Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

28/1998 Hafnarstræti

Ár 1998,  þriðjudaginn 13. október kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Laugavegi 59 í Reykjavík. Mættir voru allir aðalmenn; Ingimundur Einarsson, hæstaréttarlögmaður, Þorsteinn Þorsteinsson, byggingarverkfræðingur og Hólmfríður Snæbjörnsdóttir, lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 28/1998;  kæra V, eiganda eignarhuta á 1. hæð Hafnarstrætis 20, Reykjavík vegna ákvörðunar byggingarnefndar Reykjavíkur frá 25. júní 1998 um að heimila breytingar á fyrirkomulagi  miðrýmis og austurenda 1. hæðar og að heimila að settir verði inngangar á  norður- og suðurhlið austurenda.

 
Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála dags. 24. júlí 1998 kærir V, Brekkutanga 1, Mosfellsbæ ákvörðun byggingarnefndar Reykjavíkur frá 25. júní 1998 um að fella úr gildi teikningar frá 26. febrúar 1998 varðandi austurenda og miðrými 1. hæðar Hafnarstrætis 20, Reykjavík og um að uppdrættir frá 14. nóvember 1996 taki gildi í þeirra stað.  Hin kærða ákvörðun var staðfest á fundi borgarstjórnar hinn 2. júlí 1998.  Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.  Um kæruheimild vísast til 4. mgr. 39. gr. laga nr. 73/1997.    Vegna framkominnar kröfu um frávísun var kæranda gefinn kostur á að tjá sig um málsrök gagnaðila.  Komu eftir það fram nýjar málsástæður af hálfu kæranda, sem nefndin taldi rétt að gefa öðrum málsaðilum kost á að tjá sig um.  Vegna þessara atvika og umfangs málsins ákvað nefndin að lengja afgreiðslutíma þess í allt að þrjá mánuði með heimild í 4. mgr. 8. gr. laga nr. 73/1997 og var málsaðilum tilkynnt sú ákvörðun nefndarinnar.

Málavextir:  Kærandi er eigandi að 58,05 fermetra húsnæði, auk sameignarhluta, á 1. hæð í húsinu nr. 20 við Hafnarstræti í Reykjavík. Innangengt er úr húsnæðinu inn í miðrými hússins á 1. hæð.  Í austurenda 1. hæðar er nú biðsalur SVR en upphaflega var ekki skilið milli  miðrýmis og austurenda hæðarinnar.  Þann 14. nóvember 1996 samþykkti byggingarnefnd Reykjavíkur umsókn frá SVR og meðeigendum austurenda 1. hæðar um að afmarka austurendann frá miðrýminu  með tveimur skilveggjum ásamt einfaldri hurð í syðri skilveggnum og koma fyrir nýjum inngöngudyrum á norður- og suðurhlið austurendans.  Kærandi vildi ekki una þessum breytingum sem hann taldi andstæðar hagsmunum sínum.  Kærði hann samþykkt byggingarnefndar Reykjavíkur frá 14. nóvember 1996 til umhverfisráðherra með kæru dags. 10. desember 1996.  Með úrskurði setts umhverfisráðherra 2. maí 1997 var ákvörðun byggingarnefndar frá 14. nóvember 1996 „um veitingu leyfis til breytinga á miðrými hússins og breytinga á inngönguleiðum í austurhluta 1. hæðar“ felld úr gildi.  Þessi úrskurður var felldur úr gildi í júní 1997 vegna ágalla á málsmeðferð og var kærumálið endurupptekið.  Kvað settur umhverfisráðherra að nýju upp úrskurð í málinu hinn 8. desember 1997.  Var með þeim úrskurði felld úr gildi ákvörðun byggingarnefndar frá 14. nóvember 1996 um að heimila nýjar dyr á norður- og suðurhlið biðsalar (1. hæð austurhluta) Hafnarstrætis 20  en ákvörðunin að öðru leyti látin standa óhögguð.  Í framhaldi af þessari niðurstöðu var inngönguleiðum á norður- og suðurhlið biðsalar lokað en jafnframt var opnað milli biðsalarins og miðrýmis 1. hæðar til þess að fullnægt væri kröfum um öryggi skv. reglugerð um brunavarnir og brunamál.

