Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

134/2020 Tangabryggja

Árið 2022, miðvikudaginn 4. maí, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Ómar Stefánsson, starfandi formaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor, Ásgeir Magnússon, fyrrverandi dómstjóri, Hildigunnur Haraldsdóttir arkitekt og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Endurupptekið var mál nr. 134/2020, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 21. október 2020 um að gefa út vottorð um lokaúttekt vegna Tangabryggju 13-15.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 14. desember 2020, er barst nefndinni sama dag, kærir húsfélag Tangabryggju 13-15 þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 21. október 2020 að gefa út vottorð um lokaúttekt vegna Tangabryggju 13-15. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Jafnframt er þess krafist að byggingarfulltrúa verði gert að endurtaka lokaúttekt samkvæmt skoðunarlista, sbr. gr. 3.5.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012, eftir að verktaki ljúki við bygginguna að fullu. Með úrskurði nefndarinnar kveðnum upp 6. maí 2020 var kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Kærandi kvartaði yfir úrskurðinum til umboðsmanns Alþingis og af því tilefni óskaði umboðs­maður í bréfi, dags. 12. ágúst 2021, eftir skýringum á tilteknum atriðum úrskurðarins. Að kvörtun kæranda og fyrirspurnum umboðsmanns virtum taldi úrskurðarnefndin rétt að endur­upptaka kærumálið að eigin frumkvæði og með bréfi nefndarinnar, dags. 21. september s.á., var aðilum máls tilkynnt um þá ákvörðun.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 24. febrúar 2021.

Málavextir: Á árinu 2016 var sótt um byggingarleyfi til þess að byggja fimm hæða fjölbýlishús með 63 íbúðum á lóðinni nr. 18-24 við Tangabryggju, sem síðar var breytt í Tangabryggju 13-15. Hinn 23. apríl 2019 sendi kærandi tölvupóst til byggingarfulltrúans í Reykjavík og óskaði eftir því að fá að koma að athugasemdum áður en lokaúttekt færi fram, sem hann og gerði. Með tölvupóstum 27. s.m. og 31. maí s.á. kom kærandi að frekari athugasemdum vegna lokaúttektar. Lutu athugasemdir hans m.a. að því hvernig aðgengi og loftræsingu væri háttað. Byggingar­fulltrúi gaf út vottorð um lokaúttekt 21. júní 2019 en sú ákvörðun var kærð til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Með úrskurði uppkveðnum 28. maí 2020 í máli nr. 54/2019 var ákvörðun byggingarfulltrúa felld úr gildi með vísan til þess að þáttum sem vörðuðu aðgengi skyldi ávallt vera lokið við gerð lokaúttektar, sbr. 4. mgr. 36. gr. laga nr. 160/2010 um mann­virki, en að mati nefndarinnar voru tiltekin skilyrði byggingarreglugerðar nr. 112/2010 um bílastæði hreyfihamlaðra ekki uppfyllt. Var í úrskurðinum jafnframt vísað til þess að færi loka­úttekt fram að nýju kynni byggingarfulltrúa að vera rétt að bregðast við þeim athugasemdum sem kærandi hefði gert við meðferð málsins.

Með tölvupóstum 9. og 26. júní 2020 komu kærendur að athugasemdum vegna fyrirhugaðrar lokaúttektar byggingarfulltrúa og 9. júlí s.á. óskaði kærandi eftir því við byggingarfulltrúa að verða upplýstur um það þegar boðað yrði til skoðunar vegna lokaúttektar. Með umsókn, dags. 18. september 2020, sótti byggingaraðili um leyfi til að koma fyrir bílastæði fyrir hreyfihamlaða við hús nr. 15 á lóð Tangabryggju 13-15. Samþykkti byggingarfulltrúi umsóknina á afgreiðslufundi sínum 20. október s.á. og áritaði breytta aðaluppdrætti sama dag. Skoðun á mannvirkinu vegna lokaúttektar fór fram 21. s.m. og sama dag gaf byggingarfulltrúi út vottorð um lokaúttekt. Kærandi kærði þá ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar og krafðist þess m.a. að hún yrði felld úr gildi. Svo sem áður greinir var þeirri kröfu hafnað með úrskurði nefndarinnar uppkveðnum 6. maí 2021, en úrskurðarnefndin ákvað hinn 21. september s.á. að endurupptaka málið að virtri kvörtun kæranda til umboðsmanns Alþingis og fyrirspurnum hans til nefndarinnar vegna kvörtunarinnar.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að í gr. 1.1.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 komi fram að meðal markmiða hennar sé að tryggja aðgengi fyrir alla. Samkvæmt gr. 6.4.2. í reglu­gerðinni skuli gera ráð fyrir sjálfvirkum opnunarbúnaði fyrir inngangsdyr í aðal­umferðarleiðum. Slíkan búnað sé ekki að finna á þeim fimm dyrum sem marki aðalumferðar­leið frá bílgeymslu að lyftum í Tangabryggju 15, en öll stæði fyrir hreyfihamlaða í eigninni tilheyri íbúðum að Tangabryggju 15. Þá sé kveðið á um það í gr. 6.4.11. að skábrautir skuli „að jafnaði ekki vera brattari en 1:20. Ef umferðarleið er styttri en 3 m er þó heimilt að halli skábrautar sé mest 1:12.“ Halli skábrautar að bílgeymslu sé meiri en 1:12 þrátt fyrir að um lengri skábraut en 3 m sé að ræða. Sú leið sé af þeim sökum ekki fær hjólastólum og því nauðsynlegt að aðalumferðarleið sé greiðfær þeim sem þar fari um. Aðgengi hreyfihamlaðra íbúa sé þar af leiðandi skert en slíkt brjóti í bága við reglur um aðgengi fyrir alla.

Ekki sé til staðar útsog úr eldhúsum íbúða, af gangi eða stigahúsum. Þar af leiðandi séu ekki eðlileg loftskipti á þessum stöðum í samræmi við gr. 10.2.5. í byggingarreglugerð. Á upp­dráttum komi fram að öll gluggalaus eða lokuð rými verði loftræst. Matarlykt leiði nú um íbúðir og fram á ganga. Loftræsing í stigahúsum, sem aðskilin séu frá stigapöllum með eldvarnar­hurðum, hafi verið sett upp eftir að fyrra vottorð um lokaúttekt hafi verið fellt úr gildi. Önnur loftræsing hafi ekki verið lagfærð. Sorpgeymsla sé án læstrar hurðar og gólf þar ómeðhöndlað. Það leiði til þess að erfitt sé að þrífa gólfið, en skv. gr. 6.12.7. reglugerðarinnar skuli sorp­geymslur þannig frágengnar að auðvelt sé að þrífa þær. Einnig segi í gr. 6.12.8. að gólf í sorp­gerði/sorpskýli skuli vera úr efni sem auðvelt sé að þrífa. Þá vanti loftræsingu í sorpgeymslu svo hægt sé að læsa henni, sbr. gr. 6.12.7. Samkvæmt gr. 6.12.1. skuli ganga þannig frá tækni­rýmum að þau „séu ávallt læst ef í þeim eru tæki, búnaður eða efni sem eru viðkvæm, geta valdið slysum eða verið hættuleg börnum eða fullorðnum.“ Rafmagnstöflur séu ólæstar í sam­eiginlegu rými, sem sé skilgreint sem hjóla- og vagnageymsla/tæknirými. Þar sé óhindrað aðgengi fyrir börn og fullorðna sem geti valdið slysum og tjóni fyrir íbúa hússins. Samkvæmt gr. 6.2.2. reglugerðarinnar skuli lýsing og merkingar við alla gangstíga, hjólastíga, akbrautir og bílastæði henta þeirri umferð sem gert sé ráð fyrir á svæðinu. Bílastæði séu óupplýst ásamt hluta gangstígs, sem skapi hættu fyrir íbúa sem eigi þar leið um í skammdeginu.

Svo virðist sem húsið hafi ekki verið tekið út samkvæmt ákvæðum skoðunarhandbókar og skoðunarlista, sbr. gr. 3.5.1. í byggingarreglugerð. Hefði skoðunarhandbók og skoðunarlistum verið fylgt við áfanga- og lokaúttektir á byggingunni hefði komið fyrr til úrbóta. Ekki sé hægt að gefa út lokaúttektarvottorð þegar ekki séu uppfyllt skilyrði varðandi aðgengi, hollustuhætti og öryggismál.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er bent á að byggingaraðili hafi sótt um byggingarleyfi til breytinga á útgefnu byggingarleyfi til að lagfæra þau atriði sem úrskurðar­nefndin hafi gert athugasemdir við í fyrra máli. Hafi byggingarfulltrúi samþykkt umsókn um bílastæði fyrir hreyfihamlaða fyrir framan húsið, en með því hafi krafa byggingarreglugerðar nr. 112/2012 um bílastæði fyrir hreyfihamlaða verið uppfyllt. Skýrsla vegna stillinga á hurðar­pumpum í sameign og átaksmælingar opnunar þeirra hafi verið send byggingarfulltrúa með niðurstöðum um lagfæringar á stillingum. Einnig liggi fyrir minnisblað loftræsihönnuðar þar sem gerð sé grein fyrir hönnunarforsendum og loftun stigahúsa. Þá sé bent á að aðrar máls­ástæður sem hafi áður komið til umfjöllunar úrskurðarnefndarinnar, s.s. vélrænt útsog í eld­húsum og aðgerðir í sorpgerði, séu ekki réttmætar. Frágangur hafi verið í samræmi við ákvæði byggingarreglugerðar, eins og hún hafi verið við samþykkt upprunalegrar byggingar­leyfisumsóknar 14. mars 2017. Hvað lýsingu á lóðinni varði þá hafi athugun byggingarfulltrúa leitt í ljós að lýsing aðkomu hússins væri í samræmi við lóðaruppdrátt frá 7. janúar 2019.

 Athugasemdir byggingaraðila: Af hálfu byggingaraðila er þess krafist að kröfum kæranda í málinu verði hafnað. Bent sé á að í úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 54/2019 hafi nefndin fellt úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa um að gefa út vottorð um lokaúttekt vegna Tangabryggju 13-15 með vísan til þess að bílastæði hreyfihamlaðra uppfylltu ekki nánar til­greindar kröfur í gr. 6.2.4. byggingarreglugerðar nr. 112/2012. Byggingaraðili hafi bætt úr því með því að bæta við bílastæði fyrir hreyfihamlaða beint fyrir utan aðalinngang Tangabryggju 15.

