Fyrir var tekið mál nr. 7/2014, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 17. október 2013 um breytingu á deiliskipulagi Skúlagötusvæðis vegna lóðanna Lindargötu 28, 30 og 32.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 3. febrúar 2014, er barst nefndinni 4. s.m., kæra Þ, Jöklagrunni 23, Reykjavík, og R, Hólmi, Landbroti, eigendur fasteignanna að Veghúsastíg 9a, að hluta, og Lindargötu 34 og 34a, þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 17. október 2013 að breyta deiliskipulagi Skúlagötusvæðis vegna lóðanna Lindargötu 28, 30 og 32. Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 14. apríl 2016, afturkölluðu núverandi eigendur Lindargötu 34 og 34a kæruna fyrir sitt leyti. RR hótel ehf., sem á nú fasteignina að Vegahúsastíg 9a, hefur hins vegar tekið við rekstri kærumálsins er þá fasteign varðar.
Skilja verður málskot kæranda svo að krafist sé ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar. Jafnframt var gerð krafa um stöðvun framkvæmda, en því var hafnað með úrskurði úrskurðarnefndarinnar, uppkveðnum 30. júní 2014.
Málavextir: Hinn 21. júní 2013 tók skipulagsfulltrúi Reykjavíkur fyrir umsókn um breytingu á deiliskipulagi Skúlagötusvæðis, staðgreinireita 1.152.410-1.152.412, vegna lóðanna nr. 28, 30 og 32 við Lindargötu. Var í henni gert ráð fyrir að nefndar lóðir yrðu sameinaðar, sex bílastæði á jarðhæð húsa samkvæmt gildandi skipulagi yrðu felld niður, byggingarreitir dýpkaðir og nýr byggingarreitur afmarkaður syðst á lóðinni. Var málinu vísað til umhverfis- og skipulagsráðs, sem samþykkti á fundi sínum 26. s.m. að auglýsa umsótta skipulagsbreytingu og var sú ákvörðun staðfest í borgarráði 4. júlí 2013. Athugasemdir bárust við tillöguna á kynningartíma hennar, m.a. frá þáverandi eigendum Vatnsstígs 9a. Hin auglýsta tillaga var síðan samþykkt á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 9. október 2013, með vísan til fyrirliggjandi umsagnar skipulagsfulltrúa, er lagði til að „flái á stækkun byggingarreits verði aukinn þannig að fjarlægð hans frá lóðarmörkum verði að minnsta kosti 4 metrar“ og að bætt yrði við í skilmála að ekki mætti byggja svalir á þeirri hlið sem sneri að Lindargötu 34. Staðfesti borgarráð greinda ákvörðun 17. s.m.
Deiliskipulagið var sent Skipulagsstofnun til lögboðinnar afgreiðslu, sem taldi að ekki væri unnt að taka afstöðu til efnis breytingarinnar þar sem skýra þyrfti betur atriði um hámarkshæð nýbygginga og bílastæði. Í kjölfar þessa sendi Reykjavíkurborg skýringar og lagfærðan deiliskipulagsuppdrátt til Skipulagsstofnunar. Með bréfi stofnunarinnar, dags. 29. janúar 2014, kom fram að ósamræmi væri í upplýsingum um hæðir nýbygginga. Taka þyrfti ákvörðun um hver hámarkshæð ætti að vera og senda síðan þeim sem gert hefðu athugasemdir við hæð ný svör með skýringum. Var á ný gerð breyting á uppdrætti deiliskipulagsins. Öðlaðist skipulagsbreytingin gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 4. mars 2014.
Málsrök kæranda: Kærandi vísar til þess að fasteign hans liggi að skipulagsreitnum. Á skýringaruppdráttum deiliskipulagsins sé ekki gerð grein fyrir fasteigninni með nægjanlegum hætti og sé lýsing skipulagsverksins ekki í samræmi við gr. 5.2.3. í gildandi skipulagsreglugerð nr. 90/2013. Ekki hafi verið haft samráð við kæranda, sbr. gr. 5.2.1. í reglugerð, en honum hafi aldrei verið tilkynnt um tillöguna. Þá verði að telja óheimilt, með hliðsjón af gr. 5.3.1. í reglugerðinni, að breyta einstökum reitum deiliskipulags án tillits til heildarhagsmuna viðkomandi hverfis.
