Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

99/2013 Kjarrás Hvalfjarðarsveit

Árið 2013, miðvikudaginn 18. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík.  Mættir voru Ómar Stefánsson, settur forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 99/2013, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Hvalfjarðarsveitar, dags. 8. júlí 2013, um að viðbygging við sumarhús við Kjarrás 1a verði fjarlægð. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi innanríkisráðuneytisins til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 14. október 2013, var kæra, dags. og mótt. 7. október s.á., framsend nefndinni en þar kærir V, ákvörðun byggingarfulltrúa Hvalfjarðarsveitar, dags. 8. júlí 2013, um að viðbygging við sumarhús við Kjarrás 1a verði fjarlægð. 

Skilja verður málatilbúnað kæranda svo að gerð sé krafa um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar og er jafnframt gerð krafa um frestun réttaráhrifa hennar.  Þykir málið nú nægilega upplýst til að taka það til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til fram kominnar kröfu um frestun réttaráhrifa. 

Úrskurðarnefndinni bárust gögn málsins frá Hvalfjarðarsveit hinn 31. október 2013. 

Með bréfi, dags. 16. desember 2013, barst úrskurðarnefndinni frekari rökstuðningur og gögn frá kæranda.  Var þar jafnframt gerð krafa um greiðslu málskostnaðar úr hendi úrskurðarnefndarinnar, Hvalfjarðarsveitar eða innanríkisráðuneytis.   

Málavextir:  Kærandi varð skráður eigandi að umræddu sumarhúsi hinn 4. desember 2008 samkvæmt upplýsingum úr fasteignaskrá en fram að þeim tíma var Z skráður eigandi þess. 

Mál þetta á sér nokkurn aðdraganda en hinn 19. maí 2006 fékk fyrrum eigandi fasteignarinnar, sem þá var eiginmaður kæranda, byggingarleyfi fyrir sumarhúsi að Kjarrási 1a í Hvalfjarðarstrandarhreppi.  Hinn 10. september 2008 tilkynnti skipulags- og byggingarnefnd Hvalfjarðarsveitar byggingarleyfishafa að við eftirlit 9. september s.á. hefði komið í ljós að sumarhús hans, sem verið væri að byggja á lóðinni, væri ekki í samræmi við samþykkta aðaluppdrætti.  Þess væri krafist að farið yrði eftir samþykktum uppdráttum og fjarlægðar yrðu þær framkvæmdir sem ekki væru í samræmi við þá.  Kom byggingarleyfishafi að andmælum með bréfi til byggingarfulltrúa og tók fram að hann hefði staðsett húsið samkvæmt skýrum fyrirmælum þáverandi byggingarfulltrúa.  Málið var til meðferðar hjá skipulags- og byggingarnefnd á nokkrum fundum næstu árin og tölvupóstsamskipti áttu sér stað milli lögmanns byggingarleyfishafa og skipulags- og byggingarfulltrúa sveitarfélagsins.  Í kjölfar athugasemda Félags landeigenda í Glammastaðalandi, dags. 7. mars 2013, við aðstæður á lóð kæranda var málið tekið upp að nýju.  Þá sendi áðurnefnt félag athugasemdir til Skipulagsstofnunar um að sveitarfélagið væri ekki að framfylgja lögum hvað Kjarrás 1a varðaði.  Með bréfi, dags. 14. maí 2013, beindi Skipulagsstofnun fyrirspurn til sveitarfélagsins um stöðu málsins og hvaða úrræða væri að vænta. 

Með bréfi byggingarfulltrúa til kæranda, dags. 8. júlí 2013, var vísað til þess að við eftirlit 9. september 2008 og 5. júlí 2013 hefði komið í ljós að sumarhús kæranda væri ekki innan byggingarreits en samkvæmt byggingarskilmálum svæðisins sé ekki heimilt að byggja nær lóðarmörkum en 10 m.  Samkvæmt mælingum sem gerðar hafi verið 5. júlí 2013 sjáist að reist hafi verið viðbygging án byggingarleyfis sem gangi 1,8 m út fyrir byggingarreit og sé þar af leiðandi 8,2 m frá lóðarmörkum.  Þess sé krafist að umrædd viðbygging verði fjarlægð innan sex mánaða frá útgáfu bréfsins, sbr. 53. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. 

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er á það bent að honum hafi ekki verið leiðbeint um kæruheimild eða kærufrest vegna hinnar kærðu ákvörðunar og ekki fengið að koma að andmælum.  Þar að auki hafi hann ekki fengið upplýsingar um mælingar sem framkvæmdar hafi verið 5. júlí 2013.  Myndir hafi verið teknar af eigninni án vitundar kæranda, en samkvæmt upplýsingum frá umboðsmanni Alþingis hefði þurft að tilkynna slíkar fyrirætlanir til kæranda sem eiganda eignarinnar. 

