrir alla og öll atriði sem varða aðgengi innanhúss séu einnig í samræmi við gildandi reglur. Þriðja atriðið hafi varðað skábrautir en í gr. 6.4.11. í byggingarreglugerð sé fjallað um hönnun skábrauta fyrir hjólastóla og settar fram viðmiðunarreglur, m.a. um hámarkshalla. Byggingaraðili geri ráð fyrir að umfjöllun kæranda beinist að halla umferðarleiðar fyrir bifreiðar inn í bílgeymslu kjallarans. Umferðar­leið fyrir bifreiðar inn í bílgeymslu kjallara teljist ekki skábraut fyrir hjólastóla. Af þessari ástæðu nái kröfur um hönnun skábrauta fyrir hjólastóla ekki til þessa hluta mannvirkisins og sé ekki um brot á byggingarreglugerð að ræða.

Í skilalýsingu Tangabryggju 13-15 sé kveðið á um að vélræn loftræsing (útsog) verði í rýmum samkvæmt hönnunargögnum þar sem við eigi, auk opnanlegra faga og eldhúsháfs. Vottorð um lokaúttekt staðfesti að mannvirkið, þ.m.t. loftræsing, hafi verið byggt í samræmi við samþykkt hönnunargögn og uppfylli viðeigandi kröfur byggingarreglugerðar. Á grunnmynd af loft­ræsingu sé leitast við að varpa skýrara ljósi á þennan þátt málsins. Í því samhengi sé rétt að nefna að við lokaúttekt hafi legið fyrir yfirlýsing blikksmíða-, pípulagninga- og rafvirkja­meistara um að loftræsikerfi hafi verið stillt, samvirkni tækja prófuð og að afköst þeirra séu í samræmi við hönnunargögn. Einnig hafi legið fyrir niðurstöður loftmagnsmælinga ásamt samanburði við kröfur um loftmagn í hönnunargögnum. Að mati byggingaraðila uppfylli lofræsing allar viðeigandi kröfur byggingarreglugerðar.

Hvað sorpgeymslu varði sé bent á að gr. 6.12.7. í byggingarreglugerð eigi við um innbyggðar sorpgeymslur og sorpgeymslur sem séu byggðar í tengslum við byggingar. Hin umdeilda sorp­geymsla falli ekki undir það gildissvið þar sem um sé að ræða sorpskýli. Um sorpskýli sé fjallað í gr. 6.12.18., en hvorki sé mælt fyrir um að þau skuli vera með læsanlegri hurð né að þau skuli loftræst með ólokanlegri loftrist að útilofti. Gólf sorpskýla skuli hins vegar vera úr efni sem sé auðvelt að þrífa. Gólfflötur skýlisins sé steyptur og vélslípaður og í samræmi við gr. 6.12.18.

Að mati kæranda sé ekki forsvaranlegt að rafmagnstöflur séu ólæstar í sameiginlegu rými sem skilgreint sé sem hjóla- og vagnageymsla, sbr. 4. mgr. gr. 6.12.1. í byggingarreglugerð. Byggingaraðili hafi haft samband við sérfræðing hjá rafmagnsöryggissviði Húsnæðis- og mannvirkja­stofnunar og hafi niðurstaða hans verið sú að ekkert væri því til fyrirstöðu að staðsetja rafmagns­töflur í hjóla- og vagnageymslum. Í byggingarreglugerð séu engar kröfur um að rafmagns­töflur séu læstar og ekki verði séð af öðrum réttarheimildum að slíkar kröfur séu gerðar. Til hliðsjónar megi benda á 13. mgr. gr. 11.2. í reglugerð nr. 678/2009 um raforkuvirki, með síðari breytingum, en þar sé tiltekið að rafmagnstöflum skuli þannig komið fyrir að aðgengi að þeim sé auðvelt og óski eigandi eða umráðamaður þess, t.d. til að koma í veg fyrir óæskilega umgengni, megi staðsetja rafmagnstöflur í læstu rými eða skáp. Af þessu ákvæði virðist mega ráða að meginreglan sé að þær skuli vera aðgengilegar og almennt í ólæstum rýmum en heimilt sé að staðsetja þær í læstu rými eða skáp.

Að lokum telji byggingaraðili lýsingu bílastæða og gangstíga vera í samræmi við kröfur 5. mgr. gr. 6.2.2. í byggingarreglugerð. Einnig sé bent á að bæði skoðunarhandbók og skoðunarlistar byggist á byggingarreglugerð og hafi lokaúttekt verið gerð með vísan til ákvæða í 36. gr. laga nr. 160/2010, sbr. einnig gr. 3.9.1., 3.9.2. og 3.9.3. í fyrrgreindri byggingarreglugerð. Mann­virkið uppfylli allar viðeigandi kröfur mannvirkjalaga og byggingarreglugerðar og hafi verið byggt í samræmi við samþykkt hönnunargögn. Engir annmarkar séu fyrir hendi á hinni kærðu ákvörðun sem geti leitt til ógildingar hennar og skuli því hafna kröfum kæranda í málinu.

 Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi vísar til þess að þó úrskurðarnefndin hafi ekki í fyrri úrskurði tilgreint að þörf sé á að uppfylla ákveðin ákvæði byggingarreglugerðar nr. 112/2012 jafngildi það ekki samþykki fyrir því að þau standi óuppfyllt. Í úrskurði nefndarinnar hafi komið fram að byggingarfulltrúa kunni „að vera rétt að bregðast við þeim athugasemdum sem kærandi hefur gert við meðferð máls þessa, s.s. um að gr. 10.2.5. í byggingar-reglugerð sé ekki fullnægt þar sem útsog sé ekki til staðar í eldhúsum íbúða.“ Vakin sé athygli á að í gr. 6.2.4. komi fram að „bílastæði hreyfihamlaðra og umferðarleiðir frá þeim að aðalinngangi byggingar skulu vera upphituð þar sem því verður við komið.“ Bílastæðið sem bætt hafi verið við fyrir framan Tangabryggju 15 sé staðsett á stétt utan snjóbræðslu og því ekki upphitað. Sannarlega sé hægt að hafa bílastæðið upphitað þar sem nálæg stétt sé upphituð og ekkert því til fyrirstöðu að upphitun nái einnig yfir stæðið.

Samkvæmt byggingarreglugerð skuli fjölbýlið að Tangabryggju 13-15 hafa fjögur bílastæði fyrir hreyfihamlaða. Þau séu nú alls fimm talsins en fjögur þeirra séu staðsett í læstri bíla-geymslu og séu þinglýst eign eigenda fjögurra íbúða. Þá komi fram í 9. mgr. gr. 6.24. að fækka megi bílastæðum á lóð mannvirkis sem nemi fjölda sérmerktra stæða fyrir hreyfihamlaða í sameigin­legri bílgeymslu, enda sé tryggt að gestkomandi hafi ávallt aðgang að hluta stæðanna. Þar sem bílgeymsla sé læst og takmarkist við aðgengi íbúa hafi gestkomandi ekki aðgang að stæðum sem þar séu staðsett. Kærandi fái því ekki séð að hægt sé að fækka bílastæðum á lóð sem nemi fjölda sérmerktra stæða í sameiginlegri bílgeymslu, eins og reglugerð kveði á um. Þannig sé eitt bílastæði fyrir hreyfihamlaða íbúa og gesti of lítið.

Bent sé á að stilling hurðapumpa hafi ekki verið umfjöllunarefni kærunnar. Kjósi íbúi að nýta bíla­stæði sitt í bílgeymslu, þar sem nú þegar séu staðsett bílastæði fyrir hreyfihamlaða, komist sá hinn sami ekki úr bílgeymslunni nema í gegnum dyr í sameign. Það sé aðal­­umferðarleið og því óásættanlegt að hreyfihömluðum íbúum sé gert ókleift að nýta stæði sín.

Í kæru hafi komið fram að lofræsingu hafi verið komið fyrir í stigahúsum áður en seinni loka­úttekt hafi farið fram. Ekki hafi fengist staðfesting á að sú loftræsing uppfylli lágmarkskröfu gr. 10.2.5. í byggingarreglugerð um 17 l/s loftskipti í stigahúsum. Þá sé bent á að stigagangar séu gluggalaus lokuð rými sem séu aðskilin stigahúsum með eldvarnarhurðum. Þar hafi ekki verið bætt úr loftræsingu. Í 1. mgr. gr. 10.2.5. komi fram að öll rými íbúða og íbúðarhúsa skuli loftræst. Sú loftræsing sem bætt hafi verið úr veiti ekki fersklofti inn á stigaganga sem séu lokaðir af og því enga loftræsingu þar að finna.

Sorpgeymslan á lóð fjölbýlishússins falli undir skilgreiningu byggingarreglugerðar um sorp­geymslu en ekki sorpgerði, enda hafi hún fjóra veggi og þak. Í gr. 6.12.7. komi fram að inn­gangur í sorpgeymslu sem byggð sé í tengslum við byggingar skuli vera utan frá um læsanlegar dyr sem opnist út. Umrædd sorpgeymsla sé sannanlega byggð í tengslum við bygginguna að Tanga­bryggju 13-15. Því eigi læsanlegar dyr að vera á henni. Einnig sé gólf­flötur sorpgeymslu steyptur en ekki vélslípaður, líkt og byggingaraðili haldi fram. Gólfflötur sé því grófur og erfiður til þrifa.

Reykjavíkurborg hafi greint frá því að athugun byggingarfulltrúa á lýsingu aðkomu hússins hafi leitt í ljós að hún væri í samræmi við lóðarblað hönnuða. Hönnunargögnin sjálf séu ekki til umfjöllunar en þau hefðu átt að uppfylla ákvæði reglugerðar til að vera samþykkt. Eins og sjá megi á myndum sé engin lýsing á gönguleið frá bílastæðum íbúa, sem staðsett séu á þaki bílgeymslu, og í myrkri sjáist gönguleiðin meðfram húsveggnum illa. Götulýsing dugi ekki til að lýsa upp gönguleiðina þar sem sorp- og hjólageymsla Tangabryggju 18 standi á milli ljósa­staura og gönguleiðar.

Það sé rangt hjá byggingaraðila að athugasemdir kæranda varði minniháttar frávik og að slíkt hefði leitt til þess að lokaúttektarvottorð hefði verið gefið út með athugasemdum. Samkvæmt 2. mgr. gr. 3.9.4. í byggingarreglugerð megi hvorki vera ófullgerðir verkþættir sem varði öryggis- og hollustukröfur né verkþættir sem séu háðir áfangaúttekt. Við lokaúttekt sé húsnæðið metið samkvæmt skoðunarhandbók og skoðunarlista Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar skv. gr. 3.5.1. Það sé forsenda úttektarinnar. Skortur á lofræsingu lokaðra rýma og það að umferðarleið að og frá bílgeymslu sé ekki hönnuð á grundvelli algildrar hönnunar leiði til athugasemda í flokki 2 samkvæmt skoðunarlista um yfirferð hönnunargagna. Athugasemdir í flokki 2 leiði til höfnunar á samþykkt og kröfu um endurtekningu skoðunar skv. gr. 2.3.1. í viðauka II við byggingar­reglugerð. Byggingarfulltrúi vanræki hlutverk sitt því mannvirkið hafi verið byggt samkvæmt hönnunargögnum sem ekki hafi uppfyllt ákvæði byggingarreglugerðar að fullu.

Gerð sé athugasemd við að á aðaluppdráttum sé hvergi skilgreint tæknirými í fjölbýlinu. Í rýminu, sem sé skilgreint sem hjóla- og vagnageymsla, sé nú búið að setja upp rafmagnstöflur, loftræsiblásara og annan tæknibúnað. Þessi geymsla sé jafnframt aðalgönguleið frá lyftu í Tangabryggju 15 að bílgeymslu. Því sé ekki heimilt að staðsetja tæknibúnað í hjóla- og vagna­geymslu og losna með þeim hætti undan þeirri kröfu gr. 6.12.1. í byggingarreglugerð að gengið skuli frá tæknirýmum þannig að þau séu ávallt læst ef í þeim séu tæki, búnaður eða efni sem séu viðkvæm, geti valdið slysum eða verið hættuleg börnum eða fullorðnum. Byggingarfulltrúa og byggingaraðila hafi mátt vera ljóst að til að uppfylla ákvæði um aðgengi að rafmagnstöflum, óheft aðgengi að björgunaropum/neyðarútgöngum og gönguleið að bílgeymslu í þessu rými stæði lítið sem ekkert rými eftir fyrir þá hjóla- og vagnageymslu sem tilgreind sé í hönnunar­gögnum.

———-

Með bréfi úrskurðarnefndarinnar til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, dags. 1. október 2021, var þess farið á leit að stofnunin léti í ljós álit sitt á tveimur atriðum varðandi hina kærðu ákvörðun í máli þessu. Annars vegar að stofnunin gæfi álit sitt á fyrirkomulagi bílastæðis fyrir hreyfihamlaða fyrir utan hús nr. 15 á lóð Tangabryggju 13-15 í ljósi þess orðalags ákvæðis 3. mgr. gr. 6.2.4. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 að bílastæði hreyfihamlaðra og umferðar­leiðir frá þeim að aðalinngangi byggingar skuli vera upphituð þar sem því verði við komið. Hins vegar að stofnunin veitti álit sitt á því hvort og þá hvernig fyrirkomulag loftræsingar Tangabryggju 13-15, eins og því hefði verið lýst í gögnum málsins, þ. á m. uppdráttum loftræsi­búnaðar og útreikningi loftskipta, samræmdist kröfum byggingarreglugerðar þar um, sbr. kafla 10.2. um loftgæði og loftræsingu og kafla 14.9. um loftræsibúnað.

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun veitti úrskurðarnefndinni álit sitt með bréfi, dags. 1. nóvember 2021. Þar kemur fram að til þess að meta tæknilega þætti fyrrgreindra atriða hafi stofnunin leitað til fagstjóra lagna- og loftræsihönnunar hjá verkfræðistofu og loftræsihönnuðar sem starfi einnig hjá sömu stofu. Í svari stofnunarinnar við fyrirspurn nefndarinnar um upphitun bílastæða hreyfihamlaðra og umferðarleiða frá þeim er vísað til þess að markmið laga nr. 160/2010 um mannvirki sé m.a. að tryggja aðgengi fyrir alla óháð fötlun, skerðingum eða veikindum. Aðgengiskröfur innan bygginga og umhverfi þeirra séu svo nánar skilgreindar í byggingarreglugerð nr. 112/2012, en í 3. mgr. gr. 6.2.4. sé kveðið á um að bílastæði hreyfi­hamlaðra og umferðarleiðir frá þeim að aðalinngangi byggingar skuli vera upphituð þar sem því verði við komið. Með tilliti til þess markmiðs að tryggja aðgengi fyrir alla verði að túlka orðalag seinni hluta málsgreinarinnar, þ.e. „þar sem því verður við komið“, á þann máta að hér sé um undantekningu frá meginreglu að ræða. Því skuli bæði bílastæði og umferðarleiðir frá þeim vera upphituð nema eitthvað sé því til fyrirstöðu sem erfitt sé að leysa án umtalsverðs kostnaðar eða fyrirhafnar. Sé slík fyrirstaða fyrir hendi eigi jafnframt að gera grein fyrir henni í greinargerð hönnuðar, sbr. 2. mgr. gr. 4.5.3. í byggingarreglugerð. Í áliti þeirra sérfræðinga sem stofnunin hafi leitað til hafi komið fram að „samkvæmt yfirlitsmynd snjóbræðslu­kerfis L-09 virðist ekkert hindra að framlengja snjóbræðslu í gangstétt að bílastæði fyrir hreyfihamlaðra og þannig fáist snjóbrætt bílastæði og gönguleið frá stæðinu að inngangi.“ Því sé það mat stofnunarinnar að ekki hafi verið nein fyrirstaða sem réttlætti að ekki hefði verið sett snjó­bræðsla í bílastæði hreyfihamlaðra auk þess sem ekki liggi fyrir samkvæmt gögnum málsins að hönnuður hafi rökstutt slíkt frávik í greinargerð.

Að því er varði fyrirspurn úrskurðarnefndarinnar um fyrirkomulag lofræsingar Tangabryggju 13-15 bendi Húsnæðis- og mannvirkjastofnun á að fullnægjandi loftræsing sé ein þeirra hollustukrafna sem gerðar séu til mannvirkja samkvæmt byggingarreglugerð. Stofnunin hafi talið byggingarfulltrúa vera heimilt að hafna útgáfu vottorðs um lokaúttekt mannvirkis telji hann að kröfur byggingarreglugerðar til loftræsingar séu ekki uppfylltar í skoðuðu mannvirki. Athygli sé vakin á gr. 10.1.3. í reglugerðinni um framsetningu krafna, en í ákvæðinu segi að meginreglur í 10. hluta reglugerðarinnar séu ávallt ófrávíkjanlegar en viðmiðunarreglur séu frávíkjanlegar ef sýnt sé fram á að hollusta, loftgæði og loftræsing, rakavörn og öryggi sé tryggt með jafngildum hætti og meginregla viðkomandi ákvæðis sé uppfyllt. Í slíkum tilvikum skuli hönnuður skila með hönnunargögnum greinargerð þar sem gerð sé grein fyrir því og rökstutt með hvaða hætti meginregla ákvæðisins sé uppfyllt. Samkvæmt því séu öll ákvæði 10. hluta reglugerðarinnar ófrávíkjanleg, nema því aðeins að tekið sé fram að víkja megi frá þeim að nánari skilyrðum uppfylltum.

Í kafla 10.2. í byggingarreglugerð sé að finna ákvæði sem gildi almennt um loftræsingu allra mannvirkja, en að auki séu gerðar sérstakar og ítarlegri kröfur til einstakra tegunda mannvirkja í kaflanum, þ. á m. til íbúða og tengdra rýma. Fjallað sé um loftræsingu íbúða og tengdra rýma í gr. 10.2.5. og segi þar í 1. mgr. að íbúðir og íbúðarhús megi loftræsa með vélrænni loft­ræsingu, náttúrulegri loftræsingu eða blöndu af hvoru tveggja. Síðan sé í viðmiðunarreglu 2. mgr. greinarinnar kveðið á um að tryggja skuli að tilgreind loftskipti í íbúðarhúsum séu möguleg að lágmarki, óháð gerð loftræsingar, í tilgreindum rýmum. Samkvæmt a-lið sé kveðið á um að útsog úr eldhúsi íbúðar skuli vera 30 l/s. Að mati stofnunarinnar sé í þeim stafliðum þar sem krafist sé útsogs átt við að sérstakt útsog skuli vera úr því rými, en merking orðsins sé sú að loftið skuli dregið út án viðkomu í öðrum rýmum íbúðarinnar. Útsog í öðru rými en það sem loftræsa eigi, t.d. sem dragi loft úr eldhúsi um önnur rými íbúðarinnar, teljist að mati stofnunarinnar ekki útsog úr eldhúsi. Um þá túlkun sé vísað til 2. mgr. gr. 10.2.2. í reglugerðinni þar sem segi að við ákvörðun loftræsingar beri að taka mið af tegund og gerð rýmis, þeirri starfsemi sem þar fari fram, hita- og rakamyndun, útstreymi mengandi efna frá byggingarefnum og útbúnaði, útstreymi mengunar vegna efna og vinnslu svo og vegna athafna fólks og dýra sem þar dvelji. Ástæður þess að krafist sé útsogs úr tilteknum rýmum íbúða í gr. 10.2.5. í reglu­gerðinni séu að mati stofnunarinnar þær að ekki sé talið ásættanlegt, m.t.t. þæginda og heil­brigðis íbúa, að draga lykt og raka úr þessum rýmum yfir í önnur rými íbúða. Jafnframt vísi stofnunin þessu til stuðnings til 4. mgr. gr. 10.2.3. í reglugerðinni þar sem fram komi að nota skuli staðbundið útsog þar sem mengandi vinnsla fari fram. Sameiginlegt markmið þessara ákvæða sé að mengun, lykt, raki og annað sem valdi óæskilegum loftgæðum sé ekki að óþörfu dreift um íverurými fólks, heldur ræst út sem næst upptökunum með útsogi.

Jafnframt sé rétt að líta til 8. og 9. mgr. gr. 14.9.1. í byggingarreglugerð, en í 8. mgr. sé kveðið á um að útsog náttúrulegrar loftræsingar í byggingum skuli ávallt ná upp fyrir efstu klæðningu þaks. Virkni útsogs skuli vera fullnægjandi og frágangur þannig að útsog valdi ekki óþægindum eða skaða í umhverfinu. Þá segi í 9. mgr. að útsog frá eldhúsi, baðherbergjum og salerni skuli almennt ná upp fyrir efstu klæðningu þaks. Þessi ákvæði setji frágangi loftræsibúnaðar ákveðnar skorður og takmarki hvernig útsogi náttúrulegrar loftræsingar skuli háttað. Ekki sé hægt að fallast á að opnanlegt gluggafag uppfylli þær kröfur sem gerðar séu til útsogs náttúru­legrar lofræsingar. Einnig sé ekki tryggt að með opnanlegu fagi sé loft dregið út úr við­komandi íverurými þar sem engin einstefna sé í því.

Í áliti þeirra sérfræðinga sem Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hafi leitað til hafi verið bent á að í íbúðum Tangabryggju 13-15 sé útsog frá eldhúskróki dregið í gegnum alrými og salerni, en samkvæmt byggingarreglugerð megi ekki draga útsog frá eldhúsi í gegnum önnur rými. Samkvæmt byggingarreglugerð þurfi útsog frá eldhúsi að ná að lágmarki 30 l/s og 20 l/s frá baðherbergi/þvottahúsi eða samtals 50 l/s, en heildarútsog frá íbúðum í Tangabryggju 13-15 sé aðeins 35 l/s. Þá hafi verið bent á að ekki verði séð að neinar ráðstafanir hafi verið gerðar til að ná kröfu byggingarreglugerðar um loftræsingu svefnherbergja íbúða, en skv. 3. tl. 1. mgr. gr. 10.2.5. skuli magn fersklofts sem berist til svefnherbergis aldrei vera minna en 7 l/s á hvern einstakling meðan herbergið sé í notkun. Að framangreindu virtu sé það því álit stofnunarinnar að fyrirkomulag loftræsingar Tangabryggju 13-15 uppfylli ekki ákvæði gr. 10.2.5. í byggingar­reglugerð.

Í athugasemdum kæranda vegna álits Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar er bent á að stofnunin hafi ekki tekið til umfjöllunar fyrirkomulag loftræsingar í sameign. Mikilvægt sé að óskað sé eftir áliti stofnunarinnar hvað þetta atriði varði. Kærandi hafi fengið fagaðila til að mæla útsog í íbúð í húsinu og hafi niðurstaða þeirrar mælingar verið sú að samanlagt útsog úr baðherbergi og þvottahúsi sé 11 l/s en ekki 35 l/s, eins og hönnunargögn og byggingarreglugerð kveði á um.

Kærandi gerir og athugasemd við að úrskurðarnefndin hafi ekki beðið stofnunina um álit hennar á fjölda bílastæða fyrir hreyfihamlaða, en skv. gr. 6.2.4. í byggingarreglugerð eigi fjöl­býlið að hafa að lágmarki fjögur bílastæði fyrir hreyfihamlaða. Slík stæði fyrir Tangabryggju 13-15 séu í læstri bílageymslu og ekki aðgengileg öðrum en íbúum þeirra íbúða sem séu þing­lýstir eigendur þeirra. Jafnframt sé gerð athugasemd við að nefndin hafi ekki beðið stofnunina um álit hennar á skertu aðgengi íbúa að bílageymslu um aðalumferðarleið í kjallara. Samkvæmt b-lið 4. mgr. gr. 6.4.2. í reglugerðinni skuli gert ráð fyrir sjálfvirkum opnunarbúnaði fyrir inn­gangs- og útidyr í aðalumferðarleiðum. Fara þurfi um fernar dyr með þungum brunahurðum í þessari aðalumferðarleið frá bílageymslu að lyftu í Tangabryggju 15. Sé átak við að opna slíka hurð meira en sem nemi hámarksálagi skv. gr. 6.4.3. í reglugerðinni þegar hurðapumpa sé rétt stillt svo hurðin geti uppfyllt hlutverk sitt sem brunahurð. Ómögulegt sé að uppfylla bæði ákvæði gr. 6.4.3. um hámarksátak hurða og gr. 9.6.13. um að brunahólfandi hurðir skuli lokast án þess að settur sé sjálfvirkur opnunarbúnaður við hurðir á þessari aðalumferðarleið. Rétt sé að úrskurðarnefndin óski eftir því við stofnunina að hún veiti álit sitt á öllum þeim atriðum sem kæra og kvörtun til umboðsmanns Alþingis hafi lotið að.

Í athugasemdum Reykjavíkurborgar vegna álits Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar er bent á að samkvæmt eldri byggingarreglugerðum og eldri ákvæðum núgildandi byggingarreglu-gerðar hafi ekki verið gerð krafa um vélrænt útsog úr eldhúsum íbúða. Með reglugerð nr. 360/2016 um breytingu á byggingarreglugerð hafi verið gerðar umfangsmiklar breytingar á reglu­gerðinni, m.a. til krafna um loftræsingu. Reglugerðarbreytingin hafi ekki sérstaklega verið kynnt hlutaðeigandi aðilum, s.s. hönnuðum eða öðrum sem vinni með skilyrði og kröfur reglu­gerðarinnar. Vandséð sé að fyrirkomulag loftræsingar að Tangabryggju 13-15 sé með þeim hætti að leiða eigi til sérstakra viðbragða úrskurðarnefndarinnar, enda séu flest allar íbúðir í Reykjavík búnar loftræsingu af þessu tagi án þess að það leiði til skertra nota eða lífsgæða eða komi í veg fyrir eðlilega notkun íbúðar.

Í athugasemdum byggingaraðila vegna álits Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar er bent á að loftræsihönnun í Tangabryggju 13-15 sé með sama hætti og í flestum öðrum nýbyggingum. Af því leiði að ekki aðeins lokaúttektin sé undir í þessu máli heldur einnig loftræsihönnun annarra mann­virkja, sem hafi verið gerð af mismunandi aðilum og samþykkt af byggingarfulltrúum ólíkra sveitarfélaga. Allir þessir aðilar séu sammála um að hönnun af því tagi sem hér um ræði sé í samræmi við kröfur byggingarreglugerðarinnar og að túlkun stofnunarinnar eigi sér ekki stoð í ákvæðum hennar.

Byggingaraðili hafi fengið verkfræðistofu til að gefa álit sitt á umræddri hönnun en í því áliti hafi niðurstaðan verið að sú útfærsla loftræsingar sem hönnuð sé fyrir eldhús í íbúðum hússins sam­ræmist byggingar­reglugerð og markmiðum hennar. Í áliti Húsnæðis- og mannvirkja­stofnunar og því minnisblaði verkfræðistofu sem álitið hafi byggst á hafi verið horft fram hjá skýrum texta gr. 10.2.5. í byggingar­reglugerð, en þar segi að tryggja skuli að tiltekin loftskipti í íbúðum séu „möguleg“ að lágmarki óháð gerð loftræsingar. Með öðrum orðum sé ekki gerð krafa um að þau loftskipti sem tilgreind séu fyrir sérstök rými séu ávallt til staðar heldur eingöngu að mögulegt sé að ná þeim. Í áliti stofnunarinnar virðist á því byggt að í íbúðunum þurfi að vera stöðugt vélrænt heildarútsog upp á 50 l/s. Af þeim sökum sé ekki hægt að leggja álitið til grund­vallar þar sem það byggi á forsendu sem eigi sér ekki stoð í orðalagi gr. 10.2.5. í reglugerðinni.

Byggingaraðili bendir á að í áliti Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar sé vísað til 4. mgr. gr. 10.2.3. í byggingarreglugerð, en sú grein fjalli um svæði innan byggingar þar sem mengandi starfsemi eða vinnsla fari fram. Eldhús í íbúðarhúsum flokkist ekki undir mengandi starfsemi í skilningi greinarinnar heldur eigi hún við um atvinnustarfsemi, sbr. tilvísun til reglugerðar Vinnu­eftirlitsins um mengunarmörk og aðgerðir til að draga úr mengun á vinnustöðum. Þá séu aðstæður ekki með þeim hætti að eldhús séu loftræst með útsogi af baðherbergi, eins og stofnunin haldi fram, heldur séu alrými/eldhús loftræst um opnanleg gluggafög og fersklofts­ventla. Auk þess séu eldhúsháfar með kolasíu í öllum eldhúsum með afkastagetu upp á 720 m3/klst., eða 200 l/s, sem tryggi að loft frá eldhúsi sé síað eða hreinsað.

Í minnisblaði verkfræðistofu þeirrar sem Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hafi leitað til segi að útsog úr eldhúskróki sé dregið í gegnum alrými og salerni og að það sé óheimilt skv. 1. tl. 1. mgr. gr. 10.2.5. í byggingarreglugerð. Samkvæmt umræddu ákvæði megi ekki draga útsog frá eldhúsi, salernum eða þvottahúsi í gegnum önnur rými hússins. Verði fallist á þá túlkun felist þversögn í ákvæðinu. Í íbúðum Tangabryggju 13-15 og í langflestum öðrum mann­virkjum sé fyrir hendi útsogsbúnaður, almennt í baðherbergi/þvottahúsi. Ferskloft sé dregið inn í íbúðir í gegnum túður á útveggjum og, eftir atvikum, í gegnum opnanleg fög og ferðist loftið þaðan að útsogs­búnaði, mögulega með viðkomu í alrými og eldhúsi. Geti því komið fyrir að ferskloft úr alrými og/eða eldhúsi dragist að útsogsbúnaði baðherbergis/þvottahúss. Verði ekki séð að þetta brjóti í bága við fyrrnefndan tölulið enda væri eina leiðin til að tryggja að þessi loftskipti ættu sér ekki stað að hafa eldhúsið lokað af, en slík krafa finni sér enga stoð í byggingar­reglugerð.

Í gr. 10.2.5. í byggingarreglugerð segi að öll rými íbúða og íbúðarhúsa skuli loftræsa og að heimilt sé að beita náttúrulegri loftræsingu, vélrænni loftræsingu eða blöndu af hvoru tveggja. Af greininni leiði skýrlega að beita megi náttúrulegri loftræsingu til að skapa útsog úr rými. Í áliti Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar sé hins vegar vitnað til 8. mgr. gr. 14.9.1. í reglu­gerðinni og tekið fram að opnanlegt gluggafag uppfylli ekki þær kröfur sem gerðar séu til útsogs náttúrulegrar loftræsingar. Verði ekki annað af því ráðið en að stofnunin byggi á því að stöðugt vélrænt útsog þurfi að vera í eldhúsum íbúða. Ákvæðið sé svohljóðandi: „Útsog náttúrulegrar loftræsingar í byggingum skal ávallt ná upp fyrir efstu klæðningu þaks. Virkni útsogs skal vera fullnægjandi og frágangur þannig að útsog valdi ekki óþægindum eða skaða í umhverfinu.“ Bent sé á að ákvæðið innihaldi ekki meginreglur heldur tilgreini almennar kröfur. Það sé því ekki ófrjávíkjanlegt ef hægt sé að sýna fram á að kröfur sem þar séu tilgreindar séu uppfylltar með öðrum hætti en tiltekið sé í reglugerðinni. Verði fallist á framangreinda túlkun stofnunarinnar þá falli opnanleg gluggafög ekki undir náttúrulega loftræsingu í skilningi byggingar­reglugerðarinnar nema gluggarnir séu staðsettir á þaki mannvirkis, en það geti augljóslega ekki verið raunin. Mun nærtækari túlkun sé sú að öll útloftunarrör þurfi að ná upp fyrir efstu klæðningu þaks og að ekki megi stinga slíku útsogi í gegnum útvegg. Sé ákvæðinu þannig ekki ætlað að gilda um glugga og önnur opnanleg fög og standi því ekki í vegi fyrir að tekið sé tillit til áhrifa opnanlegra faga og fleiri þátta við mat á lágmarkslofts-skiptum rýma. Því til viðbótar sé bent á að stöðugt vélrænt útsog úr eldhúsum geti valdið óeðlilega mikilli orku­notkun við ákveðnar aðstæður, en slíkt sé í andstöðu við meginmarkmið 14. kafla byggingar­reglugerðar og geti haft í för með sér önnur óæskileg áhrif, s.s. undirþrýsting.

Samkvæmt framangreindu sé að mati byggingaraðila fullnægjandi útsog úr eldhúsi mögulegt sé tekið tillit til áhrifa opnanlegra faga, ferskloftsventla og fleiri atriða, enda verði ákvæði byggingar­reglugerðar, að teknu tilliti til fyrirkomulags íbúða, ekki túlkuð með þeim hætti að óheimilt sé að líta til þessara þátta við mat á kröfum gr. 10.2.5. og enn síður þannig að krafist sé stöðugs vélræns útsogs frá eldhúsum upp á 30 l/s. Hafi því ekkert komið fram sem haggi fyrri niðurstöðu úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála um að lofræsing mannvirkjanna sé í samræmi við byggingarreglugerð.

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hafi í áliti sínu tekið fram, án rökstuðnings, að „ekki liggi fyrir að krafa um ferskloft í svefnherbergjum íbúða skv. 3. tl. 1. [m]gr. 10.2.5. gr. byggingar-­reglugerðar sé uppfyllt“, en í minnisblaði verkfræðistofu sé tekið fram að til þess að hægt sé að uppfylla kröfur ákvæðisins þurfi „að lágmarki einn ferskloftsventil í hvert svefnherbergi til viðbótar við ferskloftsventilinn í alrýminu.“ Í nefndu byggingarreglugerðarákvæði sé tekið fram að magn fersklofts sem berist til svefnherbergis skuli aldrei vera minna en 7 l/s á hvern einstakling á meðan herbergið sé í notkun og sé þar hvergi minnst á ferskloftsventla. Í samræmi við reglugerðina sé þessum kröfum mætt með náttúrulegri loftræsingu í svefnherbergjum og loftræsingu íbúðanna að öðru leyti. Í áliti þeirrar verkfræðistofu sem byggingaraðili hafi leitað til hafi komið fram að ferskloftsventlar tryggi ekki betur kröfur gr. 10.2.5. heldur en opnanleg gluggafög. Jafnframt sé bent á að fjölmörg nýleg fjölbýlishús séu hönnuð með sama hætti að þessu leyti.