Vísað sé til ógildingarúrskurðar úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála í máli nr. 105/2005, en flest þau rök sem þar sé byggt á eigi við í máli þessu. Skírskotun til almenningssamgangna og nálægðar við miðbæ séu ekki viðhlítandi rök fyrir því að slakað sé á kröfum um bílastæði við frekari uppbyggingu. Einnig megi draga í efa að fullnægt sé kröfum um greiðar aðkomuleiðir slökkviliðs og sé í því sambandi bent á 3. mgr. í gr. 5.3.2.2. í skipulagsreglugerðinni. Þá sé ekki ljóst hvernig tryggja skuli aðkomu að bakhúsum á umræddri lóð. Hin kærða ákvörðun þrengi að kostum kæranda til frekari uppbyggingar á lóð hans og geri fasteign hans í raun nær verðlausa. Fylgi heimiluðum byggingum skuggavarp.
Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu Reykjavíkurborgar er gerð krafa um staðfestingu hinnar kærðu ákvörðunar. Farið hafi verið eftir ákvæðum skipulagslaga nr. 123/2010 og stjórnsýslulaga nr. 37/1993 við meðferð hinnar kærðu ákvörðunar. Eldra deiliskipulag svæðisins frá árinu 2004 hafi gert ráð fyrir að hús á umræddum lóðum myndu víkja og í þeirra stað mætti byggja þriggja hæða hús með risi og kjallara. Við skipulagsbreytingu sé ekki gerð grein fyrir byggingum utan þess svæðis sem breytingin taki til. Tilvitnun kærenda í gr. 5.2.3. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 eigi ekki við um framsetningu deiliskipulagstillögu heldur lýsingu á deiliskipulagstillögu fyrir auglýsingu, sem hér eigi ekki við. Samkvæmt gr. 5.2.1. í skipulagsreglugerð sé samráð við skipulagsgerð bundið við þá aðila sem skipulagið nái til en aðrir eigi þess kost að koma á framfæri athugasemdum við kynningu þess.
Deiliskipulagsbreyting geti eftir atvikum tekið til afmarkaðra reita eða lóða og sé afmörkun þess svæðis sem skipulagsbreytingin taki til ekki andstæð lögum. Forsendur úrskurðar sem kærandi vísi til eigi ekki við í máli þessu. Ekki séu gerðar kröfur í skipulagsreglugerð um fjölda bílastæða. Verði að hafa í huga staðsetningu umrædds svæðis við miðborg og þá stefnu að auka veg almenningssamgangna og stuðla að því með skipulagi að menn gangi eða hjóli milli staða. Ekkert bendi til þess að hin kærða ákvörðun leiði til verðrýrnunar á fasteignum kærenda. Þvert á móti megi færa rök fyrir því að uppbygging óbyggðra lóða á svæðinu geti aukið verðmæti fasteignanna með styrkingu heildarmyndar götunnar. Tekið sé fram í skilmálum skipulagsbreytingarinnar að aðkoma að bakhúsi og garði sé tryggð og megi þak bakhúss ekki fara upp fyrir vegghæðir aðliggjandi húsa. Við veitingu byggingarleyfa séu uppdrættir yfirfarnir af Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins með tilliti til brunavarna. Eigi því fullyrðingar um ótrygga aðkomu að bakhúsi og að þrengt sé að möguleikum til uppbyggingar á lóðum þeirra ekki við rök að styðjast. Þá hafi verið gerðar breytingar á tillögunni til að draga úr skuggavarpi.
Málsrök lóðarhafa Lindargötu 28-32: Lóðarhafa var tilkynnt um framkomna kæru en hann hefur ekki látið málið til sín taka.
——
Úrskurðarnefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi með óformlegum hætti.
Niðurstaða: Í skilmálum fyrir deiliskipulag Skúlagötusvæðis, sem samþykktir voru árið 2004, var gert ráð fyrir að hús á lóðunum Lindargötu 28, 30 og 32 yrðu rifin eða fjarlægð og að reisa mætti í þeirra stað hús á þremur hæðum, með risi og kjallara. Felur hið kærða deiliskipulag m.a. í sér að fyrrgreindar lóðir verði sameinaðar. Er byggingarheimild sú sama og áður að því viðbættu að nýr byggingarreitur er afmarkaður syðst á lóðinni fyrir einnar hæðar bakhús. Felld eru út bílastæði og hæðir húsa eru leiðréttar frá gildandi deiliskipulagi, miðað við uppmælingu landupplýsingadeildar Reykjavíkurborgar samkvæmt skipulaginu. Við breytinguna verður nýtingarhlutfall lóðarinnar 1,84 og með kjallara 2,15.