Við meðferð málsins hafi verið brotið gegn rannsóknarreglu 10. gr., jafnræðisreglu 11. gr., meðalhófsreglu 12. gr., andmælarétti skv. 13. gr., tilkynningaskyldu skv. 14. gr. og upplýsingarétti skv. 15. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Þá sé bent á að mælingum sveitarfélagsins beri ekki saman.  Upprunalegar mælingar skipulags- og byggingafulltrúa hafi leitt til þess að grunnur húss kæranda hafi verið staðsettur þar sem hann sé.  Ekki verði séð af hverju beri að líta til annarra mælinga fremur en þeirra.  Kærandi hafi hvorki fengið að andmæla mælingum sveitarfélagsins né láta gera sínar eigin.

Standi skipulags- og byggingarfulltrúi við hina kærðu ákvörðun verði hann að gæta að lögum og senda kæranda bréf um nýjar mælingar, tímasetningu þeirra svo kærandi geti verið viðstaddur, veita kæranda andmælarétt og leiðbeina um kæruheimild og kærufrest vegna ákvörðunarinnar. 

Málsrök Hvalfjarðarsveitar:  Vísað er til þess að haldnir hafi verið fundir með eigendum, þar á meðal kæranda, á fyrri stigum máls.  Mörg símtöl hafi átt sér stað milli eigenda og starfsmanna sveitarfélagsins og hafi kærandi fengið upplýsingar um kæruheimild og kærufrest á þeim vettvangi.  Þótt þær upplýsingar hafi ekki verið í bréfi til kæranda, dags. 8. júlí 2013, teljist sá annmarki ekki verulegur, enda hafi hann ekki haft áhrif á hina kærðu ákvörðun og geti því ekki leitt til ógildingar hennar.  Þá beri að líta til þess að kærandi hafi ekki orðið fyrir réttarspjöllum enda hafi hann nýtt kærurétt sinn.  Andmælaréttur kæranda hafi verið virtur með því að honum hafi verið fullljóst um stöðu mála á öllum stigum. Hann hafi fengið ítrekuð tækifæri til að andmæla og bregðast við, auk þess sem hann hafi notið lögmannsaðstoðar.

Ljóst sé að málið hafi ekki fengið þá framvindu sem gera megi kröfu til.  Sá dráttur sem hafi orðið sé kæranda hins vegar í vil.  Þar sem málið hafi ekki gengið fram sem skyldi hafi sveitarfélagið á árinu 2013 farið yfir gögn og látið gera mælingar við lóð kæranda hinn 5. júlí s.á.  Niðurstaða þeirra mælinga hafi staðfest að viðbygging sé út fyrir byggingarreit og staðfesti jafnframt að kærandi hafi ekki sinnt fyrri kröfum um að færa bygginguna í rétt horf.  Þá sé bent á að sá frestur sem kæranda hafi verið veittur til að fjarlægja viðbygginguna sé rúmur og ekki íþyngjandi. 

——-

Frekari rök og sjónarmið aðila liggja fyrir í málinu sem ekki verða rakin hér nánar, en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins. 

Niðurstaða:  Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur til nefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðun.  Berist kæra að liðnum kærufresti skal vísa henni frá nema að afsakanlegt þyki að kæra hafi borist of seint eða að veigamiklar ástæður mæli með því að kæran sé tekin til meðferðar, sbr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. 

Kæra í máli þessu var móttekin 7. október 2013, eða þremur mánuðum eftir að kæranda var tilkynnt um ákvörðun byggingarfulltrúa.  Verður því að líta svo á að kæran hafi borist að liðnum kærufresti.  Hins vegar var kæranda ekki leiðbeint um kærurétt og kærufrest af hálfu sveitarfélagsins, svo sem því bar að gera samkvæmt 2. tl. 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga.  Verður kærumál þetta því tekið til efnismeðferðar með vísan til 1. tl. 1. mgr. 28. gr. laganna, þar sem afsakanlegt þykir að kæran hafi borist að liðnum kærufresti. 

Samkvæmt upplýsingum úr fasteignaskrá varð kærandi skráður eigandi eignarinnar Kjarráss 1a hinn 4. desember 2008.  Af gögnum málsins verður ekki ráðið að kæranda hafi verið veittur andmælaréttur skv. 13. gr. stjórnsýslulaga áður en honum var tilkynnt um hina kærðu ákvörðun með bréfi, dags. 8. júlí 2013, en bréf sveitarfélagsins vegna málsins eftir eigendaskipti voru send fyrri eiganda.  Með vísan til framangreinds og með hliðsjón af 13. gr. stjórnsýslulaga er hin kærða ákvörðun því felld úr gildi. 

Lagaheimild skortir til að ákvarða kærumálskostnað í málum sem rekin eru fyrir úrskurðarnefndinni og kemur krafa kæranda um málskostnað því ekki til álita. 

Úrskurðarorð: 

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa Hvalfjarðarsveitar frá 8. júlí 2013 um að viðbygging við sumarhús við Kjarrás 1a verði fjarlægð. 

____________________________________
Ómar Stefánsson

____________________________              ___________________________
Ásgeir Magnússon                                        Þorsteinn Þorsteinsson