Árið 2024, þriðjudaginn 30. janúar, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:
Mál nr. 122/2023, kæra vegna dráttar á afgreiðslu máls „til fullnustu úrskurðar ÚUA frá 22. mars 2023 þar sem ekkert hefur verið gert til lúkningar niðurstöðu og úrskurðarorða ÚUA af hendi byggingarfulltrúa Reykjavíkur“.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 17. október 2023, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi Freyjubrunns 9 drátt á afgreiðslu máls „til fullnustu úrskurðar ÚUA frá 22. mars 2023 þar sem ekkert hefur verið gert til lúkningar niðurstöðu og úrskurðarorða ÚUA af hendi byggingarfulltrúa Reykjavíkur“.
Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 14. nóvember 2023.
Málavextir: Mál þetta hefur áður komið til kasta úrskurðarnefndarinnar. Á afgreiðslufundi skilmálaeftirlits umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar 26. september 2022 var tekin fyrir ábending kæranda um að lóðarhafar Gefjunarbrunns 10 og 12 nýttu götuna Freyjubrunn til geymslu byggingarefnis sem og ósk hans um að dyrum að húsi að Gefjunarbrunni 12 með umgengni út í Freyjubrunn yrði lokað. Byggingarfulltrúi sat fundinn og bókað var í fundargerð að dyrnar og veggur undir svölum væru í lagi og ekki stæði til að aðhafast í málinu. Í tilkynningu til kæranda um afgreiðsluna kom fram að dyrnar, aðkoman og geymslupláss undir tröppum væru að mati byggingarfulltrúa í samræmi við samþykkta aðaluppdrætti. Af hálfu eftirlitsdeildar og byggingarfulltrúa væri því ekki ástæða til að aðhafast í málinu og teldist því lokið. Með úrskurði í máli nr. 109/2022, uppkveðnum 22. mars 2022, felldi úrskurðarnefndin úr gildi þessa ákvörðun þar sem misræmis virtist gæta milli teikninga á aðaluppdráttum hússins að Gefjunarbrunni 12 að því er varðaði jarðvegsyfirborð undir svölum. Í því ljósi taldi nefndin að telja mætti að vafi léki á því hvort ásigkomulagi, frágangi, umhverfi eða viðhaldi húss, annars mannvirki eða lóðar væri ábótavant, sbr. 1. mgr. 56. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Því hefði verið tilefni til þess fyrir byggingarfulltrúa að rannsaka málið að nýju, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að ekkert hafi verið gert til að fullnusta niðurstöðu og úrskurðarorð úrskurðarnefndarinnar síðan úrskurður hafi legið fyrir í máli nr. 109/2022. Krafa kæranda sé óbreytt, þ.e. að steypa skuli upp í skarð á vegg Gefjunarbrunns 12 á mörkum bílastæða Freyjubrunns og loka fyrir umgengni út á bílastæði Freyjubrunns. Í framhaldi af steyptum svalavegg verði að steypa þriggja metra langan vegg. Ástandið í götunni hafi versnað þegar brotið hafi verið fyrir gluggum á kjallara Gefjunarbrunns 12 og hann leigður út til fyrirtækis sem hafi umgengni að honum frá Freyjubrunni. Byggingarfulltrúi hafi engar athugasemdir gert við þetta ástand þrátt fyrir ábendingar. Húsnæðis- og mannvirkjastofnun telji sig hafa heimild til eftirfylgni en geri ekkert. Málið hafi hafi víða fengið umfjöllun vegna geymslunnar undir svölum, en engin viðbrögð megi merkja.
Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er bent á að uppdrættir séu í samræmi við deiliskipulag Úlfarsárdals frá árinu 2018 að því er varði aðgengi lóðarhafa Gefjunarbrunns 12 um Freyjubrunn og geymslu undir svölum hússins. Byggingarfulltrúi standi við fyrri afstöðu sína um að ekki verði aðhafst vegna dyranna sem snúi að Freyjubrunni enda sé um lögmætt ástand að ræða. Í fyrra máli hafi verið fallist á að misræmi væri í uppdráttum að því er varði jarðvegsyfirborð. Í máli úrskurðarnefndarinnar nr. 109/2022 hafi úrskurðarnefndin komist að þeirri niðurstöðu að þetta misræmi leiddi til þess að vafi léki á því hvort ásigkomulagi, frágangi, umhverfi eða viðhaldi húss væri ábótavant, sbr. 1. mgr. 56. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Ákveðið hafi verið að grípa til aðgerða vegna Gefjunarbrunns 12 í kjölfar úrskurðarins en samband hafi verið haft við eigandann. Hann hafi boðið fram skýringar og verið veittur frestur til þess að skila inn leiðréttum uppdrætti og endanlegri útfærslu lóðarmarka milli Gefjunarbrunns 10 og 12.
Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi bendir á að breytingar á teikningum Gefjunarbrunns 12 breyti engu um kröfu um að lokað verði skarði á vegg og lokað fyrir aðgengi frá svalageymslu út í Freyjubrunn. Þess sé krafist að veggjum verði bætt á nýjar teikningar sem loki fyrir aðgengi.
Niðurstaða: Í máli þessu er kærður dráttur á afgreiðslu máls „til fullnustu úrskurðar ÚUA frá 22. mars 2023 þar sem ekkert hefur verið gert til lúkningar niðurstöðu og úrskurðarorða ÚUA af hendi byggingarfulltrúa Reykjavíkur“.
Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er það hlutverk nefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Samkvæmt framanröktu hefur Reykjavíkurborg til meðferðar mál sem varðar Gefjunarbrunn 12. Engin ákvörðun liggur fyrir í því máli sem borin verður undir nefndina og verður því að vísa frá kröfu kæranda að því leyti sem hún varðar það mál.
Samkvæmt 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal stjórnvald taka ákvarðanir í málum svo fljótt sem unnt er. Þá segir í 4. mgr. ákvæðisins að dragist afgreiðsla máls óhæfilega sé heimilt að kæra það til þess stjórnvalds sem ákvörðun í málinu verður kærð til. Er sú kæruheimild undantekning frá þeirri meginreglu 2. mgr. 26. gr. sömu laga að ekki sé hægt að kæra þær ákvarðanir sem ekki binda endi á mál fyrr en það hefur verið til lykta leitt. Einungis aðili máls getur borið slíka kæru fram og verður því að vísa einnig frá kröfu kæranda að því leyti sem hún varðar málsmeðferð Reykjavíkurborgar, enda er hann ekki aðili að málinu þótt hann kunni að njóta kæruréttar vegna ákvörðunar sem síðar kann að liggja fyrir.
Með vísan til framangreinds verður kæru í máli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.
Úrskurðarorð:
Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.