Árið 2014, fimmtudaginn 8. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 93/2012, kæra á ákvörðun heilbrigðisnefndar Reykjavíkur frá 12. janúar 2012 um að afturkalla leyfi til að halda fjóra hunda að Suðurlandsbraut 27 í Reykjavík. Þá er kærð sú aðgerð lögreglu að fjarlægja þaðan sjö hunda 3. september 2012.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 1. október 2012, er barst nefndinni sama dag, kærir J, fyrir hönd P og J, samkvæmt umboði þeirra, dags. 1. október 2012, allir til heimilis að Suðurlandsbraut 27, Reykjavík, ákvörðun heilbrigðisnefndar Reykjavíkur frá 12. janúar 2012 um að afturkalla leyfi P til að halda fjóra hunda að Suðurlandsbraut 27 í Reykjavík. Þá er kærð sú aðgerð lögreglu 3. september 2012 að fjarlægja sjö hunda J frá Suðurlandsbraut 27 í Reykjavík.
Gögn bárust frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur 5. nóvember 2012.
Málavextir: Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum mun annar kærenda hafa fengið leyfi til að halda hunda að Suðurlandsbraut 27. Með bréfi Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, dags. 17. október 2011, var honum tilkynnt um fyrirhugaða sviptingu leyfa til hundahalds vegna fjögurra tilgreindra hunda. Vísað var til þess að ítrekað hefði verið kvartað yfir lausagöngu hundanna, sbr. 13. gr. þágildandi samþykktar um hundahald í Reykjavík nr. 52/2002. Við rannsókn málsins hefði einnig komið í ljós að kærandi væri ekki til heimilis að Suðurlandsbraut 27 þrátt fyrir að hafa þar skráð lögheimili og þótt hundarnir væru haldnir þar, sbr. 3. gr. og 9. gr. samþykktarinnar. Þá væri meint hundaræktun á staðnum, án þess að veitt hefði verið leyfi fyrir henni. Veittur var tveggja vikna frestur til að koma að andmælum. Á fundi heilbrigðisnefndar Reykjavíkur 12. janúar 2012 var ákvörðun heilbrigðiseftirlits um afturköllun hundaleyfis staðfest og var kæranda sent bréf þess efnis, dags. 16. janúar 2012. Kærandi sendi tölvupóst 27. s.m. til Reykjavíkurborgar þar sem hann bað um rökstuðning fyrir ákvörðuninni og óskaði eftir endurupptöku málsins.
Með bréfi, dags. 20. febrúar 2012, kærði Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur hundahald að Suðurlandsbraut 27 til lögreglu og fór fram á að fullrannsakað yrði hver héldi þar hunda og að heimild yrði fengin til að fjarlægja óleyfishunda og færa þá í hundageymslu. Með úrskurði héraðsdómara var lögreglu heimiluð húsleit að Suðurlandsbraut 27 með vísan til 1. mgr. 74. gr., sbr. 1. mgr. 75. gr., laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Húsleit fór fram 3. september 2012 og í skýrslu um hana kemur fram að sjö hundar hafi verið fjarlægðir af staðnum. Fyrir liggur í málinu að einn hundanna hafi verið meðal þeirra fjögurra sem áðurnefnd afturköllun leyfis varðaði, en tveir í eigu hins kærandans.
Málsrök kærenda: Kærendur vísa til þess að beðið hafi verið um rökstuðning fyrir ákvörðuninni um að svipta annan kærandann leyfi til hundahalds en rökstuðningur hafi ekki borist. Hafi þar af leiðandi ekki verið unnt að andmæla ákvörðuninni. Næst hafi lögregla komið með húsleitarúrskurð og fjarlægt sjö hunda af Suðurlandsbraut 27. Þeir hafi verið afhentir aftur 6. september 2012 gegn greiðslu um 350.000 króna. Telji kærendur þetta vera óeðlilega málsmeðferð.
