Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

77/2014 Mánatún

Árið 2014, fimmtudaginn 2. október tók Ómar Stefánsson varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr. l. nr. 130/2011:

Mál nr. 77/2014, kæra á ákvörðunum byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 28. mars 2006 og 23. nóvember 2011 um að veita leyfi til þess að byggja allt að níu hæða steinsteypt fjölbýlishús á lóðinni nr. 3-5 við Mánatún í Reykjavík með fimmtíu og sex íbúðum ásamt bílageymslu og geymslukjallara á tveimur hæðum fyrir samtals 284 bíla og að ganga frá og taka í notkun til bráðabirgða hluta bílageymslunnar á nefndri lóð.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 18. júlí 2014, er barst nefndinni sama dag, kærir O, f.h. hússtjórnar Mánatúns 3-5, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 28. mars 2006 að veita leyfi til þess að byggja allt að níu hæða steinsteypt fjölbýlishús á lóðinni nr. 3-5 við Mánatún með 56 íbúðum ásamt bílageymslu og geymslukjallara á tveimur hæðum fyrir samtals 284 bíla og ákvörðun byggingarfulltrúa frá 23. nóvember 2011 um að veita byggingarleyfi til þess að ganga frá og taka í notkun til bráðabirgða hluta bílageymslunnar á nefndri lóð.

Gerir kærandi þá kröfu að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi að því er varðar heimilaða bílageymslu og að framkvæmdir verði stöðvaðar til bráðabirgða á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nú nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kæranda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg hinn 28. júlí 2014.

Málavextir: Hinn 30. mars 2006 staðfesti borgarráð ákvörðun byggingarfulltrúa frá 28. s.m. um að veita byggingarleyfi fyrir fjölbýlishúsi við Mánatún 3-5 sem var fyrsti áfangi í uppbyggingu á svonefndum bílanaustreit, en hann samanstendur af lóðum nr. 1-17 við Mánatún og 1-3 við Sóltún. Var byggingarleyfi fyrir framkvæmdunum gefið út hinn 28. febrúar 2007. Hinn 23. nóvember 2011 samþykkti byggingarfulltrúi að veitt yrði byggingarleyfi til þess að ganga frá og taka í notkun til bráðabirgða hluta bílageymslunnar á nefndri lóð sem heimiluð hafði verið með byggingarleyfinu frá árinu 2006. Staðfesti borgarráð þá ákvörðun hinn 25. s.m. Samkvæmt þeim teikningum sem samþykktar voru árin 2006 og 2011 er gert ráð fyrir einni inn- og útkeyrslu í bílageymsluna frá Mánatúni en á gildandi deiliskipulagsuppdrætti svæðisins frá árinu 2005 er að finna tvær inn- og útkeyrslur, þ.e. ein frá Mánatúni og hin frá Sóltúni. Hinn 10. júlí 2013 gerði leyfishafi samkomulag um tímabundin afnot af bílastæðum við íbúa Mánatúns 3-5 og í kjölfarið sendi kærandi byggingafulltrúa bréf dags. 17. júlí 2013 þar sem áréttað var að samkvæmt gildandi deiliskipulagi væri gert ráð fyrir tveimur inn- og útkeyrslum fyrir umrædda bílgeymslu og að óhjákvæmilegt væri að taka tillit til þess í núverandi byggingaráfanga. Var farið fram á að byggingarfulltrúi hlutaðist til um að önnur inn- og útkeyrsla yrði gerð. Sendi kærandi byggingarfulltrúa ítrekunarbréf, dags. 20. janúar 2014 og 14. apríl s.á. Svar barst frá byggingarfulltrúa, dags. 7. maí 2014, þar sem hann mat það svo að inn- og útkeyrslur í bílageymsluna sem sýndar væru á skipulagsuppdrætti væru leiðbeinandi en ekki skyldubundnar.
 
