Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

140/2007 Hraðamyndavélar

Ár 2008, mánudaginn 15. september, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 140/2007, málaleitan sveitarfélagsins Hvalfjarðarsveitar um að úrskurðað verði um byggingarleyfisskyldu uppsetningar hraðamyndavéla við stofnbrautir. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 16. október 2007, er barst nefndinni hinn 18. sama mánaðar, fer sveitarfélagið Hvalfjarðarsveit fram á að tekin verði afstaða til þess hvort uppsetning hraðamyndavéla við stofnbrautir séu háð byggingarleyfi. 

Málsatvik og rök:  Málshefjandi vísar til þess að sumarið 2007 hafi verið settar upp tvær hraðamyndavélar í Hvalfjarðarsveit.  Samningur virðist hafa verið gerður um uppsetningu vélanna á vegum Ríkislögreglustjóra, Vegagerðarinnar og Umferðarstofu f.h. samgönguráðuneytis.  Uppsetning þessara tækja sé einungis upphaf þess sem koma skuli þar sem unnið hafi veri að uppsetningu sjö nýrra stafrænna hraðamyndavéla víða um land á árinu 2007 og fyrirhuguð sé uppsetning sjö til viðbótar árið 2008.  Hvorki hafi verið sótt um leyfi fyrir hraðamyndavélum til skipulags- og byggingarnefndar Hvalfjarðarsveitar né sveitarstjórn gert aðvart um þær framkvæmdir. 

Samkvæmt 33. gr. vegalaga nr. 45/1994 sé uppsetning hraðamyndavéla við stofnvegi háð leyfi Vegagerðarinnar en ekki sé þar með sagt að leyfi annarra þurfi ekki til að koma fyrir slíkum framkvæmdum.  Sú meginregla komi fram í 36. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 að hvers konar mannvirki séu byggingarleyfisskyld en í upptalningu ákvæðisins á undantekningum frá þeirri meginreglu komi ekki fram að uppsetning hraðamyndavéla sé undanþegin byggingarleyfi.  Vegna vafa í þessu efni og með vísan til 3. mgr. 36. gr. skipulags- og byggingarlaga sé því óskað eftir niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar um það hvort opinberir aðilar geti sett upp hraðamyndavélar við stofnbrautir án byggingarleyfis. 

Af hálfu Vegagerðarinnar er á það bent að samkvæmt 32. gr. núgildandi vegalaga nr. 80/2007 sé óheimilt að staðsetja hverskyns mannvirki, föst eða laus, innan 30 metra frá miðlínu stofnvega nema að fengnu leyfi Vegagerðarinnar.  Vegagerðin sé veghaldari þjóðvega skv. 1. mgr. 13. gr. vegalaga en í því felist forræði á vegi og vegsvæði.  Vegur sé skilgreindur með eftirfarandi hætti í 8. tl. 1. mgr. 3. gr. vegalaga:  „Vegur:  Akbraut, sem er sá hluti vegar sem er fyrst og fremst ætlaður fyrir umferð ökutækja, öll önnur mannvirki og vegsvæði sem að staðaldri eru nauðsynleg til þess að vegur sé varanlegur, unnt sé að halda honum við og hafa að honum sem fyllst not.“ 

Umferðaröryggi sé mikilvægur þáttur í skyldum veghaldara og hluti veghalds sé að tryggja umferðaröryggi sem kostur sé.  Skýrt komi fram í frumvarpi til núgildandi vegalaga að mikilvægt markmið laganna sé að auka umferðaröryggi.  Viðurkennt sé að eftirlit og löggæsla sé nauðsynleg til þess að auka umferðaröryggi á þjóðvegum.  Gerð, rekstur og viðhald mannvirkja í þessu skyni, svo sem eftirlitsstaðir og plön og viðeigandi merkingar, séu talin óaðskiljanlegur hluti veghalds og séu vegamannvirki þessi því hluti vegar.  Sama eigi við um ýmiskonar mælitæki, svo sem umferðargreina, vefmyndavélar sem sýni færð og veður, veðurstöðvar og annan búnað sem notaður sé til upplýsingaöflunar og til að auka umferðaröryggi. 

