Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

28/2017 Bjargartangi

Árið 2018, fimmtudaginn 2. ágúst, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 28/2017, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Mosfellsbæjar frá 22. febrúar 2017 um að hafna umsókn um gerð bílastæðis fyrir neðan húsið á lóðinni Bjargartanga 4, Mosfellsbæ.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 9. mars 2017, er barst nefndinni sama dag, kærir eignandi, Bjargartanga 4, Mosfellsbæ, þá ákvörðun bæjarstjórnar Mosfellsbæjar frá 22. febrúar s.á að hafna umsókn hans um gerð bílastæðis fyrir neðan húsið á lóðinni Bjargartanga 4, Mosfellsbæ. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Mosfellsbæ 6. apríl 2017.

Málavextir: Hinn 2. febrúar 2017 sótti kærandi um leyfi bæjaryfirvalda Mosfellsbæjar til að gera bílastæði neðan við hús sitt að Bjargartanga 4 með aðkomu frá Álfatanga. Erindinu var synjað á fundi skipulagsnefndar 13. febrúar s.á. og var sú afgreiðsla staðfest á fundi bæjarstjórnar 22. febrúar 2017.

Málsrök kæranda: Kærandi vísar til þess að nauðsynlegt sé að fá bílastæði fyrir neðan húsið. Tvö bílastæði séu nú þegar á lóðinni með aðkomu frá Bjargartanga sem bæði séu notuð af íbúum efri hæðar hússins. Leigjendur á neðri hæðinni hafi ekki aðgang að bílastæði á lóðinni og þurfi því að leggja bílum sínum úti á götu eða uppi á gangstétt sem skapi óþægindi fyrir þá og vegfarendur. Aðgengi að íbúð á neðri hæð frá Bjargartanga sé slæmt en ganga þurfi niður stiga að íbúðinni sem geti verið hættulegt sérstaklega þegar um eldra fólk sé að ræða. Með því að gera bílastæði fyrir neðan húsið með aðkomu frá Álfatanga yrði íbúðin hins vegar gerð aðgengileg fyrir alla, þar með talið hreyfihamlaða. Fordæmi séu fyrir því í götunni að hafa bílastæði með aðkomu fyrir neðan hús en slík bílastæði séu á lóðunum Bjargartanga númer 2 og 10.

Málsrök Mosfellsbæjar: Af hálfu Mosfellsbæjar er vísað til umferðaröryggissjónarmiða, en við ákvarðanatökuna hafi m.a. verið höfð hliðsjón af ákvæði 12.10.1 byggingarreglugerðar nr. 112/2012. Þar sé kveðið á um að aðkoma að hverri byggingu, bílastæði og almennt göngusvæði við og að byggingu skuli þannig staðsett og frágengin að aðgengi að byggingunni sé auðvelt öllum og ekki skapist slysahætta á svæðinu. Bent sé á að umferð við Álfatanga sé þung og þar fari strætó meðal annars um. Umferð hafi aukist á undanförnum árum með auknum íbúafjölda í Mosfellsbæ. Því sé varhugavert að heimila gerð bílastæðis sem liggi beint að götunni. Aðstæður hafi verið aðrar þegar Mosfellsbær hafi samþykkt aðkomu að Bjargartanga 10 frá Álfatanga, en á þeim tíma hafi verið færri íbúar í Mosfellsbæ og mun minni umferð um Álfatanga. Því sé ekki hægt að líta á það leyfi sem fordæmi í því máli sem hér sé til skoðunar.

Niðurstaða: Í máli þessu er kærð sú ákvörðun bæjarstjórnar Mosfellsbæjar frá 22. febrúar 2017 að synja erindi kæranda um að gera bílastæði fyrir neðan húsið að Bjargartanga 4 með aðkomu frá Álfatanga.

Svæðið sem Bjargartangi 4 heyrir til hefur ekki verið deiliskipulagt, en samkvæmt gildandi Aðalskipulagi Mosfellsbæjar 2011-2030 er landnotkun umrædds svæðis íbúðarsvæði. Flokkast þessi hluti Álfatangi sem safngata með hámarkshraða 50 km/klst. Um safngötur segir nánar í aðalskipulaginu að þær séu aðalgötur íbúðarhverfanna. Í undantekningartilfellum geti þær nýst sem tengingar milli hverfa og séu þær með 30 og/eða 50 km/klst. hámarkshraða allt eftir aðstæðum. Þá segir um húsagötur að þær verði almennt með 30 km/klst. hámarkshraða og í einstaka tilvikum 15 km/klst. Strætó gengur um Álfatanga auk þess sem gatan tekur við umferð úr húsagötum hverfisins. Má því búast við þó nokkurri umferð um Álfatanga og að sama skapi má ljóst vera að bílastæði með aðkomu frá götunni geti aukið hættu á slysum og ógnað umferðaröryggi. Lágu því málefnaleg sjónarmið að baki synjun Mosfellsbæjar.

Árið 1984 samþykkti Mosfellsbær gerð bílastæðis á lóðinni Bjargartanga 10 með aðkomu frá Álfatanga. Úrskurðarnefndin tekur undir sjónarmið bæjarins um að aðstæður hafi breyst frá þeim tíma þar sem fjöldi íbúa í bænum hefur aukist til muna og umferð aukist samhliða. Þegar af þeirri ástæðu voru ekki fyrir hendi sambærilegar aðstæður og við synjun á erindi kæranda nú. Kærandi hefur einnig bent á bílastæði fyrir neðan húsið að Bjargartanga 2, en aðkoma að því er frá Langatanga, sem er húsagata, og er því ekki um sambærilegt tilvik að ræða. Skorti því ekki á að jafnræðis væri gætt við afgreiðslu umsóknar kæranda.

Með vísan til framangreinds verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar bæjarstjórnar Mosfellsbæjar frá 22. febrúar 2017 um synjun á umsókn um gerð bílastæðis við Bjargartanga 4 Mosfellsbæ.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                        Þorsteinn Þorsteinsson