Byggingarfulltrúi hafi að öllu leyti verið meðvitaður um þau atriði sem kærandi hafi talið vera ábótavant þegar gefið hafi verið út nýtt vottorð um lokaúttekt. Athugasemdir kæranda séu að langstærstum hluta þær sömu og hafi verið settar fram í máli nr. 54/2019. Áður en lokaúttekt hafi farið fram að nýju hafi kærandi sent skjal til byggingarfulltrúa með sambærilegum athugasemdum. Embættið hafi ekki talið tilefni til að bregðast við þeim, eftir atvikum með synjun um útgáfu vottorðsins eða með útgáfu þess með athugasemdum. Hin kærða ákvörðun feli þvert á móti í sér staðfestingu á að bílastæði mannvirkisins hafi uppfyllt kröfur byggingar­reglugerðar um aðgengi hreyfihamlaðra og tilskilda stærð, að mannvirkið uppfylli að öðru leyti viðeigandi kröfur laga nr. 160/2010 um mannvirki og byggingarreglugerðar og að byggt hafi verið í samræmi við samþykkt hönnunargögn, sbr. 1. mgr. 36. gr. laganna. Full­nægjandi úrbætur hafi verið gerðar og þegar af þeirri ástæðu beri að hafna kröfum kæranda.

Stór hluti athugasemda kæranda, s.s. varðandi sorpgeymslu, tæknirými og lýsingar á bíla­stæðum og göngustígum, beinist að atriðum sem myndu teljast minniháttar frávik ef fallist yrði á þær. Athugasemdirnar hefðu í mesta lagi getað orðið til þess að byggingarfulltrúi hefði gefið út vottorð um lokaúttektina með athugasemdum skv. 4. mgr. 36. gr. laga nr. 160/2010. Slík minniháttar frávik geti undir engum kringumstæðum valdið ógildingu lokaúttektarinnar í heild sinni með tilheyrandi íþyngjandi réttaráhrifum fyrir byggingaraðila og aðra hlutaðeigandi aðila.

Kærandi nefni þrjú atriði sem tengist aðgengi. Fyrsta atriðið varði bílastæði fyrir hreyfi­hamlaða, en um það sé vísað til fyrri umfjöllunar. Annað atriði varði sjálfvirkan opnunarbúnað fyrir inngangs- og útidyr í aðalumferðarleiðum sem skuli gera ráð fyrir, sbr. b-lið 5. mgr. gr. 6.4.2. í byggingarreglugerð. Inngangur úr bílageymslu inn í húsið liggi ekki um inngangs- og útidyr í aðalumferðarleið í skilningi framangreinds ákvæðis. Fjallað sé um dyr innanhúss í gr. 6.4.3., en samkvæmt 3. mgr. ákvæðisins skuli dyr í byggingum þannig frágengnar að allir, þ.m.t. fólk í hjólastól, geti opnað þær og sé í ákvæðinu mælt fyrir um ákveðið hámarksátak við að opna hurðir. Byggingaraðili hafi framkvæmt átaksmælingar á opnun dyra í kjallaranum til þess að ganga úr skugga um og sýna fram á að þær væru innan leyfilegra marka með hliðsjón af kröfum ákvæðisins. Átaksmælingar hafi staðfest að allar eldvarnarhurðir úr bifreiðakjallara, inn að stigagöngum og að lyftu, sem og aðrar hurðir í kjallaranum, séu í samræmi við nefndar kröfur. Allar gönguleiðir séu samkvæmt gildandi reglum um aðgengi fyrir alla og öll atriði sem varða aðgengi innanhúss séu einnig í samræmi við gildandi reglur. Þriðja atriðið hafi varðað skábrautir en í gr. 6.4.11. í byggingarreglugerð sé fjallað um hönnun skábrauta fyrir hjólastóla og settar fram viðmiðunarreglur, m.a. um hámarkshalla. Byggingaraðili geri ráð fyrir að umfjöllun kæranda beinist að halla umferðarleiðar fyrir bifreiðar inn í bílgeymslu kjallarans. Umferðar­leið fyrir bifreiðar inn í bílgeymslu kjallara teljist ekki skábraut fyrir hjólastóla. Af þessari ástæðu nái kröfur um hönnun skábrauta fyrir hjólastóla ekki til þessa hluta mannvirkisins og sé ekki um brot á byggingarreglugerð að ræða.

Í skilalýsingu Tangabryggju 13-15 sé kveðið á um að vélræn loftræsing (útsog) verði í rýmum samkvæmt hönnunargögnum þar sem við eigi, auk opnanlegra faga og eldhúsháfs. Vottorð um lokaúttekt staðfesti að mannvirkið, þ.m.t. loftræsing, hafi verið byggt í samræmi við samþykkt hönnunargögn og uppfylli viðeigandi kröfur byggingarreglugerðar. Á grunnmynd af loft­ræsingu sé leitast við að varpa skýrara ljósi á þennan þátt málsins. Í því samhengi sé rétt að nefna að við lokaúttekt hafi legið fyrir yfirlýsing blikksmíða-, pípulagninga- og rafvirkja­meistara um að loftræsikerfi hafi verið stillt, samvirkni tækja prófuð og að afköst þeirra séu í samræmi við hönnunargögn. Einnig hafi legið fyrir niðurstöður loftmagnsmælinga ásamt samanburði við kröfur um loftmagn í hönnunargögnum. Að mati byggingaraðila uppfylli lofræsing allar viðeigandi kröfur byggingarreglugerðar.

Hvað sorpgeymslu varði sé bent á að gr. 6.12.7. í byggingarreglugerð eigi við um innbyggðar sorpgeymslur og sorpgeymslur sem séu byggðar í tengslum við byggingar. Hin umdeilda sorp­geymsla falli ekki undir það gildissvið þar sem um sé að ræða sorpskýli. Um sorpskýli sé fjallað í gr. 6.12.18., en hvorki sé mælt fyrir um að þau skuli vera með læsanlegri hurð né að þau skuli loftræst með ólokanlegri loftrist að útilofti. Gólf sorpskýla skuli hins vegar vera úr efni sem sé auðvelt að þrífa. Gólfflötur skýlisins sé steyptur og vélslípaður og í samræmi við gr. 6.12.18.

Að mati kæranda sé ekki forsvaranlegt að rafmagnstöflur séu ólæstar í sameiginlegu rými sem skilgreint sé sem hjóla- og vagnageymsla, sbr. 4. mgr. gr. 6.12.1. í byggingarreglugerð. Byggingaraðili hafi haft samband við sérfræðing hjá rafmagnsöryggissviði Húsnæðis- og mannvirkja­stofnunar og hafi niðurstaða hans verið sú að ekkert væri því til fyrirstöðu að staðsetja rafmagns­töflur í hjóla- og vagnageymslum. Í byggingarreglugerð séu engar kröfur um að rafmagns­töflur séu læstar og ekki verði séð af öðrum réttarheimildum að slíkar kröfur séu gerðar. Til hliðsjónar megi benda á 13. mgr. gr. 11.2. í reglugerð nr. 678/2009 um raforkuvirki, með síðari breytingum, en þar sé tiltekið að rafmagnstöflum skuli þannig komið fyrir að aðgengi að þeim sé auðvelt og óski eigandi eða umráðamaður þess, t.d. til að koma í veg fyrir óæskilega umgengni, megi staðsetja rafmagnstöflur í læstu rými eða skáp. Af þessu ákvæði virðist mega ráða að meginreglan sé að þær skuli vera aðgengilegar og almennt í ólæstum rýmum en heimilt sé að staðsetja þær í læstu rými eða skáp.

Að lokum telji byggingaraðili lýsingu bílastæða og gangstíga vera í samræmi við kröfur 5. mgr. gr. 6.2.2. í byggingarreglugerð. Einnig sé bent á að bæði skoðunarhandbók og skoðunarlistar byggist á byggingarreglugerð og hafi lokaúttekt verið gerð með vísan til ákvæða í 36. gr. laga nr. 160/2010, sbr. einnig gr. 3.9.1., 3.9.2. og 3.9.3. í fyrrgreindri byggingarreglugerð. Mann­virkið uppfylli allar viðeigandi kröfur mannvirkjalaga og byggingarreglugerðar og hafi verið byggt í samræmi við samþykkt hönnunargögn. Engir annmarkar séu fyrir hendi á hinni kærðu ákvörðun sem geti leitt til ógildingar hennar og skuli því hafna kröfum kæranda í málinu.

 Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi vísar til þess að þó úrskurðarnefndin hafi ekki í fyrri úrskurði tilgreint að þörf sé á að uppfylla ákveðin ákvæði byggingarreglugerðar nr. 112/2012 jafngildi það ekki samþykki fyrir því að þau standi óuppfyllt. Í úrskurði nefndarinnar hafi komið fram að byggingarfulltrúa kunni „að vera rétt að bregðast við þeim athugasemdum sem kærandi hefur gert við meðferð máls þessa, s.s. um að gr. 10.2.5. í byggingar-reglugerð sé ekki fullnægt þar sem útsog sé ekki til staðar í eldhúsum íbúða.“ Vakin sé athygli á að í gr. 6.2.4. komi fram að „bílastæði hreyfihamlaðra og umferðarleiðir frá þeim að aðalinngangi byggingar skulu vera upphituð þar sem því verður við komið.“ Bílastæðið sem bætt hafi verið við fyrir framan Tangabryggju 15 sé staðsett á stétt utan snjóbræðslu og því ekki upphitað. Sannarlega sé hægt að hafa bílastæðið upphitað þar sem nálæg stétt sé upphituð og ekkert því til fyrirstöðu að upphitun nái einnig yfir stæðið.

