Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

109/2018 Sundhöll Keflavíkur

Árið 2019, fimmtudaginn 23. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 109/2018, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Reykjanesbæjar frá 15. maí 2018 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Framnesvegar 11.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 11. ágúst 2018, er barst nefndinni 13. s.m., kærir A, Reykjanesbæ, þá ákvörðun bæjarstjórnar Reykjanesbæjar frá 15. maí 2018 að samþykkja breytingu á deili­skipulagi Framnesvegar 11. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjanesbæ 13. september 2018.

Málavextir: Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Reykjanesbæjar 8. maí 2018 var breyting á deiliskipulagi Framnesvegar 11 samþykkt að undangenginni auglýsingu tillögu þar um. Fól deiliskipulagið m.a. í sér heimild til niðurrifs Sundhallar Keflavíkur að Framnesvegi 9 og bárust á kynningartíma tillögunnar athugasemdir þar sem fyrirhuguðu niðurrifi var mótmælt. Var afgreiðsla umhverfis- og skipulagsráðs staðfest af bæjarstjórn 15. s.m. og tók deiliskipulags­breytingin gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 12. júlí s.á.

Málsrök kæranda: Kærandi vísar til þess að Sundhöll Keflavíkur hafi verið byggð árið 1945 og teiknuð af Guðjóni Samúelssyni, þáverandi húsameistara ríkisins, og Bárði Ísleifssyni arkitekt. Minjastofnun hafi staðfest í bréfi sínu 23. febrúar 2018 að í húsinu felist mikil menningarsöguleg verðmæti. Kærandi sé uppalin í Keflavík og hafi stundað sundnám í sundhöllinni og búi nú innan við 900 m frá henni. Byggt sé á því að tilvist sundhallarinnar hafi almennt og ríkt gildi fyrir alla íbúa Reykjanesbæjar. Kærandi sé formaður Hollvinasamtaka Sundhallarinnar í Keflavík, sem hefur barist fyrir því að húsið fái að standa áfram.

Það félag sem eigi Sundhöll Keflavíkur hafi óskað eftir hinni umdeildu deiliskipulagsbreytingu. Meðal þeirra sem greitt hafi deiliskipulagstillögunni atkvæði hafi verið bróðurdóttir annars af eigendum félagsins. Fyrir hendi séu alvarlegir efnis- og formannmarkar á hinni kærðu ákvörðun. Bæjaryfirvöld hafi við meðferð málsins ítrekað farið rangt með staðreyndir við framsetningu og kynningu á þeim hluta tillögunnar sem varði sundhöllina. Ekkert tillit hafi verið tekið til athugasemda sem hafi borist frá íbúum í formlegu athugasemdaferli og þeim hvergi svarað.

Málsrök Reykjanesbæjar: Af hálfu sveitarfélagsins er bent á að kærandi hafi ekki gert grein fyrir því hvaða einstaklegu og lögvörðu hagsmuni hann hafi í málinu, en það sé skilyrði aðildar að kæru fyrir úrskurðarnefndinni þegar einstaklingur eigi í hlut. Ljóst sé að heimili kæranda sé í það mikilli fjarlægð frá skipulagssvæðinu að hin umdeilda ákvörðun geti ekki haft sjónræn áhrif eða önnur grenndaráhrif sem snerti lögvarða hagsmuni kæranda. Verði því að vísa málinu frá á grundvelli aðildarskorts.

Sé það ætlun kæranda að koma einnig fram fyrir hönd Hollvinasamtaka Sundhallar Keflavíkur sé á það bent að félagið geti ekki átt aðild að kærumáli þessu án þess að eiga þá einstaklegu og lögvörðu hagsmuni sem að jafnaði séu skilyrði aðildar á þessu sviði, en ekki liggi fyrir að svo sé.

Niðurstaða: Í samræmi við 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einstaklingar einir átt aðild að kærumáli fyrir nefndinni sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á. Í samræmi við aðildarhugtak stjórnsýsluréttarins hefur þetta skilyrði verið túlkað svo að þeir einir teljist eiga lögvarða hagsmuni sem eiga einstaklegra hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra og jafnframt að þeir hagsmunir séu verulegir.

Kærandi er búsettur í 900 m fjarlægð frá umræddri sundhöll sem fjarlægja á skv. hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu. Verður henni af þeim sökum því ekki játuð kæruaðild á þeim grundvelli að grenndarhagsmunir hennar skerðist. Kærandi byggir og lögvarða hagsmuni sína á því að tilvist sundhallarinnar hafi almennt og ríkt menningarsögulegt gildi fyrir alla íbúa Reykjanesbæjar. Þau málsrök lúta að gæslu hagsmuna sem telja verður almenna.

Með hliðsjón af framangreindu uppfyllir kærandi ekki skilyrði kæruaðildar samkvæmt fyrrgreindri 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 í máli þessu og verður málinu því vísað frá úrskurðarnefndinni sökum aðildarskorts.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.