Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

12/2006 Langabrekka

Ár 2008, miðvikudaginn 27. ágúst, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 12/2006, kæra á samþykkt skipulagsnefndar Kópavogsbæjar frá 17. janúar 2006 um að veita leyfi fyrir byggingu stoðveggjar á lóðinni nr. 5 að Löngubrekku í Kópavogi. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 21. febrúar 2006, er barst nefndinni næsta dag, kæra E og J, Álfhólsvegi 61, þá ákvörðun skipulagsnefndar Kópavogsbæjar frá 17. janúar 2006 að veita leyfi fyrir byggingu stoðveggjar á lóðinni nr. 5 við Löngubrekku.  Liggur lóð kærenda að umræddri lóð. 

Krefjast kærendur þess að ofangreind afgreiðsla skipulagsnefndar verði ógilt. 

Málavextir:  Á lóðinni nr. 5 við Löngubrekku stendur tvíbýlishús og bílskúr.  Í bréfi byggingarfulltrúa til lóðarhafa að Löngubrekku 5, dags. 20. júlí 2005, sagði m.a. svo:  „3. mars 2005 var samþykkt í byggingarnefnd stækkun á bílskúr að Löngubrekku 5…..Við skoðun á staðnum sést að undirstöður eru ekki í samræmi við samþykktar teikningar.  Undirstöður hafa verið steyptar um 2,5 m lengra til suðurs að lóðarmörkum húss nr. 61 við Álfhólsveg og um einn metra fram með eldri bílskúr.“  Fyrirskipaði byggingarfulltrúi stöðvun allra frekari framkvæmda á lóðinni og lagði fyrir lóðarhafa að fjarlægja þær undirstöður sem steyptar hefðu verið umfram það sem samþykktar teikningar segðu til um. 

Lóðarhafi Löngubrekku 5 færði fram skýringar vegna framkvæmda á lóð sinni með bréfi til byggingarfulltrúa, dags. 26. júlí s.á., og taldi m.a. ekki allskostar rétt að undirstöður viðbyggingar væru ekki í samræmi við samþykktar teikningar.  Benti hann jafnframt á að hann hefði ákveðið að steypa vegg um 0,5 metra frá lóðarmörkum til að halda við jarðveg á lóðamörkum.  Var tekið fram að veggurinn væri ekki í beinu framhaldi af vegg væntanlegrar bílskúrsbyggingar heldur töluvert innar. 

Málið var tekið fyrir á fundi byggingarnefndar hinn 3. ágúst 2005 sem staðfesti stöðvun framkvæmda og tók undir kröfu byggingarfulltrúa um að fjarlægja skyldi þá þegar, eða eigi síðar en 12. ágúst s.á., þær undirstöður og þá botnplötu að viðbyggingu bílskúrs, sem steyptar hefðu verið í óleyfi, ella yrði það sem væri umfram samþykktar teikningar fjarlægt án frekari fyrirvara. 

Í kjölfarið fór lóðarhafi Löngubrekku 5 fram á það í bréfi til byggingarfulltrúa, dags. 8. ágúst s.á., að ákvörðunin yrði endurskoðuð.  Tók hann jafnframt fram að „undirstöður og botnplata“ væru í raun veggur, sem steyptur hefði verið til að styðja við jarðveg frá lóðunum að Löngubrekku 3 og lóð kærenda, og stétt sem væri á milli veggjarins og væntanlegrar bílskúrsviðbyggingar og greinilega aðgreind frá þeirri byggingu þó þau tengdust henni á tveimur stöðum til að fá viðspyrnu.  Veggurinn væri jafnhár fyrrgreindum lóðum, staðsettur 2,5 metra frá væntanlegri bílskúrsbyggingu og 0,5 metra frá lóðamörkum tilgreindra lóða.  Var einnig á það bent að mörg dæmi væru um að sambærilegir veggir hefðu verið reistir í Kópavogi án sérstaks leyfis bæjaryfirvalda.  Þá var á fundi byggingarnefndar Kópavogs hinn 17. ágúst 2005 lögð fram umsókn lóðarhafa að Löngubrekku 5 þar sem sótt var um leyfi til að byggja við bílskúr, gera stoðvegg og stétt í austurhorni lóðarinnar og óskaði nefndin eftir umsögn lögmanns framkvæmda- og tæknisviðs um málið. 

Á fundi byggingarnefndar hinn 7. september 2005 var ofangreind umsókn tekin fyrir og eftirfarandi bókað:  „Byggingarnefnd hefur þegar afgreitt umsókn um byggingarleyfi fyrir viðbyggingu við bílskúr dags. 3. mars 2005.  Byggingarnefnd felur byggingarfulltrúa að ljúka afgreiðslu málsins er varðar stækkun á viðbyggingu bílskúrs.  Umsókn lóðarhafa um byggingarleyfi fyrir gerð stoðveggjar og stéttar í austurhorni lóðar er vísað til skipulagsnefndar til ákvörðunar um grenndarkynningu.“ 