Samkvæmt byggingarreglugerð skuli fjölbýlið að Tangabryggju 13-15 hafa fjögur bílastæði fyrir hreyfihamlaða. Þau séu nú alls fimm talsins en fjögur þeirra séu staðsett í læstri bíla-geymslu og séu þinglýst eign eigenda fjögurra íbúða. Þá komi fram í 9. mgr. gr. 6.24. að fækka megi bílastæðum á lóð mannvirkis sem nemi fjölda sérmerktra stæða fyrir hreyfihamlaða í sameigin­legri bílgeymslu, enda sé tryggt að gestkomandi hafi ávallt aðgang að hluta stæðanna. Þar sem bílgeymsla sé læst og takmarkist við aðgengi íbúa hafi gestkomandi ekki aðgang að stæðum sem þar séu staðsett. Kærandi fái því ekki séð að hægt sé að fækka bílastæðum á lóð sem nemi fjölda sérmerktra stæða í sameiginlegri bílgeymslu, eins og reglugerð kveði á um. Þannig sé eitt bílastæði fyrir hreyfihamlaða íbúa og gesti of lítið.

Bent sé á að stilling hurðapumpa hafi ekki verið umfjöllunarefni kærunnar. Kjósi íbúi að nýta bíla­stæði sitt í bílgeymslu, þar sem nú þegar séu staðsett bílastæði fyrir hreyfihamlaða, komist sá hinn sami ekki úr bílgeymslunni nema í gegnum dyr í sameign. Það sé aðal­­umferðarleið og því óásættanlegt að hreyfihömluðum íbúum sé gert ókleift að nýta stæði sín.

Í kæru hafi komið fram að lofræsingu hafi verið komið fyrir í stigahúsum áður en seinni loka­úttekt hafi farið fram. Ekki hafi fengist staðfesting á að sú loftræsing uppfylli lágmarkskröfu gr. 10.2.5. í byggingarreglugerð um 17 l/s loftskipti í stigahúsum. Þá sé bent á að stigagangar séu gluggalaus lokuð rými sem séu aðskilin stigahúsum með eldvarnarhurðum. Þar hafi ekki verið bætt úr loftræsingu. Í 1. mgr. gr. 10.2.5. komi fram að öll rými íbúða og íbúðarhúsa skuli loftræst. Sú loftræsing sem bætt hafi verið úr veiti ekki fersklofti inn á stigaganga sem séu lokaðir af og því enga loftræsingu þar að finna.

Sorpgeymslan á lóð fjölbýlishússins falli undir skilgreiningu byggingarreglugerðar um sorp­geymslu en ekki sorpgerði, enda hafi hún fjóra veggi og þak. Í gr. 6.12.7. komi fram að inn­gangur í sorpgeymslu sem byggð sé í tengslum við byggingar skuli vera utan frá um læsanlegar dyr sem opnist út. Umrædd sorpgeymsla sé sannanlega byggð í tengslum við bygginguna að Tanga­bryggju 13-15. Því eigi læsanlegar dyr að vera á henni. Einnig sé gólf­flötur sorpgeymslu steyptur en ekki vélslípaður, líkt og byggingaraðili haldi fram. Gólfflötur sé því grófur og erfiður til þrifa.

Reykjavíkurborg hafi greint frá því að athugun byggingarfulltrúa á lýsingu aðkomu hússins hafi leitt í ljós að hún væri í samræmi við lóðarblað hönnuða. Hönnunargögnin sjálf séu ekki til umfjöllunar en þau hefðu átt að uppfylla ákvæði reglugerðar til að vera samþykkt. Eins og sjá megi á myndum sé engin lýsing á gönguleið frá bílastæðum íbúa, sem staðsett séu á þaki bílgeymslu, og í myrkri sjáist gönguleiðin meðfram húsveggnum illa. Götulýsing dugi ekki til að lýsa upp gönguleiðina þar sem sorp- og hjólageymsla Tangabryggju 18 standi á milli ljósa­staura og gönguleiðar.

Það sé rangt hjá byggingaraðila að athugasemdir kæranda varði minniháttar frávik og að slíkt hefði leitt til þess að lokaúttektarvottorð hefði verið gefið út með athugasemdum. Samkvæmt 2. mgr. gr. 3.9.4. í byggingarreglugerð megi hvorki vera ófullgerðir verkþættir sem varði öryggis- og hollustukröfur né verkþættir sem séu háðir áfangaúttekt. Við lokaúttekt sé húsnæðið metið samkvæmt skoðunarhandbók og skoðunarlista Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar skv. gr. 3.5.1. Það sé forsenda úttektarinnar. Skortur á lofræsingu lokaðra rýma og það að umferðarleið að og frá bílgeymslu sé ekki hönnuð á grundvelli algildrar hönnunar leiði til athugasemda í flokki 2 samkvæmt skoðunarlista um yfirferð hönnunargagna. Athugasemdir í flokki 2 leiði til höfnunar á samþykkt og kröfu um endurtekningu skoðunar skv. gr. 2.3.1. í viðauka II við byggingar­reglugerð. Byggingarfulltrúi vanræki hlutverk sitt því mannvirkið hafi verið byggt samkvæmt hönnunargögnum sem ekki hafi uppfyllt ákvæði byggingarreglugerðar að fullu.

Gerð sé athugasemd við að á aðaluppdráttum sé hvergi skilgreint tæknirými í fjölbýlinu. Í rýminu, sem sé skilgreint sem hjóla- og vagnageymsla, sé nú búið að setja upp rafmagnstöflur, loftræsiblásara og annan tæknibúnað. Þessi geymsla sé jafnframt aðalgönguleið frá lyftu í Tangabryggju 15 að bílgeymslu. Því sé ekki heimilt að staðsetja tæknibúnað í hjóla- og vagna­geymslu og losna með þeim hætti undan þeirri kröfu gr. 6.12.1. í byggingarreglugerð að gengið skuli frá tæknirýmum þannig að þau séu ávallt læst ef í þeim séu tæki, búnaður eða efni sem séu viðkvæm, geti valdið slysum eða verið hættuleg börnum eða fullorðnum. Byggingarfulltrúa og byggingaraðila hafi mátt vera ljóst að til að uppfylla ákvæði um aðgengi að rafmagnstöflum, óheft aðgengi að björgunaropum/neyðarútgöngum og gönguleið að bílgeymslu í þessu rými stæði lítið sem ekkert rými eftir fyrir þá hjóla- og vagnageymslu sem tilgreind sé í hönnunar­gögnum.

———-

Með bréfi úrskurðarnefndarinnar til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, dags. 1. október 2021, var þess farið á leit að stofnunin léti í ljós álit sitt á tveimur atriðum varðandi hina kærðu ákvörðun í máli þessu. Annars vegar að stofnunin gæfi álit sitt á fyrirkomulagi bílastæðis fyrir hreyfihamlaða fyrir utan hús nr. 15 á lóð Tangabryggju 13-15 í ljósi þess orðalags ákvæðis 3. mgr. gr. 6.2.4. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 að bílastæði hreyfihamlaðra og umferðar­leiðir frá þeim að aðalinngangi byggingar skuli vera upphituð þar sem því verði við komið. Hins vegar að stofnunin veitti álit sitt á því hvort og þá hvernig fyrirkomulag loftræsingar Tangabryggju 13-15, eins og því hefði verið lýst í gögnum málsins, þ. á m. uppdráttum loftræsi­búnaðar og útreikningi loftskipta, samræmdist kröfum byggingarreglugerðar þar um, sbr. kafla 10.2. um loftgæði og loftræsingu og kafla 14.9. um loftræsibúnað.

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun veitti úrskurðarnefndinni álit sitt með bréfi, dags. 1. nóvember 2021. Þar kemur fram að til þess að meta tæknilega þætti fyrrgreindra atriða hafi stofnunin leitað til fagstjóra lagna- og loftræsihönnunar hjá verkfræðistofu og loftræsihönnuðar sem starfi einnig hjá sömu stofu. Í svari stofnunarinnar við fyrirspurn nefndarinnar um upphitun bílastæða hreyfihamlaðra og umferðarleiða frá þeim er vísað til þess að markmið laga nr. 160/2010 um mannvirki sé m.a. að tryggja aðgengi fyrir alla óháð fötlun, skerðingum eða veikindum. Aðgengiskröfur innan bygginga og umhverfi þeirra séu svo nánar skilgreindar í byggingarreglugerð nr. 112/2012, en í 3. mgr. gr. 6.2.4. sé kveðið á um að bílastæði hreyfi­hamlaðra og umferðarleiðir frá þeim að aðalinngangi byggingar skuli vera upphituð þar sem því verði við komið. Með tilliti til þess markmiðs að tryggja aðgengi fyrir alla verði að túlka orðalag seinni hluta málsgreinarinnar, þ.e. „þar sem því verður við komið“, á þann máta að hér sé um undantekningu frá meginreglu að ræða. Því skuli bæði bílastæði og umferðarleiðir frá þeim vera upphituð nema eitthvað sé því til fyrirstöðu sem erfitt sé að leysa án umtalsverðs kostnaðar eða fyrirhafnar. Sé slík fyrirstaða fyrir hendi eigi jafnframt að gera grein fyrir henni í greinargerð hönnuðar, sbr. 2. mgr. gr. 4.5.3. í byggingarreglugerð. Í áliti þeirra sérfræðinga sem stofnunin hafi leitað til hafi komið fram að „samkvæmt yfirlitsmynd snjóbræðslu­kerfis L-09 virðist ekkert hindra að framlengja snjóbræðslu í gangstétt að bílastæði fyrir hreyfihamlaðra og þannig fáist snjóbrætt bílastæði og gönguleið frá stæðinu að inngangi.“ Því sé það mat stofnunarinnar að ekki hafi verið nein fyrirstaða sem réttlætti að ekki hefði verið sett snjó­bræðsla í bílastæði hreyfihamlaðra auk þess sem ekki liggi fyrir samkvæmt gögnum málsins að hönnuður hafi rökstutt slíkt frávik í greinargerð.

Að því er varði fyrirspurn úrskurðarnefndarinnar um fyrirkomulag lofræsingar Tangabryggju 13-15 bendi Húsnæðis- og mannvirkjastofnun á að fullnægjandi loftræsing sé ein þeirra hollustukrafna sem gerðar séu til mannvirkja samkvæmt byggingarreglugerð. Stofnunin hafi talið byggingarfulltrúa vera heimilt að hafna útgáfu vottorðs um lokaúttekt mannvirkis telji hann að kröfur byggingarreglugerðar til loftræsingar séu ekki uppfylltar í skoðuðu mannvirki. Athygli sé vakin á gr. 10.1.3. í reglugerðinni um framsetningu krafna, en í ákvæðinu segi að meginreglur í 10. hluta reglugerðarinnar séu ávallt ófrávíkjanlegar en viðmiðunarreglur séu frávíkjanlegar ef sýnt sé fram á að hollusta, loftgæði og loftræsing, rakavörn og öryggi sé tryggt með jafngildum hætti og meginregla viðkomandi ákvæðis sé uppfyllt. Í slíkum tilvikum skuli hönnuður skila með hönnunargögnum greinargerð þar sem gerð sé grein fyrir því og rökstutt með hvaða hætti meginregla ákvæðisins sé uppfyllt. Samkvæmt því séu öll ákvæði 10. hluta reglugerðarinnar ófrávíkjanleg, nema því aðeins að tekið sé fram að víkja megi frá þeim að nánari skilyrðum uppfylltum.

