Árið 2020, fimmtudaginn 30. apríl, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 26/2020, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Hveragerðisbæjar frá 5. mars 2020 um að samþykkja byggingaráform fyrir viðbyggingu íbúðarhúss á lóðinni að Kambahrauni 51.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 6. apríl 2020, er barst nefndinni 8. s.m., kæra eigendur Kambahrauns 60, Hveragerði, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Hveragerðisbæjar að samþykkja byggingaráform fyrir viðbyggingu íbúðarhúss að Kambahrauni 51. Þess er krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til framkominnar stöðvunarkröfu kærenda.
Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Hveragerðisbæ 20. apríl 2020.
Málavextir: Á fundi skipulags- og mannvirkjanefndar Hveragerðisbæjar 8. janúar 2019 var tekin fyrir umsókn um leyfi til að byggja við íbúðarhús og bílskúr á lóð nr. 51 við Kambahraun og stækka lóðina. Í umsókninni fólst að samþykktar yrðu viðbyggingar íbúðarhúss og bílskúrs og stækkun lóðarinnar til norðurs um 4,5 m. Eftir breytinguna yrði stærð íbúðar 172,5 m² og stærð bílskúrs 91 m². Flatarmál lóðar yrði 906,1 m² og nýtingarhlutfall hennar 0,29. Lagði nefndin til við bæjarstjórn að umsóknin yrði grenndarkynnt samkvæmt 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og samþykkti bæjarstjórn þá afgreiðsla á fundi sínum 10. janúar 2019. Athugasemdir bárust á kynningartíma umsóknarinnar frá kærendum. Að lokinni grenndarkynningu var málið tekið fyrir á fundi skipulags- og mannvirkjanefndar 5. mars s.á. þar sem lagt var til við bæjarstjórn að erindið yrði samþykkt en komið yrði til móts við athugasemdir varðandi framkvæmdir á svæði vestan lóðarinnar með því að mön yrði lækkuð um einn metra og hún opnuð með tveggja metra breiðu skarði til vesturs. Afgreiðsla skipulags- og mannvirkjanefndar var samþykkt í bæjarstjórn 14. mars 2019.
Kærendur kærðu ákvörðun bæjarstjórnar til úrskurðarnefndarinnar með kröfu um ógildingu hennar. Með úrskurði í máli nr. 27/2019, uppkveðnum 3. desember 2019, var kröfu um ógildingu ákvörðunar um stækkun lóðarinnar Kambahrauns 51 hafnað en málinu að öðru leyti vísað frá á þeirri forsendu að í hinni kærðu ákvörðun sveitarstjórnar fælist ekki lokaákvörðun um byggingarleyfi fyrir viðbyggingum á lóðinni í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Með tölvupósti til byggingarfulltrúa 25. febrúar 2020 fór leyfishafi fram á að fyrirhuguð viðbygging við íbúðarhús hans yrði metin sem tilkynningarskyld framkvæmd sem undanþegin væri byggingarleyfi samkvæmt gr. 2.3.5., sbr. gr. 2.3.6., í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Með svarbréfi byggingarfulltrúa, dags. 5. mars s.á., var leyfishafa tilkynnt samþykki fyrir því að viðbyggingin væri minniháttar framkvæmd sem undanþegin væri byggingarleyfi og að framkvæmdin samræmdist skipulagsáætlunum. Þá var og tekið fram að skila þyrfti inn uppdráttum af burðarvirki, pípulögnum og raflögnum. Hinn 5. mars 2020 samþykkti byggingarfulltrúi fyrirhugaðar framkvæmdir við íbúðarhús og bílskúr leyfishafa með áritun sinni um samþykki byggingaráforma.
Málsrök kærenda: Kærendur vísa til þess að byggingarfulltrúa hafi ekki verið heimilt að samþykkja umrædd byggingaráform á grundvelli gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 og að gefa hafi þurft út byggingarleyfi fyrir framkvæmdunum. Kærendum hafi verið tilkynnt að byggingaráformin hefðu verið samþykkt sem minniháttar framkvæmd með vísan til h-liðar gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð. Í 1. mgr. 9. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010 komi fram sú meginregla að óheimilt sé að grafa grunn fyrir mannvirki, reisa það, rífa eða flytja, breyta því, burðarkerfi þess eða lagnakerfum eða breyta notkun þess, útliti eða formi nema að fengnu leyfi viðkomandi byggingarfulltrúa. Mælt sé fyrir um undantekningu frá framangreindri meginreglu í 2. málsl. 1. mgr. 9. gr. þar sem kveðið sé á um heimild ráðherra til að kveða á um undanþágu frá kröfu um byggingarleyfi í byggingarreglugerð varðandi minniháttar mannvirkjagerð eða smávægilegar breytingar á mannvirkjum. Mælt sé fyrir um slíka undantekningu í h-lið gr. 2.3.5. reglugerðarinnar þar sem fram komi að viðbyggingar sem uppfylli ákveðin skilyrði séu undanþegnar byggingarleyfi. Eigi ákvæðið við um viðbyggingar sem séu innan byggingarreits, að hámarki 40 m2 og á einni hæð enda sé framkvæmdin í samræmi við deiliskipulag. Fyrir liggi að ekki hafi verið gert deiliskipulag fyrir umrædda lóð. Þegar af þeirri ástæðu geti ekki komið til skoðunar að fella framkvæmdina undir gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð og beri því að fella ákvörðunina úr gildi. Grenndarkynning geti ekki komið í stað skýrra fyrirmæla ákvæðisins um deiliskipulag enda um undanþáguákvæði að ræða sem skýra beri þröngt eftir orðanna hljóðan.
