Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

180/2024 Strandvegur

Með

Árið 2025, fimmtudaginn 10. apríl, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 180/2025, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Vestmannaeyja frá 11. september 2024 um að samþykkja tillögu að breytingu á deiliskipulagi miðbæjar Vestmannaeyja, 2. áfanga, vegna lóðar nr. 51 við Strandveg.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 23. desember 2024, er barst nefndinni sama dag, kæra eigandi, Strandvegi 49, eigandi, Herjólfsgötu 5B, eigandi, Herjólfsgötu 5 og eigandi, Herjólfsgötu 2, þá ákvörðun bæjarstjórnar Vestmannaeyja frá 11. september 2024 að samþykkja tillögu að breytingu á deiliskipulagi miðbæjar Vestmannaeyja, 2. áfanga, vegna lóðar nr. 51 við Strandveg. Verður að skilja kæruna á þann veg að þess sé krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Vestmannaeyjabæ 17. janúar 2025.

Málavextir: Á lóðinni Strandvegi 51 í Vestmannaeyjum stendur bygging á einni hæð. Lóðin er á svæði þar sem í gildi er deiliskipulag miðbæjar Vestmannaeyja, 2. áfangi, frá árinu 2015. Samkvæmt skipulaginu var heimilt að byggja á lóðinni tveggja hæða hús með möguleika á þriðju hæð að hluta.

Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Vestmannaeyjabæjar 5. júní 2023 var tekin fyrir umsókn um breytingu á fyrrgreindu deiliskipulagi vegna umræddrar lóðar sem fólst í því að heimilt yrði að byggja þar fjögurra hæða hús með átta íbúðum. Samþykkti ráðið að auglýsa tillöguna samkvæmt skipulagslögum nr. 123/2010 og var sú afgreiðsla staðfest af bæjarstjórn á fundi hennar 22. júní 2023. Að kynningartíma loknum var tillagan tekin fyrir að nýju á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 4. september 2023. Samþykkti ráðið breytingartillöguna sem og framlagða greinargerð með svörum við athugasemdum sem bárust á kynningartíma og staðfesti bæjarstjórn þá afgreiðslu á fundi 14. s.m. Deiliskipulagsbreytingin tók gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 22. janúar 2024. Kærendur þessa máls kærðu ákvörðun bæjarstjórnar til úrskurðarnefndarinnar hinn 1. febrúar s.á. og með úrskurði nefndarinnar í máli nr. 13/2024, uppkveðnum 16. apríl 2024, var ákvörðun bæjarstjórnar frá 14. september 2023 felld úr gildi vegna framsetningar deiliskipulagsbreytingarinnar hvað varðaði nýtingarhlutfall og hámarks­byggingarmagn.

Á fundi skipulags- og umhverfisráðs 4. júlí 2024 var samþykkt að auglýsa tillögu að breytingu á deiliskipulagi samkvæmt 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og var sú afgreiðsla staðfest í bæjarstjórn á fundi hennar 11. s.m. Tillagan var auglýst til kynningar frá 19. júlí til og með 29. ágúst s.á. Athugasemdir bárust frá kærendum en að kynningartíma loknum var tillagan tekin fyrir að nýju á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 3. september s.á. Ráðið samþykkti breytingartillöguna og framlagða greinargerð með svörum við athugasemdum og staðfesti bæjarstjórn þá afgreiðslu á fundi 11. s.m. Deiliskipulagsbreytingin var send Skipulags­stofnun til yfirferðar og tilkynnti stofnunin með bréfi, dags. 7. nóvember 2024, að hún gerði ekki athugasemdir við birtingu auglýsingar um deiliskipulagsbreytinguna og tók hún gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 26. nóvember 2024.

Málsrök kærenda: Kærendur taka fram að fyrirhugað fjölbýlishús að Strandvegi 51 sé sem slíkt ekki efni óánægju þeirra, heldur hvernig staðið hafi verið að bílastæðamálum vegna byggingarinnar. Bæjaryfirvöldum hefði verið sent bréf árið 2023 þar sem gerð hefði verið grein fyrir því hvernig byggingarfulltrúi hefði brotið lög með því að leyfa byggingaraðila hússins að nýta sér aðra lóð í hans eigu undir bílastæði fyrir fjölbýlishúsið. Skipulags- og umhverfisráð hafi nú samþykkt samkomulag sem búið sé að gera við bæjaryfirvöld um leigu á fjórum bílastæðum við annað hús í eigu sveitarfélagsins hinum megin við götuna að Strandvegi 50. Í því húsi sé aðstaða fyrir 40 listamenn sem stundi iðju sína á öllu tímum sólarhringsins en afnotin af bílastæðunum einskorðist samkvæmt fyrrgreindum samningi við tímann frá kl. 17 síðdegis til kl. 9 að morgni. Þá sé íbúum ekki leyfilegt að nota bílastæðin á fimmtudegi fyrir Þjóðhátíð. Sú spurning hljóti að vakna um hvar íbúar hússins eigi að leggja bílum sínum að samningstíma liðnum. Þá sé ábyrgðarlaust af bæjaryfirvöldum að leigja þriðja aðila bílastæði hússins að Strandvegi 50 ef ske kynni að húsið yrði selt. Samkvæmt gr. 64.5. í byggingarreglugerð þurfi að gera ráð fyrir a.m.k. einu bílastæði á hverja 35 m2 og verði eitt bílastæði að vera fyrir hreyfihamlaða. Á þessu svæði séu þegar of fá bílastæði en í næsta nágrenni sé gistiheimili og veitingastaður.

Málsrök Vestmannaeyjabæjar: Af hálfu Vestmannaeyjabæjar er bent á að í núgildandi lögum og reglum sé ekki gert ráð fyrir tilteknum fjölda bílastæða vegna íbúða eða verslunar­húsnæðis. Samkvæmt skipulagsreglugerð nr. 90/2013 skuli setja skilmála í deiliskipulag m.a. um bílastæði, sbr. m.a. b-lið 5.3.2.5. gr. reglugerðarinnar. Í hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu hafi verið fjallað um tilhögun bílastæða og þá komi afstaða bílastæðanna fram á uppdrættinum. Bílastæði fyrir hreyfihamlaða verði staðsett utan lóðar Strandvegar 51, næst aðalinngangi, og verði bílastæðið merkt af sveitarfélaginu, sbr. gr. 6.2.4. í byggingarreglugerð nr. 112/2012.

Umrædd deiliskipulagsbreyting hafi verið auglýst í B-deild Stjórnartíðinda 26. nóvember 2024 en kæra í máli þessu hafi borist 30. desember s.á. Þá hafi eins mánaðar kærufrestur verið liðinn og beri því að vísa málinu frá nefndinni.

 Viðbótarathugasemdir kærenda: Kærendur ítreka að mikilvægt sé að vanda til verka með þarfir komandi kynslóða í huga en húsið muni að öllum líkindum standa lengi. Í nágrenni Strandvegar 51 séu fyrirtæki sem treysti á gott aðgengi og næg bílastæði, þ. á m. hótel sem muni finna fyrir vandræðum fyrir sína gesti þegar bílastæði séu annars vegar. Kanna verði hvort yfir höfuð sé leyfilegt að gera slíkan samning um bílastæði líkt og gerður hefði verið.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti ákvörðunar bæjarstjórnar Vestmannaeyja um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi miðbæjar Vestmannaeyja, 2. áfanga, vegna lóðar nr. 51 við Strandveg. Kæruheimild til úrskurðarnefndarinnar er í 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og eiga kærendur slíka grenndarhagsmuni af skipulagsbreytingunni að þeim verður játuð aðild að málinu.

 Samkvæmt 2. gr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur einn mánuður. Sé um að ræða ákvarðanir sem sæta opinberri birtingu telst kærufrestur frá birtingu ákvörðunar. Hin kærða deiliskipulagsbreyting birtist í B-deild Stjórnartíðinda 26. nóvember 2024. Byrjaði kærufrestur því að líða 27. s.m. í samræmi við 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011, sbr. 1. mgr. 8. gr. stjórnsýslulaga, og lauk kærufresti 27. desember s.á. Í máli þessu barst kæra með tölvupósti 23. desember 2024 og fékk móttökustimpil á skrifstofu úrskurðarnefndarinnar 27. s.m. Barst kæran því innan kærufrests.

 Árið 2015 tók gildi deiliskipulag miðbæjar Vestmannaeyja, 2. áfangi, sem heimilaði byggingu tveggja hæða húss auk þakhæðar á lóðinni en á lóðinni stendur einnar hæðar hús. Hin kærða deiliskipulagsbreyting gerir m.a. ráð fyrir stækkun byggingarreits lóðarinnar og að reist verði fjögurra hæða hús á lóðinni með auknu byggingarmagni. Gert er ráð fyrir því að átta íbúðir verði í húsinu og að á jarðhæð verði atvinnuhúsnæði og bílageymsla. Lúta athugasemdir kærenda að tilhögun bílastæða samkvæmt deiliskipulagsbreytingunni. Þau séu ekki nægilega mörg auk þess að í greinargerð skipulagsins sé vísað til þess að bílastæðaþörf verði mætt að hluta með samnýtingu stæða utan lóðar og stæða utan marka skipulagsbreytingarinnar, sem fái ekki staðist.

Gerð skipulags innan marka sveitarfélags er í höndum sveitarstjórnar skv. 3. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, en í því felst einnig heimild til breytinga á gildandi deiliskipulagi, sbr. 43. gr. laganna. Skal deiliskipulag byggja á stefnu aðalskipulags og rúmast innan heimilda þess, sbr. 3. mgr. 37. gr. og 7. mgr. 12. gr. skipulagslaga. Við töku skipulags­ákvarðana er sveitarstjórn bundin af meginreglum stjórnsýsluréttar, þ. á m. lögmætisreglunni sem felur m.a. í sér að með ákvörðun sé stefnt að lögmætum markmiðum og sem endranær er hún bundin af ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Að gættum framangreindum reglum hafa sveitarstjórnir mat um það hvernig deiliskipulagi og breytingum á því skuli háttað.

Í kafla 3.4, „Öflugur miðbær“, í Aðalskipulagi Vestmannaeyja 2015–2035, kemur fram að miðbær Vestmannaeyja einkennist af góðri blöndu þjónustu og íbúðarbyggðar. Aukin ásókn sé í að búa í miðbænum. Miðbærinn sé vel nýttur og þar séu fáar lausar lóðir. Áhugi sé á endurgerð eldri bygginga og uppbyggingu sem styrki ásýnd og starfsemi í miðbænum. Endurgerð þeirra hafi gjarnan verið á þann veg að jarðhæðir séu lagðar undir fjölbreytta starfsemi en íbúðir eða skrifstofur séu á efri hæðum. Á heildina litið sé ekki vandamál með bílastæði og yfirleitt sé stutt að fara. Er að öðru leyti í aðalskipulaginu ekki fjallað um bílastæði á umræddu svæði eða gerð krafa um tiltekinn fjölda bílastæða.

Í 1. mgr. 19. gr. skipulagslaga er kveðið á um að sveitarstjórn geti ákveðið að innheimta bílastæðagjald ef ekki er unnt að koma fyrir á lóð nýbyggingar þeim fjölda bílastæða sem kröfur eru gerðar um í deiliskipulagi. Samkvæmt 1. mgr. b-liðar gr. 5.3.2.5. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 skal í deiliskipulagi setja skilmála um fjölda bílastæða og frágang þeirra innan og utan lóðar, sérmerkt bílastæði fyrir fatlaða, stæður fyrir reiðhjól og önnur farartæki eftir því sem við á. Varðandi fjölda og fyrirkomulag bílastæða fyrir fatlaða skal taka mið af ákvæðum byggingarreglugerðar. Í eldri skipulagsreglugerð nr. 400/1998 var kveðið á um lágmarksfjölda bílastæða en jafnframt tekið fram að unnt væri að víkja frá þeim í deiliskipulagi ef sýnt væri fram á að bílastæðaþörf væri minni eða unnt væri að uppfylla hana með öðrum hætti. Í núgildandi skipulagsreglugerð er m.ö.o. ekki gerð krafa um fjölda bílastæða að öðru leyti en að taka skuli mið af ákvæðum byggingarreglugerðar nr. 112/2012 um fjölda og fyrirkomulag bílastæða fyrir hreyfihamlaða.

Í skilmálum hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar segir: „Fjögur bílastæði verða í bílageymslu við Herjólfsgötu. Stærð bílageymslu verður allt að 120 m2. Bílastæðaþörf verður mætt að hluta með samnýtingu stæða utan lóðar og stæðum utan marka skipulagsbreytingarinnar. Gert hefur verið þinglýst samkomulag um afnot af 4 bílastæðum á lóð við Strandveg 50 utan dagvinnutíma frá kl. 17:00 síðdegis til kl. 9:00 að morgni sem gildir til ársins 2035. Auk almennra bílastæða við Strandveg 51 eru í nálægð 20 almenn bílastæði vestan við Strandveg 54.“ Verður ekki af þessu ráðið að tilhögun bílastæða samkvæmt deiliskipulagsbreytingunni fari í bága við framan­greind ákvæði skipulagslaga og skipulagsreglugerðar. Hvað snertir bílastæðin að Strandvegi 50 þá hvíla afnot af þeim ekki á skipulagsákvörðun heldur á einkaréttarlegum tímabundnum samningi. Tilvísun til samningsins í greinargerð deiliskipulagsbreytingarinnar er einungis í upplýsingarskyni.

Á uppdrætti sem er hluti hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar eru ekki merkt bílastæði fyrir hreyfihamlaða og ekki er fjallað um slík bílastæði í greinargerð hennar. Af hálfu sveitar­félagsins hefur í máli þessu komið fram að bílastæði fyrir hreyfihamlaða verði staðsett utan lóðar Strandvegar 51, næst aðalinngangi, og muni sveitarfélagið merkja bílastæðin í samræmi við gr. 6.2.4. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Samkvæmt fyrrnefndum b-lið gr. 5.3.2.5. í skipulagsreglugerð skal í deiliskipulag setja skilmála m.a. um sérmerkt bílastæði fyrir fatlaða. Hefði því verið rétt að gera grein fyrir bílastæði fyrir hreyfihamlaða í skilmálum deiliskipulags­breytingarinnar en með hliðsjón af því sem fram hefur komið af hálfu sveitarfélagsins í máli þessu verður ekki litið svo á að um slíkan annmarka sé að ræða að varði ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar. Þá skal á það bent að kröfum gr. 6.2.4. byggingarreglugerðar um bílastæðafjölda og fyrirkomulag bílastæða skal vera fullnægt við útgáfu byggingarleyfis.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið liggja ekki fyrir þeir form- eða efnisannmarkar á hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu sem raskað geta gildi hennar. Er kröfu kærenda um ógildingu hennar því hafnað.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um að felld verði úr gildi ákvörðun bæjarstjórnar Vestmannaeyja frá 11. september 2024 um að samþykkja tillögu að breytingu á deiliskipulagi miðbæjar Vestmannaeyja, 2. áfanga, vegna lóðar nr. 51 við Strandveg.

156/2024 Oddeyrargata

Með

Árið 2024, þriðjudaginn 17. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður.

Fyrir var tekið mál nr. 156/2024, kæra á ákvörðun skipulagsráðs Akureyrarbæjar frá 9. október 2024 um að synja umsókn um framkvæmdaleyfi fyrir gerð bílastæðis á lóð Oddeyrargötu 30.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 10. nóvember 2024, er barst nefndinni sama dag, kærir Café Jensen ehf. eigandi lóðar nr. 30 við Oddeyrargötu, þá ákvörðun skipulagsráðs Akureyrarbæjar frá 9. október 2024 að synja umsókn um framkvæmdaleyfi fyrir gerð bílastæðis á lóð Oddeyrargötu 30. Verður að skilja málatilbúnað kæranda svo að gerð sé krafa um að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Akureyrarbæ 22. nóvember 2024.

Málavextir: Með umsókn, dags. 12. september 2024, sótti kærandi um framkvæmdaleyfi til að gera bílastæði á lóð Oddeyrargötu 30 á Akureyri. Nánar tiltekið fólu áformin í sér að gerð yrðu bílastæði fyrir tvo bíla á suðurhorni lóðarinnar. Að auki var óskað eftir leyfi til að gera geymslu inn af bílastæðunum til vesturs og vísað til þess að í hverfinu væru fordæmi fyrir framkvæmdinni. Erindið var tekið fyrir á fundi skipulagsráðs 9. október s.á. þar sem umsókninni var synjað með eftirfarandi rökstuðningi: „Mikil umferð gangandi er um Oddeyrargötu og telur skipulagsráð því ekki æskilegt að gerð verði aðkoma inn á lóð yfir gangstétt, sérstaklega þar sem eingöngu er mjó gangstétt öðru megin götunnar.“ Hinn 22. s.m. óskaði kærandi eftir frekari rökstuðningi fyrir ákvörðuninni og var þeirri beiðni svarað af skipulagsfulltrúa 5. nóvember s.á. Kom þar fram að mikil umferð gangandi, hjólandi og hlaupahjóla væri um Oddeyrargötu. Eingöngu væri mjó gangstétt öðru megin götunnar og með því að heimila bílum að þvera gangstéttina til að komast að bílastæðum innan lóðar skapist óþarfa hætta fyrir þá sem nýti gangstéttina, sérstaklega þar sem bílar, gróður og girðingar lóða hindri oftar en ekki útsýni. Þá var í rökstuðningnum vísað til þess að hvergi væri að finna bílastæði innan lóðar á sam­bærilegum lóðum við Oddeyrargötu, þ.e. á lóðum milli Hamarstígs og Lögbergsgötu.

Málsrök kæranda: Kærandi andmælir þeirri fullyrðingu Akureyrarbæjar að mikil umferð sé á gangstéttinni við Oddeyrargötu. Ráðið vísi einnig til þess að gangstéttin sé mjó en ekki verði betur séð en að breiddin sé í samræmi við núgildandi staðal. Samkvæmt leiðbeiningum frá Vegagerðinni megi breidd gangstéttar vera 1,8 m sem sé einmitt breidd gangstéttarinnar. Fyrir liggi fordæmi á lóðum við Oddeyrargötu þar sem finna megi bílastæði sem hafi aðkomu yfir gangstétt, t.d. Oddeyrargata 4, 12, 13–15 og 18–22. Það sé mikilvægt að dregið verði úr því að bifreiðaeigendur sem erindi hafi í miðbæ Akureyrar leggi bifreiðum sínum í íbúðarhverfum og að tillit verði tekið til íbúa bæjarins með hliðsjón af þörfum þeirra fyrir bílastæði.

Málsrök Akureyrarbæjar: Af hálfu bæjayfirvalda er vísað til þess að hin kærða ákvörðun hafi verið tekin með hliðsjón af mikilli umferð um Oddeyrargötu og mjórri gangstétt. Ákvörðunin sé því málefnaleg út frá sjónarmiðum um umferðaröryggi. Horfa þurfi til þess að umrædd lóð sé í miklum halla og ef bílastæðið eigi að vera á svipuðu „plani“ og gatan þurfi að grafa inn í brekkuna sem myndi skerða útsýni bílstjóra að gangstétt og götu. Einnig hafi verið litið til samliggjandi lóða Oddeyrargötu 30, þ.e. húsa á lóðum 36, 34, 32, 28 og 26 sem standi öll á milli Lögbergsgötu og Hamarstígs. Frá gangstétt að húsum þeirra lóða sé nokkur bratti á lóð og engin bílastæði með útkeyrslu á Oddeyrargötu. Húsin á Oddeyrargötu fyrir neðan Hamar­stíg, sem séu þau hús sem kærandi vísi til, séu á svipuðu „plani“ og gatan. Útsýni frá bílastæði að gangstétt og götu sé mun víðara þar og af þeim sökum sé fyrirkomulag þeirra lóða ekki sambærilegt við lóð Oddeyrargötu 30. Hin kærða ákvörðun hafi jafnframt verið tekin m.t.t. götumyndar svæðisins, en á Oddeyrargötu milli Lögbergsgötu og Hamarstígs séu engin bíla­stæði á lóðum.

Vísað sé til úrskurðar úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála nr. 102/2023, en í því máli hafi byggingarfulltrúi synjað umsókn um gerð bílastæðis á þeim grundvelli að stæði á íbúðar­húsalóð myndi skapa talsverða slysahættu fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur, sbr. gr. 12.10.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 þar sem segi að aðkoma að hverri byggingu, bílastæði og almennt göngusvæði við og að byggingu skuli þannig staðsett og frágengin að aðgengi að byggingunni sé auðvelt og ekki skapist slysahætta á svæðinu.

 Viðbótarathugasemdir kæranda: Af hálfu kæranda eru ítrekuð sjónarmið um að umferð sé ekki þung við Oddeyrargötu og að gangstétt sé í leyfilegri breidd. Bílastæðið yrði grafið inn í hlíðina en þar sem tré hafi verið fjarlægð þá verði útsýnið ekki verra en t.d. frá stæðinu við Oddeyrargötu 12.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun skipulagsráðs Akureyrarbæjar frá 9. október 2024 að synja umsókn kæranda um framkvæmdaleyfi fyrir gerð bílastæðis á lóð Oddeyrargötu 30. Var ákvörðunin tekin með vísan til 42. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 og 37. gr. sam­þykktar nr. 1674/2021 um stjórn og fundarsköp Akureyrarbæjar, en í 2. gr. viðauka 1.1 við greinda samþykkt er skipulagsráði falið að afgreiða tiltekin verkefni skipulagslaga nr. 123/2010 án staðfestingar bæjarstjórnar, sbr. 2. mgr. 6. gr. þeirra laga.

Samkvæmt 10. tl. 2. gr. laga nr. 123/2010 er framkvæmdaleyfi skilgreint sem leyfi til framkvæmda í samræmi við skipulag sem ekki eru háðar ákvæðum laga um mannvirki. Í 1. mgr. 13. gr. sömu laga segir að afla skuli framkvæmdaleyfis sveitarstjórnar vegna meiri háttar framkvæmda sem áhrif hafa á umhverfið og breyta ásýnd þess, en skv. 2. málsl. ákvæðisins þarf þó ekki að afla slíks leyfis vegna framkvæmda sem háðar eru byggingarleyfi samkvæmt lögum um mannvirki.

Í byggingarreglugerð nr. 112/2012, sem sett er á grundvelli laga nr. 160/2010 um mannvirki, er í kafla 4.3. fjallað um aðaluppdrætti og byggingarlýsingu. Segir í 1. mgr. gr. 4.31. að aðal­uppdrættir séu heildaruppdrættir að mannvirki ásamt afstöðumynd. Í 3. mgr. er svo mælt fyrir um að á afstöðumynd skuli sýna byggingarreit innan lóðar samkvæmt deiliskipulagi, bílastæði á lóð og aðkomu að mannvirkinu, en jafnframt skal skv. 8. mgr. tilgreina fjölda bílastæða, stæði fyrir önnur farartæki og gera sérstaklega grein fyrir samræmi við kröfur í deiliskipulagi og í byggingarreglugerð. Þá er og ljóst að um bílastæði gilda ákveðnar kröfur sem m.a. er fjallað um í gr. 6.2.2. í byggingarreglugerð, s.s. um að hönnun þeirra skuli vera með þeim hætti að ekki skapist hætta fyrir gangandi eða hjólandi vegfarendur.

Af framangreindu verður ráðið að gerð bílastæða sé byggingarleyfisskyld framkvæmd sam­kvæmt lögum nr. 160/2010 og því ljóst að ekki er þörf á framkvæmdaleyfi vegna þeirrar fram­kvæmdar, sbr. áðurnefndan 2. málsl. 1. mgr. 13. gr. skipulagslaga. Það er hlutverk byggingar­fulltrúa sveitarfélags að taka ákvörðun um það hvort samþykkja skuli eða hafna umsókn um byggingarleyfi en af samþykktum Akureyrarbæjar verður ekki séð að skipulagsráði hafi verið falið vald til að taka ákvarðanir á grundvelli laga nr. 160/2010. Verður ákvörðun þar að lútandi því einungis tekin af byggingarfulltrúa, eftir atvikum eftir að leitað hefur verið umsagnar skipulagsfulltrúa skv. 2. mgr. 10. gr. laganna, um hvort fyrirhuguð framkvæmd sé í samræmi við skipulagsáætlanir á svæðinu.

Samkvæmt framansögðu var skipulagsráð ekki bært að lögum til að taka hina kærðu ákvörðun og af þeim sökum skortir á að um sé að ræða lokaákvörðun í máli þessu í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sem borin verður undir úrskurðarnefndina. Verður kærumáli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

110/2023 Landmannalaugar

Með

Árið 2024, fimmtudaginn 18. janúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor, Þorsteinn Sæmundsson jarðfræðingur. Geir Oddsson auðlindafræðingur og Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður tóku þátt í gegnum fjarfundarbúnað.

Fyrir var tekið mál nr. 110/2023, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Rangárþings ytra frá 13. september 2023 um að veita Rangárþingi ytra framkvæmdaleyfi vegna gerðar grjótvarnargarðs við fyrirhuguð bílastæði við Námskvísl við Landmannalaugar.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

 Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 13. september 2023, er barst nefndinni 14. s.m., kærir Náttúrugrið þá ákvörðun sveitarstjórnar Rangárþings ytra frá 13. september 2023 að veita Rangárþingi ytra framkvæmdaleyfi vegna gerðar grjótvarnargarðs við fyrirhuguð bílastæði við Námskvísl við Landmannalaugar. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Rangárþingi ytra 12. október 2023.

Málavextir: Árið 2014 var efnt til samkeppni til að kalla eftir hugmyndum að skipulagi og hönnun svæðisins á og við Landmannalaugar að Fjallabaki sem væri í samræmi við meginstefnu í þágildandi aðalskipulagi Rangárþings ytra og í rammaskipulagi fyrir Suðurhálendið. Ein tillaga varð hlutskörpust og var unnið deiliskipulag fyrir svæðið á grundvelli hennar. Deiliskipulagið var birt í B-deild Stjórnartíðinda 1. mars 2018, sbr. auglýsingu nr. 234/2018. Þar er m.a. gert ráð fyrir varnargörðum og bifreiðastæði við svonefnda Námskvísl, en auk þess er gert ráð fyrir bifreiðastæði við Námshraun sem er fjær laugasvæðinu. Í skilmálum er m.a. gerður fyrirvari um að uppbyggingaráform geti breyst vegna upplýsinga sem fram komi í umhverfismati, en með ákvörðun Skipulagsstofnunar dags. 16. febrúar 2018 var ákveðið að fyrirhugaðar framkvæmdir á og við Landmannalaugar skyldu sæta umhverfismati sökum óvissu um varanleg áhrif þeirra á ásýnd og náttúru svæðisins og verndargildi þess.

Í áliti Skipulagsstofnunar um tillögu að matsáætlun vegna umhverfismats fyrir þjónustumiðstöð í Landmannalaugum, dags. 2. mars 2022, voru gerðar ýmsar bendingar um hvað fjalla yrði um við vinnslu matsskýrslu. Gerð var m.a. bending um markmið í lands­skipulagsstefnu um að uppbygging ferðamannastaða tæki mið af þoli svæða gagnvart uppbyggingu og að gerðar yrðu ráðstafanir til að draga úr ágangi á viðkvæma náttúru. Fjalla yrði um forsendur þess að ferðamönnum mundi ekki fjölga með bættri aðstöðu og þjónustu og þær aðgerðir sem framkvæmdaraðili teldi að mundu koma í veg fyrir slíka fjölgun. Með þessu var m.a. vísað til framboðs á bílastæðum og gjaldtöku vegna þeirra sem og fjölda gistirýma. Gera yrði grein fyrir niðurstöðum úr nýjustu könnunum á afstöðu ferðamanna og ferðaþjónustuaðila gagnvart fyrirhugaðri uppbyggingu sem og niðurstöðum þolmarka­greiningar sem tæki mið af uppbyggingunni. Með hliðsjón af niðurstöðu slíkrar greiningar þyrfti í umhverfismatsskýrslu að vera umfjöllun um þolmarkaviðmið og eftirfylgni með þeim.

Í álitinu var lögð áhersla á að metnir yrðu ólíkir valkostir varðandi uppbyggingu í Landmannalaugum og að samanburður valkosta yrði sambærilegur, þ.e. að lagt yrði mat á áhrif framkvæmda á sömu umhverfisþætti í öllum tilfellum og þá einkum á útivist og ferðaþjónustu, landslag og ásýnd, en einnig gróður, jarðmyndanir og vatnafar. Þessir valkostir væru annars vegar framlögð tillaga framkvæmdaraðila um uppbyggingu á nýjum svæðum við Námshraun og Námskvísl og hins vegar að dregið yrði úr uppbyggingu á núverandi þjónustusvæði við Laugahraun, auk valkosts sem fæli í sér að dregið yrði úr þjónustu í Landmannalaugum. Þá þyrfti að fjalla um núllkost, þ.e. líklega þróun umhverfisins án þess að til framkvæmda kæmi. Hvað snerti jarðmyndanir var bent á að gera yrði grein fyrir öðrum möguleikum á efnistöku en af áreyrum Jökulgilskvíslar í ljósi verndargildis þeirra.

Umhverfismatsskýrsla framkvæmdaraðila vegna þjónustumiðstöðvar í Landmannalaugum er dagsett í mars 2023. Þar eru kynnt áform um uppbyggingu nýrrar þjónustuaðstöðu fyrir ferðamenn við Námshraun í Landmannalaugum í stað núverandi aðstöðu við Laugahraun sem verði í lágmarki. Þó verði enn um sinn gistiaðstaða í skála Ferðafélags Íslands, sem þar stendur, auk þess sem aðstaða við laug verði bætt. Jafnframt verði aðstaða ferðamanna við Námskvísl bætt, endurbættir núverandi varnargarðar og byggðir nýir við ána sem og við Jökulgilskvísl. Í skýrslunni er fjallað um alla helstu umhverfisþætti framkvæmdarinnar sem og mat á valkostum. Fram kemur að matið byggi á tillögu Rangárþings ytra að matsáætlun, áliti Skipulagsstofnunar um matsáætlun framkvæmdarinnar, fyrirliggjandi rannsóknum og skýrslum og er m.a. vísað til fuglaúttektar Náttúrustofu Suðurlands og samanburðarrannsóknar um viðhorf ferðamanna á árunum 2000, 2009 og 2019.

Álit Skipulagsstofnunar um umhverfismat framkvæmdarinnar er frá 13. júlí 2023. Fram kemur að matsskýrslan uppfylli skilyrði laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana, en tekið fram að í ljósi hás verndargildis svæðisins hefði verið ástæða til ítarlegri samanburðar á valkosti framkvæmdar aðila (valkostur B) og þeim valkostum að byggja upp núverandi aðstöðu við Laugahraun (valkostur A) eða færa meginhluta þjónustu við ferðamenn frá Landmannalaugasvæðinu (valkostur C). Einnig segir í áliti stofnunarinnar: „Í umhverfis­matsskýrslu er um að ræða mjög almenna umfjöllun og samanburð á áhrifum ofangreindra valkosta á umhverfisþætti m.a. þar sem valkostir A og C eru mjög lítt mótaðir.“ Í ljósi þessa álítur Skipulagsstofnun að ekki séu forsendur til að fjalla frekar um áhrif þessara valkosta á umhverfisþætti. Undir liðnum leyfisveitingar og skilyrði í álitinu kemur fram sú afstaða að áður en til leyfisveitinga komi sé ástæða til að fram fari viðhorfskönnun meðal ferðamanna og ferðaþjónustuaðila til ráðgerðrar uppbyggingar við Námshraun.

Með bréfi, dags. 17. ágúst 2023, sótti sveitarfélagið Rangárþing ytra, sem framkvæmdaraðili, um framkvæmdaleyfi til uppbyggingar á grjótvörn vegna fyrirhugaðrar stækkunar bílastæða við Námskvísl í Landmannalaugum, sem var einn þáttur í ráðgerðum framkvæmdum við fyrri áfanga þeirra framkvæmda sem fjallað var um í matsskýrslu. Sveitarfélagið er í senn leyfisveitandi og framkvæmdaraðili og var umsóknin tekin fyrir á fundi skipulags- og umferðarnefndar 7. september 2023. Á þeim fundi var samþykkt að leggja til við sveitarstjórn að heimild yrði veitt fyrir útgáfu framkvæmdaleyfisins á grundvelli heimilda aðalskipulags og gildandi deiliskipulags. Á fundi sveitarstjórnar 13. s.m. var niðurstaða skipulags- og umferðarnefndar samþykkt og framkvæmdaleyfi veitt með fyrirvara um að forsætisráðuneytið gerði ekki athugasemdir við veitingu þess.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er bent á að í áliti Skipulagsstofnunar frá 13. júlí 2023 hafi verið sett ákveðin skilyrði fyrir framkvæmdaleyfi og/eða mælst til að ákveðin atriði yrðu uppfyllt áður en slíkt leyfi yrði samþykkt. Óháð því hvort skilyrði þessi væru bindandi hafi sveitarfélagið ekki lagt álitið til grundvallar að neinu leyti við töku hinnar kærðu ákvörðunar og jafnframt vanrækt að taka saman greinargerð um afgreiðslu leyfis. Fari slíkt í bága við 2. mgr. 14. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Skilyrði hins kærða leyfis um að forsætisráðuneytið geri ekki athugasemdir leiði ekki af áliti Skipulagsstofnunar um framkvæmdina. Fram­kvæmdirnar séu innan þjóðlendu og háðar leyfi ráðuneytisins sem ekki liggi fyrir. Með þessu sé leyfið ekki í samræmi við 3. mgr. 14. gr. laga nr. 123/2010 þar sem tæmandi séu talin þau skilyrði sem binda megi framkvæmdaleyfi. Þá hafi engin greining legið fyrir við töku ákvörðunarinnar á því hvort forsendur hefðu breyst verulega frá umhverfismatsskýrslu og áliti um umhverfismat, svo sem skylt sé skv. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Skipti þar engu hvort skýrslan hafi verið unnin fyrir áratug eða á árunum 2019 til 2022, eins og fram komi í umhverfismatsskýrslu á bls. 12.

