Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

32/2005 Túngata

Ár 2007, miðvikudaginn 18. apríl, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 32/2005, kæra á synjun skipulagsráðs Reykjavíkur frá 9. mars 2005 á umsókn um að breyta notkun hússins að Túngötu 34, Reykjavík í gistiheimili með sex íbúðareiningum. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 11. apríl 2005, er barst nefndinni sama dag, kærir Björn Líndal hdl., fyrir hönd Lýsingar hf. Suðurlandsbraut 22, Reykjavík, synjun skipulagsráðs Reykjavíkur frá 9. mars 2005 á umsókn um að breyta notkun hússins að Túngötu 34, Reykjavík í gistiheimili með sex íbúðareiningum.  Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Málsatvik og rök:  Hinn 24. ágúst 2004 sótti kærandi um byggingarleyfi fyrir breyttri notkun hússins að Túngötu 34 í Reykjavík úr heimagistingu í gistiheimili.  Fasteignin er á svæði sem hefur ekki verið deiliskipulagt.  Vísaði byggingarfulltrúi erindinu til skipulagsfulltrúa til ákvörðunar um grenndarkynningu.  Málið kom til kasta skipulagsráðs sem samþykkti að grenndarkynna umsókn kæranda á fundi sínum hinn 19. janúar 2005.  Við grenndarkynninguna komu fram andmæli íbúa við fyrirhuguðum rekstri er snérust einkum um aukið ónæði, bílastæðavandamál og sorphirðu.  Skipulagsráð afgreiddi erindið hinn 9. mars 2005 með svofelldri bókun:  „Umsókn um breytta notkun synjað.  Ákvæði Aðalskipulags Reykjavíkur útilokar ekki að veitt verði leyfi til rekstrar gistiheimila á íbúðarsvæðum að uppfylltum þeim skilyrðum að starfsemin valdi ekki óþægindum vegna lyktar, hávaða eða óeðlilega mikillar umferðar.  Með vísan til athugasemda íbúa er ekki talið að þeim skilyrðum sé fullnægt.“ 

Kærandi bendir á að fyrirhugaður gistiheimilisrekstur hafi ekki önnur eða meiri áhrif á umhverfið en sambærilegur rekstur í íbúðarhverfum sem hafi verið heimilaður.  Skipulagsráð hafi ekki gætt samræmis eða jafnræðis við hina kærðu ákvörðun og sé það brot á 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Þá sé með hinni kærðu ákvörðun vegið að stjórnarskárvörðum atvinnuréttindum kæranda.  Auk þess hafi málsmeðferð verið ábótavant þar sem kæranda hafi ekki verið kynntar framkomnar athugasemdir og gefinn kostur á að tjá sig um þær.  Sé þetta brot á andmælareglu stjórnsýslulaga. 

Niðurstaða:  Samkvæmt þinglýstu afsali, dags. 18. nóvember 2005, varð Íslenska prinsessan ehf. eigandi fasteignarinnar að Túngötu 34 í Reykjavík og sama dag seldi það fyrirtæki DB ehf. fasteignina.  Samkvæmt þinglýstum kaupsamningi, dags. 29. desember 2006, seldi síðan DB ehf. umrædda fasteign til einkahlutafélagsins Abios ehf.

Þar sem kærandi er ekki lengur tengdur greindri fasteign sem eigandi eða afnotahafi verður hann ekki talinn eiga lögvarinna hagsmuna að gæta varðandi gildi hinnar kærðu ákvörðunar.  Núverandi eiganda hefur verið tilkynnt um kærumálið og honum gefinn kostur á að láta málið til sín taka innan tiltekins frests en hann hefur látið það hjá líða.  Verður kærumáli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulaga sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

 

 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

 

 

_____________________________        _________________________________
Ásgeir Magnússon                                    Þorsteinn Þorsteinsson