Í kafla 10.2. í byggingarreglugerð sé að finna ákvæði sem gildi almennt um loftræsingu allra mannvirkja, en að auki séu gerðar sérstakar og ítarlegri kröfur til einstakra tegunda mannvirkja í kaflanum, þ. á m. til íbúða og tengdra rýma. Fjallað sé um loftræsingu íbúða og tengdra rýma í gr. 10.2.5. og segi þar í 1. mgr. að íbúðir og íbúðarhús megi loftræsa með vélrænni loft­ræsingu, náttúrulegri loftræsingu eða blöndu af hvoru tveggja. Síðan sé í viðmiðunarreglu 2. mgr. greinarinnar kveðið á um að tryggja skuli að tilgreind loftskipti í íbúðarhúsum séu möguleg að lágmarki, óháð gerð loftræsingar, í tilgreindum rýmum. Samkvæmt a-lið sé kveðið á um að útsog úr eldhúsi íbúðar skuli vera 30 l/s. Að mati stofnunarinnar sé í þeim stafliðum þar sem krafist sé útsogs átt við að sérstakt útsog skuli vera úr því rými, en merking orðsins sé sú að loftið skuli dregið út án viðkomu í öðrum rýmum íbúðarinnar. Útsog í öðru rými en það sem loftræsa eigi, t.d. sem dragi loft úr eldhúsi um önnur rými íbúðarinnar, teljist að mati stofnunarinnar ekki útsog úr eldhúsi. Um þá túlkun sé vísað til 2. mgr. gr. 10.2.2. í reglugerðinni þar sem segi að við ákvörðun loftræsingar beri að taka mið af tegund og gerð rýmis, þeirri starfsemi sem þar fari fram, hita- og rakamyndun, útstreymi mengandi efna frá byggingarefnum og útbúnaði, útstreymi mengunar vegna efna og vinnslu svo og vegna athafna fólks og dýra sem þar dvelji. Ástæður þess að krafist sé útsogs úr tilteknum rýmum íbúða í gr. 10.2.5. í reglu­gerðinni séu að mati stofnunarinnar þær að ekki sé talið ásættanlegt, m.t.t. þæginda og heil­brigðis íbúa, að draga lykt og raka úr þessum rýmum yfir í önnur rými íbúða. Jafnframt vísi stofnunin þessu til stuðnings til 4. mgr. gr. 10.2.3. í reglugerðinni þar sem fram komi að nota skuli staðbundið útsog þar sem mengandi vinnsla fari fram. Sameiginlegt markmið þessara ákvæða sé að mengun, lykt, raki og annað sem valdi óæskilegum loftgæðum sé ekki að óþörfu dreift um íverurými fólks, heldur ræst út sem næst upptökunum með útsogi.

Jafnframt sé rétt að líta til 8. og 9. mgr. gr. 14.9.1. í byggingarreglugerð, en í 8. mgr. sé kveðið á um að útsog náttúrulegrar loftræsingar í byggingum skuli ávallt ná upp fyrir efstu klæðningu þaks. Virkni útsogs skuli vera fullnægjandi og frágangur þannig að útsog valdi ekki óþægindum eða skaða í umhverfinu. Þá segi í 9. mgr. að útsog frá eldhúsi, baðherbergjum og salerni skuli almennt ná upp fyrir efstu klæðningu þaks. Þessi ákvæði setji frágangi loftræsibúnaðar ákveðnar skorður og takmarki hvernig útsogi náttúrulegrar loftræsingar skuli háttað. Ekki sé hægt að fallast á að opnanlegt gluggafag uppfylli þær kröfur sem gerðar séu til útsogs náttúru­legrar lofræsingar. Einnig sé ekki tryggt að með opnanlegu fagi sé loft dregið út úr við­komandi íverurými þar sem engin einstefna sé í því.

Í áliti þeirra sérfræðinga sem Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hafi leitað til hafi verið bent á að í íbúðum Tangabryggju 13-15 sé útsog frá eldhúskróki dregið í gegnum alrými og salerni, en samkvæmt byggingarreglugerð megi ekki draga útsog frá eldhúsi í gegnum önnur rými. Samkvæmt byggingarreglugerð þurfi útsog frá eldhúsi að ná að lágmarki 30 l/s og 20 l/s frá baðherbergi/þvottahúsi eða samtals 50 l/s, en heildarútsog frá íbúðum í Tangabryggju 13-15 sé aðeins 35 l/s. Þá hafi verið bent á að ekki verði séð að neinar ráðstafanir hafi verið gerðar til að ná kröfu byggingarreglugerðar um loftræsingu svefnherbergja íbúða, en skv. 3. tl. 1. mgr. gr. 10.2.5. skuli magn fersklofts sem berist til svefnherbergis aldrei vera minna en 7 l/s á hvern einstakling meðan herbergið sé í notkun. Að framangreindu virtu sé það því álit stofnunarinnar að fyrirkomulag loftræsingar Tangabryggju 13-15 uppfylli ekki ákvæði gr. 10.2.5. í byggingar­reglugerð.

Í athugasemdum kæranda vegna álits Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar er bent á að stofnunin hafi ekki tekið til umfjöllunar fyrirkomulag loftræsingar í sameign. Mikilvægt sé að óskað sé eftir áliti stofnunarinnar hvað þetta atriði varði. Kærandi hafi fengið fagaðila til að mæla útsog í íbúð í húsinu og hafi niðurstaða þeirrar mælingar verið sú að samanlagt útsog úr baðherbergi og þvottahúsi sé 11 l/s en ekki 35 l/s, eins og hönnunargögn og byggingarreglugerð kveði á um.

Kærandi gerir og athugasemd við að úrskurðarnefndin hafi ekki beðið stofnunina um álit hennar á fjölda bílastæða fyrir hreyfihamlaða, en skv. gr. 6.2.4. í byggingarreglugerð eigi fjöl­býlið að hafa að lágmarki fjögur bílastæði fyrir hreyfihamlaða. Slík stæði fyrir Tangabryggju 13-15 séu í læstri bílageymslu og ekki aðgengileg öðrum en íbúum þeirra íbúða sem séu þing­lýstir eigendur þeirra. Jafnframt sé gerð athugasemd við að nefndin hafi ekki beðið stofnunina um álit hennar á skertu aðgengi íbúa að bílageymslu um aðalumferðarleið í kjallara. Samkvæmt b-lið 4. mgr. gr. 6.4.2. í reglugerðinni skuli gert ráð fyrir sjálfvirkum opnunarbúnaði fyrir inn­gangs- og útidyr í aðalumferðarleiðum. Fara þurfi um fernar dyr með þungum brunahurðum í þessari aðalumferðarleið frá bílageymslu að lyftu í Tangabryggju 15. Sé átak við að opna slíka hurð meira en sem nemi hámarksálagi skv. gr. 6.4.3. í reglugerðinni þegar hurðapumpa sé rétt stillt svo hurðin geti uppfyllt hlutverk sitt sem brunahurð. Ómögulegt sé að uppfylla bæði ákvæði gr. 6.4.3. um hámarksátak hurða og gr. 9.6.13. um að brunahólfandi hurðir skuli lokast án þess að settur sé sjálfvirkur opnunarbúnaður við hurðir á þessari aðalumferðarleið. Rétt sé að úrskurðarnefndin óski eftir því við stofnunina að hún veiti álit sitt á öllum þeim atriðum sem kæra og kvörtun til umboðsmanns Alþingis hafi lotið að.

Í athugasemdum Reykjavíkurborgar vegna álits Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar er bent á að samkvæmt eldri byggingarreglugerðum og eldri ákvæðum núgildandi byggingarreglu-gerðar hafi ekki verið gerð krafa um vélrænt útsog úr eldhúsum íbúða. Með reglugerð nr. 360/2016 um breytingu á byggingarreglugerð hafi verið gerðar umfangsmiklar breytingar á reglu­gerðinni, m.a. til krafna um loftræsingu. Reglugerðarbreytingin hafi ekki sérstaklega verið kynnt hlutaðeigandi aðilum, s.s. hönnuðum eða öðrum sem vinni með skilyrði og kröfur reglu­gerðarinnar. Vandséð sé að fyrirkomulag loftræsingar að Tangabryggju 13-15 sé með þeim hætti að leiða eigi til sérstakra viðbragða úrskurðarnefndarinnar, enda séu flest allar íbúðir í Reykjavík búnar loftræsingu af þessu tagi án þess að það leiði til skertra nota eða lífsgæða eða komi í veg fyrir eðlilega notkun íbúðar.

Í athugasemdum byggingaraðila vegna álits Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar er bent á að loftræsihönnun í Tangabryggju 13-15 sé með sama hætti og í flestum öðrum nýbyggingum. Af því leiði að ekki aðeins lokaúttektin sé undir í þessu máli heldur einnig loftræsihönnun annarra mann­virkja, sem hafi verið gerð af mismunandi aðilum og samþykkt af byggingarfulltrúum ólíkra sveitarfélaga. Allir þessir aðilar séu sammála um að hönnun af því tagi sem hér um ræði sé í samræmi við kröfur byggingarreglugerðarinnar og að túlkun stofnunarinnar eigi sér ekki stoð í ákvæðum hennar.

