Fyrir var tekið mál nr. 48/2011, kæra á afgreiðslu byggingarfulltrúa Kópavogs frá 21. júní 2011 um að hafna umsókn um leyfi til að reisa viðbyggingu ofan á bílskúr á lóðinni nr. 25 við götuna Fífuhvamm í Kópavogi.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 30. júní 2011, sem barst nefndinni 1. júlí s.á., kærir Sævar Geirsson, f.h. G, Fífuhvammi 25, Kópavogi, þá ákvörðun skipulagsnefndar Kópavogs frá 17. maí 2011 að synja umsókn kæranda um leyfi til að reisa viðbyggingu ofan á bílskúr á lóðinni nr. 25 við Fífuhvamm. Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Skilja verður málskot kæranda svo að kærð sé afgreiðsla byggingarfulltrúa á téðri umsókn enda er á hans forræði lögum samkvæmt að afgreiða umsóknir um byggingarleyfi.
Tekur úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála málið nú til endanlegs úrskurðar á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða II í lögum nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, sbr. breytingalög nr. 139/2014.
Gögn málsins bárust frá Kópavogi 14. nóvember 2011.
Málavextir: Á lóðinni nr. 25 við Fífuhvamm er tveggja hæða hús og er hvor hæð 80 m² samkvæmt upplýsingum úr fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands. Austan hússins og sambyggður því að hluta er 56,8 m² bílskúr, sem reistur var töluvert síðar en húsið, og tilheyrir hann íbúð kæranda. Umrædd lóð við Fífuhvamm er á svæði sem ekki hefur verið deiliskipulagt.
Árið 2010 var tekin fyrir hjá sveitarfélaginu umsókn lóðarhafa um leyfi til að reisa viðbyggingu ofan á nefndan bílskúr. Að lokinni grenndarkynningu var erindið tekið fyrir hinn 18. janúar 2011, ásamt umsögn, dagsettri sama dag, um fram komnar athugasemdir. Var í umsögn talið að erindið samræmdist ekki götumynd og leiddi til íþyngjandi skuggamyndunar á lóð Fífuhvamms 27 og Víðihvamms 20. Samþykkti skipulagsnefnd umsögnina og vísaði erindinu til afgreiðslu byggingarfulltrúa, sem synjaði umsókn kæranda.
Kærandi lagði í kjölfar þessa fram breyttar teikningar og vísaði byggingarfulltrúi erindinu til skipulagsnefndar til ákvörðunar um grenndarkynningu. Ákvað skipulagsnefnd á fundi hinn 15. mars 2011 að grenndarkynna erindið fyrir lóðarhöfum Fífuhvamms 23 og 27 og Víðihvamms 16, 18 og 20. Í kynningarbréfi vegna grenndarkynningar kom fram að þær breytingar hefðu verið gerðar frá fyrri umsókn að viðbyggingin væri nú með slétt þak í stað einhalla þaks eins og fyrri umsókn hafði gert ráð fyrir. Væri heildarhæð byggingarinnar 1,74 m lægri en áður hafði verið ráðgert, en heildarvegghæð viðbyggingar væri 3 m frá þaki bílgeymslu. Á kynningartíma bárust athugasemdir frá lóðarhafa að Fífuhvammi 27 er gerði m.a. athugasemd við skuggavarp. Á fundi skipulagsnefndar hinn 17. maí 2011 var erindið tekið fyrir á ný. Jafnframt var greint frá fundi sem haldinn var með lóðarhöfum Fífuhvamms 27 og lagðar fram ljósmyndir er teknar voru af vettvangi. Hafnaði skipulagsnefnd erindinu með vísan til fram kominna athugasemda og niðurstöðu skipulagsnefndar frá 18. janúar 2011 og vísaði málinu til byggingarfulltrúa. Staðfesti bæjarráð afgreiðslu skipulagsnefndar 9. júní s.á. og bæjarstjórn 14. s.m. Synjaði byggingarfulltrúi umsókn kæranda hinn 21. júní 2011 með vísan til afgreiðslu skipulagsnefndar.
