Fyrir var tekið mál nr. 98/2013, kæra á afgreiðslu byggingarfulltrúa Sveitarfélagsins Árborgar frá 18. september 2013 um að leggja fyrir lóðarhafa Íragerðis 12A, Árborg, að fjarlægja eða færa smáhýsi á umræddri lóð.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 9. október 2013, er barst nefndinni 14. s.m., kæra E, Íragerði 12A, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Árborgar frá 18. september 2013 að leggja fyrir kærendur að fjarlægja eða færa smáhýsi á lóðinni að Íragerði 12A. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.
Gögn málsins bárust frá sveitarfélaginu 11. nóvember 2013 og í maí 2015.
Málavextir: Með bréfi, dags. 2. apríl 2013, var lóðarhafa Íragerðis 12A tilkynnt að byggingarfulltrúi Sveitarfélagins Árborgar hefði til meðferðar mál vegna smáhýsis sem reist hefði verið á umræddri lóð og væri innan við þrjá metra frá lóðamörkum. Ekki lægi fyrir samþykki lóðarhafa nágrannalóðar fyrir staðsetningu þess, svo sem áskilið væri í byggingarreglugerð, og hefði byggingarfulltrúi því til skoðunar hvort þess yrði krafist að lóðarhafinn fjarlægði smáhýsið. Kærendur komu á framfæri athugasemdum sínum með bréfi, dags. 15. s.m., og tóku m.a. fram að þeir væru tilbúnir að færa smáhýsið ef gróðurhús á lóðinni að Íragerði 12 yrði jafnframt fært.
Í bréfi sveitarfélagsins til lóðarhafa Íragerðis 12A, dags. 18. september 2013, var tiltekið að leitt hefði verið í ljós að lóðirnar Íragerði 12 og 12A hefðu áður verið ein lóð er hefði nýlega verið skipt upp í tvær. Ljóst væri að smáhýsi á lóðinni Íragerði 12A hefði verið sett niður eftir skiptingu lóðarinnar. Væri áskilnaði 6. tl. g-liðar gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 um samþykki lóðarhafa nágrannalóðar fyrir staðsetningu þess ekki fullnægt. Væri því lagt fyrir eigendur Íragerðis 12A að fjarlægja eða færa smáhýsið innan mánaðar frá dagsetningu bréfsins. Yrði ekki orðið við þessum tilmælum gæti byggingarfulltrúi látið fjarlægja það á kostnað lóðarhafa Íragerðis 12A, sbr. gr. 2.9.1. í byggingarreglugerð, án frekari viðvarana. Þá var tekið fram að byggingarfulltrúi teldi að hann hefði ekki heimildir til að aðhafast frekar vegna gróðurhúss á lóðinni Íragerði 12.
Málsrök kærenda: Kærendur taka fram að þeir hafi óskað eftir því að rétt lóðamörk lóðanna Íragerðis 12 og 12A yrðu ákveðin en þrjú ár hefði tekið að samþykkja þau vegna andstöðu eigenda Íragerðis 12. Hafi kærendur ekki gert athugasemd við staðsetningu gróðurhússins þar sem þeir hafi talið að friður væri kominn á við eigendur Íragerðis 12. Engar athugasemdir hafi verið gerðar af þeirra hálfu þegar festingar fyrir smáhýsið hafi verið undirbúnar, en þá hafi annar eigandi Íragerðis 12 komið að máli við kærendur. Ekki verði séð að smáhýsið skerði útsýni né aðkomu nágranna og falli það útlitslega mjög vel að húsunum Íragerði 12 og 12A. Feli mismunandi afgreiðsla málanna í sér brot á jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Málsrök Sveitarfélagsins Árborgar: Sveitarfélagið telur að jafnræðisregla 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 eigi ekki við í máli þessu, enda sé ekki um sambærileg deilumál að ræða. Smáhýsið og gróðurhúsið hafi verið sett niður á ólíkum tímum. Þar af leiðandi gildi um þau ólíkar reglur og því séu málin ólík. Smáhýsið hafi verið sett niður seint á árinu 2012 en gróðurhúsið fyrir um 18 árum. Þá hafi mörk lóðanna verið óljós þar til fyrripart árs 2012, þegar samkomulag hafi náðst með aðilum um lóðamörk, án þess að athugasemdir kæmu frá eigendum Íragerðis 12A um staðsetningu gróðurhússins. Umrætt smáhýsi sé nær mörkum lóðanna en heimilt sé þegar ekki liggi fyrir samþykki lóðarhafa aðliggjandi lóðar, sbr. ákvæði byggingarreglugerðar. Því hafi verið gripið til þessara aðgerða.