Í þeim gögnum sem liggi til grundvallar sviptingu hundaleyfis séu ónákvæm, hlutdræg og beinlínis fölsuð gögn sem séu um 20 skýrslur hundaeftirlits um meinta lausagöngu hunda frá Suðurlandsbraut 27. Aldrei hafi náðst hundar þaðan á lausagöngu. Stundum sé um að ræða aðrar hundategundir. Í öllum tilfellum séu hundar sagðir vera frá Suðurlandsbraut 27 þótt engin staðfesting þar um liggi fyrir. Svipting hundaleyfis sé íþyngjandi og verði öll gögn sem liggja henni til grundvallar að vera skýr og óvefengjanleg. Skrá skuli alla kvartendur með nafni og kennitölu eins og fram komi í áliti umboðsmanns Alþingis í máli nr. 4924/2007. Í fæstum tilvikum hafi verið svo í málinu. Í þeim fáu tilvikum sem nöfn hafi verið skráð hafi hlutaðeigandi starfsmenn Reykjavíkurborgar talið að hundar á lausagöngu væru frá Suðurlandsbraut 27 án þess að geta staðfest það.
Í bréfi framkvæmdastjóra Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, dags. 4. mars 2011, fullyrði framkvæmdastjórinn að fyrirsvarsmaður kærenda hafi hlotið dóm fyrir ólögmætt hundahald. Í málinu sem um ræði hafi umboðsmaður kærenda farið fram á skaðabætur fyrir ólögmæta eignaupptöku á 32 hundum, en dómari sem skilaði sératkvæði hafi viljað dæma fullar bætur.
Aðeins einn hundur sem fjarlægður hafi verið 3. september 2012, hafi áður verið í eigu þess kæranda sem sviptur var leyfi 12. janúar það ár. Hinn kærandinn hafi þá verið nýfluttur með hunda sína að Suðurlandsbraut 27 og þar af leiðandi ekki með ólöglegt hundahald.
Kærð sé málsmeðferðin í heild, svipting hundaleyfis 12. janúar 2012, vörslusvipting sjö hunda 3. september 2012 og rangar sakargiftir framkvæmdastjóra Heilbrigðiseftirlits Reykja-víkur ásamt stjórnsýslubrotum, m.a. gegn 21. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, þar sem bið eftir rökstuðningi fresti aðgerðum.
Málsrök Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur: Því er lýst að kærandinn sem sviptur hafi verið leyfi til að halda fjóra hunda, hafi fengið leyfi til hundahalds á öðrum stað i borginni 1. mars 2010. Eftir leyfisveitinguna hafi hann flutt lögheimili sitt að Suðurlandsbraut 27 og hafi skráningu hundanna þá verið breytt til samræmis við það. Allar götur síðan hafi borist fjölmargar kvartanir vegna hundahaldsins. Kvörtununum hafi verið fylgt eftir með eftirlitsferðum og hafi lausaganga hundanna verið staðfest í nokkrum þeirra. Hvorki heilbrigðiseftirlitið né lögregla hafi getað staðfest að kærandi byggi í húsinu og hafi ekki náðst samband við hann á staðnum þrátt fyrir margítrekaðar tilraunir. Telja megi ljóst að umboðsmaðurinn í kærumáli þessu hafi haldið hundana auk þess að stunda þar hundaræktun. Þannig hafi mun fleiri hundar, eða hvolpar, verið í húsnæðinu en þeir fjórir sem kærandi hafi haft leyfi fyrir. Í einni eftirlitsferðanna hafi verið kölluð til lögregla þegar umboðsmaðurinn hafi hindrað störf eftirlitsins á vettvangi. Hafi heilbrigðiseftirlitið aldrei hitt kæranda fyrir á staðnum, aðeins umboðsmann hans.
Látið sé að því liggja að eitthvað sé ekki nægjanlega skýrt í málinu. Það eina sem sé óskýrt sé hins vegar það hvar kærandi hafi haldið sig á þessum tíma og hver það hafi verið sem komið hafi fram í hans nafni. Auglýsingar hafi birst ítrekað í fjölmiðlum um hvolpa til sölu, undir nafninu G. Heimildir stjórnvaldsins staðfesti að um auglýsingar frá umboðsmanninum sé að ræða. Matvælastofnunin hafi gert athugasemdir við aðbúnað hunda á staðnum auk þess sem aðbúnaðurinn sé gagnrýndur í lögregluskýrslu sem gerð hafi verið við töku hundanna sjö.