Málsrök kæranda: Kærandi vísar til athugasemda lóðarhafa Fífuhvamms 27 sem bárust við grenndarkynningu. Þar hafi verið talið að skuggamyndun á lóð Fífuhvamms 27 yrði óviðunandi, byggingin félli ekki að götumynd og myndi væntanlega rýra verðgildi fasteignarinnar. Þá hafi verið bent á að bílskúr á lóðinni virtist nýttur sem íbúðarhúsnæði, en að ekki hafi verið veitt samþykki fyrir íbúðarbyggingu á tveimur hæðum í lóðarmörkum. Telji kærandi að nefndar athugasemdir hafi ekki verið studdar haldbærum rökum og því beri að virða þær að vettugi. Bent sé á að mun meira skuggavarp stafi frá Fífuhvammi 27 en verði frá hinni umdeildu viðbyggingu. Þá hafi kærandi leitað til nokkurra arkitekta og hafi það verið samdóma álit þeirra að viðbyggingin myndi bæta ásýnd götunnar. Einnig hafi það verið samdóma álit nokkurra fasteignasala að fullyrðingar um verðrýrnun fasteignarinnar að Fífuhvammi 27 ættu ekki við rök að styðjast. Önnur rök sem sett hafi verið fram séu ómálefnaleg og hafi ekki þýðingu. Niðurstaða skipulagsnefndar frá 18. janúar 2011 sé vegna annars máls og varði annað hús. Eigi þau rök sem þar séu sett fram ekki við í máli þessu. Þá telji kærandi að gróflega hafi verið brotið gegn ákvæðum 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um jafnræði þar sem fordæmi séu fyrir svipuðum viðbyggingum á svæðinu og um hafi verið sótt.
Málsrök Kópavogsbæjar: Kópavogsbær telur hina kærðu ákvörðun formlega og efnislega rétta og gerir þá kröfu að hún verði staðfest. Kærandi hafi sótt um að reisa tveggja hæða viðbyggingu austan megin við hús sitt árið 2006 en því hafi verið hafnað. Hafi þá verið lögð fram umsókn um byggingu bílskúrs og geymslu á einni hæð og hafi sú umsókn á endanum verið samþykkt, þrátt fyrir mótmæli nágranna. Þegar mat sé lagt á athugasemdir verði að líta til forsögu málsins. Lóðarhafi Fífuhvamms 27 hafi gert ítarlegar athugasemdir við fyrri grenndarkynningu og einnig hafi eigandi Víðihvamms 20 komið á framfæri athugasemdum. Ljóst sé að andstaða sé við framkvæmdina á meðal nágranna, en ekki sé hægt að ætlast til þess að þeir sendi inn ítarlegar greinargerðir í tilfelli sem þessu þegar um sé að ræða margendurteknar umsóknir um sömu bygginguna.
Telja verði að athugasemdir eiganda Fífuhvamms 27 séu málefnalegar og veigamiklar. Það sé til mikils ama og óþæginda að reist sé tveggja hæða bygging nánast á lóðamörkum. Slík bygging varpi skugga á aðliggjandi lóð og skerði útsýni auk þess, sem lítil prýði sé af því fyrir nágranna að hafa tveggja hæða húsvegg svo nálægt húsi sínu.
Þótt hugsanlega stafi meira skuggavarp af Fífuhvammi 27 en af Fífuhvammi 25 þá réttlæti það ekki að aukið sé við skuggavarp á lóðina nr. 27. Það sé engin regla að jafnvægi eigi að vera í skuggavarpi. Hins vegar sé það almenn regla að heimila ekki byggingarframkvæmdir sem skerði rétt nágranna nema eitthvað sérstakt komi til. Þá sé bent á að álit ónafngreindra aðila sem vitnað sé til án nokkurra gagna geti ekki haft vægi í málinu.
Tveggja hæða bygging við lóðamörk sé augljóslega á skjön við götumynd. Til séu bílskúrar í hverfinu sem liggi nálægt lóðamörkum en þeir séu ekki tveggja hæða. Þá sé ekki rökstutt hvernig skipulagsnefnd hafi brotið jafnræðisreglu með synjun sinni, en engar tveggja hæða byggingar hafi verði samþykktar svo nærri lóðamörkum.
Þrátt fyrir að þakformi byggingarinnar hafi verið breytt í síðustu umsókn kæranda sé hún þó hliðstæð fyrri tillögunni að öðru leyti. Því eigi sömu rök og sjónarmið að langmestu leyti við og fram hafi komið í umsögn skipulagsnefndar og því eðlilegt að hún hafi verið höfð til hliðsjónar eftir því sem við hafi átt. Bæjaryfirvöld hafi tvívegis hafnað tveggja hæða byggingu við lóðamörk kæranda og nágranna hans. Að baki þeim ákvörðunum hafi legið málefnalegar ástæður sem lýst sé í nefndri umsögn. Kærandi hafi því ekki getað haft réttmætar væntingar um að fá umsókn sína samþykkta. Þá sé loks tekið fram að með þeirri byggingu sem sótt sé um fari nýtingarhlutfall lóðarinnar í 0,36 en meðalnýtingarhlutfall lóða í hverfinu sé 0,29.