Málsrök kæranda: Skírskotar kærandi til þess að með hinum kærðu ákvörðunum hafi í veigamiklum atriðum verið vikið frá gildandi deiliskipulagi er varðar fjölda og fyrirkomulag inn- og útkeyrslna í bílageymslu sem fjölbýlishúsið að Mánatúni 3-5 hafi aðgang að. Aðeins sé gert ráð fyrir einni inn- og útkeyrslu en í deiliskipulaginu sé gert ráð fyrir tveimur. Samkvæmt skipulagslögum nr. 123/2010 sem og eldri skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997 eigi að byggja í samræmi við gildandi deiliskipulag. Gert hafi verið ráð fyrir 305 bílastæðum í gildandi deiliskipulagi en samkvæmt umdeildu byggingarleyfi séu bílastæðin aðeins 284. Hafi greint fyrirkomulag á aðkomu verið kynnt kaupendum íbúða í Mánatúni 3-5 með vísan til deiliskipulagsins. Núverandi inn- og útkeyrsla sé í norðausturhluta Mánatúns 3 en samkvæmt deiliskipulagi hafi einnig verið gert ráð fyrir inn- og útkeyrslu frá Sóltúni. Sú inn- og útkeyrsla hafi ekki verið til staðar í upphafi þar sem framkvæmdir standi enn yfir í þeim hluta. Þegar framkvæmdir hafi hafist við Mánatún 7-17 hafi verið vakin athygli á því að samkvæmt deiliskipulagi sé gert ráð fyrir tveimur inn- og útkeyrslum og hafi framkvæmdaraðili tekið undir þau sjónarmið að hentugra væri að hafa tvær en slíkt væri þó ekki skylt samkvæmt byggingarleyfi. Í kjölfarið hafi verið leitað til byggingarfulltrúa og hafi verið farið fram á að hann sæi til þess að framkvæmdaraðili myndi gera ráðstafanir til að koma fyrir annarri inn- og útkeyrslu. Hins vegar hafi byggingarfulltrúi ekki talið ástæðu til að verða að beiðninni þar sem ekki væri um skyldu að ræða. Virðist fjöldi inn- og útkeyrslna í bílageymsluna og fyrirkomulag þeirra ekki hafa fengið neina umfjöllun áður en byggingarleyfið hafi verið samþykkt. Sé aðeins vísað til þess að í deiliskipulaginu sé tekið fram að fyrirkomulag bílastæða sé leiðbeinandi. Telji kærandi það fráleitt að ákvæði um „fyrirkomulag bílastæða“ sé yfirfært á fyrirkomulag og fjölda innkeyrslna í bílageymsluna.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er vísað til þess að í deiliskipulaginu sé tekið fram að fyrirkomulag bílastæða á skipulagsuppdrætti sé leiðbeinandi en að auki sé fjallað um aðkomu að byggingum í deiliskipulaginu þar sem komi fram að aðkoma íbúðarlóða sé frá Sóltúni og Mánatúni. Þegar litið sé til þess að fyrirmæli í deiliskipulagi um bílastæði, bæði ofanjarðar og í bílakjallara, séu leiðbeinandi verði ekki séð að umrædd byggingaleyfi fari í bága við ákvæði gildandi deiliskipulags.

Málsrök leyfishafa: Bendir leyfishafi á að framkvæmdir byggi á gildu byggingarleyfi og sé því ekki um óleyfisframkvæmdir að ræða. Vísa eigi málinu frá þar sem í fyrsta lagi sé kæra í máli þessu allt of seint fram komin. Umdeilt byggingarleyfi hafi verið gefið út 26. janúar 2012 og hafi framkvæmdir hafist strax í kjölfarið. Mætti kæranda því hafa verið kunnugt um ákvörðunina strax á árinu 2012. Að auki hafi verið haldinn húsfélagsfundur í júlí 2013 þar sem fjallað hafi verið um málið og í framhaldi hafi hafist bréfaskriftir á milli kæranda og Reykjavíkurborgar. Einnig hafi legið fyrir samþykktar teikningar og eignaskiptayfirlýsing með teikningum, m.a. af bílakjallara sem hafi verið fylgigögn með kaupsamningum allra þeirra sem að kæranda standi. Hafi komið fram á þeim teikningum að einungis ein inn- og útkeyrsla verði fyrir bílakjallarann. Hafi því kæranda mátt vera kunnugt um útgáfu byggingarleyfisins fyrir löngu síðan. Kærandi hafi ekki sýnt fram á að veigamiklar ástæður séu til þess að heimila lengri kærufrest. Hins vegar séu fyrir hendi veigamiklar ástæður fyrir því að ekki sé vikið frá lögbundnum kærufresti þar sem framkvæmdirnar séu langt komnar á grundvelli hins kærða byggingarleyfis og sé nú þegar búið að selja íbúðir í Mánatúni 7-17. Myndu tafir á framkvæmdum og breytingar á byggingunni og byggingarkostnaði leiða til verulegs tjóns fyrir leyfishafa þar sem þeir hefðu mátt gera ráð fyrir því að kærufrestir vegna útgefinna byggingarleyfa væru liðnir.