Vegna alls þess sem rakið hafi verið hafi öðrum kærandanum verið sent bréf að Suðurlandsbraut, dags. 17. október 2011, þar sem honum hafi verið tilkynnt um fyrirhugaða afturköllun leyfis til að halda hundana. Hafist hafi atburðarás samskipta, sem heilbrigðiseftirlitið rekur í greinargerð sinni, og í kjölfar hennar verið ljóst að kærandi hafi ekki haldið hundana, þar sem hann hafi ekki verið á staðnum í neinu tilfelli samkvæmt rannsókn heilbrigðiseftirlitsins og lögreglu. Samskiptin hafi öll verið í nafni kæranda. Engar skriflegar yfirlýsingar eða andmæli hafi komið frá honum. Leyfi hans til hundahalds hafi því að lokum verið afturkölluð af heilbrigðisnefnd Reykjavíkur 12. janúar 2012, þar sem sýnt hafi verið að hann hafi ekki búið að Suðurlandsbraut 27, en hundarnir hafi verið haldnir þar. Ekki hafi þjónað tilgangi að reyna frekar að koma til hans bréfum eða að ná til hans með öðrum hætti. Hann hafi hvorki mótmælt í eigin nafni né óskað eftir að fá til sín hundana. Hinn 24. október 2011 hafi kærandi beðið um að fá send gögn málsins. Hafi honum af því tilefni verið boðið að koma á fund 29. nóvember s.á. Hafi hann beðið um að fá gögnin send til að fara yfir þau fyrir fundinn og ljósrit hafi verið sent. Lögmaður kæranda hafi haft samband og beðið um frest en svar hafi ekki borist þegar lögmaðurinn hafi verið inntur eftir því hversu langan frest hann þyrfti. Enginn hafi mætt af hálfu kæranda á fundinn. Hafi lögmaðurinn beðið um frekari gögn. Ekki hafi verið mætt á boðaðan fund hinn 5. desember s.á.
Í ljósi þessa hafi Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur kært ólögmætt hundahald að Suðurlandsbraut 27 til lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu og farið fram á að lögregla fullrannsakaði málið þar sem hundar hafi enn verið á staðnum. Hinn 3. september 2012 hafi lögreglan farið á vettvang með húsleitarheimild. Við húsleit hafi komið í ljós að sjö hundar voru á staðnum og þrír skráðir á kærendur.
Annar kærenda sé nú skráður fyrir sex hundum að Suðurlandsbraut 27 og séu ekki gerðar athugasemdir við hundahald hans í máli þessu. Vandséð sé því hvað hann sé yfirleitt að kæra. Kæran sé full órökstuddra fullyrðinga, ruglingsleg og vanreifuð, þannig að ekki sé auðvelt að henda reiður á hvert raunverulegt kæruefni sé. Bent skuli á að umræddir hundar hafi verið fjarlægðir í lögregluaðgerð sem fram hafi farið á grundvelli kæru um ólögmætt hundahald. Beri því fremur að beina kæru að lögregluyfirvöldum en heilbrigðiseftirliti.
Heilbrigðiseftirlitið krefst þess að málinu verði vísað frá þar sem ekki liggi fyrir umboð umboðsmanns kærenda. Þá séu kærufrestir jafnframt löngu liðnir. Að auki sé bent á að hæpið sé að kæra Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur fyrir lögregluaðgerð í kjölfar kæru um ólögmætt hundahald.
———
Aðilar máls þessa hafa fært fram frekari rök til stuðnings kröfum sínum og hefur úrskurðarnefndin haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins.
