Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

66/2022 Breikkun Reykjanesbrautar

Árið 2022, þriðjudaginn 20. september, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

 Mál nr. 66/2022, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Hafnarfjarðarkaupstaðar frá 9. mars 2022 um að samþykkja að veitt verði framkvæmdaleyfi fyrir tvö­földun Reykjanes­brautar frá Krýsuvíkurvegi að Hvassahrauni.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlinda­mála, dags. 30. Júní 2022, er barst nefnd­inni sama dag, kærir einn eigenda Óttarsstaða, Hafnar­firði, þá ákvörðun bæjar­stjórnar Hafnarfjarðarkaupstaðar frá 9. mars 2022 að samþykkja að veitt verði fram­kvæmda­leyfi fyrir tvöföldun Reykja­nesbrautar frá Krýsu­víkurvegi að Hvassahrauni. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Þess er jafnframt krafist að fram­kvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar. Er því ekki til­efni til að taka afstöðu til stöðvunarkröfu kæranda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Hafnarfjarðarkaupstað 6. júlí 2022.

Álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfis­áhrifum vegna breikkunar Reykja­nesbrautar frá Krýsuvíkurvegi að Hvassahrauni í Hafnarfirði lá fyrir 21. desember 2021. Með umsókn til Hafnar­fjarðar­kaup­staðar hinn 18. febrúar 2022 sótti Vegagerðin um fram­kvæmda­­leyfi fyrir tvöföldun á um 5,6 km kafla Reykja­nesbrautar sem nær frá Krýsuvíkurvegi að enda fjögurra akreina brautarinnar á Hrauni vestan Straumsvíkur ásamt tengdum framkvæmdum. Umsóknin var lögð fram og samþykkt á fundi skipulags- og byggingarráðs 1. mars 2022. Skipulags­fulltrúa var falið að gefa út framkvæmda­leyfi og málinu vísað til staðfestingar í bæjarstjórn. Á fundi bæjarstjórnar Hafnarfjarðarkaupstaðar 9. mars 2022 var afgreiðsla skipulags- og byggingarráðs sam­þykkt. Skipulags­fulltrúi gaf út leyfi vegna framkvæmd­anna 24. maí s.á. og var auglýsing þar um birt í Frétta­blaðinu og Lögbirtingablaðinu 1. júní 2022.

Sveitarstjórn veitir framkvæmdaleyfi skv. 13. gr. skipulags­laga nr. 123/2010. Í 52. gr. laganna kemur fram að stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laganna sæti kæru til úrskurðarnefndarinnar. Hinn 14. septem­ber 2022 gerðist að bæjarstjórn Hafnar­fjarðar­kaupstaðar, samþykkti afgreiðslu skipu­­lags- og byggingarráðs frá 8. s.m. þar sem lögð var fram tillaga um að fella niður fram­kvæmda­­­leyfi Vega­gerðarinnar vegna tvöföldunar Reykjanesbrautar sem samþykkt hafði verið á fundi skipulags- og byggingarráðs 1. mars 2022, og staðfest í bæjarstjórn 9. s.m. Fram kemur að ástæða þessa hafi verið sú að greinargerð skv. 14. gr. skipulags­laga hefði ekki legið fyrir við afgreiðslu málsins.

Með þessu er ekki lengur í máli þessu til að dreifa gildri stjórn­valds­ákvörðun sveitarstjórnar sem skjóta má til úrskurðarnefndar­innar. Verður málinu því vísað frá nefndinni. Er um leið ekki tilefni til að reifa sjónarmið kæranda eða þeirra stjórnvalda sem að málinu koma.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.