Þá telji byggingaraðili að ekkert nýtt hafi komið fram í málinu sem haggi þeirri niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar að það varði ekki ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar að bílastæði hreyfihamlaðra fyrir framan Tangabryggju 15 sé ekki upphitað. Umræddu bílastæði hafi verið komið fyrir í kjölfar úrskurðar nefndarinnar í máli nr. 54/2019. Eðli málsins samkvæmt hafi ekki verið gert ráð fyrir bílastæðinu við hönnun og byggingu mannvirkjanna og því hafi ekki verið fjallað um ætlað frávik í greinargerð hönnuðar. Ljóst sé að hreyfihamlaðir geti notað upphituðu gangstéttina til að komast að og frá bílum sínum og sé því fullnægjandi aðgengi að mannvirkjunum tryggt þrátt fyrir að bílastæðið sjálft sé það ekki.

Að lokum sé gerð athugasemd við að Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hafi leitað til verkfræði­stofu, sem sé einkaaðili og samkeppnisaðili þeirra sem hafi hannað Tangabryggju 13-15, í stað þess að notast við sérfróða aðila sem starfi innan stofnunarinnar. Gjalda verði varhug við að leggja minnisblað verkfræðistofunnar til grundvallar ef til standi að fella lokaúttektina úr gildi. Jafnframt sé bent á að til þess að koma loftræsingu mannvirkjanna í það horf sem stofnunin leggi til grundvallar þyrfti líklegast að koma fyrir veggblásara í hverri einustu íbúð sem myndi kalla á umfangsmiklar framkvæmdir með tilheyrandi ónæði, en m.a. þyrfti að setja veðurhlíf á fasteignirnar á meðan á slíkum framkvæmdum stæði.

———-

Undir rekstri þessa máls óskaði Öryrkjabandalag Íslands eftir því að fulltrúar þess yrðu kallaðir til ráðgjafar og aðstoðar úrskurðarnefndinni við endurupptöku málsins á grundvelli 4. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Af hálfu úrskurðar­nefndarinnar var bent á að bandalaginu væri heimilt að koma að athugasemdum í málinu sem nefndinni væri skylt að hafa til hliðsjónar við úrlausn þess á grundvelli rannsóknarskyldu hennar, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 17. febrúar 2022, kom bandalagið að sínum sjónarmiðum í málinu. Er þar m.a. bent á að kærumálið snúist annars vegar um að vernda líf, heilsu og öryggi fatlaðs fólks sem nýti umrædda byggingu, en hins vegar um að uppfyllt sé krafa byggingarreglugerðar nr. 112/2012 um að tryggja skuli aðgengi fyrir alla. Ljóst sé að hreyfihamlaðir og veikburða fólk geti ekki opnað dyr með þungum eldvarnarhurðum af eigin rammleik og því blasi við að öryggi þeirra sé stefnt í voða. Í lögum sé enga heimild að finna til að veita leyfishöfum undanþágu frá ákvæðum byggingarreglugerðar um algilda hönnun.

Öryrkjabandalagið líti svo á að aðalumferðarleið, sbr. gr. 6.4.2. í byggingarreglugerð, séu allar leiðir í sameign, þ. á m. frá bílastæði, inn og út um aðalinngang, inn á og eftir gangi, að íbúðum, að geymslum, m.a. bílageymslum, og inn og út um aðra innganga. Sá skilningur hafi verið staðfestur af starfsmanni Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar með tölvupósti 5. febrúar 2021. Allar dyr á þeim leiðum þurfi að vera öllum opnanlegar án erfiðleika og með ekki hærri þröskuldi en 25 mm. Sérstakar kröfur séu gerðar til inngangs- og útidyra og eldvarnarhurða enda sé ekki hægt að tryggja að átak sé innan þeirra viðmiða sem gildi um aðrar dyr í byggingum. Á þær dugi ekki hefðbundnar hurðapumpur því ef miðað sé við að allir geti opnað dyrnar þá falli hurðirnar ekki vel að stöfum og gegni því ekki hlutverki sínu. Þyngd hurða, veðrátta og annað geti spilað inn í. Ekki sé hægt að leggja fram átaksmælingu sem sýni fram á að þyngd sé innan marka, eins og byggingaraðili hafi gert í málinu, en reynslan sýni að hið mælda átak verði ekki til frambúðar. Fyrr en vari verði búið að þyngja pumpurnar með þeim af­leiðingum að veikburða fólk geti ekki opnað dyrnar. Þar með standist byggingin ekki kröfur byggingar­reglugerðar. Hefði úrskurðarnefndin átt að kalla til óháðan aðila til að átaksmæla dyrnar í stað þess að taka mælingar byggingaraðila gildar.

Sú niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að orðalagið „gert skal ráð fyrir sjálfvirkum opnunar­búnaði“ feli einungis þá kröfu í sér að vel sé hægt að koma slíkum búnaði fyrir sé forkastanleg og byggi á yfirmáta þröngri túlkun orðalagsins þar sem horft sé framhjá anda og tilgangi reglu­gerðarinnar, en að auki sé túlkunin úr tengslum við reglur um algilda hönnun og öryggi. Orða­lagið „gert skal ráð fyrir“ sé margoft notað í byggingarreglugerðinni og væri fráleitt ef þau atriði yrðu öll túlkuð sem valkvæð, en þá myndu fjölmörg ákvæði reglugerðarinnar missa marks. Sem dæmi megi nefna að í gr. 4.2.3. í byggingarreglugerð segi að á uppdrætti skuli gert ráð fyrir reit fyrir undirritun hönnunarstjóra og verði að teljast ólíklegt að þar með sé slíkt formsatriði valkvætt.

Eldvarnarhurðir þurfi að lokast vel að stöfum og séu þungar fyrir. Því sé engin handvirk pumpa til sem ráði við það án þess að fara yfir það viðmið að átak við að opna hurð sé mest 25 N á handfangi og mesti þrýstingur eða tog ekki yfir 40 N. Komi enda fram í gögnum frá kæranda að þegar byggingaraðili hafi létt á hurðapumpum eldvarnarhurða hafi átak ekki verið nægjanlegt til að loka hurðunum tryggilega. Því sé ekki hægt að uppfylla bæði gr. 9.1.1. og 4. mgr. gr. 6.4.2. í byggingarreglugerðinni á sama tíma. Bent sé á að í leiðbeiningum við gr. 9.4.7., er fjalli um hurðalokara (pumpu), segi að slíkir lokarar séu almennt ekki heppilegir þar sem börn eða aldraðir gangi um eða þar sem tryggja þurfi aðgengi fatlaðra, t.d. að öruggum svæðum vegna flóttaleiða. Líta verði svo á að sjálfvirkir opnarar eigi að vera uppsettir við inngangs- og útidyr og að á eldvarnarhurðum séu sérstakir lokarar, t.d. segullokarar, sem hægt sé að opna sjálfvirkt til að mannvirki standist öryggisúttekt.

Öryrkjabandalagið hafi aðstoðað íbúa við kvörtun til byggingarfulltrúans í Reykjavík vegna þungra eldvarnarhurða í nýbyggingu vorið 2020. Lokaúttekt hefði þá farið fram og byggingar­fulltrúi þá krafist þess að verktaki myndi setja upp rafdrifna opnun á hurðum í aðal­umferðarleiðum, sem væru aðalinngangur og inngangur frá bílageymslu. Þetta hefði síðan gengið eftir. ­Þarna sé um að ræða rétta túlkun á gr. 6.4.2. í byggingar­reglugerðinni og hafi sú túlkun fordæmisgildi.

Aðeins eitt bílastæði sé uppsett fyrir hreyfihamlaða við Tangabryggju 15, sem sé skýrt brot á gr. 6.2.4. í byggingarreglugerð, og sé frágangur á því með öllu ófullnægjandi, enda ekki snjó­bræðsla undir stæðinu og umferðarleið óupplýst. Þá séu fjögur bílastæði að finna í læstri bíla­geymslu sem uppfylli kröfur um bílastæði hreyfihamlaðra hvað varði stærð, merkingar og umferðarleiðir. Þó sé ekki um raunveruleg bílastæði hreyfihamlaðra að ræða þar sem þau séu þinglýst á ákveðnar íbúðir. Íbúum þeirra íbúða sé ekki heimilt að leggja í stæðin en skv. 78. gr. umferðarlaga nr. 77/2019 hafi eingöngu handhafar stæðiskorta hreyfihamlaðra heimild til að leggja í slík stæði. Í ljósi meðalhófsreglu hefði verið hægt að fara aðra og vægari leið, t.a.m. með kvöðum. Þá sé bagalegt að úrskurðarnefndin hafi látið það óátalið að byggingaraðili hafi komist upp með þann málamyndagjörning að segjast hafa uppfyllt skyldu varðandi fjölda bílastæða fyrir hreyfihamlaða með stæðum sem séu í óaðgengilegu rými og ekki til almennra nota.

Til að aflétta því ólögmæta ástandi sem ríki í mannvirkinu séu tvær leiðir færar. Annars vegar að koma upp hið minnsta fjórum auka bílastæðum fyrir hreyfihamlaða á lóð sem hægt væri að úthluta til hreyfihamlaðra íbúa hússins. Hins vegar að losa áðurnefndar þinglýsingar á bíla­stæðum í kjallara og úthluta stæðunum upp á nýtt til íbúa sem væru handhafar stæðiskorta fyrir hreyfihamlaða, auk þess að setja upp segullokara á eldvarnarhurðir. Þá sé bent á að van­hugsaður úrskurður geti haft slæmt fordæmi í sambærilegum málum. Þannig sé dæmi um að byggingarfulltrúinn í Reykjavík hafi, í kjölfar fyrri úrskurðar máls þessa, fallið frá þeirri kröfu að verktaki setji upp sjálfvirkan opnara við eldvarnarhurð í tengslum við loka­úttekt ný­byggingar í Reykjavík.

Í athugasemdum byggingaraðila vegna bréfs Öryrkjabandalagsins er bent á að bandalagið eigi ekki aðild að máli þessu og því hafi skoðanir þess enga þýðingu við úrlausn þess. Í bréfi úrskurðar­nefndarinnar til byggingaraðila vegna endurupptöku málsins, dags. 21. september 2021, hafi aðal­áherslan verið lögð á bílastæði fyrir hreyfihamlaða við aðalinngang fasteignanna og loft­ræsingu. Ekkert hafi gefið til kynna að nefndin ætlaði að taka til skoðunar önnur atriði í úrskurðinum. Bent sé á að með endurupptöku máls sé ekki ætlunin að gefa stjórnvaldi færi á að breyta fyrri túlkun sinni á umdeildum atriðum þegar ekkert liggi fyrir í málinu sem haggi þeirra túlkun, s.s. nýjar upplýsingar eða gögn, augljós mistök eða lagabreytingar. Eigi það sérstak­lega við þegar ákvörðun um endurupptöku máls sé tekin að eigin frumkvæði stjórn­valds. Sé úrskurðarnefndin þannig bundin við niðurstöðu sína í úrskurði máls nr. 134/2020 varðandi flest þau atriði sem um sé fjallað í bréfi Öryrkjabandalagsins.

Í úrskurði úrskurðarnefndarinnar hafi nefndin túlkað ákvæði b-liðar 5. mgr. gr. 6.4.2. í byggingar­reglugerð á þá leið að ekki væri gerð krafa um að inngangs- og útidyr í aðal­umferðarleiðum væru með sjálfvirkum opnunarbúnaði heldur einungis að vel væri hægt að koma slíkum búnaði fyrir. Túlkunin sé í samræmi við orðalag ákvæðisins og sé ekkert í málinu sem haggi þeirri niðurstöðu. Hefði staðið til að gera þá kröfu að inngangs- og útidyr skyldu vera búnar sjálfvirkum opnunarbúnaði hefði einfaldlega verið hægt að nota orðið „skal“, líkt og gert sé víðsvegar í byggingarreglugerðinni, þ.m.t. á öðrum stöðum í gr. 6.4.2. Í því samhengi sé bent á að við setningu byggingarreglugerðarinnar hafi ákvæðið verið orðað á þá leið að „útidyr og inngangsdyr í aðalumferðarleiðum skulu vera með sjálfvirkum opnunarbúnaði“, en því hafi verið breytt í núverandi horf með reglugerð nr. 280/2014 um (3.) breytingu á byggingar­reglugerð nr. 112/2012. Þá sé bent á að hefði Húsnæðis- og mann-virkjastofnun talið að ákvæðið fæli í sér afdráttarlausa kröfu um sjálfvirkan opnunarbúnað hefði stofnunin tekið það fram í leiðbeiningum sínum við ákvæðið, en það geri hún ekki. Niðurstaðan sé einnig í samræmi við eldri úrskurðaframkvæmd, sbr. úrskurð nefndarinnar í máli nr. 35/2017.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykja­vík frá 21. október 2020 að gefa út vottorð um lokaúttekt vegna Tangabryggju 13-15. Svo sem rakið er í málavöxtum kvað úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála upp úrskurð 6. maí 2021 þar sem kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunarinnar var hafnað en málið var síðar endurupptekið 21. september s.á. að frumkvæði nefndarinnar. Við endurupptöku málsins sætir hin kærða ákvörðun lögmætisathugun úrskurðarnefndarinnar í heild sinni og verður því ekki fallist á með byggingaraðila að nefndin sé bundin við að fjalla einungis um þau atriði sem óskað var eftir að Húsnæðis- og mannvirkjastofnun léti í ljós álit sitt á. Þá verður með hliðsjón af rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 tekið tillit til allra þeirra gagna sem liggja fyrir úrskurðarnefndina, þ. á m. sjónarmiða Öryrkjabandalags Íslands sem koma fram í bréfi þess hinn 17. febrúar 2022. Breytir engu þar um þótt bandalagið sé ekki aðili málsins.

———-

Meðal markmiða laga nr. 160/2010 um mannvirki er að vernda líf og heilsu manna, eignir og umhverfi með því að tryggja faglegan undirbúning mannvirkjagerðar og virkt eftirlit með því að kröfum um öryggi mannvirkja og heilnæmi sé fullnægt, sbr. a-lið 1. gr. laganna. Jafnframt er það markmið þeirra að tryggja aðgengi fyrir alla, sbr. e-lið sömu lagagreinar. Í því skyni mæla lögin fyrir um lögbundið eftirlit byggingarfulltrúa með mannvirkjagerð, sbr. 2. og 3. mgr. 16. gr. þeirra laga, en hluti af því eftirliti felur í sér framkvæmd lokaúttektar og útgáfu vottorðs. Samkvæmt 3. mgr. 36. gr. laganna skal við lokaúttekt gera úttekt á því hvort mannvirkið upp­fylli ákvæði laganna og reglugerða sem settar hafa verið samkvæmt þeim og hvort byggt hafi verið í samræmi við samþykkt hönnunargögn. Þá er mælt fyrir um í 4. mgr. lagagreinarinnar að ef mannvirkið uppfylli ekki að öllu leyti ákvæði laganna og reglugerða sem settar hafi verið sam­kvæmt þeim þá geti útgefandi byggingarleyfis gefið út vottorð um lokaúttektina með athugasemdum. Þáttum sem varði aðgengi skuli þó ávallt hafa verið lokið við gerð lokaúttektar. Segir jafnframt í 5. mgr. sömu lagagreinar að eftirlitsaðili geti fyrirskipað lokun mannvirkis komi í ljós við lokaúttekt að mannvirki uppfylli ekki öryggis- eða hollustukröfur og lagt fyrir eiganda þess að bæta úr, en lokaúttektarvottorð skuli þá ekki gefið út fyrr en það hafi verið gert.

Í kjölfar úrskurðar úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 54/2019 sótti byggingaraðili um og fékk sam­þykkta breytingu á byggingarleyfi mannvirkis í því skyni að koma fyrir bílastæði fyrir hreyfi­hamlaða fyrir utan húsið nr. 15 á lóðinni Tangabryggju 13-15 sem hann og gerði. Í 3. mgr. gr. 6.2.4. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 kemur fram að bílastæði hreyfihamlaðra og umferðar­leiðir frá þeim að aðalinngangi byggingar skuli vera upphituð þar sem því verði við komið. Fyrir liggur að gangstétt við hlið bílastæðisins er upphituð og í áliti Húsnæðis- og mannvirkja­stofnunar segir að ekki hafi verið nein fyrirstaða sem réttlætti að ekki hefði verið sett snjó­bræðsla í stæðið. Að því virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að nægilega liggi fyrir í málinu að því hafi verið komið við að hafa bílastæðið upphitað og að fyrrgreindum áskilnaði þar um í gr. 6.2.4. í byggingarreglugerð hafi þar af leiðandi ekki verið fullnægt þegar byggingafulltrúi gaf út hið kærða lokaúttektarvottorð. Í ljósi áður­greinds markmiðs laga nr. 160/2010 um að tryggja aðgengi fyrir alla, sbr. e-lið 1. gr. laganna, og þess að þáttum sem varði aðgengi skuli ávallt hafa verið lokið við gerð lokaúttektar, sbr. 2. málslið 4. mgr. 36. gr. sömu laga, verður að telja að vöntun á upphitun bílastæðisins hafi falið í sér annmarka á hinni kærðu ákvörðun byggingarfulltrúa.

Samkvæmt 5. mgr. nefndrar gr. 6.2.4. í byggingarreglugerð skal fjöldi bílastæða fyrir hreyfi­hamlaða við íbúðarhús, önnur en sérbýlishús, vera að lágmarki samkvæmt töflu 6.01. Í henni kemur fram að þegar fjöldi íbúða sé á bilinu 41-65 skuli vera fjögur bílastæði fyrir hreyfi­hamlaða. Þá segir í 9. mgr. ákvæðisins að fækka megi bílastæðum á lóð mannvirkis samkvæmt töflu 6.01 sem nemi fjölda sérmerktra stæða fyrir hreyfihamlaða í sameiginlegri bílgeymslu, enda sé tryggt að gestkomandi hafi ávallt aðgang að hluta stæðanna. Fjölbýlishúsið að Tanga­bryggju 13-15 er með 63 íbúðum og skulu því þar vera fjögur bílastæði fyrir hreyfihamlaða. Í bílgeymslu hússins er að finna fjögur bílastæði fyrir hreyfihamlaða. Þau tilheyra hins vegar öll tilgreindum íbúðum hússins samkvæmt þinglýstum yfirlýsingum þar um og gestkomandi fólki er því ekki heimill aðgangur að þeim. Verður því að telja að fyrrgreint skilyrði fyrir fækkun bílastæða á lóð fyrir hreyfihamlaða, sbr. 9. mgr. gr. 6.2.4. í byggingarreglugerð, á lóðinni að Tanga­bryggju 13-15 hafi ekki verið uppfyllt þegar umrædd lokaúttekt fór þar fram. Þar sem þar hafði einungis verið útbúið eitt sérgreint bílastæði fyrir hreyfihamlaða uppfyllti mannvirkið ekki skilyrði byggingarreglugerðarinnar hvað þetta varðar við lokaúttekt.

———-

Meðal ágreiningsefna þessa máls er hvort frágangur eldvarnarhurða í aðalumferðarleið frá bílgeymslu að lyftum í kjallara umrædds húss uppfylli skilyrði mannvirkjalaga og byggingarreglugerðar. Mælt er fyrir um það í b-lið 5. mgr. gr. 6.4.2. í reglugerðinni að gera skuli ráð fyrir sjálfvirkum opnunarbúnaði fyrir inngangs- og útidyr í aðalumferðarleiðum. Við túlkun á því orðalagi ber að líta til þess að í upprunalegri útgáfu byggingarreglugerðarinnar nr. 112/2012 hljóðaði ákvæðið á þá leið að inngangs- og útidyr í aðalumferðarleiðum skyldu vera með sjálfvirkum opnunarbúnaði, en með reglugerð nr. 280/2014 um (3.) breytingu á reglu­gerðinni var orðalagi ákvæðisins breytt í fyrrnefnt horf. Verður því það orðalag ákvæðisins að gera skuli ráð fyrir sjálfvirkum opnunarbúnaði ekki túlkað á þá leið að sú krafa sé gerð að inngangs- og útidyr í aðalumferðarleiðum séu með sjálfvirkan opnunarbúnað, enda myndi sú niðurstaða leiða til þess að ekki hefði falist nein efnisleg breyting í nefndri reglugerðar­breytingu. Verður því að líta svo á að í ákvæðinu felist einvörðungu að vel sé hægt að koma sjálfvirkum opnunar­búnaði fyrir við inngangs- og útidyr. Þá er einnig ljóst að tilvísun ákvæðisins til inngangs- og útidyra tekur ekki til allra þeirra dyra sem eru í aðalumferðarleið frá bílgeymslu að lyftum, svo sem kærandi heldur fram, heldur einvörðungu inngangsdyra frá bílgeymslunni.

Í gr. 6.4.3. er fjallað um dyr innanhúss og í 3. mgr. nefndrar greinar segir að dyr í byggingum skulu þannig frágengnar að allir, þar með talið fólk í hjólastól, geti opnað þær án erfiðleika. Miða skuli við að átak við að opna hurð sé mest 25 N á handfangi og mesti þrýstingur eða tog ekki yfir 40 N. Þá er fjallað um varnir gegn eldsvoða í 9. hluta byggingarreglugerðar og samkvæmt gr. 9.1.1. skal við hönnun mannvirkis tryggja að glæðing, útbreiðsla elds og reyks innan þess sé takmörkuð. Fram kemur í 1. mgr. gr. 9.5.2. að frá hverju rými byggingar þar sem gera megi ráð fyrir að fólk dveljist eða sé statt skuli vera fullnægjandi flóttaleiðir úr eldsvoða. Í 8. mgr. sama ákvæðis segir að við ákvörðun flóttaleiða skuli tekið tillit til krafna um algilda hönnun, en skv. 1. mgr. gr. 6.1.2. í reglugerðinni skal með algildri hönnun tryggt að fólki sé ekki mismunað um aðgengi og almenna notkun bygginga á grundvelli fötlunar, skerðinga eða veikinda og það geti með öruggum hætti komist inn og út úr byggingum, jafnvel við óvenju­legar aðstæður, t.d. í eldsvoða. Sú meginregla gildir um dyr í flóttaátt að auðvelt skal vera að opna þær án tafar, sbr. 1. tölulið 1. mgr. gr. 9.5.9. í byggingarreglugerð. Einnig gildir sú meginregla skv. 1. mgr. gr. 9.6.13. að hurðir og hlerar í brunahólfandi skilum bygginga skuli þannig útfærðir að þeir auki ekki líkur á útbreiðslu elds og reyks og sú viðmiðunarregla skv. 2. mgr. að hurðir í og sem liggja að flóttaleiðum skuli vera sjálflokandi.

Af framangreindum reglugerðarákvæðum er ljóst að vegna krafna um algilda hönnun ber við hönnun mannvirkja að tryggja að allir geti nýtt flóttaleiðir án erfiðleika. Fallast má á að sé nauðsynlegt átak við að opna eldvarnarhurð lítið geti það leitt til þess að hún þjóni ekki því hlutverki að tryggja að glæðing, útbreiðsla elds og reyks sé takmörkuð, sbr. áðurnefnda gr. 9.1.1. í byggingarreglugerð. Hins vegar verður ekki talið að ómögulegt sé að uppfylla á sama tíma kröfur reglugerðarinnar um hámarksátak við opnun dyra og kröfur um brunahólfandi hurðir. Verður í þeim efnum að meta hverja eldvarnar­hurð fyrir sig til að skera úr um hvort kröfur byggingarreglugerðar um brunavarnir séu uppfylltar.

Fyrir liggur að eftir úrskurð úrskurðarnefndarinnar í kærumáli nr. 54/2019, þar sem loka­úttektar­­vottorð umrædds húss frá 1. júlí 2019 var fellt úr gildi, mældi byggingaraðili átak á hurðum í kjallara hússins 14. september 2020 og mun hann hafa lagfært stillingar á hurða­pumpum svo skilyrði 4. mgr. gr. 6.4.3. í byggingarreglugerð væru uppfyllt. Fram kemur í hinu kærða lokaúttektarvottorði að skoðun á bílastæði fyrir hreyfihamlaða hafi farið fram 21. október s.á., en ekkert kemur þar fram um að hurðir í kjallara hússins hafi jafnframt verið skoðaðar. Í greinar­gerð Reykjavíkur­borgar í kærumáli þessu kemur fram að byggingarfulltrúi hafi metið það svo að með greindri skýrslu hafi verið sýnt fram á að virkni hurðapumpa væri í samræmi við ákvæði byggingarreglugerðar. Hins vegar liggur ekki fyrir að byggingarfulltrúi hafi á grundvelli rannsóknar­skyldu sinnar, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, tekið sjálfur til nánari skoðunar hvort fyrrgreindar breytingar hefðu leitt til þess að umræddar hurðir uppfylltu þar með ekki þær kröfur sem gerðar eru samkvæmt byggingarreglugerð til slíkra hurða vegna brunavarna.

———-

Kemur þá næst til skoðunar fyrirkomulag loftræsingar hússins að Tangabryggju 13-15. Í málinu liggur fyrir álit Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, sem byggist m.a. á minnisblaði verkfræði­stofu, þess efnis að loftræsing mannvirkjanna uppfylli ekki kröfur byggingar­reglugerðar um loftræsingu. Er í álitinu vísað til þess að ekki sé sérstakt útsog úr eldhúsi, sbr. 1. tölulið 1. mgr. gr. 10.2.5. í reglugerðinni, auk þess sem heildarútsog úr íbúðum sé aðeins 35 l/s og hvorki séu viðmiðunarreglur 1. töluliðar 2. mgr. gr. 10.2.5. uppfylltar né sé rökstutt í greinargerð hönnuðar á hvern annan hátt meginregla ákvæðisins sé uppfyllt, sbr. gr. 10.1.3. í sömu reglugerð. Enn fremur telur stofnunin að ekki sé uppfyllt skilyrði 3. tl. 1. mgr. gr. 10.2.5. um ferskloft í svefnherbergjum íbúða. Þá liggur einnig fyrir minnis­blað annarrar verkfræðistofu sem aflað var að beiðni byggingaraðila, þar sem komist er að gagn­stæðri niðurstöðu.

Í 10. hluta byggingarreglugerðar, sem fjallar um hollustu, heilsu og umhverfi, eru tilteknar þær kröfur sem gerðar eru til loftgæða og loftræsingar innan mannvirkja. Þannig segir í gr. 10.2.1. að loftgæði innan mannvirkja skuli vera fullnægjandi og í samræmi við notkun þeirra og tryggt að loft innan mannvirkis innihaldi ekki mengandi efni sem valdið geti tjóni eða óþægindum. Sam­kvæmt gr. 10.1.3. eru meginreglur þess hluta reglugerðarinnar ávallt ófrávíkjanlegar, en viðmiðunar­reglur eru frávíkjanlegar ef sýnt sé fram á að hollusta, loftgæði og loftræsing, raka­vörn og öryggi séu tryggð með jafngildum hætti og meginregla viðkomandi ákvæðis uppfyllt. Loftræsa skal allar byggingar og getur loftræsing verið vélræn, náttúruleg eða blanda af hvoru tveggja, sbr. 1. mgr. gr. 10.2.2., en í 2. mgr. greinarinnar kemur fram að við ákvörðun loftræsingar beri t.d. að taka mið af tegund og gerð rýmis og hita- og rakamyndun. Í gr. 10.2.5. er fjallað um loftræsingu íbúða og tengdra rýma og samkvæmt síðasta málslið 1. töluliðs 1. mgr. greinarinnar gildir sú meginregla að öll rými íbúða og íbúðarhúsa skuli loftræst. Heimilt sé að beita náttúru­legri loftræsingu, vélrænni loftræsingu eða blöndu af hvoru tveggja. Loftræsing skuli henta viðkomandi rými þannig að magn fersklofts sé fullnægjandi til að komið sé í veg fyrir lyktar­mengun og rakamettun innilofts. Útsog skuli vera úr eldhúsi, baðherbergi íbúðar, minni snyrt­ingum, þvottaherbergjum, stökum geymslum og kjallaraherbergjum. Útsog frá eldhúsi, salernum og þvottahúsi megi ekki draga gegnum önnur rými hússins.

Þrátt fyrir að loftræsing geti verið náttúruleg, sbr. 1. mgr. gr. 10.2.2. í byggingarreglugerð, verður við ákvörðun loftræsingar að taka mið af notkun rýmis, sbr. 2. mgr. sömu reglugerðar­greinar og 1. tölulið 1. mgr. gr. 10.2.5., en meiri kröfur eru gerðar til loftgæða og loftræsingar í votrýmum og eldhúsum en í íverurýmum. Gildir því sú meginregla samkvæmt fyrrgreindum 1. tölulið 1. mgr. gr. 10.2.5. að ekki má draga útsog frá eldhúsi, salernum og þvottahúsi gegnum önnur rými húss. Ekki verður annað ráðið af hönnunargögnum fjölbýlis­hússins að Tanga­bryggju 13-15 en að útsog úr eldhúsum íbúða þar sé dregið í gegnum önnur rými, en í eldhúsum íbúðanna er ekki að finna sérstakt útsog. Er það í andstöðu við greinda meginreglu 1. töluliðar 1. mgr. gr. 10.2.5. í byggingarreglugerð.

Samkvæmt 3. tölulið 1. mgr. gr. 10.2.5. í byggingarreglugerð gildir sú meginregla að magn fersklofts sem berist til svefnherbergis skuli aldrei vera minna en 7 l/s á hvern einstakling meðan herbergið sé í notkun. Í fyrirliggjandi áliti Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar er komist að þeirri niðurstöðu að tilvitnað skilyrði reglugerðarákvæðisins hafi ekki verið uppfyllt við lokaúttekt. Úrskurðarnefndin telur ekki ástæðu til að gera athugasemd við þá niðurstöðu og verður hún því lögð til grundvallar niðurstöðu í málinu hvað það varðar.

———-

Samkvæmt því sem nú hefur verið rakið voru nokkrir ann­markar á frágangi umræddrar fasteignar við lokaúttekt hennar, en vottorð um þá úttekt var þó gefið út án athugasemda. Við mat á því hverju það varði ber að líta til þess að skv. 1. málslið 4. mgr. 36. gr. laga nr. 160/2010 getur útgefandi byggingarleyfis gefið út vottorð um lokaúttekt með athugasemdum ef mann­virki er ekki fullgert við lokaúttekt, það uppfyllir ekki að öllu leyti ákvæði nefndra laga eða reglugerða sem settar hafi verið samkvæmt þeim eða er ekki að öllu leyti í samræmi við samþykkt hönnunargögn. Hins vegar er sérstaklega tekið fram í 2. málslið 4. mgr. að þáttum sem varði aðgengi skuli þó ávallt hafa verið lokið við gerð lokaúttektar. Þá segir í 5. mgr. sömu lagagreinar að komi í ljós við lokaúttekt að mannvirki uppfylli ekki öryggis- eða hollustukröfur geti eftirlitsaðili fyrirskipað lokun mannvirkis og lagt fyrir eiganda þess að bæta úr og skal þá lokaúttektarvottorð ekki gefið út fyrr en það hafi verið gert. Af því leiðir að einvörðungu kemur til álita að gefa út vottorð um lokaúttekt án athugasemda ef mannvirki uppfyllir að öllu leyti kröfur byggingarreglugerðar, en sú staða var í ljósi framangreinds ekki til staðar við lokaúttekt Tanga­bryggju 13-15. Við mat á þýðingu fyrrgreindra annmarka verður og að hafa í huga að þeir varða aðgengi og öryggis- eða hollustukröfur, sbr. 4. og 5. mgr. nefndrar 36. gr. laga um mannvirki, en samkvæmt kafla 5.3. í viðauka II með byggingarreglugerð, sem fjallar um flokkun athugasemda vegna lokaúttekta og réttaráhrif, leiða slíkir annmarkar allajafna til synjunar úttektar og kröfu um endurtekningu úttektar. Eins og atvikum var háttað verður að telja að byggingarfulltrúa hafi ekki verið heimilt að gefa út hið kærða lokaúttektarvottorð.

 Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 21. október 2020 um að gefa út vottorð um lokaúttekt vegna Tangabryggju 13-15.

Sérálit Hildigunnar Haraldsdóttur og Þorsteins Þorsteinssonar: Við erum sammála niður­stöðu úrskurðarnefndarinnar um ógildingu hins kærða lokaúttektarvottorðs. Hins vegar teljum við að skilyrði 9. mgr. gr. 6.2.4. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 hafi verið fullnægt, enda er orðalag ákvæðisins ekki það skýrt að mögulegt sé að draga þá ályktun að gestkomandi verði að hafa aðgang að hluta bílastæða fyrir hreyfihamlaða í sameiginlegri bílgeymslu. Lítum við þá til þess að gestkomandi hafa aðgang að hluta bílastæða fyrir hreyfihamlaða, þ.e. því bíla­stæði sem er á lóð Tangabryggju 13-15.

39/2021 Naustabryggja

Með

Árið 2021, þriðjudaginn 14. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverk­fræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 39/2021, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 5. mars 2021 um að hafna kröfu húsfélags Naustabryggju 31-33 um að borgaryfirvöld tryggi aðgengi að húsinu fyrir hreyfihamlaða þannig að uppfyllt séu skilyrði byggingar­reglugerðar nr. 112/2012.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru sem barst úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála 22. mars 2021 kærir húsfélag Naustabryggju 31-33, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 5. mars 2021 að hafna kröfu húsfélagsins um að Reykjavíkurborg tryggi aðgengi að húsinu fyrir hreyfihamlaða þannig að uppfyllt séu skilyrði byggingarreglugerðar nr. 112/2012. Er þess krafist að viðkomandi stjórnvald komi upp bílastæðum fyrir hreyfihamlaða í samræmi við ákvæði byggingarreglugerðar.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 27. apríl 2021.

