Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

73/2009 Austurbyggð

Árið 2012, fimmtudaginn 13. september, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson formaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 73/2009, kæra á ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar uppsveita Árnessýslu og Flóahrepps frá 24. júní 2008 um synjun á leyfi til byggingar bílskýlis á lóðinni nr. 3 við Austurbyggð, Laugarási í Bláskógabyggð.  Þá er kærð afgreiðsla skipulags- og byggingarnefndar frá 24. október 2008 um synjun á umsókn um breytt deiliskipulag Laugaráss.  Loks er kærð sú afgreiðsla skipulags- og byggingarnefndar frá 24. september 2009 að leggja fyrir kærendur að fjarlægja bílskýli af lóðinni nr. 3 við Austurbyggð innan þriggja mánaða að viðlögðum dagsektum. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 27. október 2009, er barst nefndinni hinn 2. nóvember s.á., kæra G og S, Austurbyggð 3, Laugarási í Bláskógabyggð, afgreiðslu skipulags- og byggingarnefndar uppsveita Árnessýslu og Flóahrepps varðandi byggingu bílskýlis að Austurbyggð 3 og þá kröfu að bílskýlið skuli fjarlægt“.  Af gögnum málsins má ráða að kæran taki til ákvörðunar skipulags- og byggingarnefndar frá 24. júní 2008, er staðfest var í byggðaráði 9. júlí s.á., um synjun á leyfi til byggingar bílskýlis á lóðinni nr. 3 við Austurbyggð.  Þá sé kærð afgreiðsla skipulags- og byggingarnefndar frá 24. október 2008 um synjun á breyttu deiliskipulagi Laugaráss, er staðfest var í byggðaráði 3. nóvember s.á., en fundargerð byggðaráðs frá þeim fundi var staðfest í sveitarstjórn 10. nóvember s.á. Loks að kærð sé sú afgreiðsla skipulags- og byggingarnefndar frá 24. september 2009 að leggja fyrir kærendur að fjarlægja bílskýli á fyrrgreindri lóð innan þriggja mánaða, að viðlögðum dagsektum.  Staðfesti byggðaráð þá ákvörðun 29. s.m.  Sveitarstjórn staðfesti síðan fundargerð byggðaráðs frá þeim fundi á fundi sínum 6. október s.á. 

Skilja verður málsskot kærenda svo að þess sé krafist að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi.

Málavextir:  Forsaga máls þessa er sú að í júní 2008 voru framkvæmdir á lóðinni nr. 3 við Austurbyggð stöðvaðar á þeim forsendum að þær væru ekki í samræmi við byggingarleyfi sem samþykkt hefði verið árið 2004.  Hinn 24. júní s.á. var tekin fyrir á fundi skipulags- og byggingarnefndar umsókn lóðarhafa umræddrar lóðar um leyfi fyrir téðum framkvæmdum, þ.e. um byggingu 57 m² bílskýlis með 14,9 m² gróðurskála og 6,1 m² geymslu utan byggingarreits.  Var málið afgreitt með svofelldri bókun:  „Hafnað þar sem teikningin er ekki í samræmi við deiliskipulag.“  Nokkru síðar, eða hinn 19. september s.á., var tekin fyrir á fundi skipulags- og byggingarnefndar umsókn kærenda, sem og lóðarhafa lóða nr. 5 og 7 að Austurbyggð, um breytingu á deiliskipulagi Laugaráss, en skipulagið tekur m.a. til greindra lóða.  Fólst breytingin í því að heimilt yrði að reisa bílskúr/bílskýli á lóðunum, utan við núverandi byggingarreiti.  Var afgreiðslu málsins frestað en á fundi nefndarinnar hinn 24. október 2008 var fært til bókar að ósk um breytingu á deiliskipulagi væri hafnað.  Einnig var bókað að til skoðunar væri hvort fjarlægja ætti hina ólöglegu byggingu og að lóðarhafa væri af þeim sökum gefinn kostur á að koma að athugasemdum sínum varðandi það úrræði áður en ákvörðun yrði tekin.  Var hönnuði hinnar umsóttu skipulagsbreytingar send bókun skipulags- og byggingarnefndar með bréfi, dags. 28. október 2008.