Kærendur benda á að í áliti Skipulagsstofnunar um matsáætlun, dags. 2. mars 2022, hafi verið fjallað um vöktun og viðbragðsáætlun í tengslum við þolmarkagreiningu. Samkvæmt síðari málslið 3. mgr. 27. gr. laga nr. 111/2021 skuli skilyrði um mótvægisaðgerðir og vöktun koma fram samhliða veitingu leyfis. Þau skilyrði hafi ekki komið fram að neinu leyti er hið kærða stjórnvald veitti sjálfu sér leyfi til framkvæmda. Þá komi skýrt fram í áliti stofnunarinnar um matsskýrsluna að ekki hafi farið fram mat á valkostum í umhverfismati framkvæmdar. Með því hafi ekki verið uppfyllt ákvæði c-liðar 1. mgr. 22. gr. laga nr. 111/2021, áður sambærilegt ákvæði laga nr. 106/2000, um að meta skuli raunhæfa kosti. Því geti umhverfismatsskýrslan ekki verið sá grundvöllur leyfisveitinga sem lög bjóði. Megi um þetta vísa til dóms Hæstaréttar frá 16. febrúar 2017 í máli nr. 575/2016.

Í áliti Skipulagsstofnunar um matsáætlun framkvæmdaraðila hafi verið lögð áhersla á að fjallað yrði um forsendur þess að ferðamönnum mundi ekki fjölga með bættri aðstöðu og þjónustu í umhverfismatinu, ásamt aðgerðum þeim sem framkvæmdaraðili teldi að komið gætu í veg fyrir slíkt. Með þessu væri m.a. átt við með hvaða hætti aðgangi yrði stýrt á annan hátt en með því að takmarka framboð bílastæða. Þá þyrfti að vera skýrt hver yrði endanleg fjölgun á gistirýmum. Þessa hafi ekki verið gætt í matsskýrslu þar sem engin umfjöllun sé um aðgangsstýringu og sé hún því í ósamræmi við matsáætlun.

Í 4. tölulið álits Skipulagsstofnunar um matsáætlun hafi verið gerð krafa um að settar yrðu fram niðurstöður úr nýjustu könnunum meðal ferðamanna og ferðaþjónustuaðila um viðhorf þeirra til fyrirhugaðrar uppbyggingar sem og niðurstöður þolmarkagreiningar sem tæki mið af uppbyggingunni. Ef ekki lægi fyrir í fyrirliggjandi könnunum afstaða til áformaðra framkvæmda þyrfti að gera ráð fyrir nýrri könnun sem byggja mundi á skýrum myndrænum gögnum frá helstu sjónarhornum um áhrif framkvæmdanna á ásýnd lands. Matsskýrslan hafi ekki verið í samræmi við þessa bendingu sem hafi verið ætlað að þjóna þeim tilgangi að sett yrðu viðmið um þolmörk, vöktun þeirra og hvernig brugðist yrði við ef þeim yrði náð.

Fleira sé í áliti um matsáætlun sem ekki hafi gengið eftir. Þar hafi m.a. verið kveðið á um að gera yrði grein fyrir öðrum möguleikum á efnistöku en af áreyrum Jökulgilskvíslar í ljósi verndargildis þeirra. Þá hafi ekki verið lagt mat á það að hvaða leyti fyrirhugaðar framkvæmdir geti haft áhrif á að Torfajökulssvæðið verði skráð á heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna og ekkert mat lagt á þörf á heitu og köldu vatni vegna uppbyggingarinnar né gerð grein fyrir þeim athugunum sem vatnsöflun og vatnsnotkun byggi á. Vakin sé athygli á að straumvatnshlotin Jökulgilskvísl 1 (103-896-R) og Námskvísl (103-898-R) virðast ekki hafa verið könnuð í umhverfismatinu, en gögn málsins bendi til þess að gæði þeirra, sem og mögulega grunnvatnshlots, kunni að rýrna. Með því hafi bindandi umhverfismarkmiðum, skv. lögum nr. 36/2011 um stjórn vatnamála, verið vikið til hliðar. Að lokum sé framkvæmdaraðili einnig leyfisveitandi. Leyfisumsóknin sé hvorki dagsett né komi þar fram hver undirriti hana. Með því séu ekki uppfyllt ákvæði laga sem ætlað sé að koma í veg fyrir nauðsynlegan aðskilnað svo ekki komi til hagsmunaárekstra líkt og skylt sé samkvæmt tilskipun þeirri sem lög nr. 111/2021 séu sett til innleiðingar á.

Málsrök Rangárþings ytra: Sveitarfélagið hafnar því að álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar hafi ekki verið lagt til grundvallar við ákvörðunartöku. Vísað hafi verið til álitsins í umsókn um framkvæmdaleyfi og engu breyti þótt tilvísun til þess hafi ekki verið bókuð sérstaklega í fundargerð sveitarstjórnar við töku ákvörðunarinnar dags. 13. september 2023, enda hafi álitið verið hluti af gögnum málsins. Skylda stjórnvalda til að skrá upplýsingar sé takmörkuð við þær upplýsingar sem ekki sé þegar að finna í gögnum máls, sbr. 1. mgr. 27. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Í fundargerðinni sé sett fram yfirlýst afstaða sveitarfélagsins, sem leyfisveitanda, þess efnis að framkvæmdin samræmist fyrirliggjandi umhverfismati og áliti Skipulagsstofnunar þar að lútandi. Með því feli bókun sveitarstjórnar í sér ígildi greinargerðar sbr. 2. mgr. 14. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Sveitarfélagið hafi borið ábyrgð á gerð umhverfismats framkvæmdarinnar og hafi sveitarstjórnarmenn verið öllum hnútum kunnugir og þekkt vel bæði umhverfismatið sjálft og þá framkvæmd sem þar sé lýst. Ítarlegri greinargerð hefði engu breytt um útgáfu framkvæmdaleyfis eða fyrirkomulag.

Það sé misskilningur að framkvæmdirnar séu háðar leyfi forsætisráðuneytisins. Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. þjóðlendulaga sé það sveitarstjórnar að veita leyfi til nýtingar þeirra réttinda sem séu til skoðunar. Þar sem um sé að ræða landnýtingu, sem ætlað sé að vara til langs tíma, hafi sveitarfélagið þó talið rétt og skylt að afla samþykkis ráðuneytisins, en ekkert mæli gegn því að sveitarstjórn taki ákvörðun um hvort rétt sé að heimila framkvæmd áður en samþykkis ráðherra sé aflað.

Því sé hafnað að valkostamati í matsskýrslu hafi verið áfátt. Vissulega hafi Skipulagsstofnun talið í áliti sínu að umfjöllun um aðra valkosti væri of almennur. Það sé þó ekki það sama og að samanburðurinn hafi ekki farið fram. Þrátt fyrir þetta hafi stofnunin álitið að matsskýrslan væri fullnægjandi. Sú valkostagreining sem matsskýrslan hafi að geyma byggi á vinnu sem hafi farið fram í tengslum við gerð skipulagsáætlana. Í greinargerð með deiliskipulagi svæðisins segi að skipulagið miði að því að endurheimta tilfinningu fyrir ósnortnum víðernum hálendisins á svæðinu við Laugahraun, þar sem finna megi hinar eiginlegu Landmannalaugar. Af þessum sökum séu öll mannvirki og bílaumferð skipulögð utan við hið eiginlega laugasvæði.

Hvað varði aðra valkosti til efnistöku sé gert ráð fyrir að stórgrýti í grjótgarðinn verði sótt í núverandi námur í nágrenninu utan friðlands, en fyllingarefni verði úr aurum Jökulgilskvíslar. Fyllingarefni úr aurum Jökulgilskvíslar verði sótt úr námu sem sé skilgreind sem E86 Jökulgils­kvísl í Aðalskipulagi Rangárþings ytra 2016–2028, en hún sé malarnáma, allt að 0,5 ha af stærð. Áætluð leyfileg efnistaka úr námunni sé allt að 10.000 m3. Efnistakan úr Jökulgilskvísl muni hafa tímabundin áhrif á afmörkuðu svæði en þó sé ekki um að ræða varanlegar breytingar á árfarvegi. Í matsskýrslu sé rakið að áhrif efnistökunnar í farveginum verði óveruleg þar sem ummerki um efnistökuna hverfi fljótt vegna mikils og stöðugs framburðar árinnar. Ekki væri ákjósanlegt að sækja fyllingarefni í aðrar námur enda séu um 12 km í næstu námu, sem kennd sé við Dómadal, en hún sé einnig innan friðlands að Fjallabaki. Þá sé búið að loka eldri námu sem hafi verið í Landmannalaugum og nýttist m.a. við gerð núverandi varnargarða á svæðinu. Því hafi verið tilgangslaust að fjalla nánar um aðra möguleika til efnistöku enda séu þeir óraunhæfir.

Varðandi athugasemd um að engin greining hafi farið fram á því hvort forsendur umhverfismats hafi breyst verulega frá því að matsskýrsla og álit um hana hafi legið fyrir sé bent á að skýrslan sé frá mars 2023, álitið sé dags. 13. júlí s.á. og umsókn um framkvæmdaleyfi sé dags. 17. ágúst s.á. Því sé ljóst að heimildir þessar hafi verið í fullu gildi þegar hin kærða ákvörðun hafi verið tekin en í umsókn um framkvæmdaleyfið hafi verið vísað til álits Skipulagsstofnunar og að framkvæmdin væri í samræmi við fyrirliggjandi umhverfismat.

Ábendingum sem fram hafi komið í áliti Skipulagsstofnunar frá 2. mars 2022 hafi verið fylgt eftir við gerð matsskýrslu. Skipulagsstofnun hafi þannig ekki gert athugasemdir um þolmarka­viðmið í áliti sínu um matsskýrsluna en fyrir liggi viðamiklar greiningar á þolmörkum Landmannalauga sem vísað sé til í matsskýrslunni. Skylda til að mæla fyrir um mótvægis­aðgerðir hvíli auk þess eingöngu á leyfisveitanda þegar Skipulagsstofnun hafi mælt þar fyrir um í áliti sínu um umhverfismat framkvæmdar.

Fyrir liggi umfangsmiklar kannanir og rannsóknir á afstöðu ferðamanna sem fjallað sé um í matsskýrslu og fylgigögnum hennar. Því til viðbótar hafi Skipulagsstofnun sett skilyrði fyrir því að framkvæmd verði ný viðhorfskönnun meðal ferðamanna og ferðaþjónustuaðila til uppbyggingarinnar við Námshraun, sem verði að öllum líkindum framkvæmd áður en leyfi verða veitt vegna framkvæmda þar. Hin kærða ákvörðun fjalli hins vegar um gerð grjótgarðs í Námskvísl.

Ranghermt sé í kæru að engin umfjöllun sé í matsskýrslu um áhrif fyrirhugaðra framkvæmda á áform um að Torfajökulssvæðið verði skráð á heimsminjaskrá UNESCO. Í skýrslunni sé rakið að svæðið sé eitt af sex svæðum sem Ísland hafi tilnefnt á yfirlitslista heimsminjaskrár UNESCO. Til þess sé að líta að framkvæmdin miði öll að því að raska sem minnst náttúru og lífríki Landmannalauga, sem sé í samræmi við almenn markmið UNESCO á Íslandi sem eru m.a. vernd og aukinn skilningur á mikilvægi náttúruarfs.

Því sé hafnað að athuganir á þörf á heitu og köldu vatni hafi nokkuð að gera með hina kærðu ákvörðun, sem varði eingöngu grjótgarð í Námskvísl. Aftur á móti verði farið í ítarlegri skoðun á þeim atriðum, þ.m.t. vatnsveituþörf, við undirbúning leyfisveitingar vegna hinnar eiginlegu þjónustumiðstöðvar og annarra mannvirkja sem þurfi tengingu við vatn. Þá bendi ekkert til þess að hin kærða ákvörðun sé í ósamræmi við þá stefnumörkun um vatnsvernd sem fram komi í vatnaáætlun, sbr. 3. mgr. 28. gr. laga nr. 36/2011 um stjórn vatnamála.

Upplýst sé um að dagsett og undirritað frumrit umsóknar um framkvæmdaleyfi hafi verið lagt fram við afgreiðslu málsins hjá sveitarfélaginu. Eintakið sem birst hafi með fundargerð á vefsíðu sveitarfélagsins hafi ekki verið innskannað frumrit.

Svæðið sé utan eignarlanda. Sveitarfélögum sé ætlað lögbundið hlutverk í þjóðlendum. Komi sú aðkoma til viðbótar við lögbundið hlutverk samkvæmt skipulags- og mannvirkjalöggjöf. Af þeim sökum m.a. hafi Rangárþing ytra tekið að sér að vera framkvæmdaraðili. Sveitarfélagið fái þó engar undanþágur frá lögboðnu ferli við undirbúning ákvörðunar um leyfisveitingu. Hafi því afgreiðsla leyfisins verið háð sömu kröfum og málsmeðferð og almennt gildi um veitingu sambærilegra leyfa í sveitarfélaginu til einkaaðila.

Málsrök Skipulagsstofnunar: Vegna sjónarmiða í kæru varðandi skort á mati á valkostum framkvæmdarinnar vísi stofnunin til samskipta við framkvæmdaraðila þar sem fjallað hafi verið um samanburð á valkostum. Lög geri á hinn bóginn ekki kröfu um að framkvæmdaraðili meti umhverfisáhrif þeirra valkosta sem hann hafi skoðað á sama hátt og hann meti áhrif þeirrar útfærslu sem hann hyggst ráðast í. Framkvæmdaaðili geti lagt fram fleiri en einn jafngildan kost í umhverfismati og tekið ákvörðum um hvern þeirra skuli ráðist í að umhverfismatinu loknu. Í öðrum tilvikum geti framkvæmdaraðili lagt fram einn eiginlegan kost til umhverfismats og fjallað með almennari hætti um aðra valkosti. Í matsskýrslunni sé slíka umfjöllun að finna á valkostum A og C. Þeir valkostir hafi verið lítt mótaðir og geti umhverfismatið því ekki verið lagt til grundvallar útgáfu leyfa í samræmi við þá valkosti. Hvað varði efnistöku hafi í matsskýrslu verið rakið að aðrir kostir væru að sækja efni í nálægar námur.

Það sé ekki fullt samræmi á milli álits stofnunarinnar um matsáætlun og efni matsskýrslu. Hins vegar sé stofnuninni ekki skylt að hafna því að taka matsskýrslu til skoðunar við þær aðstæður heldur sé stofnuninni „heimilt“ að gera það, sbr. orðalag 3. mgr. 23. gr. laga nr. 111/2021. Með því hafi löggjafinn ákveðið að það geti verið mögulegt að víkja frá áliti Skipulagsstofnunar um matsáætlun við gerð matsskýrslu. Sama fyrirkomulag hafi verið við lýði samkvæmt eldri lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum en skv. 1. mgr. 22. gr. þágildandi reglugerðar nr. 660/2015 um mat á umhverfisáhrifum hafi framkvæmdaraðili getað rökstutt frávik í frummatsskýrslu frá samþykktri matsáætlun. Skipulagsstofnun hafi verið skylt að taka afstöðu til þeirra röksemda. Varðandi sjónarmið um að matsskýrsla sé ekki í samræmi við álit stofnunarinnar um þolmarkagreiningu og þolmarkaviðmið sé vísað til ítarlegrar umfjöllunar í kafla 6.1.3 í umhverfismatsskýrslu. Þar sé að finna rökstuðning framkvæmdaraðila fyrir því af hvaða ástæðum vikið sé frá matsáætlun varðandi þau atriði.

Skipulagsstofnun hafi bent framkvæmdaraðila á að ef ekki væri gert ráð fyrir að reyna að stýra aðgengi á annan hátt en með framboði bílastæða og bílastæðagjaldi, yrði það að koma fram í umhverfismatsskýrslu sem það og geri á bls. 45–46. Það sé ekki rétt að fram hafi komið í áliti stofnunarinnar um matsáætlun að gerð hafi verið krafa um ítarlega umfjöllun um aðgangsstýringu. Óskað hafi verið eftir umfjöllun um forsendur þess að ekki verði um fjölgun ferðamanna að ræða þrátt fyrir bætta þjónustu og aðstöðu.

Í áliti stofnunarinnar frá 13. júlí sl. komi skýrt fram í kafla 3.1.3 að stofnunin telji tilefni til að framkvæmdaraðili láti fara fram viðhorfskönnun meðal ferðamanna og ferðaþjónustuaðila til uppbyggingarinnar. Með þessu árétti stofnunin að ástæða sé til þess að slík könnun fari fram áður en til leyfisveitingar komi. Ekki hafi verið um skilyrði að ræða heldur ítrekun á fyrri ábendingu.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Ítrekuð er m.a. umfjöllun í kæru um tengsl skilyrða Skipulagsstofnunar og krafna um viðeigandi aðskilnað þegar leyfisveitandi er jafnframt framkvæmdaraðili. Varðandi viðhorf sveitarfélagsins um að vanræksla á að leggja fram greinargerð um afgreiðslu leyfis hafi engar afleiðingar, sé ítrekuð fyrri umfjöllun í kæru og ákvæði 3. mgr. 27. gr. laga nr. 111/2021 og 2. mgr. 14. skipulagslaga nr. 123/2010. Hafnað sé því sjónarmiði að minni kröfur eigi að gera til forms ákvörðunar þar sem kærði sé bæði leyfisveitandi og framkvæmdaraðili. Sé um það vísað til umfjöllunar í kæru um kröfur Evróputilskipunar sem lög nr. 111/2021 eru innleiðing á, um aðskilnað slíkra aðila.

Meðal annarra viðbótarröksemda kærenda eru að ákvæði deiliskipulags sem gera ráð fyrir aukinni uppbyggingu í Landmannalaugum séu hvorki í samræmi við áðurgildandi né núgildandi aðalskipulag sveitarfélagsins og því að engu hafandi, án breytinga á aðalskipulagi, sbr. 7. mgr. 12. gr. laga nr. 123/2010 um rétthæð skipulags. Jafnframt að deiliskipulag svæðisins samrýmist ekki þeirri Landsskipulagsstefnu sem Alþingi setti með þingsályktun 2016.

Athugasemdir kæranda við málsrök Skipulagsstofnunar: Sjónarmiðum stofnunarinnar sé vísað á bug en mat á áhrifum valkosta liggi ekki fyrir og um sé að ræða einn grundvallarþátta umhverfismats. Þá sé hafnað þeim skilningi að skilyrði í kafla um leyfisveitingar í áliti um matsskýrslu hafi einungis falið í sér áréttingu á tilmælum og að stofnunin hefði kveðið fastar að orði hefði hún ætlast til þau yrðu bindandi. Í almennum athugasemdum með frumvarpi því er varð að lögum nr. 111/2021 hafi komið fram að skilyrði í áliti Skipulagsstofnunar séu bindandi fyrir leyfisveitanda og skylt sé að taka þau upp í ákvörðun um leyfisveitingu. Þessi staða álits Skipulagsstofnunar gagnvart leyfisveitanda sé talin tryggja hlutleysi leyfisveitanda í samræmi við kröfur tilskipunar 2011/92/ESB eins og henni hafi verið breytt með tilskipun 2014/52/ESB.

——

Rangárþingi ytra var gefið tækifæri til að tjá sig um viðbótarathugasemdir kæranda. Þá hefur kærandi gert ítarlegri grein fyrir máli sínu. Þau sjónarmið verða ekki rakin nánar hér en úrskurðarnefndin hefur farið yfir öll gögn og haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Samkvæmt lögum nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er það skilyrði aðildar í málum fyrir úrskurðarnefndinni að kærandi eigi lögvarinna hagsmuna að gæta tengda viðkomandi ákvörðun, sbr. 3. mgr. 4. gr. laganna. Umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtök teljast eiga lögvarinna hagsmuna að gæta þegar um er að ræða ákvarðanir um að veita leyfi vegna framkvæmda sem falla undir lög nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana, sbr. b-lið 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011, að nánar tilgreindum skilyrðum uppfylltum. Kærendur eru náttúruverndarsamtök sem uppfylla skilyrði kæruaðildar skv. 4. mgr. 4. gr laga nr. 130/2011 og verður þeim því játuð kæruaðild að máli þessu.

Með bréfi, dags. 17. ágúst 2023, sótti sveitarfélagið Rangárþing ytra um framkvæmdaleyfi til uppbyggingar á grjótvörn vegna fyrirhugaðrar stækkunar á bílastæði við Námskvísl í Land­mannalaugum. Fram kom í umsókninni að um væri að ræða hluta af heildarframkvæmd vegna uppbyggingar þjónustumiðstöðvar í Landmannalaugum sem sætt hafi umhverfismati. Umsóknin var tekin fyrir á fundi skipulags- og umferðarnefndar sveitarfélagsins 7. september 2023, þar sem samþykkt var að leggja til við sveitarstjórn að heimild yrði veitt fyrir útgáfu framkvæmdaleyfis á grundvelli heimilda aðalskipulags og gildandi deiliskipulags. Erindið var tekið fyrir og samþykkt á fundi sveitarstjórnar Rangárþings ytra 13. s.m.

Verður nú fjallað um hvort skilyrðum til veitingar framkvæmdaleyfis hafi verið fullnægt. Kemur þar til skoðunar málsmeðferð við hina kærðu leyfisveitingu, m.a. að teknu tilliti til umhverfismatsins sem fram fór og er hluti af undirbúningi hennar. Ljóst er að skyldur sveitar­stjórnar sem leyfisveitanda eru ríkar við útgáfu leyfis til framkvæmdar sem undirgengist hefur umhverfismat og er í lögum kveðið á um ákveðna málsmeðferð og skilyrði þess að leyfi verði veitt. Auk skipulagslaga nr. 123/2010 og laga nr. 111/2021 geta komið til skoðunar ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993 ásamt ýmsum verndarákvæðum laga, þar með talinna laga nr. 60/2013 um náttúruvernd.

Í þessu sambandi athugast að með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda nr. 354/1979 voru Landmannalaugar ásamt víðáttumiklu svæði milli Torfajökuls og Tungnaár friðlýst með heimild í 24. gr. þágildandi laga um náttúruvernd nr. 47/1971. Samkvæmt 8. gr. núgildandi laga nr. 60/2013 um náttúruvernd, skulu ákvarðanir stjórnvalda sem varða náttúruna eins og kostur er byggjast á vísindalegri þekkingu á verndarstöðu og stofnstærð tegunda, útbreiðslu og verndarstöðu vistgerða og vistkerfa og jarðkerfa landsins. Í athugasemdum sem fylgdu 8. gr. frumvarps þess sem varð að lögunum er fjallað ítarlega um það markmið að vernda til framtíðar fjölbreytni íslenskrar náttúru. Fram kemur að krafan um þekkingu skuli vera í samræmi við eðli ákvörðunar og væntanleg áhrif hennar á náttúruna. Séu því gerðar meiri kröfur þegar um er að ræða stærri framkvæmdir. Einnig verði að taka mið af því hversu mikil áhrif ákvörðunin sé líkleg til að hafa.

—–

Í kæru er að því vikið að sveitarfélagið sé í senn framkvæmdaraðili og leyfisveitandi. Staðhæft er að enginn aðskilnaður ábyrgðar hafi verið gerður við afgreiðslu hins kærða leyfis til að koma í veg fyrir hagsmunaárekstur. Ljóst sé af gögnum málsins að starfsmenn sveitarfélagsins hafi, með aðstoð sérfræðinga og ráðgjafa, annast og borið ábyrgð á öllu ferli umhverfismats fram­kvæmdarinnar, þar á meðal gerð matsskýrslu.

Fyrirmælum um almennt hæfi í stjórnsýslu sveitarfélaga, eins og þau koma fyrir í 20. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 sem og II. kafla stjórnsýslulaga, er ætlað að girða fyrir að tilteknir einstaklingar, sem teljast vanhæfir vegna m.a. hagsmunaárekstra eða fyrri starfa, geti komið að eða átt þátt í undirbúningi og töku ákvörðunar. Er þar ekki vikið að mögulegu sérstöku hæfi lögaðila, en reifað hefur verið í fræðum hvort beita megi sjónarmiðum um sérstakt hæfi um lögaðila á grundvelli óskráðra meginreglna. Yrði þá um leið að huga að, eftir því sem við ætti, að stjórnvöld fara með gæslu almannahagsmuna og því myndu önnur sjónarmið gilda um mat á hæfi þeirra auk þess að takmarkaðir möguleikar til setningar staðgengils gætu verið af þýðingu þegar stjórnvaldi væri skylt eða rétt að taka ákvörðun.

Sveitarstjórnir sækja umboð sitt til íbúa og ber að rækja skyldur sínar lögum samkvæmt, sbr. 8. gr. laga nr. 138/2011. Verður því ekki talið að annmarka sé til að dreifa á málsmeðferð sveitarfélagsins, eins og á stóð, en um leið standa eðlisrök til þess að sveitarstjórnir vandi vel til við rökstuðning ákvarðana um leyfisveitingu þegar svo hagar til að sveitarfélag stendur sjálft að umsókn.

—–

Samkvæmt 2. málslið 3. mgr. 21. gr. laga nr. 111/2021 skal framkvæmdaraðili leggja álit Skipulagsstofnunar um matsáætlun til grundvallar við umhverfismat framkvæmdar og skal álitið fela í sér leiðbeiningar til framkvæmdaraðila um vinnslu, efni og framsetningu umhverfis­matsskýrslu, m.a. með hliðsjón af framkomnum umsögnum, sbr. 3. málslið sömu málsgreinar. Þá skal gerð og efni umhverfismatsskýrslu vera í samræmi við matsáætlun og álit Skipulags­stofnunar um hana, sbr. 2. mgr. 22. gr., og skal skýrslan innihalda lýsingu og mat á raunhæfum valkostum sem framkvæmdaraðili hefur kannað ásamt upplýsingum um helstu ástæður fyrir þeim valkosti sem var valinn, með tilliti til umhverfisáhrifa framkvæmdarinnar, sbr. c-lið 1. mgr. 22. gr. nefndra laga.

Álit Skipulagsstofnunar um matsskýrslu þarf að fullnægja lágmarksskilyrðum um rökstuðning og efnisinnihald. Þar skal koma fram rökstudd niðurstaða stofnunarinnar um umhverfismat framkvæmdarinnar og, eftir því sem við á, skilyrði um mótvægisaðgerðir og vöktun sem beint er til leyfisveitenda, sbr. 1. mgr. 24. gr. laganna. Skyldur leyfisveitanda ná til þess að kanna hvort einhverjir þeir annmarkar séu á áliti Skipulagsstofnunar að á því verði ekki byggt. Lýtur lögmætiseftirlit úrskurðarnefndarinnar að hinu sama, sem og því hvort leyfisveitandi hafi sinnt skyldum sínum með fullnægjandi hætti. Í máli þessu hefur kærandi haldið því fram að ekki verði byggt á fyrirliggjandi mati á umhverfisáhrifum hvað varði einkum valkostamat og lýsingu umhverfisáhrifa, en þeir þættir sem greina, lýsa og meta skal í matsskýrslu með tilliti til viðkomandi framkvæmdar eru taldir í a-f liðum 4. gr. laga nr. 111/2021.

Í 4. kafla matsskýrslu framkvæmdarinnar kemur fram að markmið hennar sé að styrkja ímynd Landmannalauga sem stórbrotins náttúrusvæðis og þannig raska sem minnst náttúru og lífríki svæðisins. Gert sé ráð fyrir bílastæðum við Námskvísl, við áningarstað vestan Námshrauns og við Námshraun. Við Námskvísl eigi bílastæðin í fyrstu að þjóna daggestum, en hanna þurfi stæðin þannig að „hluti þeirra sé auðveldlega afturkræfur“, þ.e. unnt sé að fjarlægja þau síðar. Eftir uppbyggingu við Námshraun verði unnt að draga úr umferð ökutækja inn fyrir Námshraun. Á bílastæðunum við Námskvísl sé gert ráð fyrir stæðum fyrir 10 rútur eða lengri bíla og 60 smærri bíla. Bílastæðin verði hönnuð í jafnvægi við náttúruna og jarðefni á svæðinu og verði mótuð í samhengi með göngustígum sem liggi meðfram Jökulgilskvísl. Til þess að draga úr sýnileika bílastæða verði gerð mön og/eða lágreistur veggur sem jafnframt sé hluti af rofvörn. Varðandi efnisþörf og efnisöflun sé gert ráð fyrir að stórgrýti í rofvörn verði sótt í námu við Sigöldu, en fyllingarefni verði úr aurum Jökulgilskvíslar. Heildarefnismagn verði um 20.000 m3, þar af um helmingur stórgrýti. Þetta verði gert í góðu samráði við Umhverfisstofnun og eigi alls ekki að hafa í för með sér sýnilegt rask eða neikvæð áhrif á svæðið. Efnisþörf vegna annarra framkvæmda, s.s. vegna viðhalds vega, bílastæða og göngustíga, liggi ekki fyrir, en mikill framburður af möl og leir berist yfir áreyrarnar og talið sé að þar megi sækja nánast allt fyllingarefni sem þurfi vegna framkvæmdanna.

Landmannalaugar eru einn fjölsóttasti ferðamannastaður hálendisins og laut umfjöllun í matsskýrslu að verulegu leyti að áhrifum framkvæmda á útivist og ferðamennsku. Svo sem fjallað er um í kæru var í áliti Skipulagsstofnunar um matsáætlun, dags. 2. mars 2022, bent á að fjalla þyrfti ítarlega um forsendur þess að ferðamönnum mundi eigi fjölga samfara bættri aðstöðu og þjónustu í Landmannalaugum og um leið þær aðgerðir sem framkvæmdaraðili teldi að myndu koma í veg fyrir fjölgun og með hvaða hætti aðgengi yrði stýrt á annan hátt en með því að takmarka framboð bílastæða og með bílastæðagjaldi. Var í því sambandi bent á að „setja þyrfti fram í umhverfismatsskýrslu niðurstöður úr nýjustu könnunum meðal ferðamanna og ferðaþjónustuaðila til fyrirhugaðrar uppbyggingar sem og niðurstöður þolmarkagreiningar sem tæki mið af uppbyggingunni.“ Með hliðsjón af slíkri greiningu þyrfti að vera umfjöllun um þolmarkaviðmið í skýrslunni og hvernig fyrirhugað væri að fylgjast með eða vakta hvort að þolmörkum væri náð og hvort að til staðar yrði viðbragðsáætlun ef til þess kæmi. Var í þessu samhengi jafnframt vísað til markmiðs 1.2 og greinar 1.2.1 í landsskipulagsstefnu, þar sem áhersla væri lögð á að uppbygging ferðamannastaða tæki mið af þoli svæða gagnvart upp­byggingu og gerðar væru ráðstafanir til að draga úr ágangi á viðkvæma náttúru.

Í kafla 6.1. í matsskýrslu var fjallað um áhrif ráðgerðra framkvæmda á útivist og ferðaþjónustu. Þar voru raktar upplýsingar um fjölda ferðamanna og dvalartíma þeirra. Fram kom að þegar fjöldi bílastæða hafi verið ákveðinn við undirbúning deiliskipulags fyrir svæðið hafi verið fjallað um forsendur um fjölda ferðamanna. Áform miði við að þegar svæðið verði fullbyggt verði 220 bílastæði fyrir fólksbíla, 10 stæði fyrir stóra bíla og 20 stæði fyrir rútur. Ef reiknað sé með þremur mönnum að meðaltali í hverjum fólksbíl, 40 í hverri rútu og fimm í hverjum stórum bíl megi áætla heildarfjölda sem sé að hámarki 1510 manns. Fjöldi bílastæða taki með þessu nokkurt mið af þeim fjölda sem þegar komi á svæðið og verði bílastæðin takmarkandi þáttur fyrir hversu margir geti verið þar samtímis. Ekki sé gert ráð fyrir því að svo komnu máli að stýra aðgengi á annan hátt. Með sama hætti er fjallað um svæði sem áætluð séu fyrir tjöld og húsbíla, en það sé nokkru minna en núverandi tjaldsvæði við skála Ferðafélags Íslands. Gert sé með því ráð fyrir óverulegri eða engri fjölgun í tjaldgistingu. Með þessu hefur matsskýrslan að geyma lýsingu á því með hvaða hætti aðgengi í Landmannalaugar verði takmarkað með áformum framkvæmdaraðila.

