Ár 2007, föstudaginn 18. maí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík. Mættir voru Ásgeir Magnússon héraðsdómari varaformaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Geirharður Þorsteinsson arkitekt og skipulagshönnuður.
Fyrir var tekið mál nr. 31/2007, kæra á samþykki bæjarstjórnar Kópavogs frá 28. nóvember 2006 fyrir breytingu á deiliskipulagi er fól í sér færslu bílastæða og breytta aðkomu vegna lóðarinnar að Fróðaþingi 20, Kópavogi. Þá er kærð sú ákvörðun byggingarnefndar Kópavogs frá 4. apríl 2007 að veita byggingarleyfi í samræmi við breytt deiliskipulag vegna nefndrar lóðar.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 17. apríl 2007, er barst nefndinni hinn 18. sama mánaðar, kærir S, lóðarhafi Fróðaþings 40, Kópavogi, samþykki bæjarstjórnar Kópavogs frá 28. nóvember 2006 fyrir breytingu á deiliskipulagi er fól í sér færslu bílastæða og breytta aðkomu vegna lóðarinnar að Fróðaþingi 20, Kópavogi er tók gildi með birtingu í B-deild Stjórnartíðinda hinn 26. mars 2007. Þá er kærð sú ákvörðun byggingarnefndar Kópavogs frá 4. apríl 2007, er bæjarstjórn staðfesti hinn 10. sama mánaðar, að veita byggingarleyfi í samræmi við breytt deiliskipulag vegna nefndrar lóðar.
Gerir kærandi þá kröfu að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi. Jafnframt er gerð krafa um bráðabirgðaúrskurð um stöðvun framkvæmda á meðan málið er til meðferðar fyrir nefndinni. Úrskurðarnefndinni hafa borist gögn vegna fyrra kærumáls um sama efni og fyrir liggja andmæli byggingarleyfishafa við málatilbúnað kæranda. Í ljósi þessa þykir málið nú nægjanlega upplýst til þess að taka það til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kæranda.
Málavextir: Hinn 28. nóvember 2006 samþykkti bæjarstjórn Kópavogs breytingu á deiliskipulagi varðandi lóðina að Fróðaþingi 20 að undangenginni umsókn lóðarhafa þar um. Fól breytingin í sér færslu bílastæða og að aðkoma að lóð skyldi vera frá götu norðan við fyrirhugað hús á lóðinni í stað þess að vera að vestanverðu. Var breytingartillagan grenndarkynnt sem óveruleg breyting á deiliskipulagi samkvæmt 2. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. Byggingarfulltrúi veitti byggingarleyfi fyrir einbýlishúsi á nefndri lóð í samræmi við fyrrnefnda breytingartillögu hinn 11. desember 2006, en bæjarstjórn staðfesti byggingarleyfið hinn 9. janúar 2007.
Kærandi máls þessa kærði þessar ákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar og krafðist stöðvunar framkvæmda. Úrskurðarnefndin vísaði kæru vegna deiliskipulagsbreytingarinnar frá í úrskurði uppkveðnum hinn 8. mars sl. þar sem skipulagsbreytingin hafði þá ekki öðlast gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda. Í sama úrskurði var fallist á kröfu um stöðvun framkvæmda á meðan kæra vegna hins kærða byggingarleyfis væri óútkljáð. Felldi byggingarfulltrúi það byggingarleyfi úr gildi hinn 22. mars 2007 og staðfesti bæjarstjórn þá ákvörðun hinn 10. apríl sama ár og afturkallaði kærandi kæru sína vegna þess leyfis í kjölfar þess.
Fyrrgreind deiliskipulagsbreyting öðlaðist síðan gildi eins og fyrr er að vikið og var byggingarleyfi samþykkt að nýju fyrir lóðina að Fróðaþingi 20. Hefur kærandi nú skotið þessum ákvörðunum til úrskurðarnefndarinnar.
Málsrök kæranda: Kærandi gerir athugasemdir við málsmeðferð og efni hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar.