Málavextir: Mál þetta á sér nokkra forsögu. Fyrirliggjandi gögn bera með sér að kærandi og borgaryfirvöld hafa átt í samskiptum frá árinu 2017 vegna aðgengis fyrir hreyfihamlaða að Naustabryggju 31-33 í Reykjavík. Byggingarfulltrúa barst tölvupóstur frá kæranda 10. janúar 2018, þar sem spurt var um hvort verk fengi lokaúttekt ef ákvæði um frágang, fjölda og stærð bílastæða fyrir hreyfihamlaða væri ekki fullnægt. Einnig var spurt hvort verktaki fengi leyfi fyrir slíkri framkvæmd, þar sem fyrir lægi að lóð aðalinngangs byggingar væri á einkalóð annarra en þeirra sem byggju í umræddri byggingu og hvort eða hvernig væri þá unnt að uppfylla skilyrði lokaúttektar um stæði fyrir hreyfihamlaða. Erindinu var svarað að hluta til með tölvupósti starfsmanns skipulagsfulltrúa 15. s.m. á þann veg að kæranda hefði í tvígang verið sendir tölvupóstar með fylgigögnum er vörðuðu svæðið.

Hinn 22. febrúar 2019 barst Reykjavíkurborg annað erindi frá kæranda þar sem vakið var máls á því að bygging Naustabryggju 31-33 og annar frágangur stangaðist á við byggingarreglugerð nr. 112/2012 þar sem engin aðkoma væri fyrir hreyfihamlaða. Byggingarfulltrúi svaraði erindinu með tölvupósti 7. mars 2019, þar sem meðal annars var vísað til teikningar af bílakjallaranum á lóð Naustabryggju 17-19 og 31-33 og Tangabryggju 6-8, 10 og 12-12A, en þar komi fram að í kjallaranum séu fjögur bílastæði fyrir hreyfihamlaða og önnur átta bílastæði fyrir hreyfihamlaða séu á lóð fyrir utan bílageymslu sem tilheyri húsunum.

Með tölvupósti til skipulagsfulltrúa 20. júní 2019 fór kærandi fram á það við borgaryfirvöld að gildandi deiliskipulagi yrði breytt þannig að Naustabryggja 31-33 fengi afnot af bílastæðum norðan við húsið og stæði fyrir hreyfihamlaða yrði merkt hið fyrsta ásamt því að tryggja aðkomu neyðarbíla. Erindinu var svarað af hálfu skipulagsfulltrúa 12. september s.á. þar sem skipulagslegar aðstæður voru skýrðar. Í svarpósti skipulagsfulltrúa kom meðal annars fram að ef óskað væri eftir afstöðu skipulagsfulltrúa um hvort mögulegt væri að breyta deiliskipulagi þyrfti að senda fyrirspurn þess efnis í gegnum rafræna Reykjavík.

Hinn 5. nóvember 2019 sendi kærandi borgaryfirvöldum erindi að nýju og var því svarað með tölvupósti yfirverkfræðings byggingarfulltrúa 20. nóvember 2019 og fylgdi í viðhengi öryggis- og lokaúttekt byggingarfulltrúa vegna umræddrar byggingar ásamt umsókn um byggingarleyfi og afgreiðslu hennar í fundargerð. Byggingarfulltrúi svaraði jafnframt erindinu með tölvupósti sama dag. Þar kom meðal annars fram að ekki yrði annað séð en að gerð væri góð grein fyrir algildri hönnun og aðkomu fyrir alla á samþykktum teikningum. Með tölvupósti 24. nóvember 2019 til Reykjavíkurborgar áréttaði kærandi kröfu íbúa Naustabryggju 31-33 þess efnis að skilyrðum byggingarreglugerðar væri fylgt og a.m.k. þrjú bílastæði fyrir hreyfihamlaða yrði komið fyrir innan 25 m fjarlægðar frá aðalinngangi þessara tveggja stigaganga. Erindinu var svarað af hálfu byggingarfulltrúa 25. nóvember s.á. Ítrekaði hann að embættið hafi ekki komið að gerð deiliskipulags svæðisins. Kröfur um bílastæði fyrir hreyfihamlaða samkvæmt byggingar­reglugerð væru uppfylltar í bílastæðakjallara. Vissulega væri erfitt að koma fyrir bílastæðum fyrir hreyfihamlaða við götu nálægt aðalinngögnum hússins vegna staðsetningar lóðarmarka til norðurs, en bæði væru merkt bílastæði fyrir hreyfihamlaða á lóðinni og við næstu götur. Þau væru þó vissulega ívið lengra frá aðalinngöngum en kveðið væri á um í byggingarreglugerð. Því yrði ekki breytt á meðan lóðarmörkin við norðurhlið húsanna nr. 31-33 við Naustabryggju væru eins og raun bæri vitni samkvæmt gildandi deiliskipulagi.

Með tölvupósti sem var sendur af hálfu skrifstofu borgarstjóra og borgarritara til byggingarfulltrúa 21. janúar 2020 var þess óskað að tekin yrðu saman þau svör sem veitt hafi verið vegna fyrirspurna kæranda og honum sent heildstætt lokasvar vegna ítrekunar hans á því að ófullnægjandi svör hafi borist við erindi hans. Með bréfi byggingarfulltrúa, dags. 22. s.m., voru samskipti borgaryfirvalda og kæranda reifuð og í niðurstöðu bréfsins var eftirfarandi tekið fram: „Ítrekað er að fyrirkomulag bílastæða fyrir hreyfihamlaða er í samræmi við ákvæði byggingarreglugerðar, en eins og áður hefur komið fram er kröfum um bílastæði fyrir hreyfihamlaða þegar fullnægt í bílakjallara hússins, en auk þeirra eru stæði fyrir hreyfihamlaða á lóð. Kröfu þinni um að Reykjavíkurborg tryggi, án tafar, aðgengi fyrir hreyfihamlaða að aðalinngangi Naustabryggju 31-33 er því hafnað.“ Var og tilkynnt að embættið muni ekki aðhafast frekar vegna málsins og kæranda bent á að afgreiðsla erindis hans væri kæranleg til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Var þessi afgreiðsla byggingarfulltrúa borin undir úrskurðarnefndina.

Með úrskurði nefndarinnar, dags. 28. ágúst 2020, var ákvörðun byggingarfulltrúa um að hafna kröfu um að Reykjavíkurborg tryggi án tafar aðgengi fyrir hreyfihamlaða að Naustabryggju 31-33 felld úr gildi, þar sem 2. mgr. gr. 6.2.4. í byggingarreglugerð um fjarlægð bílastæðanna frá aðalinngangi var ekki uppfyllt. Engu gæti breytt í því efni þótt fyrirkomulag bílastæða væri í samræmi við deiliskipulag og samþykkta aðaluppdrætti, enda geti deiliskipulag ekki vikið til hliðar ákvæðum byggingarreglugerðar og samkvæmt 11. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010 skuli samþykktir aðaluppdrættir vera í samræmi við ákvæði framangreindrar reglugerðar.

Í kjölfar úrskurðarins var embætti byggingarfulltrúa í samskiptum við kæranda og lagði til í tölvupósti dags. 2. september 2020 m.a. að gera bílastæði fyrir hreyfihamlaða á borgarlandi við norðausturhorn hússins nr. 31-33 við Naustabryggju. Kærandi hafnaði þeirri tillögu með tölvupósti, dags. 24. s.m., þar sem bílastæðið yrði enn of langt frá aðalinngangi Naustabryggju 33, fyrirkomulagið væri ekki í samræmi við væntingar sem hafa mætti til aðgengis að þjónustu til aðalinngangs fjölbýlishúss, tillagan þrengdi að umferð gangandi og hjólandi um svæðið og að breidd gönguleiðar frá bílastæði fyrir utan Naustabryggju 17 að aðalinngangi Naustabryggju 31 og 33 fullnægi ekki kröfum byggingarreglugerðar.

Með tölvupósti 5. mars 2021 kom fram að byggingarfulltrúa þætti ljóst að krafa kæranda fæli í sér að gerð yrðu bílastæði á aðliggjandi lóð Naustabryggju 35-57 og hún minnkuð sem því næmi. Ekki væri mögulegt að verða við þeirri kröfu án samþykkis viðkomandi lóðarhafa og embættið myndi því ekki aðhafast frekar í málinu. Er það sú ákvörðun sem er til umfjöllunar í máli þessu.

Málsrök kæranda: Bent er á að Reykjavíkurborg beri að tryggja aðgengi bæði að aðalinngangi Naustabryggju 31 og Naustabryggju 33, sbr. úrskurð úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlinda­mála frá 28. ágúst 2020 í máli nr. 15/2020. Tillaga byggingarfulltrúa sé hins vegar þeim annmarka háð að yrði hún að veruleika yrði fjarlægð frá bílastæði fyrir hreyfihamlaða að aðalinngangi Naustabryggju 31 um 20 m en frá bílastæðinu að aðalinngangi Naustabryggju 33 um 40 m. Samkvæmt gr. 6.2.6. í byggingarreglugerð megi fjarlægðin hins vegar ekki vera meiri en 25 m og yrði hún því í lengra lagi fyrir Naustabryggju 31 en myndi ekki uppfylla skilyrði reglugerðarinnar vegna Naustabryggju 33. Tillögunni sé því harðlega mótmælt og óskað eftir því að Reykjavíkurborg geri nýja tillögu sem sé í samræmi við úrskurðarorð framan­greinds úrskurðar og uppfylli kröfur byggingarreglugerðar.

Í nútímasamfélagi verði sífellt mikilvægara að eiga greitt aðgengi að ýmiskonar þjónustu heim að dyrum sem byggi í mörgum tilvikum á aðgengi bifreiða. Sem dæmi megi nefna heim­sendingu á matvöru eða aðgang að leigu- eða deilibifreiðum. Það geti ekki verið markmið Reykjavíkurborgar að nýjar íbúðir séu skipulagðar með þeim hætti að íbúar þurfi ávallt að gefa upp annað heimilisfang en þeirra eigið þegar þeir sæki sér slíka þjónustu. Þá telji kærandi að í þessu tilviki gangi það í reynd ekki upp þar sem gönguleið frá bílastæði fyrir utan Nausta­bryggju 17 uppfylli ekki kröfur byggingarreglugerðar um breidd gönguleiðar.

Tillaga borgarinnar þrengi aðgengi og umferð gangandi. Um sé að ræða gangstétt og þrátt fyrir að hún sé mikið nýtt sem bílastæði af íbúum nærliggjandi húsa sé um að ræða mikilvæga tengingu fyrir gangandi yfir á gangstétt norðan megin á milli húsanna Naustabryggju nr. 53 og 55 og út á bryggju eða til austurs meðfram bílskúrum fyrir utan Naustabryggju 57. Aðra hvora af þessum leiðum þurfi til dæmis að fara til þess að nota almenningssamgöngur og eigi leiðin að liggja um samfellda gangstétt þurfi að fara bryggjuleiðina því hvorki liggi samfelld gangstétt meðfram götunni sunnan megin, meðfram Naustabryggju 21-29, né norðan megin, meðfram Naustabryggju 57. Ekki sé ásættanlegt að Reykjavíkurborg geri húsfélaginu að velja með þessum hætti á milli hagsmuna gangandi í hverfinu og að skilyrði byggingarreglugerðar séu uppfyllt.

Þá sé gerð athugasemd við að breidd gönguleiðar á milli bílastæðis Naustabryggju 31-33 fyrir utan Naustabryggju 17 að aðalinngöngum hússins, sem liggi á milli lóða Naustabryggju 31 og 33 annars vegar og Naustabryggju 21 hins vegar, sé aðeins 90 cm á breidd en ekki 180 cm eins og gerð sé krafa um skv. gr. 6.2.3. í byggingarreglugerð, sem fjalli um algilda hönnun aðkomu að byggingum. Um þetta vísist einnig til greinar 6.2.1. í reglugerðinni um jafnt aðgengi að byggingum. Lítið pláss sé þar til að fara um með barnavagn eða kerru. Þá verði færðin enn verri yfir vetrartímann og á sumrin þurfi ekki mikið út af að bregða í snyrtingu á trjágróðri á aðliggjandi lóð til þess að leiðin verði ófær fyrir barnavagna. Leiðin frá bílastæði Nausta­bryggju 17 að bakdyrum Naustabryggju 31 og 33 uppfylli ekki heldur skilyrði reglugerðarinnar í gr. 6.2.4. þar sem þrep séu á þeirri leið. Líta verði til þessa við úrlausn málsins.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Vísað er til þess að eins og fram komi í ákvörðun byggingar­fulltrúa frá 5. mars 2021 sé ljóst að krafa húsfélagsins í málinu feli í sér að gerð yrðu bílastæði inni á aðliggjandi lóð, Naustabryggju 35-57, og hún minnkuð sem því nemi, auk þess sem bílastæðakrafa á þeirri lóð yrði þá ekki uppfyllt þar sem stæðum myndi fækka. Ekki sé heldur mögulegt að verða við kröfu kæranda án samþykkis lóðarhafa aðliggjandi lóða. Slíkt samþykki liggi ekki fyrir og sé Reykjavíkurborg ekki kunnugt um að kærandi hafi aflað slíks samþykkis. Það sé því ljóst að ekki sé hægt að verða við kröfu kæranda í málinu sökum ómöguleika.

Einnig sé vafaatriði gegn hverjum krafa um aðgerðir ætti að snúa, en húseiganda beri skv. ákvæðum kafla 2.7 í byggingarreglugerð nr. 112/2012 ábyrgð á því að við hönnun, byggingu og rekstur mannvirkis sé farið að kröfum laga um mannvirki og byggingarreglugerðar. Sé ekki framkvæmt í samræmi við ákvæði mannvirkjalaga eða byggingarreglugerðar hafi byggingar­fulltrúi heimildir til að beita þvingunarúrræðum.

Ákvörðun um beitingu þvingunarúrræða skv. mannvirkjalögum nr. 160/2010 og byggingar­reglugerðar sé háð mati stjórnvalds hverju sinni og sé tekið fram í athugasemdum við frumvarp það sem orðið hafi að mannvirkjalögum að eðlilegt sé að ákvörðun um beitingu úrræða verði að meta í hverju tilviki, m.a. með tilliti til meðalhófs. Umrædd ákvæði gefi sveitarfélögum kost á að bregðast við ef gengið sé gegn almannahagsmunum þeim er búi að baki mannvirkjalögum, svo sem skipulags-, öryggis- og heilbrigðishagsmunum. Með hliðsjón af þessu verði ekki talið að einstaklingum sé tryggður lögvarinn réttur til að knýja byggingaryfirvöld til beitingar þvingunarúrræða vegna einstaklingshagsmuna, enda séu þeim tryggð önnur réttarúrræði til þess að verja þá hagsmuni sína, en mögulega eigi kærandi bótarétt gagnvart byggjanda hússins. Þótt beiting úrræðanna sé háð mati stjórnvalds þurfi ákvörðun þess efnis að vera studd efnislegum rökum, m.a. með hliðsjón af þeim hagsmunum sem búi að baki ákvæðum laga um mannvirki.

Reykjavíkurborg telji að ekki sé gengið í þeim mæli gegn almannahagsmunum þeim er búi að baki mannvirkjalögum að það réttlæti það inngrip sem kærandi fari fram á í málinu. Rétt sé að minna á að Reykjavíkurborg hafi lagt til að útbúið yrði bílastæði fyrir hreyfihamlaða við austurenda hússins en kærandi hafi hafnað þeirri tillögu. Bílastæðið sem byggingarfulltrúi hafi boðist til að gera yrði 13 m frá einum inngangi, 28 m frá þeim næsta og 44 m frá þeim þriðja. Embættið telji að sú ráðstöfun feli í sér fullnægjandi aðgang að inngöngum hússins fyrir hreyfihamlaða í ljósi aðstæðna og að ekkert hafi komið fram sem réttlæti þvingunaraðgerðir eða breytingar á deiliskipulagi sem óhjákvæmilega myndu bitna á aðliggjandi lóð kæranda og fela í sér verulegt inngrip í hagsmuni íbúa þar. Deiliskipulagsgerð sé heldur ekki á forræði byggingarfulltrúa.

Reykjavíkurborg telji enn fremur að hafna beri kröfu kæranda sökum tómlætis. Húsið hafi verið tekið í notkun árið 2016, en það sé ekki fyrr en tveimur til þremur árum síðar að athugasemdir hafi borist frá húsfélaginu varðandi umrædd bílastæði.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Ekki sé fallist á að um tómlæti sé að ræða í máli þessu. Bent sé á að fyrstu íbúar hússins hafi flutt inn í desember árið 2016, en Naustabryggja 31-33 hafi verið eina fullbyggða einingin á þeim tíma. Lokaúttekt sé dagsett í janúar 2018. Fyrirsvars­maður kæranda hafi átt fund með starfsmanni Reykjavíkurborgar undir lok árs 2017 eða snemma árs 2018 ásamt fundi með byggingarfulltrúa. Á þeim fundum hafi komið fram að deiliskipulag reitsins væri annkanalegt og að skipulag þyrfti að skoða betur. Margir tölvupóstar hafi einnig verið sendir um ágreiningsefnið til borgaryfirvalda. Eftir fund með formanni skipulags- og samgönguráðs og lögfræðingi Reykjavíkurborgar hafi sjónarmiðum kæranda verið hafnað. Að lokum hafi málið verið kært til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, sem hafi kveðið upp úrskurð árið 2020.

Ekki skipti máli hvaða embættismenn stjórnkerfis Reykjavíkurborgar fari með tilteknar valdheimildir. Í upphafi hafi verið tekin ákvörðun hjá borgaryfirvöldum um útgáfu byggingar­leyfis og deiliskipulag verið samþykkt. Þá þegar hafi legið fyrir að skilyrði 6. kafla byggingar­reglugerðar nr. 112/2012 væru ekki uppfyllt. Það hafi ekki verið fyrr en úrskurðarnefndin hafi kveðið upp úrskurð sinn sem Reykjavíkurborg leggi til lausn sem uppfylli ekki heldur ákvæði um fjarlægðir stæða fyrir hreyfihamlaða frá aðalinngöngum umrædds húss.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um afgreiðslu byggingarfulltrúa á erindi kæranda um að Reykjavíkurborg tryggi aðgengi að Naustabryggju 31-33 fyrir hreyfihamlaða þannig að upp­fyllt séu skilyrði byggingarreglugerðar nr. 112/2012. Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur í úrskurði uppkveðnum 28. ágúst 2020 áður komist að þeirri niðurstöðu að ákvæði 2. mgr. gr. 6.2.4. byggingarreglugerðar um hámarksfjarlægð bílastæða fyrir hreyfi­hamlaða frá aðalinngangi nefnds húss séu ekki uppfyllt. Fyrirkomulagi bílastæða á umræddu svæði hefur ekki verið breytt síðan framangreindur úrskurður var kveðinn upp.

Kærandi krefst þess að viðkomandi stjórnvald hlutist til um að útbúin verði bílastæði fyrir hreyfi­­­hamlaða í samræmi við ákvæði byggingarreglugerðar. Hlutverk úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála er að úrskurða um lögmæti ákvarðana stjórnvalda. Það fellur utan valdsviðs nefndarinnar að taka nýja ákvörðun í málinu eða leggja fyrir stjórnvald að taka ákvörðun með tilteknu efni enda er það vald falið sveitarfélögum með lögum. Verður því ekki tekin afstaða til framangreindrar kröfu.

Af hálfu Reykjavíkurborgar er farið fram á að kröfum kæranda sé hafnað sökum tómlætis. Af fyrirliggjandi gögnum verður ráðið að kærandi hefur haldið máli sínu á lofti frá árinu 2017 með eðlilegum hraða. Þá féll úrskurður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 15/2020 kæranda í vil 28. ágúst 2020 og hefur kærandi síðan þá farið reglulega fram á úrbætur og viðbrögð frá borgaryfirvöldum. Verður því ekki fallist á málsástæðu Reykjavíkurborgar að um tómlæti af hálfu kæranda sé að ræða í máli þessu.

Af hálfu borgaryfirvalda hefur því verið haldið fram að ómögulegt sé að koma fyrirkomulagi bílastæða fyrir hreyfihamlaða í löglegt horf. Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 annast sveitarstjórnir gerð deiliskipulagsáætlana. Þá hafa sveitarstjórnir heimild til að breyta deiliskipulagi líkt og mælt er fyrir um í 43. gr. laganna. Einnig má benda á að sveitarstjórn getur heimilað skiptingu lóða skv. 48. gr. eða ráðist í eignarnám skv. 50. gr. laganna. Engu breytir um þessar heimildir þótt byggingarfulltrúi fari ekki persónulega með þær enda tilheyrir embætti byggingarfulltrúa stjórnkerfi Reykjavíkurborgar.

Fjallað er um rannsóknir, þvingunarúrræði og viðurlög í X. kafla mannvirkjalaga nr. 160/2010. Samkvæmt 1. mgr. 56. gr. laganna kemur fram að sé ásigkomulagi, frágangi, umhverfi eða viðhaldi húss, annars mannvirkis eða lóðar ábótavant, af því stafi hætta eða það teljist skaðlegt heilsu að mati byggingarfulltrúa eða ekki sé gengið frá því samkvæmt samþykktum uppdráttum, lögum, reglugerðum og byggingarlýsingu, skuli gera eiganda eða umráðamanni þess aðvart og leggja fyrir hann að bæta úr því sem áfátt er. Rétt þykir í þessu samhengi að benda á að skv. 1. mgr. 15. gr. laganna ber eigandi mannvirkis ábyrgð á því að við hönnun, byggingu og rekstur mannvirkis sé farið eftir kröfum mannvirkjalaga og reglugerða sem settar eru á grundvelli þeirra. Hönnuðir bera svo ábyrgð á því gagnvart eiganda mannvirkis að hönnun þeirra sé faglega unnin og mannvirkið standist þær kröfur sem til þess eru gerðar í mannvirkja­lögum og reglugerðum settum samkvæmt þeim, sbr. 2. mgr. 23. gr. nefndra laga. Til hins ber að líta að staðsetningu bílastæða fyrir hreyfihamlaða við Naustabryggju verður ekki breytt nema að undangenginni deiliskipulagsbreytingu sem sveitarstjórn annast og ber ábyrgð á eins og að framan greinir.

Samkvæmt framansögðu hefur Reykjavíkurborg ýmsar leiðir til að koma fyrirkomulagi bíla­stæða fyrir hreyfihamlaða í lögmætt horf. Verður því ekki fallist á með borgaryfirvöldum, a.m.k. að svo stöddu, að ómöguleiki sé fyrir hendi, þar sem framangreind úrræði hafa ekki verið fullreynd.

Með hliðsjón af öllu framangreindu verður hin kærða ákvörðun felld úr gildi.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 5. mars 2021 að hafna kröfu húsfélags Naustabryggju 31-33 að Reykjavíkurborg tryggi aðgengi að húsinu fyrir hreyfi­hamlaða þannig að uppfyllt séu skilyrði byggingarreglugerðar nr. 112/2012.

136/2020 Lækjarhjalli

Með

Árið 2021, miðvikudaginn 21. apríl, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 136/2020, kæra á ákvörðun skipulagsstjóra Kópavogs frá 12. nóvember 2020 um að hafna erindi lóðarhafa Lækjarhjalla 34 þar sem óskað var eftir að koma fyrir aukabílastæði á lóð.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 15. desember 2020, er barst nefndinni 16. s.m., kæra eigendur Lækjarhjalla 34, Kópavogi, þá ákvörðun skipulagsstjóra Kópavogs frá 12. nóvember 2020 að hafna erindi lóðarhafa nefndrar lóðar þar sem óskað var eftir að koma fyrir aukabílastæði á lóðinni. Skilja verður kröfu kæranda svo að þess sé krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Kópavogsbæ 26. janúar 2021.

Málavextir: Með tölvupósti, dags. 23. október 2020, sendu kærendur erindi til Kópavogsbæjar þar sem sótt var um að bæta við bílastæði á lóð þeirra að Lækjarhjalla 34, austan við húsið að lóðarmörkum við Lækjarhjalla 32. Erindi kærenda var tekið fyrir á embættisafgreiðslufundi skipulagsstjóra 12. nóvember s.á. þar sem því var hafnað og var sú niðurstaða tilkynnt um­sækjendum með bréfi, dags. 20. s.m. Kærendur óskuðu í kjölfar synjunarinnar eftir rökstuðningi með tölvupósti, dags. 30. s.m. Rökstuðningur var sendur kærendum með tölvupósti 8. desember s.á. Þar kemur fram að samkvæmt skipulagi sé gert ráð fyrir 1,5 bílastæðum á hverja íbúð. Samkvæmt lóðarblaði sé nú þegar gert ráð fyrir þremur bílastæðum á lóðinni sem samræmist skipulagi. Þá hafi skipulagsstjóri talið að umbeðin staðsetning bílastæðis stefndi umferðar­öryggi í hættu þar sem stæðið yrði staðsett í beygju en jafnframt samræmdist beiðnin ekki götumynd þar sem að með breytingunni yrði meirihluti götunnar undirlagður af bílastæðum á kostnað grænna svæða.

Málsrök kærenda: Kærendur benda á að samkvæmt skipulagi sé gert ráð fyrir þremur bílastæðum við tvíbýlishús þeirra sem uppfylli engan veginn þarfir fjölskyldunnar. Í húsinu séu búsettir fimm einstaklingar á bíl og því þurfi tveir þeirra að leggja bílum sínum á götunni. Næsta hús, sem einnig sé tvíbýlishús, hafi yfir að ráða sex bílastæðum. Kærendur telji það ekki góð rök að grænum svæðum í Kópavogi fækki með breytingunni þar sem íbúar húsa geti hvenær sem er ákveðið að helluleggja eða gera pall á þessu litla svæði án leyfis skipulagsstjóra. Breytingin muni ekki skapa hættu fyrir vegfarendur heldur þvert á móti bæta umferðaröryggi og fegra götumyndina.

Málsrök Kópavogsbæjar: Af hálfu sveitarfélagsins er vísað til þess að í gildandi deiliskipulagi fyrir svæðið sé gert ráð fyrir 1,5 bílastæðum á hverja íbúð. Umrætt hús sé tvíbýli. Samkvæmt lóðarblaði fyrir lóðina Lækjarhjalla 34 sé gert ráð fyrir þremur bílastæðum á lóðinni sem samræmist skipulagi. Hafi það verið mat skipulagsstjóra, sem hafi tekið fullnaðarákvörðun í málinu í samræmi við framsalsheimildir bæjarmálasamþykktar, að framlögð beiðni væri ekki í samræmi við skipulagsáætlanir svo og götumynd þar sem við umbeðna breytingu hefði meiri­hluti dvalarsvæðis framlóðar farið undir bílastæði á kostnað dvalarsvæðis. Þá hafi verið talið að umrætt bílastæði væri óheppilega staðsett á lóðinni m.t.t. umferðaröryggis. Hvað varði bílastæði á aðliggjandi lóð þá séu sex bílastæði ekki í samræmi við gildandi lóðarblöð og hafi skipulagsyfirvöld ekki veitt leyfi fyrir umframbílastæðum.

Ákvörðun um bílastæðakröfur fyrir tiltekin skipulagssvæði sé í höndum skipulagsyfirvalda. Í greindu tilviki hafi ósk um viðbótarbílastæði ekki samrýmst skipulagsáætlunum. Ekki sé hægt að gera ráð fyrir að skipulagsyfirvöld samþykki auknar bílastæðakröfur, sem sé varanleg breyting, vegna tímabundinna þarfa íbúa. Í því felist jafnframt fordæmisgildi fyrir skipulags­svæðið í heild.

Þá hefði kærendum átt að vera ljóst hve mörg bílasæði fylgdu eign þeirra við kaup á fast­eigninni. Hafi þá legið fyrir að gert væri ráð fyrir þremur bílastæðum á lóðinni. Einnig ætti að vera nánari útlistun á eignarhaldi bílastæða á lóðinni í eignaskiptayfirlýsingu fyrir húsið. Verði að ætla að eigendur í fjölbýlishúsi þurfi að leysa það sín á milli ef notkun sé ekki í samræmi við eignaskiptayfirlýsingu.

Viðbótarathugasemdir kærenda: Bent er á að skýrt komi fram í eignaskiptayfirlýsingu að tvö stæði tilheyri eign kærenda og enginn ágreiningur sé um það. Það sem komi kærendum á óvart hafi verið synjunin vegna beiðni um viðbótarbílastæði þar sem kærendur sjái einungis kosti við hana. Kærendur séu ósammála mati sveitarfélagsins sem telji umrætt bílastæði óheppilega staðsett á lóð hvað umferðaröryggi varði. Mun meiri hætta stafi af bíl sem reglulega sé lagt úti á götu og byrgi sýn ökumanna sem og gangandi vegfarenda. Þá sé viðbótarbílastæði ekki tímabundin lausn heldur lausn til frambúðar.

Niðurstaða: Fjallað er um heimildir skipulagsstjóra til fullnaðarafgreiðslu mála í B-lið 52. gr. samþykktar um stjórn Kópavogsbæjar og fundarsköp bæjarstjórnar nr. 1128/2016. Í 4. tölul. nefndrar greinar segir að skipulagsstjóri, eða starfsmenn umhverfissviðs í hans umboði, afgreiði án staðfestingar skipulagsráðs frávísun eða synjun erinda og gerð umsagna um erindi sem beint sé til skipulagsráðs eða bæjarráðs og séu ekki í samræmi við skipulagsáætlanir. Af framansögðu má ráða að heimild skipulagsstjóra til að taka fullnaðarákvörðun í máli þessu veltur á því hvort að hið umdeilda erindi hafi verið í ósamræmi við skipulagsáætlanir á svæðinu.

Á svæðinu er í gildi deiliskipulag Suðurhlíða sem samþykkt var í bæjarstjórn Kópavogs 14. júní 1988. Samkvæmt gr. 2.6 í skipulagsskilmálum fyrir svæði D skal gera að minnsta kosti 1,5 bílastæði fyrir hverja íbúð. Í gr. 2.9 segir að mæliblöð sýni reit þann sem byggja megi á, fjölda bílastæða á lóð, gestabílastæði, gangstíga og kvaðir ef einhverjar eru o.fl. Mæliblað fyrir Lækjarhjalla 22, 24, 26, 28, — 40 og 42 var gefið út af tæknideild Kópavogs 20. janúar 1989. Samkvæmt mæliblaðinu eru þrjú bílastæði á lóð Lækjarhjalla 34.

Líkt og áður segir er heimild skipulagsstjóra til að taka fullnaðarákvörðun í máli þessu bundin við að efni erindis hafi ekki verið í samræmi við skipulagsáætlanir á svæðinu. Samkvæmt gr. 2.6. í skipulagsskilmálum svæðisins skal gera að minnsta kosti 1,5 stæði fyrir hverja íbúð á lóð. Ekki verður talið að efni erindis kærenda hafi verið í ósamræmi við skipulagsáætlanir á svæðinu enda kveður skipulagið á um lágmarksfjölda bílastæða.

Mæliblöð og hæðarblöð eru skilgreind í gr. 1.3. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 sem hönnunar­gögn sem unnin eru í kjölfar deiliskipulags og lýsa með nákvæmum hætti stærðum lóða, hæðarkótum lands og bygginga, staðsetningu lagna, kvöðum og öðru sem þurfa þykir. Mæliblað felur þannig í sér nánari útfærslu gildandi deiliskipulags en mæliblaðið hefur ekki hlotið sömu eða sambærilega meðferð og deiliskipulag skv. skipulagslögum nr. 123/2010.

Byggingarfulltrúi samþykkti byggingarleyfi fyrir Lækjarhjalla 34 með áritun uppdrátta og var sú afgreiðsla samþykkt á fundi byggingarnefndar Kópavogs 29. mars 1990. Á þeim uppdráttum hafa verið samþykkt þrjú bílastæði á lóðinni. Ákvörðun um að breyta efni byggingarleyfisins verður aðeins tekin af byggingarfulltrúa, eftir atvikum eftir að leitað hafi verið umsagnar skipulagsfulltrúa skv. 2. mgr. 10. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010. Skortir því á að um sé að ræða lokaákvörðun í máli þessu í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sem borin verður undir úrskurðarnefndina.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður kærumáli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

75/2020 Egilsgata

Með

Árið 2020, fimmtudaginn 29. október, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 75/2020, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Borgarbyggð frá 15. júní 2020 um að samþykkja umsókn um byggingarleyfi til að breyta húsnæði á lóð nr. 6 við Egilsgötu í þrjár stúdíóíbúðir á neðri hæð og eina íbúð á efri hæð.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 13. ágúst 2020, er barst nefndinni 14. s.m., kærir Ikan ehf., Egilsgötu 4, Borgarnesi, þá ákvörðun byggingar­fulltrúans í Borgarbyggð frá 15. júní 2020 að samþykkja umsókn um byggingarleyfi til að breyta húsnæði á lóð nr. 6 við Egilsgötu í þrjár stúdíóíbúðir á neðri hæð og eina íbúð á efri hæð. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Borgarbyggð 10. september 2020.