Í kafla 6.1.3. í matsskýrslu er rakið að árið 2020 hafi komið út skýrsla um viðhorf ferðamanna í Landmannalaugum þar sem borin voru saman árin 2000, 2009 og 2019. Í þeirri skýrslu var greint frá niðurstöðum langtímarannsóknar á félagslegum þolmörkum ferðamanna í Land­mannalaugum. Rannsóknin var byggð á þversniðsgögnum, þ.e.a.s. spurningum sem lagðar voru fyrir ferðamenn í Landmannalaugum sumrin 2000, 2009 og 2019. Skýrslan gefi góða mynd af því hver þolmörk svæðisins séu út frá upplifun ferðamanna í Landmannalaugum, en ekki hafi verið farið í sérstaka þolmarkarannsókn á viðhorfi ferðamanna um fyrirhugaða uppbyggingu sem fjallað hafi verið um í matsáætlun. Fram kemur að þetta frávik frá mats­áætluninni helgist af því að ekki hafi þótt ástæða til að ráðast í slíka rannsókn, þar sem niðurstöður skýrslunnar frá 2020 gefi nokkuð skýra mynd af viðhorfi til frekari uppbyggingar á svæðinu og þar sem í niðurstöðukafla séu einnig rakin sjónarmið um uppbyggingu annars staðar en á núverandi skálasvæði Landmannalauga. Gerð og efni matsskýrslu skal vera í sam­ræmi við matsáætlun og álit Skipulagsstofnunar um hana, sbr. 22. gr. laga nr. 111/2021, en með vísan til þeirra skýringa sem með þessu voru færðar fram í matsskýrslunni, sem Skipulags­stofnun féllst á fyrir sitt leyti, verður ekki talið til annmarka að slík sérstök rannsókn á þolmörkum svæðisins hafi ekki farið fram.

Í áliti Skipulagsstofnunar um matsskýrslu framkvæmdarinnar var rakið að stofnunin álíti ákveðna óvissu vera um áhrif uppbyggingarinnar á útivist og ferðamennsku, en hún kunni að hafa neikvæð áhrif á upplifun ferðamanna á Landmannalaugasvæðinu. Í niðurstöðum segir að aðstaða muni koma til með að batna, en óvissa sé um hvort fyrirhuguð uppbygging komi til með að hafa neikvæð áhrif á óbyggðaupplifun og náttúrugæði, m.a. þar sem ekki hafi verið könnuð viðhorf og fengin afstaða ferðamanna til umfangs uppbyggingarinnar við Námshraun eins og henni væri lýst í umhverfismatsskýrslu. Stofnunin áleit það því ákveðinn galla á umhverfismatinu að ekki hafi legið fyrir viðhorfskönnun á afstöðu ferðamanna til fyrirhugaðrar uppbyggingar við Námshraun. Þessi umfjöllun skýrir það sem segir seinast í álitinu, undir liðnum „Leyfisveitingar og skilyrði“, þ.e. að Skipulagsstofnun telji að áður en komi til leyfis­veitinga sé ástæða til að fram fari viðhorfskönnun meðal ferðamanna og ferðaþjónustuaðila til uppbyggingarinnar við Námshraun. Þessa var eigi gætt við undirbúning hinnar kærðu ákvörðunar. Fyrir liggur á hinn bóginn að Skipulagsstofnun hefur upplýst, svo sem rakið hefur verið, að í þessu hafi ekki falist bindandi skilyrði heldur ítrekun á fyrri bendingu.

Í niðurstöðum álits Skipulagsstofnunar um matsskýrslu segir að stofnunin telji óljóst hvernig komið verði í veg fyrir fjölgun ferðamanna, þar sem ljóst sé að bætt aðstaða kalli gjarnan á aukinn ferðamannafjölda sem og breytta samsetningu þeirra. Efast megi um að takmarkanir á fjölda bílastæða dugi einar sér til að stýra aðsókn að Landmannalaugasvæðinu. Því sé hætta á að fyrirhuguð uppbygging fjölgi ferðamönnum, bæði daggestum og þeim sem komi til með að gista. Með því geti álag aukist vegna lengri viðveru gesta og aukins ágangs, þótt svæðið við Laugahraun kunni að njóta góðs af fyrirhugaðri uppbyggingu við Námshraun og Námskvísl. Í þessu sambandi má einnig geta umsagnar Umhverfisstofnunar við matsskýrsluna, þar sem sagði að þótt umfjöllun í skýrslunni væri ítarleg og góð, hefði gjarnan mátt setja fram skýrari hugmyndir um stýringu á fjölda ferðamanna til að draga úr álagi á svæðinu. Í matsskýrslunni var samkvæmt þessu fjallað um áhrif framkvæmda á útivist og ferðaþjónustu, m.a. með hliðsjón af ólíkum valkostum og verður sú umfjöllun talin fullnægjandi, enda þótt óvissu um mögulega fjölgun ferðamanna verði enn til að dreifa. Um leið verður að athuga að skipulagsáætlanir eru skýrar um landnotkun á svæðinu og virðist það ekki síður viðfangsefni annarra opinberra aðila að móta almennari tillögur um stýringu á umferð eða álagi á ferðamannastaði á hálendinu.

—–

Í matsskýrslu framkvæmdar skal vera lýsing og mat á raunhæfum valkostum sem framkvæmdaraðili hefur kannað og upplýsingar um helstu ástæður fyrir þeim valkosti sem var valinn, með tilliti til umhverfisáhrifa framkvæmdarinnar, sbr. c-lið 1. mgr. 27. gr. laga nr. 111/2021. Í 2. tl. 1. mgr. 15. gr. reglugerðar nr. 1381/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana er í dæmaskyni nefnt að valkostirnir geti verið í tengslum við hönnun fram­kvæmdarinnar, tækni, staðsetningu, stærð og umfang. Gert sé ráð fyrir að valkostir tengist fyrirhugaðri framkvæmd og sérstökum eiginleikum hennar og skulu í skýrslu vera upplýsingar um helstu ástæður fyrir þeim valkosti sem framkvæmdaraðili hefur valið, að teknu tilliti til samanburðar umhverfisáhrifa.

Í kafla 4.4. í matsskýrslunni var almenn umfjöllun um þá valkosti sem fjallað yrði um í skýrslunni auk valkosts B, valkosts framkvæmdaraðila. Færð voru þar fram meginrök fyrir þeim valkosti, þ.e. að við mótun sameiginlegrar stefnu Rangárþings ytra, Rangárþings eystra og Skaftárhrepps um skipulagsmál, ferðaþjónustu og samgöngur á Fjallabakssvæðinu hafi verið ákveðið að flytja alla meginþjónustu í Landmannalaugum nær vegamótum við Fjalla­baksleið nyrðri. Í þeirri vinnu hafi verið bornir saman þrír valkostir um ferðaþjónustu í Landmannalaugum auk núllkosts. Með því yrði stærsti hluti núverandi þjónustu færður frá Laugasvæðinu, en gert ráð fyrir að bílaumferð inn í Laugar yrði takmörkuð og þannig skapist meiri friður yfir því svæði. Þar yrði aðstaða fyrir daggesti, eftir atvikum takmörkuð gisting og bílaumferð. Jafnframt yrðu byggð bílastæði við Námskvísl. Fram kom að valkostur A, um uppbyggingu innan Laugasvæðisins, myndi væntanlega auka umferð og álag á það svæði. Með valkosti C, þar sem meginstarfsemin væri flutt burt úr Laugum, voru leiddar líkur að því að þeim mundi fækka sem hefðu viðdvöl í fleiri daga.

Umfjöllun um báða þessa valkosti, A og C, auk núllkosts er hluti af umfjöllun um einstaka umhverfisþætti í matsskýrslunni þannig að þeir eru á hverjum stað bornir saman við valkost framkvæmdaraðila, B. Þegar hefur verið rakin í nokkru umfjöllun matsskýrslu um áhrif framkvæmda á útivist og ferðaþjónustu. Um áhrif framkvæmda á fornleifar, gróður og jarðveg var einkum byggt á gróðurfarsrannsókn Náttúrufræðistofnunar Íslands frá árinu 2014. Þar var fjallað um gróðurfarslegt gildi svæðisins, sem álitið hafi verið mjög verðmætt, einkum vegna votlendis sem liggi undir vel grónu líparíthrauni, en fram kom að mestur hluti ráðgerðrar uppbyggingar væri innan svæðis sem væri flokkað sem melar. Innan framkvæmdasvæðisins væru um 2,2 ha skilgreint deiglendi, en mögulegt rask innan þess væri um 0,2 ha. Fram kom að áhrif valkosts framkvæmdaraðila væru jákvæð á gróðurfar, meðan kostir A og C hefðu í för með sér minnkandi álag, en núllkostur hefði aukið álag.

—–

Meðal þeirra umhverfisþátta sem lýsa skal í matsskýrslu, eftir því sem við á, eru áhrif á vatn og eru í dæmaskyni nefndar „vatnsformfræðilegar breytingar, magn og gæði“, sbr. c. lið 4. tl. 15. gr. reglugerðar nr. 1381/2021. Takmörkuðum leiðbeiningum er til að dreifa á grundvelli 2. mgr. 6. gr., sbr. 2. mgr. 33. gr. laga nr. 111/2021 um hvernig nánar verði að mati þessu staðið. Um áhrif á vatn var fjallað í kafla 6.7. í matsskýrslu um vatnafar og var rakið að með framkvæmdunum yrðu gerðar breytingar, styrktir og gerðir nýjir varnargarðar við Jökulgilskvísl og Námskvísl en þar séu þegar víða varnargarðar meðfram ánum. Meðal annars ætti að færa Námskvísl aðeins frá hlíðinni þar sem fyrirhugað væri að koma fyrir byggingum. Færslan væri mest um 20 metrar og yrði farveginum breytt á um 150 m kafla. Fjallað var um hönnun varnargarðanna með hliðsjón af umhverfisaðstæðum og ásýnd þeirra. Í matsáætlun hefði verið gert ráð fyrir því að metin yrðu áhrif tilfærslu Jökulgilskvíslar á um 150 m kafla á vatnafar og rofkraft en sú rannsókn hafi átt að fara fram sumarið 2021, en af því hafi ekki orðið, þar sem ekki lægi enn fyrir hönnun á rofvörnunum. Ljóst sé þó að Jökulgilskvísl breyti árfarvegi sínum árlega og hvernig hún flæði um aurana sé breytilegt eftir árum. Fram kom einnig að talið væri að fyrirliggjandi vatnsból og vatnsveita gætu annað fyrirhugaðri uppbyggingu og væri ekki gert ráð fyrir framkvæmdum við vatnsveituna. Var um þetta vísað til úttektar verkfræðistofu sem hafi reiknað út vatnsþörf svæðisins og var gerð grein fyrir niðurstöðum.

Í áliti Skipulagsstofnunar var bent á athugasemdir Veðurstofunnar við matsskýrsluna um að huga þyrfti að rofmætti Jökulgilskvíslar við Námshraun og varnargarða þegar unnið yrði að hönnun þeirra sem og flóðahættu og kom fram að það yrði gert í samráði við Veðurstofuna. Var í því sambandi tekið undir með henni að kanna þyrfti nánar þegar kæmi að hönnun varnargarða hvort nýta mætti rennslisgögn Landsvirkjunar úr Jökulgilskvísl til að meta stærð og endurkomutíma flóða. Í niðurstöðum um þennan þátt í áliti sínu benti Skipulagsstofnun á að við núverandi aðstæður væru varnargarðar meðfram báðum ánum en nú væri ráðgert að styrkja þá og byggja nýja þannig að nokkuð inngrip yrði  í vatnafar svæðisins og þrengt yrði að ánum. Þá var einnig álitið að ganga yrði útfrá því að núverandi vatnsveita geti annað þessari auknu uppbyggingu. Þá var rakið að um verulega aukna hreinlætisaðstöðu yrði að ræða á svæðinu og leggja yrði áherslu á að fráveitukerfi og hreinsun fráveitu yrði í samræmi við þær kröfur sem kveðið væri á um í reglugerð um fráveitur og skólp og kynni að vera ástæða til að setja ákvæði í starfsleyfi um vöktun með fráveitu og virkni hreinsivirkis.

Sá ágalli er á þessari umfjöllun að hún er ekki sett í nægilegt samhengi við þær skyldur sem leiða af lögum um stjórn vatnamála. Með þeim lögum eru m.a. gerðar kröfur til leyfisveitingarstjórnvalds um rökstuðning fyrir því að framkvæmdir á borð við þær sem hér eru til umfjöllunar, feli eigi í sér hnignun vatnsgæða sem fari í bága við meginreglur laga um stjórn vatnamála. Úrskurðarnefndin bendir á að í 2. mgr. 11. gr. laganna segir að mat á yfirborðsvatnshloti skuli byggja á fyrirliggjandi gögnum hverju sinni og taka fyrir hverja vatnshlotsgerð mið af skilgreindum líffræðilegum gæðaþáttum auk vatnsformfræðilegra og efna- og eðlisefnafræðilegra þátta eftir því sem við eigi. Einnig kunna að skipta máli ákvæði reglugerðar nr. 535/2011 um flokkun vatnshlota, eiginleika þeirra, álagsgreiningu og vöktun og aðgerðir samkvæmt vatnaáætlun og fylgiáætlun hennar. Verður þó eigi talið, með hliðsjón af þeirri lýsingu sem þó er í matsskýrslu á ráðgerðum framkvæmdum og almennu orðalagi tilvísaðra fyrirmæla reglugerðar nr. 1381/2021, að af þessum sökum verði eigi byggt á matsskýrslunni um áhrif framkvæmda á vatn og vatnafar.

—–

Ástæða er til að geta sérstaklega lýstum áhrifum framkvæmda á jarðmyndanir. Um þau var vísað til sömu skýrslu Náttúrufræðistofnunar Íslands frá 2014 og áður er getið. Rakið var að helstu verðmæti Landmannalauga og næsta nágrennis fælust í því að á svæðinu væru einstakar jarðminjar á heimsvísu sem og einstakar eða fágætar jarðmyndanir á landsvísu. Auk þess væru litbrigði landslags á svæðinu einstök á landsvísu. Valkostur framkvæmdaraðila gerði ráð fyrir nokkrum rofvörnum við Jökulgilskvísl og Námskvísl. Áreyrar Jökulgilskvíslar hefðu hátt verndargildi, en væru þó mörg hundruð hektarar að stærð og í ánni yrðu miklir vatnavextir í vorleysingum þar sem hún flæmdist um allt. Hverfi því strax það rask sem verði í ánni og það efni sem verði flutt til sé mjög lítill hluti af heildarmagninu. Tekið var fram að talverður munur væri á áhrifum á milli valkosta. Þau væru óveruleg í öllum tilvikum, nema að áhrifin af valkosti framkvæmdaraðila væru nokkuð neikvæð vegna efnistöku, en væru þó ekki talin varanleg. Þá var fjallað í skýrslunni um tilhögun göngustíga, gerð mannvirkja og efnistöku með hliðsjón af vernd jarðminja og kom fram hvernig reynt yrði að hlífa þeim jarðminjum sem taldar væru upp í 61. gr. laga um náttúruvernd, svo sem eldhrauni sem hafi myndast eftir að jökull hvarf af landinu á síðjökultíma. Heildarniðurstaða umhverfismatsskýrslunnar var sú að áhrif framkvæmda við uppbyggingu þjónustumiðstöðvar í Landmannalaugum, samkvæmt valkosti framkvæmdaraðila, væru í flestum umhverfisþáttum metin óveruleg samkvæmt valkosti B. Var í niðurstöðum fjallað um áhrif annarra valkosta með samanburði við þann valkost.

Í umsögn Náttúrufræðistofnunar Íslands voru gerðar margvíslegar athugasemdir við mats­skýrslu, sem vert er að greina frá. Þar er m.a. efnistaka úr áreyrum gagnrýnd sem óásættanleg, þar sem hún sé innan friðlands. Fram kemur að með áformum þeim sem lýst sé í skýrslunni verði komið upp tveimur nýjum þjónustusvæðum við Námskvísl og Námshraun. Bílastæði séu stór og fyrirferðarmikil, nýir umfangsmiklir varnargarðar og byggingar staðsettar upp við hraunjaðar Námshrauns. Manngerð ummerki innan svæðisins verði mun meiri og á stærra svæði en nú sé á leiðinni í Landmannalaugar sem komi til með að hafa neikvæð áhrif á verndargildi landslags og jarðminja. Stofnunin sjái ekki skynsemi í því að raska nýjum svæðum innan friðlandsins til að endurheimta svæði sem þegar hafi verið raskað. Þá séu ný þjónustu­svæði ekki trygging fyrir því að álag á öðrum svæðum komi til með að minnka. Bæta þyrfti aðstöðu við Landmannalaugar, en ekki sé sama hvernig það sé gert. Náttúrufræðistofnun var ekki sammála heildarniðurstöðu umhverfismats fyrir valkost B um að ásýnd og landslag verði nokkuð neikvæð og að áhrif á landnotkun og jarðmyndanir séu metin óveruleg eða engin. Þessir þættir verði fyrir verulega neikvæðum eða talsvert neikvæðum umhverfisáhrifum ef af framkvæmdum verði.

Í áliti Skipulagsstofnunar var fjallað efnislega um umsögn Náttúrufræðistofnunar. Um efnis­töku úr líparítáreyrum sagði í álitinu að það fæli í sér rask, en þess konar jarðmyndanir nytu ekki verndar samkvæmt lögum um náttúruvernd. Áhrif fyrirhugaðra framkvæmda á ásýnd og landslag væru nátengd áhrifum framkvæmdanna á ferðamennsku og útivist. Áhrifin varði bæði fyrirhugaða mannvirkjagerð og aukna ásókn ferðamanna tengt auknu þjónustuframboði. Í niðurstöðum um áhrif framkvæmda á ásýnd og landslag var bent á að fyrirhuguð uppbygging muni raska tæplega 10 ha svæði sem sé að mestu óraskað. Þótt niðurstöður sýnileikaathugunar gefi til kynna að sýnileiki fyrirhugaðra mannvirkja frá völdum sjónarhornum, þar sem vænta megi gangandi vegfarenda, sé ekki mikill, sé um nálgun að ræða og óvíst að hvað miklu leyti líkanmyndir gefa rétta mynd af raunverulegum sýnileika. Við svo umfangsmikla uppbyggingu á nýju og að mestu óröskuðu svæði innan friðlands sem einkennist af sérstæðu landslagi, væru óhjákvæmilega líkur á að hún gæti haft „talsvert neikvæð“ áhrif á ásýnd og landslag og þar með á óbyggða- og víðernisupplifun ferðamanna.

Samkvæmt þessu áleit Skipulagsstofnun líkur á því að samantekin áhrif ráðgerðra framkvæmda á ásýnd og landslag væru fremur „talsvert neikvæð“ heldur en „nokkuð neikvæð“ svo sem þeim var lýst í matsskýrslunni (bls. 79). Stofnunin rakti ennfremur að fyrir lægju rannsóknir sem sýndu að víðerni væru ekki einungis bundin við skilgreiningu laga um náttúruvernd heldur væru einnig huglæg, þ.e. með hliðsjón af því hvort að ferðamenn upplifi svæði sem slík. Var í þessu tilliti vísað til framangreindrar skýrslu um viðhorf ferðamanna í Landmannalaugum, sem fylgdi matsskýrslunni sem viðauki, þar sem fram komi að rúmlega 90% ferðamanna í Landmannalaugum upplifi að víðerni séu hluti af aðdráttarafli svæðisins þrátt fyrir þann fjölda ferðamanna sem heimsæki svæðið og þau mannvirki sem þar séu fyrir. Það sé ekki ljóst hvort og þá á hvaða hátt fyrirhuguð uppbygging kunni að breyta þessari upplifun þar sem afstaða ferðamanna til hennar liggi ekki fyrir. Hvað sem líður þessari umfjöllun verður ekki hjá því litið að í matsskýrslunni er allnokkur umfjöllun um áhrif ráðgerðra framkvæmda, m.a. á ásýnd og landslag, þar sem auk frásagnar eru settar fram nokkuð skýrar tölvugerðar myndir sem draga  fram umtalsverð áhrif framkvæmdanna, þ.m.t. bifreiðastæðis við Námskvísl, á ásýnd svæðisins. Verður með vísan til þessa ekki álitið að matsskýrslan sé háð þeim annmörkum að á henni verði ekki byggt um þennan umhverfisþátt.

Tilgangur mats á mismunandi valkostum er einkum að sá sem beri ábyrgð á matinu velti fyrir sér raunhæfum valkostum og mótvægisaðgerðum í þeim tilgangi að draga úr umhverfisáhrifum og er samanburður umhverfisáhrifa raunhæfra valkosta höfuðatriði við mat á umhverfis­áhrifum. Þá ber að kynna bæði matsáætlun og umhverfismatsskýrslu fyrir almenningi og veita með því tækifæri á athugasemdum, sbr. 2. mgr. 21. gr. og 1. mgr. 23. gr. laga nr. 111/2021. Geta athugasemdir frá almenningi og aðilum sem hafa hagsmuna að gæta haft verulega þýðingu, t.a.m. um það hvaða valkosti umhverfismat lýtur að.

Skipulagsstofnun hefur lýst sjónarmiðum fyrir úrskurðarnefndinni um hvernig skuli fjalla um valkosti framkvæmdar í matsskýrslu. Fallast verður á þau sjónarmið í höfuðdráttum. Það verður ekki álitið skylt að lýsa til fullnustu umhverfisáhrifum allra valkosta með sama hætti og valkosti framkvæmdaraðila. Hefur þótt ásættanlegt að umfjöllun um aðra valkosti hafi að geyma samanburð sem geti auðveldað stjórnvöldum og almenningi að leggja mat á áformaða fram­kvæmd og að af þeirri umfjöllun verði um leið ráðið hvers vegna sá valkostur var valinn sem lagður var til grundvallar. Álíta verður að umfjöllun í matsskýrslu sé fullnægjandi hvað þetta varðar. Þá er ljóst af matsskýrslunni að margþætt sjónarmið hvíla að baki valkosti fram­kvæmdaraðila, en þar virðist vega þyngst að með honum sé dregið úr umferð um Lauga­hraunssvæðið og að þjónusta þar miðist við að sinna daggestum, sem skapi meiri friðsæld á því svæði.

Í ljósi framangreinds verður álitið að engir þeir annmarkar séu á matsskýrslu framkvæmdarinnar né heldur áliti Skipulagsstofnunar að á þessum heimildum verði ekki byggt við útgáfu framkvæmdaleyfis.

—–

Samkvæmt 1. mgr. 14. gr. skipulagslaga og 1. mgr. 25. gr. laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana er óheimilt að gefa út leyfi til framkvæmda fyrr en álit Skipulags­stofnunar um mat á umhverfisáhrifum liggur fyrir eða ákvörðun um að framkvæmd sé ekki matsskyld. Í 27. gr. síðarnefndu laganna eru nánari fyrirmæli um leyfisveitingu vegna mats­skyldrar framkvæmdar. Þannig segir í 1. mgr. 27. gr. að með umsókn um slíkt leyfi skuli fylgja greining framkvæmdaraðila á því hvort forsendur umhverfismats og álits um framkvæmdina hafi breyst af nánar tilgreindum ástæðum. Í ljósi þess að einungis rúmur mánuður leið frá því að álit Skipulagsstofnunar lá fyrir og þar til sótt var um framkvæmdaleyfi verður ekki talið til verulegs annmarka að ekki verður séð að þessara fyrirmæla hafi verið gætt við samþykkt hins kærða leyfis.

Við töku ákvörðunar um leyfi til framkvæmdar sem sætt hefur umhverfismati skal leyfis­veitandi kynna sér umhverfismatsskýrslu framkvæmdaraðila um framkvæmdina og leggja álit Skipulagsstofnunar um umhverfismat hennar til grundvallar, sbr. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 111/2021. Í 3. mgr. sömu greinar er mælt fyrir um að tekin skuli saman greinargerð um afgreiðslu leyfis þar sem gerð sé rökstudd grein fyrir samræmi við niðurstöðu álits Skipulags­stofnunar um umhverfismat framkvæmdarinnar. Hafi Skipulagsstofnun sett skilyrði um mótvægisaðgerðir eða vöktun, sbr. 24. gr., skal það einnig koma fram í leyfinu. Sama skylda leiðir af fyrirmælum 2. mgr. 14. gr. laga nr. 123/2010, sbr. einnig 2. mgr. 10. gr. reglugerðar nr. 772/2012. Markmið þessa er að sveitarstjórn taki upplýsta ákvörðun um útgáfu fram­kvæmdaleyfis á grundvelli allra þeirra upplýsinga sem fyrir liggi um umhverfismat viðkomandi framkvæmdar.

Umsókn um hið kærða leyfi var tekin fyrir á fundi skipulags- og umferðarnefndar Rangárþings ytra 7. september 2023. Í umsókninni var greint frá því að um væri að ræða hluta heildar­framkvæmdar sem kynnt væri í umhverfismatsskýrslu, þ.e. uppbyggingu grjótvarnargarðs vegna bílastæðis við Námskvísl. Tilgangurinn væri sá að verja fyrirhuguð bílastæði sem væri ætlað að stýra og skilgreina betur umferð um Landmannalaugar og færa bílastæðin frá núverandi þjónustusvæðum. Tekið var fram að fyllingarefni verði úr aurum Jökulgilskvíslar. Gert væri ráð fyrir að framkvæmdin hæfist í lok ágúst og væri gildistími leyfisins fimm ár. Fram kom að rofvarnir meðfram Námskvísl væru um 550 m langar og lögð væri áhersla að varnir þessar yrðu eins og kostur væri byggðar úr efnivið af staðnum til þess að ekki þyrfti að flytja efni um langan veg og að mannvirkin féllu að litum svæðisins.

Samþykkt var á fundi skipulags- og umferðarnefndar að leggja til við sveitarstjórn að heimild yrði veitt fyrir útgáfu framkvæmdaleyfis „á grundvelli heimilda aðalskipulags og gildandi deiliskipulags.“ Fram kom um leið að framkvæmdinni hafi verið lýst í umhverfismati og fyrir lægju jákvæðar umsagnir frá Umhverfisstofnun og Landgræðslunni. Á fundi sveitarstjórnar Rangárþings ytra 13. september 2023 var gerð grein fyrir niðurstöðu skipulags- og umferðarnefndarinnar og hún samþykkt, án frekari rökstuðnings. Samkvæmt þessu var við málsmeðferðina ekki tekin saman greinargerð um afgreiðslu leyfisins þar sem gerð væri rökstudd grein fyrir samræmi leyfisveitingar við niðurstöðu álits Skipulagsstofnunar um umhverfismat framkvæmdarinnar.

Lögbundin skylda til rökstuðnings er mikilvægur þáttur í málsmeðferð leyfisveitingar vegna framkvæmdar sem sætt hefur mati á umhverfisáhrifum, enda til þess fallin að stuðla að því að markmiðum b-liðar 1. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 verði náð, sem og markmiðum laga nr. 111/2021 um mat á umhverfisáhrifum framkvæmda og áætlana, sem talin eru upp í 1. gr. þeirra laga. Má hér einnig benda á sem áður er rakið að eðlisrök standa til þess að sveitarstjórnir vandi vel til við rökstuðning ákvarðana um leyfisveitingu þegar svo hagar til að sveitarfélag stendur sjálft að umsókn. Auk þess verður almennt ekki við það búið að fjalla eingöngu um stakar framkvæmdir, sem eru hluti af heildstæðu mati á umhverfisáhrifum, án þess að huga að samhengi þeirra við framkvæmdirnar í heild sinni. Verður í ljósi þessa að telja það hvernig staðið var að undirbúningi hinnar kærðu ákvörðunar til verulegs annmarka á málsmeðferð sem varða verði gildi hennar.

—–

Við útgáfu framkvæmdaleyfis er sveitarstjórn skylt að fjalla um og taka afstöðu til þess hvort framkvæmd er í samræmi við skipulagsáætlanir, sbr. 4. mgr. 13. gr. skipulagslaga. Þessa var gætt við afgreiðslu umsóknar um hið kærða leyfi þar sem kom fram að framkvæmdin væri í samræmi við heimildir aðalskipulags og gildandi deiliskipulags. Þess skal þó getið að í deiliskipulaginu er fyrirvari gerður um að framkvæmdir séu að hluta háðar því að undanþága fáist frá ákvæðum skipulagsreglugerðar nr. 90/2013 um fjarlægðir mannvirkja frá ám og vötnum, sbr. gr. 5.3.1.14 í skipulagsreglugerð. Af þessu tilefni leitaði úrskurðarnefndin upplýsinga hjá ráðuneyti umhverfismála og liggur fyrir að með bréfi ráðuneytisins til Rangárþings ytra dags. 30. október 2018 var því hafnað að veita slíka undanþágu vegna áforma um byggingu fjögurra húsa á Landmannalaugasvæðinu nær Jökulgilskvísl og Námskvísl en nemi 50 metrum, sökum m.a. óvissu um flóðahættu á byggingarsvæði. Tveimur af þessum húsum er ætlað að nýtast til að þjónusta svæðið í tengslum við aðkomu að laugunum og eru áform um byggingu þeirra því væntanlega tengd áformum hins kærða leyfis um nýtt bifreiðastæði við Námskvísl. Hefði því verið tilefni til þess að fjalla um þennan fyrirvara deiliskipulagsins við undirbúning hins kærða leyfis.

Meðal þess sem haldið er fram af kæranda er að ráðgerðar framkvæmdir samrýmist ekki ákvæðum aðalskipulags og fari því í bága við 7. mgr. 12. gr. laga nr. 123/2010 um innbyrðis samræmi skipulagsáætlana, en þar er mælt fyrir um að aðalskipulag sé rétthærra en deiliskipulag og að við gerð nýrra skipulagsáætlana eða breytinga á skipulagsáætlunum skuli sveitarstjórnir taka mið af gildandi landsskipulagsstefnu.

Í greinargerð Aðalskipulags Rangárþings ytra 2016–2028 er fjallað um stefnumörkun fyrir friðlýst svæði í kafla 2.7.1. og er þar greint frá því að unnið sé að verndaráætlun fyrir Friðland að Fjallabaki í starfshópi sveitarfélagsins og Umhverfisstofnunar, sem var að störfum þegar aðalskipulagið var sett. Með aðalskipulaginu var gerð sú breyting frá fyrra skipulagi að gert er ráð fyrir því að meginstarfsemi í Landmannalaugum flytjist norður fyrir Námshraun og einungis verði dagdvalaraðstaða á „núverandi svæði.“ Í aðalskipulaginu teljast Landmanna­laugar til afþreyingar- og ferðamannasvæðis, en skv. i-lið gr. 6.2. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 eru slík svæði „fyrir afþreyingu og móttöku ferðafólks, þ.m.t. þjónustumiðstöðvar á hálendi og verndarsvæðum, fjallaskálar, tjald- og hjólhýsasvæði og skemmtigarðar“. Verður á grundvelli þessa ekki álitið að hinar ráðgerðu framkvæmdir gangi í bága við aðalskipulag svæðisins.

Auk þessa álítur kærandi að áform um uppbyggingu þjónustumiðstöðvar í Landmannalaugum fari í bága við landsskipulagsstefnu. Þar séu Landmannalaugar tilgreindar sem skálasvæði, þar sem gert sé ráð fyrir þjónustu, þ.m.t. gistingu, en þjónustustarfsemi á slíkum svæðum felist fyrst og fremst í rekstri gistiskála og tjaldsvæða auk fræðslu og eftirlits. Áform um þjónustumiðstöð/móttökuhús/gestastofu með veitingasal og verslun með viðlegubúnað fari gegn þessu og sama gildi um uppbyggingu gistingar og áform um manngerða baðlaug, sem sé „fráleit aðstaða“ innan skálasvæðis í skilningi landsskipulagsstefnu.

Í skýringum við frumvarp það sem varð að lögum nr. 123/2010 er reifað að landsskipulags­stefna feli í sér almenna skipulagsstefnu ríkisins sem ætlað sé að móta umgjörð um skipulags­gerð sveitarfélaga, en það sé í höndum sveitarfélaga að taka ákvörðun um að samræma og útfæra þá stefnu í skipulagsáætlunum sveitarfélaga. Telji sveitarstjórn að ekki beri að taka mið af samþykktri landsskipulagsstefnu við gerð skipulagsáætlana, sem kunni að leiða til þess að viðkomandi skipulagsáætlun sé í ósamræmi við samþykkta landsskipulagsstefnu, sé eðlilegt að sveitarstjórn geri grein fyrir ástæðum þess þegar hún sendi Skipulagsstofnun tillögu sína að skipulagsáætlun. Í samræmi við þetta er fyrirmælum 7. mgr. 12. gr. laga nr. 123/2010 einungis ætlað að vera af þýðingu við gerð nýrra skipulagsáætlana eða breytingar á skipulagsáætlunum.

Þess má geta að kærandi hefur lagt fram bréf Skipulagsstofnunar til Rangárþings ytra varðandi tillögu að deiliskipulagi fyrir Landmannalaugar, dags. 15. mars 2017, en þar var gerð bending um að fjalla yrði nánar um áhrif landsskipulagsstefnu 2015–2026 á fyrirhugaða uppbyggingu, m.a. um samræmi áformanna við markmið stefnunnar um verndun víðerna og náttúrugæða á miðhálendinu, takmarkaða uppbyggingu ferðaþjónustu og flokkun Landmannalauga sem skálasvæði. Var um þetta vísað nánar til markmiðs 1.2. í landsskipulagsstefnu og skýringa við það markmið á bls. 18–20 í stefnunni. Við yfirlit um greinargerð þá sem fylgdi deiliskipulagi Landmannalauga, verður ekki annað ráðið en að leitast hafi verið við að bregðast við þessum athugasemdum í nokkru, m.a. með umfjöllun um að gert væri ráð fyrir því að á skálasvæðum byggist upp aukin þjónusta frá því sem verið hafi og var í því sambandi m.a. lýst áformum um gistingu og tjaldsvæði.

