Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

32/2011 Dalbraut Bíldudal

Árið 2015, þriðjudaginn 24. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson yfirlögfræðingur og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 32/2011, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Vesturbyggðar frá 27. apríl 2011 varðandi afmörkun lóðar að Dalbraut 4 á Bíldudal.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 6. maí 2011, er barst nefndinni 9. s.m., kærir A, Flétturima 35, Reykjavík, ákvörðun bæjarstjórnar Vesturbyggðar frá 27. apríl 2011 varðandi afmörkun lóðar að Dalbraut 4, Bíldudal. Skilja verður málskot kæranda svo að þess sé krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Tekur úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála málið nú til úrskurðar á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða II í lögum nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, sbr. breytingu á þeim lögum nr. 139/2014.

Málavextir: Kærandi hefur verið eigandi íbúðarhúsnæðis að Dalbraut 4 á Bíldudal frá árinu 2001. Suðaustan við lóðina nr. 4 liggur Dalbraut, að suðvestan og norðvestanverðu liggur vegur upp að grunnskóla Vesturbyggðar og norðaustan við lóðina er leiksvæði. Í lóðarleigusamningi um greinda lóð frá árinu 1938 kemur fram að: ,,Lóð þessi er 20 metrar með götu og húsið fyrir miðri lóðinni. Breidd lóðarinnar er einnig 20 m. Lóðin er því í alt 400 ferm.“

Á fundi skipulags- og byggingarnefndar Vesturbyggðar 2. júlí 2010 var tekið fyrir erindi kæranda um staðfestingu á stærð og legu lóðarinnar að Dalbraut 4. Í erindinu kom fram að þegar Dalbrautin hafi verið breikkuð á árunum 1976-1978 hafi verið tekinn af lóðinni fimm metra skiki meðfram götunni. Í erindinu kom jafnframt fram að samkvæmt munnlegum heimildum hafi bætur fyrir þessa skerðingu verið þær að lóðin hafi verið stækkuð í norðvestur og suðvestur þannig að hún hafi orðið 700 m² til samræmis við lóðir á svæðinu sem úthlutað hafi verið eftir árið 1960. Byggingarfulltrúa var falið að gera tillögu að ásættanlegri lausn.

Kærandi ítrekaði erindið með bréfi, dags. 7. janúar 2011. Á fundi skipulags- og byggingarnefndar 12. s.m. var erindið tekið fyrir og eftirfarandi bókað: ,,Byggingarfulltrúi gerði grein fyrir þeim tillögum sem ræddar hafa verið og þá tillögu um 700 m² lóð sem Arnari stendur til boða. Skipulags- og byggingarnefnd felur byggingarfulltrúa að ljúka málinu skv. þeirri tillögu“.

Hinn 14. febrúar 2011 var samþykkt á fundi skipulags- og byggingarnefndar að lóðin nr. 4 við Dalbraut yrði 460 m² eins og hún væri sýnd á uppdrætti frá 18. janúar s.á. Var sú samþykkt byggð á því að komið hefði í ljós að lóðin, sem talin hefði verið 700 m², væri ekki nema 460 m². Sú afgreiðsla nefndarinnar var samþykkt af bæjarstjórn 16. febrúar 2011 og hún tilkynnt kæranda með bréfi byggingarfulltrúa, dags. 21. s.m.

Á fundi skipulags- og byggingarnefndar 26. apríl 2011 var tekið fyrir erindi kæranda, dags. 31. mars s.á., þar sem farið var fram á að lóðin yrði afmörkuð í samræmi við uppdrátt sem kærandi kvaðst hafa fengið í hendur frá Skipulagsstofnun að viðbættu því sem tekið hefði verið af lóðinni við gerð vegarins að grunnskólanum á Bíldudal. Nefndin vísaði til fyrri umfjöllunar um málið þar sem ákveðið hefði verið að lóðin yrði 60 m² stærri en þinglýst skjöl bæru með sér. Bæjarstjórn staðfesti þá afgreiðslu hinn 27. apríl 2011 og var kæranda tilkynnt um þær málalyktir með bréfi, dags. 2. maí s.á.

