Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

55/2018 Gagnheiði

Árið 2019, miðvikudaginn 29. maí, tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðar-nefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir mál nr. 55/2018 með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr. l. nr. 130/2011.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 19. apríl 2018, er barst nefndinni sama dag, kærir ÞGÁ trésmíði slf., eigandi Gagnheiðar 19, Selfossi, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Sveitarfélagsins Árborgar frá 19. mars 2018 að synja um afturköllun byggingarleyfis fyrir endurbyggingu húss að Gagnheiði 17, stöðvun framkvæmda og eftir atvikum beitingu þvingunarúrræða.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Sveitarfélaginu Árborg 7. júní 2018.

Málavextir: Fasteignirnar Gagnheiði 17 og 19, Selfossi, voru á sínum tíma í eigu leyfishafa. Hann byggði tengigang á milli eignanna og samnýtti þær. Hinn 27. október 2005 afsalaði leyfishafi til kæranda iðnaðarhúsnæðinu við Gagnheiði 19 ásamt hluta af nefndri tengibyggingu. Í kjölfar sölunnar var tengibyggingunni lokað þar sem hún mætti húsinu að Gagnheiði 17 en það hús eyðilagðist í bruna árið 2015 ásamt hluta tengibyggingarinnar. Í kjölfar brunans sótti kærandi um byggingarleyfi fyrir lokun tengibyggingarinnar og var umsóknin samþykkt 2. desember 2015 með fyrirvara um samþykki eiganda Gagnheiðar 17. Það samþykki lá ekki fyrir þegar ráðist var í framkvæmdir samkvæmt byggingarleyfinu við endurbyggingu og lokun tengibyggingarinnar.

Byggingarleyfi fyrir nýju húsi á lóðinni Gagnheiði 17 var samþykkt á fundi skipulags- og byggingarnefndar sveitarfélagsins 5. apríl 2017. Í ljós kom þegar hafist var handa við byggingu hússins að tengibyggingin hafði verið endurbyggð og liggur að hluta innan sökkuls og þar með innan byggingarreits lóðarinnar Gagnheiði 17 samkvæmt mælingu skipulags- og byggingarfulltrúa og verkfræðings á vettvangi. Með bréfi, dags. 1. janúar 2018, gerði kærandi þá kröfu að fyrrgreint byggingarleyfi yrði afturkallað og frekari framkvæmdir stöðvaðar vegna ágalla á umdeildri ákvörðun. Kæranda var tilkynnt með bréfi, dags. 19. mars 2018, að ekki yrði séð að annmarki hafi verið á ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa þegar byggingarleyfi vegna Gagnheiðar 17 hafi verið veitt. Kröfum kæranda um afturköllun byggingarleyfis, stöðvun framkvæmda og eftir atvikum beitingu þvingunarúrræða væri því hafnað.

Málsrök kæranda: Kærandi styður kröfu sína um afturköllun byggingarleyfisins með þeim rökum að tengibygging hans og húsið að Gagnheiði 17 sé fjöleignarhús í skilningi laga um fjöleignarhús nr. 26/1994 og því hafi borið að fá samþykki meðeiganda áður en hið kærða byggingarleyfi var gefið út. Þá byggi ákvörðun sveitarfélagsins á ófullnægjandi gögnum sem og að byggingarleyfishafi hafi vísvitandi haldið gögnum frá embætti skipulags- og byggingarfulltrúa sem vörðuðu umsókn hans. Hin kærða ákvörðun kunni að skapa leyfishafa aukinn rétt á kostnað annarra eigenda hússins að Gagnheiði 17.

Málsrök Sveitarfélagsins Árborgar: Af hálfu sveitarfélagsins er vísað til þess að Gagnheiði 17 sé atvinnuhúsnæði og því heimilt að víkja frá almennum reglum sem fram komi í ákvæðum laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús, sbr. 2. mgr. 2. gr. laganna. Afturköllun ákvörðunarinnar yrði til tjóns fyrir leyfishafa og þá verði ekki séð að annmarki hafi verið á ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa þegar byggingarleyfi vegna Gagnheiðar 17 var veitt. Kröfum kæranda um afturköllun byggingarleyfis, stöðvun framkvæmda og eftir atvikum beitingu þvingunarúrræða vegna framkvæmda að Gagnheiði 17 sé því hafnað.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi tekur fram að samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála sé kærufrestur nefndarinnar einn mánuður frá því kæranda var kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina. Byggingarleyfi fyrir byggingu að Gagnheiði 17 hafi verið samþykkt 5. apríl 2017 og hafi framkvæmdir hafist í beinu framhaldi. Krafa kæranda um afturköllun byggingarleyfisins sé dagsett 1. janúar 2018 og því hafi framkvæmdir verið vel á veg komnar og níu mánuðir liðnir frá samþykkt byggingarleyfisins. Þá sé byggingin að Gagnheiði 17 við hlið fasteignar kæranda að Gagnheiði 19. Það hafi ekki getað farið fram hjá honum að gefið hafi verið út byggingarleyfi fyrir byggingu að Gagnheiði 17. Kærufrestur hafi því verið liðinn þegar kæran var send skipulags- og byggingarfulltrúa Árborgar.

Fallist úrskurðarnefndin ekki á að vísa kærunni frá nefndinni sé þess krafist að henni verði hafnað. Framkvæmdir leyfishafa séu í samræmi við útgefið byggingarleyfi. Byggingarleyfið veiti rétt til framkvæmda á eignum leyfishafa. Hvergi sé gengið á lögvarinn rétt eða eignarréttindi kæranda. Að kærandi hafi í heimildarleysi endurbyggt útbyggingu inn á sökkla leyfishafa veiti það honum engan rétt til að krefjast afturköllunar byggingarleyfis. Kærandi hafi með ólögmætum athöfnum sínum bakað leyfishafa umtalsvert fjártjón sem sé bótaskylt.

Niðurstaða: Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum í veðbandsyfirliti frá Þjóðskrá Íslands urðu eigendaskipti að umræddri tengibyggingu milli fasteignar kæranda að Gagnheiði 19 og Gagnheiðar 17. Í afsali, þinglýstu 29. mars 2019, lýsti kærandi Sveitarfélagið Árborg réttan og lögmætan eiganda tengibyggingarinnar sem stendur á lóðinni Gagnheiði 17.

Í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kveðið á um að þeir einir geti skotið máli til úrskurðarnefndarinnar sem eigi lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun. Lögvarðir hagsmunir kæranda í máli þessu voru tengdir réttarstöðu hans sem eiganda áðurnefndrar tengibyggingar, m.a. með tilliti til laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús. Eins og fyrr er rakið á kærandi ekki lengur réttindi tengd umræddri fasteign og hefur hann því ekki lengur hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi hinnar kærðu ákvörðunar.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.