Þar sem úrskurði setts umhverfisráðherra frá 2. maí 1997 var ekki framfylgt tafarlaust höfðaði kærandi mál á hendur eigendum austurenda 1. hæðar Hafnarstrætis 20 með stefnu þingfestri í héraðsdómi Reykjavíkur hinn 19. júní 1997, þar sem þess var aðallega krafist að þeir yrðu dæmdir til þess, að viðlögðum dagsektum, að færa útveggi í austurenda 1. hæðar og innréttingar og skilrúm í miðrými hússins, þ.m.t. snyrtiaðstöðu, í það horf sem samþykkt teikning frá 22. desember 1977 gerir ráð fyrir.  Þá gerði kærandi kröfur um skaðabætur í málinu.  Af hálfu stefndu var gagnstefnt í málinu og gagnsök þingfest hinn 28. janúar 1998. Var í gagnsökinni krafist ógildingar úrskurðar setts umhverfisráðherra frá 8. desember 1997.  Dómur gekk í máli þessu hinn 29. apríl 1998 og var úrskurður setts umhverfisráðherra frá 8. desember 1997 felldur úr gildi. Tilkynnti kærandi dómhöfum þá þegar að dómi þessum yrði áfrýjað til Hæstaréttar og sendi þeim tilkynningu þess efnis hinn 30. apríl 1998.  Áfrýjunarstefna var síðan gefin út í málinu hinn 5. maí 1998. 

Dagana 3. til 5. maí 1998 breytti byggingadeild borgarverkfræðings húsnæðinu í það horf sem uppdráttur samþykktur af byggingarnefnd hinn 14. nóvember 1996 sýnir.  Verður ekki annað ráðið af gögnum málsins en að framkvæmdir þessar hafi verið unnar án samþykkis byggingarnefndar eða byggingarfulltrúa.  Hinn 7. maí 1998 var lögð inn til byggingarnefndar umsókn SVR f.h. eigenda um byggingarleyfi fyrir þessum framkvæmdum.  Umsókn þessi var tekin fyrir á fundi byggingarnefndar hinn 14. maí 1998 og var málinu þá frestað en byggingarfulltrúa falið að krefja SVR skýringa á framkvæmdum eftir dómsuppkvaðningu héraðsdóms.  Málið var aftur tekið fyrir á fundi byggingarnefndar hinn 28. maí 1998 og þá samþykkt að óska umsagnar lagastofnunar Háskóla Íslands varðandi ágreining um frestun réttaráhrifa héraðsdómsins vegna áfrýjunar hans. Jafnframt var byggingarfulltrúa falið, með vísan til bréfs SVR 26. maí 1998, að óska skýringa byggingadeildar borgarverkfræðings á þætti hennar í síðustu breytingu á Hafnarstræti 20.  Á fundi borgarráðs hinn 2. júní 1998 var ákvörðun byggingarnefndar um að leita álits lagastofnunar Háskóla Íslands felld úr gildi með þeim rökum að borgarlögmaður hefði flutt málið fyrir dómstólum og engin ástæða væri til breytinga þar á.  Var umsóknin síðan tekin til afgreiðslu á fundi byggingarnefndar hinn 25. júní 1998 þar sem fallist var á erindið og er það sú ákvörðun byggingarnefndar sem kærð er til úrskurðarnefndar í máli þessu.

