Ár 2002, mánudaginn 3. júní, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík. Mættir voru aðalmennirnir; Ásgeir Magnússon hrl., formaður og Þorsteinn Þorsteinsson, byggingarverkfræðingur ásamt varamanninum Óðni Elíssyni hdl.
Fyrir var tekið mál nr. 80/2000; kæra íbúðareigenda að Stigahlíð 41 í Reykjavík vegna ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 12. desember 2000 að synja um leyfi til að breyta þakformi og byggja nýtt þak á bílgeymslu á lóðinni nr. 41 við Stigahlíð.
Á málið er nú lagður svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 19. desember 2000, er barst nefndinni hinn 21. sama mánaðar, kæra G og R, eigendur íbúða að Stigahlíð 41 í Reykjavík, ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 12. desember 2000 að synja umsókn kærenda um leyfi til að breyta þakformi og byggja nýtt þak á bílgeymslu á lóðinni nr. 41 við Stigahlíð. Borgarstjórn staðfesti ákvörðun byggingarfulltrúa hinn 21. desember 2000. Kærendur gera þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.
Málavextir: Fasteignin nr. 41 við Stigahlíð í Reykjavík er kjallari og tvær hæðir og er tvöföld bílgeymsla áföst húsinu. Húsið stendur mun fjær götu en húsin beggja vegna við það þannig að hlið bílgeymslunnar snýr að aftanverðu húsinu að Stigahlíð 39. Bygging hússins var samþykkt í byggingarnefnd Reykjavíkur þann 8. nóvember 1962 og var þar gert ráð fyrir flötu þaki á húsi og bílgeymslu. Þann 8. júlí árið 1982 var samþykkt að breyta þakformi íbúðarhússins á þann veg að ofan á flatt steypt þakið var sett valmaþak. Kærendur eiga íbúðir í húsinu sem bílgeymslan á lóðinni tilheyrir.
Í húsaröðinni, sem húsin nr. 35 – 43 við Stigahlíð mynda, er að finna ferns konar þakform. Allar bílgeymslur húsanna eru með flötu þaki nema bílgeymslan á lóðinni nr. 37 sem hefur einhalla þak. Á þakbrún bílgeymslunnar við húsið að Stigahlíð 35 er grindverk sem snýr að götu. Umrætt svæði hefur ekki verið deiliskipulagt.
Vegna þakleka í bílgeymslu kærenda hafa, að þeirra sögn, komið fram skemmdir í veggjum bílgeymslunnar og hugðust kærendur hindra lekann með því að byggja einhalla þak úr timbri, klætt með bárujárni. Sóttu þeir um leyfi fyrir fyrirhuguðum breytingum á þakinu hinn 3. nóvember 2000 og fylgdi umsókninni samþykki meðeigenda og nágranna að Stigahlíð 39 fyrir framkvæmdinni, dags. 4. október 2000.
Á fundi byggingarfulltrúa þann 14. nóvember 2000 var erindi kærenda lagt fram. Afgreiðslu þess var frestað með vísan til athugasemda á umsóknareyðublaði. Athugasemdir voru eftirfarandi: „Ný skráningartafla fyrir matshluta 02 (bílskúr) skal fylgja erindinu. Gera grein fyrir rúmmálsaukningu. Afstöðumynd er röng og á hana vantar N-pílu. Breyta þakformi og gera grein fyrir frágangi á norðurmörkum.“ Samkvæmt áritun Borgarskipulags skyldi grenndarkynna erindið þegar uppdrættir væru komnir í samþykkjanlegt horf.
Kærendur létu gera breytingar á uppdráttum með hliðsjón af athugasemdum borgaryfirvalda að öðru leyti en því að enn var gert ráð fyrir óbreyttu formi þaks. Umsóknin var tekin fyrir að nýju á fundi byggingarfulltrúa þann 12. desember 2000 með breyttum uppdráttum, dags. 27. nóvember 2000. Var umsókninni synjað með þeim rökum að þakformið færi húsi mjög illa og finna skyldi betri lausn. Borgarstjórn staðfesti afgreiðslu málsins á fundi sínum þann 21. desember 2000.