Með bréfi skipulagsfulltrúa uppsveita Árnessýslu og Flóahrepps til kærenda, dags. 13. maí 2009, var fyrrgreind afgreiðsla skipulags- og byggingarnefndar áréttuð og veittur frestur til 27. maí s.á. til að koma að andmælum.  Komu kærendur á framfæri athugasemdum til skipulagsfulltrúa með tölvubréfi hinn 26. s.m.
 
Málið var næst tekið fyrir á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 24. september 2009 þar sem var m.a. var bókað:  „Að mati nefndarinnar koma ekki fram upplýsingar í [ofangreindum] svörum lóðarhafa sem réttlæta umrædda framkvæmd og því fer skipulags- og byggingarnefnd fram á að hin ólöglega bygging verði fjarlægð í samræmi við 5. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga innan þriggja mánaða frá móttöku bréfs þessa að viðlögðum dagsektum að fjárhæð kr. 25.000 hafi lóðarhafi ekki orðið við þessari skyldu fyrir þann tíma.“

Byggðaráð staðfesti þá ákvörðun 29. s.m. en sveitarstjórn staðfesti síðan fundargerð byggðaráðs frá þeim fundi á fundi sínum 6. október s.á.  Var lóðarhafa send bókun nefndarinnar með bréfi, dags. 14. s.m., og leiðbeint um kærurétt.

Hafa kærendur skotið framangreindum ákvörðunum til úrskurðarnefndarinnar eins og fyrr greinir. 

Málsrök kærenda:  Kærendur tefla ekki fram neinum málsrökum í kæru en sjónarmið þeirra liggja fyrir í málsgögnum.  Þar kemur m.a. fram að á samþykktri teikningu að húsinu Austurbyggð 3 hafi verið sýnt bílskýli og hafi engin athugasemd verið gerð við það.  Bent sé á að séu teikningar ekki að öllu leyti í samræmi við skipulag þá sé yfirleitt farið fram á að teikningum verði breytt.  Byggð hafi verið bílskýli neðar í götunni og því hafi ekki hvarflað að kærendum að umrædd framkvæmd væri ekki í lagi.  Þá standi húsin nr. 3, 5 og 7 við Austurbyggð á brekkubrún og rúmist þau naumlega innan byggingarreits, síðan taki við brött og óbyggileg brekka.

Málsrök Bláskógabyggðar:  Af hálfu sveitarstjórnar er tekið fram að um sé að ræða byggingu bílskýlis/geymslu sem hvorki hafi verið veitt byggingarleyfi fyrir né sé í samræmi við deiliskipulag.  Þó svo að sýnt sé bílastæði, sem e.t.v. sé yfirbyggt, á samþykktri teikningu sé ekki heimilt að reisa bílskýli á þeim stað sem gert hafi verið.  Einnig sé mannvirkið mun stærra en það sem sýnt sé á teikningunni.  Í ljósi þessa, og með vísun til 56. gr. skipulags- og byggingarlaga, hafi verið farið fram á að umrætt bílskýli/geymsla yrði fjarlægt. 

Vettvangsskoðun:  Úrskurðarnefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi hinn 16. júlí 2012.
 
Niðurstaða:  Samkvæmt 5. mgr. 8. gr. þágildandi skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, sem við eiga hér, er kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt, eða mátti vera kunnugt, um ákvörðun þá sem kæra skal.  Berist kæra að liðnum kærufresti skal vísa henni frá nema afsakanlegt verði talið að hún hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að taka hana til meðferðar, sbr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Kæru verður þó ekki sinnt berist hún meira en ári eftir að ákvörðun var tilkynnt aðila skv. 2. mgr. tilvitnaðrar lagagreinar. 

Kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni hinn 2. nóvember 2009.  Samkvæmt tilvitnuðum lagaákvæðum voru ekki lengur, er kæran barst, skilyrði til að bera undir nefndina ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar frá 24. júní 2008, sem samþykkt var í byggðaráði 9. júlí s.á., um synjun á leyfi til byggingar bílskýlis, og verður þeim þætti málsins því vísað frá nefndinni.  

Hins vegar verður kæra á afgreiðslu skipulags- og byggingarnefndar frá 24. október 2008, er staðfest var í byggðaráði og sveitarstjórn 11. nóvember s.á., um að synja umsókn um breytingu á deiliskipulagi Laugaráss, tekin til efnismeðferðar með vísan til 1. tl. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, þótt kærufrestur hafi verið liðinn er kæra barst.  Er það gert í ljósi þess að kærendum var ekki leiðbeint um kærufrest í tilkynningu um afgreiðsluna, svo sem mælt er fyrir um í 2. tl. 20. gr. stjórnsýslulaga, fyrr en með bréfi, dags. 14. október 2009.  Þykir því afsakanlegt að kæra á þeirri ákvörðun hafi borist að liðnum kærufresti.  Óumdeilt er að kæra á þeirri ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar frá 24. september 2009, sem staðfest var á fundi byggðaráðs 29. s.m., um að leggja fyrir kærendur að fjarlægja bílskýli á lóð sinni að viðlögðum dagsektum, barst innan kærufrests. 

Eins og að framan er rakið óskuðu kærendur eftir breytingu á deiliskipulagi í kjölfar þess að umsókn þeirra um byggingarleyfi var hafnað.  Deiliskipulag fyrir Austurbyggð í Laugarási tók gildi 7. maí 2008 og féll þá úr gildi deiliskipulag frá árinu 1999, sem í gildi var þegar samþykkt var byggingarleyfi fyrir Austurbyggð 3.  Í hinu eldra skipulagi voru engin ákvæði um bílastæði á lóðum, en á samþykktri teikningu að húsinu er gert ráð fyrir tveimur bílastæðum, e.t.v. yfirbyggðum, á vesturhluta lóðar, framan við aðalinngang hússins.  Í gildandi deiliskipulagi frá 2008 er einnig gert ráð fyrir tveimur bílastæðum á svipuðum stað.  Fól umsótt breyting á deiliskipulagi í sér að gert var ráð fyrir stækkun byggingarreits í norðvesturhorni lóða nr. 3, 5 og 7 við Austurbyggð þar sem reisa mætti bílskúr, bílskýli og eða geymslu, en jafnframt var gert ráð fyrir tveimur bílastæðum í suðvesturhorni lóðanna. 

Samkvæmt 1. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 var landeiganda eða framkvæmdaraðila heimilt að gera tillögu til sveitarstjórnar að deiliskipulagi eða breytingu á deiliskipulagi á sinn kostnað.  Á grundvelli þessa ákvæðis var kærendum, ásamt lóðarhöfum Austurvegar 5 og 7, rétt að óska eftir breytingu á deiliskipulagi, svo sem þeir gerðu, og bar sveitarstjórn að taka afstöðu til tillögu þeirra.  Ekki liggur fyrir að umrædd breyting hafi mætt andstöðu annarra lóðarhafa á svæðinu en líta verður til þess að deiliskipulag svæðisins hefur aðeins að litlu leyti komið til framkvæmda.  Þá verður einnig að líta til þess að með umræddri breytingu hefði skipulagið verið fært að nokkru til samræmis við það byggingarleyfi sem veitt hafði verið á árinu 2004 fyrir bílastæðum, e.t.v. yfirbyggðum, á lóðinni nr. 3 við Austurbyggð.  Telur úrskurðarnefndin að ekki hafi verið færð fram málefnaleg rök fyrir þeirri niðurstöðu að hafna umsókn kærenda og fleiri lóðarhafa um breytt deiliskipulag og að meðalhófs hafi ekki heldur verið gætt þegar ákveðið var að hafna erindi þeirra, með eða án breytinga á tillögunni.  Verður hin kærða ákvörðun um að synja umræddri umsókn um breytt deiliskipulag því felld úr gildi og er þá lagt til grundvallar að skipulags- og byggingarnefnd hafi út af fyrir sig verið til þess bær að synja umsókninni án frekari atbeina sveitarstjórnar en þeim er fólst í staðfestingu byggðaráðs á fundargerð nefndarinnar.   

