Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

68/2008 Helguvík

Ár 2008, fimmtudaginn 4. september, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 68/2008, kæra Náttúruverndarsamtaka Íslands á ákvörðunum sveitarstjórnar Garðs og bæjarráðs Reykjanesbæjar frá 3. júlí 2008 um að veita leyfi til byggingar álvers og tengdra mannvirkja í Helguvík á Reykjanesi. 

Í málinu er nú til bráðabirgða kveðinn upp svofelldur

úrskurður
um kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 1. ágúst 2008, er barst nefndinni sama dag, kæra Náttúruverndarsamtök Íslands þær ákvarðanir sveitarstjórnar Garðs og bæjarráðs Reykjanesbæjar frá 3. júlí 2008 um að veita leyfi til byggingar álvers og tengdra mannvirkja í Helguvík á Reykjanesi. 

Krefjast samtökin ógildingar leyfanna.  Til bráðabirgða er þess og krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar þar til málið hafi verið til lykta leitt, sbr. 6. mgr. 8. gr. skipulags og byggingarlaga nr. 73/1997, sbr. einnig 29. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Verður stöðvunarkrafan nú tekin til úrskurðar. 

Málavextir og málsrök:  Á fundi skipulags- og byggingarnefndar Garðs hinn 2. júlí 2008 var lagt til við sveitarstjórn að samþykkt yrði umsókn Norðuráls Helguvíkur sf. um byggingu álvers og tengdra mannvirkja í Helguvík á Reykjanesi.  Var tillaga nefndarinnar staðfest á fundi sveitarstjórnar hinn 3. sama mánaðar.  Þá var á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Reykjanesbæjar hinn 2. júlí 2008 samþykkt tillaga sama efnis og hún samþykkt í bæjarráði Reykjanesbæjar hinn 3. sama mánaðar. 

Kærandi kveður forsögu málsins vera þá að Náttúruverndarsamtök Íslands hafi kært byggingarleyfi sem sveitarstjórnir Garðs og Reykjanesbæjar hafi gefið út hinn 12. mars 2008.  Eftir að sveitarstjórnirnar hafi áttað sig á að gallar hafi verið á þeim leyfisveitingum hafi leyfið verið afturkallað hinn 2. júlí 2008 og nýtt leyfi gefið út daginn eftir.  Þar með sé ljóst að framkvæmdir sem hafnar hafi verið á grundvelli hins áður kærða leyfis hafi verið ólöglegar.  Því sé ástæða til að undirstrika bráðabirgðakröfu samtakanna um að framkvæmdir verði stöðvaðar án tafar þar til málið hafi verið til lykta leitt. 

Kærandi vísar einkum til þess að í áliti Skipulagsstofnunar um álver í Helguvík séu gerðir þrír fyrirvarar sem leyfisveitendum sé gert að horfa til við útgáfu leyfa.  Fyrirvarar Skipulagsstofnunar varði óvissu varðandi orkuöflun, orkuflutninga og losunarheimildir fyrir gróðurhúsalofttegundir.

Útgáfa framkvæmdaleyfisins (byggingarleyfis) uppfylli ekki 2. mgr. 13. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, en þar komi fram að við útgáfu framkvæmdaleyfis skuli taka rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar, en þess hafi ekki verið gætt. 

Af hálfu sveitarfélaga þeirra sem gáfu út hið kærða byggingarleyfi er á því byggt að það sé meginregla stjórnsýsluréttar, sem m.a. komi fram í 1. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993,  að kæra fresti ekki réttarhrifum ákvörðunar.  Með hliðsjón af þeirri meginreglu telji sveitarfélögin að úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála verði að túlka heimildir sínar til að stöðva framkvæmdir þröngt og beita þeim af mikilli varfærni. 

Í því tilviki sem hér um ræði sé ljóst að umfangsmikil undirbúningsvinna og jarðvegsframkvæmdir eigi eftir að fara fram áður en hafist verði handa við byggingu varanlegra mannvirkja á svæðinu.  Sveitarfélögin fái því ekki séð að hagsmunum kæranda sé nein hætta búin þótt framkvæmdir verði ekki stöðvaðar þar til efnisúrskurður verði lagður á málið. 

Þá sé á það bent að kærandi hafi ekki fært fram nein efnisleg rök fyrir því að hvaða leyti framkvæmdir á grundvelli leyfisins raski lögmætum hagsmunum hans eða á hvaða forsendum öðrum rétt sé að stöðva framkvæmdir.  Ljóst sé hins vegar að verði framkvæmdirnar stöðvaðar, þó ekki væri nema um stuttan tíma, muni það leiða til verulegs tjóns fyrir framkvæmdaraðila. 

Byggingarleyfishafi mótmælir kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda.  Bendir hann á að útgáfa hins kærða leyfis sé í samræmi við aðalskipulag og deiliskipulag og að framkvæmdir sem nú standi yfir á umræddri lóð séu einungis jarðvegsframkvæmdir þar sem fram fari undirbúningur með stöllun og jöfnun lóðar.  Ekki sé um að ræða neinar varanlegar eða óafturkræfar framkvæmdir meðan málið verði til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.  Beri því að hafna kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda. 

Aðilar hafa fært fram frekari rök fyrir máli sínu sem ekki verða rakin frekar í bráðabirgðaúrskurði þessum.

Niðurstaða:  Náttúruverndarsamtök Íslands eru frjáls félagasamtök áhugafólks um náttúruvernd og fullnægja þau skilyrðum 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 um aðild að kærum fyrir úrskurðarnefndinni vegna ákvarðana um framkvæmdir sem falla undir lög um mat á umhverfisáhrifum.  Verður kærumál samtakanna því tekið til efnislegrar meðferðar. 

Samkvæmt 6. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga getur kærandi krafist þess að úrskurðarnefndin kveði upp úrskurð um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða meðan mál er til meðferðar fyrir nefndinni.  Er ákvæðinu ætlað að gera nefndinni kleift að tryggja að réttarstöðu aðila verði ekki breytt til muna meðan mál er þar til meðferðar án þess að afstaða hafi verið tekin til efnis máls. 

Í máli þessu liggur fyrir að framkvæmdir samkvæmt hinu kærða leyfi eru fyrst og fremst jarðvegsframkvæmdir og að svo muni verða enn um sinn.  Er ekki fyrirsjáanlegt að varanlegar og óafturtækar framkvæmdir muni eiga sér stað meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.  Yfirstandandi framkvæmdir eru, að dómi úrskurðarnefndarinnar, ekki til þess fallnar að raska réttarstöðu aðila með þeim hætti að haft geti áhrif á efnisúrlausn málsins og verður kröfu kæranda því hafnað. 

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda sem hafnar eru á lóð Norðuráls í Helguvík. 

 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

 

_____________________________              _________________________________
Ásgeir Magnússon                                                Þorsteinn Þorsteinsson