Hinn 20. september 2005 var umsókn um gerð stoðveggjar lögð fram á fundi skipulagsnefndar og samþykkt að senda málið í kynningu til lóðarhafa Löngubrekku 3 og 7 og Álfhólsvegar 59, 61 og 63.  Umsóknin var tekin fyrir að nýju á fundi skipulagsnefndar hinn 15. nóvember 2005, ásamt athugasemdum er borist höfðu frá kærendum máls þessa.  Var málinu frestað og skipulagsstjóra falið að gera umsögn um framkomnar athugasemdir.  Erindið var tekið fyrir enn á ný í skipulagsnefnd hinn 17. janúar 2006 og það samþykkt ásamt umsögn bæjarskipulags og málinu vísað til afgreiðslu bæjarráðs.  Á fundi bæjarráðs hinn 19. janúar 2006 var svohljóðandi bókað: „Langabrekka 5.  Stoðveggur.  Samþykkt.“ 

Hafa kærendur skotið áðurnefndri ákvörðun skipulagsnefndar til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir. 

Málsrök kærenda:  Kærendur gera athugasemdir við ýmis atriði er varða meðferð málsins.  Sérstaklega sé kærð sú niðurstaða skipulagsstjóra og skipulagsnefndar að taka ekki til greina þá athugasemd er kærendur hafi sett fram við grenndarkynningu að um væri að ræða botnplötu og undirstöður en ekki stoðvegg líkt og sagt sé að sótt hafi verið um.  Skipulagsnefnd hafi ekki fært fram nein rök fyrir þeirri niðurstöðu sinni nema með vísan til gagna umsækjanda, en þörf hafi verið á rökstuðningi í ljósi mats byggingarfulltrúa og byggingarnefndar Kópavogs sem hafi krafist þess að undirstöður og botnplötur yrðu fjarlægðar.  Hafi verulega verið hallað á rétt kærenda með því að afgreiða málið með þessum hætti.  Sé gerð sú krafa að erindið verði afgreitt sem umsókn um undirstöður og botnplötu eða að lágmarki vísað frá á þeirri forsendu að þau mannvirki sem sótt hafi verið um leyfi fyrir séu ekki í samræmi við það sem hafi verið framkvæmt. 

Því sé mótmælt að hægt sé að leyfa framkvæmdir á forsendum nafngiftar sem stangist á við almenna skynsemi, mat sérfróðra aðila, þ.e. byggingarfulltrúa, og ásetning umsækjanda.  Gera verði þá lágmarkskröfu að heiti mannvirkja sé í samræmi við hönnun, framkvæmd og fyrirhugaða nýtingu þeirra og ekki sé unnt að rangnefna mannvirki og fá þau þannig samþykkt.  Þá sé bent á að skipulagsyfirvöld hafi ekki með faglegum hætti skorið úr því ósamræmi sem sé á milli nafngiftar hönnuðar, ásetnings umsækjanda og mats byggingarfulltrúa. 

Vakin sé athygli á að lóðarhafi Löngubrekku 5 hafi lagt fram viðbótargögn eða skýringar að lokinni grenndarkynningu.  Það sé óeðlileg stjórnsýsla að hægt sé að leggja fram viðbótargögn að lokinni grenndarkynningu og hefði átt að gefa kærendum færi á að bregðast við þeim.  Þá sé á það bent að við grenndarkynningu hafi ekkert komið fram um að verið væri að breyta deiliskipulagi svo sem haldið hafi verið fram að lokinni kynningu, en ekkert deiliskipulag sé í gildi fyrir umrædda lóð.  Sé mikilvægt, m.a. með vísan til gr. 7.5.1 í byggingarreglugerð nr. 441/1998, að þessi skilningur, þ.e. að ekki hafi verið gerð breyting á deiliskipulagi, verði staðfestur. 

Málsrök Kópavogsbæjar:  Bæjaryfirvöld krefjast þess aðallega að kröfum kærenda verði vísað frá úrskurðarnefndinni en til vara að kröfum þeirra verði hafnað. 

Byggingarnefnd hafi vísað umsókn lóðarhafa að Löngubrekku 5 til skipulagsnefndar til ákvörðunar um grenndarkynningu sem hafi fallist á að grenndarkynna málið í samræmi við 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Samkvæmt tilvitnuðu ákvæði skuli byggingarnefnd taka mál til afgreiðslu að lokinni grenndarkynningu og þegar umfjöllun skipulagsnefndar liggi fyrir.  Enn hafi byggingarnefnd ekki afgreitt umsókn lóðarhafa þar sem fullnægjandi hönnunargögn hafi ekki verið lögð fram af hans hálfu.  Hin kærða umfjöllun skipulagsnefndar feli ekki í sér endanlega stjórnvaldsákvörðun og bókun bæjarráðs þar sem umfjöllun og tillaga skipulagsnefndar sé samþykkt hafi enga þýðingu að lögum þar sem umfjöllun skipulagsnefndar skuli vísað til byggingarnefndar til afgreiðslu skv. fyrrgreindu ákvæði. 