—–

 Í lögum nr. 123/2010 er eigi mælt beinum orðum fyrir um að við útgáfu framkvæmdaleyfis skuli önnur leyfi eða samþykki liggja fyrir. Samkvæmt 3. mgr. 14. gr. laganna getur sveitarstjórn bundið framkvæmdaleyfi þeim skilyrðum er fram kunna að koma í áliti Skipulagsstofnunar að svo miklu leyti sem aðrir sem veita leyfi til framkvæmda samkvæmt sérlögum hafa ekki tekið afstöðu til þeirra. Jafnframt er sveitarstjórn heimilt að binda framkvæmd skilyrðum sem sett eru í samræmi við gildandi skipulagsáætlanir sveitarfélagsins. Í 5. tl. 2. mgr. 7. gr. reglugerðar um framkvæmdaleyfi nr. 772/2012 kemur síðan fram að umsókn um framkvæmdaleyfi skuli fylgja fyrirliggjandi samþykki og/eða leyfi annarra leyfisveitenda sem framkvæmdin kann að vera háð samkvæmt öðrum lögum, ásamt upplýsingum um önnur leyfi sem framkvæmdaraðili er með í umsóknarferli eða hyggst sækja um.

 Hið kærða leyfi varðar framkvæmd innan þjóðlendu. Í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 58/1998 um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta er tiltekið að til að nýta land og landsréttindi innan þjóðlendu þurfi leyfi hlutaðeigandi sveitarstjórnar, en sé nýting heimiluð til lengri tíma en eins árs þurfi jafnframt samþykki ráðherra. Samþykki ráðherra lá ekki fyrir við samþykkt hins kærða leyfis sem var því bundið eðlilegum fyrirvara um öflun þess. Upplýsa má að samkvæmt gögnum sem úrskurðarnefndin hefur aflað var með tölvubréfi forsætis­ráðuneytisins til sveitarfélagsins frá 14. september 2023 tekin nokkur afstaða til beiðni um slíkt samþykki. Þar voru rakin ákvæði laga nr. 58/1998 og reglugerðar nr. 630/2023 um meðferð og nýtingu þjóðlendna. Fram kom að við mat á beiðnum um samþykki væri almennt litið til þess hvort afnot samrýmist landsskipulagsstefnu og aðgerðaráætlun sem væri hluti af stefnunni, skipulagsáætlunum sveitarfélags, verndar- og orkunýtingaráætlun eða niðurstöðu um mat á umhverfisáhrifum, ef við ætti. Einnig var í tölvubréfinu vísað til sjónarmiða um sjálfbæra nýtingu. Þar sem leyfi til framkvæmdarinnar hefði verið kært til úrskurðarnefndarinnar hygðist ráðuneytið, að svo stöddu, ekki taka afstöðu til beiðninnar.

Það verður ekki ráðið af gögnum þessa máls hvort lagt hafi verið mat á það við veitingu hins kærða leyfis hvort tilkynna bæri Orkustofnun um hana, en skv. 1. mgr. 144. gr. vatnalaga nr. 15/1923 skal tilkynna stofnuninni um allar framkvæmdir sem er fyrirhugað að ráðast í og tengjast vatni og vatnafari. Í 4. mgr. 144. gr. segir að stofnuninni sé heimilt að setja skilyrði fyrir leyfis- eða tilkynningarskyldri starfsemi og framkvæmdum sem talin eru nauðsynleg af tæknilegum ástæðum eða ef ætla megi að framkvæmdir eða starfsemi geti spillt þeirri nýtingu sem fram fer í eða við vatn eða möguleikum á að nýta vatn síðar. Slík skilyrði skuli vera í samræmi við markmið laganna, reglugerðir og vatnaáætlun samkvæmt lögum um stjórn vatnamála. Heimild Orkustofnunar til þess að setja slík skilyrði nær þó ekki til starfsemi og framkvæmda á friðlýstum svæðum sem háðar eru leyfi Umhverfisstofnunar. Með þessu er til að dreifa tilkynningarskyldu til Orkustofnunar, feli framkvæmd í sér áhrif á vatnafar, en gert er ráð fyrir því að Orkustofnun miðli upplýsingum um efni slíkra tilkynninga síðan til Umhverfisstofnunar.

Þá skal þess getið að í bréfi Fiskistofu til Skipulagsstofnunar, dags. 17. mars 2023 kemur fram það viðhorf að ráðgerðar framkvæmdir í Landmannalaugum geti verið háðar leyfi Fiskistofu skv. 33. gr. laga nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði. Jafnframt verður að benda á 3. mgr. 28. gr. laga um stjórn vatnamála nr. 36/2011, en þar er mælt fyrir um að leyfisveitandi skuli við afgreiðslu umsóknar um leyfi til nýtingar vatns og við aðra leyfisveitingu til framkvæmda á grundvelli vatnalaga, laga um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu og um leyfi á grundvelli skipulagslaga og laga um mannvirki, tryggja að leyfið sé í samræmi við þá stefnumörkun um vatnsvernd sem fram komi í vatnaáætlun. Til hvorugra þessara fyrirmæla var tekið tillit, að því séð verði, við undirbúning hins kærða leyfis, en ekki verður útilokað að til þess hefði verið ástæða með hliðsjón af legu hins ráðgerða grjótvarnargarðs.

Hinar ráðgerðu framkvæmdir eru innan friðlýsts svæðis svo sem fjallað er ítarlega um í matsskýrslu og í sjónarmiðum kæranda. Í mars 2021 var sett stjórnunar- og verndaráætlun fyrir Friðland að Fjallabaki 2021–2030, með heimild í 81. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd, sbr. auglýsingu nr. 422/2021 í B-deild Stjórnartíðinda. Í áætluninni kemur m.a. fram að með gildistöku núgildandi laga um náttúruvernd hafi skilgreining á friðlöndum breyst nokkuð og séu þau nú skilgreind sem svæði sem vernduð séu með það að markmiði að vernda tilteknar vistgerðir og búsvæði og að styrkja verndun tegunda lífvera sem séu sjaldgæfar eða í hættu samkvæmt útgefnum válistum. Einnig til að vernda lífríki sem sé sérstaklega fjölbreytt eða sérstætt. Verndargildi Friðlands að Fjallabaki felist hins vegar fyrst og fremst í fjölbreyttu landslagi, landslagsheildum og breytileika jarðminja og jarðhitafyrirbæra ásamt því að hluti svæðisins séu ósnortin víðerni. Samkvæmt 5. tl. friðlýsingarinnar, sbr. auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda nr. 354/1979, er mannvirkjagerð, efnistaka og annað jarðrask í friðlandinu háð samþykki Umhverfisstofnunar.

Með bréfi dags. 18. ágúst 2023 leitaði Rangárþing ytra eftir umsögn Umhverfisstofnunar um ráðgerða framkvæmd við varnargarða við Námskvísl. Í umsögn stofnunarinnar, dags. 1. september 2023, var álitið að verkefnið væri líklegt til að hafa neikvæð, staðbundin áhrif á náttúrufar svæðisins, en væri þó jákvætt fyrir verndargildi þess þar sem nauðsynlegt væri að styrkja innviði sökum álags. Bent var á að ráðgerð efnistaka úr áreyrum Jökulgilskvíslar muni valda tímabundnu raski, en líklegt sé að áhrif efnistökunnar hverfi tiltölulega fljótt sé vel að staðið sökum staðsetningar námu á miðjum áreyrum. Áður hafi verið sótt efni á þetta sama svæði og hafi það jafnað sig tiltölulega hratt. Fram kemur að Umhverfisstofnun vinni að útgáfu leyfis til framkvæmda samkvæmt friðlýsingarskilmálum, en óskað hafi verið eftir frekari upplýsingum varðandi efnistökusvæði sem ekki hafi borist og hafi leyfið því enn ekki verið afgreitt. Áður en úr því greiddist hafi framkvæmdaleyfið verið kært og hafi því afgreiðsla leyfisins farið í bið hjá stofnuninni.

Skýrsla um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar getur verið af þýðingu fyrir málsmeðferð þeirra aðila sem hafa með höndum skyldur samkvæmt skilmálum friðlýsingar landsvæða. Í stefnukafla stjórnunar- og verndaráætlunar fyrir Friðland að Fjallabaki 2021–2030 er raunar fjallað í nokkru um ráðgerðar framkvæmdir í Landmannalaugum, þ.m.t. að endurbyggja þurfi bílastæði við Námskvísl í samræmi við deiliskipulag og að takmarka skuli fjölda bíla sem leggi sunnan megin við Námskvísl þegar framkvæmdum við bílastæðin við Námskvísl verði lokið, en bílastæðin verði „stjórntæki“ til að stýra fjölda gesta hverju sinni. Tilefni hefði verið til þess í umsókn um framkvæmdaleyfi að gerð hefði verið grein fyrir því hvort sótt hafi verið um greinda heimild Umhverfisstofnunar á grundvelli friðlýsingar.

Þess skal að lokum getið að af hálfu kæranda hefur því verið haldið fram að þörf sé á undanþágu frá skilmálum friðlýsingar skv. 38. gr. sbr. 41. gr. laga nr. 60/2013, þar sem áform framkvæmdaraðila stríði gegn markmiði greindrar friðlýsingar eða geti skaðað verndargildi friðlýstra náttúruminja. Úrskurðarnefndin leitaði viðhorfa Umhverfisstofnunar af þessu tilefni og kom fram í tilsvari að stofnunin áliti svo væri eigi, þar sem með þeim yrði létt á álagi við skálasvæðið í Landmannalaugum og þannig stutt við verndun landslags og gróðurfars sem hafi verið markmiðið með friðlýsingu landsvæða sem friðlönd, sbr. 24. gr. laga nr. 47/1971. Úrskurðarnefndin bendir á að þessi afstaða stofnunarinnar á ekki undir nefndina til endurskoðunar, sbr. 1. mgr. 91. gr. laga nr. 60/2013.

—–

 Með vísan til framangreinds verður hin kærða ákvörðun felld úr gildi.

 Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun sveitarstjórnar Rangárþings ytra frá 13. september 2023 um að veita Rangárþingi ytra framkvæmdaleyfi vegna gerðar grjótvarnargarðs við fyrirhuguð bílastæði við Námskvísl við Landmannalaugar.

63/2023 Tangabryggja

Með

Árið 2023, föstudaginn 22. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor tók þátt í fundinum í gegnum fjarfundabúnað.

Fyrir var tekið mál nr. 63/2023, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 25. apríl 2023 um að gefa út vottorð um lokaúttekt vegna Tangabryggju 13–15 í Reykjavík.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 16. maí 2023, er barst nefndinni 17. s.m., kærir húsfélag Tangabryggju 13–15 þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 25. apríl 2023 að gefa út vottorð um lokaúttekt vegna Tangabryggju 13–15. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Jafnframt er þess krafist að byggingarfulltrúa verði gert að endurtaka lokaúttekt samkvæmt skoðunarlista, sbr. gr. 3.5.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012, eftir að verktaki ljúki við bygginguna að fullu.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 28. og 29. júní 2023.

Málavextir: Árið 2016 var sótt um byggingarleyfi til að byggja fimm hæða fjölbýlishús með 63 íbúðum á lóðinni nr. 18–24 við Tangabryggju sem síðar var breytt í Tangabryggju 13–15. Byggingarfulltrúi gaf út vottorð um lokaúttekt 21. júní 2019, en sú ákvörðun var kærð til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Með úrskurði uppkveðnum 28. maí 2020 í máli nr. 54/2019 var ákvörðun byggingarfulltrúa felld úr gildi með vísan til þess að þáttum sem vörðuðu aðgengi skyldi ávallt vera lokið við gerð lokaúttektar, sbr. 4. mgr. 36. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki, en að mati nefndarinnar voru tiltekin skilyrði byggingarreglugerðar nr. 112/2012 um bílastæði hreyfihamlaðra ekki uppfyllt.

Hinn 21. október 2020 gaf byggingarfulltrúi út nýtt vottorð um lokaúttekt og kærði kærandi þá ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar með kröfu um ógildingu hennar. Var þeirri kröfu hafnað með úrskurði í máli nr. 134/2020, uppkveðnum 6. maí 2021, en að virtri kvörtun kæranda til umboðsmanns Alþingis og fyrirspurnum umboðsmanns til nefndarinnar vegna kvörtunarinnar ákvað úrskurðarnefndin að endurupptaka málið að eigin frumkvæði. Í kjölfarið óskaði nefndin eftir áliti Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar vegna tiltekinna atriða. Úrskurður var kveðinn upp að nýju 4. maí 2022 þar sem úrskurðarnefndin komst að þeirri niðurstöðu að við útgáfu lokaúttektarvottorðs hefði fyrirkomulag loftræsingar mannvirkisins ekki uppfyllt skilyrði byggingarreglugerðar, en þar að auki komst meirihluti nefndarinnar að þeirri niðurstöðu að fyrirkomulag bílastæða fyrir hreyfihamlaða hefði heldur ekki uppfyllt skilyrði byggingar­reglugerðar. Voru þeir annmarkar taldir leiða til ógildingar ákvörðunar byggingarfulltrúa.

Í kjölfar úrskurðarins lagði byggingaraðili fram byggingarleyfisumsókn með nýjum aðal­uppdráttum og óskaði eftir því að byggingarlýsingu um loftræsingu og skilyrðum um snjóbræðslu fyrir bílastæði fyrir hreyfihamlaða yrði breytt. Hinn 21. mars 2023 samþykkti byggingarfulltrúi umsóknina. Lokaúttekt fór fram að nýju 21. apríl s.á. og var hún staðfest með útgáfu vottorðs 25. s.m.

 Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að takmarkaðar úrbætur hafi verið gerðar eftir að tvö vottorð um lokaúttekt Tangabryggju 13–15 hafi verið felld úr gildi og uppfylli fjölbýlishúsið enn ekki ákvæði byggingarreglugerðar nr. 112/2012.

 Í húsinu sé með ýmsum hætti ekki uppfyllt skilyrði byggingarreglugerðar um aðgengi fyrir alla. Fjögur bílastæði fyrir hreyfihamlaða, sem staðsett séu í bílgeymslu, séu þinglýst eign fjögurra íbúða. Aðgengi frá þeim stæðum að íbúðum sé um fimm eldvarnardyr sem ekki hafi sjálfvirkan opnunarbúnað og því ekki á færi einstaklinga í hjólastól að fara þar um, sbr. gr. 6.4.2. í byggingarreglugerð. Skábraut að bílgeymslu sé brattari en 1:20 eins og gerð sé krafa um í 1. mgr. gr. 6.4.11, en samkvæmt ákvæðinu skuli skábrautir að jafnaði ekki vera brattari en 1:20 . Aðeins einu stæði fyrir hreyfihamlaða hafi verið bætt við á lóð fjölbýlishússins eftir fyrri úrskurði úrskurðarnefndarinnar. Eigendur þriggja íbúða í fjölbýlishúsinu séu handhafar bílastæðamerkis fyrir hreyfihamlaða, en enginn þeirra eigi eitt af þeim fjórum bílastæðum fyrir hreyfihamlaða sem eru í bílgeymslu. Þeir þurfi því að deila þessu eina stæði á lóð fjölbýlishússins, en skv. töflu 6.01. í gr. 6.2.4. í byggingarreglugerð eigi fjölbýlishúsið að hafa að lágmarki fjögur stæði fyrir hreyfihamlaða íbúa og gesti.

Flóttaleiðir í kjallara séu ekki færar hreyfihömluðum og uppfylli ekki skilyrði gr. 9.5.3. og 9.5.4. í byggingarreglugerð. Flótti hreyfihamlaðra úr bílgeymslu sé ómögulegur samkvæmt merktum flóttaleiðum. Snúningsrými sé ekki til staðar fyrir framan hurð í bílgeymslu þannig að einstaklingur í hjólastól hafi ekki tök á að fara út um þær dyr. Í vagna- og hjólageymslu Tangabryggju 15 séu aðeins tvö björgunarop sem þurfi að fara upp neyðarstiga til að komast út um. Ekki séu merktar flóttaleiðir úr hjólageymslunni í annað brunahólf.

Handlista skorti á óupphitaðri og óupplýstri gönguleið að bílastæðum utanhúss sem og á gönguleið á skábraut sem liggi að bílageymslu, en skv. gr. 6.5.1. í byggingarreglugerð skuli handrið vera á öllum svölum bygginga, stigum, tröppum, pöllum, skábrautum og annars staðar þar sem hætta sé á falli. Byggingaraðili hafi ekki talið þörf á handriði á skábrautinni þar sem fallhætta sé ekki til staðar, en skábrautin sé samt sem áður brött eða 15° samkvæmt hönnunargögnum. Þá sé aðgengi fyrir blinda og sjónskerta ekki í samræmi við fyrirmæli gr. 6.2.2. í byggingarreglugerð. Fyrir framan hús sé óupphituð gönguleið frá inngöngum að ruslageymslu, en á þeirri leið sé ómerkt þrep. Gönguleið frá ruslageymslu að bílastæðum utanhúss annars vegar og að merktri gönguleið niður skábraut að bílageymslu hins vegar þveri akstursleið að og frá bílgeymslu. Þar ætti því að merkja sérstaklega með áherslumerkingu, enda ekki sjálfgefið að ökumaður og gangandi vegfarendur verði varir við hvorn annan þar sem skábraut sé við enda ruslageymslu. Blindir og sjónskertir séu því í sérstakri hættu.

Útsog úr eldhúsum íbúða og af gangi sé ekki til staðar. Þar af leiðandi séu ekki eðlileg loftskipti á þessum stöðum, sbr. gr. 10.2.5. í byggingarreglugerð. Á uppdráttum komi fram að öll gluggalaus eða lokuð rými verði loftræst. Matarlykt leiði nú um íbúðir og fram á ganga. Loftræsing á baðherbergjum og þvottahúsum virðist ekki fullnægjandi. Óformlegar mælingar fagaðila sýni mun minni loftskipti en reglugerð kveði á um, en skv. gr. 10.2.5. ættu loftskipti á baðherbergi að vera að lágmarki 15 l/s og 20 l/s í þvottahúsi. Vísað sé til álits Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar og minnisblaðs verkfræðistofunnar Mannvits í enduruppteknu máli nr. 134/2020, en auk þess sé óskað eftir því að óháður aðili verði fenginn til að meta gæði þeirrar loftræsingar sem sé til staðar á baðherbergjum og þvottahúsum.

Sorpgeymsla sé án læstra dyra, en í hönnunargögnum sé gert ráð fyrir hurð. Gólf í sorp­geymslunni sé ómeðhöndlað sem torveldi þrif, en skv. gr. 6.12.7. í byggingarreglugerð skuli sorpgeymslur þannig frágengnar að auðvelt sé að þrífa þær. Þá vanti loftræsingu í sorpgeymslu svo hægt sé að læsa henni, sbr. gr. 6.12.7.

Bílgeymsla sé án einangrunar sem kalli á leka og myglu. Útbreiddur leki sé á öllum veggjum í bílgeymslu og í kverkum við holplötur. Borið hafi á myglu í innsta þriðjungi lofts og molnað hafi úr holplötum í lofti á nokkrum stöðum. Sprungur og skemmdir séu taldar vera vegna frostskemmda. Byggingaraðili hafi tvívegis þrifið upp myglu úr lofti, en þrátt fyrir það sé loft enn myglað. Varðandi þetta atriði sé vísað til gr. 8.1.1., 8.2.1., 6.3.2. og 6.11.5. í byggingarreglugerð

Viðvarandi músagangur hafi verið á svölum íbúða frá því að fyrstu íbúar hafi flutt inn árið 2019 og hafi byggingaraðila ekki enn tekist að binda enda á hann, en skv. gr. 10.1.1. og 10.7.1. í byggingarreglugerð eigi byggingar að vera þannig frágengnar að meindýr eigi ekki að komast inn í bygginguna, einstaka hluta hennar eða undir klæðningu. Samkvæmt gr. 6.3.1. og 6.3.2. eigi ytra byrði bygginga að standast það álag umhverfisþátta sem búast megi við. Útidyr beggja stigaganga standist samt ekki veðurálag og við úrkomu leki mikið inn. Byggingaraðili hafi sett niðurfall í anddyri Tangabryggju 13 til að takmarka tjón, en hafi ekki bætt úr hönnunargalla. Rafmagnstöflur séu ólæstar í sameiginlegu rými, sem á aðaluppdrætti sé skilgreint sem vagna- og hjólageymsla/tæknirými. Þar sé óhindrað aðgengi fyrir börn og fullorðna sem geti valdið slysum og tjóni fyrir íbúa hússins og brjóti því í bága við gr. 6.12.1. í byggingarreglugerð. Bílastæði á lóð fjölbýlishússins séu óupplýst ásamt hluta gangstígs, en það sé í andstöðu við gr. 6.2.2. og skapi hættu fyrir íbúa sem eigi þar leið um í skammdeginu. Byggingarfulltrúi hafi svarað athugum þar að lútandi á þá leið að hann telji lýsingu fullnægjandi og að lýsing sé í samræmi við hönnunargögn/lóðarblað, en meta eigi þau atriði eftir byggingarreglugerð.

Hefði skoðunarhandbók og skoðunarlistum Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar verið fylgt við lokaúttekt hefði komið til úrbóta varðandi fyrrnefnd efnisatriði. Ekki sé hægt að gefa út lokaúttektarvottorð þegar þáttum varðandi aðgengi, hollustuhætti og öryggismál séu ekki uppfyllt. Þá hafi byggingarfulltrúi virt að vettugi úrskurð úrskurðarnefndarinnar með því að krefja byggingaraðila ekki um úrbætur.

Gerð sé athugasemd við að byggingarfulltrúi taki skýrslu byggingaraðila um átaksmælingar hurða í kjallara gilda. Óskað sé eftir því að álit Öryrkjabandalags Íslands, sem lagt hafi verið fram í enduruppteknu máli nr. 134/2020, verði haft til hliðsjónar og óháður aðili fenginn til að átaksmæla dyrnar. Mælingar kæranda á hurðum í kjallara séu ekki í samræmi við mælingar sem tilgreindar séu í skoðunarskýrslu. Til að uppfylla 6. gr. reglugerðar nr. 723/2017 um eldvarnir og eldvarnareftirlit þurfi brunahurðir að hafa nægjanlegan þunga til að tryggja að hurð læsist og þétti þegar hún falli að. Eðlilega sé erfitt að uppfylla bæði skilyrði um að hurð sé nægjanlega létt fyrir alla að opna en jafnframt nægilega þung til að læsast. Einnig sé bent á álit Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar þar sem fram hafi komið að aðalaumferðarleið væri „allar leiðir í sameign, frá bílastæði, inn/út um aðalinngang, inn á og eftir gangi, að íbúðum, að geymslum, m.a. bílageymslum, og inn/út um aðra innganga.“

Málsrök Reykjavíkurborgar: Borgaryfirvöld vísa til þess að meðferð málsins hafi að öllu leyti verið í samræmi við ákvæði byggingarreglugerðar nr. 112/2012, laga nr. 160/2010 um mannvirki og stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í kjölfar úrskurðar nefndarinnar í enduruppteknu máli nr. 134/2020 hafi byggingaraðili sótt um og fengið samþykkt byggingarleyfi vegna lagfæringa á þeim atriðum sem hafi leitt til ógildingar fyrra lokaúttektarvottorðs. Samþykkt hafi verið skilyrði um snjóbræðslu framan við húsið og í bílastæði fyrir hreyfihamlaða auk þess sem uppfærður hafi verið texti varðandi loftræsingu. Með þeirri breytingu teljist skilyrði byggingarreglugerðar um bílastæði fyrir hreyfihamlaða vera uppfyllt, en sú túlkun úrskurðarnefndarinnar að ekki megi setja bílastæði fyrir hreyfihamlaða í bílgeymslu sé ekki í samræmi við byggingarreglugerð. Til að gangast við kröfum úrskurðarnefndarinnar hafi byggingaraðili sótt um að setja bílastæði fyrir hreyfihamlaða í borgarlandi, en fengið synjun frá skrifstofu samgöngustjóra þar sem ekki hafi verið pláss í götunni til að fjölga bílastæðum fyrir hreyfihamlaða.

Ekki sé fallist á túlkun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar á ákvæðum byggingarreglugerðar varðandi loftræsingu fyrir íbúðarhús sem fram komi í áliti stofnunarinnar í tengslum við endurupptekið kærumál nr. 134/2020. Því til stuðnings sé vitnað í minnisblað verkfræði­stofunnar Teknik, dags. 6. desember 2021. Til stuðnings þeirri afstöðu Húsnæðis- og mannvirkjastofnun að útsog frá eldhúsum megi ekki berast í önnur rými sé vísað til gr. 10.2.3. í byggingarreglugerð um að nota skuli staðbundið útsog þar sem mengandi vinnsla fari fram. Bent sé á að eldhús í íbúðarhúsum flokkist ekki sem mengandi starfsemi innan bygginga heldur eigi greinin við um atvinnustarfsemi eins og tilvitnun í reglugerð Vinnueftirlits ríkisins beri með sér. Skýrt sé skv. gr. 10.2.5. að beita megi náttúrulegri loftræsingu til að skapa útsog úr rými. Í viðmiðunarreglum fyrir þá grein sé tilgreint hvaða loftskipti skulu vera möguleg að lágmarki, óháð gerð loftræsingar, en ekki sé gerð krafa um að þau loftskipti séu ávallt til staðar. Hvað varði þá afstöðu stofnunarinnar að opnanlegt gluggafag uppfylli ekki kröfur til útsogs náttúrulegrar loftræsingar, sbr. gr. 14.9.1. í byggingarreglugerð, þá tilgreini ákvæðið ekki meginreglur heldur almennar kröfur. Því sé ákvæði hennar ekki ófrávíkjanlegt sé sýnt fram á það að kröfur séu uppfylltar með öðrum hætti en segi í reglugerðinni.

Samkvæmt gr. 10.2.3. í byggingarreglugerð megi blanda útsogslofti við ferskloft ef tryggt sé að það mengi ekki ferskloft þess rýmis sem loftræst sé. Túlka megi greinina á þann veg að ef útsog frá eldhúsum sé hreinsað á fullnægjandi hátt þá megi blanda því aftur við ferskt loft í rýminu. Slíkri hreinsun sé t.d. hægt að ná fram með útsogsháfum staðsettum ofan við eldavélar útbúnum með kolasíum til lofthreinsunar. Bent sé á ákveðna mótsögn í byggingarreglugerð þegar komi að loftræsingu íbúða í fjölbýlishúsum. Ef fylgt sé viðmiðmunarkröfum um útsog í gr. 10.2.5. fyrir ákveðnar útfærslur af íbúðum geti skapast mun hærri loftskipti en viðmið í reglugerð og leiðbeinandi stöðum tilgreini og mæli með. Upphitunarkerfi þurfi að hita ferskt útiloft sem dregið sé inn í íbúðina á móti útsogi úr rýmum. Horfa þurfi heildstætt á byggingarreglugerð en ekki sértæka kafla, viðmunarreglur og greinar um loftræsingu, svo sem um innivist og orkunotkun. Út frá framangreindri umfjöllun hafi texti í byggingarlýsingu varðandi loftræsingu verið uppfærður og samþykktur af byggingarfulltrúa.

Við lokaúttekt hafi sérstaklega verið skoðað hvort frágangur eldvarnarhurða í aðalumferðarleið frá bílgeymslu að lyftum í kjallara uppfylli skilyrði laga um mannvirki og byggingar­reglugerðar og hafi svo verið. Umfjöllun þar um sé að finna í niðurstöðu vottorðs lokaúttektar. Að lokum sé bent á að úrskurðarnefndin hafi áður tekið afstöðu til annarra atriða í kærumálum nr. 54/2019 og 134/2020 og verði ekki fjallað efnislega um þau atriði.

 Málsrök byggingaraðila: Af hálfu byggingaraðila er bent á að mannvirkið uppfylli allar viðeigandi kröfur laga um mannvirki nr. 160/2010 og byggingarreglugerðar nr. 112/2012. Byggt hafi verið í samræmi við hönnunargögn líkt og útgáfa lokaúttektarvottorðs staðfesti, sbr. 1. mgr. 36. gr. laga nr. 160/2010. Auk framangreinds lúti stór hluta athugasemda kæranda, s.s. varðandi sorpgeymslur, tæknirými, lýsingar á bílastæðum, músagang o.fl., að atriðum sem myndu teljast minniháttar frávik. Hefðu þau í mesta lagi geta orðið til þess að byggingarfulltrúi hefði gefið út vottorð með athugasemdum skv. 4. mgr. 36. gr. mannvirkjalaga og 2. mgr. gr. 3.9.4. í byggingarreglugerð.

Byggingaraðili taki undir túlkun úrskurðarnefndarinnar í enduruppteknu máli nr. 134/2020 á b-lið 5. mgr. gr. 6.4.2. í byggingarreglugerð, þ.e. að ekki sé gerð krafa um að inngangs- og útidyr í aðalumferðarleiðum séu með sjálfvirkum opnunarbúnaði heldur einungis að vel sé hægt að koma slíkum búnaði fyrir. Sama eigi við hvað varði skábraut fyrir hjólastóla. Í úrskurðinum hafi nefndin vísað til samþykktra teikninga þar sem sjá megi að skábraut í bílgeymslu að inngangsdyrum sé styttri en 3 m og að halli sé 8,3% sem sé í samræmi við viðmiðunarreglu 2. mgr. gr. 6.4.11. í byggingarreglugerð. Að því marki sem röksemdir kæranda taki hugsanlega til gangstígs að inngangsdyrum bílageymslu utanhúss sé á það bent að sá gangstígur hafi hvorki verið hannaður né byggður sem skábraut fyrir hjólastóla. Þá hafi úrskurðarnefndin tekið afstöðu til röksemda kæranda um sorpgeymslur, tæknirými og lýsingar og merkingar á gönguleiðum.

Í kjölfar úrskurðar nefndarinnar í enduruppteknu máli nr. 134/2020 hafi byggingaraðili komið fyrir snjóbræðslu í bílastæðið fyrir hreyfihamlaða og sé það atriði því núna í samræmi við þann úrskurð. Í sama úrskurði hafi nefndin gert athugasemd við að byggingarfulltrúi hefði ekki, á grundvelli rannsóknarskyldu sinnar, tekið sjálfur til nánari skoðunar hvort að breytingar byggingaraðila „hefðu leitt til þess að umræddar hurðir uppfylltu þar með ekki þær kröfur sem gerðar eru samkvæmt byggingarreglugerð til slíkra hurða vegna brunavarna.“ Byggingaraðili hafi framkvæmt mælingar bæði fyrir og við úttekt mannvirkisins en mælingar við úttekt hafi farið fram í viðurvist byggingarfulltrúa. Í kjölfar úttektarinnar hafi byggingaraðili sent uppfærða skýrslu um átaksmælingar til byggingarfulltrúa. Dyr séu því í samræmi við gr. 6.4.3. og hafi byggingarfulltrúi sinnt rannsóknarskyldu sinni.

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar í enduruppteknu máli nr. 134/2020 um að skilyrði 9. mgr. gr. 6.2.4. í byggingarreglugerð hafi ekki verið uppfyllt feli það í sér að koma þurfi fyrir þremur sérmerktum bílastæðum fyrir hreyfihamlaða til viðbótar þeim sem fyrir séu. Í kjölfar úrskurðarins hafi byggingaraðili kannað hvort mögulegt væri að koma fyrir bílastæðum fyrir hreyfihamlaða í borgarlandi. Svör borgarinnar hafi verið á þá leið að ekkert svigrúm væri í borgarlandi og þyrfti þetta því að vera í höndum lóðarhafa. Byggingaraðili bendi á að hann sé ekki lóðarhafi og hafi engar heimildir yfir bílastæðum á lóð eða í bílageymslu. Þau stæði sem séu á lóð Tangabryggju 13–15 séu of langt frá aðalinngöngum mannvirkjanna til að þau geti uppfyllt skilyrði um stæði fyrir hreyfihamlaða, sbr. 1. mgr. gr. 6.2.4. Byggingaraðili standi því frammi fyrir ómöguleika upp á sitt eindæmi til að bregðast við úrskurði nefndarinnar varðandi stæði fyrir hreyfihamlaða. Í ljósi þess sé tilefni fyrir úrskurðarnefndina að endurskoða afstöðu sína í málinu að því er varði réttaráhrif umrædds annmarka. Í því samhengi skipti máli að ákvæði mannvirkjalaga og byggingarreglugerðar um lokaúttektir séu reist á því að hægt sé að bregðast við athugasemdum sem fram komi við lokaúttekt, sbr. m.a. gr. 3.9.3. í byggingar­reglugerð. Hvorki eftirlitsaðilar né úrskurðarnefndin í málum nr. 54/2019 og 134/2020 hafi túlkað gr. 6.2.4. með þeim hætti sem hafi verið gerð í enduruppteknu máli nr. 134/2020, en þar að auki hafi nefndin klofnað í afstöðu sinni. Byggingaraðili telji rétt að nefndin taki sjálfstætt til skoðunar hvaða leiðir séu færar til að koma fyrir þremur bílastæðum fyrir hreyfihamlaða á lóðinni. Ef niðurstaðan sé sú að ekkert sé hægt að gera sé óhjákvæmilegt að ákvörðun byggingarfulltrúa haldi gildi sínu.