Vafi sé í huga kæranda um hvort ákvörðun bæjarskipulags um grenndarkynningu hafi verið í samræmi við lög og ekki hafi verið færð fram rök fyrir breytingunni. Áttundi liður deiliskipulagsskilmála, er bæjaryfirvöld vitni til, geti ekki heimilað svo veigamikla breytingu á stöðu húss og aðkomu að lóð er hér um ræði. Hin kærða ákvörðun fari á skjön við synjun sambærilegs erindis lóðarhafa að Fróðaþingi 22, en sömu sjónarmið eigi við í báðum tilvikum. Grenndarkynning hafi ekki náð til allra hagsmunaaðila og kynningargögn hafi verið villandi þar sem sýnd hafi verið breytt aðkoma að lóðinni að Fróðaþingi 22 þrátt fyrir synjun um þá breytingu.
Umdeild breyting og byggingarleyfi raski grenndarhagsmunum kæranda með því að aðkoma að Fróðaþingi 20 sé færð að götu er liggi við suðurlóð kæranda þar sem engin aðkoma að lóðum sé fyrir. Breytingin hafi því í för með sér aukna umferð og annað ónæði sem raski lögvörðum hagsmunum kæranda auk þess sem snúningur umdeilds húss um 90 gráður eyðileggi fyrirhugaða götumynd.
Andmæli byggingarleyfishafa: Af hálfu byggingarleyfishafa er krafist frávísunar málsins og kröfum kæranda andmælt.
Samkvæmt 8. lið skilmála umrædds deiliskipulags komi skýrt fram að á teikningu séu sýnd dæmi um staðsetningu bílastæða og aðkomu að bílgeymslum en hönnuðum sé heimilt að gera tillögu að annarri staðsetningu. Kæranda sem lóðarhafa hafi því átt að vera fullkunnugt um þessa skilmála og að staðsetning bílastæða og aðkoma að bílgeymslum kynni að verða útfærð nánar. Að baki umdeildri útfærslu búi öryggissjónarmið með tilliti til umferðar. Mun meiri umferð verði vestan við Fróðaþing 20 en norðan við lóðina þar sem nú sé fyrirhugað að aðkoma að lóð verði. Ekki fái staðist að réttur byggingarleyfishafa samkvæmt lögmætri ákvörðun eigi að víkja fyrir lítt skilgreindum grenndarhagsmunum kæranda. Í lokamálslið 2. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga segi að ákvörðun sveitarstjórnar skuli standa við þessar aðstæður en að bótaréttur kunni að skapast þeim til handa sem verði fyrir hagsmunaröskun vegna skipulagsbreytingarinnar.
Vakin sé athygli á að sambærileg færsla á aðkomu að lóð og hér sé til umfjöllunar hafi verið grenndarkynnt vegna Fróðaþings 17 og hafi sú breyting gengið eftir án athugasemda.
Á það er bent að tafir vegna kærumála varðandi fyrirhugaðar framkvæmdir að Fróðaþingi 20 hafi valdið byggingarleyfishafa ómældum óþægindum og tjóni. Framkvæmdir séu nú orðnar níu mánuðum á eftir áætlun en fjölskylda byggingaleyfishafa eigi að afhenda kaupanda fyrri íbúð sína í byrjun ágúst nk. Sé því brýnt að mál þetta fái skjóta málsmeðferð hjá úrskurðarnefndinni.
Af hálfu Kópavogsbæjar hafa ekki borist athugasemdir eða sjónarmið í tilefni af kærumáli þessu.
Álit Skipulagsstofnunar: Úrskurðarnefndin leitaði álits Skipulagsstofnunar á því hvort umþrætt byggingarleyfi hefði getað átt stoð í skipulagi svæðisins án þeirrar breytingar sem á því var gerð og kærð er í málinu. Í bréfi stofnunarinnar, dags. 18. maí 2007, kemur fram það álit að byggingarleyfið hefði ekki samrýmst skipulaginu óbreyttu.