Málavextir: Mál þetta á sér nokkra forsögu. Kærandi hefur í fjórgang lagt fram kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála varðandi leyfisveitingar Borgarbyggðar vegna breytinga á húsnæði að Egilsgötu 6, en kærandi hefur aðsetur að Egilsgötu 4. Með úrskurði í kærumáli nr. 24/2019, uppkveðnum 23. janúar 2020, felldi úrskurðarnefndin úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa um að samþykkja umsókn um byggingarleyfi til að breyta húsnæði á lóð nr. 6 við Egilsgötu í þrjár stúdíóíbúðir á neðri hæð og eina íbúð á efri hæð. Taldi úrskurðarnefndin að hin kærða ákvörðun uppfyllti ekki áskilnaði 11. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 um að byggingarleyfi skuli vera í samræmi við byggingarreglugerð. Hinn 27. febrúar 2020 sótti leyfishafi um endurnýjað byggingarleyfi. Á fundi skipulags- og byggingarnefndar 3. apríl s.á. var samþykkt að grenndarkynna teikningar framkvæmdarinnar ásamt afstöðumynd á grundvelli 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Var sú afgreiðsla samþykkt á fundi sveitarstjórnar 8. s.m. Athugasemdir bárust á kynningartíma umsóknarinnar, m.a. frá kæranda, og voru þær lagðar fram á fundi skipulags- og byggingarnefndar 5. júní s.á. Var framkomnum athugasemdum svarað með bréfi byggingarfulltrúa 15. s.m. Á fundi byggðarráðs Borgarbyggðar 18. s.m. var byggingarfulltrúa falið að gefa út hið umsótta byggingarleyfi sem hann og gerði 15. júlí 2020.

Málsrök kæranda: Kærandi telur að með útgáfu hins kærða byggingarleyfis sé vegið verulega að réttindum hans og hagsmunum. Leyfið hafi hvorki fullnægjandi stoð í lögum nr. 160/2010 um mannvirki eða skipulagslögum nr. 123/2010 né reglugerðum sem leiði af þeim lögum. Svör byggingarfulltrúa við athugasemdum kæranda standist ekki skoðun.

Í gögnum vegna grenndarkynningar byggingarleyfisins sé ekkert að finna um bílastæði og fyrirkomulag þeirra líkt og mælt sé fyrir um í gr. 5.3.2.5. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013, sbr. einnig gr. 4.4.4. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Samkvæmt gr. 5.9.2. í skipulagsreglugerð skuli í bréfi til hagsmunaaðila koma fram hvert sé meginefni grenndarkynningarinnar og rökstuðningur fyrir málsmeðferðina. Ekkert sé að finna um slíkt í gögnum sem fylgdu með grenndarkynningunni. Einnig vanti mörg þau gögn sem gr. 5.9.7. í reglugerðinni kveði á um að fylgja skuli við grenndarkynningu. Þá uppfylli hönnunargögn sem fylgt hafi grenndarkynningu ekki fjölmörg ákvæði byggingarreglugerðar, s.s. gr. 1.2.1., 2.4.1., 4.3.1., 4.3.3., 4.3.9., 4.4.4., 6.1.1., 6.1.3., 6.1.5., 6.7.1., 6.7.2., 6.7.4., 6.7.14. og 6.10.3.

Öllu máli skipti að með breytingunni fjölgi íbúðum Egilsgötu 6 úr einni í fjórar en það hafi veruleg áhrif á nágrennið. Það sé ekki einkamál sveitarfélagsins og leyfishafa hvar bílastæði íbúðanna eigi að vera því verulegur skortur sé á bílastæðum. Það sé hlutverk sveitarfélagsins að sjá til þess að umsækjandi um byggingarleyfi leggi fram gögn þar sem fram komi hvar bílastæði skuli vera, þ. á m. fyrir fatlaða, og hvað þau skuli vera mörg. Samkvæmt þinglýstum lóðarleigusamningi fyrir Egilsgötu 11 séu bílastæði gegnt húsum nr. 8-10 við Egilsgötu innan marka lóðar Egilsgötu 11. Lóðarhafi þeirrar lóðar hafi ekki framselt bílastæðin til sveitarfélagsins eða nokkurs annars aðila. Í svari byggingarfulltrúa við athugasemdum kæranda við grenndarkynningu komi fram að vegna skipulagsákvörðunar sveitarstjórnar frá árinu 2004 hafi umrædd stæði verið á svæði sem sveitarfélagið hafi óskoraðan rétt yfir. Það sé fráleitt að halda því fram að skipulagsákvörðun sveitarfélagsins felli úr gildi lóðarleigusamning eða þinglýsta eignarheimild.

Hafnað sé rökum um undanþágu frá algildri hönnun. Það sé í andstöðu við lög og reglugerðir að veita afslátt á aðgengi, m.a. varðandi bílastæði fyrir fatlaða. Óheimilt sé að ganga frá fyrirkomulagi bílastæði fyrir nýjar íbúðir líkt og undanþágubeiðnin geri ráð fyrir. Sveitarfélagið bendi á bílastæði í eigu þess en öll bílastæðin séu hins vegar í eigu einkaaðila. Engin boðleg aðkoma sé að íbúð á efri hæð og sveitarfélagið geti ekki gefið út hið kærða byggingarleyfi öðruvísi en að þinglýst sé kvöð um aðkomu að íbúðinni yfir lóð Egilsgötu 8. Það hafi ekki verið gert og sé fyrirkomulagið í óþökk þeirra sem eigi umrædda lóð.

Mælt sé fyrir um það í 12. gr. reglugerðar nr. 1277/2016 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald að falli útleiga íbúðar ekki undir heimagistingu teljist íbúðin vera atvinnu­húsnæði og skuli vera samþykkt af byggingarfulltrúa sem slík. Eldvarnir skuli taka mið af ákvæðum byggingarreglugerðar um íbúðarhúsnæði, en með „auknum ráðstöfunum skv. reglum Mannvirkjastofnunar þar að lútandi.“ Sveitarfélagið hafi ítrekað gefið sýslumanni jákvæða umsögn um rekstur gistiþjónustu að Egilsgötu 6. Í því ljósi orki mjög tvímælis sú framsetning að aðeins sé verið að grenndarkynna fjölgun á íbúðum en ekki tekið fram að þær séu undir atvinnustarfsemi.

Kærandi hafi fundað með sérfræðingum Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar og Skipulags-stofnunar vegna málsins. Hafi niðurstaða þeirra funda verið samhljóða því sem að framan sé rakið, m.a. að um verulega mikla breytingu sé að ræða sem hafi áhrif á stórt svæði, formgalli sé augljós þar sem ekki sé tilkynnt um rétta notkun, leyfi sýslumanns sé ekki í samræmi við notkun, rökstuðning vanti alfarið um hvernig leysa eigi bílastæðamál, aðkoma að íbúð á efri hæð sé ekki ígrunduð lagalega séð, það sé grófur yfirgangur að teikna tröppur inn á teikningu Egilsgötu 6, gögn þurfi að vera miklu ítarlegri og kynningin sé á röngum forsendum.

Skipulagsyfirvöld í sveitarfélaginu hafi ítrekað sett skilyrði um tiltekinn fjölda bílastæða vegna fjölgunar íbúða á svæðinu. Þau hafi heimild til að gera kröfur um bílastæði fyrir samþykki íbúða og þeirri heimild hafi byggingarfulltrúi beitt árið 2017 þegar hann setti það skilyrði fyrir útgáfu byggingarleyfis að Brákarbraut 1 að upplýst yrði um stærð lóðar, lóðarmörk og staðsetningu bílastæða. Sú lóð sé á sama skipulagssvæði og Egilsgata 6. Það sýni hvernig sveitarfélagið mismuni aðilum í algjörlega sambærilegum málum. Brotið hafi verið gegn jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga og 12. gr. sömu laga um meðalhóf.

Í 10. gr. lögreglusamþykktar Borgarbyggðar nr. 390/2010 komi fram að atvinnustarfsemi í íbúðarhverfum sé óheimil. Sveitarstjórn geti þó heimilað þar minni háttar starfsemi, svo fremi að tryggt sé að slíkt leiði ekki af sér ónæði eða truflun gagnvart íbúum og önnur opinber leyfi liggi fyrir. Einnig komi fram að atvinnurekstri í húsnæði, sem liggi að íbúðarbyggð, skuli haga þannig að ekki hljótist ónæði eða truflun fyrir þá sem næst búa. Gildi þetta jafnt um starfsemina sjálfa sem og umferð sem af henni hljótist. Kærandi hafi vægast sagt slæma reynslu af gistiþjónustu að Egilsgötu 6. Hafi sveitarfélagið heimilað þann rekstur árið 2013 án þess að sú starfsemi hafi verið grenndarkynnt. Síðan hafi sveitarfélagið þrisvar sinnum gefið jákvæða umsögn um útgáfu rekstrarleyfis til sýslumannsins á Vesturlandi. Gistiþjónusturekstrinum fylgi umferð allan sólarhringinn og hávaði kvölds og nætur.

Málsrök Borgarbyggðar: Af hálfu sveitarfélagsins er bent á að gr. 5.3.2.5. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 eigi aðeins við þegar sótt sé um leyfi fyrir einstakri framkvæmd á svæði þar sem aðalskipulag sé ekki fyrir hendi, sbr. 1. tl. bráðabirgðaákvæða skipulagslaga nr. 123/2010. Þar sem aðalskipulagsáætlun sé í gildi fyrir Borgarbyggð telji sveitarfélagið að umrædd grein eigi ekki við í málinu. Hvað varði gr. 5.9.2. í reglugerðinni sé bent á að í hinni umræddu grenndarkynningu komi fram að hún sé sett fram vegna breytinga innanhúss, auk þess sem teikningar vegna framkvæmdanna hafi fylgt með henni. Í úrskurði úrskurðarnefndarinnar í kærumáli nr. 24/2019 hafi komið fram að þegar grenndarkynningu sé þannig háttað sé talið að meginefni kynningarinnar komi fram með fullnægjandi hætti. Þá sé óþarfi að útbúa hnitsetta afstöðumynd eða gögn um landmótun og/eða götumynd, sbr. gr. 5.9.7. í reglugerðinni, þegar um breytingar á innbyrðis skipulagi mannvirkis sé að ræða. Öll gögn sem skipulagslög og skipulagsreglugerð geri ráð fyrir hafi þegar verið send kæranda við grenndarkynningu og því sé ekki skylt að leggja fram nein frekari gögn.

Í núgildandi skipulagsreglugerð sé ekki gerð krafa um það að tilteknum fjölda íbúða skuli fylgja tiltekinn fjöldi bílastæða, en slíkt ákvæði hafi verið í eldri skipulagsreglugerð nr. 400/1998. Samkvæmt núgildandi skipulagsreglugerð sé skipulagsyfirvöldum sett það í sjálfsvald með hvaða hætti þau vilja haga bílastæðamálum en eina krafan þar um sé sú að kveðið sé á um þau mál í deiliskipulagi. Í þessu máli sé ekki um gerð deiliskipulags að ræða og því hafi sveitarfélaginu ekki verið skylt að gera kröfu á hendur eigendum Egilsgötu 6 um tilteknar ráðstafanir vegna bílastæðamála við húsið þó sótt hafi verið um byggingarleyfi vegna fjölgunar íbúða í húsinu. Við afgreiðslu umsóknarinnar hafi verið litið til þess að beint á móti húsinu séu bílastæði í eigu sveitarfélagsins og sé fullkomlega eðlilegt að þau verði notuð af íbúum hússins. Í afgreiðslunni felist hvorki ákvörðun um að afsala umræddum stæðum til eigenda hússins né að þeir skuli njóta forgangs til stæðanna.

Því sé ekki mótmælt að samkvæmt uppdrætti lóðarleigusamnings Egilsgötu 11 séu hin um­deildu bílastæði innan lóðarmarka þeirrar lóðar. Hins vegar komi fram í lóðarleigusamningnum að hvenær sem bæjarstjórn telji þörf á að nýta lóðina undir opinber mannvirki, opin svæði og annað, sem skipulagsuppdráttur geri ráð fyrir, sé leigutaka skylt að láta leigurétt sinn og lóðina af hendi. Með gerð deiliskipulags fyrir gamla miðbæinn í Borgarnesi árið 2004 hafi lóðin við Egilsgötu 11 verið minnkuð og kveðið á um að bílastæði fyrir húsið skyldu vera á sérstakri lóð sunnan við það. Hin umdeildu bílastæði hafi verið svokölluð almenningsrými frá þeim tíma og hafi lóðarhafi Egilsgötu 11 verið upplýstur um framangreinda afstöðu sveitarfélagsins.

Kærandi haldi því fram með óútskýrðum og órökstuddum hætti að hönnunargögn uppfylli ekki skilyrði byggingarreglugerðar nr. 112/2012. Um sé að ræða breytingar innanhúss í gömlu og grónu hverfi og því ekki þörf á lóðaruppdrætti. Sveitarfélagið hafi nýtt sér heimild til þess að ákveða að við meðferð málsins þyrftu byggingarleyfishafar ekki að leggja fram slíka uppdrætti, sbr. a-lið gr. 2.4.1. í byggingarreglugerð, þar sem segi að leyfishafi ákveði hvort og að hvaða leyti þurfi að leggja fram aðaluppdrætti vegna umsóknar um breytingar á þegar byggðu mannvirki. Þetta ákvæði telur sveitarfélagið raunar að eigi við um allt það sem fram komi í kærunni varðandi þá aðaluppdrætti sem lagðir hafi verið fram með umsókninni. Þá vísi sveitarfélagið jafnframt til gr. 6.1.5. í byggingarreglugerð þar sem komi fram að ekki sé algilt að byggja þurfi á sjónarmiðum algildrar hönnunar þegar eldra mannvirki, sem byggt hafi verið í tíð eldri byggingarreglugerðar, sé breytt heldur sé heimilt að víkja frá þeim sjónarmiðum ef sérstökum erfiðleikum sé háð að uppfylla ákvæði 6. kafla reglugerðarinnar. Þegar þannig hátti til skuli hönnuður skila sérstakri greinargerð um það hvaða einstöku ákvæðum óskað sé eftir að víkja frá og geti leyfishafi veitt slíkt leyfi. Í þessu máli hafi hönnuður skilað sérstakri greinargerð um ástæður þess að sótt væri um undanþágur frá algildri hönnun. Einnig sé bent á að ákvæði 12. gr. reglugerðar nr. 1277/2016 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, sem kærandi vísi til, hafi verið fellt niður með reglugerð nr. 686/2018 og sé því ekki lengur í gildi.

Þær ákvarðanir sem kærandi vísi til vegna fasteigna við Egilsgötu hafi verið teknar í gildistíð skipulagsreglugerðar nr. 400/1998 og byggingarreglugerðar nr. 441/1998, sbr. skipulags- og byggingarlög nr. 73/1997, en í þeim hafi verið ákvæði um ákveðinn fjölda bílastæða vegna tiltekinna fermetra í byggðu húnæði. Slíkum ákvæðum sé ekki lengur fyrir að fara í núgildandi reglugerðum um sama efni. Því sé ekki verið að brjóta gegn lögum og sjónarmiðum um jafnræði með því að kveða ekki á um fyrirkomulag bílastæða í þessu máli. Þá sé ekki hægt að bera saman fyrirliggjandi mál við byggingarleyfisumsókn vegna Brákabrautar 1 frá árinu 2017, en fyrirkomulag þeirrar lóðar sé með allt öðrum hætti. Lóðin Brákarbraut 1 sé rúmum 220 m2 stærri en lóðin Egilsgata 6 auk þess sem lega hennar og staðsetning geri það kleift að leggja bílum innan lóðarmarka bæði norðan og austan megin, en þessu sé ekki þannig farið með lóðina Egilsgötu 6. Sá hluti þeirrar lóðar sem ekki sé undir húsinu sé í umtalsverðum halla en húsið standi svo á lóðarmörkum til suðurs, vestur og austurs. Þessar aðstæður geri það að verkum að sveitarfélagið hafi ekki talið sér skylt að krefjast þess að gerð yrði grein fyrir bílastæðum á hinum grenndarkynnta aðaluppdrætti. Jafnframt sé bent á að bílastæði í eigu lóðarinnar sunnan megin við húsið við Egilsgötu 2-10 hafi um langa hríð verið til ráðstöfunar fyrir umrædd hús, þ. á m. hús kæranda, þar sem að ekki sé gert ráð fyrir bílastæðum á lóðum neins þeirra. Hafi sveitarfélagið talið að þau stæði uppfylltu bílastæðaþörf svæðisins þrátt fyrir breytingarnar.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi gerir aðallega kröfu um að kærunni verði vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem kærandi eigi ekki lögvarinna hagsmuna að gæta af úrlausn kæruefnis að hluta og vegna aðildarskorts hans um önnur atriði. Kæran sé ruglingsleg og ýmis atriði dregin fram sem séu byggingarleyfinu óviðkomandi.

Bent sé á að í Aðalskipulagi Borgarbyggðar 2010-2022 falli Egilsgatan í heild undir hverfis­verndarsvæði og sé kveðið þar á um að mikilvægt sé að halda einkennum byggðar frá fyrri hluta tuttugustu aldar. Að setja skábraut við húsið yrði mikið rask fyrir götumyndina og myndi taka yfir gangstéttina utan við húsið að mestum hluta. Eigendur hafi kappkostað að halda útliti hússins að Egilsgötu 6 að mestu óbreyttu.

Bent sé á að kærandi hafi árið 2012 fengið samþykktar teikningar þar sem neðri hæð hússins að Egilsgötu 4 hafi verið breytt úr atvinnuhúsnæði í stúdíóíbúð. Því sé misræmi í málflutningi kæranda gagnvart nágrönnum og öðrum íbúum. Þá sé stigi að efri hæð íbúðar Egilsgötu 6 í óskiptri sameign lóða nr. 4 og 6 við Egilsgötu. Kærandi geti engan veginn haldið því fram að stiginn sé alfarið eign hússins að Egilsgötu 4.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um samþykki byggingarfulltrúans í Borgarbyggð fyrir byggingarleyfi til að breyta íbúðarhúsi og geymslu á lóð nr. 6 við Egilsgötu í þrjár stúdíóíbúðir á neðri hæð og eina íbúð á efri hæð. Kærandi er eigandi húss á aðliggjandi lóð og tengja steyptar tröppur húsin saman. Hefur kæranda verið játuð kæruaðild á þeim grundvelli fyrir nefndinni áður vegna sömu breytinga svo sem rakið er í málavaxtalýsingu. Hafa engin atvik breyst frá fyrra máli sem gefi tilefni til að breyta niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar um kæruaðild kæranda. Verður því ekki fallist á þá kröfu leyfishafa að vísa kærunni frá vegna skorts á lögvörðum hagsmunum kæranda í máli þessu.

Ekki er í gildi deiliskipulag fyrir umrætt svæði. Sú meginregla kemur fram í 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 að gera skuli deiliskipulag fyrir svæði eða reiti þar sem fram­kvæmdir eru fyrirhugaðar. Þó segir í 1. mgr. 44. gr. laganna að þegar sótt sé um byggingar- eða framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmd sem sé í samræmi við aðalskipulag en deiliskipulag liggi ekki fyrir geti sveitarstjórn eða sá aðili sem hafi heimild til fullnaðarafgreiðslu máls, sbr. 6. gr., ákveðið að veita megi leyfi án deiliskipulagsgerðar ef framkvæmdin sé í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar og skal skipulagsnefnd þá láta fara fram grenndarkynningu. Umsókn um greint byggingarleyfi var grenndarkynnt með lögmæltum fjögurra vikna athugasemdarfresti skv. 2. mgr. 44. gr. skipulagslaga og kom kærandi að athugasemdum sínum við grenndarkynninguna. Í kjölfar þess var umsóknin tekin til umfjöllunar í skipulags- og byggingarnefnd og hún samþykkt, auk þess sem afstaða var tekin til framkominna athugasemda. Byggingarfulltrúi samþykkti síðan byggingarleyfisumsóknina í kjölfar ákvörðunar skipulags- og byggingarnefndar og var sú ákvörðun staðfest af sveitarstjórn 11. júní 2020.

Samkvæmt þéttbýlisuppdrætti Aðalskipulags Borgarbyggðar 2010-2022 er lóðin Egilsgata 6 á skilgreindu svæði fyrir blandaða notkun (BL2). Í greinargerð aðalskipulagsins kemur fram að gamli miðbærinn (BL2) nái yfir íbúðasvæði, verslun og veitingarekstur og margvíslega opinbera þjónustu, sem og menningar- og safnastarfsemi. Hið kærða byggingarleyfi fól í sér heimild til breytinga innanhúss en ekki var sótt um breytingu á notkun eignarinnar sem er skráð í fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands sem fjölbýlishús á neðri hæð en íbúðareign á efri hæð. Er framkvæmdin því í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar svo sem áskilið er í 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga. Ekki verður fallist á með kæranda að sá annmarki hafi verið á grenndarkynningunni að ekki hafi komið fram hvert meginefni kynningar var, sbr. gr. 5.9.2. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013, enda kom þar fram að um leyfi til breytinga innanhúss væri að ræða og fylgdu með teikningar vegna framkvæmdanna. Þá verður ekki talið að afstöðumynd eða gögn sem geri grein fyrir landmótun eða götumynd hafi átt að koma fram í grenndarkynningunni, sbr. gr. 5.9.7. í skipulagsreglugerð, vegna eðli þeirra breytinga sem um ræðir.

Samkvæmt 1. málsl. 1. mgr. b-liðar gr. 5.3.2.5. í skipulagsreglugerð skal í deiliskipulagi setja skilmála um fjölda bílastæða og frágang þeirra innan og utan lóðar. Hvorki í skipulagslögum né skipulagsreglugerð er mælt fyrir um að við útgáfu byggingarleyfis skuli uppfylla skilyrði um fjölda bílastæða eða kveða á um fyrirkomulag bílastæða með öðrum hætti. Þó skal byggingarleyfi vera í samræmi við byggingarreglugerð, sbr. 11. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010. Í gr. 6.1.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 kemur fram að við breytingar á þegar byggðu mannvirki skuli eftir því sem unnt sé byggja á sjónarmiðum algildrar hönnunar. Ákveðin skilyrði gilda um bílastæði hreyfihamlaðra skv. gr. 6.2.4. í reglugerðinni en hins vegar segir í 3. mgr. gr. 6.1.5. að ef sérstökum erfiðleikum sé bundið að uppfylla ákvæði þess hluta reglugerðarinnar, án þess að breyta að verulegu leyti megingerð mannvirkis, burðarvirki, útliti, innra skipulagi eða öðrum sérkennum sem vert sé að varðveita, geti leyfisveitandi heimilað að vikið sé frá einstökum ákvæðum. Í slíkum tilvikum skuli hönnuður skila sérstakri greinargerð um það hvaða ákvæðum óskað sé eftir að víkja frá, um ástæður þess að ekki sé unnt að uppfylla þau og hvort unnt sé með öðrum hætti að tryggja aðgengi þannig að markmið þess hluta reglugerðarinnar séu uppfyllt. Slík greinargerð var lögð fram með umsókn byggingarleyfisins og kom þar m.a. fram að um væri að ræða steinsteypt hús frá árinu 1936 og sé erfitt að uppfylla kafla reglugerðar um algilda hönnun sökum staðsetningar húss á lóð, eldri hönnunar og landslags. Með greinargerðinni fylgdi listi yfir þær greinar reglugerðarinnar sem óskað var undanþágu frá, þ. á m. gr. 6.2.4. um bílastæði hreyfihamlaðra. Þar segir jafnframt að vegna þeirra undanþága sem óskað sé eftir sé ljóst að umferð hreyfihamlaðra verði takmörkuð í húsinu. Með samþykki byggingarfulltrúa á hinni umþrættu umsókn heimilaði hann að vikið yrði frá skilyrðum byggingarreglugerðar um bílastæði hreyfihamlaðra auk annarra ákvæða reglugerðarinnar. Að framangreindu virtu verður ekki talið að skortur á upplýsingum um fyrirkomulag bílastæða valdi ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar. Voru því skilyrði 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga uppfyllt og heimilt að grenndarkynna byggingarleyfisumsóknina. Þá verður ekki annað séð en að málsmeðferð hafi að öðru leyti verið í samræmi við ákvæði skipulagslaga.

Kærandi telur að jafnræðisregla 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hafi verið brotin í málinu og í þeim efnum vísar hann til nokkurra afgreiðslna skipulagsyfirvalda þar sem íbúðum var fjölgað á lóð með kröfu um fjölda bílastæða. Ekki verður talið að um sambærileg tilvik sé að ræða enda höfðu nefnd leyfi verið afgreidd í tíð byggingarreglugerðar nr. 441/1998, sem sett voru með stoð í skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997, en í þeirri reglugerð voru ákvæði um fjölda bílastæða fyrir lóðir á svæðum þar sem ekki var deiliskipulag í gildi. Þá verður heldur ekki talið að afgreiðsla byggingarfulltrúans á byggingarleyfisumsókn vegna Brákarbrautar 1, þar sem afgreiðslu málsins var frestað m.a. vegna þess að ekki lágu fyrir upplýsingar um bílastæði, verði talið sambærilegt tilvik enda ekki um sambærilegar lóðir að ræða.

Með hinu kærða byggingarleyfi fjölgar íbúðum á lóð Egilsgötu 6. Ljóst er að slíkt getur haft áhrif á grenndarhagsmuni kæranda, t.a.m. vegna aukinnar umferðar og umgangs um sameiginlegar tröppur. Aftur á móti verður ekki talið að heimilaðar breytingar raski grenndarhagsmunum kæranda að því marki að ógildingu varði. Telur úrskurðarnefndin rétt að benda á að lögmætis­athugun nefndarinnar einskorðast við hið útgefna byggingarleyfi, sem felur í sér heimild til breytinga á innra skipulagi Egilsgötu 6, en tekur ekki til skoðunar þann atvinnurekstur sem er eða kann að verða staðsettur í húsinu. Á það skal þó bent að telji kærandi málsmeðferð sveitarfélagsins ábótavant að öðru leyti eða að það hafi ekki sinnt skyldum sínum, s.s. vegna atvinnurekstrar í því húsi sem um ræðir, getur hann leitað til samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins á grundvelli eftirlits- og yfirstjórnarhlutverks þess.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Borgarbyggð frá 15. júní 2020 um að samþykkja umsókn um byggingarleyfi til að breyta húsnæði á lóð nr. 6 við Egilsgötu í þrjár stúdíóíbúðir á neðri hæð og eina íbúð á efri hæð.

15/2020 Naustabryggja

Með

Árið 2020, föstudaginn 28. ágúst, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 15/2020, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 22. janúar 2020 um að hafna kröfu um að Reykjavíkurborg tryggi án tafar aðgengi fyrir hreyfihamlaða að aðalinngangi Naustabryggju 31 og 33, Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 21. febrúar 2020, sem barst nefndinni sama dag, kærir húsfélagið Naustabryggju 31-33, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 22. janúar 2020 um að hafna kröfu um að Reykjavíkurborg tryggi án tafar aðgengi fyrir hreyfihamlaða að aðalinngangi Naustabryggju 31 og 33, Reykjavík.

Skilja verður málskot kæranda svo að krafist sé ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 30. apríl 2020.

Málavextir: Fyrirliggjandi gögn bera það með sér að kærandi og borgaryfirvöld hafa átt í samskiptum frá árinu 2017 vegna aðgengis fyrir hreyfihamlaða að Naustabryggju 31-33 í Reykjavík. Byggingarfulltrúa barst tölvupóstur frá kæranda 10. janúar 2018, þar sem spurt var um hvort verk fengi lokaúttekt ef ákvæði um frágang, fjölda og stærð bílastæða fyrir hreyfi­hamlaða væri ekki fullnægt. Einnig var spurt hvort verktaki fengi leyfi fyrir slíkri framkvæmd, þar sem fyrir lægi að lóð aðalinngangs byggingar væri á einkalóð annarra en þeirra sem byggju í umræddri byggingu og hvort eða hvernig hann gæti þá uppfyllt skilyrði lokaúttektar um stæði fyrir hreyfihamlaða. Erindinu var svarað að hluta til með tölvupósti starfsmanns skipulags­fulltrúa 15. s.m. á þann veg að kæranda hefði í tvígang verið sendir tölvupóstar með fylgi­gögnum er vörðuðu svæðið.

Hinn 22. febrúar 2019 barst Reykjavíkurborg annað erindi frá kæranda þar sem vakið var máls á því að bygging Naustabryggju 31-33 og annar frágangur stangaðist á við byggingarreglugerð nr. 112/2012 þar sem engin aðkoma væri fyrir hreyfihamlaða. Byggingarfulltrúi svaraði erindinu með tölvupósti 7. mars 2019, þar sem meðal annars var vísað til teikningar af bílakjallaranum á lóð Naustabryggju 17-19 og 31-33 og Tangabryggju 6-8, 10 og 12-12A, en þar komi fram að í kjallaranum séu fjögur bílastæði fyrir hreyfihamlaða og önnur átta bílastæði fyrir hreyfihamlaða séu á lóð fyrir utan bílageymslu sem tilheyri húsunum.

Með tölvupósti til skipulagsfulltrúa 20. júní 2019 fór kærandi fram á við borgaryfirvöld að gildandi deiliskipulagi yrði breytt þannig að Naustabryggja 31-33 fengi afnot af bílastæðum norðan við húsið og stæði fyrir fatlaða yrði merkt hið fyrsta ásamt því að tryggja aðkomu neyðarbíla. Erindinu var svarað af hálfu skipulagsfulltrúa 12. september s.á. þar sem skipulagslegar aðstæður voru skýrðar. Í svarpósti skipulagfulltrúa kom meðal annars fram að ef óskað væri eftir afstöðu skipulagsfulltrúa hvort mögulegt væri að breyta deiliskipulagi þyrfti að senda fyrirspurn þess efnis í gegnum rafræna Reykjavík.

Hinn 5. nóvember 2019 sendi kærandi Reykjavíkurborg erindi að nýju og var því svarað með tölvupósti yfirverkfræðings byggingarfulltrúa 20. nóvember 2019 og fylgdi í viðhengi öryggis- og lokaúttekt byggingarfulltrúa vegna umræddrar byggingar ásamt umsókn um byggingarleyfi og afgreiðslu hennar í fundargerð. Byggingarfulltrúi svaraði jafnframt erindinu með tölvupósti sama dag. Þar kom meðal annars fram að ekki yrði annað séð en að gerð væri góð grein fyrir algildri hönnun og aðkomu fyrir alla á samþykktum teikningum. Með tölvupósti 24. nóvember 2019 til Reykjavíkurborgar áréttaði kærandi kröfu íbúa Naustabryggju 31-33 að skilyrðum byggingarreglugerðar væri fylgt og a.m.k. þrjú bílastæði fyrir hreyfihamlaða yrði komið fyrir innan 25 m fjarlægðar frá aðalinngangi þessara tveggja stigaganga. Erindinu var svarað af hálfu byggingarfulltrúa 25. nóvember s.á. Ítrekaði hann að embættið hafi ekki komið að gerð deiliskipulags. Kröfur um bílastæði fyrir hreyfihamlaða samkvæmt byggingarreglugerð væru uppfylltar í bílastæðakjallara. Vissulega væri erfitt að koma fyrir bílastæðum fyrir hreyfi­hamlaða við götu, nálægt aðalinngöngum hússins vegna staðsetningar lóðarmarka til norðurs, en bæði væru merkt bílastæði fyrir hreyfihamlaða á lóðinni og við næstu götur. Þau væru þó vissulega ívið lengra frá aðalinngöngum en kveðið væri á um í byggingarreglugerð. Því yrði ekki breytt á meðan lóðarmörkin við norðurhlið húsanna nr. 31-33 við Naustabryggju væru eins og raun bæri vitni samkvæmt gildandi deiliskipulagi.

Með tölvupósti sem var sendur af hálfu skrifstofu borgarstjóra og borgarritara til byggingar­fulltrúa 21. janúar 2020 var þess óskað að tekin yrðu saman þau svör sem veitt hafi verið vegna fyrirspurna kæranda og honum sent heildstætt lokasvar vegna ítrekunar hans á því að ófullnægjandi svör hafi borist við erindi hans. Með bréfi byggingarfulltrúa, dags. 22. s.m., voru samskipti borgaryfirvalda og kæranda reifuð og í niðurstöðu bréfsins var eftirfarandi tekið fram: „Ítrekað er að fyrirkomulag bílastæða fyrir hreyfihamlaða er í samræmi við ákvæði byggingarreglugerðar, en eins og áður hefur komið fram er kröfum um bílastæði fyrir hreyfi­hamlaða þegar fullnægt í bílakjallara hússins, en auk þeirra eru stæði fyrir hreyfihamlaða á lóð. Kröfu þinni um að Reykjavíkurborg tryggi, án tafar, aðgengi fyrir hreyfihamlaða að aðal­inngangi Naustabryggju 31-33 er því hafnað.“ Var og tilkynnt að embættið muni ekki aðhafast frekar vegna málsins og kæranda bent á að afgreiðsla erindis hans væri kæranleg til úrskurðar­nefndar umhverfis- og auðlindamála. Var þessi afgreiðsla byggingarfulltrúa borin undir úrskurðarnefndina eins og að framan greinir.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að aðgengi fyrir fatlaða sé ekki tryggt frá bílakjallara Naustabryggju 31-33. Bílastæðin séu án sérstakrar hönnunar sem sýni sig til dæmis í því að hurðir á milli kjallara og íbúðarhúss séu ekki með sjálfvirkum opnara. Þá séu hvorki uppfyllt skilyrði um fjarlægð né fjölda stæða. Byggingarfulltrúi hafi staðfest að stæðin séu lengra frá en byggingarreglugerð nr. 112/2012 geri ráð fyrir. Reykjavíkurborg sé ekki heimilt að víkja með samningum frá ákvæðum byggingarreglugerðar um aðgengi fatlaðra. Núverandi skipulag hafi þá þýðingu að íbúar hússins geti ekki keypt sér þjónustu að heimili sínu um það gatnakerfi sem liggi að húsinu heldur þurfi þeir að gefa upp annað heimilisfang. Þetta bjóði upp á að skipulag borgarinnar sé að óþörfu bæði óáreiðanlegt og handahófskennt. Kærandi telji að lagfæra megi stöðuna með því að gera bílastæði norðanmegin og næst húsinu að framanverðu sem liggi að borgarlandi.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er vísað til þess að í samþykktri byggingarlýsingu á aðaluppdráttum fyrir Naustabryggju 31-33, dags. 10. október 2014, segi um bílastæði fyrir hreyfihamlaða: „Bílageymsla er aðgangsstýrð, og er eitt stæði fyrir hverja íbúð. Útisvæði fyrir húsin eru á lóðinni 12E og við götur. Sjá nánar bílastæða-bókhald hér að ofan. Gert er ráð fyrir bílastæðum fyrir hreyfihamlaða.“ Í samþykktri byggingarlýsingu sé einnig með ítarlegum hætti fjallað um algilda hönnun. Þar segi að íbúðir séu hannaðar með þeim hætti að auðvelt sé að taka þær í notkun fyrir einstaklinga í hjólastól. Á samþykktum aðaluppdráttum fyrir bílageymslu komi fram að gert sé ráð fyrir fjórum bílastæðum ætluðum hreyfihömluðum. Þar að auki komi fram í bréfi byggingarfulltrúa til forsvarsmanns kæranda að gert sé ráð fyrir átta bílastæðum fyrir hreyfihamlaða á lóð fyrir utan bílgeymslu. Bendi byggingarfulltrúi á að hafi þessi stæði ekki verið merkt hreyfihömluðum sérstaklega, þá skuli slíkt gert í samræmi við samþykkt byggingarleyfi.