Kærendur vildu ekki una þessum málalokum og kærðu synjunina til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir.
Málsrök kærenda: Kærendur telja nauðsyn á að breyta búnaði þaksins á bílgeymslunni til þess að hindra frekari leka frá þaki og forðast skemmdir sem af honum hljótist og hafi umsókn kærenda um breytingu á formi þaksins verið til þess ætluð að ná þeim markmiðum.
Þær lausnir sem kærendum hafi verið bent á af fulltrúum byggingaryfirvalda séu óhentugri en sú breyting er þeir hafi farið fram á. Að byggja valmaþak á bílgeymsluna komi ekki til greina vegna kostnaðar og fyrirhafnar. Sú framkvæmd hefði í för með sér að setja rennur meðfram öllu þakinu, grafa meðfram bílgeymslunni, rífa upp malbikaða innkeyrslu og róta upp blómabeði á nágrannalóð til að koma fyrir regnvatnslögn fyrir rennuniðurföll. Þá sé önnur útfærsla á þakinu, svo sem einhalla þak með þakpappa, ótraustari lausn. Þá benda kærendur á að byggingaryfirvöld hafi samþykkt sams konar þakform úr sama efni á bílageymslu að Stigahlíð 37 og kærendum sé nú synjað um að setja á bílgeymslu sína.
Málsrök skipulags- og byggingarnefndar: Af hálfu skipulags- og byggingarnefndar er á því byggt að við umfjöllun byggingarfulltrúa um erindi kærenda hafi þeim verið bent á að finna aðra lausn á útliti þaks bílgeymslunnar er samræmdist ásýnd hússins betur þannig að bílskúrsþakið yrði lægra við lóðarmörk. Ekki hafi verið gerð krafa um valmaþak en kærendum bent á að t.d. lágt risþak með mæni þvert á skúrinn gæti vel komið til greina. Slík þakgerð hækkaði bílskúr minna á lóðamörkum og framhlið bílgeymslunnar yrði lægri en fælist í umsókn kærenda. Kærendum hafi jafnframt verið bent á að til séu aðrar aðferðir við að endurgera lek þök þar sem ekki þurfi til að koma samþykki byggingarnefndar eða byggingarfulltrúa. Kærendur hafi í engu sinnt þessum ábendingum og hafi það leitt til synjunar á umsókn þeirra.
Í 8. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998 sé kveðið á um starfssvið byggingarnefnda. Þar segi m.a. í gr. 8.2 að byggingarnefnd skuli meta útlitshönnun bygginga hvað varðar form, hlutföll, efni og næsta umhverfi. Ákvörðun byggingarfulltrúa um að synja erindi kærenda, eftir að kærendur hafi neitað að verða við athugasemd um að breyta skyldi þakformi, hafi verið byggð á framangreindu ákvæði enda skylda byggingarfulltrúa að samþykkja ekki erindi sem feli í sér breytt útlit sem að hans áliti sé ekki í samræmi við þá hönnun sem fyrir er á lóðinni.
Skoðun á vettvangi: Úrskurðarnefndin hefur með óformlegum hætti kynnt sér aðstæður á vettvagi við undirbúning úrskurðar í máli þessu.
Niðurstaða: Hin kærða ákvörðun byggingarfulltrúa er reist á því að þakform á bílgeymslu samkvæmt umsókn kærenda fari húsi mjög illa og eigi synjunin stoð í 8. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998.
Fyrir liggur að ekki gætir samræmis í þakgerðum húsanna nr. 35- 43 við Stigahlíð. Jafnframt eru dæmi um að hús við götuna hafi annað þakform en bílgeymslan er því fylgir. Hús kærenda er nú með valmaþak en bílgeymslan við húsið með sléttu þaki. Breyting á þakgerð á bílgeymslu kærenda samkvæmt umsókn þeirra hefði í för með sér að framhlið bílgeymslunnar að Stigahlíð 41, er að götu snýr, hækkaði um 80 sentimetra en lega fasteignarinnar veldur því að hlið bílgeymslunnar snýr að aftanverðri hlið hússins nr. 39 við Stigahlíð. Verður að telja að umbeðin breyting á bílgeymslu kærenda breyti ekki, svo nokkru nemi, ásýnd húsaraðarinnar þegar höfð er hliðsjón af staðháttum.
