Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

69/2016 Hótel í landi Rauðsbakka

Árið 2017, fimmtudaginn 26. janúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 69/2016, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Rangárþings eystra frá 7. apríl 2016 um að samþykkja nýtt deiliskipulag fyrir hótel á jörðinni Rauðsbakka.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 15. júní 2016, er barst nefndinni 22. s.m., kærir V, eigandi Berjaness, Hvolsvelli, þá ákvörðun sveitarstjórnar Rangárþings eystra frá 7. apríl 2016 að samþykkja nýtt deiliskipulag fyrir hluta úr jörðinni Rauðsbakka. Með bréfi, dags. 26. júní s.á., er barst nefndinni 27. s.m., kærir H, eigandi Miðbælisbakka, Hvolsvelli, sömu ákvörðun Rangárþings eystra og er það mál nr. 72/2016. Verður að skilja málskot kærenda svo að gerð sé krafa um að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Með bréfi, dags. 24. nóvember 2016, er barst nefndinni sama dag, og bréfi, dags. 30. s.m., er barst nefndinni 1. desember s.á., kæra sömu aðilar jafnframt þá ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa sveitarfélagsins frá 1. júlí s.á. að samþykkja byggingarleyfi fyrir hóteli á deiliskipulagssvæðinu. Eru þau mál nr. 156/2016 og nr. 158/2016. Verður að skilja málskot kærenda svo að gerð sé krafa um að jafnframt þessi ákvörðun verði felld úr gildi.

Verða greind kærumál, nr. 72/2016, 156/2016 og 158/2016, öll sameinuð máli þessu þar sem þau eru samofin og hagsmunir kærenda þykja ekki standa því í vegi.

Með tölvupósti 11. nóvember 2016 krefst annar kærenda þess að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nú nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar. Er því ekki tilefni til að taka afstöðu til stöðvunarkröfu kæranda.

Gögn málsins bárust frá Rangárþingi eystra 17. ágúst og 8. desember 2016.

Málavextir: Jörðin Rauðsbakki, landnúmer 163709, er um 58 ha að stærð samkvæmt upplýsingum úr fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands. Þar af er 9,9 ha ræktað land og á jörðinni er véla- og verkfærageymsla frá árinu 1971 skráð sem eini húsakosturinn. Tiltekið er um landið að það sé jörð í byggð. Er jörðin og skráð sem lögbýli, en er ekki merkt sem eyðibýli í lögbýlaskrá. Þar kemur jafnframt fram að jörðin sé ekki í ábúð, en hún mun hafa verið í eyði síðan 1965. Jörðin er staðsett undir Eyjafjöllum og nær hið kærða deiliskipulag til 5,7 ha svæðis innan hennar, sem liggur um 1.600 m suður af þjóðvegi 1.

Á fundi skipulagsnefndar Rangárþings eystra, sem haldinn var 1. október 2015, var tekin fyrir umsókn eiganda Rauðsbakka um heimild til að vinna deiliskipulag fyrir hluta af jörðinni. Meðfylgjandi var lýsing fyrirhugaðrar deiliskipulagsáætlunar, dags. 10. september s.á. Samkvæmt lýsingunni var gert ráð fyrir gististað eða hóteli með 1-2 hæða húsum og allt að 1.500 m2 byggingarmagni á deiliskipulagssvæðinu. Skipulagsnefnd lagði til við sveitarstjórn að umsóknin yrði samþykkt og að framlögð lýsing yrði kynnt fyrir almenningi, Skipulagsstofnun og öðrum umsagnaraðilum skv. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Á fundi sínum 8. október s.á. samþykkti sveitarstjórn tillögu nefndarinnar. Kynningartími lýsingarinnar var frá 20. nóvember 2015 til 4. janúar 2016.