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er því haldið fram að það sé meginregla að áfrýjun fresti réttaráhrifum dóms.  Hefur lögmaður kæranda gert ítarlega grein fyrir þessari skoðun í málsgögnum, einkum í bréfi til byggingarnefndar Reykjavíkur dags. 23. maí 1998 þar sem meðal annars er vitnað til nokkurra fræðirita og heimilda um þetta álitaefni.  Telur kærandi að byggingarnefnd hafi ekki átt að leggja niðurstöðu héraðsdóms til grundvallar við ákvörðun sína hinn 25. júní 1998 svo sem gert var, þar sem dóminum hafði þá verði áfrýjað.  Hafi kærandi raunar lýst því yfir þegar eftir uppkvaðningu héraðsdómsins að honum yrði áfrýjað og hafi áfrýjunarstefna verið gefin út svo fljótt sem unnt hafi verið.  Breytingar þær, sem SVR hafi látið gera á húsnæðinu í austurenda 1. hæðar Hafnarstrætis 20 dagana 3. til 5. maí 1998, hafi auk þess verið unnar án heimildar byggingarnefndar. Ennfremur telur kærandi að ranglega hafi verið staðið að rannsókn málsins og að rökstuðningi hafi verið áfátt. Hafi borgaryfirvöld með framferði sínu brotið byggingarlög og grundvallarreglur stjórnsýslu bæði hvað varðar jafnræði, meðalhóf og andmælarétt.  Í bréfi lögmanns kæranda til úrskurðarnefndarinnar dags. 29. september 1998 er áréttað að kærandi telji úrskurðarnefndina bæra að fjalla efnislega um kæru hans.  Kærandi vísar í nefndu bréfi til fyrri málsástæðna en styður kröfur sínar auk þess þar þeim rökum að ákvörðun byggingarnefndar Reykjavíkur frá 25. júní 1998, sem um er fjallað í málinu, beri að fella úr gildi vegna vanhæfis tveggja nefndarmanna í byggingarnefnd.  Telur kærandi að formaður byggingarnefndar, Óskar Bergsson, hafi verið vanhæfur við afgreiðslu málsins þar sem hann hafi starfað og starfi fyrir byggingadeild borgarverkfræðings sem verktaki.  Þá telur kærandi að Árni Þór Sigurðsson, sem tók þátt í afgreiðslu málsins sem aðalmaður í byggingarnefnd, hafi einnig verið vanhæfur þar sem hann hafi verið formaður stjórnar Strætisvagna Reykjavíkur frá því í septembermánuði 1996 til 7. júní 1998, eða þar til hann tók sæti í byggingarnefnd eftir sveitarstjórnarkosningarnar sl. vor.  Hafi hann því verið forsvarsmaður umsækjanda þegar sótt var um byggingarleyfi það sem ákvörðun var tekin um á fundinum hinn 25. júní sl.  Telur kærandi báða þessa nefndarmenn hafa verið vanhæfa við afgreiðslu þess máls sem um er deilt.

Málsrök byggingarnefndar, byggingarleyfishafa, og húsfélags Hafnarstrætis 20:   Í umsögn byggingarnefndar Reykjavíkur um kæruefnið er rakin forsaga málsins og aðdragandi hinnar kærðu ákvörðunar.  Telur byggingarnefnd að heimilt hafi verið að veita hið umdeilda byggingarleyfi enda hafi kærandi ekki vísað til skýrra lagaákvæða varðandi frestun réttaráhrifa dóms héraðsdóms sem bundið hafi hendur byggingarnefndar.  Er vísað til þess álits borgarlögmanns  að dómur héraðsdóms standi þar til niðurstaða Hæstaréttar liggi fyrir og hafi eigendum austurenda Hafnarstrætis 20 því verið rétt að fara í einu og öllu eftir niðurstöðu héraðsdóms.   Af hálfu byggingarnefndar hefur verið staðfest að byggingarnefndarmenn þeir sem kærandi telur hafa verið vanhæfa hafi haft þá stöðu sem kærandi heldur fram, en ekki er fallist á að þeir hafi verið vanhæfir af þeim sökum. 

