Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

45/2022 Furugerði

Árið 2022, þriðjudaginn 27. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21 í Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 45/2022, kæra vegna óhæfilegs dráttar á afgreiðslu Reykjavíkur­borgar á erindi vegna fjölgunar bílastæða við Furugerði 2 í Reykjavík.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

 Með ódagsettu bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er móttekið var 10. maí 2022, kærir eigandi, Hlyngerði 1, Reykjavík, óhæfilegan drátt á afgreiðslu Reykjavíkurborgar á erindi kæranda frá 6. september 2020. Er þess farið á leit að lagt verði fyrir borgina að taka umrætt erindi þegar í stað til meðferðar.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 27. júní 2022.

Málavextir: Hinn 6. september 2020 sendi kærandi erindi til Reykjavíkurborgar og benti m.a. á að íbúar neðri hæðar hússins að Furugerði 2 hefðu stækkað bílastæði við vestanvert húsið. Rúmaði það nú tvo til þrjá bíla í stað eins áður. Lægi bílastæðið alveg upp að lóðarmörkum Hlyngerðis 1 og hlytist af þessu ónæði. Ekki virtist hafa verið aflað leyfis fyrir framkvæmdinni og væri þess krafist að Reykjavíkurborg nýtti heimildir sínar í lögum til að sjá til þess að bílastæðið yrði fært í fyrra horf. Með svarpósti 7. s.m. var kæranda tilkynnt að erindið hefði verið framsent til skilmálaeftirlits byggingarfulltrúa til frekari skoðunar og svara og með tölvupósti 22. septem­ber s.á. var kærandi upplýstur um að eigendum hefði verið sent bréf vegna málsins.

Í framhaldinu átti kærandi í töluverðum tölvupóstsamskiptum við borgina vegna málsins og fór m.a. fram á það við embætti byggingarfulltrúa að það beitti þeim úrræðum sem það hefði, þ.m.t. dagsektum, til að knýja á um að lóðin yrði færð í fyrra horf. Hinn 5. maí 2021 barst kæranda svohljóðandi tölvupóstur: „Embætti byggingarfulltrúa barst ábending, dags. 6. september 2020, vegna áður gerðs bílastæðis við Furugerði 2. Kvartandi fer fram á að embætti byggingarfulltrúa beiti dagsektum þar til lóðin verður færð í fyrra horf. Lóðarhafar höfðu þá um sumarið fjarlægt gróður og hellulagt í norðvesturhorni á lóð sinni. Í kjölfarið var lóðarhöfum sent bréf og óskað skýringa. Í skýringum kom fram að lóðarhafar hefðu einungis verið að laga lóðina hjá sér þ.m.t. helluleggja, smíða palla og fjarlægja gróður. Embætti byggingarfulltrúa tilkynnti lóðarhöfum í framhaldinu að óheimilt væri [að] nýta svæðið sem bílastæði á lóð án þess að sækja um það til skipulagsfulltrúa. Embætti byggingarfulltrúa telur umrædda framkvæmd lóðarhafa, þ.e. að fjar­lægja gróður og helluleggja innan lóðar, ekki byggingarleyfisskylda. Í ljósi þess og með hliðsjón af meðalhófsreglu stjórnsýsluréttarins mun embætti byggingarfulltrúa ekki beita svo íþyngjandi úrræðum sem farið er fram á, en bendir á að hægt er að hafa samband við Bílastæða­sjóð varðandi meint stöðubrot bifreiðar. Telst málinu lokið af hálfu byggingarfulltrúa.“