Fyrir liggur að kærendur öfluðu sér ekki byggingarleyfis áður en framkvæmdir hófust við umdeilt bílskýli.  Með bréfum skipulagsfulltrúa uppsveita Árnessýslu og Flóahrepps, dags. 28. október 2008 og 13. maí 2009, var kærendum gefinn kostur á að koma að andmælum, en í bréfunum sagði m.a:  „Nefndin hefur einnig til skoðunar hvort fjarlægja skuli hina ólöglegu byggingu á lóðinni Austurbyggð 3 samkvæmt 2. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Af þeim sökum er lóðarhafa gefinn kostur á að koma að athugasemdum sínum varðandi þetta úrræði áður en ákvörðun verður tekin.“  Málið var næst tekið fyrir á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 24. september 2009 og m.a. bókað:  „… fer skipulags- og byggingarnefnd fram á að hin ólöglega bygging verði fjarlægð í samræmi við 5. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga innan þriggja mánaða frá móttöku bréfs þessa að viðlögðum dagsektum að fjárhæð kr. 25.000 hafi lóðarhafi ekki orðið við þessari skyldu fyrir þann tíma“. 

Samkvæmt 1. mgr. 57. gr. skipulags- og byggingarlaga var það á valdsviði sveitarstjórnar að ákveða dagsektir til að knýja fram fyrirmæli byggingarfulltrúa eða byggingarnefndar.  Í málinu liggja aðeins fyrir tilmæli skipulags- og byggingarnefndar um þvingunarúrræði, að viðlögðum dagsektum, en nefndin fer ekki með fullnaðarafgreiðslu slíkra ákvarðana, enda hefur ekki verið sett um hana nein samþykkt er hefði getað fært henni slíkt vald.  Ekki verður séð að sveitarstjórn hafi tekið ákvörðun um dagsektir í máli þessu og breytir engu þar um þótt byggðaráð hafi samþykkt án umræðu fundargerð skipulags- og byggingarnefndar um málið og sveitarstjórn síðar samþykkt fundargerð byggðaráðs þar um. Var ályktun skipulags- og byggingarnefndar um dagsektir ekki lokaákvörðun í málinu og verður hún því ekki borin undir úrskurðarnefndina, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Verður þeim kærulið því vísað frá nefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð:

Vísað er frá kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar uppsveita Árnessýslu og Flóahrepps frá 24. júní 2008, er staðfest var í byggðaráði Bláskógabyggðar 9. júlí s.á., um synjun á leyfi til byggingar bílskýlis á lóðinni nr. 3 við Austurbyggð.

Einnig er vísað frá kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar frá 24. september 2009 um að leggja fyrir kærendur að fjarlægja bílskýli á lóð nr. 3 við Austurbyggð innan þriggja mánaða, að viðlögðum dagsektum.

Felld er úr gildi ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar frá 24. október 2008 um að synja umsókn um breytingu á deiliskipulagi fyrir Austurbyggð í Laugarási sem staðfest var í byggðaráði Bláskógabyggðar 3. nóvember s.á.

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

______________________________               _______________________________
Ásgeir Magnússon                                                         Þorsteinn Þorsteinsson