Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

6/2006 Hliðsnes

Ár 2006, miðvikudaginn 24. maí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mætt voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Aðalheiður Jóhannsdóttir dósent.

Fyrir var tekið mál nr. 6/2006, kæra á ákvörðun skipulagsnefndar Álftaness frá 11. janúar 2006 um að synja umsókn um leyfi til byggingar einbýlishúss að Hliðsnesi á Álftanesi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála hinn 31. janúar 2006 kærir Klemenz Eggertsson hdl., f.h. H, Hliðsnesi 2, Álftanesi ákvörðun skipulagsnefndar Álftaness frá 11. janúar 2006 um að synja umsókn kæranda um leyfi til byggingar einbýlishúss að Hliðsnesi á Álftanesi.  Hin kærða ákvörðun var staðfest á fundi bæjarstjórnar Álftaness hinn 24. janúar 2006.

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.  Jafnframt krefst hann þess að úrskurðarnefndin samþykki erindi kæranda um byggingarleyfi og að hún úrskurði honum hæfilegan málskostnað úr hendi varnaraðila.

Málsatvik:  Með bréfi, dagsettu 19. september 2005, óskaði kærandi eftir leyfi til að byggja einbýlishús á landareign sinni að Hliðsnesi á Álftanesi.  Tekið var fram að fyrir væri á landinu einbýlishús og hesthús.  Erindið var tekið fyrir á fundi bæjarráðs Álftaness hinn 22. september 2005 og samþykkti ráðið að vísa málinu til skipulagsnefndar. 

Erindi kæranda var tekið fyrir á fundi skipulagsnefndar hinn 28. september 2005 og var eftirfarandi bókun gerð í málinu:  „Bréf landeiganda í Hliðsnesi, Halldórs Júlíussonar dags. 19. september sl. þar sem óskað er eftir byggingarleyfi fyrir íbúðarhúsi í Hliðsnesi.  Bæjarráð samþykkti á fundi sínum þann 22. september sl. að vísa erindinu til skipulagsnefndar. Efni bréfsins kynnt og rætt. Skipulagsfulltrúa er falið að taka saman upplýsingar og málið sem verður áfram til umfjöllunar í nefndinni.“

Málið var tekið fyrir að nýju í skipulagsnefnd hinn 7. desember 2005 og þá gerð í málinu svofelld bókun:  „Hliðsnes. Skipulagsfulltrúi leggur fram gögn vegna umsóknar Halldórs Júlíussonar um heimild til byggingar íbúðarhúss. Erindið verður áfram til umfjöllunar í nefndinni.“

Málið var enn tekið fyrir í skipulagsnefnd á fundi hinn 11. janúar 2006 og eftirfarandi bókað:  „Hliðsnes. Umsókn Halldórs Júlíussonar dags. 19. september 2005 um leyfi til byggingar íbúðarhúss á Hliðsnesi.  Skipulagsnefnd hefur haft málið til umfjöllunar undanfarið og er það niðurstaða að hafna erindi bréfritara þar sem fyrirhugaðar byggingar falla utan afmarkaðs íbúðasvæðis skv. tillögu að aðalskipulagi 2005-2024.“

Var þessi niðurstaða staðfest á fundi bæjarstjórnar Álftaness hinn 24. janúar 2006 og tilkynnt kæranda með bréfi, dags. sama dag.  Er það þessi ákvörðun sem kærð er í máli þessu.  

Aðalskipulagstillaga sú er vísað er til í bókun skipulagsnefndar frá 11. janúar 2006 hafði á þeim tíma komið til fyrri umræðu í sveitarstjórn og verið auglýst til kynningar frá 16. desember 2005 til 12. janúar 2006, en frestur til að gera athugasemdir var til 27. janúar 2006.  Var skipulagstillagan eftir það til meðferðar hjá Skipulagsstofnun en á fundi bæjarstjórnar Álftaness hinn 10. apríl 2006 var tillaga skipulagsnefndar að aðalskipulagi 2005 – 2024 samþykkt með breytingum sem gerðar höfðu verið í kjölfar athugasemda Skipulagsstofnunar og var eftirfaradi bókun gerð í málinu:  „Bæjarstjórn samþykkir orðalagsbreytingar við greinargerð tillögunnar. Bæjarstjórn samþykkir tillögu skipulagsnefndar að aðalskipulagi Álftaness 2005-2024. Skipulagsfulltrúa er falið að senda aðalskipulagstillöguna til samþykktar hjá Skipulagsstofnun og auglýsa hana.“

Samkvæmt upplýsingum sem úrskurðarnefndin hefur aflað af sjálfsdáðum hefur Skipulagsstofnun lokið lögboðinni afgreiðslu málsins til staðfestingar ráðherra og mun skipulagstillagan hafa hlotið staðfestingu hinn 19. maí 2006, en ekki verður séð að auglýsing um gildistöku hennar hafi enn verið birt í B-deild Stjórnartíðinda.