Í greinargerð borgarlögmanns f.h. SVR er lýst þeirri skoðun borgaryfirvalda að með því að héraðsdómur hafi fellt úr gildi úrskurð setts umhverfisráðherra hafi jafnframt sú ákvörðun sem ráðherrann felldi úr gildi öðlast gildi á ný.  Hafi byggingarnefnd verið sent endurrit héraðsdómsins daginn eftir uppkvaðningu hans og hafi nefndinni borið, með eða án umsóknar, að fella úr gildi þær teikningar sem leggja hafi þurft fyrir nefndina vegna þess úrskurðar sem síðar hafi verið felldur úr gildi með dómi.  Með dómi héraðsdóms hafi því verið staðfest að teikningar sem samþykktar hafi verið hinn 14. nóvember 1996 væru lögmætar og hafi þær því öðlast gildi á ný við uppkvaðningu dómsins.  Í kjölfar dómsins hafi húsnæðinu verið komið í það horf sem þær teikningar hafi gert ráð fyrir.  Bent er á að ekkert banni byggingarnefnd að samþykkja uppdrætti sem séu í samræmi við héraðsdóm.  Úrskurður setts umhverfisráðherra gildi ekki eftir að dómur hafi fellt hann úr gildi.  Tilkynning um áfrýjun, eða áfrýjun, fresti almennt ekki réttaráhrifum dóms. Sé það meginregla í íslenskum rétti að málsskot fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar sbr. t.d. 29. gr. stjórnsýslulaga.  Í undantekningartilvikum hafi löggjafinn ákveðið að áfrýjun fresti réttaráhrifum dóms meðan mál er rekið fyrir æðri dómi.  Sé slíka undantekningu að finna í 2. mgr. 5. gr. aðfararlaga nr. 90/1989.  Réttaráhrif úrskurðar setts umhverfisráðherra hafi gilt þrátt fyrir málsskot til héraðsdóms.  Nú gildi héraðsdómurinn og verði kærandi að hlíta honum  eins og aðrir.  Til þess að fresta réttaráhrifum héraðsdómsins þurfi skýlaus lagafyrirmæli en þau séu engin til staðar varðandi það ágreiningsefni sem hér sé til úrlausnar.  Að mati borgarlögmanns sé það ekki í verkahring úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála að úrskurða um réttaráhrif dóma sem áfrýjað hafi verið.  Er þess krafist að öllum kröfum kæranda í málinu verði hafnað.  Varðandi síðar fram komna málsástæðu kæranda um meint vanhæfi tveggja byggingarnefndarmanna er á það bent að ákvæði stjórnsýslulaga um sérstakt hæfi gildi ekki um sveitarstjórnarmenn og þá aðra er starfi við stjórnsýslu sveitarfélaga en um þá gildi ákvæði sveitarstjórnarlaga.  Er í þessu sambandi vísað til 2. mgr. 2. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 19. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998.  Er tekið fram að Árni Þór Sigurðsson hafi ekki setið í stjórn Strætisvagna Reykjavíkur þegar umrætt mál hafi verið tekið fyrir á fundi byggingarnefndar hinn 25. júní sl.   Þá er upplýst að Óskar Bergsson sé ekki og hafi ekki verið starfsmaður Reykjavíkurborgar og hafi hann hvergi komið að máli þessu nema sem byggingarnefndarmaður.  Þá orki tvímælis að úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála fjalli um álitaefni sem heyri undir annað jafn sett stjórnvald, félagsmálráðuneytið, en samkvæmt 103. gr. sveitarstjórnarlaga úrskurði það um ýmis vafaatriði við framkvæmd sveitarstjórnarmála.

Af hálfu meðeigenda SVR að austurenda 1. hæðar, Trítons ehf., Gerpis sf. og Renötu Erlendsson er tekið undir sjónarmið borgarlögmanns f.h. SVR og sömu málsástæður og kröfur hafðar uppi.

