Ár 2011, mánudaginn 29. ágúst, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík. Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumanns, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 15/2010, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 4. febrúar 2010 um að hafna sameiningu sumarhúsalóðanna Tóftabrautar 2 og 4 í eina lóð.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 15. mars 2010, er barst nefndinni sama dag, kærir I, Bakkastöðum 131, Reykjavík, ákvörðun sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 4. febrúar 2010 um að hafna sameiningu sumarhúsalóðanna Tóftabrautar 2 og 4 í eina lóð.
Fyrir liggur að kæra í máli þessu barst þegar meira en 30 dagar voru liðnir frá hinni kærðu ákvörðun. Ekki verður þó talið að það eigi að leiða til frávísunar m.t.t. þess að óskað var eftir endurupptöku málsins, en með því var kærufrestur rofinn, sbr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Verður málið því tekið til efnisúrlausnar.
Málavextir: Upphaf málsins má rekja til þess að eigandi lóðanna Tóftabrautar 2 og 4, Grímsnes- og Grafningshreppi, óskaði eftir breytingu á deiliskipulagi sem fólst í því að mörk nefndra lóða breyttust lítillega svo unnt væri að staðsetja gestahús sem til stóð að byggja á annarri lóðinni. Umrædd breyting var samþykkt í sveitarstjórn 2. júlí 2009. Í nóvember s.á. óskaði eigandi lóðanna eftir því að fá að sameina lóðirnar tvær og var á fundi skipulags- og byggingarnefndar 25. nóvember 2009 samþykkt að grenndarkynna slíka breytingu fyrir eigendum sjö aðliggjandi lóða. Samhljóða athugasemd barst frá eigendum fimm lóða á svæðinu þar sem breytingartillögunni var mótmælt. Tillagan var tekin fyrir í skipulags- og byggingarnefnd 26. janúar 2010 ásamt athugasemdum er borist höfðu og var breytingunni hafnað í ljósi þeirra athugasemda. Sveitarstjórn staðfesti þá afgreiðslu hinn 4. febrúar s.á. með frekari rökstuðningi í tilefni af viðbótarrökum sem kærandi hafði sent inn til stuðnings beiðni sinni.
Með bréfi, dags. 10. febrúar 2010, óskaði kærandi eftir endurupptöku málsins. Á fundi skipulags- og byggingarnefndar var erindinu hafnað með vísan til fyrri afgreiðslu og var sú afgreiðsla staðfest í sveitarstjórn 4. mars s.á.
Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er vísað til þess að aldrei hafi verið ætlunin að byggja bústaði á báðum lóðunum heldur hafi alltaf staðið til að nýta þær sem eina lóð. Kærandi hafi fært mörkin milli umræddra lóða einu sinni og sjái fram á að þurfa að gera það að nýju til þess að geta staðsett aðalhús á miðju landi, þar sem lóðamörkin séu nú.
Kærandi telji að eðlilegast hefði verið að fresta málinu hinn 4. febrúar 2010 til að skoða fyrirliggjandi rök og gefa honum færi á að koma að andmælum. Ljóst sé að fram komnar athugasemdir eigi ekki við rök að styðjast enda skiptist sameignarkostnaður í umræddu sumarhúsahverfi á milli 40 lóðareigenda, en ekki 16 eins og þar sé haldið fram. Þá leiddi breytingin til að færri bústaðir yrðu á svæðinu og umferð og viðhald vegar yrði minna. Sameignarkostnaður tengist auk þess rekstri en ekki skipulagsmálum. Skipulags- og byggingarnefnd eigi ekki að hafa afskipti af skiptingu kostnaðar og viðhaldi vega og sé nefndinni því ekki rétt að hafna erindinu á þeim forsendum. Loks bendi kærandi á að formaður félags landeigenda á svæðinu hafi hvatt kæranda til að sameina umræddar lóðir.
Málsrök Grímsnes- og Grafningshrepps: Af hálfu sveitarfélagsins er vísað til þess að ákveðinn stöðuleiki þurfi að ríkja í skipulagsmálum og að veigamikil rök þurfi til breytinga á áður samþykktu deiliskipulagi á sumarhúsasvæðum. Einnig hafi fimm eigendur lóða á svæðinu sent inn samhljóða athugasemdir og lagst gegn sameiningu lóðanna.
Niðurstaða: Í máli þessu er krafist ógildingar á synjun sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps á beiðni um sameiningu sumarhúsalóðanna Tóftabrautar 2 og 4 í eina lóð.
Fallast má á það með sveitarfélaginu að festa þurfi að ríkja í skipulagsmálum. Í gildi er nýlegt deiliskipulag fyrir umrætt svæði og væri með breytingu þeirri sem um var sótt raskað samræmi í stærð lóða og skiptingu sameiginlegs kostnaðar á svæðinu. Lóðarhafar á deiliskipulagssvæði eiga almennt að geta treyst því að nýlegu deiliskipulagi verði ekki breytt nema ríkar málefnalegar ástæður séu fyrir hendi. Verða ákvæði þágildandi skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 heldur ekki skilin svo að lóðarhafar eigi rétt á að fá deiliskipulagi breytt til samræmis við óskir sem þeir kunna að hafa. Verður ekki annað séð en að umdeild ákvörðun sveitarstjórnar, sem fer með skipulagsvald í sínu sveitarfélagi, hafi verið lögmæt og að rétt hafi verið staðið að undirbúningi hennar. Verður kröfu kæranda um ógildingu hennar því hafnað.
Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.
Úrskurðarorð:
Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu synjunar sveitastjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 4. febrúar 2010 á beiðni um sameiningu sumarhúsalóðanna Tóftabrautar 2 og 4 í eina lóð.
_______________________________
Hjalti Steinþórsson
______________________________ _____________________________
Ásgeir Magnússon Þorsteinn Þorsteinsson