Byggingaraðili hafi fengið verkfræðistofu til að gefa álit sitt á umræddri hönnun en í því áliti hafi niðurstaðan verið að sú útfærsla loftræsingar sem hönnuð sé fyrir eldhús í íbúðum hússins sam­ræmist byggingar­reglugerð og markmiðum hennar. Í áliti Húsnæðis- og mannvirkja­stofnunar og því minnisblaði verkfræðistofu sem álitið hafi byggst á hafi verið horft fram hjá skýrum texta gr. 10.2.5. í byggingar­reglugerð, en þar segi að tryggja skuli að tiltekin loftskipti í íbúðum séu „möguleg“ að lágmarki óháð gerð loftræsingar. Með öðrum orðum sé ekki gerð krafa um að þau loftskipti sem tilgreind séu fyrir sérstök rými séu ávallt til staðar heldur eingöngu að mögulegt sé að ná þeim. Í áliti stofnunarinnar virðist á því byggt að í íbúðunum þurfi að vera stöðugt vélrænt heildarútsog upp á 50 l/s. Af þeim sökum sé ekki hægt að leggja álitið til grund­vallar þar sem það byggi á forsendu sem eigi sér ekki stoð í orðalagi gr. 10.2.5. í reglugerðinni.

Byggingaraðili bendir á að í áliti Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar sé vísað til 4. mgr. gr. 10.2.3. í byggingarreglugerð, en sú grein fjalli um svæði innan byggingar þar sem mengandi starfsemi eða vinnsla fari fram. Eldhús í íbúðarhúsum flokkist ekki undir mengandi starfsemi í skilningi greinarinnar heldur eigi hún við um atvinnustarfsemi, sbr. tilvísun til reglugerðar Vinnu­eftirlitsins um mengunarmörk og aðgerðir til að draga úr mengun á vinnustöðum. Þá séu aðstæður ekki með þeim hætti að eldhús séu loftræst með útsogi af baðherbergi, eins og stofnunin haldi fram, heldur séu alrými/eldhús loftræst um opnanleg gluggafög og fersklofts­ventla. Auk þess séu eldhúsháfar með kolasíu í öllum eldhúsum með afkastagetu upp á 720 m3/klst., eða 200 l/s, sem tryggi að loft frá eldhúsi sé síað eða hreinsað.

Í minnisblaði verkfræðistofu þeirrar sem Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hafi leitað til segi að útsog úr eldhúskróki sé dregið í gegnum alrými og salerni og að það sé óheimilt skv. 1. tl. 1. mgr. gr. 10.2.5. í byggingarreglugerð. Samkvæmt umræddu ákvæði megi ekki draga útsog frá eldhúsi, salernum eða þvottahúsi í gegnum önnur rými hússins. Verði fallist á þá túlkun felist þversögn í ákvæðinu. Í íbúðum Tangabryggju 13-15 og í langflestum öðrum mann­virkjum sé fyrir hendi útsogsbúnaður, almennt í baðherbergi/þvottahúsi. Ferskloft sé dregið inn í íbúðir í gegnum túður á útveggjum og, eftir atvikum, í gegnum opnanleg fög og ferðist loftið þaðan að útsogs­búnaði, mögulega með viðkomu í alrými og eldhúsi. Geti því komið fyrir að ferskloft úr alrými og/eða eldhúsi dragist að útsogsbúnaði baðherbergis/þvottahúss. Verði ekki séð að þetta brjóti í bága við fyrrnefndan tölulið enda væri eina leiðin til að tryggja að þessi loftskipti ættu sér ekki stað að hafa eldhúsið lokað af, en slík krafa finni sér enga stoð í byggingar­reglugerð.

Í gr. 10.2.5. í byggingarreglugerð segi að öll rými íbúða og íbúðarhúsa skuli loftræsa og að heimilt sé að beita náttúrulegri loftræsingu, vélrænni loftræsingu eða blöndu af hvoru tveggja. Af greininni leiði skýrlega að beita megi náttúrulegri loftræsingu til að skapa útsog úr rými. Í áliti Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar sé hins vegar vitnað til 8. mgr. gr. 14.9.1. í reglu­gerðinni og tekið fram að opnanlegt gluggafag uppfylli ekki þær kröfur sem gerðar séu til útsogs náttúrulegrar loftræsingar. Verði ekki annað af því ráðið en að stofnunin byggi á því að stöðugt vélrænt útsog þurfi að vera í eldhúsum íbúða. Ákvæðið sé svohljóðandi: „Útsog náttúrulegrar loftræsingar í byggingum skal ávallt ná upp fyrir efstu klæðningu þaks. Virkni útsogs skal vera fullnægjandi og frágangur þannig að útsog valdi ekki óþægindum eða skaða í umhverfinu.“ Bent sé á að ákvæðið innihaldi ekki meginreglur heldur tilgreini almennar kröfur. Það sé því ekki ófrjávíkjanlegt ef hægt sé að sýna fram á að kröfur sem þar séu tilgreindar séu uppfylltar með öðrum hætti en tiltekið sé í reglugerðinni. Verði fallist á framangreinda túlkun stofnunarinnar þá falli opnanleg gluggafög ekki undir náttúrulega loftræsingu í skilningi byggingar­reglugerðarinnar nema gluggarnir séu staðsettir á þaki mannvirkis, en það geti augljóslega ekki verið raunin. Mun nærtækari túlkun sé sú að öll útloftunarrör þurfi að ná upp fyrir efstu klæðningu þaks og að ekki megi stinga slíku útsogi í gegnum útvegg. Sé ákvæðinu þannig ekki ætlað að gilda um glugga og önnur opnanleg fög og standi því ekki í vegi fyrir að tekið sé tillit til áhrifa opnanlegra faga og fleiri þátta við mat á lágmarkslofts-skiptum rýma. Því til viðbótar sé bent á að stöðugt vélrænt útsog úr eldhúsum geti valdið óeðlilega mikilli orku­notkun við ákveðnar aðstæður, en slíkt sé í andstöðu við meginmarkmið 14. kafla byggingar­reglugerðar og geti haft í för með sér önnur óæskileg áhrif, s.s. undirþrýsting.

Samkvæmt framangreindu sé að mati byggingaraðila fullnægjandi útsog úr eldhúsi mögulegt sé tekið tillit til áhrifa opnanlegra faga, ferskloftsventla og fleiri atriða, enda verði ákvæði byggingar­reglugerðar, að teknu tilliti til fyrirkomulags íbúða, ekki túlkuð með þeim hætti að óheimilt sé að líta til þessara þátta við mat á kröfum gr. 10.2.5. og enn síður þannig að krafist sé stöðugs vélræns útsogs frá eldhúsum upp á 30 l/s. Hafi því ekkert komið fram sem haggi fyrri niðurstöðu úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála um að lofræsing mannvirkjanna sé í samræmi við byggingarreglugerð.

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hafi í áliti sínu tekið fram, án rökstuðnings, að „ekki liggi fyrir að krafa um ferskloft í svefnherbergjum íbúða skv. 3. tl. 1. [m]gr. 10.2.5. gr. byggingar-­reglugerðar sé uppfyllt“, en í minnisblaði verkfræðistofu sé tekið fram að til þess að hægt sé að uppfylla kröfur ákvæðisins þurfi „að lágmarki einn ferskloftsventil í hvert svefnherbergi til viðbótar við ferskloftsventilinn í alrýminu.“ Í nefndu byggingarreglugerðarákvæði sé tekið fram að magn fersklofts sem berist til svefnherbergis skuli aldrei vera minna en 7 l/s á hvern einstakling á meðan herbergið sé í notkun og sé þar hvergi minnst á ferskloftsventla. Í samræmi við reglugerðina sé þessum kröfum mætt með náttúrulegri loftræsingu í svefnherbergjum og loftræsingu íbúðanna að öðru leyti. Í áliti þeirrar verkfræðistofu sem byggingaraðili hafi leitað til hafi komið fram að ferskloftsventlar tryggi ekki betur kröfur gr. 10.2.5. heldur en opnanleg gluggafög. Jafnframt sé bent á að fjölmörg nýleg fjölbýlishús séu hönnuð með sama hætti að þessu leyti.

Þá telji byggingaraðili að ekkert nýtt hafi komið fram í málinu sem haggi þeirri niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar að það varði ekki ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar að bílastæði hreyfihamlaðra fyrir framan Tangabryggju 15 sé ekki upphitað. Umræddu bílastæði hafi verið komið fyrir í kjölfar úrskurðar nefndarinnar í máli nr. 54/2019. Eðli málsins samkvæmt hafi ekki verið gert ráð fyrir bílastæðinu við hönnun og byggingu mannvirkjanna og því hafi ekki verið fjallað um ætlað frávik í greinargerð hönnuðar. Ljóst sé að hreyfihamlaðir geti notað upphituðu gangstéttina til að komast að og frá bílum sínum og sé því fullnægjandi aðgengi að mannvirkjunum tryggt þrátt fyrir að bílastæðið sjálft sé það ekki.

Að lokum sé gerð athugasemd við að Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hafi leitað til verkfræði­stofu, sem sé einkaaðili og samkeppnisaðili þeirra sem hafi hannað Tangabryggju 13-15, í stað þess að notast við sérfróða aðila sem starfi innan stofnunarinnar. Gjalda verði varhug við að leggja minnisblað verkfræðistofunnar til grundvallar ef til standi að fella lokaúttektina úr gildi. Jafnframt sé bent á að til þess að koma loftræsingu mannvirkjanna í það horf sem stofnunin leggi til grundvallar þyrfti líklegast að koma fyrir veggblásara í hverri einustu íbúð sem myndi kalla á umfangsmiklar framkvæmdir með tilheyrandi ónæði, en m.a. þyrfti að setja veðurhlíf á fasteignirnar á meðan á slíkum framkvæmdum stæði.

———-

Undir rekstri þessa máls óskaði Öryrkjabandalag Íslands eftir því að fulltrúar þess yrðu kallaðir til ráðgjafar og aðstoðar úrskurðarnefndinni við endurupptöku málsins á grundvelli 4. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Af hálfu úrskurðar­nefndarinnar var bent á að bandalaginu væri heimilt að koma að athugasemdum í málinu sem nefndinni væri skylt að hafa til hliðsjónar við úrlausn þess á grundvelli rannsóknarskyldu hennar, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 17. febrúar 2022, kom bandalagið að sínum sjónarmiðum í málinu. Er þar m.a. bent á að kærumálið snúist annars vegar um að vernda líf, heilsu og öryggi fatlaðs fólks sem nýti umrædda byggingu, en hins vegar um að uppfyllt sé krafa byggingarreglugerðar nr. 112/2012 um að tryggja skuli aðgengi fyrir alla. Ljóst sé að hreyfihamlaðir og veikburða fólk geti ekki opnað dyr með þungum eldvarnarhurðum af eigin rammleik og því blasi við að öryggi þeirra sé stefnt í voða. Í lögum sé enga heimild að finna til að veita leyfishöfum undanþágu frá ákvæðum byggingarreglugerðar um algilda hönnun.