Því sé andmælt að byggingarleyfið sé ekki í samræmi við gildandi deiliskipulag. Deiliskipulagið sé skipulagsáætlun fyrir tiltekið svæði og hafi verið veitt byggingar- og framkvæmdarleyfi í samræmi við lög og reglugerðir. Það komi hvergi fram í deiliskipulaginu að skylt sé að hafa tvær inn- og útkeyrslur í bílakjallarann og teljist það því ekki frávik eða breyting frá deiliskipulagi. Að auki sé ekki kveðið á um í byggingarreglugerð hversu margar útkeyrslur eigi að vera úr bílageymslu.

Niðurstaða: Í máli þessu er krafist að byggingarleyfi sem samþykkt voru hinn 28. mars 2006 og 23. febrúar 2011 verði felld úr gildi. Er um það deilt hvort hinar kærðu ákvarðanir séu í samræmi við gildandi deiliskipulag hvað varðar fjölda bílastæða í bílageymslu og fjölda inn- og útkeyrslna fyrir bílageymsluna. Kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni hinn 18. júlí 2014 og fer byggingarleyfishafi fram á að kærumálinu verði vísað frá þar sem kærufrestur hafi verið liðinn er kæran barst úrskurðarnefndinni.

Frestur til að kæra ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar er einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um hana nema á annan veg sé mælt í lögum, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Upphaf kærufrests í máli þessu ræðst af því hvenær kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um efni kæranlegrar ákvörðunar miðað við málsatvik.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum málsins áttu fulltrúar kæranda fund með starfsmanni byggingarfulltrúa hinn 4. júlí 2013 þar sem m.a. var rætt um fyrirkomulag inn- og útaksturs fyrir fyrrgreinda bílageymslu. Er vísað til þessa fundar í bréfi kæranda til embættis byggingarfulltrúa, dags. 17. júlí 2013, þar sem þeirri skoðun var lýst að óhjákvæmilegt væri að hafa aðkomurnar í umrædda bílageymslu tvær enda gert ráð fyrir slíku í gildandi deiliskipulagi. Verður af þessu ekki annað ráðið en að kæranda hafi fyrir þann tíma mátt vera kunnugt um að veitt byggingarleyfi gerðu aðeins ráð fyrir einni aðkomu að bílageymslunni. Fyrrgreindu bréfi kæranda var svarað með bréfi byggingarfulltrúa, dags. 7. maí 2014, þar sem þeirri skoðun var lýst að gildandi deiliskipulag fæli ekki í sér ákvörðun um tvær aðkomur að umræddri bílageymslu heldur sýndi uppdráttur möguleika á aðkomum frá tveimur stöðum. Ekki liggur fyrir að kæranda hafi verið leiðbeint um kæruleiðir og kærufrest vegna málsins svo sem rétt hefði verið að gera með hliðsjón af 1. mgr. 7. gr. og 2. tl. 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Samkvæmt 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal vísa kæru frá hafi hún borist að liðnum kærufresti nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar. Í 2. mgr. ákvæðisins er þó tekið fram að kæra verði ekki tekin til meðferðar ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.

Með vísan til þess sem að framan er rakið barst kæra í máli þessu þegar meira en ár var liðið frá því að kæranda mátti vera kunnugt um hinar kærðu ákvarðanir og er því óheimilt að taka málið til efnismeðferðar, sbr. áðurnefnda 2. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga. Verður máli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni

_________________________________
Ómar Stefánsson