Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

27/1998 Frostaskjól

 

 

Ár 1998, miðvikudaginn 28. október  kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Laugavegi 59 í Reykjavík. Mættir voru allir aðalmenn; Ingimundur Einarsson, hæstaréttarlögmaður, Þorsteinn Þorsteinsson, byggingarverkfræðingur og Hólmfríður Snæbjörnsdóttir, lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 27/1998; kæra H og J, Frostaskjóli 17, Reykjavík vegna ákvörðunar byggingarnefndar Reykjavíkur frá 30. apríl 1998 um að heimila Knattspyrnufélagi Reykjavíkur að byggja nýtt íþróttahús á lóð félagsins að Frostaskjóli 2.

 
Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála dags. 10. júlí 1998, sem barst nefndinni hinn 13. sama mánaðar, kæra H og J, Frostaskjóli 17, Reykjavík ákvörðun byggingarnefndar Reykjavíkur frá 30. apríl 1998 um að veita Knattspyrnufélagi Reykjavíkur leyfi til að byggja nýtt íþróttahús að Frostaskjóli 2.  Hin kærða ákvörðun var staðfest á fundi borgarstjórnar hinn 7. maí 1998.  Kærendum var tilkynnt um ákvörðunina með bréfi byggingarfulltrúans í Reykjavík dags. 10. júní 1998. Kærendur krefjast þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.  Um kæruheimild vísast  til 4. mgr. 39. gr. laga nr. 73/1997.

Málavextir: Knattspyrnufélag Reykjavíkur hefur um árabil haft uppi áform um byggingu nýs íþróttahúss á lóð félagsins að Frostaskjóli 2.   Var fyrst sótt um leyfi fyrir þessum framkvæmdum á árinu 1994 og þá kynnt tillaga um að byggja nýtt íþróttahús með sætum fyrir allt að 1200 gesti.  Ekki var fallist á þessi áform.  Á árinu 1995 samþykkti skipulagsnefnd tillögu að byggingu minna húss en ekki kom til þess að byggt yrði eftir þeirri tillögu.  Höfðu tillögur þær sem fram komu á árunum 1994 og 1995 sætt andmælum nágranna við kynningu þeirra og var m. a. bent á það af hálfu nágranna að ekki væri séð fyrir nægum fjölda bílastæða vegna byggingarinnar.  Hinn 27. nóvember 1997 voru enn lagðar fram í byggingarnefnd teikningar að nýrri byggingu á lóðinni. Var þessum teikningum vísað til skipulags- og umferðarnefndar til kynningar og kynnti Borgarskipulag þessa nýju tillögu fyrir nágrönnum með bréfi dags. 30. janúar 1998.  Var í kynningunni meðal annars gerð grein fyrir fjölda og fyrirkomulagi bílastæða vegna byggingarinnar. Var í umræddri tillögu gert ráð fyrir sama fjölda bílastæða á lóðinni og í tillögunum frá 1995 eða 115 stæðum. Bárust enn mótmæli frá nágrönnum vegna bílastæðanna, sem þeir töldu of fá, einkum þegar kappleikir færu fram í húsinu.  Vegna athugasemda nágranna var bílastæðum fjölgað í 155 auk fjögurra stæða fyrir rútur.  Þá var gert ráð fyrir að nýta mætti malarvöll á lóðinni sem stæði fyrir allt að 400 bíla en sérstök úttekt hafði verið gerð á vellinum til þess að meta hvort nýta mætti hann til þessara þarfa.  Voru teikningar þannig breyttar lagðar fyrir byggingarnefnd og samþykktar á fundi nefndarinnar hinn 30. apríl 1998, enda skyldi malarvöllurinn að jafnaði notaður sem bílastæði.

Málsrök kærenda:  Af hálfu kærenda er á því byggt að hið umdeilda byggingarleyfi uppfylli ekki ákvæði 5. kafla byggingarreglugerðar nr. 177/1992 um bílastæði.  Vísa kærendur til ákvæðis í grein 5.2.3. um að við samkomuhús skuli gera ráð fyrir a.m.k. einu bílastæði fyrir hver 6 sæti í húsinu.  Þurfi samkvæmt þessu að sjá fyrir 133 stæðum fyrir þau 800 sæti sem verði í nýja íþróttahúsinu og sé þessum skilyrðum ekki fullnægt enda aðeins gert ráð fyrir 115 bílastæðum á lóðinni.  Kærendur telja að ekki verði unnt að nota malarvöllinn á lóðinni sem bílastæði nema í undantekningartilvikum.  Það sé því ekki raunhæft að leysa þörfina fyrir bílastæði á lóðinni með því að ætla þeim stað á malarvellinum eins og að hluta til sé gert í samþykkt byggingarnefndar.  Gera kærendur kröfu til þess að þörfin fyrir aukinn fjölda bílastæða vegna tilkomu nýbyggingarinnar verði leyst með viðunandi hætti.