Í öðru lagi sé byggt á því að framkvæmdin standist ekki reglur grenndarréttar um innsýn og að ekki hafi verið tekið tillit til lögmætra réttinda og væntinga kærenda við afgreiðslu umsóknarinnar. Í þriðja lagi hafi við meðferð málsins ekki verið gætt að jafnræðisregla stjórnsýsluréttar, sem sé slíkur annmarki að ógilda beri ákvörðunina.
Málsrök Hveragerðisbæjar: Bæjaryfirvöld benda á að skipulagsyfirvöld og bæjarstjórn hafi að undangenginni grenndarkynningu tekið þá afstöðu að fyrirhuguð framkvæmd væri í fullu samræmi við skipulagsáætlanir í aðalskipulagi og þéttleika byggðar. Í gr. 2.3.6. í byggingarreglugerð nr. 112/2012, um málsmeðferð vegna tilkynntra framkvæmda, standi: „Yfirferð leyfisveitanda vegna framkvæmda sem tilkynntar eru skv. 2.3.5. gr. takmarkast við það að fara yfir hvort framkvæmdin samræmist skipulagsáætlunum og hún sé innan þeirra marka sem tilgreind eru í ákvæðinu.“ Bæjaryfirvöld geti ekki túlkað ákvörðun skipulagsnefndar og bæjarstjórnar öðruvísi en svo að fyrirhuguð framkvæmd samræmist skipulagsáætlunum sveitarfélagsins ekkert síður en ef um byggingarreit og deiliskipulag væri að ræða. Þess vegna hafi afgreiðslan verið í fullu samræmi við markmið greinar 2.3.5. í byggingarreglugerð.
Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi vísar til þess að hin kærða ákvörðun leiði hvorki til skerðingar á lífsgæðum kærenda innan veggja heimilis þeirra né á útsýni þeirra til fjalla þar sem tekið hafi verið fullt tillit til þess við hönnun fyrirhugaðs mannvirkis.
Niðurstaða: Svo sem rakið er í málavaxtalýsingu fór leyfishafi fram á það við byggingaryfirvöld að fyrirhuguð stækkun íbúðarhúss á lóðinni Kambahrauni 51 yrði metin sem minniháttar framkvæmd sem undanþegin væri byggingarleyfi samkvæmt gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Vísað var til h-liðar ákvæðisins þar sem heimilað er að reisa allt að 40 m² einnar hæðar viðbyggingu við mannvirki án byggingarleyfis sé hún innan byggingarreits. Ákvæðið tilgreinir með tæmandi hætti þær framkvæmdir og breytingar sem eru undanþegnar byggingarleyfi, en sett er það skilyrði að þær séu í samræmi við deiliskipulag. Ákvæðið felur í sér undantekningar frá meginreglu 1. mgr. 9. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010 um byggingarleyfisskyldu og verður því að skýra ákvæðið þröngri lögskýringu. Lóðin Kambahraun 51 er á ódeiliskipulögðu svæði og því var ekki unnt samkvæmt ótvíræðu orðalagi ákvæðisins að undanþiggja heimilaðar framkvæmdir byggingarleyfi. Hvað sem því líður samþykkti byggingarfulltrúi umsókn leyfishafa um fyrirhugaða viðbyggingu með áritun sinni á aðaluppdrætti hinn 5. mars 2020 en ekki liggur fyrir þrátt fyrir eftirgrennslan úrskurðarnefndarinnar að byggingarleyfi fyrir framkvæmdunum samkvæmt 13. gr. laga um mannvirki hafi verið gefið út.
Í 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er kveðið á um að skipulagsnefnd skuli láta fara fram grenndarkynningu þegar sótt sé um byggingarleyfi fyrir framkvæmd sem sé í samræmi við aðalskipulag liggi deiliskipulag ekki fyrir. Byggingarleyfisumsókn leyfishafa var grenndarkynnt í upphafi árs 2019 og að henni lokinni hlaut hún samþykki bæjarstjórnar 14. mars 2019.
Samkvæmt 4. mgr. 44. gr. skipulagslaga skal grenndarkynning fara fram að nýju áður en leyfi er veitt hafi byggingar- eða framkvæmdarleyfi á grundvelli grenndarkynningar ekki verið gefið út innan eins árs frá afgreiðslu sveitarstjórnar samkvæmt 2. mgr. 44. gr. laganna. Fyrir liggur að meira en ár er nú liðið frá samþykkt sveitarstjórnar fyrir umdeildri viðbyggingu að Kambahrauni 51 án þess að byggingarleyfi hafi verið gefið út og verður því samkvæmt greindu ákvæði að grenndarkynna umsótt byggingaráform að nýju og afgreiða byggingarleyfisumsóknina í kjölfar þess.
Með vísan til þess sem að framan er rakið verður ekki hjá því komist að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi.
Úrskurðarorð:
Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa Hveragerðisbæjar frá 5. mars 2020 um að samþykkja byggingaráform fyrir viðbyggingu íbúðarhúss á lóðinni að Kambahrauni 51.