Andmæli kæranda við málsrökum Kópavogsbæjar: Kærandi telur málsrök Kópavogsbæjar fela í sér rangfærslur, útúrsnúninga og órökstuddar fullyrðingar. Teikning af bílskúr við Fífuhvamm 25 hafi verið samþykkt án nokkurra mótmæla. Gengið hafi verið langt í því að koma til móts við óraunhæfar kröfur eigenda Fífuhvamms 27 um að draga úr byggingarmagni og miklu meira en eðlilegt geti talist með tilliti til jafnræðissjónarmiða. Áréttað sé að það samræmist ekki góðum og vönduðum stjórnsýsluháttum að afgreiða mál á grundvelli algerlega óskyldra mála, en fyrrgreindar viðbyggingar séu með gjörólíku þakformi. Séu athugasemdir lóðarhafa Fífuhvamms 27, sem bæjaryfirvöld skírskoti til, órökstuddar. Þá sé bent á að þrjú hús í götunni séu á tveimur hæðum og á lóðamörkum. Þrír bílskúrar séu ígildi tveggja hæða húsa á lóðamörkum vegna hæðarsetningar, auk þess sem nokkur hús í götunni séu þrjár hæðir.
———
Færð hafa verið fram ítarlegri sjónarmið í málinu sem ekki verða rakin nánar en úrskurðarnefndin hefur haft til hliðsjónar við úrlausn málsins.
Niðurstaða: Hin kærða synjun byggingarfulltrúa Kópavogs um leyfi til að reisa viðbyggingu ofan á bílskúr að Fífuhvammi 25 var rökstudd með vísan til afgreiðslu skipulagsnefndar hinn 17. maí 2011, þar sem erindi kæranda var hafnað. Sú afgreiðsla var byggð á athugasemdum er bárust við grenndarkynningu erindisins, sem og á umsögn skipulagsnefndar, dags. 18. janúar s.á., er gerð var í tilefni af fyrri umsókn kæranda um leyfi til viðbyggingar ofan á téðan bílskúr. Var tiltekið í umsögninni að framlögð tillaga samræmdist ekki götumynd og hefði í för með sér íþyngjandi skuggamyndun á lóðirnar að Víðihvammi 20 og Fífuhvammi 27. Í gögnum málsins kemur fram að kærandi óskaði með bréfi, dags. 10. febrúar 2011, eftir því að skipulagsnefnd endurskoðaði samþykkt sína frá 18. janúar 2011. Bar kærandi meðal annars fyrir sig að gerðar hefðu verið breytingar á þakformi viðbyggingarinnar og kom jafnframt að athugasemdum um skuggavarp og götumynd. Var beiðni kæranda um endurskoðun hafnað en ný umsókn hans um viðbyggingu grenndarkynnt. Gerði sú umsókn ráð fyrir sléttu þaki á hinni umdeildu viðbyggingu í stað einhalla þaks. Við þá breytingu lækkaði heildarhæð viðbyggingar.
Umrædd viðbygging yrði ofan á bílskúr sem er að nokkru samsíða húsi kæranda. Er bílskúrinn í um 40 cm fjarlægð frá lóðarmörkum Fífuhvamms 27 og yrði viðbyggingin jafnstór bílskúrnum að flatarmáli, eða 56,8 m². Hækkar nýtingarhlutfall lóðarinnar við þetta úr 0,28 í 0,35. Meðalnýtingarhlutfall 18 lóða við Fífuhvamm og Víðihvamm er 0,29 samkvæmt fyrrgreindri umsögn skipulagsnefndar en finna má hærra nýtingarhlutfall lóða á svæðinu, svo sem að Fífuhvammi 23, sem hefur nýtingarhlutfallið 0,51. Ljóst er að grenndaráhrif verða vegna viðbyggingarinnar. Í rökstuðningi fyrir hinni kærðu ákvörðun var vísað til umsagnar skipulagsnefndar frá 18. janúar 2011, sem átti við um aðra útfærslu umsóttrar viðbyggingar. Athugasemdir er bárust við grenndarkynningu, og þær athugasemdir kæranda sem fram komu er beiðni hans um endurskoðun á afgreiðslu fyrri umsóknar var til afgreiðslu, gáfu tilefni til að rannsaka málið frekar í samræmi við 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Var því ástæða til að kanna breytingar á skuggavarpi og hvort jafnræðis væri gætt hvað varðaði heimildir til nýtingar lóða á svæðinu, sem eins og fyrr segir hefur ekki verið deiliskipulagt. Að framangreindu virtu þykir undirbúningi og rökstuðningi fyrir hinni kærðu ákvörðun svo áfátt að leiða eigi til ógildingar hennar.
Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.
Úrskurðarorð:
Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa Kópavogs frá 21. júní 2011 um að synja umsókn um leyfi til að reisa viðbyggingu ofan á bílskúr á lóðinni að Fífuhvammi 25 í Kópavogi.
Nanna Magnadóttir
_____________________________ ____________________________
Ásgeir Magnússon Þorsteinn Þorsteinsson