Af hálfu húsfélags Hafnarstrætis 20 er því haldið fram að það sé tæpast á valdi úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála að leysa úr efnislegum rökum ágreinings kæranda og eigenda austurenda 1. hæðar enda sé það í andstöðu við 116. gr. laga nr. 91/1991 og tilgang þess ákvæðis.  Að leysa úr því hvaða réttaráhrif áfrýjun dóma hafi sé jafnframt tæpast á valdsviði úrskurðarnefndar.  Slíkt sé ekki meðal skilgreindra hlutverka nefndarinnar.  Hafi kæranda borið að leita annarra leiða hafi hann ekki viljað una framkvæmdum eigenda austurenda 1. hæðar sem gerðar hafi verið í samræmi við dóm héraðsdóms.  Með vísan til þessa telji stjórn húsfélagsins að vísa beri kærunni frá úrskurðarnefndinni.  Verði ekki fallist á frávísun beri nefndinni að fresta afgreiðslu málsins þar til dómur Hæstaréttar sé genginn í málinu.  Að því er varðar málsástæður kæranda um meint vanhæfi tveggja byggingarnefndarmanna er tekið fram að það sé ekki á valdi stjórnar húsfélagsins að taka afstöðu til þeirra atriða enda hafi stjórnin ekki aðstöðu til að leggja mat á aðstæður þessara manna.

Umsögn Skipulagsstofnunar:  Leitað var álits Skipulagsstofnunar um kæruefni málsins.  Í umsögn stofnunarinnar er tekið fram að með dómi héraðsdóms hafi úrskurður umhverfisráðherra verið ógiltur.  Hafi þar með verið fallin úr gildi ógilding ráðherra á ákvörðun byggingarnefndar frá 14. nóvember 1996 og því staðfest heimild byggingarnefndar til að samþykkja að nýju umsókn um byggingarleyfi fyrir sambærilegum framkvæmdum.  Eldra byggingarleyfið hafi hins vegar ekki öðlast sjálfkrafa gildi við dóminn og telur stofnunin því ámælisverð þau vinnubrögð byggingadeildar borgarverkfræðings f.h. Strætisvagna Reykjavíkur að hefja framkvæmdir við breytingar án þess að afla byggingarleyfis fyrir framkvæmdunum.  Hins vegar telur Skipulagsstofnun að byggingarnefnd hafi verið heimilt að veita hið kærða byggingarleyfi að fenginni niðurstöðu héraðsdóms þrátt fyrir að niðurstöðunni hafði verið áfrýjað til Hæstaréttar.  Verði niðurstaða Hæstaréttar önnur en héraðsdóms geti það leitt til tjóns fyrir framkvæmdaraðila en því hafi byggingarnefnd gert umsækjanda grein fyrir við afgreiðslu málsins hjá nefndinni.

Ekki var leitað umsagnar Skipulagsstofnunar um síðar fram komnar málsástæður kæranda um vanhæfi byggingarnefndarmanna enda um afmarkað lagaatriði að tefla sem ekki þarfnast sérstakrar umsagnar.

Niðurstaða:  Kærandi og eigendur austurenda 1. hæðar Hafnarstrætis 20 hafa um árabil átt í deilum um fyrirkomulag húsnæðis í miðrými og austurenda 1. hæðar. Vísaði kærandi  ákvörðun byggingarnefndar Reykjavíkur frá 14. nóvember 1996 til umhverfisráðherra í desember 1996 með kröfu um ógildingu.   Þar sem fyrri úrskurði setts umhverfisráðherra frá 2. maí 1997 var ekki framfylgt tafarlaust höfðaði kærandi mál fyrir héraðsdómi, sem þingfest var hinn 19. júní 1997, til að fá skorið úr um ágreining málsaðila um fyrirkomulag miðrýmis og austurenda 1. hæðar Hafnarstrætis 20.  Eins og að framan er rakið urðu niðurstöður ráðherra annars vegar og héraðsdóms hins vegar ekki hinar sömu og hefur þetta leitt til þess að réttarstaða málsaðila hefur breyst frá einum tíma til annars.  Ríkir enn óvissa um það hver endanleg niðurstaða verður um ágreining aðila meðan beðið er úrlausnar Hæstaréttar í málinu.

Úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála telur að sá ágreiningur málsaðila sem borinn hefur verið undir dómstóla verði ekki jafnframt og samtímis borinn undir nefndina.  Af þessu leiðir að nefndin tekur ekki afstöðu til þeirra málsástæðna sem hafðar voru uppi fyrir héraðsdómi og nú eru til úrlausnar í Hæstarétti.  Eftir sem áður ber úrskurðarnefndinni að taka til úrlausnar málsástæður er varða undirbúning og málsmeðferð byggingarnefndar er hin kærða ákvörðun var tekin, enda var sú ákvörðun tekin eftir uppkvaðningu héraðsdómsins um ágreining málsaðila og getur gildi hennar ekki komið til úrlausnar á einu dómstigi í Hæstarétti.  Verður því ekki fallist á frávísunarkröfu húsfélags Hafnarstrætis 20 í málinu.

Úrskurðarnefndin fellst á þá skoðun, sem fram kemur í umsögn Skipulagsstofnunar, að eldra byggingarleyfi hafi ekki öðlast sjálfkrafa gildi við dóm undirréttar og þurftu dómhafar því að sækja um leyfi byggingarnefndar fyrir þeim breytingum sem þeir töldu sig eiga rétt á að gera á grundvelli dómsins.  Virðist þetta raunar hafa verið skilningur dómhafanna sjálfra enda sóttu þeir um byggingarleyfi á grundvelli undirréttardómsins með umsókn dags. 7. maí 1998.

Við afgreiðslu byggingarnefndar á umsókninni kom til skoðunar hver væru réttaráhrif áfrýjunar dóms undirréttar í málinu þar sem ekki væri um aðfarardóm að tefla.  Var byggingarnefnd rétt að gaumgæfa þetta álitaefni sérstaklega enda var það forsenda hinnar kærðu ákvörðunar að leggja mætti dóm undirréttar til grundvallar henni.  Á fundi sínum hinn 28. maí 1998 ákvað byggingarnefnd að óska álits lagastofnunar Háskóla Íslands um þetta álitaefni og telur úrskurðarnefndin að sú ákvörðun hafi verið byggingarnefnd heimil á grundvelli rannsóknarreglu og til þess fallin að vanda undirbúning ákvörðunar nefndarinnar.  Þessa ákvörðun felldi borgarráð úr gildi á fundi sínum hinn 2. júní 1998 með vísun til þess að borgarlögmaður hefði flutt þetta mál fyrir dómstólum og að engin ástæða væri til breytinga þar á.  Með þessari ákvörðun var felld úr gildi ákvörðun byggingarnefndar um að leita álits óháðs sérfróðs aðila um mikilsvert álitaefni við afgreiðslu máls og telur úrskurðarnefndin að þessi afskipti borgarráðs hafi verið óheppileg eins og á stóð. 

Enda þótt úrskurðarnefndin telji að æskilegt hefði verið að afla sérfræðiálits óháðs aðila um réttaráhrif áfrýjunar umrædds héraðsdóms er það skoðun nefndarinnar að byggingarnefnd hafi verið unnt að fjalla efnislega um málið eins og það lá fyrir nefndinni.  Var það þá viðfangsefni nefndarinnar að meta hvort heimila ætti eftirá þær breytingar sem gerðar höfðu verið í óleyfi að undirlagi SVR og með atbeina byggingardeildar borgarverkfræðings án þess að fyrir lægi annað en misvísandi staðhæfingar málsaðila um réttaráhrif áfrýjunar.  Þegar málið kom til afgreiðslu byggingarnefndar lá fyrir að dómi héraðsdóms hafði verið áfrýjað til Hæstaréttar.  Ágreiningur málsaðila var því enn til meðferðar fyrir dómstólum þegar byggingarnefnd tók hina umdeildu ákvörðun og telur úrskurðarnefndin að betur hefði samræmst almennum sjónarmiðum um réttaröryggi að raska ekki þeirri réttarstöðu sem orðin var fyrir uppkvaðningu dóms undirréttar meðan beðið væri dóms Hæstaréttar í málinu.  Enda þótt þessi sé skoðun úrskurðarnefndar þykir skorta skýra hemild til þess að nefndin úrskurði um réttaráhrif áfrýjunar héraðsdóms í máli þessu eins og það liggur fyrir nefndinni og verður hin kærða ákvörðun byggingarnefndar því ekki ógilt af ástæðum er varða réttaráhrif áfýjunarinnar.