Í úrskurði nefndarinnar í enduruppteknu máli nr. 134/2020 hafi nefndin komist að þeirri niðurstöðu að fyrirkomulag loftræsingar í eldhúsum íbúða Tangabryggju 13–15 sé í andstöðu við 1. tölulið. 1. mgr. gr. 10.2.5. í byggingarreglugerð. Í kjölfar úrskurðarins hafi verið sótt um leyfi til að breyta aðaluppdráttum og skýra betur loftræsingu og forsendur loftræsihönnunar. Í samþykktum aðaluppdráttum komi nú fram að eldhús séu loftræst með opnanlegum gluggafögum og ferskloftsventlum í útveggjum og sé því útsog úr eldhúsum íbúða ekki dregið í gegnum önnur rými. Það geti þó verið óhjákvæmilegt að ferskloft úr alrými/eldhúsi dragist að útsogsbúnaði baðherbergis/þvottaherbergis, en það þýði ekki að útsog sé dregið í gegnum önnur rými. Loftræsing eldhús fjölbýlishússins að Tangabryggju 13–15 sé í fullu samræmi við viðeigandi ákvæði byggingarreglugerðar, líkt og staðfest hafi verið í fyrirliggjandi minnisblaði verkfræðistofunnar Teknik og greinargerð loftræsihönnuðar. Þá sé bent á að bað- og þvottaherbergi séu loftræst með vélrænu útsogi sem uppfylli viðmiðunarreglur gr. 10.2.5. en ekki hafi verið gerðar athugasemdir við þetta atriði í úrskurði nefndarinnar.

Í úrskurði nefndarinnar í enduruppteknu máli nr. 134/2020 hafi nefndin lagt til grundvallar að skilyrði 3. töluliður 1. mgr. gr. 10.2.5. í byggingarreglugerð um ferskloft í svefnherbergi sé ekki uppfyllt. Var alfarið byggt á fyrirliggjandi áliti Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar sem byggði á minnisblaði verkfræðistofunnar Mannvits. Í því minnisblaði hafi verið tekið fram að til að hægt væri að uppfylla kröfur ákvæðisins þyrfti „að lágmarki einn ferskloftsventil í hvert svefnherbergi til viðbótar við ferskloftsventilinn í alrýminu.“ Sá sem hafi ritað það minnisblað hafi staðfest við byggingaraðila að álit hans væri rangt. Í tölvubréfi hafi hann m.a. sagt að hann túlki ákvæðið á þá leið að 7 l/s á einstakling „sé þá í raun bara stærðun á opnanlega glugganum, þ.e. hversu mikið loftmagn hann getur flutt.“ Að mati byggingaraðila sé einsýnt að opnanlegt gluggafag í svefnherberginu sé fullnægjandi til þess að tryggja loftræsingu skv. 3. mgr. gr. 10.2.5. og að stærðin sé nægjanleg til að afkasta 7 l/s á hvern einstakling í herberginu.

Fyrirkomulag flóttaleiða í bílgeymslu Tangabryggju 13–15 sé að öllu leyti í samræmi við kröfur kafla 9.5. í byggingarreglugerð, líkt og ráða megi af samþykktum aðaluppdráttum. Við ákvörðun flóttaleiðanna hafi verið tekið tillit til algildrar hönnunar. Báðar flóttaleiðirnar frá bílageymslu leiði til öruggs staðar undir beru lofti á jörðu niðri í samræmi við 1. mgr. gr. 9.5.3. Ekki verði séð að hreyfihamlaðir myndu eiga í erfiðleikum með að loka hurðum vegna skorts á snúningsrými. Þá skuli á það bent að úr bílageymslu liggi önnur leið upp skrábraut inn í brunastúku. Brunahönnuður mannvirkisins hafi útfært allar flóttaleiðir og undirritað auk þess aðaluppdrætti. Þá hafi Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins bs. samþykkt brunahönnunina og aðaluppdrætti.

Hvað varði meintan skort á handlistum á gönguleiðum utanhúss sé bent á að af orðalagi gr. 6.5.1. í byggingarreglugerð megi ráða að tilvist fallhættu sé ráðandi um það hvort setja skuli upp handrið. Að mati byggingaraðila sé engin fallhætta á gönguleið utanhúss frá anddyri að bílastæðum og verði vart séð hvar skuli koma handriðum fyrir á þeirri leið. Þá hafi byggingaraðila tekið sérstaklega til skoðunar hvort fallhætta væri fyrir hendi á gangstíg að inngangsdyrum bílageymslu utanhúss, en hafi ekki talið svo vera.

Allar merkingar fyrir blinda og sjónskerta séu í samræmi við kröfur í gr. 6.2.2. í byggingar­reglugerð. Í 4. mgr. greinarinnar segi að „huga skuli“ að merkingu fyrir blinda og sjónskerta við afmörkun gönguleiða, t.d. með litbrigðum og/eða með breytingu á gerð yfirborðsefnis, og fullnægjandi frágangi vegna umferðar hjólastóla. Byggingaraðili bendi á að yfirborðsefni fyrir framan aðalinngang sé ekki hið sama og á gönguleið að ruslageymslu. Þá sé einnig annað yfirborðsefni fyrir framan inngang að ruslageymslu. Jafnframt séu gulmerkingar á köntum milli umferðargötu og gönguleiðar. Ekki verði því annað séð en að hugað hafi verið að merkingum fyrir blinda og sjónskerta í samræmi við framangreint. Engin þrep séu á gönguleiðum að inngöngum fjölbýlishússins. Þá sé gönguleið frá inngöngum að ruslageymslu upphituð þannig að aðgengi sé gott fyrir alla þá sem eigi leið um. Hvað varði það sjónarmið kæranda að gönguleið þveri akstursleið til og frá bílageymslu þá sé bent á að umrædd gönguleið sé sérstaklega merkt með hvítum merkingum og annað yfirborðsefni sé rétt áður en gengið sé út á akstursleiðina.

Það sé rangt hjá kæranda að bílgeymslan sé óeinangruð, en um þetta megi m.a. vísa til samþykktra aðaluppdrátta þar sem fram komi að ofan á þakplötu bílgeymslunnar sé lagður „tjörupappi/vatnseinangrandi lag“. Kærandi hafi vakið sérstaka athygli á þeim annmörkum sem hann hafi talið vera fyrir hendi að þessu leyti í aðdraganda lokaúttektarinnar, en byggingar­fulltrúi hafi ekki gert athugasemdir þar um við lokaúttekt. Ekkert liggi fyrir sem hnekki því mati byggingarfulltrúa. Engan veginn verði séð að ætluð vandamál í bílgeymslu séu á ábyrgð byggingaraðila. Þar að auki falli það hvorki undir hlutverk byggingarfulltrúa né úrskurðar­nefndarinnar að taka afstöðu til slíks álitamáls, enda um að ræða hugsanlegan einkaréttarlegan ágreining sem kalli á sönnunarfærslu. Að því er varði múrbrot það sem kærandi minnist á verði ekki annað ráðið en að það hafi verið einangrað tilvik þar sem brotnað hefði úr kanti á forsteyptri einingu í loftinu. Að lokum sé bent á að það sé að sjálfsögðu á ábyrgð kæranda að sinna viðhaldi á mannvirkinu, en lokið hafi verið við byggingu þess á árinu 2019.

Varðandi ætlaðan músagang þá sé mannvirkið að öllu leyti í samræmi við gr. 10.1.1., 10.5.5. og 10.7.1. í byggingarreglugerð. Byggingaraðili hafi reynt að bregðast við ábendingum kæranda þessu tengdu og lokað öllum mögulegum stöðum þar sem mýs gætu komist inn. Í kjölfar nýrra ábendinga frá kæranda hafi byggingaraðili farið aftur yfir alla neðri brún klæðningar og lokað öllum mögulegum leiðum með músaneti. Starfsmaður byggingaraðila hafi bent kæranda á að mýs gætu komist inn í byggingar með ýmsum leiðum sem væru byggingaraðila óviðkomandi. Fyrir lokaúttekt hafi kærandi vakið athygli á þessum annmörkum, en byggingarfulltrúi hafi ekki gert athugasemdir við úttekt. Ekkert liggi fyrir í málinu sem hnekki því mati byggingarfulltrúa.

Í kæru málsins sé rakið að útidyr beggja stigaganga standist ekki veðurálag og séu í ósamræmi við gr. 6.3.1. og 6.3.2. í byggingarreglugerð. Í þeim ákvæðum sé hvergi talað um eiginleika útidyrahurða. Það sé gert í gr. 6.2.4. án þess að gerðar séu sérstakar kröfur varðandi veðurálag. Ekkert bendi þó til þess að umræddar hurðir séu í ósamræmi við ákvæði byggingarreglugerðar. Kærandi hafi komið að athugasemdum um þetta atriði á framfæri við byggingarfulltrúa en við lokaúttekt hafi hann ekki gert athugasemdir að þessu leyti. Liggi ekkert fyrir sem hnekki því mati. Benda megi á að kæranda og byggingaraðila beri engan veginn saman um ætlaðan annmarka. Byggingaraðili hafi bent kæranda á að það væri á ábyrgð kæranda sem húsfélags að sinna eðlilegu viðhaldi, en byggingaraðili hafi þó ákveðið, umfram skyldu, að reyna að grípa til aðgerða til að minnka vatnsálag á hurðina og koma fyrir niðurfalli. Engin gögn styðji þá staðhæfingu kæranda að hurðir séu haldnar hönnunargalla, auk þess sem það falli hvorki undir hlutverk byggingarfulltrúa né nefndarinnar að taka afstöðu til slíks álitamáls.

 Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi bendir á að í íbúðum fjölbýlishússins séu venjulegir eldhúsháfar en ekki útsogsháfar eins og borgaryfirvöld haldi fram í umsögn sinni, en kvörtun kæranda snúi að skorti á vélrænu útsogi í eldhúsum íbúðanna. Byggingarfulltrúi hafi í kjölfar úrskurðar í enduruppteknu máli nr. 134/2020 samþykkt breyting á texta á aðaluppdráttum til að aðlaga byggingarlýsingu að þeim annmörkum sem séu á húsinu. Um óeðlileg vinnubrögð sé að ræða þar sem byggingarfulltrúa beri að sjá til þess að húsið uppfylli skilyrði byggingarreglugerðar. Frekari skýring á loftræsingu og forsendum hennar bæti ekki þá loftræsingu sem eigi að vera til staðar, en skýrt sé skv. 1. mgr. gr. 10.2.5. að útsog eigi að vera til staðar úr eldhúsi. Borgaryfirvöld vísi til þess að túlka megi þau orð gr. 10.2.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2020 að „loftskipti skuli vera möguleg að lágmarki“ sem svo að þau þurfi ekki að vera ávallt til staðar heldur eingöngu að mögulegt sé að ná þeim. Um skrumskælingu á ákvæðinu sé að ræða, en það að eitthvað sé mögulegt að lágmarki þýði að frjálst sé að hafa loftskiptin meiri en þessi lágmarkskrafa tiltaki, en að öllu jöfnu sé hún ekki minni. Það sé ekki fullnægjandi að ná lágmarksloftskiptum einu sinni á ári eða einu sinni í mánuði.

Bent sé á að í enduruppteknu máli nr. 134/2020 hafi úrskurðarnefndin byggt niðurstöðu sína á áliti Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar sem hafi svo byggt álit sitt á minnisblaði verkfræðistofunnar Mannvits. Í því minnisblaði hafi verið tekið fram að til að hægt væri að uppfylla kröfu 3. mgr. gr. 10.2.5., um að magn fersklofts sem berist til svefnherbergja skuli aldrei vera minna en 7 l/s á hvern einstakling, þurfi ferskloftsventil í hvert herbergi. Í tölvubréfi starfsmanns þeirrar verkfræðistofu frá 23. september 2022 sé nú tekið fram að krafan um 7 l/s hafi með stærð opnanlegs fags glugga að gera og að „menn geta reiknað út flæði um glugga eftir skynsamlegum forsendum um vind og hitastig.“ Opnanlegt fag glugga takmarkist af öryggislæsingu, en flæði um glugga sé háð því að vindur sé hæfilega mikill svo gluggi geti verið opinn en nægjanleg mikill til að inn um hann flæði loft. Það sé því rétt samkvæmt upphaflegu áliti verkfræðistofunnar að ekki sé hægt að tryggja fullnægjandi loftun nema með ferskloftsventlum. Hið breytta álit verkfræðistofunnar veki athygli, en svo virðist sem byggingaraðili hafi fundað með fulltrúum verkfræðistofunnar til að ræða minnisblað þeirra fyrir Húsnæðis- og mannvirkjastofnun. Síðar sé sent tölvubréf þar sem skipt sé um skoðun. Það ferli sem nú hafi átt sér stað sé óeðlilegt og rýri áreiðanleika og trú á stjórnsýsluna. Ef hagsmunaaðilar geti haft beint samband við álitsgjafa og breytt áliti þeirra hljóti að vera erfitt að fá hlutlaust og áreiðanlegt álit á ágreiningsmálum.

Þótt úrskurðarnefndin hafi tekið afstöðu til málsraka kæranda varðandi sorpgeymslu í máli nr. 134/2020 þá hafi úrskurðurinn verið felldur úr gildi með endurupptöku málsins. Því hafi ekki verið tekin formleg afstaða til umkvörtunarefnisins. Það sama eigi við um málsrök kæranda varðandi lýsingu á gönguleið. Einni sé bent á að í hjóla- og vagnageymslu sé ekki aðeins um rafmagnstöflur að ræða heldur einnig loftræsi- og rekstrarbúnað fjölbýlishússins.

Ítrekað séu þau málsrök kæranda að hreyfihamlaðir eigi í erfiðleikum með að loka hurðum vegna skorts á snúningsrými. Það sé augljóst að opnunargeiri hurðar við hlið skábrautar taki allan hluta stéttar og því sé ekki til staðar snúningsrými þegar loka þurfi hurð á eftir hreyfihömluðum einstaklingi. Neyðarútgangur í enda bílageymslu hafi hins vegar meira snúningsrými og hurð geti lokast á eftir hjólastól, en sú hurð sé þó mun þyngri en 45N og ekki á færi allra að opna hana. Byggingaraðili taki einnig fram að hreyfihamlaðir geti farið upp skábraut inn í brunastúku en sú leið sé þó ekki merkt sem flóttaleið og telji því ekki sem önnur af tveimur flóttaleiðum sem sé fær hreyfihömluðum. Þá sé flóttaleiðin um stigagang ekki fær hreyfihömluðum þar sem snúningsrými skorti einnig. Það sé ámælisvert að Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins hafi samþykkt brunahönnun fjölbýlishússins.

Í athugasemdum byggingaraðila sé tekið fram að gul merking sé á köntum milli umferðargötu og gönguleiðar. Sú merking hafi þó ekki verið fyrir hendi við lok byggingar fjölbýlishússins heldur hafi stjórn húsfélagsins gert hana. Þá haldi byggingaraðili því fram að engin þrep séu á gönguleið að inngöngum hússins og að gönguleið sé upphituð þannig að aðgengi sé gott. Þegar horft sé frá inngangi Tangabryggju 15 sé augljóst að þrep sé á gönguleið í átt að ruslageymslu. Eins og yfirlitsmynd fyrir snjóbræðslu beri með sér þá sé sú leið sem sé án þreps óupphituð.

Hvað varði einangrun bílageymslunnar þá sé sjáanlegur munur á þeim hluta sem sé aðeins klæddur með tjörupappa og þeim sem hafi torf að auki. Augljóst sé að byggingarfulltrúi hafi ekki tekið húsið út samkvæmt skoðunarhandbók þar sem ummerki leka séu mjög víða í bílageymslu og augljós öllum þeim sem fari þar um. Vandamál með múrbrot sé ekki einangrað tilvik eins og byggingaraðili haldi fram. Samskipti kæranda og byggingaraðila vegna vankanta á bílageymslu, m.a. vegna leka og myglu, hafi verið óslitin frá árinu 2019. Húsið hafi verið selt sem viðhaldslítið og því sé óeðlilegt að kenna skorti á eðlilegu viðhaldi um. Hvað varði þá athugasemd byggingaraðila að álitamál um leka og myglu eigi að reka fyrir dómstólum þá sé bent á að húsnæðiseigendur eigi að geta treyst því að lágmarkskröfum byggingarreglugerðar sé fylgt við lokaúttekt. Þá hafi hönnuður hafi vanmetið það veðurálag sem hurðin þurfi að þola og því beri byggingaraðila að leysa þann hönnunargalla. Það sé að sjálfsögðu hlutverk byggingarfulltrúa að hafa eftirlit með því að hurðir leki ekki áður en vottorð um lokaúttekt sé gefið út.

Álit Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar: Með bréfi úrskurðarnefndarinnar til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, dags. 29. september 2023, var þess farið á leit að stofnun léti í ljós álit sitt á þremur atriðum varðandi hina kærðu ákvörðun í máli þessu. Varðaði fyrsta atriðið það hvort stofnunin teldi að útsog frá eldhúsum íbúða fjölbýlishússins að Tangabryggju 13–15 væri dregið í gegnum önnur rými í skilningi meginreglu 1. tölul. 1. mgr. gr. 10.2.5. í byggingar­reglugerð nr. 112/2012. Í öðru lagi óskaði nefndin eftir því að ef álit stofnunarinnar væri það að útsog frá eldhúsum íbúða væri dregið í gegnum önnur rými, hvort stofnunin teldi að vélrænt útsog í eldhúsum íbúða væri nauðsynlegt til þess að uppfylla greint skilyrði í byggingar­reglugerð og eftir atvikum skilyrði viðmiðunarreglna 2. mgr. sömu greinar byggingar­reglugerðar. Ef svo væri var þess jafnframt óskað að stofnun gæfi álit sitt á því hvort slíkt fyrirkomulag gæti gengið gegn öðrum markmiðum byggingarreglugerðar. Þriðja og síðasta atriðið laut að því hvort svefnherbergi í fjölbýlishúsinu að Tangabryggju 13–15 uppfylltu skilyrði 3. tölul. 1. mgr. gr. 10.2.5. í byggingarreglugerð um að magn fersklofts sem bærust til svefnherbergis skuli aldrei vera minna en 7 l/s á hvern einstakling meðan herbergið sé í notkun. Ef svo væri óskaði nefndin þess janframt að stofnun gæfi álit sitt á því hvort þörf væri á ferskloftsventli í hvert svefnherbergi til að uppfylla umrætt skilyrði.

Hinn 7. nóvember 2023 veitti Húsnæðis- og mannvirkjastofnun úrskurðarnefndinni álit sitt sem byggt var á minnisblaði sérfræðings hjá stofnuninni. Í svari stofnunarinnar við fyrrgreint fyrsta atriði kom fram að það væri álit hennar að loft frá eldhúsum íbúða fjölbýlishússins að Tangabryggju 13–15 væri dregið í gegnum önnur rými í skilningi meginreglu 1. tölul. 1. mgr. gr. 10.2.5. í byggingarreglugerð. Hvað annað atriðið varðaði þá var það álit stofnunarinnar að vélrænt útsog væri ekki nauðsynleg en þó æskilegt til að tryggja viðunandi loftgæði og tryggja að loft frá eldhúsum dragist ekki í gegnum önnur rými íbúða. Ef ekki væri vélrænt útsog þyrfti að tryggja að náttúrulegt útsog fari upp fyrir efstu klæðningu þaks. Jafnvel þótt það væri nauðsynlegt eða krafa þá væri það álit stofnunarinnar að slíkt fyrirkomulag myndi ekki ganga gegn öðrum markmiðum byggingarreglugerðar. Að lokum var það álit stofnunarinnar að „loftmagn til svefnherbergja [væri] ekki uppfyllt, m.t.t. 7 l/s á hvern einstakling, án þess að fara yfir 89 mm opnunarkröfu gefna í gr. 12.2.3. í byggingarreglugerð.“ Ein lausn af mörgum til að leiðrétta eða uppfylla þá kröfu væri að setja loftunarventil út fyrir klæðningu hússins, en ekki inn í loftunarbil klæðningarinnar eins og sé í dag. Þá vísaði stofnunin til niðurstöðu úrskurðar úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 78/2013.

Úrskurðarnefndin gaf aðilum máls færi á að koma að athugasemdum vegna álits Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Kærandi gerir athugasemd við að álitsbeiðni nefndarinnar hafi ekki lotið að loftræsingu á stigagöngum en byggingaraðili mótmælir framkomnu áliti með vísan til þeirra gagna og sjónarmiða sem fram hafi verið færð á fyrri stigum málsins. Borgaryfirvöld telja niðurstöðu álitsins ekki á rökum reistar á grunni byggingarreglugerðar vegna loftræsingu. Hönnun loftræsingarinnar sé ekki frábrugðin loftræsingu í öðrum sambærilegum húsum sem hönnuð hafi verið og byggð á svipuðum tíma. Varðandi útsog frá eldhúsum íbúða fjölbýlihússins að Tangabryggju 13–15 þá sé útsog dregið í gegnum þvottahús og baðherbergi. Kolasía í eldhúsháfi minnki óhreinindi í lofti það mikið að það geti ekki talist meira mengandi en loft í þvottahúsi eða baðherbergi og því sé í lagi að draga loftið í gegnum þessi rými þar sem um litlar íbúðir sé að ræða. Ekki sé þörf á beinu vélrænu útsogi. Vélrænt útsog frá þvottahúsi og baðherherbergi með loftskipti upp á 35 l/s myndi undirþrýsting í íbúðum og dragi ferskloft inn um opnanleg fög og um rifur undir innihurðum. Mörg eldhús séu staðsett við útvegg í alrýmum og séu því að hluta náttúrulega loftræst í gegnum opnanleg fög og loftventil í útvegg. Nægur undirþrýstingur sé í íbúðunum til að draga 7 l/s ferskloft inn í svefnherbergi um opnanleg fög. Því sé ekki þörf á ferskloftsventlum í svefnherbergjum. Núverandi fyrirkomulag loftræsingar sé fullnægjandi miðað við samþykkta aðaluppdrætti og kröfur byggingar­reglugerðar eins og þær hafi verið á sínum tíma.

 —–

Aðilar máls þessa hafa fært fram ítarlegri rök fyrir máli sínu, sem ekki verða rakin hér frekar, en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins.

 Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 25. apríl 2023 að gefa út vottorð um lokaúttekt vegna Tangabryggju 13–15.

Meðal markmiða laga nr. 160/2010 um mannvirki er að vernda líf og heilsu manna, eignir og umhverfi með því að tryggja faglegan undirbúning mannvirkjagerðar og virkt eftirlit með því að kröfum um öryggi mannvirkja og heilnæmi sé fullnægt, sbr. a-lið 1. gr. laganna. Jafnframt er það markmið þeirra að tryggja aðgengi fyrir alla, sbr. e-lið sömu lagagreinar. Í því skyni mæla lögin fyrir um lögbundið eftirlit byggingarfulltrúa með mannvirkjagerð, sbr. 2. og 3. mgr. 16. gr. þeirra laga, en hluti af því eftirliti felur í sér framkvæmd lokaúttektar og útgáfu vottorðs. Samkvæmt 3. mgr. 36. gr. laganna skal við lokaúttekt gera úttekt á því hvort mannvirkið upp­fylli ákvæði laganna og reglugerða sem settar hafa verið samkvæmt þeim og hvort byggt hafi verið í samræmi við samþykkt hönnunargögn. Þá er mælt fyrir um í 4. mgr. lagagreinarinnar að ef mannvirkið uppfylli ekki að öllu leyti ákvæði laganna og reglugerða sem sett hafi verið samkvæmt þeim þá geti útgefandi byggingarleyfis gefið út vottorð um lokaúttektina með athugasemdum. Þáttum sem varði aðgengi skuli þó ávallt hafa verið lokið við gerð lokaúttektar. Segir jafnframt í 5. mgr. sömu lagagreinar að eftirlitsaðili geti fyrirskipað lokun mannvirkis komi í ljós við lokaúttekt að mannvirki uppfylli ekki öryggis- eða hollustukröfur og lagt fyrir eiganda þess að bæta úr, en lokaúttektarvottorð skuli þá ekki gefið út fyrr en það hafi verið gert.

—–

Ágreiningsefni málsins hefur áður komið til kasta úrskurðarnefndarinnar eins og rakið er í málavöxtum. Í máli þessu færir kærandi fram ýmis rök og sjónarmið sem hann hefur áður fært fram fyrir úrskurðarnefndina vegna atriða sem hann telur að uppfylli ekki skilyrði byggingar­reglugerðar nr. 112/2012, s.s. um sjálfvirkan opnunarbúnað hurða, halla skábrautar, loftræsingu á stigagangi, sorpskýli, tæknirými og lýsingu á gönguleiðum. Úrskurðarnefndin hefur í fyrri málum tekið þá afstöðu til þeirra álitaefna að þau raski ekki gildi umdeilds úttektarvottorðs og þykja ekki rök til þess að breyta þeirri afstöðu.

  —–

Í 6. kafla byggingarreglugerðar er fjallað um aðkomu, umferðarleiðir og innri rými mannvirkja. Í markmiðsákvæði gr. 6.1.1. segir að ávallt skuli leitast við að beita algildri hönnun þannig að byggingar og lóðir þeirra séu aðgengilegar öllum án sérstakrar aðstoðar, sbr. 4. mgr. Samkvæmt 1. mgr. gr. 6.1.2. skal með algildri hönnun tryggt að fólki sé ekki mismunað um aðgengi og almenna notkun bygginga á grundvelli fötlunar, skerðinga eða veikinda og að það geti með öruggum hætti komist inn og út úr byggingum, jafnvel við óvenjulegar aðstæður, t.d. í eldsvoða.

Í gr. 6.2.2. í byggingarreglugerð er fjallað um aðkomuleiðir og umferðarsvæði innan lóðar. Samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins skal aðkoma á lóð að byggingu vera skýrt afmörkuð og þannig staðsett að hún sé greiðfær og greinileg þeim sem að henni koma og henti fyrirhugaðri umferð. Þá segir í 3. mgr. ákvæðisins að almennt skuli gæta þess að ekki séu þrep í gönguleiðum að inngangi bygginga. Hæðarmun skuli jafna þannig að allir þeir sem ætla megi að fari að inngangi byggingar komist auðveldlega um. Fyrir liggur í máli þessu að eitt þrep er á upphitaðri gönguleið frá inngangsdyrum fjölbýlihússins að Tangabryggju 13–15 að sorpgeymslu, bíl­geymslu og bílastæðum, en hins vegar er ekkert þrep á óupphitaðri gönguleið. Með hliðsjón af því verður að líta svo á að leiðin sé ekki greiðfær hjólastólanotendum og öðru hreyfihömluðu fólki í þeim aðstæðum þegar nota þarf hina upphituðu gönguleið. Að því virtu verður að telja að skilyrði greinds reglugerðarákvæðis sé ekki uppfyllt.

Samkvæmt 1. mgr. gr. 6.5.1. í byggingarreglugerð skal handrið vera á öllum svölum bygginga, stigum, tröppum, pöllum, skábrautum og annars staðar þar sem hætta er á falli. Verður að túlka ákvæðið á þá leið að sú krafa sé gerð að á tilteknu stöðum skuli vera handrið, þ. á m. á skábrautum, en að á öðrum stöðum beri við mat á því hvort koma eigi handriði fyrir að líta til þess hvort fallhætta sé til staðar. Í samræmi við þá túlkun verður að líta svo á að handrið eigi að vera til staðar á gangbraut skábrautar sem liggur frá bílgeymslu hússins. Aftur á móti verður ekki talið að handrið skuli vera meðfram gönguleið frá inngangsdyrum fjölbýlishússins að bílastæðum utanhúss þar sem ekki verður séð að sérstök fallhætta sé þar fyrir hendi.

—–

Fjallað er um varnir gegn eldsvoða í 9. kafla byggingarreglugerðar. Í undirkafla 9.5 er síðan fjallað um rýmingu við eldsvoða. Í markmiðsákvæði gr. 9.5.1. segir að flóttaleiðir í byggingum skuli þannig skipulagðar og frágengnar að allir geti bjargast út af eigin rammleik eða fyrir tilstilli annarra á tilgreindum flóttatíma, brjótist eldur út eða annað hættuástand skapast. Samkvæmt 2. mgr. gr. 9.5.2. skulu flóttaleiðir vera „einfaldar, auðrataðar og greiðfærar svo að fólk verði ekki innlyksa í skotum og endum ganga.“ Í 8. mgr. sömu greinar er kveðið á um að við ákvörðun flóttaleiða skuli tekið tillit til krafna um algilda hönnun. Þá er í gr. 9.5.3. fjallað um aðgengi að flóttaleiðum og samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. gildir eftirfarandi meginregla:

Úr öllum íbúðum og notkunareiningum skulu vera a.m.k. tvær flóttaleiðir, sem eru óháðar hvor annarri, til öruggs staðar undir beru lofti á jörðu niðri, sbr. þó 9.5.4. gr. Heimilt er að slíkur öruggur staður sé einnig á sérútbúnum svölum eða þaki byggingar sem er aðgengilegt björgunarliði, enda sé slík aðstaða sérstaklega brunahönnuð til slíkra nota. Með óháðum flóttaleiðum er átt við tvær eða fleiri flóttaleiðir sem eru þannig aðskildar að eldur og reykur geti ekki teppt þær báðar/allar þ.e. svalir og sjálfstætt stigahús eða tvö sjálfstæð stigahús sem gengið er í beint úr hverri íbúð.

Í  gr. 9.5.4. í byggingarreglugerð er að finna undantekningu frá kröfu gr. 9.5.3. um tvær flótta-leiðir frá íbúðum og notkunareiningum. Hinn 9. október 2020 var með reglugerð nr. 977/2020 gerð breyting á ákvæðinu, en í ljósi þess að aðaluppdrættir fjölbýlishússins voru fyrst samþykktir árið 2017 verður við úrlausn þessa máls litið til orðalags hennar fyrir þá breytingu. Svohljóðandi var 1. mgr. ákvæðisins:

Ef sérstökum erfiðleikum er háð að uppfylla kröfur 1. tölul. 1. mgr. 9.5.3. gr. um tvær flóttaleiðir frá rými, getur leyfisveitandi í undantekningartilvikum heimilað, að fenginni jákvæðri umsögn slökkviliðs, að ein flóttaleið sé frá rými eða notkunar­einingu í notkunarflokki 1 og 2 þegar slíkt hefur ekki í för með sér sérstaka hættu og um er að ræða lítið rými sem ætlað er fyrir takmarkaðan fjölda fólks. Flóttaleiðin skal liggja beint út á öruggan stað undir beru lofti á jörðu niðri eða að gangi sem er sjálf­stætt brunahólf og liggur í gagnstæðar áttir að tveimur óháðum útgöngum.

Fjallað er um notkunarflokka mannvirkja í gr. 9.1.3. í byggingarreglugerð og samkvæmt því ákvæði tilheyra sameiginlegar bílgeymslur fjölbýlishúsa notkunarflokki 1.

Af aðaluppdráttum fjölbýlishússins að Tangabryggju 13–15 verður ráðið að tvær flóttaleiðir séu úr bílgeymslu hússins og leiða þær báðar að öruggum stað undir beru lofti á jörðu niðri. Ekki verður talið að skortur á snúningsrými fyrir framan dyr geri hjólastólanotendum ókleift að nota leiðirnar. Verður ekki annað séð en að skilyrði gr. 9.5.3. í byggingarreglugerð um flóttaleiðir úr bílgeymslu séu uppfyllt. Frá vagna- og hjólageymslu má finna tvær flóttaleiðir til sjálfstæðra brunahólfa sem liggja í gagnstæðar áttir að tveimur óháðum útgöngum. Eru því uppfyllt skilyrði undantekningarheimildar gr. 9.5.4. vegna flóttaleiða frá vagna- og hjóla­geymslu. Þá verður að öðru leyti ekki ráðið að brunahönnun fjölbýlishússins sé áfátt að teknu tilliti til þeirra krafna sem gerðar eru í byggingarreglugerð.

—–

Í máli þessu gerir kærandi athugasemd við að skilyrði gr. 10.7.1. í byggingarreglugerð, þess efnis að byggingar séu þannig frágengnar að meindýr komist ekki inn í bygginguna, sé ekki uppfyllt þar sem músagangur hafi verið viðvarandi á svölum fjölbýlishússins frá því fyrstu íbúar hafi flutt inn í það árið 2019. Einnig gerir hann athugasemd við myglu og múrbrot í bílgeymslu og hvað það varðar er vísað til gr. 6.3.2. um hjúp bygginga og gr. 6.11.5. um álagsþol bílgeymsla. Þá telur kærandi að útidyr fjölbýlihússins uppfylli ekki skilyrði gr. 6.3.1. og 6.3.2. um ytra form og hjúp mannvirkja þar sem báðar útidyrnar standist ekki veðurálag og leki. Í máli þessu liggja fyrir samskipti aðila málsins varðandi framangreind atriði, en af þeim verður ráðið að ágreiningur sé á milli þeirra um hvort annmarkarnir eigi rætur sínar að rekja til hönnunar og frágangs mannvirkisins þegar það var reist eða síðar tilkominna atvika. Að teknu tilliti til gagna málsins og með hliðsjón af því að meira en fjögur ár eru liðin frá því að fjölbýlishúsið var reist og tekið í notkun telur úrskurðarnefndin ekki tilefni til að gera athugasemd við þá niðurstöðu byggingarfulltrúa að gefa út lokaúttektarvottorð án athugasemda um greind atriði.

—–

Í enduruppteknu máli nr. 134/2020, þar sem felld var úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa frá 21. október 2020 um að gefa út vottorð um lokaúttekt, var rakið að í kjölfar úrskurðar úrskurðarnefndarinnar í kærumáli nr. 54/2019 hafi byggingaraðili mælt átak á hurðum í kjallara hússins og lagfært stillingar á hurðapumpum svo skilyrði 4. mgr. gr. 6.4.3. í byggingarreglugerð væru uppfyllt. Gerði úrskurðarnefndin athugasemd við að byggingarfulltrúa hafi ekki á grund­velli rannsóknarskyldu sinnar, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, tekið sjálfur til nánari skoðunar hvort „fyrrgreindar breytingar hefðu leitt til þess að umræddar hurðir uppfylltu þar með ekki þær kröfur sem gerðar eru samkvæmt byggingarreglugerð til slíkra hurða vegna brunavarna.“ Í máli þessu hefur byggingaraðili lagt fram niðurstöður mælinga á hurðapumpum í kjallara fjölbýlishússins sem gerðar voru 18. apríl 2023 og mun byggingarfulltrúi hafa verið viðstaddur þá mælingu, en niðurstöður þeirra voru þær að hurðirnar uppfylltu skilyrði nefndrar gr. 6.4.3. Að teknu tilliti til þess verður að leggja til grundvallar að byggingarfulltrúa hafi upp­fyllt rannsóknarskyldu sína við mat á því hvort skilyrði byggingarreglugerðar um brunavarnir að þessu leyti væru uppfylltar.

