Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

5/2013 Langholt

Árið 2013, föstudaginn 28. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 5/2013, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Flóahrepps frá 9. janúar 2013 um að taka tillögu að deiliskipulagi fyrir Langholt 2 og 3 til endurskoðunar og á ákvörðunum skipulagsfulltrúa uppsveita Árnessýslu og Flóahrepps um meðferð skipulagstillögunnar.

Í málinu var kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 29. janúar 2013, framsendir innanríkisráðuneytið kæru H, Langholti 1, Flóahreppi, þar sem kærð er samþykkt sveitarstjórnar Flóahrepps frá 9. janúar 2013 um að taka tillögu að deiliskipulagi fyrir Langholt 2 og 3 til endurskoðunar.  Þá framsendi ráðuneytið, með bréfi, dags. 4. febrúar 2013, kæru sama aðila er lýtur að ákvörðunum skipulagsfulltrúa uppsveita Árnessýslu og Flóahrepps um meðferð skipulagstillögunnar.  Verður erindi þetta, sem er mál nr. 7/2013 hjá úrskurðarnefndinni, sameinað máli þessu. 

Málsatvik og rök:  Á fundi sínum hinn 9. janúar 2013 tók sveitarstjórn Flóahrepps fyrir erindi þar sem þess var óskað að sveitarstjórnin endurskoðaði afstöðu sína til deiliskipulagstillögu fyrir land Langholts 2 og 3.  Féllst meirihluti sveitarstjórnar á erindið en tveir af fimm fulltrúum létu bóka athugasemdir við það og meðferð þess.  Skaut kærandi þessari ákvörðun til innanríkisráðuneytisins með svohljóðandi bréfi: 

„EFNI Kærð er samþykkt sveitarstjórnar Flóahrepps á 124. fundi liður 2-d. skipulag Langholt 2-3.  Endurupptaka þessi fær ekki staðist. Hjálagt eru fundargerðir ásamt nefndum pappír.“   Engar kröfur eru gerðar og verður ekki af erindinu ráðið með hvaða lagastoð það sé sett fram. 

Með bréfi, dags. 27. janúar 2013, beindi málshefjandi nýju erindi til innanríkisráðuneytisins og er það svohljóðandi:

„Efni  Kærður er skipulagsfulltrúi uppsveita Árnessýslu og Flóahrepps fyrir handvömm í starfi.  Fulltrúi fullyrðir að ekki þurfi að grenndarkinna meðfilgjandi tillögu sökum þess að allir séu málinu kunnugir.  Eins og framkemur í fundargerð samþykkti skipulagsnefnd tillögu á fundi 25 nóvember en sveitarstjórn Flóahrepps hafnaði vegna mótmæla.  Fulltrúi Flóahrepps í skipulagsnefnd samþykkti þrátt fyrir mótmæli. Á næsta fundi sveitarstjórnar 9 jan var málið rifið upp aftur og þá með réttu fólki og handteiknuðu blaði svarin hollusta.  Sá gjörningur hefur verið kærður.  Skipulagsfulltrúi gengur blint erinda þessara aðila og þverbrýtur alla siðfræði og samþykkir nýja tillögu þar sem allar byggingar hafa fengið kjallara og fjölgað hefur um eitt hús frá því sveitarstjórn hafnaði.  Skipulagfulltrúi og fulltrúi Flóahrepps í skipulagsnefnd hafa sýnt slíkan hroka og verkfyrirlitningu í máli þessu að ekki verður liðið.  Er það því eindregin ósk að ráðuneytið geri þessum félögum grein fyrir ábyrgð sinni.“ Erindum þessum fylgdu fundargerðir og framlagðar skipulagstillögur. 

Í framangreindum bréfum ráðuneytisins til úrskurðarnefndarinnar er tekið fram að nefndin kveði upp úrskurði er varði skipulags- og byggingarlög, sbr. 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.  Séu erindin því framsend með vísan til 2. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. 

Niðurstaða:  Í máli þessu eru til meðferðar erindi sem innanríkisráðuneytið hefur framsent úrskurðarnefndinni og varða meðferð deiliskipulagstillögu sem sveitarstjórn Flóahrepps og skipulagsnefnd uppsveita Árnessýslu og Flóahrepps hafa haft til meðferðar. 

Annars vegar er um að ræða ákvörðun sveitarstjórnar um að taka til endurskoðunar skipulagstillögu sem sveitarfélagið hefur til meðferðar. Er ekki um endurupptöku máls að ræða skv. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þar sem ekki lá fyrir lokaákvörðun í málinu, heldur var um það að ræða að sveitastjórn féllst á að taka til athugunar ósk um breytta tilhögun deiliskipulags þess sem unnið er að.  Þurfti sveitarstjórn í framhaldi af hinni umdeildu ákvörðun m.a. að taka afstöðu til þess hvort auglýsa þyrfti tillöguna að nýju, sbr. 4. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, en alveg má ljóst vera að ekki lá fyrir lokaákvörðun í málinu og voru því ekki skilyrði til þess að bera það sem kærumál undir æðra stjórnvald, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga.  Þar sem lagaskilyrði skorti til að bera mætti umrædda ákvörðun undir úrskurðarnefndina verður þessum þætti málsins vísað frá nefndinni.

Síðara erindi kæranda lýtur að embættisfærslu skipulagsfulltrúa uppsveita Árnessýslu og Flóahrepps og fulltrúa Flóahrepps í skipulagsnefnd uppsveita Árnessýslu og Flóahrepps.  Verður erindið helst skilið svo að þess sé krafist að aðilum þessum verði veitt áminning.  Verður ekki séð að fyrir liggi nein ákvörðun í þessum þætti málsins er sætt geti kæru til úrskurðarnefndarinnar og verður þessu erindi því einnig vísað frá nefndinni.  Ekki á undir úrskurðarnefndina að taka afstöðu til þess hvort í erindum málshefjanda felist kvörtun sem gefi tilefni til afskipta ráðuneytisins á grundvelli stjórnsýslueftirlits þess samkvæmt sveitarstjórnarlögum nr. 138/2011 og er engin afstaða tekin til þess álitaefnis í úrskurði þessum.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður máli þessu vísað frá.

Úrskurðarorð: 

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

__________________________________________
Hjalti Steinþórsson

______________________________                _____________________________
Ásgeir Magnússon                                              Þorsteinn Þorsteinsson