Ekki er fallist á að synjun á umsókn kærenda um byggingarleyfi verði studd þeim rökum að hann hafi ekki farið að tilmælum um aðra hönnun á þakinu eða leysti vanda sinn með úrræðum sem ekki þyrfti byggingarleyfi fyrir. Afgreiðsla umsóknarinnar hljóti að byggja á því hvort umbeðin framkvæmd samrýmist gildandi byggingar- og skipulagsreglum eða ekki.
Í 8. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998 er fjallað um störf byggingarnefnda. Segir í gr. 8.2 að hlutverk nefndarinnar sé m.a. að meta útlitshönnun bygginga hvað varðar form, hlutföll, efni og næsta umhverfi. Úrskurðarnefndin fellst ekki á þá túlkun skipulags- og byggingarnefndar að greint ákvæði heimili óheft mat byggingaryfirvalda á því hvað miður fari í útliti bygginga hverju sinni. Slík túlkun ákvæðisins leiddi til hættu á geðþóttaákvörðunum þar sem umsóknum um byggingarframkvæmdir væri hægt að hafna af þeirri einu ástæðu að framkvæmdin félli ekki að smekk viðkomandi byggingaryfirvalds. Telja verður að við mat á útlitshönnun bygginga samkvæmt greindu ákvæði byggingarreglugerðar verði að styðjast við almennan mælikvarða í þeim efnum svo sem kostur er enda gerir greint ákvæði byggingarreglugerðar ráð fyrir því að fjölskipað stjórnvald, þ.e. byggingarnefnd, meti útlitshönnun bygginga. Verður því beiðni um breytingu mannvirkis ekki hafnað með þeirri einu röksemd að hún fari mannvirkinu mjög illa nema að framkvæmdin fari ljóslega í bága við almenn viðhorf um útlitshönnun og sú ályktun sé rökstudd nánar.
Leyfi hafa verið veitt fyrir breytingum á þökum húsa á svæðinu þótt breytingin hafi leitt til misræmis í útliti á þaki húss og bílskýlis sömu fasteignar Á þakbrún framhliðar bílgeymslunnar við Stigahlíð 35 er um eins metra hátt járnhandrið og á bílgeymslu hússins nr. 37 hefur fengist leyfi fyrir og verið reist sams konar þak og kærendur hafa farið fram á að fá að byggja. Umdeild breyting á þaki bílgeymslu kærenda myndi hækka framhlið hennar um 80 sentimetra og hefði jafnframt í för með sér að þakbrún hefði aflíðandi halla á þeirri hlið er snýr að Stigahlíð 39. Fram er komið að eigendur fasteignarinnar að Stigahlíð 39 hafa fyrir sitt leyti samþykkt þakbreytinguna.
Að öllu þessu virtu og með hliðsjón af jafnræðis- og meðalhófsreglu stjórnsýsluréttarins samkvæmt 11. og 12. grein stjórnsýslulaga nr. 37/1993 telur úrskurðarnefndin að ekki hafi verið færð fram haldbær rök af hálfu byggingaryfirvalda fyrir því að hafna umsókn kærenda um breytingu á þaki bílgeymslunnar og er hin kærða ákvörðun byggingarfulltrúa því felld úr gildi.
Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega. Valda því miklar annir og málafjöldi hjá nefndinni.
Úrskurðarorð:
Ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 12. desember 2000, er borgarstjórn staðfesti hinn 21. desember 2000, um að synja umsókn kærenda um leyfi til að breyta þakformi og byggja nýtt þak á bílgeymslu á lóðinni nr. 41 við Stigahlíð, er felld úr gildi.
____________________________________
Ásgeir Magnússon
_______________________________ _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson Óðinn Elísson