Öryrkjabandalagið líti svo á að aðalumferðarleið, sbr. gr. 6.4.2. í byggingarreglugerð, séu allar leiðir í sameign, þ. á m. frá bílastæði, inn og út um aðalinngang, inn á og eftir gangi, að íbúðum, að geymslum, m.a. bílageymslum, og inn og út um aðra innganga. Sá skilningur hafi verið staðfestur af starfsmanni Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar með tölvupósti 5. febrúar 2021. Allar dyr á þeim leiðum þurfi að vera öllum opnanlegar án erfiðleika og með ekki hærri þröskuldi en 25 mm. Sérstakar kröfur séu gerðar til inngangs- og útidyra og eldvarnarhurða enda sé ekki hægt að tryggja að átak sé innan þeirra viðmiða sem gildi um aðrar dyr í byggingum. Á þær dugi ekki hefðbundnar hurðapumpur því ef miðað sé við að allir geti opnað dyrnar þá falli hurðirnar ekki vel að stöfum og gegni því ekki hlutverki sínu. Þyngd hurða, veðrátta og annað geti spilað inn í. Ekki sé hægt að leggja fram átaksmælingu sem sýni fram á að þyngd sé innan marka, eins og byggingaraðili hafi gert í málinu, en reynslan sýni að hið mælda átak verði ekki til frambúðar. Fyrr en vari verði búið að þyngja pumpurnar með þeim af­leiðingum að veikburða fólk geti ekki opnað dyrnar. Þar með standist byggingin ekki kröfur byggingar­reglugerðar. Hefði úrskurðarnefndin átt að kalla til óháðan aðila til að átaksmæla dyrnar í stað þess að taka mælingar byggingaraðila gildar.

Sú niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að orðalagið „gert skal ráð fyrir sjálfvirkum opnunar­búnaði“ feli einungis þá kröfu í sér að vel sé hægt að koma slíkum búnaði fyrir sé forkastanleg og byggi á yfirmáta þröngri túlkun orðalagsins þar sem horft sé framhjá anda og tilgangi reglu­gerðarinnar, en að auki sé túlkunin úr tengslum við reglur um algilda hönnun og öryggi. Orða­lagið „gert skal ráð fyrir“ sé margoft notað í byggingarreglugerðinni og væri fráleitt ef þau atriði yrðu öll túlkuð sem valkvæð, en þá myndu fjölmörg ákvæði reglugerðarinnar missa marks. Sem dæmi megi nefna að í gr. 4.2.3. í byggingarreglugerð segi að á uppdrætti skuli gert ráð fyrir reit fyrir undirritun hönnunarstjóra og verði að teljast ólíklegt að þar með sé slíkt formsatriði valkvætt.

Eldvarnarhurðir þurfi að lokast vel að stöfum og séu þungar fyrir. Því sé engin handvirk pumpa til sem ráði við það án þess að fara yfir það viðmið að átak við að opna hurð sé mest 25 N á handfangi og mesti þrýstingur eða tog ekki yfir 40 N. Komi enda fram í gögnum frá kæranda að þegar byggingaraðili hafi létt á hurðapumpum eldvarnarhurða hafi átak ekki verið nægjanlegt til að loka hurðunum tryggilega. Því sé ekki hægt að uppfylla bæði gr. 9.1.1. og 4. mgr. gr. 6.4.2. í byggingarreglugerðinni á sama tíma. Bent sé á að í leiðbeiningum við gr. 9.4.7., er fjalli um hurðalokara (pumpu), segi að slíkir lokarar séu almennt ekki heppilegir þar sem börn eða aldraðir gangi um eða þar sem tryggja þurfi aðgengi fatlaðra, t.d. að öruggum svæðum vegna flóttaleiða. Líta verði svo á að sjálfvirkir opnarar eigi að vera uppsettir við inngangs- og útidyr og að á eldvarnarhurðum séu sérstakir lokarar, t.d. segullokarar, sem hægt sé að opna sjálfvirkt til að mannvirki standist öryggisúttekt.

Öryrkjabandalagið hafi aðstoðað íbúa við kvörtun til byggingarfulltrúans í Reykjavík vegna þungra eldvarnarhurða í nýbyggingu vorið 2020. Lokaúttekt hefði þá farið fram og byggingar­fulltrúi þá krafist þess að verktaki myndi setja upp rafdrifna opnun á hurðum í aðal­umferðarleiðum, sem væru aðalinngangur og inngangur frá bílageymslu. Þetta hefði síðan gengið eftir. ­Þarna sé um að ræða rétta túlkun á gr. 6.4.2. í byggingar­reglugerðinni og hafi sú túlkun fordæmisgildi.

Aðeins eitt bílastæði sé uppsett fyrir hreyfihamlaða við Tangabryggju 15, sem sé skýrt brot á gr. 6.2.4. í byggingarreglugerð, og sé frágangur á því með öllu ófullnægjandi, enda ekki snjó­bræðsla undir stæðinu og umferðarleið óupplýst. Þá séu fjögur bílastæði að finna í læstri bíla­geymslu sem uppfylli kröfur um bílastæði hreyfihamlaðra hvað varði stærð, merkingar og umferðarleiðir. Þó sé ekki um raunveruleg bílastæði hreyfihamlaðra að ræða þar sem þau séu þinglýst á ákveðnar íbúðir. Íbúum þeirra íbúða sé ekki heimilt að leggja í stæðin en skv. 78. gr. umferðarlaga nr. 77/2019 hafi eingöngu handhafar stæðiskorta hreyfihamlaðra heimild til að leggja í slík stæði. Í ljósi meðalhófsreglu hefði verið hægt að fara aðra og vægari leið, t.a.m. með kvöðum. Þá sé bagalegt að úrskurðarnefndin hafi látið það óátalið að byggingaraðili hafi komist upp með þann málamyndagjörning að segjast hafa uppfyllt skyldu varðandi fjölda bílastæða fyrir hreyfihamlaða með stæðum sem séu í óaðgengilegu rými og ekki til almennra nota.

Til að aflétta því ólögmæta ástandi sem ríki í mannvirkinu séu tvær leiðir færar. Annars vegar að koma upp hið minnsta fjórum auka bílastæðum fyrir hreyfihamlaða á lóð sem hægt væri að úthluta til hreyfihamlaðra íbúa hússins. Hins vegar að losa áðurnefndar þinglýsingar á bíla­stæðum í kjallara og úthluta stæðunum upp á nýtt til íbúa sem væru handhafar stæðiskorta fyrir hreyfihamlaða, auk þess að setja upp segullokara á eldvarnarhurðir. Þá sé bent á að van­hugsaður úrskurður geti haft slæmt fordæmi í sambærilegum málum. Þannig sé dæmi um að byggingarfulltrúinn í Reykjavík hafi, í kjölfar fyrri úrskurðar máls þessa, fallið frá þeirri kröfu að verktaki setji upp sjálfvirkan opnara við eldvarnarhurð í tengslum við loka­úttekt ný­byggingar í Reykjavík.

Í athugasemdum byggingaraðila vegna bréfs Öryrkjabandalagsins er bent á að bandalagið eigi ekki aðild að máli þessu og því hafi skoðanir þess enga þýðingu við úrlausn þess. Í bréfi úrskurðar­nefndarinnar til byggingaraðila vegna endurupptöku málsins, dags. 21. september 2021, hafi aðal­áherslan verið lögð á bílastæði fyrir hreyfihamlaða við aðalinngang fasteignanna og loft­ræsingu. Ekkert hafi gefið til kynna að nefndin ætlaði að taka til skoðunar önnur atriði í úrskurðinum. Bent sé á að með endurupptöku máls sé ekki ætlunin að gefa stjórnvaldi færi á að breyta fyrri túlkun sinni á umdeildum atriðum þegar ekkert liggi fyrir í málinu sem haggi þeirra túlkun, s.s. nýjar upplýsingar eða gögn, augljós mistök eða lagabreytingar. Eigi það sérstak­lega við þegar ákvörðun um endurupptöku máls sé tekin að eigin frumkvæði stjórn­valds. Sé úrskurðarnefndin þannig bundin við niðurstöðu sína í úrskurði máls nr. 134/2020 varðandi flest þau atriði sem um sé fjallað í bréfi Öryrkjabandalagsins.

Í úrskurði úrskurðarnefndarinnar hafi nefndin túlkað ákvæði b-liðar 5. mgr. gr. 6.4.2. í byggingar­reglugerð á þá leið að ekki væri gerð krafa um að inngangs- og útidyr í aðal­umferðarleiðum væru með sjálfvirkum opnunarbúnaði heldur einungis að vel væri hægt að koma slíkum búnaði fyrir. Túlkunin sé í samræmi við orðalag ákvæðisins og sé ekkert í málinu sem haggi þeirri niðurstöðu. Hefði staðið til að gera þá kröfu að inngangs- og útidyr skyldu vera búnar sjálfvirkum opnunarbúnaði hefði einfaldlega verið hægt að nota orðið „skal“, líkt og gert sé víðsvegar í byggingarreglugerðinni, þ.m.t. á öðrum stöðum í gr. 6.4.2. Í því samhengi sé bent á að við setningu byggingarreglugerðarinnar hafi ákvæðið verið orðað á þá leið að „útidyr og inngangsdyr í aðalumferðarleiðum skulu vera með sjálfvirkum opnunarbúnaði“, en því hafi verið breytt í núverandi horf með reglugerð nr. 280/2014 um (3.) breytingu á byggingar­reglugerð nr. 112/2012. Þá sé bent á að hefði Húsnæðis- og mann-virkjastofnun talið að ákvæðið fæli í sér afdráttarlausa kröfu um sjálfvirkan opnunarbúnað hefði stofnunin tekið það fram í leiðbeiningum sínum við ákvæðið, en það geri hún ekki. Niðurstaðan sé einnig í samræmi við eldri úrskurðaframkvæmd, sbr. úrskurð nefndarinnar í máli nr. 35/2017.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykja­vík frá 21. október 2020 að gefa út vottorð um lokaúttekt vegna Tangabryggju 13-15. Svo sem rakið er í málavöxtum kvað úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála upp úrskurð 6. maí 2021 þar sem kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunarinnar var hafnað en málið var síðar endurupptekið 21. september s.á. að frumkvæði nefndarinnar. Við endurupptöku málsins sætir hin kærða ákvörðun lögmætisathugun úrskurðarnefndarinnar í heild sinni og verður því ekki fallist á með byggingaraðila að nefndin sé bundin við að fjalla einungis um þau atriði sem óskað var eftir að Húsnæðis- og mannvirkjastofnun léti í ljós álit sitt á. Þá verður með hliðsjón af rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 tekið tillit til allra þeirra gagna sem liggja fyrir úrskurðarnefndina, þ. á m. sjónarmiða Öryrkjabandalags Íslands sem koma fram í bréfi þess hinn 17. febrúar 2022. Breytir engu þar um þótt bandalagið sé ekki aðili málsins.