Af hálfu kæranda hefur því verið haldið fram að vegna stöðu sinnar og tengsla við umsækjanda hafi tveir þriggja byggingarnefndarmanna sem að ákvörðuninni stóðu verið vanhæfir til þátttöku í meðferð málsins. Er úrskurðarnefndin bær að fjalla um þessa málsástæðu enda getur nefndin ekki gegnt hlutverki sínu nema það sé á valdsviði hennar að fjalla um öll þau atriði er varða gerð og undirbúning ákvörðunar sem borin er undir nefndina. Um hæfi byggingarnefndarmanna eru skýr ákvæði í byggingarreglugerð nr. 177/1992 með síðari breytingum sem í gildi var þegar hin kærða ákvörðun var tekin.  Í grein 2.2.11 í nefndri reglugerð segir að þegar byggingarnefnd fjalli um mál sem varði persónulega hagsmuni einhvers nefndarmanna eða einhvern þeirra sem sitji fundi hennar, s.s. ef hann hafi gert uppdrátt eða sent inn umsókn sem nefndin fjallar um, skuli hlutaðeigandi víkja af fundi meðan málið er afgreitt.  Ákvæði þetta telur úrskurðarnefndin tvímælalaust ná til þátttöku Árna Þórs Sigurðssonar við samþykkt hinnar kærðu ákvörðunar.  Umsókn sú, sem til afgreiðslu var á fundinum, var umsókn Strætisvagna Reykjavíkur dagsett 7. maí 1998.  Árni Þór Sigurðsson var, á þeim tíma er umsóknin var send, formaður stjórnar Strætisvagna Reykjavíkur og því forsvarsmaður lögaðila þess sem umsóknina sendi.  Verður að telja að ákvæði greinar 2.2.11 taki eðli máls samkvæmt og með hliðsjón af 1. tl. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 til æðstu stjórnenda lögaðila sem umsókn stafar frá og gildir einu þótt nefndarmaður hafi ekki lengur þessa stöðu þegar umsóknin kemur til afgreiðslu.  Þar sem Árni Þór Sigurðsson var samkvæmt framansögðu vanhæfur til þátttöku í meðferð málsins og tveir nefndarmenn sátu hjá við afgreiðslu þess var byggingarnefnd, með vísun til 2. mgr. greinar 2.2.10 í reglugerð nr. 177/1992 með síðari breytingum, óheimilt að taka málið til afgreiðslu heldur bar að fresta afgreiðslu þess eins og nánar greinir í tilvitnuðu ákvæði.  Byggingarnefnd var samkvæmt þessu ekki bær að taka ákvörðun í málinu og ber því að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi. Þar sem hugsanlegt vanhæfi Óskars Bergssonar vegna tengsla hans við byggingardeild borgarverkfræðings hefur ekki áhrif á niðurstöðu málsins þykir ekki ástæða til að taka afstöðu til hæfis hans til þátttöku í afgreiðslu málsins enda tengist hann ekki umsækjandanum, Strætisvögnum Reykjavíkur, með beinum hætti.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu húsfélags Hafnarstrætis 20 um frávísun máls þessa frá úrskurðarnefndinni.  Ákvörðun byggingarnefndar Reykjavíkur frá 25. júní 1998 um að fella úr gildi uppdrætti af miðrými og austurenda Hafnarstrætis 20 Reykjavík frá 26. febrúar 1998 og að uppdrættir frá 14. nóvember 1996 taki gildi að nýju, sem staðfest var af borgarstjórn hinn 2. júlí 1998, er felld úr gildi.