Niðurstaða: Eins og fyrr segir barst kæra máls þessa hinn 1. október 2012 og liggur fyrir sérstakt umboð kærenda til umboðsmanns þeirra í málinu. Ákvörðun heilbrigðisnefndar Reykjavíkur um afturköllun leyfis til að halda hunda var tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 16. janúar s.á. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er frestur til að kæra til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt, eða mátti vera kunnugt, um ákvörðunina. Þegar aðili óskar eftir endurupptöku máls innan kærufrests rofnar kærufresturinn, en hann heldur áfram að líða að nýju sé endurupptöku hafnað og þá frá þeim tíma þegar ákvörðun um það er tilkynnt aðila, sbr. 4. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Með tölvupósti hinn 27. janúar 2012 var farið fram á endurupptöku máls um afturköllun leyfisins. Ekki liggur fyrir í gögnum málsins að endurupptökubeiðninni hafi verið svarað og verður því að telja, með vísan til framangreinds lagaákvæðis, að kæra til nefndarinnar hafi borist innan kærufrests.
Kærandinn P fékk útgefin leyfi til hundahalds 1. mars 2010. Í bréfi til hans, dags. 17. október 2011, þar sem tilkynnt var um fyrirhugaða sviptingu leyfis, kemur fram rökstuðningur fyrir leyfissviptingunni, þ.e. upplýsingar um þau atvik sem höfðu áhrif á ákvörðunina og tilvísun til réttarreglna. Á þessum tíma var í gildi samþykkt nr. 52/2002 um hundahald í Reykjavík, ásamt síðari breytingum, og er í rökstuðningi m.a. vísað til ítrekaðrar og langvarandi lausagöngu hunda kæranda, en skv. 13. gr. samþykktarinnar skyldu hundar ávallt vera í taumi utanhúss og í umsjá manns sem hafi fullt vald yfir þeim. Fram kemur að kæranda var veittur aðgangur að helstu gögnum málsins áður en heilbrigðisnefnd tók ákvörðun sína. Þá liggja frammi í málinu kvartanir um lausagöngu hunda sem heilbrigðiseftirlitið metur svo að séu vegna hunda að Suðurlandsbraut 27 og í einhverjum tilvikanna hefur það sjálft staðreynt lausagöngu hunda þaðan. Kvartanirnar eru dagsettar 22. febrúar, 29. mars, 8. júní, 14. júní, 20. júní, 22. júlí, 22. ágúst, 21. september, 23. september og 8. nóvember 2011. Þegar af þessari ástæðu var heimilt að afturkalla leyfi kæranda til hundahalds með vísan til 20. gr. samþykktarinnar sem kveður á um heimild til afturköllunar leyfa vegna brota á samþykktinni og þar sem ekkert liggur fyrir í málinu um neina þá annmarka á málsmeðferð við afturköllunina að ógildingu varði er kröfu þar um hafnað.
Einnig er kærð sú aðgerð lögreglu að fjarlægja hunda 3. september 2012. Um var að ræða húsleit á grundvelli úrskurðar dómara. Húsleitarheimildin var veitt með þeim rökum að grunur væri um refsiverð brot á samþykkt um hundahald í Reykjavík, þ.e.a.s. sem hluti af rannsókn sakamáls, skv. 1. mgr. 74. gr., sbr. 1. mgr. 75. gr., laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Mál um lögmæti þvingunarráðstafana í þágu rannsóknar sakamáls heyrir eftir atvikum undir lögsögu dómstóla, svo sem skv. 3. mgr. 228. gr. laga um meðferð sakamála, en valdsvið úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála nær ekki til endurskoðunar á lögmæti þeirra. Verður þessum hluta kröfu kærenda því vísað frá úrskurðarnefndinni.
Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.
Úrskurðarorð:
Ákvörðun heilbrigðisnefndar Reykjavíkur, dags.12. janúar 2012, um afturköllun leyfis kæranda P til að halda fjóra hunda að Suðurlandsbraut 27, er staðfest.
Kæru vegna þeirrar aðgerðar lögreglu að fjarlægja sjö hunda af sama stað 3. september 2012 er vísað frá úrskurðarnefndinni.
____________________________________
Nanna Magnadóttir
____________________________ ___________________________
Ásgeir Magnússon Þorsteinn Þorsteinsson