Athugasemdir lóðarhafa Íragerðis 12: Lóðarhafi bendir á að það eigi ekki við rök að styðjast að tekið hafi þrjú ár að samþykkja lóðamörk vegna andstöðu þeirra. Þegar gróðurhúsið hafi verið reist hafi verið langt í næstu lóðamörk og hafi húsið því verið löglegt samkvæmt þáverandi og núverandi reglum. Þegar lóðirnar hafi verið skildar að hafi lóðamörkin verið sett nær gróðurhúsinu en þrjá metra og hafi það verið eigendum Íragerðis 12A í hag því við það hafi lóð þeirra stækkað. Gróðurhúsið sé úr eldtraustu efni og valdi ekki meiri eldhættu en gróður. Í því sé gler sem ætti ekki að trufla útsýni eða annað. Smáhýsið hafi hins vegar verið sett upp í heimildarleysi á viðbótarlóð sem kærendur hafi fengið og hafi áður verið hluti af bílastæði Íragerðis 12. Samþykkis lóðarhafa hafi ekki verið leitað þegar smáhýsið hafi verið reist og ekki hafi legið fyrir meint samþykki. Smáhýsið sem sé úr eldfimu efni hafi síðar verið flutt í heilu lagi á lóðina. Það standi alveg upp við girðingu, og þar með á lóðamörkum og beint fram undan inngangi í hús lóðarhafa Íragerðis 12.
Niðurstaða: Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki ber sveitarstjórn ábyrgð á að stjórnsýsla og eftirlit byggingarfulltrúa sé í samræmi við ákvæði laganna og annast byggingarfulltrúi eftirlit með mannvirkjagerð er fellur undir 1. og 2. mgr. 9. gr. sömu laga. Í gr. 3.10.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 er hlutverki hans við eftirlit með byggðu umhverfi lýst. Skal hann, t.a.m. ef ekki er gengið frá umhverfi eða viðhaldi húss, annars mannvirkis eða lóðar samkvæmt samþykktum uppdráttum, lögum, reglugerðum og byggingarlýsingu, grípa til viðeigandi aðgerða og úrræða í samræmi við ákvæði reglugerðarinnar og X. kafla laga um mannvirki.
Í máli þessu er deilt um smáhýsi á lóðinni að Íragerði 12A, sem samkvæmt fyrirliggjandi gögnum er í um tveggja metra fjarlægð frá lóðamörkum. Ekki liggur fyrir samþykkt byggingarfulltrúa um byggingu þess, en smáhýsi eru ekki byggingarleyfisskyld séu ákvæði gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð uppfyllt. Meðal skilyrða fyrrgreinds ákvæðis er að fyrir liggi skriflegt samþykki lóðarhafa nágrannalóðar sé smáhýsi nær lóðamörkum en þrjá metra, sbr. 6. tl. g-liðar greinarinnar. Eins og fram hefur komið lá slíkt samþykki ekki fyrir og var byggingarfulltrúa þegar af þeirri ástæðu rétt að gera þá kröfu að smáhýsið yrði fjarlægt eða fært þannig að framangreint skilyrði ákvæðisins um fjarlægð frá lóðamörkum yrði uppfyllt. Þá verður ekki séð að önnur og vægari úrræði hafi verið tæk, eins og atvikum máls þessa er háttað.
Óumdeilt er að lóðirnar Íragerði 12 og 12A voru áður ein og óskipt lóð og var gróðurhús reist á þeirri lóð óskiptri. Lóðinni var síðan skipt á árinu 2012 og var hinu umdeilda smáhýsi komið fyrir á lóðinni nr. 12A síðar sama ár, en þá hafði byggingarreglugerð nr. 112/2012 tekið gildi. Ljóst er að atvik eru því ekki með þeim hætti að þau teljist sambærileg. Fól ákvörðunin því ekki í sér brot á jafnræðisreglu stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.
Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.
Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun byggingarfulltrúa Sveitarfélagsins Árborgar frá 18. september 2013 um að leggja fyrir lóðarhafa Íragerðis 12A, Árborg, að fjarlægja eða færa smáhýsi á lóðinni.
Nanna Magnadóttir