Í gr. 6.2.4. byggingarreglugerðar nr. 112/2012 sé fjallað um bílastæði fyrir hreyfihamlaða. Í 5. mgr. greinarinnar sé að finna töflu 6.01 þar sem gerð sé grein fyrir lágmarksfjölda bílastæða fyrir hreyfihamlaða við íbúðarhús. Samkvæmt samþykktu byggingarleyfi fyrir fasteignina Naustabryggju 31-33 séu íbúðir í fasteigninni 30 talsins. Samkvæmt því skuli að lágmarki gera ráð fyrir þrem bílastæðum ætluðum þeirri fasteign. Fasteignin sé á lóð með fleiri matshlutum og deili bílakjallara þar að auki. Í heildina sé gert ráð fyrir 12 bílastæðum fyrir hreyfihamlaða. Miðað við heildarmagn íbúða á lóðinni verði ekki annað sé en að krafa byggingarreglugerðar um lágmarksfjölda bílastæða ætluðum hreyfihömluðum hafi verið uppfyllt.

Samkvæmt gildandi deiliskipulagi sem taki til fasteignarinnar Naustabryggju 31-33 liggi lóðar­mörk að bílastæðalóð sem tilheyri Naustabryggju 35-55 og 55-57. Eina aðkoman að Nausta­bryggju 31-33 sé um gönguleið sem liggi að lóðarmörkum og því sé ekki hægt að komast að inngangi nema um þá aðkomu. Naustabryggja 31-33 hafi hvorki þinglýsta kvöð né skipulags­kvöð um umferð um bílastæðalóðina. Fasteignin sé í samræmi við gildandi deiliskipulag. Lóðarmörk séu skýr sem og skipulagsskilmálar. Tekið sé undir það sem fram komi í bréfi byggingarfulltrúa, dags. 5. nóvember 2019, um að byggingarfulltrúi hafi ekkert með gerð deiliskipulags að gera. Hlutverk byggingarfulltrúa sé meðal annars að veita byggingarleyfi í samræmi við gildandi deiliskipulag.

Niðurstaða: Fyrirliggjandi gögn málsins bera með sér að kæranda og Reykjavíkurborg greini á um aðkomu að Naustabryggju 31-33 og fyrirkomulag bílastæða fyrir hreyfihamlaða við fasteignina. Með hinni kærðu ákvörðun var kröfu íbúa Naustabryggju 31-33 um að borgaryfirvöld tryggðu án tafar aðgengi hreyfihamlaðra að aðalinngangi hússins hafnað með þeim rökum að fyrirkomulag bílastæða fyrir hreyfihamlaða væri í samræmi við ákvæði byggingarreglugerðar.

Í gr. 6.2.4. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 er fjallað um bílastæði fyrir hreyfihamlaða. Þar segir í 1. mgr. að bílastæði skulu vera sérstaklega merkt á yfirborði og einnig með lóðréttu skilti og að eitt af hverjum fimm bílastæðum, þó aldrei færri en eitt, skuli vera 4,5×5,0 m að stærð og við enda þeirra athafnasvæði, um 3 m að lengd. Þau skulu vera sem næst aðalinngangi bygginga, ekki fjær en u.þ.b. 25 m. Mælt er fyrir um það í 5. mgr. að fjöldi bílastæða fyrir hreyfihamlaða við íbúðarhús, önnur en sérbýlishús, skuli að lágmarki vera samkvæmt töflu 6.01. Í þeirri töflu kemur fram að þegar fjöldi íbúða sé á bilinu 21-40 skuli vera þrjú bílastæði fyrir hreyfihamlaða. Í 9. mgr. ákvæðisins er síðan kveðið á um að ávallt skuli gera ráð fyrir bílastæðum sem henti fyrir hreyfihamlaða í bílgeymslum sem almenningur hafi aðgang að og að fækka megi bíla­stæðum á lóð mannvirkis samkvæmt töflu 6.01 sem nemi fjölda sérmerktra stæða fyrir hreyfi­hamlaða í sameiginlegri bílgeymslu, enda sé tryggt að gestkomandi hafi ávallt aðgang að hluta stæðanna.

Fjölbýlishúsið að Naustabryggju 31-33 er með 30 íbúðum og skulu þar því vera þrjú bílastæði fyrir hreyfihamlaða, sbr. nefnda gr. 6.2.4. í byggingarreglugerð. Á samþykktum uppdráttum byggingarleyfis hússins kemur fram að þar skuli vera fjögur sérmerkt bílastæði fyrir hreyfi­hamlaða í sameiginlegri bílageymslu fyrir fjölbýlishúsin að Tangabryggju 6-8, 10, 12 og Naustabryggju 17-19, 31-33 og 15B. Þá er og gert ráð fyrir átta stæðum fyrir hreyfihamlaða á lóð fyrir utan bílgeymslu, merkt 12E á skipulagsuppdrætti.

Í gildi er deiliskipulag Bryggjuhverfisins, síðast breytt með ákvörðun borgarráðs frá 18. desember 2017, vegna húsa 12A, B, C, D, E og 15C + spennistöð. Samkvæmt skipulaginu liggja lóðarmörk Naustabryggju 31-33 að bílastæðalóð sem tilheyrir Naustabryggju 35-55 og 55-57. Bílastæði fyrir hreyfihamlaða, sem gert er ráð fyrir að séu staðsett á bílastæðalóð 12E, eru samkvæmt lóðarblaði um eða yfir 60 m frá bílastæðinu að þeim inngangi Naustabryggju 31-33, sé farið með austurhlið lóðarinnar að framhlið hússins. Samkvæmt framangreindri 2. mgr. gr. 6.2.4. byggingarreglugerðar skulu bílastæði fyrir hreyfihamlaða ekki vera fjær aðalinngangi byggingar en u.þ.b. 25 m. Er ákvæði greinarinnar um hámarksfjarlægð umræddra stæða frá aðalinngangi umrædds húss því ekki uppfyllt.

Með hliðsjón af framangreindu eru annmarkar á rökstuðningi hinnar kærðu ákvörðunar sem leiða til ógildingar. Breytir engu í því efni þótt nefnt fyrirkomulag sé í samræmi við deiliskipulag og samþykkta aðaluppdrætti, enda getur deiliskipulag ekki vikið til hliðar ákvæðum byggingar­reglugerðar og samkvæmt 11. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010 skulu samþykktir aðal­uppdrættir vera í samræmi við ákvæði framangreindrar reglugerðar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 22. janúar 2020 um að hafna kröfu um að Reykjavíkurborg tryggi án tafar aðgengi fyrir hreyfihamlaða að aðalinngangi Naustabryggju 31 og 33, Reykjavík.

119/2019 Týsgata við Lokastíg

Með

Árið 2020, föstudaginn 31. janúar, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011 fyrir:

Mál nr. 119/2019, kæra á ákvörðun skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkur frá 30. október 2019 um að stæði í Týsgötu vestan Lokastígs verði skilgreind sem stæði til vöruafgreiðslu og að þar verði ekki heimil lagning ökutækja.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 28. nóvember 2019, er barst nefndinni sama dag, kæra Hótel Óðinsvé ehf., Þórsgötu 1, og Gamma ehf., eigandi Týsgötu 8, þá ákvörðun skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkur frá 30. október 2019 að stæði í Týsgötu vestan Lokastígs verði skilgreint sem stæði til vöruafgreiðslu og að þar verði ekki heimil lagning ökutækja. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að þau bílastæði sem um ræði verði almenn bílastæði á gjaldsvæði 2.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 10. janúar 2020.

Málsatvik og rök: Hinn 30. október 2019 var á fundi skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkur lagt fram bréf skrifstofu og samgöngustjóra og borgarhönnunar, dags. 24. október 2019, þar sem lagt var til að stæði í Týsgötu vestan Lokastígs verði skilgreind sem stæði til vöruafgreiðslu og að þar verði ekki heimil lagning ökutækja. Var tillagan samþykkt með fyrirvara um samþykki lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins, sbr. 2. mgr. 81. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.

Kærendur vísa til 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála og 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 138/2011 varðandi kæruheimild. Þeir séu hagsmunagæsluaðilar við Týsgötu, Þórsgötu og Lokastíg. Um langt árabil hafi vöruafgreiðsla fyrir hótelið og veitingastaði þess verið um bakhurð í bílastæðaporti við Lokastíg í samræmi við óskir Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur. Séu húsnæði kærenda í raun einu húsnæðin við Óðinstorg og nálægar götur sem þurfi á reglulegum vöruafgreiðslum að halda. Hafi fyrirkomulagið við að afhenda varning gengið vel og ekki verið nokkrum til ama. Með fyrirhuguðum breytingum verði ekkert bílastæði fyrir framan hótelið sem sé algjörlega ótækt. Þau örfáu bílastæði sem séu eftir séu nú einvörðungu ætluð til vöruafgreiðslu í stað þess að gestir hótelsins og veitingastaðarins, sem og aðrir sem sæki þjónustu í hverfið, geti nýtt sér bílastæðin. Þau verði meira og minna ónotuð þrátt fyrir þann mikla hörgul sem sé á bílastæðum í hverfinu. Hagsmunir eiganda Týsgötu 8 fari saman við hagsmuni hótelsins að þessu leyti þar sem íbúðir félagsins við Týsgötu 8 séu nýttar til skammtímagistingar. Þá sé fyrirhuguð framkvæmd ekki í samræmi við skipulag. Í athugasemdum kærenda við greinargerð Reykjavíkurborgar árétta þeir að lögvarðir hagsmunir þeirra séu fyrir hendi og að nefndinni beri að taka málið til efnislegrar meðferðar. Af hálfu Reykjavíkurborgar er þess krafist að málinu verði vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem kærendur hafi ekki lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kærð sé. Umrædd stæði séu almenn bílastæði á borgarlandi sem kærendur og viðskiptavinir þeirra hafi ekkert tilkall til eða forgang í. Samkvæmt umferðarlögum nr. 50/1987 hafi sveitarstjórn fulla heimild til að gera tillögur að varanlegum sérákvæðum um notkun vega, þar á meðal um stöðvun eða lagningu ökutækja.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur úrskurðarnefndin það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á þessu sviði. Er slíka kæruheimild t.a.m. að finna í 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 þar sem segir að stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laganna sæti kæru til úrskurðarnefndarinnar. Verður þó ekki séð að fyrir liggi nein ákvörðun samkvæmt þeim lögum heldur var hin kærða ákvörðun tekin á grundvelli 2. mgr. 81. gr. þágildandi umferðarlaga nr. 50/1987 er mælir fyrir um að lögreglustjóri geti, að fengnum tillögum sveitarstjórna, kveðið á um önnur varanleg sérákvæði um notkun vegar til umferðar, svo sem stöðvun og lagningu ökutækja, sbr. a-lið ákvæðisins. Almenna kæruheimild til úrskurðarnefndarinnar er ekki að finna í nefndum umferðarlögum. Þá verða tillögur sveitarstjórna ekki bornar undir úrskurðarnefndina þar sem aðeins þær ákvarðanir sem binda endi á mál verða bornar undir kærustjórnvald samkvæmt 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Verður kærumáli þessu af framangreindum sökum vísað frá nefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

125/2018 Lækjargata Suðurgata

Með

Árið 2019, fimmtudaginn 12. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 125/2018, kæra á ákvörðun bæjarráðs Hafnarfjarðar frá 12. júlí 2018 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi fyrir lóðirnar Lækjargötu 2 og Suðurgötu 7, Hafnarfirði.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 9. október 2018, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur Lækjargötu 4, 6 og 8, Hafnarfirði, og eigendur Brekkugötu 5, 7, 8 og 9, Hafnarfirði, þá ákvörðun bæjarráðs Hafnarfjarðar frá 12. júlí 2018 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi fyrir lóðirnar Lækjargötu 2 og Suðurgötu 7, Hafnarfirði. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Hafnarfjarðarbæ 28. nóvember 2018.

Málavextir: Í desember árið 2013 samþykkti skipulags- og byggingarráð Hafnarfjarðar skipulagsforsögn fyrir lóðina Lækjargötu 2 og var sú forsögn samþykkt í bæjarstjórn Hafnar­fjarðar 17. febrúar 2016. Á grundvelli hennar samþykkti skipulags- og byggingarráð 9. febrúar 2018 að auglýsa tillögu að breyttu deiliskipulagi. Var hún auglýst til kynningar frá 9. maí til 20. júní s.á. og bárust athugasemdir við tillöguna, m.a. frá kærendum. Skipulags- og byggingarráð fól skipulagsfulltrúa að taka saman umsögn um framkomnar athugasemdir og var hún samþykkt ásamt deiliskipulagstillögunni á fundi ráðsins 10. júlí 2018. Bæjarráð samþykkti tillöguna 12. s.m. Hin samþykkta deiliskipulagsbreyting var send Skipulagsstofnun til lögmæltrar yfirferðar og tilkynnti stofnunin í bréfi, dags. 10. ágúst s.á., að ekki væru gerðar athugasemdir við að auglýsing um samþykkt deiliskipulagstillögunnar yrði birt í B-deild Stjórnartíðinda. Þó var farið fram á að nokkur atriði yrðu leiðrétt áður en til birtingar kæmi og sendu bæjaryfirvöld leiðrétt gögn til Skipulagsstofnunar 28. ágúst 2018. Deiliskipulagsbreytingin tók síðan gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 13. september 2018.

Málsrök kæranda: Kærendur benda á að auglýsing hins umdeilda deiliskipulags hafi ekki verið samþykkt í bæjarstjórn. Á fundi skipulags- og byggingarráðs 2. febrúar 2018 hafi tillaga að breyttu deiliskipulagi verið samþykkt í samræmi við 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Engin bókun sé sjáanleg í fundargerðum bæjarins eftir þetta fyrr en í skipulags- og byggingarráði 26. júní s.á. þegar auglýsingarferli hafi verið lokið og byrjað hafi verið að fjalla um athugasemdir. Samkvæmt lokamálslið 4. mgr. 40 gr. skipulagslaga skuli deiliskipulags­tillaga lögð fyrir sveitarstjórn að lokinni undirbúningsvinnu og skv. 1. mgr. 41. gr. sömu laga skuli sveitarstjórn samþykkja deiliskipulagstillögu áður en hún sé auglýst. Skipulags- og byggingarráði hafi verið óheimilt að taka ákvörðun um að auglýsa hina kærðu deiliskipulags­tillögu skv. samþykkt um stjórn Hafnarfjarðarkaupstaðar og fundarsköp bæjarstjórnar nr. 525/2016 og erindisbréfi skipulags- og byggingarráðs, dags. 7. desember 2011. Samkvæmt 41. gr. samþykktarinnar sé skipulags- og byggingarráði einungis heimilt að afgreiða mál án staðfestingar bæjarstjórnar á grundvelli erindisbréfs. Í 2. mgr. 7. gr. erindisbréfsins komi fram að afgreiðslu erinda sem kveðið sé á um í skipulagslögum skuli vísað til bæjarstjórnar. Lögbundinn grundvöllur málsmeðferðarinnar sé því ekki til staðar í máli þessu og hið kærða deiliskipulag því ógilt.

Skipulagsuppdráttur með greinargerð, sem samþykktur hafi verið í skipulags- og byggingarráði 9. febrúar 2018, sé ekki eins og sá sem samþykktur hafi verið í bæjarráði 12. júlí s.á. Þá liggi ekki fyrir hvernig skipulagsuppdráttur sá sem auglýstur hafi verið líti út en hann sé ekki aðgengilegur á vefsíðu bæjarins og hafi ekki verið í þeim gagnapakka sem kærendur hafi fengið frá bænum þegar óskað hafi verið eftir öllum gögnum málsins. Ósamræmi sem þetta geri samþykkt deiliskipulagsins marklausa.

Mikill flýtir hafi einkennt afgreiðslu deiliskipulagsins í nefndum bæjarins. Athugasemdir hafi verið teknar fyrir í skipulagsráði á nokkrum mínútum án þess að nokkuð tillit væri til þeirra tekið og málið keyrt í gegn í bæjarráði tveimur dögum síðar. Telja verði að svo mikilvægt mál, sem varði verulega fjárhagslega hagsmuni bæjarins ásamt því að hafa varanleg áhrif til hins verra á ásýnd bæjarins, hefði átt að vera tekið fyrir í bæjarstjórn í stað bæjarráðs. Samkvæmt 5. mgr. 35. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 sé bæjarráði ekki heimilt að fullnaðarafgreiða mál sem varði verulega fjárhagslega hagsmuni sveitarfélags. Í þessu máli sé vissulega um það að ræða enda sé verðmæti byggingarréttar á þessum stað umtalsvert í ljósi stöðu bæjarsjóðs.

Samkvæmt 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga skuli sveitarstjórn taka deiliskipulagstillögu til umræðu að undangenginni umfjöllun skipulagsnefndar þegar frestur til athugasemda sé liðinn. Í þeirri umfjöllun skuli taka afstöðu til athugasemda sem borist hafi og þess hvort gera skuli breytingar á tillögunni. Umfjöllun skipulagsnefndar og bæjarráðs um framkomnar athugasemdir hafi verið nær engin að undanskilinni bókun bæjarfulltrúa í minnihluta í bæjarráði. Umsögn skipulags­fulltrúa hafi verið samþykkt án nokkurrar umræðu. Umsögnin sjálf hafi ekki að geyma viðhlítandi greiningu á athugasemdum. Þeim sé öllum svarað í örfáum línum án nokkurrar tilvísunar til þess að málið hafi verið rannsakað sérstaklega. Ekki verði talið að skipulagsnefnd og bæjarráð hafi fjallað með viðhlítandi hætti um athugasemdir heldur hafi meirihluti í þessum nefndum hunsað þær og samþykkt deiliskipulagstillöguna án þess að vera sérstaklega meðvitaður um efni athugasemda.

Samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skuli stjórnvald sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun sé tekin í því. Stjórnsýslulög gildi um skipulagsákvarðanir enda séu skipulagsmál ekki sérstaklega undanskilin í 1. mgr. 2. gr. laganna. Við vinnslu deiliskipulags fyrir Lækjargötu 2 hafi komið upp fjölmörg álitaefni sem þörf hafi verið að rannsaka áður en ákvörðun yrði tekin. Rannsókn á þessum atriðum hafi aldrei farið fram. Þar beri fyrst að nefna að engin raunveruleg rannsókn hafi farið fram á bílastæðamálum á deiliskipulagssvæðinu og nágrenni þess. Engin rannsókn hafi farið fram á útsýnisskerðingu og skuggavarpi þrátt fyrir að alvarlegar athugasemdir þar að lútandi hafi komið fram. Þá hafi engin rannsókn verið framkvæmd á áhrifum deiliskipulagsins á umferðarmagn og umferðaröryggi á svæðinu. Loks hafi húsakönnun ekki verið framkvæmd eins og áskilið sé í 5. mgr. 37. gr. skipulagslaga.

Alvarlegur ágalli sé á málsmeðferð Hafnarfjarðarbæjar í tengslum við athugasemdir Skipulags­stofnunar frá 10. ágúst 2018. Stofnunin hafi ekki bannað auglýsingu skipulagsins heldur krafist úrbóta á því. Gallarnir séu hins vegar svo alvarlegir að stofnunin hefði átt að stöðva gildistöku deiliskipulagsins og leggja fyrir bæinn að vinna það og auglýsa upp á nýtt. Athugasemdir stofnunarinnar hafi verið þær að nýtingarhlutfall lóðar hafi verið rangt svo um munaði, að skilmála um að fella hús að aðliggjandi byggð hafi vantað, að leyfilegur fjöldi íbúða hafi ekki verið tilgreindur, að byggingarreitur og aðkoma að bílakjallara væri óskýr, að kvöð um aðgengi til viðhalds o.fl. hafi vantað og að merkingar bygginga sem ættu að víkja hafi vantað. Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga skuli sveitarstjórn taka athugasemdir Skipulagsstofnunar til umræðu. Þetta sé ófrávíkjanleg regla. Samt sem áður sé ekki hægt að sjá að bréf Skipulagsstofnunar hafi komið til umræðu í nefndum bæjarins. Bærinn hafi farið þá leið að breyta deiliskipulagsuppdrættinum í kyrrþey án aðkomu þar til bærra nefnda. Breyttur uppdráttur hafi síðan verið sendur Skipulagsstofnun og deiliskipulagið að því búnu verið auglýst í B-deild Stjórnartíðinda. Þetta sé augljóst og alvarlegt brot á ófrávíkjanlegri reglu skipulagslaga. Það miklir gallar hafi verið á deiliskipulaginu að vinna hefði átt það upp á nýtt og auglýsa að nýju eftir að búið væri að gera breytingar á því í samræmi við athugasemdir Skipulagsstofnunar. Samkvæmt 43. gr. skipulagslaga skuli fara með breytingu á deiliskipulagi eins og um nýtt deiliskipulag sé að ræða og þar með talið sé að auglýsa það að nýju. Í deiliskipulagið, sem upphaflega hafi verið auglýst, hafi vantað grundvallarupplýsingar. Þetta kippi grundvellinum undan kynningarferli skipulagsins. Óskýrleiki þess hafi verið slíkur að hagsmunaaðilar hafi ekki haft nægar upplýsingar til að móta upplýsta afstöðu til allra þátta skipulagsins. Þar sé íbúðafjöldi t.d. mjög mikilvægur með tilliti til umferðarmagns og bílastæðamála. Það blasi því við að auglýsingarferli skipulagsins hafi verið svo meingallað að það hefði þurft að endurtaka málsmeðferðina þegar endurgerð skipulagsgögn hafi legið fyrir.

Samkvæmt 1. mgr. 40. gr. skipulagslaga beri sveitarstjórn að taka saman lýsingu á skipulagsverkefni þar sem fram komi hvaða áherslur sveitarstjórn hafi við deiliskipulagsgerðina og upplýsingar um forsendur,  fyrirliggjandi stefnu og fyrirhugað skipulagsferli, svo sem um kynningu og samráð við skipulagsgerðina gagnvart íbúum og öðrum hagsmunaaðilum. Í aðdraganda hins kærða deiliskipulags hafi verið gerðar nokkrar skipulagsforsagnir þar sem markmiðum og tilhögun verkefnisins hafi verið lýst. Í öllum þessum forsögnum hafi verið atriði sem hafi verið algjörlega sniðgengin í deiliskipulaginu sem samþykkt hafi verið. Í skipulagsforsögn 26. maí 2008 komi m.a. fram að markmið sé að endurskapa það yfirbragð byggðar sem verið hafði á reitnum áður en Dvergshúsið hafi verið byggt. Enn fremur að reynt skuli af fremsta megni að endurskapa byggingarstíl fyrri tíma með hliðsjón af nærliggjandi byggð. Leggja skuli áherslu á að opna sýn frá miðbænum að byggðinni fyrir ofan og að Hamrinum. Í skipulagsforsögn 10. desember 2013 komi fram svipuð sjónarmið. Í skipulagsforsögn sem fylgdi útboðsgögnum í apríl 2017 komi fram að við mótun húsa skuli tekið mið af því að lóðin sé á viðkvæmu svæði í nágrenni við fastmótaða miðbæjarbyggð. Leitast skuli við að fella húsin að aðliggjandi húsum við Lækjargötu og Brekkugötu, hvað varði form, efnisval og stærðarhlutföll, þannig að þau virki sem eðlilegt framhald af þeirri byggð. Almennt skuli ekki byggja hærra en tvær hæðir og lágt ris ofan á þak jarðhæðarinnar. Mikilvægt sé að opna innsýn/útsýn milli húsanna. Í forsögninni sé gert ráð fyrir nýtingarhlutfalli allt að 1,3 skv. lið 5.2 í forsögninni. Ekkert að þessum markmiðum skipulagsforsagnarinnar hafi verið virt þegar gengið hafi verið frá deiliskipulaginu. Stærð og form húsa sé í hróplegu ósamræmi við aðliggjandi byggð, útsýnislínur milli miðbæjar og Hamars séu ekki lengur til staðar og nýtingarhlutfall sé mun hærra en það hafi átt að vera samkvæmt forsögninni eða 1,89. Það sé ljóst að þar sem skipulagsforsagnir eða lýsingar séu lögbundnar skv. 40. gr. skipulagslaga þá eigi að fara eftir þeim við gerð skipulags. Skipulagsforsagnir séu gerðar marklausar ef þær séu sniðgengnar í skipulagsvinnunni og þar með sé brotið gegn 40. gr. Samkvæmt 3. mgr. 40. gr. skuli leita umsagnar Skipulagsstofnunar um lýsingar. Engin merki sjáist um að Hafnarfjarðarbær hafi sinnt þeirri skyldu.

Deiliskipulag skuli byggt á stefnu aðalskipulags skv. 3. mgr. 37. gr. skipulagslaga. Samkvæmt 7. mgr. 12. gr. sömu laga skuli gildandi skipulagsáætlanir vera í innbyrðis samræmi og aðalskipulag sé rétthærra en deiliskipulag. Samkvæmt þessum ófrávíkjanlegu lagaákvæðum verði að vera algert samræmi milli aðalskipulags og deiliskipulags. Í tilfelli hins kærða deiliskipulags skorti verulega á þetta lögboðna samræmi. Slíkt ósamræmi eigi að leiða til ógildingar deiliskipulagsins.

Ljóst sé að landnotkun samkvæmt hinu nýja deiliskipulagi fyrir Lækjargötu 2 sé ekki í samræmi við aðalskipulag bæjarins. Deiliskipulagið geri ráð fyrir íbúðarhúsnæði að meginstefnu til. Aðeins á jarðhæð meðfram Lækjargötu sé gert ráð fyrir verslun og þjónustu. Að öðru leyti sé um hreina íbúðarbyggð að ræða. Þannig séu húsin nr. 2a og 2e án nokkurs verslunar- og þjónusturýmis og sama eigi við suðurhluta húsanna nr. 2c og 2d. Meirihluti húsa og byggingarmagns á reitnum sé því í beinni andstöðu við aðalskipulag, sem kveði á um að fyrst og fremst skuli gera ráð fyrir verslunar- og þjónustustarfsemi og stjórnsýslu og að allt rými á jarðhæð skuli nýtt fyrir verslun, veitingahús og þjónustu.

Í aðalskipulagi Hafnarfjarðar komi fram að gæta skuli að samræmi við eldri byggð í bænum, sérstaklega með hliðsjón af því að mikil menningarleg verðmæti liggi í gömlum húsum í eldri hverfum bæjarins. Hið nýja deiliskipulag fyrir Lækjargötu 2 tryggi ekki nægilega að útlit húsa verði í samræmi við útlit aðliggjandi byggðar, t.d. séu engin ákvæði um ytra byrði húsa, s.s. klæðningar. Þá séu hæstu húsin sem heimiluð séu á reitnum umtalsvert hærri en aðliggjandi byggð, eða allt að 14,8 m há. Aðliggjandi deiliskipulagssvæðinu að Lækjargötu 2 séu tvö svæði þar sem hverfisvernd gildi samkvæmt aðalskipulagi.

Í greinargerð með aðalskipulaginu segi um almenn ákvæði hverfisverndar: Þrátt fyrir að hverfisverndarsvæðin nái ekki inn á lóðina Lækjargötu 2 sé nálægð þeirra við lóðina svo mikil að byggingar á lóðinni geti haft afgerandi áhrif á það yfirbragð sem vernda eigi samkvæmt ákvæðum um hverfisvernd. Því sé nauðsynlegt að byggingar á lóðinni taki mið af hefðum og yfirbragði nærliggjandi byggðar. Hæð húsa samkvæmt hinu kærða skipulagi sé meiri en hæð nærliggjandi húsa og ekki sé tryggt að ytra byrði sé í samræmi við það sem einkenni aðliggjandi byggð, þ.e. bárujárns- eða panelklæðningar. Þar að auki sé stærð byggingarreita og staðsetning innan lóðar í ósamræmi við umhverfið. Telja verði skylt að taka tillit til hverfisverndar þegar deiliskipulag sé gert fyrir svæði sem liggi á milli tveggja hverfisverndaðra reita. Að öðrum kosti sé verið að sniðganga markmið hverfisverndarákvæða og draga úr gildi verndarinnar.

Samkvæmt aðalskipulaginu skal viðhalda tengslum við sögu og menningararf með verndaráætlunum fyrir mannvirki og fornminjar. Í þessu sambandi veki sérstaka athygli að í stað þess að laga hina nýju byggð að menningarsögulegum verðmætum í nágrenninu sé í hinu kærða deiliskipulagi kveðið á um að breyta skuli friðuðu húsi til þess að samræmast nýju húsunum. Þarna sé um að ræða Góðtemplarahúsið eða Gúttó, sem byggt hafi verið árið 1886 og sé þar að leiðandi friðað skv. 29. gr. laga nr. 80/2012 um menningarminjar. Deiliskipulagið geri ráð fyrir að gerður verði nýr inngangur í húsið til aðlögunar að nýja skipulaginu. Þetta virðist hafa verið samþykkt án þess að álits Minjastofnunar hafi verið aflað og án tilkynningar til Minjastofnunar skv. 3. mgr. 16. gr. menningarminjalaga. Í stað þess að gæta að lögum og skilmálum aðalskipulags og vernda ásýnd gömlu húsanna í nágrenninu sé friðuðu húsi breytt til að þóknast hugmyndum verktaka sem standi að baki skipulaginu.

Eitt af helstu kennileitum Hafnarfjarðar, Hamarinn, sé beint fyrir ofan deiliskipulagssvæðið, en hann sé friðlýstur. Þess verði að gæta í tengslum við verndun náttúruminja að þær séu sjáanlegar og ekki kaffærðar af nærliggjandi mannvirkjum. Þetta sjónarmið komi fram í gögnum á fyrri stigum undirbúnings, s.s. í greinargerð sem samþykkt hafi verið á fundi bæjarstjórnar 1. júní 2008, en þar komi fram að leggja skuli sérstaka áherslu á að skapa opnari sýn frá miðbænum að byggðinni fyrir ofan og að Hamrinum. Sama komi fram í skipulagsforsögn, dags. 26. maí 2008. Með hinu nýja deiliskipulagi sé algjörlega horfið frá þessum markmiðum aðalskipulags og fyrri skipulagsforsagna. Mikið byggingarmagn á lóðinni og háar byggingar meðfram Brekkugötu byrgi sýn að Hamrinum enn meira en gamla Dvergshúsið gerði. Með þessu sé verið að ganga gegn markmiðum aðalskipulagsins.

Við gerð deiliskipulags á svæðum sem umkringd séu eldri byggð verði að gæta að því að spilla ekki heildaryfirbragði byggðar. Þetta sé almenn grundvallarregla í skipulagsmálum og sé sérstaklega tekið fram í aðalskipulagi Hafnarfjarðar hvað varði ásýnd gamalla bæjarhluta. Í hinu kærða deiliskipulagi sé verulega vikið frá því yfirbragði sem almennt sé til staðar í nágrenninu. Í fyrsta lagi sé húsagerð meðfram Brekkugötu ekki í neinu samræmi við þau hús sem fyrir séu. Nýju húsin eigi að vera allt að fjórar hæðir að meðtöldum kjallara og risi. Ekkert nærliggjandi hús sé af þeirri stærð. Í stað þess að hafa samsvarandi hæð á nýju húsunum og öðrum húsum þeim megin við Brekkugötu sé nýja húsalengjan mun hærri. Hæð byggðarinnar sé ekki látin fylgja landslaginu, sem felist í nokkuð brattri brekku í norðurenda Brekkugötu, heldur séu húsin teygð upp í sama hæðarkóta og húsin sem standi á brekkubrúninni, nokkru innar í götunni. Þetta eyðileggi ásýnd og samræmi í götunni algjörlega. Þá verði nýtingarhlutfall lóðarinnar Lækjargötu 2 mun hærra en á lóðunum í kring. Samkvæmt lagfærðum deiliskipulagsuppdrætti, sem gerður hafi verið eftir samþykkt bæjarráðs vegna athugasemda Skipulagsstofnunar, komi fram að nýtingarhlutfall á lóðinni sé 1,89. Nýtingarhlutfall í nágrenninu sé hins vegar á bilinu 0,18 til 0,89.

Þarna sé augljóslega ekki verið að taka mið af skilyrðum aðalskipulags við samræmi eldri og yngri byggðar og verið sé að raska byggðamynstri, ásýnd hverfisins og götumyndum Brekkugötu, Lækjargötu og Suðurgötu. Samkvæmt 5. mgr. 37. gr. skipulagslaga sé skylt að leggja mat á varðveislugildi svipmóts byggðar og einstakra bygginga sem fyrir séu með gerð húsakönnunar. Ekki verði séð af gögnum málsins að sérstök húsakönnun hafi farið fram í tilefni af deiliskipulagsvinnunni. Meta hefði þurft sérstaklega hús í næsta nágrenni við skipulagsreitinn með það fyrir augum að tryggja samræmt svipmót hverfisins.