Samkvæmt framangreindri teikningu, dags. 18. janúar 2011, sem skipulags- og byggingarnefnd skírskotaði til við afgreiðslu málsins, verða lóðarmörk Dalbrautar 4 færð til suðvesturs og í suðurhorni hennar er gert ráð fyrir tveimur bílastæðum.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er vísað til þess að hann hafi talið að afgreiðsla byggingarfulltrúa hinn 12. janúar 2011 um tillögu að 700 m² lóð sem honum stæði til boða, væri lyktir málsins. Ákvörðun um að lóðin sé ekki talin vera nema 460 m² sé ekki studd neinum gögnum og ekki hafi verið rætt við þá heimildarmenn sem kærandi hafi bent á. Kærandi hafi aðeins fengið teikningu af lóðinni eins og nefndin hafi ákveðið upp á sitt eindæmi en teikningin hafi verið nánast sú sama og þáverandi bæjarstjóri hafi sýnt honum sumarið 2009. Þá hafi bæjarstjóri verið að óska eftir að kærandi gæfi eftir hluta af lóð sinni að norðvestanverðu undir bílastæði fyrir grunnskólann. Um eignaskerðingu sé að ræða, sér í lagi ef sveitarfélagið ætli að gera bílastæði á þessum hluta lóðarinnar.

Kærandi hafi fengið þær upplýsingar eftir að ákvörðun hafi verið tekin hinn 14. febrúar 2011 að hætt hefði verið við fyrirhuguð bílastæði fyrir skólann og að sveitarfélagið ætlaði sér engin not á norðvesturhluta lóðarinnar. Hafi kæranda verið bent á að senda inn nýtt erindi sem hægt væri að afgreiða í sátt. Því hafi kærandi sent inn annað erindi um afmörkun lóðarinnar, öllu ítarlegra, og m.a. stuðst við teikningu frá Skipulagsstofnun. Þrátt fyrir það hafi niðurstaðan orðið sú að ákvörðun bæjaryfirvalda um eignarupptöku væri óbreytt. Við afgreiðslu erindis kæranda hafi verið bent á þinglýst skjal frá árinu 1938 um að umrædd lóð væri 400 m² en ekki verið minnst á að sú lóð taki yfir mestan part vegarins neðan við hús kæranda. Bílastæði sé í austurhorni lóðar kæranda, sem hafi verið úthlutað af sveitarfélaginu við lóðarbreytingu, en vilji sveitarfélagið breytingu eða færslu á bílastæðinu hljóti sú framkvæmd að verða í umsjá og á kostnað sveitarfélagsins. Orðalag fundargerðar skipulags- og byggingarnefndar þegar hin kærða ákvörðun hafi verið tekin bendi hvorki til vilja til að kanna tiltæk gögn hjá Skipulagsstofnun né að fara eftir þeim. Þá liggi fyrir teikning verkfræðistofu, að öllum líkindum frá árinu 1980, sem sýni umdeilda lóðarlínu norðvestan við húsið og sé í samræmi við áðurnefnda teikningu frá Skipulagsstofnun.

Í bréfi byggingarfulltrúa, dags. 21. febrúar 2011, sem póstlagt hafi verið 2. mars s.á. hafi ekki verið getið um kærufrest. Virðist byggingarfulltrúi hafa haldið bréfinu hjá sér í alltof marga daga meðan kærufrestur leið. Þá hafi fullyrðing nefndarmanns í skipulags- og byggingarnefnd um lausn málsins tafið fyrir því að kærandi færi strax með málið í kæruferli.

Málsrök Vesturbyggðar:
Bæjaryfirvöld benda á að íbúðarhúsið að Dalbraut 4 hafi verið byggt árið 1938 og sé nú í raun sumarhús, en sú sé þróunin með mörg hús á Bíldudal. Frá því að húsið hafi verið byggt hafi lega og breidd Dalbrautar breyst mjög mikið. Það sé ljóst að sá hluti lóðarinnar sem hafi verið götumeginn sé að mestu kominn undir götuna. Ekki séu til neinir samningar, lóðarblöð eða önnur gögn, hvorki hjá sveitarfélaginu né þinglýst hjá sýslumanni um þessar breytingar, en skráningu hafi ekki verið breytt í landsskrá fasteigna. Það bendi til þess að engar formlegar ákvarðanir hafi verið teknar. Deiliskipulag hafi ekki verið gert fyrir svæðið en þéttbýlisuppdráttur sem sýni landnotkun sé hluti af Aðalskipulagi Vesturbyggðar 2006-2018.