Að lokinni kynningu var málið tekið fyrir á fundi skipulagsnefndar að nýju hinn 4. febrúar 2016. Umsagnir höfðu borist frá Heilbrigðiseftirliti Suðurlands, Skipulagsstofnun, Umhverfisstofnun og Veðurstofunni. Að þeim fengnum var unnin deiliskipulagstillaga og mælst til þess að hún yrði auglýst ásamt umhverfisskýrslu í samræmi við 41. gr. skipulagslaga. Hinn 11. s.m. samþykkti sveitarstjórnin að auglýsa deiliskipulagstillöguna og var athugasemdafrestur tillögunnar frá 16. febrúar til 29. mars s.á. Á sama fundi sveitarstjórnar var samþykkt að skipta svæði því sem deiliskipulagstillagan náð til, alls um 5,7 ha að flatarmáli, úr landi Rauðsbakka landnr. 163709.

Hinn 7. apríl 2016 samþykkti skipulagsnefnd svör við innkomnum athugasemdum, svo og breytta deiliskipulagstillögu m.t.t. til þeirra. Var þó gerður fyrirvari um jákvæða umsögn Fiskistofu, sem svo barst 4. maí s.á. Hinn 8. apríl s.á. samþykkti sveitarstjórn framangreind svör og breytta tillögu og jafnframt að breytt deiliskipulagstillaga yrði send Skipulagsstofnun til yfirferðar skv. 42. gr. skipulagslaga. Stofnunin gerði ekki athugasemd við birtingu auglýsingar um samþykkt deiliskipulagsins að því tilskyldu að horfið hefði verið frá þeim landskiptum sem samþykkt hefðu verið í sveitarstjórn 11. febrúar s.á., enda næði 5,7 ha lóð ekki þeim stærðarmörkum lands sem aðalskipulag gerði kröfu um. Hinn 14. júní 2016 birtist svo auglýsing um gildistöku deiliskipulagsins í B-deild Stjórnartíðinda. Samkvæmt deiliskipulaginu er gert ráð fyrir allt að 1.300 m2 byggingu með 7,0 m hámarkshæð og allt að 30 gistirými á jörðinni Rauðsbakka.

Hinn 1. júlí 2016 samþykkti byggingarfulltrúi Rangárþings eystra byggingarleyfi fyrir 28 herbergja, 1.235,7 m2, hóteli með stoð í hinu kærða deiliskipulagi.

Málsrök kærenda: Kærendur telja ljóst að fyrirhuguð bygging hins kærða hótels muni hafa verulega röskun í för með sér fyrir þá sem næst búi eða dvelji. Byggingin sé svo einkennilega staðsett að það trufli útsýni á svæðinu og sé líkast því að vinna hafi verið lögð í að velja þann stað þar sem byggingin myndi hafa mest truflandi áhrif gagnvart nágrönnum. Það sé sérstakt áhyggjuefni kærenda hversu mikið hótelið myndi rýra verðmæti Miðbælisbakka, en nefna megi að fyrir u.þ.b. ári hafi Rangárþing eystra veitt eiganda leyfi til að leigja bæinn út til ferðamanna. Rólegt umhverfi, kyrrð og fuglasöngur, ásamt útsýni til allra átta, sé aðalsmerki þessa staðar. Verði hótel hins vegar reist á þeim stað sem fyrirhugað sé að það rísi verði þetta liðin tíð og staðurinn missi aðdráttarafl sitt. Megi þá búast við umferð hópbifreiða og fólksbifreiða á öllum tímum sólarhringsins. Svo ekki sé minnst á að það færist í vöxt að þyrlur lendi við hótel í umræddri sveit. Byggingarreitur hótelsins sé áætlaður í rúmlega 200 m fjarlægð frá íbúðarhúsinu að Miðbælisbökkum.

Þá hafi verið bent á að með því að færa byggingarreitinn norðar, nær bænum á Rauðsbakka eða jafnvel norður fyrir bæinn, þá myndu þessi fyrirséðu vandamál hverfa að miklu leyti og sátt kæmist á. Fleira styðji nauðsyn þess. Fyrst megi nefna að aðkomuleiðir í lönd annarra landeigenda á svæðinu liggi um fyrirhugað byggingarstæði og fáist ekki séð á uppdrætti að ný leið komi í staðinn. Þarna sé einnig eina leiðin sem sé öllum hlutaðeigandi fær að Miðbælisfjöru, en fyrirhuguð bygging myndi loka þessum leiðum. Þá furði kærandi sig á því hve litlar kröfur byggingaryfirvöld geri til grunnþátta, svo sem neysluvatns og frárennslis. Um aldaraðir hafi verið erfitt að ná til neysluvatns á þessu svæði. Þá sé rotþró áhyggjuefni, en mikið vatn muni fara í hana frá hótelinu og jarðvegurinn taki svo við. Stutt sé í Svaðbælisá þar sem veiddur sé matfiskur.