———-

Meðal markmiða laga nr. 160/2010 um mannvirki er að vernda líf og heilsu manna, eignir og umhverfi með því að tryggja faglegan undirbúning mannvirkjagerðar og virkt eftirlit með því að kröfum um öryggi mannvirkja og heilnæmi sé fullnægt, sbr. a-lið 1. gr. laganna. Jafnframt er það markmið þeirra að tryggja aðgengi fyrir alla, sbr. e-lið sömu lagagreinar. Í því skyni mæla lögin fyrir um lögbundið eftirlit byggingarfulltrúa með mannvirkjagerð, sbr. 2. og 3. mgr. 16. gr. þeirra laga, en hluti af því eftirliti felur í sér framkvæmd lokaúttektar og útgáfu vottorðs. Samkvæmt 3. mgr. 36. gr. laganna skal við lokaúttekt gera úttekt á því hvort mannvirkið upp­fylli ákvæði laganna og reglugerða sem settar hafa verið samkvæmt þeim og hvort byggt hafi verið í samræmi við samþykkt hönnunargögn. Þá er mælt fyrir um í 4. mgr. lagagreinarinnar að ef mannvirkið uppfylli ekki að öllu leyti ákvæði laganna og reglugerða sem settar hafi verið sam­kvæmt þeim þá geti útgefandi byggingarleyfis gefið út vottorð um lokaúttektina með athugasemdum. Þáttum sem varði aðgengi skuli þó ávallt hafa verið lokið við gerð lokaúttektar. Segir jafnframt í 5. mgr. sömu lagagreinar að eftirlitsaðili geti fyrirskipað lokun mannvirkis komi í ljós við lokaúttekt að mannvirki uppfylli ekki öryggis- eða hollustukröfur og lagt fyrir eiganda þess að bæta úr, en lokaúttektarvottorð skuli þá ekki gefið út fyrr en það hafi verið gert.

Í kjölfar úrskurðar úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 54/2019 sótti byggingaraðili um og fékk sam­þykkta breytingu á byggingarleyfi mannvirkis í því skyni að koma fyrir bílastæði fyrir hreyfi­hamlaða fyrir utan húsið nr. 15 á lóðinni Tangabryggju 13-15 sem hann og gerði. Í 3. mgr. gr. 6.2.4. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 kemur fram að bílastæði hreyfihamlaðra og umferðar­leiðir frá þeim að aðalinngangi byggingar skuli vera upphituð þar sem því verði við komið. Fyrir liggur að gangstétt við hlið bílastæðisins er upphituð og í áliti Húsnæðis- og mannvirkja­stofnunar segir að ekki hafi verið nein fyrirstaða sem réttlætti að ekki hefði verið sett snjó­bræðsla í stæðið. Að því virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að nægilega liggi fyrir í málinu að því hafi verið komið við að hafa bílastæðið upphitað og að fyrrgreindum áskilnaði þar um í gr. 6.2.4. í byggingarreglugerð hafi þar af leiðandi ekki verið fullnægt þegar byggingafulltrúi gaf út hið kærða lokaúttektarvottorð. Í ljósi áður­greinds markmiðs laga nr. 160/2010 um að tryggja aðgengi fyrir alla, sbr. e-lið 1. gr. laganna, og þess að þáttum sem varði aðgengi skuli ávallt hafa verið lokið við gerð lokaúttektar, sbr. 2. málslið 4. mgr. 36. gr. sömu laga, verður að telja að vöntun á upphitun bílastæðisins hafi falið í sér annmarka á hinni kærðu ákvörðun byggingarfulltrúa.

Samkvæmt 5. mgr. nefndrar gr. 6.2.4. í byggingarreglugerð skal fjöldi bílastæða fyrir hreyfi­hamlaða við íbúðarhús, önnur en sérbýlishús, vera að lágmarki samkvæmt töflu 6.01. Í henni kemur fram að þegar fjöldi íbúða sé á bilinu 41-65 skuli vera fjögur bílastæði fyrir hreyfi­hamlaða. Þá segir í 9. mgr. ákvæðisins að fækka megi bílastæðum á lóð mannvirkis samkvæmt töflu 6.01 sem nemi fjölda sérmerktra stæða fyrir hreyfihamlaða í sameiginlegri bílgeymslu, enda sé tryggt að gestkomandi hafi ávallt aðgang að hluta stæðanna. Fjölbýlishúsið að Tanga­bryggju 13-15 er með 63 íbúðum og skulu því þar vera fjögur bílastæði fyrir hreyfihamlaða. Í bílgeymslu hússins er að finna fjögur bílastæði fyrir hreyfihamlaða. Þau tilheyra hins vegar öll tilgreindum íbúðum hússins samkvæmt þinglýstum yfirlýsingum þar um og gestkomandi fólki er því ekki heimill aðgangur að þeim. Verður því að telja að fyrrgreint skilyrði fyrir fækkun bílastæða á lóð fyrir hreyfihamlaða, sbr. 9. mgr. gr. 6.2.4. í byggingarreglugerð, á lóðinni að Tanga­bryggju 13-15 hafi ekki verið uppfyllt þegar umrædd lokaúttekt fór þar fram. Þar sem þar hafði einungis verið útbúið eitt sérgreint bílastæði fyrir hreyfihamlaða uppfyllti mannvirkið ekki skilyrði byggingarreglugerðarinnar hvað þetta varðar við lokaúttekt.

———-

Meðal ágreiningsefna þessa máls er hvort frágangur eldvarnarhurða í aðalumferðarleið frá bílgeymslu að lyftum í kjallara umrædds húss uppfylli skilyrði mannvirkjalaga og byggingarreglugerðar. Mælt er fyrir um það í b-lið 5. mgr. gr. 6.4.2. í reglugerðinni að gera skuli ráð fyrir sjálfvirkum opnunarbúnaði fyrir inngangs- og útidyr í aðalumferðarleiðum. Við túlkun á því orðalagi ber að líta til þess að í upprunalegri útgáfu byggingarreglugerðarinnar nr. 112/2012 hljóðaði ákvæðið á þá leið að inngangs- og útidyr í aðalumferðarleiðum skyldu vera með sjálfvirkum opnunarbúnaði, en með reglugerð nr. 280/2014 um (3.) breytingu á reglu­gerðinni var orðalagi ákvæðisins breytt í fyrrnefnt horf. Verður því það orðalag ákvæðisins að gera skuli ráð fyrir sjálfvirkum opnunarbúnaði ekki túlkað á þá leið að sú krafa sé gerð að inngangs- og útidyr í aðalumferðarleiðum séu með sjálfvirkan opnunarbúnað, enda myndi sú niðurstaða leiða til þess að ekki hefði falist nein efnisleg breyting í nefndri reglugerðar­breytingu. Verður því að líta svo á að í ákvæðinu felist einvörðungu að vel sé hægt að koma sjálfvirkum opnunar­búnaði fyrir við inngangs- og útidyr. Þá er einnig ljóst að tilvísun ákvæðisins til inngangs- og útidyra tekur ekki til allra þeirra dyra sem eru í aðalumferðarleið frá bílgeymslu að lyftum, svo sem kærandi heldur fram, heldur einvörðungu inngangsdyra frá bílgeymslunni.

Í gr. 6.4.3. er fjallað um dyr innanhúss og í 3. mgr. nefndrar greinar segir að dyr í byggingum skulu þannig frágengnar að allir, þar með talið fólk í hjólastól, geti opnað þær án erfiðleika. Miða skuli við að átak við að opna hurð sé mest 25 N á handfangi og mesti þrýstingur eða tog ekki yfir 40 N. Þá er fjallað um varnir gegn eldsvoða í 9. hluta byggingarreglugerðar og samkvæmt gr. 9.1.1. skal við hönnun mannvirkis tryggja að glæðing, útbreiðsla elds og reyks innan þess sé takmörkuð. Fram kemur í 1. mgr. gr. 9.5.2. að frá hverju rými byggingar þar sem gera megi ráð fyrir að fólk dveljist eða sé statt skuli vera fullnægjandi flóttaleiðir úr eldsvoða. Í 8. mgr. sama ákvæðis segir að við ákvörðun flóttaleiða skuli tekið tillit til krafna um algilda hönnun, en skv. 1. mgr. gr. 6.1.2. í reglugerðinni skal með algildri hönnun tryggt að fólki sé ekki mismunað um aðgengi og almenna notkun bygginga á grundvelli fötlunar, skerðinga eða veikinda og það geti með öruggum hætti komist inn og út úr byggingum, jafnvel við óvenju­legar aðstæður, t.d. í eldsvoða. Sú meginregla gildir um dyr í flóttaátt að auðvelt skal vera að opna þær án tafar, sbr. 1. tölulið 1. mgr. gr. 9.5.9. í byggingarreglugerð. Einnig gildir sú meginregla skv. 1. mgr. gr. 9.6.13. að hurðir og hlerar í brunahólfandi skilum bygginga skuli þannig útfærðir að þeir auki ekki líkur á útbreiðslu elds og reyks og sú viðmiðunarregla skv. 2. mgr. að hurðir í og sem liggja að flóttaleiðum skuli vera sjálflokandi.

