Fyrir var tekið mál nr. 49/2015, kæra á synjun byggingarfulltrúa Seltjarnarness frá 18. maí 2015 á umsókn um leyfi til að eldverja suðurgafl á verkstæði/geymslu á lóðamörkum Lindarbrautar 9 og 11, Seltjarnarnesi.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 26. júní 2015, er barst nefndinni 29. s.m., kærir H, Lindarbraut 11, Seltjarnarnesi, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Seltjarnarness frá 18. maí 2015 að synja umsókn um leyfi til að eldverja suðurgafl á verkstæði/geymslu á lóðamörkum Lindarbrautar 9 og 11. Skilja verður kröfugerð kæranda svo að gerð sé krafa um að ákvörðunin verði felld úr gildi.
Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Seltjarnarnesbæ 5. júlí 2016.
Málavextir: Árið 1976 var samþykkt á fundi byggingarnefndar Seltjarnarnesbæjar svonefnt bráðabirgðabyggingarleyfi til fimm ára fyrir viðbyggingu verkstæðis er tilheyra myndi Lindarbraut 11. Var sett það skilyrði fyrir útgáfu leyfisins að þinglýst samþykki lóðarhafa Lindarbrautar 9 lægi fyrir. Síðar kom upp ágreiningur milli lóðarhafa Lindarbrautar 9 og 11 um lóðamörk. Taldi lóðarhafi Lindarbrautar 9 að þau væri í samræmi við þinglýst lóðablað frá árinu 1971, en lóðarhafi Lindarbrautar 11 að þau væri í samræmi við lóðablað frá árinu 1990. Óskaði Seltjarnarnesbær eftir áliti lögmanns um réttarstöðu lóðarhafa. Niðurstaða álitsgerðarinnar, dags. 2. nóvember 2005, var sú að þinglýst samþykki lóðarhafa Lindarbrautar 9 lægi ekki fyrir vegna áðurnefndrar viðbyggingar. Væri stærð lóðanna í samræmi við þinglýst lóðablað frá árinu 1971 og lægi enginn samningur fyrir milli eigenda lóðanna um breytt lóðamörk. Stæði því umrædd viðbygging að Lindarbraut 11 að hluta til innan lóðar nr. 9.
Í maí 2008 fór þáverandi eigandi lóðarinnar að Lindarbraut 9 fram á það við byggingarfulltrúa að hin umdeilda viðbygging yrði fjarlægð af lóð hans. Synjaði sveitarfélagið þeirri beiðni og taldi að um einkaréttarlegan ágreining væri að ræða milli eigenda lóðanna nr. 9 og 11. Árið 2011 fór núverandi lóðarhafi Lindarbrautar 9 fram á það við Seltjarnarnesbæ að sveitarfélagið beitti þeim úrræðum sem það hefði yfir að ráða til að verkstæðisskúr við lóðamörk nefndra lóða yrði fjarlægður eða minnkaður þannig að hann stæði aðeins innan lóðar Lindarbrautar 11. Vísaði lóðarhafinn m.a. til álits frá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins um að nokkur sambrunahætta væri á milli bílskúrs á lóð hans og nefndrar byggingar. Synjaði Seltjarnarnesbær umræddri kröfu og var ákvörðun þeirri skotið til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er felldi þá ákvörðun úr gildi. Var niðurstaða nefndarinnar á því reist að ekki yrði fallist á að bæjaryfirvöld hefðu getað synjað erindi kæranda um afskipti af málinu með þeim rökum að um einkaréttarlegan ágreining væri að ræða þegar litið væri til þess að erindið væri stutt haldbærum rökum um gæslu öryggishagsmuna.
Lóðarhafi Lindarbrautar 9 óskaði í kjölfar þessa eftir því við Seltjarnarnesbæ að málið yrði tekið upp að nýju. Var kæranda með bréfi Seltjarnarnesbæjar, dags. 2. september 2013, gefið færi á því að koma að sjónarmiðum sínum. Einnig var óskað upplýsinga um hvort lagfærðar hefðu verið eldvarnir í umræddu húsi. Í svarbréfi kæranda, dags. 31. október s.á., var tekið fram að lóðarmörk Lindarbrautar 11 hefðu verið óbreytt í marga áratugi. Hefði skipulags- og byggingarnefnd ekki stjórnsýsluvald í málinu og væri sú krafa gerð að málinu yrði vísað frá, að öðru leyti en því er lyti að brunavörnum. Þá yrðu nánari skýringar á úrbótum varðandi eldvarnir gefnar þegar skipulagsnefnd hefði afgreitt málið.