Ekki hafi farið fram grenndarkynning og nágrönnum með því gert ljóst hvað væri á ferðinni, en sjö metra há bygging á mjög umdeildum stað gagnvart þremur nágrönnum hljóti að kalla á sérstaka kynningu. Gagnrýnivert sé að svör við athugasemdum séu tekin saman af fyrirtæki í Reykjavík, sem hafi sjálft séð um hönnun skipulagsins og gerð uppdrátta af staðnum. Þá beri að hafa í huga að þegar svona rekstur sé kominn á verði hann ríkjandi innan stórs radíuss frá hótelinu og það sem fyrir er víki. Græðgishyggjan meti einskis ræktun túna eða tilfinningar þeirra sem fyrir séu á svæðinu. Kærendum sé ekki kunnugt um að fram hafi farið athugun á því hvort álagablettir eða sérstakir sagnablettir séu á þessu svæði. Kærendur vísi aukinheldur til þess að svæðið sem um ræðir sé komið yfir þau 5 ha mörk sem fram komi í 6. gr. jarðalaga nr. 81/2004 og þurfi því að liggja fyrir leyfi ráðherra fyrir breyttri landnotkun.

Þá vísi kærendur til þess að byggingarstjóri framkvæmdanna hafi fullyrt að möguleiki væri á tvöföldun hótelsins. Það myndi hafa í för með sér enn frekari malartöku úr Svaðbælisá með tilheyrandi raski á lífríki hennar, og koma verður í veg fyrir það.

Óljóst eignarhald á landinu sem byggingarreiturinn sé á sé meginástæða þess að með öllu sé óþolandi að þarna verði gefið leyfi fyrir hótelbyggingu. Þó taki kærendur fram að þeir geri sér grein fyrir því að deilur um eignarhald á landi heyri ekki undir úrskurðarnefndina.

Málsrök Rangárþings eystra: Sveitarfélagið telur málsmeðferð deiliskipulags Rauðsbakka hafa í einu og öllu verið í samræmi við ákvæði skipulagslaga nr. 123/2010.

Hvað varði samþykkt byggingarleyfis þá hafi það verið mat sveitarfélagsins að malartaka vegna framkvæmdanna úr Bakkakotsá hafi ekki verið leyfisskyld af hálfu sveitarfélagsins, þar sem um hafi verið að ræða efnistöku til eigin nota. Hins vegar hafi landeigandi Rauðsbakka sótt um leyfi fyrir efnistökunni til Fiskistofu, líkt og kveðið sé á um í 33. gr. laga nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði. Fiskistofa hafi heimilað efnistökuna með leyfi, dags. 22. júlí 2016.

Hvað varði umferðarleið um land Rauðsbakka að Miðbælisfjöru þá sé gert ráð fyrir henni bæði á deiliskipulagsuppdrætti og í greinargerð. Einnig komi fram í svörum til þeirra er gert hafi athugasemdir við deiliskipulagið á auglýsingartíma að framkvæmdaraðili hyggist halda aðgengi að strandlínu opnu og óhindruðu. Samkvæmt samtali við eiganda jarðarinnar Rauðsbakka hafi hann ekki í hyggju að loka aðgengi að Miðbælisfjöru. Þá hafi engar breytingar verið gerðar á samþykktu deiliskipulagi fyrir svæðið og bygging hótelsins sé í samræmi við samþykkt byggingarleyfi, dags. 11. júlí 2016, og aðaluppdrætti, dags. 13. mars s.á., samþykkta af byggingarfulltrúa 1. júlí s.á.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi bendir á að fyrir liggi að hið kærða byggingarleyfi taki til byggingar 30 herbergja hótels. Í því sé vísað til samþykkts uppdráttar, dags. 18. mars 2016, þar sem stærð hótelsins sé sýnd og annað sem við komi skipulagi, þar með lega rotþróar og staðsetning vatnsbrunns. Hugleiðingar annars kærenda um hugsanlega stækkunarmöguleika komi þessu máli ekkert við. Byggingarleyfi og auglýst skipulag taki aðeins til 30 herbergja hótels og það sé sú framkvæmd sem unnið sé að.