Þau mistök hafi átt sér stað að í 4. kafla umsagnar bæjarskipulags vegna framkominna athugasemda hafi ranglega verið vísað til þess að málsmeðferð væri samkvæmt 2. mgr. 26. gr. laga nr. 73/1997, en rétt sé að um hafi verið að ræða málsmeðferð skv. 7. mgr. 43. gr. sömu laga.  Hafi öll málsmeðferð við afgreiðslu málsins borið þess merki að vera byggð á grundvelli 7. mgr. 43. gr. laganna. 

Varakrafa bæjarins sé á því byggð að umfjöllun skipulagsnefndar við grenndarkynningu hafi verið í samræmi við 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. 

Þá sé bent á að heiti framkvæmda séu í samræmi við umsókn lóðarhafa að Löngubrekku 5, dags. 9. ágúst 2005. 

Í kæru komi fram að á rétt kærenda sé hallað með vísan til fjarlægðar húsa frá lóðarmörkum skv. 75. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998.  Tekið skuli fram að umræddur stoðveggur teljist ekki húsveggur en falli fremur undir skilgreiningu girðinga.  Því beri að líta til 67. gr. byggingarreglugerðar fremur en 75. gr. sömu reglugerðar.  Sé á það bent að í umfjöllun skipulagsnefndar sé ekki kveðið á um að fjarlægð stoðveggjar frá lóðarmörkum brjóti í bága við tilvitnaða 67. gr. byggingarreglugerðar. 

Andmæli lóðarhafa Löngubrekku 5:  Lóðarhafi bendir á að í kæru sé hvergi tekið fram á hvern hátt umræddur stoðveggur valdi kærendum ama eða óþægindum.  Kærendum hafi fyrirfram verið gert ljóst að til stæði að byggja stoðvegg á umræddum stað og hafi þá engar athugasemdir verið gerðar.  Eftir að búið hafi verið að reisa vegginn hafi kærendur viljað að hann yrði fjarlægður án nokkurs rökstuðnings annars en að um sökkul sé að ræða en ekki stoðvegg.  Megi eins kalla vegginn húsvegg í hálfri hæð. 

Andmæli kærenda við greinargerð Kópavogsbæjar:  Kærendur mótmæla kröfu bæjaryfirvalda um að málinu verði vísað frá úrskurðarnefndinni.  Bent sé á að í bréfi bæjarskipulags Kópavogs til kærenda, þar sem tilkynnt hafi verið um samþykkt skipulagsnefndar frá 17. janúar 2006 á erindi lóðarhafa Löngubrekku 5, sé vakin athygli á ákvæðum laga um kæruheimild og kærufrest til úrskurðarnefndarinnar.  Jafnframt sé því andmælt að ákvörðun skipulagsnefndar og staðfesting bæjarskipulags sé ekki endanleg stjórnsýsluákvörðun og í því sambandi bent á 6. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Þar segi m.a. að skipulagsnefndir fari með skipulagsmál undir yfirstjórn sveitarstjórna, en engu orði sé minnst á að ákvarðanir skipulagsnefndar skuli hljóta samþykki byggingarnefnda. 

Sé litið til ákvæða 7. mgr. 43. gr. tilvitnaðra laga standi þar aðeins að byggingarnefnd skuli bíða eftir niðurstöðu skipulagsnefndar og grenndarkynningu áður en hún taki málið til afgreiðslu.  Ekki sé hægt að lesa úr ákvæðinu að ákvörðun skipulagsnefndar skuli vísa til byggingarnefndar til staðfestingar. 

—–

Færð hafa verið fram frekari rök í máli þessu sem ekki verða rakin nánar en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða:  Samkvæmt 2. mgr. 38. gr. skipulags- og byggingarlag nr. 73/1997 fjalla byggingarnefndir um byggingarleyfisumsóknir sem berast og álykta um úrlausn þeirra til viðkomandi sveitarstjórnar.  Það var því ekki á færi skipulagsnefndar að taka umsókn lóðarhafa að Löngubrekku 5 um byggingarleyfi til meðferðar svo sem hún þó gerði.  Fór nefndin þannig út fyrir valdmörk sín er hún samþykkti umsóknina og vísaði málinu til afgreiðslu bæjarráðs.  Ber þegar af þessari ástæðu að ógilda hina kærðu ákvörðun skipulagsnefndar og staðfestingu bæjarráðs á henni hinn 19. janúar 2006.  Gildir einu þótt það hefði verið í verkahring skipulagsnefndar að annast grenndarkynningu í tilefni af umræddri umsókn enda bar nefndinni þá, að kynningu lokinni, að vísa málinu til afgreiðslu byggingarnefndar, sbr. 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga, í stað þess að ljúka málinu með fullnaðarafgreiðslu svo sem raunin varð. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð:

Ákvörðun skipulagsnefndar Kópavogsbæjar frá 17. janúar 2006, sem staðfest var í bæjarráði 19. janúar 2006, um að veita leyfi fyrir byggingu stoðveggjar á lóðinni nr. 5 að Löngubrekku í Kópavogi, er felld úr gildi.

 

 

______________________________
Hjalti Steinþórsson

 

 

_____________________________                  ______________________________
 Þorsteinn Þorsteinsson                                          Ásgeir Magnússon