Meirihluti úrskurðarnefndarinnar í enduruppteknu máli nr. 134/2020 komst að þeirri niðurstöðu að skilyrði 9. mgr. gr. 6.2.4. í byggingarreglugerð fyrir fækkun bílastæða á lóð fyrir hreyfi­hamlaða á lóðinni að Tangabryggju 13–15 hefði ekki verið uppfyllt við úttekt mannvirkisins í október 2020. Byggðist sú niðurstaða á því að gestkomandi hefði ekki aðgang að bílastæðum fyrir hreyfihamlaða sem staðsett eru í sameiginlegri bílgeymslu fjölbýlihússins. Við mat á því hverju það varði verður ekki hjá því litið að til þess að uppfylla greint skilyrði þarf að koma þremur öðrum bílastæðum fyrir hreyfihamlaða á lóð fjölbýlishússins, en í málinu liggur fyrir sú afstaða Reykjavíkur­borgar að ekkert svigrúm sé í borgarlandi til að koma fyrir frekari bíla­stæðum hreyfi­hamlaða. Þá verður það ekki talið raunhæf lausn að opna sameiginlegu bíl­geymslu fyrir almenning þegar litið er til þess að þau bílastæði hreyfihamlaðra sem þar má finna eru þinglýst eign tiltekinna íbúa hússins, en þar að auki er það hvorki á forræði byggingar­aðila né borgaryfirvalda að koma slíkri opnun í kring. Eins og atvikum í máli þessu er háttað verður því að líta svo á að greindur annmarki hafi ekki áhrif á gildi hins kærða lokaúttektar­vottorðs.

Þá var það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar í enduruppteknu máli nr. 134/2020 að útsog úr eldhúsum íbúða fjölbýlishússins væri dregið í gegnum önnur rými, en í þeim væri ekki að finna sérstakt útsog. Taldi nefndin það fyrirkomulag vera í andstöðu við meginreglu 1. töluliðar 1. mgr. gr. 10.2.5. í byggingarreglugerð. Einnig komst nefndin að þeirri niðurstöðu að svefn­herbergi í fjölbýlihússinu uppfylltu ekki skilyrði meginreglu 3. töluliðar 1. mgr. gr. 10.2.5. um að magn fersklofts sem berist til svefnherbergis skuli aldrei vera minna en 7 l/s á hvern einstakling meðan herbergið sé í notkun. Byggðust þær niðurstöður á áliti Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar frá 1. nóvember 2021. Ekki hafa verið gerðar neinar breytingar á fyrirkomulagi loftræsingar í húsinu í kjölfar úrskurðarins, en aftur á móti hefur byggingaraðili lagt fram og fengið samþykkta hjá byggingarfulltrúa nýja aðaluppdrætti með breyttri lýsingu á loft­ræsingu mannvirkisins.

Eins og fram hefur komið taldi úrskurðarnefndin við meðferð þessa kærumáls tilefni til að leita á ný til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar vegna umrædds álitaefnis. Skilaði stofnunin umbeðnu áliti sínu 7. nóvember 2023. Í því kom fram sú skoðun stofnunarinnar að loft frá eldhúsum íbúða fjölbýlishússins væri dregið í gegnum önnur rými í skilningi meginreglu 1. tölul. 1. mgr. gr. 10.2.5. í byggingarreglugerð. Vélrænt útsog væri æskilegt en ekki nauðsynlegt til að tryggja viðunandi loftgæði og tryggja að loft frá eldhúsum dragist ekki í gegnum önnur rými íbúða. Ef ekki væri vélrænt útsog þyrfti að tryggja að náttúrulegt útsog fari upp fyrir efstu klæðningu þaks. Þá var það einnig skoðun stofnunarinnar að „loftmagn til svefnherbergja [væri] ekki uppfyllt, m.t.t. 7 l/s á hvern einstakling, án þess að fara yfir 89 mm opnunarkröfu gefna í gr. 12.2.3. í byggingarreglugerð.“

Að teknu tilliti til þess hlutverks sem Húsnæðis- og mannvirkjastofnun gegnir þegar kemur að byggingareftirliti, sbr. 5., 17. og 18. gr. laga nr. 160/2010, svo og þar sem ekki liggja fyrir neinir bersýnilegir annmarkar á fyrirliggjandi áliti stofnunarinnar, telur úrskurðarnefndin rétt að leggja álitið til grundvallar við úrlausn málsins. Verður því litið svo á að útsog úr eldhúshúsum íbúða fjölbýlishússins að Tangabryggju 13–15 sé dregið í gegnum önnur rými en það fyrirkomulag gengur gegn meginreglu 1. töluliðar 1. mgr. gr. 10.2.5. í byggingarreglugerð. Þá verður einnig að líta svo á að ekki sé uppfyllt meginregla 3. tölul. 1. mgr. gr. 10.2.5. um að magn fersklofts sem berist til svefnherbergis skuli aldrei vera minna en 7 l/s á hvern einstakling á meðan herbergið sé í notkun.

—–

Samkvæmt því sem nú hefur verið rakið voru nokkrir annmarkar á frágangi umræddrar fasteignar við lokaúttekt hennar, en vottorð um þá úttekt var þó gefið út án athugasemda. Við mat á því hverju það varði ber að líta til þess að skv. 1. málslið 4. mgr. 36. gr. laga nr. 160/2010 getur útgefandi byggingarleyfis gefið út vottorð um lokaúttekt með athugasemdum ef mann­virki er ekki fullgert við lokaúttekt, það uppfyllir ekki að öllu leyti ákvæði nefndra laga eða reglugerða sem settar hafi verið samkvæmt þeim eða er ekki að öllu leyti í samræmi við samþykkt hönnunargögn. Hins vegar er sérstaklega tekið fram í 2. málslið 4. mgr. að þáttum sem varði aðgengi skuli þó ávallt hafa verið lokið við gerð lokaúttektar. Þá segir í 5. mgr. sömu lagagreinar að komi í ljós við lokaúttekt að mannvirki uppfylli ekki öryggis- eða hollustukröfur geti eftirlitsaðili fyrirskipað lokun mannvirkis og lagt fyrir eiganda þess að bæta úr og skal þá lokaúttektarvottorð ekki gefið út fyrr en það hefur verið gert. Af því leiðir að einvörðungu kemur til álita að gefa út vottorð um lokaúttekt án athugasemda ef mannvirki uppfyllir að öllu leyti kröfur byggingarreglugerðar, en því var ekki til að dreifa í ljósi framangreinds við lokaúttekt Tangabryggju 13–15. Við mat á þýðingu fyrrgreindra annmarka verður og að hafa í huga að þeir varða aðgengi og öryggis- eða hollustukröfur, sbr. 4. og 5. mgr. nefndrar 36. gr. laga um mannvirki, en samkvæmt kafla 5.3. í viðauka II með byggingarreglugerð, sem fjallar um flokkun athugasemda vegna lokaúttekta og réttaráhrif, leiða slíkir annmarkar að jafnaði til synjunar úttektar og kröfu um að hún verði endurtekin.

Með hliðsjón af framangreindu verður ekki hjá því komist að fella hið kærða lokaúttektar­vottorð úr gildi.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 25. apríl 2023 um að gefa út vottorð um lokaúttekt vegna Tangabryggju 13–15.

102/2023 Drápuhlíð

Með

Árið 2023, fimmtudaginn 16. nóvember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 102/2023, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 15. ágúst 2023 að synja umsókn um byggingarleyfi fyrir tveimur bílastæðum og rafhleðslustöð á lóð nr. 2 við Drápuhlíð.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 26. ágúst 2023, er barst nefndinni 28. s.m., kæra eigendur íbúða að Drápuhlíð 2, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 15. ágúst 2023 að synja umsókn um byggingarleyfi fyrir tveimur bílastæðum og rafhleðslustöð á lóð nr. 2 við Drápuhlíð. Er þess krafist að fallist verði á gerð rafhleðslubílastæða á lóðinni til samræmis við jákvæða umsögn skipulagsfulltrúa frá 5. júlí 2022. Til vara er þess krafist að neikvæð umsögn skipulagsfulltrúa frá 3. ágúst 2023 verði endurskoðuð „með heimild fyrir rafhleðslustæði innan lóðar við hlið bílastæða við aðliggjandi lóð að Blönduhlíð 1“.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 8. september 2023.

Málavextir: Hinn 21. mars 2022 lagði einn kærenda þessa máls fram fyrirspurn til skipulagsfulltrúa um möguleika á að koma fyrir rafhleðslustöð á lóðinni nr. 2 við Drápuhlíð. Í umsögn skipulagsfulltrúa við fyrirspurninni, dags. 30. júní s.á., var tekið jákvætt í erindið, en bent á að sækja þyrfti um byggingarleyfi sem yrði grenndarkynnt. Þá var tekið fram að í vinnslu væri hverfisskipulag fyrir Hlíðahverfi, Háteigshverfi og Öskjuhlíðarhverfi, sem væri ætlað að ná utan um breytingaþætti á borð við bílastæða- og innkeyrslumál, og ráðlagði skipulagsfulltrúi að beðið yrði með byggingarleyfisumsókn þar til skipulagið lægi fyrir.

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 25. júlí 2023 var lögð fram umsókn um leyfi til þess að gera tvö bílastæði og tvöfalda rafhleðslustöð við norðurhlið íbúðarhússins að Drápuhlíð 2.  Var málinu vísað til umsagnar og/eða grenndarkynningar skipulagsfulltrúa. Hinn 3. ágúst s.á. skilaði skipulagsfulltrúi nýrri umsögn um áform kærenda þar sem fyrri umsögn var dregin til baka og neikvætt var tekið í erindið. Í niðurstöðu umsagnarinnar kom fram að ekkert deili-skipulag væri í gildi sem heimili bílastæði á lóðinni og þau væru ekki sýnd á mæliblaði eða samþykktum aðaluppdráttum. Bílastæði á þessum stað myndi skapa talsverða slysahættu, ekki síst fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur. Með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa synjaði byggingarfulltrúi umsókn kærenda hinn 15. ágúst 2023.

Málsrök kærenda: Kærendur benda á að í kjölfar jákvæðrar umsagnar skipulagsfulltrúa 30. júní 2022 hafi vinna við hönnun stæðanna farið af stað og samþykkt hafi verið tilboð frá verktaka í verkið samhliða framkvæmdum við drenlögn. Óvæntur viðsnúningur skipulags­fulltrúa setji allt í uppnám og útlagður kostnaður sé verulegur. Gerðar séu athugasemdir við þá afstöðu skipulagsfulltrúa að fyrirhuguð framkvæmd feli í sér aukna slysahættu fyrir gangandi vegfarenda. Rafhleðslustæðin verði vel sýnileg, hvort sem horft sé til þeirra sem leggi leið sína að horninu frá Reykjahlíð eða Drápuhlíð. Ekkert grindverk sé í garði Drápuhlíðar 2 sem birgi sýn. Þvert á móti muni öryggi aukast þar sem tré verði fjarlægð við ljósastaur, en þau takmarki lýsingu í dag. Víðast hvar í hverfinu séu útkeyrslur beint út á gangstétt en kærendur kannist ekki við slys af þeirra völdum í þau 36 ár sem þau hafi búið í Hlíðunum. Þá sé það ekki rétt að bakka þurfi út af bílastæðunum og út á hraðahindrun þar sem hleðsla rafbíla sé að aftanverðu og því sé bakkað inn í rafhleðslustæðin. Drápuhlíð sé einstefnugata, en hafi upphaflega verið hönnuð sem tvístefnugata og það skýri hversu breið hún sé. Beygjuradíus sé því alveg nægjanlegur þó að bílum sé lagt í stæði handan götunnar.

Fyrir tveimur árum hafi rúmlega 8 m breitt bílastæði verið gert á lóð Blönduhlíðar 1 með innkeyrslu frá Eskihlíð, en sú lóð liggi að lóðamörkum Drápuhlíðar 2. Engin grenndarkynning hafi farið fram þrátt fyrir að ekkert deiliskipulag sé í gildi. Því ættu kærendur væntanlega að geta fært bílastæði þeirra að lóðamörkum og haft aðkomu frá Eskihlíð. Það sé þó verri kostur en núverandi áform út frá öryggissjónarmiðum. Kærendur telji sig þó eiga að njóta sömu réttinda og nágrannar þeirra að Blönduhlíð 1.

Það sé væntanlega stefna borgarinnar að stuðla að rafbílavæðingu og því spyrja kærendur hvers vegna sé verið að leggja stein í götu þeirra sem vilji taka þátt í þeirri vegferð. Eldri hverfi eins og Hlíðarnar hafi þriggja fasa rafmagn með 230 V kerfi en ekki 400 V eins og sé í nýrri hverfum. Í eldri hverfum þurfi því að stilla hleðslutíma rafbíla yfir minnsta álagstíma með rafhleðslustöðvum.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Borgaryfirvöld taka fram að eldri umsögn skipulagsfulltrúa frá 30. júní 2022, þar sem tekið hafi verið jákvætt í fyrirspurn eins kærenda, hafi verið dregin til baka með nýrri umsögn 3. ágúst 2023. Þegar hafi verið beðist velvirðingar á því, en við gerð eldri umsagnar hafi ekki verið horft nægjanlega vel til aðstæðna m.t.t. aðkomu að fyrirhuguðu bílastæði. Eins og fram komi í umsögn skipulagsfulltrúa sé staðsetning bílastæðanna þannig að bakka þurfi yfir gangstétt og út á hraðahindrun sem jafnframt sé gönguþverun yfir Drápuhlíð við gatnamót Reykjahlíðar. Þá sé í umsögninni bent á að ljósastaur og umferðarskilti þrengi beygjuradíus aðkomunnar að bílastæðum sem auki enn fremur á slysahættuna. Bent sé á að í gr. 12.10.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 segi að aðkoma að hverri byggingu, bílastæði og almennu göngusvæði við og að byggingu skuli þannig staðsett og frágengin að aðgengi að byggingunni sé auðvelt öllum og ekki skapist slysahætta á svæðinu. Hafi því málefnaleg sjónar­mið legið að baki umsögn skipulagsfulltrúa og kærðri ákvörðun byggingarfulltrúa.

Kærendur bendi á að í næstu götum megi sjá bílastæði inn á lóðum þar sem aðstæður séu áþekkar þeim sem hér um ræði. Hins vegar verði ekki séð að þar sé um að ræða stæði sem hafi verið samþykkt af borgaryfirvöldum á þessari öld. Á síðustu áratugum hafi viðhorf til umferðaröryggis tekið stakkaskiptum enda fólksfjölgun orðið til þess að öll umferð hafi stóraukist. Ekki séu því uppi sambærilegar aðstæður nú eins og þegar önnur áþekk stæði hafi verið tekin í notkun. Hvað varði bílastæði á aðliggjandi lóð Blönduhlíðar 1 þá virðist vera um ósamþykkt stæði að ræða. Ólíklegt sé að skipulagsyfirvöld myndu samþykkja nýtt stæði með útkeyrslu á þessum stað m.t.t. umferðaröryggissjónarmiða.

 Viðbótarathugasemdir kærenda: Kærendur vísa til þess að hraðahindruninni hafi verið komið fyrir árið 2010 fyrir framan fyrirhugaða innkeyrslu, en samkvæmt þinglýstum eignaskiptasamningi frá 10. maí 1962 hafi verið gert ráð fyrir bílskúr á lóð Drápuhlíðar 2. Hraðahindrunin sé töluvert innar í götu en sambærilegar hraðahindranir við gatnamót í Hlíðunum. Margoft hafi verið óskað eftir því að hún verði færð nær gatnamótunum vegna mikillar vatnssöfnunar og hálkumyndunar sem skapi slysahættu. Ávallt hafi þau svör borist frá byggingarfulltrúa að málið sé afgreitt.

Kærendur hafi komist að því að ástæða þess að umsögn skipulagsfulltrúa hafi upphaflega verið jákvæð hafi verið sú að þá hafi verið litið svo á að til stæði að gera eitt bílastæði en ekki tvö. Við málsmeðferð byggingarleyfisumsóknarinnar hafi þó aldrei komið athugasemd frá byggingarfulltrúa um að teiknuð væru tvö stæði en ekki eitt.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlinda­mála er það hlutverk nefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Úrskurðarnefndin tekur því lögmæti kærðrar stjórnvaldsákvörðunar til endurskoðunar en tekur almennt ekki nýja ákvörðun í máli. Fellur það því utan valdheimilda úrskurðar­nefndarinnar að leggja fyrir byggingarfulltrúa að samþykkja byggingarleyfisumsókn kæranda. Verður því einungis tekin afstaða til lögmætis hinnar kærðu ákvörðunar.

Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 15. ágúst 2023 að synja umsókn um byggingarleyfi fyrir tveimur bílastæðum og rafhleðslustöð á lóð nr. 2 við Drápuhlíð með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa frá 3. s.m. Í umsögninni kom m.a. fram að lóð Drápuhlíðar 2 væri í skilgreindri íbúðarbyggð samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2040, ekkert deiliskipulag væri í gildi á svæðinu en unnið væri að hverfisskipulagi. Til væri uppdráttur af svæðinu frá 1945 þar sem sýnd væri einföld innkeyrsla og bílskúr á lóðinni en uppdrátturinn hefði ekkert skipulagslegt gildi. Á gildandi mæliblaði og samþykktum aðal-uppdráttum væri á hinn bóginn ekki gert ráð fyrir bílastæðum, innkeyrslu eða bílskúr á lóðinni. Þá kom og fram í umsögninni að almennt væri ekki tekið jákvætt í ný bílastæði á lóð í gróinni byggð þar sem reynt væri eftir fremsta megni að koma í veg fyrir að ekið væri yfir gangstétt að óþörfu. Í gildandi aðalskipulagi væri sömuleiðis almennt leiðarstef að draga úr notkun einkabílsins og fækka bílastæðum. Líta þyrfti til þess að fyrirhuguð staðsetning bílastæða væri þannig að ekki einungis þyrfti að bakka yfir gangstétt heldur einnig út á hraðahindrun sem fæli í sér augljósa slysahættu fyrir gangandi vegfarendur, sérstaklega börn. Hraðahindrunin væri jafnframt gönguleið yfir Drápuhlíð við gatnamót Reykjahlíðar. Þá myndi ljósastaur og umferðarskilti „þrengja sömuleiðis mjög aðkomuna að þeim og takmarka beygjuradíusinn þegar bakka þarf úr stæðunum“ sem auki á slysahættuna. Væri því tekið neikvætt í erindið.

Hin neikvæða afstaða skipulagsfulltrúa byggðist fyrst og fremst á sjónarmiðum um umferðaröryggi. Verður að líta svo á að byggingarfulltrúi hafi gert þau sjónarmið að sínum þegar hann synjaði leyfisumsókn kærenda með vísan til umsagnarinnar. Verður að telja þau sjónarmið málefnaleg og að virtum staðháttum svæðisins, þ.e. að bílastæðin eru við gönguþverun Drápuhlíðar og þar sem ljósastaur og umferðarskilti þrengja að beygjunni, þykja ekki efni til að hnekkja því mati byggingarfulltrúa. Hefur Reykjavíkurborg við meðferð þessa kærumáls enn fremur vísað til gr. 12.10.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 er kveður m.a. á um að aðkoma að bílastæðum skuli þannig staðsett og frágengin að aðgengi sé auðvelt öllum og ekki skapist slysahætta á svæðinu. Þrátt fyrir að betur hefði farið á því að vísa til reglugerðarákvæðisins við synjun umsóknarinnar verður að fallast á með borgaryfirvöldum að hin umsótta framkvæmd sé ekki í samræmi við ákvæðið. Liggja því bæði lögmæt og málefnaleg sjónarmið að baki ákvörðun byggingarfulltrúa.

Kærendur telja að byggingarfulltrúa hafi borið að afgreiða umsókn þeirra með hliðsjón af umsögn skipulagsfulltrúa frá 5. júlí 2022, en í henni var tekið jákvætt í framkvæmdaáform kærenda og leiðbeint um að sækja þyrfti um byggingarleyfi sem yrði grenndarkynnt. Á grundvelli þeirrar umsagnar hófu kærendur vinnu við að útbúa byggingarleyfisumsókn og í kæru er bent á að sú vinna hafi kostað umtalsvert. Svo sem fram kemur í síðari umsögn skipulagsfulltrúa var fyrri umsögnin dregin til baka þar sem í henni hafi ekki verið horft nægilega vel til aðstæðna í nágrenninu. Verður að telja að skipulagsfulltrúa hafi verið heimilt að endurskoða umsögn sína enda byggði sú endurskoðun á málefnalegum sjónarmiðum eins og fram hefur komið. Hvað varðar hugsanlegt tjón kærenda vegna réttmætra væntinga þá fellur umfjöllun um slíkt álitaefni utan valdheimilda úrskurðarnefndarinnar, en gæti eftir atvikum átt undir lögsögu dómstóla.

Kærendur vísa til þess að á lóðinni Blönduhlíð 1 hafi verið gert 8 m breitt bílastæði með innkeyrslu frá Eskihlíð, en sú framkvæmd hafi ekki verið grenndarkynnt. Telja kærendur að þeir eigi að njóta sömu réttinda. Jafnræðisreglu íslensks stjórnsýsluréttar er að finna í 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en í 1. mgr. ákvæðisins er kveðið á um að við úrlausn mála skuli stjórnvöld gæta samræmis og jafnræðis í lagalegu tilliti. Í reglunni felst að óheimilt er að mismuna aðilum sem eins er ástatt um og að sambærileg mál ber að afgreiða á sambærilegan hátt. Ekki verður talið að hin kærða synjun byggingarfulltrúa hafi falið í sér brot á jafnræðisreglunni þar sem aðstæður á lóðunum tveimur eru ekki sambærilegar. Þar að auki liggur ekki fyrir að leyfi hafi verið veitt fyrir stæði á lóð Blönduhlíðar 1.

Með hliðsjón af framangreindu verður kröfu um ógildingu hinnar kærður ákvörðunar hafnað.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um að felld verði úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 15. ágúst 2023 að synja umsókn um byggingarleyfi fyrir tveimur bílastæðum og rafhleðslustöð á lóð nr. 2 við Drápuhlíð.

59/2023 Drangahraun

Með

Árið 2023, föstudaginn 18. ágúst, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 59/2023, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar frá 5. apríl 2023 um að samþykkja umsókn um byggingarleyfi fyrir staðsteyptu iðnaðar- og geymsluhúsnæði að Drangahrauni 3, matshluta 02.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 4. maí 2023, er barst nefndinni sama dag, kærir G.P. Kranar ehf., lóðarleiguhafi Skútahrauns 2a, þá ákvörðun byggingar­fulltrúa Hafnarfjarðar frá 5. apríl 2023 að samþykkja umsókn um byggingarleyfi fyrir stað­steyptu iðnaðar- og geymsluhúsnæði að Drangahrauni 3, matshluta 02. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Þess var jafnframt krafist að framkvæmdir yrðu stöðvaðar á meðan málið væri til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þeirri kröfu var hafnað með úrskurði nefndarinnar uppkveðnum 1. júní 2023.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Hafnarfjarðarkaupstað 11. maí 2023.

Málavextir: Kærandi er lóðarleiguhafi að lóðinni Skútahrauni 2a. Árið 2008 tók gildi deili­skipulag Drangahrauns – Skútahrauns og kemur fram í greinargerð þess um lóðina Skútahraun 2a að kvöð sé um „að bílastæði fyrir kjallara (neðstu hæð) húsa við nr. 3 og 5 við Drangahraun (hámarksflatarmál 2000 m2) verði á lóð Skútahrauns 2a og að fjöldi þeirra verði skv. byggingar­reglugerð“ auk þess sem á skipulagsuppdrætti kemur fram að kvöð sé um umferð að kjallara Drangahrauns 3 og 5. Í skilmálum skipulagsins um lóðirnar  Drangahraun 3 og 5 kemur fram að „[n]yrst á lóðunum sé gert ráð fyrir kjöllurum sem aðeins hafa aðkomu frá Skútahrauni […]. Hámarksvegghæð er 6 m frá Drangahrauni og hámarksmænishæð 7,5 m á þeim hluta sem snýr að Skútahrauni 2 og 2a. Bílastæði fyrir kjallarana skulu vera á lóð Skútahrauns 2A og fjöldi þeirra skv. byggingarreglugerð.“ Þá er í greinargerð skipulagsins að finna almenna skilmála þess efnis að athafnasvæði innan lóða skuli vera í samræmi við starfsemi í húsunum og þess gætt að ferming og afferming flutningstækja geti farið fram innan lóða. Í almennum skilmálum skipulagsins kemur jafnframt fram að fjöldi bílastæða á lóð skuli vera í samræmi við 64. gr. þágildandi byggingarreglugerðar nr. 441/1998 með síðari breytingum, þ.e. eitt bíla­stæði fyrir hverja 35 m2 verslunar- og skrifstofuhúsnæðis og eitt bílastæði fyrir hverja 50 m2 af öðru húsnæði.

Hinn 23. nóvember 2022 sótti Virki ehf., lóðarleiguhafi Drangahrauns 3, um leyfi fyrir stað­steyptu iðnaðar- og geymsluhúsnæði. Á afgreiðslufundi skipulags- og byggingarfulltrúa 5. apríl 2023 var umsóknin samþykkt.

Eftir að kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni kom kærandi áleiðis þeim ábendingum að framkvæmdir væru hafnar á lóðinni. Óskaði úrskurðarnefndin af því tilefni eftir upplýsingum frá Hafnarfjarðarkaupstað um hvort byggingarleyfi hefði verið gefið út og í svari sveitar­félagsins, dags. 25. maí 2023, kom fram að svo hafi ekki verið gert. Lagði kærandi þá fram myndir með tölvubréfi, dags. 31. maí 2023, sem sýndu framkvæmdir á hinu umrædda svæði. Kærandi sendi byggingarfulltrúa bréf, dags. 6. júní s.á., og vakti athygli á framkvæmdunum. Byggingarfulltrúi fór fram á að framkvæmdir yrðu stöðvaðar þann sama dag.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er bent á að samkvæmt 11. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki verði byggingaráform aðeins samþykkt sé fyrirhuguð mannvirkjagerð í samræmi við skipulagsáætlanir viðkomandi svæðis. Þá leiði af 1. tölul. 1. mgr. 13. gr. sömu laga að byggingarleyfi verði ekki gefið út nema mannvirkið og notkun þess samræmist gildandi skipulagsáætlunum. Hið kærða byggingarleyfi sé ekki í samræmi við fyrirliggjandi deili­skipulag svæðisins og beri því að fella það úr gildi.

Samkvæmt deiliskipulagi Drangahrauns – Skútahrauns hvíli tvær kvaðir á lóð kæranda. Í dóma- og úrskurðarframkvæmd hafi verið gerðar töluverðar kröfur til skipulagskvaða af þessu tagi og m.a. lagt til grundvallar að ekki sé hægt að stofna til umferðarréttar með deiliskipulagi nema að fengnu samþykki eiganda eða á grundvelli eignarnáms, sbr. m.a. dóma Hæstaréttar í málum nr. 118/2009 og 781/2016 og úrskurð úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 67/2015. Þá hafi verið lagt til grundvallar að náist ekki samningar eða séu skilyrði eignarnáms ekki talin vera fyrir hendi geti það leitt til þess að skipulagskvöð í skipulagi verði ekki virk, sbr. úrskurð úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 26/2018.

Inntak beggja kvaðanna sé verulega óljóst samkvæmt fyrirliggjandi gögnum. Það eina sem fram komi um umferðarkvöðina í deiliskipulaginu sé texti á skipulagsuppdrætti. Liggi þannig ekkert fyrir um inntak ætlaðs umferðarréttar, svo sem hver skuli vera breidd, lega eða lengd þeirrar aðkomu sem kvöðin mæli fyrir um. Kvöðin skeri sig frá sambærilegri kvöð á lóð Skútahrauns 2 sem útfærð sé með nánari hætti í deiliskipulaginu. Að sama skapi sé inntak kvaðarinnar varðandi bílastæðin verulega óljóst og ekkert sé fjallað um hvar bílastæðin skuli vera staðsett innan lóðar kæranda. Önnur gögn bæti ekki úr þessum óskýrleika og liggi ekki fyrir samkomulag við kæranda um kvaðirnar. Í fyrirliggjandi lóðarleigusamningi sé þannig ekki mælt fyrir um kvaðirnar heldur aðeins kveðið á um kvaðir fyrir aðkomu fyrir lóðirnar Skútahraun 2 og 2a og kostnaðarskiptingu vegna þessa. Það hafi því komið kæranda verulega á óvart hvernig kvaðirnar hafi verið útfærðar í þeim gögnum sem lögð hafi verið fram með byggingarleyfisumsókn lóðarhafa. Á meðal gagna sem fylgt hafi umsókninni hafi verið afstöðumynd sem sýnt hafi m.a. aðkomu að mannvirkinu og bílastæði, sbr. gr. 4.3.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Öfugt við deiliskipulagið hafi verið búið að teikna inn bílastæði á lóð kæranda og tilgreina fjölda þeirra.

Þær kvaðir sem komið hafi fram í skipulaginu frá 2008 geti ekki skapað óbein eignarréttindi til handa lóðarhafa aðliggjandi lóðar án samþykkis kæranda. Þar sem slíkt samþykki liggi ekki fyrir hafi Hafnarfjarðarkaupstað verið óheimilt að samþykkja byggingarleyfi á grundvelli aðaluppdrátta sem mæli fyrir um umferðarrétt á lóð kæranda og bílastæði inn á lóð hans. Í öllu falli telji kærandi einsýnt að hið kærða byggingarleyfi og þau gögn sem liggi því til grundvallar fari langt fram úr heimildum deiliskipulagsins enda liggi fyrir að kvöðunum sé þar gefið allt annað inntak en leiða megi af fyrirmælum deiliskipulagsins. Byggingarleyfið sé því ekki í sam­ræmi við fyrirliggjandi skipulagsáætlanir og því í andstöðu við 11. og 13. gr. laga nr. 160/2010.

Samkvæmt gildandi deiliskipulagi skuli öll ferming og afferming flutningstækja fara fram innan lóðar. Af fyrirliggjandi gögnum megi ráða að ætlun lóðarhafa standi til þess að hafa geymslur í þeim hluta mannvirkisins sem snúi að Skútahrauni 2a. Í ljósi nálægðar mann­virkisins við lóðarmörk Skútahrauns 2a sé vandséð hvernig lóðarhafi hyggist fullnægja því skilyrði deiliskipulagsins að ferming og afferming fari fram innan lóðar hans. Í öllu falli sé óútskýrt hvernig þeim málum verði háttað og því óskýrt hvort eða hvernig fyrirhuguð notkun mannvirkisins samrýmist skilmálum deiliskipulagsins að þessu leyti. Hámarksmænishæð þess hluta mannvirkisins sem snúi að Skútahrauni 2 skuli vera 7,5 m samkvæmt deiliskipulagi. Af fyrirliggjandi teikningum verði ekki annað séð en að hámarksmænishæð sé 11,8 m samkvæmt samþykktri umsókn um byggingarleyfi og þar með í ósamræmi við framangreindan skilmála deiliskipulagsins. Að lokum sé ekki að finna upplýsingar í gögnum frá lóðarhafa um hvernig frárennslismálum frá kjallara verði háttað að öðru leyti en að frárennsli fari á kerfi sveitar­félagsins. Frárennsli frá kjallara að Skútahrauni 2a sé um dælu sem lóðarhafi reki.

Málsrök Hafnarfjarðarkaupstaðar: Sveitarfélagið vísar til þess að umdeild byggingaráform séu í samræmi við deiliskipulag svæðisins. Ekkert byggingarleyfi hafi verið gefið út og sé því ekki fyrir hendi nein heimild til framkvæmda á lóðinni.

Athugasemdir leyfishafa: Af hálfu leyfishafa er bent á að samþykktir aðaluppdrættir séu í fullu samræmi við gildandi deiliskipulag og séu því engar forsendur til að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi. Í gildandi deiliskipulagi liggi fyrir að á lóðinni Skútahrauni 2 sé kvöð um umferð að lóðinni Skútahrauni 2a sem og umferð að kjallara Drangahrauns 3 og 5. Sambærileg kvöð sé á lóðinni Skútahrauni 2a um umferð að kjallara Drangahrauns 3 og 5. Bílastæði fyrir kjallara Drangahrauns 3 og 5 eigi að vera á lóð Skútahrauns 2a og fjöldi þeirra sé samkvæmt byggingarreglugerð. Þó sé hámarksfjöldi stæða miðað við að kjallarar Drangahrauns 3 og 5 séu ekki samanlagt stærri en 2.000 m2 eins og fram komi í deiliskipulagi.