Með bréfi Seltjarnarnesbæjar til lóðarhafa Lindarbrautar 11, dags. 16. júlí 2014, var veittur frestur til að sækja um byggingarleyfi fyrir þeim mannvirkjum sem að hluta lægju yfir lóðamörk Lindarbrautar 11 á lóðina nr. 9. Skyldi gert ráð fyrir því í umsókn að sá hluti mannvirkjanna sem nú stæði inni á lóð nr. 9 yrði fjarlægður og að gengið yrði frá mannvirkjunum með fullnægjandi hætti við núverandi lóðamörk í samræmi við þinglýstar heimildir. Þá var tekið fram að ef ekki yrði farið að framangreindum tilmælum innan greindra tímamarka kæmi til greina að beita ákvæðum 2. og 3. mgr. 56. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010. Loks var vakin athygli á því að yrði ekki sótt um byggingarleyfi fyrir umræddum framkvæmdum í samræmi við framangreint kynni það að leiða til þess að Seltjarnarnesbær yrði að krefjast þess að mannvirkin í heild yrðu fjarlægð. Með bréfinu fylgdi umsögn lögmannsstofu um málið, dags. sama dag.
Hinn 2. október 2014 móttók Seltjarnarnesbær umsókn kæranda um leyfi til að „eldverja suðurgafl á verkstæði/geymslu“ á lóðamörkum umræddra lóða. Kom fram á afstöðumynd með umsókn að eystri hluti verkstæðisbyggingar hefði verið reistur á árunum 1950-1960 en viðbygging hennar, vestari hluti, síðar. Bílskúr hefði verið byggður árið 1950. Þá var tilgreint að mannvirkin væru notuð undir starfsemi húsasmíðameistara og væri öllu rafmagni slegið út þegar þau væru ekki í notkun.
Með tveimur bréfum byggingarfulltrúa til kæranda, dags. 18. maí 2015, kom fram að umsókn kæranda hefði verið synjað þann sama dag. Var í öðru bréfinu jafnframt tekið fram að téð umsókn væri ekki í samræmi við tilmæli í áðurgreindu bréfi byggingarfulltrúa frá 16. júlí 2014 og væri henni því synjað með vísan til þess og fyrirliggjandi umsagnar lögmannsstofu um málið. Einnig kom fram að bærist ekki ný umsókn í samræmi við tilmæli byggingarfulltrúa innan nánar tilgreindra tímamarka myndi byggingarfulltrúi leggja fram þá tillögu fyrir skipulags- og umferðarnefnd að lagðar yrðu dagsektir á eiganda eignanna. Þá skyldu andmæli vegna nefndrar tillögu hafa borist byggingarfulltrúa innan 30 daga frá móttöku bréfsins.
Málsrök kæranda: Kærandi tekur fram að dráttur hafi orðið á að senda út tilkynningu um afgreiðslu málsins. Teljist kæra of seint fram komin sé þess vænst að slíkt verði talið afsakanlegt. Kærufrestur sé stuttur. Óverulegur dráttur hafi orðið á að senda inn kæru og synjun umsóknar snerti ekki hagsmuni annarra en kæranda og bæjaryfirvalda.
Í umfjöllun um málið sé gengið út frá því að aðeins sé um eina byggingu að ræða, þ.e. viðbyggingu sem veitt hafi verið tímabundið byggingarleyfi fyrir árið 1976 og nái inn á lóð Lindarbrautar 9, eins og hún hafi upphaflega verið afmörkuð. Rétt sé að fyrir hafi verið eldri verkstæðisbygging sem nái jafnt langt inn á lóðina og nefnd viðbygging. Ekki sé annað vitað en að hún hafi verið byggð með leyfi byggingaryfirvalda. Þegar hún hafi verið reist hafi umræddar lóðir verið í eigu sama aðila og því hafi ekki verið þörf á að leita samþykkis. Mátti þeim sem síðar hafi eignast lóðina Lindarbraut 9 vera kunnugt um tilvist og legu umræddrar byggingar. Fáist það því ekki staðist að byggingarleyfi fyrir umræddri byggingu hafi verið tímabundið og sé ekki lengur í gildi, en það eigi aðeins við um lítinn hluta hennar, þ.e.a.s. fyrrgreinda viðbyggingu.
Ekki sé á færi stjórnvalda að skera úr ágreiningi um mörk lóðanna. Sennilegt sé að eigendur Lindarbrautar 11 hafi unnið rétt fyrir hefð á umræddri lóðarspildu, hvað sem líði þinglesnum mæliblöðum. Séu því engar forsendur fyrir þeirri niðurstöðu að fjarlægja beri umrætt mannvirki, en slíkt væri í andstöðu við meðalhófsreglu stjórnsýsluréttarins og að auki verulega kostnaðarsamt.