Kærandi hafði í kjölfar þessa samband við Bílastæðasjóð og með tölvupósti 8. júlí 2021 var honum greint frá því að farið yrði í eftirlit á svæðið á næstu dögum. Óskaði kærandi nánari upplýsinga um framvindu málsins með tölvupóstum 28. s.m., 6. og 28. september og 15. október s.á. og í svarpósti 20. október 2021 kom m.a. fram að eftirlit hefði farið fram. Jafnframt var bent á að mál af þessum toga og úrræði við þeim væru í heildstæðri skoðun á sviðinu, t.d. varðandi aðkomu skilmálaeftirlits/ byggingarfulltrúa þar sem valdsvið Bílastæðasjóðs væri afar takmarkað hvað þetta varðaði. Væri þess óskað yrði kærandi upplýstur um málið þegar frekari fregnir bærust. Með tölvupósti kæranda til Bílastæðasjóðs 18. nóvember 2021 var frekari upplýsinga óskað og erindið síðan ítrekað 31. mars 2022. Með svarpósti 4. apríl s.á. var kæranda tilkynnt að erindið hefði verið framsent til eftirlitsdeildar skilmálaeftirlitsins. Ítrekaði kærandi erindi sitt með tölvupóstum í apríl og maí 2022 og með tölvupósti 10. maí s.á. var kærandi upplýstur um að málið væri í skoðun í samvinnu við Bílastæðasjóð og vonast væri til að afstaða lægi fyrir innan fárra daga. Sama dag barst úrskurðarnefndinni kæra í máli þessu og 17. júní s.á. óskaði kærandi enn upplýsinga frá borginni hvenær vænta mætti þess að málinu yrði lokið. Hinn 27. s.m. barst kæranda eftirfarandi svar: „Eftirlitsdeild USK hefur tekið málefni Furugerðis 2 til skoðunar að því er varðar bílastæði á baklóð. Niðurstaða Eftirlits­deildarinnar er að umrætt bílastæði á baklóð er ekki í samræmi við samþykktar heimildir, en lóðar­blað hefur ekki verið uppfært til samræmis við samþykkt byggingarfulltrúa frá 22. nóvember 1984. Þar af leiðir eru einu stæðin sem samþykkt eru fyrir framan húsið. Eftirlitsdeild USK mun í framhaldinu upplýsa eiganda Furugerðis 2 um afstöðu eftirlitsins. Eigandi getur ákveðið að uppfæra lóðarblað og fá þannig bílastæði á baklóð samþykkt, en þarf þá að fella brott bíla­stæði fyrir framan hús. Eftirlitsdeild USK þakkar ábendinguna og mun áfram vinna að úrlausn málsins.“

Málsrök kæranda: Kærandi tekur fram að hann hafi ákveðið að kæra ekki ákvörðun frá 5. maí 2021 til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í ljósi þess að fram kæmi í henni að Bílastæðasjóður myndi taka á málinu. Tæplega tvo ár séu síðan erindið hafi fyrst verið sent til umhverfis- og skipulagssviðs. Frá því að kærandi hafi beint erindi sínu til Bílastæðasjóðs sé liðið meira en eitt ár. Enn bóli ekkert á svari og af fundargerðum byggingarfulltrúa og skipulagsfulltrúa sé ekki að sjá að erindið hafi verið tekið til meðferðar.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er þess krafist að málinu verði vísað frá úrskurðarnefndinni. Eftirlitsdeild byggingarfulltrúa hafi afgreitt kæruefnið og eigi kærandi ekki lengur lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Málsrök lóðarhafa Furugerðis 2: Af hálfu lóðarhafa er bent á að erindi kæranda eigi ekki undir verksvið úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Ekki sé verið að kæra ákvörðun heldur óska eftir áliti nefndarinnar á stjórnsýslu Reykjavíkurborgar. Slík mál heyri undir ráðu­neyti sveitarstjórnamála en ekki úrskurðarnefndina sem einungis sé falið það hlutverk að endurskoða úrskurði á sviði umhverfis- og skipulagsmála. Sé því mótmælt að nefndin taki afstöðu til málsins.