Hið nýja deiliskipulag fyrir Lækjargötu 2 sé stórgallað að því leyti að augljóslega skorti á að fjöldi bílastæða dugi fyrir þá íbúðarbyggð og þjónustu sem verði á skipulagssvæðinu og næsta nágrenni. Ekki hafi verið nægilega rannsakað hvort bílastæði á svæðinu dugi og ef það hafi verið metið á einhvern hátt þá sé það mat rangt. Íbúar á svæðinu hafi notað almenningsbílastæði á baklóð Lækjargötu 2 um áratugaskeið og megi því segja að venjubundinn réttur eða hefð hafi skapað íbúum rétt til bílastæða á lóðinni. Þessi réttur sé nú hrifsaður á brott án þess að nokkuð komi í staðinn. Gífurleg þörf sé fyrir almenningsbílastæði á svæðinu og fyrir því séu nokkrar ástæður. Í fyrsta lagi séu húsagöturnar báðum megin við lóðina mjög þröngar og takmarkað hversu mörgum bílum sé hægt að leggja þar. Til dæmis sé ekki hægt að leggja bílum í neðri hluta Brekkugötu vegna þrengsla. Í öðru lagi sé stórt samkomuhús á næstu lóð, þ.e. Suðurgötu 7. Þar séu haldnar allt að þrjár samkomur á dag þar sem saman komi tugir meðlima í AA-samtökunum. Oft sé mjög þröngt á þingi fyrir utan húsið og það geti verið erfitt að aka Suðurgötuna vegna fjölda bifreiða sem lagt sé við húsið. Hluti fundargesta hafi notað stæðið á lóðinni Lækjargötu 2, en þegar það hverfi verði bílastæðavandræði og umferðarteppur óumflýjanlegar. Í þriðja lagi hagi svo til í stórum hluta lóða við Suðurgötu og Brekkugötu að ekki séu bílastæði innan lóðar. Í mörgum tilfellum sé ómögulegt að koma þar fyrir stæðum vegna þrengsla og landhalla og þar að auki hafi skipulagsyfirvöld bannað eigendum að útbúa stæði innan lóða þar sem það sé þó hægt. Í því sambandi megi nefna nýlegt erindi eiganda Brekkugötu 5 um gerð bílastæðis sem tafarlaust hafi verið hafnað á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa.

Ljóst sé að fyrirkomulag bílastæða samkvæmt  hinu nýja deiliskipulagi brjóti gegn ákvæðum aðalskipulags. Í deiliskipulaginu sé aðeins gert ráð fyrir einu stæði á íbúð. Þó sé ljóst að margar íbúðanna verði yfir 100 m2 og ættu því að fá tvö stæði samkvæmt ákvæðum aðalskipulagsins, en meðalstærð íbúðanna sé a.m.k. 108 m2. Í þessu tilviki sé alls ekki sýnt fram á að bílastæðaþörf sé minni en gangi og gerist heldur þvert á móti og ekki sé hægt að leysa þörfina með öðrum hætti en að bæta við stæðum á deiliskipulagssvæðinu og við útmörk þess. Af þeim sökum sé óheimilt að víkja frá viðmiðum aðalskipulags um fjölda bílastæða. Að auki sé ekki gert ráð fyrir neinum bílastæðum fyrir gesti við húsin eða í húsagötunum, eins og áskilið sé í aðalskipulagi. Það beri einnig að hafa í huga að skv. gr. 6.2.4. í byggingarreglugerð nr. 112/2012, sbr. breytingarreglugerð nr. 360/2016, ættu að vera a.m.k. þrjú stæði fyrir hreyfihamlaða miðað við leyfðan íbúðafjölda samkvæmt deiliskipulaginu og skuli slík stæði vera verulega stærri en venjuleg bílastæði. Auk þess verði að gera ráð fyrir 1-2 stæðum fyrir hreyfihamlaða vegna þess verslunarhúsnæðis sem áformað sé. Þegar þessi stæði séu dregin frá því rými sem muni verða í bílageymslunni sé alveg ljóst að það pláss sem afgangs sé dugi ekki til að fullnægja þörfum íbúa Lækjargötu 2. Stæðafjöldi dugi ekki fyrir íbúa húsa á skipulags–reitnum og tekin séu stæði af nágrönnum og gestum þeirra. Nágrannar geti ekki nýtt bílageymsluna á Lækjargötu enda sé hún of lítil til að anna allri eftirspurn á svæðinu og verði þar að auki í einkaeigu og ósennilegt að nágrannar hafi nokkra möguleika á að nýta hana.

Með því að þrengja að innkomu í Brekkugötu, þar sem byggingarreitur sé færður alveg upp að gangstétt og heimiluð sé há bygging á horni Lækjargötu og Brekkugötu, sé Brekkugötu breytt í þröngt skuggasund. Mikill umferðarhraði sé í Lækjargötu og megi gera ráð fyrir að hætta skapist á horninu við Brekkugötu þegar ökumenn beygi af Lækjargötu upp Brekkugötu án þess að hafa útsýni yfir það sem sé handan hornsins. Einnig sé viðbúið að innkeyrsla í bílageymslu við Suðurgötu geti skapað hættu þar sem hún sé mjög nálægt gatnamótum á umferðarþungu svæði. Ekki verði séð að nokkuð mat hafi verið lagt á þessar aðstæður sem verið sé að skapa eða annað sem snúi að umferðaröryggi. Þetta sé í andstöðu við markmið skipulagslaga í a-lið 1. gr., þar sem segi að öryggi skuli hafa að leiðarljósi.

Með hinu nýja deiliskipulagi sé freklega gengið á rétt kærenda hvað varði skuggavarp og útsýni í átt að miðbæ og sjó. Einnig sé gengið á rétt bæjarbúa allra hvað varði útsýni í hina áttina, þ.e.a.s. að Hamrinum og gömlu húsunum í Brekkugötu. Kærendur hafi notið útsýnis að miðbæ og sjó bæði um sjónlínu sem verið hafi yfir baklóð Lækjargötu 2 og að einhverju leyti einnig yfir bygginguna sem áður hafi verið á lóðinni. Sumir kærenda hafi haft stórkostlegt útsýni yfir sjóinn sem sé sérstaklega tilkomumikið við sólsetur. Með því að hækka byggingar á Lækjargötu 2, færa þær nær Brekkugötu og byggja stórt hús þar sem áður hafi verið bílastæði á baklóð sé þetta útsýni tekið frá þeim. Hinar nýju, háu byggingar muni einnig varpa miklum skugga á Brekkugötuna og á eignir kærenda. Með þessu sé verið að rýra verðgildi eigna kærenda og ganga þannig á stjórnarskrárbundinn eignarrétt þeirra. Samkvæmt 72. gr. stjórnarskrár Íslands nr. 33/1944 sé eignarrétturinn friðhelgur. Engan megi skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji. Í þessu tilviki sé augljóslega engin almenningsþörf sem réttlæti að brotið sé á sjálfsögðum mannréttindum kærenda. Þessi eignaskerðing þjóni aðeins hagsmunum verktaka sem vilji hámarka gróða sinn af verkefninu. Ekki verði séð að rannsókn hafi farið fram á útsýnisskerðingu og skuggavarpi eða mat á hagsmunum húseigenda í nágrenninu. Af þeim sökum sé ekkert meðalhóf í þeim tillögum sem samþykktar hafi verið. Framganga sem þessi fari gegn markmiðum skipulagslaga, sem fram komi í 1. gr. laganna, og skortur á rannsókn brjóti gegn 10. gr. stjórnsýslulaga.

Málsrök Hafnarfjarðarkaupstaðar: Af hálfu bæjaryfirvalda er tekið fram að skipulags- og byggingarráð hafi talið sig hafa umboð til endanlegrar afgreiðslu auglýsingu umræddrar skipulagstillögu, sbr. ákv. 2. mgr. 6. gr. skipulagslaga, sem útfært sé í 2. mgr. 71. gr. samþykkta sveitarfélagsins og 6. mgr. 7. gr. erindisbréfs ráðsins, þar sem fram komi að önnur mál en þau sem sérstaklega séu talin upp í greininni „hljóta að jafnaði fullnaðarafgreiðslu á vettvangi ráðsins nema bæjarstjórn ákveði annað eða lög mæla á annan veg“. Undir „önnur mál“ samkvæmt greininni falli til að mynda ákvörðun um að auglýsa deiliskipulag. Komist úrskurðarnefndin að þeirri niðurstöðu að slík heimild hafi ekki verið til staðar sé fjarri lagi að umrætt deiliskipulag skuli ógilt af þeirri ástæðu. Fyrir liggi að tillagan hafi verið auglýst og fjölmargar athugasemdir borist sem teknar hafi verið til skoðunar og svarað. Nýtt deiliskipulag hafi að lokum verið samþykkt í skipulags- og byggingarráði sem og í bæjarstjórn. Málsmeðferðin hafi því að öllu leyti verið í samræmi við 41. og 42. gr. skipulagslaga um auglýsingu, samþykkt og afgreiðslu deiliskipulags. Sé ljóst að sú staðreynd að tillagan hafi ekki farið fyrir bæjarstjórn áður en hún hafi verið auglýst til kynningar hafi ekki haft áhrif á síðari meðferð málsins.

Á bæjarstjórnarfundi 20. júní 2018 hafi verið samþykkt tillaga um að bæjarráð annist fullnaðarafgreiðslu allra mála á meðan sumarleyfi bæjarstjórnar 2018 standi, frá og með 20. júní til og með 11. ágúst. Í 5. mgr. 35. gr. sveitarstjórnarlaga sé fjallað um heimildir bæjarráðs til fullnaðarákvarðana í sumarleyfi bæjarstjórnar. Samkvæmt 8. mgr. 50. gr. samþykkta Hafnarfjarðarkaupstaðar segi að á meðan bæjarstjórn sé í sumarleyfi fari bæjarráð með sömu heimildir og bæjarstjórn hefði ella. Á fundi bæjarráðs 12. júlí 2018 hafi bæjarráð því farið með sömu heimildir og bæjarstjórn hefði ella. Það liggi fyrir að ákvörðun um framangreint rammasamkomulag hafi verið afgreidd úr bæjarráði án mótatkvæða. Í framangreindu felist að bæjarráð geti í sumarleyfi sveitarstjórnar tekið ákvarðanir sem varði verulega fjárhag sveitarfélags. Engu að síður sé ljóst að umrædd ákvörðun hafi ekki varðað verulega fjárhag sveitarfélagsins enda hafi verið um að ræða ákvörðun um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi einnar lóðar í Hafnarfirði og hafði hún engin áhrif á gildandi fjárhagsáætlun sveitarfélagsins.

Í málinu liggi fyrir að við meðferð þess hafi sveitarfélaginu borist athugasemdir frá aðilum sem hafi talið sig eiga hagsmuna að gæta vegna umræddrar breytingar á deiliskipulagi lóðarinnar. Athugasemdirnar hafi verið teknar fyrir á fundi skipulags- og byggingarráðs 26. júní 2018 og hafi skipulagsfulltrúa þá verið falið að taka saman umsögn um framkomnar athugasemdir. Umsögnin hafi verið lögð fyrir á fundi ráðsins 9. júlí s.á. þar sem tekið hafi verið undir hana og deiliskipulagið samþykkt og vísað til afgreiðslu bæjarráðs. Formleg málsmeðferð hafi því verið lögum samkvæmt í máli þessu.

Í athugasemdum kærenda við umrædda tillögu hafi verið vísað sé til þess að rannsókn hafi ekki farið fram á bílastæðamálum, útsýnisskerðingu, skuggavarpi, umferðarmagni. Öllum þessum atriðum hafi verið svarað í umsögn skipulagsfulltrúa. Af umsögninni megi ráða að farið hafi verið vel yfir framkomnar athugasemdir og þeim svarað á málefnalegan hátt. Einnig verði að geta þess að erindi íbúa vegna bílastæðamála, sem tekið hafi verið fyrir 24. ágúst 2017 í skipulags- og byggingarráði, hafi sérstaklega verið tekið til umfjöllunar í ráðinu og haft til hliðsjónar við gerð deiliskipulagstillögunnar. Varðandi fullyrðingar kærenda um að gera hefði átt húsakönnun við meðferð tillögunnar sé áréttað að bæði skipulagslög og skipulagsreglugerð nr. 90/2013 geri ráð fyrir að ekki sé skylt að framkvæma hana vegna breytinga á deiliskipulagi. Einnig þurfi að huga að því að umrædd deiliskipulagsbreyting varði eina lóð en ekki tiltekið svæði eða hverfi. Á lóðinni hafi að auki verið búið að rífa eina húsið sem þar hafi staðið og því engin byggð á þeirri lóð sem deiliskipulagstillagan hafi tekið til. Hafi því engar forsendur verið til að framkvæma húsakönnun á umræddri lóð.

Fyrir liggi að deiliskipulagið hafi verið sent Skipulagsstofnun til yfirferðar í samræmi við 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga. Í svarbréfi stofnunarinnar, dags. 10. ágúst 2018, komi fram að stofnunin gerði ekki athugasemdir við að sveitarstjórn birti auglýsingu um samþykkt deiliskipulagsbreytingarinnar. Stofnunin hafi hins vegar óskað eftir því að áður en til þess kæmi yrði henni send lagfærð gögn í samræmi við nánari ábendingar sem fram hafi komið í bréfinu. Athugasemdir Skipulagsstofnunar hafi því ekki lotið að form- eða efnisgöllum, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga, heldur hafi stofnunin einungis óskað eftir lagfæringu tiltekinna gagna. Sveitarfélaginu hafi því ekki borið skylda til að fara með þegar samþykkt deiliskipulag aftur fyrir sveitarstjórn til samþykktar. Sé því mótmælt sem haldið sé fram í kæru að kynningarferli skipulagsins hafi verið það óskýrt að hagsmunaaðilar hafi ekki haft nægar upplýsingar til að móta sér upplýsta afstöðu til málsins. Augljóst sé að ábendingar Skipulagsstofnunar séu þess eðlis að þær hafi engin áhrif haft á kynningarferli deiliskipulagstillögunnar enda hafði það verið niðurstaða stofnunarinnar að hún gerði engar athugasemdir við að tillagan yrði auglýst.

Lækjargata 2 hafi verið byggð 1965. Á afgreiðslufundi skipulags- og byggingarfulltrúa 22. mars 2017 hafi erindi Hafnarfjarðarkaupstaðar um að rífa húsið verið samþykkt í samræmi við samþykkt bæjarráðs. Í gildandi skilmálum deiliskipulags svæðisins frá árinu 2001 segi að heildarbyggingarmagn megi vera allt að 2.505 m2 og að nýtingarhlutfall geti orðið allt að 1,44. Sú leið hafi verið farin að rífa núverandi mannvirki og vinna nýtt deiliskipulag. Nýtingarhlutfall í hinu kærða deiliskipulagi sé sambærilegt við heimildir eldra deiliskipulags, eða 1,43 án bílakjallara. Í greinargerð deiliskipulags frá 2001 sé síðan lagt til að bílageymslur verði byggðar neðanjarðar.

Samkvæmt deiliskipulaginu sé gert ráð fyrir  allt að 2.500 m2 byggingarmagni sem eigi að hýsa íbúðir eða verslunarrými. Byggja megi bílakjallara sem geti orðið allt að 800 m2. Ekki sé gert ráð fyrir bílastæðum á lóð. Gera skuli ráð fyrir að eitt bílastæði hið minnsta fylgi hverri íbúð og að gert sé ráð fyrir einu bílastæði á hverja 50 m2 verslunar- eða þjónusturýmis. Þetta séu þær forsendur sem skilmálar deiliskipulagsins setji og hönnuðir hafi sem grunn til lausnar á fyrirkomulagi bílastæða við endanlega hönnun mannvirkja á lóðinni. Í tilvísun kærenda til kafla aðalskipulags sé litið fram hjá eftirfarandi setningu: „Sérstakar reglur gildi fyrir miðbæjarsvæði. Þar sem sýnt er að ekki sé hægt að uppfylla bílastæðakröfur innan lóðar, er heimilt að uppfylla þær á almennum bílastæðum í miðbænum gegn greiðslu sérstaks gjalds.“ Aðrar lausnir séu því heimilar en stæði á lóð og sé slíku fyrir að fara í þessu deiliskipulagi. Í byggingarreglugerð segi m.a. í gr. 4.3.1 að á afstöðumynd skuli sýna byggingarreit innan lóðar samkvæmt deiliskipulagi, bílastæði á lóð og aðkomu að mannvirki. Sérstaklega skuli gera grein fyrir bílastæðum hreyfihamlaðra, þegar við eigi. Deiliskipulagið nái til Lækjargötu 2, Suðurgötu 7 og opins svæðis sem liggi austan við Suðurgötu 7. Samkvæmt gildandi deiliskipulagi frá 2001 sé gert ráð fyrir 11 bílastæðum á lóð Lækjargötu 2 og 21 bílastæði á baklóð Suðurgötu 7. Í hinu kærða deiliskipulagi sé ekki gert ráð fyrir bílastæðum á baklóð Suðurgötu 7, heldur muni sú lóð nýtt sem opinn garður fyrir almenning eða torg. Horfið hafi verið frá byggingaráformum og stækkun bílakjallara á þeirri lóð, m.a. að teknu tilliti til skriflegra athugasemda frá íbúum í næsta nágrenni og sterkra sjónarmiða um þörf á grænum svæðum til útivistar, sem m.a. hafi komið fram á kynningarfundum þar sem deiliskipulagið hafi verið til umfjöllunar. Almennt skuli bílastæðaþörf viðkomandi mannvirkja leyst innan lóðarmarka. Fjöldi fari eftir skilmálum. Í deiliskipulagi Lækjargötu 2 sé gert ráð fyrir bílakjallara allt að 800 m2. Almennt megi reikna með að rýmisþörf hvers bílastæðis í kjallara sé um 25 m2. Heildarfjöldi stæða á lóð sé því um 32 bílastæði. Skipting þeirra á milli annars vegar verslunar- og þjónusturýmis og hins vegar íbúða verði því að rúmast innan þeirrar heimildar sem felist í 2.500 m2 heildarbyggingarmagni umfram bílastæðakjallara. Deiliskipulagið nái til ákveðins reits og séu mörk deiliskipulagsins skilgreind. Bílastæðaþörf og skilyrði viðkomandi mannvirkja séu leyst innan lóðar. Ekki sé gert ráð fyrir neinni heimild til stækkunar að Suðurgötu 7. Húsið sé samþykkt á sínum tíma án bílastæða. Bílastæði til almennra nota sé að finna í næsta nágrenni og rétt sé að vekja athygli á því að rúmlega 250 bílastæði séu opin almenningi án greiðslu í minna en 400 m fjarlægð frá aðliggjandi íbúabyggð við Suðurgötu og Brekkugötu. Í greinargerð deiliskipulags frá 2001 segi: „Á verslunar- og þjónustusvæði miðbæjarins, reitum 1, 2, 3 og 4 og á reit 5 þar sem hús hafa aðkomu frá Strandgötu eru öll opinber bílastæði til almennrar notkunar fyrir svæðið í heild. Það þýðir að einstakt hús eða húsasamstæða getur ekki gert tilkall til sérstakra bílastæða við húshlið, en hefur hins vegar rétt til að nota hvaða stæði sem er á svæðinu.“ Af þessu megi vera ljóst að tilkall íbúa í næsta nágrenni til bílastæða á lóð Lækjargötu 2 eða baklóð Suðurgötu 7 eigi sér hvorki stoð í deiliskipulagi frá 2001 né því sem nú sé til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.

Samanburður á útlínum nýrra húsa á lóðinni Lækjargötu 2 leiði í ljós að nýbyggingar séu almennt færðar fjær gatnamótum. Hús við gatnamót Brekkugötu og Lækjargötu sé með svo kölluðum hornskurði, sem sé til þess gerður að auka sjónarhorn við gatnamót og eigi sér jafnframt sögulega skírskotun til upphafs þéttbýlismyndunar á Íslandi. Þessu til viðbótar hafi verið unnið minnisblað fyrir Hafnarfjarðarbæ er varði umferð vegna breytinga á skipulagi við Suðurgötu. Ein af forsendum þessa minnisblaðs hafi verið fyrirhuguð uppbygging lóðarinnar við Lækjargötu 2. Niðurstaða umferðarskoðunar hafi verið að þjónustugráða gatnamóta verði í A-flokki. Því megi segja að markmið a-liðar 1. gr. skipulagslaga um öryggi sé haft að leiðarljósi.

Við þéttbýlismyndun á Íslandi hafi orðið til skipulagsleg viðmið sem oftar en ekki hafi verið af dönskum uppruna, sem í upphafi hafi stýrt byggðarþróun. Megi þar nefna þætti eins og efnisval, eldvarnir, hreinlætis- og heilbrigðismál, birtu o.fl. Útsýni sé kostur en ekki skilyrði í byggðaþróun. Þau sjónarmið og fullyrðingar sem fram komi í kæru um „stórkostlegt útsýni yfir sjóinn o.s.frv.“ verði að skoða í ljósi eftirfarandi staðreynda: Ný mannvirki séu lægri en það hús sem fyrir hafi verið. Bil séu á milli einstakra byggingarhluta sem opni sjónlínur í átt að miðbæ og hafi. Fyrir niðurrif hafi verið samfelldur, beinn veggur sem hafi teygt sig lóðrétt upp fyrir mænishæð á nýbyggingum. Nýbyggingar beri allar portbyggt söðulþak, sem þýði að hæð á lóðréttum veggjum þeirra í götulínu sé talsvert lægri en sá þverhnípti 2-3 hæða steypti veggur sem þar hafi verið og hafi mátt standa áfram samkvæmt deiliskipulaginu frá 2001. Í kynningargögnum með hinu auglýsta deiliskipulagi og gögnum, sem lögð hafi verið fram á tveimur kynningarfundum, hafi verið athuganir á skuggavarpi. Ljóst sé af þeim athugunum að skuggavarp af byggð samkvæmt hinu kærða deiliskipulagi sé minna á svo til allt nánasta umhverfi en skuggavarp af Dvergnum.

Viðbótarathugasemdir kærenda: Kærendur andmæla fullyrðingu bæjarins um að skipulags- og byggingaráð hafi haft umboð til fullnaðarafgreiðslu deiliskipulagstillögunnar áður en hún fór í kynningu á grundvelli 6. mgr. 7. gr. erindisbréfs ráðsins. Það sé augljóst að þetta ákvæði gangi ekki framar skýru og afdráttarlausu ákvæði í 2. mgr. 7. gr. erindisbréfsins, þar sem segi að afgreiðslum samkvæmt skipulagslögum skuli vísað til bæjarstjórnar. Það hljóti að leiða til ógildingar þegar brotið sé gegn málsmeðferðarreglum skipulagslaga án þess að til staðar sé nokkur heimild til afbrigða. Þá verði einnig að hafa í huga að lokaafgreiðsla máls hafi farið fram í flýti í bæjarráði og hafi deiliskipulagstillagan því aldrei fengið umfjöllun í bæjarstjórn.

Ekki sé eðlilegt að miða mat á byggðamynstri við þann óskapnað sem hafi verið á lóðinni áður, enda hafi það hús verið byggt löngu eftir að ríkjandi byggðamynstur myndaðist á svæðinu. Flest hús á svæðinu séu lágreist timburhús og mörg þeirra séu um og yfir 100 ára. Það byggðamynstur sem vernda beri samkvæmt almennum sjónarmiðum og aðalskipulagi Hafnarfjarðar sé þessi lágreista, gamla byggð og af þeim sökum þurfi að gæta samræmis við hana þegar Lækjargata 2 sé skipulögð að nýju.

Samkomuhúsið að Suðurgötu 7 hafi verið byggt árið 1886 en þá hafi menn komið á hestum á samkomur og eðli máls samkvæmt hafi þá ekki verið gert ráð fyrir bílastæðum. Samkomuhúsið hafi hins vegar verið rekið alla tíð frá því að bíllinn kom til sögunnar með stóru aðliggjandi bílastæði á baklóð Lækjargötu 2. Þau stæði eigi nú að þurrka út án frekari umhugsunar og velta bílastæðavanda samkomuhússins yfir á almenn stæði í aðliggjandi húsagötum, sem séu nú þegar af mjög skornum skammti. Ef byggt verði á baklóðinni muni verða ómögulegt að fullnægja bílastæðaþörf samkomuhússins.

Óljóst sé að hvaða leyti minnisblað það sem bærinn vísi til um umferðarmál varði það deiliskipulag sem hér sé til umfjöllunar. Í öllu falli sé þetta minnisblað hvergi sjáanlegt í bókunum varðandi afgreiðslu skipulagsins og það hafi ekki verið í þeim gögnum sem bærinn sendi kærendum. Varðandi hugtakið „þjónustustig“ sem vísað sé til í umræddu minnisblaði þá varði það afkastagetu gatnamóta en ekki öryggi. Umrætt minnisblað segi því ekkert um umferðaröryggi.

Þá rangfærslu sé að finna í athugasemdum bæjarins að nýju byggingarnar séu lægri en sú sem fyrir var á lóðinni. Þó að einhverjir punktar séu e.t.v. lægri þá séu hæstu punktar upp við Brekkugötu töluvert hærri en húsið sem fyrir hafi verið og sé það auðséð á uppdrætti. Það séu þessir punktar sem mestu skipti, bæði hvað útsýnisskerðingu og götumynd varði.

Bærinn dragi nú fram mynd af skuggavarpi sem ekki hafi verið sjáanleg í gögnum málsins áður. Sé því þess vegna mótmælt að þetta skjal feli í sér rannsókn sem gerð hafi verið í tengslum við hið kærða skipulag. Ekki verði séð að sú fullyrðing bæjarins sé rétt að skuggavarp sé minna eftir skipulagsbreytinguna, enda sé t.d. augljóst að meira skuggavarp sé af nýju húsi við Brekkugötu heldur en hafi verið af auðri baklóð Lækjargötu 2.

Ekki hafi verið lagt neitt mat á útsýnisskerðingu, en það sé eitt af þeim atriðum sem nauðsynlegt hefði verið að kanna sérstaklega. Ljóst sé að útsýnisskerðing verði mjög veruleg. Þó að einhver bil séu á milli húsa við Lækjargötu sé lítið um opnar sjónlínur í gegnum deiliskipulagssvæðið. Þannig sé sjónlína frá Brekkugötu í átt til sjávar nær alveg blokkeruð af fyrirhuguðum byggingum.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 42. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 er kveðið á um að í því skyni að stuðla að hagræðingu, skilvirkni og hraðari málsmeðferð geti sveitarstjórn ákveðið í samþykkt um stjórn sveitarfélagsins að fela fastanefnd fullnaðarafgreiðslu einstakra mála sem ekki varða verulega fjárhag sveitarfélagsins, nema lög eða eðli máls mæli sérstaklega gegn því. Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 skal skipulagsnefnd, sem kjörin er af sveitarstjórn, starfa í hverju sveitarfélagi og eru störf skipulagsnefnda lögákveðin. Verður því að telja skipulags- og byggingarráð fastanefnd í skilningi 1. mgr. 37. gr. sveitarstjórnarlaga. Í 2. málsl. 2. mgr. 6. gr. skipulagslaga kemur fram að sveitarstjórn sé heimilt að ákveða í samþykkt sveitarfélagsins að fela skipulagsnefnd eða öðrum innan stjórnsýslu sveitarfélagsins  fullnaðarafgreiðslu mála samkvæmt skipulagslögum, svo sem afgreiðslu deiliskipulagsáætlana og útgáfu framkvæmdaleyfa.

Í 40. gr. samþykktar um stjórn Hafnarfjarðarkaupstaðar og fundarsköp bæjarstjórnar nr. 525/2016  kemur fram að bæjarstjórn staðfesti erindisbréf fyrir ráð, nefndir og stjórnir þar sem kveðið sé á um hlutverk, valdsvið og starfshætti þeirra í samræmi við lög, reglugerðir og almennar samþykktir bæjarstjórnar. Samkvæmt 41. gr. samþykktarinnar er ráðum þeim sem talin eru upp í 1.-5. tölul. A-liðar 39. gr. heimilt að afgreiða mál á verksviði þeirra á grundvelli erindisbréfs skv. 40. gr. án staðfestingar bæjarstjórnar ef lög eða eðli máls mæla ekki sérstaklega gegn því og þau varða ekki fjárhag sveitarfélagsins umfram það sem kveðið er á um í fjárhagsáætlun og þau víkja ekki frá stefnu bæjarstjórnar.

Framsal sveitarstjórnar á valdi til fullnaðarafgreiðslu mála þarf að koma fram í samþykkt um stjórn sveitarfélagsins skv. 1. mgr. 42. gr. sveitarstjórnarlaga. Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laganna skal samþykkt um stjórn sveitarfélagsins send ráðuneytinu til staðfestingar. Þá skulu samþykktir sem staðfestar eru af ráðherra vera birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 1. mgr. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað nr. 15/2005. Af því leiðir að erindisbréf, sem ekki hefur hlotið framangreinda málsmeðferð, getur ekki verið viðhlítandi heimild fyrir framsali á valdi til fullnaðarafgreiðslu mála. Erindisbréf skipulags- og byggingarráðs var undirritað af bæjarstjóra 7. desember 2011 en það hefur ekki hlotið staðfestingu ráðherra og ekki verið birt í B-deild Stjórnartíðinda.

Fjallað er um verkefni skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðar í 71. gr. samþykktar um stjórn sveitarfélagsins. Í 1. mgr. ákvæðisins segir að ráðið fari með mál sem heyri undir skipulagslög nr. 123/2010, lög um mannvirki nr. 160/2010, lög nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum og umferðarlög nr. 50/1987. Í 2. mgr. sömu greinar kemur fram að ráðið geri tillögu til bæjarstjórnar um afgreiðslu einstakra mála sem það fái til meðferðar. Samkvæmt 2. mgr. 71. gr. samþykktar um stjórn Hafnarfjarðarkaupstaðar, sbr. einnig 2. mgr. 40. gr. sveitarstjórnarlaga, eru afgreiðslur skipulags- og byggingarráðs því tillögur til sveitarstjórnar, mæli lög ekki á annan veg.

Samkvæmt 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga er kveðið á um að þegar sveitarstjórn hefur samþykkt að auglýsa tillögu að deiliskipulagi skal hún auglýst á sama hátt og kveðið er á um varðandi auglýsingu aðalskipulags. Tillagan þarf þó ekki að liggja frammi hjá Skipulagsstofnun á auglýsingatíma hennar. Í 2. mgr. 29. gr. laganna kemur fram að skipulagsnefnd annast vinnslu, kynningu og afgreiðslu aðalskipulags. Það er því skipulagsnefnd sem sér um að auglýsa tillögu að deiliskipulagi en samkvæmt 1. mgr. 41. gr. verður sveitarstjórn þó að samþykkja að auglýsa tillöguna. Fyrir liggur að bæjarstjórn samþykkti ekki að auglýsa tillöguna til kynningar en samþykkti hins vegar deiliskipulagsbreytinguna að lokinni málsmeðferð hennar. Þá komu kærendur og aðrir athugasemdum að á auglýsingartíma tillögunnar. Þrátt fyrir að um annmarka á málsmeðferð hafi verið að ræða bendir ekkert til þess að sá annmarki hafi haft áhrif á andmælarétt eða endanlega afgreiðslu málsins. Annmarkinn þessi er því ekki þess eðlis að hann leiði til ógildingar deiliskipulagsbreytingarinnar.

Ekki er skylt að taka saman lýsingu skv. 1. mgr. 40. gr. vegna breytingar á deiliskipulagi og getur málsmeðferð bæjaryfirvalda við samantekt upplýsinga um umfang og stefnu skipulagsbreytingarinnar, sem svipar nokkuð til lýsingar skv. 1. mgr. 40. gr., ekki haft áhrif á gildi hinnar kærðu ákvörðunar.

Samkvæmt 5. mgr. 35. gr. sveitarstjórnarlaga er bæjarráði heimil fullnaðarákvörðun mála sem eigi varða verulega fjárhag sveitarsjóðs eða stofnana hans, en á meðan sveitarstjórn er í sumarleyfi fer bæjarráð með sömu heimildir og sveitarstjórn hefur ella. Getur bæjarráð því á sumarleyfistíma bæjarstjórnar tekið ákvarðanir sem varða verulega fjárhag sveitarfélags. Var ákvörðun bæjarstjórnar á fundi 20. júní 2018, um að fela bæjarráði fullnaðarafgreiðslu allra mála á meðan á sumarleyfi bæjarstjórnar stæði frá og með 20. júní til og með 11. ágúst 2018, lögum samkvæmt.

Sveitarstjórn skal taka skipulagstillögu til umræðu þegar frestur til athugasemda er liðinn að undangenginni umfjöllun skipulagsnefndar skv. 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga. Í þeirri umfjöllun skal taka afstöðu til athugasemda sem borist hafa og þess hvort gera skuli breytingar á tillögunni. Skipulagsfulltrúa var falið að taka saman umsögn um framkomnar athugasemdir. Í umsögninni var athugasemdum svarað og ekki var talið tilefni til að endurskoða einstök atriði tillögunnar. Skipulags- og byggingarráð samþykkti umsögnina 9. júlí 2018 og bæjarráð, í umboði bæjarstjórnar, staðfesti afgreiðslu ráðsins á fundi 12. s.m. Afgreiðsla bæjaryfirvalda var því í samræmi við fyrrgreint lagaákvæði.

