Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

47/2010 Gufuneslóð

Árið 2012, miðvikudaginn 25. apríl, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Ómar Stefánsson lögfræðingur, varaformaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 47/2010, kæra vegna framkvæmda á landspildu undir afþreyingarstarfsemi í Gufunesi í Reykjavík. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur 

úrskurður: 

Með ódagsettu bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, sem barst nefndinni 14. júlí 2010, kæra sjö eigendur og íbúar að Viðarrima 41, 43, 45 og 49, Reykjavík, framkvæmdir á landspildu undir afþreyingarstarfsemi í Gufunesi.

Skilja verður málskot kærenda svo að umdeildar framkvæmdir verði úrskurðaðar ólögmætar.  Jafnframt er krafist stöðvunar framkvæmda á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. 

Málsatvik og rök:  Með bréfi, dags. 29. september 2006, var falast eftir leigu á um 20.000 m2 landspildu í Gufunesi.  Í bréfinu er tekið fram að ætlunin sé að nota spilduna undir leik- og útivistarsvæði fyrir mismunandi aldurshópa sem ekki krefðist varanlegra bygginga.  Hinn 16. apríl 2008 var síðan undirritaður afnotasamningur milli Reykjavíkurborgar, fyrir hönd íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkur, og umsækjandans um afnot spildunnar til 15 ára.  Í 6. gr. þess samnings segir m.a. svo:  „Þá er afnotahafa óheimilt að framkvæma meiriháttar breytingar eins og að reisa mannvirki, leggja götur og bílastæði, nema að fengnu samþykki landeiganda, utan þeirra lausamuna, þ.e. tækja og tóla og leikmynda, sem nauðsynlegt er að setja upp miðað við fyrirhugaðan rekstur afnotahafa.“ 

Kærendur vísa til þess að framkvæmdir á lóðinni séu til lýta og með ólíkindum sé að fullorðið fólk standi að þeim.  Í kæru er ekki tilgreint hvers eðlis framkvæmdirnar séu en samkvæmt símtali við einn kærenda hafi verið um að ræða uppsetningu timburturna og skriðdreka. 

Borgaryfirvöld hafa upplýst að engin byggingarleyfi hafi verið veitt fyrir nefndum turnum og raunar liggi ekkert fyrir um hvort um sé að ræða byggingarleyfisskyldar framkvæmdir.  Engin kæranleg ákvörðun liggi fyrir í málinu og beri því að vísa því frá úrskurðarnefndinni. 

Niðurstaða:  Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, er giltu á þeim tíma sem hér um ræðir, hafði úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála það hlutverk að kveða upp úrskurði í ágreiningsmálum um skipulags- og byggingarmál samkvæmt lögunum og reglugerðum settum samkvæmt þeim.  Í 5. mgr. nefndrar lagagreinar var og tekið fram að kæru til úrskurðarnefndarinnar sættu stjórnvalds ákvarðanir stjórnsýslu sveitarfélaga og var sú regla í samræmi við 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sem kveður á um að aðila máls sé heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds. 

Í máli þessu eru kærðar tilteknar framkvæmdir sem borgaryfirvöld hafa lýst yfir að styðjist ekki við ákvarðanir um leyfisveitingu samkvæmt þágildandi skipulags- og byggingarlögum.  Umdeildar framkvæmdir styðjast samkvæmt því ekki við ákvarðanir sem bornar verða undir úrskurðarnefndina samkvæmt framangreindum lagaákvæðum og ber af þeim sökum að vísa máli þessu frá úrskurðarnefndinni. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar og vegna tafa við gagnaöflun.

Úrskurðarorð: 

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

___________________________
Ómar Stefánsson

_____________________________                  ____________________________
Ásgeir Magnússon                                          Þorsteinn Þorsteinsson