Eftir að sjónarmið byggingarnefndar og byggingarleyfishafa voru komin fram í málinu var ljóst að misræmi var milli staðhæfinga kærenda í kærunni og annarra fyrirliggjandi gagna um fjölda þeirra bílastæða sem samþykktur hefði verið vegna nýbyggingarinnar.  Var kærendum af þessu tilefni gefinn kostur á að tjá sig um þetta misræmi.  Hafa kærendur nú upplýst að þeim hafi ekki verið kunnugt um þá fjölgun sem gerð var á bílastæðum frá þeirri tillögu, sem kynnt var.  Bera kærendur ekki brigður á upplýsingar byggingarnefndar um endanlegan fjölda bílastæða en árétta að kæran standi allt að einu, enda sé, þrátt fyrir umrædda fjölgun stæða, ekki fullnægt kröfum byggingarreglugerðar um fjölda bílastæða.  Benda kærendur á að starfsemi sé í líkamsræktarstöð á lóðinni á sama tíma og kappleikja sé að vænta og verði þau stæði sem líkamsræktarstöðinni séu ætluð því ekki jafnframt talin geta þjónað hinu nýja íþróttahúsi.  Þá ítreka kærendur efasemdir sínar um að malarvöllurinn geti komið að notum sem bílastæði.

Málsrök byggingarnefndar og byggingarleyfishafa:  Af hálfu byggingarnefndar Reykjavíkur er rakin forsaga málsins og gerð grein fyrir þeim tillögum, sem fram höfðu komið um byggingu nýs íþróttahúss á lóðinni og þeim grenndarkynningum sem byggingaryfirvöld höfðu staðið fyrir.  Er á það bent að kærendur leggi til grundvallar að bílastæði á lóðinni verði einungis 115 en samkvæmt hinum samþykktu uppdráttum verði þau 155 auk fjögurra stæða fyrir rútur og allt að 400 stæðum á malarvellinum.  Vísað er til 64. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998  sem byggingarnefnd telur  eiga við  í málinu.  Einnig er vísað til reglna um bílastæðagjald sem samþykktar voru í borgarstjórn 15. janúar 1987 svo og til álits Borgarskipulags um málið.  Fallist er á það sjónarmið kærenda að beita beri reglunni um eitt bílastæði fyrir hver sex sæti í íþróttahúsinu þegar það er notað til kappleikja en við aðra notkun beri að miða við eitt stæði fyrir hverja 50 fermetra gólfflatar.  Er sýnt með útreikningum að miðað við venjulega notkun sé fullnægt kröfum gildandi reglugerðar um fjölda bílastæða án þess að gert sé ráð fyrir stæðum á malarvellinum en þegar kappleikir séu í húsinu  vanti 14 eða 28 stæði til að fullnægt sé kröfum um fjölda merktra bílastæða, eftir því hvaða viðmiðun sé notuð við ákvörðun fjölda bílastæða vegna annarrar starfsemi í húsum á lóðinni.  Séu stæði fyrir rútubíla þá ekki meðtalin né heldur þau 400 stæði sem gert sé ráð fyrir á malarvellinum.

Af hálfu byggingarleyfishafa er á það bent að fjöldi bílastæða á lóðinni verði meiri en sá er kærendur leggi til grundvallar í kærunni.  Þá er tekið fram að skólastjóri Grandaskóla hafi veitt KR leyfi til að nota bílastæði skólans á kvöldin og um helgar þegar skólastarf sé ekki í gangi.  Loks er tekið fram að venjulega sæki ekki nema 200 – 300 manns leiki KR í körfubolta og handbolta nema þegar um úrslitakeppni sé að ræða en þá sé vonast til þess að áhorfendur geti orðið 500 – 800.  Ekki sé unnt að reikna með að þetta gerist nema í mesta lagi fimm sinnum á vetri.