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er á  því byggt að við ákvörðun um erindi hans hafi skipulagsnefnd og sveitarstjórn borið að leggja til grundvallar gildandi aðalskipulag fyrir sveitarfélagið 1993 – 2013, sem staðfest hafi verið af umhverfis¬ráðherra hinn 1. desember 1993.  Samkvæmt því skipulagi sé svæðið þar sem kærandi hafi áformað að reisa einbýlishús ótvírætt ætlað til íbúðabygginga.  Áður hafi verið veitt leyfi fyrir byggingu íbúðarhúss á svæðinu og nýverið, eða hinn 24. janúar 2006, hafi verið samþykkt leyfi til byggingar einbýlishúss og sérstaks baðhúss að Hliði (Hliðsvegi 1) þar sem skipulags- og landfræðilegar aðstæður séu algerlega sambærilegar.  Megi því ætla að sveitarstjórn hafi orðið á mistök eða að ómálefnaleg rök hafi ráðið för við ákvörðun sveitarfélagsins.  Jafnframt hafi verið brotið gegn jafnræðisreglu stjórnsýslulaga við afgreiðslu málsins. 

Málsrök bæjararstjórnar Álftaness:  Eins og að framan greinir var hin kærða ákvörðun skipulagsnefndar einungis studd þeim rökum að hafna bæri erindi kæranda þar sem fyrirhugaðar byggingar féllu utan afmarkaðs íbúðasvæðis samkvæmt tillögu að aðalskipulagi 2005-2024.  Í greinargerð Álftaness í kærumáli þessu, dags. 9. mars 2006, kemur fram að í gildi sé aðalskipulag sveitarfélagsins fyrir 1993-2013.  Þá sé til umfjöllunar nýtt aðalskipulag, sem gert sé ráð fyrir að gildi til ársins 2024.  Það skuli áréttað að í aðalskipulagi séu landnotkunarreitir almennt ekki hnitasettir eða staðsettir á nákvæman hátt, heldur sé gert ráð fyrir að fyrirkomulag og staðsetning verði útfærð nánar í deiliskipulagi.  Hins vegar hafi ekki verið samþykkt deiliskipulag fyrir það svæði sem kæran taki til.

Í 43. gr. laga nr. 73/1997 sé ráð fyrir því gert að sveitarstjórn veiti byggingarleyfi og eigi það að vera í samræmi við staðfest aðalskipulag og samþykkt deiliskipulag.  Þar sem ekki liggi fyrir samþykkt deiliskipulag fyrir reitinn hafi verið ljóst við afgreiðslu bæjarstjórnar að framangreind skilyrði 43. gr. laga nr. 73/1997 væru ekki uppfyllt við afgreiðslu erindis kæranda.  Þar sem í tillögu að nýju aðalskipulagi hafi verið fyrirhugað að byggingarsvæði á Hliðsnesi yrði minnkað töluvert, m.a. vegna flóðahættu, hafi jafnframt ekki verið talið rétt að fallast á umsókn kæranda, einkum þar sem fyrirhuguð nýbygging myndi lenda utan skilgreinds 30 – 50 metra öryggissvæðis í hinu fyrirhugaða skipulagi.

Loks sé kröfu um kostnað vegna málsmeðferðar fyrir nefndinni mótmælt þar sem telja verði að lagaheimild skorti til slíkrar ákvörðunar.  Sé þess því krafist að kröfu kæranda um kærumálskostnað verið vísað frá nefndinni. 

Niðurstaða:  Eins og að framan greinir hafnaði skipulagsnefnd umsókn kæranda á fundi sínum hinn 11. janúar 2006 með þeim rökum einum að fyrirhugaðar byggingar féllu utan afmarkaðs íbúðasvæðis samkvæmt tillögu að aðalskipulagi 2005-2024.  Var þessi afgreiðsla samþykkt af bæjarráði og bæjarstjórn án frekari rökstuðnings eða athugasemda.  Í afgreiðslunni fólst að lögð var til grundvallar tillaga að aðalskipulagi sem þá hafði hvorki hlotið endanlegt samþykki sveitarstjórnar né lögboðna málsmeðferð Skipulagsstofnunar og staðfestingu ráðherra.  Var þessi málsmeðferð andstæð ákvæði 2. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, þar sem m.a. er áskilið að byggingarleyfi skuli vera í samræmi við staðfest aðalskipulag.  Jafnframt var þessi afgreiðsla andstæð þeirri grundvallarreglu að stjórnvaldsfyrirmælum, sem sæti birtingu að lögum, verði ekki beitt fyrr en birting hafi farið fram, sbr. 8. gr. laga nr. 15/2005.  Var hin kærða ákvörðun því ekki reist á lögmætum sjónarmiðum og leiða þeir annmarkar til ógildingar hennar.

