Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

53/2008 Helguvík

Ár 2008, fimmtudaginn 4. september, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 53/2008, kæra á ákvörðunum sveitarstjórnar Garðs og bæjarráðs Reykjanesbæjar frá 3. júlí 2008 um að veita leyfi til byggingar álvers og tengdra mannvirkja í Helguvík á Reykjanesi. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi, dags. 27. júlí 2008, er barst úrskurðarnefndinni hinn 30. sama mánaðar, kærir T, Bleikjukvísl 1, Reykjavík, þær ákvarðanir sveitarstjórnar Garðs og bæjarráðs Reykjanesbæjar frá 3. júlí 2008 að veita leyfi til byggingar álvers og tengdra mannvirkja í Helguvík á Reykjanesi.  Síðar, eða með bréfi, dags. 6. ágúst 2008, er barst úrskurðarnefndinni hinn 11. ágúst 2008, kærir E, Skógarbraut 926, Reykjanesbæ, sömu ákvarðanir.  Með bréfi, dags. 11. ágúst 2008, sem póstlagt var sama dag, en barst úrskurðarnefndinni hinn 21. sama mánaðar, kærir G, Garðabraut 78, Garði einnig sömu ákvarðanir.  Með hliðsjón af málatilbúnaði kærenda verður ekki séð að neitt standi því í vegi að kærumálin verði sameinuð og verða síðari tvö kærumálin, sem eru nr. 75/2008 og 81/2008, því sameinuð hinu elsta, en það er nr. 53/2008. 

Gera kærendur þá kröfu að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi ásamt því að framkvæmdir verði stöðvaðar.  Þykir málið nú vera tækt til lokaúrskurðar og verður því ekki fjallað sérstaklega um þá kröfu kærenda. 

Málavextir og málsrök:  Á fundi skipulags- og byggingarnefndar Garðs hinn 2. júlí 2008 var lagt til við sveitarstjórn að samþykkt yrði umsókn Norðuráls Helguvíkur sf. um byggingu álvers og tengdra mannvirkja í Helguvík á Reykjanesi.  Var tillaga nefndarinnar staðfest á fundi sveitarstjórnar hinn 3. sama mánaðar.  Þá var á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Reykjanesbæjar hinn 2. júlí 2008 samþykkt tillaga sama efnis og hún samþykkt í bæjarráði Reykjanesbæjar hinn 3. sama mánaðar. 

Af hálfu kærenda er m.a. vísað til þess að áhrif byggingar álvers í Helguvík verði mikil í samfélaginu á Suðurnesjum.  Álverið muni hafa neikvæð áhrif á annan rekstur, svo sem ferðamennsku, heilsustarfsemi.  Það mengi og spilli náttúru og heilsu fólks. 

Þá telji kærendur að með hinu kærða leyfi sé brotið gegn réttindum þeirra sem þegna í réttarríki með brotum á grundvallargildum, ákvæðum stjórnarskrár og alþjóðlegum skuldbindingum. 

Af hálfu Reykjanesbæjar og Garðs er þess krafist að kærunum verði vísað frá sökum þess að kærendur eigi ekki einstaklegra eða lögvarinna hagsmuna að gæta og eigi því ekki aðild að málinu, sbr. 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. 

Niðurstaða:  Samkvæmt 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 geta þeir einir skotið máli til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun.  Sé um að ræða ákvarðanir vegna framkvæmda sem falla undir lög um mat á umhverfisáhrifum eiga umhverfisverndar- og hagsmunasamtök, sem varnarþing eiga á Íslandi, jafnframt sama rétt enda séu félagsmenn samtakanna 30 eða fleiri og það samrýmist tilgangi samtakanna að gæta þeirra hagsmuna sem kæran lýtur að.  Er aðild slíkra samtaka, eðli máls samkvæmt, ekki bundin því skilyrði að þau eigi lögvarinna hagmuna að gæta. 

Kærendur máls þessa eru einstaklingar og eru þeir búsettir í talsverðri fjarlægð frá þeim stað þar sem hin umdeildu mannvirki eiga að rísa.  Hafa þeir í kærum sínum vísað til sjónarmiða er fremur lúta að almannahagmunum en einkahagsmunum og hefur enginn þeirra sýnt fram á að fyrirhugaðar framkvæmdir raski neinum einstaklingsbundnum rétti.  Verða þeir því ekki taldir eiga þá einstaklegu og lögvörðu hagsmuni í máli þessu sem eru skilyrði aðildar kærumáls fyrir úrskurðarnefndinni, sbr. 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, og verður málinu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Úrskurðarorð: 

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

 

_____________________________         _________________________________
Ásgeir Magnússon                                           Þorsteinn Þorsteinsson