Lóðarhafar hafi ráðist í að laga lóðina framan við íbúð sína í fullu samráði við sameiganda hússins. Úr sér vaxinn gróður hafi verið fjarlægður og svæðið hellulagt. Í engu hafi verið átt við gangstétt né gangstéttarkant í eigu borgarinnar að öðru leyti en að lagfæra gangstéttina með fylliefnum vegna frostskemmda. Því sé mótmælt að lóðarhafar hafi þurft að óska eftir sérstöku samþykki kæranda fyrir endurbótunum. Samráð hafi hins vegar verið haft við kæranda þegar gróðurinn hafi verið fjarlægður og hellur lagðar. Í raun hafi kærandi óskað eftir því að úr sér vaxinn gróður á lóðarmörkum yrði fjarlægður. Liggi fyrir að lóðarhafar hafi á engan hátt gerst brotlegir og skýri það ef til vill að borgin hafi ekkert aðhafst í málinu.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi tekur fram að enn hafi ekki verið tekin ný ákvörðun í tilefni af erindi hans. Liggi heldur ekkert fyrir um hvenær það verði gert. Hvað sem því líði verði að líta svo á að í hinni breyttu afstöðu Reykjavíkurborgar felist afturköllun fyrri ákvörðunar. Sú ákvörðun hafi verið tilkynnt kæranda með tölvupósti starfsmanns eftirlits­deildar 5. maí 2021 þar sem kröfu um beitingu dagsekta hafi verið hafnað. Hafi borgin nú fallist á að þau rök sem færð hafi verið fram fyrir þeirri ákvörðun eigi ekki lengur við. Kærandi eigi því vissulega lögvarða hagsmuni af því að tekin sé ný afstaða til þeirrar kröfu og eigi með sama hætti lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins fyrir úrskurðarnefndinni. Þá sé málavaxtalýsingu lóðarhafa Furugerðis 2 mótmælt sem rangri, þ.á m. þeirri staðhæfingu að samráð hafi verið haft við kæranda áður en ráðist hafi verið í stækkun bílastæðisins.

 Viðbótarathugasemdir Reykjavíkurborgar: Af hálfu sveitarfélagsins er tekið fram að afstaða sveitarfélagsins sé enn sú sama.

Niðurstaða: Í máli þessu er til úrlausnar hvort afgreiðsla á erindi kæranda frá 6. september 2020 hafi dregist óhæfilega af hálfu Reykjavíkurborgar, þ.e. nánar tiltekið krafa hans um að borgin nýti heimildir sínar í lögum til að sjá til þess að bílastæði við Furugerði 2 verði fært í fyrra horf. Skilja verður erindið svo að í því felist m.a. beiðni um að borgin beiti þvingunar-úrræðum laga nr. 160/2010 um mannvirki og á því úrlausn um fyrrnefnt álitaefni undir úrskurðar­nefndina, sbr. 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en ákvörðun um beitingu þvingunar­úrræða sætir eftir atvikum endurskoðun nefndarinnar.

Líkt og fram kemur í málavaxtalýsingu var kröfu kæranda um beitingu þvingunarúrræða synjað 5. maí 2021 og ekki liggur fyrir að sú ákvörðun hafi verið afturkölluð. Jafnframt er þó ljóst að mál er varðar bílastæði við Furugerði 2 er enn í skoðun hjá Reykjavíkurborg, en fyrir liggur svar eftirlitsdeildar til kæranda frá 27. júní 2022 um að unnið verði áfram að úrlausn málsins. Hefur úrskurðarnefndin verið upplýst um það í tölvupósti 7. september sl. að eftirlitsdeildin hafi verið með mál kæranda í skoðun með Bílastæðasjóði, en ekki hafi náðst samstaða um að leggja á sektir yrði haldið áfram að leggja bifreiðum á um­­­ræddum hluta lóðarinnar. Stefnt væri að því að senda eiganda bréf í þessum mánuði þar sem gerð yrði krafa um að látið yrði af því að leggja á lóðinni.

Samkvæmt framangreindu verður að telja að Reykjavíkurborg hafi þegar afgreitt erindi kæranda frá 6. september 2020. Hvað sem öðru líður liggur fyrir að lagning bifreiða á umræddri lóð er enn í skoðun hjá eftirlitsdeild byggingarfulltrúa í kjölfar framsendingar erindisins frá Bílastæðasjóði. Í ljósi framvindu málsins þykir rétt að embætti byggingarfulltrúa, sem fyrrgreind eftirlitsdeild er hluti af, taki erindi kæranda vegna meintrar fjölgunar bílastæða á lóð Furugerðis 2 til endanlegrar úrlausnar.   

Úrskurðarorð:

 Embætti byggingarfulltrúans í Reykjavík er rétt að taka erindi kæranda vegna ætlaðrar fjölgunar bílastæða á lóð Furugerðis 2 í Reykjavík til endanlegrar afgreiðslu án ástæðulauss dráttar.