Leyfishafi telji kæranda eiga ekki land að Svaðbælisá og eigi því engra hagsmuna að gæta vegna malartöku. Leyfi hafi verið fengið hjá Fiskistofu fyrir malartöku vegna núverandi framkvæmda í ánni í landi leyfishafa. Þá taki leyfishafi fram að ekkert liggi fyrir um stækkun umrædds hótels.

Leyfishafi mótmæli þeim staðhæfingum sem fram komi í kæru varðandi aðkomu að Miðbælisfjöru. Ekkert liggi fyrir um það hver réttur kæranda sé til nýtingar hlunninda í fjörunni eða að gömul þjóðleið hverfisins að umræddri fjöru liggi um lóð hótelsins. Hins vegar liggi fyrir að eigandi jarðarinnar Rauðsbakka muni eftir sem áður heimila umferð um land sitt eins og verið hafi þannig að hægt verði að komast að fjörunni. Liggi fyrir að allar jarðir í hinu svokallaða hverfi þarna í kring hafi sjálfstæðan aðgang að umræddri fjöru um lönd sín.

Niðurstaða: Með hinu kærða deiliskipulagi er gert ráð fyrir allt að 30 herbergja og 1.300 m2 hóteli á skika úr jörðinni Rauðsbakka. Jafnframt er kærð ákvörðun byggingarfulltrúa sveitarfélagsins frá 1. júlí s.á. um að samþykkja byggingarleyfi fyrir hóteli með stoð í hinu kærða deiliskipulagi.

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á nema í tilteknum undantekningartilvikum sem þar eru greind. Verður að skýra þetta ákvæði í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttar um aðild í kærumálum þar sem áskilið er að kærandi eigi beina einstaklingsbundna hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kærð er.

Hið kærða deiliskipulag gerir ráð fyrir byggingu hótels og hefur byggingarleyfi verið veitt fyrir því. Hótelið mun verða staðsett í um þriggja kílómetra fjarlægð frá íbúðarhúsinu á jörðinni Berjanesi, sem er í eigu annars kærenda. Liggja og aðrar jarðir á milli hótelsins og Berjaness. Sá kærandi vísar til almennra atriða varðandi efnistök og málsmeðferð deiliskipulagsins og breyttra forsendna byggingarleyfis, án þess að færa fram rök fyrir því hvernig hinar kærðu ákvarðanir hafi áhrif á hans einstaklegu lögvörðu hagsmuni. Þó rekur kærandinn atriði sem hann telur sýna fram á óljóst eignarhald á landi því sem deiliskipulagið tekur til. Úr slíkum ágreiningi verður ekki leyst fyrir úrskurðarnefndinni, eins og kærandi raunar tekur fram, og er ekki hægt að fallast á að mögulegur erfðaréttur hans veiti honum kæruaðild í máli þessu. Þá er ljóst að fasteign kæranda er ekki í þeirri nálægð við deiliskipulagssvæðið, og að aðstæður að öðru leyti eru ekki með þeim hætti, að framkvæmdir með stoð í hinu umdeilda deiliskipulagi geti haft þau áhrif á grenndarhagsmuni hans að skapi honum þá einstaklegu lögvörðu hagsmuni sem gerðir eru að skilyrði fyrir kæruaðild, sbr. áðurnefnda 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Verður máli þessu, hvað þann kæranda varðar, af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni, en mál þess kæranda sem er eigandi Miðbælisbakka tekin til meðferðar.

