Árið 2014, fimmtudaginn 13. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 11/2012, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 21. desember 2011 um að synja um breytingu á deiliskipulagi frístundabyggðar í landi Hests í Grímsnesi.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 21. febrúar 2012, er barst nefndinni sama dag, kærir J þá ákvörðun sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 21. desember 2011 að synja um breytingu á deiliskipulagi frístundabyggðar í landi Hests. Skilja verður kröfugerð kæranda svo að krafist sé ógildingar á hinni kærðu ákvörðun.
Málavextir: Málið á sér nokkra forsögu en á árinu 2007 voru tillögur að breyttu deiliskipulagi frístundabyggðar í landi Hests auglýstar til kynningar. Bárust athugasemdir á kynningartíma og í framhaldi af því mun málið hafa farið í bið. Hinn 21. september 2011 var, í kjölfar endurnýjaðrar umsóknar um breytt deiliskipulag Hests, samþykkt á fundi skipulags- og byggingarnefndar uppsveita Árnessýslu og Flóahrepps að auglýsa að nýju breytingartillögur að umræddu deiliskipulagi. Þá var samþykkt að tilkynna þeim sérstaklega um auglýsinguna sem áður höfðu komið að athugasemdum. Staðfesti sveitarstjórn téða afgreiðslu hinn 5. október s.á.
Fólu tillögurnar annars vegar í sér að tvær u.þ.b. 0,8 ha frístundalóðir nr. 133 og nr. 138 kæmu í framhaldi af lóðum nr. 131 og nr. 136, þ.e. við enda vegar austast á svæðinu. Hins vegar yrði tveimur 0,8 ha frístundalóðum, nr. 5C og nr. 7C, bætt við í framhaldi af lóðum nr. 5B og 7B, þ.e. við enda vegar nyrst á svæðinu. Bárust athugasemdir frá eigendum lóða nr. 131, 136, 7B og frá Hesti, félagi landeigenda á svæðinu. Síðastnefndar athugasemdir voru afturkallaðar með bréfi formanns stjórnar félagsins, dags. 7. mars 2012, eða eftir að hin kærða ákvörðun var tekin.
Breytingartillögurnar voru teknar fyrir í skipulags- og byggingarnefnd hinn 15. desember 2011 og afgreiddar með svohljóðandi hætti: „Lagðar fram að lokinni auglýsingu tvær tillögur að breytingu á deiliskipulagi frístundabyggðar í landi Hests. Í tillögunum felast að lóðum er fjölgað um samtals fjórar á tveimur svæðum. Tillögurnar voru auglýstar til kynningar 13. október 2011 með athugasemdafresti til 24. nóvember. Athugasemdir bárust og eru þær lagðar fram ásamt umsögn landeigenda um þær. Vegna innkominna athugasemda er fallið frá auglýstum breytingum á deiliskipulagi svæðisins.“ Staðfesti sveitarstjórn nefnda afgreiðslu hinn 21. s.m. og hefur sú ákvörðun verið kærð til úrskurðarnefndarinnar.
Málsrök kæranda: Kærandi tekur fram að eigandi jarðarinnar Hests hafi fengið núgildandi deiliskipulag samþykkt. Land það sem deiliskipulagið taki til liggi meðfram Hvítá í suðvestur, landamerkjum við Kiðjaberg í vestur, að línu skammt frá Hestvatni í norður, undir og meðfram klettabelti í Hestfjalli í norðaustur og að línu skammt frá Torfgili í suður. Telji kærandi að landfræðilega séð sé ekki hægt að fjölga lóðum á svæðinu umfram þær sem nú sé beðið um. Sé umbeðin stækkun svæðisins ákaflega lítil í hlutfalli við þegar skipulagt svæði, en þar séu 136 lóðir. Falli breytingin einkar vel að núgildandi deiliskipulagi og landslagi svæðisins og að stærð lóða og lögun. Valdi hún engum breytingum hjá eigendum annarra lóða á svæðinu, nema hjá þeim fjórum sem eigi lóðir sem liggja muni að hinum nýju lóðum.