Við hönnun og teikningu hússins hafi kjallari þess verið dreginn fjóra metra inn frá byggingar­reit svo unnt væri að hafa hluta bílastæða framan við viðkomandi einingar. Lóðarhafar Drangahrauns 3 og 5 muni eftir sem áður nýta sér þá kvöð sem hvíli á lóðinni Skútahrauni 2a um umferðarrétt og bílastæði í suðausturhorni lóðarinnar, enda sé sá réttur óumdeildur. Lóðar­hafar Skútahrauns 2a nýti sér sambærilega kvöð um umferðarrétt á lóðinni Skútahrauni 2.

Sú umferð sem kærandi þurfi að þola sé umferð á um sjö metra breiðu bili syðst á lóð sinni. Umferðarkvöðin hafi legið fyrir í skipulaginu frá upphafi auk þess sem um sé að ræða leigulóð. Rök kæranda um eignarnám eigi því ekki við. Ekkert við umferðarkvöðina sé óljóst þar sem hún komi bæði fram í deiliskipulagi og á hæðarblaði fyrir lóðina. Það sé því rangt sem haldið sé fram í kæru að það eina sem liggi fyrir um kvöðina sé texti á skipulagsuppdrætti. Ferming og afferming muni ekki fara fram innan lóðar Skútahrauns 2a. Engin rök eða gögn hafi verið lögð fram til stuðnings fullyrðingu kæranda um að þetta kunni að vera vandamál.

Mænishæð hins umdeilda húss sé 6,26 m miðað við núllpunkt á aðalhæð hússins, sem sé í samræmi við deiliskipulag og samþykktar teikningar.

Lóðirnar hafi í upphafi verið í eigu sama aðila sem komið hafi að gerð deiliskipulagsins árið 2008, en sá aðili hafi einnig látið teikna og fá samþykktar teikningar að húsi sem hefði valdið mun meiri truflun fyrir lóðarhafa Skútahrauns 2a. Fyrsti áfangi þeirra framkvæmda, steyptur stoðveggur, hafi verið byggður árið 2008 en niðursveifla í þjóðfélaginu hafi orðið til þess að ekki hafi orðið af frekari framkvæmdum. Núverandi lóðarhafi að Skútahrauni 2a leiði rétt sinn frá þeim aðila og þurfi að sætta sig við þær kvaðir sem séu til staðar og hann hafi vitað eða mátt vita um. Geti hann ekki öðlast betri rétt en deiliskipulagið kveði á um.

Fyrir liggi að aðalteikningar hafi verið samþykktar sem séu að öllu leyti í samræmi við gildandi deiliskipulag. Þeirri fullyrðingu kæranda að þær kvaðir sem komi fram í deiliskipulagi geti ekki skapað óbein eignarréttindi til handa lóðarhafa aðliggjandi lóðar án samþykkis kæranda sé hafnað. Ekkert í þeim dómum og úrskurðum sem kærandi vísi til styðji þá niðurstöðu. Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 118/2009 hafi atvik verið þau að í nýju deiliskipulagi hafi verið gert ráð fyrir umferðarrétti án samþykkis eiganda aðliggjandi fasteignar. Því sé ekki svo farið í máli þessu, þar sem þáverandi lóðarhafi Skútahrauns 2a hafi samþykkt deiliskipulagið. Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 781/2016 hafi krafa um umferðarrétt verið sett fram með beinni innsetningar­gerð á grundvelli deiliskipulags sem hafi enga þýðingu við úrlausn þessa máls. Ekki verði séð að sá ágreiningur sem hafi verið uppi í úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 26/2018 hafi neina tengingu við þann ágreining sem uppi sé í máli þessu.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Hæðarblað hafi að mati kæranda ekki þýðingu við mat á því hvort útgefið byggingarleyfi sé í samræmi við deiliskipulag. Á hæðarblaði sé kvöðunum, líkt og á aðaluppdráttum, gefið allt annað inntak en leiða megi af deiliskipulagi. Skilyrði laga nr. 160/2010 um mannvirki lúti að því að byggingaráform og byggingarleyfi séu í samræmi við skipulagsáætlanir. Hæðarblöð falli ekki undir hugtakið skipulagsáætlun heldur séu þau hönnunargögn sem séu unnin í kjölfar og á grundvelli deiliskipulags. Byggingarleyfi verði því ekki gefið út eða byggingaráform samþykkt á þeim grundvelli að það sé í samræmi við hæðar­blað, sér í lagi ef hæðarblaðið er í ósamræmi við deiliskipulag.

Hæðarblað gæti hugsanlega haft sjálfstæða þýðingu í málinu ef það væri hluti af þinglýstum gögnum eða áritað um samþykki af kæranda. Kærandi hafi aldrei samþykkt hæðarblaðið og það sé ekki hluti af þeim skjölum sem hafi verið þinglýst á lóðina. Eina hæðarblaðið sem sé hluti af þinglýstum skjölum sé það sem komi fram í lóðarleigusamningi kæranda við Hafnarfjarðarbæ frá árinu 1997. Bent sé á að hæðarblaðið sé dagsett í maí 2023 eða rúmlega mánuði eftir að byggingarfulltrúi hafi tekið hina kærðu ákvörðun. Á hæðarblaðinu sé dregið ský í kringum kvaðirnar sem sé hugsanlega gert til áhersluauka eða til að auðkenna breytingar frá fyrra hæðarblaði. Hafnarfjarðarbær vísi til mæliblaðs frá árinu 2008 sem ekki liggi fyrir í málinu.

Í greinargerð leyfishafa sé rakið að í upphafi hafi báðar lóðirnar verið í eigu sama aðila sem hafi komið að og samþykkt deiliskipulagið árið 2008 og að viðkomandi aðili hafi þá verið búinn að láta teikna og fá samþykktar teikningar. Kærandi hafi verið einn af lóðarhöfum Skútahrauns 2a þegar deiliskipulagið hafi tekið gildi árið 2008 en ekki Drangahrauns 3. Hinar umræddu teikningar hafi væntanlega verið samþykktar í gildistíð eldra skipulags enda séu þær áritaðar um samþykki fyrir gildistöku deiliskipulagsins í desember 2008. Ekkert liggi fyrir um að kærandi hafi samþykkt kvaðir deiliskipulagsins og séu gögn þar að lútandi ekki á meðal þinglýstra skjala lóðarinnar. Bent sé á að tvær fasteignir að Skútahrauni 2a ásamt tilheyrandi lóðarréttindum hafi verið seldar nauðungarsölu árið 2014 og að eignirnar hafi í kjölfarið verið seldar aftur til kæranda. Við nauðungarsöluna hafi öll hugsanleg óbein eignarréttindi yfir eignunum fallið niður, sbr. 2. mgr. 56. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu.

Í athugasemdum leyfishafa komi fram að mænishæð hússins sé í samræmi við deiliskipulag þar sem hún sé 6,26 m miðað við núllpunkt á aðalhæð hússins. Í deiliskipulaginu sé ekki rætt um að miða skuli hámarksmænishæð við tiltekinn núllpunkt. Þar komi fram að hámarks­mænishæð sé „7,5 m á þeim hluta sem snúi að Skútahrauni 2 og 2a“. Framlagðar teikningar séu ekki í samræmi við þessi fyrirmæli. Af fyrirliggjandi teikningum virðist mega ráða að fimm metrar séu frá kjallara mannvirkisins að lóðarmörkum. Því sé verulega óljóst hvernig leyfishafi ætli að ferma og afferma innan lóðar sinnar.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um samþykkt byggingaráforma fyrir staðsteyptu iðnaðar- og geymsluhúsnæði á lóðinni Drangahrauni 3, Hafnarfirði. Óumdeilt er að heimilt sé að byggja slíkt húsnæði á lóðinni samkvæmt gildandi deiliskipulagi svæðisins, Drangahrauns-Skútahrauns, sem tók gildi við birtingu í B-deild Stjórnartíðinda 19. desember 2008. Deila aðila snýst um útfærslu tiltekinna atriða, þ.e. staðsetningu bílastæða og umferðarkvöð innan lóðar Skútahrauns 2a, hvernig fermingu og affermingu skuli háttað og um hámarksmænishæð húss að Drangahrauni 3.

Samkvæmt afstöðumynd sem fylgdi umsókn vegna hinna kærðu byggingaráforma er gert ráð fyrir að 10 bílastæði verði staðsett á suðausturhorni lóðar Skútahrauns 2a. Líkt og fram kemur í málavaxtakafla segir í deiliskipulagsskilmálum um lóðir nr. 3 og 5 við Drangahraun að bíla-stæði fyrir kjallara skuli vera á lóð Skútahrauns 2a og fjöldi þeirra samkvæmt byggingar-reglugerð. Þá segir í skilmálum fyrir lóðina Skútahraun 2a að kvöð sé um að bílastæði fyrir kjallara húsa nr. 3 og 5 við Drangahraun verði á lóð Skútahrauns 2a og fjöldi þeirra verði samkvæmt byggingarreglugerð. Í almennum skilmálum skipulagsins kemur fram að fjöldi bílastæða á lóð skuli vera í samræmi við þágildandi 64. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998 með síðari breytingum, þ.e. eitt bílastæði fyrir hverja 35 m2 verslunar- og skrifstofuhúsnæðis og eitt bílastæði fyrir hverja 50 m2 af öðru húsnæði.

Samkvæmt 11. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki er áskilið að byggingarleyfisskyldar framkvæmdir séu í samræmi við skipulagsáætlanir til að byggingaráform verði samþykkt. Samkvæmt sömu grein skal byggingarfulltrúi ganga úr skugga um að aðaluppdrættir uppfylli ákvæði laganna og reglugerða sem settar hafa verið á grundvelli þeirra, sbr. einnig 1. mgr. 16. gr. laganna. Verða byggingaráform samkvæmt framansögðu ekki samþykkt nema þau séu bæði í samræmi við skipulagsáætlanir og gildandi lög og reglugerðir.

Fjallað er um aðkomuleiðir og umferðarsvæði innan lóðar í gr. 6.2.2. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 og er almennt ákvæði um bílastæði að finna í 7. mgr. nefnds ákvæðis. Þar kemur fram að stæði fyrir bíla, reiðhjól og önnur farartæki skuli vera í samræmi við ákvæði gildandi deiliskipulags eða ákvörðun viðkomandi sveitarfélags á grundvelli 44. gr. eða 1. tölul. bráðabirgðaákvæða skipulagslaga. Komi ekki fram krafa um ákveðna staðsetningu bílastæða eða stæða fyrir reiðhjól í skipulagi beri að hafa þau á sem öruggustu svæði innan lóðar. Í núgildandi byggingarreglugerð er ekki kveðið á um tiltekinn lágmarksfjölda bílastæða, að undanskildum bílastæðum hreyfihamlaðra, sbr. gr. 6.2.4., en í eldri byggingarreglugerð nr. 441/1998 var mælt fyrir um tiltekinn fjölda bílastæða á lóð, hafi ekki verið kveðið á um annað í deiliskipulagi, sbr. 64. gr. þeirrar reglugerðar.

Samkvæmt 7. mgr. gr. 6.2.2. í byggingarreglugerð er sveitarfélögum heimilt að ákveða fjölda bílastæða á lóð með deiliskipulagi. Verður að telja að skipulagsyfirvöldum sé heimilt að vísa til krafna eldri byggingarreglugerðar um fjölda bílastæða, stangist þær kröfur ekki á við gildandi byggingarreglugerð hverju sinni, enda er skipulagsvaldið í höndum sveitarstjórna, sbr. 3. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Í máli þessu verður ekki séð að hin samþykktu byggingaráform fari gegn ákvæðum byggingarreglugerðar hvað bílastæði varðar. Var því heimilt að mæla fyrir um í deiliskipulagi að fjöldi bílastæða á lóð færi eftir ákvæðum byggingarreglugerðar nr. 441/1998.

Bílastæði lóðar Drangahrauns 3 eru ekki á þeirri lóð heldur eru þau á lóð Skútahrauns 2a. Samkvæmt 20. tölul. 2. gr. skipulagslaga eru skipulagskvaðir kvaðir sem lagðar eru á einstakar lóðir eða landsvæði í deiliskipulagi, svo sem um umferðarrétt og legu lagna. Er kvöð um hin umdeildu bílastæði skipulagskvöð samkvæmt framansögðu enda er henni komið á með deiliskipulagi, en úrskurðarnefndin tekur ekki afstöðu til einkaréttarlegs ágreinings um mögulega tilvist eða efni einkaréttarlegra kvaða um bílastæðin. Þrátt fyrir að réttur til hinna umdeildu bílastæða og fjöldi þeirra, sé nægjanlega tilgreindur í skipulagskvöðinni verður ekki ráðið af deiliskipulagi hver staðsetning stæðanna skuli vera. Verður að telja að staðsetning bílastæða á annarri lóð samkvæmt skipulagskvöð sé svo veigamikill þáttur kvaðarinnar að skipulagsyfirvöld geti ekki ákveðið slíka staðsetningu með byggingarleyfi, heldur þarf stað­setningin að eiga stoð í deiliskipulagi. Verður því að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi hvað staðsetningu bílastæða á lóð Skútahrauns 2a varðar.

Samkvæmt afstöðumynd sem fylgdi umsókn vegna hinna kærðu byggingaráforma er gert ráð fyrir kvöð um aðkomu að kjallara Drangahrauns 3 og 5 syðst á lóð Skútahrauns 2a. Ekki er að finna nákvæm mál kvaðarinnar á afstöðumyndinni en ráða má af henni að kvöðin nái um 7 m inn á lóð Skútahrauns 2a. Á deiliskipulagsuppdrætti er kvöðin ekki afmörkuð nákvæmlega en þar er að finna texta við lóðamörk Skútahrauns 2a, Drangahrauns 3 og Drangahrauns 5 þar sem kemur fram: „Kvöð um umferð að kjallara Drangahrauns 3 og 5“. Í skilmálum skipulagsins um lóðir nr. 3 og 5 við Drangahraun kemur jafnframt fram að „[n]yrst á lóðunum er gert ráð fyrir kjöllurum sem aðeins hafa aðkomu frá Skútahrauni en heimilt er að hafa neyðarútgang Drangahraunsmegin.“ Þrátt fyrir að óumdeilt sé að umferðarréttur sé til staðar á lóð Skútahrauns 2a vegna kjallara Drangahrauns 3 verður með sömu rökum og um staðsetningu bílastæða hér að framan ekki talið að samþykkt byggingaráforma geti falið í sér útfærslu kvaðar á lóð kæranda umfram það sem fram kemur í deiliskipulagi. Verður því að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi hvað varðar þá útfærslu umferðarkvaðar á lóð Skútahrauns 2a sem fram kemur í hinni kærðu ákvörðun.

Kærandi hefur vísað til þess að fasteignir að Skútahrauni 2a ásamt tilheyrandi lóðarréttindum hafi verið seldar nauðungarsölu árið 2014 og hafi öll óbein eignarréttindi þá fallið niður skv. 2. mgr. 56. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Í nefndri málsgrein kemur fram að hafi nauðungarsölu verið krafist eftir heimild 6. eða 7. gr. falli niður öll veðbönd, umráðaréttindi, kvaðir, höft og önnur réttindi yfir eigninni við útgáfu afsals nema annað leiði beinlínis af lögum, eignin hafi verið seld með þeim skilmálum að þau standi í tilteknum atriðum óhögguð eða kaupandinn hafi síðar tekið þau að sér. Í afsali skuli tekið fram hver réttindi yfir eigninni falli á brott. Líkt og áður segir tekur nefndin ekki afstöðu til einkaréttarlegs ágreinings um mögulega tilvist eða efni kvaða. Skipulagskvöðum er komið á með deiliskipulagi, sem teljast til almennra stjórnvaldsfyrirmæla, og sækja stoð sína í 20. tölul. 2. gr. skipulagslaga. Er skipulagskvöðum því komið á með lögum í skilningi 2. mgr. 56. gr. laga nr. 90/1991 og á greinin því ekki við hvað varðar þær skipulagskvaðir sem deilt er um í máli þessu.

Samkvæmt almennum deiliskipulagsskilmálum svæðisins skulu athafnasvæði innan lóða vera í samræmi við starfsemi í húsunum og þess gætt að ferming og afferming flutningstækja geti farið fram innan lóða. Samkvæmt skipulagsuppdrætti er byggingarreitur kjallara Drangahrauns 3 samsíða lóðamörkum þeirrar lóðar og lóðanna Skútahrauns 2 og 2a og er einn metri frá byggingarreit að lóðamörkum. Af grunnmynd kjallara má sjá að hin nýja bygging að Drangahrauni 3 mun ekki fullnýta byggingarreit lóðarinnar, heldur er veggur byggingarinnar fimm metra frá lóðamörkum og verða bílastæði fyrir utan bygginguna sem ná að þeim mörkum. Ekki verður fullyrt að ómögulegt sé að ferma og afferma innan lóðarmarka og verður því ekki talið að hin kærða ákvörðun brjóti í bága við deiliskipulag hvað þetta varðar.

Samkvæmt skipulagsskilmálum fyrir lóðir nr. 3 og 5 við Drangahraun er hámarksmænishæð 7,5 m á þeim húshluta er snýr að Skútahrauni 2 og 2a. Í lýsingu staðhátta í deiliskipulaginu kemur einnig fram að mikill hæðarmunur sé milli lóða nr. 3 og 5 við Drangahraun og lóðar nr. 2a og hluta lóðar nr. 2 við Skútahraun. Samkvæmt grunnmynd kjallara er hæð hans er snýr að Skúta­hrauni 2 og 2a alls 6,26 m frá botnplötu 1. hæðar. Er hið kærða leyfi í samræmi við deili­skipulag að því leyti.

Með hliðsjón af öllu framangreindu verður að telja hina kærðu ákvörðun slíkum annmörkum háða að varði ógildingu hennar að því er varðar útfærslu kvaða vegna staðsetningar bílastæða og umferðarkvaðar á lóð Skútahrauns 2a. Að teknu tilliti til meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er þó ekki tilefni til að ógilda hina kærðu ákvörðun í heild sinni.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar frá 5. apríl 2023 um að samþykkja umsókn um byggingarleyfi fyrir staðsteyptu iðnaðar- og geymsluhúsnæði að Drangahrauni 3, matshluta 02, að því er varðar staðsetningu bílastæða á lóð Skútahrauns 2a og legu umferðar­kvaðar á sömu lóð. Að öðru leyti stendur hin kærða ákvörðun óröskuð.

 

16/2023 Hlíðarhvammur

Með

Árið 2023, mánudaginn 17. apríl, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

 Mál nr. 16/2023, kæra vegna stjórnsýslu Kópavogsbæjar og viðbrögð byggingarfulltrúa bæjarins við óleyfisframkvæmd húsráðenda að Hlíðarhvammi 7.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 24. janúar 2023, er barst nefndinni sama dag kærir A stjórnsýslu Kópavogsbæjar og viðbrögð byggingarfulltrúa bæjarins við óleyfisframkvæmd húsráðenda að Hlíðarhvammi 7.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Kópavogsbæ 9. febrúar 2023.

Málsatvik og rök: Í kæru eru rakin samskipti kæranda við stjórnvöld Kópavogsbæjar frá árinu 2013 til og með 12. ágúst 2022. Samskiptin má rekja til deilna vegna tveggja bílastæða sem gerð voru inn á lóð Hlíðarhvamms 7 árið 2009. Við þá framkvæmd fækkaði almennum bílastæðum í götunni. Kærandi telur að um „óleyfisframkvæmd“ hafi verið að ræða og hefur bent bæjaryfirvöldum á að með henni hafi ekki létt á bílastæðavanda í götunni og hafi bílastæðin auk þess sjaldan verið notuð sem geymsla fyrir farartæki.

Fyrir liggur bréf byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar til kæranda dags. 5. ágúst 2022, þar sem vísað er til mæliblaðs frá 2013, sem sýni fram á að gert hafi verið ráð fyrir bílastæðum á umræddum stað og því sé ekki um óleyfisframkvæmd að ræða. Hefur bréfið með þessu fyrst og fremst að geyma ábendingu um efni mæliblaðs.

Af hálfu Kópavogsbæjar hefur því verið hafnað við að eigendur að Hlíðarhvammi 7 hafi í heimildarleysi útbúið bílastæði á lóð sinni og nýtt þannig þann hluta götunnar sem liggi samsíða innkeyrslunni. Hafi bílastæðin á lóð nr. 7 verið útbúin árið 2009 og sagað hafi verið úr gangstéttarkanti og það verk unnið af starfsfólki Kópavogsbæjar, á kostnað lóðarhafa. Þá er bent á að ekki liggi fyrir ákvörðun í málinu sem sætt geti kæru.

Hlíðarhvammur sé ódeiliskipulagt svæði og bílastæðin sem kvartað sé undan standi inni á lóð, íbúa að Hlíðarhvammi 7. Samkvæmt útgefnu mæliblaði sé gert ráð fyrir tveimur bílastæðum á lóðinni. Mæliblaðið sé gefið út 4. júlí 2013 og skoðist sem hluti lóðarleigusamnings sem endurnýjaður hafi verið í júlí 2020.

—–

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur úrskurðarnefndin það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Samkvæmt 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verða þó ákvarðanir sem ekki binda enda á mál ekki kærðar til æðra stjórnvalds.

Af gögnum málsins má ráða að kæranda hefur verið kunnugt um gerð hinna umdeildu bílastæða frá árinu 2009. Þegar samskipti aðila eru rakin sést að síðast barst svar til kæranda frá byggingarfulltrúa 5. ágúst 2022. Kæra þessi barst úrskurðarnefndinni 24. janúar 2023.

Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur til nefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um þá ákvörðun sem kæra lýtur að.

Að framangreindu virtu verður ekki séð að í málinu liggi fyrir ákvörðun sem bindi enda á mál í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga. Einnig er litið til þess að rúmir fimm mánuðir liðu frá því að svar bars frá byggingarfulltrúa þar til kæra barst nefndinni. Verður málinu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

149/2022 Naustabryggja

Með

Árið 2023, fimmtudaginn 13. apríl, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson vara­formaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 149/2022, kæra á ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur­borgar frá 30. nóvember 2022 um að breyta deiliskipulagi Bryggjuhverfis við Grafarvog vegna bílastæða hreyfihamlaðra.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 27. desember 2022, kærir Lóðafélag Naustabryggju 21–29 og 41–57 þá ákvörðun umhverfis- og skipulags­ráðs Reykjavíkurborgar frá 30. nóvember 2022 að breyta deiliskipulagi Bryggjuhverfis við Grafarvog vegna bílastæða hreyfihamlaðra. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 2. febrúar 2023.

Málavextir: Mál þetta á sér nokkra forsögu, en frá árinu 2017 hefur húsfélag Naustabryggju 31–33 og Reykjavíkurborg átt í nokkrum samskiptum vegna bílastæða fyrir hreyfihamlaða fyrir hús nr. 31–33 við Naustabryggju. Hinn 24. nóvember 2019 fór félagið fram á að skilyrðum byggingarreglugerðar nr. 112/2012 vegna aðgengis fyrir hreyfihamlaða yrði fylgt og a.m.k. þremur bílastæðum fyrir hreyfihamlaða yrði komið fyrir innan 25 m fjarlægðar frá aðal-inngangi stigaganga í húsi á lóð Naustabryggju 31–33. Með bréfi byggingarfulltrúa til hús-félagsins, dags. 22. janúar 2020, var bent á að fyrirkomulag bílastæða væri í samræmi við ákvæði byggingarreglugerðar. Myndi embættið því ekki aðhafast frekar vegna málsins. Var sú afgreiðsla byggingarfulltrúa borin undir úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála sem felldi hana úr gildi með úrskurði, uppkveðnum 28. ágúst 2020 í máli nr. 15/2020. Vísaði nefndin m.a. til þess að ákvæði gr. 6.2.4. í byggingarreglugerð um fjarlægð bílastæða fyrir hreyfihamlaða frá aðalinngangi væri ekki uppfyllt. Engu gæti breytt í því efni þótt fyrirkomulag bílastæða væri í samræmi við deiliskipulag og samþykkta aðaluppdrætti, enda gæti deiliskipulag ekki vikið til hliðar ákvæðum byggingarreglugerðar og samkvæmt 11. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki skyldu samþykktir aðaluppdrættir vera í samræmi við ákvæði framangreindrar reglugerðar.

Í kjölfar úrskurðarins var embætti byggingarfulltrúa í samskiptum við kæranda máls nr. 15/2020 og lagði til að gert yrði bílastæði fyrir hreyfihamlaða á borgarlandi við norðausturhorn hússins nr. 31–33 við Naustabryggju, en þeirri tillögu var hafnað af hálfu húsfélagsins þar sem bílastæðið fullnægði ekki kröfum byggingarreglugerðar. Með tölvupósti byggingarfulltrúa 5. mars 2021 kom fram að honum þætti ljóst að krafa kæranda fæli í sér að gerð yrðu bílastæði á aðliggjandi lóð, Nausta­bryggju 35–57, og hún minnkuð sem því næmi. Ekki væri mögulegt að verða við þeirri kröfu án samþykkis viðkomandi lóðarhafa og embættið myndi því ekki aðhafast frekar í málinu. Var sú ákvörðun kærð til úrskurðarnefndarinnar sem felldi hana úr gildi með úrskurði, uppkveðnum 14. september 2021, í máli nr. 39/2021. Með hliðsjón af þeim úrræðum skipulagslaga sem stæðu Reykjavíkurborg til boða, þ. á m. að breyta deiliskipulagi, heimila skiptingu lóða og ráðast í eignarnám, féllst úrskurðarnefndin ekki á með borgaryfirvöldum að ómöguleiki væri fyrir hendi.

 Á fundi skipulagsfulltrúa 11. febrúar 2022 var tekin fyrir tillaga umhverfis- og skipulagssviðs að breytingu á deiliskipulagi Bryggjuhverfis við Grafarvog vegna lóðarinnar Tangabryggju 6–8, 10, 12 og 12A og Naustabryggju 17–19 og 31–33 og aðliggjandi borgarlands. Í tillögunni fólst að skilgreind yrðu tvö bílastæði fyrir hreyfihamlaða, eitt á borgarlandi og annað innan umræddrar lóðar. Samþykkti skipulagsfulltrúi að grenndarkynna tillöguna sem óverulega breytingu á deiliskipulagi fyrir hagsmunaaðilum að Tangabryggju 6–8, 10, 12 og 12A og Naustabryggju 17–19, 21, 29, 31–33, 55 og 57. Tillagan var auglýst til kynningar 7. mars 2022 og var athugasemdafrestur veittur til 4. apríl s.á. Á kynningartíma bárust sjö athugasemdir, þ. á m. ein frá kæranda í máli þessu. Tillagan var lögð fram á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 23. nóvember 2022 ásamt umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 18. s.m. Var tillagan samþykkt með vísan til nefndrar umsagnar og a-liðar 1. gr. í viðauka 1.1. við samþykkt um stjórn Reykjavíkur­borgar og fundarsköp borgarstjórnar. Deiliskipulagsbreytingin tók gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 21. desember 2022.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að tillaga að hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu hafi ekki verið grenndarkynnt fyrir honum þó svo að aðkoma að öðru því bílastæða sem hér um ræði sé eingöngu um aðkomulóð sem sé einkalóð kæranda. Þá hafi málið aðeins verið kynnt fyrir hluta þeirra fasteignaeigenda sem um ræði, en eigendur fasteigna í Naustabryggju 41–53 hafi ekki verið gert viðvart um fyrirhugaða deiliskipulagsbreytingu þrátt fyrir að eiga aðild að kæranda og þar með eignaraðild að áðurnefndri aðkomulóð. Eðli málsins samkvæmt verði umrætt bílastæði ekki nýtt fyrir aðra en fasteignaeigendur Naustabryggju 21–29 og 41–57.

Bílastæðið sé staðsett á gangstíg sem sé mikilvæg tenging milli hverfisins og sjávar. Áhersla sé lögð á að umræddum gangstíg verði haldið sem slíkum. Einnig sé bent á að aðkoma að sorptunnum hússins nr. 21 við Naustabryggju sé um umræddan gangstíg og því skipti máli að hann sé vel greiðfær. Enn fremur sé því mótmælt að fyrir nokkru hafi verið sett upp skilti fyrir umrætt bílastæði og það merkt með málningu áður en tillagan hafi verið borin upp við hlutaðeigandi og þar með áður en hin kærða ákvörðun hafi verið tekin.

Kærandi hafi sjálfur komið fyrir bílastæðum fyrir hreyfihamlaða inni á sinni einkalóð og öðrum húsfélögum hverfisins ætti sömuleiðis að vera slíkt í lófa lagið. Þá sé samkvæmt deiliskipulagi gert ráð fyrir bílastæðum fyrir hreyfihamlaða í bifreiðakjallara undir húsunum nr. 31–33 við Naustabryggju en þeim húsum fylgi sömuleiðis bílastæði ofanjarðar.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Borgaryfirvöld vísa til þess að tillagan hafi ekki verið grenndarkynnt fyrir kæranda þar sem hún var ekki talin hafa áhrif á hagsmuni hans. Kærandi hafi engu að síður komið að athugasemdum við tillöguna og geti hann þar af leiðandi ekki borið fyrir sig að hafa ekki haft tækifæri til að tjá sig um hana.

Aðkoma að því bílastæði sem sé á borgarlandi sé í gegnum aðkomulóð og sé hún m.a. í þágu kæranda, en lóðin sé einnig aðkomulóð fyrir Naustabryggju 21–29 og 55–57. Gert sé ráð fyrir að hreyfihamlaðir geti almennt nýtt stæðið, enda verði það ekki sérmerkt neinni lóð til afnota. Ekki sé hægt að líta svo á að það sé á hendi lítils hluta handhafa aðkomulóðarinnar að koma í veg fyrir að aðrir aki um lóðina eða að leita þurfi samþykkis allra eigenda fyrir slíkri umferð. Umferð vegna stæðisins verði mjög óveruleg og hafi staðsetning þess og notkun ekki áhrif á hagsmuni kæranda svo nokkru varði. Ekki sé heldur fallist á að staðsetning þess skerði tengingu milli hverfisins og sjávar þar sem sú gönguleið sé órofin og hindrunarlaus.

 Athugasemdir húsfélags Naustabryggju 31–33: Húsfélag Naustabryggju 31–33 bendir á að uppsetning bílastæðis á borgarlandi hafi verið leið Reykjavíkurborgar til að uppfylla skilyrði í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Stæðið sé í dag nýtt oftar en ekki af sama ökumanni og hafi reiturinn verið nýttur reglulega til þess að leggja áður en stæðið hafi verði merkt fyrir hreyfi­hamlaða. Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hafi tvívegis úrskurðað húsfélaginu í vil varðandi þá skyldu Reykjavíkurborgar að uppfylla skilyrði byggingarreglugerðar um bílastæði hreyfihamlaðra.

Síðastliðin sex ár hafi íbúar Naustabryggju 31–33 reynt að benda Reykjavíkurborg á hand­vömm við útgáfu byggingarleyfis sem hafi gert það að verkum að húsið hafi verið byggt við einkalóð kæranda. Húsfélagið hafni því að borgaryfirvöld uppfylli fyrrgreinda skyldu sína með því að koma fyrir bílastæðum fyrir hreyfihamlaða annars staðar en á lóð Naustabryggju 17, Naustabryggju 31–33 og Tangabryggju 6–12. Fallist úrskurðarnefndin á sjónarmið kæranda sé staðan sú að Naustabryggju 31–33 sé í raun eyland í þessu hverfi. Síðastliðin sex ár hafi íbúum verið óheimilt að nota lóðina fyrir framan húsið til að sinna viðhaldi sem krefjist notkunar vinnupalla og annarra vinnuvéla sem eðli málsins samkvæmt þurfi athafnasvæði og aðkomu. Þá uppfylli bílastæði á lóð milli Tangabryggju 12 og Naustabryggju 31–33 eftir sem áður ekki skilyrði um fjarlægð frá aðalinngangi Naustabryggju 31.

 Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi ítrekar málsrök úr kæru og bendir á að uppsetning bílastæðis fyrir hreyfihamlaða á borgarlandi felist beinlínis í sér ólögmæta eignaupptöku þar sem aðkoma að því stæði sé í gegnum einkalóð hans. Bílastæðið sé á miðjum gangstíg og ef bifreið sé lagt í það geti verið erfitt eða jafnvel ómögulegt að aka barnavagni eftir stígnum. Þá bendi lausleg athugun til að víðast hvar sé lengra frá bílastæði fyrir hreyfihamlaða að útidyrum en fjarlægð frá því bílastæði sem verði milli Naustabryggju 31–33 og Tangabryggju 12 og aðalinngangi Naustabryggju 31.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um breytingu á deiliskipulagi Bryggjuhverfis við Grafarvog vegna bílastæða hreyfihamlaðra fyrir Naustabryggju 31–33. Í breytingunni felst að á skipulags-uppdrætti eru skilgreind tvö bílastæði fyrir hreyfihamlaða, annars vegar á borgarlandi og hins vegar innan lóðarinnar Tangabryggju 6–8, 10, 12 og 12A og Naustabryggju 17–19 og 31–33.

Hin kærða deiliskipulagsbreyting var grenndarkynnt sem óveruleg breyting á deiliskipulagi, sbr. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Hefur kærandi fundið að því hvernig staðið var að grenndarkynningunni þar sem tillagan hafi ekki verið kynnt fyrir honum þrátt fyrir að aðkoma að bílastæði á borgarlandi sé í gegnum einkalóð hans. Með hliðsjón af þeim aðstæðum verður að fallast á með kæranda að Reykjavíkurborg hefði borið að grenndarkynna fyrir honum deiliskipulagstillöguna. Aftur á móti verður ekki séð að kærandi hafi orðið fyrir réttarspjöllum vegna þessa þar sem hann kom að athugasemdum við kynningu tillögunnar og var þeim svarað í umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 18. nóvember 2022. Verður að öðru leyti ekki annað séð en að málsmeðferðin hafi verið í samræmi við skipulagslög.

