Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

34/1998 Suðurmýri

Ár 1998, föstudaginn 30. október kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Laugavegi 59 í Reykjavík. Mættir voru allir aðalmenn; Ingimundur Einarsson, hæstaréttarlögmaður, Þorsteinn Þorsteinsson, byggingarverkfræðingur og Hólmfríður Snæbjörnsdóttir, lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 34/1998; kæra G, Eiðismýri 26, Seltjarnarnesi vegna ákvörðunar byggingarnefndar Seltjarnarness um að veita Innréttingasmiðjunni sf. leyfi til að byggja fjögur parhús á lóðunum nr. 40-46 við Suðurmýri á Seltjarnarnesi.

 
Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála dags. 8. október sl., sem barst nefndinni hinn 9. sama mánaðar, kærir G, Eiðismýri 26, Seltjarnarnesi ákvörðun byggingarnefndar Seltjarnarness frá 9. september 1998 um að veita Innréttingasmiðjunni sf. leyfi til að byggja 4 parhús á lóðunum nr. 40-46 við Suðurmýri á Seltjarnarnesi.  Hin kærða ákvörðun var staðfest á fundi bæjarstjórnar Seltjarnarness hinn 9. september 1998.  Kærandi  óskar þess „að úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála skoði framkvæmd bæjarstjórnar Seltjarnarness varðandi byggingu parhúsa við Suðurmýri 40-46 á Seltjarnarnesi.“ Þá er það ósk kæranda „að nefndin beiti þeim ráðum sem hún hefur til að stöðva framkvæmdirnar þar til eðlilegt ferli skipulags hefur farið fram.“  Skilja verður erindi kæranda svo að þess sé krafist að fyrrgreind ákvörðun byggingarnefndar Seltjarnarness verði felld úr gildi og að framkvæmdir verði stöðvaðar.  Um kæruheimild vísast til 4. mgr. 39. gr. laga nr. 73/1997.

Málsmeðferð:  Bréfi kæranda fylgdu ljósrit tveggja uppdrátta og tveggja blaðsíðna úr skipulags- og byggingarskilmálum með yfirskriftinni Seltjarnarnes – Kolbeinsstaðamýri.  Var því beint til kæranda að útvega nefndinni endurrit þeirra ákvarðana sem kæruefnið tekur til og barst nefndinni ákvörðun byggingarnefndar Seltjarnarness frá 9. september 1998, ásamt staðfestingu bæjarstjórnar á henni sama dag, í símbréfi hinn 12. október síðastliðinn.  Við frekari athugun á gögnum málsins kom í ljós misræmi í uppdráttum þar sem kærandi hafði af vangá afmarkað á röngum stað svæði það sem lóðirnar nr. 40-46 við Suðurmýri eru á.  Var honum gefinn kostur á að leiðrétta þessi mistök og jafnframt að skýra nánar greinargerð byggingarskilmála um lóðirnar en í þeim gætir nokkurrar ónákvæmni.

Málið var tekið til umræði á fundi úrskurðarnefndarinnar hinn 21. október 1998.  Eins og málið lá þá fyrir þótti vafi geta leikið á því hvort kærandi ætti aðild að stjórnsýslukæru ákvarðana þeirra sem kærðar eru í málinu.  Var málinu frestað en ákveðið að taka til úrlausnar hvort vísa bæri kærunni frá ex officio vegna aðildarskorts kæranda.

Niðurstaða:  Í erindi sínu til úrskurðarnefndarinnar rekur kærandi þau atvik sem eru tilefni kærunnar.  Telur hann að með hinni kærðu ákvörðun byggingarnefndar hafi verið brotið gegn deiliskipulagi, sem unnið hafi verið eftir, svo og skipulags- og byggingarskilmálum.  Í hinni kærðu ákvörðun felist, að byggingarmagn á umræddum fjórum lóðum hafi verið aukið umfram skilmála og tvær íbúðir leyfðar á hverri lóð í stað einnar áður.  Þá hafi aðkomu að lóðinni nr. 46 við Suðurmýri verið breytt þannig að hún verði nú frá Eiðismýri í stað Suðurmýrar og sé einnig með þessu vikið frá skipulags- og byggingarskilmálum á svæðinu. Fleiri breytingar leiði af ákvörðun byggingarnefndar svo sem tilfærslu göngustígs og stækkun snúningshauss í vesturenda Eiðismýrar.  Telur kærandi að alvarlega hafi verið brotin lög og reglur hvað varðar afgreiðslu bæjarins á málinu.

Kærandi er eigandi búseturéttar að íbúð í fjölbýlishúsi að Eiðismýri 26 á Seltjarnarnesi.  Frá því húsi og að svæði því, sem lóðirnar nr. 40 – 46 við Suðurmýri eru á, eru um 90 metrar en um 160 metrar í það horn svæðisins sem fjærst er. Kolbeinsmýri liggur frá Suðurmýri til norðurs og hornrétt á Eiðismýri, rúmum 20 metrum fyrir vestan hús það er kærandi býr í.  Sá hluti Eiðismýrar sem er vestan Kolbeinsmýrar er lokaður endi og er þar aðkoma að Eiðismýri 30, sem eru íbúðir aldraðra.  Um þennan enda verður jafnframt aðkoma að þeim tveim íbúðum sem fyrirhugað er að byggja sem parhús á lóðinni nr. 40 við Suðurmýri eftir því sem fram kemur í kærunni.

Úrskurðarnefndin telur að kærandi eigi ekki einstaklegra eða verulegra hagsmuna að gæta hvað varðar áformaðar byggingar að Suðurmýri 40-46 eða breytta aðkomu að einni þessara lóða.  Telur nefndin ljóst að breytingar þær, sem kæran tekur til, skerði ekki útsýni eða hafi í för með sér svo verulegar breytingar á umferð eða áhrif á umhverfi að snerti lögvarða hagsmuni kæranda miðað við staðsetningu íbúðar hans og afstöðu hennar til hinna umdeildu bygginga.  Þar sem kærandi telst samkvæmt framansögðu ekki eiga lögvarða hagsmuni því tengda að fá úrlausn um kæruefnð, svo sem áskilið er, sbr. 4. mgr. 39. gr. laga nr. 73/1997, ber að vísa máli þessu frá úrskurðarnefndinni.  Þykir ekki skipta máli um rétt kæranda í þessu sambandi að hann á sæti í umhverfisnefnd Seltjarnarness eins og getið er í kærunni.

Úrskurðarorð:

Kæru G vegna ákvörðunar byggingarnefndar Seltjarnarness frá 9. september 1998, varðandi byggingar á lóðunum nr. 40-46 við Suðurmýri, er vísað frá úrskurðarnefndinni.