Eins og fram kemur í 7. mgr. 12. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 skulu gildandi skipulagsáætlanir vera í innbyrðis samræmi og er stefna aðalskipulags bindandi við gerð deiliskipulags, sbr. 6. mgr. 32. gr. þeirra laga. Í gr. 4.3.1. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 er fjallað um viðfangsefni og efnistök aðalskipulags. Er meginviðfangsefni þess stefnumörkun sveitarstjórnar um landnotkun og þróun byggðar og skal í skipulagsgögnum gera grein fyrir og marka stefnu um tilgreind málefni og setja þau fram með ákvörðunum um landnotkun eftir því sem við á. Meðal þeirra málefna er landbúnaður, sbr. e-lið greinarinnar, og er þar átt við: „Þróun landbúnaðar og megináhrifaþættir. Helstu einkenni landbúnaðarsvæða, þ.e. búrekstrar sem þar er stundaður, þ.m.t. ferðaþjónusta og önnur atvinnustarfsemi sem tengist búrekstrinum. Helstu atriði sem varða mannvirkjagerð. Gera skal sérstaklega grein fyrir ræktuðum svæðum innan landbúnaðarsvæða. Stefna um hvar og hvernig þörfum landbúnaðarstarfsemi verður mætt. Stefna um hvaða atvinnustarfsemi önnur en hefðbundinn landbúnaður er heimil á bújörðum og viðmið um aðstæður og umfang.“ Í gr. 6.2. í reglugerðinni er nánar kveðið á um stefnu um landnotkun og skal hún sýnd með einum landnotkunarflokki. Skal sá flokkur tiltekinn fyrir reitinn sem sé ríkjandi, en umfang annarrar landnotkunar tilgreint í skilmálum. Í greininni er landnotkunarflokkurinn landbúnaðarsvæði nánar skilgreint sem svæði fyrir landbúnað og mannvirki sem tengjast búrekstrinum, með áherslu á búfénað og matvæla- og fóðurframleiðslu, sbr. q-lið greinarinnar.

Í samræmi við framangreind reglugerðarákvæði er í kafla 4.17.3 í Aðalskipulagi Rangárþings eystra 2012-2024 fjallað um eðli og umfang annarrar atvinnustarfsemi á landbúnaðarsvæðum. Segir þar m.a: „Eins og fram hefur komið er á landbúnaðarsvæðum heimilt að nýta byggingar sem fyrir eru á jörðinni og reisa nýbyggingar fyrir atvinnustarfsemi, sem fellur vel að búrekstri og nýtingu viðkomandi jarðar og ekki hefur neikvæð áhrif á umhverfi sitt, án þess að gera þurfi grein fyrir þeirri landnotkun á aðalskipulagsuppdrætti. Fyrst og fremst er átt við atvinnugreinar sem eru eðlileg viðbót við búreksturinn og stoðgreinar við landbúnað, sem áfram verður meginlandnotkun á svæðinu. Þetta á t.d. við um almenna ferðaþjónustu s.s. „ferðaþjónustu bænda”, gistiaðstöðu og greiðasölu í tengslum við hana en einnig ýmsa athafnastarfsemi sem fellur vel að og er eðlileg viðbót við hefðbundna starfsemi á landbúnaðarsvæðum.“ Enn fremur segir: „Markmiðið er að gefa kost á nýtingu þess húsakosts sem fyrir er á viðkomandi bæjum með minni háttar viðbótum og breytingum án þess að breyta þurfi aðalskipulagi, auðvelda bændum að skjóta fleiri stoðum undir búreksturinn og tryggja áframhaldandi nýtingu jarðanna.“

Jörðin Rauðsbakki, sem hið kærða deiliskipulag og byggingarleyfi taka til, er á landbúnaðarsvæði í flokki I samkvæmt landnotkunarflokkun aðalskipulags sveitarfélagsins. Samkvæmt texta aðalskipulagsins er heimilað að reisa nýbyggingar fyrir atvinnustarfsemi, allt að 1.500 m2 að eldri húsum meðtöldum, á jörðum yfir 15 ha, ef starfsemin fellur vel að búrekstri og er þar fyrst og fremst átt við atvinnugreinar sem eru eðlileg viðbót við búrekstur og stoðgreinar við landbúnað.