Vísað sé til úrskurða úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála í málum nr. 32/2001, 73/2002 og 19/2003 er varði Spítalastíg 4. Af þeim verði ráðið að ágreiningur um eignarmörk eigi undir dómstóla og að ekki sé réttlætanlegt að krefjast niðurrifs til að fullnægja kröfum um eldvarnir séu vægari úrræði tiltæk. Hafi því jafnframt verið hafnað í úrskurðum nefndarinnar að réttlætanlegt væri að fallast á kröfu um niðurrif eigna hefðu þær staðið óátalið um langan tíma, þótt ekki lægi fyrir byggingarleyfi. Megi í því sambandi t.d. nefna úrskurð í máli nr. 5/2005, en kvartað hafi verið til umboðsmanns Alþings vegna niðurstöðu þess máls og hann ekki talið ástæðu til athugasemda. Einnig sé skírskotað til úrskurðar í máli nr. 22/2000. Hafi bæjaryfirvöld getað gert reka að því að láta fjarlægja viðbygginguna eftir að tímabundna leyfið rann út í samræmi við úrræði þágildandi byggingarlaga. Verði að telja að sveitarfélagið hafi fallið frá því að beita úrræðum þeirra laga með aðgerðaleysi sínu. Þá sé vísað til dóma Hæstaréttar í málum nr. 20/407 og 26/67 til stuðnings málsrökum kæranda.
Virðist sem ætlunin hafi verið sú að leyfa byggingunni að standa áfram. Til þess bendi m.a. lóðablað með breyttum lóðamörkum, áritað af byggingarfulltrúa í júlí 1990, en með því hafi verið staðfest það fyrirkomulag sem þá hafi í raun verið lengi við lýði, þ.e. að mörk umræddra lóða væru um gafl nefndrar verkstæðisbyggingar. Hins vegar hafi farist fyrir að þinglýsa umræddu lóðablaði.
Málsrök Seltjarnarnesbæjar: Sveitarfélagið gerir kröfu um frávísun málsins sökum þess að kæra hafi borist of seint. Kæranda hafi verið tilkynnt ákvörðun byggingarfulltrúa um að synja umsókn um byggingarleyfi með bréfi, dags. 18. maí 2015. Í öðru bréfi, sem dagsett sé og sent þann sama dag, hafi jafnframt verið tilkynnt um synjunina og fyrirhugaða álagningu dagsekta.
Til vara er þess krafist að öllum kröfum kæranda verði hafnað. Það sé niðurstaða Seltjarnarnesbæjar, sbr. niðurstöðu í úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála uppkveðnum 22. mars 2013, að líta svo á að mörk lóða nr. 9 og 11 við Lindarbraut séu í samræmi við þinglýst lóðablað frá ágúst 1971 og því sé hluti mannvirkja lóðarinnar Lindarbrautar 11 á lóð Lindarbrautar 9. Sé sveitarfélagið að bregðast við ábendingum frá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins og leitast við að sjá til þess að ekki stafi hætta af húsum í sveitarfélaginu, sbr. 1. mgr. 56. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010. Umsókn kæranda hafi ekki uppfyllt þær kröfur sem bærinn hafi sett fyrir byggingarleyfi og því hafi byggingarfulltrúa ekki verið annað fært en að synja umsókninni.
Vísun kæranda í úrskurði um Spítalastíg sé almenn og fremur óskýr. Úrskurðarnefndin hafi áður úrskurðað að bæjaryfirvöldum beri að bregðast við í máli þessu og geti Seltjarnarnesbær ekki komið sér hjá því að taka ákvörðun. Þá eigi ekki við að stjórnvöld hafi brotið gegn rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar.
Álitaefni um hvort rétturinn kunni að hafa unnist fyrir hefð eigi undir dómstóla en ekki úrskurðarnefndina. Það að byggingin hafi staðið óátalið um árabil hafi ekki þau áhrif að ekki verði krafist niðurrifs, sbr. Hrd. 1959:818. Úrskurður í máli nr. 5/2005, sem kærandi vísi til, fjalli ekki um sambærilegt mál. Þar hafi t.d. ekki verið sýnt fram á brýna nauðsyn þess að garðhýsi yrði fjarlægt, en í máli þessu hafi svo verið, sbr. áðurnefnt álit slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins. Ekki sé um ákveðinn tímaramma að ræða í 2. mgr. 31. gr. eldri byggingarlaga nr. 54/1978 og því ekki hægt að segja að bæjaryfirvöld hafi fallið frá því að beita úrræðum laganna. Þá verði að telja að atvik í tilvitnuðum hæstaréttardómum séu ekki sambærileg atvikum í máli þessu. Vísun kæranda í dómana sé almenn og í engu sé rökstutt hvernig þeir eigi við í málinu. Virðist í máli þessu sem aldrei hafi verið ætlunin að breyta mörkum lóðanna. Jafnframt sé bent á að fram hafi komið í söluyfirliti með Lindarbraut 11, þegar núverandi eigandi hafi keypt eignina, að fjarlægja þyrfti byggingu sem nái inn á lóðina að Lindarbraut 9.