Uppsetning umferðarmerkja teljist til veghalds og merkin til vegamannvirkja og hluta vegar í skilningi vegalaga og hafi verið ágreiningslaust að umferðarmerkingar falli utan byggingarleyfisskyldu samkvæmt skipulags- og byggingarlögum og telji Vegagerðin það einnig eiga við um uppsetningu hraðamyndavéla.  Samkvæmt 36. gr. skipulags- og byggingarlaga séu einungis varanlegar húsbyggingar, sem gerðar séu í tengslum við vegaframkvæmdir, byggingarleyfisskyldar en ekki önnur mannvirki tengd vegi og notkun vega.  Engin rök leiði til þess að hraðamyndavélar umfram annan búnað við veg eigi að teljast byggingarleyfisskyldar.  Ekki verði séð að slíkar myndavélar hafi meiri áhrif á umhverfið en annar búnaður við veg, svo sem skilti, skiltabrýr, vegrið o.fl.  Að lokum megi þess geta að uppsetning hraðamyndavéla við vegi sé ekki byggingarleyfisskyld í Noregi og muni svipað eiga við annars staðar á Norðurlöndum. 

Niðurstaða:  Samkvæmt 1. mgr. 36. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 tekur IV. kafli laganna um mannvirki til hvers konar bygginga, ofan jarðar og neðan.  Þá er í 1. mgr. 43. gr. laganna kveðið á um að óheimilt sé að grafa grunn, reisa hús, rífa hús, breyta því, burðarkerfi þess, formi, svipmóti eða notkun þess eða gera önnur þau mannvirki sem falla undir IV. kafla laganna nema að fengnu leyfi viðkomandi sveitarstjórnar.  Hugtakið mannvirki er skilgreint í gr. 4.26 í byggingarreglugerð nr. 441/1998 sem jarðföst framkvæmd, t.d. virkjun, hús, brú, línumastur eða skiltastandur. 

Tiltekin mannvirki  eru  hins vegar undanþegin byggingarleyfisskyldu samkvæmt 2. mgr. 36. gr. skipulags- og byggingarlaga séu þau á vegum opinberra aðila eða unnin samkvæmt sérlögum.  Vegir og götur eru þar m.a. undanþegnar byggingarleyfisskyldu en í ákvæðinu er þó tekið fram að byggingarleyfi þurfi fyrir varanlegum húsbyggingum sem gerðar séu í tengslum við umrædd mannvirki ásamt fjarskiptamöstrum, tengivirkjum og móttökudiskum.  Af þessu orðalagi verður ráðið að annar venjulegur umbúnaður og mannvirki í tengslum við umræddar framkvæmdir séu ekki háð byggingarleyfi. 

Ýmis mannvirki tengd vegi og notkun hans, svo sem umferðarskilti, hafa ekki verið talin byggingarleyfisskyld samkvæmt fyrrgreindri 2. mgr. 36. gr. skipulags- og byggingarlaga enda metin sem eðlilegur og nauðsynlegur búnaður við notkun vega.  Með uppsetningu hraðamyndavéla við vegi er verið að sinna löggæslu og væntanlega einnig að sporna við hraðakstri og auka þar með öryggi vegfarenda.  Slíkur búnaður hefur á seinni árum í auknu mæli verið tekinn í notkun við vegaeftirlit, hérlendis og erlendis, og verður nú að teljast venjulegur og eðlilegur búnaður við rekstur og notkun vega.

Með vísan til þess sem rakið hefur verið er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að hraðamyndavélar eins og þær sem settar voru upp í Hvalfjarðarsveit séu ekki byggingarleyfisskyldar, enda falli þær undir undanþáguákvæði 2. mgr. 36. greinar skipulags- og byggingarlaga sem venjulegur búnaður tengdur rekstri og notkun vega.

Afgreiðsla máls þessa hefur dregist vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Uppsetning hraðamyndavéla við stofnbrautir á vegum Vegagerðarinnar er ekki byggingarleyfisskyld samkvæmt skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997

 

 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

 

 

_____________________________                          ______________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                                  Ásgeir Magnússon