Umsögn Skipulagsstofnunar:  Úrskurðarnefndin leitaði umsagnar Skipulagsstofnunar í máli þessu.  Í umsögn stofnunarinnar er vísað til þess að ákvæði 5.2.3. í byggingarreglugerð nr. 177/1992, sem kærendur byggja á, komi fram að sé um samnotkun bifreiðastæða að ræða megi víkja frá kröfum ákvæðisins að mati byggingarnefndar.  Í grein 5.2.5. í sömu reglugerð segi að í gömlum hverfum megi víkja frá kröfum um bifreiðastæði að mati byggingarnefndar og að fengnu leyfi skipulagsyfirvalda.  Er það niðurstaða Skipulagsstofnunar, að þar sem ákvæði þágildandi byggingarreglugerðar um bílastæði hafi verið frávíkjanleg að uppfylltum ákveðnum skilyrðum og þar sem byggingar- og skipulagsyfirvöld í Reykjavík hafi að mati stofnunarinnar uppfyllt þessi skilyrði við meðferð umsóknar um hið kærða byggingarleyfi eigi byggingarleyfið að standa óbreytt.

Niðurstaða:  Hin kærða ákvörðun var tekin á fundi byggingarnefndar hinn 30. apríl 1998 og staðfest af borgarstjórn hinn 7. maí 1998.  Voru þá enn í gildi ákvæði byggingarreglugerðar nr. 177/1992 og skipulagsreglugerðar nr. 318/1985 með síðari breytingum að því marki sem ekki fór í bága við ákvæði skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 sbr. 1. tl. ákvæða til bráðabirgða í greindum lögum.  Um bílastæði giltu því, eftir því sem við áttu, ákvæði í kafla 4.3.8. í tilvitnaðri skipulagsreglugerð og ákvæði kafla 5.2. í áðurgreindri byggingarreglugerð.  Samkvæmt ákvæði greinar 5.2.3. í byggingarreglugerð nr. 177/1992 með síðari breytingum þurfti að koma fyrir 133 bílastæðum vegna 800 sæta í hinu nýja íþróttahúsi en að auki þurfti að sjá fyrir stæðum vegna starfsemi í öðru húsrými á lóðinni, en húsrými þetta er samkvæmt gögnum byggingarnefndar 1.754 fermetrar.  Sé litið til ákvæðis greinar 5.2.2. í tilvitnaðri byggingarreglugerð hefði því þurft 70 bílastæði fyrir þetta húsrými en að lágmarki 35 sé miðað við reglur Reykjavíkurborgar um bílastæðagjald, samþykktar í borgarstjórn 15. janúar 1987.  Sama fjölda stæða, eða 35, þyrfti fyrir umrætt húsnæði sé miðað við reglur nýrrar byggingarreglugerðar nr. 441/1998,  gr. 64.6. Samkvæmt framansögðu skorti nokkuð á að þau 155 almennu bílastæði, sem komið hafði verið fyrir á lóðinni fullnægðu kröfum reglugerða um fjölda bílastæða.  Var því gerð könnun á því hvort nota mætti malarvöll á lóðinni sem bílastæði til að mæta þeirri þörf fyrir fleiri bílastæði sem við blasti.  Í úttekt verkfræðistofunnar Burðar ehf., sem fengin var til þess að annast úttektina, kemur fram að völlurinn geti vel hentað sem bílastæði en tekið fram að yfirborð hans geti þó orðið slæmt yfirferðar við viss veðurfarsleg skilyrði.  Við samþykkt hinnar kærðu ákvörðunar setti byggingarnefnd það skilyrði að malarvöllurinn verði að jafnaði notaður sem bílastæði. Verður að leggja þann skilning í skilyrði þetta að byggingarleyfishafa sé skylt að veita aðgang að malarvellinum til notkunar sem bílastæði þegar þess gerist þörf. Með skilyrði þessu telur úrskurðarnefndin að fullnægt hafi verið kröfum um fjölda bílastæða á lóðinni  og verður því ekki fallist á kröfur kærenda um að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna anna og sumarleyfa nefndarmanna.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar byggingarnefndar Reykjavíkur frá 30. apríl 1998 um að veita Knattspyrnufélagi Reykjavíkur leyfi til að byggja nýtt íþróttahús að Frostaskjóli 2, Reykjavík.