Fyrir var tekið mál nr. 76/2015, kæra á ákvörðunum Umhverfisstofnunar um að veita kæranda áminningu vegna vanskila á magntölum úrgangs og um að hafna beiðni kæranda um að honum sé heimilt að skila inn tveimur skýrslum um magntölur úrgangs, annars vegar ítarlegri skýrslu til tölfræðiútreiknings og hins vegar samandreginni skýrslu til birtingar á heimasíðu stofnunarinnar.
Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur
um kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa:
Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 14. september 2015, er barst nefndinni sama dag, kærir Hringrás hf., Klettagörðum 9, Reykjavík, ákvörðun Umhverfisstofnunar um að veita kæranda áminningu skv. 66. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs, þar sem stofnuninni hafi ekki borist magntölur úrgangs frá kæranda. Áminningin var birt kæranda með bréfi, dags. 13. ágúst 2015, og var þar veittur frestur til úrbóta til og með 4. september s.á. Jafnframt er kærð sú ákvörðun Umhverfisstofnunar, sem tilkynnt var kæranda með bréfi stofnunarinnar, dags. 9. september 2015, að hafna því að veita kæranda heimild til að skila inn tveimur skýrslum um magntölur úrgangs, þ.e. annars vegar ítarlegri skýrslu til tölfræðiútreiknings og hins vegar samandreginni skýrslu til birtingar á heimasíðu stofnunarinnar.
Kærandi krefst þess að hinar kærðu ákvarðanir Umhverfisstofnunar verði felldar úr gildi. Þá krefst hann þess að kveðinn verði upp úrskurður til bráðabirgða um frestun réttaráhrifa meðan kæran er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Er málið nú tekið til úrskurðar um kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa.
Athugasemdir Umhverfisstofnunar vegna stöðvunarkröfu kæranda bárust nefndinni 22. september sl.
Málsatvik og rök: Kærandi rekur endurvinnslu brotajárns og móttöku spilliefna hérlendis og hefur til þess starfsleyfi frá Umhverfisstofnun á grundvelli laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs. Skv. 1. mgr. 19. gr. laganna skulu rekstraraðilar fyrir 1. maí ár hvert skila til Umhverfisstofnunar skýrslu um þann úrgang sem meðhöndlaður var á undangengnu almanaksári. Skal skýrslan innihalda upplýsingar um tegundir úrgangsins og magn, uppruna og ráðstöfun hverrar tegundar. Skýrslan skal vera á því formi sem Umhverfisstofnun leggur til. Skýrslurnar skulu gerðar aðgengilegar á heimasíðu stofnunarinnar.
Kærandi afhenti ekki umrædda skýrslu á tilsettum tíma og með bréfi, dags. 12. júní 2015, tilkynnti Umhverfisstofnun honum um áform um áminningu vegna vanskila á magntölum úrgangs. Var honum veittur frestur til 26. s.m. til að bæta úr með afhendingu upplýsinganna eða koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Kærandi tjáði Umhverfisstofnun með bréfi, dags. 25. júní 2015, að hann teldi að birting umræddra skýrslna myndi raska viðskiptahagsmunum sínum og valda sér tjóni. Eftir frekari samskipti kærða og Umhverfisstofnunar var kæranda veitt áminning vegna vanskila á magntölum úrgangs með bréfi, dags. 13. ágúst 2015. Var veittur frestur til úrbóta til og með 4. september s.á.
Eftir frekari samskipti kæranda og Umhverfisstofnunar óskaði kærandi eftir því með bréfi, dags. 2. september 2015, að skila inn tveimur skýrslum til Umhverfisstofnunar. Önnur skýrslan átti að vera á því formi sem stofnunin hafði þegar lagt til en hin átti að geyma samandregnar upplýsingar um magntölur úrgangs og vera til birtingar á heimasíðu stofnunarinnar. Með bréfi, dags. 9. s.m., var beiðni kæranda hafnað. Kærandi kærði framangreindar ákvarðanir með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 14. s.m., eins og að framan greinir.
Kærandi telur mikla hagsmuni í húfi fyrir sig, verði þær upplýsingar sem Umhverfisstofnun óski eftir gerðar opinberar á því formi sem stofnunin leggi til. Í umræddum skýrslum sé að finna viðkvæmar viðskiptaupplýsingar, sér í lagi hjá kæranda vegna rekstrarforms hans. Umhverfisstofnun beri að meta hagsmuni þá sem í húfi séu við beitingu 19. gr. laga nr. 55/2003 og ganga ekki lengra en þörf krefji. Birting umræddra gagna geti skaðað hagsmuni fyrirtækja á samkeppnismarkaði og fortakslaus beiting ákvæðisins gangi gegn grundvallarreglum íslensks réttar um atvinnufrelsi, jafnræði og meðalhóf. Það þjóni ekki hagsmunum almennings eða umhverfis að birta nákvæmar viðskiptaupplýsingar fyrirtækisins og Umhverfisstofnun geti ákveðið að túlka skyldu skv. 19. gr. með vægari hætti, t.d. með því að fallast á tillögu kæranda um það hvernig upplýsingarnar verði birtar.
Umhverfisstofnun kveðst leggjast gegn frestun á réttaráhrifum hinna kærðu ákvarðana. Stofnunin hafi þá skyldu að safna viðkomandi tölfræðiupplýsingum og senda áfram samkvæmt skyldum Íslands gagnvart samningnum um hið Evrópska efnahagssvæði og loftslagssamningi Sameinuðu þjóðanna. Frekari töf á því en þegar sé orðin myndi leiða til þess að upplýsingarnar yrðu ófullnægjandi.
Niðurstaða: Í 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála segir að kæra til nefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar. Kærandi geti þó krafist úrskurðar um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi og sé um að ræða ákvörðun sem ekki feli í sér heimild til framkvæmda geti úrskurðarnefndin frestað réttaráhrifum hennar komi fram krafa um það af hálfu kæranda, sbr. 3. mgr. 5. gr. laganna. Hefur úrskurðarnefndin á grundvelli þessa ákvæðis sjálfstæða heimild til frestunar réttaráhrifa í tengslum við meðferð kærumáls, en sú heimild er undantekning frá þeirri meginreglu að kæra fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar.
Ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 13. ágúst 2015 fólst í því að veita kæranda áminningu og gefa honum tilhlýðilegan frest til úrbóta skv. 2. mgr. 66. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs. Hafði ákvörðunin þann tvíþætta tilgang að veita formlega viðvörun og gefa færi á úrbótum. Áhrif ákvörðunarinnar eru einkum þau að minna þarf til að beita beinskeyttari þvingunarúrræðum í kjölfar hennar. Þannig er ákvörðunin nauðsynlegur undanfari þess að dagsektum verði beitt skv. 3. mgr. 66. gr. sömu laga.
Ljóst er að um íþyngjandi ákvörðun er að ræða og að kærandi á hagsmuna að gæta. Beiting beinskeyttari þvingunarúrræða er þó ávallt háð því að ný stjórnvaldsákvörðun þess efnis sé tekin og væri slík ákvörðun þá kæranleg til úrskurðarnefndarinnar. Þá gæti kærandi, ef til kæmi, krafist frestunar réttaráhrifa slíkrar ákvörðunar. Í ljósi þess liggur ekki fyrir að nauðsyn knýi á um, með tilliti til hagsmuna kæranda, að fresta réttaráhrifum áminningarinnar. Verður kröfu kæranda um stöðvun réttaráhrifa ákvörðunar Umhverfisstofnunar, um að veita kæranda áminningu, því hafnað.
Kærandi krefst jafnframt frestunar réttaráhrifa þeirrar ákvörðunar Umhverfisstofnunar að hafna beiðni um að honum sé heimilt að skila inn tveimur skýrslum um magntölur úrgangs, þ.e. annars vegar ítarlegri skýrslu til tölfræðiútreiknings og hinsvegar samandreginni skýrslu til birtingar á heimasíðu stofnunarinnar. Með vísan til þess sem rakið var hér að framan, um skilyrði frestunar réttaráhrifa skv. 5. gr. laga nr. 130/2011, verður sú ákvörðun ein og sér að neita að taka við hinum umdeildu upplýsingum á því formi sem kærandi telur ásættanlegt ekki talin hafa þá réttarverkan að tilefni þyki vera til að fallast á kröfu um að fresta réttaráhrifum hennar. Verður kröfu kæranda um stöðvun réttaráhrifa nefndrar ákvörðunar því einnig hafnað.
Hafnað er kröfu kæranda um að frestað verði réttaráhrifum hinna kærðu ákvarðana Umhverfisstofnunar um að veita kæranda áminningu vegna vanskila á magntölum úrgangs. Jafnframt er hafnað kröfu kæranda um að hafna beiðni kæranda um að honum sé heimilt að skila inn tveimur skýrslum um magntölur úrgangs, annars vegar ítarlegri skýrslu til tölfræðiútreiknings og hins vegar samandreginni skýrslu til birtingar á heimasíðu stofnunarinnar.
Nanna Magnadóttir
______________________________ _____________________________
Ómar Stefánsson Ásgeir Magnússon