Deiliskipulagsbreytingin var send Skipulagsstofnun hinn 13. júlí 2018 til meðferðar skv. 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga. Samkvæmt nefndri grein skal Skipulagsstofnun tilkynna sveitarstjórn innan þriggja vikna frá móttöku deiliskipulagsins telji hún að form- eða efnisgallar séu á deiliskipulagi. Sveitarstjórn skal taka athugasemdirnar til umræðu og gera nauðsynlegar breytingar hvað varðar athugasemdir um form skipulagsins. Í bréfi Skipulagsstofnunar, dags. 10. ágúst s.á., var ekki gerð athugasemd við að sveitarstjórn birti auglýsingu um samþykkt deiliskipulagsbreytingarinnar í B-deild Stjórnartíðinda. Í bréfinu var þó tekið fram að áður en til birtingar kæmi þyrfti að senda stofnuninni lagfærð gögn vegna sjö atriða sem lutu að formi skipulagsuppdráttar. Í athugasemdum við 42. gr. skipulagslaga kemur fram að sveitarstjórn sé skylt að bregðast við athugasemdum Skipulagsstofnunar og gera nauðsynlegar breytingar á því varðandi form þess ef þörf sé á. Skipulagsstofnun var svarað með bréfi, dags. 28. ágúst 2018, þar sem fram kom að deiliskipulagsuppdrátturinn hefði verið lagfærður í samræmi við ábendingar og athugasemdir stofnunarinnar. Ekki verður séð að athugasemdirnar hafi verið ræddar í bæjarstjórn, líkt og áskilið er í 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga. Þrátt fyrir þann annmarka og þá staðreynd að bréf Skipulagsstofnunar til bæjaryfirvalda barst fáeinum dögum að liðnum þeim þriggja vikna fresti sem tiltekinn er í 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga þykir það ekki eiga að leiða til ógildingar umdeildrar ákvörðunar þar sem lagfæringar voru allt að einu gerðar á framsetningu skipulagsuppdráttar í samræmi við tilmæli stofnunarinnar.

Kærendur benda á að sá skipulagsuppdráttur sem samþykktur hafi verið í skipulags- og byggingarráði 9. febrúar 2018 sé ekki eins og sá sem samþykktur hafi verið í bæjarráði 12. júlí s.á. Líkt og að framan greinir eru ályktanir skipulags- og byggingarráðs tillögur til sveitarstjórnar sem eðli máls samkvæmt er ekki bundin af afgreiðslu skipulags- og byggingarráðs. Í fjölmörgum ákvæðum skipulagslaga er gert ráð fyrir að skipulagstillaga taki breytingum í skipulagsferlinu, en skv. 4. mgr. 41. gr. laganna segir að ákveði sveitarstjórn að breyta auglýstri tillögu í grundvallaratriðum skuli hin breytta tillaga auglýst á nýjan leik. Þær breytingar sem hér um ræðir voru smávægilegar og því þurftu bæjaryfirvöld ekki að auglýsa tillöguna að nýju.

Við meðferð hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar var ekki þörf á að gera húsakönnun skv. 5. mgr. 37. gr. skipulagslaga. Samkvæmt ákvæðinu ber að gera húsakönnun þegar deiliskipulag er unnið í þegar byggðu hverfi. Ákvæði þetta á ekki við um breytingu á deiliskipulagi. Í gögnum málsins er að finna nokkuð ítarleg gögn um önnur atriði sem kærendur telja að hafi ekki verið rannsökuð, þ.e. bílastæðamál, skuggavarp, útsýnisskerðing og umferðarmál. Þessum athugasemdum var að auki svarað í umsögn skipulagsfulltrúa um framkomnar athugasemdir. Liggur því ekki fyrir að rannsókn máls hafi verið ábótavant í aðdraganda hinnar kærðu ákvörðunar.

Samkvæmt Aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2005-2024 er hið umdeilda svæði á miðsvæði M1. Í almennum ákvæðum aðalskipulagsins um miðsvæði kemur fram að á „miðsvæðum skal fyrst og fremst gera ráð fyrir verslunar- og þjónustustarfsemi og stjórnsýslu sem þjóna heilu landsvæði, bænum í heild sinni eða fleiri en einu bæjarhverfi, s.s. verslunum, skrifstofum, þjónustustofnunum, veitinga- og gistihúsum, menningarstofnunum og hreinlegum iðnaði. Þar sem aðstæður leyfa má gera ráð fyrir íbúðarhúsnæði, sérstaklega á efri hæðum bygginga.“ Í kafla um miðbæ Hafnarfjarðar M1 kemur fram að „[a]llt rými á jarðhæð í miðbænum verði nýtt fyrir verslun, veitingahús og þjónustu en stefnt skuli að aukinni íbúðarbyggð í miðbænum, m.a. á efri hæðum húsa við Strandgötuna.“ Lóðin nr. 2 við Lækjargötu var fyrir deiliskipulagsbreytinguna skilgreind sem iðnaðar- og athafnalóð en eftir breytingu sem íbúðar- og atvinnulóð með verslun/þjónustu á jarðhæðum sem snúa að Lækjargötu. Í deiliskipulagsbreytingunni er ekki fjallað um hvernig nýtingu jarðhæða sem snúa að Suðurgötu og Brekkugötu skuli háttað en tekið er fram að skilmálar deiliskipulagsins Hafnarfjörður miðbær, sem öðlaðist gildi 19. október 2001, gildi að öðru leyti. Í deiliskipulaginu er ekki minnst á hvaða starfsemi skuli vera á jarðhæð þeirra húsa sem snúa að Suðurgötu eða Brekkugötu. Þrátt fyrir að í deiliskipulagsbreytingunni sé ekki tekin afstaða til notkunar jarðhæða er ekki hægt að fallast á að slíkt fari í bága við aðalskipulag skv. 7. mgr. 12. gr. skipulagslaga, en ákvæði aðalskipulagsins eru bindandi við veitingu byggingarleyfis, ef til þess kemur, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 13. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010.

Samkvæmt 10. tölul. 2. gr. skipulagslaga er hverfisvernd skilgreind sem ákvæði í svæðis-, aðal- eða deiliskipulagi um verndun sérkenna eldri byggðar, annarra menningarsögulegra minja eða náttúruminja. Nánar er fjallað um hverfisvernd í 6. mgr. 12. gr. skipulagslaga. Þar kemur fram að ef talin er þörf á að vernda sérkenni eldri byggðar eða annarra menningarsögulegra minja, náttúruminjar, náttúrufar eða gróður vegna sögulegs, náttúrulegs eða menningarlegs gildis við gerð skipulagsáætlunar, án þess að um friðun sé að ræða samkvæmt öðrum lögum, skuli setja í viðkomandi skipulagsáætlun ákvæði um hverfisvernd. Húsaröðin Suðurgata 7-25, austan götunnar, nýtur hverfisverndar samkvæmt aðalskipulagi Hafnarfjarðar og er á hverfisverndarsvæði Hve7. Samkvæmt hverfisverndarákvæðum má ekki „breyta útliti eða formi húsa frá upprunalegu útliti og formi þeirra. Þar sem viðbyggingar eru leyfðar samkvæmt deiliskipulagi skulu þær vera í samræmi við húsið og götumyndina í heild sinni.“ Á því svæði sem deiliskipulagsbreytingin tekur til eru þrjár lóðir. Tvær þeirra eru utan hverfisverndarsvæðisins, þ.e. Lækjargata 2 og bæjarlóð austan við Suðurgötu 7. Lóðin Suðurgata 7 er hins vegar innan hverfisverndarsvæðisins. Samkvæmt breyttum skilmálum sem í skipulagsbreytingunni fólst verður heimilt „að setja glugga og dyr á austurhlið hússins, að fengnu leyfi Minjastofnunar, til að auka möguleika á samnýtingu bæjarlóðar austan við húsið.“ Þrátt fyrir að einungis sé um heimild að ræða, að fengnu leyfi Minjastofnunar, verður ekki litið fram hjá því að hverfisverndarákvæði aðalskipulagsins er afdráttarlaust um að ekki megi breyta útliti húsa frá upprunalegu útliti þeirra. Í ljósi þess verður að telja að ofangreind heimild deiliskipulagsbreytingarinnar gangi gegn aðalskipulagi, sem er rétthærra deiliskipulagi skv. 7. mgr. 12. gr. skipulagslaga. Verður því ekki hjá því komist að fella þann hluta deiliskipulagsbreytingarinnar úr gildi sem snýr að heimild til að setja glugga og dyr á austurhlið hússins Suðurgötu 7.

Í Aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2005-2024segir að það sé stefna bæjarstjórnar að stuðla að náttúruvernd og sjálfbærri þróun. Vernda beri það sem sérstakt sé eða hafi sérstakt verndargildi í náttúru Hafnarfjarðar, svo sem sérstaka náttúru, landslagsheildir, víðerni, náttúrulegar fjörur í bæjarlandinu, og gera þau aðgengileg bæjarbúum. Hamarinn, sem er austan við Brekkugötu, var friðlýstur sem náttúruvætti árið 1984. Um hann segir í aðalskipulagi að Hamarinn setji mikinn svip á miðbæ Hafnarfjarðar og njóti vinsælda sem útivistarsvæði. Á honum séu jökulrispaðar klappir og honum tengist sögur um álfa og huldufólk. Hin umdeilda deiliskipulagsbreyting hróflar ekki að neinu leyti við þeim atriðum sem njóta verndar og tengjast Hamrinum.

Með deiliskipulagsbreytingunni hækkar nýtingarhlutfall á lóðinni Lækjargötu 2 úr 1,44 í 1,89. Kærendur hafa bent á að nýtingarhlutfall nærliggjandi lóða sé á bilinu 0,18 til 0,48. Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga fer sveitarstjórn með skipulagsvald innan marka sveitarfélags. Í því felst tæki sveitarstjórnar til að hafa áhrif á og þróa byggð og umhverfi með bindandi hætti.  Engin ákvæði eru í gildandi aðalskipulagi sem takmarka nýtingarhlutfall á hinu umdeilda svæði. Þá kemur sérstaklega fram í deiliskipulagsbreytingunni að efnisval nýbygginga skuli falla sem best að aðliggjandi húsum. Ekki verður því fallist á að verulega sé vikið frá því yfirbragði byggðar sem fyrir var.

Um bifreiðastæði segir í aðalskipulaginu: „Bifreiðastæðaþörf bygginga skal almennt vera leyst innan lóða. Sett eru lágmarksákvæði varðandi fjölda bílastæða og bílastæða fyrir fatlaða. Unnt er að víkja frá þessum lágmarksákvæðum í deiliskipulagi ef sýnt er fram á að bílastæðaþörf sé minni eða unnt sé að uppfylla hana með öðrum hætti. Sérstakar reglur gilda fyrir miðbæjarsvæði og er þar gert ráð fyrir að ef sýnt sé að ekki sé hægt að uppfylla bílastæðakröfur innan lóðar, sé heimilt að uppfylla þær á almennum bílastæðum í miðbænum gegn greiðslu sérstaks gjalds.“ Samkvæmt hinu breytta deiliskipulagi hverfur 31 bílastæði af lóðum Lækjargötu 2 og bæjarlóðinni austan við Suðurgötu 7. Samkvæmt nýjum skilmálum fyrir Lækjargötu 2 er heimilt byggingarmagn á lóðinni 3.300 m2 með bílageymslu, en 2.500 m2 án hennar. Einnig kemur fram að í bílageymslu skuli vera að lágmarki eitt bílastæði fyrir hverja íbúð og eitt bílastæði fyrir hverja 50 m2 af verslunar- og þjónustuhúsnæði. Í máli þessu er ekki um að ræða skipulag nýs hverfis heldur breytingu á deiliskipulagi í þegar grónu hverfi. Ákvæði aðalskipulagsins um að í skipulagi nýrra hverfa þurfi að vera eitt eða tvö stæði við hverja íbúð eiga því ekki við í máli þessu. Þær sérstöku reglur sem fram koma í aðalskipulaginu um bifreiðastæði fyrir miðbæjarsvæði eiga hins vegar við. Ljóst er að leitast er við að uppfylla bílastæðakröfur innan lóðar með bílakjallara á lóð Lækjargötu 2. Deiliskipulagsbreytingin er því ekki andstæð aðalskipulagi hvað þetta varðar og getur meintur afnotaréttur nágranna á bílastæðum sem þar voru samkvæmt eldra skipulagi engu um það breytt.

Með vísan til þess sem að framan greinir liggja ekki fyrir neinir þeir form- eða  efnisannmarkar sem leitt geta til ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar aðrir en þeir sem áður hefur verið lýst vegna heimildar  til að setja glugga og dyr á austurhlið hússins að Suðurgötu 7.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Felldir eru úr gildi breyttir skilmálar hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar fyrir lóðirnar Lækjargötu 2 og Suðurgötu 7 um að heimilt sé að setja glugga og dyr á austurhlið hússins að Suðurgötu 7, að fengnu leyfi Minjastofnunar. Að öðru leyti stendur hin kærða ákvörðun óröskuð.

5 og 6/2019 Hallarmúli

Með

Árið 2019, föstudaginn 29. nóvember kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar-verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 5/2019, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 13. september 2018 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Suðurlandsbrautar 2 vegna lóðarinnar Hallarmúla 2.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 14. janúar 2019, er barst nefndinni sama dag, kærir Flugleiðahótel ehf., rekstraraðili hótels í fasteigninni Suðurlands­braut 2, þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 13. september 2018 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Suðurlandsbrautar 2 vegna lóðarinnar Hallarmúla 2.

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 14. janúar 2019, er barst nefndinni sama dag, kærir Reitir-hótel ehf., þinglýstur eigandi fasteignarinnar Suðurlands­brautar 2, fyrrgreinda ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur með sömu rökum og fram koma í fyrrgreindri kæru ásamt fylgigögnum. Þar sem kærumálin varða sömu ákvörðun og hagsmunir kærenda þykja ekki standa því í vegi verður greint kærumál, sem er nr. 6/2019, sameinað máli þessu. Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 14. febrúar 2019.

Málavextir: Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 5. september 2018 var að lokinni auglýsingu tekin fyrir umsókn sem unnin var fyrir hönd eiganda hússins Hallarmúla 2 varðandi breytingu á deiliskipulagi Suðurlandsbrautar 2 vegna lóðarinnar Hallarmúla 2. Breytingin fólst í því að auka leyfilegt byggingarmagn og fjölda hæða húss á lóðinni Hallarmúla 2 með tilliti til aðliggjandi byggðar. Einnig var heimilað að í byggingunni yrði hótel og að þar yrðu fimm hæðir með efstu hæð inndregna frá Hallarmúla, en til vesturs stallist byggingin niður í eina hæð, bílastæði yrðu fjarlægð af yfirborði lóðarinnar og gerður yrði bílakjallari. Tillagan var auglýst frá 28. mars til og með 9. maí 2018. Athugasemdir bárust á kynningartíma, m.a. frá öðrum kærenda. Tillagan var samþykkt í ráðinu með þeim breytingum sem fram koma í umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 24. ágúst 2018, og henni vísað til borgarráðs, sem staðfesti tillöguna 13. september s.á. Var skipulagsbreytingin send Skipulagsstofnun til lögboðinnar yfirferðar, sem með bréfi, dags. 10. október s.á., tilkynnti að stofnunin gæti ekki tekið afstöðu til erindisins þar sem hún teldi að athugasemd varðandi samræmi við aðalskipulag hefði ekki verið svarað á fullnægjandi hátt. Þá þyrfti að skýra betur hvernig aðkoma hópferðabifreiða yrði leyst. Athugasemdum stofnunar­innar var svarað með bréfi skipulagsfulltrúa 22. nóvember 2018. Með bréfi, dags. 28. s.m., tilkynnti Skipulagsstofnun að hún gerði ekki athugasemdir við birtingu auglýsingar um gildistöku skipulagsbreytingarinnar, sem öðlaðist gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 17. desember 2018.

Annar kærenda og eigandi hússins að Hallarmúla 2 hafa deilt um þinglýsingu kvaðar um heimilaða starfsemi í fasteigninni að Hallarmúla 2 eins og henni hafði verið lýst í þinglýstu skjali frá 1975. Þeim deilum lauk með dómi Hæstaréttar Íslands 9. október 2019 í máli 32/2019.

Málsrök kærenda: Kærendur benda á að á fasteigninni Hallarmúla 2 hvíli sú kvöð að húsnæði á lóðinni verði ekki tekið til annarra nota en almennrar verslunar og verslunar með nýjar eða notaðar bifreiðar samkvæmt þinglýstum afsölum frá 1975 og 1994. Þinglýstir eigendur lóðarinnar að Hallarmúla 2, sem lóðarhafi leiði rétt sinn frá, hafi gengist undir framangreinda kvöð um notkun fasteignarinnar með undirritun afsals, en af efni þess megi ráða að forsenda fyrrum eiganda fasteignarinnar hafi verið að mannvirkið yrði ekki notað til starfsemi sem færi í bága við rekstur hótelsins að Suðurlandsbraut 2. Kvöðin sé þinglýst, óskilyrt, ótímabundin og óuppsegjanleg. Núverandi lóðarhafi og eigandi fasteignarinnar að Hallarmúla 2 geti ekki átt rýmri eða frekari rétt til hagnýtingar fasteignarinnar en fyrrum þinglýstir eigendur hennar sem hann leiði rétt sinn frá, enda sé það meginregla að við framsal beinna eignarréttinda fylgi óbein eignarréttindi og kvaðir sem stofnað hafi verið til yfir fasteignum. Lóðarhafi verði því að haga hagnýtingu fasteignar­innar til samræmis við þær kvaðir sem á henni hvíli og hverfa frá fyrirætlunum um breytingar á henni sem geri ráð fyrir að hún verði nýtt til hótelrekstrar eða annarra nota í andstöðu við hina þinglýstu kvöð.

Sérstaklega sé hafnað fullyrðingu skipulagsfulltrúa Reykjavíkurborgar um að kvöðin, sem sé einkaréttarlegs eðlis, geti ekki hindrað skipulagsrétt sveitarfélagsins. Með deiliskipulagi taki sveitarfélag m.a. ákvarðanir um landnotkun, byggðamynstur, hagnýtingu lóðar, þ.m.t. fyrirkomulag bílastæða, sem og aðrar forsendur sem þurfi að liggja fyrir vegna byggingar- og framkvæmdaleyfa, sbr. 1. mgr. 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Þannig hafi deiliskipulags­áætlun bein áhrif á hagsmuni lóðarhafa, s.s. vegna útgáfu byggingarleyfis, en jafnframt á hags­muni kærenda, sem séu sérstaklega verndaðir með hinni þinglýstu kvöð. Þannig muni lóðarhafi geta reist mannvirki á lóðinni til rekstrar sem sé í andstöðu við þær kvaðir sem á henni hvíli. Þrátt fyrir að ætla megi sveitarstjórnum rúmar heimildir til þess að ráða efnislegu innihaldi skipulagsáætlana þá sé ákvörðunin bersýnilega afar íþyngjandi fyrir kærendur og því verði að gæta þess sérstaklega að ákvörðunin sé tekin í samræmi við málsmeðferðarreglur stjórnsýslu­réttarins. Kærandi telji verulega skorta á að svo hafi verið gert í þessu tilviki enda megi ná markmiði lóðarhafa um frekari uppbyggingu á lóðinni með öðru og vægara móti þannig að gætt sé að hinni þinglýstu kvöð og grenndarhagsmunum kærenda. Þá geti lóðarhafi og höfundar deiliskipulagstillögunnar með engu móti haft lögmæta hagsmuni af því að fá samþykkta breytingu á gildandi deiliskipulagi svæðisins sem miði að því einu að gera honum kleift að ráðast í uppbyggingu sem sé í andstöðu við kvöð um heimila nýtingu mannvirkisins á lóðinni og hagsmuni kærenda.

Núgildandi deiliskipulag taki til svæðis sem samanstandi af þremur lóðum. Á þeim hvíli ýmsar sameiginlegar kvaðir, s.s. um bílastæði og gegnumakstur. Áfram verði að líta á svæðið í heild sinni en breyting á deiliskipulagi lóðarinnar að Hallarmúla 2 einvörðungu, þar sem gert sé ráð fyrir breyttri notkun lóðarinnar, verulega auknu byggingarmagni og engum bílastæðum á lóð, feli í sér mjög veigamikla breytingu á svæðinu sem fallin sé til þess að raska því jafnvægi sem ríki innan þess á kostnað kærenda. Hin kærða ákvörðun feli í sér verulegar breytingar frá gildandi deiliskipulagi svæðisins og núverandi byggðamynstri. Deiliskipulagi svæðisins hafi síðast verið breytt árið 2014 og hafi sú breyting tekið til svæðisins í heild sinni. Það brjóti í bága við skipulagslög að breyta skipulagi lóðarinnar að Hallarmúla 2 með svo umfangsmiklum hætti án þess að virða og meta skipulagssvæðið í heild. Breyting sem þessi líkist fremur byggingarleyfisumsókn en skipulagsáætlun. Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga skuli deiliskipulag jafnan taka til svæðis sem myndi heildstæða einingu. Af því leiði að svo umfangsmiklar breytingar kalli á heildarendurskoðun á deiliskipulagi svæðisins með nærliggjandi skipulagssvæði og Aðalskipulag Reykjavíkur 2010-2030 í huga. Því til stuðnings bendi kærendur á úrskurð úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála nr. 25/2000, þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að deiliskipulag fyrir eina lóð teljist ekki vera skipulagsáætlun. Sama gildi í máli þessu þar sem um verulega breytingu á einni lóð sé að ræða. Ljóst sé af orðalagi 37. gr. skipulagslaga að umrætt ákvæði taki ekki einungis til nýrra deiliskipulagsáætlana heldur fjalli ákvæðið um deiliskipulagsáætlanir almennt. Þá leiði af 1. mgr. 43. gr. laganna að sömu efnis- og formreglur eigi við um breytingu á deiliskipulagi og um nýtt skipulag, að undanskildum þeim undantekningum sem sérstaklega séu tilgreindar í ákvæðinu. Þær undantekningar beri að túlka þröngt.

Meginatriði deiliskipulagsbreytingarinnar felist í verulegri stækkun á byggingarreit og aukningu á nýtingarhlutfalli ofanjarðar úr 0,99 í 2,11, þ.e. allt að 6.800 m2 byggingu ofanjarðar og fjölgun hæða hússins. Grenndaráhrif mannvirkisins séu því umtalsverð og fyrirséð að þröngt verði á milli húsa að Suðurlandsbraut 2 og Hallarmúla 2 ef byggt verði í samræmi við samþykkt deiliskipulag. Kröfur um fjölda bílastæða samkvæmt deiliskipulaginu séu sérstaklega gagnrýnisverðar þar sem bílastæðum fækki verulega. Samkvæmt eldra deiliskipulagi hafi verið gerð krafa um 72 bílastæði á lóðinni eða eitt stæði á hverja 50 m2 af 1.534 m2 af núverandi húsnæði og eitt stæði á hverja 35 m2 af 1.400 m2. Samkvæmt reglum eldri byggingarreglugerðar hefði krafa um bílastæði átt að nema að lágmarki 136 stæðum eða 1 stæði á hverja 50 m2 húsnæðis. Deiliskipulagsbreytingin geri hins vegar ráð fyrir einungis 55 bílastæðum, sem séu mun færri stæði en gerð hafi verið krafa um í eldra deiliskipulagi. Þá geri deiliskipulagið jafnframt ráð fyrir að aðgengi að bílastæðum verði erfitt og takmarkað, en gert sé ráð fyrir að þau verði staðsett í þriggja hæða bílageymslukjallara með bílalyftu á milli hæða. Þrátt fyrir að ekki séu lengur ákvæði í byggingarreglugerð um lágmarksfjölda bílastæða á lóð felist í eldri reglugerð viðmið um ætlaða þörf á bílastæðum, sér í lagi þegar ekki liggi fyrir frekari gögn. Kærandi telji af og frá að bílastæðaþörf fyrirhugaðs hótels sé vel innan við helming af fjölda stæða sem áður hafi verið gerð krafa um. Þörfin sé því umtalsvert vanáætluð í hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu.

Ekki sé gert ráð fyrir aðkomu hópferðabíla að hótelinu og ekki séu bílastæði ofanjarðar fyrir hópferðabíla. Við afgreiðslu byggingarfulltrúa sé því haldið fram að hópferðarbifreiðum sé mögulegt að stöðva við gegnumakstursgötu sunnan hússins eða í almennum bílastæðum við Hallarmúla. Ekki sé gert ráð fyrir almennum bílastæðum á yfirborði lóðar að Hallarmúla 2 og virðist sem byggingarfulltrúi geri ráð fyrir að hópferðarbílar stöðvi á aðliggjandi lóðum. Þessu fylgi umtalsvert ónæði og rask fyrir almenna umferð, sem og fyrir lóðarhafa aðliggjandi lóða og þau sem þangað sæki sér þjónustu.

Í athugasemdum við skipulagstillöguna hafi verið bent á að lóðarhafa virtist í sjálfsvald sett hvort hann réðist í gerð bílakjallara eða greiddi bílastæðagjald til Reykjavíkurborgar. Af þessu tilefni hafi byggingarfulltrúi lagt fram breytingartillögu um að heimilt yrði að greiða bílastæða­gjald fyrir þann fjölda bílastæða sem gerð væri krafa um, umfram 55 bílastæði. Borgarráð samþykkti deiliskipulagsbreytinguna með hliðsjón af breytingartillögu byggingarfulltrúa. Kærandi bendi aftur á móti á að deiliskipulagið heimili nýtingu mannvirkja á lóðinni til skrifstofu- og atvinnuhúsnæðis auk hótelstarfsemi samkvæmt skilmálum í kafla 5.1., en skilmálar skv. kafla 5.9., um 55 bílastæði að lágmarki, séu ekki skilyrtir við að starfrækt verði hótel í byggingunni. Því sé mögulegt að byggt verði skrifstofu- eða atvinnuhúsnæði sem krefjist umtalsvert fleiri bílastæða. Raunar standi líkur til þess að aldrei verði rekið hótel á lóðinni vegna fyrrnefndrar kvaðar um heimila notkun húsnæðisins og því megi gera ráð fyrir að nýta verði það til verslunarreksturs, sem krefjist bersýnilega fleiri bílastæða. Hafi sveitarfélaginu því borið að meta bílastæðaþörf mannvirkisins miðað við að í húsinu færi fram önnur starfsemi en hótelrekstur og gæta sérstaklega að því að á lóðinni mætti koma fyrir þeim lágmarksfjölda aðgengilegra bílastæða sem nauðsynlegur væri fyrir verslunarhúsnæði eða hótelrekstur. Hvorugt hafi verið gert heldur hafi of fáum og óaðgengilegum bílastæðum verið komið fyrir í bílakjallara. Samkvæmt 2. mgr. 19. gr. skipulagslaga skuli bílastæðagjöldum varið í upp­byggingu almenningsstæða í nágrenni þeirrar lóðar sem lóðarhafa sé gert að greiða fyrir slík gjöld. Kærendur telji að ekki sé hægt að raungera markmið bílastæðagjalda með hliðsjón af aðstæðum í næsta nágrenni lóðarinnar enda sé ekkert svigrúm til uppbyggingar fullnægjandi almenningsbílastæða í næsta nágrenni lóðarinnar. Því séu skilyrði skipulagslaga fyrir álagningu bílastæðagjalda ekki uppfyllt.

Kærendur bendi einnig á að rannsóknarregla stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hafi verið brotin við meðferð málsins. Þrátt fyrir ábendingar hafi Reykjavíkurborg ekki aflað nokkurra gagna um raunverulega bílastæðaþörf fyrirhugaðrar byggingar að Hallarmúla 2 heldur samþykkt breytinguna án fullnægjandi upplýsinga um þetta atriði. Borgaryfirvöldum hafi verið í lófa lagið að krefja höfunda deiliskipulagstillögunnar um skýringar á því hvernig eigandi mannvirkisins að Hallarmúla 2 muni tryggja að hagsmunum kærenda verði ekki raskað í þessu tilliti en í stað þess virðist hafa verið lagt til grundvallar að hvorki gestir né starfsfólk hins fyrirhugaða hótels muni koma á bílum að hótelinu eða að þeim verði lagt á einu bílastæðin í nágrenninu, sem séu við hótel annars kærenda. Enn síður hafi farið fram skoðun á bílastæðaþörf mannvirkisins miðað við að það yrði tekið til notkunar sem verslunar- eða skrifstofuhúsnæði þrátt fyrir að fullt tilefni hafi verið til slíkrar skoðunar.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Borgaryfirvöld benda á að samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 sé lóðin Hallarmúli 2 á miðsvæði M2c. Á því svæði sé gert ráð fyrir skrifstofum, rýmisfrekri smásöluverslun, stofnunum, ráðgjafar- og þjónustufyrirtækjum, fjármálastarfsemi, veitingastöðum og hótelum. Léttur iðnaður sé heimill á svæðinu, s.s. prentiðnaður og verkstæði, þar sem aðstæður leyfi. Fjölþætt starfsemi sé því heimil innan reitsins og geti samkvæmt heimildum aðalskipulags geti þar m.a. verið hótel. Tillagan sé því í samræmi við landnotkunarheimildir aðalskipulags.

Með deiliskipulagsbreytingunni sé ekki um neinar breytingar á kvöðum að ræða fyrir lóðina Hallarmúla 2. Í tillögu að breyttu deiliskipulagi haldist kvöð um gegnumakstur og bílastæðaskilmála. Búið sé að gera lóðarleigusamning fyrir Hallarmúla 2 samkvæmt breyttu deiliskipulagi. Allar kvaðir sem komi fram á lóðaruppdrætti eða í lóðarleigusamningi falli út með nýjum samningi. Kvöð um gerð akbrautar og bílastæða sé felld út með nýjum lóðar­uppdrætti fyrir Suðurlandsbraut 2. Kvöðina um notkun í afsalinu frá 1975 komi ekki í veg fyrir að deiliskipulagi verði breytt í þá veru sem gert hafi verið. Almennt sé ekki hægt að þrengja heimildir sveitarstjórnar til deiliskipulagsgerðar með einkaréttarlegum samningum. Í afsalinu sé enn fremur vísað til yfirlýsingar Kr. Kristjánssonar hf., dags. 9. apríl 1974, en sú yfirlýsing liggi ekki fyrir í máli þessu. Um sé að ræða samkomulag þáverandi eigenda og ekki verði skorið úr um gildi þess af hálfu borgaryfirvalda. Efni kvaðarinnar sé auk þess óljóst. Hvergi komi skýrt fram að óheimilt sé að reka hótel. Í kaupsamningi og afsali frá 2017 sé kvaðarinnar auk þess hvergi getið.

Því sé mótmælt að breyting deiliskipulagsins stríði gegn sjónarmiðum um heildstætt skipulag svæðisins. Tillagan hafi tekið mið af hæðum og umfangi húsa á svæðinu þannig að hún félli sem best að götumynd og byggðamynstri og hefði sem minnst neikvæð umhverfisáhrif, en byggðin í kring einkennist af 4-7 hæða húsum að götu og lægri húsum í inngörðum. Eitt af markmiðum deiliskipulagsvinnunnar hafi verið að heildarrammi til uppbyggingar á lóðinni félli vel að svæðinu hvað starfsemi, uppbrot og fjölbreytileika varði. Í þróunarferli tillögunnar hafi verið unnið í því að aðlaga hana að byggðamynstri svæðisins og aðliggjandi svæða. Byggingin hafi m.a. verið lækkuð og brotin upp þannig að hún hefði sem minnst neikvæð umhverfisáhrif og félli vel að byggðamynstri.

Frá því að fram hafi farið endurskoðun á deiliskipulagi götureitanna milli Suðurlandsbrautar og Ármúla upp úr árinu 2000 hafi verið samþykktar nokkrar breytingar á deiliskipulagi einstakra lóða innan þeirra. Þar hafi m.a. verið samþykkt hækkun á nýtingarhlutfalli og breyttir skilmálar vegna bílastæða. Það komi til af ýmsu, m.a. því að svæðið sé virkt verslunar- og þjónustusvæði og einstaklega vel staðsett miðsvæðis í borginni. Það nýtingarhlutfall sem tillagan reikni með sé áþekkt því sem leyft hafi verið á þeim lóðum svæðisins þar sem skipulagi hafi verið breytt. Enn fremur megi benda á að mismunur á nýtingarhlutfalli einstakra lóða helgist einnig af stærð þeirra, en lóð Hallarmúla 2 sé lítil lóð og lóðir í nágrenninu, s.s. lóðir Suðurlandsbrautar 2 og Ármúla 3, séu mun stærri. Hæð hússins og umfang þess komi til með að verða í samræmi við byggðamynstrið á svæðinu. Það eigi þó ekki við um Ármúla 3, þar sem heimilt séað byggja sjö hæða húshluta inn í reitinn. Einnig sé tillagan þannig að byggingin inn í reitinn til vesturs lækki en hækki að götu, sem sé í takt við byggðamynstur og stuðli að betri nýtingu innreitanna og minni neikvæðum umhverfisáhrifum.

Því sé jafnframt hafnað að rannsóknarregla stjórnsýslulaga hafi verið brotin. Eins og venja sé í deiliskipulagi margra svæða, m.a. þeirra sem hér um ræði, þá beri hverri lóð að sjá fyrir sinni bílastæðaþörf út frá notkun húsa, húshluta og þeim bílastæðaskilmálum sem séu hluti deili-skipulags. Skilmálar vegna bílastæða og þörf fyrir þau hafi þróast og breyst í tímans rás miðað við breyttar þarfir, innviði og hegðunarmynstur. Á umliðnum árum hafi skilmálar vegna bílastæða breyst, m.a. þannig að þörfin sé flokkuð niður eftir notkun húshluta. Þannig sé minni þörf áætluð vegna hótelstarfsemi, lager- og tæknirýma heldur en fyrir verslun og þjónustu. Í anda þess hafi skilmálum vegna bílastæða verið breytt fyrir allmargar lóðir á svæðinu og jákvætt hafi þótt að gera það, þ.e.a.s. samræma og nútímavæða bílastæðaskilmála á svæðum. Nokkrir möguleikar séu fyrir langferðabíla til að stoppa nálægt húsinu, t.d. við gegnumakstursgötu sunnan hússins og í almennum bílastæðum við Hallarmúla, séu þau laus, en ekki standi til að gera sérstakt rútubílastæði í Hallarmúla.