Tillaga að breytingu á deiliskipulagi ofangreindra lóða var auglýst til kynningar í samræmi við 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Var samkvæmt tilvitnuðu ákvæði ekki skylt að taka saman lýsingu á skipulagsverkefninu, sbr. gr. 5.2.3. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013, þar sem um breytingu á deiliskipulagi var að ræða. Að loknum kynningartíma tillögunnar voru m.a. gerðar þær breytingar á henni „að flái á stækkun byggingarreits verði aukinn þannig að fjarlægð hans frá lóðarmörkum verði að minnsta kosti 4 metrar“ og bætt var við skilmála skipulagsins að ekki mætti byggja svalir á þeirri hlið er snýr að Lindargötu 34. Þrátt fyrir að skipulagsuppdráttur sýni ekki þann hluta hússins að Veghúsastíg 9a, sem víkja skyldi samkvæmt eldra deiliskipulagi, má af framsetningu hans ráða hver afstaða hins breytta skipulagssvæðis var gagnvart nærliggjandi lóðum. Var með því fullnægt ákvæðum í gr. 7.1. í skipulagsreglugerð þar um.
Kærandi vísar til þess að lögbundins samráðs hafi ekki verið gætt við meðferð málsins hjá skipulagsyfirvöldum, sbr. gr. 5.2.1. í skipulagsreglugerð. Fallast má á að skortur á sérstöku samráði sé ágalli á meðferð málsins, en þegar litið er til þess að kærandi kom að athugasemdum við auglýsta tillögu verður sá annmarki ekki talinn þess eðlis að raski gildi hinnar kærðu ákvörðunar, enda verður ekki séð að kærandi hafi orðið fyrir réttarspjöllum af þeim sökum.
Í skilmálum deiliskipulagsbreytingarinnar segir að aðkoma að garði og bakhúsi skuli vera tryggð án þess að farið sé í gegnum íbúðir. Af deiliskipulagsuppdrætti og staðháttum verður ráðið að fyrir hendi er aðkoma úr vestri að húsum á baklóð hinnar sameinuðu lóðar og verður ekki annað séð en að hún fullnægi áskilnaði í gr. 5.3.2.2. í skipulagsreglugerð um aðkomu að baklóðum og aðgengi fyrir neyðarbíla. Er hvað það varðar rétt að benda á að byggingarfulltrúi getur við afgreiðslu umsóknar um byggingarleyfi metið hvort nauðsynlegt sé að leita umsagnar slökkviliðs, en áskilið er í byggingarreglugerð nr. 112/2012 að á lóðum skuli vera greið aðkoma fyrir sjúkra- og slökkvibifreiðar. Jafnframt skal sýna á aðaluppdrætti hvernig haga skuli fólks- og vöruaðkomu að húsi og lóð, gámastæðum og aðkomu sjúkra-, slökkvi- og sorphreinsunarbíla. Sama skal og koma fram á lóðauppdráttum, eftir því sem við á. Meðferð byggingarleyfisumsóknar getur því gefið tilefni til nánari athugunar en við skipulagsgerð.
Þá er hvorki að finna í lögum né reglugerðum kröfu um lágmarksfjölda almennra bílastæða. Hins vegar er í byggingarreglugerð kveðið á um lágmarksfjölda bílastæða fyrir hreyfihamlaða, en ekki er gert ráð fyrir slíkum stæðum í hinni kærðu ákvörðun. Sú vöntun hefur þó ekki áhrif á gildi hennar en fyrir hendi eru ákvæði í byggingarreglugerð þar um sem taka verður tillit til við frekari uppbyggingu á skipulagsreitnum.
Loks er ástæða til að benda á að sveitarstjórnir fara með skipulagsvald og annast gerð deiliskipulags og breytingar á því, sbr. 3. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga. Þau lög gera ráð fyrir að gildistaka skipulagsáætlana geti haft í för með sér röskun á einstökum fasteignarréttindum. Sé sýnt fram á að gildistaka skipulags valdi tjóni getur viðkomandi eftir atvikum leitað réttar síns og krafist skaðabóta í samræmi við 51. gr. skipulagslaga, en úrlausn um það álitaefni er ekki á valdsviði úrskurðarnefndarinnar.
Að öllu framangreindu virtu, og þar sem ekki verður séð að fyrir hendi séu neinir aðrir þeir annmarkar á málsmeðferð eða efni hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar að leiða eigi til ógildingar hennar, verður kröfu kæranda þar um hafnað.
Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.
Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 17. október 2013 um breytingu á deiliskipulagi Skúlagötusvæðis vegna lóðanna Lindargötu 28, 30 og 32.
Nanna Magnadóttir
____________________________ ___________________________
Ásgeir Magnússon Þorsteinn Þorsteinsson