Rekur kærandi athugasemdir þær er bárust og leggur áherslu á í andsvörum að lóð 7B hafi við sölu verið endalóð, en hún hafi verið seld á sama verði og næsta lóð, þ.e. lóð nr. 7A, sem ekki sé endalóð. Því verði ekki um fjárhagslegt tap að ræða hjá eigendum lóðar nr. 7B við breytingarnar. Þá hafi í afsali um lóðina ekki verið að finna ákvæði um að skipulagi yrði ekki breytt. Lóð nr. 131 hafi verið keypt af einkaaðila og hafi sá aðili ekki, svo gilt sé, getað gefið yfirlýsingu um að lóðin yrði ávallt endalóð, þótt hún hafi verið það við söluna. Sömu sjónarmið eigi við vegna lóðar nr. 136. Einnig sé bent á að í athugasemdum eiganda lóðar nr. 136 hafi engin rök verið færð fyrir því hvernig þessi breyting geti skaðað hagsmuni hans. Fyrirhugaðar lóðir nr. 133 og nr. 138 liggi mun lægra en umræddar lóðir þannig að ekki sé mikil hætta á að gróður eða mannvirki hindri útsýni og sé tekið fram að enginn muni þurfa að aka fram hjá fyrirhuguðum lóðum til að komast á sína lóð.
Eins og fyrr greinir afturkallaði Hestur landeigendafélag athugasemdir sínar og bendir kærandi á að ekki verði séð af svörum skipulags- og byggingarfulltrúa til úrskurðarnefndarinnar, dags. 9. nóvember 2012, að það erindi Hests landeigendafélags hafi borist honum eða að hann hafi tekið tillit til þess í ákvörðun sinni.
Málsrök Grímsnes- og Grafningshrepps: Af hálfu sveitarfélagsins voru send gögn er málið varðar og greinargerð og er þar byggt á sömu sjónarmiðum og við afgreiðslu málsins sem áður hafa verið rakin.
Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um synjun sveitarstjórnar á að breyta deiliskipulagi frístundabyggðar í landi Hests. Líkt og rakið hefur verið bárust athugasemdir á kynningartíma og vegna þeirra var fallið frá auglýstum breytingum á deiliskipulagi svæðisins, samanber bókun skipulags- og byggingarnefndar, er sveitarstjórn staðfesti 21. desember 2011.
Sveitarfélagi er falið víðtækt vald í skipulagsmálum innan marka sveitarfélags, líkt og fram kemur í 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Ber sveitarstjórn ábyrgð á og annast gerð deiliskipulags skv. 1. mgr. 38. gr. tilvitnaðra laga og heyrir það undir sveitarstjórn að samþykkja deiliskipulag endanlega, sbr. 40. til 42. gr. laganna, og gildir hið sama um breytingar á slíku skipulagi, sbr. 43. gr. laganna. Getur landeigandi óskað eftir því við sveitarstjórn að gerð sé tillaga að deiliskipulagi eða breytingu á deiliskipulagi á sinn kostnað skv. 2. mgr. 38. gr. sömu laga, en ekki verður talið að hann eigi lögvarða kröfu til þess að knýja á um breytingu.
Athugasemdir eigenda lóða nr. 131, 136 og 7B beinast að því að þeir hafi talið að um endalóðir hafi verið að ræða er þeir festu kaup á lóðum sínum. Þá telur eigandi lóðar nr. 131 m.a. að breytingarnar muni rýra verðgildi eignarinnar og raska friðhelgi. Eigendur lóðar nr. 7B telja að breytingin muni rýra mjög gæði lands þeirra, en þau hafi við kaup á landinu talið sig fá óhindrað útsýni og að fyrirhugaður bústaður þeirra yrði næst vatninu.
Telja verður að synjun sveitarstjórnar á fram komnum tillögum hafi verið málefnaleg. Var henni heimilt að leggja til grundvallar við úrlausn málsins sjónarmið er fram komu í gerðum athugasemdum, en umdeildar breytingar gátu raskað einstaklegum hagsmunum þeirra er athugasemdirnar gerðu. Breytir engu þar um þótt athugasemdir Hests landeigendafélags hafi verið afturkallaðar eftir að ákvörðun var tekin í málinu enda liggur ekkert fyrir í gögnum málsins um að aðrar þær athugasemdir sem áður er lýst hafi verið afturkallaðar. Þá verður eins og fyrr segir ekki talið að kærandi hafi átt lögvarða kröfu til að knýja á um breytingar á deiliskipulagi.
Með vísan til þess sem rakið hefur verið verður ekki fallist á kröfu kæranda.
Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.
Úrskurðarorð:
Hafnað er kröfu um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 21. desember 2011 um að synja um breytingu á deiliskipulagi frístundabyggðar í landi Hests.
____________________________________
Nanna Magnadóttir
_____________________________ ___________________________
Ásgeir Magnússon Þorsteinn Þorsteinsson