Skipulag lands innan marka sveitarfélags er í höndum sveitarstjórna skv. 3. mgr. 3. gr. laga nr. 123/2010. Sveitarstjórnir bera ábyrgð á og annast gerð deiliskipulags skv. 1. mgr. 38. gr. laganna og er skv. 43. gr. heimilt að breyta deiliskipulagi. Sveitarstjórn hefur mat um það hvernig deiliskipulagi eða breytingu á því skuli háttað svo fremi það mat byggi á málefnalegum og lögmætum sjónarmiðum.

Eins og rakið er í málavöxtum var undanfari hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar úrskurðir úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 15/2020 og 39/2021, en í málunum voru felldar úr gildi ákvarðanir byggingarfulltrúans í Reykjavík um að hafna kröfum húsfélags Naustabryggju 31–33 um að tryggt yrði aðgengi að húsinu fyrir hreyfihamlaða í samræmi við ákvæði byggingar­reglugerðar nr. 112/2012. Í umsögn skipulagsfulltrúa frá 18. nóvember 2022 segir að með deili-skipulags­breytingunni sé verið að svara fyrrgreindum niðurstöðum úrskurðarnefndarinnar um að tryggja skuli án tafar aðgengi fyrir hreyfihamlaða að aðalinngangi Naustabryggju 31–33. Lágu því efnis- og skipulagsrök að baki hinni kærðu ákvörðun.

Með vísan til þess sem að framan er rakið liggja ekki fyrir þeir form- eða efniságallar á hinni kærðu ákvörðun sem raskað geta gildi hennar. Verður kröfu um ógildingu ákvörðunarinnar af þeim sökum hafnað.

Rétt þykir að benda á að deiliskipulag getur ekki haft áhrif á bein eða óbein eignarréttindi en sé sýnt fram á að gildistaka skipulagsáætlana  hafi haft í för með sér fjártjón getur sá sem telur sig hafa orðið fyrir því  átt rétt á bótum, sbr. 51. gr. skipulagslaga. Úr slíkum ágreiningi verður hins vegar ekki leyst fyrir úrskurðarnefndinni.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur­borgar frá 30. nóvember 2022 um að breyta deiliskipulagi Bryggjuhverfis við Grafarvog vegna bílastæða hreyfihamlaðra.

45/2022 Furugerði

Með

Árið 2022, þriðjudaginn 27. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21 í Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 45/2022, kæra vegna óhæfilegs dráttar á afgreiðslu Reykjavíkur­borgar á erindi vegna fjölgunar bílastæða við Furugerði 2 í Reykjavík.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

 Með ódagsettu bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er móttekið var 10. maí 2022, kærir eigandi, Hlyngerði 1, Reykjavík, óhæfilegan drátt á afgreiðslu Reykjavíkurborgar á erindi kæranda frá 6. september 2020. Er þess farið á leit að lagt verði fyrir borgina að taka umrætt erindi þegar í stað til meðferðar.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 27. júní 2022.

Málavextir: Hinn 6. september 2020 sendi kærandi erindi til Reykjavíkurborgar og benti m.a. á að íbúar neðri hæðar hússins að Furugerði 2 hefðu stækkað bílastæði við vestanvert húsið. Rúmaði það nú tvo til þrjá bíla í stað eins áður. Lægi bílastæðið alveg upp að lóðarmörkum Hlyngerðis 1 og hlytist af þessu ónæði. Ekki virtist hafa verið aflað leyfis fyrir framkvæmdinni og væri þess krafist að Reykjavíkurborg nýtti heimildir sínar í lögum til að sjá til þess að bílastæðið yrði fært í fyrra horf. Með svarpósti 7. s.m. var kæranda tilkynnt að erindið hefði verið framsent til skilmálaeftirlits byggingarfulltrúa til frekari skoðunar og svara og með tölvupósti 22. septem­ber s.á. var kærandi upplýstur um að eigendum hefði verið sent bréf vegna málsins.

Í framhaldinu átti kærandi í töluverðum tölvupóstsamskiptum við borgina vegna málsins og fór m.a. fram á það við embætti byggingarfulltrúa að það beitti þeim úrræðum sem það hefði, þ.m.t. dagsektum, til að knýja á um að lóðin yrði færð í fyrra horf. Hinn 5. maí 2021 barst kæranda svohljóðandi tölvupóstur: „Embætti byggingarfulltrúa barst ábending, dags. 6. september 2020, vegna áður gerðs bílastæðis við Furugerði 2. Kvartandi fer fram á að embætti byggingarfulltrúa beiti dagsektum þar til lóðin verður færð í fyrra horf. Lóðarhafar höfðu þá um sumarið fjarlægt gróður og hellulagt í norðvesturhorni á lóð sinni. Í kjölfarið var lóðarhöfum sent bréf og óskað skýringa. Í skýringum kom fram að lóðarhafar hefðu einungis verið að laga lóðina hjá sér þ.m.t. helluleggja, smíða palla og fjarlægja gróður. Embætti byggingarfulltrúa tilkynnti lóðarhöfum í framhaldinu að óheimilt væri [að] nýta svæðið sem bílastæði á lóð án þess að sækja um það til skipulagsfulltrúa. Embætti byggingarfulltrúa telur umrædda framkvæmd lóðarhafa, þ.e. að fjar­lægja gróður og helluleggja innan lóðar, ekki byggingarleyfisskylda. Í ljósi þess og með hliðsjón af meðalhófsreglu stjórnsýsluréttarins mun embætti byggingarfulltrúa ekki beita svo íþyngjandi úrræðum sem farið er fram á, en bendir á að hægt er að hafa samband við Bílastæða­sjóð varðandi meint stöðubrot bifreiðar. Telst málinu lokið af hálfu byggingarfulltrúa.“

Kærandi hafði í kjölfar þessa samband við Bílastæðasjóð og með tölvupósti 8. júlí 2021 var honum greint frá því að farið yrði í eftirlit á svæðið á næstu dögum. Óskaði kærandi nánari upplýsinga um framvindu málsins með tölvupóstum 28. s.m., 6. og 28. september og 15. október s.á. og í svarpósti 20. október 2021 kom m.a. fram að eftirlit hefði farið fram. Jafnframt var bent á að mál af þessum toga og úrræði við þeim væru í heildstæðri skoðun á sviðinu, t.d. varðandi aðkomu skilmálaeftirlits/ byggingarfulltrúa þar sem valdsvið Bílastæðasjóðs væri afar takmarkað hvað þetta varðaði. Væri þess óskað yrði kærandi upplýstur um málið þegar frekari fregnir bærust. Með tölvupósti kæranda til Bílastæðasjóðs 18. nóvember 2021 var frekari upplýsinga óskað og erindið síðan ítrekað 31. mars 2022. Með svarpósti 4. apríl s.á. var kæranda tilkynnt að erindið hefði verið framsent til eftirlitsdeildar skilmálaeftirlitsins. Ítrekaði kærandi erindi sitt með tölvupóstum í apríl og maí 2022 og með tölvupósti 10. maí s.á. var kærandi upplýstur um að málið væri í skoðun í samvinnu við Bílastæðasjóð og vonast væri til að afstaða lægi fyrir innan fárra daga. Sama dag barst úrskurðarnefndinni kæra í máli þessu og 17. júní s.á. óskaði kærandi enn upplýsinga frá borginni hvenær vænta mætti þess að málinu yrði lokið. Hinn 27. s.m. barst kæranda eftirfarandi svar: „Eftirlitsdeild USK hefur tekið málefni Furugerðis 2 til skoðunar að því er varðar bílastæði á baklóð. Niðurstaða Eftirlits­deildarinnar er að umrætt bílastæði á baklóð er ekki í samræmi við samþykktar heimildir, en lóðar­blað hefur ekki verið uppfært til samræmis við samþykkt byggingarfulltrúa frá 22. nóvember 1984. Þar af leiðir eru einu stæðin sem samþykkt eru fyrir framan húsið. Eftirlitsdeild USK mun í framhaldinu upplýsa eiganda Furugerðis 2 um afstöðu eftirlitsins. Eigandi getur ákveðið að uppfæra lóðarblað og fá þannig bílastæði á baklóð samþykkt, en þarf þá að fella brott bíla­stæði fyrir framan hús. Eftirlitsdeild USK þakkar ábendinguna og mun áfram vinna að úrlausn málsins.“

Málsrök kæranda: Kærandi tekur fram að hann hafi ákveðið að kæra ekki ákvörðun frá 5. maí 2021 til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í ljósi þess að fram kæmi í henni að Bílastæðasjóður myndi taka á málinu. Tæplega tvo ár séu síðan erindið hafi fyrst verið sent til umhverfis- og skipulagssviðs. Frá því að kærandi hafi beint erindi sínu til Bílastæðasjóðs sé liðið meira en eitt ár. Enn bóli ekkert á svari og af fundargerðum byggingarfulltrúa og skipulagsfulltrúa sé ekki að sjá að erindið hafi verið tekið til meðferðar.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er þess krafist að málinu verði vísað frá úrskurðarnefndinni. Eftirlitsdeild byggingarfulltrúa hafi afgreitt kæruefnið og eigi kærandi ekki lengur lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Málsrök lóðarhafa Furugerðis 2: Af hálfu lóðarhafa er bent á að erindi kæranda eigi ekki undir verksvið úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Ekki sé verið að kæra ákvörðun heldur óska eftir áliti nefndarinnar á stjórnsýslu Reykjavíkurborgar. Slík mál heyri undir ráðu­neyti sveitarstjórnamála en ekki úrskurðarnefndina sem einungis sé falið það hlutverk að endurskoða úrskurði á sviði umhverfis- og skipulagsmála. Sé því mótmælt að nefndin taki afstöðu til málsins.

Lóðarhafar hafi ráðist í að laga lóðina framan við íbúð sína í fullu samráði við sameiganda hússins. Úr sér vaxinn gróður hafi verið fjarlægður og svæðið hellulagt. Í engu hafi verið átt við gangstétt né gangstéttarkant í eigu borgarinnar að öðru leyti en að lagfæra gangstéttina með fylliefnum vegna frostskemmda. Því sé mótmælt að lóðarhafar hafi þurft að óska eftir sérstöku samþykki kæranda fyrir endurbótunum. Samráð hafi hins vegar verið haft við kæranda þegar gróðurinn hafi verið fjarlægður og hellur lagðar. Í raun hafi kærandi óskað eftir því að úr sér vaxinn gróður á lóðarmörkum yrði fjarlægður. Liggi fyrir að lóðarhafar hafi á engan hátt gerst brotlegir og skýri það ef til vill að borgin hafi ekkert aðhafst í málinu.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi tekur fram að enn hafi ekki verið tekin ný ákvörðun í tilefni af erindi hans. Liggi heldur ekkert fyrir um hvenær það verði gert. Hvað sem því líði verði að líta svo á að í hinni breyttu afstöðu Reykjavíkurborgar felist afturköllun fyrri ákvörðunar. Sú ákvörðun hafi verið tilkynnt kæranda með tölvupósti starfsmanns eftirlits­deildar 5. maí 2021 þar sem kröfu um beitingu dagsekta hafi verið hafnað. Hafi borgin nú fallist á að þau rök sem færð hafi verið fram fyrir þeirri ákvörðun eigi ekki lengur við. Kærandi eigi því vissulega lögvarða hagsmuni af því að tekin sé ný afstaða til þeirrar kröfu og eigi með sama hætti lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins fyrir úrskurðarnefndinni. Þá sé málavaxtalýsingu lóðarhafa Furugerðis 2 mótmælt sem rangri, þ.á m. þeirri staðhæfingu að samráð hafi verið haft við kæranda áður en ráðist hafi verið í stækkun bílastæðisins.

 Viðbótarathugasemdir Reykjavíkurborgar: Af hálfu sveitarfélagsins er tekið fram að afstaða sveitarfélagsins sé enn sú sama.

Niðurstaða: Í máli þessu er til úrlausnar hvort afgreiðsla á erindi kæranda frá 6. september 2020 hafi dregist óhæfilega af hálfu Reykjavíkurborgar, þ.e. nánar tiltekið krafa hans um að borgin nýti heimildir sínar í lögum til að sjá til þess að bílastæði við Furugerði 2 verði fært í fyrra horf. Skilja verður erindið svo að í því felist m.a. beiðni um að borgin beiti þvingunar-úrræðum laga nr. 160/2010 um mannvirki og á því úrlausn um fyrrnefnt álitaefni undir úrskurðar­nefndina, sbr. 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en ákvörðun um beitingu þvingunar­úrræða sætir eftir atvikum endurskoðun nefndarinnar.

Líkt og fram kemur í málavaxtalýsingu var kröfu kæranda um beitingu þvingunarúrræða synjað 5. maí 2021 og ekki liggur fyrir að sú ákvörðun hafi verið afturkölluð. Jafnframt er þó ljóst að mál er varðar bílastæði við Furugerði 2 er enn í skoðun hjá Reykjavíkurborg, en fyrir liggur svar eftirlitsdeildar til kæranda frá 27. júní 2022 um að unnið verði áfram að úrlausn málsins. Hefur úrskurðarnefndin verið upplýst um það í tölvupósti 7. september sl. að eftirlitsdeildin hafi verið með mál kæranda í skoðun með Bílastæðasjóði, en ekki hafi náðst samstaða um að leggja á sektir yrði haldið áfram að leggja bifreiðum á um­­­ræddum hluta lóðarinnar. Stefnt væri að því að senda eiganda bréf í þessum mánuði þar sem gerð yrði krafa um að látið yrði af því að leggja á lóðinni.

Samkvæmt framangreindu verður að telja að Reykjavíkurborg hafi þegar afgreitt erindi kæranda frá 6. september 2020. Hvað sem öðru líður liggur fyrir að lagning bifreiða á umræddri lóð er enn í skoðun hjá eftirlitsdeild byggingarfulltrúa í kjölfar framsendingar erindisins frá Bílastæðasjóði. Í ljósi framvindu málsins þykir rétt að embætti byggingarfulltrúa, sem fyrrgreind eftirlitsdeild er hluti af, taki erindi kæranda vegna meintrar fjölgunar bílastæða á lóð Furugerðis 2 til endanlegrar úrlausnar.   

Úrskurðarorð:

 Embætti byggingarfulltrúans í Reykjavík er rétt að taka erindi kæranda vegna ætlaðrar fjölgunar bílastæða á lóð Furugerðis 2 í Reykjavík til endanlegrar afgreiðslu án ástæðulauss dráttar.

183/2021 Laugavegur

Með

Árið 2022, miðvikudaginn 14. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 183/2021, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 23. nóvember 2021 um að synja umsókn um leyfi til að byggja bílageymslu neðanjarðar á lóðinni Laugavegi 178.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 22. desember 2021, er barst nefndinni sama dag, kærir Dyrhólmi hf., einn eigenda fasteignarinnar að Laugavegi 178, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 24. nóvember 2021 að synja umsókn um leyfi til að byggja bílageymslu neðanjarðar á lóðinni. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 16. mars 2022.

Málavextir: Í október 2008 samþykkti byggingarfulltrúinn í Reykjavík umsókn kæranda um byggingarleyfi fyrir byggingu bílastæðageymslu neðanjarðar á lóðinni Laugavegi 178. Ekki varð þó af byggingu hennar. Á árinu 2020 var samþykkt deiliskipulag sem náði m.a. til Laugavegar 178 þar sem gert var ráð fyrir því að bílastæðum á lóðinni myndi fækka. Deiliskipulagið var fellt úr gildi með úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála uppkveðnum 1. desember 2020. Kærandi sótti um endurnýjun byggingarleyfis fyrir byggingu bílastæðageymslu neðanjarðar á umræddri lóð 16. febrúar 2021. Á afgreiðslufundi byggingar­fulltrúa 23. nóvember s.á. var umsókninni synjað með vísan til neikvæðrar umsagnar skipulags­fulltrúa, dags. 19. nóvember 2021.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að ástæða þess að hann hafi í hyggju að byggja bílastæðageymslu neðanjarðar á lóð sinni sé að samkvæmt deiliskipulagi, sem síðar var fellt úr gildi, myndi kærandi glata að lágmarki 15 bílastæðum á lóðinni. Umrætt deiliskipulag hefði gert ráð fyrir nýrri aksturstengingu við Laugaveg á lóðamörkum Laugavegar 176 og 178, en sú breyting myndi hafa veruleg áhrif á nýtingu lóðarinnar og líklegt væri að fleiri bílastæði myndu glatast. Fyrir liggi að Borgarlínan muni liggja meðfram lóð kæranda eins og fram komi í um­sögn skipulagsfulltrúa og bílastæðum á lóðinni muni fækka verulega. Verðmæti fasteignarinnar að Laugavegi 178 muni rýrna að öllu óbreyttu. Með tilheyrandi fækkun bílastæða vegna Borgarlínu muni bílastæði í bílageymslu neðanjarðar að öllum líkindum ekki leiða til fjölgunar bílastæða á lóðinni, a.m.k. ekki umtalsvert.

Margvísleg atvinnustarfsemi sé rekin í fasteigninni og hin kærða ákvörðun hafi áhrif á marga leigutaka og starfsmenn þeirra. Eigi að vera hægt að stunda atvinnustarfsemi á lóðinni með viðunandi hætti í framtíðinni sé nauðsynlegt að byggja bílastæðageymslu. Verðmæti fasteignarinnar lækki verulega séu einungis örfá bílastæði sem starfsmenn og viðskiptamenn hafi aðgang að og því séu hagsmunir kæranda af því að byggja bílageymslu neðanjarðar veru­legir. Ekki þýði að hefja undirbúning að framkvæmdum þegar bílastæði á lóðinni hafi þegar glatast með tilkomu Borgarlínu. Ekki hafi verið tekið tillit til þessa né afstaða tekin til þess hvort framkvæmdin sé í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar. Því hafi verið brotið gegn rannsóknarreglu stjórnsýsluréttarins, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Verði ekki séð hvaða hagsmunir séu hlunnfarnir með því að heimila byggingu bílageymslunnar.

Ekki sé málefnalegt að byggja synjun á umsókn um byggingarleyfi á þeirri staðreynd að ekki sé til staðar deiliskipulag fyrir lóðina. Byggingarfulltrúa sé heimilt að veita byggingarleyfi án deiliskipulagsgerðar sé framkvæmdin í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar, sbr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Þá sé almenna reglan sú að grenndarkynning fari fram. Hvorki sé vísað til fyrrnefndrar lagagreinar í umsögn skipulagsfulltrúa né í ákvörðun byggingarfulltrúa. Þá geri gr. 2.4.2. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 jafnframt ráð fyrir að hægt sé að veita byggingarleyfi þótt deiliskipulag sé ekki til staðar. Sveitarstjórnir fari með skipulagsvaldið og beri ábyrgð og annist gerð deiliskipulags skv. 3. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Í því felist tæki sveitarstjórnar til að hafa áhrif á og þróa byggð og umhverfi með bindandi hætti. Þar af leiðandi standist ekki skoðun að synja umsókn kæranda með vísan til þess að ekki sé til staðar deiliskipulag fyrir lóðina. Það brjóti gegn lögmætisreglu stjórnsýsluréttarins enda fái sjónarmiðið ekki stoð í lögum og því ekki málefnalegt. Þvert á móti gangi lög út frá því að veita megi byggingarleyfi án þess að deiliskipulag sé til staðar.

Kærandi sé sammála því að af aðalskipulagi megi almennt ráða að ekki sé gert ráð fyrir fjölgun bílastæða. Hins vegar byggi sú stefnumörkun eðlilega á því að útþenslu byggðar verði hætt, sbr. bls. 130 í A-hluta Aðalskipulags Reykjavíkur 2010-2030 og að byggð verði þétt, sem varði einkum bílastæði ofanjarðar. Á bls. 154 í aðalskipulaginu komi fram að lögð verði áhersla á að bílastæði í miðborginni og á lykilþróunarsvæðum verði neðanjarðar, inni í byggingum eða með þeim hætti að sem minnst röskun verði á götumyndinni. Almenn viðmið sé að finna á bls. 155 í aðalskipulaginu en þar segi: „1 bílastæði að hámarki á 50 m2 atvinnuhúsnæðis.“ Í umsögn skipulagsfulltrúa komi fram að byggingarmagn Laugavegs 178 sé 6.377 m2 sem skili í samræmi við framangreint 127,5 bílastæðum, ólíkt þeim fjölda sem komi fram í umsögninni. Hin umsótta bílageymsla falli vel að markmiði aðalskipulagsins og geri borginni kleift að fækka bílastæðum ofanjarðar enn frekar, þétta þar með byggð og skapa m.a. rými fyrir Borgarlínu. Þá geri aðalskipulag jafnframt ráð fyrir aukningu byggingarmagns á svæðinu og fjölgun íbúða. Því sé vanhugsað að synja um byggingu bílageymslna neðanjarðar til að mæta aukinni þéttingu byggðar á svæðinu.

Reglur um fjölda bíla- og hjólastæða í Reykjavík eigi ekki við um byggingu bílageymslu neðanjarðar, en hvorki sé um að ræða nýbyggingu né endurnýjun byggðar, sbr. gildissvið reglnanna sem sé skilgreint á þann hátt á bls. 1 í reglunum. Óháð gildissviði og efni reglnanna sé vandséð hvernig bílageymsla neðanjarðar falli ekki að reglunum og falli ekki að markmiðs­skýringu aðalskipulags og reglnanna. Hin kærða ákvörðun sé því ekki byggð á málefnalegum sjónarmiðum, í andstöðu við óskráða meginreglu stjórnsýsluréttar þess efnis. Skipulagslög gildi um aðalskipulag sveitarfélaga og gerðar séu mun meiri kröfur til málsmeðferðarreglna aðalskipulags heldur en framangreindra reglna. Ekki verði séð hvaða lagastoð liggi að baki reglunum en fyrir liggi í öllu falli að hvergi sé vísað til þeirra í 44. gr. skipulagslaga. Skýrt sé að reglurnar séu einungis til viðmiðunar, sbr. bls. 154 í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030. Þær verði því ekki lagðar til grundvallar sem réttarheimild fyrir hinni kærðu ákvörðun. Þá kveði reglurnar á um að þegar „uppbygging fellur undir þessar skilgreiningar skal vinna sam­göngumat þar sem meðal annars er áætlað hvernig endurskoða megi heildarfjölda bílastæða.“ Ekkert samgöngumat hafi farið fram enda gildi reglurnar ekki um bílageymslu á lóðinni Laugavegi 178.

Brotið hafi verið gegn réttmætum væntingum kæranda, sem m.a. séu verndaðar af 1. gr. 1. samningsviðauka Mannréttindasáttmála Evrópu og 72. gr. stjórnarskrárinnar. Skipulagsfulltrúi hefði árið 2008 veitt jákvæða umsögn fyrir byggingu bílastæðageymslunnar og því hefði kærandi haft réttmætar væntingar til þess að umsókn hans yrði samþykkt. Kærandi hafi greitt lóðarleigu fyrir bílastæðageymsluna í fjölmörg ár en hún sé innheimt með fasteignagjöldum. Sjá megi af álagningarseðlum að fjárhæðin sem kæranda hafi verið gert að greiða sé vegna bílastæðageymslu að stærð 794,2 m2 í samræmi við samþykkta byggingarleyfisumsókn árið 2008. Kærandi hefði verið í miklum samskiptum við byggingarfulltrúa við gerð nýju umsóknarinnar en ekki verið tjáð að umsóknin hlyti ekki hljómgrunn.

Þá brjóti hin kærða ákvörðun ennfremur gegn meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar, sbr. 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sem komi ávallt til athugunar þegar tekin sé íþyngjandi ákvörðun og stjórnvald hafi val á milli tveggja eða fleiri kosta við úrlausn máls. Um sé að ræða íþyngjandi ákvörðun og hagsmunir kæranda verulegir af því að byggja bílastæðageymslu neðanjarðar. Byggingin sé í samræmi við stefnu borgarinnar um að bílastæði séu neðanjarðar og falli að markmiði reglna um fjölda bíla- og hjólastæða. Hægt sé að ná markmiði Reykjavíkurborgar með öðru og vægara móti en að hafna umsókninni. Samkvæmt 44. gr. skipulagslaga hefði verið hægt að grenndarkynna umsóknina.

Jafnframt hafi verið brotið gegn jafnræðisreglu stjórnsýslurétta, sbr. 11. gr. stjórnsýslulaga. Bygging bílageymslna neðanjarðar hafi verið samþykkt á nærliggjandi lóðum. Sem dæmi megi nefna deiliskipulag fyrir Laugaveg 168-176 og deiliskipulag Skipholtsreits. Kærandi þurfi því að bera hallan af því að ekki sé fyrir hendi deiliskipulag sem heimili byggingu bílageymslu. Þá hafi einnig verið brotið gegn andmælarétti kæranda, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga, og því beri að ógilda ákvörðun byggingarfulltrúa.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er vísað til þess að byggingarleyfi frá 7. október 2008 hafi verið samþykkt í tíð eldri laga og fyrir gildistöku Aðalskipulags Reykjavíkur 2010-2030. Kærandi byggi á því að í deiliskipulagi sem fellt hafi verið úr gildi hafi verið gert ráð fyrir að bílastæðum kæranda myndi vera fækkað um 15 bílastæði á lóð. Borgaryfirvöld geti ekki byggt ákvarðanir sínar á gögnum sem hafi verið felld úr gildi. Þótt um sé að ræða endurnýjun á byggingarleyfi sé umræddum byggingaráformum hafnað á þeim grundvelli að aðalskipulag og reglur um fjölda bíla- og hjólastæða hafi myndað það regluverk sem umrætt svæði falli undir í dag. Í málinu hafi 13 ár liðið frá veitingu byggingarleyfis fyrir bílageymslu á lóðinni og margt geti breyst í regluumhverfinu á þeim tíma.

Lóðin Laugavegur 178 sé staðsett á svæði þar sem borgaryfirvöld hafi sett sér stefnu í Aðal­skipulagi Reykjavíkur 2010-2030 um hvernig bílastæðamálum skuli háttað á svæðinu, ásamt því að útfæra það nánar í reglum um fjölda bíla- og hjólastæða. Ekki séu forsendur fyrir að heimila fjölgun bílastæða á lóðinni þar sem það stangist á við framangreinda stefnu. Þá sé það ekki í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar.

 Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi ítrekar fyrri málsrök sín og bendir jafnframt á að í greinargerð Reykjavíkurborgar sé vísað til þess að bygging bílageymslu neðanjarðar sé ekki í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar án þess að það sé rökstutt með nokkrum hætti.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 23. nóvember 2021 um að synja umsókn um leyfi til að byggja bílageymslu á lóðinni Laugavegi 178. Í umsókninni er gert ráð fyrir 34 bílastæðum í geymslu neðanjarðar og 115 bílastæðum á lóð, eða samtals 149 bílastæðum. Á svæðinu er ekki í gildi deiliskipulag.

Í 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 kemur fram sú meginregla að gera skuli deili­skipulag fyrir svæði eða reiti þar sem framkvæmdir séu fyrirhugaðar. Undantekningu frá framangreindri meginreglu um gerð deiliskipulags þegar framkvæmdir eru fyrirhugaðar er að finna í 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga, en þar segir að þegar sótt sé um byggingar- eða framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmd sem sé í samræmi við aðalskipulag og deiliskipulag liggi ekki fyrir geti sveitarstjórn eða sá aðili sem heimild hefur til fullnaðarafgreiðslu mála, sbr. 6. gr. skipulagslaga, ákveðið að veita megi leyfi án deiliskipulagsgerðar ef framkvæmdin er í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar. Skal skipulagsnefnd þá láta fara fram grenndarkynningu. Fyrir liggur að umsókn um byggingarleyfið var synjað án undan­farandi grenndarkynningar.

Umsókn kæranda um byggingarleyfi var synjað með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa, dags. 19. nóvember 2021. Í umsögninni kemur fram að bílastæðum á lóðinni myndi fjölga talsvert með tilkomu bílageymslunnar. Samkvæmt talningu á loftmynd séu um 80 bílastæði á lóðinni í dag auk þess sem 20 stæði sem tilheyri lóðinni séu undir þakskyggni innan marka lóðar­innar við Skipholt 35. Þá kemur fram að Laugavegur 178 sé í góðum tengslum við almennings­samgöngur borgarinnar, en framan við húsið sé biðskýli strætisvagna sem fimm vagnaleiðir fari um Laugaveg/Suðurlandsbraut og Kringlumýrarbraut. Gert sé ráð fyrir að Borgar­línan muni fara um efri hluta Laugavegar og að samkvæmt frumdrögum fyrir fyrstu lotu hennar sé gert ráð fyrir Borgarlínustöð við gatnamót Laugavegar og Hátúns, beint norðvestan við Laugaveg 178. Ekki sé í gildi deiliskipulag og því séu engar heimildir til staðar sem heimili byggingu bílageymslu af þeim toga sem umsóknin sýndi. Þá er vísað til þess að stefna Aðalskipulags Reykjavíkur 2010-2030 sé almennt sú að ekki skuli fjölga bílastæðum frá núverandi aðstæðum og að bíla- og hjólastæðareglur Reykjavíkurborgar séu í gildi. Samkvæmt reglunum sé Laugavegur 178 skilgreindur innan svæðis 1 enda vel staðsettur m.t.t. aðgengis að almenningssamgöngum og göngu- og hjólastígum. Á svæði 1 sé stefnt sérstaklega að breyttum ferðavenjum. Heildarbyggingarmagn á lóðinni sé um 6.377 m2. Miðað við reglurnar ættu bílastæði á lóðinni að vera á bilinu 32-85. Enn frekari fjölgun bílastæða úr um 100 í 149 sé ekki í samræmi við stefnu borgarinnar. Var því tekið neikvætt í erindið.

Áðurnefndar reglur um fjölda bíla- og hjólastæða í Reykjavík voru samþykktar í skipulags- og samgönguráði 19. desember 2018 og í borgarráði 10. janúar 2019. Í reglunum kemur fram að þær lýsi kröfum um bíla- og hjólastæði innan lóða í Reykjavík vegna nýbygginga og/eða endurnýjunar byggðar og séu hluti af bíla- og hjólastæðastefnu aðalskipulags Reykjavíkur­borgar. Reglurnar skuli leggja til grundvallar við gerð hverfis- og deiliskipulags og við umsókn byggingarleyfa. Ekki var gerð breyting á stefnu um bíla- og hjólastæði í þágildandi Aðal-skipulagi Reykjavíkur 2010-2030 eftir að reglurnar voru samþykktar og verður því að leggja reglur aðalskipulagsins til grundvallar í máli þessu. Þess má þó geta að tilvísun til reglnanna er að finna á bls. 116 í núgildandi Aðalskipulagi Reykjavíkur 2040.

Samkvæmt þágildandi Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 var umrædd lóð á miðsvæði M2b – Holt-Laugavegur. Á bls. 51 og 208 í aðalskipulaginu kemur fram að gert sé ráð fyrir allnokkurri þéttingu byggðar á svæðinu, ekki síst í því skyni að skapa heildstæðari götumyndir. Fjallað er um stefnu varðandi bíla- og hjólastæði á bls. 154-155 í aðalskipulaginu. Fram kemur að markmið skipulagsins sé m.a. að skilyrði og kröfur um bíla- og hjólastæði taki mið af stöðu viðkomandi svæðis í borginni, staðsetningu, gerð og hlutverki svæðis. Áhersla sé lögð á að bílastæði í miðborginni og á lykilþróunarsvæðum verði neðanjarðar, inni í byggingum eða með þeim hætti að sem minnst röskun verði á götumyndinni. Þá segir ennfremur að reglur um bíla- og hjólastæði eftir svæðum í Reykjavík séu almenn viðmið fyrir viðkomandi svæði. Mögulegt sé að víkja frá þeim til hækkunar eða lækkunar við gerð hverfis- og/eða deiliskipulags og skuli það rökstutt sérstaklega. Þetta geti átt við um sérhæft húsnæði, svo sem skóla og hótel, og annað húsnæði þar sem erfitt sé að sjá bílastæðaþörfina fyrir. Frávikum frá almennum viðmiðum skuli halda í lágmarki, sérstaklega á svæði 1 og tilgreindum þróunarsvæðum.

Laugavegur 178 fellur innan svæðis 2 samkvæmt framangreindum bílastæðareglum þágildandi Aðalskipulags Reykjavíkur 2010-2030. Reglur fyrir svæði 2 kveða á um eitt bílastæði að hámarki fyrir 50 m2 atvinnu­húsnæðis. Samkvæmt upplýsingum í fasteignaskrá er byggingar-magn á Laugavegi 178, að undanskilinni bílageymslu sem samþykkt var árið 2008, 5.583 m2. Miðað við reglur þágildandi aðalskipulags var því heimild fyrir 112 stæðum á lóðinni. Umrædd umsókn um byggingarleyfi, þar sem gert er ráð fyrir 149 bílastæðum, var því ekki í samræmi við þágildandi Aðalskipulag Reykjavíkur 2010-2030. Var því skilyrði 1. mgr. 44. gr. skipulags­laga um að framkvæmd sé í samræmi við aðalskipulag ekki fullnægt, sbr. einnig 11. gr. og 1. tl. 1. mgr. 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki.

Með hliðsjón af framangreindu er kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna fjölda og umfangs kærumála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 23. nóvember 2021 um að synja umsókn um byggingarleyfi fyrir bílageymslu neðanjarðar á lóðinni Laugavegi 178.