Bæjaryfirvöld hafi reynt að nálgast málið með hliðsjón af reglu um meðalhóf. Ákvörðun í málinu hafi verið tekin tæpum tíu mánuðum eftir að kæranda hafi verið tilkynnt um að sækja þyrfti um byggingarleyfi og hafi því meðalhófs verið gætt að þessu leyti. Það sé álit Seltjarnarnesbæjar að vægari úrræði standi ekki til boða. Ekki hafi verið krafist niðurrifs alls hússins heldur eingöngu þess hluta sem standi innan lóðarinnar Lindarbrautar 9. Fyrst eigendur lóðanna nái ekki saman eigi sveitarfélagið ekki annan kost en að krefjast þessa. Forðast hafi verið að taka meira íþyngjandi ákvörðun en nauðsynlegt væri til að tryggja að mannvirkin stæðu ekki inni á lóð nágranna. Þá hafi ekki verið lögð fram nein gögn er styðji þá staðhæfingu að um misskilning sé að ræða varðandi þá byggingu er fari inn á lóð nr. 9.
——
Færð hafa verið fram ítarlegri sjónarmið í máli þessu sem ekki verða rakin nánar en úrskurðarnefndin hefur haft þau til hliðsjónar við úrlausn þess.
Niðurstaða: Seltjarnarnesbær gerir kröfu um frávísun máls þessa þar sem kæra hafi borist úrskurðarnefndinni að liðnum lögbundnum kærufresti.
Kærandi heldur því fram að dregist hafi að tilkynna honum hina kærðu ákvörðun og í gögnum liggur fyrir að 1. júní 2015 hafi kæranda verið birt bréf frá Seltjarnarnesbæ. Kæra var móttekin hjá úrskurðarnefndinni 29. júní 2015 og verður því með vísan til framangreinds og þar sem greindri fullyrðingu kæranda hefur ekki verið hnekkt, við það miðað að hún hafi borist innan eins mánaðar kærufrests skv. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.
Hin kærða ákvörðun byggingarfulltrúa fól í sér synjun umsóknar kæranda um leyfi til að eldverja suðurgafl byggingar á lóðamörkum Lindarbrautar 9 og 11. Var sú synjun m.a. á því reist að umsókn kæranda færi í bága við tilmæli byggingarfulltrúa í bréfi, dags. 16. júlí 2014, þar sem gerð var krafa um að sótt yrði um byggingarleyfi fyrir allri byggingunni og að sá hluti hennar sem færi yfir lóðarmörk Lindarbrautar 9 yrði fjarlægður.
Fyrir liggur að ágreiningur er á milli lóðarhafa Lindarbrautar 9 og 11 um mörk lóðanna. Á það ekki undir úrskurðarnefndina að skera úr um ágreining um eignarréttindi eða hvort slík réttindi hafi stofnast fyrir hefð. Það álitaefni á undir lögsögu dómstóla. Samkvæmt hnitsettu mæliblaði, dags. í ágúst 1971, stendur hin umdeilda bygging út fyrir mörk lóðar Lindarbrautar 11 og inn á lóð Lindarbrautar 9, sem þar er talin vera 822 m² að flatarmáli. Er það í samræmi við skráningu fasteignaskrár Þjóðskrár Íslands, sem ætla verður að byggi á gögnum viðkomandi sveitarfélags, sbr. 19. gr. laga nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna, en úrskurðarnefndin hefur ekki undir höndum þinglýst lóðablað fyrir umræddar lóðir þrátt fyrir fyrirspurnir þar um. Hefur gildi umrædds mæliblaðs frá árinu 1971 ekki verið hnekkt. Þá liggur fyrir að byggingarleyfi vegna viðbyggingar, er reist var árið 1976 við mörk umræddra lóða, er ekki lengur í gildi og hvorki munu vera til samþykktir uppdrættir hjá sveitarfélaginu af þeim hluta byggingarinnar sem áður hafði verið reistur né hafa þeir verið lagðir fram af hálfu kæranda.
Að öllu framangreindu virtu verður að telja að hin kærða ákvörðun byggingarfulltrúa hafi verið studd efnislegum rökum með hliðsjón af opinberri skráningu þjóðskrár og þeim gögnum sem fyrir lágu þegar ákvörðunin var tekin og verður kröfu kæranda um ógildingu hennar því hafnað.
Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.
Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúa Seltjarnarness frá 18. maí 2015 um að synja umsókn um leyfi til að eldverja suðurgafl á verkstæði/geymslu á lóðamörkum Lindarbrautar 9 og 11.
Ómar Stefánsson
______________________________ _____________________________
Ásgeir Magnússon Þorsteinn Þorsteinsson