Í hinu kærða deiliskipulagi er tekið fram að jörðin Rauðsbakki hafi verið í eyði síðan 1965. Tún séu hins vegar nytjuð og önnur svæði séu nýtt til beitar. Einnig er tiltekið að á jörðinni sé ein 56,1 m² verkfærageymsla. Eru upplýsingar þessar í samræmi við það sem fram kemur í fasteignaskrá Þjóðskrár, svo sem nánar er rakið í málavöxtum. Þykir því ljóst að á jörðinni sé ekki rekið bú. Þegar virt er hvernig hið kærða deiliskipulag samræmist ákvæðum aðalskipulags og skipulagsreglugerðar verður að líta til þess að framkvæmd skipulagsins felur sér í byggingu hótels og rekstur þess án nokkurra sýnilegra tengsla við búrekstur. Er enda vandséð að með því sé stutt við þann landbúnað sem stundaður er á jörðinni, þ.e. ræktun túna og búfjárbeit sem ekki er haldið á jörðinni. Þá er ekki um það að ræða að verið sé að nýta húsakost sem fyrir er, s.s. nefnt er sem markmið í nefndu aðalskipulagi. Verður að telja þá starfsemi komna út fyrir þau mörk sem setja verður um starfsemi á svæðum, sem fyrst og fremst eru ætluð til landbúnaðarnota, enda er önnur starfsemi undantekning frá þeirri meginreglu og lýtur hún þröngum skorðum eðli máls samkvæmt. Með vísan til þessa er ekki hægt að telja deiliskipulag fyrir hótel, sem er ekki í tengslum við starfræktan landbúnað og fyrirhugað er að byggja á jörð sem er í eyði, vera í samræmi við aðalskipulag sveitarfélagsins, sbr. einnig ákvæði skipulagsreglugerðar.

Með hliðsjón af framangreindu verður að telja hið kærða deiliskipulag slíkum annmörkum háð að varði ógildingu þess.

Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 er frestur til að kæra ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina. Kæra eiganda Miðbælisbakka vegna byggingarleyfisins barst úrskurðarnefndinni 1. desember 2016, en hin kærða ákvörðun byggingarfulltrúa var tekin 1. júlí s.á. og byggingarleyfið gefið út 11. þess mánaðar. Hinn 19. júlí s.á. gerði byggingarfulltrúi úttekt á botnplötu, 30. ágúst s.á. gerði hann úttekt á sökklum og 13. september s.á. gerði hann úttekt á frárennslislögnum undir plötu. Með tilliti til þessa og nálægðar heimilis kæranda við verkstað getur honum ekki hafa dulist að byggingarleyfi hafði verið samþykkt og gefið út. Verður kæru hans vegna samþykktar byggingarleyfisins af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Rétt er þó að benda á, vegna athugasemda um malartöku úr árfarvegi Svaðbælisár í byggingarleyfiskæru eiganda Miðbælisbakka, að hið kærða byggingarleyfi tekur ekki til hennar. Önnur leyfi hafa ekki verið kærð til úrskurðarnefndarinnar, en undir rekstri málsins hefur komið fram að Fiskistofa hefur veitt leyfi til greindrar malartöku, sbr. 33. gr. laga nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði. Er sú ákvörðun eftir atvikum einnig kæranleg til úrskurðarnefndarinnar samkvæmt 36. gr. nefndra laga.

Úrskurðarorð:

Vísað er frá úrskurðarnefndinni kröfum eiganda Berjaness.

Felld er úr gildi ákvörðun sveitarstjórnar Rangárþings eystra frá 7. apríl 2016 um að samþykkja nýtt deiliskipulag fyrir hótel á jörðinni Rauðsbakka.

Vísað er frá úrskurðarnefndinni kröfu um ógildingu á samþykkt byggingarfulltrúans í Rangárþingi eystra frá 11. júlí 2016 á byggingarleyfi fyrir hóteli á jörðinni Rauðsbakka.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson