Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

49/2009 Fljótshamrar

Árið 2015, fimmtudaginn 22. október, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Hildigunnur Haraldsdóttir arkitekt.

Fyrir var tekið mál nr. 49/2009, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Bláskógabyggðar frá 2. júní 2009 um að samþykkja tillögu að endurskoðuðu deiliskipulagi Reykholts í Bláskógabyggð.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 3. júlí 2009, er barst nefndinni 7. s.m., kærir Ívar Pálsson hdl., f.h. eigenda Fljótshamra í Biskupstungum, Bláskógabyggð, þá ákvörðun sveitarstjórnar Bláskógabyggðar frá 2. júní 2009 að samþykkja tillögu að endurskoðuðu deiliskipulagi Reykholts í Bláskógabyggð. Skilja verður málskot kærenda svo að þess sé krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Tekur úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála málið til úrskurðar á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða II í lögum nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, sbr. breytingu á þeim lögum nr. 139/2014.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Bláskógabyggð 16. júní og 30. september 2015.

Málavextir: Hinn 28. nóvember 2006 samþykkti sveitarstjórn Bláskógabyggðar breytingu á deiliskipulagi Reykholts í Biskupstungum frá árinu 1999 sem fól í sér að tvær lóðir voru sameinaðar í eina lóð auk þess sem bætt var við lóðina svæði, þar sem áður hafði verið gert ráð fyrir vegi að lóðinni Fljótshömrum. Gerði deiliskipulagsbreytingin ráð fyrir að sú aðkoma að Fljótshömrum yrði felld niður. Deiliskipulagsbreytingin var hvorki auglýst né grenndarkynnt. Skipulagsstofnun gerði ekki athugasemd við að sveitarstjórn birti auglýsingu um samþykkt deiliskipulagsbreytingarinnar og tók hún gildi með auglýsingu sem birt var í B-deild Stjórnartíðinda 7. maí 2007. Með bréfi, dags. 6. september 2007, fóru kærendur fram á að ákvörðun sveitarstjórnar um að samþykkja umrædda deiliskipulagsbreytingu yrði endurupptekin og afturkölluð en með bréfi skipulagsfulltrúa, dags. 21. nóvember 2008, var þeim tilkynnt að beiðninni væri hafnað. Var sú ákvörðun kærð til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála.

Á fundi skipulagsnefndar uppsveita Árnessýslu 30. janúar 2008 var tekin fyrir tillaga um endurskoðun deiliskipulags fyrir austurhluta Reykholts. Samkvæmt fundargerð var um að ræða heildarendurskoðun á deiliskipulagi þess svæðis, en þar væru fyrir í gildi nokkrar deiliskipulagsáætlanir sem hefðu sætt nokkrum breytingum og hefðu sumar þeirra breytinga aldrei hlotið endanlegt gildi. Gert væri ráð fyrir að við gildistöku þessa skipulags féllu eldri deiliskipulagsáætlanir úr gildi. Tillagan væri í samræmi við breytingu á aðalskipulagi svæðisins sem sveitarstjórn hefði samþykkt að auglýsa. Á fundinum var samþykkt að auglýsa deiliskipulagstillöguna skv. 25. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og staðfesti sveitarstjórn þá afgreiðslu 5. febrúar 2008.

Tillagan var auglýst og kynnt frá 26. maí til 23. júní 2008 með athugasemdafresti til 7. júlí s.á. Athugasemdir bárust, m.a. frá kærendum. Áðurnefnd aðalskipulagsbreyting tók gildi 26. maí 2009 og á fundi skipulags- og byggingarnefndar uppsveita Árnessýslu og Flóahrepps 29. s.m. var deiliskipulagstillagan lögð fram á ný með nánar tilgreindum breytingum. Breytingarnar fólu í sér að landnotkun nokkurra lóða var breytt, afmörkun og stærð nokkurra lóða var lagfærð til samræmis við nákvæmari gögn og deiliskipulagssvæðið var stækkað. Var tillagan samþykkt með vísan til 25. gr. skipulags- og byggingarlaga ásamt umsögn um innsendar athugasemdir. Á fundi sveitarstjórnar Bláskógabyggðar 2. júní 2009 var fundargerð skipulags- og byggingarnefndar frá 29. maí s.á. staðfest. Tók endurskoðað deiliskipulag gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 17. ágúst 2009. 

Málsrök kærenda: Í kæru er vísað til fyrri kæru sömu kærenda, dags. 22. desember 2008, í máli nr. 117/2008 hjá úrskurðarnefndinni sem og til þeirra sjónarmiða er fram komi í bréfi kærenda frá 7. júlí 2008 til skipulagsfulltrúa uppsveita Árnessýslu og Flóahrepps. Í bréfinu kemur meðal annars fram að kærendur mótmæli þeirri málsmeðferð sem málið í heild hafi fengið. Með ólíkindum sé að Bláskógabyggð skuli hafa ákveðið að auglýsa, gegn vilja kærenda og þrátt fyrir að upplýsingar um málavexti hafi legið fyrir, tillögu að deiliskipulagi sem geri ráð fyrir að aðkoma að lóð kærenda, sem þeir eigi allan rétt á og hafi keypt með lóðinni, verði felld niður. Kærendur mótmæli því og krefjist þess að aðkoman verði sýnd á deiliskipulagsuppdrætti.

Umrædd breyting á deiliskipulagi sé ólögmæt. Í fyrsta lagi sé framsetning tillögunnar ekki í samræmi við ákvæði skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 eða skipulagsreglugerðar nr. 400/1998. Þannig sé greinargerð skipulagsins óskýr um markmið og tilgang tillögunnar, óljóst sé hverju sé verið að breyta og ekkert komi fram um hvaða skilmálar séu gildandi. Þá sé einnig ólögmætt að breyta svo nýlegu skipulagi með þeim hætti sem hér sé gert, þar sem hagsmunum eins sé hyglað á kostnað annarra. Almenningur verði að geta treyst því að skipulagsáætlunum verði ekki breytt nema almannahagsmunir krefjist þess og lögmæt og málefnaleg sjónarmið liggi að baki. Nauðsynlegt sé að því verði svarað hvaða lögmætu og málefnalegu sjónarmið búi að baki þeirri breytingu að fella niður aðkomu að lóð kærenda og hvaða aðrir hagsmunir búi þar að baki.

Deiliskipulagstillagan byggist á ólögmætri deiliskipulagsbreytingu að því er varði aðkomu að lóð kærenda. Þá sé jafnframt bent á að samkvæmt 4. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga sé óheimilt að breyta deiliskipulagi svæðis þar sem framkvæmt hafi verið í ósamræmi við skipulag fyrr en hin ólöglega bygging, eða byggingarhluti, hafi verið fjarlægð, jarðrask afmáð eða starfsemi hætt.

Kærendur árétti að þrátt fyrir að aðkoma að lóð þeirra sé nú um annað land, sem sé jafnframt í þeirra eigu, veiti það Bláskógabyggð ekki rétt til að fella niður umferðarrétt sem kærendur eigi og vilji nýta. Verði umferðarrétturinn felldur niður muni það leiða til tjóns fyrir kærendur á tvennan hátt. Í fyrsta lagi með niðurfellingu réttinda sem þeir eigi og hafi greitt fyrir. Í öðru lagi geti kærendur þá ekki annað en fest land undir aðkomu yfir annað land í þeirra eigu, en það muni draga úr verðmæti þess og hugsanlega koma í veg fyrir að hægt verði að selja það. Þá sé núverandi vegur að lóð kærenda þungfær á vetrum.

Málsrök Bláskógabyggðar: Bláskógabyggð bendir á að vísa beri kærunni frá úrskurðarnefndinni ellegar að hafna beri kröfu kærenda. Kæran sé vanreifuð, en í fyrirsögn hennar sé tilgreint að kærð sé ákvörðun sveitarstjórnar frá 11. nóvember 2008 þrátt fyrir að síðar í kærunni komi fram að kærð sé samþykkt á tillögu að endurskoðuðu deiliskipulagi Reykholts í Bláskógabyggð. Hið endurskoðaða deiliskipulag hafi verið samþykkt í sveitarstjórn 2. júní 2009. Engin leið sé að átta sig á því hvaða ákvörðun sé verið að kæra. Þá sé í kærunni vísað um rökstuðning til annarrar kæru sömu aðila til úrskurðarnefndarinnar, dags. 22. desember 2008, en sú kæra hafi lotið að synjun á beiðni um endurupptöku á deiliskipulagsbreytingu sem tekið hafi gildi 7. maí 2007 og ákvörðun sveitarstjórnar frá 11. nóvember 2008 um að gefa út að nýju byggingarleyfi vegna byggingar húss að Fljótsholti. Rökstuðningur að baki þeirri kæru geti ekki með nokkru móti átt við í máli þessu. Úrskurðarnefndin hafi ekki aflað frekari upplýsinga frá kærendum vegna  þessa, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, auk þess sem kærendur hafi ekki sent inn frekari rökstuðning af sinni hálfu. Þá sé engin kröfugerð sett fram af hálfu kærenda.

Vísað sé til þess að hin kærða ákvörðun sveitarstjórnar frá 11. nóvember 2008 hafi falið í sér samþykki fyrir breytingu á aðalskipulagi Biskupstungnahrepps 2000-2012 fyrir Reykholt. Ekki sé unnt að skjóta slíkri ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar, sbr. þágildandi 5. mgr. 8. gr. og 1. mgr. 19. gr. skipulags- og byggingarlaga. Telji úrskurðarnefndin að kæran taki til ákvörðunar sveitarstjórnar frá 2. júní 2009 sé á það bent að sú ákvörðun hafi ekki verið kæranleg fyrr en frá og með birtingu auglýsingar um gildistöku nýs deiliskipulags í Bláskógabyggð 17. ágúst 2009. Kærufrestur þeirrar ákvörðunar hafi liðið án þess að kæra hafi borist innan lögboðins kærufrests. Að lokum sé skírskotað til þess að meðferð málsins hafi dregist úr hömlu. Í því sambandi sé vísað til þágildandi 4. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga sem og 7. mgr. 8. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ótækt sé að fjalla um efnishlið málsins svo löngu eftir að hin kærða ákvörðun hafi verið tekin.

Telji úrskurðarnefndin að kæran taki til ákvörðunar sveitarstjórnar frá 2. júní 2009, um að samþykkja breytingu á deiliskipulagsáætlunum fyrir austurhluta Reykholts, sé byggt á því að ákvörðunin hafi verið fullkomlega lögmæt og í samræmi við skipulags- og byggingarlög. Kærendur geri ekki nokkra grein fyrir því í kæru sinni með hvaða hætti fyrrgreind ákvörðun sé andstæð lögum. Því sé engin leið fyrir Bláskógabyggð að átta sig á grundvelli kærunnar.

Vegna tilvísunar kærenda til eldri kæru sinnar, dags. 22. desember 2008, og fyrri athugasemda vísi Bláskógabyggð til greinargerðar sinnar til úrskurðarnefndarinnar í því kærumáli, dags. 30. mars 2009.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun sveitarstjórnar Bláskógabyggðar að samþykkja tillögu að endurskoðuðu deiliskipulagi Reykholts í Bláskógabyggð.

Ekki verður fallist á kröfu Bláskógabyggðar um frávísun málsins. Málatilbúnaður kærenda í kæru ber með sér hver hin kærða ákvörðun er, auk þess sem ljóst er að kæran lá fyrir hjá kærustjórnvaldi þegar kærufrestur byrjaði að líða. Þá geta tafir á afgreiðslu málsins ekki leitt til frávísunar þess. 

Eins og áður var rakið var gerð breyting á deiliskipulagi Reykholts í Biskupstungum á árinu 2007, en með þeirri breytingu var vegur að lóðinni Fljótshömrum frá Lyngbraut, sem skipulagið hafði áður sýnt, fjarlægður af deiliskipulagsuppdrætti. Hið kærða deiliskipulag er óbreytt að þessu leyti og snúast athugasemdir kærenda í máli þessu fyrst og fremst um það að áformuð aðkoma að lóð þeirra sé ekki á samþykktum deiliskipulagsuppdrætti.

Deiliskipulag Reykholts í Biskupstungum var samþykkt í sveitarstjórn Biskupstungnahrepps 29. júní 1999, en samkvæmt þágildandi 4. mgr. 25. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 skyldi birta auglýsingu um samþykkt deiliskipulag í B-deild Stjórnartíðinda. Ekki verður hins vegar séð að auglýsing um samþykkt deiliskipulags Reykholts í Biskupstungum frá 1999 hafi verið birt í samræmi við framangreint lagaákvæði. Tók skipulagið því aldrei gildi. Auglýsing um breytingu á því skipulagi, sem fól í sér umdeilda breytingu á aðkomu að lóð kærenda, var hins vegar birt í B-deild Stjórnartíðinda 7. maí 2007. Kærendur kröfðust endurupptöku og afturköllunar deiliskipulagsbreytingarinnar og kærðu höfnun þeirrar kröfu til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála eins og fyrr er rakið. Með úrskurði uppkveðnum fyrr í dag í máli nr. 117/2008 vísaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála þeirri kröfu kærenda frá með þeim rökum að ekki lægi fyrir kæranleg ákvörðun í tilefni af greindu erindi kærenda.

Áður en hið kærða deiliskipulag var samþykkt í sveitarstjórn var gerð breyting á Aðalskipulagi Biskupstungnahrepps 2000-2012, sem var staðfest af umhverfisráðherra 8. maí 2009. Tók aðalskipulagsbreytingin gildi með birtingu auglýsingar þar um í B-deild Stjórnartíðinda 26. s.m. Var þar meðal annars gerð sú breyting að landnotkun athafnalóðar við Vegholt 2 var breytt í opið svæði til sérstakra nota, þar sem gert var ráð fyrir reiðhöll í tengslum við hesthúsabyggð á svæðinu. Í hinu umdeilda deiliskipulagi er lóðin þó merkt sem athafnalóð. Þá er jafnframt ósamræmi á milli deiliskipulags og aðalskipulags hvað varðar landnotkun á jaðri suðvestanverðra lóðamarka lóðanna Vegholts 19, Vegholts 21 og Vegholts 23, meðal annars á milli Vegholts 19 og Brautarhóls, en þar gerir deiliskipulagið ráð fyrir opnu svæði sem ekki er sýnt á aðalskipulagsuppdrætti með áorðnum breytingum. Að lokum er á deiliskipulagsuppdrættinum gert ráð fyrir um 12 ha óbreyttu svæði suðvestan við Skólaveg frá „samþykktu deiliskipulagi“. Verður að telja að þar sé átt við deiliskipulag Reykholts í Biskupstungum frá 1999, með síðari breytingum. Svo sem að framan greinir tók það deiliskipulag aldrei gildi. Það að auki verður ekki séð að breytingar sem gerðar voru á því deiliskipulagi geti komið í stað skipulagsins sjálfs hvað varðar umrætt svæði nema að litlu leyti. Þá er tekið fram á staðfestum uppdrætti hins kærða deiliskipulags að gildandi deiliskipulagsáætlanir og breytingar á þeim fyrir svæðið falli úr gildi með hinu endurskoðaða deiliskipulagi. Hvorki forsendur né skipulagsskilmálar eldri skipulagsáætlana fyrir svæðið eru færðir inn á uppdrátt eða í skilmála hins nýja deiliskipulags. Af því leiðir að upplýsingar um svæðið skortir í hið kærða deiliskipulag, sbr. m.a. gr. 5.4 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998.

Samkvæmt framansögðu er framsetning deiliskipulagsins ekki í samræmi við skipulagsreglugerð nr. 400/1998. Þá er misræmi milli þess og gildandi aðalskipulags svæðisins og brýtur það í bága við ákvæði 7. mgr. 9. gr. þágildandi skipulags- og byggingarlaga um innbyrðis samræmi skipulagsáætlana.

Að öllu framangreindu virtu er hið kærða deiliskipulag haldið slíkum annmörkum að fallast verður á kröfu um ógildingu þess.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna tafa við gagnaöflun og sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun sveitarstjórnar Bláskógabyggðar frá 2. júní 2009 um að samþykkja tillögu að endurskoðuðu deiliskipulagi Reykholts í Bláskógabyggð.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ómar Stefánsson                                             Hildigunnur Haraldsdóttir