Af framangreindum reglugerðarákvæðum er ljóst að vegna krafna um algilda hönnun ber við hönnun mannvirkja að tryggja að allir geti nýtt flóttaleiðir án erfiðleika. Fallast má á að sé nauðsynlegt átak við að opna eldvarnarhurð lítið geti það leitt til þess að hún þjóni ekki því hlutverki að tryggja að glæðing, útbreiðsla elds og reyks sé takmörkuð, sbr. áðurnefnda gr. 9.1.1. í byggingarreglugerð. Hins vegar verður ekki talið að ómögulegt sé að uppfylla á sama tíma kröfur reglugerðarinnar um hámarksátak við opnun dyra og kröfur um brunahólfandi hurðir. Verður í þeim efnum að meta hverja eldvarnar­hurð fyrir sig til að skera úr um hvort kröfur byggingarreglugerðar um brunavarnir séu uppfylltar.

Fyrir liggur að eftir úrskurð úrskurðarnefndarinnar í kærumáli nr. 54/2019, þar sem loka­úttektar­­vottorð umrædds húss frá 1. júlí 2019 var fellt úr gildi, mældi byggingaraðili átak á hurðum í kjallara hússins 14. september 2020 og mun hann hafa lagfært stillingar á hurða­pumpum svo skilyrði 4. mgr. gr. 6.4.3. í byggingarreglugerð væru uppfyllt. Fram kemur í hinu kærða lokaúttektarvottorði að skoðun á bílastæði fyrir hreyfihamlaða hafi farið fram 21. október s.á., en ekkert kemur þar fram um að hurðir í kjallara hússins hafi jafnframt verið skoðaðar. Í greinar­gerð Reykjavíkur­borgar í kærumáli þessu kemur fram að byggingarfulltrúi hafi metið það svo að með greindri skýrslu hafi verið sýnt fram á að virkni hurðapumpa væri í samræmi við ákvæði byggingarreglugerðar. Hins vegar liggur ekki fyrir að byggingarfulltrúi hafi á grundvelli rannsóknar­skyldu sinnar, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, tekið sjálfur til nánari skoðunar hvort fyrrgreindar breytingar hefðu leitt til þess að umræddar hurðir uppfylltu þar með ekki þær kröfur sem gerðar eru samkvæmt byggingarreglugerð til slíkra hurða vegna brunavarna.

———-

Kemur þá næst til skoðunar fyrirkomulag loftræsingar hússins að Tangabryggju 13-15. Í málinu liggur fyrir álit Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, sem byggist m.a. á minnisblaði verkfræði­stofu, þess efnis að loftræsing mannvirkjanna uppfylli ekki kröfur byggingar­reglugerðar um loftræsingu. Er í álitinu vísað til þess að ekki sé sérstakt útsog úr eldhúsi, sbr. 1. tölulið 1. mgr. gr. 10.2.5. í reglugerðinni, auk þess sem heildarútsog úr íbúðum sé aðeins 35 l/s og hvorki séu viðmiðunarreglur 1. töluliðar 2. mgr. gr. 10.2.5. uppfylltar né sé rökstutt í greinargerð hönnuðar á hvern annan hátt meginregla ákvæðisins sé uppfyllt, sbr. gr. 10.1.3. í sömu reglugerð. Enn fremur telur stofnunin að ekki sé uppfyllt skilyrði 3. tl. 1. mgr. gr. 10.2.5. um ferskloft í svefnherbergjum íbúða. Þá liggur einnig fyrir minnis­blað annarrar verkfræðistofu sem aflað var að beiðni byggingaraðila, þar sem komist er að gagn­stæðri niðurstöðu.

Í 10. hluta byggingarreglugerðar, sem fjallar um hollustu, heilsu og umhverfi, eru tilteknar þær kröfur sem gerðar eru til loftgæða og loftræsingar innan mannvirkja. Þannig segir í gr. 10.2.1. að loftgæði innan mannvirkja skuli vera fullnægjandi og í samræmi við notkun þeirra og tryggt að loft innan mannvirkis innihaldi ekki mengandi efni sem valdið geti tjóni eða óþægindum. Sam­kvæmt gr. 10.1.3. eru meginreglur þess hluta reglugerðarinnar ávallt ófrávíkjanlegar, en viðmiðunar­reglur eru frávíkjanlegar ef sýnt sé fram á að hollusta, loftgæði og loftræsing, raka­vörn og öryggi séu tryggð með jafngildum hætti og meginregla viðkomandi ákvæðis uppfyllt. Loftræsa skal allar byggingar og getur loftræsing verið vélræn, náttúruleg eða blanda af hvoru tveggja, sbr. 1. mgr. gr. 10.2.2., en í 2. mgr. greinarinnar kemur fram að við ákvörðun loftræsingar beri t.d. að taka mið af tegund og gerð rýmis og hita- og rakamyndun. Í gr. 10.2.5. er fjallað um loftræsingu íbúða og tengdra rýma og samkvæmt síðasta málslið 1. töluliðs 1. mgr. greinarinnar gildir sú meginregla að öll rými íbúða og íbúðarhúsa skuli loftræst. Heimilt sé að beita náttúru­legri loftræsingu, vélrænni loftræsingu eða blöndu af hvoru tveggja. Loftræsing skuli henta viðkomandi rými þannig að magn fersklofts sé fullnægjandi til að komið sé í veg fyrir lyktar­mengun og rakamettun innilofts. Útsog skuli vera úr eldhúsi, baðherbergi íbúðar, minni snyrt­ingum, þvottaherbergjum, stökum geymslum og kjallaraherbergjum. Útsog frá eldhúsi, salernum og þvottahúsi megi ekki draga gegnum önnur rými hússins.

Þrátt fyrir að loftræsing geti verið náttúruleg, sbr. 1. mgr. gr. 10.2.2. í byggingarreglugerð, verður við ákvörðun loftræsingar að taka mið af notkun rýmis, sbr. 2. mgr. sömu reglugerðar­greinar og 1. tölulið 1. mgr. gr. 10.2.5., en meiri kröfur eru gerðar til loftgæða og loftræsingar í votrýmum og eldhúsum en í íverurýmum. Gildir því sú meginregla samkvæmt fyrrgreindum 1. tölulið 1. mgr. gr. 10.2.5. að ekki má draga útsog frá eldhúsi, salernum og þvottahúsi gegnum önnur rými húss. Ekki verður annað ráðið af hönnunargögnum fjölbýlis­hússins að Tanga­bryggju 13-15 en að útsog úr eldhúsum íbúða þar sé dregið í gegnum önnur rými, en í eldhúsum íbúðanna er ekki að finna sérstakt útsog. Er það í andstöðu við greinda meginreglu 1. töluliðar 1. mgr. gr. 10.2.5. í byggingarreglugerð.

Samkvæmt 3. tölulið 1. mgr. gr. 10.2.5. í byggingarreglugerð gildir sú meginregla að magn fersklofts sem berist til svefnherbergis skuli aldrei vera minna en 7 l/s á hvern einstakling meðan herbergið sé í notkun. Í fyrirliggjandi áliti Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar er komist að þeirri niðurstöðu að tilvitnað skilyrði reglugerðarákvæðisins hafi ekki verið uppfyllt við lokaúttekt. Úrskurðarnefndin telur ekki ástæðu til að gera athugasemd við þá niðurstöðu og verður hún því lögð til grundvallar niðurstöðu í málinu hvað það varðar.

———-

Samkvæmt því sem nú hefur verið rakið voru nokkrir ann­markar á frágangi umræddrar fasteignar við lokaúttekt hennar, en vottorð um þá úttekt var þó gefið út án athugasemda. Við mat á því hverju það varði ber að líta til þess að skv. 1. málslið 4. mgr. 36. gr. laga nr. 160/2010 getur útgefandi byggingarleyfis gefið út vottorð um lokaúttekt með athugasemdum ef mann­virki er ekki fullgert við lokaúttekt, það uppfyllir ekki að öllu leyti ákvæði nefndra laga eða reglugerða sem settar hafi verið samkvæmt þeim eða er ekki að öllu leyti í samræmi við samþykkt hönnunargögn. Hins vegar er sérstaklega tekið fram í 2. málslið 4. mgr. að þáttum sem varði aðgengi skuli þó ávallt hafa verið lokið við gerð lokaúttektar. Þá segir í 5. mgr. sömu lagagreinar að komi í ljós við lokaúttekt að mannvirki uppfylli ekki öryggis- eða hollustukröfur geti eftirlitsaðili fyrirskipað lokun mannvirkis og lagt fyrir eiganda þess að bæta úr og skal þá lokaúttektarvottorð ekki gefið út fyrr en það hafi verið gert. Af því leiðir að einvörðungu kemur til álita að gefa út vottorð um lokaúttekt án athugasemda ef mannvirki uppfyllir að öllu leyti kröfur byggingarreglugerðar, en sú staða var í ljósi framangreinds ekki til staðar við lokaúttekt Tanga­bryggju 13-15. Við mat á þýðingu fyrrgreindra annmarka verður og að hafa í huga að þeir varða aðgengi og öryggis- eða hollustukröfur, sbr. 4. og 5. mgr. nefndrar 36. gr. laga um mannvirki, en samkvæmt kafla 5.3. í viðauka II með byggingarreglugerð, sem fjallar um flokkun athugasemda vegna lokaúttekta og réttaráhrif, leiða slíkir annmarkar allajafna til synjunar úttektar og kröfu um endurtekningu úttektar. Eins og atvikum var háttað verður að telja að byggingarfulltrúa hafi ekki verið heimilt að gefa út hið kærða lokaúttektarvottorð.

 Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 21. október 2020 um að gefa út vottorð um lokaúttekt vegna Tangabryggju 13-15.

Sérálit Hildigunnar Haraldsdóttur og Þorsteins Þorsteinssonar: Við erum sammála niður­stöðu úrskurðarnefndarinnar um ógildingu hins kærða lokaúttektarvottorðs. Hins vegar teljum við að skilyrði 9. mgr. gr. 6.2.4. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 hafi verið fullnægt, enda er orðalag ákvæðisins ekki það skýrt að mögulegt sé að draga þá ályktun að gestkomandi verði að hafa aðgang að hluta bílastæða fyrir hreyfihamlaða í sameiginlegri bílgeymslu. Lítum við þá til þess að gestkomandi hafa aðgang að hluta bílastæða fyrir hreyfihamlaða, þ.e. því bíla­stæði sem er á lóð Tangabryggju 13-15.