Fyrir liggur að skipulagsfulltrúi lagði fram ný gögn í málinu á fundi skipulagsnefndar hinn 7. desember 2005, sem voru beinlínis til þess fallin að hafa áhrif á niðurstöðu nefndarinnar í málinu.  Þessi gögn voru ekki kynnt kæranda og var því ekki gætt andmælareglu 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 við meðferð málsins.  Leiðir sá ágalli einnig til ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar.

Í greinargerð bæjarstjórnar í kærumálinu er leitast við að skjóta frekari stoðum undir niðurstöðu skipulagsnefndar í málinu.  Er þar annars vegar á því byggt að ekki hafi verið unnt að verða við erindi kæranda vegna þess að deiliskipulag hafi ekki verið gert fyrir umrætt svæði og hins vegar að fyrirhuguð nýbygging samræmdist ekki væntanlegu aðalskipulagi.  Þykir rétt að víkja stuttlega að þessum röksemdum enda þótt slíkur, síðar til kominn, rökstuðningur geti ekki haft áhrif á gildi hinnar kærðu ákvörðunar.

Þegar hefur verið komist að þeirri niðurstöðu að óheimilt hafi verið að leggja til grundvallar ákvörðun í málinu ákvæði aðalskipulagstillögu á vinnslustigi svo sem gert var.  Verður ítarlegri rökum af sama meiði í greinargerð sveitarfélagsins því hafnað.

Rétt er að samkvæmt 2. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 skulu byggingarleyfi vera í samræmi við staðfest aðalskipulag og samþykkt deiliskipulag.  Hins vegar segir í 3. mgr. 23. gr. sömu laga að sveitarstjórn geti veitt heimild til framkvæmda í þegar byggðum hverfum, þar sem deiliskipulag liggi ekki fyrir, að undangenginni grenndarkynningu, sbr. 7. mgr. 43. gr.  Segir í tilvitnaðri 7. mgr. 43. gr. að þegar sótt sé um byggingarleyfi í þegar byggðu hverfi og deiliskipulag liggi ekki fyrir eða um sé að ræða óverulega breytingu á deiliskipulagi, sbr. 2. mgr. 26. gr., skuli skipulagsnefnd fjalla um málið og láta fara fram grenndarkynningu áður en það hljóti afgreiðslu byggingarnefndar. 

Samkvæmt framansögðu er það ekki ófrávíkjanlegt skilyrði fyrir útgáfu byggingarleyfis að deiliskipulag liggi fyrir.  Bar bæjarstjórn, með hliðsjón af lögvörðum rétti kæranda til hagnýtingar á eignarlandi sínu, að taka til athugunar hvort skilyrði væru til að veita byggingarleyfi í samræmi við umsókn kæranda að undangenginni grenndarkynningu með heimild í tilvitnuðum ákvæðum.  Þessa var ekki gætt og var meðferð málsins því einnig áfátt að þessu leyti.

Umsókn kæranda barst bæjaryfirvöldum hinn 22. september 2005 en meðferð málsins lauk rúmum fjórum mánuðum seinna með staðfestingu bæjarstjórnar hinn 24. janúar 2006.  Verður ekki ráðið af málsgögnum að nein þau atvik hafi verið fyrir hendi er réttlættu þann drátt er varð á afgreiðslu málsins og ber að átelja hann.

Samkvæmt framansögðu er hin kærða ákvörðun haldin verulegum ágöllum sem þykja eiga að leiða til þess að hún verði ógilt.

Ekki verður fallist á þá málsástæðu kæranda að brotið hafi verið gegn jafnræðisreglu með hinni kærðu ákvörðun, enda eru skipulagsforsendur ekki sambærilegar í Hliði  og í Hlíðsnesi. 

Ekki er á færi úrskurðarnefndarinnar að verða við kröfu um að veita umbeðið byggingarleyfi og verður þeirri kröfu vísað frá nefndinni.  Kröfu um kærumálskostnað verður einnig vísað frá þar sem fyrir henni er ekki lagastoð.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist lítillega vegna mikilla anna hjá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Hin kærða ákvörðun um að synja umsókn kæranda um byggingarleyfi fyrir einbýlishúsi að Hliðsnesi á Álftanesi er felld úr gildi.  Vísað er frá úrskurðarnefndinni kröfum kæranda um að nefndin veiti honum umrætt byggingarleyfi og um kærumálskostnað.

 

 ___________________________          
Hjalti Steinþórsson

 

____________________________               ____________________________     
Þorsteinn Þorsteinsson                                      Aðalheiður Jóhannsdóttir