Eins og fram komi í kæru hafi verið reynt að ná samkomulagi við kæranda um legu og lögun lóðarinnar en það hafi ekki tekist. Því hafi skipulagsyfirvöld tekið einhliða ákvörðun um stærð og legu lóðarinnar eins og hún sé sýnd á hnitasettu mæliblaði. Skýringin á því hvers vegna lóðin sé stækkuð úr 400 m² í 460 m² sé sú að með því móti sé hægt að koma fyrir tveimur bílastæðum á lóðinni með sæmilegu móti eins og sýnt sé á mæliblaðinu. Búast hefði mátt við mótmælum lóðarhafa vegna stækkunar á gjaldstofni fasteignagjalda en ekki hinu gagnstæða.

Því sé mótmælt sem rangfærslu að um einhverja eignarupptöku sé að ræða þar sem húsinu hafi aldrei fylgt stærri lóð en 400 m² og ekki hafi verið greidd lóðarleiga af stærri lóð en það.

——————

Aðilar hafa fært fram ítarlegri rök fyrir máli sínu sem ekki verða rakin nánar hér en úrskurðarnefndin hefur haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Hin kærða ákvörðun bæjarstjórnar var tekin á grundvelli þágildandi 30. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, þar sem kveðið var á um að óheimilt væri að skipta jörðum, löndum eða lóðum eða breyta landamerkjum og lóðamörkum nema samþykki sveitarstjórnar kæmi til.

Samkvæmt Aðalskipulagi Vesturbyggðar 2006-2018, Bíldudalur, er lóðin nr. 4 við Dalbraut á skilgreindu óbyggðu svæði en var áður á íbúðarsvæði skv. Aðalskipulagi Bíldudals 1986-2006. Ekki hefur verið gert deiliskipulag fyrir umrætt svæði. Eins og rakið hefur verið varð breyting á lóðarmörkum Dalbrautar 4, frá því að lóðarleigusamningur um þá lóð var gerður á árinu 1938, með því að Dalbrautin var færð nær húsinu. Ekki liggja fyrir úrskurðarnefndinni gögn um það hvort samkomulag hafi orðið milli þáverandi lóðarhafa og skipulagsyfirvalda um þá breytingu eða hvernig lóðarmörkum yrði háttað eftir það.

Almennt er stærð og lega lóða ákvörðuð í deiliskipulagi. Þar sem það lá ekki fyrir átti sveitarstjórn þess kost samkvæmt 30. gr. skipulags- og byggingarlaga að taka einstakar ákvarðanir um skiptingu lands og lóða og lóðarmörk á svæðinu. Verður að telja slíka ákvörðun í eðli sínu skipulagsákvörðun. Fyrir liggur að eina þinglýsta skjalið um afmörkun nefndrar lóðar er lóðarleigusamningur frá árinu 1938 þar sem lengd og breidd lóðarinnar er tilgreind 20 metrar með hús fyrir miðju lóðar og lóðarmörk við götu. Ákvörðun um önnur mörk lóðarinnar verður ekki tekin nema með samkomulagi við lóðarhafa eða eftir atvikum með eignarnámi, séu skilyrði til þess fyrir hendi, sbr. 33. gr. skipulags- og byggingarlaga. Af hálfu sveitarfélagsins er bent á að komið hafi í ljós að af þess hálfu hafi ekki verið gert formlegt samkomulag við þáverandi lóðarhafa í tilefni af færslu Dalbrautar. Þá liggur ekki fyrir að eignarnámi hafi verið beitt vegna þeirrar breytingar.

Með vísan til þess sem að framan er rakið er hin kærða ákvörðun haldin slíkum annmörkum að ógildingu varði.

Uppkvaðningu úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun bæjarstjórnar Vesturbyggðar frá 27. apríl 2011 varðandi afmörkun lóðar að Dalbraut 4 á Bíldudal í Vesturbyggð.

___________________________
Nanna Magnadóttir

_____________________________         ____________________________
Ómar Stefánsson                                      Þorsteinn Þorsteinsson