Niðurstaða: Hin kærða deiliskipulagsbreyting felur í sér að bílastæði og aðkoma að Fróðaþingi 20 eru færð að götu sem liggur við suðurlóð kæranda sem liggur skáhallt gegnt fyrrgreindri lóð. Breytingin getur snert grenndarhagsmuni kæranda, svo sem vegna aukinnar umferðar og ónæðis nær lóð kæranda en ella hefði orðið að óbreyttu. Verður kærumáli þessu því ekki vísað frá sökum aðildarskorts kæranda.
Umdeild skipulagsbreyting var gerð á grundvelli 2. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 sem óveruleg deiliskipulagsbreyting. Telja verður að heimilt hafi verið að fara þá leið í ljósi þess að breytingin varðaði bílastæði og aðkomu að aðeins einni lóð og að í sérskilmálum gildandi deiliskipulags er heimild fyrir því að sækja um breytingar á staðsetningu bílastæða og aðkomu að bílgeymslum. Skipulagstillagan var grenndarkynnt fyrir nágrönnum og framkomnum athugasemdum svarað af hálfu bæjaryfirvalda. Þótt kynningargögnum hafi verið áfátt í því að færsla aðkomu og bílastæða við Fróðaþing 22 hafi verið sýnd auk breytinga á lóðinni að Fróðaþingi 20 þykir málsmeðferð skipulagstillögunnar að þessu leyti ekki haldin slíkum annmörkum að ógildingu varði.
Á umræddu svæði er í gildi deiliskipulag Vatnsenda – Þings frá árinu 2005. Við deiliskipulagningu nýbyggingarsvæða, eins og hér um ræðir, er m.a. tekin ákvörðun um landnotkun, tilhögun byggðar, húsagerðir og innbyrðis afstöðu húsa. Er deiliskipulag sem tekið hefur gildi bindandi fyrir stjórnvöld og borgara, sbr. 2. mgr. greinar 6.4 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998. Við úthlutun lóða á slíkum svæðum liggur þegar fyrir í deiliskipulagi hvaða heimildir eru fyrir hendi til nýtingar einstakra lóða og geta lóðarhafar ekki vænst þess að fyrra bragði að skipulagi verði breytt varðandi nýtingu og fyrirkomulag bygginga á einstökum lóðum. Verða borgarar að geta treyst því að ekki sé ráðist í breytingar á skipulagi nema að veigamiklar ástæður eða skipulagsrök mæli með því. Verður að gjalda varhug við því, m.a. með tilliti til fordæmisgildis, að ráðist sé í breytingar á nýlegu deiliskipulagi eftir óskum einstakra lóðarhafa, enda geta slíkar breytingar raskað hagsmunum annarra lóðarhafa og dregið úr þeirri festu er deiliskipulagi er ætlað að skapa. Eiga þessi sjónarmið við þótt breyting á skipulagi hafi ekki mikil grenndaráhrif.
Skipulagsyfirvöld Kópavogsbæjar hafa ekki bent á nauðsyn umdeildrar skipulagsbreytingar eða fært fram málefnaleg rök fyrir henni en af fyrirliggjandi upplýsingum verður ráðið að sambærilegri umsókn vegna lóðarinnar að Fróðaþingi 22 hafi verið hafnað af sömu yfirvöldum.
Með vísan til framangreindra sjónarmiða verður fallist á kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar.
Að þessari niðurstöðu fenginni á hið kærða byggingarleyfi ekki stoð í gildandi skipulagi svo sem áskilið er í 2. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga og verður það því fellt úr gildi.
Úrskurðarorð:
Samþykki bæjarstjórnar Kópavogs frá 28. nóvember 2006 fyrir breytingu á deiliskipulagi er fól í sér færslu bílastæða og breytta aðkomu vegna Fróðaþings 20, Kópavogi er fellt úr gildi.
Jafnframt er felld úr gildi ákvörðun byggingarnefndar Kópavogs frá 4. apríl 2007, er bæjarstjórn staðfesti hinn 10. sama mánaðar, um að veita byggingarleyfi fyrir einbýlishúsi að Fróðaþingi 20 í Kópavogi.
___________________________
Ásgeir Magnússon
_____________________________ ____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson Geirharður Þorsteinsson