Bent sé á að í 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 komi fram að deiliskipulag skuli gera fyrir einstök svæði eða reiti þar sem framkvæmdir séu fyrirhugaðar og skuli jafnan miða við að það taki til svæða sem myndi heildstæða einingu. Það sé því heimilt að breyta deiliskipulagi fyrir eina lóð innan reits. Það sé í samræmi við skipulagslög að gera breytingar á deiliskipulagi án þess að skipulag sé tekið til endurskoðunar í heild.

Athugasemdir eiganda lóðarinnar Hallarmúla 2: Hin meinta kvöð um starfsemi í Hallarmúla 2 geti aldrei gengið framar heimildum Reykjavíkurborgar til að setja deiliskipulag um notkun og nýtingu lóðarinnar. Ef eigendur fasteigna gætu bundið hendur sveitarfélaga með kvöðum þá væri deiliskipulagsvaldið til lítils, enda gætu fasteignaeigendur þá komið í veg fyrir breytingar í almannaþágu með þinglýsingu kvaða. Í dómi Hæstaréttar nr. 134/1958 frá 26. júní 1959 taldi Hæstiréttur að yfirvöldum væri heimilt að kveða á um hvers konar byggingar væru reistar á lóðum, jafnvel þótt skipulag bryti í bága við þinglýstar kvaðir væru þær til staðar. Um deiliskipulagsbreytingu sé að ræða og málið því ekki sambærilegt við málið sem úrskurður nr. 25/2000 fjalli um. Í því máli hafi verið um grunndeiliskipulagsferli að ræða en ekki deili­skipulagsbreytingu.

Í almennum skilmálum deiliskipulagsins sé sérstakur kafli um bílakjallara, gestabílastæði og hjólastæði. Þar komi fram að gert sé ráð fyrir bílakjallara undir nýbyggingu og gera skuli ráð fyrir einu bílastæði á hverja 50 m2 verslunar- og skrifstofuhúsnæðis, einu bílastæði á hverja 130 m2 hótelhúsnæðis fyrir gistihótel og einu bílastæði á hverja 300 m2 lager- og tæknirýmis. Þá segi að ef ekki takist að koma tilskyldu magni almennra bílastæða fyrir innan lóðar þá sé heimilt að greiða bílastæðagjald með vísan til samþykktar Reykjavíkurborgar um bílastæðagjald hverju sinni. Reykjavíkurborg hafi sett sér reglur um bílastæðagjöld með heimild í 1. mgr. 19. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Í reglunum segi að fjöldi bílastæða skuli vera í samræmi við skipulagsskilmála og bílastæðareglur. Ef ekki sé unnt að koma fyrir á lóð nýbyggingar þeim fjölda bílastæða sem kröfur séu gerðar um í deiliskipulagi geti sveitarstjórn ákveðið að innheimta bílastæðagjald vegna hlutaðeigandi lóðar. Gjaldið megi nema allt að áætluðum kostnaði við gerð þeirra bílastæða sem á vanti. Með reglum þessum sé fylgiskjal um skiptingu borgar­innar í svæði og sé Hallarmúli 2 á svæði 2. Samkvæmt almennum viðmiðunum um stæði innan svæða skv. fylgiskjali 2 sé ljóst að skipulagsskilmálar Hallarmúla 2 séu í samræmi við viðmiðin varðandi bílastæði fyrir verslunar- og skrifstofuhúsnæði, þ.e. eitt bílastæði á hverja 50 m2. Í viðmiðunum séu engin ákvæði um fjölda bílastæða fyrir hótelhúsnæði. Í fylgiskjalinu komi fram að um almenn viðmið sé að ræða fyrir viðkomandi svæði og mögulegt sé að víkja frá þeim til hækkunar eða lækkunar við  gerð hverfis- og/eða deiliskipulags. Þetta geti átt við um sérhæft húsnæði, svo sem skóla og hótel og annað húsnæði sem erfitt sé að sjá bílastæðaþörf fyrir. Við afgreiðslu byggingarleyfis muni koma í ljós hvort tilskyldum fjölda bílastæða verði komið fyrir á lóðinni eða hvort byggingarleyfishafi verði að greiða bílastæðagjöld til Reykjavíkurborgar.

Viðbótarathugasemdir kærenda: Lóðarréttindi leigusala kærenda og eiganda mannvirkisins að Hallarmúla 2 hafi verið byggð á einum og sama löggerningnum fram til 12. október 2018, þ.e. lóðarleigusamningi, dags. 15. febrúar 2008, og sé hann undirritaður af hálfu  eigenda beggja mannvirkja. Sérstökum lóðarleigusamningi fyrir Hallarmúla 2 hafi verið þinglýst 12. október 2018, en þá fyrst hafi lóðin orðið til sem sjálfstæð og sérstaklega afmörkuð eign. Fram að þeim tíma hafi annar lóðarhafa hinnar sameiginlegu lóðar ekki haft heimild til að leggja til breytingar á deiliskipulagi lóðarinnar án þess að afla afdráttarlauss samþykkis leigusala kærenda. Kærendur hafi þannig mátt treysta því að deiliskipulagi heildarlóðarinnar yrði ekki breytt í trássi við hagsmuni hans á grundvelli tillögu eiganda mannvirkis að Hallarmúla 2, sem hafi aðeins átt tilkall til hluta lóðarleiguréttindanna. Hin kærða ákvörðun hafi verið tekin áður en lóðarleigu­samningi um Hallarmúla 2 hafi verið þinglýst, en eiganda Hallarmúla 2 hafi skort umboð og heimild til þess að hafa frumkvæði að breytingu á deiliskipulagi hluta heildarlóðarinnar Suðurlandsbrautar 2.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 ber sveitarstjórn ábyrgð á og annast gerð deiliskipulags, sbr. einnig 1. málsl. 3. mgr. 3. gr. sömu laga. Í 2. mgr. 38. gr. laganna kemur fram að landeigandi eða framkvæmdaraðili geti óskað eftir því við sveitarstjórn að gerð sé tillaga að deiliskipulagi eða breytingu á deiliskipulagi á sinn kostnað. Það er því sveitarstjórn sem ber ábyrgð á gerð og breytingu deiliskipulags, hvort sem það er að eigin frumkvæði eða að frumkvæði landeiganda eða framkvæmdaraðila.

Kærendur deila m.a. um þýðingu kvaða sem fram koma í lóðarleigusamningi og afsölum um Suðurlandsbraut 2 og Hallarmúla 2. Samkvæmt 20. tölul. 2. gr. skipulagslaga eru skipulags­kvaðir skilgreindar sem kvaðir sem lagðar eru á einstakar lóðir eða landsvæði í deiliskipulagi, svo sem um umferðarrétt og legu lagna. Hinar umdeildu kvaðir eru ekki lagðar á með deili­skipu­lagi og teljast því ekki skipulagskvaðir. Kvaðir þessar eru því einkaréttarlegs eðlis og geta sem slíkar haft áhrif á innbyrðis réttarstöðu lóðarhafa, en geta ekki bundið hendur skipulags­yfirvalda Reykjavíkur­borgar við skipulagsgerð, sem að lögum bera ábyrgð á gerð og breytingu deiliskipulags. Skipulagskvaðir á lóðinni Hallarmúla 2 breytast ekki með hinni umdeildu deiliskipulagsbreytingu. Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga skal gera deiliskipulag fyrir einstök svæði eða reiti þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar og skal jafnan miða við að það taki til svæða sem mynda heildstæða einingu. Í athugasemdum við 2. mgr. 37. gr. í frumvarpi því sem varð að skipulagslögum kemur fram að ætlunin með ákvæðinu sé að koma í veg fyrir að skipulagðar séu einstakar lóðir þó að slíkt geti stundum átt við. Þá er tekið fram í 1. mgr. sama ákvæðis að deiliskipulag sé skipulagsáætlun fyrir afmarkað svæði eða reit innan sveitarfélags. Í athugasemdum með 1. mgr. 37. gr. er tekið fram að dæmi um þætti sem varði útlit og form mannvirkja í deiliskipulagi sé þegar tekin sé afstaða til byggingar átta hæða húss í lágri, þéttri byggð sem geti verið veruleg breyting á svipmóti þeirrar byggðar. Í götu þar sem hús séu almennt stakstæð geti bygging þriggja hæða fjölbýlishúss með tveimur stigagögnum breytt þeirri götumynd verulega. Ákvarðanir um útlit og form varði stefnu­mótun um skipulag og geti sveitarstjórn þannig lagt fram stefnu sína í þessum málum í deiliskipulagi, t.d. hvort hún vilji slíkar breytingar á byggð og götumyndum sem að framan séu nefndar. Telji sveitarstjórn þörf á að breyta samþykktu deiliskipulagi fer um málsmeðferð hennar eins og um nýtt deiliskipulag sé að ræða, sbr. 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga, en sé um óverulega breytingu að ræða að mati sveitarstjórnar skal hún grenndarkynnt skv. 44. gr. laganna. Framangreind lagaákvæði og athugasemdir með þeim bera með sér að sveitarstjórn er falið í lögum víðtækt skipulagsvald við gerð deiliskipulags og breytingar á því, sem geta eftir atvikum verið verulegar og tekið til afmarkaðs svæðis innan skipulagssvæðisins eða einnar lóðar. Með hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu eykst leyfilegt nýtingarhlutfall ofanjarðar á lóðinni Hallarmúla 2 úr 0,95 í 2,11, sem er umtalsvert enda var farið með breytinguna skv. 1. mgr. 43. gr. laganna.

Í 1. mgr. 19. gr. skipulagslaga er kveðið á um að sveitarstjórn geti ákveðið að innheimta bílastæðagjald ef ekki er unnt að koma fyrir á lóð nýbyggingar þeim fjölda bílastæða sem kröfur eru gerðar um í deiliskipulagi og skv. 1. málsl. 1. mgr. b-liðar gr. 5.3.2.5. í skipulags­reglugerð nr. 90/2013 skal í deiliskipulagi setja skilmála um fjölda bílastæða og frágang þeirra innan og utan lóðar. Samkvæmt framangreindum ákvæðum eru það skilmálar deiliskipulags hverju sinni sem ákvarða fjölda bílastæða á hinu skipulagða svæði. Samkvæmt skilmálum umrædds skipulags er hámarksfjöldi bílastæða innan lóðar 55 stæði en var fyrir breytinguna 72 stæði. Gera skal ráð fyrir einu bílastæði á hverja 50 m2 verslunar- og skrifstofuhúsnæðis, einu bílastæði á hverja 130 m2 hótelhúsnæðis fyrir gistihótel, einu bílastæði á hverja 300 m2 lager- og tæknirýmis og að fjöldi stæða fyrir hreyfihamlaða skuli vera í samræmi við byggingar­reglugerð. Takist ekki að koma fyrir tilskyldum fjölda almennra bílastæða innan lóðar sé heimilt að greiða bílastæðagjald samkvæmt samþykkt Reykjavíkurborgar um bílastæðagjald hverju sinni. Skilmálar skipulagsins eru þannig skýrir um fjölda bílastæða og um bílastæðaþörf á svæðinu eftir því hvaða starfsemi komi til með að verða þar. Ákvæði eldri byggingar­reglugerðar um fjölda bílastæða hafa ekki þýðingu í máli þessu enda féll hún úr gildi við gildistöku núgildandi byggingarreglugerðar nr. 112/2012. Þá er hvergi í lögum eða reglugerðum skylda til að tryggja að unnt sé að leggja hópferðabílum til lengri tíma við byggingar, hvort sem heimilt er að byggja hótel á lóðinni eða ekki.

Fjallað er um bílastæðagjald í 19. gr. skipulagslaga. Þar kemur fram að ef ekki er unnt að koma fyrir á lóð nýbyggingar þeim fjölda bílastæða sem kröfur eru gerðar um í deiliskipulagi getur sveitarstjórn ákveðið að innheimta bílastæðagjald vegna hlutaðeigandi lóðar. Gjaldið má nema allt að áætluðum kostnaði við gerð þeirra bílastæða sem á vantar. Sveitarstjórn getur sett sérstaka gjaldskrá um bílastæðagjöld í sveitarfélaginu, sem birta skal í B-deild Stjórnartíðinda. Í 3. tölul. 1. mgr. gr. 2.4.4. í byggingarreglugerð kemur fram að eitt af skilyrðum fyrir útgáfu byggingarleyfis sé að bílastæðagjald hafi verið greitt eða samið um greiðslu þess. Reykjavíkurborg hefur sett reglur um bílastæðagjald í Reykjavík og birtust þær í B-deild Stjórnartíðinda 27. maí 2016. Samkvæmt 1. gr. reglnanna skal umsækjandi um byggingarleyfi greiða bílastæðagjald ef ekki er unnt að koma fyrir á lóð nýbyggingar þeim fjölda bílastæða sem kröfur eru gerðar um í deiliskipulagi. Bílastæðagjald er samkvæmt framansögðu greitt við afgreiðslu byggingarleyfisumsóknar enda verður ekki fyrr ljóst hver notkun viðkomandi húsnæðis verður og hversu mörg bílastæði þurfi að vera samkvæmt skilmálum deiliskipu­lagsins. Því verður ekki tekin afstaða til málsástæðna kærenda um bílastæðagjöld í máli þessu.

Lóðinni Hallarmúla 2 var skipt út úr lóðinni Suðurlandsbraut 2 á grundvelli stofnskjals, dags. 28. mars 2007. Lóðarleigusamningur var á hinn bóginn ekki gerður um þá lóð fyrr en 22. desember 2017. Samkvæmt 2. mgr. 38. gr. skipulagslaga getur landeigandi eða framkvæmdar­aðili óskað eftir því við sveitarstjórn að gerð sé tillaga að deiliskipulagi eða breytingu á deiliskipulagi á sinn kostnað. Umsókn vegna hinnar umdeildu deiliskipulags­breytingar var lögð fram fyrir hönd eigenda hússins að Hallarmúla 2. Umsóknin var móttekin 20. nóvember 2017, en á þeim tíma var ekki í gildi sérstakur lóðarleigusamningur fyrir lóðina Hallarmúla 2. Orðalag 1. og 2. mgr. 38. gr. ber hins vegar með sér að endanlegt ákvörðunarvald um deiliskipulags­breytingar liggi hjá viðkomandi sveitarfélagi án tillits til þess hver aðdragandinn er að slíkri ákvörðun.

Af fyrirliggjandi gögnum verður ekki annað ráðið en að umrædd deiliskipulagsbreyting hafi hlotið lögbundna málsmeðferð samkvæmt skipulagslögum.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið liggja ekki fyrir þeir annmarkar á hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu sem raskað geta gildi hennar. Verður kröfu kærenda um ógildingu hennar því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar borgarráðs Reykjavíkur frá 13. september 2018 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Suðurlandsbrautar 2 vegna lóðarinnar Hallarmúla 2.

28/2017 Bjargartangi

Með

Árið 2018, fimmtudaginn 2. ágúst, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 28/2017, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Mosfellsbæjar frá 22. febrúar 2017 um að hafna umsókn um gerð bílastæðis fyrir neðan húsið á lóðinni Bjargartanga 4, Mosfellsbæ.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 9. mars 2017, er barst nefndinni sama dag, kærir eignandi, Bjargartanga 4, Mosfellsbæ, þá ákvörðun bæjarstjórnar Mosfellsbæjar frá 22. febrúar s.á að hafna umsókn hans um gerð bílastæðis fyrir neðan húsið á lóðinni Bjargartanga 4, Mosfellsbæ. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Mosfellsbæ 6. apríl 2017.

Málavextir: Hinn 2. febrúar 2017 sótti kærandi um leyfi bæjaryfirvalda Mosfellsbæjar til að gera bílastæði neðan við hús sitt að Bjargartanga 4 með aðkomu frá Álfatanga. Erindinu var synjað á fundi skipulagsnefndar 13. febrúar s.á. og var sú afgreiðsla staðfest á fundi bæjarstjórnar 22. febrúar 2017.

Málsrök kæranda: Kærandi vísar til þess að nauðsynlegt sé að fá bílastæði fyrir neðan húsið. Tvö bílastæði séu nú þegar á lóðinni með aðkomu frá Bjargartanga sem bæði séu notuð af íbúum efri hæðar hússins. Leigjendur á neðri hæðinni hafi ekki aðgang að bílastæði á lóðinni og þurfi því að leggja bílum sínum úti á götu eða uppi á gangstétt sem skapi óþægindi fyrir þá og vegfarendur. Aðgengi að íbúð á neðri hæð frá Bjargartanga sé slæmt en ganga þurfi niður stiga að íbúðinni sem geti verið hættulegt sérstaklega þegar um eldra fólk sé að ræða. Með því að gera bílastæði fyrir neðan húsið með aðkomu frá Álfatanga yrði íbúðin hins vegar gerð aðgengileg fyrir alla, þar með talið hreyfihamlaða. Fordæmi séu fyrir því í götunni að hafa bílastæði með aðkomu fyrir neðan hús en slík bílastæði séu á lóðunum Bjargartanga númer 2 og 10.

Málsrök Mosfellsbæjar: Af hálfu Mosfellsbæjar er vísað til umferðaröryggissjónarmiða, en við ákvarðanatökuna hafi m.a. verið höfð hliðsjón af ákvæði 12.10.1 byggingarreglugerðar nr. 112/2012. Þar sé kveðið á um að aðkoma að hverri byggingu, bílastæði og almennt göngusvæði við og að byggingu skuli þannig staðsett og frágengin að aðgengi að byggingunni sé auðvelt öllum og ekki skapist slysahætta á svæðinu. Bent sé á að umferð við Álfatanga sé þung og þar fari strætó meðal annars um. Umferð hafi aukist á undanförnum árum með auknum íbúafjölda í Mosfellsbæ. Því sé varhugavert að heimila gerð bílastæðis sem liggi beint að götunni. Aðstæður hafi verið aðrar þegar Mosfellsbær hafi samþykkt aðkomu að Bjargartanga 10 frá Álfatanga, en á þeim tíma hafi verið færri íbúar í Mosfellsbæ og mun minni umferð um Álfatanga. Því sé ekki hægt að líta á það leyfi sem fordæmi í því máli sem hér sé til skoðunar.

Niðurstaða: Í máli þessu er kærð sú ákvörðun bæjarstjórnar Mosfellsbæjar frá 22. febrúar 2017 að synja erindi kæranda um að gera bílastæði fyrir neðan húsið að Bjargartanga 4 með aðkomu frá Álfatanga.

Svæðið sem Bjargartangi 4 heyrir til hefur ekki verið deiliskipulagt, en samkvæmt gildandi Aðalskipulagi Mosfellsbæjar 2011-2030 er landnotkun umrædds svæðis íbúðarsvæði. Flokkast þessi hluti Álfatangi sem safngata með hámarkshraða 50 km/klst. Um safngötur segir nánar í aðalskipulaginu að þær séu aðalgötur íbúðarhverfanna. Í undantekningartilfellum geti þær nýst sem tengingar milli hverfa og séu þær með 30 og/eða 50 km/klst. hámarkshraða allt eftir aðstæðum. Þá segir um húsagötur að þær verði almennt með 30 km/klst. hámarkshraða og í einstaka tilvikum 15 km/klst. Strætó gengur um Álfatanga auk þess sem gatan tekur við umferð úr húsagötum hverfisins. Má því búast við þó nokkurri umferð um Álfatanga og að sama skapi má ljóst vera að bílastæði með aðkomu frá götunni geti aukið hættu á slysum og ógnað umferðaröryggi. Lágu því málefnaleg sjónarmið að baki synjun Mosfellsbæjar.

Árið 1984 samþykkti Mosfellsbær gerð bílastæðis á lóðinni Bjargartanga 10 með aðkomu frá Álfatanga. Úrskurðarnefndin tekur undir sjónarmið bæjarins um að aðstæður hafi breyst frá þeim tíma þar sem fjöldi íbúa í bænum hefur aukist til muna og umferð aukist samhliða. Þegar af þeirri ástæðu voru ekki fyrir hendi sambærilegar aðstæður og við synjun á erindi kæranda nú. Kærandi hefur einnig bent á bílastæði fyrir neðan húsið að Bjargartanga 2, en aðkoma að því er frá Langatanga, sem er húsagata, og er því ekki um sambærilegt tilvik að ræða. Skorti því ekki á að jafnræðis væri gætt við afgreiðslu umsóknar kæranda.

Með vísan til framangreinds verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar bæjarstjórnar Mosfellsbæjar frá 22. febrúar 2017 um synjun á umsókn um gerð bílastæðis við Bjargartanga 4 Mosfellsbæ.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                        Þorsteinn Þorsteinsson

 

115/2017 Vegamótastígur

Með

Árið 2018 miðvikudaginn 28. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 115/2017, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 13. september 2017 um að samþykkja takmarkað byggingarleyfi vegna Vegamótastígs 7 og 9 og ákvörðun hans frá 24. október s.á., sem staðfest var af borgarráði 2. nóvember s.á., um að samþykkja byggingarleyfi fyrir steinsteyptu fimm hæða húsi á nefndum lóðum.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 5. október 2017, er barst nefndinni 6. s.m., kæra eigendur, Grettisgötu 3, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 13. september 2017 að samþykkja takmarkað byggingarleyfi vegna Vegamótastígs 7 og 9. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 21. nóvember 2017, er barst nefndinni 23. s.m., kæra sömu aðilar ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 24. október 2017, sem staðfest var af borgarráði 2. nóvember s.á., um að samþykkja byggingarleyfi fyrir steinsteyptu fimm hæða húsi með gististað í flokki IV á efri hæðum og veitingastað á jarðhæð. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Verður kærumál þetta, sem er nr. 137/2017, sameinað þessu máli þar sem hinar kærðu ákvarðanir lúta að sömu byggingarframkvæmd og hagsmunir kærenda þykja ekki standa því í vegi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 20. nóvember 2017 og 25. janúar 2018.

Málavextir:
Á umræddu svæði er í gildi deiliskipulag fyrir staðgreinireit 1.171.5, svonefndan Laugavegs- og Skólavörðustígsreit, frá árinu 2002. Með birtingu í B-deild Stjórnartíðinda 11. desember 2015 tók gildi breyting á því skipulagi þar sem heimilað var að reisa fimm hæða sambyggðar byggingar auk kjallara að Vegamótastíg 7 og 9. Í kjallara skyldu vera bílastæði. Á lóðunum var gerð krafa um eitt bílastæði fyrir hverja 100 m2 verslunar- og þjónustuhúsnæðis og eitt stæði fyrir hverja 130 m2 hótelrýmis eða fyrir sambærilega starfsemi. Þá var gerð krafa um eitt bílastæði fyrir hreyfihamlaða til nota fyrir nefndar lóðir. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 18. október 2016 var samþykkt umsókn um byggingarleyfi fyrir fimm hæða hóteli á Vegamótastíg 7 og 9 auk kjallara á tveimur hæðum.

Með úrskurði, uppkveðnum 31. mars 2017, felldi úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála þá ákvörðun úr gildi á þeim forsendum að fjöldi hæða bygginga á nefndum lóðum og notkun kjallararýmis færi gegn gildandi deiliskipulagi. Þá var einnig vísað til þess, í nefndum úrskurði, að eitt bílastæði fyrir hreyfihamlaða, handan götu, sem ekki var sérstaklega ætlað að þjóna starfsemi viðkomandi byggingar, uppfyllti ekki kröfur gr. 6.2.4. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 um bílastæði fyrir hreyfihamlaða.

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 9. maí 2017 var samþykkt umsókn um byggingarleyfi fyrir fimm hæða sambyggðum byggingum á lóðum 7 og 9 við Vegamótastíg ásamt kjallara á tveimur hæðum. Gert var ráð fyrir gististað í flokki V á efri hæðum og veitingasal fyrir allt að 130 gesti á fyrstu hæð og í efri kjallara og tveimur bílastæðum fyrir hreyfihamlaða í neðri kjallara hússins ásamt geymslurými.

Með úrskurði, uppkveðnum 6. september s.á., felldi úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála þá ákvörðun úr gildi á þeim forsendum að fjöldi hæða bygginga á nefndum lóðum og notkun kjallararýmis færi gegn gildandi deiliskipulagi. Þá var einnig vísað til þess í nefndum úrskurði að tvö bílastæði fyrir hreyfihamlaða í neðri kjallara uppfylli ekki skilyrði byggingarreglugerðar, ásamt því að þinglýst kvöð á lóð nr. 7 við Vegamótastíg afmarkaði byggingarreit lóðarinnar vegna brunastiga og flóttaleiðar frá Laugavegi 18b og rýmis fyrir sorptunnur.

Í kjölfarið var sótt um takmarkað byggingarleyfi fyrir jarðvegsframkvæmdum í grunni fyrirhugaðs húss 13. september 2017 sem var samþykkt samdægurs.

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 24. október 2017 var samþykkt byggingarleyfi fyrir fimm hæða steinsteyptu húsi með hóteli á efri hæðum og veitingastað á jarðhæð á fyrrgreindum lóðum. Á fundi borgarráðs hinn 2. nóvember s.á. var ákvörðun byggingarfulltrúa staðfest.

Málsrök kærenda: Kærendur benda á að eftir að nýtt byggingarleyfi hafi verið gefið út hafi fleygun haldið stanslaust áfram með öllum þeim óþægindum sem því fylgi. Enn sé haldið áfram að bora undir hús þeirra án þeirra samþykkis. Þá muni fyrirhugaður veitingastaður á jarðhæð hótelsins valda kærendum miklu ónæði vegna hávaða. Þá sé mikill hæðarmunur á hinu leyfða hóteli og Grettisgötu 3 og 5 sem þýði að slík bygging verði mun hærri en áætlað hafi verið í byrjun.

Einnig sé gerð athugasemd við málsmeðferð Reykjavíkurborgar og vanvirðingu við íbúa og næstu nágranna. Aldrei hafi verið rætt við eða hlustað á kærendur og í þau skipti sem þeim hafi verið svarað hafi það verið með útúrsnúningi. Hvorki hafi verið vilji til að koma á staðinn og mæla hávaða vegna fleygunar, sem kærendur hafi þurft að búa við í sex mánuði, né að athuga skemmdir sem hafi orðið á eign kærenda.

Þá vísi kærendur til ástæðna sem raktar hafi verið í fyrri kærum þeirra vegna fyrirhugaðs hótels í málum nr. 16/2016, 17/2017 og 70/2017.

Athugasemdir leyfishafa: Af hálfu leyfishafa er vísað til þess að athugasemdir kærenda snúist m.a. um hæð húsa, skuggavarp og nýtingarhlutfall, en þau atriði ráðist af ákvæðum gildandi deiliskipulags. Kærufrestur vegna þess skipulags sé löngu liðinn. Deiliskipulagið heimili fimm hæða sambyggðar byggingar auk kjallara fyrir verslunar- og þjónustuhúsnæði og hótel eða sambærilega starfsemi. Engin rök séu sett fram af kærendum um að verið sé að brjóta ákvæði deiliskipulags og skilmála fyrir umræddar lóðir.

Í skilmálum deiliskipulagsins segi í liðum a) og b): „Á lóðunum verða byggingar sem verða alls fimm hæðir, efsta hæð verður inndregin sem og 1. hæð. Kjallari á einni hæð verður undir húsunum. Hæð bygginga er til samræmis við hæð hússins við Laugaveg 18, inndregin efsta hæð Vegamótastígs 7 og 9 er í sömu hæð og inndregin efsta hæð Laugavegs 18, í kóta 38,62.“ Þá komi fram í lið k) að heimilt sé að lyftur og stigahús nái upp fyrir hámarkshæðir, þó að hámarki 3,5 m. Byggingarnefndarteikningar sýni að ekki sé farið yfir kóta deiliskipulagsskilmála. Bílastæðaþörf bygginganna sé uppfyllt en samkvæmt skilmálum deiliskipulagsins skuli vera kjallari undir húsunum sem notaður verði fyrir bílastæði. Á byggingarnefndarteikningu séu sýnd fjögur bílastæði, þ. á m. tvö sérmerkt fyrir hreyfihamlaða. Í skilmálum deiliskipulagsins komi fram að ef ekki sé hægt að uppfylla bílastæðakröfur í kjallara sé heimilt að borga sig frá þeim. Á fyrstu hæð beggja húsa sé samkvæmt skilmálum deiliskipulagsins gert ráð fyrir millihæð á hluta hæðarinnar. Teikningar séu í samræmi við þennan áskilnað deiliskipulagsins.

Eins og fram komi í deiliskipulaginu sé það á svæði sem Aðalskipulag Reykjavíkur 2010-2030 skilgreini sem Miðsvæði M1A. Í aðalskipulaginu, sem og í breytingu á því frá ágúst 2017, segi um tillögu að landnotkun á svæði M1A sem samþykkt hafi verið: „Í miðborgarkjarnanum má finna lykilstofnanir stjórnsýslu, menningar og mennta, líflegustu verslunargötur landsins, litríka flóru veitingastaða auk fjölbreyttrar sérfræðiþjónustu. Sérstök áhersla er á smásöluverslun auk veitingastarfsemi og afþreyingu sem og þjónustu lykilstofnana stjórnsýslu, menningar og mennta. Á jarðhæðum eru verslunar-, veitinga- og menningar-, félags- og þjónustustarfsemi opin almenningi í forgangi, en á efri hæðum skrifstofu- og íbúðarhúsnæði, auk gistiþjónustu.“

Í aðalskipulagsbreytingunni frá því í ágúst 2017 komi fram að gera þurfi grein fyrir hótelum/gististöðum í deiliskipulagi. Í deiliskipulagi fyrir Vegamótastíg, Grettisgötu, Klapparstíg og Laugaveg segi um Vegamótastíg 7-9 að gert sé ráð fyrir verslunum og þjónustu á 1. hæð en íbúðum og/eða ferðatengdri þjónustu/hóteli á efri hæðum.

Í kæru sé því haldið fram að í nýju byggingarleyfi komi fram heimild til að reka veitingastað í flokki III. Byggingarfulltrúi veiti ekki veitingaleyfi, hann samþykki einvörðungu uppdrætti sem geti sýnt veitingastað. Sýslumenn gefi úti rekstrarleyfi fyrir veitingarekstur að uppfylltum þeim skilyrðum sem talin séu upp í 25. gr. reglugerðar nr. 1277/2016 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald. Engar ákvarðanir hafi verið teknar um veitingastað með næturopnun eins og kærendur gefi í skyn. Um starfsemi veitingastaða gildi sérstakar reglur sem borgaryfirvöld framfylgi. Aðalskipulag heimili þrenns konar opnunartíma veitingastaða á skilgreindu miðsvæði M1A og verði rekstraraðili veitingastaðar að Vegamótastíg 7-9 að hlíta skilmálum og ákvörðunum stjórnvalda á hverjum tíma.

——–

Reykjavíkurborg var gefinn kostur á að koma að athugasemdum í kærumáli þessu en hún hefur ekki nýtt sér þann rétt.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 13. september 2017 um að samþykkja takmarkað byggingarleyfi fyrir jarðvegsframkvæmdum við Vegamótastíg 7 og 9 og ákvörðun hans frá 24. október s.á., sem staðfest var af borgarráði 2. nóvember s.á., að samþykkja byggingarleyfi fyrir fimm hæða steinsteyptu hóteli ásamt veitingastað á jarðhæð á framangreindum lóðum. Varða bæði byggingarleyfin sömu byggingarframkvæmdina.

Í kjallara byggingarinnar er gert ráð fyrir fjórum bílastæðum, þar af tveimur fyrir hreyfihamlaða. Í 6. kafla byggingarreglugerðar nr. 112/2012 er að finna þær lágmarkskröfur sem gerðar eru til fjölda bílastæða fyrir hreyfihamlaða við eða á lóðum bygginga sem falla undir skilyrði kaflans um algilda hönnun. Í gr. 6.2.4. segir: „Ef fjöldi bílastæða á lóð annarra bygginga en falla undir 5. og 6. mgr. er ákvarðaður í skipulagi skal lágmarksfjöldi bílastæða fyrir hreyfihamlaða á lóð vera skv. töflu 6.03. Þegar um fleiri stæði er að ræða bætist við eitt stæði fyrir hver byrjuð 200 stæði. Ætíð skal að lágmarki gera ráð fyrir einu stæði fyrir hreyfihamlaða.“ Samkvæmt nefndri töflu er því lágmarkskrafa fyrir heimilað hótelrými að gert verði ráð fyrir einu bílastæði á lóð. Í töflu 6.02 í sömu grein kemur fram að við veitingastaði með 1-100 sæti skuli vera eitt bílastæði fyrir hreyfihamlaða að lágmarki en samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi er gert ráð fyrir veitingasal með sætum fyrir allt að 100 manns. Þarf því eitt bílastæði fyrir hreyfihamlaða vegna fyrirhugaðs veitingahúss.

Lóðirnar sem um ræðir eru staðsettar á reit M1A samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030. Er þar m.a. gert ráð fyrir veitingastarfsemi á jarðhæð og gististarfsemi á efri hæðum. Deiliskipulag svæðisins, eftir breytingu árið 2015, gerir ráð fyrir 5 hæða byggingu sem nær yfir báðar lóðirnar með bílakjallara. Á fyrstu hæð, sem er með millilofti, er gert ráð fyrir verslunar- og þjónustustarfsemi og á efri hæðum verði íbúðir og/eða ferðatengd þjónusta/hótel. Fer hámarkshæð húss ekki yfir uppgefinn kóta í deiliskipulagi. Verður því ekki annað ráðið en að hið kærða byggingarleyfi sé í samræmi við skilmála gildandi deiliskipulags og ákvæði byggingarreglugerðar og hafi því ekki meiri grenndaráhrif en vænta mátti samkvæmt skilmálum skipulagsins.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður kröfu kærenda um ógildingu hinna kærðu ákvarðana hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 13. september 2017 um að samþykkja takmarkað byggingarleyfi vegna lóðanna Vegamótastígs 7 og 9.

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 24. október 2017, sem staðfest var í borgarráði 2. nóvember s.á, um að samþykkja byggingarleyfi fyrir fimm hæða steinsteyptu húsi á lóðunum Vegamótastíg 7 og 9.